Print

Mál nr. 633/2016

Vátryggingafélag Íslands hf. (Jóhannes Sigurðsson hrl., Þórir Júlíusson hdl. 2. prófmál)
gegn
Visoky Zamok Investments Limited (Ásgeir Þór Árnason hrl., Diljá Mist Einarsdóttir hdl. 2. prófmál)
og gagnsök
Lykilorð
  • Lánssamningur
  • Vanefnd
  • Skaðabætur
Reifun

VÍ hf. og VZI Ltd. gerðu með sér rammasamning um fjármögnun VÍ hf. á kaupum VZI Ltd. á fjármálagerningum og lánveitingum hans í viðskiptum við lögaðila í Úkraínu. Á grundvelli rammasamningsins gerðu aðilarnir lánssamning 1. september 2008 þar sem VÍ hf. veitti VZI Ltd. lán að fjárhæð 2.000.000 bandaríkjadalir. Var lánið veitt til þess að VZI Ltd. stofnaði til innláns hjá bankanum BL í Úkraínu. Í lánssamningnum kom fram að honum mætti í fyrsta lagi ljúka að liðnu ári eftir gerð hans en gjalddagi yrði að öðrum kosti 1. september 2015. Vexti af lánssamningnum skyldi aftur á móti greiða á sex mánaða fresti, í fyrsta sinn 1. mars 2009. Frá gjalddaga 1. mars 2012 var lánssamningurinn í vanskilum að því er varðaði vaxtagreiðslur. Í málinu krafði VÍ hf. VZI Ltd. aðallega um greiðslu að fjárhæð 2.000.000 bandaríkjadali með vísan til þess að félagið ætti gjaldkræfa kröfu á hendur VZI Ltd. sem hefði bakað sér skaðabótaskyldu sökum vanrækslu á skyldum sínum samkvæmt framangreindum samningum milli þeirra. Í niðurstöðu Hæstaréttar var m.a. vísað til þess að VZI Ltd. hefði ekki brugðist við bréfum VÍ hf. þar sem þess var annars vegar krafist að VZI Ltd. seldi fjármálagerninginn sem gerður var við BL og hins vegar þar sem VÍ hf. gjaldfelldi lánssamningin samkvæmt heimild í honum og krafðist greiðslu á tiltekinni fjárhæð. Þá yrði ekki séð að VZI Ltd. hefði tilkynnt VÍ hf. um vanskil úkraínska bankans á vaxtagreiðslum eða að hann hefði gert ráðstafanir til innheimtu skuldarinnar eins og honum hefði verið skylt samkvæmt rammasamningnum. Hefði VZI Ltd. með þessu brotið gegn skyldum sínum samkvæmt samningum aðilanna og þannig bakað sér skaðabótaábyrgð gagnvart VÍ hf. Þá var VZI Ltd. látinn bera hallann af því að ekki hefðu verið lögð fram haldbær gögn til stuðnings því að honum hefði ekki verið kleift að efna samningsskuldbindingar sínar sökum þess að BL hefði verið ómögulegt að greiða út innlánið eða standa skil á umsömdum vöxtum af því vegna gjaldeyrishafta eða samnings bankans við Seðlabanka Úkraínu. Var því tekin til greina krafa VÍ hf. um að VZI Ltd. yrði gert að greiða honum 2.000.000 bandaríkjadali, en dráttarvextir skyldu reiknast frá því tímamarki er mánuður var liðinn frá því VÍ hf. sendi VZI Ltd. bréf þar sem krafist var greiðslu á grundvelli lánssamningsins.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason, Greta Baldursdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. september 2016. Hann krefst þess aðallega að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 2.000.000 bandaríkjadali með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. mars 2012 til 7. apríl 2014 en af 2.565.278 bandaríkjadölum frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að gagnáfrýjanda verði gert að framselja sér innlán, upphaflega að fjárhæð 1.999.932,31 bandaríkjadalir á reikningi nr. 2625902850501077840 hjá Open Joint-Stock Company Joint Stock Bank „Lviv“ í Úkraínu, gegn greiðslu með skuldajöfnuði við kröfu aðaláfrýjanda á grundvelli lánssamnings þeirra frá 1. september 2008. Að þessu frágengnu krefst hann staðfestingar hins áfrýjaða dóms. Í öllum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 21. nóvember 2016. Hann krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara krefst hann sýknu af kröfum aðaláfrýjanda, en að því frágengnu sýknu að svo stöddu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

I

Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi gerðu aðilar málsins svokallaðan rammasamning 2. maí 2008 um fjármögnun aðaláfrýjanda á kaupum gagnáfrýjanda á fjármálagerningum og lánveitingum hans í viðskiptum við lögaðila í Úkraínu. Á grundvelli rammasamningsins gerðu aðilarnir lánssamning 1. september sama ár þar sem aðaláfrýjandi veitti gagnáfrýjanda lán að fjárhæð 2.000.000 bandaríkjadalir. Þar kom fram að samningnum mætti í fyrsta lagi ljúka að liðnu ári eftir gerð hans en gjalddagi yrði að öðrum kosti 1. september 2015. Lánið var veitt til þess að gagnáfrýjandi stofnaði til innláns hjá Bank Lviv í Úkraínu. Lánið bar 11% ársvexti og átti að greiða þá á sex mánaða fresti, í fyrsta sinn 1. mars 2009, og skyldi gagnáfrýjandi fá þóknun sem svaraði til 1% ársvaxta. Í lánssamningnum var tekið fram að skilmálar rammasamningsins giltu um hann, þar á meðal um heimild aðaláfrýjanda til að krefjast sölu innlánssamningsins og endurgreiðslu lánsins fyrir gjalddaga hans.

Á grundvelli lánssamningsins gerði gagnáfrýjandi innlánssamning 8. september 2008 við Bank Lviv um 1.999.932,31 bandaríkjadali. Samkvæmt honum skyldi innstæðan standa til 8. september 2015 og bera 11% ársvexti, sem yrðu greiddir á sama hátt og vextir samkvæmt fyrrgreindum lánssamningi aðilanna. Þá var tekið fram að gagnáfrýjanda væri heimilt á gildistíma samningsins að óska með 30 daga fyrirvara eftir útborgun innstæðunnar að hluta eða öllu leyti.

Gagnáfrýjandi stóð aðaláfrýjanda skil á vöxtum samkvæmt lánssamningi þeirra til og með gjalddaga 1. september 2011 en frá gjalddaga 1. mars 2012 hefur lánið verið í vanskilum.

II

Með úrskurði 7. apríl 2015 tók héraðsdómur kröfu gagnáfrýjanda um frávísun málsins til greina, en í dómi Hæstaréttar 28. maí sama ár í máli nr. 307/2015 var sá úrskurður felldur úr gildi. Kröfu sína um frávísun byggði gagnáfrýjandi meðal annars á því að aðild málsins til sóknar væri vanreifuð, en Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að þar sem gagnaöflun í málinu hefði ekki verið lýst lokið í héraði væri engin leið að slá föstu að málið væri vanreifað um aðild aðaláfrýjanda þannig að frávísun gæti valdið. Við aðalmeðferð málsins í héraði hafði gagnáfrýjandi áfram uppi kröfu um frávísun á þeim grunni að aðild aðaláfrýjanda væri vanreifuð auk þess sem hann hefði ekki lögvarða hagsmuni af úrslitum málsins. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sú niðurstaða hans að hafna kröfu gagnáfrýjanda um frávísun málsins sem og kröfu hans um sýknu á grundvelli aðildarskorts aðaláfrýjanda.

