Print

Mál nr. 447/2017

Málsóknarfélag hluthafa Landsbanka Íslands (Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.)
gegn
Björgólfi Thor Björgólfssyni (Reimar Pétursson hrl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Málsóknarfélag
  • Málsástæða
  • Kröfugerð
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
Reifun

M krafðist þess að viðurkennd yrði skaðabótaskylda B á tjóni félagsmanna M, vegna hlutabréfa sem þeir, eða aðilar sem þeir leiddu rétt sinn frá, hefðu eignast fyrir 27. janúar 2006 og urðu verðlaus 7. október 2008 þegar L hf. var tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að það leiddi af 1. og 2. mgr. 19. gr. a. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að málsóknarfélagi væri heimilt í samræmi við tilgang sinn að höfða mál í eigin nafni og krefjast viðurkenningar í einu lagi á skaðabótaskyldu þess, sem stefnt væri, á tjóni félagsmanna sinna, enda væru uppfyllt skilyrði 1. mgr. 19. gr. og 2. mgr. 25. gr. laganna. Þar sem áskilið væri í 1. mgr. 19. gr. a. að kröfur félagsmanna yrðu að vera af sömu rót runnar yrði sami bótagrundvöllur að búa að baki kröfunum þannig að málatilbúnaður allra félagsmanna yrði einsleitur. Þá var tekið fram að væru leiddar nægar líkur að því að félagsmenn málsóknarfélags hefðu orðið fyrir tjóni, svo sem vegna sömu atvika, jafnframt því sem gerð væri grein fyrir í hverju tjón þeirra fælist og hver tengsl þess væru við atvik máls, þannig að fullnægt væri áskilnað 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um lögvarða hagsmuni væri ekkert því til fyrirstöðu að félagið krefðist í einu lagi viðurkenningar á bótaskyldu gagnvart félagsmönnum án tillits til bótafjárhæðar sem kæmi í hlut hvers og eins þeirra. Byggðu félagsmenn í M bótakröfu sína á því að eftir 27. janúar 2006 hefði B með saknæmum hætti ekki veitt upplýsingar um ákveðnar áhættuskuldbindingar og yfirráð yfir L hf. og að þeir hefðu ekki orðið fyrir tjóni ef réttar upplýsingar hefðu verið birtar í reikningsskilum L hf. enda hefðu þeir þá selt hlutabréf sín.Var því talið ljóst að félagsmenn M teldu sig allir eiga kröfur á hendur B sem ætti rætur að rekja til sömu atvika og aðstöðu í skilningi 1. mgr. 19. gr. a. laga nr. 91/1991. Þá var talið að með málatilbúnaðnum hefði M leitt að því nægar líkur að félagsmennirnir hefðu orðið fyrir fjártjóni yrði komist að þeirri niðurstöðu að sú háttsemi B sem um væri deilt í málinu hefði verið ólögmæt og M hefði því notið heimildar 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 til að sækja mál þetta á þann hátt sem það hafði gert með viðurkenningarkröfu sinni. Var því hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Eiríkur Tómasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. júlí 2017 en kærumálsgögn bárust réttinum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júní 2017 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Í héraðsstefnu kemur fram að félagsmenn í sóknaraðila hafi átt hlut að máli  á hendur varnaraðila sem með dómi Hæstaréttar 2. maí 2016 í máli nr. 235/2016 var vísað frá héraðsdómi. Þá segir þar að félagsmenn sóknaraðila í fyrra málinu hafi allir verið hluthafar í Landsbanka Íslands hf. 7. október 2008, þegar hlutabréf þeirra urðu verðlaus, en ekki hafi verið gerður greinarmunur á hluthöfum eftir því hvenær þeir eignuðust hlutabréf sín í bankanum. Hafi sumir félagsmanna byggt á því í fyrra málinu að þeir hefðu selt hlutabréf sín að fengnum réttum upplýsingum en aðrir á því að þeir hefðu ekki keypt hlutabréf. Hæstiréttur hafi talið að bótagrundvöllur félagsmanna að þessu leyti væri ekki nægilega einsleitur.

Í kæru sinni til Hæstaréttar segir sóknaraðili nánar um aðild málsins að í ljósi dómsins í máli nr. 235/2016 hafi verið farin sú leið að skipta málsókninni, eins og hún hafi verið ákveðin í upphafi, niður á þrjú málsóknarfélög og taki málsókn hvers félags nú mið af því hvenær félagsmenn eignuðust bréf í Landsbanka Íslands hf. Með þessu sé tryggt að aðstæður félagsmanna og þar með málsástæður að baki bótakröfum þeirra séu þær sömu og málatilbúnaður þeirra því einsleitur. Félagsmenn í sóknaraðila nú séu aðeins þeir, sem hafi eignast hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. þegar ætluð bótaskyld háttsemi varnaraðila hófst og áttu þau hlutabréf enn, þegar þau urðu verðlaus 7. október 2008.  Í héraðsstefnu segir að þeir einir sem svo sé ástatt um geti verið félagsmenn í sóknaraðila og átt aðild að þessu máli. Aðrir sem áður hafi verið félagsmenn en fullnægi ekki þessu skilyrði séu ekki lengur félagsmenn. Við þessa breytingu hafi félagsmönnum í sóknaraðila fækkað úr 279 í 209.

II

Tilgangur sóknaraðila samkvæmt 3. grein samþykkta hans frá 19. júní 2015 er „að höfða og reka dómsmál um skaðabótakröfur félagsmanna á hendur Björgólfi Thor Björgólfssyni ... vegna tjóns sem félagsmenn urðu fyrir sem hluthafar í Landsbanka Íslands hf., sem og innheimta á skaðabótum.“ Þá segir þar jafnframt að heimilt sé „að láta fyrst reyna á það hvort bótaskylda sé fyrir hendi í viðurkenningarmáli.“ Í 4. grein samþykktanna er svohljóðandi ákvæði: „Þeir einir geta verið félagsmenn sem geta átt aðild að því dómsmáli sem félagið er stofnað til að reka“.

Í héraðsstefnu gerir sóknaraðili svofelldar kröfur á hendur varnaraðila: „Stefnandi krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda á tjóni félagsmanna stefnanda, vegna þess að þeir voru í þeirri stöðu, að hlutabréf sem þeir, eða aðilar sem þeir leiða rétt sinn frá, eignuðust í Landsbanka Íslands hf. fyrir 27. janúar 2006, urðu verðlaus þann 7. október 2008.“ Samkvæmt því sem fram kemur í stefnunni er málatilbúnaður sóknaraðila meðal annars á því reistur að félagsmenn hans hafi allir átt hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. 27. janúar 2006, þegar ársreikningur bankans fyrir rekstrarárið 2005 var birtur opinberlega. Frá þeim tíma og þar til Fjármálaeftirlitið tók yfir stjórn bankans og skipaði honum skilanefnd hafi varnaraðili með saknæmum og ólögmætum hætti staðið því í vegi að hluthafar í Landsbanka Íslands hf. fengju mikilvægar upplýsingar um tengsl varnaraðila við bankann og umfangsmiklar lánveitingar bankans til varnaraðila og félaga tengdum honum.

Sóknaraðili reisir málatilbúnað sinn einnig á því að varnaraðili hafi vanrækt að leggja mat á og upplýsa um það að Landsbanki Íslands hf. lyti yfirráðum Samson eignarhaldsfélags ehf. Því sé það á ábyrgð varnaraðila að félagsmenn í sóknaraðila hafi á grundvelli rangra og ófullnægjandi upplýsinga tekið ákvörðun um að vera áfram hluthafar í bankanum eftir 27. janúar 2006 og allt til þess er bankinn var tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu 7. október 2008. Varnaraðili hafi vitað eða mátt vita að bæði upplýsingar um tengslin og lánveitingar til hans sem og yfirráð Samson eignarhaldsfélags ehf. á Landsbanka Íslands hf. væru mikilvægar fyrir ákvörðun félagsmanna í sóknaraðila að vera áfram hluthafar í bankanum. Ef réttar upplýsingar hefðu verið veittar hefðu félagsmennirnir selt hlutabréf sín og því ekki verið hluthafar þegar bankinn var tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu og hlutabréfin urðu verðlaus. Tjón félagsmannanna sé því afleiðing saknæmrar og ólögmætrar háttsemi varnaraðila. Bótaskylda varnaraðila gagnvart félagsmönnum sóknaraðila byggi því á sömu atvikum og aðstæðum, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Aðstaða félagsmanna sóknaraðila sé því nákvæmlega sú sama og bótagrundvöllur þeirra reistur á sömu málsástæðum. Því sé málatilbúnaður félagsmannanna algerlega einsleitur.

