Print

Mál nr. 264/2017

Ís og ævintýri ehf., Bjarni Skarphéðinn G. Bjarnason, dánarbú Gunnars Stefánssonar, Elías Gunnarsson, Hríshóll ehf., Inga Lucia Þorsteinsdóttir, Jón Þorsteinsson, Jöklasýn ehf., Kolbrún Þorsteinsdóttir, Lækjarhús ehf., Ragnar Sigurðsson og Þóra Guðríður Stefánsdóttir (Ólafur Björnsson hrl.)
gegn
Bjarna Maríusi Jónssyni og Þóru Guðrúnu Ingimarsdóttur (Þórður Bogason hrl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Gagnsök
  • Frávísunarúrskurður staðfestur
Reifun
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem vísað var frá dómi gagnsök Í ehf. o.fl. í máli BMJ og ÞGI á hendur Í ehf. og BSG. Talið var að krafa Í ehf. o.fl. væri hvorki samkynja dómkröfum BMJ og ÞGI í aðalsök né yrðu rætur krafnanna raktar til sama atviks, aðstöðu eða löggernings, sbr. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 24. apríl 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 8. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Austurlands 10. apríl 2017, þar sem vísað var frá dómi gagnsök, sem sóknaraðilar höfðuðu í máli varnaraðila á hendur sóknaraðilunum Ís og ævintýri ehf. og Bjarna Skarphéðni G. Bjarnasyni. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka gagnsökina til efnismeðferðar. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Í báðum tilvikum krefjast þau kærumálskostnaðar.

Samkvæmt gögnum málsins gerði Jöklaferðir hf. sem leigutaki samning 26. apríl 1992 við íslenska ríkið sem leigusala um leigu til 25 ára frá 1. janúar 1991 að telja á 12,25 ha spildu úr landi jarðarinnar Kálfafellsstaðar, sem nú er í sveitarfélaginu Hornafirði. Í samningnum var tekið fram að spildan, sem væri nánar afmörkuð á uppdrætti, væri við jaðar Sultartungujökuls og væri leigutakanum heimilt að reisa þar skála fyrir ferðaþjónustu. Árleg leiga fyrir spilduna átti að nema 22.000 krónum, en sú fjárhæð skyldi taka breytingum í samræmi við vísitölu byggingarkostnaðar. Leigutakinn gaf út afsal 19. febrúar 2001 til sóknaraðilans Íss og ævintýra ehf. fyrir réttindum sínum samkvæmt leigusamningnum, skála sem reistur hafði verið á spildunni og búnaði sem þar var að finna. Á grundvelli samkomulags við íslenska ríkið 20. október 2006 varð kirkjumálasjóður eigandi Kálfafellsstaðar, en sjóðurinn gaf síðan út afsal 12. maí 2015 til varnaraðila fyrir jörðinni. Leigusamningurinn frá 26. apríl 1992 rann skeið sitt á enda 31. desember 2015 og leituðu aðilar hans samkomulags um nýjan samning. Í tengslum við viðræður um það hafði leigutakinn uppi efasemdir um að landspildan væri að réttu lagi í landi Kálfafellsstaðar og taldi hana fremur vera úr landi Borgarhafnar. Ekkert varð af nýjum samningi og höfðuðu varnaraðilar mál þetta 25. október 2016. Þau krefjast þess í fyrsta lagi að sóknaraðilanum Ís og ævintýrum ehf. verði gert fjarlægja áðurnefndan skála af landspildunni að viðlögðum nánar tilteknum dagsektum, í öðru lagi að sama sóknaraðila verði gert að greiða 97.048 krónur vegna vangoldinnar leigu fyrir spilduna og í þriðja lagi að sá sami verði óskipt með sóknaraðilanum Bjarna Skarphéðni dæmdur til að greiða þeim 3.000.000 krónur í skaðabætur vegna heimildalausrar nýtingar á landspildunni. Sóknaraðilarnir Ís og ævintýri ehf. og Bjarni Skarphéðinn krefjast sýknu af þessum kröfum. Þeir höfðuðu jafnframt 29. nóvember 2016 ásamt öðrum sóknaraðilum, sem munu vera eigendur jarðarinnar Borgarhafnar, gagnsök í málinu og kröfðust þess að viðurkennt yrði að merki milli hennar og Kálfafellsstaðar væru með nánar tilteknum hætti. Varnaraðilar kröfðust þess að gagnsökinni yrði vísað frá dómi og varð héraðsdómur við þeirri kröfu með hinum kærða úrskurði.

Í greinargerð varnaraðila hér fyrir dómi er ekki að finna haldbær rök fyrir aðalkröfu þeirra um að málinu verði vísað frá Hæstarétti og verður henni því hafnað.

Samkvæmt 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 er heimild til að hafa uppi gagnkröfu með gagnsök í einkamáli háð því að sú krafa sé annaðhvort samkynja kröfu í aðalsök eða þær eigi báðar rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings, enda hafi ekki verið samið um að sækja mætti gagnkröfuna í máli um aðalkröfuna. Krafa sóknaraðila um viðurkenningu á landamerkjum milli Borgarhafnar og Kálfafellsstaðar er hvorki samkynja áðurgreindum dómkröfum varnaraðila í aðalsök né verða rætur þessara krafna raktar til sama atviks, aðstöðu eða löggernings í skilningi þessa lagaákvæðis. Ekki hefur verið samið um að leita megi dóms um gagnkröfu sóknaraðila í málinu. Hinn kærði úrskurður verður því staðfestur.

Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, Ís og ævintýri ehf., Bjarni Skarphéðinn G. Bjarnason, dánarbú Gunnars Stefánssonar, Elías Gunnarsson, Hríshóll ehf., Inga Lucia Þorsteinsdóttir, Jón Þorsteinsson, Jöklasýn ehf., Kolbrún Þorsteinsdóttir, Lækjarhús ehf., Ragnar Sigurðsson og Þóra Guðríður Stefánsdóttir, greiði í sameiningu varnaraðilum, Bjarna Maríusi Jónssyni og Þóru Guðrúnu Ingimarsdóttur, 350.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Austurlands 10. apríl 2017.

                Mál þetta, sem höfðað var 25. október 2016, var þingfest 1. nóvember s.á. Málið var tekið til úrskurðar 28. febrúar sl. um frávísunarkröfu í gagnsök.

                Stefnendur eru Þóra Guðrún Ingimarsdóttir og Bjarni Maríus Jónsson, bæði til heimilis að Þrastanesi 24, Garðabæ.

                Stefndu eru Ís og ævintýri ehf. og Bjarni Skarphéðinn G. Bjarnason, til heimilis að Vagnstöðum, Hornafirði.

                Í aðalsök krefjast stefnendur þess í fyrsta lagi að stefnda, Ís og ævintýrum ehf., verði gert að fjarlægja svefnskála, fastanúmer 218-1954, af lóð stefnenda með landnúmerið 160136, innan 60 daga frá dómsuppsögu, að viðlögðum dagsektum að fjárhæð 30.000 krónur á dag eftir það tímamark, er renni til stefnenda.

                Í öðru lagi er þess krafist að stefndi, Ís og ævintýri ehf., greiði stefnendum samtals 97.048 kr., auk dráttarvaxta frá 1. júlí 2015 til greiðsludags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

                Í þriðja lagi er þess krafist að stefndu, in solidum, en til vara stefndi Ís og ævintýri ehf. einvörðungu, greiði stefnendum 3.000.000 króna eða lægri fjárhæð að álitum, í skaðabætur, auk dráttarvaxta frá þingfestingardegi til greiðsludags, sbr. 4. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

                Þá krefjast stefnendur málskostnaðar að skaðlausu.

                Stefndu krefjast sýknu af öllum dómkröfum í aðalsök. Þá er krafist málskostnaðar.

                Stefndu höfðuðu, ásamt fleirum, gagnsakarmál á hendur stefnendum með gagnstefnu birtri 9. nóvember 2016. Auk stefndu eru gagnstefnendur: Kolbrún Þorsteinsdóttir, Júllatúni 6, Höfn, Jón Þorsteinsson, Kirkjubraut 62, Höfn, Inga Lucia Þorsteinsdóttir, Kópavogsbraut 93, Kópavogi, Jöklasýn ehf., Hrísbraut 13, Höfn, Elías Gunnarsson, Sólvallagötu 5, Hríshóll ehf., Vesturbraut 15, Höfn, Lækjarhús ehf., Vesturbraut 15, Höfn, Ragnar Sigurðsson, f.h. dánarbús Gunnars Stefánssonar, síðast til heimilis að Borgarhöfn 2, Neðribæ, Sveitarfélaginu Hornafirði, og Þóra Guðríður Stefánsdóttir, Bólstaðarhlíð 41, Reykjavík.

                Í gagnsök krefjast gagnstefnendur þess að viðurkennt verði með dómi að rétt landamerki milli jarðanna Borgarhafnar og Kálfafellsstaðar í Suðursveit, Sveitarfélaginu Hornafirði á hinu umþrætta svæði séu: Upptök Staðarár úr Vatnajökli vestan við Hálsasker (P. 1-hnit: A- 651056 / N- 420438) og svo eftir megin kvíslinni að ármótum við Hálsagil ( P. 2, hnit: A- 652751 / N- 419417) og þaðan eftir Hálsagili að ármótum Staðarár í Brunnadal.( P. 3, hnit A-653665 / N- 418103).

                Þá krefjast gagnstefnendur málskostnaðar að skaðlausu úr hendi gagnstefndu sameiginlega.

                Gagnstefndu krefjast frávísunar á dómkröfum í gagnsök og hafa lagt fram um þá kröfu sérstaka greinargerð, með heimild í 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 7. gr. laga nr. 78/2015. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi gagnstefnenda sameiginlega. Áskilja gagnstefndu sér allan rétt til að hafa síðar uppi varnir í efnisþætti málsins, verði ekki fallist á frávísunarkröfu þeirra.

                Gagnstefnendur krefjast þess að kröfu gagnstefndu um frávísun verði hafnað og að ákvörðun um málskostnað verði látin bíða efnisdóms.

                Umfjöllunarefni þessa úrskurðar einskorðast við framangreinda frávísunarkröfu í gagnsök.

I

Helstu málsatvik og ágreiningsatriði

                Helstu málsatvik eru þau að stefnendur keyptu jörðina Kálfafellsstað, landnr. 160134, af Kirkjumálasjóði, en afsal vegna kaupanna er dags. 12. maí 2015. Samkvæmt afsali fylgdi jörðinni allt sem „fylgir og fylgja ber að engu undanskyldu, þar með talin lóðin Kálfafellsstaður/Jöklasel landnúmer 160136“. Samkvæmt skráningu í fasteignaskrá er um 12,3 ha lóð að ræða.

