Print

Mál nr. 24/2020

Borgarbyggð (Guðjón Ármannsson lögmaður)
gegn
Gunnari Jónssyni (Ragnar Aðalsteinsson lögmaður)
Lykilorð
  • Jörð
  • Hefð
  • Ítak
Reifun

B krafðist þess að viðurkenndur yrði réttur hans til beitarafnota af þeim hluta jarðarinnar Króks í Borgarbyggð sem óþinglýstur samningur BB og Upprekstrarfélags Þ 26. maí 1924 hefði tekið til. Ágreiningur málsins snérist annars vegar um hvort B hefði unnið rétt til beitarafnota fyrir hefð á landinu sem var í eigu G og hins vegar hvort og þá með hvaða hætti B eða aðilum á hans vegum væri heimilt að safna fé sem rynni af fjalli og reka um land Króks á leið til réttar. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að B hefði sýnt fram á að fjárbændur hefðu í skjóli Upprekstarfélags Þ og síðar B nýtt landið til beitarafnota fyrir fjölda fjár í að minnsta kosti tæpa öld í góðri trú um heimild til þess þótt landið hefði laust fyrir miðja öldina komist úr eigu upprekstrarfélagsins samkvæmt þinglýstum afsölum. Hefði sú nýting landsins átt sér stað allt til dagsins í dag og hefði hefðartíminn þannig löngu verið fullnaður samkvæmt 7. gr. laga nr. 46/1905 er G hófst handa við að vefengja rétt B til ítaksins. Var því fallist á kröfu B um rétt hans til beitarafnota af umræddu landi og fæli sú niðurstaða jafnframt í sér að hafnað væri kröfu G um að B væri óheimilt að safna fé af fjalli að hausti á þessu sama landi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. maí 2020. Hann krefst þess að viðurkenndur verði réttur hans til beitarafnota af þeim hluta jarðarinnar Króks í Borgarbyggð, landnúmer 134817, sem óþinglýstur samningur Brynjólfs Bjarnasonar og Upprekstrarfélags Þverárréttar 26. maí 1924 tekur til. Einnig krefst áfrýjandi sýknu af þeim kröfum sem stefndi hafði uppi í gagnsök í héraði. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnda á öllum dómstigum.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Dómendur fóru á vettvang 8. desember 2020.

I

1

Eins og nánar er lýst í hinum áfrýjaða dómi er ágreiningur aðila annars vegar um hvort áfrýjandi hefur unnið rétt til beitarafnota fyrir hefð á tilgreindum hluta jarðarinnar Króks í Borgarbyggð sem er í eigu stefnda. Hins vegar er deilt um hvort og þá með hvaða hætti áfrýjanda eða aðilum á hans vegum er heimilt að safna fé sem rennur af fjalli og reka um land Króks á leið til réttar. Ekki er deila með aðilum um stærð eða mörk þess lands sem um ræðir.   

2

Ágreiningur málsaðila um framangreindan hluta jarðarinnar Króks hefur áður komið til úrlausnar Hæstaréttar. Árið 2012 höfðaði stefndi mál á hendur áfrýjanda til viðurkenningar á beinum eignarrétti sínum að landinu. Með dómi Hæstaréttar 3. apríl 2014 í máli nr. 718/2013 var fallist á kröfu stefnda. Var niðurstaðan reist á því að þinglýst afsal stefnda 20. september 1990 frá Hauki Péturssyni, þáverandi eiganda jarðarinnar, hefði útrýmt eldri óþinglýstum rétti áfrýjanda til landsins á grundvelli samnings 26. maí 1924, sbr. 2. mgr. 29. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978. Breytti engu um þá niðurstöðu þótt stefndi hefði síðar öðlast vitneskju sem gefið hefði honum tilefni til að ætla að einhver hluti lands þess sem hann hefði keypt kynni áður að hafa verið seldur undan jörðinni. Í dóminum sagði jafnframt að ómdeilt væri að hið umþrætta land hefði verið nýtt sem afréttarland af hálfu áfrýjanda og forvera hans, Upprekstrarfélags Þverárréttar. Þegar virt væru þau not sem áfrýjandi hefði haft af hinu umþrætta landi hefði honum ekki tekist sönnun þess að hann hefði frá þeim tíma er jörðinni var afsalað til stefnda unnið eignarhefð að landinu í skilningi 1. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð.

II

1

Jörðin Krókur í Borgarbyggð gekk alloft kaupum og sölum á öldinni sem leið. Var um stærð hennar í viðkomandi skjölum einatt vísað til landamerkjaskrár frá júlí 1923 sem lesin var á manntalsþingi 2. júlí 1924.

Eins og fram kemur í dómi réttarins í máli nr. 718/2013 seldu hreppsnefndarmenn fyrir hönd Norðurárdalshrepps Brynjólfi Bjarnasyni jörðina til eignar með kaupsamningi 5. ágúst 1916. Í samningnum sagði að jörðin væri seld ásamt „öllum þeim rjettindum og hlunnindum sem jörðinni fylgja og fylgja eiga til lands og vatns. Þau skilyrði setjum við kaupanda að á jörðina verði komið býli ekki síðar en í fardögum 1918 ella verði tjeð jörð eign Norðurárdalshrepps fyrir sama verð og hún nú er seld, ennfremur selji kaupandi nokkurn hluta af Krókslandi, að þá gangi upprekstrarfjelag Þverárréttar fyrir kaupum á því að öðru jöfnu.“ Kaupsamningurinn var lesinn á manntalsþingi 19. maí 1918.    

Á árinu 1924 voru þrjú nær samhljóða skjöl gerð um sölu Brynjólfs á hluta lands undan jörðinni Króki til Upprekstrarfélags Þverárréttar. Í hinu fyrsta, sem undirritað var af hálfu kaupanda og seljanda 26. maí það ár, var hinu selda lýst sem hluta „af landi jarðarinnar Króks allt það land sem nú er afrjettarmegin við afrjettargirðingu Norðdælinga undanskilið er vetrarbeit og slægjur en ekki má styggja afrjettarfjenað eða verja slægjur fyrir honum.“ Á öðru eintaki fylgdi áritun Brynjólfs um kvittun fyrir greiðslu hluta kaupverðs 19. júní 1924 og loks var í hinni þriðju útgáfu, sem ekki var undirrituð af hálfu kaupanda, hinu selda lýst þannig: ,,Það sem selt er, er fjallland úr eignarjörð minni Krók í Norðurárdal svokallaðir Selhagar og ræður landamerkjum á landi þessu að neðan verðu frá Norðurá Króksgirðing og eftir háhálsi Hermundarstaðamerki og svo Hellisgil Hellisá og Norðurá að norðanverðu að fyrrnefndri girðingu, undantekið er vetrarbeit, slægjur og veiðiréttindi.“ Var það niðurstaða Hæstaréttar í framangreindu máli að af efni skjalanna yrði ráðið að Brynjólfur Bjarnason hefði afsalað því landi sem hann átti afréttarmegin við afréttargirðingu og samkvæmt reikningum upprekstrarfélagsins hefði það greitt umsamið kaupverð fyrir landið. Brynjólfur hefði kvittað fyrir móttöku hluta kaupverðs á því skjali sem greinilega hefði verið endanleg gerð þess.

Brynjólfur seldi syni sínum Haraldi jörðina Krók samkvæmt afsalsbréfi 1. maí 1958 með ,,öllum húsum og mannvirkjum sem eru á jörðinni ... og með öllum gögnum og gæðum“. Um landamerki var vísað til framangreindrar landamerkjaskrár frá 1923. Afsalið var móttekið til þinglýsingar 13. maí 1958 og fært í þinglýsingabækur. Haraldur seldi síðan Friðgeiri Sörlasyni jörðina með afsali 7. febrúar 1979 með ,,gögnum og gæðum, sem jörðinni fylgja og fylgja ber til lands og vatns, að undanskilinni afgirtri spildu, sem er getið í kaupsamningi dags. 4.11.1977, nefnd Efra Melatún ... Landamerki jarðarinnar eru svo sem segir í merkjaskrá þinglýstri á manntalsþingi Norðurárdalshrepps. Hefur kaupandi kynnt sér landamerkin og eru þau ágreiningslaus.“ Ágreiningur máls þessa tekur ekki til spildunnar sem var undanskilin við kaupin. Mun afsalinu hafa verið þinglýst án athugasemda 20. júní 1979.

Með afsalsbréfi 23. nóvember 1982 afsalaði Friðgeir svo jörðinni til Hauks Péturssonar ,,með öllum mannvirkjum, svo sem húsum, ræktun, girðingum og öðrum gögnum og gæðum til lands og vatns ásamt öllu sem fylgir og fylgja ber ... Landamerki jarðarinnar eru sem segir í merkjaskrá þinglýstri á manntalsþingi Norðurárdalshrepps. Kaupandi hefur kynnt sér landamerkin og eru þau ágreiningslaus.“ Mun afsalinu hafa verið þinglýst án athugasemda 30. nóvember 1982.

