Print

Mál nr. 844/2017

Landsbankinn hf. (Bjarni Þór Óskarsson lögmaður)
gegn
Önnu H. Sveinbjörnsdóttur (Hjalti Steinþórsson lögmaður)
og gagnsök
Lykilorð
  • Yfirdráttarheimild
  • Lánssamningur
  • Tómlæti
  • Fyrning
  • Vextir
  • Gjafsókn
  • Sönnun
  • Tilkynning
Reifun

Bankinn L hf. krafði A um greiðslu skuldar vegna yfirdráttar á tékkareikningi hjá Sparisjóði Vestmannaeyja, en eignum og skuldum sjóðsins hafði verið ráðstafað til L hf. A hélt því meðal annars fram að hún hefði hvorki komið að stofnun reikningsins né hefði hún átt í viðskiptum við sparisjóðinn heldur hefði sambýlismaður sinn, sem lést áður en málið var höfðað, stofnað og notað reikninginn til eigin hagsbóta. Byggði A jafnframt á því að lánveitingin hefði verið ólögmæt þar sem ekki hefði verið gerður skriflegur samningur um yfirdráttinn. Þá bæri að víkja samningnum til hliðar á grundvelli 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936, auk þess sem krafan væri bæði fyrnd og fallin niður vegna tómlætis. Héraðsdómur féllst á að krafa L hf. væri fallin niður á grundvelli tómlætis og sýknaði A. Í dómi sínum rakti Hæstiréttur gögn málsins og taldi að A hefði ekki lánast sönnun um að reikningurinn hefði verið stofnaður án vitundar hennar og vilja. Þá féllst rétturinn ekki á að samningurinn væri ólögmætur eða að víkja bæri honum til hliðar. Að lokum hafnaði rétturinn því að L hf. hefði sýnt af sér slíkt tómlæti við að halda fram rétti sínum að krafa hans hefði fallið niður af þeim sökum. Var A því dæmd til að greiða L hf. hina umkröfðu fjárhæð.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir landsréttardómari.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. desember 2017. Hann krefst þess að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 14.509.622 krónur með 12,2% vöxtum frá 9. mars 2015 til 21. júní 2015, 12,7% vöxtum frá þeim degi til 1. september 2015, 13,2% vöxtum frá þeim degi til 11. nóvember 2015, 13,45% vöxtum frá þeim degi til 1. september 2016, 13% vöxtum frá þeim degi til 21. desember 2016, 12,75% vöxtum frá þeim degi til 23. febrúar 2017, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst aðaláfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 26. febrúar 2018. Hún krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um annað en málskostnað, en til vara að kröfur aðaláfrýjanda verði lækkaðar. Í báðum tilvikum krefst gagnáfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál.

I

Af gögnum málsins verður ráðið að 24. júlí 2009 hafi reikningur verið stofnaður í nafni gagnáfrýjanda hjá Sparisjóði Vestmannaeyja, en aðilar deila um hvort gagnáfrýjandi hafi sjálf stofnað reikninginn eða einhver annar í hennar nafni. Samkvæmt framlögðum yfirlitum yfir reikninginn var hann með heimild til yfirdráttar sem upphaflega nam 3.000.000 króna. Á næstu árum var heimildin bæði framlengd og hækkuð, þannig að í ársbyrjun 2014 nam hún orðið 12.400.000 krónum. Ekki nýtur við í málinu gagna um það hver óskaði eftir þessum hækkunum á yfirdráttarheimildinni eða með hvað hætti það var gert. Hins vegar liggur fyrir að 9. mars 2015 var reikningnum lokað.

Á grundvelli heimildar í VI. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki tók Fjármálaeftirlitið þá ákvörðun 29. mars 2015 að ráðstafa eignum og skuldum Sparisjóðs Vestmannaeyja til aðaláfrýjanda.  

