Print

Mál nr. 530/2017

A (Inga Lillý Brynjólfsdóttir hdl.)
gegn
Velferðarsviði Reykjavíkurborgar (Kristbjörg Stephensen hrl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Lögræði
  • Sjálfræði
Reifun
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem A var sviptur sjálfræði í tvö ár.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. ágúst 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 5. september sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. ágúst 2017, þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði í tvö ár.  Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að sjálfræðissviptingunni verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann þóknunar til handa verjanda sínum fyrir Hæstarétti.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði og verður hún ákveðin með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun verjanda sóknaraðila, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur héraðsdómslögmanns, 148.800 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

                                                             

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. ágúst 2017.

I

Með kröfu, sem barst dóminum 8. ágúst sl., hefur sóknaraðili, Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, krafist þess að varnaraðili, A, kt. [...],[...] í Reykjavík, verði sviptur sjálfræði tímabundið til tveggja ára, með vísan til a-liðar 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Um aðild sóknaraðila vísast til d-liðar 2. mgr. 7. gr. sömu laga.

Af hálfu varnaraðila er kröfu sóknaraðila mótmælt og þess krafist aðallega að henni verði hafnað en til vara að sjálfræðissviptingu varnaraðila verði markaður skemmri tími. Þá er þess krafist að lögmanni varnaraðila verði ákveðin hæfileg þóknun úr ríkissjóði með vísan til 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997.

Málið var þingfest fyrr í dag. Áður en aðalmeðferð hófst fór dómari málsins á geðdeild 32C á Landspítala háskólasjúkrahús og hitti varnaraðila ásamt verjanda hans, Ingu Lillý Brynjólfsdóttur hdl. Dómari kynnti varnaraðila kröfu sóknaraðila málsins og kannaði afstöðu hans til hennar.

 og þá voru teknar skýrslur af varnaraðila og geðlæknunum B og C. Málið var síðan tekið til úrskurðar að afloknum munnlegum málflutningi af hálfu beggja aðila.

II

Í kröfu sóknaraðila kemur meðal annars fram að varnaraðili sé [...]. Hann sé greindur með [...] og sé öryrki vegna sjúkdóms síns. Varnaraðili hafi verið húsnæðislaus undanfarna mánuði og hafi þegið fjárhagsaðstoð til framfærslu. Hann hafi glímt við geðrænan og félagslegan vanda frá ungum aldri, hann hafi ekki lokið formlegri skólagöngu og hafi lítið unnið í gegnum tíðina. Varnaraðili hafi byrjað að neyta fíkniefna 15 ára gamall og hafi verið í neyslu af og til síðan.

Varnaraðili hafi fyrst komið á göngudeild geðsviðs árið 2008, en þá hafi hann leitað aðstoðar vegna [...]. Hann hafi fyrst verið lagður inn á geðdeild árið 2009 en þá hafi hann verið [...]. Á þessum tíma hafi varnaraðili tvívegis verið nauðungarvistaður og sviptur sjálfræði í sex mánuði til að tryggja lyfjameðferð. Undanfarin ári hafi hann 22 sinnum verið lagður inn á geðdeildir Landsspítalans. Varnaraðili hafi lítið sem ekkert innsæi í sjúkdóm sinn og hafi sýnt takmarkaða samvinnu um meðferð. Hann hafi í gegnum tíðina hætt lyfjameðferð þegar honum fari að líða betur eða þegar sjálfræðissviptingu ljúki. Reynt hafi verið að tengja varnaraðila við Laugarásinn á árunum 2011 til 2013 en hann hafi verið útskrifaður þaðan vegna neyslu. Hann hafi verið í eftirliti hjá samfélagsteymi geðsviðs frá árinu 2013 og hafi það gengið vel þegar hann hafi verið sjálfræðissviptur og á forðalyfjameðferð.

Í mars 2016 hafi varnaraðili verið lagður inn á bráðageðdeild Landspítalans. Í framhaldi af því hafi hann verið nauðungarvistaður í 21 dag og sviptur sjálfræði í eitt ár með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 26. apríl 2016 í máli nr. [...]. Meðan varnaraðili var sviptur sjálfræði hafi hann fylgt fyrirmælum um lyfjagjöf og meðferð hafi gengið ágætlega. Um leið og sjálfræðissviptingu hafi lokið í apríl 2017 hafi varnaraðili hætt á lyfjum og hætt að mæta í eftirlit.