Loks seldi Haukur Pétursson stefnda jörðina með kaupsamningi árið 1989. Í afsali til stefnda 20. september 1990, sem þinglýst var 30. sama mánaðar, segir að seljandi afsali til kaupanda jörðinni Króki „með öllum mannvirkjum ... gæðum og hlunnindum til lands og vatns, sem jörðinni fylgja og fylgja ber. Ekkert er undanskilið í kaupunum nema spilda sem liggur með þjóðveginum ... Landamerki jarðarinnar eru skv. landamerkjaskrá dags. 02.07.1924.“ Nær ágreiningur málsins ekki til þeirrar spildu sem undanskilin var í kaupunum.

2

Í ódagsettri lýsingu á afrétti Upprekstrarfélags Þverárréttar segir um umþrætt landssvæði: „Með kaupsamningi dags. 26. maí 1924 keypti upprekstrarfélagið af eiganda Króks í Norðurárdal, Brynjólfi Bjarnasyni, þann hluta af landi Króks, sem er afréttarmegin við fjallgirðinguna. Undanskilin er vetrarbeit og slægjur, sem þó má ekki verja, né styggja afréttarfé. Land þetta hefur síðan verið notað sem afréttarland.“ Þá kemur fram í annarri lýsingu á afréttarlöndum í Mýrasýslu að Upprekstrarfélag Þverárréttar hafi „keypt til afréttarins þessi lönd ... Úr Krókslandi í Norðurárdal allt það land jarðarinnar Króks „sem nú er afréttarmegin við afréttargirðingu Norðdælinga.“ samkv. kaupsamningi dags. 26/5 1924.“ Lýsing þessi er einnig ódagsett. Hún mun vera yngri en sú fyrri en í henni er meðal annars vísað til fjallskilareglugerðar frá 1975.

Hinn 25. júlí 1995 ritaði stefndi bréf til stjórnar Veiðifélags Norðurár, með afriti til formanns Upprekstrarfélags Þverárréttar, vegna fyrirhugaðs endurmats á arði veiðiréttarhafa vatnasvæðis árinnar. Fram að því hafði upprekstrarfélagið talist til veiðiréttarhafa vatnasvæðis hennar á grundvelli eignarhalds á hluta Krókslands. Í bréfinu sagði meðal annars: „Ég undirritaður Gunnar Jónsson ... mun sem eigandi jarðarinnar Króks krefjast þess að arður af Norðurá Króksmegin frá afréttargirðingu að Hellisá og arður af Hellisá (Króksmegin) falli til jarðar minnar. Hinn 26. maí árið 1924 seldi þáverandi eigandi Króks, Brynjólfur Bjarnason, Upprekstrarfélagi Þverárréttar sneið af Krókslandi, þ.e. landspilduna frá afréttargirðingu að Hellisá. Þessa landsneið hefur kaupandinn nýtt sem afrétt. Á veiðiréttindi fyrir hinum selda landskika var ekki minnst í kaupsamningnum. Þau munu reyndar þá hafa skipt litlu sem engu máli. Kaupandinn var eingöngu að kaupa beitarland og Veiðifélag Norðurár náði fyrst til árinnar ofan Króksfoss árið 1961, eftir þann tíma mun Upprekstrarfélagið hafa notið arðs af Norðurá fyrir landspildunni. Ég hef ekki fengið upplýst hvort eða hvenær afsal fyrir landspildunni var útgefið né heldur hvort því eða kaupsamningnum var þinglýst. Kröfu mína um að til Króks falli arður af Norðurá og Hellisá fyrir tilgreindri landspildu styð ég við 4. mgr. 2. gr. lax- og silungsveiðilaga nr. 76/1970.“  Í kjölfarið var fallist á þessa kröfu stefnda. 

Áfrýjandi tók við réttindum og skyldum Upprekstrarfélags Þverárréttar á árinu 2006 við sameiningu sveitarfélaga í Borgarfirði. Á árinu 2008 sendi stefndi áfrýjanda kvörtun um að framangreind girðing sem reist hefði verið um 1920 í landi Króks frá Norðurá til merkja milli Króks og Hermundarstaða væri ekki fjárheld og rynni fjallfé upprekstrarfélagsins í skógræktarland sitt. Krafðist stefndi þess að girðingin yrði gerð fjárheld og lét áfrýjandi lagfæra girðinguna á árinu 2008 á sinn kostnað.  

Hinn 18. febrúar 2010 sendi lögmaður stefnda tilkynningu til Upprekstrarfélags Þverárréttar um bann við upprekstri og beit sauðfjár á jörðinni Króki. Þar var rakin forsaga þess að stefndi eignaðist jörðina og þau heimildarskjöl sem henni tengdust. Vísað var til þess að allt frá árinu 1958 hefði ítaksréttar hvergi verið getið í þinglýstum afsölum fyrir jörðinni og því andmælt að félagið ætti nokkurn „ítaks- eða eignarrétt í landinu.“ Auk þess sagði í bréfinu að bændur, sem væru aðilar að félaginu, hefðu „gert lítið sem ekkert til að stemma stigu við fjárrennsli í afréttinn um land Króks“ og hefði það valdið ómældu tjóni á skógrækt stefnda. Eftir því sem trjám hefði fjölgað hefði sífellt meiri tími farið í smalamennsku til varnar landinu og væri nú svo komið að stefndi teldi sig knúinn „til að fjarlægja beitarálag frá skógræktarlandinu og verður það ekki gert á annan hátt en að afnema með öllu og banna beit Upprekstrarfélags Þverárréttar á landi Króks framan fjallgirðingar (varnargirðingar).“ Ef framhald yrði á umræddum rekstri og áframhaldandi tjóni á skógræktarlandi stefnda myndi hann leita réttar síns. Loks sagði að stefndi vildi „vekja sérstaka athygli á og gera kröfur um ... að undinn verði bráður bugur á að gengið verði frá rekstrarleiðinni með þjóðveginum þannig að Króksland neðan brúarinnar verði friðað fyrir ágangi sauðfjár sem og landið með Norðurá frá Króksbrú að ósi Hellisár. Séð verði til þess að gengið sé frá þessari rekstrarleið með tilliti til þarfa veiðimanna og hestamanna.“ 

Að gengnum dómi Hæstaréttar í máli nr. 718/2013 héldu deilur áfram milli aðila um nýtingu landsins og á árunum 2016 og 2017 voru allnokkur bréfaskipti þeirra í millum er lutu einkum að ágreiningi um kostnað við girðingar á merkjum milli Króks og nærliggjandi lands áfrýjanda og um rekstur sauðfjár um land Króks til réttar. Lýsti stefndi því meðal annars að ætlaður afnota- eða umferðarréttur, sem áfrýjandi teldi sig njóta, ætti að hafa áhrif á skyldu áfrýjanda til að girða á merkjum, en áfrýjandi lagði áherslu á að fyrirhugaðar girðingarframkvæmdir skyldu tengjast hefðbundinni leið fjársafns af afrétti. Kom meðal annars fram í bréfi lögmanns stefnda til Upprekstrarfélags Þverárréttar 16. september 2016 að eftir dóm Hæstaréttar væri ljóst að upprekstrarfélagið telji „ekki til neins réttar innan merkja jarðarinnar Króks.“ Myndi stefndi ekki una því að fé á vegum áfrýjanda verði rekið um landið að hausti og neyta þeirra heimilda sem lög áskildu honum til að „halda uppi réttindum sínum gagnvart þeim sem í hlut eiga og ábyrgir kunna að vera fyrir heimildarlausum ágangi á land jarðarinnar með tilheyrandi tjóni.“ Fór svo að lögmaður stefnda sendi lögreglustjóranum á Vesturlandi bréf 5. september 2017 þar sem óskað var eftir að lögregla myndi rannsaka opnun hliða á skógræktargirðingu stefnda og hafa eftirlit með aðgerðum áfrýjanda við rekstur fjár af fjalli, en allt safnið væri um 10.000 fjár. Þá var í erindinu kvartað yfir því að áfrýjandi hefði hafnað að taka þátt í kostnaði við að girða land Króks. Sagði að áfrýjandi teldi sig ranglega eiga rétt til að láta fé, sem rynni af fjalli áður en leitir hæfust, safnast saman á landi Króks og vera þar á beit um það bil tvær vikur áður en það væri rekið til réttar.