Þann 10. janúar 2017 var gagnáfrýjanda send innheimtuviðvörun vegna skuldarinnar og með innheimtubréfi 13 dögum síðar var hún krafin um greiðslu hennar. Höfðaði aðaláfrýjandi í kjölfarið mál þetta á hendur gagnáfrýjanda 21. febrúar 2017.

II

Í málinu liggja fyrir 37 bréf, sem öll eru stíluð á gagnáfrýjanda, þar sem ýmist er tilkynnt um fyrirhugaða niðurfellingu á yfirdráttarheimild reikningsins eða að hann hafi verið yfirdreginn umfram heimild. Af þeim bréfum verður ráðið að yfirdráttarheimildin hafi að minnsta kosti í fjórgang fallið niður, en síðan til hennar stofnað á nýjan leik. Þá liggja sem áður segir fyrir yfirlit yfir reikninginn, alls 68 talsins, sem ná yfir tímabilið frá því að hann var stofnaður og þar til honum var lokað og eru þau sömuleiðis öll stíluð á gagnáfrýjanda. Sýna þau meðal annars hreyfingar á reikningnum á tímabilinu og stöðu hans hverju sinni.

Þá liggja ennfremur fyrir kvittanir vegna millifærslna af reikningnum á tímabilinu frá febrúar 2010 til júlí 2011. Er þar í flestum tilvikum um að ræða millifærslu fjármuna af reikningnum yfir á reikning Páls Sigurjónssonar, þá sambýlismanns gagnáfrýjanda, sem nú er látinn. Aftur á móti er þar einnig að finna kvittanir vegna millifærslu á 341.902 krónum til Kreditkorta hf. í nóvember 2010 og á 200.000 krónum til Efnalaugarinnar Kötlu hf. í febrúar 2010, en gagnáfrýjandi var stofnandi síðargreinda félagsins ásamt því að sitja í stjórn þess og fara þar með prókúru. Af áðurgreindum reikningsyfirlitum verður ennfremur ráðið að gagnáfrýjandi hafi í að minnsta kosti tvö skipti lagt fjármuni inn á reikninginn, annars vegar 20.000 krónur í desember 2010 og hins vegar 100.000 krónur í desember árið eftir. Þá liggur fyrir að í júlí 2009, fimm dögum eftir að reikningurinn var stofnaður, voru millifærðar 1.700.000 krónur af honum með skýringunni „v TS625 árg 2007“ en þar mun hafa verið um að ræða greiðslu vegna kaupa á bifreið sem síðan var skráð á nafn gagnáfrýjanda.

Samkvæmt fyrrnefndum reikningsyfirlitum á seinasta færslan á reikningnum sér stað 14. janúar 2013, þegar áðurnefndur Páll Sigurjónsson lagði 85.000 krónur inn á reikninginn. Var reikningnum svo, sem fyrr segir, lokað 9. mars 2015 og var hann þá yfirdreginn um 14.509.622 krónur, sem nemur fjárhæð höfuðstóls dómkröfu aðaláfrýjanda í málinu.

III

Gagnáfrýjandi heldur því fram að hún hafi hvorki komið að stofnun umrædds reiknings né hafi hún nokkurn tímann átt í viðskiptum við Sparisjóð Vestmannaeyja þar sem reikningurinn var stofnaður. Er á því byggt af hennar hálfu að fyrrum sambýlismaður hennar, áðurnefndur Páll Sigurjónsson, hafi stofnað og notað umræddan reikning til að skapa sér aðgang að lánsfé til eigin nota. Í þeim efnum hafi hann notið aðstoðar fyrrum útibússtjóra sparisjóðsins, sem nú liggi undir grun um að hafa dregið sér fé í störfum sínum fyrir sjóðinn og hafi gagnáfrýjandi meðal annars lagt fram kæru vegna þess misferlis sem hún telur tengjast umræddum reikningi. Í samræmi við það hafi nær öllum úttektum af reikningnum verið varið í þágu Páls með millifærslum inn á hans reikning og hafi þær millifærslur farið fram án vitundar gagnáfrýjanda.

