Print

Mál nr. 361/2017

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Robert Downey (Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Lögmaður
Reifun
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem svipting réttinda R til að vera héraðsdómslögmaður var felld niður. Í dómi Hæstaréttar var meðal annars vísað til þess að liðin væru níu ár frá því að R hefði verið sviptur fyrrgreindum réttindum og að hann hefði öðlast óflekkað mannorð, sbr. 2. mgr. 85. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá hefði Á ekki sýnt fram á að varhugavert væri að R öðlaðist að nýju réttindi sín.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. júní 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 31. maí 2017, þar sem svipting réttinda varnaraðila til að vera héraðsdómslögmaður var felld niður. Kæruheimild er í w. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði var varnaraðili með dómi Hæstaréttar 15. maí 2008 í máli nr. 539/2007 sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn fjórum stúlkum og voru brotin talin varða við 3. og 4. mgr. 202. gr. og 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hlaut varnaraðili þriggja ára fangelsisrefsingu fyrir brotin og þá var hann sviptur réttindum til að vera héraðsdómslögmaður, sbr. 2. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga. Varnaraðili hóf afplánun refsingarinnar 6. febrúar 2009 og var veitt reynslulausn frá og með 2. febrúar 2011, en þá hafði hann lokið afplánun ⅔ hluta refsingarinnar. Hinn 16. september 2016 féllst forseti Íslands síðan á tillögu innanríkisráðherra um að varnaraðila yrði veitt uppreist æru og var varnaraðila tilkynnt sú niðurstaða með bréfi innanríkisráðuneytisins 27. sama mánaðar. Samkvæmt því hefur varnaraðili öðlast óflekkað mannorð, sbr. 2. mgr. 85. gr. almennra hegningarlaga.

Sú háttsemi varnaraðila, sem hann var sakfelldur fyrir með áðurnefndum dómi Hæstaréttar, varðaði ekki störf hans sem lögmanns, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, og eiga ákvæði 2. mgr. 16. gr. laganna því ekki við í máli þessu.

Brot varnaraðila voru stórfelld og taldist hann ekki framar verður þess að rækja lögmannsstarf eða njóta þeirra réttinda. Með dómi Hæstaréttar 16. október 1980 í máli nr. 187/1980, sem er að finna í dómasafni réttarins það ár á bls. 1647, var svipting lögmannsréttinda manns, sem sakfelldur hafði verið fyrir manndráp samkvæmt 211. gr. almennra hegningarlaga og dæmdur í 16 ára fangelsi, felld niður. Af þeirri niðurstöðu verður ráðið að jafnvel svo alvarlegt brot standi því ekki í vegi að svipting lögmannsréttinda verði felld niður.

Liðin eru rúm níu ár frá því varnaraðili var sviptur héraðsdómslögmannsréttindum sínum og þá hefur hann sem fyrr segir öðlast óflekkað mannorð. Að öllu framansögðu virtu hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á að varhugavert sé að varnaraðili öðlist að nýju réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur um annað en málskostnað.

Rétt er að málskostnaður varnaraðila í héraði og kærumálskostnaður, sem ákveðinn verður í einu lagi á báðum dómstigum eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði. 

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.

Málskostnaður varnaraðila, Robert Downey, í héraði og kærumálskostnaður, samtals  800.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 31. maí 2017.

Með beiðni sóknaraðila, Róbert Downey, [...], sem barst Héraðsdómi Reykjaness 13. febrúar 2017 var þess farið á leit við dóminn að felld verði niður svipting réttinda hans til að vera héraðsdómslögmaður, sem ákveðin var með dómi Hæstaréttar Íslands 15. maí 2008 í máli nr. 539/2007. Sóknaraðili krefst málskostnaðar.

Af hálfu varnaraðila, ríkissaksóknara, Suðurlandsbraut 4 í Reykjavík, er þess aðallega krafist að kröfu sóknaraðila verði vísað frá dómi en til vara að kröfunni verði hafnað. Varnaraðili krefst málskostnaðar.

Mál þetta er rekið samkvæmt 2. mgr. 68. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. XXVII kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Málið var tekið til úrskurðar 4. maí síðastliðinn að loknum munnlegum málflutningi.  