3

            Áfrýjandi höfðaði síðan mál þetta 15. ágúst 2017 og krafðist þess, eins og áður segir, að viðurkenndur yrði réttur hans til beitarafnota af þeim hluta jarðarinnar sem samningurinn 26. maí 1924 tók til. Hinn 4. október sama ár höfðaði stefndi gagnsök í málinu með kröfu um að viðurkennt yrði að áfrýjanda eða aðilum á hans vegum væri óheimilt að safna fé sem rynni af fjalli að hausti á land jarðarinnar Króks og reka fé af fjalli á leið til réttar um land Króks. Til vara var þess krafist að viðurkennt yrði að áfrýjanda eða aðilum á hans vegum væru óheimil önnur not af landi jarðarinnar Króks „en að reka fé, sem kemur af fjalli að hausti, um óræktað land Króks viðstöðulaust án dvalar í landi jarðarinnar næstu þrjú árin, eða til og með 2020.“

            Héraðsdómur féllst á dómkröfu áfrýjanda og sýknaði hann af gagnkröfum stefnda. Með hinum áfrýjaða dómi var stefndi á hinn bóginn sýknaður af kröfu áfrýjanda og jafnframt viðurkennt að áfrýjanda eða aðilum á vegum hans væri óheimilt að safna fé sem rynni af fjalli að hausti á land jarðarinnar Króks og reka fé af fjalli á leið til réttar um land Króks.

Áfrýjunarleyfi var veitt meðal annars með vísan til þess að málið varðaði brýna hagsmuni áfrýjanda og sauðfjárbænda á svæðinu. Um væri að ræða mikilvægt afréttarsvæði sem áfrýjandi teldi að hann mætti fyrir hefð nýta til beitarafnota en á ári hverju rynni um það eitt stærsta fjársafn landsins á leið til réttar. Þá var talið að í málinu reyndi á ýmis grundvallaratriði um skilyrði hefðar.

IV

            Áfrýjandi reisir kröfu sína um viðurkenningu á beitarafnotum á lögum nr. 46/1905. Hafi hann og áður Upprekstrarfélag Þverárréttar óslitið og óátalið nýtt landið til beitar, allt frá kaupum á því á árinu 1924 til dagsins í dag. Landið sé innan afréttargirðingar sem reist hafi verið til að aðskilja þann hluta jarðarinnar Króks er nýttur hafi verið sem beitiland frá þeim hluta jarðarinnar sem ekki hafi verið undirorpinn slíkum notum. Verði að telja beitarafnotin sýnilegt ítak sem hefðist á 20 árum samkvæmt 7. gr. laganna, en jafnvel þótt afnotin teldust ósýnilegt ítak væri skilyrðum 8. gr. þeirra um 40 ára hefðartíma fullnægt. Breyti lög nr. 113/1952 um lausn ítaka af jörðum engu hér um.

Stefndi kveður kröfugerð áfrýjanda óljósa um umfang og eðli þess réttar sem um ræðir. Óljóst sé til hvaða tegunda kvikfjár krafan taki og áfrýjandi sé sveitarfélag sem ekki stundi búskap. Rangt sé og ósannað að áfrýjandi og forveri hans hafi farið með landið og nýtt það til beitar í fullan hefðartíma. Að svo miklu leyti sem áfrýjandi hafi nýtt landið til beitar á afmörkuðum tímabilum hafi hann hvorki verið ráðvandlega að þeim afnotum kominn né gert það grandlaus um kvaðalausan eignarrétt þinglesinna eigenda jarðarinnar sem hafi verið án nokkurs fyrirvara um afnot eða ítök annarra. Auk þess hafi stefndi lagt formlegt bann við beit á landinu með bréfi til Upprekstrarfélags Þverárréttar 18. febrúar 2010. Við kaup á jörðinni Króki árið 1990 hafi stefndi verið grandlaus bæði um ætlaðan beitarrétt og að hluti landsins kynni vera talinn afréttur. Ekkert af skjölunum frá 1924 jafngildi bindandi samningi, enda sé óljóst hver hefur átt að vera endanleg gerð samnings um kaup á hluta jarðarinnar, auk þess sem vanti undirritanir á þau samningsdrög. Einnig sé ósannað að greiðslur hafi farið fram á grundvelli þeirra skjala og hafi engu þeirra verið þinglýst. Þá verði með engu móti talið að stofnast hafi sýnilegt ítak á landinu. Girðing sú sem áfrýjandi vísi til hafi verið reist 1920 en verið opin til afréttar þannig að fé hafi af þeim sökum leitað inn á landið. Hún hafi verið reist í þágu eigenda Króks til verndar slægjum og gróðri en hvorki samningur né sérstakt samþykki hafi legið til grundvallar þeirri framkvæmd. Samkvæmt 7. gr. laga nr. 46/1905 þurfi notkun, sem ætlað sé að skapa afnotahefð, að uppfylla sömu skilyrði og til stofnunar eignarhefðar, en með dómi Hæstaréttar í máli nr. 718/2013 hafi niðurstaðan orðið sú að áfrýjandi hafi ekki unnið landið til eignar vegna hefðar. Loks vísar stefndi til þess að ætluð afnot til ítaks hafi annaðhvort fallið niður vegna vanlýsingar, sbr. lög nr. 113/1952, eða fyrir tómlæti.   

V

1

Ekki verður tekið undir með stefnda að kröfugerð áfrýjanda eða aðild sé svo óskýr að dómur verði ekki lagður á málið. Verður hún ekki skilin með öðrum hætti en að viðurkenna skuli ítaksrétt sem skapast hafi honum til handa fyrir hefð sem feli í sér rétt til beitar búfjár á því landsvæði jarðarinnar Króks er óþinglýstur samningur Brynjólfs Bjarnasonar og Upprekstrarfélags Þverárréttar 26. maí 1924 tók til, en áfrýjandi tók við hinum ætluðu réttindum á árinu 2006.  

Eins og áður hefur komið fram var það niðurstaða Hæstaréttar í fyrra máli milli aðila að áfrýjandi hefði vegna nota af landinu ekki eignast beinan eignarrétt að því á grundvelli hefðar. Á hinn bóginn verður ekki fallist á með stefnda að dómurinn hafi, samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, jafnframt skorið úr um það sakarefni milli aðila sem nú er til meðferðar og lýtur að því hvort þessi not skulu leiða til þess að ítaksréttur hafi skapast til handa áfrýjanda fyrir hefð. Dómurinn hefur hins vegar fullt sönnunargildi um þau málsatvik sem í honum greinir, þar til það gagnstæða er sannað, sbr. 4. mgr. greinarinnar.

2

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 46/1905 má vinna hefð á hverjum hlut, jafnt fasteign sem lausafé, er getur verið eign einstakra manna, án tillits til þess hvort hann var áður eign einstaks manns eða opinber eign. Skapar fullnuð hefð eignarrétt yfir þeim hlut sem í eignarhaldi var og þarf hefðandi ekki að styðjast við aðra eignarheimild, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna. Lög geta þó staðið í vegi fyrir að réttindi sem um ræðir geti orðið undirorpin hefð. Sönnunarbyrði um upphaf hefðarhalds hvílir eðli málsins samkvæmt að jafnaði á hefðanda, sbr. dóm Hæstaréttar 14. júní 2012 í máli nr. 554/2011. Skilyrði fyrir eignarhefð á fasteign er 20 ára óslitið eignarhald, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna, að öðrum skilyrðum greinarinnar uppfylltum. Getur óslitið eignarhald tveggja manna eða fleiri talist til hefðartíma, sbr. 3. gr. laganna, hafi eignarhaldið gengið löglega frá manni til manns og eignarhald hvers einstaks hefðanda fullnægir skilyrðum 2. gr. Þá skapar notkun, með samsvarandi skilyrðum og þeim er gilda um eignarhefð, afnotarétt, sbr. 7. gr. laganna. Felst í afnotahefð að hefðandi fer með umráð sem svara til óbeinna eignarréttinda yfir eign. Notkun af því tagi er talin fullnægjandi heimild fyrir slíkum réttindum að öðrum ákvæðum laganna uppfylltum og eru skilyrði um óslitna notkun miðuð við eðli þeirra nota sem um er að ræða. Nær afnotaréttur samkvæmt ákvæðinu einnig til sýnilegra ítaksréttinda, auk þess sem í 8. gr. laganna er sérstakt ákvæði um að hefð á ósýnilegum ítökum „svo sem slægjum, beit, reka o.s.frv.“ geti aðeins unnist með 40 ára notkun og öðrum skilyrðum sömu sem eignarhefð.  

Í athugasemdum með 7. og 8. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 46/1905 kemur fram um ósýnilegt ítak að „þar sem notkun ítaksins útheimtir engan útbúning, er eingöngu er gjörður í þessu skyni, þar er notkunin ekki að sama skapi stöðug eins og eignarhaldið, og uppfyllir því ekki þau skilyrði, er gilda um 20 ára nothefð.“ Er þetta í samræmi við að hefðarþola verði síður notin ljós þegar þeim fylgja ekki sérstakar tilfæringar sem gefa þau til kynna og koma að gagni vegna ítaksnota og gefa þannig tilefni til aðgerða af hálfu ítaksþola vilji hann ekki þola þau.

