Print

Mál nr. 700/2017

Lögreglustjórinn á Suðurlandi (Grímur Hergeirsson saksóknarfulltrúi)
gegn
X (Sigurður Sigurjónsson hrl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. nóvember 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 2. nóvember 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 29. nóvember 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Samkvæmt gögnum málsins er varnaraðili undir sterkum grun um kynferðisbrot gagnvart tveimur ungum dætrum sínum sem varðað geta 16 ára fangelsi. Þá eru brotin þess eðlis að ætla má gæsluvarðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Að þessu virtu er fullnægt skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til þess að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi eins og krafist er. Hinn kærði úrskurður verður því staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 2. nóvember 2017.

Lögreglustjórinn á Suðurlandi hefur krafist þess að X, kt. [...], [...], [...], verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 29. nóvember nk. kl. 16:00 á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Krafan var tekin fyrir á dómþingi kl. 14:45 í gær og tók dómari sér frest til kl. 11:10 í dag til að úrskurða um hana með heimild í 1. mgr. 98. gr. sömu laga.

Í kröfu lögreglustjórans kemur fram að lögreglan á Suðurlandi hafi nú til rannsóknar ætlað kynferðisbrot kærða gegn dóttur hans, A, kt. [...], en rannsóknin hafi hafist í kjölfar bréfs félagsmálastjóra sveitarfélagsins [...] dags. 2. október sl. þar sem óskað hafi verið eftir lögreglurannsókn vegna upplýsinga um ætlað brot gagnvart A. Hafi brotaþoli greint frá því í skýrslutöku hjá lögreglu þann 26. október sl. að hún hafi flust til [...] tveggja ára gömul ásamt fjölskyldu sinni og búið þar til tíu eða ellefu ára aldurs er þau hafi flutt aftur til Íslands og sest að á [...]. Er hún hafi verið fimm til sex ára hafi faðir hennar, kærði í máli þessu, haft samfarir við hana a.m.k. þrisvar sinnum og hafi hann sett getnaðarlim sinn inn í leggöng hennar í öll skiptin. Hafi þetta gerst er kærði hafi tekið hana eina með sér frá [...] til [...] og dvalið þar á hótelherbergi. Hafi brotaþoli lýst umræddu hótelherbergi og húsbúnaði og hafi brotin að hennar sögn verið framin í rúmi inni í herberginu, en hún hafi sofið í sama rúmi og kærði. Hafi kærði ítrekað beðið hana um að segja mömmu hennar ekki frá. Þá hafi brotaþoli greint frá því að eldri systir hennar, B, hafi sagt henni að þetta hefði líka gerst fyrir hana í sams konar ferðum. Hafi brotaþoli sagt að hún hefði fyrst sagt frá þessum brotum nýverið, en hún hefði greint vinkonum sínum frá því að kærði hefði brotið gegn henni þegar hún hafi verið yngri. Kærði hafi verið handtekinn síðdegis þann 31. október og hafi hann neitað sök. Hann hafi staðfest að hann hefði tvisvar til þrisvar sinnum farið með brotaþola til [...] frá [...] í þeim tilgangi að fá endurnýjaða vegabréfsáritun. Hann hafi farið með rútu til [...] og dvalið þar eina nótt í senn á hóteli í borginni [...]. Hann kvaðst hafa sofið í sama rúmi og brotaþoli og hafi hann lýst  hótelherberginu með áþekkum hætti og brotaþoli hafi gert.

Að mati lögreglu sé framburður brotaþola afar trúverðugur og ekkert fram komið sem gefi tilefni til að draga ásakanir hennar í efa. Þá styðji framburður kærða framburð brotaþola í öllum meginatriðum varðandi ferðir hans með brotaþola og aðstæður á hótelherberginu. Taka þurfi skýrslur af nokkrum aðilum vegna rannsóknar málsins, m.a. þremur vinum og félögum brotaþola sem hún hafi upplýst að hafa nýlega sagt frá hinum ætluðu brotum. Þá liggi fyrir að brotaþoli hafi nýlega byrjað í viðtalsmeðferð hjá sérfræðingi í Barnahúsi og ljóst sé að afla þurfi greinargerðar frá Barnahúsi.

Í kröfu lögreglustjórans er því lýst að auk framangreinds máls sé til ákærumeðferðar hjá héraðssaksóknara mál þar sem kærða sé gefið að sök að hafa ítrekað brotið kynferðislega gegn næst elstu dóttur sinni, B, kt. [...]. Hafi B greint frá því að kærði hafi fyrst brotið gegn henni þegar hún hafi verið 5-6 ára  en hún telji að á þeim tíma hafi þau verið búsett í [...] og hafi brotið átt sér stað á heimili þeirra þar. Hafi verið um að ræða samfarir þannig að kærði hafi stungið getnaðarlim sínum í leggöng hennar. Hafi þetta gerst oftar en einu sinni en hún myndi ekki hversu oft og hve gömul hún hefði þá verið. Hún kvað kærða ekki hafa brotið gegn eftir að þau hafi flutt til Íslands árið 2012. Þá hafi kærði sagt henni eftir brotin að segja engum frá þessu og hann ætlaði ekki að gera henni þetta aftur. Kærði neiti sök í málinu.

