Print

Mál nr. 300/2017

Ákæruvaldið (Fanney Björk Frostadóttir aðstoðarsaksóknari)
gegn
X (Oddgeir Einarsson hrl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
  • Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi
Reifun
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála var felldur úr gildi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. maí 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. maí 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á meðan áfrýjunarfrestur varir og eftir atvikum meðan mál hans sætir meðferð fyrir Hæstarétti, en þó eigi lengur en til fimmtudagsins 3. ágúst 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í b. lið 2. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðili hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 5. mars 2017 á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 vegna brots gegn 211. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eða 2. mgr. 218. gr. sömu laga samkvæmt dómum Hæstaréttar 7. mars 2017 í máli nr. 150/2017, 10. apríl 2017 í máli nr. 226/2017 og 8. maí 2017 í máli nr. 276/2017. Með síðastnefnda dóminum var varnaraðila gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til 26. maí 2017.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur [...]. maí 2017 var varnaraðili dæmdur til að sæta fangelsi í fjóra mánuði fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 lýkur gæsluvarðhaldi þegar héraðsdómur hefur verið kveðinn upp í málinu, en eftir kröfu ákæranda getur dómari þó úrskurðað að gæsluvarðhald skuli haldast meðan mál er til meðferðar fyrir Hæstarétti uns dómur er þar upp kveðinn. Varnaraðili hefur ekki sætt gæsluvarðhaldi vegna máls þess, sem lauk með fyrrgreindum héraðsdómi. Af þeim sökum brestur lagaskilyrði til að taka kröfu sóknaraðila til greina. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi, en það fær því þó ekki haggað sætir áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli dóms Hæstaréttar 8. maí 2017 í máli nr. 276/2017.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. maí 2017.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykja­víkur úrskurði að dómfellda, X, kt. [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, uns áfrýjunarfrestur varir og eftir atvikum á meðan mál X sætir meðferð fyrir Hæstarétti, þó eigi lengur en til fimmtu­dags­ins 3. ágúst nk., kl 16:00.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að [...] hafi verið kveðinn upp dómur yfir dóm­fellda X í Héraðsdómi Reykjavíkur og hann hlotið fangelsisrefsingu fyrir lík­ams­árás og brot gegn valdstjórninni, sbr. dóm héraðsdóms Reykjavíkur nr. [...]/2016. Dóm­felldi hafi lýst yfir áfrýjun og því sé dómurinn ekki fullnustuhæfur.

Dómfelldi hafi fram til dagsins í dag sætt gæsluvarðhald á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, vegna tilraunar til manndráps eða eftir atvikum alvarlega lík­ams­árás gegn A utan við Leifasjoppu við Iðufell í Reykja­vík aðfara­nótt sunnudagsins 5. mars sl., nú síðast með úrskurði Héraðsdóms Reykja­víkur frá 4. maí sl., sem var staðfestur 8. maí sl. með dómi Hæstaréttar nr. 276/2017. Málið verði sent Héraðssaksóknara fyrir helgi til þóknan­legrar með­ferðar.

Dómfelldi liggi samkvæmt þessu nú undir sterkum grun um brot sem geti varðað allt að 16 ára fangelsi með því að hafa ráðist á brotaþola með hníf og stungið hann í höfuðið. Sé ljóst að beiting vopnsins og staðsetning áverkans er lífs­hættu­leg og hafi dómfellda mátt vera það ljóst. Þá hafi dómfelldi [...] hlotið dóm fyrir lík­ams­árás og brot gegn valdstjórn sem bæði séu talin varða við ákvæði almennra hegn­ingar­laga. Með hliðsjón af framangreindu og með tilliti til almannahagsmuna sé það mat lög­reglu­stjóra að brot dómfellda sé þess eðlis að nauðsynlegt sé að tryggja að hann gangi ekki laus meðan mál hans er til meðferðar hjá ákæruvaldi og dómstólum.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. og 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Niðurstaða

                Dómfelldi, X, hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 5. mars sl. á grund­velli almannahagsmuna, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, vegna tilraunar til mann­dráps eða eftir atvikum alvar­lega lík­ams­árás gegn manni þann dag.

                [...] var dómfelldi sakfelldur fyrir meiriháttar líkamsárás 24. október 2015 gegn öðrum manni og brot gegn vald­stjórn­inni 22. febrúar 2016. Fyrir þessi tvö brot var honum gert að sæta fjög­urra mánaða fang­elsi. Hann lýsti því þá yfir að hann myndi áfrýja dóminum til Hæstaréttar. Því er ekki unnt að láta dóm­fellda hefja afplánun dómsins.

                Af því tilefni hefur lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu krafist þess, með vísan til þeirra brota sem dóm­felldi er grunaður um að hafa framið 5. mars síðast­lið­inn, að honum verði gert að sæta áframhaldandi gæslu­varðhaldi, á meðan áfrýjunar­frestur varir og eftir atvikum á meðan mál dómfellda er til meðferðar fyrir Hæstarétti, þó eigi lengur en til fimmtu­dagsins 3. ágúst nk., kl 16:00.

                Í ljósi rannsóknargagna og að teknu tilliti til dóms Hæstaréttar í máli nr. 276/2017 er á það fallist að dómfelldi sé undir sterkum grun um tilraun til manndráps eða stór­fellda líkamsárás, 5. mars sl., sbr. 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegn­ing­ar­laga, eða 2. mgr. 218. gr. sömu laga. Brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga getur varðað fang­elsi eigi skemur en í fimm ár eða ævilangt. Þá getur brot gegn 2. mgr. 218. gr. sömu laga varðað allt að 16 ára fangelsi. Það skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, að sterkur grunur leiki á að sakborningur hafi framið afbrot sem varðað getur 10 ára fang­elsi, er því fyrir hendi. Með vísan til eðlis brotsins og fyrrgreinds dóms Hæsta­réttar er einnig á það fallist að varðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almanna­hags­muna.

                Af þessum sökum verður fallist á þá kröfu sækjanda að dómfelldi sæti gæslu­varða­haldi á grund­velli heim­ildar í 2. mgr. 95. gr. svo og með vísan til 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008, um með­ferð saka­mála, eins og í úrskurðarorði greinir. Með vísan til dóms Hæsta­réttar í máli nr. 131/2017, þykir ekki efni til að marka gæslu­varð­hald­inu skemmri tíma, þrátt fyrir fyrirmæli 4. mgr. 95. gr. laganna.

Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Dómfelldi, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi á meðan áfrýjunar­frestur  dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-[...]/2016 varir og eftir atvikum á meðan það mál sætir meðferð fyrir Hæsta­rétti, þó eigi lengur en til fimmtu­dagsins 3. ágúst nk., kl 16:00.