Print

Mál nr. 537/2016

Samband íslenskra sparisjóða (Tómas Jónsson hrl.)
gegn
Íslandsbanka hf. (Jóhannes Karl Sveinsson hrl.)
Lykilorð
  • Lífeyrisréttindi
  • Sparisjóður
Reifun
S hefur frá 1999 haft umsjón með lífeyrissparnaði sparisjóðanna samkvæmt II. kafla laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og hefur samstarfsverkefnið verið rekið undir heitinu Lífsval. Eftir sameiningu Í hf. og sparisjóðsins B hf. ákvað Í hf. að flytja réttindi viðskiptamanna B hf. úr Lífsvali yfir í eigin lífeyrissparnað. S krafði Í hf. um greiðslu svokallaðs flutningsgjalds að fjárhæð 1% af lífeyrisréttindum á grundvelli þess samnings sem lá til grundvallar samstarfi sparisjóðanna um Lífsval. Var talið að ákvæði samningsins ætti samkvæmt orðanna hljóðan við þegar lífeyrisréttindi viðskiptamanns sparisjóðs væri flutt til annars fjármálafyrirtækis að hans ósk en ekki þegar fjármálafyrirtæki drægi sig úr samstarfi um lífeyrissparnað. Þá var ekki talið sannað að með aðilum hefði komist á munnlegur samningur um að Í hf. hefði borið að greiða S sérstakt gjald vegna þess að Í hf. hætti samstarfinu við S. Var Í því sýknað af kröfu S.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingibjörg Benediktsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. júlí 2016. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér aðallega 80.636.889 krónur, en til vara 72.295.714 krónur, í báðum tilvikum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. júlí 2014 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandi hefur ekki sannað að með aðilum hafi komist á munnlegur samningur um að stefnda hafi borið að greiða áfrýjanda sérstakt gjald vegna þess að stefndi hætti samstarfi við áfrýjanda um lífeyrissparnað. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Samband íslenskra sparisjóða, greiða stefnda, Íslandsbanka hf., 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

                                                        

 

  

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. apríl 2016.

Mál þetta er höfðað með stefnu birtri 31. ágúst 2015 og dómtekið 11. apríl sl. að lokinni aðalmeðferð. Stefnandi er Samband íslenskra sparisjóða, Borgartúni 35, Reykjavík. Stefndi er Íslandsbanki hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík.

                Endanleg krafa stefnanda er að stefndi verði aðallega dæmdur til að greiða stefnanda 80.636.889 krónur, en til vara 72.295.714 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. júlí 2014 til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar.

                Stefndi krefst sýknu auk málskostnaðar.

Helstu ágreiningsefni aðila

                Stefnandi er heildarsamband íslenskra sparisjóða og hefur frá árinu 1999 haft umsjón með lífeyrissparnaði sparisjóðanna, samkvæmt II. kafla laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sem rekin hefur verið undir heitinu „Lífsval“. Stefndi sameinaðist Byr hf. 29. nóvember 2011, en Byr hf. var áður sparisjóðurinn Byr og sem slíkur þátttakandi í umræddu samstarfi sparisjóðanna um lífeyrissparnað. Eftir sameiningu stefnda og Byrs hf. ákvað stefndi að flytja réttindi viðskiptamanna úr „Lífsvali“ yfir í eigin lífeyrissparnað.

Lagalegur ágreiningur aðila lýtur að því hvort stefnda hafi borið skylda til að greiða svonefnt flutningsgjald að fjárhæð 1% af lífeyrisréttindum til stefnanda, á grundvelli þess samnings sem lá til grundvallar samstarfi sparisjóðanna um Lífsval. Ágreiningur aðila um atvik málsins lýtur einkum að viðræðum aðila  haustið 2011 og í byrjun árs 2012 og þá að því hvort stefnandi hafi þá haft uppi kröfu um að flutningsgjaldið yrði greitt ef stefndi hætti þátttöku í Lífsval. Ekki er uppi tölulegur ágreiningur í málinu.