                Kirkjumálasjóður hafði eignast jörðina, ásamt lóðinni, af íslenska ríkinu með samkomulagi um prestsetur og afhendingu þeirra, 20. október 2006, en hinn 26. apríl 1992 hafði dóms- og kirkjumálaráðuneytið gert lóðarleigusamning um lóðina við Jöklaferðir hf. til 25 ára, frá 1. janúar 1991 að telja og rann leigutíminn samkvæmt því út 31. desember 2015. Í lóðarleigusamningnum er kveðið á um árlegt leigugjald og hvernig það skyldi breytast í samræmi við byggingavísitölu. Skyldi leigutaki eiga forleigurétt að hinni leigðu lóð að loknum leigutímanum.

                Óumdeilt er að á téðri lóð stendur svefnskáli, fastanr. 218-1954, sem er í eigu stefnda, Íss og ævintýra ehf. Skálann keypti stefndi Ís og ævintýri ehf. af Rekstrarfélagi Jöklaferða ehf. 19. febrúar 2001, skv. afsali, dags. sama dag, og þaðan mun félagið hafa gert út ferðir á Vatnajökul, m.a. á vélsleðum. Í afsalinu er lóðarleigusamnings frá 26. apríl 1992 getið og er hans einnig getið á veðbandayfirliti fyrir svefnskálann. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum um gildandi skráningu í hlutafélagaskrá 2016 er stefndi Bjarni Skarphéðinn stofnandi, stjórnarmaður og framkvæmdastjóri beggja nefndra félaga.

                Í málinu liggja fyrir tölvupóstsamskipti stefnenda við stefnda, Bjarna Skarphéðin, frá 4. febrúar 2015, þar sem stefnendur upplýstu að lóðin væri ekki til sölu en buðust til að gera áframhaldandi samning, „eins konar einkaréttarsamning“, fyrir „árið í ár og næsta ár“, en kváðust vilja „skoða þetta í stærra samhengi“ áður en þau bindu sig til lengri tíma. Í svari stefnda Bjarna Skarphéðins er spurt hvort það sé misskilningur að lóðarleigusamningurinn gildi óbreyttur til 1. janúar 2016.

                Með bréfi lögmanns stefnenda til stefndu, dags. 1. mars 2016, var stefnda Ís og ævintýrum ehf. boðið að ganga til gerðar nýs lóðarleigusamnings um aðstöðu á afmörkuðum hluta lóðarinnar, eða 3 ha spildu úr þeirri heildarlóð sem áður hafði verið leigð, þar sem svefnskálinn stendur. Var lagt til í bréfinu að leigutíminn yrði til 10 ára og að árlegt leiguverð hækkaði í 3.000.000 króna, sem yrði verðtryggt m.v. vísitölu neysluverðs.

                Framangreindu bréfi svaraði lögmaður stefndu með tölvubréfi til lögmanns stefnenda 5. apríl 2016 og upplýsti að upp væri kominn ágreiningur um landamerki á svæðinu, en umbjóðandi hans teldi landið sem svefnskálinn stendur á tilheyra jörðinni Borgarhöfn, en ekki jörðinni Kálfafellsstað. Því yrði að leysa úr landamerkjaágreiningnum áður en haldið yrði áfram viðræðum um nýjan leigusamning og hygðust stefndu leita til sýslumanns til að leita sátta um ágreininginn. Mótmælti lögmaður stefnenda þeim áformum stefndu með tölvubréfi 12. s.m.

                Með „kröfubréfi“, dags. 23. maí 2016, fyrir hönd stefndu, leitaði lögmaður þeirra til sýslumannsins á Suðurlandi í framangreindu skyni. Stefnendur mótmæltu kröfubréfinu bréflega við lögmann stefndu 24. maí og 16. júní 2016 og einnig með bréfi til sýslumanns 21. nóvember 2016, þar sem stefnendur höfnuðu því að taka þátt í sáttaumleitan sýslumanns. Ekki liggur fyrir hvort málinu sé lokið hjá sýslumanni.

                Umdeilt er hvort stefndi Ís og ævintýri ehf. hafi greitt réttilega lóðarleigu fyrir árið 2015. Ágreiningslaust virðist að leigufjárhæðin hafi verið 90.000 krónur á árinu 2013, en stefnendur byggja á því að stefndi hafi greitt 95.000 krónur í leigu fyrir árið 2014 og að leigufjárhæðin með verðbótum nemi 97.048 krónum vegna ársins 2015. Hefur því ekki verið sérstaklega mótmælt, en í greinargerð lætur stefndi nægja að vísa til þess að leigan hafi „öll verið greidd til Kirkjumálasjóðs“ sem hafi verið eigandi jarðarinnar þar til nýverið.  

                Í gagnstefnu kemur fram að í tilefni af ágreiningi í aðalsök hafi gagnstefnandinn Bjarni Skarphéðinn farið að kanna betur réttarsöðu sína og hafi þá komið í ljós að „eldri menn á svæðinu“ könnuðust ekki við að skálinn (Jöklasel) stæði í landi Kálfafellsstaðar heldur stæði hann í landi Borgarhafnar. Við nánari skoðun á fyrirliggjandi gögnum og landfræðilegum aðstæðum hafi gagnstefnandinn Bjarni Skarphéðinn sannfærst um að svo sé og því telji stefndu lóðarleigusamninginn frá 1992 hafa verið gerðan fyrir vankunnáttu og leiga því verið greidd af vangá og misskilningi til eiganda Kálfafellsstaðar. Öllum málsástæðum gagnstefnenda er mótmælt harðlega af hálfu gagnstefndu, sem röngum og ósönnuðum.

