Print

Mál nr. 716/2016

Kristbjörg Helga Guðlaugsdóttir (Björn Ólafur Hallgrímsson hrl.)
gegn
Kristínu Valdimarsdóttur (Berglind Svavarsdóttir hrl.)
Lykilorð
  • Eignarréttur
  • Lausafé
Reifun
KHG krafðist viðurkenningar á eignarrétti sínum að íslenskum þjóðbúningi, svonefndum upphlut. Upphluturinn var í fórum KV en hafði áður verið í vörslum móður KHG, sem hafði ráðstafað honum til KV með gjafabréfi á árinu 2007. Byggði KHG á því að hún hefði fengið upphlutinn að gjöf þegar hún var barn að aldri, en að móðir sín hefði tekið hann til varðveislu þar til hún yrði fullvaxta. Héraðsdómur taldi að KHG hefði ekki lánast að færa viðhlítandi sönnur fyrir staðhæfingu sinni um eignarhald á upphlutnum og sýknaði KV af kröfum hennar. Í dómi sínum vísaði Hæstiréttur til þess að ganga yrði út frá þeirri reglu að líkur standi almennt til að sá sem hefur lausafjármuni í vörslum sínum og fer með þá eins og þeir tilheyri sér, sé réttur eigandi þeirra. Óumdeilt væri að móðir KHG hefði um árabil farið með vörslur upphlutarins og að ekki yrði annað ráðið af ráðstöfun þeirri sem fólst í gjafabréfinu en að hún hafi talið sig eiga hann. Hvíldi því á KHG að hnekkja þeim líkum fyrir eignarrétti sem af þessu yrðu leiddar og hefði henni ekki tekist sú sönnun. Var hinn áfrýjaði dómur því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. október 2016 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hún krefst þess að viðurkenndur verði eignarréttur hennar að íslenskum þjóðbúningi, svonefndum upphlut, sem samanstandi af boðungi með gullhúðuðum millum, millureim, millunál, skrauti úr vírborðum á boðungnum, pilsi, svuntu, blússu, gylltri brjóstnælu, gylltum ermahnöppum, gylltum svuntuhnöppum, gylltu stjörnubelti og skotthúfu með gylltum hnakkaprjónum og skúfhólki. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og nánar er lýst í hinum áfrýjaða dómi kveðst áfrýjandi, sem er fædd árið 1952, hafa á fimmta aldursári fengið að gjöf þá muni, sem taldir eru upp í fyrrgreindri dómkröfu hennar, að frátöldu pilsi, svuntu og blússu. Muni þessa hafi móðir áfrýjanda, Ingibjörg Valdimarsdóttir, tekið til varðveislu og hafi henni jafnframt verið heimilt að nota þá gegn því að halda þeim við, en henni hafi borið að afhenda þá síðan áfrýjanda þegar hún yrði fullvaxta. Ekki hafi áfrýjandi gengið eftir því að fá munina afhenta fyrr en mörgum áratugum eftir að þeir komust í eigu hennar, en Ingibjörg hafi þá ekki orðið við ítrekuðum óskum hennar um það. Eftir að Ingibjörg lést 26. janúar 2013 hafi áfrýjanda fyrst orðið kunnugt um að sú fyrrnefnda hafi gefið stefndu, sem hafi verið systir hennar og fósturdóttir, þessa muni með gjafabréfi 26. október 2007. Stefnda hafi neitað að láta munina af hendi og leiti því áfrýjandi með máli þessu viðurkenningar á að þeir tilheyri sér.

Ganga verður út frá þeirri reglu að líkur standi almennt til að sá, sem hefur lausafjármuni í vörslum sínum og fer með þá eins og þeir tilheyri sér, sé jafnframt réttur eigandi þeirra. Óumdeilt er að móðir áfrýjanda fór um langt árabil með vörslur munanna, sem málið varðar, og verður ekki annað ráðið af þeirri ráðstöfun hennar, sem fólst í gjafabréfinu 26. október 2007, en að hún hafi talið sig eiga þá. Hvílir á áfrýjanda að hnekkja þeim líkum fyrir eignarrétti, sem leiddar verða samkvæmt áðursögðu af þessum aðstæðum. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður ekki litið svo á að áfrýjandi hafi fært fram nægar sönnur til þess að það hafi tekist. Hinn áfrýjaði dómur verður því staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Kristbjörg Helga Guðlaugsdóttir, greiði stefndu, Kristínu Valdimarsdóttur, 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Austurlands þriðjudaginn 21. júní 2016

                Mál þetta, sem tekið var til dóms 26. apríl 2016, höfðaði stefnandi, Kristbjörg Helga Guðlaugsdóttir, Öldugötu 42, Hafnarfirði, hinn 13. október 2015 gegn stefndu, Kristínu Valdimarsdóttur, Hafnarbraut 28, Höfn í Hornafirði.

