Print

Mál nr. 102/2017

Lögreglustjórinn á Suðurlandi (enginn)
gegn
X (Heimir Örn Herbertsson hrl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Kæruheimild
  • Frávísun frá Hæstarétti
Reifun
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu X um að frestað yrði framkvæmd ökuréttarsviptingar sem henni hafði verið gerð. Þar sem heimild brast til kæru úrskurðarins var málinu vísað frá Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Davíð Þór Björgvinsson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. febrúar 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 7. febrúar 2017, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að frestað verði framkvæmd ökuréttarsviptingar sem henni var gerð með dómi Héraðsdóms Suðurlands [...]. júní 2016 þar til „fyrir liggur niðurstaða vegna áfrýjunar málsins til Hæstaréttar Íslands, í máli nr. [...]/2016.“ Varnaraðili krefst þess að framangreind krafa sín verði tekin til greina.

Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Í 104. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 segir að áfrýjun dóms, þar sem kveðið er á um sviptingu ökuréttar, fresti ekki verkun hans að því leyti. Ennfremur segir að dómari geti ákveðið með úrskurði að áfrýjun fresti framkvæmd sviptingar ef sérstaklega stendur á. 

Varnaraðili leiðir rétt sinn til að kæra úrskurð héraðsdóms til Hæstaréttar af 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, þar sem um sé að ræða hluta af rétti hennar til úrlausnar dómstóla um mikilsverð réttindi sín og þar með til réttlátrar málsmeðferðar. Með framangreindum úrskurði hefur héraðsdómur tekið afstöðu til kröfu varnaraðila. Réttur varnaraðila til að kæra þann úrskurð til æðra dóms verður ekki leiddur beint af framangreindum ákvæðum stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu, heldur þarf til þess lagaheimild. Slíka heimild er ekki að finna í 2. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála eða öðrum lögum. Máli þessu verður því vísað frá Hæstarétti.

                                                         Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 7. febrúar 2017.

Með bréfi dagsettu 19. desember 2016, sem barst dóminum sama dag, krafðist sóknaraðili, X, kt. [...], [...], þess að með úrskurði verði frestað framkvæmd ökuréttarsviptingar sem henni var gerð með dómi Héraðsdóms Suðurlands uppkveðnum [...]. júní 2016 í málinu nr. S-[...].

Af hálfu varnaraðila, Lögreglustjórans á Suðurlandi, er þess krafist að kröfu sóknaraðila verði hafnað.

Málið var þingfest 9. janúar 2017 og fór fram munnlegur málflutningur í því 13. janúar 2017 og var málið tekið til úrskurðar að honum loknum.

Málavextir

Með ákæru Lögreglustjórans á Suðurlandi, dags. 30. nóvember 2015, var höfðað sakamál gegn sóknaraðila og Y þannig:

  „fyrir hegningar- og umferðarlagabrot

I.

gegn ákærðu X með því að hafa skömmu fyrir hádegi miðvikudaginn 26. nóvember 2014 ekið bifreiðinni [...] vestur Suðurlandsveg við Hveradali í sveitarfélaginu Ölfusi án þess að gæta nægilegrar aðgæslu og of hratt miðað við aðstæður þannig að ákærða hafði ekki fullt vald á bifreiðinni þar sem vegur var háll og krapi á veginum, auk þess sem bifreiðinni var einungis ekið í afturdrifi, á hjólum sem höfðu slæm áhrif á aksturseiginleika bifreiðarinnar vegna of mikils burðarþols þriggja hjólbarða af fjórum og vanbúin til vetraraksturs vegna ástands hjólbarða þar sem þeir voru án vetrarmynsturs sem veitti fullnægjandi viðnám, mynstur á slitflötum hjólbarðanna var ósambærilegt sökum misslits og mynstursdýpt hjólbarða hægra megin á framás var undir slitmörkum; allt með þeim afleiðingum að ákærða missti stjórn á bifreiðinni sem við það fór yfir á rangan vegarhelming og lenti fyrst á bifreiðinni [...], sem kom úr gagnstæðri átt, og síðan framan á bifreiðinni [...] sem var ekið á eftir bifreiðinni [...]; allt framangreint með þeim afleiðingum að ökumaður bifreiðarinnar [...], A, kt. [...], hlaut rifbeinsbrot, og B farþegi í sömu bifreið, kt. [...], hlaut brot á bringubeini og mörg brot á brjósthrygg.