II

Helstu málsástæður í aðalsök

                A. Málsástæður stefnenda

                Krafa um að svefnskáli verði fjarlægður, að viðlögðum dagsektum

                Stefnendur kveðast reisa fyrstu dómkröfu sína í aðalsök á þinglýstum eignarrétti sínum að lóðinni Kálfafellsstaður/Jöklasel, landnúmer 160136 og landupplýsingar úr landsskrá fasteigna.

                Heimild stefnda, Íss og ævintýra ehf., til nýtingar á lóð stefnenda hafi runnið út 31. desember 2015 og hafi stefndi ekki svarað tilboði um að gera nýjan samning né svarað fyrirspurn um nýtingu forleiguréttar innan tilskilins tímamarks. Stefndu hafi verið gert ljóst að nýting sé óheimil, en samt sem áður hafi þeir nýtt eignina án þess að leita samþykkis eða bjóða fram greiðslu.

                Stefndi, Ís og ævintýri ehf., hafi þar að auki vanefnt verulega lóðarleigusamning þann sem í gildi hafi verið til 31. desember 2015, með því að greiða ekki lóðarleigu fyrir árið 2015. Hafi hann þar með firrt sig rétti til að byggja á forleiguréttarákvæði samningsins, auk þess sem hann hafi fyrirgert þeim rétti sínum með tómlæti. Riftunar sé ekki þörf þar sem samningurinn sé niður fallinn og hafi enginn samningur verið í gildi frá 31. desember 2015.

                Stefndu séu grandsamir um ólögmætt athæfi sitt en hafi ekkert gert til að láta af ólögmætri starfsemi.

                Hvorugur stefndu eigi neinar samningsbundnar kröfur eða réttindi á hendur stefnendum er heimili þeim nýtingu svefnskálans eða réttlæti að hann fái að standa á eignarlandi stefnenda.

                Eignarréttur stefnenda sé varinn af 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og óheimil nýting eignarréttinda þeirra af hálfu stefndu sé ólögmæt. Því sé gerð krafa um að stefnda, Ís og ævintýrum ehf., verði gert skylt að fjarlægja svefnskálann innan 60 daga frá dómsuppsögu.

                Krafa um dagsektir, 30.000 krónur á dag að liðnum 60 daga fresti frá dómsuppsögu, er renni til stefnenda, styðjist við 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Fjárhæð dagsekta teljist hæfileg með vísan til fyrirliggjandi dómafordæma og að teknu tilliti til atvika í máli þessu.

                Krafa um vangoldna lóðarleigu fyrir árið 2015

                Stefnendur kveðast byggja aðra dómkröfu sína í aðalsök á 4. gr. lóðarleigusamnings og upplýsingum í tölvubréfi frá stefnda Bjarna Skarphéðni, þar sem fram komi að lóðarleigugjald fyrir árið 2013 hafi verið 90.000 krónur og loks á framlögðu færsluyfirliti þar sem fram komi að greiðsla fyrir árið 2014 hafi verið 95.000 krónur. Höfuðstóll greiðslu ársins 2015 nemi, með verðbótum samkvæmt byggingarvísitölu, 97.048 krónum, en stefndu hafi ekki greitt þá skuld þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir. Gjalddagi kröfunnar hafi verið 1. júní 2015 og sé dráttarvaxta krafist að liðnum 30 dögum frá gjalddaga, sbr. 4. gr. lóðarleigusamnings, sbr. og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001.

                Krafa um skaðabætur

                Þriðja dómkrafan, um skaðabætur, byggist á sakarreglu skaðabótaréttar. Stefndu hafi nýtt sér aðstöðu á lóð stefnenda án þess að hafa til þess nokkrar heimildir. Hafi það verið gert af ásetningi enda hafi stefndu verið ljóst, í síðasta lagi 1. mars 2016, að þeir færu um og nýttu sér eignarland stefnenda í leyfisleysi.

                Þannig beri stefndu, Ís og ævintýri ehf. sem eigandi svefnskálans, og stefndi Bjarni Skarphéðinn sem atvinnurekandi, eigandi og ábyrgðarmaður þeirra fyrirtækja sem nýti aðstöðu í heimildarleysi, sameiginlega skaðabótaábyrgð gagnvart stefndendum. Um sé að ræða athöfn sem leiði til fjártjóns fyrir stefnendur og henni sé valdið með saknæmum og ólögmætum hætti. Tjónið sé sennileg afleiðing af hegðun stefndu og raski hagsmunum stefnenda sem verndaðir séu af skaðabótareglum. Hér sé um heimildarlausa nýtingu á stjórnarskrárvörðum eignarrétti stefnenda að ræða, sbr. 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar.

                Fjártjón stefnenda felist í því að þau hafi orðið af tekjum sem stefndu hafi borið að greiða þeim vegna nýtingar á fasteign þeirra. Til frekari skýringar sé ljóst að stefnendur hafi orðið fyrir tekjumissi, þar sem eign þeirra hafi verið nýtt, án heimildar og án greiðslu fyrir nýtinguna. Þá hafi stefnendur ekki getað nýtt lóðina á sama hátt og ef stefndu hefðu ekki nýtt hana með ólögmætum hætti, en stefnendur hefðu t.a.m. haft möguleika á því að leigja öðrum lóðina. Tjón stefnenda sé því augljóst. Þá sé alveg ljóst að stefndu geti ekki nýtt sér þinglýstar eigur annarra, án endurgjalds, nema fyrir því liggi skýr heimild. Engin slík heimild sé fyrir hendi.