                Stefnandi krefst þess að viðurkenndur verði með dómi eignarréttur hennar að íslenskum þjóðbúningi, upphlut, áður í eigu Ingibjargar heitinnar Kristinsdóttur, Skarði á Skarðsströnd, sem er í vörslu stefndu. Upphlutur þessi samanstendur af boðunga [sic] með gullhúðuðum millum, millureim, millunál, skrauti úr vírborðum á boðunganum [sic], pilsi, svuntu, blússu, gylltri brjóstnælu, gylltum ermahnöppum, gylltum svuntuhnöppum, gylltu stjörnubelti og skotthúfu með gylltum hnakkaprjónum og skúfhólki. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

      Stefnda krefst sýknu af kröfum stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar.

I

                Aðilar máls þessa eru uppeldissystur og er stefnda jafnframt móðursystir stefnanda. Deila þeirra stendur um eignarrétt að íslenskum þjóðbúningi, upphlut. Málsatvik eru umdeild og er tekið fram í greinargerð stefndu að málavöxtum, eins og þeim er lýst í stefnu, sé mótmælt að öllu leyti. Verður málsatvikum og helstu ágreiningsefnum hér lýst samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eftir því sem unnt er, jafnframt því sem stuðst verður við málavaxtalýsingar hvors aðila fyrir sig.

                Móðir stefnanda, Ingibjörg Valdimarsdóttir heitin, sem jafnframt var systir og fósturmóðir stefndu, mun hafa verið fædd árið 1925 en lést 26. janúar 2013. Óumdeilt er að hún hafði um áratugaskeið í sínum vörslum og nýtti sem hátíðabúning umræddan upphlut, sem nú er í vörslu stefndu. Liggja fyrir nokkrar ljósmyndir af Ingibjörgu heitinni í upphlut sem teknar hafa verið við ýmis tækifæri, sú fyrsta á árinu 1947. Umdeilt er þó hvort um einn og sama upphlutinn er að ræða á öllum ljósmyndunum. Stefnandi heldur því fram að sá upphlutur sem sést á tveimur ljósmyndum frá árunum 1950 og 1951 sé ekki sá sami og sést á myndum sem teknar voru 1966 eða síðar og sem móðir hennar skrýddist allt fram á efri ár, heldur sé á yngri myndunum um að ræða upphlut sem henni sjálfri hafi verið gefinn er hún var barn að aldri, en sem móður hennar hafi verið falið að varðveita uns hún yrði fullorðin. Stefnda heldur því aftur á móti fram að fósturmóðir hennar hafi alla tíð átt sama upphlutinn með tilheyrandi skarti, sem henni hafi áskotnast frá ömmu sinni, Jóhönnu Bæringsdóttur, og fyrst klæðst við fermingu sína. Í aðilaskýrslu hennar fyrir dómi kom þó fram að stjörnubeltið hafi Ingibjörg heitin keypt löngu síðar.

                 Í málinu liggur fyrir gjafabréf, dags. 26. október 2007, undirritað af Ingibjörgu heitinni Valdimarsdóttur, þar sem fram kemur að hún gefi systur sinni og uppeldisdóttur, stefndu þessa máls, „íslenska búning minn, upphlut, með öllu sem honum fylgir, þ.m.t. stjörnubelti“. Kemur þar fram að hún hafi þegar afhent stefndu búninginn. Skjalið ber með sér að vera samið af Tryggva Agnarssyni héraðsdómslögmanni, sem vottar jafnframt skjalið ásamt Þórarni Ásgeiri Samúelssyni.

                Stefnandi lýsir málavöxtum nánar svo í stefnu að hún hafi fengið upphlut að gjöf frá uppeldissystur föður síns, Ingibjörgu Kristinsdóttur á Skarði á Skarðsströnd í Dalabyggð, þegar hún var barn að aldri. Ingibjörg Kristinsdóttir hafi erft upphlutinn eftir Helgu Guðmundsdóttur sem hafi verið vinnukona á bænum Skarði. Nánar tiltekið hafi gjöfin samanstaðið af boðungum með gullhúðuðum millum, millureim, millunál, skrauti úr vírborðum á boðungunum, gylltri brjóstnælu, gylltum ermahnöppum, gylltum svuntuhnöppum, gylltu stjörnubelti og skotthúfu með gylltum hnakkaprjónum og skúfhólki. Pils, svunta og blússa hafi ekki fylgt með þar sem þeir hlutar upphlutarins hafi verið orðnir slitnir. Áætlar stefnandi að verðmæti upphlutarins sé nærri einni milljón króna.

