Print

Mál nr. 101/2017

Gunnlaugur Hrannar Jónsson (Sigmundur Hannesson lögmaður)
gegn
Happdrætti Háskóla Íslands (Jóhannes Bjarni Björnsson lögmaður)
Lykilorð
  • Málsástæða
  • Stjórnsýsla
  • Samningur
  • Stjórnarskrá
Reifun

G höfðaði mál á hendur H til heimtu vinnings í happdrætti sem H rak á grundvelli laga nr. 13/1973 um Happdrætti Háskóla Íslands. Höfðu G og H gert með sér samkomulag um að iðgjald vegna endurnýjunar miða í eigu G skyldi skuldfært á kreditkort hans. Þegar H reyndi skuldfærslu vegna iðgjalds í tilgreint skipti var henni hafnað þar sem G hafði þá nýtt þær heimildir sem hann hafði til skuldfærslu á kortið. Miði G var því ekki með í útdrætti sem fram fór tæpum mánuði síðar en þá kom vinningur á miðann. Krafðist G aðallega greiðslu vinningsfjárhæðarinnar að frádregnu endurnýjunariðgjaldinu, en til vara skaðabóta að sömu fjárhæð. Fyrir lá að ágreiningur málsaðila hafði ekki verið borin undir nefnd sem starfaði samkvæmt d. lið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 13/1973. Talið var að úrskurðarvald nefndarinnar gæti einungis tekið til ágreinings um það hvort útdráttur vinninga væri í samræmi við reglur sem einkum væri að finna í 16. til 20. gr. reglugerðar nr. 348/1976 um Happdrætti Háskóla Íslands. Í þessu máli deildu aðilar um efni samnings þeirra um aðferð við greiðslu endurnýjunariðgjalds og hvort H hefði í starfsemi sinni farið eftir samningnum og þeim reglum sem honum bæri við afgreiðslu á kröfu G um útborgun vinningsins. Með vísan til 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála tæki úrskurðarvald nefndarinnar því ekki til ágreiningsins. Talið var að skýrt kæmi fram í skilmálum samnings aðila að miði væri ekki gildur nema greiðsla hefði borist tímanlega fyrir útdrátt. Hefði það því verið á ábyrgð G að sjá til þess að unnt væri að skuldfæra kort hans fyrir endurnýjun miðans. Þá ættu ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ekki við þar sem um einkaréttarlegan samning væri að ræða. Upplýst var að í 1703 tilvikum í starfsemi H frá árinu 2009 og fram á árið 2017 hefði komið vinningur á miða sem ekki hefði verið greitt endurnýjunariðgjald af. Í öllum þeim tilvikum, sem væru sambærileg tilviki G, hefðu mál verið afgreidd með sama hætti og hans mál að einu frátöldu þar sem eigandi miða fékk greiddan vinning. Talið var að þótt H hefði með því eina tilviki, án þess að haldbær rök hefðu verið færð fyrir því, mismunað þátttakendum í happdrættinu, lægi samt fyrir að mál G hefði verið afgreitt í samræmi við önnur tilvik. Gæti G því ekki reist kröfu sína um skaðabætur á því að við úrlausn hans máls yrði öðru sinni vikið frá jafnræðissjónarmiðum. Var H því sýknaður af kröfum G.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Viðar Már Matthíasson hæstaréttardómari, Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari og Gunnlaugur Claessen fyrrverandi hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. febrúar 2017. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 9.980.500 krónur aðallega með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. október 2013 til greiðsludags, en til vara með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. sömu laga frá 10. október 2013 til 27. apríl 2015, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Áfrýjandi höfðaði mál þetta til heimtu vinnings í happdrætti sem stefndi rekur á grundvelli laga nr. 13/1973 um Happdrætti Háskóla Íslands. Vinningurinn kom í útdrætti 10. október 2013 á miða nr. 4997 B, sem var í eigu áfrýjanda. Miðinn var  svonefndur trompmiði sem hafði fimmfalt gildi á við venjulega miða, bæði að því er varðaði endurnýjunariðgjald og fjárhæð vinninga. Ágreiningslaust er að áfrýjandi og stefndi höfðu gert með sér samkomulag um að iðgjald vegna endurnýjunar skyldi skuldfært á kreditkort sem áfrýjandi tilgreindi. Þegar stefndi reyndi skuldfærslu vegna endurnýjunariðgjalds 17. september 2013 var henni hafnað þar sem áfrýjandi hafði þá nýtt þær heimildir til skuldfærslu á kortið, sem hann hafði. Stefndi reyndi ekki aftur að skuldfæra endurnýjunariðgjaldið og var miðinn þess vegna ekki með í útdrætti sem fram fór 10. október sama ár, en þá kom vinningur að fjárhæð 10.000.000 krónur á miðann. Áfrýjandi telur sig eiga rétt til vinningsfjárhæðarinnar, að frádregnu endurnýjunariðgjaldi, 19.500 krónur. Að því frágengnu telur hann sig eiga rétt til skaðabóta að sömu fjárhæð. Stefndi telur sér óheimilt að verða við kröfum áfrýjanda þar sem það fari í bága við reglur þær sem hann starfi eftir og samning þeirra um aðferð við greiðslu endurnýjunariðgjalds.