                Skaðabótakrafa stefnenda miðist við 3.000.000 króna sem sé það gjald sem þeir telji eðlilegt að stefndu greiði fyrir árleg afnot af 3 ha lóð og hafi gert þeim boð um. Stefndu hafi nýtt sér 12,3 ha lóð stefnenda án heimildar og án endurgjalds árið 2016, sbr. útprentun af síðunni glacierjeeps.is. Um sé að ræða einkafyrirtæki stefnda, Bjarna Skarhéðins, Jöklajeppa ehf.

                Með vísan til framangreinds sé þess krafist að stefndu verði in solidum, en til vara stefndi Ís og ævintýri ehf., dæmdir til greiðslu skaðabóta enda leiki enginn vafi á um heimildarleysi svefnskálans á eignarlóð stefnenda.

                Til vara sé krafist skaðabóta að álitum að mati dómsins enda ljóst að skilyrði sakarreglu eigi við og stefnendur hafi orðið fyrir fjártjóni.

                B. Málsástæður stefndu

                Í greinargerð stefnda í aðalsök kemur fram að krafa um sýknu af öllum dómkröfum stefnenda byggi á því að samkvæmt þinglýstum landamerkjabréfum jarðanna Kálfafellstaðar og Borgarhafnar, sbr. og örnefnaskrár fyrir jarðirnar, auk ýmissa eldri heimilda er þau telja að styðji við túlkun þeirra á þeim, þá standi umræddur skáli ekki á landi Kálfafellsstaðar. Stefnendur hafi því ekki heimild að lögum til að krefjast brottnáms skálans af landinu þar sem hann standi, né heldur til að krefja um leigu fyrir það, því þau séu ekki eigendur landsins.

                Landamerkjabréfum jarðanna beri ekki  saman um það að merkin séu Staðará, sem spretti upp á milli Hálsatinds og Þormóðarhnútu. Meginupptök Staðarár séu því fyrir vestan Jöklasel, þegar betur sé að gáð, nokkurn veginn miðja vegu á milli Hálsatinds og Þormóðarhnútu.

                Stefndu hafi, ásamt öðrum eigendum Borgarhafnar, höfðað gagnsök í máli þessu, til viðurkenningar á réttum landamerkjum jarðanna, og sé vísað til gagnstefnu, og gagna meðfylgjandi gagnstefnu, til stuðnings þeirri kröfu.

                Mótmælt sé kröfu stefnenda um greiðslu dagsekta af hálfu stefnda Íss og ævintýra ehf., en slík krafa eigi sér enga stoð, hvorki í samningum né lögum. Mótmælt sé einnig kröfu um ógreidda leigu samkvæmt hinum útrunna samningi, hún sé þvert á móti fullgreidd.

                Þá sé þriðju dómkröfu stefnenda, skaðabótakröfu, mótmælt sem algerlega órökstuddri og eigi sú krafa hvorki sér stoð í samningum né lögum.

                Því sé algerlega mótmælt að gagnstefndu geti einhliða ákveðið nýja leigufjárhæð á hinni umþrættu spildu, komi til þess að þeir verði taldir eigendur að hinu umþrætta landi. Stefndu telji að það verði að bjóða landið til leigu á almennum markaði þannig að raunverulegt markaðsverð verði fundið, eða það fundið út  með gerðardómi eða öðrum sambærilegum hætti, og síðan eigi stefndi, Ís og ævintýri ehf., forleigurétt á þeim kjörum, samkvæmt fyrri leigusamningi um svæðið. Í því sambandi kveðast stefndu vísa til laga nr. 75/2008 um frístundabyggð, með lögjöfnun, og einnig  til laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, einkum III. kafla laganna. Einnig sé vísað til húsaleigulaga nr. 36/1994 með lögjöfnun, einkum 37. gr laganna.

III

Helstu málsástæður í gagnsök

                A. Málsástæður gagnstefnenda

                Gagnstefnendur kveðast byggja kröfur sínar á þinglýstum landamerkjabréfum ofangreindra jarðeigna og örnefnaskrám fyrir jarðirnar, auk ýmissa eldri heimilda er þau telji að styðji við túlkun þeirra á þeim.

                Landamerkjabréfum jarðanna beri saman um það að merkin séu um Staðará, sem spretti upp á milli Hálsatinds og Þormóðarhnútu, eins og segi í Kálfafellsbréfinu frá 1923, en „...þar hún nú rennur úr Jökli austan við Hálsatind annarsvegar og Þormóðarhnútu hinsvegar...“ eins og segi í Borgarhafnarbréfinu, sem sé frá árinu 1922 [sic].

                Gagnstefnendur telji, eftir að hafa kynnt sér gögn og aðstæður, að meginupptök Staðarár sé kvíslin sem komi úr jöklinum vestan við Hálsasker, (P.1 á kröfulínukorti) sem svo renni í Hálsagil, (P.2)  sem Staðará renni um (P.3)

                Þegar metið sé hvar séu upptök staðar [sic] á þessu svæði verði að horfa til þess hvoru megin vatnasviðið sé sem myndi upptök árinnar. Samkvæmt vatnasviðskorti af svæðinu, gerðu af jarðvísindastofnun Háskólans á árinu 2010, sem gagnstefnendur leggi fram í málinu, sbr. og bréf Finns Pálssonar, verkefnastjóra hjá Jöklarannsóknum, hjá jarðvísindastofnun Háskólans, dags. 22. nóv. 2016, falli meginkvíslin, sem myndi upptök Staðarár úr jökli, einmitt á milli Hálsatinds og Þormóðshnútu, og þaðan í Hálsagil sem renni í Staðará í Brunnadal. Við þessa kvísl, sem sýnd sé á kröfulínukorti gagnstefnenda, vilji gagnstefnendur miða.