Yfirlit málsatvika

Hinn 20. janúar 1999 staðfesti fjármálaráðherra reglur um lífeyrissparnað fyrir 26 sparisjóði, meðal annars fyrir þá sparisjóði sem síðar urðu að sparisjóðnum Byr. Um er að ræða sparnaðarform sem í daglegu máli eru nefndur „viðbótarlífeyrissparnaður“ eða „séreignasparnaður“ og lýtur II. kafla fyrrnefndra laga nr. 129/1997. Allir sparisjóðir landsins, að frátöldum SPRON, munu hafa boðið fram umræddan viðbótarlífeyrissparnað undir vörumerkinu Lífsval sem var í eigu stefnanda. Hver og einn sparisjóður var þó vörsluaðili fyrir rétthafa sína og starfaði samkvæmt sjálfstæðum reglum, sbr. 10. gr. laga nr. 129/1997.

Í umræddum reglum sparisjóðanna var frá upphafi gert ráð fyrir því að viðskiptamaður gæti sagt upp samningi um lífeyrissparnað með ákveðnum fyrirvara og flutt innistæðu til annars aðila, þ.e. annars fjármálafyrirtækis, sem gæti boðið upp á samning af þessi tagi. Jafnframt var þá gert ráð fyrir því að kostnaður því samfara færi að gildandi gjaldskrá sparisjóðsins við flutninginn. Í leiðbeinandi verðskrá stefnanda, lið 1.2.8., frá 1. janúar 2011, sem í gildi var þegar atvik málsins áttu sér stað, sagði að þóknun vegna flutnings innstæðu til annars fjármálafyrirtækis væri 1% en að lágmarki 5.000 krónur.

Svo sem áður greinir er Lífsval skráð vörumerki í eigu stefnanda og með kennitölu til aðgreiningar í reikningslegu tilliti. Lífsval er hins vegar ekki sjálfstæður lögaðili og heyrir því til rekstrar stefnanda. Fyrir liggur að stofnað var til Lífsvals með það fyrir augum að einstakir sparisjóðir gætu boðið viðskiptamönnum upp á viðbótarlífeyrissparnað í eigin nafni en undir sameiginlegu vörumerki sparisjóðanna. Ekki er um það deilt að það fé sem viðskiptamenn einstakra sparisjóða greiddu rann til hlutaðeigandi sparisjóðs, þó þannig að þegar viðskiptamenn fjárfestu í verðbréfum (svonefndri „verðbréfaleið“) var um að ræða sameiginlega sjóði sparisjóðanna og átti þá hver sparisjóður hlutdeild að tiltölu við áunnin réttindi viðskiptamanna sinna.

Stefnandi hafði frá upphafi umsjón með rekstri Lífsvals, þó þannig að ýmsum verkefnum var útvistað, þ. á m. til tiltekinna sparisjóða. Þannig liggur fyrir að T Plús hf. sinnti bakvinnslu, þ.m.t. færslu fjárhagsbókhalds, réttindabókhalds, skýrslugerð, gerð yfirlita o.fl., samkvæmt sérstökum samningi 15. apríl 2011. Sinnti stefnandi þannig samskiptum við einstaka viðskiptamenn eftir að samningur hafði komist á að tilhlutan tiltekins sparisjóðs. Stefnandi sá um markaðssetningu, kom fram gagnvart opinberum aðilum, gaf út leiðbeinandi verðskrá o.fl. Samkvæmt því sem fram kom í skýrslum við aðalmeðferð málsins var þessi rekstur ekki fjármagnaður með reglulegum árgjöldum stefnanda heldur með sérstöku gjaldi sem tók mið af hlutdeild hvers og eins sparisjóðs í Lífsval. Af hálfu stefnanda er lögð á það áhersla að framgreint flutningsgjald hafi meðal annars átt að fjármagna rekstur stefnanda vegna Lífsvals og mæta breytingum á tekjustofni stefnanda ef réttindi væru flutt úr Lífsvali.

Samkvæmt þeim samningi stefnanda og T Plús hf., sem áður greinir, á innheimta flutningsgjalds að vera framkvæmd með þeim hætti að þegar rétthafi óskar eftir flutningi úr Lífsvali skal beiðni þar um send T Plús hf., sem þjónustuaðila Lífsvals, sem sér um framkvæmd flutningsins. Segir í stefnu að flutningur hafi verið framkvæmdur með þeim hætti að T Plús hf. annist útreikning á þóknunum og gjöldum samkvæmt verðskrá Lífsvals af eignum rétthafa og leggi inn á sérstakan reikning í eigu stefnanda, merktan Lífsvali. Þá annist T Plús hf. innheimtu af kostnaði vegna flutnings til þriðja aðila og leggi inn á kostnaðarreikning í eigu stefnanda. Séu eignir rétthafa þannig millifærðar úr Lífsvali að frádregnu flutningsgjaldi sem sé millifært inn á reikning í eigu stefnanda. Að flutningnum loknum er skilagrein útbúin þar sem flutningsgjaldið er tilgreint.