Í kæru sinni til Hæstaréttar lætur sóknaraðili meðal annars svo um mælt: „Í málinu reisir sóknaraðili kröfugerð sína á heimild 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Málatilbúnaður sóknaraðila byggir á þeim grundvelli að úr bótarétti einstakra félagsmanna þyrfti að leysa sérstaklega verði fallist á viðurkenningu skaðabótaskyldu. Í slíku máli gæti varnaraðili komið að vörnum við fjárkröfum sem tengjast sérstaklega stöðu viðkomandi félagsmanns, s.s. því hvort honum takist að sanna fjártjón sitt, hvort og þá með hvaða hætti draga skuli frá tjóni viðkomandi hagnað af öðrum viðskiptum með hlutabréf í Landsbanka Íslands hf., eða hvort hann hafi misst rétt til bóta, s.s. fyrir tómlæti, eigin sök, bætur frá þriðja aðila, eftirgjöf, skuldajöfnun eða fyrningu og hvað annað sem áhrif hefur á ákvörðun bótafjárhæðar þegar upp verður staðið. Sóknaraðili telur því að úrlausnarefni málsins séu í aðalatriðum þau hvort atvik máls teljist sönnuð og hvort varnaraðili hafi gerst sekur um bótaskylda háttsemi. Málatilbúnaður sóknaraðila byggir á þeim grundvelli að hagræði af hópmálsókninni felist í því, að til þess að leysa úr framangreindum atvikum og málsástæðum sé ekki nauðsynlegt að í málinu sé gerð grein fyrir viðskiptum hvers félagsmanns fyrir sig. Slík umfjöllun eða gagnaframlagning myndi draga mjög úr hagræði við úrlausn á viðurkenningarkröfu sóknaraðila og færi ... gegn markmiðum og tilgangi ákvæðis 19. gr. a., um að greiða fyrir aðgengi að dómstólum og fylgja þeirri þróun sem hefur orðið að þessu leyti á hinum Norðurlöndunum.“ 

Í kærunni heldur sóknaraðili því fram að skýring héraðsdóms á skilyrðum 19. gr. a. laga nr. 91/1991 sé röng og hafi héraðsdómur lagt til grundvallar niðurstöðu sinni atriði sem málsaðila greini á um og varði efni málsins en ekki form. Með því dragi héraðsdómur rangar ályktanir af málatilbúnaði sóknaraðila sem sé á því reistur „að með hinni saknæmu háttsemi varnaraðila hafi meðlimir sóknaraðila verið sviptir réttinum til að taka ákvörðun um fjárfestingar sínar á grundvelli upplýsinga sem í lögum eru taldar mikilsverðar upplýsingar fyrir fjárfesta ... ef þessar upplýsingar hefðu verið veittar eða fram komið yfirtökutilboð hefðu meðlimir hans ekki verið hluthafar í bankanum þegar hann féll í október 2008.“ Verði varnaraðili að bera hallann af óvissu um til hvaða ákvarðana fjárfestar hefðu gripið ef réttar upplýsingar hefðu verið veittar.

III

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. a. laga nr. 91/1991, sbr. 1. gr. laga nr. 117/2010, er þremur aðilum eða fleiri, sem eiga kröfur á hendur sama aðila, heimilt að láta málsóknarfélag, sem þeir eiga hlut að, reka í einu lagi mál um kröfur þeirra allra, enda eigi þær rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings, í stað þess að sækja málið á grundvelli 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991. Skal málsóknarfélag stofnað til að reka tiltekið mál fyrir dómi og er óheimilt að láta það starfa við annað en rekstur málsins og eftir atvikum fullnustu á réttindum félagsmanna og uppgjör krafna þeirra. Séu málsóknarfélagi ekki settar sérstakar samþykktir skulu gilda um það almennar samþykktir sem ráðherra ákveður í reglugerð. Þá skal halda skrá um félagsmenn. Í 2. mgr. 19. gr. a. er kveðið á um að þótt málsóknarfélag eigi aðild að máli eigi félagsmenn hver fyrir sitt leyti þá hagsmuni sem málið varðar og njóti þar sömu stöðu og aðilar að því leyti sem annað leiði ekki af ákvæðum lagagreinarinnar. Í stefnu skal dómkrafa gerð í einu lagi í nafni félagsins en greint skal allt að einu frá félagsmönnum. Í 3. mgr. segir að gangi nýr aðili í málsóknarfélag eftir að mál er höfðað en áður en aðalmeðferð þess er hafin geti félagið aukið við dómkröfur sínar í þágu nýja félagsmannsins. Slík breyting á dómkröfum skal eftir þörfum gerð með framhaldsstefnu og gildir þá ekki það skilyrði 29. gr. laga nr. 91/1991 að félaginu verði metið til vanrækslu að hafa ekki gert kröfur sínar í einu lagi í öndverðu.

Í greinargerð með frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 117/2010 og leiddi í lög  hið sérstaka úrræði um málsóknarfélög, var megininntaki þess lýst svo: „Í frumvarpinu felst sú grundvallarregla að um mál sem er höfðað og rekið af málsóknarfélagi gilda allar reglur réttarfarslaga að því marki sem ekki er beinlínis vikið frá þeim með reglum frumvarpsins. Frumvarpið nær til þeirra tilvika þar sem hver og einn sem telur til réttar á hendur öðrum hefði getað rekið mál fyrir dómi upp á sitt eindæmi eða með því að standa ásamt fleirum að málsókn með samlagsaðild skv. 1. mgr. 19. gr. laga um meðferð einkamála. Þess í stað er með frumvarpinu lögð til heimild til stofnunar málsóknarfélags í því skyni að félagið komi fram og reki dómsmál en ekki þeir sem eiga þá hagsmuni sem leitað er fyrir dómi.“ Í skýringum með 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins sagði meðal annars: „Einnig er áskilið með sama hætti og á við um samlagsaðild að félagsmenn í málsóknarfélagi eigi allir kröfur á hendur sama aðila sem eiga rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings. Með öllu er ógerlegt að víkja frá þessu skilyrði enda verður ekki rekið í einu lagi mál þar sem sakarefnið er ekki eins gagnvart öllum sem eiga í hlut þannig að málatilbúnaður allra sé samhljóða ... Eins og beinlínis er tekið fram í 1. mgr. verður málsóknarfélag aðeins myndað til að reka tiltekið mál fyrir dómi og verður sakarefni þess að liggja fyrir við stofnun félagsins. Ef nauðsynlegt er af einhverju tilefni að reka fleiri mál fyrir dómi væri vitanlega hægt að stofna samtímis fleiri málsóknarfélög um hvert sakarefni og tæki þá aðild að hverju félagi mið af því hverjir ættu þá hagsmuni sem málareksturinn stendur um ... Þegar málsóknarfélag hefur verið myndað rekur það í einu lagi mál um kröfur allra félagsmanna. Í þessu felst að peningakröfur félagsmanna verða lagðar saman þannig að úr verði ein heildarkrafa sem beint verður að þeim sem málið er höfðað gegn. Ef málsóknarfélag gerir á hinn bóginn aðeins viðurkenningarkröfu er gert ráð fyrir því að sú krafa sé höfð uppi fyrir alla félagsmenn í senn án þess að þar sé gerður nokkur greinarmunur. Þannig yrði mál ekki rekið á þessum grundvelli ef aðstæður væru með því móti að tíunda yrði sérstaklega réttindi hvers og eins, enda er þá viðbúið að málatilbúnaður þeirra allra sé ekki einsleitur eins og áskilið er í frumvarpinu.“