Líkt og áður er rakið var umræddur reikningur frá upphafi skráður á nafn gagnáfrýjanda. Þá liggur fyrir að nokkrum dögum eftir stofnun hans var yfirdráttarheimildin notuð til þess að greiða fyrir bifreið sem skráð var hennar eign, auk þess sem fjármunir af reikningnum voru lagðir inn á fyrirtæki sem gagnáfrýjandi stofnaði, sat í stjórn hjá og hafði prókúru fyrir. Þá liggja fyrir í málinu yfir 100 tilkynningar og yfirlit vegna reikningsins, öll stíluð á gagnáfrýjanda, þar sem meðal annars var að finna upplýsingar um hreyfingar á reikningnum og stöðu hans hverju sinni. Í greinargerð sinni fyrir Hæstarétti viðurkennir gagnáfrýjandi að hafa fengið í hendur einhver af þeim yfirlitum sem fyrir liggja í málinu, en ekki verður séð að hún hafi haft uppi neinar athugasemdir vegna þeirra, þrátt fyrir að í öllum yfirlitunum hafi verið tekið fram að athugasemdir skyldu gerðar innan 20 daga frá viðtöku þeirra, annars teldist reikningurinn réttur. Þá liggur fyrir að gagnáfrýjandi brást í engu við innheimtuviðvörun og innheimtubréfi sem henni bárust í janúar 2017. Samkvæmt þessu hefur gagnáfrýjanda ekki lánast sönnun um að reikningurinn hafi verið stofnaður án hennar samþykkis eða fjármunir millifærðir af honum án vitundar hennar og vilja og breytir engu í þeim efnum þótt í flestum tilvikum virðist hafa verið um að ræða millifærslur inn á reikning fyrrum sambýlismanns hennar.

Gagnáfrýjandi hefur einnig borið því við að umrædd lánveiting sé ólögmæt og óskuldbindandi fyrir sig þar sem ekki hafi verið gerður skriflegur samningur um yfirdráttarheimildina samkvæmt 5. gr. þágildandi laga nr. 121/1994 um neytendalán. Í þeim efnum verður að líta til þess að hvað sem líður fyrirmælum 5. gr. laga nr. 121/1994, sem eftir breytingu með lögum nr. 179/2000 tók einnig til samninga um yfirdráttarheimild, er þess að gæta að í skýringum með 5. gr. frumvarps til upphaflegra laga um neytendalán, nr. 30/1993, er sérstaklega tekið fram að það sé ekki fortakslaust skilyrði fyrir gildi samninga að þeir séu skriflegir, heldur gildi munnlegir samningar eftir sem áður, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 22. desember 2014 í máli nr. 349/2014 og dóm Hæstaréttar 22. febrúar 2018 í máli nr. 81/2017. Verður því ekki fallist á að gagnáfrýjandi sé óbundin af greiðslu skuldarinnar sökum þess að ekki hafi verið gerður við hana skriflegur samningur um yfirdráttinn. Þá verður ekki talið að ætlaður skortur á upplýsingagjöf til gagnáfrýjanda samkvæmt 3. gr. þágildandi laga nr. 121/1994 eigi að leiða til slíks hins sama, en svo sem áður greinir gerði gagnáfrýjandi engar athugasemdir vegna reikningsins á því tæplega sex ára tímabili sem leið frá því að hann var stofnaður og þar til honum var lokað. Hefur því ekki heldur verið haldið fram af hálfu gagnáfrýjanda að þau kjör sem henni buðust hafi verið frábrugðin þeim sem almennt tíðkuðust á markaði.