I

Með dómi Hæstaréttar Íslands 15. maí 2008 í máli nr. 539/2007 var sóknaraðila sakfelldur og gert að sæta fangelsi í þrjú ár fyrir kynferðisbrot gegn fjórum stúlkum, sbr. 3. og 4. mgr. 202. gr. og 209. gr. almennra hegningalaga nr. 19/1940. Með dóminum var jafnframt staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að sóknaraðili skyldi sviptur réttindum til að vera héraðsdómslögmaður þar sem brot hans væri stórfellt og hann teldist ekki verður til að rækja þann starfa að vera héraðsdómslögmaður eða njóta þeirra réttinda, sbr. 2. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga.

Samkvæmt gögnum málsins hóf sóknaraðili afplánun dómsins 6. febrúar 2009 og fékk reynslulausn frá og með 2. febrúar 2011, eftir að hafa afplánað 2/3 hluta dæmdrar fangelsisrefsingar. Með bréfi innanríkisráðuneytisins 27. september 2016 var sóknaraðila tilkynnt um að forseti Íslands hefði fallist á að veita sóknaraðila uppreist æru að því er snertir fyrrgreindan dóm Hæstaréttar Íslands.

Undir rekstri máls þessa leitaði varnaraðili eftir umsögn Lögmannafélags Íslands um beiðni sóknaraðila um brottfall réttindasviptingar. Umsögn félagsins er dagsett 4. apríl 2017 og var lögð fram í málinu með greinargerð varnaraðila.  

II

Sóknaraðili reisir kröfu sína í málinu á 2. mgr. 68. gr. a. almennra hegningarlaga. Kveðst sóknaraðili hafa af því ríka hagsmuni að fá aftur réttindi til að starfa sem héraðsdómslögmaður. Hann hafi starfað sem héraðsdómslögmaður áður en réttindin hafi verið af honum tekin og hafi í hyggju að sinna samskonar störfum á ný. Þá skipti það hann miklu máli að geta skilið við þann kafla í lífi sínum sem leitt hafi til dómsins á árinu 2008. Liður í því sé að endurheimta málflutningsleyfið.

Sóknaraðili kveður niðurfellingu sviptingarinnar eiga beint undir dóm, án umsagnar stjórnar Lögmannafélags Íslands. Sóknaraðili byggir á því að ákvæði í lögum nr. 77/1998 um lögmenn, sem geri ráð fyrir atbeina stjórnarinnar í tilvikum þar sem félagið hafi átt aðild að sviptingu réttinda, ekki eiga við í málinu.

III

Varnaraðili mótmælir því að krafa sóknaraðila nái fram að ganga. Byggir varnaraðili í fyrsta lagi á því að lagaskilyrði skorti, að svo stöddu, fyrir því að réttindasvipting sóknaraðila verði felld niður með dómi, enda hafi hann hvorki aflað meðmæla Lögmannafélags Íslands né lokið prófi samkvæmt 7. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, sbr. 2. mgr. 16. gr. laganna.  

Að öðru leyti vísar varnaraðili til forsendna í dómi Hæstaréttar Íslands og í héraðsdómi fyrir ákvörðun refsingar sóknaraðila og sviptingu lögmannsréttindanna. Þar á meðal er vísað til þess að sóknaraðili hafi haldið áfram að starfa sem lögmaður eftir að hafa verið kærður fyrir þau brot sem hann hafi síðar verið sakfelldur fyrir og að við meðferð málsins hafi legið fyrir krafa þess efnis að sóknaraðili yrði skipaður verjandi manns sem ákærður hefði verið fyrir kynferðisbrot gegn barni. Telur varnaraðili í ljósi eðlis brota sóknaraðila, alvarleika og einbeitts brotavilja, að hafna beri kröfunni, enda teljist sóknaraðili ekki verður til að rækja lögmannsstörf í dag frekar en þegar hann hafi verið dæmdur til að sæta sviptingu réttindanna. Að mati varnaraðila vegi þar þungt að ef til þess komi að svipting réttindanna verið felld niður geti sóknaraðili meðal annars tekið að sér starf verjanda og/eða réttargæslumanns í kynferðisbrotamálum.