II

Í d. lið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 13/1973 er mælt fyrir um að útdráttur vinninga í happdrætti stefnda skuli fara fram undir eftirliti nefndar sem ráðherra skipi í því skyni. Kveðið er á um að nefndin leggi fullnaðarúrskurð á allan ágreining um lögmæti eða gildi útdráttar bæði meðan hann fer fram og eftir að honum er lokið. Ágreiningur málsaðila hefur ekki verið borinn undir framangreinda nefnd. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti taldi hvorugur málsaðila að lagaákvæði um nefndina og úrskurðarvald hennar stæði því í vegi að dómstólar leystu úr ágreiningi þeirra og til samræmis við það hefur hvorugur þeirra krafist frávísunar málsins.

Hvað sem líður gildi reglna laga nr. 13/1973 og reglugerðar nr. 348/1976 um úrskurðarvald nefndar þeirrar, sem getur í d. lið 1. mgr. 1. gr. laganna, en heitir happdrættisráð í 7. gr. reglugerðarinnar, er ljóst að það getur einungis tekið til ágreinings um það, hvort útdráttur vinninga sé í samræmi við reglur, sem einkum er að finna í 16. til 20. gr. reglugerðarinnar. Í þessu máli snýst ágreiningur málsaðila um efni samnings þeirra um aðferð við greiðslu endurnýjunariðgjalds og hvort stefndi hafi í starfsemi sinni farið efir samningnum og þeim reglum sem honum ber við afgreiðslu á kröfu áfrýjanda um útborgun vinningsins. Samkvæmt framansögðu og með vísan til 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála tekur úrskurðarvald nefndarinnar ekki til þess ágreinings sem uppi er í málinu.

III

Í áfrýjunarstefnu kemur fram að áfrýjandi hafi, eftir að héraðsdómur gekk, fengið upplýsingar um að aðilar í sambærilegri stöðu og hann hafi fengið vinninga sína greidda út þótt greiðsla þátttakenda á endurnýjunariðgjaldi í happdrættinu hafi ekki borist stefnda fyrir útdrátt. Áfrýjandi óskaði í kjölfarið meðal annars eftir því að teknar yrðu skýrslur af tveimur vitnum. Annað þeirra gaf skýrslu og hið sama gerði rekstrarstjóri hjá stefnda. Þá hafa verið lögð fyrir Hæstarétt ýmis gögn auk endurrita af framangreindum skýrslum. Samkvæmt þessum gögnum hafa komið upp 1703 tilvik í starfsemi stefnda frá árinu 2009 og fram á árið 2017 þar sem vinningur hefur komið á miða, sem ekki hefur verið greitt endurnýjunariðgjald af. Í einu þessara tilvika, þar sem aðstæður eru sambærilegar atvikum þessa máls, hefur stefndi greitt út vinningsfjárhæðina, sem hann nefndi sáttagreiðslu. Jafnframt var upplýst um annað tilvik, sem áfrýjandi aflaði gagna um, þar sem eigandi miða fékk greiddan vinning, þótt ekki hefði verið greitt endurnýjunariðgjald þegar útdráttur fór fram. Í því tilviki leiddu aðstæður til þess að eigandi miða var í upphafi krafinn um greiðslu endurnýjunariðgjalds fyrir tvo mánuði og greiddi hann samkvæmt samkomulagi við stefnda í samræmi við það. Greiðslan fór fram eftir útdrátt vegna fyrri mánaðarins, en vinningur sem kom á miðann var svo greiddur í framhaldi af því. Þetta tilvik, mun hafa helgast af aðstæðum, einkum þeim að kaupandi miðans var ekki með greiðslukort og keypti miða skömmu fyrir útdrátt vinninga. Verður fallist á að það sé ekki sambærilegt því máli sem hér er til úrlausnar og ekki meðal þeirra 1703 tilvika, sem áður greinir.