Þá hefur gagnáfrýjandi jafnframt haldið því fram að víkja verði umræddum lánssamningi til hliðar á grundvelli 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, þar sem augljóst sé að nafn hennar hafi verið notað án hennar samþykkis til að ná fjármunum út úr Sparisjóði Vestmannaeyja með ólögmætum hætti. Sé því bæði óheiðarlegt og ósanngjarnt af hálfu aðaláfrýjanda að bera samninginn fyrir sig. Í þeim efnum verður að líta til þess að hvað sem líður ætlaðri saknæmri háttsemi útibússtjórans í störfum hans fyrir sparisjóðinn, liggur ekkert fyrir um það í málinu að hann hafi átt nokkra aðkomu að stofnun reiknings gagnáfrýjanda eða færslu fjármuna af honum. Þá þegar af þeirri ástæðu verður þessum málsástæðum gagnáfrýjanda hafnað.

Þá verður jafnframt hafnað þeirri málsástæðu gagnáfrýjanda að gera hafi átt lánshæfis- og greiðslumat samkvæmt 10. gr. laga nr. 33/2013 um neytendalán þegar síðast var framlengd yfirdráttarheimild á reikninginn, en samkvæmt 1. mgr. 36. gr. síðastgreindra laga tóku þau gildi 1. nóvember 2013. Þótt ráðið verði af gögnum málsins að síðasta hækkun á yfirdráttarheimild reikningsins, sem nam 400.000 krónum, hafi átt sér stað eftir gildistöku hinna nýju laga um neytendalán, er til þess að líta að samkvæmt síðari málslið 4. mgr. 10. gr. laganna þarf ekki að endurnýja lánshæfis- eða greiðslumat í þeim tilvikum þegar hækkun lánssamnings nemur 500.000 krónum eða lægri fjárhæð. Er samkvæmt því ljóst að ekki var þörf á slíku mati í tilviki gagnáfrýjanda.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er fallist á að krafa aðaláfrýjanda hafi verið ófyrnd við málshöfðun. Þá er ekki fallist á að aðaláfrýjandi hafi sýnt af sér slíkt tómlæti við að halda fram rétti sínum að krafa hans sé niður fallin af þeim sökum.

Samkvæmt öllu framansögðu verður krafa aðaláfrýjanda því tekin til greina, en upphafstími dráttarvaxta verður, með hliðsjón af því hvernig staðið var að innheimtu kröfunnar af aðaláfrýjanda hálfu, ákveðinn eins og í dómsorði greinir, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Rétt er að málskostnaður falli niður á báðum dómstigum en um gjafsóknarkostnað gagnáfrýjanda hér fyrir dómi fer sem í dómsorði greinir

Dómsorð:

Gagnáfrýjandi, Anna H. Sveinbjörnsdóttir, greiði aðaláfrýjanda, Landsbankanum hf., 14.509.622 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. febrúar 2017 til greiðsludags.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 800.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 19. desember 2017.

            Mál þetta, sem tekið var til dóms þann 27. nóvember sl., er höfðað með stefnu birtri 21. febrúar sl.

            Stefnandi er Landsbankinn hf., kt. [...], Austurstræti 11, Reykjavík

            Stefnda er Anna H. Sveinbjörnsdóttir, kt. [...], Borgarhrauni 19, Hveragerði.

            Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 14.509.622 krónur ásamt 12,2% yfirdráttarvöxtum frá lokunardegi reiknings þann 09.03.2015 til 21.06.2015, 12,7% yfirdráttarvöxtum frá þeim degi til 01.09.2015, 13,2% yfirdráttarvöxtum frá þeim degi til 11.11.2015, 13,45% yfirdráttarvöxtum frá þeim degi til 01.09.2016, 13% yfirdráttarvöxtum frá þeim degi til 21.12.2016, 12,75% yfirdráttarvöxtum frá þeim degi til 23.02.2017 og dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 14.509.622 krónum frá 23.02.2017 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt reikningi.

            Dómkröfur stefndu voru þær aðallega að málinu yrði vísað frá dómi en til vara að hún yrði sýknuð af öllum kröfum stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt reikningi. Með úrskurði dómsins uppkveðnum þann 21. júní sl. var frávísunarkröfu stefndu hafnað og ákvörðun um málskostnað látin bíða efnisdóms.

