Print

Mál nr. 815/2017

Íslenska ríkið (Eiríkur Áki Eggertsson lögmaður)
gegn
Sigurbirni Þorgeirssyni (Guðmundur Ómar Hafsteinsson lögmaður)
Lykilorð
  • Vinnuslys
  • Líkamstjón
  • Skaðabætur
  • Kjarasamningur
Reifun

S krafði Í um skaðabætur vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir þegar hann féll á svelli á bílastæði við heimili sitt. Starfaði S sem lögreglumaður og var hann á vakt þegar slysið varð. Hafði erindi S heim verið að matast svo sem hann átti rétt á en engin aðstaða var til þess á starfsstöðinni sjálfri og var sú tilhögun viðhöfð með samþykki yfirmanna S. Deildu aðilar um hvort Í bæri hlutlæga bótaábyrgð á tjóni M eftir 30. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og ákvæðum kjarasamnings. Talið var að Í hefði ekki sýnt fram á að S hefði verið í öðrum erindagjörðum en að sinna áfram vinnuskyldu sinni á yfirstandi vakt þegar slysið varð og hefði það því orðið við rækslu lögreglustarfs hans. Var krafa S því tekin til greina.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Karl Axelsson og Eyvindur G. Gunnarsson prófessor.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. desember 2017. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Svo sem rakið er nánar í hinum áfrýjaða dómi er óumdeilt að stefndi var á vakt í starfi sínu sem lögreglumaður 19. janúar 2015 þegar hann féll á svelli á bílastæði við heimili sitt og slasaðist. Þá er því ómótmælt að erindi hans heim hafi verið að matast svo sem hann átti rétt á en engin aðstaða var til slíks á starfsstöðinni sjálfri og þessi tilhögun því viðhöfð með samþykki yfirmanna stefnda. Af hálfu áfrýjanda hefur ekki verið sýnt fram á að stefndi hafi þá hann slasaðist verið í öðrum erindagjörðum en að sinna áfram vinnuskyldu sinni á yfirstandandi vakt og skiptir þá ekki máli hvort sérstakt útkall hafði þá átt sér stað. Að þessu gættu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna en krafa stefnda um bætur vegna ferðakostnaðar sem vísað var frá héraðsdómi er ekki til endurskoðunar hér fyrir dómi.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefnda, Sigurbirni Þorgeirssyni, 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

                                          Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. nóvember 2017.            

I

Mál þetta, sem dómtekið var 26. september 2017, er höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 9. janúar 2017. Stefnandi er Sigurbjörn Þorgeirsson, Mararbyggð 10, Ólafsfirði, en stefndi er íslenska ríkið. 

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði gert að greiða honum 18.580.649 krónur með 4,5% ársvöxtum af  7.463.089 krónum frá 19. janúar 2015 til 29. febrúar 2016, af 18.580.649 krónum frá þeim degi til 29. ágúst 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 18.580.649 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 3.348.452 krónum, sem greiddar voru þann 9. ágúst 2016 og 1.163.986 krónum sem greiddar voru þann 30. september 2016.

Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins en til vara að málskostnaður verði látinn falla niður. 

II

Helstu málsatvik eru ágreiningslaus. Stefnandi er lögreglumaður og starfar hjá lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra með starfsstöð á Ólafsfirði. Þann 19. janúar var stefnandi á vakt frá kl. 12.00 til 22.00. Stefnandi lýsti því í skýrslu sinni fyrir dóminum að hann hefði verið á „skylduvakt“ á hefðbundnum vinnutíma á lögreglusvæði sínu og hefði farið heim til sín í mat á lögreglubifreið sem hann hefði haft til afnota. Hann hefði nýlega verið kominn heim til sín þegar vaktsíminn hafi hringt og óskað hefði verið eftir aðstoð hans vegna umferðaróhapps á Dalvík. Stefnandi lýsti því að hann hefði því farið út og gengið rösklega eftir gangstíg við húsið að bílastæðinu heima hjá sér. Svo sem sjá má á framlagðri mynd, er lágur kantur milli gangstígsins og bílastæðisins. Stefnandi hoppaði af kantinum niður á bílastæðið en lenti á svellbunka með þeim afleiðingum að hann rann út af svellbunkanum og lenti þá á auðum bletti. Við það kom talsvert högg á vinstri fót hans og fann stefnandi þá mikið til og fannst eins og fóturinn færi í yfirsveigju. Stefnandi lýsti því í skýrslu sinni að hann hefði legið á bílastæðinu í dágóðan tíma þar sem hann hefði ekki getað staðið á fætur vegna verkja.

Í matsgerð Magnúsar Páls Albertssonar, sérfræðings í bæklunar- og handarskurðlækningum, dagsettri 13. júlí 2016, kemur fram að stefnandi hafi daginn eftir slysið leitað til heilsugæslunnar á Siglufirði og hafi hann þá ekki getað rétt að fullu úr hnénu. Honum var í kjölfarið vísað til Akureyrar og þar sýndi segulómskoðun skemmdir á innri liðþófa og rof í fremra krossbandi. Einnig sáust brjóskskemmdir á miðlægum hnjákolli lærleggs. Stefnandi mun í kjölfarið hafa farið í meðferð hjá bæklunarlæknum Orkuhússins í Reykjavík og undirgengist liðspeglun í mars 2015. Þar var staðfest rof í fremra krossbandi og fleiri áverkar. Í maí 2015 þurfti að gera aðgerð á stefnanda þar sem gert var við hið slitna krossband. Í matsgerð Magnúsar Páls Albertssonar er því einnig lýst að eftir aðgerðina hafi stefnandi verið í meðferð hjá sjúkraþjálfara fram í febrúar 2016.