IV

 Eins og nánar greinir í dómi Hæstaréttar í máli nr. 235/2016 leiðir það af 1. og 2. mgr. 19. gr. a. laga nr. 91/1991 að málsóknarfélagi er heimilt í samræmi við tilgang sinn að höfða mál í eigin nafni og krefjast viðurkenningar í einu lagi á skaðabótaskyldu þess sem stefnt er á tjóni félagsmanna sinna, enda séu uppfyllt skilyrði 1. mgr. 19. gr. og 2. mgr. 25. gr. laganna. Vegna þess að áskilið er í 1. mgr. 19. gr. a. að kröfur félagsmannanna verði að vera af sömu rót runnar verður sami bótagrundvöllur að búa að baki kröfunum þannig að málatilbúnaður allra félagsmanna sé einsleitur. Ef kröfur félagsmanna um viðurkenningu á bótaskyldu styðjast við ólíkar málsástæður er ekki unnt að beita því málsóknarúrræði sem hér um ræðir. Séu hins vegar leiddar nægar líkur að því að félagsmenn málsóknarfélags hafi orðið fyrir tjóni, svo sem vegna sömu atvika, jafnframt því sem gerð er grein fyrir í hverju tjón þeirra felist og hver tengsl þess séu við atvik máls, þannig að fullnægt sé áskilnaði 2. mgr. 25. gr. um lögvarða hagsmuni er ekkert því til fyrirstöðu að félagið krefjist í einu lagi viðurkenningar á bótaskyldu gagnvart félagsmönnunum án tillits til bótafjárhæðar sem kæmi í hlut hvers og eins þeirra. 

Sóknaraðili hefur eins og áður segir gert þá breytingu frá því sem áður var að hann hefur skipt málsókn sinni á hendur varnaraðila niður á þrjú málsóknarfélög, svo sem heimilt er samkvæmt því sem rakið er í kafla III hér að framan, og tekur málsókn hvers félags mið af því hvenær félagsmenn eignuðust hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. Í máli þessu krefst sóknaraðili í einu lagi viðurkenningar á bótarétti þeirra sem voru hluthafar í bankanum, höfðu eignast hlutabréf sín fyrir 27. janúar 2006 og voru í þeirri stöðu að hlutabréfin urðu verðlaus 7. október 2008, þegar bankinn var tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu. Tekur dagsetningin 27. janúar 2006 mið af því að þann dag var birtur ársreikningur Landsbanka Íslands hf. fyrir árið 2005.

Krafa sóknaraðila er á því reist að varnaraðili hafi eftir 27. janúar 2006 með saknæmum hætti valdið því að ekki voru veittar upplýsingar um gríðarstórar áhættuskuldbindingar Landsbanka Íslands hf. tengdar varnaraðila og félögum hans. Einnig að varnaraðili hafi vanrækt þær skyldur sem á honum hvíldu um að upplýsa opinberlega að Samson eignarhaldsfélag ehf. færi með yfirráð yfir bankanum og væri móðurfélag hans. Félagsmenn í sóknaraðila hefðu ekki kært sig um að eiga hlutabréf í bankanum ef þessar upplýsingar um stórar áhættuskuldbindingar og yfirráð hefðu legið fyrir. Þá hafi varnaraðili valdið þeim tjóni með því að vanrækja þá skyldu sína sem stjórnarformaður og annar eigandi Samson eignarhaldsfélags ehf. að sjá til þess að það félag gerði öðrum hluthöfum í bankanum yfirtökuboð. Byggja félagsmenn í sóknaraðila bótakröfu sína á því að þeir hefðu ekki orðið fyrir tjóni ef réttar upplýsingar hefðu verið birtar um yfirráðin og lánveitingarnar í reikningsskilum Landsbanka Íslands hf., enda hefðu þeir þá selt hlutabréf sín.

Af því sem hér var rakið er ljóst að félagsmenn í sóknaraðila telja sig allir eiga kröfur á hendur varnaraðila sem eiga rætur að rekja til sömu atvika og aðstöðu í skilningi 1. mgr. 19. gr. a. laga nr. 91/1991. Sami bótagrundvöllur býr samkvæmt framansögðu að baki kröfum allra félagsmanna í sóknaraðila og er því fullnægt því skilyrði að kröfurnar séu af sömu rót runnar og málatilbúnaður félagsmanna einsleitur í skilningi síðastgreinds lagaákvæðis.

Samkvæmt meginreglum einkamálaréttarfars eru félagsmenn í sóknaraðila bundnir af málatilbúnaði hans, þar á meðal þeim málsástæðum sem teflt er fram til stuðnings viðurkenningarkröfunni sem höfð er uppi í málinu. Með málatilbúnaðinum hefur sóknaraðili leitt að því nægar líkur að félagsmennirnir hafi orðið fyrir fjártjóni verði komist að þeirri niðurstöðu að sú háttsemi varnaraðila sem um er deilt í málinu hafi verið ólögmæt. Að fenginni slíkri niðurstöðu gæti sóknaraðili eða eftir atvikum hver og einn félagsmaður krafist bóta úr hendi varnaraðila, enda verði þá færðar sönnur á að félagsmaðurinn hafi beðið fjárhagslegt tjón vegna hlutabréfaeignar sinnar í Landsbanka Íslands hf. sem málið tekur til og hver fjárhæð tjónsins hafi verið. Að þessu gættu hefur sóknaraðili gert nægjanlega grein fyrir því í hverju tjón félagsmanna hans kunni að felast og hver tengsl þess séu við atvik málsins. Sóknaraðili nýtur því heimildar 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 til að sækja mál þetta á þann hátt sem hann gerir með viðurkenningarkröfu sinni. Samkvæmt því og þar sem aðrar málsástæður varnaraðila geta ekki leitt til frávísunar málsins verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að leggja efnisdóm á málið.

Eftir framangreindum úrslitum verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir en ákvörðun málskostnaðar í héraði bíður efnisdóms í málinu.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að leggja efnisdóm á málið.

Varnaraðili, Björgólfur Thor Björgólfsson, greiði sóknaraðila, Málsóknarfélagi hluthafa Landsbanka Íslands, 600.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júní 2017

I

         Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 10. maí sl., var höfðað 21. október 2016 af Málsóknarfélagi hluthafa Landsbanka Íslands I, Borgartúni 26 í Reykjavík, gegn Björgólfi Thor Björgólfssyni, 55 Clarendon Road, London, W11 4JD, Bretlandi.

         Í málinu krefst stefnandi þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda á tjóni félagsmanna stefnanda, vegna þess að þeir voru í þeirri stöðu, að hlutabréf sem þeir, eða aðilar sem þeir leiða rétt sinn frá, eignuðust í Landsbanka Íslands hf. fyrir 27. janúar 2006, urðu verðlaus þann 7. október 2008. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu.

         Stefndi gerir kröfu um að málinu verði vísað frá dómi og að honum verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að skaðlausu. Er krafan sett fram með vísan til 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

II

         Stefnandi er málsóknarfélag einstaklinga og lögaðila sem eiga það sammerkt að hafa verið hluthafar í Landsbanka Íslands hf. 7. október 2008 eða leiða rétt sinn frá aðila sem átti hlutabréf í bankanum á þeim degi, eins og segir í stefnu. Við þingfestingu málsins munu 206 félagsmenn hafa verið í málsóknarfélaginu, en þeir eru allir nafngreindir í stefnu og var listi með nafni og kennitölu þeirra lagður fram við þingfestingu málsins, ásamt gögnum frá Verðbréfaskráningu Íslands um hlutabréfaeign félagsmanna stefnanda í Landsbankanum.

