Print

Mál nr. 686/2017

Magnús Hjaltalín Jónsson (Gísli Guðni Hall hrl.)
gegn
íslenska ríkinu (enginn)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Flýtimeðferð
Reifun
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu M um að mál sem hann hugðist höfða á hendur Í sætti flýtimeðferð þar sem skilyrðum XIX. kafla laga nr. 91/1991 var ekki fullnægt í málinu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Karl Axelsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. október 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 1. nóvember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. október 2017, þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um að fyrirhugað mál hans á hendur varnaraðila sæti flýtimeðferð. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdóm að gefa út stefnu til flýtimeðferðar í málinu. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki átt þess kost að láta málið til sín taka.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. október 2017.

I

Með bréfi, dagsettu 11. október 2017, en mótteknu 12. sama mánaðar, fór Gísli Guðni Hall hrl. þess á leit við dóminn að mál sem umbjóðandi hans, Magnús Hjaltalín Jónsson, kt. [...], [...], [...], Svíþjóð, hyggst höfða á hendur íslenska ríkinu sætti flýtimeðferð samkvæmt ákvæðum XIX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Dómari synjaði beiðninni með bréfi 18. október sl. Með tölvubréfi til dómara 19. október sl. óskaði lögmaðurinn eftir úrskurði dómsins um synjunina, sbr. 2. málslið 3. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Samkvæmt meðfylgjandi stefnu gerir stefnandi þá kröfu „að felld verði úr gildi ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, sem tilkynnt var um með bréfi stofnunarinnar, dagsettu 8. september 2017, um að hafna umsókn stefnanda, dagsettri 4. ágúst 2017, um aðild að rammasamningi Sjúkratrygginga Íslands og sérgreinalækna.“ Einnig krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt mati dómsins eða síðar framlögðum málskostnaðarreikningi.

Í áðurnefndu bréfi lögmanns stefnanda til dómsins segir að umbjóðandi hans sé í hópi fleiri sérgreinalækna í sömu aðstöðu og hafi a.m.k. átta þeirra á mismunandi sviðum ákveðið að höfða mál af þessu sama tilefni. Höfnun Sjúkratrygginga Íslands sé rökstudd á þann veg að stofnunin fari eftir tilmælum heilbrigðisráðherra um að taka ekki fleiri sérfræðinga inn á rammasamninginn. Því hafi höfnunin ekkert með persónu stefnanda að gera og ekki heldur mat á þörf fyrir þjónustu sem hann hugðist veita, heldur sé um að ræða almenna ákvörðun ráðherrans sem deilt sé um hvort sé lögmæt. Enn fremur segir svo í bréfi yðar: „Brýnir atvinnuhagsmunir umbjóðanda míns eru í húfi af skjótri dómsúrlausn um ágreininginn. Þar til dómur gengur mun ríkja óvissa um réttarstöðu umbjóðanda míns og forsendur eigin atvinnurekstrar hans. Niðurstaða í málinu kann að ráða úrslitum um hvort grundvöllur verði fyrir rekstrinum eða ekki. Biðin er því afar erfið. Kjósi umbjóðandi minn að starfa í ójafnri samkeppni við aðra meðan úrlausnar er beðið, þá mun ríkja óvissa um forsendur þeirra starfa og mögulega skaðabótaskyldu íslenska ríkisins, og þetta hefur bein áhrif á ákvörðun fjölskyldunnar um búsetu hér á landi eða áfram í Svíþjóð. Verði komist að niðurstöðu um ólögmæti ákvörðunarinnar kann að reynast örðugt að meta tjón til fjár og verður það úrlausnarefni þyngra í vöfum því lengur sem beðið verður. Af augljósum ástæðum hlýtur það að teljast mikilvægt fyrir báða aðila að fá skjóta úrlausn í máli sem svona er vaxið, auk þess sem úrlausn mun hafa almenna þýðingu fyrir stétt sérgreinalækna.“

Með vísan til ofanritaðs, svo og dóms Hæstaréttar í máli nr. 563/2006, Salmann Tamimi gegn íslenska ríkinu, telur lögmaðurinn að fullnægt sé ákvæði 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, til að mál þetta hljóti flýtimeðferð fyrir dóminum.