Málavextir.

            Í stefnu er stefnda sögð hafa stofnað reikning nr. 5049 við Sparisjóð Vestmannaeyja þann 24. júlí 2009. Hafi yfirdráttarheimild reikningsins runnið út án þess að uppsöfnuð skuld væri greidd og hafi honum því verið lokað í kjölfarið þann 9. mars 2015. Hafi skuldin þá numið 14.509.622 krónum auk dráttarvaxta og kostnaðar og hafi stefndu verið send innheimtuviðvörun dags. 10. janúar 2017 og innheimtubréf dags. 23. janúar sama ár. Skuldin hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og því hafi verið nauðsynlegt að höfða mál til heimtu hennar. Stefnda lýsir því hins vegar í greinargerð að hún hafi aldrei átt nein viðskipti við Sparisjóð Vestmannaeyja, hún hafi ekki stofnað þar reikning og engin lán fengið þar. Nafn hennar virðist aftur á móti hafa verið notað að henni forspurðri til að ná peningum út úr sparisjóðnum og kunni það að tengjast ætluðu misferli fyrrverandi útibússtjóra Sparisjóðsins á Selfossi, en hann muni vera góður kunningi Páls heitins Sigurjónssonar, vinar stefndu. Segir stefnda Pál hafa fullvissað hana um að hann myndi afgreiða málið þegar hún hafi komist að því að umræddur reikningur væri til á hennar nafni. Hafi hún talið að hún þyrfti ekki að hafa nokkrar áhyggjur af þessum ætlaða reikningi hennar þar sem hún hefði hvorki stofnað hann né gefið leyfi til þess og þá hafi hún ekki óskað eftir neinum lánum frá sparisjóðnum eða fengið í hendur þá peninga sem ætluð skuld hennar við stefnanda byggi á. Tryggingarbréf að fjárhæð 2.000.000 króna, sem samkvæmt dómskjölum sé gefið út til tryggingar á skuldum reikningshafa, sé gefið út á árinu 2003 og hafi verið til tryggingar á skuldum stefndu við þáverandi Landsbanka Íslands sem hafi verið viðskiptabanki stefndu. Hafi því tryggingarbréfi aldrei verið ætlað að tryggja skuldir stefndu við Sparisjóð Vestmannaeyja. Með bréfi dagsettu 17. október sl. til lögreglu mun lögmaður stefndu hafa farið þess á leit að rannsakað verði hvort nafn stefndu hafi verið misnotað í þeim tilgangi að ná fjármunum út úr sparisjóðnum. Við meðferð málsins var upplýst að Páll heitinn Sigurjónsson og stefnda hefðu verið í óskráðri sambúð. Í málinu hefur stefnandi lagt fram gögn sem talið er að sýni að stefndu hafi verið fullkunnugt um tilvist umrædds reiknings og notkun hans. Er þar um að ræða fjölmargar tilkynningar frá stefnanda til stefndu á árunum 2009 til 2013 þar sem gerð er grein fyrir yfirdráttarheimild sem í sumum tilvikum er talin óheimil. Þá hafa verið lagðar fram upplýsingar um millifærslu af reikningnum frá stefndu til Stefáns Þórs Sigfússonar þann 29. júlí 2009, 1.700.000 krónur sem sögð er vegna TS625 árg. 2007. Samkvæmt upplýsingum frá Creditinfo sem lagðar hafa verið fram í málinu er um að ræða ökutæki sem stefnda keypti af umræddum Stefáni sama dag.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

            Stefnandi byggir á reglum samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga og reisir kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti við lög nr. 38/2001. Krafa um málskostnað er reist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefndu.