Eftir samruna stefnda og Byrs hf. þann 29. nóvember 2011 hófust viðræður um afstemmingu eigna og skulda þeirra rétthafa sem voru með samning um lífeyrissparnað við Byr. Hinn 23. febrúar 2012 undirrituðu stefndi og stefnandi, ásamt Landsbankanum hf., staðfestingu á skiptingu á réttindum og eignasafni Lífsvals. Í skjalinu er uppskipting á réttindum og eignasafni Lífsvals milli stefnanda, stefnda og Landsbankans vegna hlutabréfa- og skuldabréfaáherslu Lífsvals staðfest í ákveðnum hlutföllum. Þá segir í 2. gr. samkomulagsins að greint skuli á milli rétthafa Lífsvals sparisjóðanna annars vegar og svo rétthafa stefnda (áður Byr) hins vegar í lífeyriskerfinu Jóakim. Rétthafar Landsbankans (áður SpKEF) færist til Landsbankans eftir undirskrift staðfestingarinnar. Einnig kom fram að eignasafni hverrar leiðar skyldi skipt á milli sömu þriggja aðila. Þá sagði að innlánsreikningum skyldi lokað svo áfallnir vextir og verðbætur fengjust greiddar út og heildarfjárhæðinni að því loknu skipt eftir skiptihlutföllum og hver hluti lagður inn á innlánsreikning sem hver vörsluaðili tilgreindi. Að síðustu var í greininni einnig fjallað um skiptingu skulda milli umræddra þriggja aðila þar sem neikvæður munur væri á milli skulda (útgefinna réttinda) og eigna leiðanna. Ekki er um það deilt að eftir undirritun samkomulagsins var sá hluti eignasafnsins sem tilheyrði stefnda fluttur úr kerfi Lífsvals yfir á vörslureikninga hjá stefnda, en líkt og síðar greinir telur stefnandi að þetta hafi alfarið verið einhliða ákvörðun stefnda sem ekki hafi haft neina stoð í umræddu samkomulagi.

Hinn 1. mars 2012 sendi stefndi þeim viðskiptavinum sínum, sem voru rétthafar samkvæmt samningi um lífeyrissparnað Lífsvals, bréf þar sem hann tilkynnti að hann hygðist flytja eignir viðskiptavina úr Lífsvali yfir í eigin lífeyrissparnað í þeim tilgangi að samræma vöruframboð og bæta þjónustu í viðbótarlífeyrissparnaði. Myndu iðgjöld eftir 23. mars 2012 því renna til lífeyrissparnaðar stefnda þannig að samræmdist best eldri fjárfestingarleið Lífsvals nema viðskiptamaður óskaði eftir annarri ráðstöfun. Hinn 3. apríl 2012 færði stefndi svo eignir þeirra viðskiptamanna, sem gert höfðu samning um lífeyrissparnað við Byr og voru í svokallaðri „Verðtryggðri innlánsleið“, úr Lífsvali og yfir í eigin viðbótarlífeyrissparnað. Í skýrslum við aðalmeðferð málsins kom fram að T Plús hf. hefði séð um flutning réttindanna úr kerfum Lífsvals. Þá kom jafnframt fram að stefndi hefði greitt fyrirtækinu beint fyrir þetta verk.

Samkvæmt því sem fram kemur í stefnu átti fyrirsvarsmaður stefnanda fund með starfsmönnum stefnda í júní 2013 þar sem málið var kynnt og óskað upplýsinga um það af hverju stefndi hafði ekki staðið skil á flutningsgjaldi til stefnanda. Hinn 6. desember 2013 átti stefnandi enn fundi með fulltrúum stefnda og gerði grein fyrir þeim sjónarmiðum að stefnda bæri skylda til að innheimta greiðslu á flutningsgjaldi vegna flutnings viðskiptavina og standa skil á því til stefnanda. Í kjölfar fundarins sendi yfirlögfræðingur stefnda tölvupóst til stefnanda 13. desember 2013, þar sem stefndi upplýsti að hann teldi ekki forsendur fyrir greiðsluskyldu stefnda. Hinn 16. desember 2013 sendi stjórnarformaður stefnanda tölvupóst til stefnda þar sem stefnandi færði frekari rök fyrir greiðsluskyldu stefnda og með tölvupósti 28. janúar 2014 ítrekaði stefndi að hann hafnaði greiðsluskyldu. Ekki er ástæða til að gera frekari grein fyrir tilraunum aðila til að leysa ágreining sinn utan réttar.

