Print

Mál nr. 148/2017

Thomas Peter Thun (Eyvindur Sólnes lögmaður )
gegn
LBI ehf. (Herdís Hallmarsdóttir lögmaður)
Lykilorð
  • Lánssamningur
  • Ábyrgð
  • Erlend réttarregla
  • Varnarþing
  • Kröfugerð
  • Vextir
  • Dráttarvextir
Reifun
L ehf. höfðaði mál á hendur T til heimtu skuldar á grundvelli ábyrgðar T á láni til S, en L ehf. hafði fengið kröfuna framselda frá LL samkvæmt framsalssamningi. T krafðist meðal annars frávísunar á þeim grundvelli að krafa L ehf. um grunn samningsvaxta í lánssamningi væri vanreifuð en héraðsdómur hafði vísað frá dómi kröfu um dráttarvexti frá tilgreindum degi vegna vanreifunar. Í dómi Hæstaréttar kom fram að engin grein hefði verið gerð fyrir því í málinu hvaða vextir þetta væru sem tilgreindir væru í samningnum, né hvort og þá hvernig þeir hefðu verið kynntir af LL, hvorki á meðan hann starfaði né heldur eftir að hann var tekinn til slita og hætti reglulegri starfsemi. Var því fallist á þá kröfu T um að vísa þessum hluta vaxtakröfunnar frá héraðsdómi en að öðru leyti var kröfum hans um frávísun málsins hafnað. Þá var, með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, staðfest niðurstaða hans um að hafna kröfu T um sýknu. Loks var tekið fram að hið sama ætti við um forsendur héraðsdóms fyrir því að hafna bæri öðrum varakröfum T að því leyti sem það leiddi ekki af frávísun á kröfu um samningsvexti að hluta.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Benedikt Bogason og Gunnlaugur Claessen fyrrverandi hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 22. desember 2016 en ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 8. febrúar 2017 og var áfrýjað öðru sinni 2. mars sama ár. Hann krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara krefst hann sýknu af kröfum stefnda. Að því frágengnu krefst hann sýknu af kröfum stefnda að svo stöddu, en að öðrum kosti að dómkröfur hans verði lækkaðar. Í öllum tilvikum krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Félagið Sidborg Inc., sem er með lögheimili í Panama, gerði samning við Landsbanka Luxembourg S.A. 12. mars 2007 um að veita félaginu lán, án fyrirfram ákveðinnar fjárhæðar en að hámarki 1.000.000 evrur. Í lánssamningnum kom fram að lántaki skyldi nýta þá fjármuni sem hann fengi að láni samkvæmt samningnum til þess að endurgreiða allar skuldir vegna lánsheimildar að fjárhæð 1.000.000 evrur, ,,sem veitt var vegna reiknings 3007367 og/eða til að fjármagna gjaldeyrisskiptaviðskipti.“ Í samningum kom fram að um væri að ræða ,,fjölmyntalán“ en samkvæmt því átti lántaki kost á að breyta láninu í einhverja aðra valkvæða mynt en það var veitt í, enda hefði lánveitandi aðgang að þeirri mynt, allt að því tilskyldu að lántaki afhenti lánveitanda tilkynningu um þá mynt eða myntir innan tiltekins frests áður en vaxtatímabili lyki. Ef engin slík tilkynning bærist yrði ,,láninu rúllað áfram í þeim myntum sem það er í á gjalddaga vaxta“. Samkvæmt 5. grein lánssamningsins var Sidborg Inc. heimilt að biðja um að draga á lánið í heild eða að hluta og í skilgreiningu á orðinu ádráttarbeiðni kom fram að þar yrði félagið að tilgreina meðal annars í hvað mynt það vildi að lánið, eða hluti þess ef því væri að skipta, yrði veitt hverju sinni. Um vexti sagði í grein 6.1 í lánssamningnum að greiða bæri þá í upphafi hvers vaxtatímabils og skyldu þeir nema ,,1,00% (100 punktum) á ársgrundvelli (,,vaxtaálagið“) ofan á uppgefna vexti lánveitanda við upphaf hvers vaxtatímabils.“ Vaxtatímabil var ekki skilgreint á annan hátt en þann að lántaki gat valið um hvort það væri einn, þrír eða sex mánuðir, eða annar tími sem lánveitandi samþykkti, enda tilkynnti lántaki það innan tilgreinds frests. Um dráttarvexti sagði í grein 8.1 að ef lántaki vanefndi greiðslu höfuðstóls, vaxta eða annarra fjárhæða sem honum bæri að greiða samkvæmt samningnum, skyldi hann greiða dráttarvexti ,,af slíkum vangreiddum fjárhæðum, að frátöldum vaxtafjárhæðum, frá gjalddaga þar til lánveitanda berst greiðsla sem skulu nema 3,0% ... ársvöxtum umfram vaxtastig lánsins.“ Um tryggingar fyrir láninu sagði að þær væru veittar annars vegar með veðsamningi 12. mars 2007 og hins vegar með persónulegri ábyrgð áfrýjanda. Í 18. grein var mælt fyrir um lokagjalddaga lánsins, sem skyldi vera 12. mars 2009 ,,í þeim gjaldmiðlum sem lánið er skráð í.“ Lántaka var þó heimilt að greiða höfuðstól lánsins eða hluta hans fyrr. Samkvæmt grein 20.1 var lánveitanda heimilt að framselja réttindi sín og skyldur samkvæmt samningnum hvort sem væri í heild eða að hluta. Um lög og varnarþing var mælt fyrir um 22. grein en þar sagði að um samninginn og öll réttindi og skuldbindingar sem af honum leiddu giltu lög Lúxemborgar og að dómstólar í því ríki hefðu lögsögu um úrlausn ágreiningsefna samkvæmt honum.

Sama dag og Sidborg Inc. undirritaði lánssamninginn gaf áfrýjandi út ábyrgðaryfirlýsingu þar sem fram kom í upphafi að ábyrgðin væri veitt í þágu Landsbanka Luxembourg S.A. Vísað var til lánssamningsins og tekið fram að það væri skilyrði þess að lán yrði veitt samkvæmt honum að ábyrgðarmaður veitti þessa ábyrgð í þágu lánveitanda. Um efni ábyrgðarinnar sagði í grein 2.1 að ábyrgðarmaður ábyrgðist skilyrðislaust og með óafturkræfum hætti ,,sem aðalskuldari en ekki einungis sem ábyrgðarmaður gagnvart lánveitandanum: ... Skilvísa og stundvísa greiðslu af hálfu lántaka í samræmi við skilmála og ákvæði samningsins að fjárhæð EUR 1.000.000 ... sem lántaka ber ... að greiða samkvæmt eða í tengslum við samninginn í samræmi við skilmála og ákvæði hans“. Í grein 2.2 sagði svo: ,,Nú vanefnir lántaki greiðslu samkvæmt samningnum þegar einhver fjárhæð verður gjaldkræf og heitir ábyrgðarmaður þá því að hann muni greiða lánveitanda, þegar þess er krafist og innan 3 bankadaga frá því að ábyrgðarmanni berst krafan, fjárhæð sem er jöfn fjárhæðinni eða fjárhæðunum sem lántaki hefur vanefnt eða greiða með vöxtum.“ Í grein 2.4 sagði svo: ,,Heimilt er að leggja fram kröfur vegna ábyrgðar þessarar og ábyrgð þessari verður framfylgt hvort sem gripið er til einhverra aðgerða gagnvart lántaka og/eða meðábyrgðarmanni eða ekki og hvað sem líður tilvist eða rétthæð annarra trygginga sem lánveitandi kann að eiga fyrir efndum á skuldbindingum lántaka samkvæmt samningnum.“  Í greinum 3 og 5 í ábyrgðaryfirlýsingunni var að finna ákvæði um að áfrýjandi afsalaði sér rétti til að bera fyrir sig ýmsar mótbárur, sem þar voru tilgreindar og tekið fram í staflið (i) grein 3.1 að ábyrgðin skyldi vera ,,alger og skilyrðislaus við allar kringumstæður.“ Um gildandi lög og varnarþing sagði í 9. grein að ábyrgðin lyti lögum Lúxemborgar, en að úr ágreiningi samkvæmt henni skyldi leyst fyrir ,,Héraðsdómi Reykjavíkur á Íslandi“.

Hvor málsaðila um sig hefur lagt fram álitsgerð frá starfandi lögmannskrifstofum í Lúxemborg, sem einkum lúta að fullnustuhæfi ábyrgðar þar sem meðal annars er fjallað um gildi og réttaráhrif hennar, mynt sem beri að greiða ábyrgðina í, ráðstöfun greiðslna og vexti. Niðurstaða um eðli ábyrgðar þeirrar, sem áfrýjandi gekkst undir og lýst hefur verið, var mismunandi samkvæmt álitsgerðunum. Í annarri var talið að um væri að ræða svonefnda sjálfstæða ábyrgð, sem stefndi telur að jafnað verði til sjálfskuldarábyrgðar, en í hinni var talið að um væri að ræða einfalda ábyrgð. Í annarri álitsgerðinni kom fram að ekki giltu settar lagareglur um það sem nefnt væri sjálfstæðar ábyrgðir í Lúxemborg, heldur hafi reglur um þess konar ábyrgðir þróast fyrir venju.

Hvorugur málsaðila hefur lagt fram í íslenskri þýðingu settar lagareglur sem gildi í Lúxemborg til að renna stoðum undir kröfur sínar, en þó er víða í málatilbúnaði þeirra vísað til tiltekinna greina í lögum landsins.  