Aðaláfrýjandi reisir kröfur sínar á því að gagnáfrýjandi hafi vanefnt framangreindan lánssamning og rammasamning þeirra. Aðalkröfu sína byggir aðaláfrýjandi á því að gagnáfrýjanda hafi á grundvelli samninga þeirra borið að innheimta vexti samkvæmt innlánssamningi sínum við Bank Lviv og standa síðan aðaláfrýjanda skil á þeim greiðslum sem hann fékk eða átti að fá frá hinum úkraínska banka á umsömdum gjalddögum. Ennfremur byggir aðaláfrýjandi á því að gagnáfrýjanda hafi eftir samningunum borið að verða við kröfu sinni um að innleysa eða selja innlánið og greiða síðan skuld samkvæmt lánssamningnum. Ekkert af þessu hafi gagnáfrýjandi gert og hafi hann með þeirri vanrækslu bakað sér skaðabótaskyldu. Eigi aðaláfrýjandi því gjaldkræfa kröfu á hendur honum að fjárhæð 2.000.000 bandaríkjadalir.

Eftir grein 3.5 í rammasamningi aðilanna bar gagnáfrýjanda án tafar að tilkynna aðaláfrýjanda kæmi til vanskila á einhverri greiðslu eða vöxtum af fjármálagerningi eða lánssamningi, sem gagnáfrýjandi keypti eða stóð að með lánsfé frá aðaláfrýjanda, og gera á sama tíma ráðstafanir til innheimtu skuldarinnar í samráði við aðaláfrýjanda. Enn fremur sagði í grein 3.1 í rammasamningnum að aðaláfrýjanda væri hvenær sem er á gildistíma lánssamnings við gagnáfrýjanda heimilt að krefjast sölu á verðbréfi sem keypt hefði verið samkvæmt skilmálum rammasamningsins eða á samningi um lán sem gagnáfrýjandi veitti eftir þeim skilmálum og bæri gagnáfrýjanda þá án tafar að hlíta þeirri kröfu. Þetta var áréttað í grein 3.4 í lánssamningnum með þeim orðum að aðaláfrýjandi mætti hvenær sem er krefjast þess að fjármálagerningur sem lánið var veitt til að fjármagna yrði seldur og gjaldfella lánið til gagnáfrýjanda. Þá sagði í grein 1.5 í rammasamningnum að krefðist aðaláfrýjandi endurgreiðslu samkvæmt lánssamningi bæri gagnáfrýjanda að gefa fyrirmæli um millifærslu til aðaláfrýjanda innan fjórtán daga.

Á grundvelli fyrrnefndra greina 3.4 í lánssamningnum og 3.1 í rammasamningnum krafðist aðaláfrýjandi þess með bréfi 13. september 2013 að gagnáfrýjandi seldi þann fjármálagerning sem hann hafði gert við Bank Lviv. Þá var þess krafist í bréfinu að  gagnáfrýjandi upplýsti hvaða ráðstafanir hann hefði gert til að innheimta fjármálagerninginn vegna vanefnda úkraínska bankans á vaxtagreiðslum. Með öðru bréfi til gagnáfrýjanda 24. mars 2014 lýsti aðaláfrýjandi því yfir að hann gjaldfelldi lánssamninginn á grundvelli greinar 3.4 í honum og krafðist greiðslu á 2.555.035 bandaríkjadölum. Ekki verður séð af gögnum málsins að gagnáfrýjandi hafi brugðist við þessum bréfum aðaláfrýjanda í samræmi við þær skyldur sem hann tók á sig með samningum þeirra, sbr. einkum áðurnefndar greinar 3.1 og 1.5 í rammasamningnum. Þá verður heldur ekki ráðið af gögnum málsins að gagnáfrýjandi hafi tilkynnt aðaláfrýjanda um vanskil úkraínska bankans á vaxtagreiðslum eða að hann hafi gert ráðstafanir til innheimtu skuldarinnar eins og honum var skylt samkvæmt grein 3.5 í rammasamningnum. Með þessu öllu braut gagnáfrýjandi gegn skyldum sínum samkvæmt samningum aðilanna og bakaði sér með því skaðabótaábyrgð gagnvart aðaláfrýjanda. Gagnáfrýjandi hefur ekki lagt fram haldbær gögn til stuðnings því að honum hafi ekki verið kleift að efna samningsskuldbindingar sínar sökum þess að Bank Lviv hafi verið ómögulegt að greiða út innlánið eða standa skil á umsömdum vöxtum af því vegna gjaldeyrishafta eða samnings bankans við seðlabanka Úkraínu. Verður gagnáfrýjandi að bera allan halla af þeim sönnunarskorti.

Að því virtu sem nú hefur verið rakið verður tekin til greina aðalkrafa aðaláfrýjanda um að gagnáfrýjanda verði gert að greiða honum 2.000.000 bandaríkjadali. Gagnáfrýjandi hefur krafist fyrir Hæstarétti að sú krafa verði lækkuð á þeim forsendum að draga eigi frá henni þóknanir sem hann eigi tilkall til eftir samningum aðilanna. Með því að gagnáfrýjandi reifaði ekki fyrr en í greinargerð fyrir Hæstarétti hverri fjárhæð slíkar þóknanir gætu numið getur þessi krafa hans ekki komið til álita við úrlausn málsins, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Af kröfu aðaláfrýjanda verða dæmdir dráttarvextir samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 eins og greinir í dómsorði en þeir falla til frá þeim degi er mánuður var liðinn frá því að aðaláfrýjandi sendi gagnáfrýjanda fyrrnefnt bréf 24. mars 2014 þar sem hann krafðist greiðslu á grundvelli lánssamnings þeirra.

Gagnáfrýjanda verður gert að greiða aðaláfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn er í einu lagi eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Gagnáfrýjandi, Visoky Zamok Investments Ltd., greiði aðaláfrýjanda, Vátryggingafélagi Íslands hf., 2.000.000 bandaríkjadali með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 2.565.278 bandaríkjadölum frá 24. apríl 2014 til greiðsludags.

Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda samtals 3.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júlí 2016.

Mál þetta, sem dómtekið var 20. júní 2016, var höfðað 1. maí 2014 af hálfu Vátryggingafélags Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík á hendur félaginu Visoky Zamok Investments Ltd., fyrirtækjanúmer 06444907, 42 New Broad Street, EC2M 1JD, London, Bretlandi.

Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 2.000.000 Bandaríkjadala ásamt dráttarvöxtum skv. 1. og 3. mgr. 5. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 110.000 Bandaríkjadölum frá 1. mars 2012 til 1. september 2012, af 220.000 Bandaríkjadölum frá þeim degi til 1. mars 2013, af 330.000 Bandaríkjadölum frá þeim degi til 1. september 2013, af 440.000 Bandaríkjadölum frá þeim degi til 1. mars 2014, af 550.000 Bandaríkjadölum frá þeim degi til 7. apríl 2014 og af 2.565.278 Bandaríkjadölum frá þeim degi til greiðsludags.

Stefnandi krefst þess til vara að stefndi verði dæmdur til þess að framselja innlán stefnda, upphaflega að fjárhæð 1.999.932,31 Bandaríkjadalur, á reikningi stefnda nr. 2615902850501077840 hjá Open Joint-Stock Company Joint Stock Bank „Lviv“ í Úkraínu, til stefnanda, gegn greiðslu með skuldajöfnuði við kröfu stefnanda á stefnda á grundvelli lánssamnings aðilanna, dags. 1. september 2008.

Stefnandi krefst þess til þrautavara að stefndi verði dæmdur til þess að selja innlán stefnda á reikningi stefnda nr. 2615902850501077840 hjá Open Joint-Stock Company Joint Stock Bank „Lviv“ í Úkraínu fyrir 2.273.443 Bandaríkjadali og verði jafnframt gert að afhenda stefnanda söluandvirðið að sömu fjárhæð.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda með álagi.

Við aðalmeðferð málsins krafðist stefndi aðallega frávísunar málsins.

Til vara krefst stefndi sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda.

Til þrautavara krefst stefndi sýknu að svo stöddu og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað.

Til þrautaþrautavara krefst stefndi þess að stefnukröfurnar verði stórlega lækkaðar og að málskostnaður verði felldur niður.

