Print

Mál nr. 33/2020

A (Einar Gautur Steingrímsson lögmaður)
gegn
B (Erlendur Þór Gunnarsson lögmaður)
Lykilorð
 • Kærumál
 • Börn
 • Lögvarðir hagsmunir
 • Málsforræði
 • Frávísun frá Hæstarétti
Reifun

A kærði dóm Landsréttar þar sem máli B gegn henni var vísað frá héraðsdómi af þeirri ástæðu að ekki hefði verið leitað sátta um ágreiningsefni dómsmálsins fyrir málshöfðunina í samræmi við 33. gr. a. barnalaga nr. 76/2003. Í dómi Hæstaréttar kom fram að samkvæmt meginreglu einkamálaréttarfars um málsforræði hafi stefnandi almennt einn forræði á því hvort máli verði fram haldið og að eðli máls samkvæmt geti aðrir en þeir sem mál hafa höfðað ekki haft lögvarða hagsmuni af því að kæra úrskurð eða dóm um frávísun máls. Var málinu því vísað frá Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar 16. október 2020 en kærumálsgögn bárust réttinum 23. sama mánaðar. Kærður er dómur Landsréttar 2. október 2020 þar sem máli varnaraðila á hendur sóknaraðila var vísað frá héraðsdómi. Kæruheimild er í a-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði dómur verði felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Í báðum tilvikum krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili höfðaði mál þetta í héraði. Endanlegar dómkröfur hans voru aðallega að honum yrði einum falin forsjá þriggja barna hans og sóknaraðila. Til vara krafðist hann þess að aðilar færu áfram sameiginlega með forsjá barnanna en að þau hefðu lögheimili hjá sér. Í báðum tilvikum krafðist hann meðlags með börnunum úr hendi sóknaraðila og að ákveðinn yrði umgengnisréttur þess foreldris sem börnin hefðu ekki lögheimili hjá. Sóknaraðili krafðist sýknu af kröfum varnaraðila og jafnframt að sameiginlegri forsjá yrði slitið og henni einni falin forsjá barnanna. Þá krafðist hún meðlags frá varnaraðila með börnunum og að ákveðinn yrði umgengnisréttur þess foreldris sem ekki fengi forsjána. Með héraðsdómi voru þessar kröfur sóknaraðila teknar til greina.

Varnaraðili áfrýjaði dóminum til Landsréttar og krafðist þess aðallega að málinu sem hann hafði sjálfur höfðað yrði vísað frá héraðsdómi. Til vara krafðist hann þess að héraðsdómur yrði ómerktur en til þrautavara gerði hann sömu kröfur og hann hafði uppi í héraði. Fyrir Landsrétti krafðist sóknaraðili staðfestingar héraðsdóms. Með hinum áfrýjaða dómi var málinu vísað frá héraðsdómi af þeirri ástæðu að ekki hefði verið leitað sátta um ágreiningsefni dómsmálsins fyrir málshöfðunina í samræmi við 33. gr. a. barnalaga nr. 76/2003.

Eins og hér hefur verið rakið krefst sóknaraðili þess að hinum áfrýjaða dómi verði hnekkt þar sem máli er höfðað var á hendur henni var vísað frá héraðsdómi. Samkvæmt meginreglu einkamálaréttarfars um málsforræði hefur stefnandi almennt einn forræði á því hvort máli verði fram haldið þótt dómari sé ekki með öllu háður vilja stefnanda þar um. Hæstiréttur hefur jafnframt slegið því föstu, sbr. dóm réttarins 4. apríl 2019 í máli nr. 16/2019, að eðli máls samkvæmt geti aðrir en þeir, sem mál hafa höfðað, ekki haft lögvarða hagsmuni af því að kæra úrskurð eða dóm um frávísun máls. Í því tilliti gildir einu þótt sóknaraðili hafi á grundvelli dómvenju í forsjármálum haft uppi gagnkröfur fyrir héraðsdómi án höfðunar gagnsakar, enda verður því ekki jafnað til málshöfðunar til sjálfstæðs dóms samkvæmt 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991, en með því hefði henni verið kleift að reka það mál áfram án tillits til þess hvort aðalsök yrði vísað frá dómi. Samkvæmt þessu verður málinu vísað frá Hæstarétti.

Rétt er að aðilar beri hvor sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

 

Dómur Landsréttar 2. október 2020.

Landsréttardómarinn Oddný Mjöll Arnardóttir, Ása Ólafsdóttir, prófessor og Gunnar Hrafn Birgisson, sálfræðingur, kveða upp dóm í máli þessu.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila
 1. Áfrýjandi skaut málinu til Landsréttar 12. mars 2020. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 21. febrúar 2020 í málinu nr. E-2155/2018.

 2. Áfrýjandi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar. Að því frágengnu krefst hann þess að honum verði dæmd full forsjá C, kt. [...], D, kt. [...] og E, kt. [...] og að lögheimili barnanna verði hjá honum frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs þeirra. Til vara krefst hann þess að forsjá barnanna verði áfram sameiginleg en að lögheimili þeirra verði hjá honum frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs þeirra. Í báðum tilvikum krefst hann þess að stefndu verði gert að greiða honum einfalt meðlag með börnunum frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs þeirra. Þá krefst hann þess að kveðið verði á um inntak umgengnisréttar þess foreldris sem ekki færi með forsjá barnanna eða lögheimili þeirra. Að lokum krefst hann málskostnaðar úr hendi stefndu í héraði og fyrir Landsrétti.

 3. Stefnda krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms. Þá krefst hún málskostnaðar fyrir Landsrétti, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Málsatvik og sönnunarfærsla
 1. Aðilar málsins hófu sambúð árið 1999 og gengu í hjónaband árið 2002. Á sambúðartíma eignuðust þau fjögur börn, þau F árið [...], C árið [...], D árið [...] og E árið [...]. Þau skildu að borði og sæng í [...] 2013 og gengu þá frá samkomulagi þar sem kveðið var á um sameiginlega forsjá barna þeirra. Var lögheimili barnanna hjá móður og regluleg umgengni ákveðin sjö dagar í senn hjá hvoru foreldri.

 2. Árið 2015 höfðaði áfrýjandi forsjármál sem lauk með dómsátt í september 2016. Þar var kveðið á um að forsjá barnanna skyldi vera sameiginleg og að lögheimili F og E skyldi vera hjá áfrýjanda en lögheimili C og D skyldi vera hjá stefndu. Skyldi regluleg umgengni hvors foreldris við börnin vera tvær vikur í senn. Leyfi til lögskilnaðar var gefið út í [...] 2017.

 3. Áfrýjandi höfðaði mál þetta fyrir héraðsdómi 19. júní 2018. Þegar málið var flutt hafði F náð 18 ára aldri og voru endanlegar dómkröfur áfrýjanda fyrir héraðsdómi þær að honum yrði dæmd forsjá C, D og E og að lögheimili barnanna yrði hjá honum. Þá krafðist hann þess að stefnda yrði dæmd til að greiða honum einfalt meðlag með börnunum fram að 18 ára aldri þeirra. Til vara krafðist hann þess að forsjá barnanna yrði áfram sameiginleg en að lögheimili þeirra yrði hjá honum og að stefnda yrði dæmd til að greiða honum einfalt meðlag með þeim til 18 ára aldurs. Loks krafðist hann þess að kveðið yrði á um inntak umgengnisréttar þess foreldris sem ekki færi með forsjá eða lögheimili barnanna.

 4. Með hinum áfrýjaða dómi 21. febrúar 2020 var kveðið á um að stefnda skyldi ein fara með forsjá barnanna C, D og E frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs þeirra og að áfrýjandi skyldi greiða einfalt meðlag með börnunum á sama tíma. Auk þess var þar kveðið á um að regluleg umgengni áfrýjanda við börnin yrði frá fimmtudegi til mánudags aðra hverja viku og að umgengni um hátíðir og í sumarleyfum yrði með nánar tilgreindum hætti.

 5. Í málinu liggja fyrir þrjár matsgerðir um hæfni áfrýjanda og stefndu til að fara með forsjá barnanna. Er þar um að ræða undirmatsgerð sem aflað var í tengslum við fyrra forsjármál aðila og undirmatsgerð sem aflað var við meðferð málsins í héraði. Þá var aflað yfirmatsgerðar við meðferð málsins fyrir Landsrétti. Báðir málsaðilar gáfu viðbótarskýrslur fyrir Landsrétti auk þess sem yfirmatsmenn staðfestu matsgerð sína fyrir dómi. Þá voru lögð fram ný skjöl fyrir Landsrétti sem lýsa tölvusamskiptum aðila auk upplýsinga um mætingar og ástundun barnanna í skóla.

Niðurstaða
 1. Fyrir Landsrétti gerir áfrýjandi kröfu um að málinu, sem hann höfðaði sjálfur í héraði, verði vísað frá dómi þar sem sáttameðferð sýslumanns uppfylli ekki skilyrði 33. gr. a barnalaga nr. 76/2003. Dómnum ber að gæta að því af sjálfsdáðum hvort fullnægjandi sáttameðferð samkvæmt fyrrgreindu lagaákvæði hafi farið fram áður en mál þetta var höfðað, sbr. dóm Hæstaréttar 6. október 2014 í máli nr. 632/2014.