Í matsgerðinni voru metnar afleiðingar líkamstjóns stefnanda vegna umrædds slyss. Samkvæmt matsgerðinni var tímabil tímabundins atvinnutjóns stefnanda frá 19. janúar 2015 til 29. febrúar 2016. Tímabil þjáningabóta var það sama og þar af taldist stefnandi hafa verið veikur og rúmfastur í tvo daga og í 405 daga án rúmlegu. Varanlegur miski stefnanda vegna slyssins var metinn 17 stig og varanleg örorka 10%. Heilsufar stefnanda taldist stöðugt frá 29. febrúar 2016.

Með bréfi, dagsettu 29. júlí 2016, krafðist lögmaður stefnanda bóta úr hendi stefnda á grundvelli matsgerðar Magnúsar Páls Albertssonar. Kröfunni til stuðnings er þar vísað til 30. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og gerð skaðabótakrafa samtals að fjárhæð 21.138.854 krónur samkvæmt nánari sundurliðun.

Með bréfi ríkislögmanns, dagsettu 31. ágúst 2016, var bótaskyldu hafnað með vísan til þess að um óhappatilviljun hefði verið að ræða sem tæplega tengdist lögreglustarfi, auk þess sem það væri álitamál, hvort eigin sök stefnanda væri slík að hann bæri ætlað tjón sitt sjálfur. Stefnandi undi ekki afstöðu stefnda og höfðaði mál þetta 9. janúar sl., svo sem áður er getið.

III

Stefnandi byggir á því að stefndi beri skaðabótaábyrgð á afleiðingum slyss hans þann 19. júní 2016 á grundvelli 30. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og kjarasamnings Landsambands lögreglumanna og fjármálaráðherra f.h. stefnda.

Stefnandi vísar í fyrsta lagi til þess að í 30. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 sé kveðið á um að ríkissjóður skuli bæta lögreglumönnum líkamstjón og munatjón sem þeir verða fyrir vegna starfs síns. Stefnandi byggir á því að ákvæðið feli í sér hlutlæga bótaábyrgð stefnda á líkams- og munatjóni lögreglumanna sem þeir verða fyrir á vinnutíma og við öll störf sín. Stefndi bendir á að þessi skýring ákvæðisins hafi verið staðfest í dómi Hæstaréttar Íslands í máli réttarins nr. 365/2000.

Stefnandi kveður hina hlutlægu ábyrgð ákvæðisins fela það í sér að stefndi sé skaðabótaskyldur vegna alls líkamstjóns sem lögreglumenn verða fyrir í vinnutíma. Samkvæmt ólögfestum meginreglum skaðabótaréttar feli hlutlæg ábyrgð í sér skilyrðislausa bótaábyrgð, án tillits til sakar. Með hliðsjón af orðalagi 30. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 telur stefnandi að skýra verði ákvæðið þannig að með orðalaginu „vegna starfs síns“ sé átt við öll tjónstilvik sem eigi sér stað á meðan lögreglumaður er við störf, óháð tegund tjóns eða orsök.

Stefnandi bendir á að hann hafi verið vakt þegar að hann slasaðist og að slysið hafi átt sér stað á vinnutíma. Stefnandi hafi verið að ganga að lögreglubifreið sinni þegar hann slasaðist og hugðist keyra af stað til að sinna lögreglustörfum. Þegar af þeirri ástæðu teljist stefnandi hafa verið við störf og líkamstjón hans sé því vegna starfs hans í skilningi 30. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 sem stefndi beri hlutlæga ábyrgð á.

Í öðru lagi byggir stefnandi á því, að í gildandi kjarasamningi Landsambands lögreglumanna og ríkissjóðs, dagsettum 30. apríl 2005, með síðari breytingum og framlengingum með kjarasamningum og gerðardómum, sé kveðið á um að lögreglumenn eigi rétt til bóta fyrir meiðsli og tjón sem þeir verði fyrir vegna starfs síns. Nánar tiltekið segi í grein 7.5 í kjarasamningnum:

„7.5.1           Lögreglumenn eiga rétt á bótum fyrir meiðsli og tjón sem þeir verða fyrir vegna starfs síns.

 7.5.2            Lögreglumenn skulu teljast að störfum, auk venjulegrar vinnuskyldu, þegar þeir eru á leið í eða úr vinnu, sitja lögregluskóla og lögreglunámskeið eða stunda lögregluæfingar, íþróttir og kappleiki á vegum félaga lögreglumanna. Hið sama gildir ef þeir ráðast í lögregluaðgerðir að eigin frumkvæði sem lögreglumenn.“

Stefnandi telur að stefndi sé bundinn af umræddum kjarasamningi og skylt að efna hann samkvæmt orðanna hljóðan á grundvelli meginreglna samninga- og vinnuréttar, m.a. reglunni um efndir in natura. Umrætt kjarasamningsákvæði sé ítrekun á hlutlægri ábyrgð stefnda samkvæmt 30. gr. lögreglulaga á líkams- og munatjóni lögreglumanna vegna starfs þeirra. Það hafi m.a. verið tilgangur umrædds ákvæðis þegar það hafi verið tekið upp í kjarasamninginn, að skilgreina með ítarlegri hætti gildissvið hinnar hlutlægu ábyrgðar 30. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Í því sambandi hafi verið litið til dómaframkvæmdar og venju sem skapast hafi um skýringu ákvæðisins við uppgjör slysabóta vegna slysa lögreglumanna.