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laganna slitnar hefðarhald venjulega er hefðandi missir umráðin, en samkvæmt 2. mgr. greinarinnar telst hefðarhald einnig rofið ef réttur hefðanda til eignarhaldsins er vefengdur með birtingu stefnu. Þá má hefð heldur ekki vinna ef hefðandi fær vitneskju áður en hefð er fullnuð að eignarhald sé til komið með glæp eða óráðvandlegu atferli, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna.    

3

Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 718/2013 var á því byggt að Brynjólfur Bjarnason hefði á árinu 1924 selt tiltekinn hluta lands undan eignarjörð sinni Króki til Upprekstrarfélags Þverárréttar. Við kaupin voru undanskilin vetrarbeit og slægjur. Eftir það gekk öll jörðin ítrekað kaupum og sölum, allt þar til stefndi eignaðist hana með kaupsamningi 1989 og þinglýstu afsali ári síðar. Hafði sá er seldi stefnda jörðina, Haukur Pálsson, eignast hana samkvæmt þinglýstu afsali frá Friðgeiri Sörlasyni árið 1982, sem aftur hafði eignast jörðina samkvæmt þinglýstu afsali árið 1979 frá Haraldi syni Brynjólfs sem keypt hafði jörðina samkvæmt þinglýstu afsali frá föður sínum 1958. Í afsölunum var einatt tiltekið að jörðin væri seld með öllum gögnum sínum og gæðum. Jafnframt var í þeim öllum vísað til þinglýstrar landamerkjaskrár frá 1923 um stærð hinnar seldu jarðar og fylgdi hið umþrætta land með í kaupunum. Vilja báðir aðilar við það miða í máli þessu að við þessi síðari kaup og sölur á landinu hafi átt sér stað yfirfærsla kvaðalauss eignarréttar þinglesinna eigenda jarðarinnar. Sá réttur var án nokkurs fyrirvara um afnot eða ítök annarra og er ekkert annað komið fram en að hinar síðari þinglýstu eignarheimildir fyrir jörðinni hafi gengið framar hinum óþinglýsta grunneignarrétti áfrýjanda til landsins á grundvelli samningsins frá 1924 í samræmi við reglur um traustfang sem nú er að finna í 2. mgr. 29. gr. þinglýsingarlaga. Gögn málsins bera einnig með sér að þinglýstir eigendur landsins hafi umliðið notkun áfrýjanda og forvera hans á landinu, allt þar til stefndi sendi bréf sitt 18. febrúar 2010. Á hinn bóginn var það ekki fyrr en með höfðun gagnsakar í máli þessu 4. október 2017 að vefengdur var með málsókn réttur áfrýjanda til nýtingar landsins eftir 2. mgr. 4. gr. laga nr. 46/1905. Stóð breyting á eignarrétti þannig ekki í vegi fyrir afnotunum og freistaði enginn af eigendum jarðarinnar Króks þess að fylgja fram rétti sínum til traustfangs gagnvart notkun upprekstrarfélagsins á landinu með málshöfðun samkvæmt síðari málslið 1. mgr. 16. gr. þinglýsingarlaga.

4

Samkvæmt gögnum málsins er ljóst að girðing sú sem reist var um 1920 og síðar hefur verið lagfærð markaði það land sem forveri áfrýjanda keypti árið 1924 gagnvart þeim hluta jarðarinnar sem ekki var seldur. Þá verður ráðið að upprekstrarfélagið keypti landið til beitarafnota í samræmi við tilgang félagsins, eins og er lýst í afréttarskrám. Sami skilningur á tilgangi kaupanna og nýtingu landsins kemur fram í bréfaskiptum milli málsaðila um ágang fjár í landi Króks og einnig í bréfi stefnda til stjórnar veiðifélags Norðurár 25. júlí 1995 um endurmat á arði vegna vatnasvæðis Norðurár. Samræmist þetta lýsingu stefnda og fyrirsvarsmanna áfrýjanda fyrir dómi á nýtingu landsins í gegnum tíðina. Þannig bar stefndi fyrir dómi í hinu fyrra máli að hann hefði einatt talið að upprekstrarfélaginu hefði verið seldur beitarréttur á landinu. Þá bar hann við meðferð þessa máls að hann hefði upphaflega verið mjög feginn að girðingin hefði verið til staðar en hún hefði nýst til frekari girðingarframkvæmda til verndar skógrækt hans á landinu. Jafnframt kom fram hjá honum að áfrýjandi hefði í engu breytt nýtingu sinni á landinu þrátt fyrir framangreint bréf hans 18. febrúar 2010 þar sem hann, eins og áður segir, vildi banna beit á landi Króks „framan fjallgirðingar (varnargirðingar).“ Verður að telja að nýting áfrýjanda og forvera hans á landinu fyrir þann fjölda sauðfjár sem um ræðir hafi verið enn sýnilegri en ella vegna þeirra tilfæringa sem fólust í umræddri girðingu. Er þetta í samræmi við það er sagði í dómi Hæstaréttar í máli nr. 718/2013 að óumdeilt væri að umrætt land hefði verið nýtt sem afréttarland af hálfu áfrýjanda og þar áður forvera hans, Upprekstrarfélags Þverárréttar.  

Að virtum þeim gögnum sem rakin hafa verið er nægilega í ljós leitt að ekki hafi orðið verulegt eða óeðlilegt hlé á nýtingu beitarlandsins, heldur þvert á móti bera þau með sér að nýting áfrýjanda og forvera hans á landinu til beitar hafi verið óslitin að minnsta kosti allt frá árinu 1924 og haldið áfram þrátt fyrir að landið hafi komist úr eigu Upprekstrarfélags Þverárréttar samkvæmt síðari þinglýstum afsölum. Þá verður ekki við annað miðað en að forveri áfrýjanda og síðar áfrýjandi hafi nýtt landið í góðri trú allt frá því að samningur um kaup á landinu var gerður 1924 og þar til framangreindur dómur Hæstaréttar gekk 3. apríl 2013. Samkvæmt framansögðu verður heldur ekki fallist á með stefnda að 1. mgr. 4. gr. laga nr. 46/1905 standi í vegi fyrir því að hefðartími fyrir ítaksréttindum hafi tekið að líða er landið komst úr eigu forvera áfrýjanda.

Stefndi hefur loks vísað til þess að þar sem forvera áfrýjanda hafi láðst að lýsa ítaki sínu eftir lögum nr. 113/1952 hafi það fallið úr gildi samkvæmt 4. gr. þeirra. Umrætt ákvæði kvað á um að á næstu 6 mánuðum, eftir að lögin tóku gildi, skyldu héraðsdómarar birta þrisvar í Lögbirtingablaði áskorun til þeirra, er töldu sig eiga ítök í jarðir innan lögsagnarumdæmisins, um að lýsa ítaksrétti sínum innan 12 mánaða frá síðustu birtingu áskorunarinnar. Í lýsingunni til héraðsdómara skyldi greina efni ítaksins, hagnýtingu þess að undanförnu, og eftir því sem unnt væri, hversu það í fyrstu væri tilkomið. Væri það ekki gert félli ítakið úr gildi, sbr. 5. gr., og hefði því áður verið þinglýst skyldi afmá það úr veðmálabókum. Í 2. mgr. 5. gr. laganna var svo kveðið á um að væri ítaki eigi lýst samkvæmt framansögðu félli það þá úr gildi.

Á þeim tíma er ákvæði laganna tóku til var Upprekstrarfélag Þverárréttar eigandi umrædds lands samkvæmt kaupsamningi 18. maí 1924 og að minnsta kosti allt til ársins 1958. Samkvæmt ákvæðum laganna, sbr. 1. gr. þeirra, bar upprekstrarfélaginu sem eiganda landsins ekki að lýsa nýtingu sinni á landinu. Þessari málsástæðu stefnda er því hafnað og verður heldur ekki fallist á að áfrýjandi hafi misst rétt sinn til nýtingar landsins vegna einhvers konar tómlætis.

5

Samkvæmt öllu framansögðu hefur áfrýjandi sýnt fram á að fjárbændur hafi í skjóli Upprekstrarfélags Þverárréttar og síðar áfrýjanda nýtt landið til beitarafnota fyrir fjölda fjár í að minnsta kosti tæpa öld í góðri trú um heimild til þess þótt landið hafi laust eftir miðja öldina komist úr eigu upprekstrarfélagsins samkvæmt þinglýstum afsölum. Hefur þessi nýting landsins átt sér stað allt til dagsins í dag og var hefðartíminn þannig löngu fullnaður samkvæmt 7. gr. laga nr. 46/1905 er stefndi hófst handa við að vefengja rétt áfrýjanda til ítaksins.

Með því að fallist er á kröfu áfrýjanda um rétt hans til beitarafnota af umræddu landi felur sú niðurstaða jafnframt í sér að hafnað er kröfu stefnda um að áfrýjanda sé óheimilt að safna fé af fjalli að hausti á þessu sama landi og til að reka fé af fjalli um það eins og hann hefur gert í áratugi.