 2. Samkvæmt 33. gr. a barnalaga, sem kom inn í lögin með 12. gr. laga nr. 61/2012, er það ófrávíkjanleg skylda foreldra að undirgangast sáttameðferð áður en mál er höfðað, en markmið sáttameðferðar samkvæmt 3. mgr. sama ákvæðis er að hjálpa foreldrum að gera samning um þá lausn máls sem er barni fyrir bestu. Í vottorði um sáttameðferð á samkvæmt 6. mgr. ákvæðisins að gera grein fyrir því hvernig sáttameðferð fór fram, helstu ágreiningsatriðum, afstöðu aðila og sjónarmiðum barns nema það sé talið ganga gegn hagsmunum þess.

 3. Nánar er fjallað um inntak sáttameðferðar í athugasemdum við 12. gr. frumvarps til laga nr. 61/2012. Þar kemur fram að í 1. mgr. ákvæðisins sé mælt fyrir um skyldu til að undirgangast sáttameðferð áður en unnt sé að krefjast úrskurðar eða höfða mál um tiltekin ágreiningsefni og eru mál um forsjá barns þar á meðal. Rétt þyki að gera foreldrum almennt að leita sátta í hvert sinn sem krafist sé úrskurðar eða höfðað sé mál, enda megi ganga út frá því að æskilegt sé að skoða sérstaklega í hverju ágreiningur foreldra sé fólginn í hvert sinn og hvort unnt sé að hjálpa þeim að sætta mál.

 4. Í sáttavottorði 13. september 2018 kemur fram að helstu ágreiningsefni aðila við sáttameðferð hafi verið ,,forsjá barna og umgengni“. Þar kemur jafnframt fram að málinu hafi verið vísað til sáttameðferðar 9. apríl 2018 og henni hafi verið lokið 4. júní 2018 án þess að stefnda hefði mætt til boðaðra sáttafunda. Segir í athugasemdum í vottorðinu að ekki hafi farið fram virk sáttameðferð en upplýsingar um kröfur föður sé að finna í gögnum málsins. Í endurriti úr sifjamálabók sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 23. mars 2018 kemur jafnframt fram að áfrýjandi hafi leitað til embættisins vegna ágreinings um þrjú mál, hið fyrsta væri forsjármál, annað umgengnismál og hið þriðja meðlagsmál.

 5. Beiðni áfrýjanda 30. nóvember 2017, sem var grundvöllur sáttameðferðarinnar, var rituð á eyðublað fyrir beiðni „foreldris með sameiginlega forsjá um breytt lögheimili barns“. Þar kemur fram að áfrýjandi krefjist breytts lögheimilis barnanna C og D og einfalds meðlags með þeim. Í beiðninni er jafnframt vísað til skriflegrar greinargerðar áfrýjanda þar sem fram kemur að um sé að ræða beiðni foreldris með sameiginlega forsjá um breytt lögheimili tveggja barna ásamt beiðni um að úrskurðað verði um umgengni og meðlag. Í hinni skriflegu greinargerð kemur orðrétt fram að ,,áður en málið verður aftur sent til Héraðsdóms Reykjavíkur, er leitast eftir því að sátt takist á milli foreldra og að fallist verði á að lögheimili allra barnanna verði hjá föður og umgengni verði í samræmi við tillögur [...], ásamt því að móður verði gert að greiða einfalt meðlag með öllum börnum þeirra.“

 6. Samkvæmt framangreindu og með vísan til 3. mgr. 71. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 verður lagt til grundvallar að í sáttameðferð þeirri sem lauk 4. júní 2018, sbr. sáttavottorð 13. september 2018, hafi ekki verið fjallað um ágreining aðila um forsjá barnanna þriggja sem mál þetta varðar.

 7. Aðalkrafa áfrýjanda er samkvæmt framansögðu að hann fari einn með forsjá þriggja barna aðila. Aðrar kröfur hans í málinu ráðast í öllum meginatriðum af úrlausn um kröfu hans um forsjá barnanna. Þegar litið er til málatilbúnaðar áfrýjanda í heild verður því ekki talið að leitað hafi verið sátta um ágreiningsefni dómsmálsins fyrir málshöfðunina í skilningi 1. mgr. 33. gr. a barnalaga. Verður því ekki hjá því komist að vísa málinu frá héraðsdómi af sjálfsdáðum.

 8. Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 þykir rétt að aðilar beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Landsrétti. Um gjafsóknarkostnað stefndu í héraði og fyrir Landsrétti fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Málskostnaður í héraði og fyrir Landsrétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefndu, A, í héraði og fyrir Landsrétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanna hennar Gunnhildar Pétursdóttur, 2.300.000 krónur og Einars Gauts Steingrímssonar, 1.200.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur

 

                Mál þetta, sem dómtekið var 24. janúar 2020, höfðaði B, [...], Reykjavík, hinn 19. júní 2018, á hendur A, [...], Reykjavík.

                Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefnanda verði dæmd full forsjá og lögheimili barna aðila; C, kt. [...], D, kt. [...] og E, kt. [...], frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs þeirra.

                Til vara er þess krafist að forsjá barnanna verði áfram sameiginleg með aðilum, en að lögheimili allra barnanna verði hjá stefnanda frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs þeirra.

                Í báðum tilvikum er þess krafist að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda einfalt meðlag með börnunum frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs þeirra. Enn fremur er þess krafist að með dómi verði kveðið á um inntak umgengnisréttar þess foreldris sem ekki fær forsjá eða lögheimili barnanna. Loks krefst stefnandi málskostnaðar.

                Stefnda krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst hún þess að sameiginlegri forsjá aðila vegna framangreindra barna aðila verði slitið og að hún fari framvegis ein með forsjá þeirra til 18 ára aldurs. Þá er þess krafist að kveðið verði nánar á um inntak umgengnisréttar barnanna við það foreldri sem ekki fær forsjá og að stefnandi greiði einfalt meðlag með börnunum frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs þeirra. Loks er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

                Undir rekstri málsins var dómkvaddur matsmaður, G sálfræðingur, til að leggja mat á forsjárhæfni aðila. Matsgerð hans, dags. 22. mars 2019, var lögð fram á dómþingi 27. sama mánaðar. Í þinghaldi 24. apríl s.á. krafðist stefnandi þess að matsmanni yrði gert að endurskoða matsgerð sína. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði uppkveðnum 10. júlí 2019 og var sá úrskurður ekki kærður.

                Aðalmeðferð málsins hófst 10. janúar sl., en var frestað til framhaldsaðalmeðferðar 24. s.m. þar sem ekki tókst að leiða öll þau vitni fyrir dóm þann dag sem aðilar töldu nauðsynlegt. Við upphaf framhaldsaðalmeðferðar lagði stefnandi fram bókun um endanlegar dómkröfur sínar og kom þá fyrst fram varakrafa hans um sameiginlega forsjá. Stefnda mótmælir þeirri kröfu sem of seint fram kominni.

 

I

Helstu málsatvik og ágreiningsefni

                Aðilar máls þessa hófu sambúð árið 1999 og gengu í hjónaband árið 2002. Þau skildu að borði og sæng þann [...] 2013 og leyfi til lögskilnaðar var gefið út [...] 2017. Þau eignuðust saman fjögur börn á árunum 2000 til 2010, og lýtur mál þetta að þremur yngstu börnunum, en elsta barn þeirra hafði náð 18 ára aldri er málið var höfðað.

                Aðilar eru sammála um að lengi hafi stefnt í skilnað þeirra á milli. Stefnda lýsir sambúð þeirra sem stormasamri og kveðst hafa upplifað bæði andlegt og líkamlegt ofbeldi af hálfu stefnanda. Stefnandi mótmælir öllum slíkum ásökunum og kveðst sjálfur vera fórnarlamb svæsins andlegs ofbeldis af hálfu stefndu, sem og líkamlegs ofbeldis, á meðan á sambúð þeirra stóð, en samskipti þeirra hafi lengi verið erfið.

                Við skilnað þeirra gengu þau frá samkomulagi sem staðfest var af sýslumanni um að foreldrar færu sameiginlega með forsjá barnanna, lögheimili þeirra væri hjá móður, faðir greiddi einfalt meðlag með hverju barni og að börnin hefðu umgengni við hann í sjö daga af hverjum fjórtán, þ.e. í viku í senn. Stefnandi kveður þetta samkomulag hafa verið gert til málamynda. Stefnda mótmælir því að samið hafi verið til málamynda um lögheimili barnanna en kveðst ekki hafa innheimt meðlag framan af þar sem þau hafi ákveðið að skipta heldur með sér kostnaði vegna barnanna. Það hafi ekki gengið vel og því hafi hún á endanum sótt um meðlag hjá Tryggingastofnun, síðla árs 2014. Var stefnanda tilkynnt um innheimtu meðlags frá 1. janúar 2015 með bréfum Tryggingastofnunar og Innheimtustofnunar sveitarfélaga 28. og 29. s.m.

                Stefnandi fór um svipað leyti fram á það hjá sýslumanni að lögheimili barnanna yrði fært til hans og að hann fengi meðlag með börnunum. Stefnda mætti ekki á fund sýslumanns vegna beiðni um lögheimilisbreytingu og ekki á boðaða sáttafundi, en mætti á fund 24. mars vegna kröfu um meðlag og mótmælti þeirri kröfu. Vottorð um árangurslausa sáttameðferð var gefið út 19. mars 2015 og sýslumaður vísaði málunum frá 31. s.m.