Stefnandi byggir á því að þar sem hann hafi verið á vakt þegar slysið átti sér stað, teljist hann hafa verið að störfum í skilningi greinar 7.5.1 í kjarasamningum. Þá bendir stefnandi á að samkvæmt kjarasamningnum eigi hann einnig rétt á bótum vegna slysa á leið til eða frá vinnu og gildi því einu að stefnandi hafi slasast fyrir utan heimili sitt. Telur stefnandi því að hann eigi ótvírætt rétt til bóta úr hendi stefnda vegna líkamstjóns síns á grundvelli greinar 7.5.1 í kjarasamningnum.

Í þriðja lagi byggir stefnandi á því að gögn málsins og yfirlýsingar af hálfu embættis lögreglustjórans á Norðurlandi eystra beri það með sér að embættið líti svo á að stefnandi hafi slasast við störf sín sem lögreglumaður í skilningi 30. gr. lögreglulaga og kjarasamnings lögreglumanna. Í tilkynningu til Sjúkratrygginga Íslands, dagsettri 29. janúar 2015, sem undirrituð sé af yfirlögregluþjóni embættis lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, komi fram að stefnandi hafi slasast við vinnu. Sama gildi um tilkynningu til Vátryggingafélags Íslands, dagsetta 6. febrúar 2015, sem undirrituð sé af sama aðila. Í síðarnefndri tilkynningu komi fram að slysið hafi orðið í vinnutíma og sé bifreiðastæðið við Mararbyggð 10 á Ólafsfirði tilgreint sem slysstaður. Að lokum sé í tilkynningu lögreglustjórans til Vinnueftirlits ríkisins, dagsettri 20. janúar 2015, hakað við að slysið hafi orðið í vaktavinnu (3. tölul.), stefnandi hafi slasast þegar hann gekk um vinnusvæði (5. tölul.) og að orskavaldur slyssins hafi verið vinnusvæðið (4. tölul.). Með hliðsjón af þessum yfirlýsingum vinnuveitanda stefnanda, sem starfi í umboði stefnda, telur stefnandi ótvírætt að stefnandi hafi verið við vinnu þegar slysið varð.

Í fjórða lagi byggir stefnandi á því að stefndi hafi um árabil viðurkennt bótaskyldu á grundvelli 30. gr. lögreglulaga og greinar 7.5. í kjarasamningi lögreglumanna vegna slysa sem lögreglumenn hafi orðið fyrir á meðan þeir hafi verið á vakt. Gildi þá einu hvort um hálkuslys, slys við æfingar eða önnur óhöpp hafi verið að ræða. Telur stefnandi að þar með hafi stofnast venja um skýringu á ákvæðinu og túlkun aðila á gildissviði ákvæðanna. Stefndi geti ekki vikið frá slíkri venjuhelgaðri framkvæmd við uppgjör bótamála lögreglumanna, án skýrrar lagaheimildar eða breytingar á ákvæðum kjarasamninga. Stefndi sé því bundinn af fyrri framkvæmd sinni og skýringu hinna umdeildu ákvæða sem leiði til bótaskyldu stefnda á tjóni stefnanda.

Í fimmta lagi mótmælir stefnandi því, sem fram kemur í bréfi ríkislögmanns, dagsettu 31. ágúst 2016, um að stefndi vefengi tildrög slyssins þar sem engin vitni hafi verið að slysinu. Stefnandi telur tildrög slyssins fullsönnuð, enda hafi þau verið rannsökuð af lögreglu, svo sem sjá megi af lögregluskýrslu, dagsettri 3. febrúar 2016. Auk þess sé tildrögum og orsökum slyssins lýst í tilkynningum til Vátryggingafélags Íslands og Sjúkratrygginga Íslands, dagsettum 29. janúar 2016 og 6. febrúar 2015.

Í sjötta lagi hafnar stefnandi þeirri málsástæðu stefnda að bótaábyrgð samkvæmt 30. gr. lögreglulaga og grein 7.5 í kjarasamningi aðila sé bundin við „framkvæmd lögreglustarfa“. Afmörkun þessarar mótbáru stefnda sé hvorki ljós né liggi fyrir hvað hún feli í sér. Stefnandi hafnar þeim skilningi, sem stefndi virðist leggja í fyrrnefnt hugtak, og vísar til fyrri umfjöllunar um að slys stefnanda átti sér stað við starf hans sem lögreglumaður eins og það sé skilgreint í lögum og kjarasamningi. Þá bendir stefnandi á að hugtakið „framkvæmd lögreglustarfa“ sé hvergi skilgreint í lögum eða kjarasamningi og því óljóst til hvers stefndi vísi. Óljós afstaða stefnanda til þess, hvað teljist vera lögreglustörf og hvað ekki, sé því haldlaus og feli í sér verulega þrengingu á gildissviði 30. gr. lögreglulaga, sem fái hvorki stoð í orðalagi lagaákvæðisins né kjarasamningi. Þá sé engan stuðning fyrir slíkri þrengingu að finna í stofnannasamningum eða dómaframkvæmd.