                Við aðalmeðferð málsins komu fyrir dóm sem vitni, Haraldur Úlfarsson, starfsmaður stefnanda, Gísli Jafetsson, framkvæmdastjóri og fyrrverandi starfsmaður stefnanda, Ragnar Birgisson, framkvæmdastjóri og fyrrverandi stjórnarmaður stefnanda, Jón Finnbogason, forstöðumaður og fyrrverandi framkvæmdastjóri Byrs hf., Kjartan Smári Höskuldsson, starfsmaður stefnda, Jón Tryggvi Jökulsson, starfsmaður Arion banka hf. áður sparisjóðs Siglufjarðar, Ingi Steinar Ellertsson, forstöðumaður T Plús hf. og Svanfríður Pétursdóttir, starfsmaður við bakvinnslu hjá Premíu hf.

Helstu málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á því að komist hafi á samningur milli sparisjóða, sem eru og voru aðilar að samstarfssamningi um Lífsval, og stefnda, sem varð aðili að samningnum eftir samruna við Byr hf., áður sparisjóðurinn Byr. Beri stefnda skylda til greiðslu flutningsgjalds til stefnanda vegna tveggja nánar tilgreindra flutninga afmarkaðs hóps viðskiptavina í febrúar og apríl 2012 á grundvelli þessa samnings. Grundvallar stefnandi kröfu sína þannig á þeirri meginreglu íslensks réttar að munnlegur samningur sé jafngildur skriflegum og að samningar skuli standa. Skipti því ekki máli þótt samstarfssamningur sparisjóðanna um Lífsval hafi ekki verið skriflegur. Fyrir liggi að sparisjóðirnir höfðu með sér samstarf um lífeyrissparnað frá 1999 og á árunum 2004 til 2005 hafi samstarfið orðið formfastara undir vörumerkinu Lífsval sem sé í eigu stefnanda. Einnig liggi fyrir að fulltrúar forvera stefnda hafi verið viðstaddir umfjöllun um Lífsval á stjórnarfundum stefnanda.

Stefnandi vísar til þess að hann hafi haft umsjón með ýmsum verkefnum vegna Lífsvals, komið fram fyrir hönd aðila að Lífsvali gagnvart opinberum aðilum, svo sem Ríkisskattstjóra og Fjármálaeftirlitinu, og gert samninga við þriðju aðila um ýmis verkefni vegna Lífsvals, sbr. t.d. þjónustusamning stefnanda og T-plús, þar sem stefnandi útvistaði tilteknum verkefnum, fyrir hönd þeirra sparisjóða sem eru aðilar að Lífsvali, til T-plús. Telur stefndi því óumdeilt að í gildi sé samningur milli sparisjóðanna um samstarf um Lífsval þar sem stefnanda eru falin tiltekin verkefni. Er þessu til stuðnings vísað til áralangrar athugasemdalausrar framkvæmdar og 6. gr. í samþykktum stefnanda þar sem beinlínis segi að stefnandi eigi að vera vettvangur fyrir samstarfsverkefni sparisjóðanna.

Hvað varðar einstök efnisatriði samningsins um aðild að Lífsvali þá telur stefnandi að í verki hafi, á þeim tíma þegar umræddir flutningar áttu sér stað, verið tekin af öll tvímæli um að kominn væri á samningur milli aðila. Hann hafi verið með þeim skilmálum að greiða ætti 1% flutningsgjald vegna flutnings eigna viðskiptavina úr Lífsvali og aðilum að samningnum um Lífsval bæri skylda til að standa skil á flutningsgjaldinu til stefnanda. Í fyrsta lagi byggir stefnandi á því að í verðskrá sparisjóðanna, sem stefnandi hafði umsjón með, sé mælt fyrir um að viðskiptamenn sem óski eftir flutningi úr Lífsvali skuli greiða 1% þóknun vegna flutningsins en að lágmarki 5.000 krónur af innstæðu sem flutt er til annars fjármálafyrirtækis. Fái þetta enn frekari stoð í þeim skilmálum sem gildi í samningum viðskiptavina við sparisjóði vegna Lífsvals en þar komi fram að viðskiptavinir skuli greiða flutningsgjald við flutning úr Lífsvali.