             Stefnda byggir kröfu sína um sýknu í fyrsta lagi á aðildarskorti. Stefnda hafi aldrei gert neinn samning við Sparisjóð Vestmannaeyja um bankaviðskipti, útlán eða annað slíkt. Hún hafi aldrei heimilað sjóðnum að ráðstafa peningum í sínu nafni og geti ekki borið ábyrgð á því hafi starfsmaður sjóðsins tekið það upp hjá sjálfum sér að heimila slíka ráðstöfun fjármuna. Viðskiptasamband hennar við Sparisjóð Vestmannaeyja hafi aldrei verið fyrir hendi, hún hafi ekki sjálf stofnað til skuldbindingar við sjóðinn, enga peninga fengið að láni og eigi því ekki að vera aðili þessa máls. Enginn samningur liggi fyrir við stefndu þar sem hún taki á sig fjárskuldbindingu og ljóst að viðskiptasamband Sparisjóðsins og stefndu hafi ekki komið til fyrir hennar tilstuðlan og hún hafi ekki veitt neinum heimild til að stofna til skulda í hennar nafni hjá Sparisjóðnum. Með gagnályktun frá 10. gr. laga nr. 7/1936 og í samræmi við dómaframkvæmd sé óhjákvæmilegt að komast að þeirri niðurstöðu að þriðji maður, eða jafnvel starfsmaður Sparisjóðsins hafi ekki getað skuldbundið stefndu án hennar samþykkis.

            Stefnda byggir einnig á því að krafan sé fyrnd eða fallin niður sökum tómlætis. Hafi síðasta eiginlega peningaúttekt af reikningnum verið í júlí 2011 og allar útgreiðslur eftir það séu til bankans vegna vaxta, vanskilagjalda og annars kostnaðar. Þrátt fyrir að ljóst sé að ætluð vanskil stefndu við Sparisjóðinn hafi á árinu 2011 numið verulegum fjárhæðum án þess að Sparisjóðurinn hafi haft nokkrar tryggingar fyrir skuldinni eða nokkurn samning um hin ætluðu útlán, þá virðist sem málið liggi óhreyft hjá Sparisjóðnum og síðar stefnanda þar sem stefndu er send innheimtuviðvörun í janúar 2017 og mál þetta höfðað í framhaldinu. Þar sem stefnda hafi aldrei tekið þessa fjármuni að láni eigi 10 ára fyrningarákvæði 5. gr. laga nr. 150/2007 ekki við um ætlaða kröfu stefnanda á hendur stefndu, enda sé ákvæðið hugsað þegar um sé að ræða skuldabréf eða peningalán á milli aðila. Gildi því um kröfu stefnanda almennar fyrningarreglur 3. gr. laganna og fyrnist því krafan á 4 árum frá því síðasta útgreiðsla hafi átt sér stað. Hafi öll krafa stefnanda því fallið niður sumarið 2015 og sé því löngu niður fallin þegar mál þetta sé höfðað og beri því þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefndu. Verði ekki á þessa málsástæðu fallist byggir stefnda á því að krafan sé öll niður fallin sökum tómlætis stefnanda. Það sé meginregla í kröfurétti að kröfuhafi verði að gæta réttar síns og halda honum til haga og bera halla af vanrækslu við það. Sérstaklega mikilvægt sé að gæta að þessum sjónarmiðum þegar fyrir liggi að engir skriflegir samningar séu til um ætlaða kröfu stefnanda. Stefnandi segi að reikningnum hafi verið lokað í mars 2015 en þá hafi legið fyrir að engar útborganir hafi verið af reikningnum síðan um sumarið 2011 og aldrei hafi neitt að ráði verið greitt inn á ætlaða skuld stefndu sem hafi hækkað umtalsvert ár frá ári án þess að nokkuð væri gert í málinu.