Í greinargerð lögreglustjóra er einnig greint frá dómi sakadóms Austur-Skaftafellssýslu frá [...] [...] 1991, en samkvæmt þeim dómi hafi kærði verið dæmdur í 10 mánaða fangelsi fyrir ítrekuð kynferðisbrot gegn elstu dóttur sinni þegar hún hafi verið 5-7 ára gömul, en kærði hafi alfarið játað sök fyrir dómi.

Lögreglustjórinn bendir á að í þeim tveimur málum sem séu til meðferðar hjá lögreglu og ákæruvaldi sé um að ræða ætluð brot kærða sem kunni að varða við 194. gr., 200. gr. og 202. gr. almennra hegningarlaga og sé um að ræða alvarlegar sakargiftir sem varði allt að sextán ára fangelsi. Að mati lögreglu sé sterkur rökstuddur grunur kominn fram í málunum tveimur um að kærði hafi gerst sekur um hin ætluðu brot. Framburður systranna sé trúverðugur og ekkert fram komið sem gefi tilefni til að draga frásagnir þeirra um málsatvik í efa. Hafi kærði sjálfur staðfest að hann hafi verið einsamall í hótelherbergi í [...]með brotaþolanum A í nokkur skipti og styðji það að mati lögreglu frumburð þessa brotaþola. Þá liggi fyrir ósamræmi í framburði kærða í máli því sem varði brotaþolann B og fram hafi komið í því máli að kærði hafi sett sig í samband við þennan brotaþola og beðið hana að ræða málið ekki við systur sínar. Sé kærði því í tveimur aðskildum málum undir sterkum rökstuddum grun um að hafa nauðgað tveimur dætrum sínum ítrekað þegar þær hafi verið barnungar. Auk þess liggi fyrir dómur frá árinu 1991 þar sem kærði hafi verið sakfelldur fyrir gróf og ítrekuð kynferðisbrot gegn elstu dóttur sinni þegar hún hafi verið 5-6 ára. Sé um að ræða óheyrilega gróf og alvarleg brot gegn ungum börnum kærða sem geti varðað allt að 16 ára fangelsi. Telji lögreglustjóri að umrædd brot séu þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Sé óforsvaranlegt að kærði gangi laus þegar sterkur grunur leiki á að hann hafi framið svo alvarleg brot sem honum séu gefin að sök. Þá verði að líta til þess að ætluð háttsemi kærða sem lúti að grófum og ítrekuðum kynferðisbrotum sem spanni yfir langt tímabil gegn þremur dætrum hans sýni ákveðið hegðunarmynstur eða kenndir sem kærði virðist ekki hafa stjórn á. Sé kærði því að mati lögreglu hættulegur umhverfi sínu og brotin þess eðlis að það stríði gegn réttarvitund almennings gangi hann laus meðan mál hans séu til meðferðar.

Samkvæmt 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála má úrskurða sakborning í gæsluvarðhald þótt skilyrði a. til d. liðar 1. mgr. séu ekki fyrir hendi ef sterkur grunur leikur á að hann hafi framið afbrot sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi, enda sé brotið þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.

Við meðferð málsins fyrir dómi upplýsti fulltrúi lögreglustjóra að kærði eigi 9 ára dóttur og 3 ára dreng sem búi á heimili hans.

Með vísan til þeirra gagna sem lögð hafa verið fram í málinu er fallist á það mat lögreglustjóra að kærði sé undir sterkum rökstuddum grun um brot gegn 194. gr., 200. gr. og 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en sá sem gerist sekur um brot gegn 194. eða 202. gr. þeirra laga skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Þá verður fallist á það með lögreglustjóra að kærði sé hættulegur umhverfi sínu og ætluð brot hans þess eðlis að það stríði gegn réttarvitund almennings gangi hann laus meðan mál hans séu til meðferðar. Þá fellst dómurinn á það með lögreglustjóra að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til  almannahagsmuna. Er því fullnægt skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til að fallast á kröfu lögreglustjóra um að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi eins og krafist er, en ekki þykja efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en krafist er. Ekki er gerð krafa um að kærði sæti einangrun eða öðrum takmörkunum í gæsluvarðhaldinu.

Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, kt. [...] skal sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 29. nóvember 2017 kl. 16:00.