Print

Mál nr. 693/2017

K og M (Flosi Hrafn Sigurðsson hdl.)
gegn
Barnaverndarnefnd Reykjavíkur (Sonja María Hreiðarsdóttir)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Börn
  • Niðurfelling máls
  • Gjafsókn
Reifun
Mál K og M gegn B var fellt niður fyrir Hæstarétti að ósk K og M en gerðu þau allt að einu kröfu um kærumálskostnað. Talið var rétt að málskostnaður fyrir Hæstarétti félli niður og að gjafsóknarkostnaður K og M fyrir réttinum greiddist úr ríkissjóði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Helgi I. Jónsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 25. október 2017 en kærumálsgögn bárust réttinum 6. nóvember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. október 2017 þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að börn sóknaraðila, A, B og C, skyldu vistuð utan heimilis sóknaraðila til 12. janúar 2018. Kæruheimild er í 1. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Með bréfi 8. nóvember 2017 lýstu sóknaraðilar því yfir að þau afturkölluðu kæru sína en geri allt að einu kröfu um kærumálskostnað án tillits til gjafsóknar sem þeim hefur verið veitt.

Með vísan til c. liðar 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 4. mgr. 150. gr. og 166. gr. laganna með áorðnum breytingum, er málið fellt niður fyrir Hæstarétti.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fer eftir því sem segir í dómsorði.

Dómsorð:

Mál þetta er fellt niður.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, K og M, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra, 250.000 krónur.

 

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. október 2017.

                Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 10. október sl., barst Héraðsdómi Reykjavíkur 8. september sl. með kröfu sóknaraðila, barnaverndarnefndar Reykjavíkur.

                Varnaraðilar eru K, kt. [...], [...], Reykjavík, og M, kt. [...], [...], Reykjavík.

                Sóknaraðili krefst þess að úrskurðað verði að börnin A, kt. [...], B, kt. [...], og C, kt. [...], verði vistuð utan heimilis varnaraðila til 12. janúar 2018, skv. 28. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 27. gr., barnaverndarlaga nr. 80/2002.

                Varnaraðilar krefjast þess að kröfu sóknaraðila um vistun barna þeirra, A, B og C, utan heimilis til 12. janúar 2018, verði hafnað. Til vara er þess krafist að vistuninni verði markaður skemmri tími. Þá krefjast þau málskostnaðar að teknu tilliti til virðisaukaskatts úr hendi sóknaraðila eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

                                                                                              I

                Mál þetta varðar þrjú systkini, A sem er 11 ára, B, sex ára, og C, sem nýlega varð fjögurra ára. Börnin lúta öll forsjá beggja foreldra sinna, varnaraðila. Varnaraðilinn M á að auki eina eldri dóttur sem býr hjá móður sinni. Börnin hafa undanfarið búið með móður sinni í leiguíbúð að [...]. Varnaraðilar greindu frá því fyrir dóminum að staða þeirra væri nú breytt og þau væru nú í sambandi. Þau eru húsnæðislaus, en búa hjá föður varnaraðilans K og eiga von á því að fá leiguhúsnæði fljótlega. Móðir barnanna er 37 ára og hefur verið stopult á vinnumarkaði en hóf endurhæfingu á vegum Virk í maí sl. og svo í Janusi í lok ágúst. Faðir barnanna er 42 ára og hefur undanfarin ár starfað á [...] og við [...].

                Mál barnanna hafa verið til skoðunar frá árinu 2007, eða frá því að elsta dóttir varnaraðila var eins árs. Hlé varð á meðferð málsins frá því snemma árs 2009 til miðs árs 2012. Alls hafa borist 37 tilkynningar í máli barnanna og hafa allar tilkynningar í málinu snúið að vímuefnaneyslu varnaraðila og áhyggjum af aðstæðum barnanna í umsjá þeirra.

                Í júní 2015 fóru börnin tímabundið af heimilinu og voru í umsjá ættingja í nokkra daga, eftir að varnaraðilar áttu í átökum á heimilinu sem endaði með því að faðirinn var handtekinn og færður af heimilinu. Í nóvember 2015 lögðu starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur til að börnin yrðu vistuð utan heimilis í fjóra mánuði á meðan varnaraðilar tækju á vímuefnavanda sínum. Varnaraðilar lýstu sig þá tilbúna til samvinnu um að taka á vímuefnavanda sínum og samþykktu óboðað eftirlit á heimilið. Féllst sóknaraðili ekki á tillögur um vistun barnanna utan heimilis með vísan til þess að gæta ætti meðalhófs í málinu enda væru varnaraðilar til samvinnu og hefðu fallist á að gera meðferðaráætlun.

                Á vormánuðum 2016 var á ný lagt til að börnin yrðu vistuð utan heimilis í sex mánuði, í kjölfar þess að neyðarráðstöfun var beitt og börnin voru tekin úr umsjá varnaraðila, samkvæmt 31. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Varnaraðilar voru ekki til samvinnu um vistun barnanna og var málið tekið til úrskurðar á fundi sóknaraðila þann 26. apríl 2016 á grundvelli 27. gr. barnaverndarlaga og börnin vistuð utan heimilis í tvo mánuði. Jafnframt fól sóknaraðili starfsmönnum Barnaverndar Reykjavíkur að fela borgarlögmanni að krefjast þess fyrir dómi að vistun barnanna myndi standa til 26. október 2016 eða samtals í sex mánuði. Áður en til þess kom að málið færi fyrir dómstóla óskuðu varnaraðilar eftir því að vistun barnanna yrði stytt og lýstu sig reiðubúin til fullrar samvinnu við barnavernd. Var þessi beiðni lögð fyrir fund sóknaraðila í júní 2016 þar sem samþykkt var að verða við óskum varnaraðila að hluta og var vistun barnanna stytt til loka júlí 2016. Fóru börnin þá á ný í umsjá varnaraðila.