                Er gjafagerningur þessi átti sér stað hafi stefnandi verið stödd ásamt föður sínum að Skarði á Skarðsströnd hjá þeim Ingibjörgu Kristinsdóttur og manni hennar, Jóni. Svanhildur Theódóra Valdimarsdóttir, móðursystir stefnanda, hafi verið í heimsókn á Skarði á sama tíma en hún hafi þá verið tvítug að aldri. Svanhildur hafi alist upp á bænum Á sem sé rétt hjá bænum Skarði. Kveður stefnandi að Svanhildur hafi verið viðstödd er Ingibjörg Kristinsdóttir gaf og afhenti stefnanda umræddan upphlut. Svanhildur hafi tekið nokkrar ljósmyndir þennan dag.

                Stefnandi hafi einungis verið fjögurra ára gömul er hún fékk upphlutinn að gjöf en upphluturinn sé á fullvaxta konu. Vegna ungs aldurs stefnanda hafi móður hennar, Ingibjörgu Valdimarsdóttur, sem jafnframt sé systir og uppeldismóðir stefndu, verið falið að varðveita upphlutinn og lagfæra hann lítillega gegn því að fá að nota hann. Ingibjörg Valdimarsdóttir hafi þannig verið vörsluaðili upphlutarins og hafi jafnframt haft afnotarétt af honum þar til stefnandi yrði fullvaxta gegn því að halda honum við og afhenda stefnanda hann fullbúinn og óskemmdan.

                Stefnandi kveðst framan af, eftir að hún varð fullvaxta, ekki hafa gert athugasemdir við að móðir hennar héldi vörslum upphlutarins, en er hún fór að telja sig þurfa á upphlutnum að halda hafi hún ítrekað en árangurslaust beðið móður sína um að fá upphlutinn afhentan. Móður hennar hafi ekki fundist það tímabært þar sem hún væri enn að nota hann, en hafi sýnt stefnanda upphlutinn á árinu 2006 til að fullvissa hana um hve vel hún geymdi hann og hversu vel hans væri gætt. Á þessum tíma hafi það ætíð verið sameiginlegur skilningur stefnanda og móður hennar að stefnandi ætti upphlutinn en að móðir hennar hefði vörslur hans.

                Þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir stefnanda í fjölmörg ár um að fá upphlutinn afhentan, hafi móðir stefnanda ekki látið undan og hafi ávallt neitað að afhenda hann.

                Stefnandi hefur lagt fram afrit bréfs, sem hún kveðst hafa sent móður sinni með ábyrgðarpósti 20. janúar 2010, þar sem hún óskar eftir að „fá afhenda [sic] persónulega muni mína sem mér hafa verið gefnir og eru í þinni vörslu“, þar á meðal „íslenska búninginn sem þú hefur haft til afnota, líklegast tímabært að ég skarti honum sjálf, er 1 barnabarn mitt verður fermt nú í sumar“. Kveður stefnandi móður sína ekki hafa svarað þessu bréfi, en að einn þeirra muna sem hún óskaði eftir, ljóðasafn, hafi verið afhentur henni í fermingarveislu barnabarns hennar í júní 2010.

                Eftir andlát móður sinnar kveðst stefnandi hafa spurst fyrir um upphlutinn, en bróðir hennar, Jóhannes Kr. Guðlaugsson, hafi greint henni frá því að upphluturinn væri ekki í dánarbúinu. Kveður stefnandi að móðir hennar hafi í óspurðum fréttum sagt Jóhannesi þá sögu að hún hefði selt upphlutinn því að stefnandi skuldaði henni peninga. Sömu sögu hafi hún sagt Jóni Guðlaugssyni, bróður stefnanda, og konu hans, Öldu Særósu Þórðardóttur. Þegar móðir stefnanda hafi verið innt eftir svörum við því hverjum hún hefði selt upphlutinn hafi hún ekki viljað gefa það upp en móðir stefnanda hafi, sem vörsluaðili upphlutarins, ekki haft heimild eiganda upphlutarins, stefnanda, til þess að selja upphlutinn. Þá hafi stefnandi fyrir margt löngu verið búinn að gera upp við móður sína þá skuld sem hún hafi vísað til. Stefnandi telji að þessa sögu hafi móðir hennar spunnið upp eftir að stefnandi sendi henni fyrrnefnt ábyrgðarbréf þar sem stefnandi krafðist þess að fá upphlutinn afhentan. Saga móður stefnanda um sölu upphlutarins hafi verið aðferð hennar til að fela hvernig hún hafi sem vörsluaðili upphlutarins ráðstafað honum til stefndu með gjafabréfi, dags. 26. október 2007. Það hafi verið fyrst eftir andlát móður stefnanda sem stefnandi hafi fengið vitneskju um fyrrnefnt gjafabréf um upphlutinn.