Stefndi krafðist þess aðallega í greinargerð að málinu yrði vísað frá dómi auk málskostnaðar úr hendi stefnanda. Með úrskurði dómsins 7. apríl 2015 var málinu vísað frá dómi, en með dómi Hæstaréttar 28. maí 2015 í máli nr. 307/2015 var úrskurður dómsins felldur úr gildi og lagt fyrir dóminn að taka málið til efnismeðferðar.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Þann 2. maí 2008 gerðu stefnandi og stefndi með sér svokallaðan rammasamning um fjármögnun á fjármálagerningum og er tilgangur rammasamningsins að afmarka framkvæmd á viðskiptum milli málsaðila í tengslum við fjármögnun kaupa á fjármálagerningum og lánveitingum til lögaðila í Úkraínu. Samkvæmt grein 1.1 í rammasamningnum bar stefnda að bera fjárfestingarkost undir stefnanda, en í framhaldi af því hafði stefnandi einhliða ákvörðunarvald um það hvort lán yrði veitt í þeim tilgangi. Í grein 1.4 segir að gera skuli sérstakan lánssamning fyrir hvert lán sem stefnandi veitir stefnda samkvæmt rammasamningnum, þar sem fram komi m.a. fjárhæð viðkomandi láns og skilmálar þess. Skilmálar slíks lánssamnings skulu endurspegla skilmála þeirra fjármálagerninga sem keyptir eru eða lána sem veitt eru fyrir andvirði lánsins, auk þess sem framkvæmd endurgreiðslu samkvæmt lánssamningi skal vera sú sama og samkvæmt undirliggjandi fjármálagerningum eða lánveitingum.

Þann 1. september 2008 gerðu stefnandi og stefndi með sér lánssamning á grundvelli rammasamningsins. Samkvæmt grein 2.3 í lánssamningnum var það veitt til þess að fjármagna innlán hjá úkraínska bankanum Open Joint Stock Company Joint-Stock Bank „Lviv“ (hér eftir „Bank Lviv“). Í grein 2.4 er tilgreint að lánssamningurinn sé sjálfstæður hluti rammasamningsins og lúti ákvæðum hans. Samkvæmt ákvæðum lánssamningsins lánaði stefnandi stefnda samtals 2.000.000 Bandaríkjadala, með 11% vöxtum og skyldi lánið endurgreitt þann 1. september 2015. Jafnframt var kveðið á um greiðslu 1% þóknunar þar af til stefnda gegn útgáfu reiknings. Tveir vaxtagjalddagar voru á ári og er fyrsti vaxtagjalddagi tilgreindur 1. mars 2009 en síðari vaxtagjalddagi ársins var 1. september 2009. Í 3. grein lánssamningsins kemur fram að greiðslustaður lánsins sé hjá stefnanda og að stefnandi megi á hverjum tíma krefjast sölu innlánsins samhliða því að gjaldfella lánið. Í 6. grein lánssamningsins er kveðið á um að endurgreiðsla stefnda til stefnanda skuli grundvallast á lokaverðmæti trygginga, eins og nánar er kveðið á um í rammasamningnum.

Þann 8. september 2008 gerði stefndi að sögn stefnanda samning við Bank Lviv um innlán. Samkvæmt 1. gr. innlánssamningsins skuldbatt stefndi sig til þess að leggja 1.999.932,31 Bandaríkjadal inn á reikning í sínu nafni nr. 2615902850501077840 hjá Bank Lviv, sem stefndi gerði. Innlánssamningurinn gildir til 8. september 2015 og skuldbindur Bank Lviv sig til þess að greiða innlánið til stefnda á lokadegi innlánssamningsins, auk umsaminna 11% vaxta tvisvar sinnum á ári, í byrjun mars og september. Samkvæmt 3. gr. innlánssamningsins á stefndi rétt á því að fá andvirði innlánsins greitt að fullu á réttum tíma og að fá útdrátt um stöðu reikningsins á hverjum tíma samkvæmt kröfu. Þá á stefndi rétt á því að fá innlánið greitt að hluta eða að fullu þrjátíu dögum eftir að beiðni um slíkt berst Bank Lviv.

Í lánssamningi þeim sem krafið er um greiðslu á í málinu voru vextir ákveðnir 11% á ári og var um tvo vaxtagjalddaga að ræða ár hvert. Bank Lviv greiddi umsamda vexti til og með 1. september 2011. Áfallnir greiddir vextir voru þá alls 660.000 Bandaríkjadalir og var þessi fjárhæð að frádreginni þóknun stefnda innt af hendi til stefnanda samkvæmt lánssamningnum Á næsta vaxtagjalddaga lánsins, 1. mars 2012, greiddi stefndi stefnanda ekki vexti og hefur ekki gert síðan. Stefndi hafði tilkynnt stefnanda að Seðlabanki Úkraínu hefði sett þak á vexti af innlánum, þeir mættu að hámarki vera 6% á ári, og sendi honum viðauka við samning aðila til undirritunar 25. janúar 2012, en viðaukinn var ekki undirritaður af stefnanda. Yfirlit voru send mánaðarlega til stefnanda þar sem reiknað var með 6% ársvöxtum á innlánið.

Þegar aðilar gerðu með sér fyrrgreinda samninga tengdust aðilar samkvæmt lýsingum stefnda með þeim hætti að stefnandi var alfarið í eigu Exista hf. sem nú heitir Klakki ehf. Stefnandi var stór hluthafi í MP banka hf., sem nú heitir EA fjárfestingarfélag hf. EA fjárfestingarfélag hf. var tekið til slitameðferðar samkvæmt ákvæðum XII. kafla laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og lauk slitameðferðinni með því að nauðasamningur félagsins var staðfestur með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 26. janúar 2016. Eignarhlutur stefnanda í MP banka hf. var færður yfir í Klakka ehf. MP banki hf. átti félagið Vostok Holdings Netherlands BV, sem átti félagið New Progress Holding, sem skráð er í Úkraínu og það félag átti og á meirihluta hlutafjár í Bank Lviv í Úkraínu. Stefndi, Visoky Samok Investments Ltd., var í eigu Vostok Holdings Netherland BV, sem var eign MP banka hf., sem fyrr segir.

Þann 13. september 2013 sendi stefnandi stefnda bréf þar sem fram kom að stefndi hefði brotið gegn ákvæðum lánssamningsins með því að greiða stefnanda ekki samningsbundna vexti og að lánið væri í vanskilum. Í bréfinu krafðist stefnandi þess, á grundvelli greinar 3.1 í rammasamningnum og greinar 3.4 í lánssamningnum, að stefndi seldi fjármálagerninginn, þ.e. innlánið í Bank Lviv, fyrir að lágmarki 2.273.443 Bandaríkjadali. Stefnda væri ekki heimilt að selja fjármálagerninginn á lægra verði samkvæmt ákvæði 3.1 í rammasamningnum. Í bréfinu setti stefnandi jafnframt fram boð um að kaupa fjármálagerninginn af stefnda fyrir 2.273.443 Bandaríkjadali, sem yrði greitt með skuldajöfnuði á kröfu stefnanda á hendur stefnda samkvæmt lánssamningnum. Með vísan til gr. 1.5 í rammasamningnum var þess krafist að greiðslan bærist stefnanda innan 14 daga frá dagsetningu bréfsins. 

Þann 27. september 2013 barst stefnanda svarbréf frá lögmönnum stefnda. Þar var óskað eftir frekari fresti til þess að íhuga kröfur stefnanda, m.a. með vísan til þess að óvíst væri hvort innlán mætti framselja milli aðila samkvæmt gildandi lögum í Úkraínu og mögulega hefði rammasamningurinn og lánið verið fært frá stefnanda yfir í annað félag. Þann 4. október 2013 sendi stefnandi bréf til stefnda, þar sem mótmælt var þeim röksemdum sem fram komu í bréfi stefnda og beiðni hans um frekari frest og var krafa stefnanda ítrekuð. Í bréfinu kom fram að stefnandi myndi leita réttar síns fyrir dómstólum ef fjármunirnir yrðu ekki greiddir fyrir þann 15. október 2013.