Teljast brot ákærðu varða við 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og 1. mgr. 4. gr., 1. mgr. 14. gr., 1. mgr. sbr. h. lið 2. mgr. 36. gr., 1. mgr., sbr. 3. mgr. 59. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. gr. 16.00 (4), 16.02 (1), 16.01 (5) og 16.11 (1) reglugerðar nr. 822/2004, um gerð og búnað ökutækja, með áorðnum breytingum, sbr. 60. gr. nefndra laga; allt framangreint sbr. 1. mgr. 100. gr. nefndra umferðarlaga.

II.

gegn ákærða Y með því að hafa, á tímabili frá því nokkru fyrir miðvikudaginn 26. nóvember 2014 og fram til þess dags, sem skráður eigandi bifreiðarinnar [...], ekki gætt þess að bifreiðin væri í lögmæltu ástandi til aksturs vegna þess að bifreiðin var á hjólum sem höfðu slæm áhrif á aksturseiginleika bifreiðarinnar vegna of mikils burðarþols þriggja hjólbarða af fjórum og vanbúin til vetraraksturs vegna ástands hjólbarða þar sem þeir voru án vetrarmynsturs sem veitti fullnægjandi viðnám, mynstur á slitflötum hjólbarðanna var ósambærilegt sökum misslits, og mynstursdýpt á hjólbarða hægra megin á framás var undir slitmörkum.

Teljast brot ákærða varða við 1. mgr. sbr. 2. mgr. 59. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, 1. mgr., sbr. 2. mgr. 59. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, [sic] sbr. gr. 16.00 (4), 16.02 (1), 16.01 (5) og 16.11 (1) reglugerðar nr. 822/2004, um gerð og búnað ökutækja, með áorðnum breytingum, sbr. 60. gr. nefndra laga; allt framangreint sbr. 1. mgr. 100. gr. nefndra umferðarlaga.       

Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar og ákærða X til sviptingar ökuréttinda samkvæmt 101. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987[.]“

Var kveðinn upp dómur í málinu þann [...]. júní 2016 og var sóknaraðili sakfelld fyrir brot gegn gegn 1. mgr. 14. gr., 1. mgr., sbr. 2. mgr. h-liðar 36. gr., 1. mgr., sbr. 3. mgr. 59. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. grein 16.02 1. tölulið reglugerðar nr. 822/2004 um gerð og búnað ökutækja, og 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var sóknaraðili dæmd í 30 daga fangelsi, en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í 2 ár. Um kröfu ákæruvalds um ökuréttarsviptingu ákærðu sagði í dómi Héraðsdóms: „Að mati dómsins er skilyrði 1. mgr. 101. gr. umferðarlaga um mjög vítaverðan akstur uppfyllt, þar sem ákærða ók yfir fjallveg um vetrartíma á slitnum hjólbörðum án nægilegrar aðgæslu og of hratt miðað við akstursaðstæður. Samkvæmt 101. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, þykir því verða að svipta ákærðu ökurétti í þrjá mánuði frá birtingu dóms þessa að telja.“

Y var í dóminum gert að greiða 20.000 kr. fésekt til ríkissjóðs.

Sóknaraðili hefur áfrýjað framangreindum dómi til Hæstaréttar Íslands, en jafnframt hefur dóminum verið áfrýjað hvað varðar Y að fengnu áfrýjunarleyfi Hæstaréttar.

Fram hefur komið samkvæmt framlögðum tölvupóstum í málinu að þann 16. desember 2016 hafði dómurinn ekki verið birtur sóknaraðila og ökuréttarsviptingin því ekki tekið gildi.

Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að það sé meginregla laga að framkvæmd ákvarðana dómstóla um refsingar og önnur viðurlög frestist við áfrýjun máls til Hæstaréttar Íslands. Kveðst sóknaraðili hafa búist við því að ekki yrðið tekið til við framkvæmd ökuréttarsviptingar fyrr en að gengnum dómi Hæstaréttar í málinu.

Sóknaraðili vísar til 104. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 þar sem segir að dómari geti ákveðið með úrskurði, að áfrýjun fresti framkvæmd sviptingar, ef sérstaklega stendur á. Kveður sóknaraðili að í máli þessu standi sérstaklega á. Vísar sóknaraðili að því leyti til þess að Hæstiréttur Íslands hafi fallist á að veita áfrýjunarleyfi varðandi Y, en slíkt áfrýjunarleyfi verði ekki veitt nema því aðeins að uppfyllt séu skilyrði 2. mgr. 198. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála um að „úrslit málsins hafa verulegt almennt gildi eða varða mikilvæga hagsmuni ellegar ekki er útilokað samkvæmt fyrirliggjandi gögnum að dómi kunni að verða breytt svo að einhverju nemi.“ Kveður sóknaraðili að allar sömu röksemdir eigi við í máli sínu og Y og því hljóti að mega draga af veitingu áfrýjunarleyfisins þá ályktun að Hæstiréttur telji ekki útilokað samkvæmt fyrirliggjandi gögnum að dómi kunni að verða breytt svo að einhverju nemi, enda liggi ljóst fyrir að málið hafi ekki verulegt almennt gildi eða varði mikilvæga hagsmuni.