Rétt er að hvor aðila beri sinn hluta málskostnaðar vegna reksturs málsins á öllum dómstigum.

Dómsorð:

Viðurkenndur er réttur áfrýjanda, Borgarbyggðar, til beitarafnota af þeim hluta jarðarinnar Króks í Borgarbyggð, landnúmer 134817, sem óþinglýstur samningur Brynjólfs Bjarnasonar og Upprekstrarfélags Þverárréttar 26. maí 1924 tekur til.

Áfrýjandi er sýkn af gagnkröfu stefnda, Gunnars Jónssonar, um að viðurkennt skuli að áfrýjanda sé óheimilt að safna fé á landinu eða reka fé um það á leið til réttar.

Málskostnaður fellur niður á öllum dómstigum.

 

 

Dómur Landsréttar 6. mars 2020

 

Mál þetta dæma landsréttardómararnir Kristbjörg Stephensen og Þorgeir Ingi Njálsson og Hjörtur O. Aðalsteinsson, settur landsréttardómari.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

1        Áfrýjandi skaut málinu til Landsréttar 12. apríl 2019. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Vesturlands 8. apríl 2019 í málinu nr. E-81/2017.

2        Áfrýjandi krefst þess að hinum áfrýjaða dómi verði hrundið og breytt á þá leið að áfrýjandi verði sýknaður af kröfu stefnda í aðalsök í héraði um viðurkenningu á rétti hans til beitarafnota á hluta jarðar áfrýjanda, Króks í Borgarbyggð. Þá krefst áfrýjandi þess „að viðurkennt verði með dómi að stefnda, Borgarbyggð, eða aðilum á vegum Borgarbyggðar sé óheimilt að safna fé sem rennur af fjalli að hausti á land jarðarinnar Króks og reka fé af fjalli á leið til réttar um land Króks“. Til vara krefst áfrýjandi þess „að viðurkennt verði með dómi, að stefnda, Borgarbyggð, eða aðilum á vegum Borgarbyggðar, sé óheimil önnur not af landi jarðarinnar Króks en að reka fé, sem kemur af fjalli að hausti, um óræktað land Króks viðstöðulaust án dvalar í landi jarðarinnar til og með ársins 2020“. Loks krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti.

3        Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Landsrétti.

Málsatvik

4        Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi afsalaði þáverandi eigandi jarðarinnar Króks, Brynjólfur Bjarnason, 26. maí 1924 þeim hluta jarðarinnar, sem ágreiningur málsaðila snýr að, til Upprekstrarfélags Þverárréttar en óumdeilt er með aðilum að stefndi hafi við sameiningu sveitarfélaga í Borgarfirði árið 2006 tekið við réttindum og skyldum félagsins. Samningi vegna þessara kaupa var ekki þinglýst. Brynjólfur seldi syni sínum, Haraldi, jörðina 1. maí 1958 sem seldi Friðgeiri Sörlasyni hana 7. febrúar 1979. Friðgeir seldi svo Hauki Péturssyni jörðina 23. nóvember 1982, sem afsalaði henni til áfrýjanda 20. september 1990 „með öllum mannvirkjum, þ.e. húsum, ræktun, girðingum og öllum gögnum og gæðum og hlunnindum til lands og vatns, sem jörðinni fylgja og fylgja ber“. Þá kom fram að ekkert væri undanskilið í kaupunum nema nánar tilgreind spilda, sem lægi með þjóðveginum. Þessi spilda tengist ekki ágreiningi aðila. Afsalið var móttekið til þinglýsingar 30. sama mánaðar.

5        Með dómi Hæstaréttar 3. apríl 2014 í máli nr. 718/2013 var leyst úr ágreiningi aðila er laut að eignarhaldi á þeim hluta jarðarinnar sem fyrrum eigandi hennar, Brynjólfur Bjarnason, afsalaði til Upprekstrarfélags Þverárréttar. Féllst Hæstiréttur á kröfu áfrýjanda um að hann hefði með kaupum sínum á jörðinni einnig eignast framangreindan hluta jarðarinnar enda hefði þinglýst afsal hans útrýmt eldri óþinglýstum rétti til landsins sem stefndi byggði kröfu sína á, sbr. 2. mgr. 29. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978.

Niðurstaða

6        Í máli þessu krefst áfrýjandi viðurkenningardóms fyrir því að stefnda eða aðilum á hans vegum sé óheimilt „að safna fé sem rennur af fjalli að hausti á land jarðarinnar Króks og reka fé af fjalli á leið til réttar um land Króks“. Hann hafi lagt bann við beit á landinu 18. febrúar 2010 en stefndi hafi ekki virt það.

7        Stefndi byggir tilkall sitt til beitarafnota að hinu umdeilda landi á því að hann og forveri hans, Upprekstrarfélag Þverárréttar, hafi unnið beitarafnot fyrir hefð á grundvelli laga nr. 46/1905 um hefð. Upprekstrarfélagið og síðar stefndi hafi farið með landið og nýtt það til beitar, enda talið sig með réttu eiga það, óslitið í fullan hefðartíma eða allt frá árinu 1924 fram til dagsins í dag. Skipti þá engu hvort beitarafnotin verði talin sýnilegt ítak samkvæmt 7. gr. laga nr. 46/1905 eða ósýnilegt ítak samkvæmt 8. gr. sömu laga.

8        Svo sem fram er komið komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu 3. apríl 2014 í máli nr. 718/2013 að eldri óþinglýstur réttur stefnda til hins umdeilda hluta jarðarinnar Króks hafi vikið fyrir þinglýstum rétti áfrýjanda samkvæmt afsali 20. september 1990. Þessi eldri óþinglýsti réttur stefnda til þessa hluta jarðarinnar virðist hafa verið almennt þekktur þótt áfrýjandi hafi ekki þekkt til hans, sbr. fyrrnefndan dóm Hæstaréttar. Í gögnum málsins liggur fyrir ódagsett endurrit lýsingar á afréttarlöndum í Mýrasýslu þar sem fram kemur að Upprekstrarfélag Þverárréttar hafi meðal annars keypt til afréttar Þverárréttar „[ú]r Krókslandi í Norðurárdal allt það land jarðarinnar Króks, „sem nú er afréttarmegin við afréttargirðingu Norðdælinga“ samkv. kaupsamningi dags. 26/5. 1924“. Þá segir í ódagsettri lýsingu á afrétti Upprekstrarfélags Mýrasýslu að „[m]eð kaupsamningi dags. 26. maí 1924 keypti upprekstrarfélagið af eiganda Króks í Norðurárdal, Brynjólfi Bjarnasyni, þann hluta af landi Króks, sem er afréttarmegin við fjallgirðinguna. Undanskilin er vetrarbeit og slægjur, sem þó má ekki verja, né styggja afréttarfé. Land þetta hefur síðan verið notað sem afréttarland.“ Jafnframt segir í útdrætti úr ritinu Byggðir Borgarfjarðar III frá 1993 að nokkur spilda af Krókslandi hafi verið „seld til Upprekstrarfélagsins fyrir allmörgum árum [...]“. Enn fremur liggja fyrir gögn í málinu um að Upprekstrarfélag Þverárréttar hafi talist til veiðirétthafa vatnasvæðis Norðurár á grundvelli eignarhalds á jarðarhlutanum allt til 25. júlí 1995 er áfrýjandi krafðist þess að arðurinn félli til hans.

9        Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður því slegið föstu að allt til þess að áfrýjandi þinglýsti afsali sínu hafi enginn annar átt ríkari rétt til landsins en stefndi sem hafi því farið með full eignarráð yfir landinu til þess dags.

10       Samkvæmt 1. gr. laga nr. 46/1905 má vinna hefð á hverjum hlut, jafnt fasteign sem lausafé, er getur verið eign einstakra manna án tillits til þess hvort hann var áður eign einstaks manns eða opinber eign. Samkvæmt þessu er hefð sjálfstæður og útrýmandi stofnunarháttur eignarréttinda en eignarréttindi, sem stofnast fyrir hefð, valda því að eldri ósamrýmanleg eignarréttindi þriðja aðila, ef þeim er til að dreifa, falla niður.