         Hinn 7. október 2008 var stjórn Landsbanka Íslands hf. tekin yfir af Fjármálaeftirlitinu á grundvelli heimildar í lögum nr. 125/2008 og bankanum skipuð skilanefnd. Í stefnu segir að við það hafi hlutabréf hluthafa í bankanum orðið verðlaus. Byggir stefnandi málshöfðun sína á því að félagsmenn hans hefðu ekki verið hluthafar í bankanum við fall hans, „og þar með ekki orðið fyrir tjóni“, ef ekki hefði komið til saknæm og ólögmæt háttsemi stefnda sem lýst er í stefnunni.

         Í stefnu er gerð grein fyrir kaupum Samsons eignarhaldsfélags ehf. (Samson) á 45,8% hlut í Landsbanka Íslands hf. í lok árs 2002. Þar er því síðan lýst með hvaða hætti hlutur Samsons í bankanum breyttist samkvæmt því sem upplýst er í ársreikningum bankans. Jafnframt er þar gerð grein fyrir því hvernig eignarhaldi Samsons var háttað frá árslokum 2002 til 30. júní 2008. Í stefnu er því haldið fram að til ársins 2004 hafi stefndi átt 42,74% hlut í Samson í gegnum félag sem ber heitið Givenshire Equities Limited. Eftir að Samson leysti á árinu 2005 til sín hlut Magnúsar Þorsteinssonar, sem hafði upphaflega átt hlut í Samson ásamt stefnda og föður hans, Björgólfi Guðmundssyni, er því haldið fram í stefnu að hlutur Givenshire í Samson hafi aukist, fyrst í 49,5% árið 2005, en að hann hafi síðan hækkað í 49,9% árið eftir og hafi haldist óbreyttur síðan þá. Frá 2006 mun stefndi einnig hafa átt persónulega 0,1% hlut í Samson. Fram kemur í stefnu að stefndi hafi verið formaður stjórnar Samsons.

         Í stefnu er gerð grein fyrir reikningsskilum bankans frá árinu 2005, en á því ári varð bankanum skylt að gera reikningsskil sín í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla. Kemur þar fram að meðal þeirra hafi verið staðallinn IAS 24, en hann hafi lagt þá skyldu á bankann að skýra frá viðskiptum hans við tengda aðila. Í ársreikningum Landsbankans var aldrei gerð grein fyrir viðskiptum stefnda og tengdra félaga við bankann.

         Í stefnu er umfangi þessara viðskipta bankans við stefnda og félög sem honum tengjast lýst. Þar er því haldið fram að 30. júní 2005 hafi heildarskuldbindingar bankans gagnvart stefnda og félögum, sem að mati Fjármálaeftirlitsins voru fjárhagslega tengd stefnda, numið 53,6 milljörðum króna, en 51,3 milljörðum króna eftir að tekið hafði verið tillit til frádráttar sem heimilaður væri. Hafi þessar skuldbindingar numið 49,7% af eiginfjárgrunni bankans. Í stefnunni er jafnframt vísað til gagna sem gefi til kynna að skuldbindingar stefnda og fjárhagslega tengdra félaga hafi numið 101 milljarði króna um mitt ár 2007 og að þessar skuldbindingar hafi aukist eftir það og numið samtals 141,5 milljörðum króna við fall bankans.

         Stefnandi telur að skylt hafi verið að gera grein fyrir þessum viðskiptum Landsbankans við stefnda og félög, sem honum tengdust, í reikningsskilum bankans. Vísar stefnandi þá til þess að stefndi hafi átt að teljast tengdur aðili í skilningi fyrrgreinds staðals IAS 24, eins og nánar er rökstutt í stefnu, meðal annars með skírskotun til staðalsins IAS 28.

         Því er haldið fram í stefnu að þegar mat hafi verið lagt á þessi tengsl hafi einungis verið litið til þess hvort stefndi hafi með óbeinum hætti ráðið yfir meira en 20% atkvæðisréttar í bankanum. Hafi þá verið stuðst við upplýsingar frá framkvæmdastjóra Samsons um óbeint eignarhald stefnda í Landsbankanum sem stefndi hafi borið ábyrgð á að væru réttar. Er á því byggt af hálfu stefnanda að stefndi hafi með ýmsum hætti komið því til leiðar að villandi og beinlínis rangar upplýsingar um þetta atriði hafi verið lagðar til grundvallar við reikningsskil bankans fyrir árið 2005, sbr. ársreikning hans sem birtur var 27. janúar 2006, og þar til yfir lauk. Meðal annars af þeim sökum hafi ekki verið upplýst um skuldbindingar stefnda og tengdra félaga við bankann í ársreikningum hans fyrir árin 2005, 2006 og 2007. Að auki hafi það viðgengist við útreikning á óbeinu atkvæðavægi stefnda í Landsbankanum að líta fram hjá eða fara rangt með fjölda hluta sem voru án atkvæðisréttar á hluthafafundum og þannig vanmeta óbeinan atkvæðisrétt stefnda.

         Í stefnu er því haldið fram að með þessu hafi stefndi með saknæmum og ólögmætum hætti komið því til leiðar að ekki var getið um upplýsingar í framangreindum ársreikningum um tengsl hans við Landsbankann. Þannig hafi verið komið í veg fyrir að viðskipti hans við bankann væru gerð opinber. Með því telur stefnandi að stefndi hafi vísvitandi blekkt lesendur ársreikninganna, en hann hafi vitað eða mátt vita að upplýsingar í reikningum bankans hefðu áhrif á afstöðu þeirra til þess hvort þeir vildu vera hluthafar í bankanum.

         Af hálfu stefnanda er jafnframt á því byggt að stefndi hafi borið ábyrgð á því að fylgjast með hvort Samson færi með yfirráð yfir Landsbankanum þannig að skylda til að gera öðrum hluthöfum yfirtökutilboð hafi orðið virk. Þessu til stuðnings vísar stefnandi meðal annars til ábendingar í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 3. febrúar 2003, um heimild eigenda Samsons til að fara með virkan eignarhlut í Landsbankanum, og síðari bréfa Fjármálaeftirlitsins um þetta efni.

         Því er haldið fram í stefnu að eftir 30. júní 2006, þegar Samson hafi aukið við hlutafjáreign sína í Landsbankanum, hafi eignarhaldsfélagið í raun farið með meirihluta atkvæða í Landsbankanum og því átt að teljast móðurfélag hans. Af hálfu stefnanda er þá tekið mið af því að hlutafjáreign Landsbankans í Lúxemborg og svonefndra aflandsfélaga hafi verið óvirk. Stefnandi byggir á því að við þessar aðstæður hafi Samson borið að tilkynna öðrum hluthöfum um þessa breyttu stöðu og gera þeim yfirtökutilboð samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga nr. 33/2003. Hafi vafi leikið á þessu telur stefnandi að allri óvissu hafi verið eytt á aðalfundi Landsbankans 9. febrúar 2007 þegar í ljós hafi komið að hlutafé aflandsfélaganna var undir yfirráðum Landsbankans. Í kjölfarið telur stefnandi að stefnda hafi borið að bregðast við þessum upplýsingum og leggja mat á stöðu Samsons gagnvart Landsbankanum. Í síðasta lagi hafi yfirtökuskylda Samsons gagnvart öðrum hluthöfum orðið virk 30. júní 2008 eftir að hlutafé Samsons jókst úr 40,73% í 41,85%. Er þá tekið tillit til þess að líta hafi átt á hlutabréfaeign Straums-Burðaráss í Landsbankanum með hlutafjáreign Samsons í bankanum. Að því gættu hafi legið fyrir að Samson hafi ráðið yfir meirihluta atkvæðisréttar í Landsbanknaum án tillits til hlutabréfaeignar aflandsfélaga í bankanum.