Nokkur samskipti hafa átt sér stað á milli lögmanna aðila, m.a. um það hvort unnt væri að framselja hlutafé stefnda til stefnanda en ekki reyndist unnt að leysa málið með þeim hætti. Þann 24. mars 2014 sendi stefnandi stefnda formlega tilkynningu um gjaldfellingu lánsins samkvæmt gr. 3.4 í lánssamningnum og gerði kröfu um greiðslu lánsins ásamt vöxtum og kostnaði fyrir 7. apríl 2014. Stefndi varð ekki við þessari kröfu. Stefnandi telur að stefndi hafi vanefnt samningsskuldbindingar sínar gagnvart stefnanda, sem eigi skýra og réttmæta kröfu um efndir þeirra og sé því nauðsyn að höfða mál þetta.

Fyrirsvarsmaður stefnanda, Sigrún Ragna Ólafsdóttir forstjóri, gaf aðilaskýrslu við aðalmeðferð málsins. Einnig gáfu skýrslur vitnin Einar Hálfdánarson, Jóhann Tómas Sigurðsson, Bergrún Lilja Sigurjónsdóttir, Tryggvi Guðbrandsson, Ólafur Lúther Einarsson, Hilmar Alfreð Alfreðsson, Magnús Scheving Thorsteinsson, Margeir Pétursson og Sæmundur Guðjón Valdimarsson. Verður vitnað til framburðar þeirra eftir því sem þurfa þykir.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir aðalkröfu sína á ákvæðum lánssamningsins og rammasamningsins og meginreglum samninga- og kröfuréttar. Það leiði af ákvæði 1.4 í rammasamningnum að lánssamningurinn mæli nánar fyrir um skilmála lánsins, en um framkvæmd endurgreiðslu skuli gilda sömu skilmálar og eigi við um undirliggjandi fjármálagerning, í þessu tilviki innlánssamninginn. Samkvæmt 3. gr. lánssamningsins megi stefnandi, á hverjum tíma, krefjast sölu innlánsins og greiðslu samkvæmt lánssamningnum. Þá mæli innlánssamningurinn fyrir um að stefndi eigi á hverjum tíma rétt á greiðslu innlánsins með þrjátíu daga fyrirvara.

Með því að innheimta ekki vexti, selja innlánið eða gera kröfur um endurgreiðslu þess hafi stefndi sýnt af sér saknæma háttsemi sem leiði til skaðabótaskyldu innan samninga. Þá hafi stefndi vanefnt greiðslu vaxta á gjalddaga frá og með 1. mars 2012, en þær ógreiddu peningakröfur stefnanda beri dráttarvexti frá hverjum vaxtagjalddaga í samræmi við III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

Stefnandi eigi fjárkröfu að fjárhæð 2.000.000 Bandaríkjadala á hendur stefnda, sem orðið hafi gjaldkræf eigi síðar en 14 dögum eftir að krafa um greiðslu hafi verið sett fram þann 7. apríl 2014 og beri krafan dráttarvexti frá þeim degi. Krafa um dráttarvexti af ógreiddum vaxtagjalddögum sé byggð á 1. mgr. 5. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, krafa um dráttarvexti af útistandandi skuldbindingu stefnda samkvæmt lánssamningnum byggi á 3. mgr. 5. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga.

Í þinghaldi 2. febrúar sl. lagði stefnandi fram bókun með nýrri málsástæðu fyrir aðalkröfu sinni. Stefnandi byggir á því að ráðstöfun stefnda 11. ágúst 2011 á umræddu innláni til félagsins Orange International Investments (UK) Limited hafi falið í sér saknæma háttsemi stefnda sem leiði til skaðabótaskyldu innan samninga. Hið sama gildi um beiðni um afskráningu stefnda í kjölfar þess að eignum stefnda hafi verið skotið undan kröfum stefnanda, en að mati stefnanda virðist sú aðgerð hafa verið liður í þessari skipulögðu saknæmu háttsemi. Vegna framangreindrar ráðstöfunar stefnda hafi allt frá árinu 2011 verið fyrirsjáanleg vanefnd á skuldbindingum stefnda við stefnanda sem réttlæti gjaldfellingu kröfu stefnanda á hendur stefnda. Skýri þetta meðal annars af hverju vaxtagreiðslum hafi verið hætt.

Stefnandi byggir á því að aðgerðir stefnda í tengslum við umrædda ráðstöfun innlánsins feli í sér skilasvik samkvæmt 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, ,,assett stripping“ samkvæmt enskum rétti. Um hafi verið að ræða skipulagðar aðgerðir sem eigendur, stjórnendur og ráðgjafar stefnda og Orange International Investments (UK) Limited hafi staðið fyrir og sem brjóti í bága við lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka nr. 64/2006. Lögin séu byggð á samevrópskum reglum sem hafi einnig verið innleiddar í enskan rétt. Þessi saknæma háttsemi stefnda leiði til skaðabótaskyldu hans samkvæmt almennum reglum.

Við aðalmeðferð málsins kom fram hjá lögmanni stefnanda að krafa stefnanda hefði ekki verið framseld Klakka ehf. Öll vitni sem gefið hefðu skýrslu fyrir dóminum hefðu staðfest að framsal hefði ekki gengið eftir. Stefnandi sé því enn eigandi kröfunnar. Auk þess hafi ekkert framsal verið tilkynnt stefnda. Ekkert banni samninga um að þriðji maður njóti ávinnings af innheimtu kröfuhafa á kröfu. Þá sé ekkert því til fyrirstöðu að færa kröfuna ekki í bókhaldi stefnanda. Þá sé því mótmælt að samningur aðila sé umboðs- eða umsýslusamningur. Ekkert liggi fyrir um að gjaldeyrishöft í Úkraínu hindri efndir stefnda. Sé ómöguleiki til staðar sé hann stefnda um að kenna. Þá hafi eignarhald stefnda breyst frá því umræddir samningar voru gerðir. Málsástæðu stefnda um skort stefnanda á lögvörðum hagsmunum sé mótmælt sem of seint fram kominni.

Varakrafa stefnanda byggi á sama grunni og aðalkrafan, að breyttu breytanda. Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnanda byggi hann á því að stefnda sé skylt að framselja innlánið til stefnanda á grundvelli rammasamningsins og lánssamningsins. Ákvæði 3. gr. rammasamningsins, sbr. og gr. 3.4 í lánssamningnum, hafi að geyma skýra heimild til handa stefnanda til þess að krefjast þess, á hverjum tíma, að innlánið skuli tafarlaust selt á tilteknu lágmarksverði sem stefnandi ákveði. Þá sé ljóst af sömu ákvæðum að stefnandi geti krafist greiðslu á fjármunum sem fáist við slíka sölu. Stefnandi hafi krafist sölu innlánsins í erindi, dags. 13. september 2013, fyrir að lágmarki 2.273.433 Bandaríkjadali. Í sama erindi hafi stefnandi boðist til að kaupa innlánið fyrir sömu fjárhæð gegn greiðslu með skuldajöfnuði gegn kröfum stefnanda samkvæmt lánssamningnum. Stefndi hafi ekki orðið við þessum kröfum stefnanda. Þá hafi stefndi ekki upplýst hvort leitað hafi verið tilboða hjá öðrum aðilum í innlánið eða hvort gerð hafi verið tilraun til þess að selja innlánið.

Þrautavarakrafa stefnanda byggi á sama grunni og varakrafa, að breyttu breytanda. Verði ekki fallist á aðal- eða varakröfu stefnanda byggi hann á því að stefnda sé skylt að selja innlánið tafarlaust á grundvelli rammasamningsins og lánssamningsins. Stefndi hafi ekki orðið við kröfum stefnanda um að selja innlánið, þrátt fyrir skýra skyldu þar að lútandi. Stefndi hafi ekki upplýst hvort leitað hafi verið tilboða hjá öðrum aðilum í innlánið eða hvort gerð hafi verið tilraun til þess að selja innlánið.