 

 

IV

Samkvæmt 2. mgr. 68. gr. a. almennra hegningalaga nr. 19/1940 getur maður, sem sviptur hefur verið réttindum ótímabundið með dómi í sakamáli, þegar 5 ár eru liðin frá uppsögu dóms, borið undir dómstóla samkvæmt reglum um meðferð sakamála, hvort fella skuli réttindasviptinguna niður. Samkvæmt lokamálslið 2. mgr. 68. gr. a skulu sérákvæði í lögum „um brottfall réttindasviptingar“ halda gildi sínu. Hefur varnaraðili vísað til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn í því sambandi.

Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga um lögmenn skal lögmanni, hvers réttindi hafa verið lýst óvirk, fallið niður eða verið felld niður samkvæmt 12.-15. gr. laganna, veitt réttindi að nýju eftir umsókn hans, án endurgjalds eða prófraunar, fullnægi hann öðrum skilyrðum laganna til að njóta þeirra. Sé svo komið fyrir að réttindi lögmanns hafi verið felld niður af þeim sökum að lögmaður hefur ekki skilað stjórn Lögmannafélags Íslands yfirlýsingu um stöðu vörslureiknings, skal að auki leitað staðfestingar félagsins að sú aðstaða sé ekki lengur uppi. Í  2. mgr. 16. gr. laganna er kveðið á um að hafi lögmaður verið sviptur réttindum samkvæmt því sem segir í 14. gr. laganna, það er á grundvelli rökstudds álits úrskurðarnefndar lögmanna um að hann hafi í störfum sínum brotið svo mjög eða ítrekað gegn lögum eða siðareglum lögmanna að ekki verði við unað, geti hann að fimm árum liðnum sótt um heimild sýslumanns til að gangast undir prófraun samkvæmt 7. gr. laganna og í kjölfarið um réttindi til að vera héraðsdómslögmaður. Skal sýslumaður veita heimildina að fengnum meðmælum Lögmannafélags Íslands.

Ákvæði 2. mgr. 16. gr. laga um lögmenn, sem kveður á um skyldu til að undirgangast prófraun til að öðlast lögmannsréttindi á ný, að fengnum meðmælum Lögmannafélags Íslands, er samkvæmt framansögðu bundið við það tilvik að lögmaður hafi verið sviptur réttindum samkvæmt því sem segir í 14. gr. laganna. Þar sem svipting réttinda sóknaraðila byggir á 2. mgr. 68. gr. almennra hegningalaga verður ákvæðinu ekki beitt í því máli sem hér er til úrlausnar. Kröfu varnaraðila um að beiðni sóknaraðila skuli vísað frá dómi þar sem skilyrðum ákvæðisins sé ekki fullnægt er því hafnað.

Í dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 195/1980 (Hrd. 1980:1651) var svipting réttinda manns sem sakfelldur hafði verið fyrir brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga felld niður. Má af því leiða að þrátt fyrir að einstaklingur gerist sekur um stórfellt hegningarlagabrot, sem alvarlegust teljist að almenningsáliti og lögum, sé svipting starfsréttinda með dómi ekki fortakslaust til allrar framtíðar.  

Níu ár eru liðin frá því sóknaraðili var með dómi sviptur réttindum til að starfa sem héraðsdómslögmaður. Sóknaraðili hefur hlotið uppreist æru að því snertir þann refsidóm sem var grundvöllur réttindasviptingarinnar. Að lögum hefur sóknaraðili þar með öðlast óflekkað mannorð að nýju. Að því virtu er það mat dómsins að ekki verði talið að sóknaraðili sé að svo komnu ekki verður þess að rækja starfann eða njóta réttindanna.  

Samkvæmt framangreindu, og með vísan til 2. mgr. 68. gr. a. almennra hegningarlaga, þykir rétt að verða við kröfu sóknaraðila um að svipting réttinda hans til að vera héraðsdómslögmaður, sem ákveðin var með dómi Hæstaréttar Íslands 15. maí 2008 í máli nr. 539/2007, felld niður.

Málskostnaður verður ekki úrskurðaður.  

Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Svipting réttinda sóknaraðila, Roberts Downey, til að vera héraðsdómslögmaður, sem ákveðin var með dómi Hæstaréttar Íslands 15. maí 2008 í máli nr. 539/2007, er felld niður.

Málskostnaður úrskurðast ekki.