                Stefnandi kveður öll systkini stefnanda, og þar á meðal uppeldissystur hennar, stefndu, vita um hið rétta eignarhald á upphlutnum sem móðir stefnanda hafi haft í vörslum sínum og hafi skartað við flest hátíðleg tækifæri, enda hafi móðir stefnanda staðfest það, ef hún hafi verið innt eftir því, að stefnandi ætti upphlutinn. Móðir stefnanda hafi auk þess greint þremur elstu börnum stefnanda frá hinu rétta um eignarhaldið. Jafnframt hafi fjölmargir ættingjar stefnanda vitað þetta, þar á meðal flestöll systkini móður stefnanda.

                Stefnandi kveðst aldrei hafa afsalað sér þessari eign sinni og fullyrðir að stefnda hafi tekið við upphlutnum úr höndum systur sinnar og móður stefnanda þrátt fyrir vitneskju um eignarhald stefnanda á upphlutnum.

                Stefnda lýsir málsatvikum aftur á móti svo að umræddur upphlutur hafi verið í eigu systur sinnar og fósturmóður, Ingibjargar heitinnar Valdimarsdóttur, sem hafi fengið upphlutinn að gjöf frá ömmu sinni, Jóhönnu Bæringsdóttur, sem lést árið 1943. Ingibjörg Valdimarsdóttir hafi notaði upphlutinn mikið alla sína ævi og séu til margar ljósmyndir af henni þar sem hún klæðist upphlutnum.

                Stefnda mótmælir fullyrðingu stefnanda um að hún hafi fengið umræddan upphlut að gjöf er hún var fjögurra ára gömul. Fullyrðingin sé ósönn og ekki studd neinum gögnum. Bendir stefnda á að staðhæfing stefnanda um vitnisburð Svanhildar Theódóru standist ekki í ljósi þeirrar staðreyndar að Ingibjörg hafi borið upphlutinn á fermingardegi Svanhildar, ári áður en stefnandi fæddist.

                Fullyrðingu stefnanda þess efnis að Ingibjörg móðir hennar hafi eingöngu haft afnotarétt af upphlutnum og að henni hafi borið að afhenda stefnanda búninginn er hún varð fullvaxta, sé jafnframt mótmælt sem ósannri og órökstuddri. Stefnda bendir á að stefnandi hafi orðið fullvaxta og lögráða árið 1970. Frá þeim tíma og allt þar til árið 2007 er Ingibjörg ráðstafaði upphlutnum til stefndu með gjafabréfi, sé ekkert fram komið sem beri brigður á eignarrétt Ingibjargar að upphlutnum eða sem bendi til þess að Ingibjörg hafi ekki talið sig réttan eiganda að upphlutnum.

                Ekki sé hægt að fullyrða um það hvort Ingibjörg hafi gefið í skyn við dóttur sína, stefnanda þessa máls, að hún hafi ætlað sér að arfleiða hana að upphlutnum. Hins vegar sé ljóst að samkomulag mæðgnanna hafi ekki verið gott á síðustu árum Ingibjargar og hafi þær mæðgur ekkert samband haft í fleiri ár áður en Ingibjörg lést. Sé ljóst af umræddu gjafabréfi að vilji Ingibjargar heitinnar hafi staðið til þess að stefnda fengi upphlutinn og hafi hún gert til þess sérstakar ráðstafanir. Ingibjörg hafði fram á dánardag haft fullan ráðstöfunarrétt yfir eignum sínum.

II

                Stefnandi kveðst byggja kröfu sína um viðurkenningu eignarréttar á nefndum upphlut aðallega á því að hún hafi fengið upphlutinn að gjöf er hún var barn að aldri. Um þetta viti margir í fjölskyldunni og þar á meðal stefnda. Þá hafi móðursystir stefnanda, Svanhildur Theódóra Valdimarsdóttir, verið viðstödd er stefnandi fékk upphlutinn að gjöf frá Ingibjörgu Kristinsdóttur. Stefnandi muni undir rekstri málsins fullnægja sönnunarskyldu um að hún eigi upphlutinn og því beri að snúa sönnunarbyrðinni við og leggja hana á stefndu. Það hvíli þannig á stefndu að sanna með hvaða hætti hún telji sig eiga tilkall til upphlutarins.