Í öðru lagi byggir stefnandi á tilgangi flutningsgjaldsins, en því sé m.a. ætlað að bæta tekjutap samstarfsverkefnisins vegna flutnings viðskiptavina úr Lífsvali, hvort heldur sem er til annarra vörsluaðila eða ekki, og mæta þeim kostnaði sem stefnandi hafði þegar stofnað til vegna Lífsvals. Ef tekjur hafi verið umfram kostnað hafi þær verið notaðar í markaðssetningu og uppbyggingarstarf Lífsvals. Ef kostnaður hafi verið umfram tekjur hafi aðilar að verkefninu borið þann kostnað. Þessu til stuðnings vísar stefnandi til 2. mgr. 6. gr. í samþykktum stefnanda þar sem segir að samstarfsverkefni skuli kostuð að fullu af þeim sparisjóðum sem taka þátt í þeim.

Í þriðja lagi byggir stefnandi á því að við túlkun samningsins um aðild að Lífsvali, og þegar horft sé til skuldbindinga stefnda eftir samruna við Byr hf., verði að taka mið af áralangri athugasemdalausri framkvæmd við innheimtu og greiðslu flutningsgjaldsins inn á reikning stefnanda. Þar með talinn sé sá tími eftir að stefndi sameinaðist Byr hf. og í aðdraganda þess að stefndi flutti eignir rétthafa einhliða úr Lífsvali. Eftir brotthvarf stefnda úr Lífsvali hafi framkvæmdin haldist óbreytt. Þannig telur stefnandi að leggja verði til grundvallar að í verki hafi verið tekin af öll tvímæli um að kominn væri á samningur milli aðila með þeim skilmálum að innheimta ætti 1% flutningsgjald og ráðstafa til stefnanda. Þessu til stuðnings liggi einnig fyrir að framkvæmd við innheimtu, ráðstöfun og greiðslu 1% flutningsgjalds vegna viðskiptavina stefnda, eftir samruna við Byr, hafi verið hagað í samræmi við efni þess samnings sem stefnandi hafi lýst. Vísar stefnandi í þessu sambandi til gagna sem sýni flutninga lífeyrisréttinda á tímabilinu eftir að stefndi yfirtók réttindi og skyldur Byrs hf., þ.e. frá því samruninn var samþykktur 29. nóvember 2011 og fram að þeim tíma er stefndi loks framkvæmdi einhliða flutning á eignum hóps rétthafa úr Lífsvali, 22. febrúar og 3. apríl 2012, þegar greitt hafi verið flutningsgjald. Þá liggi fyrir að framkvæmdin hafi haldist óbreytt hjá öðrum aðilum að Lífsvali.

Einnig liggi fyrir að stefndi gerði hvorki athugasemdir við verðskrá Lífsvals né framkvæmd á innheimtu flutningsgjaldsins eftir að hann tók yfir réttindi og skyldur Byrs hf. Hafi hann þar með orðið aðili að samningnum um Lífsval við samruna við Byr hf. hinn 29. nóvember 2011. Þvert á móti sýni ofangreind yfirlit að stefndi staðfesti umrædda framkvæmd og flutningsgjald var innheimt af viðskiptavinum stefnda, eftir samruna við Byr, sem fluttu sig frá Lífsvali.

Í þessu samhengi er einnig vísað til þess að stefnandi hafi gert samkomulag við Landsbankann hf. vegna sambærilegra flutninga og í máli þessu, þ.e. í kjölfar samruna Landsbankans og starfandi sparisjóða.