Íslensk lög gildi um bæði rammasamninginn og lánssamninginn, en samkvæmt gr. 9.1 í rammasamningnum heyri ágreiningurinn undir Héraðsdóm Reykjavíkur. Stefnandi reisi kröfur sínar meðal annars á almennum reglum fjármunaréttar, kröfuréttar og samningaréttar, einkum reglunni um skuldbindingargildi samninga, einnig á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, einkum 1. og 3. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 6. gr., og á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991.

Þá sé krafa um málskostnað reist á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991. Stefnandi vísar til þess að afskráningu og slitum stefnda hafi verið frestað að beiðni stefnanda vegna þessa máls. Stefnandi hafi í þeim tilgangi þurft að greiða fyrir þjónustu bæði íslenskra og enskra lögmanna. Eftir að frávísunarkröfu stefnda var hafnað hafi hann fengið málinu frestað í rúma sex mánuði til að leggja fram þýðingar á samningum Bank Lviv við Seðlabanka Úkraínu. Í þinghaldi 16. desember 2015 hafi verið lagðar fram samtals fjórar blaðsíður af þýðingum á umræddum samningum úr ensku yfir á íslensku. Með hliðsjón af nýjum málsástæðum stefnanda til stuðnings aðalkröfu sinni sé augljóst að þessi gagnaöflun stefnda hafi verið tilgangslaus og valdið óþörfum drætti á málinu. Því krefjist stefnandi málskostnaðar með álagi, hvernig sem úrslit málsins verði, sbr. 1. og 2. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991. Þá krefjist stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til þess að greiða sérstaklega kostnað stefnanda við að fresta afskráningu stefnda og slitum í Bretlandi, sbr. 3. mgr. 131. gr. sömu laga. Stefnandi hefur ekki tilgreint fjárhæð í því sambandi. Auk þess kom stefnandi þeirri ábendingu á framfæri við dóminn að stefnda verði ákveðin réttarfarssekt,s sbr. 135. gr. sömu laga.

Málsástæður og lagarök stefnda

Við aðalmeðferð málsins reifaði lögmaður stefnda að krafa stefnda um frávísun málsins byggðist á því að aðild stefnanda væri óljós. Stefnandi hefði ekki lagt fram nein gögn um viðskipti sín við Klakka ehf. Krafa stefnanda hefði verið hluti af kaupverði stefnanda á Líftryggingafélagi Íslands hf. af Klakka ehf., en stefnandi hafi ekki lagt fram kaupsamning stefnanda við Klakka ehf. Kröfunnar sé ekki getið í útboðslýsingu stefnanda, eins og hefði verið skylt að gera. Þá sé krafan færð í bókhaldi Klakka ehf. Þá hafi fyrirsvarsmaður stefnanda, Sigrún Ragna Ólafsdóttir, sagt að krafan væri í eigu Klakka ehf. Vanreifun á aðild leiði til frávísunar. Þá vísaði lögmaðurinn til þess að öll vitni séu sammála um að stefnandi eigi engra hagsmuna að gæta af þessu máli, heldur eigi Klakki ehf. allt það fé sem stefnandi innheimti. Stefnandi hafi því enga lögvarða hagsmuni af rekstri þessa máls og varði það einnig frávísun.

Varakrafa stefnda um sýknu byggist á því að stefnandi eigi ekki aðild að málinu og því beri með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, að sýkna stefnda af kröfum stefnanda. Stefndi telji víst að við kaup stefnanda á nær öllu hlutafé Líftryggingafélags Íslands hf. hafi kaupverðið til Klakka ehf. verið greitt meðal annars með lánssamningi stefnanda við stefnda. Stefndi telji raunar mögulegt að þessi gjörningur hafi farið fram fyrir sölu á hlutafé í Líftryggingafélagi Íslands hf. Stefndi vísi til þess að í tölvupósti frá stefnanda 3. nóvember 2011, þar sem óskað hafi verið eftir stöðuyfirliti innlánsins, hafi verið sagt innan sviga að kröfuhafinn sé Exista, nú Klakki ehf.

Sýknukrafa stefnda af aðalkröfu stefnanda byggist jafnframt á því að stefnandi eigi enga kröfu til greiðslu úr hendi stefnda á grundvelli þeirra samninga sem aðilar hafi gert. Svonefndur rammasamningur og svonefndur lánssamningur hafi ekki verið um lán til stefnda frá stefnanda heldur hafi verið um einhvers konar umboðs- eða umsýslusamning að ræða. Stefnandi hafi greitt stefnda sérstaka þóknun vegna lánsins sem hann hafi veitt, en óþekkt sé að lánveitandi greiði lántaka þóknanir fyrir að taka lán, heldur sé það ætíð hið öndverða að lántaki greiði lánveitanda lántökugjald. Þá eigi stefnandi að greiða stefnda í þóknun hluta þeirra vaxta sem á innlánið falli og hann eigi að greiða stefnda árlega hlutfall af heildarstöðu innlánsins í umsýsluþóknun, sbr. 6. gr. rammasamnings aðila.

Stefndi sé ekki skuldbundinn til að endurgreiða stefnanda lánið samkvæmt samningum aðila. Allar endurgreiðslur til stefnanda tengist því hvernig heimtur verði á innláninu í Bank Lviv eða hvaða heimtur verði af sölu þess. Verði á því tap þá eigi stefnandi enga kröfu á hendur stefnda vegna þess tjóns sem verði af verðrýrnun lánsins, sbr. gr. 3.2 í rammasamningi aðila. Því sé augljóslega ekki um að ræða lánssamning á milli aðila þar sem stefnandi eigi fjárkröfu á hendur stefnda sem greiða beri til baka að fullu með ákveðnum vöxtum á ákveðnum tíma. Stefndi geti því aldrei orðið greiðsluskyldur gagnvart stefnanda nema með því fé sem hann sjálfur hafi innheimt og liggi í vörslu stefnda vegna viðskipta aðila, sbr. 2. gr. rammasamnings aðila.

Stefndi krefjist sýknu af varakröfu stefnanda. Í lánssamningi aðila, dags. 1. september 2008, komi skýrt fram í 4. gr. að lánsféð eigi að nota til að mynda innlán í Closed Joint-Stock Company Joint Stock Bank „Lviv“ í Úkraínu. Varakrafan taki til framsals á kröfu í Open Joint-Stock Company Joint Stock Bank „Lviv“ í Úkraínu, sem virðist vera allt annað fyrirtæki. Enginn innlánsreikningur sé tilgreindur í lánssamningnum. Stefnandi eigi enga kröfu um framsal þessa innláns til sín auk þess sem ekki sé að sjá af samningum aðila að stefnandi geti gert slíka kröfu vegna þeirra innlána sem til sé stofnað á grundvelli samninga aðila. Hann eigi rétt á að krefjast sölu þeirra en ekki rétt á framsali til sín. Þá væru jafnframt slíkar hindranir í vegi fyrir framsali á grundvelli gjaldeyrishafta í Úkraínu og vegna samnings Seðlabanka Úkraínu við Bank Lviv að ógerningur væri að verða við þessum kröfum stefnanda og vandséð hvernig hann ætli að fullnægja kröfunni með aðför ef til kæmi.

Stefndi krefjist sýknu af þrautavarakröfu stefnanda. Ekki sé útskýrt á nokkurn hátt í stefnu hvernig Open Joint-Stock Company Joint Stock Bank „Lviv“ tengist kröfum stefnanda, en samkvæmt lánssamningi aðila, dags. 1. september 2008, hafi stefnda borið að leggja peningana inn á reikning í Closed Joint Stock Company Joint Stock Bank „Lviv“.