                Gagnstefnendur telji því að meginupptök Staðarár úr Jökli, séu vestan við lóð þá sem eigendur Kálfafellsstaðar vilji nú gera nýjan lóðarleigusamning um við gagnstefnanda Ís og ævintýri ehf. Því tilheyri land það sem umræddur svefnskáli standi á Borgarhöfn, en ekki Kálfafellsstöðum.

                Gagnstefndu miði hinsvegar við gil nokkurt austan við jökulkvíslina, en það sé nú vatnslaust að mestu. Gagnstefnendur telji því að miðað hafi verið við rangt gil á svæðinu, þegar leigusamningurinn var gerður 1992. Gil það sem gagnstefndu vilji miða við komi hins vegar vart til greina. Það sé austan við jökulkvíslina og sé vatnslaust. Hafi áin ekki runnið þar um svo lengi sem elstu menn muni.

                Til frekari stuðnings kröfu sinni bendi gagnstefnendur á örnefnaskrár fyrir jarðirnar, gerðar 1961, en þar komi fram að Staðará sé á merkjum jarðanna allt til jökuls, þar sem hún komi upp, og renni milli Hálsatinds og Þormóðarhnútu. Samkvæmt örnefnaskrá Kálfafellsstaðar, sem rituð sé 1961 og höfð eftir Jóhanni Björnssyni á Brunnum, að austan við Hálsatind heiti Hálsasker, „[þ]á er komið að landamörkum milli Kálfafellsstaðar og Borgarhafnar. Eftir Hálsagili (161) fellur hluti af Staðará (162) sem ræður mörkunum milli bæjanna allt til sjávar.“

                Ljóst megi því vera að Þormóðarhnúta og landsvæði austan árinnar tilheyri Borgarhöfn. Þetta virðist mönnum líka hafa verið ljóst þegar þeir leituðu til eigenda Borgarhafnar með leyfi fyrir vegalagningu á svæðinu árið 1986. Skálinn Jöklasel sé líka talinn byggður á Þormóðshnútu sbr. samþykki skipulags og byggingarnefndar Borgarhafnarhrepps, dags. 5. okt. 1990, sbr. samþykki Skipulagsstofnunar ríkisins dags. 15 okt. 1990, þar sem Jöklaferðum sé veitt samþykki fyrir því að byggja fjallaskála á Þormóðshnútu.

                Í hnotskurn sé deilt um túlkun framangreindra landamerkjabréfa, þ.e. hvar staðsetja skuli meginupptök Staðarárinnar í ljósi orðalags bréfanna, um að áin ráði merkjum, hvar hún nú renni úr jökli milli Hálsatinds og Þormóðarhnútu. Eigendur Borgarhafnar telji að landamerkjalínu milli jarðanna eigi að miða við þann farveg sem safni vatni af stærsta vatnasviðinu, sem áin myndist úr, og myndi meginkvísl þá sem sem komi úr Jöklinum vestan við Hálsasker sem svo renni í Hálsagil sem Staðará renni óumdeilt um.

                Þá styðjist krafa gagnstefnenda við vitnisburð eldri bænda á svæðinu, en þeir séu tilbúnir til að vitna um staðsetningu merkjanna fyrir dómi. Kennileiti sem gagnstefnendur vilji miða við séu staðfest af þremur bændum sem búsettir séu beggja vegna línunnar, einn sé 90 ára og tveir rúmlega 70 ára, en annar þeirra hafi farið fyrst í smalamennsku á þetta svæði 11 ára og alla sína búskapartíð eftir það.

                Þá byggi gagnstefnendur á því að við túlkun þeirra landamerkjabréfa, sem hér eigi í hlut, verði að horfa heildstætt á landamerkjabréfin og meta þau í ljósi eldri heimilda og með hliðsjón af landfræðilegum aðstæðum og örnefnum.

                Á því sé byggt að miðlína vatnsfalls á landamerkjum ráði mörkum milli jarða sbr. 3. vatnalaga nr. 15/1923.

                Málsástæður varðandi frávísunarkröfu

                Við munnlegan málflutning um frávísunarkröfu hafnaði lögmaður gagnstefnenda því að skilyrði séu ekki uppfyllt fyrir höfðun gagnsakar í málinu, enda eigi kröfur í aðalsök og gagnsök sér báðar rætur að rekja til sama löggernings og jafnframt til sömu aðstöðu í skilningi 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991. Hvað löggerning varðar var vísað til fyrirliggjandi lóðarleigusamnings frá árinu 1992. Um aðstöðu var til þess vísað að bæði kröfur í aðalsök og landamerkjaágreiningurinn í gagnsök varði þá lóð sem svefnskálinn stendur á.

                Þá var því mótmælt að dómkrafa í gagnsök sé vanreifuð í skilningi e. eða g. liðar 1. mgr. 80. gr. sömu laga, sem og því að krafan sé a.ö.l. haldin annmörkum sem leiða eigi til frávísunar hennar án kröfu.

                Lögmaður gagnstefnenda lýsti því sérstaklega yfir við málflutninginn að umbjóðendur hans myndu ekki setja sig upp á móti því að gagnstefndu kæmu sínum kröfulínum að í gagnsök.  