Í sjöunda lagi mótmælir stefnandi öðrum mótbárum stefnda í framangreindu bréfi ríkislögmanns. Fyrir liggi að bótaábyrgð samkvæmt 30. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og kjarasamningi lögreglumanna teljist vera hlutlæg bótaábyrgð. Ábyrgðin byggist því ekki byggð á sök og geti slys stefnda því ekki talist óhappatilvik. Sama eigi við um ætlaða eigin sök stefnanda en hún hafi engin áhrif á bótaskyldu nema sök teljist stórkostlegt gáleysi sem telja verði útilokað í þessu máli. Sömuleiðis útloki ákvæði 23. gr. a. í skaðabótalögum nr. 50/1993 ábyrgð stefnanda á grundvelli eigin sakar.

Að öllu framangreindu virtu telur stefnandi ótvírætt og fullsannað að hann hafi verið að störfum í skilningi 30. gr. lögreglulaga og greinar 7.5 í kjarasamningi Landsambands lögreglumanna og stefnda þegar hann slasaðist. Því beri stefndi hlutlæga bótaábyrgð á líkamstjóni stefnanda.

Stefnukrafa stefnanda grundvallast á niðurstöðum matsgerðar Magnúsar Páls Albertssonar læknis, dagsettri 13. júlí 2016. Stefnandi vísar til þess að hefð hafi verið fyrir því, með fullu samþykki stefnda, að afla mats eins læknis á afleiðingum slysa lögreglumanna og hafi uppgjör á slysabótum á grundvelli lögreglulaga iðulega byggst á slíkum mötum.  Þá byggir stefnandi kröfur sínar um skaðabætur á ákvæðum 1.-7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

1) Tímabundið atvinnutjón.

Stefnandi byggir kröfu sína um bætur vegna tímabundins atvinnutjóns á 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Í stefnu er því lýst að stefnandi hafi klárað veikindarétt sinn hjá embætti lögreglustjórans á Norðurlandi eystra þann 19. október 2015. Fram að þeim tíma hafi hann fengið greidd veikindalaun en ekki hafi verið greidd yfirvinna. Meðaltal launa tekjuársins 2014 hafi numið 879.171 krónu á mánuði og sé yfirvinna þar með talin. Stefnandi hafi verið óvinnufær í samtals 13,5 mánuði á árunum 2015 og 2016. Þau laun, sem stefnandi hafi orðið af á þessu tímabili, hafi því numið 11.868.809 krónum (13,5x879.171). 

Fyrir liggi að stefnandi slasaðist 19. janúar 2015 en þá hafi launatímabil janúarmánaðar 2015 verið búið og falli laun fyrir janúar 2015, sem greidd hafi verið 1. febrúar 2015, ekki undir laun í veikindaforföllum. Laun, sem stefndi hafi greitt stefnanda í veikindaforföllum séu því laun stefnanda á árinu 2015, að frádregnum launum fyrir janúar 2015 séu því 7.444.128 krónur (8.279.331-835.203).

Stefnandi kveður tímabundið atvinnutjón fundið út þannig, að frá þeim tekjum sem hann hafi orðið af á óvinnufærnitímabilinu, 11.868.809 krónum, dragist þau laun sem hann hafi fengið greidd frá stefnda að fjárhæð 7.444.128 krónur og því nemi tjón hans 4.424.681 krónu. Að meðtöldu framlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð sé fjárhæð tímabundins atvinnutjóns stefnanda samtals 4.933.519 krónur (4.424.681x11,5%).

2) Þjáningabætur

Stefnandi styður kröfu sína um þjáningabætur við 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefnandi hafi verið veikur í skilningi ákvæðisins frá 19. janúar 2015 til 29. febrúar 2016 og þar af í samtals 2 daga rúmliggjandi og 405 daga án rúmlegu. Þjáningabætur stefnanda reiknist því 747.970 krónur (2x3.410 og 405x1.830)

3) Varanlegur miski

Kröfu um bætur vegna varanlegs miska styður stefnandi við 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð sé varanlegur miski stefnanda af völdum slyssins samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga metinn 17 stig. Miskabótafjárhæð, með vísan til 2. mgr. 4. gr. skaðabótalaga og aldurs stefnanda á slysdegi, nemi því 10.480.000 krónum. Vegna þessa þáttar sé því krafist samtals 1.781.600 króna (10.480.000 x 17 stig).  

4) Varanleg örorka.

Kröfu um bætur vegna varanlegrar örorku reisir stefnandi á 5.-7. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð sé varanleg örorka stefnanda vegna slyssins, samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga metin 10%. Með vísan til aldurs stefnanda á þeim degi, þegar heilsufar stefnanda í kjölfar slyssins teljist stöðugt, sé margfeldisstuðull samkvæmt 6. gr. skaðabótalaga 9,256. Varðandi tekjuviðmið sé byggt á 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og miðað við launatekjur stefnanda þrjú ár fyrir slysið uppreiknaðar miðað við launavísitölu að viðbættu 11,5 % framlagi í lífeyrirssjóð, sbr. 1. mgr. 7. gr. Uppreiknaðar viðmiðunartekjur stefnanda séu yfir hámarkstekjuviðmiði laganna og því sé miðað við hámarkstekjur sem nemi 11.662.500 krónum. Bætur fyrir varanlega örorku reiknist því 10.794.810 krónur (11.662.500 x 9,256 x 10%).