                Stefnandi höfðaði forsjármál í júní 2015, en því lauk með dómsátt aðila 28. september 2016. Hafði þá undir rekstri málsins verið aflað matsgerðar dómkvadds matsmanns, H sálfræðings, dags. 4. apríl 2016, og liggur sú matsgerð einnig fyrir í þessu máli. Var stefnda þar metin nokkru hæfari en stefnandi til að fara með forsjá barnanna og tekið fram að hún mældist einnig við betri geðræna heilsu en stefnandi.

                Samkvæmt dómsáttinni skyldu aðilar fara áfram sameiginlega með forsjá barna sinna fjögurra, lögheimili elsta og yngsta barnsins skyldi vera hjá föður en hinna tveggja hjá móður og foreldrar greiða einfalt meðlag með þeim börnum sem ekki hefðu lögheimili hjá þeim. Þá var ákveðið að regluleg umgengni skyldi vera þannig að öll börnin dveldu saman hjá hvoru foreldri í tvær vikur í senn. Ennfremur var kveðið á um að aðilar myndu leita aðstoðar sérfræðings vegna samskiptaörðugleika sinna.

                Aðilar leituðu í framhaldi til I sálfræðings í október 2016 en fljótlega mun hafa komið á daginn að lítill grundvöllur væri fyrir sáttameðferð hans og lyktaði þeim umleitunum vorið 2017. Það ár kveður stefnandi samskipti aðila hafa versnað og tengir það því að hann vann dómsmál á hendur tryggingafélagi, vegna slyss sem hann varð fyrir á árinu [...] og fékk greiddar háar slysabætur. Jafnframt er þó tekið fram í stefnu að stefnanda hafi gramist það mjög að sitja uppi með kostnaðinn af málarekstrinum og það að hafa greitt meðlag í um tvö ár, vegna þess eins að stefnda hafi ekki séð hversu ósanngjarnt það væri að bera fyrir sig málamyndasamkomulag milli þeirra. Stefnda kveðst aftur á móti frá upphafi hafa óttast að dómsáttin myndi ekki halda, en hafa ákveðið að láta á það reyna vegna eindreginnar óskar elstu dóttur aðila um að þau næðu sáttum.

                Í mars 2018 tók sýslumaður fyrir kröfu stefnanda um að fá lögheimili eldri sonar og yngri dóttur fært frá móður til föður þannig að öll börnin byggju hjá föður. Þá var höfð uppi krafa um breytingu á umgengni þannig að umgengni barnanna við móður yrði minnkuð og færi fram aðra hverja helgi. Loks var krafist meðlags með eldri drengnum. Í greinargerð sem fylgdi beiðni stefnanda um breytt lögheimili kom fram að ástæða kröfunnar væri einkum tvíþætt. Annars vegar var vísað til samskiptaleysis móður við elstu dóttur og þess að eldri sonurinn hefði átt í útistöðum við móður og neitað að fara til hennar síðastliðna fjóra mánuði. Hins vegar var vísað til þess að I sálfræðingur hefði lagt það til við sáttameðferð að lögheimili allra barnanna yrði hjá stefnanda. Málinu var vísað til sáttameðferðar hjá sýslumannsembættinu 9. apríl s.á. en henni lauk 4. júní s.á, án árangurs, samkvæmt vottorði um sáttameðferð, dags. 13. september 2018. Sama dag vísaði sýslumaður málinu frá.

                Mál þetta var, eins og fyrr sagði, höfðað 19. júní 2018 og þingfest 26. s.m. 

                Við aðalmeðferð málsins gáfu báðir málsaðilar aðilaskýrslu. Auk þess gáfu skýrslu sem vitni H og G, bæði sálfræðingar og dómkvaddir matsmenn. Auk þess gáfu vitnaskýrslu sálfræðingarnir I, J, K og L, sem jafnframt er deildarstjóri skólaþjónustunnar í þjónustumiðstöð [...]og [...]. Þá gáfu vitnaskýrslu kennararnir M og N, O ráðgjafi, P, systir stefndu, og R, barnsfaðir P. Loks gaf skýrslu sem vitni F, 19 ára gömul dóttir málsaðila. Þá ræddu dómendur við yngri dóttur aðila, D, í viðtalsherbergi í dómhúsinu við aðalmeðferð málsins, að ósk stefnanda, og könnuðu afstöðu hennar og vilja.

 

II

Málsástæður stefnanda

                Forsjá og lögheimili

                Stefnandi byggir á því að það sé börnunum fyrir bestu að lögheimili og forsjá þeirra verði hjá honum, með vísan til 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003. Ljóst sé að dómsátt aðila frá 28. september 2016 þjóni ekki hagsmunum barnanna og því sé nauðsynlegt að gerðar verði breytingar á sáttinni. Með dómsáttinni hafi aðilar m.a. heitið því að bæta samskipti sín hvort við annað, enda hefðu samskipti þeirra veruleg áhrif á líðan barna þeirra. Stefnda hafi hins vegar ekki sýnt af sér nægan vilja til að sættast við stefnanda og viljandi viðhaldið vondum eða engum samskiptum. Sálfræðingur sem fenginn hafi verið til að taka á samskiptavandamálum aðila telji samskipti aðila mjög slæm og raunar með versta móti. Sáttameðferð milli aðila hafi engu skilað. Sálfræðingurinn telji núverandi ástand ekki til þess fallið að þjóna hagsmunum barnanna. Hann álíti stefnanda betur til þess fallinn að fara með málefni barnanna og hafi lagt til að lögheimili barnanna verði hjá honum og að umgengni stefndu við börnin takmarkist við aðra hverja helgi.

                Frá undirritun dómsáttarinnar hafi stefnandi ítrekað reynt að eiga samskipti við stefndu. Oftar en ekki fái hann engin svör við skilaboðum sem hann sendi henni, en þau svör sem hann fái einkennist af mikilli fyrirlitningu og jafnvel illsku. Þessi samskiptamáti stefndu hafi leitt til togstreitu sem bitni verst á börnum aðila. Þannig geti stefnandi ekki fengið einföldustu skilaboð frá stefndu og verði að leita til barnanna um upplýsingar. Stefnandi kveðst átta sig á því að þetta valdi börnunum streitu, en að sama skapi sé honum nauðugur sá kostur að leita upplýsinga hjá börnum sínum, sérstaklega þeim eldri. Hann hafi áhyggjur af því að þetta samskiptaleysi stefndu sé nú þegar búið að valda börnum aðila miklum óþarfa áhyggjum og leggist sífellt þyngra á sálarlíf þeirra. Álíti stefnandi að öll samskipti verði einfaldari verði fallist á dómkröfur hans og hann fari með vald lögheimilisforeldris. Stefnandi hafi sýnt að hann sé fær um að koma skilaboðum áleiðis til stefndu. Færi stefnda með vald lögheimilisforeldris og stefnandi hefði einungis takmarkaða umgengni við börnin væru litlar líkur á því að hann fengi nokkrar upplýsingar frá stefndu. Stefnandi hafi lagt og muni ávallt leggja á það áherslu að upplýsa stefndu um málefni barna þeirra. Þá vilji hann að börn þeirra heimsæki stefndu að vild og að þau hætti að upplifa þá eilífu togstreitu sem nú ríki.

                Stefnandi byggir á því að stefnda hafi ekki þá fjárhagslegu getu eða fjárhagslegu yfirsýn sem nauðsynleg sé til að gæta hagsmuna barna aðila. Hún hafi ekki fjárhagslega burði til að standa straum af nauðsynlegum kostnaði vegna barnanna eða meta með hvaða hætti eigi að forgangsraða útgjöldum heimilisins. Dæmi séu um það að hún vilji hlutast til um hvaða tómstundir börn aðila velji sér út frá því hversu dýr tómstundin er. Hún sinni því illa eða ekki neitt að sækja um tómstundastyrki. Stefnandi fái engar eða litlar upplýsingar um það hvort börnin þarfnist læknismeðferðar eða tannlækninga þrátt fyrir að hann óski eftir slíkum upplýsingum.

                Stefnandi byggir á því að hann hafi sýnt að hann sé líklegri en stefnda til að gæta hagsmuna barnanna og tryggja þeim öryggi í framtíðinni. Stefnandi sinni því vel að hvetja börnin til að gera þá hluti sem þau hafa áhuga á. Hann sé duglegur við að fylgja eftir vandamálum er tengjast skólagöngu og tómstundum, sérstaklega í tilfelli C sem eigi við nokkur vandamála að stríða, m.a. ofvirkni. Stefnandi sé mun betur til þess fallinn að veita börnunum þann stuðning sem þau þurfi á að halda og skapa þeim sem bestar aðstæður til að þroskast og dafna. Stefnandi örvi börn sín og hvetji þau til að takast á við erfiðleika og fylgja áhuga sínum. Hann mæti á alla boðaða foreldrafundi og sé virkur þegar komi að því að fara yfir málefni barna hans.