         Stefnandi byggir viðurkenningarkröfur sínar meðal annars á því að stefnandi hafi með saknæmum og ólögmætum hætti brotið gegn þeirri skyldu sinni að leggja mat á og upplýsa hluthafa í bankanum um að Samson færi með yfirráð yfir honum þegar hinn 30. júní 2006 eða við síðari tímamörk samkvæmt því sem rakið hefur verið. Hafi stefnda, sem formanni stjórnar Samsons, jafnframt borið að hafa frumkvæði að því að Samson gerði öðrum hluthöfum yfirtökutilboð í síðasta lagi fjórum vikum eftir að skylda til yfirtöku hafi stofnast.

         Í sérstökum kafla stefnunnar er vikið að því tjóni sem félagsmenn stefnanda telja sig hafa orðið fyrir. Þar er áréttað að hlutabréfin sem þeir áttu við fall Landsbankans 7. október 2008 hafi þá orðið verðlaus. Staðhæft er að félagsmenn stefnanda hefðu ekki kært sig um að vera hluthafar í Landsbankanum ef upplýst hefði verið um að bankinn lyti stjórn Samsons sem teldist móðurfélag hans og ef upplýsingar hefðu legið fyrir um umfangsmiklar lánveitingar bankans til stefnda. Á því er byggt af hálfu stefnanda að félagsmenn málsóknarfélagsins hefðu selt hlutabréf sín í Landsbankanum eftir að fyrrgreindar upplýsingar hefðu komið fram, hvort sem það hefði verið gert á markaði eða með því að samþykkja yfirtökutilboð hefði það verið sett fram. Telur stefnandi að fjártjón félagsmanna sinna svari til þess verðs sem greitt hefði verið fyrir hlutabréfin. Stefnandi áréttar þó að með úrlausn á kröfugerð í máli þessu sé engu slegið föstu um umfang þessa tjóns. Því standi 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, ekki í vegi fyrir að dómurinn skeri úr um viðurkenningarkröfuna.

         Stefnandi rökstyður þá ályktun sína að orsakatengsl séu milli tjónsins og saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefnda með því að vísa til þess að upplýsingar um hversu mikill óbeinn eignarhlutur stefnda hafi verið í Landsbankanum og um umfangsmiklar lánveitingar til stefnda og tengdra aðila, sem og að bankinn lyti fullum yfirráðum Samsons, séu allar mikilvægar upplýsingar fyrir fjárfesti í banka og skipti sköpum um það hvort hann vilji eiga hlut í honum. Það sé staðfest meðal annars í löggjöf auk þess sem það leiði af eðli máls.

         Af hálfu stefnanda er meðal annars á því byggt að stefndi verði að bera áhættuna af því að hafa leynt hluthafa upplýsingum um þessar umfangsmiklu lánveitingar. Hafi stefnda mátt vera ljóst að mikilvægt væri að upplýsa um þessi atriði svo hluthafar gætu tekið fjárfestingaákvarðanir á fullnægjandi forsendum. Kveður stefnandi að stefndi hafi vitað eða mátt vita að þessar upplýsingar hefðu almenn áhrif á vilja fjárfesta til að vera hluthafar í Landsbanka Íslands hf.

         Stefnandi telur því að skilyrðum um orsakatengsl og sennilega afleiðingu milli saknæmrar háttsemi stefnda og tjóns félagsmanna stefnanda sé fullnægt. Þá er á því byggt að stefndi verði að bera sönnunarbyrði fyrir því vilji hann halda því fram að upplýsingar um þessi atriði hefðu ekki haft neikvæð áhrif á vilja félagsmanna stefnanda til að vera hluthafar í Landsbankanum. Vafa um viðbrögð félagsmanna stefnanda við réttum upplýsingum sé ekki unnt að meta stefnda í hag enda verði hann að bera áhættuna af því að hafa brotið gegn skyldum sínum. Jafnframt eru færð rök fyrir því í stefnu að beita beri ströngu sakarmati í málinu.

III

         Í greinargerð stefnda eru færð rök fyrir því að vísa beri málinu frá dómi. Bendir stefndi á að stefnandi höfði þetta mál að nýju eftir að Hæstiréttur Íslands hafi vísað fyrra máli stefnanda frá með dómi 2. maí 2016. Með þessari nýju málsókn freisti stefnandi að bæta úr þeim annmörkum sem rétturinn hafi álitið einkenna fyrra málið. Stefndi telur þær breytingar gera illt verra og telur því óhjákvæmilegt að vísa þessu máli einnig frá dómi. Rétt er að rekja helstu málsástæður stefnda fyrir þeirri niðurstöðu.

         Í fyrsta lagi er á því byggt að dómkrafa stefnanda feli ekki sér afmörkun á því hver sú háttsemi stefnda geti verið sem eigi að leiða til bótaskyldu. Að þessu leyti sé kröfugerðin svo óviss og ómarkviss að ekki verði lagður á hana efnisdómur.

         Í öðru lagi byggir stefndi á því að málið sé vanreifað af hálfu stefnanda. Því til stuðnings vísar stefndi m.a. til þess að það sé óskýrt hverja dómur eigi að binda. Í kröfugerðinni sé krafist viðurkenningar á réttindum félagsmanna stefnanda vegna hlutabréfa sem „þeir, eða aðilar sem þeir leiða rétt sinn frá, eignuðust“ í Landsbankanum fyrir 27. janúar 2006. Ekki sé útskýrt hverjir þessir aðrir „aðilar“ séu. Möguleg aðild sé því vanreifuð.

         Í tengslum við þessa röksemd er í greinargerð stefnda bent á að með orðalagi kröfugerðarinnar virðist hér vísað til aðila sem „eignast“ hafi hluti í Landsbankanum fyrir 27. janúar 2006 fyrir annars konar framsal en kaup. Fram komi í stefnu að aðrir en þeir sem hafi eignast hlutabréfin áður en hin ætlaða bótaskylda háttsemi eigi að hafa gerst geti ekki átt aðild að málinu og verið félagsmenn í stefnanda. Þrátt fyrir það megi af gögnum málsins álykta að á meðal félagsmanna séu aðilar sem falli utan þessarar afmörkunar. Á lista yfir félagsmenn sé jafnvel að finna félaga sem eignast hafi hluti sína eftir að hlutir Landsbankans hafi verið orðnir óvirkir til viðskipta eftir 7. október 2008. Þetta veki enn frekari álitamál að mati stefnda um vanreifun á aðild félagsmanna að sakarefninu.

         Stefndi bendir einnig á að tilgangur stefnanda sé að reka dómsmál vegna „tjóns sem félagsmenn urðu fyrir sem hluthafar“ í Landsbankanum. Samþykktirnar heimili þannig stefnanda ekki að höfða mál í þágu félagsmanna sem ekki hafi orðið fyrir tjóni sem hluthafar, heldur „leiða rétt sinn frá“ slíkum hluthöfum. Að lokum skorti verulega á að staðfestingar á félagsaðild séu í traustu horfi, en slíkt hljóti að vera forsenda málatilbúnaðar sem þessa.

         Stefndi reisir röksemdir sínar um vanreifun málsins einnig á því að nauðsynlegt hafi verið að fjalla um það hvenær og á hvaða verði félagsmenn hans hafi átt viðskipti með hluti í Landsbankanum. Án þeirra upplýsinga sé útilokað að slá neinu föstu um afkomu félagsmanna af viðskiptunum og ætlað tjón þeirra af þeim. Bendir stefndi á að gera verði ráð fyrir því að umtalsverður fjöldi félagsmanna hafi selt af eignarhlut sínum í Landsbankanum eftir að hin meinta bótaskylda háttsemi eigi að hafa hafist. Þannig kunni vel að hugsast að þessir félagsmenn hafi notið jákvæðrar afkomu af viðskiptum með hluti bankans. Nánar er vikið að þessu í samhengi við málshöfðun málsóknarfélaga II og III í greinargerð. Telur stefndi að þrjár málshöfðanir félagsmanna stefnanda gegn stefnda leiði samanlagt til þess að stefnandi geri sér enga grein fyrir því á hvaða forsendum málin byggist varðandi tjón einstakra félagsmanna.