Þótt stefnandi hefði vísað til rétts innlánsreiknings og réttrar stofnunar sé ómögulegt að verða við þessari kröfu stefnanda. Innlánið sé bundið hjá Bank Lviv og í raun ómögulegt að selja innlánið nema fyrir hrakvirði ef aðrar hindranir koma ekki til. Um sé að ræða innlán tengds aðila við Bank Lviv sem geri það ómögulegt að selja lánið, en tengdir aðilar séu háðir mun strangari skilyrðum um meðferð krafna sinna á hendur bankanum en aðrir. Þá hafi stefnandi látið það ógert að útskýra hvernig hann ætli að fullnægja dómi sem leggi þessar skyldur á herðar dómþola. Ómöguleiki á innheimtu eða sölu lánsins í Bank Lviv leiði til þess að ómögulegt sé að verða við kröfu stefnanda og því beri að sýkna stefnda.

Verði sýknukrafa stefnda ekki tekin til greina krefjist stefndi sýknu að svo stöddu. Vissulega geti komið þeir tímar að stefnandi eigi kröfur á hendur stefnda um efndir á samningum þeirra. Sá tími sé hins vegar ókominn vegna hindrana sem í vegi séu fyrir efndum og leiði til þess að stefndi hafi ekki vanefnt samninga sína við stefnanda. Um sé að ræða hindranir sem ómögulegt sé að yfirstíga og hafi þær réttarverkanir að á meðan þær séu fyrir hendi sé ekki um vanefndir að ræða af hálfu stefnda. Beri því a.m.k. að sýkna hann að svo stöddu, sbr. 2. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991.

Stefndi krefjist þess loks að kröfur stefnanda verði lækkaðar. Stefnandi krefjist greiðslu á of háum höfuðstól auk of hárra vaxta á kröfuna. Þá taki hann ekkert tillit til þeirra fjárhæða sem honum beri að greiða stefnda í ýmsar þóknanir.

Fram kom hjá lögmanni stefnda við aðalmeðferð málsins að Orange International Investments (UK) Limited hefði borið sömu skyldur við stefnanda og stefndi, hefði það félag tekið við innstæðunni eftir afskráningu stefnda. Þá hefði framsalið einungis verið gert í hagræðingarskyni en ekki til að koma fénu undan stefnanda. Loks hafi beiðni um afskráningu stefnda verið afturkölluð.

Málskostnaðarkrafa stefnda sé reist á 130. gr. laga nr. 91/1991. Við ákvörðun málskostnaðar úr hendi stefnanda beri að taka tillit til þess að málið sé flókið, skjöl þess séu lögð fram á erlendu tungumáli og að miklir hagsmunir séu í húfi.

Niðurstaða  

Frávísunarkrafa stefnda byggir á því í fyrsta lagi að aðild stefnanda sé vanreifuð. Málatilbúnaður stefnanda byggir á tveimur samningum sem aðilar gerðu sín á milli árið 2008, í fyrsta lagi rammasamningi um fjármögnun fjármálagernings, dags. 2. maí 2008, og lánssamningi, dags. 1. september 2008. Stefndi vísar um frávísunarkröfuna til þess að stefnandi hafi, með samningi við Klakka ehf. um kaup stefnanda á Líftryggingafélagi Íslands hf. af því félagi, greitt hluta af kaupverðinu með þeirri kröfu sem þetta mál er sprottið af. Stefnandi mótmælir því ekki að krafa hans hafi verið hluti af kaupverði Líftryggingafélags Íslands hf., en byggir á því að krafan hafi þrátt fyrir það ekki verið framseld Klakka ehf. Stefnandi hafi samið svo um við Klakka ehf. að það félag myndi njóta ávinningsins af innheimtu stefnanda á kröfunni. 

Upphafleg frávísunarkrafa stefnda byggði meðal annars á því að aðild stefnanda væri vanreifuð. Um þetta sagði Hæstiréttur í dómi í málinu nr. 307/2015 að gagnaöflun hefði enn ekki verið lýst lokið í héraði og því væri á þessu stigi ekki hægt að slá föstu að málið væri vanreifað af stefnanda um aðild sína. Síðan málið var tekið fyrir eftir dóm Hæstaréttar hefur lögmaður stefnanda sýnt dómara og lögmanni stefnda frumrit rammasamningsins og lánssamningsins. Þá hefur stefndi lagt fram tölvupóst á ensku frá 3. nóvember 2011 þar sem starfsmaður stefnanda biður um tiltekin gögn vegna stefnda og kemur þar fram innan sviga að viðskiptavinur (,,client“) sé ,,VIS (Exista)“. Stefndi hefur einnig lagt fram tölvuskeyti frá mars til júní 2012 þar sem Jón Örn Guðmundsson, fjármálastjóri Klakka ehf., ræðir við Einar S. Hálfdánarson hæstaréttarlögmann möguleika á að selja þá kröfu sem mál þetta er sprottið af. Fyrirsvarsmaður stefnanda, Sigrún Ragna Ólafsdóttir, og Magnús Scheving Thorsteinsson, forstjóri Klakka ehf., skýrðu bæði frá því að krafa stefnanda hefði ekki verið framseld Klakka ehf., en samið hefði verið um að fjárhagsleg áhætta vegna kröfunnar hvíldi á Klakka ehf. og það félag fengi það fé sem stefnandi myndi innheimta vegna þessarar kröfu. Einnig kom fram hjá vitnunum Tryggva Guðbrandssyni, Ólafi Lúther Einarssyni og Hilmari Alfreð Alfreðssyni að krafa stefnanda hefði ekki formlega verið framseld Klakka ehf. Þá kom fram hjá Sæmundi Guðjóni Valdimarssyni að stefnandi væri formlegur eigandi kröfunnar en hefði ávísað hinum efnahagslegum réttindum samkvæmt kröfunni til Klakka ehf. Með vísan til framangreindra útskýringa stefnanda, sem samræmast fyrrnefndum framburði og fá stoð í fyrrgreindu tölvuskeyti frá 3. nóvember 2011, verður að fallast á það með stefnanda að sannað sé að stefnandi sé eigandi kröfunnar, en hafi samið við Klakka ehf. um að síðarnefnda félagið myndi njóta ávinningsins af innheimtu stefnanda á kröfunni. Geta fyrrgreind tölvuskeyti frá mars til júní 2012 ekki hnekkt því mati. Er málið því nægilega reifað um aðild stefnanda og verður málinu því ekki vísað frá dómi vegna vanreifunar.

Frávísunarkrafa stefnda byggir einnig á því að stefnandi eigi ekki lögvarða hagsmuni, þar sem Klakki ehf. ætti allt fé sem stefnandi innheimti. Þessi málsástæða kom fyrst fram við aðalmeðferð málsins og var mótmælt sem of seint fram kominni af lögmanni stefnanda. Þar sem málsástæðan var sett fram í tilefni af framangreindum framburði, þar sem meðal annars kom fram að Klakki ehf. ætti fjárhagslegra hagsmuna að gæta af innheimtu kröfunnar, er ekki á það fallist að málsástæðan sé of seint fram komin. Þar sem stefnandi á enn umrædda kröfu á hann lögvarða hagsmuni af höfðun þessa máls. Verður málinu því ekki heldur vísað frá dómi á þessum grundvelli. Verður frávísunarkröfu stefnda því hafnað.

Sýknukrafa stefnda byggir einnig á aðildarskorti stefnanda. Að framan var komist að þeirri niðurstöðu að málatilbúnaður stefnanda væri nægilega reifaður um aðild hans. Þar sem ljóst er að stefnandi er eigandi þeirrar kröfu sem er tilefni þessa máls verður stefndi ekki sýknaður á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.

Krafa stefnda um sýknu byggir í öðru lagi á því að rammasamningur um fjármögnun fjármálagernings, dags. 2. maí 2008, og lánssamningur, dags. 1. september 2008, séu ekki lánssamningar, heldur umsýslusamningar. Það er einkenni umsýslusamninga að umsýslumaður gerir löggerninga gagnvart þriðja manni í eigin nafni en fyrir reikning og samkvæmt heimild umsýsluveitandans. Í því felst að umsýsluveitandinn ber hina endanlegu fjárhagslegu áhættu og þann fjárhagslega hagnað sem leiðir af viðskiptunum. Ekkert beint réttarsamband er á milli þriðja manns og umsýsluveitandans, en réttarsamband er á milli umsýslumanns og umsýsluveitanda.