II

Ágreiningslaust er í málinu að dregið var níu sinnum á heimild Sidborg Inc. samkvæmt lánssamningnum, fyrst 11. maí 2007 og síðast 4. september 2008. Stefndi kveður samanlagða fjárhæð þess höfuðstóls sem lántaki fékk að láni hafa numið 113.774.480 japönskum jenum. Áfrýjandi kveður Sidborg Inc. ekki hafa óskað eftir því að lánsfjárhæðirnar yrðu í japönskum jenum, en hann andmælir því ekki að félagið hafi í raun fengið greitt í þeim gjaldmiðli, auk þess sem ekkert liggur fyrir um að það hafi nýtt sér heimild þá, sem var að finna í lánssamningi um að krefjast breytinga á mynt lánsfjárhæðarinnar. Sidborg Inc. greiddi ekki vexti á gjalddaga þeirra og innti ekki af hendi greiðslur af höfuðstól að öðru leyti en því að 741 japanskt jen var fært til lækkunar á honum, en sú fjárhæð var færð sem innborgun í tveimur hlutum. Lánveitandi mat 30. september 2008 verðmæti þeirra eigna sem Sidborg Inc. hafði sett til tryggingar láninu. Verðmæti þeirra mun þá hafa numið um 90% af skuldinni. Stefndi kveður Landsbanka Luxembourg S.A. hafa ritað lántaka bréf 13. október 2008 og gefið honum kost á því að auka við tryggingar sínar fyrir láninu innan þriggja daga, ella myndi bankinn nota andvirði trygginganna til þess að greiða lánið sem yrði gjaldfellt í samræmi við heimild í lánssamningi. Ágreiningslaust er að ekki voru frekari tryggingar settar fyrir greiðslu lánsins af hálfu lántaka. Samkvæmt gögnum málsins var það þó fyrst 5. mars 2009 sem bankinn notaði andvirði eignanna til þess að greiða inn á lánið. Samkvæmt yfirliti, sem stefndi hefur lagt fram, var verðmæti eignanna 96.993.355 japönsk jen og notaði hann 92.699.988 japönsk jen til þess að greiða inn á höfðustól skuldarinnar, sem þá var 113.773.739 japönsk jen, en 4.113.971 gekk til greiðslu áfallinna vaxta og 179.396 til greiðslu áfallinna dráttarvaxta. Stefndi kveður eftirstöðvar höfuðstóls skuldarinnar, eftir þessar greiðslur, hafa verið 21.073.751 japanskt jen.

Landsbanki Luxembourg S.A. tilkynnti viðskiptamönnum sínum 24. mars 2009 að bankinn hefði verið tekinn til slita. Í bréfinu var tekið fram að því fylgdi yfirlit um stöðu viðtakanda við bankann eins og hún hafi verið 11. desember 2008 og eins og hún var 30. september það ár. Áfrýjandi fékk innheimtubréf 10. desember 2009 frá lögmannsstofu, sem kvaðst koma fram fyrir hönd bankans, sem var í slitameðferð, og annað 2. febrúar 2011. Í kjölfar síðara bréfsins urðu bréfaskipti milli lögmanna bankans og áfrýjanda. Í þessum samskiptum, sem samkvæmt gögnum málsins lauk í ársbyrjun 2012, kom meðal annars fram að áfrýjandi teldi sér ekki skylt að greiða kröfuna.

Stefndi fékk kröfuna framselda samkvæmt framsalssamningi 29. júní 2012, en þá var fjárhæð kröfunnar tilgreind sem 26.641.692 japönsk jen. Í stefnu kemur á hinn bóginn fram að staða skuldarinnar 25. ágúst 2014 hafi verið 26.152.228 japönsk jen, þar af hafi í sama gjaldmiðli höfuðstóll verið 21.073.751, áfallnir samningsvextir 1.366.032, dráttarvextir af höfðustól 3.552.683 og dráttarvextir af samningsvöxtum 159.762.

III

Áfrýjandi styður frávísunarkröfu sína í fyrsta lagi við þá málsástæðu að málið eigi ekki undir íslenska dómstóla, heldur eigi að reka málið fyrir dómstólum í Lúxemborg. Hann kveður ábyrgð þá, sem hann hafi gengist undir hafa verið einfalda ábyrgð en ekki sjálfskuldarábyrgð og verði ábyrgðin ekki skilin frá lánssamningi þeim, sem Sidborg Inc. gerði við Landsbanka Luxembourg S.A., en öll dómsmál sem rísa kunni vegna þess samnings beri samkvæmt fyrirmælum í honum að reka fyrir dómstólum í Lúxemborg. Hann kveðst geta borið fyrir sig allar sömu mótbárur er lúti að gildi lánssamningsins og framkvæmd hans og skuldara hefði verið heimilt að gera. Í þessu felst að sögn áfrýjanda að mat á gildi og umfangi ábyrgðar hans á skuldbindingu Sidborg Inc. ráðist af túlkun á lánssamningnum. Þess vegna hafi íslenskir dómstólar ekki lögsögu í málinu. Hann bendir einnig á að þar sem varnarþingsákvæði lánssamningsins annars vegar og varnarþingsákvæði ábyrgðaryfirlýsingarinnar hins vegar stangist á hljóti stefndi, sem leiði rétt sinn frá Landsbanka Luxembourg S.A., en sá banki hafi samið öll skjöl sem hér skipti máli, að bera hallann af því að óvissa sé um varnarþing.

Í öðru lagi krefst áfrýjandi frávísunar vegna þess að málið sé vanreifað í verulegum atriðum þannig að honum hafi verið óhægt um vik við að halda uppi vörnum. Hann tekur einnig fram að þegar málið var höfðað hafi verið lögð fram á íslensku stefna og skrá um framlögð skjöl, en önnur skjöl ellefu talsins hafi verið lögð fram á erlendum tungumálum. Fari þetta í bága við 3. mgr. 10. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Í þriðja lagi telur áfrýjandi að vaxtakrafa stefnda sé vanreifuð. Ekki sé einungis átt við þann hluta vaxtakröfunnar sem féll til eftir 25. september 2014 og héraðsdómur vísaði frá dómi, heldur eigi það sama við um vaxtakröfuna í heild sinni og beri því að vísa henni frá dómi. Hann nefnir sérstaklega í þessu sambandi að samningsvextir samkvæmt lánssamningi hafi verið 1% ofan á uppgefna vexti lánveitanda, Landsbanka Luxembourg S.A. eins og þá  hafi átt að kynna í upphafi hvers vaxtatímabils. Ekki sé unnt að sjá að þeir vextir hafi verið uppgefnir af hálfu lánveitanda, samkvæmt því sem mælt var fyrir um, og því skorti á að sýnt sé fram á hver hafi verið grundvöllur vaxtakröfunnar.

Í fjórða lagi reisir áfrýjandi kröfu sína um frávísun á því að ekki liggi fyrir að heimilt sé fyrir stefnda að gera kröfu um greiðslu vegna ábyrgðar sinnar í japönskum jenum, heldur hefði stefndi þurft, samkvæmt lögum Lúxemborgar, að gera kröfuna í evrum eða hugsanlega í íslenskum krónum. Um röksemdir sínar að þessu leyti vísar áfrýjandi til ábyrgðaryfirlýsingarinnar, sem hann kveður aðeins gera ráð fyrir að sé í evrum, en einnig til lögfræðilegar álitsgerðar, en hennar hafi stefndi aflað og lagt fram. Hann kveður niðurstöðu þeirrar álitsgerðar ótvíræða um að ekki sé, eins og málið liggi fyrir, heimilt samkvæmt lögum Lúxemborgar að gera kröfu fyrir dómi á hendur áfrýjanda í japönskum jenum.

IV

Áfrýjandi krafðist einnig frávísunar málsins frá héraðsdómi, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði 28. október 2015. Úrskurðarorð voru skráð í þingbók, en héraðsdómari færði fram munnleg rök fyrir niðurstöðu sinni, sbr. 2. málslið 3. mgr. 112. gr. laga nr. 91/1991.

Eins og að framan greinir fékk stefndi kröfuna á hendur Sidborg Inc. framselda 29. júní 2012. Krafa hans er reist á vanefndum á framangreindum lánssamningi, sem áfrýjandi hefur með ábyrgðaryfirlýsingu skuldbundið sig til þess að greiða. Þótt fallast megi á með áfrýjanda að lánssamningurinn og ábyrgðaryfirlýsingin séu samtvinnuð verður ekki framhjá því litið að Sidborg Inc. er skuldari samkvæmt samningnum, sem mælir fyrst og fremst fyrir um efni réttarsambands félagsins við lánveitanda og síðar stefnda eftir að hann fékk kröfuna framselda. Ábyrgðin er á hinn bóginn veitt af áfrýjanda og hefur að geyma einhliða yfirlýsingu af hans hálfu um fyrirvaralausa skyldu til þess að greiða lánið. Í ábyrgðaryfirlýsingunni er skýrlega tekið fram að Héraðsdómur Reykjavíkur eigi úrskurðarvald um ágreining sem rís vegna ábyrgðarinnar. Málið er höfðað af stefnda til að knýja áfrýjanda til efnda á skyldum samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingunni og er það réttilega lagt fyrir íslenska dómstóla.

Af stefnu til héraðsdóms var nægilega ljóst hvaða kröfu stefndi tefldi fram og við hvaða málsástæður hún var studd. Stefndi lagði undir rekstri málsins fram íslenska þýðingu helstu skjala, sem hann reisir mál sitt á, og fullnægði þar með þeim skyldum, sem á honum hvíldu að þessu leyti, sbr. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt framansögðu var málið nægilega reifað af hálfu stefnda er það var höfðað og bætt, að því marki sem þörf var á, úr þeim annmörkum, sem áfrýjandi fann að í héraðsgreinargerð sinni.