                Frá ágúst 2016 og fram í maí 2017 hafði barnavernd eftirlit með aðstæðum barnanna á heimili þeirra auk þess sem fylgst var með líðan og stöðu þeirra í skóla og leikskóla. Varnaraðilar skildu á tímabilinu, að eigin sögn, og var faðir við vinnu úti á landi hluta tímans. Ekkert kom fram við óboðað eftirlit sem gaf til kynna að móðir væri í vímuefnaneyslu. Tvær tilkynningar bárust á tímabilinu sem lutu að áhyggjum af aðstæðum barnanna. Við skoðun á þeim var það mat starfsmanna að um væri að ræða erfiðleika sem tengdust hegðunarvanda miðbarnsins. Móðir hóf endurhæfingu hjá Virk á tímabilinu og virtist henni ganga vel að halda vímuefnabindindi. Málinu var lokað hjá Barnavernd Reykjavíkur í lok maí 2017.

                Þann 22. júní 2017 bárust tilkynningar í málinu á ný. Alls hafa fjórar tilkynningar borist í málinu eftir að það var opnað að nýju og varða þær allar áhyggjur af aðstæðum barnanna í umsjá varnaraðila vegna vímuefnaneyslu þeirra. Þegar starfsmenn barnaverndar fóru á heimilið 22. júní 2017 voru aðstæður barnanna afar slæmar og með öllu óviðunandi. Í kjölfarið voru börnin vistuð utan heimilis með samþykki varnaraðila fram að fundi sóknaraðila þar sem mál barnanna yrði lagt fyrir.

                A fór í umsjá föðurömmu sinnar þann 22. júní sl. Hún er enn á heimilinu en er nú í umsjá föðursystur sinnar. Í skýrslu talsmanns hennar, frá 9. júlí sl., kemur fram að henni líði vel hjá föðurömmu sinni og manninum hennar. Hún vilji samt helst vera hjá mömmu sinni og pabba, en sé það ekki í boði þá vilji hún vera hjá föðurömmu sinni. Í skýrslu talsmanns hennar frá 5. október sl. kemur fram að A hafi nú skipt um skóla og sé í [...]. Hún sé ánægð þar og eigi nýja vini, en sakni þó gömlu vina sinna. Henni líði ágætlega á fósturheimilinu og er fegin að vera þar en ekki hjá ókunnugum. Það sé samt erfitt að vera í burtu frá foreldrunum þar sem hún sakni þeirra mikið. Hún vilji helst fá að vera heima hjá foreldrum sínum og að þau fái hjálp við að hætta í eiturlyfjum. Þá sagðist hún sakna systkina sinna. Spurð um hvernig hún vildi hafa umgengni við foreldra sína sagðist hún vilja hitta þau einu sinni í viku eða aðra hverja helgi. Hún myndi vilja gista hjá þeim eina nótt og stundum tvær nætur. Samkvæmt upplýsingum fósturforeldris hennar frá 4. október sl. líður henni vel dagsdaglega og aðlagast vel í skólanum. Hún sé ánægð og hafi eignast vinkonur. Hún sé oft nokkuð döpur eftir símtöl við foreldra sína, en hún virðist vera of mikið inni í barnaverndarmálinu. Samkvæmt upplýsingum frá [...], dags. 6. október sl., virðist A líða vel í skólanum og ástundun er í alla staði eðlileg. Hún sinni náminu vel og eigi góð og eðlileg samskipti við nemendur og starfsfólk.

                B var í leikskólanum [...] en hefur nú hafið skólagöngu. Í tilkynningu frá [...], dags. 26. júní 2017, kemur meðal annars fram að mikill hegðunarvandi hafi verið hjá henni síðustu ár. Sá vandi hafi sýnt sig strax aftur eftir að hún hafi komið úr fríi á Spáni með varnaraðilum. Í skýrslu sálfræðings Þjónustumiðstöðvar, dags. 23. mars 2017, kemur fram að telpunni hafi verið vísað í sálfræðilega athugun vegna erfiðleika í félagsumhverfi og hegðunar- og tilfinningavanda. Niðurstöður frumgreiningar séu þær að skýra megi frávik í hegðun og líðan telpunnar með langri áfallasögu, slakri tengslamyndun, neikvæðu samskiptamynstri og erfiðleikum í félagsumhverfi. Út frá þeim greiningar- og skimunargögnum sem liggi fyrir sé þó ekki hægt að útiloka að skýra megi erfiða hegðun að einhverju leyti með frávikum í taugaþroska, þá einna helst ADHD. B dvaldi á Vistheimili barna með bróður sínum eftir að þau voru vistuð utan heimilis þann 22. júní sl. en er nú á heimili skyldfólks á [...]. Í upplýsingum frá Vistheimilinu frá 6. júlí 2017 kemur meðal annars fram að hún sýni merki vanlíðunar, hún eigi erfitt á vistheimilinu og sakni varnaraðila. Í skýrslu talsmanns hennar, dags. 9. júlí 2017, kemur fram að henni hafi ekki liðið vel þegar foreldrar hennar voru að drekka. Spurð hvort hún gæti hugsað sér að vera hjá frænku sinni á meðan foreldrar hennar væru að fá hjálp svaraði hún því játandi. Samkvæmt upplýsingum frá fósturforeldrum, 2. október sl., líður telpunni vel og hefur tekið miklum framförum. Hún hafi tekið tvö skapofsaköst stuttu eftir komu á heimilið, en eftir það verið róleg og góð. Hún sé erfið og krefjandi en ekkert sem fósturforeldrarnir treysti sér ekki til að takast á við. Hún sé í góðu jafnvægi eftir að hafa hitt foreldra sína en fari ávallt beint til fósturmóður sinnar og segi henni að hún elski hana. Vel gangi hjá henni í skólanum, bæði námslega og félagslega. Þá sé hún farin að æfa fimleika og bíði ávallt spennt eftir næsta tíma. Í skýrslu talsmanns hennar frá 5. október sl. kemur fram að B hafi byrjað skólagöngu í 1. bekk í skóla á [...]. Hún lýsi því að það sé leiðinlegt í skólanum og hún hati stærðfræði, en það sé skemmtilegt í frímínútum og gaman að vera með vinkonum sínum. Hún sagði alveg fínt að vera hjá fósturforeldrunum og sér liði bara vel þar. Best væri að vakna og fá svo góðan morgunmat. Svo væri líka gott að fara að sofa. Spurð um hvernig henni liði í hjartanu svaraði hún því að þar liði henni svo vel eins og sólin og tunglið og aftur til baka. Spurð um hversu lengi hún vildi vera á fósturheimilinu kvaðst hún bara vilja vera þar nokkra daga í viðbót því hún saknaði svo foreldra sinna. Hún væri samt alveg glöð að vera á fósturheimilinu og það væri miklu betra en að vera á Vistheimilinu. Spurð um umgengni við foreldra sína sagðist hún vilja vera til skiptis hjá foreldrum sínum og fósturforeldrum, einn dag hjá hvorum í einu. Spurð um hvernig það myndi ganga vegna skólans og hvar hún myndi þá gista svaraði hún því að hún myndi þá vilja gista á fósturheimilinu, borða morgunmat og bíða svo smá og fara svo til foreldra sinna fram á kvöld. Um helgar myndi hún svo vera hjá foreldrum sínum. Þá lýsti hún vilja til að heimsækja systur sína. Samkvæmt upplýsingum frá Barnaskólanum á [...], frá 6. október sl. er B fjörug og yfirleitt brosandi. Mikil vanlíðan komi hins vegar í ljós á milli þeirra stunda sem hún sé kát og oft sé erfitt að ná henni til baka úr slæmu ástandi ef hún verður reið. Miklar áhyggjur séu af andlegri líðan hennar og tali um hana sjálfa. Sjálfsmynd hennar sé í molum og hún þurfi sálfræðihjálp og hjálp við að byggja upp brotna sjálfsmynd og sjálfsálit. Umhirða og aðbúnaður hennar sé til fyrirmyndar og samskipti við fósturheimilið mjög góð.