            Stefnda byggir á því að verði talið að hún sé bundin af umræddu yfirdráttarláni, sem hún hafi ekki sótt um, á reikning sem hún hafi ekki stofnað og aldrei haft aðgang að, þá sé á grundvelli 33. gr. og 36. gr. laga nr. 7/1936 óheiðarlegt og ósanngjarnt af stefnanda að bera fyrir sig ábyrgð stefndu. Samkvæmt 3. gr. þágildandi laga nr. 121/1994 um neytendalán beri fjármálastofnun í samningi um yfirdráttarheimild að veita neytanda upplýsingar um m.a. hvaða takmörk séu á lánsupphæðinni, hvaða vextir gildi og hvaða gjöld falli á lánið, með hvaða hætti samningi skuli sagt upp, hvort breytingar geti orðið á vöxtum eða umsömdum gjöldum á samningstímanum og þá beri að upplýsa um árlega hlutfallstölu kostnaðar. Hafi stefnda aldrei verið upplýst um neitt þessara atriða. Í II. kafla laganna sé upptalning á ýmsum skyldum lánveitanda gagnvart neytanda þegar um lán líkt og yfirdráttarlán sé að ræða. Samkvæmt 5. gr. laganna sé lögð ófrávíkjanleg skylda á lánveitanda að gera skriflegan lánssamning um lánið sem neytandi fái eintak af. Þá segi þar í 14. gr. að séu vextir eða annar lántökukostnaður  ekki tilgreindur í lánssamningi, þá sé lánveitanda eigi heimilt að krefja neytanda um greiðslu þeirra. Þrátt fyrir að Sparisjóðurinn hafi aldrei gert neinn samning við stefndu um lán hafi verið skuldfærðar milljónir í vexti og þjónustugjöld án nokkurrar heimildar. Brjóti þessi hegðun gegn góðum viðskiptaháttum, sbr. 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Stefnda telur óheiðarlegt af hálfu stefnanda að byggja á löggerningi þar sem nafn hennar hafi augljóslega verið notað án samþykkis til að ná peningum út úr Sparisjóði Vestmannaeyja með vitund og vilja starfsmanns Sparisjóðsins, en án vitundar og vilja hennar. Hafi komið fram í fréttum að ástæða þess að Sparisjóðurinn hafi verið yfirtekinn á sínum tíma og settur í hendur stefnanda hafi verið ótraust lánasafn sjóðsins. Hafi þeim starfsmanni sjóðsins sem heimilað hafi útlán til stefndu án nokkurs leyfis hennar eða lánssamnings verið fullkomlega kunnugt um að þetta væri gjörningur sem væri óheiðarlegur og ógildanlegur skv. 33. gr. samningalaga, enda háttsemi starfsmannsins að öllum líkindum saknæm og ólögmæt. Þá sé ljóst að lánasamningurinn sé ógildanlegur með hliðsjón af 36. gr. laganna þegar horft sé til stórfelldra brota lánveitanda á skyldum sínum. Hafi stefnandi haft yfirburðastöðu gagnvart stefndu og borið að sjá til þess að allar lánveitingar væru í samræmi við lög og reglur. Þegar litið sé til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar hafi komið til, komi ekkert annað til greina en að víkja ætluðum samningi stefnanda og stefndu til hliðar í heild sinni.

            Stefnda mótmælir vaxtakröfu, í fyrsta lagi á því að hún telur stefnanda ekki eiga rétt á neinum vöxtum og í öðru lagi á því að stefnandi krefjist tilgreindra yfirdráttarvaxta og hins vegar dráttarvaxta fyrir sama tímabil. Í endanlegri kröfugerð stefnanda hefur þessi tilhögun á vaxtakröfu verið leiðrétt.

            Stefnda vísar til almennra reglna samningaréttar og kröfuréttar, m.a. um skuldbindingargildi samninga, réttaráhrif ógildanlegra löggerninga, sbr. 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936, laga nr. 161/2002, 121/1994, aðallega 3. gr. og II. kafla laga nr. 150/2007. Krafa um málskostnað er reist á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991. 

Niðurstaða.