         Stefndi telur jafnframt á það skorta að stefnandi geri grein fyrir því hvaða forsendur og ástæður hafi búið að baki kaupum og sölu félagsmanna á hlutum í Landsbankanum á þeim tíma sem um er deilt. Stefndi byggir á því að nauðsynlegt hafi verið að fjalla í stefnu t.d. um: a) hver hafi verið fjárhagsstaða einstakra félagsmanna, b) hvort þeir hafi notið ráðgjafar við viðskiptin og þá, eftir atvikum, hjá hverjum, c) hvort þeir hafi fjármagnað viðskiptin með eigin fé eða lánsfé, d) hversu stór hluti eigna þeirra hafi verið bundinn í hlutum bankans, e) hvort fjárfesting hafi verið ætluð til skamms eða langs tíma og f) hvort um hafi verið að ræða spákaupmennsku eða langtímafjárfestingu.

         Stefndi byggir einnig á því að málsreifun stefnanda sé einnig ómarkviss að því leyti að hann reifi ýmsar aðrar hugmyndir um tjón en þá sem hann leggi til grundvallar. Þannig segi að félagsmenn hafi orðið fyrir tjóni þar sem þeir hefðu selt hlutabréf sín á markaði eða samþykkt yfirtökutilboð sem hafi verið skylt að setja fram á ótilgreindu verði. Jafnframt segi að allir félagsmenn hafi orðið fyrir tjóni þegar hlutabréf þeirra hafi orðið verðlaus. Eftir sem áður sé því hvergi haldið fram að stefndi beri ábyrgð á því að hlutir bankans hafi orðið verðlausir 7. október 2008. Stefnandi byggi því ekki á þessum tjónsgrundvelli. Einnig telur stefndi öldungis ljóst að stefnandi ætli sér ekki að reisa bótakröfu á einhverju verði sem yfirtökutilboð hafi átt að miðast við. Með því vakni áleitnar spurningar um hvaða þýðingu málatilbúnaður hans um skyldu til að gera yfirtökutilboð og verðfall bréfa bankans 7. október 2008 hafi yfirleitt. Í stað þess tiltaki stefnandi að fjártjón félagsmanna svari til þess verðs „sem greitt hefði verið fyrir hlutabréfin á almennum markaði“ á þeim tíma sem hin bótaskylda háttsemi stofnaðist. Telur stefndi að málatilbúnaður þessi um hið ætlaða tjón sé sérkennilegur. Byggist hann einkum á þeirri forsendu að hin ætlaða bótaskylda háttsemi hefði ekki valdið lækkun á verði hluta í Landsbankanum, sem að mati stefnda sýni hversu ómarkviss umfjöllunin sé um hið ætlaða tjón.

         Stefndi reisir frávísunarkröfu sína í þriðja lagi á því að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að félagsmenn hans hafi lögvarða hagsmuni af því að fá viðurkennda skaðabótaábyrgð annars manns samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Skilyrði þess sé að stefnandi leiði nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni af nánar tilteknu tilefni og geri grein fyrir því í hverju tjónið felist og hver tengsl þess séu við atvik máls. Telur stefndi skorta verulega á að gerð sé grein fyrir þessum atriðum í stefnu. Í málatilbúnaði hans felist þvert á móti að ekkert tjón geti hafa orðið af hinni ætluðu saknæmu háttsemi. Í fyrsta lagi byggi stefnendur ekki á því að hin ætlaða saknæma háttsemi stefnda hafi leitt til þrots Landsbankans 7. október 2008. Það þrot hafi orðið af öðrum og óskyldum ástæðum. Í öðru lagi byggi stefnendur ekki á því að nokkur saknæm háttsemi hafi átt sér stað þegar félagsmenn hans hafi eignast hluti sína. Í þriðja lagi sé ekki á því byggt að birting upplýsinganna hefði leitt til lækkunar á verði hluta Landsbankans á markaði. Þvert á móti byggir stefnandi á því að félagsmenn hefðu allir getað selt hluti sína á gildandi markaðsverði þrátt fyrir birtingu þeirra. Birting þeirra hefði því engin áhrif haft á verð.

         Í fjórða lagi er frávísunarkrafa stefnda á því reist að málshöfðanir málsóknarfélagsins í þessu máli séu ósamrýmanlegar málshöfðun tveggja annarra félaga með sama nafni og stefnandi en með númerunum II og III. Bendir stefndi á að sumir félagsmanna stefnanda hafi einnig gerst félagsmenn í félögum II og III. Þessir félagsmenn hafi því veitt þremur mismunandi lögaðilum fullt forræði á málarekstri þeirra gegn stefnda vegna sama sakarefnis. Þá teljist þeir hafa höfðað tvö, sumir hverjir þrjú, mál gegn stefnda. Stefndi telur að þessi háttur á málshöfðun samrýmist ekki fyrirmælum 19. gr. a laga nr. 91/1991 og því beri að vísa málinu frá af þessum sökum. Að auki sé þetta til þess fallið að gera málatilbúnað stefnanda verulega óskýran.

         Stefndi vísar t.d. til þess að stefnandi byggi á því að allir félagsmenn hans hefðu getað selt hlutabréf sín á verði sem „svarar til þess verðs sem greitt hefði verið fyrir hlutabréfin á almennum markaði“ á þeim tíma sem til bótaskyldu hafi stofnast. Í þessum málatilbúnaði kveður stefndi felast að líta beri svo á að við birtingu hinna umdeildu upplýsinga hefði birtingin að lágmarki kallað fram jafn mikla eftirspurn og falist hafi í framboði hluta félagsmanna stefnanda. Í málum málsóknarfélaga II og III sé aftur á móti byggt á hinu gagnstæða. Þar sé því haldið fram að birting upplýsinganna hefði leitt til þess að sú eftirspurn, sem aðrir félagsmenn hafi staðið á bak við, hefði horfið með því að þeir hefðu ekki keypt. Þar sem mál sem málsóknarfélög II og III höfða séu að hluta milli sömu aðila telur stefndi að tormerki séu á því að samþýða málflutningsyfirlýsingar þessara þriggja félaga. Þá megi einnig horfa til þess að mál félags II hafi verið höfðað fyrst allra, en stefna í því máli hafi verið birt 28. september 2016. Þar af leiðandi geti félagsmenn stefnanda, sem einnig séu í félagi II, ekki nú haldið fram þeirri nýju málsástæðu hér, sbr. 5. gr. 101. gr. laga nr. 91/1991, að framboð hluta þeirra hefði engin áhrif haft á eftirspurn, meðan þeir haldi því fram í máli félags II að birting hinna upplýsinganna hefði leitt af sér að sú eftirspurn sem þeir sjálfur stóðu fyrir hefði horfið.

         Stefndi vísar einnig til þess að þessi fjöldi mála leiði því til afgerandi tormerkja á úrlausn þeirra eins og staðan sé í dag. Síðan megi búast við að sá ruglingur verði hugsanlega enn meiri komi til þess á síðari stigum að þessi mismunandi félög gefi mismunandi málflutningsyfirlýsingar. Stefndi telur sig eiga lögmætar væntingar um að ekki sé staðið með þessum hætti að málarekstri gegn honum. Þessi málatilbúnaður sé andstæður grundvallarreglum laga nr. 91/1991, sbr. t.d. undirstöðurök reglunnar um litis pendens, sbr. t.d. 116. gr. laganna.