                C er nýlega orðinn fjögurra ára og var í leikskólanum [...] en er nú byrjaður á leikskólanum [...] á [...]. Í tilkynningu frá leikskólanum [...], dags. 26. júní 2017, kemur meðal annars fram að hegðun drengsins sé breytt og sé að líkjast hegðun systur hans, B. Frá því að börnin voru vistuð utan heimilis þann 22. júní sl. hefur drengurinn dvalið með systur sinni, fyrst á Vistheimili barna og svo hjá skyldfólki á [...]. Í upplýsingum frá Vistheimilinu, dags. 6. júlí 2017, kemur fram að drengurinn taki skapofsaköst og öskri hátt meðan á þeim standi. Andleg líðan hans sé ekki góð, hann sé viðkvæmur, bregðist illa við mótlæti og verði fljótt reiður og pirraður. Þá sé hann farinn að taka upp hegðun systur sinnar. Samkvæmt upplýsingum frá leikskólanum á [...], frá 5. október sl., er líðan drengsins góð, aðlögun hans gekk vel og hann var fljótur að falla inn í barnahópinn. Samkvæmt fósturforeldrum er líðan drengsins góð. Hann gráti í nokkra stund eftir heimsóknir til foreldra, fari þá í fang fósturforeldra og það gangi fljótt yfir. Hann sé ánægður í leikskólanum og sé farinn að eignast vini. Þá fari hann í fimleika og hafi gaman af því. Sökum ungs aldurs var drengnum ekki skipaður talsmaður, skv. 46. gr. barnaverndarlaga.

                Í greinargerð starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur, dags. 3. júlí 2017, kemur fram það mat að aðstæður barnanna hafi verið óviðunandi til lengri tíma og þau séu nú í mikilli þörf fyrir stöðugleika og öryggi til að tryggja líðan þeirra og þroska með viðunandi hætti. Í gögnum málsins komi fram að börnin hafa ítrekað upplifað slæmar aðstæður á heimili sínu, svo sem átök foreldra og vímuefnaneyslu. Þá komi fram í frumgreiningu miðbarnsins B sem gerð hafi verið af sálfræðingi þjónustumiðstöðvar í mars 2017 að skýra megi frávik í hegðun og líðan hennar með langri áfallasögu, slakri tengslamyndun, neikvæðu samskiptamynstri og erfiðleikum í félagsumhverfi. Samkvæmt upplýsingum frá leikskóla barnanna sæki hegðun drengsins C í sama far og hjá systur hans. Líðan elsta barnsins A einkennist af þeim aðstæðum sem hún hafi búið við og hún sýni, að mati starfsmanna, einkennandi hegðun barna sem alist hafi upp við áfengis- og vímuefnaneyslu foreldra. Það er mat starfsmanna barnaverndar að ljóst sé að varnaraðilar þurfi að fara í langtíma vímuefnameðferð til að taka á vanda sínum og að sex mánuðir sé lágmarkstími sem þurfi til að raunhæft sé að ætla að varnaraðilar geti sýnt fram á langtíma vímuefnabindindi og þannig stuðlað að því að það haldist eftir að börnin komi á ný í umsjá þeirra.

                Málið var tekið fyrir á fundi sóknaraðila 11. júlí 2017 þar sem tillaga var lögð fram um að börnin yrði vistuð utan heimilis í sex mánuði á meðan varnaraðilar tækjust á við vanda sinn og færu í meðferð. Sóknaraðili kvað upp úrskurð 12. júlí 2017 um að börnin A, b og C, skuli vistuð á heimili á vegum sóknaraðila, í tvo mánuði, frá þeim degi að telja með heimild í b-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga. Jafnframt var borgarlögmanni falið að gera þá kröfu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur að vistun barnanna utan heimilis varnaraðila stæði til 12. janúar 2018, sbr. 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga eða í fjóra mánuði til viðbótar við þá tvo sem barnaverndarnefnd hefur heimild til að úrskurða samkvæmt 27. gr. laganna. Varnaraðilar samþykkja að börnin verði vistuð utan heimilis en telja að vistun skuli markaður skemmri tími eða til þriggja mánaða.