Héraðsdómur vísaði frá dómi kröfu stefnda um vexti og dráttarvexti eftir 25. september 2014 sökum þess að hún væri vanreifuð. Stefndi hefur ekki gagnáfrýjað málinu og kemur þessi niðurstaða ekki til endurskoðunar. Áfrýjandi heldur því einnig fram að krafan um samningsvexti sé vanreifuð. Í grein 6.1 í lánssamningi hafi verið kveðið á um að vextir skyldu ákveðnir þannig að þeir væru 1% á ári ,,ofan á uppgefna vexti lánveitanda við upphaf hvers vaxtatímabils.“ Hann kveður stefnda hvorki hafa gert grein fyrir því hvernig vextir þessir hafi verið fundnir né hvar þeir hafi verið gefnir upp. Ekkert liggi fyrir um hvort þeir hafi yfirleitt verið gefnir upp. Fallist er á með áfrýjanda að engin grein hafi verið gerð fyrir því í málinu hvaða vextir þetta séu né hvort og þá hvernig þeir hafi verið kynntir af Landsbanka Luxembourg S.A., hvorki á meðan hann starfaði né heldur eftir að hann var tekinn til slita og hætti reglulegri starfsemi eins og tilkynnt var um 24. mars 2009. Verður því þessum hluta vaxtakröfunnar vísað frá héraðsdómi, en í því felst að skuldin ber 1% ársvexti og 3% dráttarvexti ofan á það eða samtals 4%, eftir að vanskil urðu, fram til 25. september 2014.

Krafa áfrýjanda um frávísun málsins er, sem fyrr segir, einnig á því reist að stefnda hafi verið óheimilt að höfða málið til heimtu skuldarinnar í japönskum jenum. Um þetta vísar áfrýjandi til álitsgerðar lögmannsskrifstofu í Lúxemborg, sem stefndi hafi sjálfur lagt fram. Hafa verði í huga að í lánssamningi og í ábyrgðaryfirlýsingu hafi verið tekið fram að lög Lúxemborgar skyldu gilda samkvæmt þeim báðum. Stefndi hafi beðið lögmannsskrifstofuna um álit á því í hvaða mynt bæri að greiða ,,ábyrgðarfjárhæðina“. Spurningin hafi nánar tiltekið lotið að því hvort krefja mætti áfrýjanda um greiðslu samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingunni í evrum, japönskum jenum eða íslenskum krónum og hvaða ákvæði laga í Lúxemborg giltu um þetta álitaefni. Í álitsgerðinni er vísað til laga frá 12. júlí 1980, sem gildi um þetta álitaefni í Lúxemborg, og feli þau í sér að fullgiltur sé ,,Evrópusáttmáli frá 11. desember 1976 um skuldbindingar í erlendum myntum, sem gerður var í París“. Í álitsgerðinni segir einnig að samkvæmt lögum í Lúxemborg sé skuldara heimilt að greiða fjárskuldbindingar sínar í þeirri mynt sem sé lögeyrir í ríkinu, en í því felist að hann eigi að geta greitt í evrum. Þetta gildi þótt kveðið sé á um greiðslu skuldarinnar í annarri mynt. Frá þessu séu þær undantekingar að reglan eigi ekki við ef annað komi skýrt fram í samningi eða samkvæmt venju eða ef greiðslan í mynt greiðslustaðarins væri til verulegs óhagræðis fyrir lánveitandann. Um þetta hafi skuldarinn ekkert val. Á hinn bóginn gildi sú regla að ef lánveitandi höfðar mál til endurheimtu á fjárhæð geti hann farið fram á það við dóminn að skuldara verði gert að greiða skuld sína í þeirri mynt, sem honum beri réttur til eða jafnvirði hennar í myntinni sem gildi á varnarþingi málsins. Í álitsgerðinni er vísað til greinar 1153-1 í ,,einkamálalögum Lúxemborgar og 4. gr. viðaukans við sáttmálann“ um bótarétt kröfuhafa á hendur skuldara ef hinn fyrrnefndi verður fyrir tjóni vegna þess að myntin sem skuldari má greiða í samkvæmt framansögðu hefur lækkað í samanburði við þá mynt sem samið var um. Þá segir að greina þurfi hvort í gildi sé samningur um myntina sem skuldin skyldi greidd í. Aðeins komi til álita í því sambandi skilmálar ábyrgðaryfirlýsingarinnar en þar sé einungis kveðið á um að áfrýjandi greiði fjárhæð sem nemi 1.000.000 evrum auk vaxta. Ekki sé samkomulag um annað og sé áfrýjanda því frjálst að greiða ábyrgðina í evrum eða mynt greiðslustaðarins, sem sé Danmörk. Stefndi hafi á hinn bóginn ekki slíkt val og geti aðeins gert kröfu um greiðslu í evrum. Hann eigi samkvæmt framansögðu þó rétt til skaðabóta samkvæmt tilvitnaðri grein einkamálalaga í Lúxemborg ef hann verður fyrir tjóni.

Eins og að framan greinir er niðurstaða álitsgerðarinnar á því reist að skylda áfrýjanda til greiðslu samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingunni standi aðeins til greiðslu í evrum. Ákvæði þeirra laga sem vísað er til í álitsgerðinni hefur ekki verið lagt fram í málinu. Þá er óupplýst hvort skráðar lagareglur gildi um túlkun samninga eða annarra löggerninga í Lúxemborg, eða hvort um það fari samkvæmt venjum og þá hvers efnis þær venjur séu.

Lánssamningur sá sem Sidborg Inc. gerði við Landsbanka Luxembourg S.A. er um lán að fjárhæð allt að 1.000.000 evrur. Í samningnum eru á hinn bóginn ýmis ákvæði sem heimila lántöku í öðrum myntum, auk þess sem þar er að finna heimild fyrir skuldara til þess að óska eftir myntbreytingu á skuldinni að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Óumdeilt er að lán samkvæmt lánssamningnum var veitt í japönskum jenum. Í lánssamningnum var, eins og fram er komið, það skilyrði fyrir lánveitingunni að áfrýjandi gengist í ábyrgð fyrir láninu. Um það gaf hann út ábyrgðaryfirlýsingu sama dag og lánssamningurinn var undirritaður. Þar lýsir hann því meðal annars yfir að gegn því að lánveitandi samþykki að veita lánið, eins og í lánssamningi greini, ábyrgist hann lánið skilyrðislaust sem aðalskuldari en ekki einungis sem ábyrgðarmaður gagnvart lánveitanda. Yfirlýsing áfrýjanda er yfirlýsing um ábyrgð sem jafngildir sjálfskuldarábyrgð. Þótt í ábyrgðaryfirlýsingu sé, með sama hætti og í lánssamningi, miðað við að veitt verði lán allt að fjárhæð 1.000.000 evrur, leikur ekki vafi á því að hin fyrirvaralausa skuldbinding sem áfrýjandi undirgekkst með ábyrgðaryfirlýsingunni felur í sér ábyrgð á skuld í þeirri mynt sem lánið kann að vera veitt í samkvæmt lánssamningnum. Eins og fyrr segir er ágreiningslaust að lánið var veitt í japönskum jenum. Einnig er fram komið að áfrýjandi ábyrgðist greiðslu lánsins sem aðalskuldari. Er ósannað að samkvæmt lögum í Lúxemborg beri að túlka ábyrgðina samkvæmt yfirlýsingunni svo, með hliðsjón af framansögðu, að hún taki ekki til skuldar í japönskum jenum, ef það er sú mynt sem lánuð hefur verið samkvæmt lánssamningnum, en sönnunarbyrði fyrir því ber áfrýjandi, sbr. 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991.

Samkvæmt framansögðu verður ekki fallist á að skýra eigi ábyrgðaryfirlýsingu áfrýjanda svo að hún taki eingöngu til þess að hann verði skuldbundinn í evrum. Eins og áður segir hafa ekki verið lögð fram þau lagaákvæði sem gilda í Lúxemborg og hér geta skipt máli. Áfrýjandi heldur því fram að vísa beri málinu frá dómi sökum þess að lög Lúxemborgar heimili ekki að mál sé höfðað á hendur sér til heimtu skuldarinnar í japönskum jenum. Í samræmi við meginreglur alþjóðlegs einkamálaréttar geta réttarfarsreglur í Lúxemborg ekki átt við um mál, sem rekin eru fyrir dómstólum hér á landi. Með vísan til alls framangreinds verður kröfu áfrýjanda um frávísun málsins í heild hafnað.

Áfrýjandi teflir fram sjö málsástæðum til stuðnings sýknukröfu sinni. Með vísan til forsendna verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um að hafna beri kröfu áfrýjanda um sýknu. Hið sama á við um forsendur héraðsdóms fyrir því að hafna beri öðrum varakröfum áfrýjanda að því leyti, sem það leiðir ekki af frávísun á kröfu um samningsvexti að hluta.

Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir og hefur þá verið tekið tillit til innborgana stefnda 9. janúar 2008, að fjárhæð 541 japanskt jen og 1. júlí 2008 að fjárhæð 200 japönsk jen. Auk þess hefur í héraðsdómi ekki verið tekið tillit til þess að á yfirliti stefnda um greiðslur á höfuðstól, innborganir á hann, uppsöfnun vaxta og dráttarvaxta eru tilgreindar eftirtaldar innborganir í japönskum jenum 5. mars 2009: 92.699.988 á höfuðstól, 4.113.971 inn á samningsvexti og 179.396 inn á dráttarvexti. Ekki verður séð að í dómsorði héraðsdóms sé tekið tillit til annarra innborgana en þeirrar, sem gengur til lækkunar á höfuðstól. Í ljósi vaxtaákvæðis dómsins verður að draga frá allar innborganir áfrýjanda, sem samkvæmt framansögðu nema samtals 96.993.355 japönskum jenum. 