                Stefnandi eigi beinan eignarrétt að upphlutnum, en eignarréttur sé friðhelgur og stjórnarskrárvarinn, sbr. 72. gr. laga nr. 33/1944 um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Eignarréttur verði ekki rofinn með því að vörsluaðili eignar selji hann eða gefi. Við slíkar ráðstafanir færist aðeins vörslurnar frá einum aðila til annars, en ætíð sé unnt að brigða eign sem komist hefur að óvilja eiganda í annarra hendur. Skipti þá engu máli þótt móttakandinn hafi verið grandlaus um eignarhaldið. Hann vinni aldrei rétt með þessum hætti. Þá sé auk þess ljóst að vörsluaðili upphlutarins, móðir stefnanda, sem haft hafi hann að láni, hafi aldrei getað hefðað upphlutinn að réttum lögum. Meint eignarhald stefndu um skamman tíma geti heldur ekki stofnað hefðarrétt, þar sem hún leiði rétt sinn frá móður stefnanda, auk þess sem meint eignarhald hennar sé mjög stutt.

                Móðir stefnanda hafi ekki haft heimild stefnanda til að ráðstafa upphlutnum til stefndu til eignar, heldur einungis heimild til að nota upphlutinn þangað til stefnandi yrði fullvaxta. Stefnda hafi tekið við upphlutnum að gjöf, vitandi um fullkomna vanheimild gefandans. Á grundvelli meginreglna eignar- og fjármunaréttarins geti stefnda ekki öðlast meiri rétt en gefandi upphlutarins átti. Stefnda öðlist þar af leiðandi engan þann rétt sem henni hafi verið heitið í gjafabréfi dags. 26. október 2007, enda sé stefnandi eigandi upphlutarins og móður hennar hafi skort heimild til að standa að þeirri ráðstöfun að gefa upphlutinn með fyrrnefndu gjafabréfi til stefndu. Móðir stefnanda og systir hennar, stefnda, hafi báðar vitað hið rétta um eignarhaldið á upphlutnum.

                Stefnandi telji að vegna þeirra gagna og upplýsinga um eignarhald upphlutarins sem staðfesti að stefnandi hafi fengið upphlutinn að gjöf og sé eigandi hans, en stefnandi hyggist jafnframt leiða vitni því til sönnunar, standi það nú stefndu nær að sanna með hvaða hætti hún telji sig eiga tilkall til upphlutarins. Þótt stefnda hafi fyrrnefnt gjafabréf í höndum sé það ekki einhlít sönnun eignarréttar, leiði framborin sönnunargögn og vitnisburður annað í ljós, en í einkamálaréttarfari gildir reglan um frjálst sönnunarmat dómenda.

                Um lagarök er í stefnu vísað til meginreglna eignar- og fjármunaréttarins og 72. gr. laga nr. 33/1944 um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Þá vísar stefnandi til ákvæða laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 2. mgr. 25. gr. laganna varðandi tilhögun kröfugerðar, svo og til almennra reglna einkamálaréttarfars um sönnun og sönnunarbyrði, auk 2. mgr. 48. gr. og 2. mgr. 50. gr. laganna. Jafnframt vísar stefnandi til ákvæða laga nr. 46/1905 um hefð, einkum 3. mgr. 2. gr. laganna. Varðandi kröfu um málskostnað vísar stefnandi til 130. gr., sbr. 129. gr., laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefndu.

III

                Stefnda kveðst byggja sýknukröfu sína á því að hún sé réttur eigandi að hinum tilgreinda upphlut. Það sé meginregla eignarréttar að sá sem telji sig eiga eignarrétt að hlut beri sönnunarbyrði fyrir því og skorti stefnanda því lagaskilyrði fyrir kröfu sinni.                 Ekkert sé fram komið í málinu sem beri brigður á eignarrétt Ingibjargar Valdimarsdóttur og heimild hennar til að ráðstafa upphlutnum með gjafagerningi til stefndu. Vitnisburðir, þar á meðal Svanhildar Theódóru Valdimarsdóttur, um atburði fyrir áratugum síðan hljóti að teljast óáreiðanlegir.