                Þann 6. október sl. undirrituðu varnaraðilar meðferðaráætlun þar sem þau fallast meðal annars á að sinna vímuefnameðferð og edrúmennsku, að taka vímuefnapróf þegar þurfa þyki, taka á móti óboðuðu eftirliti og gangast undir sálfræðilegt forsjárhæfnismat.

                                                                                              II

                Sóknaraðili reisir kröfu sína á því að ljóst sé að hagsmunir barnanna krefjist þess að þau verði vistuð utan heimilis varnaraðila á meðan unnið verði að því að bæta uppeldisaðstæður þeirra í umsjá varnaraðila. Fyrir liggi úrskurður nefndarinnar frá 12. júlí 2017 um vistun barnanna utan heimilis varnaraðila til tveggja mánaða.

                Ekki sé unnt að tryggja aðstæður barnanna á heimili varnaraðila vegna vímuefnaneyslu þeirra. Með hliðsjón af málsgögnum og forsögu málsins telji sóknaraðili að uppeldisaðstæður systkinanna séu óviðunandi og að nauðsynlegt sé að vista börnin utan heimilis á meðan varnaraðilar taki á vanda sínum, sýni fram á meðferðarheldni og undirgangist forsjáhæfnismat. Sóknaraðili leggi áherslu á að varnaraðilar nýti þann stuðning sem standi til boða til þess að efla uppeldishæfni sína og undirgangast meðferð á tímabilinu vegna alvarlegs vímuefnavanda. Vistun barnanna utan heimilis þurfi að lágmarki að vera í sex mánuði til þess að raunhæft sé að ætla að uppeldisaðstæður þeirra taki jákvæðum breytingum til frambúðar.

                Það sé mat sóknaraðila að lengri vistun utan heimilis nú sé nauðsynleg með tilliti til hagsmuna barnanna og sé jafnframt vægasta úrræði sem mögulegt sé að grípa til miðað við aðstæður allar. Meðalhófs hafi verið gætt við alla meðferð máls þessa. Varnaraðilum hafi staðið til boða fjölþættur stuðningur í mörg ár. Úrræðin hafi ekki megnað að tryggja börnunum það öryggi sem þau eigi skýlausan rétt til í umsjá varnaraðila. Vistun utan heimilis sé því vægasta úrræðið sem nú sé hægt að koma við. Telja verði að fjórir mánuðir til viðbótar við þá tvo sem þegar hafi verið úrskurðað um sé sá lágmarkstími sem þörf sé á til að raunhæft sé að ætla að varnaraðilar geti bætt uppeldisaðstæður barnanna með viðunandi hætti.

                Reynt verði að fá varnaraðila til samvinnu um gerð áætlunar um meðferð máls, skv. 23. gr. barnaverndarlaga, og að varnaraðilar fari í meðferð og vinni í vanda sínum. Að meðferð lokinni sé áætlað að varnaraðilar undirgangist forsjárhæfnismat m.t.t. uppeldishæfni þeirra og tengsla við börnin. Með vísan til úrskurðar sóknaraðila frá 12. júlí sl. og atvika málsins að öðru leyti sé nauðsynlegt að börnin verði vistuð utan heimilis varnaraðila til 12. janúar 2018.

                Krafa sóknaraðila byggist á b-lið 1. mgr. 27. gr., sbr. 28. gr., barnaverndarlaga nr. 80/2002. Þá vísi sóknaraðili til annarra ákvæða barnaverndarlaga, laga um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins nr. 19/2013, laga um mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994 og til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

                                                                                              III

                Varnaraðilar telja að ekki sé tilefni til þess að vista börn þeirra utan heimilis til 12. janúar 2018 og hagsmunir barna þeirra standi ekki til þess. Réttara væri að veita þeim hjálparhönd til þess að bæta heimilisaðstæður og veita þeim styrk og stuðning til þess að geta staðið sig í foreldrahlutverkinu. Sú skylda hvíli á sóknaraðila, meðal annars samkvæmt 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að gera ekki kröfu um að barn verði vistað á heimili á vegum Barnaverndar Reykjavíkur nema ekki sé unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til úrbóta eða slíkar aðgerðir hafi verið reyndar án viðunandi árangurs.

                Með tilliti til meðalhófsreglu, sbr. 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og til hliðsjónar framangreindrar 12. gr. stjórnsýslulaga, verði ákvörðun að vera til þess fallin að ná því markmiði sem að er stefnt, vægasta úrræði beitt og úrræðinu verði þar að auki beitt í hófi. Varnaraðilar krefjast þess að kröfu sóknaraðila um að börnin skuli vistuð utan heimilis til 12. janúar 2018, sbr. b-lið 1. mgr. 27. gr., sbr. 28. gr. barnaverndarlaga, verði hafnað, enda gangi slík krafa alltof langt og sé alls ekki til þess fallin að stuðla að markmiði barnaverndarlaga, sbr. 2. gr. þeirra, en þar komi fram að markmið þeirra sé meðal annars að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu. Verði með engu móti fallist á eða séð að slík vistun stuðli að því markmiði.

                Varnaraðilar telji að það sé börnunum fyrir bestu að koma að nýju inn á heimili þeirra. Þau eigi í góðu og sterku sambandi við börnin. Það sé öllum til heilla að rækta og hlúa að því sambandi. Það sé í samræmi við meðalhófsreglu barnaverndarlaga og stjórnsýsluréttar að gefa þeim færi á að fá börnin aftur inn á heimili sitt. Ekki sé ástæða til beitingar jafn íþyngjandi úrræðis og ákvæði b-liðar 1. mgr. 27. gr., sbr. 28. gr., barnaverndarlaga um vistun barns utan heimilis.