Í íslenskri þýðingu á rammasamningi aðila er í grein 1.1 tekið fram að stefnandi geti lánað stefnda ,,fé til að fjármagna kaup á fjármálagerningum“. Stefndi skyldi kynna ,,fjárfestingatækifæri fyrir [stefnanda] áður en ákvörðun er tekin um lánveitingu“ en skýrt er að stefnandi hafði einhliða ákvörðunarvald um það hvort lán yrði veitt í þeim tilgangi. Í grein 1.4 segir að gera skuli sérstakan lánssamning fyrir hvert lán sem stefnandi veitir stefnda samkvæmt rammasamningnum, þar sem fram komi m.a. fjárhæð viðkomandi láns og skilmálar þess. Skilmálar slíks lánssamnings skulu endurspegla skilmála þeirra fjármálagerninga sem keyptir eru eða lána sem veitt eru fyrir andvirði lánsins, auk þess sem framkvæmd endurgreiðslu samkvæmt lánssamningi skal vera sú sama og samkvæmt undirliggjandi fjármálagerningum eða lánveitingum. Samkvæmt grein 2.1 skulu ,,öll verðbréf og lán sem [stefndi] kaupir fyrir fjárfestingar“ stefnanda samkvæmt lánssamningi vera skráð eign stefnda hjá viðurkenndum vörsluaðila. Tekið er fram í grein 2.3 að stefnda beri að senda stefnanda ,,yfirlit um allt sem fjárfest hefur verið í fyrir lánin“ frá stefnanda og skuli stefndi halda þessum fjárfestingum aðskildum frá öðrum eignum sínum. Í grein 3.1 er stefnanda veitt heimild til þess að krefjast sölu á verðbréfi eða láni, hvenær sem er á gildistíma lánssamningsins, fyrir lágmarksverð sem stefnandi tilgreinir, samkvæmt nánari ákvæðum í greinum 3.2 og 3.3. Samkvæmt síðarnefndu ákvæðunum skal allt andvirði sölunnar renna til stefnanda, að frádregnum útlögðum kostnaði og þóknun til stefnda, hvort sem selt er fyrir yfirverð eða með afslætti. Tekið er fram í grein 3.3 að þótt tap verði á sölu teljist greiðsla vera fullnaðargreiðsla. Þá er sú skylda lögð á stefnda í grein 3.5 að tilkynna stefnanda um vanskil ,,á einhverri greiðslu eða vöxtum“ og gera ráðstafanir til innheimtu í samráði við stefnanda. Í grein 3.6 er stefnda bannað að samþykkja endurfjármögnun og/eða breytingar á skilmálum þeirra fjármálagerninga sem fjárfest er í án samþykkis stefnanda.

Í íslenskri þýðingu á lánssamningi aðila er í grein 2.3 tekið fram að samningurinn sé gerður ,,í tengslum við kaup á fjármálagerningum í Úkraínu“ og samkvæmt grein 2.4 gilda skilmálar rammasamningsins um lánssamninginn. Í grein 3 eru tilgreindir upphafsdagur samnings, 1. september 2008, fyrsti útgöngudagur samnings, 1. september 2009, og lokadagur samnings og gjalddagi skuldbindingar, 1. september 2015. Tekið er fram í grein 3.4 að stefnandi geti ,,hvenær sem er krafist sölu keypts fjármálagernings og á sama tíma gjaldfellt lánssamning þennan“. Í grein 4 er því lýst að láninu sé ráðstafað til kaupa á fjármálagerningi, þ.e. innlánsreikningi í Bandaríkjadölum. Lánsfjárhæðin sé 2.000.000 Bandaríkjadala, upphafsdagur samningsins sé 1. september 2008 en gjalddagi 1. september 2015, nafnvextir séu 11% en þar af sé þóknun stefnda 1%. Samkvæmt grein 5 var heildarfjárhæð lánsins 2.000.050 Bandaríkjadalir, þar af 50 Bandaríkjadala umsýsluþóknun til Byrs. Samkvæmt grein 6.2 skyldi endurgreiðsla stefnda ,,byggjast á endanlegu virði verðbréfsins“ eins og kveðið sé á um í rammasamningnum.

Stefnandi hefur lagt fram ljósrit innlánssamnings milli stefnda og Bank Lviv, sem ber með sér að vera undirritað fyrir hönd beggja samningsaðila. Stefndi hefur bent á misræmi milli þess samnings og lánssamnings aðila, nánar tiltekið að innlánssamningurinn sé dagsettur 8. september 2008 en lánssamningurinn vísi til innlánssamnings frá 1. september 2008, samningurinn frá 8. september 2008 sé við ,,Open Joint-Stock Company Joint Stock Bank ,,Lviv““ en í lánssamningnum sé vísað til samnings við ,,Closed Joint-Stock Company Joint Stock Bank ,,Lviv““. Loks segi í innlánssamningnum að innlánseigandi geti með 30 daga fyrirvara tekið út innlán sitt að hluta eða öllu leyti, en stefnandi byggi á því í dómkröfum sínum að hægt sé að taka innlánið út með 14 daga fyrirvara. Stefndi hefur þó ekki lagt fram annað eintak af umræddum innlánssamningi. Verður því að leggja til grundvallar að framlagt ljósrit sé af þeim innlánssamningi sem stefndi gerði við Bank Lviv og lánssamningur aðila á við um.

Í íslenskri þýðingu á innlánssamningi milli stefnda og Bank Lviv, sem er ýmist nefndur ,,Public Joint-Stock Company Joint Stock Bank ,,Lviv““ eða ,,Open Joint-Stock Company Joint Stock Bank ,,Lviv““, er vísað til stefnda sem innlánseiganda. Samkvæmt grein 1.1 skyldi bankinn opna innlánsreikning fyrir stefnda og leggja inn á reikninginn 1.999.932,31 Bandaríkjadal frá stefnda. Samningstími var tilgreindur í grein 1.2 frá 8. september 2008 til 8. september 2015. Samkvæmt greinum 2.1 til 2.3 bar innlánið 11% ársvexti sem skyldi reikna mánaðarlega og skyldi bankinn greiða vextina á sex mánaða fresti inn á tiltekinn bankareikning stefnda. Í grein 3.1.3 var tekið fram að stefndi ætti rétt á að óska eftir úttekt innlánsfjárhæðarinnar með 30 daga fyrirvara. Þó var tekið fram í grein 5.2 að samningnum yrði ekki slitið fyrir tímann fyrr en að liðnu einu ári eftir gerð hans.

Samkvæmt þessu er ljóst að stefndi gerði umræddan innlánssamning við Bank Lviv í eigin nafni, en þar er hvergi minnst á stefnanda. Þó er ljóst af rammasamningi og lánssamningi aðila að stefndi gerði þennan samning með heimild stefnanda og með fjármunum sem stefnandi lánaði stefnda. Þá er einnig ljóst að krafa stefnanda um endurgreiðslu úr hendi stefnda fer eftir því hvað stefndi fær endurgreitt frá Bank Lviv og stefndi fær einungis í sinn hlut samningsbundnar þóknanir samkvæmt því sem nánar greinir í samningum aðila. Samkvæmt þessu er það stefnandi sem ber fjárhagslega áhættu og ávinning af samningi stefnda við Bank Lviv. Framangreint samræmist einnig framburði vitnanna Jóhanns Tómasar Sigurðssonar og Margeirs Péturssonar fyrir réttinum, en fram kom hjá þeim að tilgangur með gerð framangreindra samninga aðila væri fjárfesting stefnanda. Því verður að líta svo á að samningar aðila séu umsýslusamningar og að stefnandi teljist vera umsýsluveitandi en stefndi umsýslumaður.