                Stefnandi sé góð fyrirmynd barna sinna. Hann hafi lokið námi í [...] og [...], sé [...], hafi lokið námi við [...]og eigi sex einingar eftir til að útskrifast sem [...]. Stefnandi hafi sigrast á gríðarlegu mótlæti í kjölfar slyss árið 2012, unnið [...], staðið sig vel í starfi, sé reglusamur og hafi aldrei neytt vímuefna. Hann telji stefndu ekki standa sér jafnfætis þegar komi að því að vera börnum aðila góð fyrirmynd, hún sé áhrifagjörn, hvatvís, springi af reiði, valdi börnum sínum ótta með skapofsaköstum og sé dónaleg og ógnandi í samskiptum.

                Stefnandi byggir á því að börn aðila hafi meiri persónuleg tengsl við hann en stefndu og kveður það fá stuðning í matsskýrslu H sálfræðings, dags. 4. apríl 2016, sem aflað hafi verið í tengslum við fyrra dómsmál aðila. Af lestri matsskýrslunnar sé ljóst að tengsl stefndu við börnin versni með aldri barnanna. Stefnandi sé hræddur um að það sama verði uppi á teningnum með yngri börnin tvö og þau tvö eldri. Þegar yngri börnin eldist muni stefnda smátt og smátt ýta þeim frá sér með sama hætti og gerst hafi með eldri tvö systkinin.

                Stefnandi byggir á því að húsnæðismál hans séu betri en hjá stefndu, þar sé rýmra um börnin og þar líði þeim betur. Stefnandi sé líklegri til að geta staðið við útgjaldaliði af fasteign sinni en stefnda, þar sem stefnandi skuldi mun minna í fasteignalán en hún.

                Nú sé svo komið að tvö af börnum aðila sýni augljós merki um að þau vilji fremur vera hjá stefnanda en stefndu. Með því að fá fulla forsjá og lögheimili barna sinna skráð hjá sér telji stefnandi að börnin muni upplifa mun meiri stöðugleika og minna áreiti í sínu hversdagslega lífi. Þá telji stefnandi að tengsl barnanna við hann séu sterkari, nánari og betri en við stefndu. Stefnandi telji að sérfræðiskýrsla sem aflað verði við rekstur málsins muni leiða í ljós að andleg og líkamleg líðan barnanna verði langtum betri hjá stefnanda en stefndu. Stefnandi telji sig eiga auðveldara með að ná persónulegum tengslum við börnin fjögur. Bræði stefndu komi allt of oft óþarfa róti á börnin. Stefnandi gefi sér meiri tíma til að ná til barnanna og þeim líði vel í umsjá hans.

                Meðlag

                Krafa um einfalt meðlag frá dómsuppkvaðningu til fullnaðs átján ára aldurs hvers barns sé reist á I. kafla barnalaga nr. 76/2003, sbr. 5. mgr. 34. gr. sömu laga.

                Umgengni

                Stefnanda séu vel ljósar skyldur sínar sem foreldri til að stuðla að því að barn njóti umgengni við hitt foreldri sitt, sbr. m.a. 46. gr. barnalaga, og muni stefnandi ekki koma í veg fyrir slíka umgengni. Um heimild dómara til að ákveða umgengni vísar stefnandi til 5. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003. Óskað sé eftir því að umgengi verði þannig háttað að faðir verði með börnin, nema aðra hverja helgi frá fimmtudegi kl. 15:00 til mánudags kl. 15:00. Óskað sé eftir því að fyrirkomulag stórhátíðardaga og sumarfría haldist eins og það hafi verið ákveðið í dómsátt aðila frá 28. september 2016.

 

III

Málsástæður stefndu

                Krafa stefndu um forsjá og lögheimili.

                Stefnda kveðst ekki telja dómsátt aðila frá 28. september 2016 þjóna hagsmunum barna aðila og að gera verði breytingar á henni á þann hátt að henni verði falin forsjá allra barnanna þriggja og þar með lögheimili þeirra.

                Krafa stefnanda um sýknu af dómkröfum stefnanda og um forsjá barnanna sé reist á 2. og 3. mgr. 34. gr. laga nr. 76/2003. Hagsmunum barnanna sé best borgið í hennar umsjá, enda séu þau tengd henni afar sterkum tilfinningaböndum. Í matsgerð H frá árinu 2016 komi fram að geðtengsl barnanna við báða foreldra séu jafn góð og greini matsmaður ekki mun þar á. Frumtengsl barnanna hafi verið við stefndu, enda hafi það verið hún sem alla tíð hafi svarað frumþörfum þeirra og verið sá aðili sem þau hafi sótt öryggi sitt til. Hún og börnin séu nátengd.

                Stefnda sé ósammála þeirri málsástæðu stefnanda að hann sé hæfara foreldrið, enda komist matsmaður að hinu gagnstæða. Sú ályktun stefnanda sýni að hann sé ekki í tengslum við raunveruleikann og sjái ekki sína eigin vankanta. Varðandi vanhæfni hans sem forsjárforeldris að öðru leyti verði að líta til ofbeldis hans og sjúklegrar stjórnsemi. Hann hafi beitt börnin líkamlegum refsingum, svo sem með því að rassskella þau. Stefnda telji börnunum ekki betur borgið hjá aðila sem ráðskist með fólk og beiti það andlegu og líkamlegu ofbeldi.

                Að mati stefndu eigi sameiginleg forsjá ekki við þegar saga er um ofbeldishegðun í sambandi aðila og þegar einnig komi til samskipta- og samstarfserfiðleikar sé enginn vafi á því að best henti að forsjáin sé á einni hendi. Að mati stefndu sé það börnunum fyrir bestu að hún fari með forsjá þeirra, enda sé hún í betra jafnvægi en stefnandi. Komi það beinlínis fram í matsgerð.

                Stefnda byggir kröfur sínar einnig á því að hún hafi, umfram stefnanda, til að bera þá persónulegu eiginleika sem þurfi til að sinna umsjá og forsjá barnanna til frambúðar. Matsmaður taki undir þetta, enda mælist hún með betri geðræna heilsu en stefnandi. Stefnandi uppfylli greiningarskilmerki fyrir almenna kvíðaröskun en hann mælist með mikil kvíðaeinkenni og nokkur einkenni persónuleikaraskana. Þá komist matsmaður að þeirri niðurstöðu að stefnandi sé sjálflægur og óábyrgur. Hann fari í mótþróa og pirring þar til þolinmæði hans bresti og hann springi.

                Stefnda kveðst óttast að stefnandi muni tala illa um stefndu og snúa börnunum á sitt band, fái hann forsjána. Stefnandi hafi beitt eldri dóttur þeirra, F, andlegri kúgun og ráðskast með hana með því að láta hana vorkenna sér, sáð hjá henni fræjum um það hversu vond móðir hennar væri og fleira í þeim dúr, sem endað hafi með því að stúlkan tók afstöðu með stefnanda. Stefnda telji að stefnandi hafi vísvitandi gert þetta til að hefna sína á stefndu en að hann átti sig ekki á því hvaða neikvæðu áhrif þetta hafi á stúlkuna til frambúðar. Þetta sé ekki gott fyrir börnin og valdi þeim þjáningum. Stefnda gæti þess að tala ekki illa um stefnanda í eyru barnanna en hún óttist að fái stefnandi forsjá barnanna muni hann gera allt til að fá þau á sitt band gegn stefndu, eins og hann hafi gert með F. Slíkt sé óásættanlegt og beinlínis hættulegt fyrir börnin.

                Stefnda hafi sinnt umönnun barnanna af alúð og samviskusemi allt frá fæðingu þeirra og sinnt öllu því sem foreldrar sinni alla jafna varðandi börn sín. Þá hafi stefnda eytt frítíma sínum með börnunum, sinnt tómstundum og heimanámi, og hún mæti á alla viðburði og fundi tengda börnunum. Þá sinni hún heilsuvernd þeirra o.fl. Stefnandi sinni heimanámi barnanna mjög illa og þau komi oft of seint í skólann þegar þau eru hjá honum. Þá heimili stefnandi C oft að sofa út á skóladögum og vera mikið í tölvunni. Það sé ekki gott fyrir drenginn, sem glími við hegðunarvandamál. Agi sé lítill hjá stefnanda, auk þess sem stefnda telji að hann sé ekki í góðu jafnvægi og sé of stjórnsamur. Börnin leiti til stefndu með allar sínar þarfir og langanir og leiki sér glöð á heimili sínu þegar þau eru ekki skólanum.

                Því sé alfarið mótmælt að stefnda búi við lakari húsakost. Aðstæður hennar séu mjög góðar. Stefnda sé einhleyp og búi í eigin húsnæði í [...]. Um sé að ræða rúmgóða íbúð þar sem öll börnin hafi sér herbergi og stefnda einnig. Heimili stefnanda sé hins vegar ekki eins og venjulegt heimili, heldur eins og líkamsræktarstöð, eins og fram komi í matsgerð H á bls. 16. Stutt sé í skóla frá báðum heimilum.

                Börnin séu róleg hjá henni og upplifi meiri stöðugleika, en séu óróleg þegar þau koma frá stefnanda því hann tali mjög illa um stefndu í þeirra eyru. Stefnda telji að stefnandi hafi ekki tilfinningagreind til að sjá hversu mikil neikvæð áhrif þetta hafi á börnin. Taki matsmaður í sama streng. Stefnda leggi sig í líma við að tala ekki illa um stefnanda, þó tilefnin séu ærin, og taki hún þannig hagsmuni barnanna fram yfir sína.