Stefnandi mótmælir því að það hafi þýðingu í málinu að beiðni um flutning kemur frá vörsluaðila en ekki viðskiptamanni. Vísar hann til þess að flutningsgjaldinu er ætlað að bæta tekjutap vegna flutnings rétthafa úr Lífsvali og mæta þeim kostnaði sem stefnandi hefur þegar stofnað til vegna Lífsvals. Leiðir af þeirri ástæðu að enginn greinarmunur sé gerður á því hvort beiðni um flutning komi frá rétthafa sjálfum eða frá aðila að Lífsvali. Uppsögn eða flutningur vörsluaðila leiði eðli málsins samkvæmt til meira tjóns fyrir Lífsval og stefnanda, sem umsjónaraðila Lífsvals, heldur en flutningur einstaks rétthafa hverju sinni. Af því leiðir að enn mikilvægara er fyrir stefnanda að fá greitt flutningsgjald til að mæta þeim kostnaði sem þegar hefur verið stofnað til og því tekjutapi sem leiðir óhjákvæmilega af slíkum flutningi. Samningurinn um aðild að Lífsvali hafi því engan greinarmun gert á því hvaða aðili óskaði eftir flutningnum.

Stefnandi mótmælir því einnig að samkomulagið 23. febrúar 2012 hafi falið í sér endanlegt uppgjör milli aðila um flutning rétthafa frá Lífsvali til stefnda. Samkomulagið feli aðeins í sér staðfestingu tiltekinna aðila um uppskiptingu á tilteknum réttindum og ákveðnum undirliggjandi eignum í Lífsvali. Þá er vísað til þess að flutningur umræddra réttinda hafi verið framkvæmdur einhliða af stefnda, án þess að gert væri nokkuð samkomulag við stefnanda, og hafi því ekki falist í aðgerðinni nein viðurkenning af hálfu stefnanda. Kemur í þessu sambandi fram að flutningurinn sem framkvæmdur var 3. apríl 2012 hafi í raun verið einhliða innri færsla á milli reikninga stefnda, en ekki flutningur á milli tveggja ólíkra vörsluaðila.

Helstu málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi mótmælir því að fyrir hafi legið samningur um að greiða skyldi áðurlýst flutningsgjald við þær aðstæður sem uppi eru í málinu. Hann bendir á að rétthafar hafi gert samninga við sparisjóðinn Byr um tryggingavernd, sbr. heimild í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 129/1997. Við samruna Byrs og stefnda hafi stefndi orðið vörsluaðili réttinda rétthafa. Við samrunann hafi legið ljóst fyrir að stefndi hugðist sameina lífeyrisréttindi undir einn hatt og þar með myndi stefndi hætta í samstarfi sparisjóðanna um Lífsval. Með því hafi ekki átt sér stað færsla réttinda milli vörsluaðila, stefndi hafi einungis hætt að notast við vörumerkið Lífsval og hætt í öðru samstarfi þar um. Að öðru leyti hafi það verið réttaráhrif samrunans sem leiddu til breytinganna.

Stefndi telur raunar ekki fullljóst hvort stefnandi byggi á því að stefnda hafi verið skylt að innheimta flutningsgjöld af viðskiptamönnum sínum vegna flutninganna og greiða stefnanda eða hvort byggt sé á því að stefnda hafi borið að greiða flutningsgjaldið úr eigin vasa. Hvorugt getur þó átt við. Að því er varðar grein 1.2.8 í leiðbeinandi verðskrár sparisjóðanna sé henni beint til viðskiptavina sparisjóðanna sem verð fyrir veitta þjónustu. Sá flutningur sem stefnandi byggir kröfur sínar á hafi ekki verið flutningur að beiðni viðskiptavina heldur hafi hann staðið í tengslum við samruna stefnda og Byrs. Þannig eigi yfirfærsla réttindanna yfir í lífeyrisþjónustu stefnda ekkert skylt við framkvæmdina sem sé viðhöfð þegar rétthafi óskar þess að flytja eignir sínar í annan lífeyrissjóð sem viðkomandi hafi gert samning við. Þá er ekki unnt að fallast á að flutningurinn hafi verið til annars fjármálafyrirtækis enda hafi stefndi yfirtekið allar eignir og skuldir Byrs þegar við samruna félaganna. 

Í þessu samhengi bendir stefndi á að samkvæmt 9. gr. laga nr. 129/1997 skuli allir skilmálar varðandi viðbótartryggingavernd koma fram í samningi um slíka vernd. Hafi átt að leggja á viðskiptamenn sérstakt gjald vegna innbyrðis flutnings hefði þurft að taka það skýrt fram. Lögð sé áhersla á að stefnandi hafi séð um samningu þeirra reglna sem giltu í samstarfi sparisjóðanna sem voru samræmdar hjá samstarfsaðilum. Stefndi telur því alveg ljóst að ekki hafi verið unnt að innheimta flutningsgjald á grundvelli þessara samningsákvæða vegna flutnings eigna í lífeyrisþjónustu stefnda.