5) Ferða- og útlagður kostnaður.

Krafa um ferða- og útlagðan kostnað styðst við 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefnandi kveðst hafa farið sjö sinnum til Reykjavíkur til að hitta Andra K. Karlsson bæklunarlækni vegna skoðana og aðgerða, auk aksturs innan Reykjavíkur, samtals 1.148  km. Stefnandi kveðst einnig hafa farið átta sinnum til Akureyrar í sjúkraþjálfun og sneiðmyndatöku, samtals 1.152 km. Þá sé akstur innan Fjallabyggðar samtals 100 km. Samtals akstur stefnanda vegna slyssins sé því 2.400 km og í samræmi við akstursgjald ríkisstarfsmanna, sbr. auglýsingu nr. 3/2015, sé gerð krafa um greiðslu 110 króna fyrir hvern ekinn kílómetra. Bætur vegna ferðakostnaðar reiknist því 264.000 krónur (2.400 km x110 kr/km).

Útlagður kostnaður vegna málsins nemi annars vegar 72.000 krónum vegna matsgerðar Magnúsar Páls Albertssonar læknis, dagsettrar 13. júlí 2016, en helmingur kostnaðar vegna matsgerðarinnar hafi verið greiddur af Vátryggingafélagi Íslands hf. Þá hafi stefnanda verið nauðsynlegt að afla skattframtala til stuðnings kröfu sinni en kostnaður vegna þess hafi numið 1.750 krónum. Samtals sé útlagður kostnaður því 73.750 krónur (72.000 + 1.750).

Með vísan til framangreinds nemur stefnufjárhæð því samtals 18.580.649 krónum (4.933.5190 + 747.970 + 1.781.600 + 10.794.810 + 337.750).

Stefnandi styður vaxtakröfu sína við 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Samkvæmt ákvæðinu beri bætur vegna tímabundins atvinnutjóns, þjáninga og varanlegs miska 4,5% ársvexti frá slysdegi 19. janúar 2015. Bætur vegna varanlegrar örorku beri 4,5% ársvexti frá þeim degi þegar heilsufar stefnanda í kjölfar slyssins telst stöðugt eða frá 29. febrúar 2016.

Um dráttarvexti vísast til 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001. Upphafstími dráttarvaxta miðist við þann dag þegar mánuður var liðinn frá því kröfubréf hafi verið sent stefnda þann 29. ágúst 2016, sbr. 9. gr. vaxtalaga. Krafist sé dráttarvaxta af útlögðum kostnaði frá þeim degi einnig.

Stefnandi vísar til þess að hann hafi fengið greiddar bætur úr slysatryggingu launþega hjá Vátryggingafélag Íslands hf. samtals að fjárhæð 3.348.452 krónur þann 9. ágúst 2016. Þá hafi hann fengið greiddar 1.163.986 krónur frá Sjúkratryggingum Íslands vegna slyssins þann 30. september 2016. Þær fjárhæðir komi til frádráttar kröfu stefnanda í samræmi við ákvæði 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga.

Um lagarök vísar stefnandir fyrst og fremst til ákvæða lögreglulaga nr. 90/1996, einkum 30. gr. Þá er vísað til skaðabótalaga nr. 50/1993, einkum 1.-7. gr., 16. gr. og 23. gr. a., sem og reglna skaðabótaréttar um hlutlæga ábyrgð. Stefnandi vísar einnig til ákvæða kjarasamninga Landssambands lögreglumanna og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og meginreglna samninga- og vinnuréttar.

Um varnarþing vísar stefnandi til 3. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála og um málskostnaðarkröfu til 129. og 130. gr. laganna. Krafa um virðisaukaskatt af málskostnaði er reist á ákvæðum laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Um dráttarvexti vísar stefnandi til ákvæða laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, einkum 6. og 9. gr.

IV

Stefndi reisir sýknukröfu sína á því að slys stefnanda verði rakið til aðstæðna sem stefnandi hafi sjálfur borið ábyrgð á og að um óhappatilvik hafi verið að ræða.

Stefndi kveður engan ágreining vera milli aðila um að í máli þessu reyni á hlutlæga bótaskyldu íslenska ríkisins samkvæmt 30. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Í frumvarpi til laganna komi fram að vegna eðlis starfa lögreglumanna þyki eðlilegt að hafa í lögum sérstakt ákvæði sem skyldar ríkissjóð til að greiða þeim bætur vegna tjóns sem þeir verði fyrir vegna starfs síns. Þá sé vísað til þess hversu torvelt þeim kunni að reynast að sækja mál á hendur þeim sem tjóni hafi valdið. Stefndi vísar til þess að fræðimenn hafi bent á að reglan um hlutlæga ábyrgð sé undantekningarregla og verði ekki beitt nema sýnt sé fram á gild rök fyrir því að hún eigi við. Ef vafi leiki á því, hvort lagaákvæði teljist mæla fyrir um hlutlæga ábyrgð, verði svo ekki talið vera nema sá skýringarkostur sé ótvíræður. Þá sé það eitt af meginatriðum við beitingu reglunnar um hlutlæga ábyrgð að sanna orsakatengsl milli þeirrar háttsemi, sem hin hlutlæga ábyrgðarregla taki til, og tjóns. Þá vísar stefndi einnig til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 24. júní 2016 í máli nr. E-4045/2015.