Eins og framar greinir á stefnandi rétt á því samkvæmt grein 3.1 í rammasamningnum og grein 3.4 í lánssamningnum að krefjast sölu innlánsins sem stefndi samdi um við Bank Lviv. Með bréfi, dags. 13. september 2013, krafðist stefnandi þess með vísan til framangreindra ákvæða að stefndi seldi innlánið fyrir að lágmarki 2.273.443 Bandaríkjadali og bauðst til að kaupa innlánið fyrir sömu fjárhæð og greiða með skuldajöfnuði við andvirðið sem stefnandi ætti að fá fyrir söluna. Stefndi hefur þrátt fyrir það ekki selt innlánið en ber því við að vegna samnings sem Bank Lviv gerði við Seðlabanka Úkraínu sé stefnda ekki mögulegt að selja innlánið, enda teljist stefndi vera tengdur fyrrnefnda bankanum.

Í íslenskri þýðingu á ársreikningi stefnda fyrir árið 2011 segir meðal annars að 11. ágúst 2011 hafi verið gerður framsalssamningur við annað dótturfélag, sem ekki er nafngreint, og þann dag hafi fjárfesting í langtíma bankainnstæðum og skuldabréf og tengd lán verið flutt til umrædds dótturfélags. Einnig er tekið fram að stefndi sé enn með skuldbindingar við kröfuhafa sem tengist hinum framseldu eignum og skuldum. Um framsal þetta var ekki upplýst í málinu fyrr en stefnandi lagði fram gögn um það í þinghaldi 2. febrúar 2016, en í bréfaskiptum aðila frá september og október 2013, sem stefnandi lagði fram við þingfestingu málsins var þó minnst á meint framsal stefnda til félagsins Orange International Investment Limited 11. ágúst 2011, sem stefnandi hefði ekki samþykkt eða verið upplýstur um. Þetta framsal stefnda er í þversögn við málatilbúnað hans um að honum sé ómögulegt vegna tengsla við Bank Lviv að verða við kröfum stefnanda. Samkvæmt því sem fram kom fyrir dóminum gekk framsalið til baka. Í þriggja ára gömlu bréfi frá Bank Lviv til stefnda, dags. 30. júní 2013, sem stefndi lagði fyrst fram við aðalmeðferð málsins, var vísað til samskipta bankans við stefnda á árinu 2011 og að bankinn hefði synjað beiðni stefnda um framsal innstæðunnar til annars bresks félags til kostnaðarhagræðis m.a. vegna þess að stefndi, sem skilgreindur hefði verið tengdur aðili, hefði ekki veitt neina fullgilda staðfestingu á raunverulegu eignarhaldi innstæðunnar. Í sama bréfi gerir bankinn grein fyrir takmörkunum á ráðstöfun innstæðna tengdra aðila og tekur fram að til þess að eftirlitsstjórn bankans geti tekið ákvörðun um að endurgreiða stefnda innstæðu í bankanum þyrfti m.a. að taka mið af því hvort stefndi væri enn tengdur aðili. Af þeim gögnum sem stefndi byggir á verður ekkert ráðið um mat bankans á því hvort stefndi sé enn tengdur aðili og hefur stefndi ekki útskýrt það í málatilbúnaði sínum.

Stefndi hefur lýst þeim tengslum sem hann telur að hafi verið á milli sín og Bank Lviv, en stefnandi hefur mótmælt þeirri lýsingu sem ósannaðri. Vitnið Einar Hálfdánarson staðfesti fyrir dóminum að lýsing stefnda á tengslum, sem dregin hafi verið upp af nafngreindum endurskoðanda, hafi verið rétt meðan vitnið var stjórnarmaður í MP banka, þ.e. á árinu 2012, en sú mynd sé væntanlega ekki rétt í dag. Samkvæmt árlegri skýrslu til fyrirtækjaskrár í Bretlandi (e. Companies House), dags. 4. desember 2013, sem stefnandi lagði fram í þinghaldi 2. febrúar sl., virðist allt hlutafé í stefnda hafa verið framselt 30. desember 2012 frá félaginu Frontmost Limited til félagsins Mirus Trading Ltd. Samkvæmt tilkynningu stefnda til sömu fyrirtækjaskrár tók nýr framkvæmdastjóri (e. director) við rekstri félagsins 2. janúar 2013. Stefndi hefur ekki reifað hvernig eignarhaldi hans sé nú háttað og hvort og þá hvernig hann teljist enn vera tengdur Bank Lviv. Gegn mótmælum stefnanda og að virtum gögnum málsins er ósannað að stefndi sé enn í dag tengdur Bank Lviv.

Verður stefndi því hvorki sýknaður né sýknaður að svo stöddu vegna ómöguleika stefnda á að verða við kröfum stefnanda.

Aðalkrafa stefnanda felur í sér að stefndi verði dæmdur til að endurgreiða stefnanda hina upphaflegu lánsfjárhæð ásamt tilteknum dráttarvöxtum. Varakrafa stefnanda felur í sér að stefndi verði dæmdur til þess að framselja innlán stefnda til stefnanda gegn greiðslu með skuldajöfnuði við kröfu stefnanda á stefnda samkvæmt lánssamningi aðila. Hvorug krafan á sér stoð í grein 3.1 í rammasamningi aðila eða greinum 3.4 og 6.2 í lánssamningi aðila, sem lýst er að framan. Stefnandi vísar einnig almennt til reglna um skaðabótaábyrgð innan og utan samninga til stuðnings þessum kröfum. Að því virtu að framsal stefnda á umræddri innstæðu til annars bresks félags gekk ekki eftir hefur stefnandi ekki sýnt fram á bótaskylt tjón sem hlotist hafi af saknæmri háttsemi stefnda. Verður stefndi því sýknaður af báðum þessum kröfum.

Þrautavarakrafa stefnanda á sér á hinn bóginn stoð í framangreindum ákvæðum rammasamnings og lánssamnings aðila og verður hún því tekin til greina. Um þá málsástæðu stefnda í tengslum við meintan ómöguleika, að óútskýrt sé hvernig stefnandi ætli að fullnægja dómi um kröfur sínar, fjallaði Hæstiréttur í fyrrgreindum dómi í máli nr. 307/2015. Þar segir að ekki verði leitt af lögum að sá sem leitar dóms í einkamáli um skyldu gagnaðila síns verði sérstaklega að gefa þar skýringar á fyrirætlan sinni um hvernig fullnægja mætti ætluðum réttindum hans við aðfarargerð, enda uppfylli hann það almenna skilyrði að hafa lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um kröfu sína, en stefndi byggi ekki á því að það skilyrði skorti. Stefnandi yrði að auki að bera áhættu af því hvort eða hvernig tækist að fullnægja dómi sem gengi honum í vil um aðra hvora varakröfu hans, þar á meðal vegna atriða sem varða löggjöf í Úkraínu. Með sömu rökum er því hafnað að það eigi að leiða til sýknu af þrautavarakröfu stefnanda að áform hans um fullnustu séu ekki skýrð frekar. Ekki er á það fallist með stefnda að krafa stefnanda verði lækkuð, enda hefur stefndi ekki gert nákvæma grein fyrir því hvaða fjárhæðir hann telur að ættu að koma til frádráttar kröfu stefnanda.

Með vísun til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað sem, að teknu tilliti til umfangs málsins er ákveðinn 1.500.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Ekki þykir tilefni til þess að leggja réttarfarssekt á stefnda.

Dóminn kveður upp Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari.

D ó m s o r ð

Stefndi, Visoky Zamok Investments Ltd., skal selja innlán stefnda á reikningi sínum nr. 2615902850501077840 hjá Open Joint-Stock Company Joint Stock Bank „Lviv“ í Úkraínu fyrir 2.273.443 Bandaríkjadali og skal afhenda stefnanda, Vátryggingafélagi Íslands hf., söluandvirðið að sömu fjárhæð.

Stefndi greiði stefnanda 1.500.000 krónur í málskostnað.