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.ritað kauptilboðið aftur 30. september 2015 eftir að kaupverð fasteignarinnar g annarrar tj

 

Dómsorð:

Áfrýjandi, Thomas Peter Thun, greiði stefnda, LBI ehf., 113.773.739 japönsk jen með 1% vöxtum af 87.463.063 japönskum jenum frá 10. maí 2007 til 18. júlí 2007, en af 101.473.281 japönsku jeni frá þeim degi til 7. ágúst 2007, en af 102.233.229 japönskum jenum frá þeim degi til 10. september 2007, en af 103.904.228 japönskum jenum frá þeim degi til 5. október 2007, en af 104.461.403 japönskum jenum frá þeim degi til 12. desember 2007, en af 104.889.236 japönskum jenum frá þeim degi til 9. janúar 2008, en af 104.888.965 japönskum jenum frá þeim degi til 14. maí 2008, en af 111.672.602 japönskum jenum frá þeim degi til 19. júní 2008, en af 112.329.079 japönskum jenum frá þeim degi til 1. júlí 2008, en af 112.328.879 japönskum jenum frá þeim degi til 4. september 2008, en af 113.773.739 japönskum jenum frá þeim degi til 12. mars 2009, en með 4% dráttarvöxtum frá þeim degi til 25. september 2014, allt að frádreginni innborgun 5. mars 2009 að fjárhæð 96.993.355 japönsk jen.

Málskostnaðarákvæði héraðsdóms er staðfest.

Áfrýjandi greiði stefnda 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

  

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. september 2016.

          I,

                Mál þetta var höfðað 4. október 2014 og dómtekið 2. september 2016.

                Stefnandi er LBI ehf., Álfheimum 74, 105 Reykjavík.

                Stefndi er Thomas Peter Thun, Bolbrovej 2, DK-2960 Rungsted Kyst, Horsholm, Danmörku.

                Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 113.773.739 japönsk jen ásamt umsömdum vöxtum. Af 87.463.063 japönskum jenum, með 2,06000% vöxtum frá 10. maí 2007 til 8. júní 2007, en með 1,99828% vöxtum frá 8. júní 2007 til 9. júlí 2007, en með 1,99680% vöxtum frá 9. júlí 2007 til 18. júlí 2007. Af 101.473.281 japönsku jeni, með 1,99660% vöxtum frá 18. júlí 2007 til 7. ágúst 2007. Af 102.233.229 japönskum jenum, með 2,04209% vöxtum frá 7. ágúst 2007 til 10. september 2007. Af 103.904.228 japönskum jenum, með 2,18197% vöxtum frá 10. september 2007 til 5. október 2007. Af 104.461.403 japönskum jenum, með 2,18945% vöxtum frá 5. október 2007 til 10. október 2007, en með 2,14059% vöxtum frá 10. október 2007 til 12. nóvember 2007, en með 2,01912% vöxtum frá 12. nóvember 2007 til 12. desember 2007, en með 2,02704% vöxtum frá 12. desember 2007 til 9. janúar 2008. Af 104.889.236 japönskum jenum, með 2,40947% vöxtum frá 9. janúar 2008 til 15. janúar 2008, en með 2,08727% vöxtum frá 15. janúar 2008 til 15. febrúar 2008, en með 2,07570% vöxtum frá 15. febrúar 2008 til 17. mars 2008, en með 2,44021% vöxtum frá 17. mars 2008 til 17. apríl 2008, en með 2,31858% vöxtum frá 17. apríl 2008 til 14. maí 2008. Af 111.672.602 japönskum jenum, með 2,32076% vöxtum frá 14. maí 2008 til 19. maí 2008, en með 2,51609% vöxtum frá 19. maí 2008 til 19. júní 2008. Af 112.329.079 japönskum jenum, með 2,52663% vöxtum frá 19. júní 2008 til 1. júlí 2008, en með 2,59232% vöxtum frá 1. júlí 2008 til 22. júlí 2008, en með 2,52854% vöxtum frá 22. júlí 2008 til 22. ágúst 2008, en með 2,48840% vöxtum frá 22. ágúst 2008 til 4. september 2008. Af 113.773.739 japönskum jenum, með 2,49113% vöxtum frá 4. september 2008 til 22. september 2008, en með 2,65155% vöxtum frá 22. september 2008 til 22. október 2008, en með 2,13789% vöxtum frá 22. október 2008 til 22. nóvember 2008, en með 1,96080% vöxtum frá 22. nóvember 2008 til 22. desember 2008, en með 2,07908% vöxtum frá 22. desember 2008 til 22. janúar 2009, en með 1,58159% vöxtum frá 22. janúar 2009 til 22. febrúar 2009, en með 1,52619% vöxtum frá 22. febrúar 2009 til 5. mars 2009, en með 1,37000% vöxtum frá 5. mars 2009 til 12. mars 2009, en með 4,37116% vöxtum frá 12. mars 2009 til 23. mars 2009, en með 4,48807% vöxtum frá 23. mars 2009 til 22. apríl 2009, en með 4,33958% vöxtum frá 22. apríl 2009 til 22. maí 2009, en með 4,26665% vöxtum frá 22. maí 2009 til 22. júní 2009, en með 4,25116% vöxtum frá 22. júní 2009 til 22. júlí 2009, en með 4,23855% vöxtum frá 22. júlí 2009 til 24. ágúst 2009, en með 4,22250% vöxtum frá 24. ágúst 2009 til 22. september 2009, en með 4,21017% vöxtum frá 22. september 2009 til 22. október 2009, en með 4,19790% vöxtum frá 22. október 2009 til 23. nóvember 2009, en með 4,19716% vöxtum frá 23. nóvember 2009 til 22. desember 2009, en með 4,21210% vöxtum frá 22. desember 2009 til 22. janúar 2010, en með 4,20208% vöxtum frá 22. janúar 2010 til 22. febrúar 2010, en með 4,20621% vöxtum frá 22. febrúar 2010 til 22. mars 2010, en með 4,21058% vöxtum frá 22. mars 2010 til 22. apríl 2010, en með 4,21472% vöxtum frá 22. apríl 2010 til 26. maí 2010, en með 4,22687% vöxtum frá 26. maí 2010 til 22. júní 2010, en með 4,22860% vöxtum frá 22. júní 2010 til 22. júlí 2010, en með 4,22563% vöxtum frá 22. júlí 2010 til 23. ágúst 2010, en með 4,22545% vöxtum frá 23. ágúst 2010 til 22. september 2010, en með 4,22115% vöxtum frá 22. september 2010 til 22. október 2010, en með 4,20852% vöxtum frá 22. október 2010 til 22. nóvember 2010, en með 4,20933% vöxtum frá 22. nóvember 2010 til 22. desember 2010, en með 4,21894% vöxtum frá 22. desember 2010 til 24. janúar 2011, en með 4,21618% vöxtum frá 24. janúar 2011 til 22. febrúar 2011, en með 4,22566% vöxtum frá 22. febrúar 2011 til 22. mars 2011, en með 4,26386% vöxtum frá 22. mars 2011 til 22. apríl 2011, en með 4,25200% vöxtum frá 22. apríl 2011 til 23. maí 2011, en með 4,25096% vöxtum frá 23. maí 2011 til 22. júní 2011, en með 4,25457% vöxtum frá 22. júní 2011 til 22. júlí 2011, en með 4,25850% vöxtum frá 22. júlí 2011 til 22. ágúst 2011, en með 4,26193% vöxtum frá 22. ágúst 2011 til 22. september 2011, en með 4,26953% vöxtum frá 22. september 2011 til 24. október 2011, en með 4,27374% vöxtum frá 24. október 2011 til 22. nóvember 2011, en með 4,27820% vöxtum frá 22. nóvember 2011 til 22. desember 2011, en með 4,28123% vöxtum frá 22. desember 2011 til 23. janúar 2012, en með 4,28692% vöxtum frá 23. janúar 2012 til 22. febrúar 2012, en með 4,29087% vöxtum frá 22. febrúar 2012 til 22. mars 2012, en með 4,29469% vöxtum frá 22. mars 2012 til 23. apríl 2012, en með 4,29890% vöxtum frá 23. apríl 2012 til 22. maí 2012, en með 4,30272% vöxtum frá 22. maí 2012 til 22. júní 2012, en með 4,30532% vöxtum frá 22. júní 2012 til 23. júlí 2012, en með 4,30940% vöxtum frá 23. júlí 2012 til 22. ágúst 2012, en með 4,31126% vöxtum frá 22. ágúst 2012 til 24. september 2012, en með 4,31559% vöxtum frá 24. september 2012 til 22. október 2012, en með 4,31330% vöxtum frá 22. október 2012 til 22. nóvember 2012, en með 4,31585% vöxtum frá 22. nóvember 2012 til 24. desember 2012, en með 4,32002% vöxtum frá 24. desember 2012 til 22. janúar 2013, en með 4,31782% vöxtum frá 22. janúar 2013 til 22. febrúar 2013, en með 4,32093% vöxtum frá 22. febrúar 2013 til 22. mars 2013, en með 4,32156% vöxtum frá 22. mars 2013 til 22. apríl 2013, en með 4,32405% vöxtum frá 22. apríl 2013 til 22. maí 2013, en með 4,32416% vöxtum frá 22. maí 2013 til 24. júní 2013, en með 4,32613% vöxtum frá 24. júní 2013 til 22. júlí 2013, en með 4,32820% vöxtum frá 22. júlí 2013 til 22. ágúst 2013, en með 4,33291% vöxtum frá 22. ágúst 2013 til 23. september 2013, en með 4,33700% vöxtum frá 23. september 2013 til 23. október 2013, en með 4,33480% vöxtum frá 23. október 2013 til 25. nóvember 2013, en með 4,33672% vöxtum frá 25. nóvember 2013 til 23. desember 2013, en með 4,34027% vöxtum frá 23. desember 2013 til 23. janúar 2014, en með 4,34193% vöxtum frá 23. janúar 2014 til 24. febrúar 2014, en með 4,34294% vöxtum frá 24. febrúar 2014 til 24. mars 2014, en með 4,34419% vöxtum frá 24. mars 2014 til 24. apríl 2014, en með 4,34808% vöxtum frá 24. apríl 2014 til 23. maí 2014, en með 4,34793% vöxtum frá 23. maí 2014 til 23. júní 2014, en með 4,35181% vöxtum frá 23. júní 2014 til 23. júlí 2014, en með 4,35358% vöxtum frá 23. júlí 2014 til 25. ágúst 2014, en með 4,34174% vöxtum frá 25. ágúst 2014 til 25. september 2014, allt að frádregnum innborgunum, 9. janúar 2008 að fjárhæð 541 japanskt jen, 1. júlí 2008 að fjárhæð 200 japönsk jen og 5. mars 2009 að fjárhæð 92.699.988 japönsk jen.