11       Áður er fram komið að stefndi fór með full eignarráð yfir landinu á grundvelli óþinglýsts afsals þegar þau viku fyrir þinglýstum rétti áfrýjanda á grundvelli afsals í september 1990 sem var kvaðalaust um annað en tilgreinda spildu sem ekki tengist ágreiningi aðila. Hefðarhald ítaks í formi afnota- eða beitarréttar stefnda getur þá fyrst hafa hafist. Óumdeilt er að stefndi nýtti áfram hinn umdeilda jarðarhluta sem afréttarland með sama hætti og hann hafði áður gert. Hefðartími sýnilegra ítaka er 20 ára óslitin nýting samkvæmt 7. gr., sbr. 2. og 3. gr. laga nr. 46/1905. Samkvæmt 8. gr., sbr. 2. og 3. gr. sömu laga, vinnst hefð á ósýnilegum ítökum með 40 ára notkun. Með bréfi 18. febrúar 2010 lagði áfrýjandi bann við því að landið væri beitt, eða tæpum 20 árum eftir að mögulegt hefðarhald stefnda hófst en það rofnaði í síðasta lagi á þeim tíma. Samkvæmt framansögðu hefur stefndi ekki haft beitarafnot af landinu í fullan hefðartíma. Verður kröfum hans því hafnað og fallist á þá viðurkenningarkröfu sem áfrýjandi hefur aðallega uppi í málinu.

12       Stefnda verður gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti sem ákveðinn verður í einu lagi eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Gunnar Jónsson, er sýknaður af kröfum stefnda, Borgarbyggðar.

Viðurkennt er að stefnda eða aðilum á vegum hans, sé óheimilt að safna fé sem rennur af fjalli að hausti á land jarðarinnar Króks og reka fé af fjalli á leið til réttar um land Króks. 

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 1.800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti.

                       

 


Dómur Héraðsdóms Vesturlands 8. apríl 2019

 

I.

Mál þetta, sem dómtekið var 11. mars sl., er höfðað með stefnu birtri 15. ágúst 2017 af Borgarbyggð, Ráðhúsinu við Borgarbraut 14, Borgarnesi, á hendur Gunnari Jónssyni, Króki í Norðurárdal, Borgarbyggð.

 

Stefnandi krefst þess að viðurkenndur verði réttur hans til beitarafnota af þeim hluta jarðarinnar Króks í Borgarbyggð, landnúmer 134817, sem óþinglýstur samningur Brynjólfs Bjarnasonar og Upprekstrarfélags Þverárréttar 26. maí 1924 tekur til. Jafnframt krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnda.

 

Stefndi krafðist þess í greinargerð aðallega að málinu yrði vísað frá dómi, en með úrskurði uppkveðnum 23. maí 2018 var þeirri kröfu hafnað. Stefndi krefst þess nú að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og að honum verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda.

 

Með gagnstefnu birtri 4. október 2017 höfðaði stefndi gagnsök í málinu. Krefst hann þess í gagnsökinni aðallega að viðurkennt verði að gagnstefnda, Borgarbyggð, eða aðilum á vegum Borgarbyggðar, sé óheimilt að safna fé sem rennur af fjalli að hausti á land jarðarinnar Króks og reka fé af fjalli á leið til réttar um land Króks. Til vara er þess krafist að viðurkennt verði að gagnstefnda, Borgarbyggð, eða aðilum á vegum Borgarbyggðar, séu óheimil önnur not af landi jarðarinnar Króks en að reka fé, sem kemur af fjalli að hausti, um óræktað land Króks viðstöðulaust án dvalar í landi jarðarinnar næstu þrjú árin, eða til og með 2020. Jafnframt er krafist málskostnaðar í gagnsökinni.

 

Gagnstefndi krefst sýknu af öllum kröfum gagnstefnanda og málskostnaðar að skaðlausu úr hans hendi.

 

II.

Í maímánuði 1924 afsalaði þáverandi eigandi jarðarinnar Króks í Norðurárdal, Brynjólfur Bjarnason, þeim hluta jarðarinnar sem var afréttarmegin við afréttargirðingu til Upprekstrarfélags Þverárréttar, forvera aðalstefnanda. Samkvæmt reikningum upprekstrarfélagsins greiddi það umsamið kaupverð fyrir landið. Samningi vegna þessara kaupa var ekki þinglýst. Þrátt fyrir þessa sölu á landinu seldi Brynjólfur syni sínum Haraldi jörðina með afsali 1. maí 1958, sem var þinglýst 13. sama mánaðar. Haraldur seldi síðan Friðgeiri Sörlasyni jörðina með afsali 7. febrúar 1979 og með afsali 23. nóvember 1982 afsalaði Friðgeir jörðinni áfram til Hauks Péturssonar. Haukur afsalaði loks jörðinni til aðalstefnda með afsali 20. september 1990. Kom fram í því afsali að jörðinni væri afsalað með öllum mannvirkjum, gæðum og hlunnindum til lands og vatns sem jörðinni fylgdi og fylgja bæri. Þá var í afsalinu tekið fram að landamerki jarðarinnar væru eins og greinir í merkjaskrá, lesinni á manntalsþingi Norðurárdalshrepps. Loks var í afsalinu áréttað að ekkert væri undanskilið í kaupunum nema spilda sem liggur með þjóðveginum og tengist ekki ágreiningi aðila.

 

Í greinargerð aðalstefnda kemur fram að jörðin Krókur sé skógræktarjörð og sé hún því sérlega viðkvæm fyrir ágangi sauðfjár. Skógræktin sé að vísu afgirt frá því landi sem aðalstefnandi geri kröfu um afnot af, en engin leið sé að koma í veg fyrir að sauðfé komist í skógræktina með tilheyrandi tjóni.

 

Með bréfi þáverandi lögmanns aðalstefnda til Upprekstrarfélags Þverárréttar, dags. 18. febrúar 2010, tilkynnti aðalstefndi að hann teldi sig „knúinn til að fjarlægja beitarálag frá skógræktarlandinu og verður það ekki gert á annan hátt en að afnema með öllu og banna beit Upprekstrarfélags Þverárréttar á landi Króks framan fjallgirðingar (varnargirðingar).“

 

Ágreiningur reis með aðilum vegna fyrrgreinds hluta jarðarinnar Króks sem Rekstrarfélag Þverárréttar keypti á árinu 1924. Taldi aðalstefndi sig hafa keypt alla jörðina og að umræddur hluti hennar hefði ekki verið þar undanskilinn, enda hefði hann verið grandlaus um fyrrgreint afsal landsins á árinu 1924. Var úr þessum ágreiningi skorið með dómi Hæstaréttar uppkveðnum 3. apríl 2014, í málinu nr. 718/2013. Var þar fallist á kröfu aðalstefnda í máli þessu, Gunnars Jónssonar, um að hann hefði með kaupum sínum einnig eignast þann hluta jarðarinnar Króks sem óþinglýstur samningur Brynjólfs Bjarnasonar og Upprekstrarfélags Þverárréttar 26. maí 1924 tekur til, enda hefði þinglýst afsal hans útrýmt þeim eldri óþinglýstum rétti til landsins sem sveitarfélagið hefði byggt rétt sinn á, sbr. 2. mgr. 29. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978, og ekkert lægi fyrir um grandsemi hans um þann samning. Þá segir svo í niðurlagi dómsins: „Þegar virt eru þau not sem stefndi hefur haft af hinu umþrætta landi hefur honum ekki tekist sönnun þess að hann hafi frá þeim tíma er jörðinni var afsalað til áfrýjanda unnið eignarhefð að landinu í skilningi 1. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð.“

 

Við aðalmeðferð málsins voru teknar skýrslur af Gunnlaugi A. Júlíussyni, sveitarstjóra aðalstefnanda, og af aðalstefnda, Gunnari Jónssyni, auk þess sem tekin var vitnaskýrsla af Kristjáni Franklín Axelssyni, formanni Upprekstrarfélags Þverárréttar.

 

III.

Aðalstefnandi kveðst byggja tilkall sitt til beitarafnota af umræddu landi jarðarinnar Króks á því að hann og forveri hans, Upprekstrarfélag Þverárréttar, hafi unnið beitarafnotarétt að landinu fyrir hefð á grundvelli laga nr. 46/1905 um hefð. Kveðst aðalstefnandi hafa tekið við réttindum og skyldum upprekstrarfélagsins við sameiningu hreppa í Borgarfirði á árinu 2006.

 

Á því sé byggt að upprekstrarfélagið og síðar aðalstefnandi hafi farið með landið og nýtt það til beitar, enda talið sig með réttu hafa átt það óslitið í fullan hefðartíma, eða allt frá árinu 1924 til dagsins í dag. Hafi þessi notkun hans skapað honum lögvarinn rétt í skilningi hefðarlaga.