Að því er varðar áralanga athugasemdalausa framkvæmd við innheimtu og greiðslu flutningsgjaldsins inn á reikning stefnanda vísar stefndi til þess að þessi framkvæmd lúti að því þegar viðskiptavinir óska flutnings úr Lífsvali. Þetta eigi einnig við um þær færslur viðskiptavina Byrs sem voru framkvæmdar eftir sameiningu við stefnda. Í þessum tilvikum hafi ósk um flutning komið fram áður en varð af sameiningu og hafi þær því enga þýðingu fyrir niðurstöðu málsins. Loks getur stefndi ekki séð að meint greiðsla Landsbankans á þóknun vegna flutnings hafi þýðingu í þessu máli.

Að því er varðar tilgang flutningsgjaldsins og tekjutap stefnanda telur stefndi engar haldbærar röksemdir komnar fram um að samið hafi verið svo um að þátttakendur í Lífsvali ættu að bæta tekjutap stefnanda eða að flutningsgjaldið hafi átt að gegna hlutverki í því sambandi. Í því samhengi bendir stefndi á að flutningsgjaldinu hafi m.a. verið ætlað að standa undir kostnaði vegna markaðssetningar og uppbyggingarstarfs Lífsvals. Þannig hafi stefnanda verið ætlað að sinna ýmsum verkefnum fyrir samstarfsaðila vegna Lífsvals, m.a. í því skyni að laða að fleiri viðskiptavini. Þar sem stefndi sé ekki aðili samstarfsins séu engin rök fyrir því að hann þurfi að bæta einhvers konar tekjutap stefnanda til framtíðar. Þá hafi enginn kostnaður myndast vegna tilfærslunnar og engar upplýsingar liggi fyrir um að stefndi sé í annars konar skuld við stefnanda.

Stefndi bendir á að ekki hafi verið samið um greiðslu flutningsgjald vegna ákvörðunar stefnda um að hætta þátttöku í samstarfi sparisjóðanna og hætta að notast við vörumerkið Lífsval. Hvergi sé því að finna stoð fyrir slíkri skuldbindingu. Að sama skapi hafi hvergi verið getið sérstaks flutningsgjalds í samkomulagi aðila um skiptingu á réttindum og eignasafni Lífsvals. Frá samruna stefnda og Byrs hafi legið ljóst fyrir að umrædd lífeyrisréttindi flyttust yfir í fjárfestingarleiðir lífeyrisþjónustu hjá stefnda. Viðræður hafi staðið á milli aðila frá 29. nóvember 2011 og hafi afstemmingu lokið í febrúar 2012 og samkomulag undirritað hinn 23. febrúar 2012 um uppgjör vegna réttinda rétthafanna. Stefndi byggir á því að með samkomulaginu hafi aðilar samið endanlega um það hvernig uppgjör færi fram vegna færslu réttinda rétthafa stefnda úr Lífsvali. Stefndi telur að stefnandi þurfi að bera hallann af því að hafa ekki tiltekið í samkomulaginu að sérstök greiðsla skyldi innt af hendi vegna flutnings réttindanna hafi stefnandi talið sig eiga tilkall til hennar. Tómlætis- og aðgerðarleysisverkanir leiði til sömu niðurstöðu, en gera eigi ríka kröfu til þess að aðili eins og stefnandi geri tafarlaust grein fyrir kröfum sínum eða fyrirvörum.

Af framansögðu telur stefndi ljóst að enginn lagagrundvöllur sé til greiðslu flutningsgjaldsins, hvorki þannig að stefnda hafi borið skylda til að innheima það hjá viðskiptavinum vegna samningsskuldbindingar við stefnanda né þannig að stefnda hafi borið að greiða það á öðrum forsendum.