            Í máli þessu er stefnda krafin um greiðslu vegna yfirdráttarskuldar sem gögn málsins benda til að sambýlismaður hennar, sem nú er látinn, hafi upphaflega stofnað til við Sparisjóð Vestmannaeyja í hennar nafni. Þrátt fyrir áskorun stefndu hefur stefnandi, sem tók við eignum og skuldum Sparisjóðsins á grundvelli ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins þann 29. mars 2015, ekki upplýst hvernig stofnun yfirdráttarreikningsins hafi verið háttað og hvaða aðkomu stefnda hafi átt að henni, hvernig úttektum af reikningnum hafi verið háttað og hvaða aðkomu stefnda hafi átt að þeim. Þá hefur stefnandi ekki upplýst um aðkomu stefndu að hækkun yfirdráttarheimildar úr 3.000.000 króna í nokkrum áföngum þar til hún hafi orðið 9.800.000 krónur þann 29. desember 2011. Við munnlegan flutning málsins upplýsti lögmaður stefnanda að reikningurinn hefði verið stofnaður munnlega og liggur því fyrir að engin skrifleg gögn liggi fyrir um stofnun hans. Þá hefur stefnandi ekki upplýst hvort Páll heitinn hafi átt einhverja aðkomu að stofnun reikningsins eða úttektum af honum. Stefnandi hefur hins vegar lagt fram gögn sem sýna að stefndu hafa reglulega verið send á heimili sitt yfirlit yfir stöðu skuldarinnar hverju sinni um nokkurra ára skeið, en stefnda hefur ekki komið fyrir dóm til að skýra frá því hvort hún hafi fengið þessi yfirlit í sínar hendur. Þá liggur fyrir að andvirði ökutækis, sem stefnda keypti, var millifært til seljanda af umræddum reikningi. Verður því að telja nægilega upplýst að stefnda hafi vitað af tilvist reikningsins og verður að hafna sýknukröfu hennar á grundvelli aðildarskorts.

            Kemur þá til skoðunar hvort krafa stefnanda á hendur stefndu sé fyrnd. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 150/2007  um fyrningu kröfuréttinda fyrnast kröfur sem byggjast á peningalánum á tíu árum. Umrætt yfirdráttarlán er peningalán í skilningi þessa ákvæðis og gildir því tíu ára fyrningarfrestur um það.  Eins og að framan er rakið var yfirdráttarheimildin hækkuð í nokkrum áföngum, síðast í lok ársins 2011. Var krafan því ófyrnd þegar stefnandi hóf innheimtuaðgerðir á hendur stefndu með málsókn þessari með stefnubirtingu þann 21. febrúar sl.

            Stefnda byggir einnig á því að krafa stefnanda sé niður fallin sökum tómlætis. Umræddum reikningi mun hafa verið lokað í mars 2015 og engar útborganir munu hafa verið af reikningnum síðan um sumarið 2011. Í nokkur ár þar á eftir eru stefndu reglulega sendar tilkynningar um óheimilan yfirdrátt og henni gerð grein fyrir því að hafi ekki verið gengið frá skuldinni með greiðslu eða nýrri heimild innan 10 daga megi búast við frekari innheimtuaðgerðum. Ekki er loku fyrir það skotið að nafn stefndu hafi verið misnotað í þeim tilgangi að ná fjármunum út úr sparisjóðnum og hefur verið lögð fram kæra hjá lögreglu þar sem þess er farið á leit að rannsakað verði hvort sambýlismaður stefndu og fyrrverandi sjóðsstjóri Sparisjóðs Vestmannaeyja hafi átt þar hlut að máli.  Eins og áður sagði hóf stefnandi innheimtuaðgerðir á hendur stefndu með stefnubirtingu þann 21. febrúar sl., en þá höfðu vanskil í nafni stefndu staðið í um 6 ár. Með þessu stórfellda tómlæti stefnanda um að halda fram rétti sínum verður að telja að krafa hans sé niður fallin sökum tómlætis. Verður þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

            Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.  

            Hjörtur O. Aðalsteinsson  dómstjóri kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

             Stefnda, Anna H. Sveinbjörnsdóttir, skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Landsbankans hf., í máli þessu.

                Málskostnaður fellur niður.