Í greinargerð sinni til Hæstaréttar teflir áfrýjandi fram þeirri málsástæðu, til viðbótar þeim sem hann gerði í héraði, að stefndi hafi við afgreiðslu máls síns brotið gegn jafnræðissjónarmiðum, enda hefði honum borið að afgreiða sitt mál á sama hátt og það sem lýst er að framan og þar með greiða sér vinninginn, sem á miðann kom 10. október 2013. Af hálfu stefnda var því lýst yfir að hann andmælti ekki framlagningu nýrra gagna af hálfu áfrýjanda og að upplýsingar um það eina frávikstilvik af þeim 1703, sem áður greinir, séu réttar. Því er ekki andmælt að áfrýjandi hafi fyrst fengið þessar upplýsingar eftir að héraðsdómur var kveðinn upp. Skilyrðum 2. mgr. 187. gr. laga nr. 91/1991 til þess að áfrýjandi fái komið að framangreindri málsástæðu eru fyrir hendi.

Leggja verður til grundvallar að í þeim 1703 tilvikum, sem eru sambærileg tilviki áfrýjanda hafi mál verið afgreidd með sama hætti og í hans tilviki að einu frátöldu. Þótt stefndi hafi með því eina tilviki, án þess að haldbær rök hafi verið færð fyrir því, mismunað þátttakendum í happdrættinu, liggur samt fyrir að mál áfrýjanda var afgreitt í samræmi við önnur tilvik. Áfrýjandi getur ekki reist kröfu sína um skaðabætur á því að við úrlausn hans máls verði öðru sinni vikið frá jafnræðissjónarmiðum. Leiðir þessi málsástæða hans því ekki til þess að fallist verði á kröfu hans.

Samkvæmt öllu framansögðu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, verður hann staðfestur um annað en málskostnað.

Rétt er að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

                                                                           

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. nóvember 2016. 

Mál þetta, sem var dómtekið 8. nóvember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Gunnlaugi H. Jónssyni, Hörðukór 3, Kópavogi, á hendur Happdrætti Háskóla Íslands, Tjarnargötu 4, Reykjavík, með stefnu birtri  7. nóvember 2015.

Stefnandi krefst þess, að stefndi greiði stefnanda 9.980.500 kr. aðallega með dráttarvöxtum, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 10. október 2013 til greiðsludags, en til vara með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 10. október 2013 til 27. apríl 2015, en með dráttarvöxtum, sbr. 1. mgr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá 27. apríl 2015 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda.

I

Stefnda er ríkisstofnun sem tilheyrir B-hluta ríkissjóðs. Um stefnda gilda lög nr. 73/1973 um Happdrætti Háskóla Íslands og reglugerð nr. 348/1976 sem sett er með stoð í lögunum. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 73/1973, með áorðnum breytingum, er boðið að skipta skuli þeim hlutum sem dregið er um á ári hverju í 12 flokka, einn flokk í hverjum mánuði. Af hverjum hlutamiða eru gefnar út fjórar raðir sem tilgreindar eru með bókstöfunum E, F, G og H. Auk þessa er sérstök röð merkt B, svokallaður trompmiði, sem gildir fimmfalt og kostar fimmfalt á við aðra miða. Iðgjald er verð fyrir einn hlutamiða í einum flokki, þ.e. fyrir útdrátt eins miða í einum mánuði, samanber einnig 9. gr. og 10. gr. reglugerðar nr. 348/1976. Einnig eru ársmiðar, sem greiða skal fyrir fyrir fram, en ársmiðar eru hlutamiðar sem gilda fyrir alla drætti á sama ári. Þá er hægt að gera miða að ársmiða eftir að drættir, einn eða fleiri, hafa farið fram á árinu, en þá skal greiða fyrir fram fyrir þá drætti sem eftir eru. Ársmiðar eru ekki seldir á heimasíðu stefnda. Af þessum ákvæðum leiðir, að til þess að miðanúmer sé gilt í tilteknum flokki þarf að kaupa hlutamiða fyrir það númer í þeim flokki, en einnig er hægt að greiða fyrir fram fyrir alla drætti sem eftir eru á sama ári og gera miðann þar með að ársmiða, sem gildir þá í öllum þeim dráttum. Skilyrði er að kaupin þurfa að hafa átt sér stað fyrir viðkomandi útdrátt eða útdrætti og greiðsla verður að hafa borist stefnda fyrir útdráttinn.