Í greinargerð stefnda kemur fram að stefndi sé sammála stefnanda um að ákvæði 7.5 í hlutaðeigandi kjarasamningi feli í sér ítrekun og nánari útfærslu á hlutlægri ábyrgð stefnda. Það feli jafnframt í sér að skýra verði kjarasamningsákvæðið með hliðsjón af þeim undirstöðurökum sem búi að baki lagagreininni. Þær röksemdir lúti öðru fremur að því eðli lögreglustarfsins að halda uppi lögum og reglu og afstýra brotum, sbr. 2. mgr. 1. gr. lögreglulaga, en ljóst sé að við framkvæmd þeirra starfa getur komið til líkamlegra átaka eins og lagt sé til grundvallar í mati Magnúsar Páls Albertssonar frá 13. júlí 2016 á afleiðingum líkamstjóns stefnanda.

Stefndi telur að kjarasamningsákvæðið eigi ekki við um þá aðstöðu, sem uppi sé í málinu, þar sem óljóst sé í hvaða erindagjörðum stefnandi hafi komið við á heimili sínu í umrætt sinn og að hvaða marki sú viðkoma hafi tengst reglubundnum störfum hans sem lögreglumanns. Stefnandi hafi, að eigin sögn, verið hálfnaður með vakt sína þegar slysið hafi orðið og því virðist viðkoma hans á heimilinu ekki hafa verið liður í að komast á milli dvalarstaðar og vinnustaðar með þeim hætti sem almennt sé gert ráð fyrir í kjarasamningsákvæðinu, þ.e. fyrir upphaf eða eftir lok vaktar. Þá sé því ekki haldið fram í stefnu að stefnandi hafi verið á bakvakt og verið á leið í útkall. Samkvæmt þessu verði að leggja til grundvallar að stefnandi hafi sjálfur ákveðið að koma við á heimili sínu í umrætt sinn, óháð starfi sínu.

Eins og atvikum sé háttað, kveðst stefndi ekki fallast á að hann beri hlutlæga ábyrgð á þeim atvikum, sem urðu stefnanda til tjóns. Í fyrsta lagi hafi tjónið ekki stafað af þeirri hættu á líkamstjóni sem lögreglustarfinu fylgi og þá hafi það staðið stefnanda næst að tryggja öryggi sitt á leið frá heimili sínu að bílastæðinu. Sem umráðamaður fasteignarinnar hafi stefnandi þekkt vel til aðstæðna fyrir utan heimili sitt og hafi sjálfum borið að gæta að öryggi sínu. Atvik málsins séu því ósambærileg þeim fordæmum sem stefnandi vísi til og leggi fram gögn um í málinu. Því sé ekki um það að ræða, að höfnun á hlutlægri bótaskyldu í þessu máli víki frá venjubundinni framkvæmd við uppgjör bótamála lögreglumanna. Þá hafi það engin áhrif við úrlausn málsins þótt tjónið hafi verið fellt undir slysatryggingu launþega sem vinnuslys, enda séu bætur úr slíkri tryggingu reistar á öðrum og ósambærilegum grunni en hin hlutlæga skaðabótaskylda.

Verði ekki fallist á sýknukröfu, krefst stefndi þessað kröfur stefnanda sæti verulegri lækkun með vísan til þess að stefnandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi, enda verði ekki annað ráðið en að hann hafi verið kunnugur öllum aðstæðum við heimili sitt og hefði getað valið að ganga gætilega að bifreiðinni, án þess að hoppa og stíga á hálkubletti.

Í greinargerð áskilur stefndi sér rétt til að gera við meðferð málsins athugasemdir við og afla gagna um forsendur, sem búa að baki útreikningi stefnanda á einstökum tjónsliðum, svo sem útreikningi á tímabundnu atvinnutjóni og varanlegri örorku, eftir atvikum með öflun dómkvadds mats. Þá vísar stefndi varakröfu sinni til stuðnings til framlagðrar umsagnar Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra þar sem m.a. komi fram að stefnandi hafi fengið greidda í níu mánuði meðaltalsyfirvinnu síðastliðna 12 mánuði áður en veikindi hans hófust, alls 2.137.970 krónur. Kröfu um bætur vegna sjúkrakostnaðar og annars fjártjóns, sbr. 1. gr. skaðabótalaga, sé sérstaklega mótmælt sem órökstuddum. Jafnframt skorar stefndi á stefnanda að leggja fram allar upplýsingar um þær greiðslur sem hann hefur móttekið eða hefur átt rétt til og dragast eiga frá bótum, sbr. einkum 2. mgr. 2. gr. og 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga.

Loks mótmælir stefndi kröfum stefnanda um dráttarvexti af dómkröfunni, auk þess sem stefndi telur að bætur úr sjúkratryggingu launþega og örorkubætur almannatrygginga eigi að dragast beint frá höfuðstól áður en vextir séu reiknaðir af fjárhæðinni.

Til stuðnings kröfum stefnda um málskostnað vísast í öllum tilvikum til XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

V

Við aðalmeðferð málsins fyrir dómi gáfu skýrslur stefnandi málsins og Guðbrandur Jóhann Ólafsson, aðalvarðstjóri við embætti lögreglustjórans á Norðurlandi eystra. Verður efni skýrslna þeirra rakið eins og þurfa þykir.