Þá kveður sóknaraðili að ökuréttarsvipting sóknaraðila byggi ekki á neinni háttsemi sem sjálfkrafa geti leitt til ökuréttarsviptingar, heldur á þeirri niðurstöðu héraðsdómara að hjólbarðar bifreiðarinnar hafi verið slitnir þótt ástand þeirra hafi ekki brotið gegn sérgreindum kröfum umferðarlaga eða reglum skv. þeim.

Þá hafi sóknaraðili hreina sakaskrá og engin ástæða sé til að ætla að hún muni valda hættu með akstri meðan á áfrýjun málsins stendur. Þá sé henni ökuréttarsviptingin sérlega þungbær vegna búsetu, atvinnuhátta og fjölskyldugerðar.

Forsendur og niðurstaða

Í 104. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 segir „Áfrýjun dóms, þar sem kveðið er á um sviptingu [ökuréttar], 1) frestar ekki verkun hans að því leyti. Þó getur dómari ákveðið með úrskurði, að áfrýjun fresti framkvæmd sviptingar, ef sérstaklega stendur á.“

Með framangreindum dómi Héraðsdóms Suðurlands, [...]. júní 2016, var sóknaraðili sviptur ökurétti eins og að framan greinir. Eru þar engar ráðagerðir um að fresta framkvæmd ökuréttarsviptingar.

Fyrir liggur að framangreindum dómi hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar Íslands, m.a. að fengnu áfrýjunarleyfi vegna Y.

Það er álit dómsins að niðurstaða framangreinds dóms og forsendur sem þar greinir um ökuréttarsviptingu sóknaraðila verði ekki endurskoðuð í þessu máli, sbr. meginreglu 2. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008. Þannig geti aðeins verið heimilt að fallast á kröfu sóknaraðila nú á grundvelli röksemda og atvika sem eru tilkomin eftir uppkvaðningu framangreinds dóms. Þannig verði niðurlagsákvæði 104. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 um að sérstaklega standi á, ekki skýrð þannig að með því lagaákvæði sé dómara þessa máls fengin heimild til að endurskoða hvort efni hafi verið til að fallast á kröfu ákæruvalds um ökuréttarsviptingu sóknaraðila.

Rétt er það að meginregla laga er sú að málskot til æðri dómstóls frestar framkvæmd ákvarðana lægra setts dómstóls. Hins vegar eru á því mikilsverðar undantekningar í lögum og er ein þeirra sú sem greinir í 104. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, en samkvæmt því ákvæði er það meginregla umferðarlaga að áfrýjun dóms þar sem kveðið er á um ökuréttarsviptingu frestar ekki framkvæmd sviptingarinnar.

Það er mat dómsins að veiting áfrýjunarleyfis vegna Y verði ekki túlkuð á þann veg að uppfyllt séu skilyrði 104. gr. umferðarlaga um að sérstaklega standi á og að af þeim sökum sé rétt að beita undantekningarreglu 104. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Þá verður ekki talið að röksemdir sóknaraðila sem lúta að búsetu, atvinnuháttum og fjölskyldugerð sóknaraðila geti breytt þessari niðurstöðu, en ekki hefur komið fram neitt um að þær forsendur og aðstæður séu breyttar frá því sem var þegar framangreindur dómur var upp kveðinn, en aðstæðurnar eru þær, skv. frásögn sóknaraðila, að hún býr með fjölskyldu sinni utan þéttbýlis þar sem ekki er kostur á almenningssamgöngum og þjónusta leigubifreiða ekki mikil. Hún sækir vinnu til [...] og sækja börn hennar skóla, íþrótta- og tómstundastarf á sama stað, en maki hennar sækir vinnu til Reykjavíkur og getur ekki hlaupið undir bagga.

Ekki verður heldur talið að röksemdir um hreint sakavottorð verði til þess að sérstaklega verði talið standa á í málinu.

Verður því hafnað kröfu sóknaraðila í máli þessu.

Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kröfu sóknaraðila, X, um að frestað verði framkvæmd ökuréttarsviptingar sem henni var gerð með dómi Héraðsdóms Suðurlands í málinu nr. S-[...]/2015, er hafnað.