         Í fimmta lagi er á því byggt af hálfu stefnda að með málshöfðuninni sé ekki fullnægt því skilyrði 19. gr. a í lögum nr. 91/1991 að krafan eigi rætur í sama atviki, aðstöðu eða löggerningi. Því til stuðnings vísar stefndi til þess að stefnandi kefjist viðurkenningar á skaðabótaskyldu stefnda gagnvart hverjum félagsmanni fyrir sig vegna atvika sem varði rekstur Landsbanka Íslands hf. og þeir telja hafa valdið sér fjártjóni. Atvik að baki kröfu hvers og eins séu hins vegar að öðru leyti mismunandi. Þannig hafi viðskipti þeirra með hluti bankans farið fram á mismunandi tímum og þá eftir fyrirmælum og forsendum hvers og eins þeirra. Kunni mismunandi atvik, sem varði hvern og einn þeirra sérstaklega, að hafa áhrif við mat á skaðabótaábyrgð stefnda á þeim grundvelli sem stefnandi miði kröfu sína við. Telur stefndi að huga verði að réttarstöðu hvers félagsmanns sjálfstætt við mat á hugsanlegri skaðabótaskyldu stefnda gagnvart þeim.

         Í sjötta lagi telur stefndi að með málshöfðun stefnanda sé ekki fullnægt áskilnaði 19. gr. a í lögum nr. 91/1991 að málsóknarfélag reki „í einu lagi“ mál um kröfur allra félagsmanna. Feli það í sér kröfu um að málatilbúnaður allra sé samhljóða. Mál verði ekki rekið á þessum grundvelli ef aðstæður eru með því móti að tíunda verði sérstaklega réttindi hvers og eins, enda sé þá viðbúið að málatilbúnaður þeirra allra sé ekki einsleitur eins og áskilið sé. Bendir stefndi á að óhjákvæmilegt sé í málinu að fjalla um það hvort einstakir félagsmenn hafi orðið fyrir tjóni, gera grein fyrir í hverju tjón þeirra sé fólgið og hver séu tengsl þess við atvik máls. Eðli málsins samkvæmt geti þetta ekki gerst „í einu lagi“ enda séu forsendur hvers félagsmanns mismunandi. Sumir kunni að hafa tekið lán fyrir hlutum sínum, aðrir kunni að hafa bæði keypt og selt hluti á tímanum sem um ræðir, aðrir kunni að hafa stundað spákaupmennsku á breiðari grundvelli, o.s.frv. Eins megi gera ráð fyrir að sumir félagsmenn hafi keypt og selt hluti sína á tímabilinu 27. janúar 2006 til 7. október 2008 án þess að nokkuð sé skýrt hvað hafi ráðið þeim gerningum. Þá gildi sérstök sjónarmið um mál þeirra sem „leiða rétt sinn frá“ hluthöfum en voru ekki hluthafar sjálfir. Loks þurfi svo að gera sérstaka grein fyrir skörun mála þeirra sem hafi nú höfðað tvö og jafnvel þrjú mál gegn stefnda sem þátttakendur í öðrum málssóknarfélögum.

IV

         Mál þetta er höfðað til viðurkenningar á skaðabótaskyldu stefnda á tjóni félagsmanna stefnanda er hlaust af því að þeir voru í þeirri stöðu, að hlutabréf sem þeir, eða aðilar sem þeir leiða rétt sinn frá, eignuðust í Landsbanka Íslands hf. fyrir 27. janúar 2006, urðu verðlaus 7. október 2008. Málshöfðunin um þessa kröfu er í senn reist á heimild í 19. gr. a í lögum nr. 91/1991, um meðferð einkamála, varðandi aðild stefnanda, og 2. mgr. 25. gr. sömu laga að því er lýtur að kröfugerðinni.

         Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. a í lögum nr. 91/1991 er þremur aðilum eða fleiri, sem eiga kröfur á hendur sama aðila, heimilt að láta málsóknarfélag, sem þeir eiga hlut að, reka í einu lagi mál um kröfur þeirra allra. Skilyrði þess að höfða megi mál á þessum grundvelli er að kröfur félagsmanna málsóknarfélagsins eigi rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings. Í ákvæðinu eru síðan settar ákveðnar reglur um stofnun og tilgang slíks félags sem og um félagsskrá.

         Í 2. mgr. sömu greinar er kveðið á um að þótt málsóknarfélag eigi aðild að máli eigi félagsmenn hver fyrir sitt leyti þá hagsmuni sem málið varðar og njóti þar sömu stöðu og aðilar að því leyti sem annað leiði ekki af ákvæðum greinarinnar. Þá segir þar að í stefnu skuli dómkrafa gerð í einu lagi í nafni félagsins en greint skal allt að einu frá félagsmönnum, svo og hvern hlut hver þeirra eigi í kröfu sé hún um greiðslu peningafjárhæðar. Í 3. mgr. greinarinnar er síðan að því vikið hvernig fari gangi nýr aðili í málsóknarfélag eftir að mál hefur verið höfðað.

         Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 117/2010, sem lögfesti heimild 19. gr. a í lögum nr. 91/1991, er gerð grein fyrir megininntaki frumvarpsins. Þar segir orðrétt eftirfarandi:

Í frumvarpinu felst sú grundvallarregla að um mál sem er höfðað og rekið af málsóknarfélagi gilda allar reglur réttarfarslaga að því marki sem ekki er beinlínis vikið frá þeim með reglum frumvarpsins.

      Frumvarpið nær til þeirra tilvika þar sem hver og einn sem telur til réttar á hendur öðrum hefði getið rekið mál fyrir dómi upp á sitt eindæmi eða með því að standa ásamt fleirum að málsókn með samlagsaðild samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga um meðferð einkamála. Þess í stað er með frumvarpinu lögð til heimild til stofnunar málsóknarfélags í því skyni að félagið komi fram og reki dómsmál en ekki þeir sem eiga þá hagsmuni sem leitað er fyrir dómi.

         Í skýringum með 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins sagði enn fremur eftirfarandi:

Einnig er áskilið með sama hætti og á við um samlagsaðild að félagsmenn í málsóknarfélagi eigi allir kröfur á hendur sama aðila sem eiga rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings. Með öllu er ógerlegt að víkja frá þessu skilyrði enda verður ekki rekið í einu lagi mál þar sem sakarefnið er ekki eins gagnvart öllum sem eiga í hlut þannig að málatilbúnaður allra sé samhljóða. 

         Við sömu málsgrein í frumvarpinu kemur fram að ef nauðsynlegt er af einhverju tilefni að reka fleiri mál fyrir dómi væri hægt að stofna samtímis fleiri málsóknarfélög um hvert sakarefni og tæki þá aðild að hverju félagi mið af því hverjir ættu þá hagsmuni sem málareksturinn stendur um. Þá er þar að finna eftirfarandi umfjöllun til útskýringar á því hvernig málatilbúnaður á þessum grunni getur verið ólíkur eftir því hvernig kröfugerð er hagað:

Þegar málsóknarfélag hefur verið myndað rekur það í einu lagi mál um kröfur allra félagsmanna. Í þessu felst að peningakröfur félagsmanna verða lagðar saman þannig að úr verði ein heildarkrafa sem beint verður að þeim sem málið er höfðað gegn. Ef málsóknarfélag gerir á hinn bóginn aðeins viðurkenningarkröfu er gert ráð fyrir því að sú krafa sé höfð uppi fyrir alla félagsmenn í senn án þess að þar sé gerður nokkur greinarmunur. Þannig yrði mál ekki rekið á þessum grundvelli ef aðstæður væru með því móti að tíunda yrði sérstaklega réttindi hvers og eins, enda er þá viðbúið að málatilbúnaður þeirra allra sé ekki einsleitur eins og áskilið er í frumvarpinu.