Eins og áður er getið eru helstu málsatvik ágreiningslaus og hafa þau verið rakin í kafla II hér að framan. Þá er ágreiningslaust að í máli þessu reynir á hlutlæga bótaskyldu íslenska ríkisins samkvæmt 30. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og ákvæði greinar 7.5 í gildandi kjarasamningi Landsambands lögreglumanna og ríkissjóðs þar sem kveðið er á um að lögreglumenn eigi rétt til bóta fyrir meiðsli og tjón sem þeir verði fyrir vegna starfs síns.

 Stefnandi byggir bótakröfu sína á því að samkvæmt hinni hlutlægu ábyrgð 30. gr. lögreglulaga sé stefndi skaðabótaskyldur vegna alls líkamstjóns sem lögreglumenn verða fyrir í vinnutíma, án tillits til sakar. Skýra verði ákvæðið þannig að öll tjónsatvik, sem eigi sér stað meðan lögreglumaður er við störf, eigi hér undir, óháð tegund tjóns eða orsök. Þá hafi stefnandi verið á vakt þegar slysið varð og teljist því hafa verið að störfum í skilningi greinar 7.5 í kjarasamningum. Af hálfu stefnanda er öllum málsástæðum stefnda í greinargerð mótmælt.

Stefndi reisir sýknukröfu sína á því að slys stefnanda verði rakið til aðstæðna sem stefnandi hafi sjálfur borið ábyrgð á og að um óhappatilvik hafi verið að ræða. Stefndi vísar til þess að regla 30. gr. lögreglulaga um hlutlæga ábyrgð sé undantekningarregla og verði ekki beitt nema sýnt sé fram á gild rök fyrir því að hún eigi við. Það hafi ekki verið gert í máli þessu, auk þess sem ekki liggi fyrir sönnun orsakatengsla milli háttsemi stefnanda umrætt sinn og tjóns hans. Þá eigi ákvæði greinar 7.5 í kjarasamningnum ekki við í málinu þar sem óljóst sé í hvaða erindagjörðum stefnandi hafi komið við á heimili sínu í umrætt sinn og að hvaða marki sú háttsemi hafi tengst reglubundnum störfum hans sem lögreglumanns.

Samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 30. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 skal ríkissjóður bæta lögreglumönnum líkams- og munatjón sem þeir verða fyrir vegna starfs síns. Að baki þessari lagareglu búa sjónarmið um að lögreglumönnum sé tryggð greiðsla skaðabóta svo þeir þurfi ekki að sækja bætur á hendur þeim sem hafi valdið þeim tjóni. Hefur þá verið litið til þess að slík mál gætu tekið langan tíma og að engin trygging sé fyrir því að tjónvaldur reynist borgunarmaður. Eðlilegt hefur þótt að hafa í lögum sérstakt ákvæði sem skyldar ríkissjóð til að greiða bætur í slíkum tilvikum.

Við mat á því hvort 30. gr. lögreglulaga eigi við í tilviki stefnanda verður að leggja mat á það, hvort hann teljist hafa orðið fyrir lýstu líkamstjóni vegna starfs síns. Hér verður því í fyrsta lagi að taka afstöðu til þess hvort stefnandi hafi umrætt sinn verið við störf í skilningi 30. gr. laganna þegar hann slasaðist. Óumdeilt er í málinu að stefnandi var á venjubundinni vakt frá kl. 12.00 til 22.00 hinn. 19. janúar 2015. Svo sem fram kemur í lögregluskýrslu, sem gerð var vegna málsins, átti slysið sér stað kl. 18.05 þann dag. Þá er einnig óumdeilt að stefnandi hafði farið heim til sín í mat skömmu fyrr, svo sem vitnið, Guðbrandur Jóhann Ólafsson aðalvarðstjóri, bar um að tíðkaðist og gert væri ráð fyrir meðal lögreglumanna við embættið og stefnandi hefði því haft fullt leyfi til að gera. Stefnandi lýsti því fyrir dóminum að hann hefði verið kominn heim þegar hringt hefði verið í hann í vaktsíma lögreglunnar og óskað eftir aðstoð lögreglu vegna umferðaróhapps á Dalvík. Hann hefði því haldið af stað af heimili sínu til að sinna þessu útkalli en slasast á leiðinni út í lögreglubifreiðina með þeim hætti sem áður hefur verið lýst. Í tilkynningu lögreglustjórans á Norðurlandi eystra til Vátryggingafélags Íslands hf. um tjón stefnanda, dagsettri 5. febrúar 2015, er slysinu lýst og síðan tekið fram: „Hann varð að hætta vinnu“. Þá er í tilkynningu um slysið til Sjúkratrygginga Íslands, sem undirrituð er fyrir hönd lögreglustjórans á Norðurlandi eystra 29. janúar 2015, svarað játandi að stefnandi hafi strax hætt vinnu og jafnframt hakað í reitinn „Á leið til/frá vinnu, hvar?“ og slysstaður sagður vera bifreiðastæði við Mararbyggð 10. 