                Stefnda sé róleg, reglusöm og heilsuhraust enda líði henni miklu betur nú en þegar hún var í hjónabandi með stefnanda. Í því hafi hún upplifað ofsóknir og öryggisleysi. Þá setji stefnda þarfir fjölskyldu sinnar ávallt ofar sínum eigin. Hún eigi mjög góð og innileg samskipti við börnin sín og þeim líði vel hjá henni. Stefnda hafi lagt sig fram um að eiga góð samskipti við skóla barnanna og aðra aðila er sinni þeim. Stefnda hafi jafnframt lagt sig mjög fram um að eiga góð samskipti við stefnanda en honum virðist ómögulegt að hlusta að skoðanir hennar og því hafi samskipti þeirra reynst erfið.

                Aðstæður stefnanda séu með allt öðrum hætti og skorti þar á stöðugleika og ábyrgð. Stefnandi þurfi oft að fara út á land að vinna. Hann sé mjög upptekinn af áhugamálum sínum og sé oft í útlöndum til að sinna þeim. Þá fái hann móður sína til að passa. Hann heimili [...] ára dóttur þeirra að vera einni heima, leyfi [...] ára syni þeirra að keyra sjálfskiptan bíl, viðurkenni ekki veikindi þess sonar og telji ekki þörf á að hann fái aðstoð.

                Stefnda kveðst telja að sókn stefnanda í peninga knýi hann til þess að höfða forsjármál þetta, en öll hans samskipti við stefndu snúist um peninga og reyni hann allt sem hann geti til að knésetja stefndu.

                Stefnda hafi lifað mjög ábyrgu lífi eftir fæðingu barnanna. Hún hafi starfað hjá [...] frá 2007, í um níu ár, við góðan orðstír, en nú nýlega hafið störf hjá [...]. Þá hafi hún starfað í aukavinnu hjá [...]frá nóvember 2016, einnig við góðan orðstír.

                Á heimili stefnanda séu ekki reglur og megi börnin vera í tölvunum óáreitt ef þau vilja. Auk þess heimili stefnandi eldri drengnum að vera í leikjum sem séu bannaðir börnum yngri en 16 ára og að horfa á bannaðir ofbeldismyndir. Yngri drengurinn sé farinn að sýna þessum leikjum og myndum eldri bróður síns og föður áhuga og fái oft að vera með. Þetta telji stefnda stofna hegðun og líðan þeirra í hættu. Nú þegar eigi eldri drengurinn við mikinn hegðunarvanda að stríða í skóla en stefnandi neiti að setja drengnum mörk og heimila meðferð til að takast á við þennan vanda. Þá mæti eldri drengurinn illa í skóla þegar hann er hjá stefnanda, sýni mjög slæma hegðun og þurfi á mjög miklu aðhaldi að halda.

                Börnin þurfi reglu, rútínu og aga og að skilja það að þau hafi líka skyldur, svo sem að mæta í skóla á réttum tíma og læra heima. Setja þurfi mörk varðandi tölvu- og tölvuleikjanotkun. Allt þetta setji stefnda á oddinn. Ástæða þess að eldri drengurinn vildi ekki fara til móður sinnar sumarið 2018 sé sú að hún setti honum mörk um tölvuleikjanotkun. Hann hafi verið inni allan daginn í tölvunni, þrátt fyrir að stefnda hafi margítrekað sagt að nú væri komið nóg. Hún hafi tekið af honum tölvuna, en þá hafi hann tekið símann af yngri bróður sínum. Þegar stefnda tók þann síma af honum og sagði honum að fara út að leika, enda þyrfti hann súrefni, hafi hann farið til föður síns og kvartað undan móður sinni. Frásögn í stefnu af þessu atviki sé röng. Í stað þess að standa með hinu foreldrinu í takmörkun tölvuleikjanotkunar og senda eldri drenginn aftur til hennar hafi stefnandi haldið drengnum hjá sér í marga mánuði og ýtt þannig undir óæskilega hegðun drengsins. Af þessu megi ráða að stefnandi sé ekki hæfur til að annast um börnin.                 Þá sé einnig á því byggt að stefnda sé mun líklegri en stefnandi til að viðhalda reglulegri umgengni við stefnanda. Þetta sjáist best á því að stefnandi leyfi börnunum að ráða hvort þau fari til móður sinnar eða ekki, í stað þess að hafa reglu á umgengninni. Sé framangreint dæmi með eldri drenginn skýrasta dæmi þess.

                Stefnda byggir á því að stefnandi sé ekki í andlegu jafnvægi og eigi við stjórnunar- og reiðivandamál að stríða. Í greinargerð er nefnt dæmi um það, sem ekki verður rakið hér.

                Þá sé stefnandi mjög upptekinn af því að stefnda sé skemmdur einstaklingur og geri hann allt sem hann geti til að sannfæra alla í kringum sig um að svo sé. Andleg vanheilindi hans lýsi sér einnig í mikilli stjórnsemi í garð stefndu varðandi allt sem viðkomi börnunum. Stefnda hafi þurft að leita sér sálrænnar aðstoðar eftir ofbeldi af hans hálfu. Þá kenni hann skólastjórnendum um hegðunarvanda eldri drengins í stað þess að taka á þeim vanda, og taki enga ábyrgð á því að setja honum mörk.

                Þá hafi stefnandi sýnt af sér mikið dómgreindarleysi með því að setja börnin inn í deilur foreldranna. Hann tali illa um stefndu í þeirra eyru og ásaki hana um að stela frá sér peningum. Vísar stefnda til atvika varðandi eldri dóttur aðila, sem sé mjög meðvirk og hafi á endanum fjarlægst móður sína og tekið afstöðu með föður sínum. Stefnda hafi hvatt stúlkuna til að fara í skiptinám í [...] frá hausti 2016 til vors 2017 svo að hún fengi frið frá deilum foreldra sinna. Hún sé nú orðin 18 ára og því snúist þetta mál ekki lengur um hana.

                Fái stefnandi forsjá yfir börnunum muni hann gera allt sem hann geti til að fá börnin á sitt band gegn móður sinni með upplognum sögum, eins og hann hafi gert við eldri dóttur þeirra. Hann blandi börnunum inn í deilur foreldranna og átti sig ekki á því hve slæm áhrif það hafi á börnin. Matsmaður hafi gert þetta að umtalsefni í matsgerð og hafi þessi atriði verið meðal þeirra sem hún taldi draga úr forsjárhæfni hans. Um það sé stefnda sammála og telji að stefnanda skorti innsæi í þarfir barnanna.

                Við mat á foreldrahæfni sé litið til sex þátta: Ástar, verndar og öryggis, líkamlegrar umönnunar og atlætis, örvunar og hvatningar, stuðnings og fyrirmyndar. Niðurstaða matsmanns 2016 hafi orðið sú að stefnda væri mun hæfara foreldrið.

                Varðandi ást hafi, að mati matsmanns, ekki verið annað að sjá en báðir foreldrar hafi myndað geðtengsl við öll börnin og greindi matsmaður ekki mun þar á.

                Varðandi vernd og öryggi þá hafi matsmaður metið það svo að stefnda hefði reynt að vernda börnin fyrir áreiti vegna deilna foreldra en stefnandi hefði blandað börnunum inn í deilurnar og þar með valdið þeim streitu. Stefnda eigi auðveldara með að viðurkenna vanda eldri drengsins en stefnandi og hafi sótt námskeið ætlað börnum með hegðunarvanda en stefnandi hafi afþakkað ráðgjöf. Stefnda hafi því staðið sig nokkuð betur en stefnandi í að tryggja vernd og öryggi barnanna.

                Varðandi örvun og hvatningu þá telji matsmaður stefnanda skorta innsýn í vanda eldri drengsins og að hann skynji ekki vanlíðan eldri dóttur aðila. Stefnda hafi lagt sig eftir því að læra uppeldis- og hegðunarmótandi aðferðir sem stefnandi telji sig ekki þurfa. Hún standi því nokkuð framar stefnanda hvað varði hæfni til að örva og hvetja börnin.

                Varðandi stuðning þá sýni stefnandi afar slakt innsæi í þroska og þarfir barnanna þegar hann ræðir málefni aðila við þau, að mati matsmanns. Fjármál sem hann ræði við börnin séu fyrir ofan skilning þeirra og hann valdi börnunum sársauka og álagi með því að saka móður þeirra um þjófnað og eigin fátækt. Þá hafi hann stillt eldri dóttur aðila upp á milli þeirra stefndu og skaðað tengsl þeirra. Matsmaður telur hvorugt foreldrið hafa sýnt góða færni í að ræða málefni skilnaðarins við börnin en þar standi stefnda sig þó betur en stefnandi.

                Varðandi fyrirmynd þá sé það mat matsmanns að stefnda leggi áherslu á að stöðva ofbeldishegðun á meðan stefnandi beiti sjálfur líkamlegum refsingum. Hann hafi slakt innsæi, ásaki aðra um það sem miður fer og taki ekki ábyrgð sjálfur. Stefnda sé því börnunum ívið betri fyrirmynd en stefnandi.