                Enn fremur telji varnaraðilar rannsóknarreglu barnaverndar- og stjórnsýslulaga brotna. Það sé nauðsynlegt, og hreinlega lögð sú skylda á herðar sóknaraðila, að kanna með nánari hætti, til hlítar, hvort önnur úrræði standi til boða sem henti betur en að vista börnin utan heimilis. Við rannsókn á þeim þætti sé nauðsynlegt að kanna líðan barnanna í dag. Öll börnin séu nú í öðrum aðstæðum en þegar síðast hafi verið talað við þau. A sé byrjuð í nýjum skóla og yngri börnin búi á [...] í fyrsta skipti. Einnig sé nauðsynlegt að fá upplýsingar frá skóla og leikskóla barnanna um aðstæður þeirra. Þá þyrftu að liggja fyrir gögn frá fósturforeldrum um aðstæður barnanna. Sóknaraðili hafi engan reka gert að því að kanna aðstæður varnaraðila eftir að gripið hafi verið til vistunar barnanna utan heimilis. Aðstæður varnaraðila séu afar stöðugar, þau hafi sýnt mikla meðferðarheldni og verið virk í AA-samtökunum, auk þess sem K hafi haldið áfram endurhæfingu sinni, bæði hjá Virk og nú nýlega hjá Janusi. Barnaverndaryfirvöld virðist ekki hafa kannað hvernig staða þeirra sé í dag.

                Nauðsynlegt sé að líta til vilja barnsins A, en hún sé orðin 12 ára gömul. Mikilvægt sé að hún fái að hafa áhrif á framgang þessa máls, sbr. meðal annars 63. gr. a í barnverndarlögum. Allt frá upphafi hafi legið fyrir að hún vilji búa á heimili varnaraðila. Í skýrslu talsmanns hennar frá júlí sl. komi fram að hún vilji helst búa hjá mömmu sinni og pabba. Engin ástæða sé til þess að láta barnið kveljast með því að búa fjarri heimili foreldra sinna ef aðstæður þeirra eru nægilega góðar og þau sinna edrúmennsku. Auðvelt væri að kanna hvort foreldrar haldi vímuefnabindindi, einfaldlega með því að viðhafa verulegt óboðað eftirlit með heimilinu og jafnframt með fíkniefnaprufum.

                Hvað varði yngri börn varnaraðila telji þau ekki ákjósanlegt að hafa þau lengur í þeim aðstæðum sem þau eru nú. Þeim líði ekki vel á [...]. Bæði börnin hafi grátið sáran þegar varnaraðilar hafi þurft að skila þeim eftir þá skömmu umgengni sem þau hafi fengið. Þá sé B með verulegar sérþarfir vegna hegðunarerfiðleika sinna. Fyrir liggi að framkvæma þurfi fjölmargt með foreldrum og B til þess að kanna til hlítar ástæður hegðunarerfiðleika hennar. Grunur hafi leikið á að hún væri á einhverfurófi, með ADHD og fleira. Í tillögum sálfræðings sé mælt með að barninu verði vísað til nánari athugunar og mismunagreiningar á BUGL. Kannað verði hvort B þurfi EMDR-áfallameðferð, sótt verði um fjölskyldumeðferð í gegnum þjónustumiðstöð, tilsjón til að styðja foreldra, stuðningsfjölskyldu, eftirfylgd sérkennsluráðgjafa o.fl. Í stað þess að fara í þá vegferð telji varnaraðilar ekkert hafa verið gert í málefnum hennar. Vanmáttur sóknaraðila sé augljós. Varnaraðilar hafi verið vakin og sofin yfir því að B fengi þá þjónustu sem hún þyrfti, en um leið og barnið væri komið í umsjá sóknaraðila væri ekkert gert í málefnum þess, a.m.k. bentu gögn málsins ekki til þess.

                Það bendi til þess að sóknaraðili hafi litlar áhyggjur af varnaraðilum, að  meðan á vistun barnanna hafi staðið hafi afar sjaldan verið óskað eftir vímuefnaprófi frá þeim. Það sama eigi við um óboðað eftirlit sem hafi aldrei farið fram á heimili þeirra. Eftirlitsaðili hafi einungis í tvígang spjallað stuttlega við annan varnaraðila í síma og engar kröfur gert um að fá að koma á heimili þeirra. Þetta sýni að líf varnaraðila sé stöðugt í dag. Varnaraðilar hafi bæði farið á Vog og í kjölfarið, skv. ráðleggingum SÁÁ, í eftirmeðferð á Von, sem þau séu að ljúka á næstu dögum. Í framhaldinu muni þau fara í svokallaða eftir-eftirmeðferð, sem felist í vikulegum fundum hið minnsta, auk þess sem þau fái styrktaraðila sem þau geti leitað til ef þau eigi í erfiðleikum með edrúmennsku sína. Annar varnaraðila, K, sé nýbyrjuð hjá Janusi endurhæfingu, sem sé endurhæfingarúrræði með það að markmiði að aðstoða fólk við að komast á vinnumarkað og fyrirbyggja varanlega örorku. Þá vonist þau til þess að sóknaraðili hjálpi þeim enn frekar, þegar þau eru að ljúka vímuefnameðferð, til þess að takast á við eigin vandamál og vandamál fjölskyldunnar, með fjölskyldumeðferð af einhverju tagi, í samræmi við leiðbeiningar frá sálfræðingi sem hafi séð um grunnmat á dóttur aðila,B. Slíkt myndi gagnast þeim bæði áður en þau fái börnin inn á heimili sitt og ekki síður eftir að börnin komi aftur inn á heimilið.