                Verði því ekki byggt á slíkum vitnisburði þegar fyrir liggi að Ingibjörg heitin hafi farið með beinan eignarrétt að upphlutnum frá því að hún fékk hann sjálf að gjöf. Vitnisburðir bróður stefnanda, Jóhannesar Kristjáns Guðlaugssonar og móðurbróður stefnanda, Jóns Þorbergs Valdimarssonar, séu til marks um að upphluturinn hafi réttilega verið eign Ingibjargar heitinnar og að hún hafi fengið hann í fermingargjöf. Það sé því ekki rétt sem fram komi í stefnu að margir í fjölskyldunni viti að eignarhald  hans sé með þeim hætti sem stefnandi hafi haldið fram. Bresti stefnanda því sönnun fyrir því að hún hafi átt upphlutinn, en ekki móðir hennar, Ingibjörg Valdimarsdóttir.

                Stefnanda bresti að sama skapi skilyrði fyrir kröfu sinni að því leyti að hún hafi ekkert aðhafst frá þeim tíma sem þeir atburðir áttu að hafa gerst sem hún byggi kröfu sína á uns móðir hennar lést. Hafi hún átt einhverja kröfu árið 1970 þá sé hún niður fallin fyrir tómlæti.

                Stefnda byggi eignarrétt sinn á umræddum upphlut á gjafabréfi frá systur sinni og fósturmóður, Ingibjörgu Valdimarsdóttur, sem átt hafi beinan eignarrétt og ráðstöfunarrétt yfir upphlutnum. Eignarréttur Ingibjargar hafi ekki stofnast fyrir hefð, heldur hafi henni verið gefinn upphluturinn. Verði eignarréttur, sem sé stjórnarskrárvarinn grundvallarréttur, ekki vefengdur með órökstuddum söguburði og því síður væntingum stefnanda um að hljóta upphlutinn í arf.

                Um lagarök vísar stefnda til  meginreglna eignar-  og fjármunaréttar og 72. gr. laga nr. 33/1944 um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Krafa um málskostnað byggist á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 130. gr. laganna. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun byggist á lögum nr. 50/1988. Stefnda sé ekki virðisaukaskattsskyldur aðili og sé henni því nauðsyn að fá skattinn tildæmdan úr hendi stefnanda.

IV

Niðurstaða

                Við aðalmeðferð málsins gáfu stefnandi og stefnda aðilaskýrslu. Auk þess gáfu skýrslu eftirfarandi vitni sem öll eru systkini og/eða hálfsystkini bæði stefndu og Ingibjargar Valdimarsdóttur, móður stefnanda: Svanhildur Theódóra Valdimarsdóttir, Elín Jónasdóttir, Lilja Guðmundína Valdimarsdóttir, Ingvar Einar Valdimarsson og Jón Þorbergur Valdimarsson. Þá gáfu skýrslu sem vitni Jóhannes Kristján Guðlaugsson, bróðir stefnanda og fósturbróðir stefndu, og Alda Særós Þórðardóttir, mágkona stefnanda.

                Í máli þessu er deilt um eignarrétt að lausafé, nánar tiltekið íslenskum þjóðbúningi eða upphlut. Óumdeilt er að upphlut þennan hafði Ingibjörg heitin Valdimarsdóttir, móðir stefnanda og systir og fósturmóðir stefndu, í vörslum sínum óslitið um áratugaskeið og bar hann við hátíðleg tækifæri. Þá liggur fyrir að Ingibjörg heitin ráðstafaði upphlutnum til stefndu með gjafabréfi á árinu 2007 og hefur hann verið í vörslum stefndu frá sama leyti. Er þannig ótvírætt að vilji Ingibjargar heitinnar stóð til þess að stefnda fengi upphlutinn og er ekki um það deilt að hún var bær til að ráðstafa eigum sínum í lifanda lífi, einungis er deilt um það hvort upphluturinn var í hennar eigu er hún gaf hann, sem er forsenda þess að ráðstöfunin hafi verið henni heimil.

                Stefnandi styður kröfu sína um viðurkenningu eignarréttar hennar að upphlutnum fyrst og fremst við framburð vitna og að nokkru við ljósmyndir.

                Fyrir dómi bar Svanhildur Theódóra um að hafa verið á bænum Skarði þann dag sem hún taldi að stefnanda hafi verið gefinn upphluturinn. Kvaðst hún þó ekki hafa verið viðstödd er gjöfin var gefin, gagnstætt því sem haldið er fram í stefnu, en bar um að gefandinn, Ingibjörg Kristinsdóttir á Skarði, hafi sagt sér frá því nokkru fyrr að hún ætlaði að gefa stefnanda, sem þá var á barnsaldri, upphlut sem hún hefði eignast frá Helgu Guðmundsdóttur. Vitnið sagði að umræddur upphlutur sem Helga átti hafi verið „ofboðslega fallegur og flottur“ en hún kvaðst ekki treysta sér til að segja til um það hvort um sama upphlut sé að ræða og þann sem deilt er um í þessu máli og óumdeilt er að sést á ljósmyndum af móður stefndanda í upphlut sem teknar voru 1966 eða síðar, en þær ljósmyndir voru bornar undir vitnið fyrir dómi.