                Matsmaður 2016 hafi, m.t.t. þessara sex þátta, metið hæfni stefndu til að fara með forsjá barnanna nokkuð betri en stefnanda og tekið fram að hún mældist einnig með betri geðræna heilsu en stefnandi. Hafi matsmaður því mælt með því að stefndu yrði fremur falin forsjá barnanna en stefnanda.

                Með því að fela stefndu forsjá og lögheimili barnanna og gera stefnanda að greiða einfalt meðlag með börnunum, þannig að hún standi straum af öllum kostnaði vegna barnanna, sé hægt að koma í veg fyrir óþarfa árekstra.

                Krafa um inntak umgengi og meðlag

                Til stuðnings kröfu um að dómurinn ákvarði inntak umgengni vísar stefnda til 4. mgr. 34. gr. barnalaga. Stefnda telji það vera best fyrir börnin að samvistir við stefnanda verði aðra hverja helgi, langar helgar, t.d. frá fimmtudegi til mánudags. Þá verði samvistir um stórhátíðir til skiptis hjá aðilum. Þá verði sumarleyfi barnanna skipt jafn á milli aðila og það verði ákveðið fyrir 1. apríl ár hvert hvernig sumarfríum verði háttað.

                Stefnda telji ekki rétt að viðhalda núverandi umgengnisfyrirkomulagi, viku og viku. Hún telji það of mikið rask fyrir börnin. Sé vísað til framangreindra málsástæðna varðandi forsjá því til stuðnings.

                Stefnda byggir kröfu sína jafnframt á því að fyrra samkomulag aðila um að útgjöldum vegna barnanna yrði skipt jafnt á milli aðila hafi ekki gengið eftir og allt frá því að aðilar slitu hjúskap hafi hún staðið straum af stærstum hluta tilfallandi kostnaðar vegna barnanna.

                Stefnda byggir kröfu sína um einfalt meðlag úr hendi stefnanda með börnunum á framfærsluskyldu foreldra, sbr. 53. gr. barnalaga nr. 76/2003, og lágmarksmeðlagsskyldu forsjárlauss foreldris samkvæmt 57. gr., sbr. 55. gr. laganna. Um heimild dómara til að kveða á um meðlagsskyldu í málinu vísar stefnda til 4. mgr. 34. gr. laganna.

                Loks mótmælir stefnda öllum kröfum stefnanda um forsjá barnanna, lögheimili og meðlag, sem og málatilbúnaðinum öllum.

 

IV

Matsgerð

                Undir rekstri þessa máls öfluðu málsaðilar sameiginlega nýrrar matsgerðar dómkvadds matsmanns og var G sálfræðingur dómkvaddur til starfans. Var matsgerðar aflað að tilmælum dómara og var ákveðið að kostnaður af matinu greiddist úr ríkissjóði, sbr. 42. gr. barnalaga nr. 76/2003. Með matsbeiðni var lagt fyrir matsmann að meta forsjárhæfni aðila og hvar forsjá skyldi vera, m.t.t. atriða sem fram koma í athugasemdum við frumvarp til 34. gr. barnalaga nr. 76/2003. Þá var þess óskað að matsmaður kannaði sérstaklega kvíða og öryggi barnanna hjá hvoru foreldri um sig og vilja barnanna, þ.e. hjá hvoru foreldrinu þau vildu frekar vera, eftir því sem aldur þeirra leyfði, sbr. 43. gr. sömu laga.

                Matsgerð matsmannsins, dags. 22. mars 2018, var lögð fram á dómþingi 27. s.m. Í niðurstöðukafla er fjallað ítarlega um persónulega eiginleika og hagi hvors aðila um sig, svo og barnanna, en að því verður nánar vikið í niðurstöðukafla. Matsmaður telur báða foreldra eiga í góðum tengslum við börnin og ekkert benda til tengslaleysis. Báðir foreldrar sinni börnunum í tvær vikur í senn. Varðandi daglega umönnun og umsjá komi ekkert fram í matinu um að annað foreldrið sinni börnunum betur eða verr en hitt. Matsmaður tekur fram að umönnun foreldra sé þó alvarlega ábótavant vegna deilna þeirra, sem hafi haft mikil áhrif á allt utanumhald, nám, félagsstarf, íþróttir og heilsufar barnanna. Matsmaður telur systkinin samrýmd og mælir ekki með að þau verði aðskilin, en þau hafi ávallt fylgst að í umgengni. Báðir foreldrar séu í vinnu og með húsnæði og engar breytingar séu fyrirhugaðar hjá þeim. Ekki eru gerðar neinar athugasemdir við húsnæðismál foreldra, sem báðir eigi ágætar og rúmgóðar íbúðir. Foreldrar hafi ekki sérstakt liðsinni vandamanna við umönnun barnanna, en foreldrar föður séu þó eitthvað með börnin og móðir fái stuðning frá systur.

                Varðandi kvíða og öryggi barnanna tekur matsmaður fram að öll börnin segi sér líða vel hjá foreldrum og lítið komi fram sem bendi til að börnin upplifi kvíða og óöryggi hjá öðru foreldrinu fremur en hinu. C lýsi engum vandamálum og telji að deilur foreldra hafi ekki áhrif á sig. D lýsi því að móðir sé meira pirruð en faðir og hið sama eigi við um E. C og E virðist líða mjög vel hjá báðum foreldrum þrátt fyrir þetta, en D segi að það sé léttara hjá föður. Vísbendingar séu um að D líði betur hjá föður sinum en ekkert komi fram hjá drengjunum um að þeim líði verr eða þeir séu kvíðnari eða óöruggari hjá öðru hvoru foreldrinu. C og E vilji ekki gera breytingar á núverandi fyrirkomulagi umgengni, í tvær vikur í senn. D virðist vera sátt við núverandi fyrirkomulag, en lýsi því þó að hún myndi fremur vilja vera meira hjá föður en móður.

                Í niðurlagi matsgerðar er tekin saman umfjöllun um forsjárhæfni aðila og hvar forsjá skuli vera. Segir þar m.a. að foreldrar séu hvorugt með góða færni til að sinna börnunum vegna áralangra illdeilna. Hvorugt taki næga ábyrgð eða hafi nægt innsæi í það hvað þau eru að gera börnunum. Mál þetta snúist fyrst og fremst um peninga eða hefnd en ekki um velferð barnanna. Hver svo sem niðurstaða þessa máls verði séu litlar líkur á að foreldrar muni sættast eða hafa samvinnu, enda virðist þau áhugalaus um sættir og ráðalaus um hvað þau sjálf geti gert til að laga ástandið.

                Ekki sé mikinn mun að sjá á hæfni foreldra. Bæði elski þau börnin og séu ágætlega tengd þeim. Bæði séu reglusöm, með stöðugt umhverfi og séu í vinnu. Þau séu því góðar fyrirmyndir, móðir auk vinnu í námi og faðir góð fyrirmynd varðandi hreyfingu og tómstundir.  

                Faðir virðist ekki hafa eins gott innsæi og móðir í þarfir barnanna. Hann hafi ekki nýtt sér uppeldisráðgjöf og virðist gera minna úr vanda barnanna en móðir, en á móti komi að hann virðist vera þolinmóðari við þau, sé afslappaðri og geri frekar gott úr hlutunum. Hann sé samt stjórnsamur og hafi lítið innsæi í eigin hegðun. Hann virðist einnig beita líkamlegum refsingum til að aga börnin. Vísar matsmaður til fyrra sálfræðimats um að faðir hafi haft eldri dóttur aðila með í öllu málinu, en móðirin ekki og hafi sálfræðingurinn talið föður hafa skemmt tengslin á milli móður og dóttur með því að láta dóttur vorkenna sér. Hafi þetta einnig komið fram í viðtali sálfræðingsins við sálfræðinga í þjónustumiðstöð, þ.e. að stúlkan fengi miklar upplýsingar frá föður og sé reið og ásakandi út í móður. Tekur matsmaður fram að vísbendingar séu um að faðir sé einnig að blanda yngri dóttur aðila með sama hætti í málið.

                Vandi móður sé hvatvísi, óþolinmæði og pirringur, en hún virðist hafa betra innsæi í þarfir barnanna m.t.t. tilfinninga, hegðunar og námslegrar stöðu en faðir. Hún virðist hafa meiri vilja til að nýta sér ráðgjöf og leiðbeiningar um börnin og hafi reynt að takast á við tölvunotkun og hegðun barnanna. Hún taki meiri ábyrgð en faðir á fyrri hegðun og virðist að einhverju leyti sjá eigin sök í málinu. Matsmaður telji hana betur til þess fallna að halda samskiptum í lágmarki og ekki reyna að „stjórnast mikið í föður“. Telur matsmaður því að móðir hafi betri hæfni til að tryggja öryggi og velferð barnanna en faðir. Leggur matsmaður til að móðir fái forsjá og lögheimili barnanna en að umgengni verði skipt í tvær og tvær vikur eins og verið hefur. Þá mælir matsmaður með því að dómurinn setji niður umgengni yfir sumartíma, jól, páska og vetrarfrí barnanna, enda virðist foreldrar ófærir um að koma sér saman um slíkt. 