Hinn 20. júlí 2017 hafi varnaraðili komið í fylgd lögreglu á bráðamóttöku Landspítalans. Hann hafi þá verið mjög ör og með miklar aðsóknarranghugmyndir. Varnaraðili hafi hvorki verið til samvinnu um innlögn né lyfjameðferð og hafi því verið nauðungarvistaður í 72 klukkustundir. Í framhaldi af því hafi sóknaraðili með bréfi, dags. 21. júlí 2017, óskað eftir því við sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu að varnaraðili yrði nauðungarvistaður í 21 dag með vísan til 19. gr., sbr. 20. og 21. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 og hafi sýslumaður samþykkt þá beiðni með bréfi samdægurs. Varnaraðili hafi kært ákvörðun sýslumanns um nauðungarvistun til Héraðsdóms Reykjavíkur. Með úrskurði dómsins 2. ágúst sl. hafi kröfu varnaraðila um að ákvörðun sýslumanns yrði felld úr gildi verið hafnað. Bati varnaraðila hafi verið hægur í innlögn og hann sé enn með miklar aðsóknarranghugmyndir.

Krafa sóknaraðila sé byggð á 5. gr. laga nr. 71/1997 og byggi á því að varnaraðili eigi við geðsjúkdóm að stríða og sé af þeim sökum ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum í bráð, sbr. a-lið 4. gr. sömu laga.

Með beiðni sóknaraðila fylgdi læknisvottorð B, sérfræðings í geðlækningum á deild 32C á Landspítala, dagsett 3. ágúst sl., og er vísað til þess í kröfunni. Í vottorðinu kemur fram um fyrri geðsögu varnaraðila að hann hafi verið lagður inn á ýmsar deildir geðsviðs alls 22 sinnum. Hann hafi verið nauðungarvistaður í innlögnum og hafi sérstaklega þurft að beita nauðungarvistun þegar um [...] sé að ræða en síður þegar um [...] sé að ræða.Varnaraðili hafi lítið sem ekkert innsæi í sjúkdóm sinn, sé ekki meðferðarheldinn og hafi í gegnum tíðina alltaf hætt lyfjameðferð þegar líðan hans hafi lagast og/eða sviptingu hafi lokið. Í geðskoðun 3. ágúst sl. sé varnaraðili illa hirtur, með starandi augnaráð og mjög á verði í viðtali. Geðslag hans sé hækkað og og hann sé ör og eirðarlaus og haldi einungis út í nokkrar mínútur áður en hann gangi út úr viðtali. Hann gefi samhengislausa sögu þar sem fram komi miklar aðsóknarranghugmyndir, auk þess sem beri á vægri hugsanatruflun. Varnaraðili sé algjörlega innsæislaus í að hann sé með geðsjúkdóm og þurfi á lyfjameðferð að halda

Í álitskafla vottorðsins er þess getið að varnaraðili sé verulega innsæislaus og afneitandi um sinn sjúkdóm og hafi endurtekið þurft að svipta hann sjálfræði til að tryggja meðferð og eftirlit. Síðasta svipting hafi runnið út í lok apríl 2017 og hafi varnaraðili nánast strax veikst heiftarlega og sé kominn í innlögn um miðjan júlí með [...]. Það sé enginn vafi á því að hann sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi og að áframhaldandi meðferð sé honum nauðsynleg. Án hennar stofni hann heilsu sinni í voða og spilli möguleikum sínum á bata. Styðji læknirinn og mæli með sviptingu sjálfræðis í tvö ár.

Varnaraðili hefur mótmælt kröfu sóknaraðila og efaðist um sjúkdómsgreiningu þá sem honum hefur verið kynnt að fram komi í framlögðu læknisvottorði B geðlæknis. Varnaraðili tók fram við dómara að hann hefði alltaf verið í vímuefnaneyslu þegar sjúkdómsgreiningar hefðu farið fram. Varnaraðili lagði áherslu á að hann óskaði þess að fá að standa á eigin fótum í lífinu, enda teldi hann sig færan um það. Hann tók fram að hann væri tilbúinn til að taka lyf í töfluformi en ekki í sprautuformi þar sem honum yrði illt af því.