                Þá krefst stefnandi áfallandi vaxta og dráttarvaxta til greiðsludags. Loks krefst stefnandi málskostnaðar.

                Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Til vara er þess krafist að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda að svo stöddu. Til þrautarvara er þess krafist að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar. Í öllum tilfellum krefst stefndi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda.

                Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 28. október 2015, var frávísunarkröfu stefnda, Thomas Peter Thun, hafnað.

                Við aðalmeðferð málsins, 31. ágúst sl., var bókað af hálfu lögmanns stefnanda að rekstrarformi LBI hf. hefði verið breytt í einkahlutafélag og að nafn félagsins væri nú LBI ehf.

II.

Málavextir

                Hinn 12. mars 2007 gerðu Sidborg Inc, sem lántaki og Landsbanki Luxembourg S.A. sem lánveitandi með sér samning um að bankinn veitti Sidborg Inc lánalínu til tveggja ára, að hámarki ein milljón evra. Í samningnum kemur fram að gjalddagi sé 12. mars 2009 og að umsamdir vextir fyrir hvert vaxtatímabil séu 1% álag á fjármögnunarkostnað Landsbanka Luxembourg og skuli þeir reiknaðir sem dagvextir. Samkvæmt grein 6.1 í lánssamningnum skal notast við deilitöluna 360 þegar reiknaðir eru vextir af láninu. Samkvæmt grein 8.1 leggjast 3% dráttarvextir ofan á höfuðstól lánsins, vexti eða annan áfallinn kostnað við vanefnd samningsins. Í 3. gr. lánssamningsins er mælt fyrir um að lántaka sé heimilt að draga á lánalínuna í evrum eða öðrum myntum sem Landsbanki Luxembourg eigi í viðskiptum með. Í 9. gr. samningsins kemur fram að trygging fyrir láninu sé veitt með veðsamningi, dagsettum 12. mars 2007, persónulegri ábyrgð Thomas Peter Thun, og/eða lánssamningnum sjálfum. Samkvæmt 22. gr. gilda lúxemborgsk lög um lánssamninginn og skal ágreiningi sem upp kunni að rísa vegna hans, vísað til þarlendra dómstóla.

                Stefndi Thomas Peter Thun, sem jafnframt er fyrirsvarsmaður og eigandi Sidborg Inc., gekkst í ábyrgð fyrir láninu með undirritun ábyrgðaryfirlýsingar, dagsettrar 12. mars 2007. Stefndi undirritaði jafnframt öll skjöl fyrir hönd félagsins.

                Óumdeilt er að lántaki Sidborg Inc. dró níu sinnum á lánalínuna í japönskum jenum á árunum 2007 og 2008 eins og nánar er rakið í stefnu. Þar segir enn fremur að lántaki hafi ekki greitt vexti af láninu þegar þeir féllu til og féllu því umsamdir 3% dráttarvextir á vangoldna vexti. Landsbanki Luxembourg krafði með bréfi, dagsettu 13. október 2008, lántaka um frekari tryggingar fyrir láninu þegar veðþekja lánsins hafði fallið niður fyrir 90% samkvæmt verðmati á eignasafni lántaka, sem sett hafði verið til tryggingar láninu, þann 30. september 2008. Lántaki hafi tvisvar greitt af láninu og var þeim greiðslum ráðstafað í japönskum jenum inn á skuldina.

                Samkvæmt málatilbúnaði stefnanda bárust hvorki frekari tryggingar né greiðslur og gekk því bankinn að þeim tryggingum sem til staðar voru þann 5. mars 2009. Var andvirði þeirra, 92.699.988 japönskum jenum, ráðstafað inn á skuldina sem þá stóð í 118.067.106 japönskum jenum. Eftir þá ráðstöfun nam skuld Sidborg Inc. við Landsbanka Luxembourg 21.073.751 japönsku jeni sem bar áfram vexti og dráttarvexti í samræmi við skilmála lánssamningsins.

                Með bréfi Landsbankans Luxembourg S.A., dagsettu 24. mars 2009, til stefnda var tilkynnt að Landsbanki Luxembourg hefði verið tekinn til slitameðferðar. Með bréfinu fylgdi yfirlit yfir stöðu lánsins og upplýsingar um sölu hinna veðsettu eigna.

                Þann 10. desember 2009 var stefnda sent innheimtubréf frá danskri lögmannsstofu f.h. Landsbanka Luxembourg S.A., og hann krafinn um greiðslu skuldar að fjárhæð 1.381.565,74 danskar krónur. Stefndi hafnaði greiðslu kröfunnar en fundaði af því tilefni með starfsmönnum stofunnar. Stefnda var með bréfi lögmannsstofunnar, dagsettu 2. febrúar 2011, send ítrekun um greiðslu kröfunnar sem þá var sett fram í japönskum jenum. Þar sem krafan fékkst ekki greidd var mál þetta höfðað.

III.

Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi kveður skuld stefnanda við hann til komna vegna ábyrgðar sem stefndi hafi undirgengist í tengslum við lán Sidborg Inc hjá Landsbanka Luxembourg S.A. en stefnandi hafi fengið lánið og meðfylgjandi ábyrgð framselt til sín.

                Um sakarefni þessa máls gildi lúxemborgsk lög, skv. 9. gr. ábyrgðaryfirlýsingar stefnda en varnarþing sé hér á landi eins og tekið er fram í sömu grein.

                Stefnandi byggir á því að með undirritun sinni á ábyrgðina hafi stefndi skuldbundið sig til að tryggja skilvísar og skaðlausar greiðslur af láni Sidborg Inc. en samkvæmt gr. 9.1 í lánasamningnum var ábyrgð stefnda forsenda fyrir lánveitingunni. Lánveitandi hafi móttekið ábyrgðaryfirlýsingu stefnda en hún sé vottuð af tveimur starfsmönnum lánveitanda. Lúxemborgskir dómstólar hafi í réttarframkvæmd litið sérstaklega til þess að skýrt loforð eða viljayfirlýsing hafi verið móttekinn af þeim sem skuldbindingunni hafi verið beint til, til þess að hún teljist skuldbindandi. Undir þeim kringumstæðum hafi lúxemborgskir dómstólar litið á ábyrgðir sem sjálfstæða skuldbindingu.

                Stefnandi byggir á því að samkvæmt lúxemborgskum lögum teljist ábyrgðaryfirlýsing stefnda vera sjálfstæð ábyrgð (f. cautionnement). Í dómaframkvæmd hafi sérstaklega verið litið til þess að ábyrgðarmaður hafi með óafturkræfum hætti og án sérstakra skilyrða ábyrgst greiðslu skuldar. Þetta fyrirkomulag takmarki þær varnir sem ábyrgðarmaður geti borið fyrir sig. Hafi lúxemborgskir dómstólar komist að þeirri niðurstöðu að komi til vanskila, sé kröfuhafa í sjálfsvald sett hvort hann gangi að ábyrgðarmanni á undan aðalskuldara, sem sé þá skylt að greiða.

                Þá byggir stefnandi á því að samkvæmt lúxemborgskum lögum verði þeir sem ábyrgist skuldir annarra með sjálfstæðum ábyrgðum að sæta meiri háttar mótbárumissi. Í réttarframkvæmd hafi lúxemborgskir dómstólar talið að einu mótbárurnar sem komist að gagnvart sjálfstæðum ábyrgðum séu svik, fölsun eða nauðung.

                Þegar gengið hafi verið að veðunum hafi söluandlagi eignanna fyrst verið ráðstafað til greiðslu áfallina dráttarvaxta og því næst áfallina vaxta en að lokum á höfuðstól. Sé á því byggt af hálfu stefnanda að slík ráðstöfun sé í samræmi við lúxemborgsk lög, þar sem ekki hafði verið samið sérstaklega um annað og enginn fyrirmæli hafi borist frá stefnda um ráðstöfun greiðslu.

                Að teknu tilliti til áfallinna vaxta og innborgana á skuld Sidborg Inc við stefnanda, 25 ágúst 2014, samtals að fjárhæð 26.152.228 japönsk jen, sem samanstandi af höfuðstól, 21.073.751 japönsku jeni, samningsvöxtum, 1366.032 japönskum jenum, dráttarvöxtum af höfuðstól, 3.552.683 japönskum jenum og dráttarvöxtum af samningsvöxtum, 159.762 japönskum jenum. Stefnandi byggir á því að engin greiðsla hafi borist frá stefnda.