Niðurstaða

Í máli þessu er óumdeilt að með samruna Byrs hf. og stefnda 29. nóvember 2011 tók sá síðarnefndi yfir réttindi og skyldur félagsins gagnvart stefnanda, þ. á m. vegna þátttöku hans í fyrrgreindu samstarfi sparisjóðanna um lífeyrissparnað sem rekið var á vegum stefnanda undir heitinu „Lífsval“. Í málinu liggja fyrir reglur um lífeyrissparnað sparisjóðanna, þ. á m. sparisjóðsins Byrs, frá 1999 og 2011. Gera þessar reglur ráð fyrir því að viðskiptamaður geti sagt upp samningi um lífeyrissparnað við sparisjóð með skriflegum hætti. Þar kemur einnig fram að uppsögn skuli ekki veita rétt til útborgunar innistæðu og eigi að flytja hana til annars aðila, sem geti boðið upp á samning af þessu tagi, sbr. 3. mgr. 8. gr. laga nr. 129/1997, eftir ósk viðskiptamanns, en kostnaður því samfara skuli fara að gildandi gjaldskrá spariðsjóðsins við flutning. Svo sem áður greinir er meðal gagna málsins leiðbeinandi gjaldskrá sparisjóða frá 1. janúar 2011. Segir þar í lið 1.2.8 að greiða skuli 1% en þó að lágmarki 5.000 krónur fyrir „lífeyrissparnað, flutning innistæðu til annars fjármálafyrirtækis“.

Fyrrgreind ákvæði eiga samkvæmt orðum sínum við þá aðstöðu þegar réttindi viðskiptamanns í viðbótarlífeyrissparnaði sparisjóðs eru flutt til annars aðila, þ.e. annars fjármálafyrirtækis, að hans eigin ósk. Liggur þá jafnframt fyrir að það er viðskiptamaðurinn sem greiðir gjaldið og er hann þannig látinn bera ákveðinn kostnað vegna ákvörðunar um flutning réttinda sinna. Að mati dómsins verður þessari aðstöðu ekki jafnað til þess þegar sparisjóður, eða fjármálafyrirtæki sem tekið hefur yfir réttindi og skyldur sparisjóðs gagnvart rétthafa viðbótarlífeyris, ákveður að draga sig út úr áðurlýstu samstarfi um lífeyrissparnað sem rekið er á vegum stefnanda og hætta að nota vörumerkið „Lífsval“. Nánar tiltekið verður ekki séð að við slíkar aðstæður sé um flutning lífeyrisréttinda að ræða sem skapað geti viðskiptamönnum, eða þeirri fjármálastofnun sem þeir skipta við, greiðsluskyldu með vísan til fyrrgreindrar gjaldskrár. Er ekki nægilega komið fram að myndast hafi venja um aðra og rýmri skýringu fyrrgreinds ákvæðis í leiðbeinandi gjaldskrá sparisjóðanna sem hafi bundið Byr hf. þegar félagið sameinaðist stefnda haustið 2011 þannig að skulbindandi sé fyrir stefnda.

Eins og atvikum málsins er háttað verður að líta svo á að stefndi hafi rift eða sagt upp samstarfssamningi sínum við stefnanda og hafi vilji hans í því efni legið fyrir eigi síðar en við aðdragandann að því uppgjöri aðila 23. febrúar 2012 sem áður er rakið. Málatilbúnaður stefnanda byggist ekki á því að þessi riftun, eða uppsögn, hafi verið ólögmæt með hliðsjón af fyrirliggjandi samstarfssamningi um „Lífsval“ eða bakað stefnda bótaskyldu á þeim grundvelli. Þess í stað er eingöngu vísað til fyrrgreindra ákvæða um flutning viðbótarlífeyrisréttinda milli fjármálastofnana. Líkt og áður greinir verður ekki á það fallist að þessar reglur hafi tekið til þess þegar sparisjóður, eða annað fjármálafyrirtæki sem tekið hafði yfir réttindi og skyldur sparisjóðs, ákvað að hætta í umræddu samstarfi um viðbótarlífeyrissparnað á vegum stefnanda. Að öllu virtu hefur stefnandi því ekki sýnt fram á að fyrir hafi legið samningur sem skuldbatt stefnda til umstefndrar greiðslu við þær aðstæður sem uppi eru í málinu. Eins og krafa stefnanda er sett fram er því óhjákvæmilegt að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

Eftir úrslitum málsins verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 1.200.000 krónur.

Af hálfu stefnanda flutti málið Jóhann Tómas Sigurðsson hdl.

Af hálfu stefnda flutti málið Jóhannes Karl Sveinsson hrl.

Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Íslandsbanki hf., er sýkn af kröfu stefnanda, Sambands íslenskra sparisjóða.

                Stefnandi greiði stefnda 1.200.000 krónur í málskostnað.