                B. Málsástæður gagnstefndu          

                Gagnstefndu byggja frávísunarkröfu sína í gagnsök á 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 og benda á að heimild til að hafa uppi gagnkröfu til sjálfstæðs dóms og eftir atvikum skuldajafnaðar við kröfu í aðalsök sé háð því að krafa í gagnsök sé annaðhvort samkynja kröfu í aðalsök eða þær eigi báðar rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings, nema samið hafi verið um að sækja mætti gagnkröfuna í sama máli og aðalkröfuna. Að baki ákvæði 2. mgr. búi hagkvæmnisrök. Gagnstefndu telji augljóst að krafa gagnstefnenda um viðurkenningu nýrra landamerkja sé hvorki samkynja kröfu í aðalsök né heldur eigi hún rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings. Engar kröfur í aðalsök beinist að eignarhaldi á Vagnstöðum, sem eigi hlut í Borgarhafnarjörðinni. Engu skipti þótt svo vilji til að eigandi Vagnsstaða sé vegna atvinnustarfsemi sinnar, sem nú sé stunduð á landi gagnstefndu án heimildar, forsvarsmaður fyrirtækis er málið varði í aðalsök en það eigi engin þinglýst réttindi sem landeigandi. Hér sé um misnotkun á réttarfarsákvæðinu að ræða af hálfu gagnstefnenda og hamli það lögmætum vörnum gagnstefndu, t.d. ef þau vildu hafa uppi gagnsök er lyti að ákvörðun um landamerki. Kröfurnar geti ekki talist samkynja í skilningi 28. gr. laga nr. 91/1991 og verði það því ekki talið til hagræðingar að hafa þær uppi í einu og sama máli heldur beri að reka um þær sérstakt mál. Af þeim sökum beri að vísa kröfu gagnstefnenda frá dómi með eða án kröfu.

                Gagnstefndu ítreki að gagnkrafa gagnstefnenda eigi ekki rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings og kröfur í aðalsök séu byggðar á. Þá hafi ekki verið samið um að sækja mætti gagnkröfuna í máli um aðalkröfuna. Í gagnstefnu sé með engu móti rökstutt að hvaða leyti gagnstefnendur telji að uppfyllt séu skilyrði 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991. Gagnstefndu telji að kröfurnar séu ekki þess eðlis að sama atvikalýsing geti átt við um þær og verði þær ekki studdar við sömu röksemdir og sönnunargögn. Í ljósi þess beri að vísa kröfu gagnstefnenda frá dómi.

                Kröfur í aðalsök um að stefnda, Ís og ævintýrum ehf., verði gert að fjarlægja svefnskála af lóð gagnstefndu og greiða vangoldna leigu og skaðabætur byggi á þinglýstum eignarrétti gagnstefndu að umræddri lóð, lóðarleigusamningi milli aðila og sakarreglu skaðabótaréttar. Krafa um viðurkenningu nýrra landamerkja hafi í eðli sínu ekkert með slíkar kröfur að gera. Stefndi, Ís og ævintýri ehf., geti ekki átt aðild að slíku máli og ekki heldur stefndi, Bjarni Skarphéðinn, sem ábyrgðarmaður hinnar ólögmætu atvinnustarfsemi sem fram fari á sérstakri og afmarkaðri lóð gagnstefndu. Sé því um slíka vanreifun að ræða að leiða eigi til frávísunar gagnstefnu, sbr. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991.

                Þá sé aðild í gagnsök gerólík aðild í aðalsök, sem sýni svo ekki verði um villst að vísa beri málinu frá með vísan til þess að skilyrðum 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 sé ekki fullnægt.

                Gagnstefndu telji það lýsandi fyrir það hve málin séu óskyld, og ekki hæf til að mætast á grundvelli 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991, að aðalstefndu telji sig þurfa að höfða landamerkjamál og fá niðurstöðu í það áður en þeir geti tekið til efnisvarna í aðalsök. Breyti það engu um skýran og þinglýstan eignarrétt gagnstefndu á fasteigninni 160136 [lóð; innsk. dómara], sem varinn sé af stjórnarskrá.

                Þá byggi gagnstefndu á grundvallarreglu íslensks réttar um að sá sem krefjist réttinda sér til handa í dómsmáli verði að gera skýra grein fyrir þeim. Um sé að ræða hina rótgrónu meginreglu um ákveðna og skýra kröfugerð. Gagnstefndu telji að gagnstefnendur hafi látið undir höfuð leggjast að skýra grundvöll gagnstefnu ásamt því að leggja ekki fram fullnægjandi gögn henni til skýringar. Af þeim sökum beri að vísa kröfunni frá dómi, sbr. einnig e. og g. liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.

                Að lokum árétti gagnstefndu að umrædd lóð sé sérstök fasteign með sérstakt landnúmer sem ekki sé hið sama og landnúmer jarðarinnar Kálfafellstaðar, en gagnsök lúti eingöngu að hinni síðari fasteign. Lóðin sé þinglýst eign gagnstefndu og breyti landamerki þeirra jarða sem gagnsök varði engu þar um. Engar sjálfstæðar kröfur varðandi fasteignina 160136 sé að finna í gagnsök. Telji gagnstefndu kröfu um viðurkenningu nýrra landamerkja vera tilhæfulausa og að í henni felist tilraun gagnstefnenda, Íss og ævintýra ehf. og Bjarna Skarphéðins, til að komast undan réttmætum kröfum gagnstefndu í aðalsök. Starfsemi framangreindra gagnstefnenda hafi farið fram í heimildarleysi á eign gagnstefndu og feli það í sér brot á stjórnarskrárvörðum réttindum þeirra, sbr. 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þessum gagnstefnendum og stefndu í aðalsök hafi boðist að gera nýja samninga en því hafi verið hafnað.