                Stefnandi byggir kröfu sína á Lúganósamningnum um dómsvald og um viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum eins og hann hafi verið lögfestur með lögum nr. 7/2011, almennum reglum samninga- og kröfuréttar um efndir samninga og fjárskuldbindinga, almennum skilmálum um opnun bankareiknings hjá Landsbanka Luxembourg, lánasamningi milli Landsbanka Luxembourg S.A., persónulegri ábyrgð Thomas Peter Thun á láni Sidborg Inc og lúxemborgskum lögum.

                Krafa stefnanda um vexti styðjist við 7. gr. lánasamningsins milli Sidborg og Landsbanka Luxembourg S.A. Varðandi dráttavexti vísist til 8. gr. lánasamningsins milli Sidborg og Landsbanka Luxembourg S.A. Krafa stefnanda um innheimtukostnað byggir á gr. 6.4 í lánasamningnum milli Sidborg og Landsbanka Luxembourg S.A.

IV.

Málsástæður og lagarök stefnda

                Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að ábyrgð stefnda sé einföld ábyrgð (accessory guarantee). Ekki verði séð af gögnum málsins að ábyrgð stefnda hafi verið framseld stefnanda. Hvorki framsalsgjörningurinn frá 29. júní 2012 né tilkynning framseljanda og framsalshafa til stefnda sama dag beri með sér að hin einhliða og persónulega ábyrgðaryfirlýsing, sem stefnandi gaf, 12. mars 2007, hafi verið framseld með lögformlegum hætti. Stefndi geti því ekki átt aðild að máli þessu og því beri þegar af þeirri ástæðu að sýkna hann með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, þrátt fyrir að ágreiningur aðila lúti lögum Lúxemborgar.

                Í öðru lagi byggir stefndi sýknukröfu sína á því að hin umþrætta skuldbinding Sidborg Inc. sé til komin vegna vanrækslu Landsbankans í Lúxemborg, framseljanda kröfunnar, á því að framkvæma ekki skýr viðskiptafyrirmæli stefnda um að selja þær eignir sem settar voru skuldinni til tryggingar. Með því hafi aðalskuldara verið bakað tjón að ófyrirsynju og án þess hefði aldrei reynt á ábyrgð stefnda.

                Í þriðja lagi byggir stefndi á því að stefnandi hafi ekki látið reyna á innheimtu skuldarinnar hjá aðalskuldara, eins og honum beri að gera þegar um einfalda ábyrgð sé að ræða. Engin gögn sé að finna í málinu um að aðalskuldari hafi verið krafinn um greiðslu skuldarinnar eða að eftir því hafi verið gengið. Stefndi árétti í þessu samhengi að ábyrgðaryfirlýsingin sé gefin einhliða af hans hálfu og sé ekki gagnkvæm samningsskuldbinding.

                Í fjórða lagi byggir stefndi sýknukröfu sína á því að ábyrgðin sé ógild þar sem hún beri með sér að starfsmenn Landsbanka Luxembourg S.A. hafi sinnt fjármálaþjónustu í Danmörku án tilskilins starfsleyfis. Ábyrgðin sé undirrituð í Rungsted í Danmörku og vottuð af tveimur starfsmönnum Landsbankans í Lúxemborg. Hafi vottarnir hins vegar ekki verið viðstaddir byggir stefndi á því að ábyrgðaryfirlýsing sé ógild af þeim sökum.

                Í fimmta lagi byggir stefndi sýknukröfu sína á því að stefnanda hafi borið að krefja stefnda um greiðslu ábyrgðar um leið og hann taldi að greiðslufall hefði orðið af hálfu aðalskuldara. Fyrir liggi í málinu að stefndi hafi ekki verið krafinn um greiðslu ábyrgðar fyrr en rúmu ári eftir að veðkall barst aðalskuldara. Verði stefnandi að bera hallann af því tómlæti. Í sjötta lagi er byggt á því að undirritun ábyrgðaryfirlýsingar hafi ekki verið í samræmi við ákvæði greinar 1326 í Code Civil í lögum Lúxemborgar þar sem fram komi að handskrifa þurfi upphæð slíkrar skuldbindingar til þess að hún hafi gildi. Í sjöunda lagi byggir stefndi á því að krafa stefnanda sé fyrnd samkvæmt lögum Lúxemborgar.

                Til vara krefst stefndi sýknu að svo stöddu. Stefnandi hafi ekki sótt kröfu sína á hendur aðalskuldara og óvissa ríki um greiðsluskyldu hans í ljósi þeirra formlegu annmarka sem raktir hafi verið sem og hins efnislega ágreinings sem uppi sé um lögmæti kröfunnar, einkum og sér í lagi með vísan til þess tjóns sem aðalskuldara kunni að hafa verið bakað með því að selja ekki hinar veðsettu eignir á umkröfðum tíma. Verði hvorki fallist á frávísun málsins né sýknukröfu stefnda vísar stefndi í 2. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og telur ástæðu til að sýkna stefnda að svo stöddu, þar til úr ágreiningi stefnanda og aðalskuldara hafi verið skorið.

                Til þrautarvara krefst stefndi þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Í fyrsta lagi mótmælir stefndi því að aðalskuldari hafi óskað eftir því að lánið yrði greitt út í jenum og telur stefndi augljóst að lánsfjárhæðin hafi tekið mjög neikvæðum gengisbreytingum af þeim sökum. Í þessu sambandi vísar stefndi til óska stefnda um að fá að draga á lánalínuna eina milljón evra. Sé þessi tilkynning dagsett 10. apríl 2007.

                Stefndi hafnar alfarið kröfum stefnanda um vexti og dráttarvexti og vísar til þess tómlætis sem stefnandi sýndi. Þá hafnar stefndi því að ákvæði ábyrgðaryfirlýsingarinnar feli í sér að hann beri ábyrgð á vöxtum sem leggist við skuld aðalskuldara, auk þess sem vísað sé til málsástæðna fyrir sýknu sem að framan eru raktar og leiði til þess að mati stefnda, verði á annað borð ekki fallist á sýknu, að lækka beri dómkröfur verulega.

                Þá hafnar stefndi því að heimilt hafi verið að láta andvirði hinna veðsettu eigna ganga upp í vaxtakostnað áður en því hafi verið ráðstafað inn á höfuðstól lánsins. Engin heimild hafi verið til slíks í lánasamningi Landsbankans í Lúxemborg og Sidborg Inc. eða samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingu stefnda. Þá telur stefndi að þessi ráðstöfun sé auk þess ólögmæt hvað hann varði þar sem skuldin safnaði vöxtum í meira en ár án þess að hann væri krafinn um greiðslu ábyrgðar.

V

Niðurstaða

                Hinn 12. mars 2007 gerði fyrirtæki stefnda, Sidborg Inc. lánssamning við Landsbanka Luxembourg S.A. Í samræmi við ákvæði samningsins gekkst stefndi undir ábyrgð sem undirrituð var sama dag. 

                Fyrir liggur að um ágreining máls þessa fer eftir lögum Lúxemborgar samkvæmt grein 9.1 í ábyrgðinni frá 12. mars 2007. Samkvæmt ákvæðinu skal ágreiningi um ábyrgðina vísað til Héraðsdóms Reykjavíkur á Íslandi „en ekki annars dómstóls“.

                Stefndi reisir kröfur sínar um sýknu í fyrsta lagi á því að ekki verði ráðið af gögnum málsins að ábyrgðin hafi verið framseld stefnanda. Stefndi sé því ekki réttur aðili málsins og beri að sýkna hann vegna aðildarskorts á grundvelli 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

                Samkvæmt 20. gr. lánssamnings Landsbanka Luxembourg S.A. og Sidborg Inc, var lánveitanda hvenær sem er heimilt að framselja réttindi sín, ávinning og/eða skyldur samkvæmt samningnum, hvort sem var í heild eða að hluta. Í málinu liggur fyrir framsalssamningur, dagsettur 29. júní 2012, milli Landsbankans í Lúxemborg og Landsbanka Íslands hf., nú LBI ehf. Í 1. gr. samningsins er að finna skýringar á hugtökum. Kemur þar fram að undir hugtakið tryggingar (e. collateral) falli meðal annars ábyrgðir. Í grein 2.1 er síðan skilgreint hvert framsalið (e Assignment) sé en þar segir að framseljandi framselji framsalshafa með óafturkræfum hætti meðal annars öll tryggingarréttindi („The Assignor hereby irrevocably assigns to the Assignee by way of a distribution in kind all rights, titles and interests in, to and under the Loan Book and the Collateral“). Þá segir enn fremur í tilkynningu skiptastjóra Landsbanka Luxembourg S.A. til Sidborg Inc., dagsettri 26. júní 2012, en afrit var sent stefnda, að í framsalinu felist meðal annars tryggingar, fasteignaveð og persónulegar ábyrgðir. Með vísan til framangreinds þykir stefnandi hafa sýnt fram á að stefndi sé réttur aðili málsins. Verður því kröfu stefnda um sýknu vegna aðildarskorts hafnað.