II

Í 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, segir að aðili sem hyggst höfða mál vegna ákvörðunar eða athafnar stjórnvalds eða verkfalls, verkbanns eða annarra aðgerða sem tengjast vinnudeilu, og það færi ella eftir almennum reglum þeirra laga, geti óskað eftir því að málið sæti flýtimeðferð samkvæmt XIX. kafla laganna. Skilyrði þess er að brýn þörf sé á skjótri úrlausn, enda hafi hún almenna þýðingu eða varði stórfellda hagsmuni aðila. Við mat á því hvenær brýn þörf sé á skjótri úrlausn dómstóla og hvenær úrlausn hafi almenna þýðingu eða varði stórfellda hagsmuni verður að líta til atvika hverju sinni. Þar sem umrætt ákvæði felur jafnframt í sér afbrigði frá almennum málsmeðferðarreglum einkamálalaga verður að skýra  það þröngri lögskýringu.

Fyrirhuguð málshöfðun lýtur að ákvörðun stjórnvalds og yrði málið rekið eftir almennum reglum einkamálalaga féllist dómurinn ekki á að málið sætti flýtimeðferð. Að þessu skilyrði frátöldu getur dómurinn ekki fallist á að fyrir hendi séu önnur skilyrði tilvitnaðs ákvæðis til þess að mál þetta verði rekið sem flýtimeðferðarmál.

Í stefnu segir að stefnandi hafi um árabil starfað sem sérfræðingur í svæfingar- og gjörgæslulækningum í Svíþjóð, en hafi nú í hyggju að flytja hingað til lands með fjölskyldu sinni og hefja eigin rekstur á sérsviði sínu. Með umsókn 4. ágúst 2017 sótti hann um aðild að rammasamningi milli Sjúkratrygginga Íslands og sérgreinalækna, en var hafnað með ákvörðun stofnunarinnar 8. september 2017. Ákvörðunin byggðist á fyrirmælum velferðarráðuneytisins, en í bréfi þess til Sjúkratrygginga Íslands 28. ágúst 2017, segir m.a. eftirfarandi: „Með bréfi, dags. 26. apríl sl., var Sjúkratryggingum Íslands tilkynnt sú ákvörðun heilbrigðisráðherra að á meðan alvarleg fjárhagsstaða [sic] á fjárlagaliðum Sjúkratrygginga Íslands, sem er meðal annars vegna lækniskostnaðar, verði ekki teknir nýir aðilar inn á rammasamninginn. Ákvörðun ráðherra er óbreytt.“

Áður er fram komið að stefnandi sé í hópi fleiri sérgreinalækna í sömu aðstöðu og hafi a.m.k. átta þeirra á mismunandi sviðum ákveðið að höfða mál af þessu sama tilefni. Hefur dómari þegar hafnað öllum beiðnum þeirra um flýtimeðferð málanna.

Umrædd höfnun Sjúkratrygginga Íslands á umsókn stefnanda um aðild að rammasamningi girðir ekki fyrir að hann geti eftir sem áður starfað hér á landi sem sérgreinalæknir á sérsviði sínu. Á hinn bóginn felur hún í sér að að sjúklingar sem til hans leita njóta ekki greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands vegna læknisverka sem unnin eru á hans vegum. Augljóst er því að hin umdeilda ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands er ekki þess eðlis að hún breyti núverandi réttarstöðu stefnanda eða að hætt sé við að hagsmunir hans, hvorki starfstengdir né fjárhagslegir, kunni að fara forgörðum verði málið rekið eftir almennum málsmeðferðarreglum einkamálalaga. Raunar liggja engin gögn fyrir sem stutt geta fullyrðingu stefnanda um að hagsmunir hans séu slíkir að rétt sé að verða við beiðni hans um flýtimeðferð málsins. Stoðar hér ekki að vísa til áðurnefnds dóms Hæstaréttar í máli nr. 563/2006, enda voru atvik í því máli allsendis frábrugðin þeim sem hér eru. Samkvæmt því verður ekki fallist á að brýn þörf sé á skjótri úrlausn dómsins, né að sú úrlausn hafi almenna þýðingu eða varði stórfellda hagsmuni stefnanda.

Með vísan til ofanritaðs og að virtum gögnum málsins er það mat dómsins að ekki sé fullnægt skilyrðum fyrir því að mál þetta sæti flýtimeðferð samkvæmt XIX. kafla laga nr. 91/1991. Beiðninni er því hafnað og synjað um útgáfu stefnu í málinu.

Ingimundur Einarsson dómstjóri kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Hafnað er beiðni um flýtimeðferð í fyrirhugðu dómsmáli Magnúsar Hjaltalín Jónssonar gegn íslenska ríkinu .