 

Samkvæmt 7. gr. laga nr. 46/1905 skapi notkun, með samsvarandi skilyrðum og þeim er gildi um eignarhefð, afnotarétt. Samkvæmt 1. gr. sömu laga megi vinna hefð á hverjum hlut, jafnt fasteign sem lausafé, er geti verið eign einstakra manna, án tillits til þess hvort hann hafi verið áður einstaks manns eign eða opinber eign. Um skilyrði eignarhefðar sé fjallað í 2.-4. gr. laganna. Þannig sé í 1. mgr. 2. gr. gert að skilyrði fyrir hefð að óslitin notkun eða óslitið eignarhald af hálfu hefðanda hafi haldist um tiltekinn tíma. Lítilfjörleg not annarra útiloki þó ekki ítakshefð. Sama gildi um hefð á ítökum að breyttu breytanda. Meðal annarra skilyrða sé að hefðandi megi ekki hafa náð umráðum með glæp eða óráðvandlegu atferli, sbr. 2. mgr. 2. gr., og að hefð geti ekki unnist á hlutum sem hefðandi hafi fengið að veði, til geymslu, til láns eða á leigu, sbr. 3. mgr. 2. gr. Til hefðartíma megi enn fremur telja óslitið eignarhald tveggja eða fleiri manna hafi eignarhald löglega gengið á milli þeirra, sbr. 3. gr. Missi hefðandi umráð yfir eign slitni hefðarhaldið nema hefðandi hafi misst umráðin óviljandi og náð þeim aftur innan 6 mánaða með lögsókn, sbr. 1. mgr. 4. gr.

 

Hefð á grundvelli 7. gr. hefðalaga sé á því reist að um sýnilegt ítak hafi verið að ræða, þar sem umrætt landsvæði hafi allt frá því að Upprekstrarfélag Þverárréttar hafi keypt afréttarland Króks verið notað sem afréttarland og verið innan afréttargirðingar. Hafi girðingin verið reist í þeim tilgangi að aðskilja þann hluta jarðarinnar Króks sem nýttur hafi verið sem beitarland frá þeim hluta sem ekki hafi verið undirorpinn slíkum notum. Hafi stefnandi og áður upprekstrarfélagið nýtt hið afgirta land til beitar óátalið af stefnda frá árinu 1924 og fram til ársins 2010. Notkunin hafi því alla tíð verið sýnileg og stefnda ljós og sé því fullnægt skilyrðum tilvitnaðrar 7. gr. um notkun sem skapi afnotarétt.

 

Verði ekki fallist á að aðalstefnandi eigi beitarafnotarétt á grundvelli 7. gr. sé á því byggt að sá réttur hafi stofnast á grundvelli 8. gr. laganna. Samkvæmt þeirri grein geti hefð á ósýnilegum ítökum, svo sem slægjum, beit, reka o.fl., unnist með 40 ára notkun og öðrum skilyrðum sömu sem eignarhefð. Að þessu leyti sé byggt á sömu málsástæðum og áður hafi verið raktar.

 

Loks sé áréttað að aðalstefnandi byggi á því að hafi einhvern tímann í kjölfar gildistöku laga nr. 113/1952 um lausn ítaka af jörðum risið vafi um tilvist beitarréttarins þá hafi hin óslitnu afnot eftir gildistöku þeirra laga og fram til dagsins í dag engu að síður skapað stefnanda rétt að landinu fyrir hefð.

 

IV.

Aðalstefndi mótmælir þeirri málsástæðu aðalstefnanda sem rangri og ósannaðri að hann og forveri hans hafi allt frá árinu 1924 farið með umrætt land og nýtt það óslitið til beitar í fullan hefðartíma. Eigendur jarðarinnar á framangreindu tímabili hafi haft þinglýstar eignarheimildir fyrir henni, án nokkurs fyrirvara um afnot og ítök annarra. Hafi aðalstefnandi því ekki getað verið grandlaus um fyrirvaralausan og kvaðalausan rétt þinglesinna eigenda jarðarinnar á hverjum tíma. Að svo miklu leyti sem aðalstefnandi hafi beitt land Króks á afmörkuðum tímabilum sé hann hvorki ráðvandlega að þeim afnotum kominn né geti hann hafa verið grandlaus um kvaðalausan eignarrétt þinglesinna eigenda jarðarinnar. Þá sé á það minnt að aðalstefndi hafi lagt formlegt bann við beit á landinu með bréfi til upprekstrarfélagsins hinn 18. febrúar 2010.

 

Þegar aðalstefndi hafi fengið afsal fyrir jörðinni Króki á árinu 1990 hafi hann verið grandlaus um að gert væri tilkall til beins eða óbeins réttar yfir hluta jarðarinnar, enda hafi afsalinu verið þinglýst án athugasemda, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 718/2013. Sé því mótmælt sem röngu sem fram komi í stefnu að aðalstefnda hafi verið kunnugt um að hluti landsins væri „afréttur“.    

 

Á því sé byggt að aðalstefnanda hafi verið kunnugt um fyrirvaralaus og óskert eignarréttindi annarra á umræddu landi, sem komi í veg fyrir að hann geti unnið afnotahefð að því, jafnvel þótt önnur skilyrði væru uppfyllt, sem þau séu þó ekki. Ljóst sé að ekkert þeirra draga að samningum um kaup upprekstrarfélagsins á hluta úr jörðinni Króki á árinu 1924 jafngildi bindandi samningi, enda vanti ýmist undirritanir eða umboð til undirritunar og ekki sé ljóst hvort nokkurn tíma hafi orðið til lokatexti samnings. Engu þessara skjala hafi verið þinglýst og hafi aðalstefnda verið ókunnugt um þau er hann keypti jörðina. Sé ósannað að fram hafi farið greiðslur á grundvelli þessara draga. Hvað sem öðru líði hafi afsalið til aðalstefnda útrýmt réttaráhrifum greindra þriggja draga að kaupsamningum, hafi þau einhver verið.

 

Í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar milli sömu aðila sé niðurstaðan sú að þegar virt séu þau afnot sem aðalstefnandi hafi haft af hinu umþrætta landi hafi honum ekki tekist sönnun þess að hann hafi frá þeim tíma er jörðinni var afsalað til aðalstefnda unnið eignarhefð í skilningi 1. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð. Hæstiréttur miði hér við tímamark afsals til aðalstefnda og eigi það einnig við um hina meintu afnotahefð. Hafi aðalstefnandi sönnunarbyrði fyrir því að hann hafi unnið afnotahefð á landinu með óslitinni 40 ára afnotum á því, sem útrýmt hafi afnotum annarra. Það hafi honum hins vegar ekki tekist.

 

Sú notkun sem aðalstefnandi byggi á geti ekki talist sýnilegt ítak. Girðingin á milli umrædds lands og skógræktarinnar frá 1920 sé ekki sýnileg tilfæring í skilningi 7. gr. hefðarlaga, enda ekki reist í þágu aðalstefnanda eða forvera hans, heldur bóndans á jörðinni til verndar slægjum og gróðri. Girðing hafi verið sett upp árið 1920 og hafi verið opin til afréttar. Hafi afréttarfé af þeim sökum leitað inn á landið. Byggist það hvorki á samningi né samþykki. Aðalstefnandi telji sig hafa komið að málinu á árinu 1924, eða eftir að girðingin hafi verið reist.

 

Bent sé og á að teljist meint afnot aðalstefnanda til ítaks sé það niður fallið vegna vanlýsingar, sbr. lög nr. 113/1952.

 

Samkvæmt 7. gr. hefðarlaga nr. 46/1905 þurfi notkun sem ætlað sé að skapa afnotahefð að uppfylla sömu skilyrði og stofnun eignarhefðar. Í fyrrnefndu máli Hæstaréttar nr. 718/2013 hafi niðurstaðan verið sú að skilyrði eignarhefðar væru ekki til staðar. Samkvæmt því séu skilyrði afnotahefðar heldur ekki uppfyllt. Þá beri að hafa í huga að í umræddu dómsmáli hafi aðalstefnandi ekki gert kröfu um viðurkenningu á beitarafnotarétti fyrir afnotahefð. Hafi það fyrst verið í ágúst 2017, tæplega þremur og hálfu ári eftir uppkvaðningu dóms Hæstaréttar, að aðalstefnandi hafi ákveðið að viðhalda ágreiningi aðila með því að byggja nú á afnotahefð í stað eignarhefðar áður. Þó verði að skilja dóm Hæstaréttar þannig að skilyrði afnotahefðar séu ekki uppfyllt. Þá hafi aðalstefndi á árinu 2010 bannað aðalstefnanda öll not af umræddum hluta jarðarinnar. Hafi aðalstefnandi átt einhvern afnotarétt byggðan á hefð sé hann fallin niður fyrir tómlæti.

 

V.

Í gagnsök vísar gagnstefnandi til þess að gagnstefndi og aðilar á hans vegum hafi annars vegar heimilað afréttarmönnum að láta fé, sem rási af fjalli síðustu vikurnar fyrir leitir og réttir, safnast á landi jarðarinnar og vera þar á beit þar til það sé rekið til réttar og hins vegar að reka safnið af fjalli inn á land jarðarinnar og hafa það þar á beit í eina nótt þar til það sé rekið til Þverárréttar. Hafi menn á vegum gagnstefnda í þessu skyni opnað hlið á landi Króks og haldið þeim opnum, jafnvel gegn vilja og banni gagnstefnanda. Gagnstefnandi sé þinglesinn eigandi jarðarinnar Króks og engar kvaðir hvíli á henni sem lúti að greindum athöfnum gagnstefnda og hans manna. Vegna þessara einhliða aðgerða gagnstefnda hafi gagnstefnandi lögvarða hagsmuni af því að fá dóm á hendur gagnstefnda þar sem viðurkennd séu réttindi hans yfir jörðinni. Sé þetta meðal annars nauðsynlegt til að koma í veg fyrir ágang kvikfjár á vegum gagnstefnda, en jörðin Krókur sé skógræktarjörð og því sérstaklega viðkvæm fyrir slíku.