                Hagsmunir barnanna séu að búa á heimili varnaraðila, með öflugum stuðningi frá barnavernd, og raunverulegri eftirfylgni. Varnaraðilar hafi sýnt að þeir geti haldið vímuefnabindindi til langs tíma. K hafi átt 13 mánaða edrúmennsku að baki fram að því að hún hafi fallið í skamman tíma síðastliðið sumar. Þar áður hafi hún átt þriggja ára edrúmennsku að baki á árunum 2012-2015. Það sama megi segja um M, sem hafi eingöngu fallið í skamman tíma, eftir að hann hafi flutt af heimili fjölskyldunnar í byrjun síðasta árs og í byrjun sumars. Í öllum tilvikum sé um að ræða stutt föll. Stuðningsaðilar varnaraðila hjá SÁÁ hafi ekki áhyggjur af edrúmennsku þeirra. Þau sýni styrk sinn með því að leita sjálfviljug eftir vímuefnameðferð í kjölfar þess að þau hafi fallið. Það bendi til þess að þau eigi alla möguleika á því að halda áfengis- og vímuefnabindindi sitt. Þá skipti jafnframt máli að sóknaraðili veiti þeim gott aðhald og stuðning þar til þau komist á beinu brautina. Varnaraðilar búi nú um stundir hjá föður varnaraðila K. Starfsmenn barnaverndar hafi komið í húsnæðið og staðfest að þeir geri ekki athugasemdir við að þau sinni umgengni í húsnæðinu. Varnaraðilar séu að leita sér að húsnæði og telji líklegt að þau komist innan skamms í varanlegt húsnæði. Faðir K hafi hins vegar staðfest að hann muni flytja út af heimilinu til skamms tíma, fái þau börnin til baka, til þess að gefa fjölskyldunni næði. Ólíklegt sé þó að koma þurfi til þess. Báðir varnaraðilar hafi fengið staðfest að þau muni fá styrk til þess að leggja fram tryggingu á almennum leigumarkaði og jafnframt hafi varnaraðilinn K fengið staðfest frá félagsráðgjafa sínum að þau séu á bið eftir félagslegu leiguhúsnæði, en umsókn þeirra sé frá árinu 2013 og líkur til þess að þau fái slíkt húsnæði innan skamms.

                Varnaraðilar hafi sýnt að þau sinni börnum sínum með stakri prýði þegar þau eru ekki í neyslu. Í umsögn leikskóla frá síðasta sumri komi fram að fjölskyldan hafi verið komin á ágætis ról á vormánuðum 2017, börnin hafi mætt vel í leikskólann, foreldrar hafi verið í miklu ferli hjá leikskóla og þjónustumiðstöð og B hafi verið í ágætis jafnvægi með mikilli íhlutun leikskólans. Jafnframt megi líta til umsagna frá Vistheimili barna í síðustu vistun og vegna fyrri vistunar, þar komi fram að hegðun B sé afar erfið á vistheimilinu en batni verulega eftir því sem foreldrarnir hafi fengið að sinna umgengni meira.

                Verði ekki fallist á að hafna kröfu um vistun barnanna utan heimilis krefjist varnaraðilar þess til vara að vistuninni verði markaður mun skemmri tími. Engin ástæða sé til þess að slíta tengsl varnaraðila og barna þeirra meira en gert hafi verið. Telji dómurinn hagsmuni barnanna ekki standa til þess að snúa strax til baka á heimili foreldra, skömmu eftir uppkvaðningu úrskurðar, ætti að minnsta kosti að stytta vistun utan heimilis í fjóra mánuði, þannig að vistun ljúki 12. nóvember nk. Ætti þá að vera kostur á að hefja aðlögun til þess að koma aftur inn á heimili varnaraðila strax í kjölfar þess að úrskurður verði kveðinn upp í málinu.

                                                                                              IV

                Í máli þessu krefst sóknaraðili þess að þrjú börn varnaraðila verði vistuð utan heimilis í sex mánuði, eða til 12. janúar 2018, sbr. b-lið 1. mgr. 27. gr., sbr. 1. mgr. 28. gr., barnaverndarlaga nr. 80/2002.

                Sóknaraðili úrskurðaði 12. júlí sl. um vistun barnanna utan heimilis í tvo mánuði, sbr. b-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga, þar sem kveðið er á um heimildir barnaverndarnefndar til að úrskurða um vistun barns utan heimilis í tilvikum þar sem ekki liggur fyrir samþykki foreldris og/eða barns sem náð hefur 15 ára aldri, enda mæli brýnir hagsmunir barns með því. Með ákvæðinu er barnaverndarnefnd heimilað að kveða á um töku barna af heimili í allt að tvo mánuði og um nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja öryggi þeirra eða til að unnt sé að gera viðeigandi rannsókn á börnunum og veita þeim nauðsynlega meðferð og aðhlynningu. Þá er það jafnframt skilyrði, sbr. 26. gr. sömu laga, að önnur vægari úrræði hafi ekki skilað árangri að mati barnaverndarnefndar eða eftir atvikum að barnaverndarnefnd hafi komist að þeirri niðurstöðu að þau séu ófullnægjandi. Í 28. gr. barnaverndarlaga er kveðið á um það að ef barnaverndarnefnd telur nauðsynlegt að ráðstöfun skv. a- og b-lið 1. mgr. 27. gr. standi lengur en þar er kveðið á um skuli nefndin gera kröfu um það fyrir héraðsdómi. Heimilt er með úrskurði dómara að vista barn í allt að tólf mánuði í senn frá og með þeim degi þegar úrskurður dómara er kveðinn upp. Þá er kveðið á um það að ef krafist er framlengingar vistunar skv. 27. eða 28. gr. eða forsjársviptingar skv. 29. gr. laganna áður en vistunartíma lýkur haldist ráðstöfun þar til úrskurður eða dómur liggi fyrir.

                Við úrlausn málsins ber að hafa hliðsjón af þeirri meginreglu barnaverndarstarfs að beita skuli þeim ráðstöfunum sem ætla megi að séu börnunum fyrir bestu og að hagsmunir þeirra skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi, svo sem fram kemur í 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga, auk þess sem gæta verður meðalhófs þannig að ráðstafanir séu ekki umfangsmeiri en brýna nauðsyn ber til, sbr. m.a. ákvæði 7. mgr. sömu greinar.