         Fyrir liggur að Málsóknarfélag hluthafa í Landsbanka Íslands höfðaði mál gegn stefnda 12. ágúst 2015. Með dómi Hæstaréttar Íslands 2. maí 2016 í málinu nr. 235/2016 var staðfestur úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur um að vísa bæri því máli frá dómi. Í dómi Hæstaréttar Íslands var skírskotað til framangreindra ákvæða og ummæla í lögskýringargögnum. Tekið var fram að af 1. og 2. mgr. 19. gr. a laga nr. 91/1991 leiddi að málsóknarfélagi væri heimilt, í samræmi við tilgang sinn, að höfða mál í eigin nafni og krefjast viðurkenningar í einu lagi á skaðabótaskyldu þess sem stefnt væri á tjóni félagsmanna sinna, enda væru uppfyllt skilyrði 1. mgr. 19. gr. og 2. mgr. 25. gr. laganna. Áskilið væri að kröfur félagsmanna væri af sömu rót runnar og því yrði sami bótagrundvöllur að búa að baki kröfunum þannig að málatilbúnaður allra félagsmanna væri einsleitur. Styddust kröfur þeirra t.d. við ólíkar málsástæður væri af þeim sökum ekki unnt að beita þessu málsóknarúrræði. Ef leiddar væru hins vegar nægar líkur að því að félagsmenn málsóknarfélags hefðu orðið fyrir tjóni, svo sem vegna sömu atvika, jafnframt því sem gerð væri grein fyrir í hverju tjón þeirra fælist og hver tengsl þess væru við atvik máls, þannig að fullnægt væri áskilnaði 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um lögvarða hagsmuni „væri ekkert því til fyrirstöðu að félagið krefðist í einu lagi viðurkenningar á bótaskyldu gagnvart félagsmönnunum án tillits til bótafjárhæðar sem kæmi í hlut hvers og eins þeirra“.

         Niðurstaða Hæstaréttar Íslands varð sú að kröfugerð í framangreindu máli, þar sem teflt hafði verið fram þremur aðalkröfum, sem byggðust á mismunandi málsástæðum, og við það miðað að þær gætu hver fyrir sig átt við suma félagsmanna málsóknarfélagsins en ekki aðra, væri í andstöðu við 1. og 2. mgr. 19. gr. a í lögum nr. 91/1991, eins og þau ákvæði yrði að skýra samkvæmt framansögðu. Því var staðfestur úrskurður héraðsdóms um að vísa málinu frá dómi.

         Stefnandi í því máli sem hér er til umfjöllunar telur sig hafa bætt úr þeim ágöllum sem ollu því að fyrra málinu var vísað frá dómi. Það sé gert með því að þeir einir geti átt aðild að stefnanda sem átt hafi hlutabréf í Landsbankanum áður en hin ætlaða bótaskylda háttsemi stefnda átti sér stað. Enn fremur hafi dómkröfunni verið breytt þannig að hún felur ekki lengur í sér mismunandi málsástæður.

         Eins og rakið hefur verið hafnar stefndi því að málatilbúnaður stefnanda sé kominn í það horf að fullnægt sé áskilnaði 1. og 2. mgr. 19. gr. a í lögum nr. 91/1991 um einsleitan málsgrundvöll félagsmanna stefnanda. Sú breyting sem gerð hafi verið á kröfugerð og aðild breyti t.d. engu um að málið horfi með mismunandi hætti við með tilliti til viðskipta hvers félagsmanns stefnanda með hluti í Landsbankanum og hvað ætla megi um tjón þeirra og tengsl þess við ætlaða bótaskylda háttsemi stefnda.

         Í máli þessu gengur stefnandi út frá því að öll hlutabréf félagsmanna stefnanda í Landsbanka Íslands hf. hafi orðið verðlaus í kjölfar þess að stjórn bankans var yfirtekin af Fjármálaeftirlitinu í október 2008. Eignir þeirra hafi því farið forgörðum við fall bankans. Stefnandi heldur því þó ekki fram að hin ætlaða skaðabótaskylda háttsemi stefnda hafi valdið því að eignir félagsmanna stefnanda hafi orðið verðlausar, eins og algengt er í skaðabótamálum. Aftur á móti er á því byggt að félagsmenn stefnanda hefðu ekki tapað fjárfestingum sínum í bankanum ef stefndi hefði veitt þær upplýsingar sem byggt er á að honum hafi verið skylt að gera og að félagsmönnum stefnanda hefði verið gert yfirtökutilboð. Hefðu félagsmenn stefnanda þá verið búnir að selja hlutabréf sín í bankanum áður en þau urðu verðlaus. Að þessu leyti er mögulegt tjón félagsmanna stefnanda háð ætluðum viðbrögðum þeirra á markaði við þeirri upplýsingagjöf og tilboði sem stefnendur álíta að hefði átt að koma fram.

         Samkvæmt reglum skaðabótaréttar er það skilyrði skaðabótaskyldu að tjón hafi orðið sem tjónvaldur beri skaðabótaábyrgð á. Getur engu breytt í því sambandi þó að kröfugerð stefnanda sé hagað á þann veg að krafist sé viðurkenningar á skaðabótaskyldu tjónvalds í stað þess að krefjast dóms um tiltekna bótafjárhæð. Sú tilhögun á kröfugerð getur t.d. ekki komið í veg fyrir að tekið sé til varna með vísan til þess að þessu skilyrði skaðabótaskyldu sé ekki fullnægt.

         Við umfjöllun um tjón sem byggt er á að hlotist hafi af viðskiptum með hlutabréf verður að hafa í huga að slík viðskipti eru áhættusöm í þeim skilningi að þau geta ýmist haft í för með sér tap eða hagnað fyrir þann sem á í þeim. Ekki er sjálfgefið að fjárfestir hafi orðið fyrir tjóni í merkingu skaðabótaréttar þótt hann tapi fjármunum við það að hlutabréf í hans eigu verði verðlaus. Í því efni getur m.a. þurft að líta til annarra viðskipta hans með hluti í sama félagi eða öðrum félögum og á hvaða forsendum hann tekur þátt í slíkum viðskiptum. Þá verður almennt að ganga út frá því að viðbrögð fjárfesta við atvikum, sem eru til þess fallin að hafa áhrif á hegðun þeirra á markaði, séu einstaklingsbundin og helgist af áherslum þeirra í viðskiptum.

         Séu þessar almennu forsendur settar í samhengi við það mál sem hér er til úrlausnar þá liggur fyrir að nokkuð langur tími leið frá því að ætluð saknæm háttsemi stefnda átti sér stað þar til tjón félagsmanna stefnanda á að hafa orðið. Kunna einhverjir þeirra að hafa selt meira af hlutabréfum í bankanum á þessum tíma og allt til þess að bankinn féll í október 2008, en þeir sátu uppi með í lokin. Því er ekki unnt að útiloka að einhverjir félagsmenn stefnanda hafi í raun hagnast af því að stefndi lét hjá líða að gera það sem stefnandi telur að honum hafi verið skylt að gera, enda hefði sú ráðstöfun átt að leiða til lækkunar á verði hlutabréfanna miðað við forsendur í stefnu. Við umfjöllun um tjón í þessu samhengi verða ætluð viðbrögð félagsmanna við þeim upplýsingum, sem stefnandi telur að hafi skort, ekki heldur afgreidd með einhliða yfirlýsingu stefnanda um að félagsmenn hans hefðu allir sem einn ekki kært sig um að vera hluthafar í bankanum og þeir því selt alla hluti sína í honum.

         Eins og mál þetta er vaxið telur dómurinn því að málatilbúnaður allra félagsmanna stefnanda geti ekki verið einsleitur að þessu leyti þó að þættir er lúti að hinni ætluðu bótaskyldu háttsemi stefnda séu það. Skilyrði 1. og 2. mgr. 19. gr. a í lögum nr. 91/1991 er því ekki fullnægt að þessu leyti þannig að höfða megi málið í þeim búningi sem þar er kveðið á um. Því er óhjákvæmilegt að vísa málinu frá dómi.

         Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 200.000 krónur.

         Dregist hefur að kveða upp úrskurð í máli þessu en dómari og aðilar töldu ekki ástæðu til þess að endurflytja málið.

         Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

         Máli þessu er vísað frá dómi.

         Stefnandi, Málsóknarfélag Landsbanka Íslands I, greiði stefnda, Björgólfi Thor Björgólfssyni, 200.000 krónur í málskostnað.