                Í ljósi framangreindra ástæðna, einum og sér eða saman, sé gagnstefndu því gert ómögulegt að taka til varna í máli þessu, líkt og rakið hafi verið. Feli gagnsök í sér tilraun af hálfu gagnstefnenda til að misnota réttarfarslög og valda gagnstefndu réttarspjöllum. Af þessum sökum krefjist gagnstefndu þess að kröfum gagnstefnenda verði vísað frá dómi, með eða án kröfu.

                Efnisvarnir gagnstefndu í gagnsök liggja ekki fyrir, enda nýttu þeir heimild í 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 7. gr. laga nr. 78/2015, til að skila sérstakri greinargerð um frávísunarkröfu í gagnsök. Í greinargerð áskilja gagnstefndu sér rétt til að hafa síðar uppi, verði ekki á frávísun fallist, allar þær efnisvarnir sem þeim sé unnt í málinu, þ.m.t. sýknukröfu á grundvelli aðildarskorts.

IV

Niðurstaða.

Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/191 um meðferð einkamála er varnaraðila rétt að hafa uppi gagnkröfu til skuldajafnaðar í máli án þess að gagnstefna ef skilyrði fyrir skuldajöfnuði eru fyrir hendi. Gagnkrafan skal þá höfð uppi í greinargerð en sjálfstæður dómur getur ekki gengið um hana. Í 2. mgr. er kveðið á um að með gagnstefnu sé varnaraðila heimilt að hafa uppi gagnkröfu í máli til sjálfstæðs dóms og eftir atvikum skuldajafnaðar ef gagnkrafan er samkynja aðalkröfunni eða þær eiga báðar rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings eða samið hefur verið um að sækja mætti gagnkröfuna í máli um aðalkröfuna. Gagnsök verður að höfða innan mánaðar frá þingfestingu aðalsakar.

Framangreindur tímafrestur stendur ekki í vegi þess að gagnsökin verði tekin til efnismeðferðar. Hvorki er á því byggt að kröfur í aðalsök og gagnsök geti talist samkynja né að samist hafi milli aðila um að sækja megi gagnkröfuna í máli um aðalkröfuna. Það sem er umdeilt er það hvort uppfyllt sé skilyrði 2. mgr. 28. gr. um að kröfurnar teljist samrættar, en í því efni vísa gagnstefnendur annars vegar til þess að kröfurnar eigi rætur að rekja til sömu aðstöðu og hins vegar til sama löggernings, eins og fyrr var rakið.

Líkt og gagnstefndu benda á búa viss hagkvæmnisrök að baki heimildarákvæði 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991. Þar sem krafa stefndu um sýknu í aðalsök byggir einkum á málsástæðu um að skálinn hafi ranglega verið talinn standa í landi jarðarinnar Kálfafellsstaðar er skiljanlegt að stefndu kjósi að láta á það reyna hvort leysa megi úr ágreiningi um landamerki í einu og sama málinu. Þess er aftur á móti að gæta að landamerkjamál eru mál sérstaks eðlis, enda nægir það yfirleitt ekki til að leysa úr ágreiningi um landamerki að krefjast sýknu, heldur reynist yfirleitt nauðsynlegt að höfða gagnsök til viðurkenningar á kröfum um aðra legu landamerkja en krafist er í aðalsök. Með því að höfða hér landamerkjamál sem gagnsakarmál er í reynd verið að takmarka möguleika gagnstefndu til þess að taka til varna með þeim hætti sem réttarfarslög gera ráð fyrir. Enda þótt í málflutningsræðu lögmanns gagnstefnenda hafi komið fram yfirlýsing þess efnis að samþykkt yrði að gagnstefndu fengju að koma að í málinu dómkröfum um aðrar kröfulínur í gagnsök, þá breytir það ekki því að ófrávíkjanlegar réttarfarsreglur veita einfaldlega ekki svigrúm, gegn mótmælum gagnstefndu, til þess að höfða landamerkjamál á hendur þeim sem gagnsakarmál, eins og hér er gert. Ennfremur verður það að teljast afar langsótt að fallast megi á að kröfur í aðalsök og gagnsök þessa máls séu samrættar í skilningi 2. mgr. 28. gr., á grundvelli þeirra röksemda sem gagnstefnendur tefla fram, og verður því hafnað.

Þegar af framangreindum ástæðum ber að vísa dómkröfum gagnstefnenda í gagnsök frá dómi.

Í ljósi þeirra úrslita er rétt að dæma gagnstefnendur sameiginlega til að greiða gagnstefndu sameiginlega málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn eins og í dómsorði greinir. Við ákvörðun um málskostnað hefur verið höfð hliðsjón af tímayfirliti lögmanns gagnstefndu, en jafnframt af því að neytt var heimildar til að skila greinargerð um frávísunarkröfu sérstaklega, án þess að taka til efnisvarna í gagnsök. Þá hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts og ferðakostnaðar.

                Hildur Briem héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. Við uppkvaðningu úrskurðarins var gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en uppkvaðning úrskurðar dróst vegna embættisanna dómarans.

Úrskurðarorð:

                Dómkröfum gagnstefnenda í gagnsök er vísað frá dómi.

                Gagnstefnendur, Ís og ævintýri ehf., Bjarni Skarphéðinn G. Bjarnason, Kolbrún Þorsteinsdóttir, Jón Þorsteinsson, Inga Lucia Þorsteinsdóttir, Jöklasýn ehf., Elías Gunnarsson, Hríshóll ehf., Lækjarhús ehf., db. Gunnars Stefánssonar og Þóra Guðríður Stefánsdóttir, greiði gagnstefndu, Þóru Guðrúnu Ingimarsdóttur og Bjarna Maríusi Jónssyni, sameiginlega 610.625 krónur í málskostnað.