                Börnin sem málið snýst um, A, B og C eru 11, 6 og 4 ára. Þau lúta forsjá foreldra sinna, en hafa verið í vistun utan heimilis þeirra á vegum barnaverndar Reykjavíkur frá 22. júní sl. Þá hafa þau tvisvar áður verið vistuð utan heimilisins.

                Sóknaraðili telur nauðsyn standa til framlengingar á vistun barnanna þar sem ljóst sé að varnaraðilar glími við mikinn vanda vegna fíkniefnaneyslu. Ekki sé unnt að tryggja öryggi barnanna á heimili þeirra. Systkinin hafi búið við óviðunandi aðstæður og nauðsynlegt sé að vista þau utan heimilis á meðan varnaraðilar taka á vanda sínum, sýna fram á meðferðarheldni og undirgangast forsjáhæfnismat. Vistun barnanna utan heimilis þurfi að lágmarki að vera í sex mánuði til þess að raunhæft sé að ætla að uppeldisaðstæður þeirra taki jákvæðum breytingum til frambúðar.

                Varnaraðilar hafa fallist á vistun barnanna utan heimilis til þriggja mánaða en telja ekki efni til að hún standi lengur. Þau hafa lagt fram gögn sem sýna að þau fóru í meðferð á Vogi, varnaraðilinn K 17. til 26. júlí sl. og varnaraðilinn M 1. til 10. ágúst sl. Þau innrituðust bæði í göngudeildarmeðferð 14. ágúst sl. og hafa mætt í 13 skipti en eiga þrjú eftir. Þá er í framhaldinu fyrirhugaður vikulegur stuðningshópur í 12 vikur.

                Varnaraðilar komu fyrir dóminn og greindu frá aðstæðum sínum. Varnaraðilinn M lýsti því að þau hefðu bæði fallið í neyslu þegar fjölskyldan hefði farið saman til Spánar í vor. Hann hefði þá verið búinn að vera edrú í sex til sjö mánuði. Ferðin hefði ekki verið skynsamleg. Þau hefðu talið sig komin lengra í bata en þau hafi í raun verið. Þau hafi ætlað að hætta en ekki haft tækifæri til þess. Hann hefði síðast neytt fíkniefna stuttu áður en hann hafi farið í meðferð 1. ágúst. Hann lýsti meðferðinni og greindi frá fyrri meðferðum. Hann greindi frá því að þau K hefðu slitið sambandi sínu í desember sl. Hann hefði þá farið af heimilinu og fallið á sama tíma. Þau væru nú saman og það gengi vel, en sambandserfiðleikar þeirra hefðu tengst neyslunni. Þá taldi hann að neyslan hefði haft slæm áhrif á börnin. Hann lýsti umgengni þeirra við börnin og áhyggjum af B. Hann kvað hana allt annað barn þegar þau væru edrú. M lýsti því að þau K væru nú reiðubúin til þess að taka við börnunum aftur eftir að hafa fengið tíma til að byggja sig upp. Þau væru nú á góðum stað og í góðu jafnvægi. Þau gerðu allt sem í þeirra valdi stæði til þess að þetta gerðist ekki aftur og væru reiðubúin í samstarf við barnaverndaryfirvöld. Þau hefðu nú heimilað að heimilislæknir veitti upplýsingar um þau, en honum hefði ekki þótt ástæða til þess fyrr. Hann hefði nú látið loka á lyf til sín sem gætu stuðlað að falli og hefði ekki tekið þau í tvær til þrjár vikur.

                Varnaraðilinn K lýsti því á sama hátt að þau M hefðu fallið í ferðinni til Spánar. Þau hefðu rætt það að þau þyrftu að taka sig á en hefðu ekki verið komin þangað þegar barnaverndarnefnd kom á heimilið. Áður hefði gengið vel hjá þeim og hún hefði unnið vel með leikskólanum í málefnum B. Hún greindi frá endurhæfingu sinni hjá Virk og síðar Janusi. Hún hefði ekki neytt fíkniefna síðan í júní sl. Hún lýsti meðferð sinni og greindi frá fyrri meðferðum. Hún taldi að ekki hefði verið þörf á því fyrr að veita upplýsingar frá heimilislækni þar sem þau hefðu þegar sýnt fram á að þau væru á lyfjum sem væri ávísað á þau. Hún væri nú að vinna í því að fara af kvíðalyfjunum. Hún taldi sambandserfiðleika þeirra M vera að rekja til neyslunnar. Jafnframt sæi hún á börnunum að neyslan hefði slæm áhrif á þau. Ástand þeirra í júní sl. hefði ekki verið boðlegt börnunum, en þau hefðu þó ekki verið í neinni hættu. Þau hefðu nú samþykkt meðferðaráætlun eftir nánari útskýringar og væru til samvinnu um alla þætti nema vistun utan heimilis. Eðlilegra væri að þau lytu ströngu eftirliti.

                D félagsráðgjafi kom fyrir dóminn og greindi frá meðferð málsins frá því í júní sl. og afskiptum barnaverndaryfirvalda síðasta áratug.