 

V

Niðurstaða

                Samkvæmt 1. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003 sker dómari, þegar foreldra greinir á um forsjá eða lögheimili barns, úr málinu með dómi hafi sátt ekki tekist. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar kveður dómari á um hvernig forsjá barns eða lögheimili verði háttað, eftir því sem barni er fyrir bestu. Í því efni lítur dómari m.a. til hæfis foreldra, stöðugleika í lífi barns, tengsla barns við báða foreldra, skyldu þeirra til að tryggja rétt barnsins til umgengni, hættu á að barnið, foreldri eða aðrir á heimili barnsins hafi orðið eða verði fyrir ofbeldi og vilja barns að teknu tilliti til aldurs og þroska. Ekki er um tæmandi upptalningu að ræða og er gjarnan einnig litið til fleiri atriða sem rakin eru í greinargerð að baki 34. gr. laganna.

                Samkvæmt öðrum málslið 3. mgr. 34. gr. barnalaga getur dómari ákveðið að kröfu foreldris að forsjáin verði sameiginleg ef dómari telur þær aðstæður fyrir hendi að slíkt geti þjónað hagsmunum barnsins. Heimild dómara til slíks er þannig bundin við það að annar hvor aðili geri kröfu um að forsjá verði sameiginleg.

                Við munnlegan málflutning mótmælti stefnda sem of seint fram kominni varakröfu stefnanda um sameiginlega forsjá. Sú krafa kom fyrst fram við framhaldsaðalmeðferð þessa máls og vísar stefnandi til 41. gr. barnalaga henni til stuðnings, en þar er kveðið á um að aðilar geti borið fram nýjar málsástæður og haft uppi ný andmæli allt þar til mál er dómtekið. Samkvæmt orðanna hljóðan felur það ákvæði ekki í sér frávik frá þeirri reglu almenns einkamálaréttarfars, sbr. lög nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að dómkröfur aðila skuli koma fram í stefnu og greinargerð og að ekki verði aukið við þær kröfur nema með framhalds- eða sakaukastefnu. Í athugasemdum að baki 41. gr. barnalaga kemur m.a. fram að sifjalaganefnd hafi ekki talið rétt að ganga eins langt í frumvarpinu og þágildandi barnalög, sem heimiluðu að settar væru fram nýjar kröfur allt þar til mál væri flutt. Þegar af framangreindri ástæðu kemst síðbúin varakrafa stefnanda ekki að í málinu. Auk þess þykir hún raska grundvelli málsins, en engin gögn hafa verið lögð fram til stuðnings því að áframhaldandi sameiginleg forsjá muni, í ljósi alvarlegs samskiptavanda málsaðila, samræmast hagsmunum barnanna. Má hér til hliðsjónar vísa til dóms Landsréttar frá 10. maí 2019 í máli nr. 25/2019. Hvorugur hinna dómkvöddu matsmanna var beðinn að leggja mat á það hvort áframhaldandi sameiginleg forsjá kæmi til greina. Kemur fram í fundargerð G sálfræðings um matsfund, sem fylgdi matsgerð hans, að lögmenn aðila hafi ekki talið sameiginlega forsjá mögulega. Koma þó fram í báðum matsgerðunum sterkar vísbendingar um að áframhaldandi sameiginleg forsjá þjóni ekki hagsmunum barnanna, vegna áralangra deilna og samskiptaörðugleika foreldra. Þótt aðilar þessa máls fari samkvæmt núverandi fyrirkomulagi sameiginlega með forsjá, ólíkt því sem við átti í nefndum dómi Landsréttar, þykir hið sama eiga við hér, að hin síðbúna krafa um sameiginlega forsjá, sem er annars eðlis en krafa um fulla forsjá, sé til þess fallin að raska grundvelli málsins og getur hún því ekki komið til álita.

                Liggur þá fyrir dóminum að skera úr um það hvort málsaðila skuli framvegis fara eitt með forsjá barnanna og lögheimili.

                Eins og fram er komið liggja fyrir í málinu tvær matsgerðir dómkvaddra matsmanna þar sem lagt er mat á forsjárhæfni aðila o.fl., annars vegar matsgerð H sálfræðings frá árinu 2016 og hins vegar ný matsgerð G sálfræðings, en meginatriði niðurstöðu hans eru rakin í kafla IV hér að framan. Báðir matsmenn gáfu skýrslu fyrir dómi til staðfestingar matsgerðum sínum. Það er meginniðurstaða þeirra að báðir aðilar séu í grunninn vel hæfir til að fara með forsjá barnanna en að það hve illa þeim hefur gengið að setja hagsmuni barnanna í forgang og leggja ágreining sinn til hliðar rýri þó verulega forsjárhæfni þeirra beggja. Báðir matsmenn telja móður ívið hæfari til að fara með forsjá allra barnanna.

                Tekið skal fram að það heyrir á endanum undir dómara, en ekki matsmenn, að leysa úr því, á grundvelli heildstæðs mats, hvoru foreldra verði falin forsjáin. Það er hins vegar álit dómsins að báðar matsgerðir séu ítarlegar og vel unnar, án teljandi annmarka og að þær rími vel saman. Þá hefur þeim ekki verið hnekkt með yfirmati. Verður því litið til þeirra beggja við niðurstöðu máls þessa, einkum hinnar nýrri matsgerðar G og er átt við hana þegar ræðir um matsgerð hér á eftir, nema annað sé tekið fram.

                Börnin þrjú sem málið lýtur að eru nú tæplega [...], [...] og [...] ára gömul. Miðað við aldur þeirra, sérstaklega þeirra tveggja eldri, er rétt að taka tilhlýðilegt tillit til vilja þeirra í málinu. Í matsgerð kemur fram að börnin séu öll sátt við ríkjandi fyrirkomulag þar sem þau dvelja í tvær vikur í senn hjá hvoru foreldri, en D lýsi því þó að hún myndi fremur vilja vera meira hjá föður en móður. Í viðtali hennar við dómendur við aðalmeðferð málsins kom þó ekkert slíkt fram heldur var hún skýr um að vilja óbreytt fyrirkomulag og dvelja jafnt hjá foreldrum sínum. Í framburði G kom fram að hann hefði ekki talið rétt að krefja börnin frekar um afstöðu í málinu. Eru ekki gerðar athugasemdir við það mat matsmanns. Ljóst er að börnin gera ekki upp á milli foreldra sinna og er viljaafstaða þeirra þannig ekki til þess fallin að ráða neinum úrslitum í málinu um forsjá og lögheimili.

                Í samræmi við matsgerð leggur dómurinn til grundvallar að börnin þrjú hafi góð tengsl við báða foreldra sína og að ekki sé ástæða til að greina þar á milli. Þá telja dómendur ekki heldur efni til þess að gera upp á milli foreldra hvað varðar líðan barnanna á heimilum þeirra, kvíða og óöryggi. Ljóst er hins vegar að slæm samskipti foreldranna hafa haft veruleg áhrif á líðan barnanna í gegnum tíðina, eins og fram kom í framburði matsmanns, og má ætla að það eigi við á báðum heimilum.

                Kyn og aldur barna telur matsmaður ekki hafa þýðingu fyrir niðurstöðu málsins. Matsmaður telur rétt að halda systkinahópnum saman fremur en að aðskilja þau. Undir þetta tekur dómurinn og telur það sömuleiðis ekki hafa þýðingu hvar eldri dóttir aðila, sem er 19 ára gömul og ekki hluti af þessu máli, er búsett.

                Ekki er í matsgerð gert upp á milli aðila hvað varðar húsnæðismál og liðsinni vandamanna og telur dómurinn ekki efni til þess heldur. Þá eru engar breytingar fyrirhugaðar hjá aðilum, t.d. hvað varðar búsetu, sem þýðingu geta haft, eins og tekið er fram í matsgerð. Telur dómurinn því ekki efni til að gera upp á milli foreldra hvað stöðugleika snertir.

                Hvað persónulega hagi foreldra snertir kemur fram í matsgerð að báðir foreldrar séu reglusamir og stundi fulla vinnu. Hvorugt er nú í sambúð eða sambandi. Engar athugasemdir koma fram við líkamlegt heilsufar aðila, þótt vitnað sé til þess að faðir hafi meiðst í slysi [...]og til þess að móðir sé greind með [...] og sé í lyfjameðferð við því.

                Hvað geðræna heilsu snertir kemur fram í matsgerð að ekkert bendi til þess að málsaðilar glími við geðsjúkdóm. Leggur dómurinn til grundvallar að þau séu andlega heilbrigð, þótt bæði hafi á köflum glímt við [...] og [...]

                Ljóst er að báðir foreldrar glíma við skapgerðarbresti, eins og lýst er í báðum matsgerðum. Stefnandi er áberandi stjórnsamur og stefnda hefur augljóslega fengið sig fullsadda af honum. Að sama skapi er ljóst að stefnda er oft á tíðum atkvæðalítil og bregst ekki við, eða bregst við af mikilli hvatvísi. Orðaval hennar í ýmsum skeytasendingum til stefnanda eru til marks um hið síðarnefnda. Málsókn stefnanda er hins vegar til marks um þrákelkni hans og stjórnsemi, en með henni virðist hann leitast við að knýja stefndu til þess að eiga samskipti við hann um málefni barnanna. Þótt það sé æskilegt að fráskildir foreldrar eigi góð samskipti um málefni barna sinna, þá verður slíkt ekki knúið fram af hálfu eins foreldris í óþökk annars. 