                Ingvar Einar Valdimarsson, bróðir Ingibjargar Valdimarsdóttur heitinnar, kvaðst fyrir dómi alinn upp á næsta bæ við Skarð. Hann bar um að sveitungi hans, Ingibjörg Kristinsdóttir á Skarði, hafi sagt honum frá því að hún hefði gefið stefnanda barnungri mjög fallegan upphlut, sem kominn var frá Helgu, vinnukonu á Skarði. Hann kvaðst telja Ingibjörgu hafa sagt sér þetta um viku síðar, og að hún hafi sagt fleirum frá gjöfinni, enda hafi þetta verið umtalað á næstu bæjum. Hann kvað ekki mikinn samgang hafa verið milli hans og systur hans, Ingibjargar Valdimarsdóttur heitinnar, og ekki minnast þess að hún hafi gengið í upphlut. Gat hann þannig ekki borið um það hvort upphlutur sá sem systir hans bar sem hátíðarbúning um áratuga skeið hafi verið sá sami upphlutur og Helga átti áður.

                Þá báru vitnin Elín Jónasdóttir og  Lilja Valdimarsdóttir um að hafa heyrt um það rætt innan fjölskyldunnar að stefnandi hefði barnung fengið upphlut að gjöf.  Kvað Elín að móður sinni og Ingibjargar Valdimarsdóttur heitinnar, Ingigerði Sigurbrandsdóttur, hafi orðið tíðrætt um það hvers vegna Ingibjörg heitin skilaði ekki dóttur sinni, stefnanda, upphlutnum.

                Alda Særós Þórðardóttir, mágkona stefnanda, bar um að Ingibjörg heitin, móðir stefnanda, hafi eitt sinn í kvöldverðarboði nefnt að stefnandi hefði sent sér ábyrgðarbréf þar sem hún krafði móður sína m.a. um upphlut. Hafi Ingibjörg heitin skýrt svo frá að hún hefði selt upphlutinn upp í skuld stefnanda við sig, en hún hafi ekki viljað svara því hverjum hún hefði selt upphlutinn. Aðspurð hvort hún hefði heyrt af því að stefnandi hefði fengið upphlut að gjöf er hún var barn að aldri, kvaðst vitnið einungis hafa heyrt af því frá stefnanda sjálfri. 

                Önnur vitni sem gáfu skýrslu fyrir dómi styðja fremur staðhæfingu stefndu um að upphluturinn sem Ingibjörg heitin notaði sem sinn helsta hátíðabúning um áratuga skeið hafi verið hennar eign frá fermingu. Á þann veg bar bróðir Ingibjargar heitinnar, Jón Þorbergur Valdimarsson, og einnig Jóhannes Kristján Guðlaugsson, bróðir stefnanda, sem kvaðst aldrei hafa heyrt af öðru en að móðir þeirra ætti upphlutinn sem hún gekk í alla tíð. Tók hann undir staðhæfingar stefndu um að Ingibjörg heitin hafi fengið upphlutinn frá ömmu sinni, Jóhönnu Bæringsdóttur, og að stjörnubelti sem hún bar við hann í seinni tíð hafi hún keypt af Ingibjörgu á Skarði. Kvaðst hann telja móður sína hafa sagt þá sögu er hún sagði í seinni tíð, að hún hefði selt upphlutinn, til þess að fá frið fyrir stefnanda, sem hafi löngum falast eftir því að fá upphlutinn að gjöf. Hann kvað stefnanda hafa komið þannig fram við móður sína síðustu árin að ósamkomulag hafi ríkt milli þeirra.

                Samkvæmt framanrituðu er framburður vitna ekki einhlítur. Við mat á framburði þeirra vitna sem gáfu skýrslu fyrir dómi er til þess að líta að þau tengjast öll aðilum máls þessa fjölskylduböndum, flest báðum þeirra.