                Málsaðila greinir á um hvers eðlis ábyrgð stefnda sé og hvort og þá hversu tengd hún sé lánssamningnum. Stefnandi byggir á því að ábyrgð stefnda sé sjálfstæð ábyrgð, þ.e. að stefndi sé ábyrgur sem sjálfskuldarábyrgðaraðili og geti af þeim sökum ekki borið fyrir sig nema takmarkaðar varnir. Kröfuhafa sé í sjálfsvald sett hvort hann gangi fyrst að aðalskuldara eða ábyrgðarmanni, komi til vanskila. Stefndi byggir hins vegar á því að um einfalda ábyrgð sé að ræða sem ekki verði skilin frá ákvæðum lánssamningsins. Geti stefndi því borið fyrir sig sömu mótbárur, er varði gildi samningsins og framkvæmd hans, og aðalskuldari.

                Í texta ábyrgðarinnar kemur skýrt fram að lánssamningurinn hafi verið skilyrtur með þeim hætti að ábyrgðarmaður veitti ábyrgð í þágu lánveitandans. Í grein 2.1 segir í þýðingu löggilts skjalaþýðanda:

                 „Gegn því að lánveitandi samþykki (að beiðni lántaka) að veita lánið eins og greinir í samningnum og gegn öðru góðu og gildu endurgjaldi (sem ábyrgðarmaður staðfestir að sé fullnægjandi og að hann hafi veitt því móttöku) ábyrgist ábyrgðarmaðurinn hér með skilyrðislaust og með óafturkræfum hætti, sem aðalskuldari en ekki einungis sem ábyrgðarmaður gagnvart lánveitandanum

                 (a) skilvísa og stundvísa greiðslu af hálfu lántaka í samræmi við skilmála og ákvæði samningsins (...).“

                Í grein 2.2 segir jafnframt:

                 „Nú vanefnir lántaki greiðslu samkvæmt samningnum þegar einhver fjárhæð verður gjaldkræf og heitir ábyrgðarmaður þá því að hann muni greiða lánveitanda, þegar þess er krafist og innan 3 bankadaga frá því að ábyrgðarmanni berst krafan, fjárhæð sem er jöfn fjárhæðinni eða fjárhæðunum sem lántaki hefur vanefnt að greiða með vöxtum.“

                Um vexti segir í grein 2.3:

                 „Hér með lofar ábyrgðarmaður lánveitanda að frá og með þeim degi sem ábyrgðarmanni berst tilkynning frá lánveitanda um vanefnd lántaka á greiðslu samkvæmt samningnum muni ábyrgðarmaður greiða lánveitanda vexti af öllum fjárhæðum sem ábyrgði tekur til (bæði áður og eftir að dómur gengur um slík vanskil) sem nema sömu ársvöxtum og lántaka bæri að greiða af gjaldföllnum greiðslum samkvæmt samningum, og skulu slíkir vextir greiddir þegar þess er krafist og innan 3 bankadaga frá því að ábyrgðarmanni berst krafan.“

                Þá má ráða af 5. og 6. gr. ábyrgðarinnar að ábyrgðarmaður falli frá öllum undanþágum sem finnast í hinum undirliggjandi lánssamningi og að hann eigi engan endurkröfurétt gagnvart lántaka á meðan skuldbinding lántaka samkvæmt samningnum hefur ekki verið efnd að fullu.

                Samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, skal sá sem ber fyrir sig venju eða erlenda réttarreglu, leiða tilvist hennar og efni í ljós. Í máli þessu hafa aðilar aflað lögfræðiálita frá lúxemborgskum lögmannsstofum, annars vegar frá Clifford Change, dagsett 17. júní 2014, sem stefnandi lagði fram og hins vegar frá Bonn Steinchen & Partners, dagsett 30. júní 2015, lagt fram af stefnda. Í fyrrgreinda álitinu segir að lúxemborgskir dómstólar hafi litið til þess, þegar meta skuli hvort ábyrgð teljist sjálfstæð ábyrgð eða almenn ábyrgð, að um sjálfstæða ábyrgð sé að ræða þegar skýrt sé kveðið á um að ábyrgðarveitandi skuldbindi sig til þess að greiða fjárhæð ábyrgðarinnar óafturkallanlega og skilyrðislaust. Greinir álitsgjafa ekki á um að um sjálfstæðar ábyrgðir sé ekki kveðið í lögum Lúxemborgar heldur hafi þær þróast samkvæmt venju.

                Þegar höfð er hliðsjón af skýru orðalagi ábyrgðarinnar sem kveður á um að stefndi ábyrgist, sem aðalskuldari en ekki einungis sem ábyrgðarmaður, skilvísa greiðslu af hálfu lántaka, svo og þeirra ákvæða sem áður hefur verið lýst, einkum 2., 5. og 6. gr. hennar, er það niðurstaða dómsins að stefnandi hafi sannað að umrædd ábyrgð sé sjálfstæð ábyrgð samkvæmt lúxemborgskum lögum. Var lánveitanda í sjálfsvald sett hvernig hann ráðstafaði innborgunum inn á skuldina enda verður ekki séð að ákvæði ábyrgðar eða lánssamnings mæli fyrir um annað fyrirkomulag. Hefur stefnda, með lögfræðiáliti því sem hann hefur lagt fram eða á annan hátt, ekki tekist að hnekkja þeirri niðurstöðu. 

                Stefndi byggir á því að vanskil aðalskuldara Sidborg Inc. séu til komin vegna þess að stefnandi hafi ekki framkvæmt viðskiptafyrirmæli aðalskuldara um að selja þær eignir sem voru settar til tryggingar skuldinni. Þessi málsástæða er í engu studd haldbærum rökum né sýnilega í andstöðu við ákvæði lánssamningsins um ráðstöfun tryggingarveða. Slíkur ágreiningur lýtur þar að auki ekki lögsögu dómsins eins og áður segir.

                Einnig er byggt á því af hálfu stefnda að Landsbanki Luxembourg S.A. hafi ekki haft starfsleyfi á þeim tíma sem ábyrgðin var undirrituð í Danmörku en slíkt eigi að leiða til ógildis ábyrgðarinnar. Þessi málsástæða stefnda er haldlaus enda hvorki rökstudd né studd gögnum. Verður henni því hafnað með vísan til 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991.

                Þá byggir stefndi á því að stefnandi hafi sýnt af sér tómlæti með því að krefja stefnda fyrst um greiðslu rúmu ári eftir greiðslufall aðalskuldara. Eins og áður segir lýtur ágreiningur lögum Lúxemborgar. Stefndi hefur ekki varpað neinu ljósi á þær lagareglur sem gilda um tómlæti samkvæmt þarlendum lögum. Í ljósi þess og með vísan til 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður þessari málsástæðu hafnað. Með sömu rökum verður þeim málsástæðum stefnda einnig hafnað, annars vegar að krafa stefnanda sé fyrnd og hins vegar að undirritun ábyrgðarinnar hafi ekki verið í samræmi við ákvæði nánar tilgreindra lúxemborgskra laga.

                Með hliðsjón af ofangreindri niðurstöðu dómsins um að um sjálfstæða ábyrgð stefnda hafi verið að ræða kemur krafa stefnda um sýknu að svo stöddu ekki til álita.

                Til þrautavara krefst stefndi lækkunar á dómkröfum stefnanda. Engir útreikningar voru hins vegar lagðir fram af hans hálfu. Í munnlegum málflutningi sínum vék lögmaður stefnda að því að dómkrafa stefnanda væri í ósamræmi við lúxemborgsk lög, sem var sú lögsaga sem aðilar komu sér saman um samkvæmt ábyrgðinni. Stefndi hafi ekki óskað eftir því að lánið yrði greitt út í jenum heldur evrum.

                Samkvæmt grein 3.3 í lánssamningi Landsbanka Luxembourg S.A. og Sidborg Inc. hafði stefndi heimild til þess að myntbreyta láninu í þá mynt, sem bankinn hefði aðgang að. Þá sýna framlagðar greiðsluáskoranir, sem sendar voru stefnda, fjárhæð skuldarinnar í japönskum jenum. Meðal gagna málsins eru einnig tvö yfirlit Landsbanka Luxembourg S.A. sem staðfesta millifærslur japanskra jena. Hefur því ekki verið mótmælt af hálfu stefnda að þær fjárhæðir, sem fram koma í yfirlitunum og eru í japönskum jenum, hafi ekki verið greiddar inn á reikning aðalskuldara. Engin gögn liggja fyrir sem sýna fram á að aðalskuldari hafi gert athugasemdir við þessa tilhögun.

                Þá hefur stefndi ekki fært fram nein haldbær rök eða gögn fyrir því að stefnanda hafi verið óheimilt samkvæmt lúxemborgskum lögum að krefja stefnda um greiðslu í japönskum jenum. Verður jafnframt að líta til þess að efnisatriði er varða hinn undirliggjandi samning Landsbanka Luxembourg S.A. og Sidborg Inc. lýtur lögsögu Lúxemborgar og eru ekki til úrslausnar í máli þessu eins og dómurinn hefur ítrekað bent á. Verður kröfu stefnda um lækkun fjárkröfunnar því hafnað.

                Stefnandi krefst einnig „áfallandi vaxta og dráttarvaxta til greiðsludags“. Krafa þessi verður ekki skilin á annan hátt en svo að þar með sé stefnandi að krefjast vaxta og dráttarvaxta frá 25. september 2014 til greiðsludags. Framsetning kröfunnar telst hins vegar óskýr og samræmist ekki þeim kröfum sem gerðar eru samkvæmt d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Þá er krafan ekki rökstudd sérstaklega. Má til hliðsjónar vísa til dóma Hæstaréttar í málum nr. 238/2007 og 58/2010. Verður henni því vísað frá dómi að sjálfsdáðum.