                 Matsmaður staðfesti fyrir dómi að hann teldi báða foreldra vel hæfa til að annast börnin, styrkleikar þeirra séu margir og ekki sé stór munur á foreldrum hvað varðar umönnun barnanna, en það sem upp úr standi séu deilur þeirra, sem séu alvarlegar, hafi staðið yfir um árabil og haft mikil og varanleg áhrif á börnin. Matsmaður kvaðst telja að það væri æskilegt fyrir börnin ef engin eða sem minnst samskipti væru milli foreldra, enda hefðu foreldrar hingað til reynst ófærir um að fara að ráðleggingum sérfræðinga til að bæta samskipti sín. Undir þetta tekur dómurinn og einnig er tekið undir það það mat matsmanns að stefnda sé líklegri til þess að láta af illdeilum og slæmum samskiptum við stefnanda en stefnandi við hana.

                Þótt ekki sé tekið á því í matsgerðum matsmanna, þá telur dómurinn vísbendingar í málinu um það að stefnda sé líklegri en stefnandi til þess að viðhalda reglulegri umgengni barnanna við föður. Lítur dómurinn þar m.a. til þess hvernig stefnandi virðist hafa tilhneigingu til að gera allt of mikið úr því þegar stefnda setur börnunum mörk. Vísast hér t.d. til atvika á árinu 2017 þegar eldri börnunum sinnaðist við móður sína, sem leiddi til þess að eldri dóttirin, F, flutti til föður og sleit sambandi við móður, en eldri drengurinn, C, hélt til hjá föður um um allnokkurt skeið, eftir að stefnda hafði sett honum mörk í tengslum við tölvu- og símanotkun. Einnig er litið til þess sem fram kom í aðilaskýrslu stefnanda, þar sem hann virtist mest leggja upp úr vilja barnanna sjálfra varðandi umgengni, fremur en að viðhalda reglulegri umgengni.

                Þá tekur dómurinn undir það mat matsmanns að stefnda hafi að mörgu leyti betra innsæi til að bera, sérstaklega er kemur að málefnum barnanna og hvers konar stuðningi þau þurfi á að halda. Þá er ljóst að hún hefur fremur en stefnandi lagt sig eftir því að tileinka sér hegðunarmótandi uppeldisaðferðir og þegið ráðgjöf á því sviði. Má hér m.a. vísa til þess sem málsgögn bera með sér um mismunandi viðbrögð foreldra við hinum alvarlega hegðunarvanda sem eldri sonur aðila, C, glímdi við. Þá virðist hún frekar gera sér grein fyrir eigin hlut í samskiptum við bæði stefnanda og börnin, svo sem hlut sínum í því að samband hennar og eldri dótturinnar, F, rofnaði um langt skeið.

                Loks telur dómurinn gögn málsins eindregið hníga í þá átt að stefnandi hafi, vitandi eða óafvitandi, í of miklum mæli dregið eldri dóttur aðila, F, inn í málefni foreldranna og þannig stuðlað að því að hún tæki afstöðu með honum gegn móður sinni og spillt fyrir tengslum þeirra. Þegar litið er til gagna málsins telur dómurinn að hann sé líklegur til þess að halda uppteknum hætti með yngri börnin. Stefnda hefur á hinn bóginn haldið aftur af sér og ekki upplýst börnin um atvik er tengjast ágreiningi hennar og stefnanda.                  Að öllu framanrituðu virtu er það einróma álit dómsins að stefnda sé hæfari til þess að fara ein með forsjá, og þar með lögheimili, allra barnanna en stefnandi.

                Víkur þá að kröfu aðila um að dómurinn ákvarði umgengni barnanna við það foreldri sem ekki fer með forsjána. Fram er komið að báðir aðilar telja æskilegt að draga úr umgengni þess foreldris sem ekki fær forsjána frá því sem verið hefur, þar sem börnin hafa dvalið til jafns hjá báðum foreldrum í tvær vikur í senn. Leggur stefnandi til að umgengni verði fimmtudag til mánudags aðra hverja helgi, og lagði stefnda slíkt hið sama til í greinargerð, en við munnlegan málflutning lagði hún þess í stað til að umgengni yrði minnkuð í eina viku í mánuði eða haldið óbreyttri. Hvorugur aðili telur koma til greina að fara aftur í það fyrirkomulag að börnin dvelji í viku og viku í senn á hvoru heimili. Þótt matsmaður legði til að umgengni yrði haldið óbreyttri kom fram í framburði hans að það byggðist helst á því að ekki hefði virst neinn ágreiningur um það fyrirkomulag við matið og að börnin hefðu vanist því og væru sátt við þá tímalengd. Dómurinn telur hagsmunum barnanna best borgið með því að eiga eitt aðalheimili og því sé rétt, nú þegar gerðar eru breytingar á forsjá þeirra, að gera breytingar á umgengni. Er þá nærtækt að líta til tillögu stefnanda, sem samræmist tillögu í greinargerð stefndu, en þá tilhögun telur dómurinn jafnframt heppilegasta fyrir börnin. Skal umgengni barnanna við föður því eftirleiðis miðast við aðra hverja helgi frá fimmtudegi kl. 15, eða eftir að skóla lýkur, fram til sama tíma á mánudegi og skal sú tilhögun taka gildi þegar kemur að næstu skiptum milli heimila, eftir dómsuppsögu.

                 Aðilar eru sammála um að miða umgengni að öðru leyti, þ.e. um jól, áramót, páska og í sumarleyfum, við ákvæði 6. og 7. gr. dómsáttar þeirra frá 28. september 2016, utan þess að stefnda fer fram á að miðað verði við að tilhögun sumarleyfis verði ákveðin fyrir 1. apríl ár hvert, í stað 1. mars. Sætti sú breyting engum andmælum af hálfu stefnanda við aðalmeðferð málsins og verður framangreind tilhögun því ákveðin hér með dómi, eins og nánar greinir í dómsorði.

                Í samræmi við niðurstöðu málsins um forsjá og meðlagskröfu stefndu verður mælt svo fyrir að stefnanda beri að greiða einfalt meðlag, sbr. 2. mgr. 55. gr. barnalaga, með öllum þremur börnunum frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs þeirra.

                Ekki þykja efni til þess að kveða á um að áfrýjun fresti réttaráhrifum dóms þessa, í samræmi við 44. gr. barnalaga, eins og stefnandi fór fram á við munnlegan málflutning.

                Stefnda hefur gjafsókn í málinu, samkvæmt gjafsóknarleyfi, útgefnu 23. janúar 2020. Ber því að greiða allan gjafsóknarkostnað úr ríkissjóði, sbr. 127. gr. laga nr. 91/1991, þar með talda gjafsóknarþóknun lögmanns hennar, Gunnhildar Pétursdóttur lögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin með þeirri fjárhæð sem í dómsorði greinir, með hliðsjón af tímayfirliti lögmannsins. Við ákvörðun gjafsóknarþóknunar er ekki tekið tillit til virðisaukaskatts, samkvæmt dómvenju.

                Eftir atvikum öllum þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

                Hildur Briem héraðsdómari kveður upp dóm þennan sem dómsformaður, ásamt meðdómsmönnunum Sigríði Hjaltested héraðsdómara og Aðalsteini Sigfússyni sálfræðingi.

Dómsorð:

                Stefnda, A, skal fara með forsjá og lögheimili barna aðila; C, D og E, frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs þeirra.

                Regluleg umgengni barnanna við föður sinn, stefnanda B, skal fara fram aðra hverja helgi, frá fimmtudegi kl. 15.00 eða eftir að skóla lýkur fram til sama tíma á mánudegi. Hefst það fyrirkomulag næst þegar kemur að því að börnin fara milli heimila foreldra, eftir að dómur hefur verið kveðinn upp.

                Börnin dvelja hjá foreldrum sínum önnur hver jól, áramót og páska. Regluleg umgengni fellur niður á meðan.

                a. Jólaumgengni er frá síðdegi 22. desember til síðdegis 29. desember. Börnin dvelji hjá móður jólin 2020, föður jólin 2021 og svo koll af kolli.

                b. Áramótaumgengni er frá síðdegi 29. desember til síðdegis 5. janúar. Tekur síðan regluleg umgengni við þangað til þarnæsta mánudag. Börnin dvelji hjá föður áramótin 2020/2021, hjá móður áramótin 2021/2022 og svo koll af kolli.

                c. Páskaumgengni er frá síðdegi mánudags fyrir skírdag til síðdegis annars í páskum og tekur þá regluleg umgengni við. Börnin dvelji hjá föður páskana 2020, móður 2021 og svo koll af kolli.

                Börnin dvelji í fjórar vikur samfleytt í sumarleyfi hjá hvoru foreldri fyrir sig ár hvert. Skiptidagar verða mánudagar. Foreldrar skulu ákveða dagsetningu sumarleyfa fyrir 1. apríl ár hvert. Náist ekki samkomulag um sumarleyfi skulu foreldrar skiptast á að eiga forgang um val á dagsetningu. Faðir fær forgang árið 2020 og móðir árið 2021 og svo koll af kolli.

                Stefnandi greiði einfalt meðlag með öllum þremur börnunum frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs þeirra.

                Málskostnaður milli aðila fellur niður.

                Allur gjafsóknarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. gjafsóknarþóknun lögmanns stefndu, Gunnhildar Pétursdóttur, 2.300.000 krónur.