                Dómurinn telur hvorki verða ráðið af þeim ljósmyndum sem lagðar hafa verið fram í málinu, né heldur af frumritum sumra þeirra sem sýnd voru í réttinum við aðalmeðferð málsins, hvort um einn og sama upphlutinn sé að ræða sem Ingibjörg heitin Valdimarsdóttir bar á ljósmyndum frá 1950 og 1951 og á ljósmyndum sem teknar voru 1966 eða síðar, eða hvort um sinn upphlutinn hvorn sé að ræða. Þó má greina þann mun að belti er ekki að sjá á eldri myndunum. Á því hefur stefnda gefið skýringu, sem studd er framburði Jóhannesar Kristjáns, sem kveðst hafa verið um 11 ára gamall er móðir hans keypti beltið af Ingibjörgu frá Skarði. Hefur stefnandi ekki leitast sérstaklega við að hrekja þá skýringu. 

                Þótt stefnandi hafi með framburði vitna rennt nokkrum stoðum undir það að Ingibjörg á Skarði kunni að hafa gefið henni upphlut er hún var barn að aldri, er það mat dómsins að stefnanda hafi ekki, með þeim sönnunargögnum sem færð hafa verið fram í málinu, lánast að rísa undir þeirri sönnunarbyrði sem á henni hvílir fyrir þeirri staðhæfingu að sá upphlutur sem móðir hennar hafði óslitið í sínum vörslum og gekk í um árabil, og sem hún ráðstafaði með gjafagerningi til stefndu á árinu 2007, hafi ekki verið eign hennar heldur eign stefnanda. Hefur stefnandi hvorki leitt nægar líkur að því að um þann sama upphlut sé að ræða og Helga Guðmundsdóttir, vinnukona á Skarði, átti og síðar Ingibjörg Kristinsdóttir á Skarði, né er nægilega upplýst hvað fólst þá í þeim gerningi er upphluturinn komst í vörslur móður stefnanda, hafi á annað borð verið um þann sama upphlut að ræða. Telur dómurinn ekki verða litið fram hjá því að um 60 ár eru liðin frá þeim gjafagerningi sem stefnandi byggir á að hafi átt sér stað er hún var barn að aldri og hún man sjálf ekki eftir. Þá hefur ekkert vitnanna getað borið um þann gerning og efni hans, að öðru leyti en af afspurn.

                Ennfremur verður ekki litið fram hjá hinum skýra vilja vörsluhafa upphlutarins um árabil sem kemur bæði fram í gjafabréfi hennar til stefndu frá árinu 2007 og í þeirri lýsingu stefnanda sjálfrar að móðir hennar hafi neitað að afhenda henni upphlutinn og sjálf notað hann, þrátt fyrir ítrekaða beiðni stefnanda um árabil um að fá afhentan upphlutinn. Þannig styður það sem fyrir liggur um afstöðu móður stefnanda, sem nú er látin og því ekki til frásagnar, fremur að hún sjálf hafi talið til eignar yfir upphlutnum heldur en hitt. Umfjöllun sem birtist í tímaritsviðtali við Ingibjörgu heitna um klæðnað hennar við fermingu hefur enga afgerandi þýðingu til sönnunar um kröfu stefnanda.

                Samkvæmt öllu framanrituðu hefur stefnanda ekki lánast að færa viðhlítandi sönnur fyrir staðhæfingu sinni um eignarhald sitt á téðum upphlut og fylgihlutum hans. Ber því að sýkna stefndu af viðurkenningarkröfu stefnanda í máli þessu.

                Af framangreindum rökstuðningi leiðir að ekki gerist þörf á að taka sérstaka afstöðu til þess hluta dómkröfunnar sem lýtur að pilsi, svuntu og blússu, sem viðurkennt er í stefnu að hafi ekki verið hluti af þeirri gjöf sem stefnandi byggir á að hún hafi hlotið, en það athugist að engar málsástæður hafa verið hafðar uppi til stuðnings kröfu um viðurkenningu eignarréttar að þessum munum sérstaklega.

                Með hliðsjón af atvikum öllum, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af máli þessu. 

                Af hálfu stefnanda flutti mál þetta Betzý Ósk Hilmarsdóttir hdl., sem tók við málinu af Birni Ólafi Hallgrímssyni hrl. við aðalmeðferð þess. Af hálfu stefndu flutti málið Margrét Gunnlaugsdóttir hrl.

                Hildur Briem héraðsdómari kveður upp dóm þennan, að gættu ákvæði 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. Voru lögmenn aðila og dómari sammála um að ekki væri þörf á endurflutningi málsins þrátt fyrir þann drátt sem varð á dómsuppsögu fram yfir lögbundinn frest, sem helgaðist af embættisönnum dómarans og hátíðisdögum.

Dómsorð:

                Stefnda, Kristín Valdimarsdóttir, er sýkn af dómkröfum stefnanda, Kristbjargar Helgu Guðlaugsdóttur, í máli þessu.

                Málskostnaður milli aðila fellur niður.