                Barnaverndaryfirvöld hafa frá árinu 2007 haft afskipti af varnaraðilum vegna gruns um fíkniefnaneyslu og átaka þeirra á milli. Hlé varð þó á því frá 2009 fram á mitt ár 2012. Fjölmargar tilkynningar hafa borist um vanrækslu barnanna og fíkniefnaneyslu foreldranna. Nokkrar meðferðaráætlanir hafa verið gerðar, sbr. 23. gr. barnaverndarlaga. Börnin voru fyrst vistuð utan heimilis í júní 2015 með samþykki varnaraðila, en þó einungis í nokkra daga. Þá stóð til að fara fram á vistun utan heimilis á ný í nóvember 2015, í kjölfar akstur K undir áhrifum fíkniefna með yngsta barnið í bifreiðinni, en þegar varnaraðilar ákváðu að vera í samvinnu við barnavernd var ákveðið að gæta meðalhófs og fara ekki þá leið heldur gera meðferðaráætlun með þeim. Í apríl 2016 var gripið til neyðarráðstöfunar á grundvelli 31. gr. barnaverndarlaga og börnin tekin úr umsjá varnaraðila í kjölfar þess að miðbarnið hringdi á lögreglu vegna þess að hún gat ekki vakið þau. Þegar lögregla kom á heimilið voru yngri börnin tvö, þá fimm og tveggja ára, þar í reiðileysi og langan tíma tók að vekja foreldrana. Á heimilinu fundust fíkniefni, ýmis lyf og landi. Í framhaldi var úrskurðað um vistun barnanna utan heimilis í tvo mánuði á grundvelli 27. gr. barnaverndarlaga. Krafist var lengri vistunar utan heimilis fyrir dómi, en í kjölfar breyttrar afstöðu varnaraðila til samvinnu við barnavernd var fallist á óskir þeirra um styttingu vistunarinnar til júlíloka 2016. Börnin fóru þá á ný á heimili varnaraðila og við tók eftirlit með aðstæðum barnanna þar til í lok maí 2017.

                Tilkynningar bárust aftur í málinu í júní 2017. Starfsmenn barnaverndar fóru á heimilið 22. júní sl. Voru aðstæður barnanna metnar afar slæmar og með öllu óviðunandi. Varnaraðilar neituðu fíkniefnaneyslu en afþökkuðu að taka fíkniefnapróf því til staðfestingar. Varnaraðila K snerist þó að lokum hugur en gat ekki skilað sýni. Varnaraðilar hafa nú bæði greint frá fíkniefnaneyslu á þessum tíma. Börnin voru í framhaldi vistuð utan heimilis með samþykki varnaraðila.

                Samkvæmt gögnum málsins hafa börn varnaraðila glímt við margvíslega erfiðleika sem, að minnsta kosti að hluta til, eru raktir til heimilisaðstæðna þeirra. Þau dvelja nú öll hjá skyldmennum og eru tvö yngri börnin saman. Eldri börnin tvö hafa lýst vilja til að vera hjá foreldrum sínum, en lýsa jafnframt góðri líðan þar sem þau eru nú. Varnaraðilar hafa rúma umgengni við börnin og liggur fyrir að hún hefur gengið vel.

                Engir annmarkar eru á meðferð málsins sem geta leitt til þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Varnaraðilar bera því við að rétt meðferð málsins væri að rétta þeim hjálparhönd. Telja verður að með framangreindri kröfu sé verið að leitast við að aðstoða þau og börn þeirra. Þá hefur rannsóknarregla ekki verið brotin, en fyrir dóminn hafa verið lögð gögn um hagi barnanna og skýrslur talsmanna eldri barnanna. Þá hefur barnavernd leitast við að afla gagna um hagi varnaraðila eins og kostur er. Jafnframt hafa verið lögð fram gögn sem sýna að verið er að huga sérstaklega að líðan og hegðun B.

                Eins og hér að framan er lýst hafa stuðningsúrræði samkvæmt 23. til 26. gr. barnaverndarlaga verið reynd um langt skeið. Varnaraðilar hafa verið til takmarkaðrar samvinnu. Til að mynda samþykktu þau ekki meðferðaráætlun fyrr en nokkrum dögum fyrir aðalmeðferð máls þessa. Framangreind stuðningsúrræði hafa ekki megnað að tryggja öryggi barnanna. Eftir styttri vistun árið 2016 gekk vel í marga mánuði meðan á eftirliti barnaverndar stóð, en um leið og málinu var lokað fór að halla undan fæti á ný.

                Með hliðsjón af öllu framangreindu verður að telja að brýnir hagsmunir barnanna standi til þess að vista þau áfram utan heimilis. Mikilvægt er að varnaraðilar taki á vanda sínum og sýni fram á að þau geti haldið sig frá fíkniefnum til lengri tíma og boðið börnum sínum viðunandi uppeldisaðstæður, stöðugleika og öryggi. Þrátt fyrir vilja dætra varnaraðila til að vera hjá þeim verður að telja að það sé að svo stöddu ekki hagsmunum þeirra fyrir bestu. Þykir sú ráðstöfun að ákveða tímabundna vistun barnanna utan heimilis án samþykkis varnaraðila ekki fela í sér viðameiri eða meira íþyngjandi ráðstöfun en nauðsyn krefur í ljósi þess alvarlega ástands sem hér hefur verið greint frá, enda hafa önnur vægari úrræði til þess að gæta hagsmuna barnanna ekki skilað árangri. Hefur meðalhófs því verið gætt og þess að ekki sé mögulegt að grípa til vægara úrræðis. Samkvæmt þessu er fullnægt skilyrðum b-liðar 1. mgr. 27. gr., sbr. 1. mgr. 28. gr., barnaverndarlaga til þess að fallast á kröfu sóknaraðila um vistun barnanna utan heimilis varnaraðila og þykja ekki forsendur fyrir því að stytta þann tíma sem gerð er krafa um.

                Sóknaraðili krefst ekki málskostnaðar, en varnaraðilar gera kröfu um málskostnað úr hendi sóknaraðila. Rétt þykir að málskostnaður falli niður. Varnaraðilar njóta gjafsóknar samkvæmt gjafsóknarleyfi frá 28. september sl., sbr. 60. gr. barnaverndarlaga. Allur málskostnaður þeirra greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns þeirra, Flosa Hrafns Sigurðssonar héraðsdómslögmanns, sem ákveðst 727.260 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

                Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

                                                               Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

                Fallist er á kröfu sóknaraðila, barnaverndarnefndar Reykjavíkur, um að börnin A, kt. [...], B, kt. [...], og C, kt. [...], verði vistuð utan heimilis varnaraðila, K og M, til 12. janúar 2018.

                Málskostnaður fellur niður.

                Allur gjafsóknarkostnaður varnaraðila, þar með talin þóknun lögmanns þeirra, 727.260 krónur, greiðist úr ríkissjóði.