Við fyrirtöku málsins gaf áðurnefndur geðlæknir, B, skýrslu um síma. Hún staðfesti framlagt læknisvottorð sitt, dagsett 3. ágúst sl., bæði hvað varðar efni þess og undirritun sína. B kvað varnaraðila vera haldinn alvarlegum geðsjúkdómi og þyrfti lyfjameðferð við honum sem væri honum bráðnauðsynleg, enda óttaðist hún um líf varnaraðila og heilsu yrði henni ekki við komið. Þá taldi hún fullreynt að lyfjagjöf væri í töfluformi og án innlagnar, enda væri það fullreynt úrræði. Reynslan sýndi að varnaraðili þæði hvorki lyfjagjöf né aðra aðstoð eftir útskrift. Læknirinn benti á að vægari úrræði en tveggja ára sjálfræðissvipting væru fullreynd og tók fram að varnaraðili svaraði lyfjameðferð mun hægar en vonir hefðu staðið til. Þá lýsti hún því að varnaraðili væri haldinn mjög alvarlegum ranghugmyndum.

III

Með framangreindu vottorði B, sérfræðings í geðlækningum, og vætti hennar fyrir dómi sem og með vísan til annarra gagna þykir nægilega leitt í ljós að varnaraðili sé haldinn [...]. Þar sem ljóst er að varnaraðili hefur ekki innsæi í sjúkdóminn telur dómurinn nauðsynlegt að hann verði tímabundið sviptur sjálfræði svo unnt verði að veita honum viðeigandi og nauðsynlega læknismeðferð og aðstoð, sem sýnt þykir af því sem komið er fram í málinu, að hann muni ekki gangast undir verði ekki fallist á sjálfræðissviptingarkröfu sóknaraðila. Í málinu er komið fram að varnaraðili hefur orðið mjög veikur þegar lyfjameðferð er hætt, svo sem gerðist síðastliðið vor.

Samkvæmt a-lið 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 er heimilt að svipta mann tímabundið sjálfræði standi brýn þörf til og hann er ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum vegna geðsjúkdóms. Í 1. mgr. 5. gr. laganna segir að tímabundin lögræðissvipting skuli ekki ákveðin skemur en í sex mánuði í senn. Þegar litið er til alls framanritaðs og gagna málsins um sjúkrasögu varnaraðila er það mat dómsins að ekki séu efni til að fallast á varakröfu varnaraðila um að sjálfræðissviptingu hans verði markaður skemmri tími en krafist er af hálfu sóknaraðila. Fyrir liggur að varnaraðili hefur verið sviptur sjálfræði í tvígang, fyrst í sex mánuði og síðan í tólf mánuði en síðari sjálfræðissviptingunni lauk í apríl sl. Þá liggur fyrir að varnaraðili var nauðungarvistaður í júlí sl. vegna alvarlegs geðrofs. Loks er ljóst af gögnum málsins að varnaraðili á að baki fjölda innlagna á geðdeild frá árinu 2009 vegna sjúkdóms síns. Í ljósi alls framangreinds þykir dóminum sýnt að önnur og vægar úrræði en sem fram koma í kröfugerð sóknaraðila hafa verið fullreynd í tilviki varnaraðila. Þá kom fram í vætti framangreinds geðlæknis fyrir dómi að jafnframt sé fullreynt að lyfjataka varnaraðila fari fram í töfluformi í stað sprautugjafar. Einnig lýsti læknirinn því hvernig unnið yrði að meðferð varnaraðila á tveggja ára sviptingartíma, m.a. með því að byggja upp í kringum hann stuðningskerfi svo hann ætti öruggt heimili og nyti nauðsynlegrar lyfjagjafar. Er það því mat dómsins að það brjóti ekki gegn meðalhófi að fallast á kröfu sóknaraðila eins og hún er fram sett. Að öllu þessu virtu verður krafa sóknaraðila tekin til greina eins og hún er sett fram.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997 ber að greiða úr ríkissjóði allan kostnað af rekstri málsins, þar með talda þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 180.000 krónur. Við ákvörðun þóknunar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

Varnaraðili, A, kt. [...],[...] í Reykjavík, er sviptur sjálfræði tímabundið í tvö ár.

Allur kostnaður af málinu, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur hdl., 180.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.