                Samkvæmt því sem rakið hefur verið hér að framan er það niðurstaða dómsins að stefnda beri skylda til að greiða stefnanda eftirstöðvar láns, samkvæmt lánssamningi Sidborg Inc og Landsbanka Luxembourg S.A., á grundvelli ábyrgðar stefnda, dagsettrar 12. mars 2009, ásamt vöxtum eins og segir í dómsorði

                Með hliðsjón af niðurstöðu málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber stefnda að greiða stefnanda 1.140.000 krónur í málskostnað en tekið hefur verið tillit til kostnaðar við flutning um frávísunarkröfu.

 

                Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp þennan dóm

DÓMSORÐ

                Stefndi, Thomas Peter Thun, greiði stefnanda, LBI ehf., 113.773.739 japönsk jen ásamt umsömdum vöxtum. Af 87.463.063 japönskum jenum, með 2,06000% vöxtum frá 10. maí 2007 til 8. júní 2007, en með 1,99828% vöxtum frá 8. júní 2007 til 9. júlí 2007, en með 1,99680% vöxtum frá 9. júlí 2007 til 18. júlí 2007. Af 101.473.281 japönsku jeni, með 1,99660% vöxtum frá 18. júlí 2007 til 7. ágúst 2007. Af 102.233.229 japönskum jenum, með 2,04209% vöxtum frá 7. ágúst 2007 til 10. september 2007. Af 103.904.228 japönskum jenum, með 2,18197% vöxtum frá 10. september 2007 til 5. október 2007. Af 104.461.403 japönskum jenum, með 2,18945% vöxtum frá 5. október 2007 til 10. október 2007, en með 2,14059% vöxtum frá 10. október 2007 til 12. nóvember 2007, en með 2,01912% vöxtum frá 12. nóvember 2007 til 12. desember 2007, en með 2,02704% vöxtum frá 12. desember 2007 til 9. janúar 2008. Af 104.889.236 japönskum jenum, með 2,40947% vöxtum frá 9. janúar 2008 til 15. janúar 2008, en með 2,08727% vöxtum frá 15. janúar 2008 til 15. febrúar 2008, en með 2,07570% vöxtum frá 15. febrúar 2008 til 17. mars 2008, en með 2,44021% vöxtum frá 17. mars 2008 til 17. apríl 2008, en með 2,31858% vöxtum frá 17. apríl 2008 til 14. maí 2008. Af 111.672.602 japönskum jenum, með 2,32076% vöxtum frá 14. maí 2008 til 19. maí 2008, en með 2,51609% vöxtum frá 19. maí 2008 til 19. júní 2008. Af 112.329.079 japönskum jenum, með 2,52663% vöxtum frá 19. júní 2008 til 1. júlí 2008, en með 2,59232% vöxtum frá 1. júlí 2008 til 22. júlí 2008, en með 2,52854% vöxtum frá 22. júlí 2008 til 22. ágúst 2008, en með 2,48840% vöxtum frá 22. ágúst 2008 til 4. september 2008. Af 113.773.739 japönskum jenum, með 2,49113% vöxtum frá 4. september 2008 til 22. september 2008, en með 2,65155% vöxtum frá 22. september 2008 til 22. október 2008, en með 2,13789% vöxtum frá 22. október 2008 til 22. nóvember 2008, en með 1,96080% vöxtum frá 22. nóvember 2008 til 22. desember 2008, en með 2,07908% vöxtum frá 22. desember 2008 til 22. janúar 2009, en með 1,58159% vöxtum frá 22. janúar 2009 til 22. febrúar 2009, en með 1,52619% vöxtum frá 22. febrúar 2009 til 5. mars 2009, en með 1,37000% vöxtum frá 5. mars 2009 til 12. mars 2009, en með 4,37116% vöxtum frá 12. mars 2009 til 23. mars 2009, en með 4,48807% vöxtum frá 23. mars 2009 til 22. apríl 2009, en með 4,33958% vöxtum frá 22. apríl 2009 til 22. maí 2009, en með 4,26665% vöxtum frá 22. maí 2009 til 22. júní 2009, en með 4,25116% vöxtum frá 22. júní 2009 til 22. júlí 2009, en með 4,23855% vöxtum frá 22. júlí 2009 til 24. ágúst 2009, en með 4,22250% vöxtum frá 24. ágúst 2009 til 22. september 2009, en með 4,21017% vöxtum frá 22. september 2009 til 22. október 2009, en með 4,19790% vöxtum frá 22. október 2009 til 23. nóvember 2009, en með 4,19716% vöxtum frá 23. nóvember 2009 til 22. desember 2009, en með 4,21210% vöxtum frá 22. desember 2009 til 22. janúar 2010, en með 4,20208% vöxtum frá 22. janúar 2010 til 22. febrúar 2010, en með 4,20621% vöxtum frá 22. febrúar 2010 til 22. mars 2010, en með 4,21058% vöxtum frá 22. mars 2010 til 22. apríl 2010, en með 4,21472% vöxtum frá 22. apríl 2010 til 26. maí 2010, en með 4,22687% vöxtum frá 26. maí 2010 til 22. júní 2010, en með 4,22860% vöxtum frá 22. júní 2010 til 22. júlí 2010, en með 4,22563% vöxtum frá 22. júlí 2010 til 23. ágúst 2010, en með 4,22545% vöxtum frá 23. ágúst 2010 til 22. september 2010, en með 4,22115% vöxtum frá 22. september 2010 til 22. október 2010, en með 4,20852% vöxtum frá 22. október 2010 til 22. nóvember 2010, en með 4,20933% vöxtum frá 22. nóvember 2010 til 22. desember 2010, en með 4,21894% vöxtum frá 22. desember 2010 til 24. janúar 2011, en með 4,21618% vöxtum frá 24. janúar 2011 til 22. febrúar 2011, en með 4,22566% vöxtum frá 22. febrúar 2011 til 22. mars 2011, en með 4,26386% vöxtum frá 22. mars 2011 til 22. apríl 2011, en með 4,25200% vöxtum frá 22. apríl 2011 til 23. maí 2011, en með 4,25096% vöxtum frá 23. maí 2011 til 22. júní 2011, en með 4,25457% vöxtum frá 22. júní 2011 til 22. júlí 2011, en með 4,25850% vöxtum frá 22. júlí 2011 til 22. ágúst 2011, en með 4,26193% vöxtum frá 22. ágúst 2011 til 22. september 2011, en með 4,26953% vöxtum frá 22. september 2011 til 24. október 2011, en með 4,27374% vöxtum frá 24. október 2011 til 22. nóvember 2011, en með 4,27820% vöxtum frá 22. nóvember 2011 til 22. desember 2011, en með 4,28123% vöxtum frá 22. desember 2011 til 23. janúar 2012, en með 4,28692% vöxtum frá 23. janúar 2012 til 22. febrúar 2012, en með 4,29087% vöxtum frá 22. febrúar 2012 til 22. mars 2012, en með 4,29469% vöxtum frá 22. mars 2012 til 23. apríl 2012, en með 4,29890% vöxtum frá 23. apríl 2012 til 22. maí 2012, en með 4,30272% vöxtum frá 22. maí 2012 til 22. júní 2012, en með 4,30532% vöxtum frá 22. júní 2012 til 23. júlí 2012, en með 4,30940% vöxtum frá 23. júlí 2012 til 22. ágúst 2012, en með 4,31126% vöxtum frá 22. ágúst 2012 til 24. september 2012, en með 4,31559% vöxtum frá 24. september 2012 til 22. október 2012, en með 4,31330% vöxtum frá 22. október 2012 til 22. nóvember 2012, en með 4,31585% vöxtum frá 22. nóvember 2012 til 24. desember 2012, en með 4,32002% vöxtum frá 24. desember 2012 til 22. janúar 2013, en með 4,31782% vöxtum frá 22. janúar 2013 til 22. febrúar 2013, en með 4,32093% vöxtum frá 22. febrúar 2013 til 22. mars 2013, en með 4,32156% vöxtum frá 22. mars 2013 til 22. apríl 2013, en með 4,32405% vöxtum frá 22. apríl 2013 til 22. maí 2013, en með 4,32416% vöxtum frá 22. maí 2013 til 24. júní 2013, en með 4,32613% vöxtum frá 24. júní 2013 til 22. júlí 2013, en með 4,32820% vöxtum frá 22. júlí 2013 til 22. ágúst 2013, en með 4,33291% vöxtum frá 22. ágúst 2013 til 23. september 2013, en með 4,33700% vöxtum frá 23. september 2013 til 23. október 2013, en með 4,33480% vöxtum frá 23. október 2013 til 25. nóvember 2013, en með 4,33672% vöxtum frá 25. nóvember 2013 til 23. desember 2013, en með 4,34027% vöxtum frá 23. desember 2013 til 23. janúar 2014, en með 4,34193% vöxtum frá 23. janúar 2014 til 24. febrúar 2014, en með 4,34294% vöxtum frá 24. febrúar 2014 til 24. mars 2014, en með 4,34419% vöxtum frá 24. mars 2014 til 24. apríl 2014, en með 4,34808% vöxtum frá 24. apríl 2014 til 23. maí 2014, en með 4,34793% vöxtum frá 23. maí 2014 til 23. júní 2014, en með 4,35181% vöxtum frá 23. júní 2014 til 23. júlí 2014, en með 4,35358% vöxtum frá 23. júlí 2014 til 25. ágúst 2014, en með 4,34174% vöxtum frá 25. ágúst 2014 til 25. september 2014, allt að frádregnum innborgunum, 9. janúar 2008, að fjárhæð 541 japanskt jen, 1. júlí 2008 að fjárhæð 200 japönsk jen og 5. mars 2009 að fjárhæð 92.699.988 japönsk jen.

                Stefndi greiði stefnanda 1.140.000 krónur í málskostnað.