Að öllu framangreindu virtu er það mat dómsins að leggja verði til grundvallar frásögn stefnanda um að hann hafi verið á leið í útkall eða til lögreglustarfa þegar hann var á reglubundinni vakt í starfi sínu sem lögreglumaður. Af hálfu stefnda hefur enda ekkert komið fram sem leiðir líkur að því að stefnandi hafi verið í öðrum erindagjörðum þegar skipulagðri vinnuvakt hans var enn ólokið. Slys stefnanda telst því hafa orðið við rækslu stefnanda á lögreglustarfi sínu og því var hann að störfum í skilningi 30. gr. lögreglulaga.

Samkvæmt ákvæði greinar 7.5 í kjarasamningi Landssambands lögreglumanna og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs eiga lögreglumenn rétt á skaðabótum úr hendi ríkisins fyrir meiðsli og tjón sem þeir verða fyrir vegna starfs síns. Í grein 7.5.2 er gerð grein fyrir tilvikum sem samkvæmt ákvæðinu ber að líta til við mat á því hvenær lögreglumenn skuli teljast að störfum í skilningi greinarinnar, auk venjulegrar vinnuskyldu. Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða dómsins að stefnandi hafi verið að sinna venjulegri vinnuskyldu sinni í skilningi ákvæða greinar 7.5 í kjarasamningnum þegar hann slasaðist á leið í útkall.

Því telur dómurinn, með vísan til framangreindra raka, að bæði ákvæði 30. gr. lögreglulaga og grein 7.5 í framangreindum kjarasamningi veiti stefnanda rétt til skaðabóta úr hendi stefnda. Með sömu rökum verður jafnframt fallist á það með stefnanda að þar sem hann var að störfum þegar slysið varð, hafi verið sýnt fram á orsakatengsl milli tjóns hans og þess að hann rann í hálku á leið sinni út í lögreglubifreiðina umrætt sinn, svo sem lýst er hér að framan. Stefndi hefur enda ekki haldið því fram í málinu að tjón stefnanda, sem sýnt hefur verið fram á með matsgerð og öðrum framlögðum gögnum, verði rakið til annarra atvika. Í ljósi alls þess sem rakið hefur verið og þegar litið er til orðalags og gildissviðs framangreindra ákvæða laga og kjarasamnings, þykir hér engu breyta þótt tjón stefnanda verði ekki rakið til þeirrar sérstöku hættu sem lögreglustarfi fylgir, svo sem stefndi heldur fram í greinargerð sinni.

Af hálfu stefnda er á því byggt að stefnandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi þegar hann hoppaði ofan af gangstéttarkanti niður á bifreiðastæðið við heimili sitt umrætt sinn. Ekki verður á þetta fallist, enda verður ekki annað séð af framlagðri ljósmynd af bifreiðastæðinu en að kanturinn sé mjög lágur og umbúnaður hans venjulegur. Þessari málsástæðu stefnda er því hafnað.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða dómsins að stefndi beri skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda, sem framlögð matsgerð ber með sér, og er ágreiningslaust. Í sókn stefnanda er gerð grein fyrir endanlegum kröfum hans og er bótakrafa hans sundurliðuð hér að framan. Við endurflutning málsins 3. nóvember sl. kom fram að ekki væri ágreiningur milli aðila um tölulegan útreikning stefnanda á endanlegri bótakröfu hans að öðru leyti en því að stefndi mótmælir sem órökstuddum þeim lið dómkröfu stefnanda sem lýtur að ferðakostnaði að fjárhæð 264.000 krónur.

Framangreindum kröfuliður vegna ferðakostnaðar stefnanda byggist á ætluðum aksturskostnaði hans vegna ferða í tengslum við læknisheimsóknir, sjúkraþjálfun og sneiðmyndatöku í kjölfar slyssins, bæði til Reykjavíkur og Akureyrar, auk aksturskostnaðar innan sveitarfélaga, svo sem nánar er rakið í stefnu. Þessi kröfuliður styðst ekki við framlögð gögn en af hálfu stefnanda hefur verið vísað til þess að kröfuliðurinn fái stoð í framlagðri matsgerð Magnúsar Páls Albertssonar læknis. Gegn mótmælum stefnda telur dómurinn að þessum kröfulið til grundvallar liggi hvorki nægilegur rökstuðningur né sönnunargögn og telst hann því svo vanreifaður að honum verður að vísa frá dómi.  

Samkvæmt framansögðu ber stefnda að greiða stefnanda 18.316.649 krónur (18.580.649-264.000) með vöxtum og dráttarvöxtum eins og nánar greinir í dómsorði, allt að frádregnum 3.348.452 krónum, sem greiddar voru þann 9. ágúst 2016 og 1.163.986 krónum sem greiddar voru þann 30. september 2016.

Eftir þessari niðurstöðu verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 1.240.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

D ó m s o r ð:

Vísað er frá dómi kröfu stefnanda um bætur vegna ferðakostnaðar að fjárhæð 264.000 krónur.

Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Sigurbirni Þorgeirssyni, 18.316.649 krónur með 4,5% ársvöxtum af  7.463.089 krónum frá 19. janúar 2015 til 29. febrúar 2016, af 18.316.649 krónum frá þeim degi til 29. ágúst 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 18.316.649 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 3.348.452 krónum, sem greiddar voru þann 9. ágúst 2016 og 1.163.986 krónum sem greiddar voru þann 30. september 2016.

Stefndi greiði stefnanda 1.475.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.