 

Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að gagnstefndi eigi rétt til að reka fé til réttar um land Króks að hausti sé þess krafist að sá réttur takmarkist við varakröfuna, þ.e. að reka féð viðstöðulaust um óræktað land Króks án dvalar á landinu. Gagnstefnandi telji þó að slíkan rétt verði að tímabinda þannig að hann falli niður að loknum fjallskilum 2020, þar sem allt land Króks verði þá tekið til skógræktar. Þau not gagnstefnanda útrými hugsanlegum rétti gagnstefnda til að reka fé um land jarðarinnar til réttar að hausti.

 

VI.

Gagnstefndi vísar til þess í gagnsök að hann telji sig hafa fært rök fyrir því að hann hafi unnið fyrir hefð beitarafnot af því landi Króks sem um ræðir. Í slíkum rétti felist eðli málsins samkvæmt heimild til að reka sauðfé um það sama land. Sé og vísað til þeirra sömu sjónarmiða í gagnsök.

 

Á það sé bent að dómkröfur gagnstefnanda í gagnsök miði að því að koma í veg fyrir að gagnstefndi og einstakir upprekstraraðilar geti rekið fjársafn af fjalli í gegnum jörðina Krók. Um sé að ræða rekstrarleið sem hafi verið notuð allt frá árinu 1959. Nánar tiltekið sé safnið rekið yfir Þverárdal og niður með Litlu-Þverá í gegnum Krók, Hermundarstaði og fleiri jarðir. Aðrar rekstrarleiðir af fjalli komi ekki til greina og séu beinlínis hættulegar mönnum og skepnum.

 

Hvað sem öllum beitarrétti líði í landi Króks þá hafi gagnstefndi hefðað rétt til þess að reka fjársafnið af afrétti í gegnum land jarðarinnar. Sé hefðartími fullnaður hvort heldur miðað sé við 7. gr. eða 8. gr. hefðarlaga nr. 46/1905. Jafnframt sé vísað til 9. gr. fjallskilasamþykktar gagnstefnda, Borgarbyggðar, og fleiri sveitarfélaga frá 14. júlí 2015, en þar sé tekið fram að heimilt sé að reka fé á afrétt í gegnum heimalönd gerist þess þörf. Sé samþykkt þessi sett með heimild í lögum nr. 21/1986 um afréttarmálefni, fjallskil o.fl. Styðjist réttur gagnstefnda til að nýta framangreinda rekstrarleið við þessi lög. Hagnýting afrétta sé víðast háð þeirri grundvallarforsendu að heimilt sé að reka fjársöfn í gegnum heimalönd. Verði jarðeigendum játuð heimild til að loka fornum rekstrarleiðum væri nýting afrétta í uppnámi.

 

Á því sé byggt að gagnstefnanda hafi verið fullkunnugt um upprekstarleiðina og tilhögun fjárleita þegar hann hafi eignast jörðina Krók á árinu 1990. Hafi umrædd rekstrarleið og verið nýtt síðan þá í meira en aldarfjórðung.

 

VII.

Eins og áður er fram komið var með dómi Hæstaréttar uppkveðnum 3. apríl 2014, í málinu nr. 718/2013, leyst úr ágreiningi aðila máls þessa um eignarhald á hinu umþrætta landi jarðarinnar Króks. Var í dóminum fallist á kröfu eiganda Króks, aðalstefnda í máli þessu, um að þegar hann eignaðist jörðina með afsali 20. september 1990 hafi hann einnig eignast umræddan hluta jarðarinnar, enda hafi þinglýst afsal hans útrýmt þeim eldri óþinglýstum rétti til landsins sem sveitarfélagið hefði byggt rétt sinn á, sbr. 2. mgr. 29. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978, og ekkert lægi fyrir um grandsemi hans um þann samning. Þá hefði sveitarfélaginu, að virtum þeim notum sem það eða forveri þess hefði haft af hinu umþrætta landi, ekki tekist sönnun þess að það hefði frá þeim tíma er jörðinni var afsalað til aðalstefnda unnið eignarhefð að landinu í skilningi 1. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð. Byggir aðalstefnandi kröfur sínar í máli þessu á því að þrátt fyrir framangreinda niðurstöðu Hæstaréttar hafi hann unnið beitarafnot af landinu fyrir hefð á grundvelli ákvæðis í 7. gr. tilvitnaðra laga um afnotahefð eða á grundvelli 8. gr. um hefð á ósýnilegum ítökum, beit, reka o.s.frv.

 

Með hliðsjón af gögnum málsins og rökstuðningi Hæstaréttar í tilvitnuðum dómi verður að telja að aðalstefndi og forveri hans hafi í raun talið til beins eignarréttar yfir hinu umþrætta landi á grundvelli hins óþinglýsta samnings við þáverandi eiganda Króks, Brynjólf Bjarnason, allt þar til þinglýst afsal aðalstefnda útrýmdi þeim rétti á árinu 1990. Í dóminum kemur og fram að óumdeilt sé að umrætt land hafi verið nýtt sem afréttarland af hálfu aðalstefnanda og áður af forvera hans, Upprekstrarfélagi Þverárréttar. Þá verður og ráðið af öðrum gögnum, þ. á m. bréfi aðalstefnda til stjórnar Veiðifélags Norðurár, dags. 25. júlí 1995, að hið umþrætta land hafi verið notað sem afréttarland fyrir Þverárrétt. Liggur og fyrir að girðing sú, sem liggur á mörkum heimalands Króksjarðarinnar og hins umþrætta lands, og aðalstefndi telur í aðilaskýrslu sinni að sett hafi verið upp á árinu 1920 í því skyni að afmarka heimalandið frá því landi sem nýtt var sem beitiland, hefur verið þar samfellt síðan og er þar enn. Að framangreindu virtu verður ekki annað ráðið en að umrætt land hafi verið notað samfellt og átölulaust sem beitarland fyrir sauðfé í þágu Upprekstrarfélags Þverárréttar allt frá framangreindum kaupum á landinu á árinu 1924 og á grundvelli þeirra allt til ársins 2010, en fyrir liggur að í febrúar það ár lagði aðalstefndi bann við notum aðalstefnanda á landinu, án þess að því hafi í öllu verið sinnt. Verður því á það fallist með aðalstefnanda að fullnægt sé áskilnaði 1. mgr. 2. gr., sbr. 8. gr., laga nr. 46/1905 og að hann hafi því öðlast beitarafnotarétt að umræddu landi fyrir hefð. Verður í því sambandi ekki talið skipta máli þótt upprekstrarfélagið hafi ekki lýst ítaki í umrætt landsvæði á grundvelli 4. gr. laga nr. 113/1952 um lausn ítaka af jörðum, enda mátti félagið þá með réttu líta svo á að það ætti í raun beinan eignarrétt að svæðinu á grundvelli samningsins frá 1924.

 

Með hliðsjón af framangreindri niðurstöðu í aðalsök málsins um að aðalstefnandi eigi beitarafnotarétt að umræddu landi Króks felst í þeim rétti, eðli málsins samkvæmt, heimild til að reka sauðfé um það sama land. Á sama hátt felur sá réttur einnig í sér að ekki er unnt að taka til greina varakröfu gagnstefnanda í gagnsökinni um að viðurkennt verði að gagnstefnda, Borgarbyggð, eða aðilum á vegum Borgarbyggðar séu óheimil önnur not af landi jarðarinnar Króks en að reka fé, sem kemur af fjalli að hausti, um óræktað land Króks viðstöðulaust án dvalar í landi jarðarinnar næstu þrjú árin, eða til og með 2020. Verður því að sýkna gagnstefnda bæði af aðalkröfu og varakröfu gagnstefnanda í gagnsök.

 

Aðalstefndi greiði aðalstefnanda 800.000 krónur í málskostnað.

 

Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

Viðurkenndur er réttur aðalstefnanda, Borgarbyggðar, til beitarafnota af þeim hluta jarðarinnar Króks í Borgarbyggð, landnúmer 134817, sem óþinglýstur samningur Brynjólfs Bjarnasonar og Upprekstrarfélags Þverárréttar 26. maí 1924 tekur til.

 

Gagnstefndi, Borgarbyggð, er sýkn af kröfum gagnstefnanda, Gunnars Jónssonar, í gagnsök.

 

Aðalstefndi, Gunnar Jónsson, greiði aðalstefnanda 800.000 krónur í málskostnað.