Hinn 23. ágúst 2011 keypti stefnandi, á heimasíðu stefnda, miða meðal annars með númerið 4997-B, sem er svokallaður trompmiði. Við kaupin veitti stefnandi umbeðnar upplýsingar, meðal annars upplýsingar um greiðslukortanúmer, netfang og símanúmer. Þá var þess getið í skilmálum stefnda á heimasíðunni að miðinn verði „gildur frá og með næsta útdrætti og öllum útdráttum þaðan í frá á meðan greiðslusamningnum er ekki sagt upp af þinni hálfu og greiðsla berst til HHÍ fyrir viðkomandi úrdrátt“. Samið var um að greiðslukort stefnanda yrði skuldfært mánaðarlega og fór skuldfærslan fram á tímabilinu 11. til 18. hvers mánaðar.

Hinn 17. september 2013 gerði stefndi tilraun til þess að skuldfæra greiðslukort stefnanda fyrir útdráttinn í október 2013. Ekki tókst að skuldfæra greiðslukortið þar sem notkun kortsins var komin umfram lánamörk þann mánuðinn.

Hinn 10. október 2013 komu 10.000.000 kr. á númer stefnanda 4997-B, en miðinn var ekki endurnýjaður, samanber hér að framan. Samkvæmt þeim reglum sem gilda um þennan útdrátt, milljónaútdráttinn, þá fluttist fjárhæðin yfir í næsta flokk og bættist við milljónaútdráttinn þann mánuðinn. Sá útdráttur lenti á endurnýjaðan miða og fékk sá miðaeigandi því 20.000.000 kr. Því er umrædd fjárhæð ekki til staðar hjá stefnda.

Stefnandi kveður að honum hafi fyrst verið kunnugt um þetta í árslok 2014 eða í mars 2015.

Með bréfi stefnanda, dags. 27. mars 2015, var gerð krafa um að stefndi greiddi stefnanda vinning þann sem kom á áðurnefnt númer og taldi stefnandi að stefnda hefði ekki verið heimilt að líta svo á að númerið væri ekki gilt í útdrættinum 10. október 2013. Í maí 2015 hafnaði stefndi kröfu stefnanda og höfðar stefnandi því mál þetta.

II

Stefnandi byggir aðalkröfu sína á því að stefnda hafi ekki verið heimilt að líta svo á að númer stefnanda væri ógilt í útdrættinum 10. október 2013. Út frá lögum og reglum sem um starfsemi stefnda gilda var stefnandi í reynd með gildan ársmiða sem gaf honum rétt til að hans númer væru með í útdrættinum. Um þetta vísar stefnandi til laga nr. 13/1973, um Happdrætti Háskóla Íslands. Í b-lið 1. gr. laganna segir að ráðherra ákveði iðgjald fyrir hvern hlut, að fengnum tillögum happdrættisráðs og happdrættisstjórnar Háskólans. Í 11. gr. reglugerðar 348/1976 segir að ef eigandi miða vill gera hann að ársmiða, eftir að drættir, einn eða fleiri, hafa farið fram, skuli hann greiða fyrir fram fyrir þá drætti sem eftir eru á árinu. Í reglugerðinni sé ekki sérstaklega gert ráð fyrir því að notendur greiði fyrir miða með greiðslukorti eða séu í áskrift. Reglugerðin kveði hins vegar á um að unnt sé að greiða fyrir ársmiða fyrir fram.

Stefnandi telur ljóst, að þeir skilmálar sem stefndi kynnir á heimasíðu sinni þurfi að standast ákvæði laga og reglugerðar um starfsemi stefnda, enda beri stefnda sem stjórnvaldi að starfa innan marka þeirra laga sem gilda um starfsemi hans. Á því er byggt, að samkvæmt gildandi lögum og reglugerð um Happdrætti Háskóla Íslands, hafi stefnandi í reynd keypt ársmiða í Happdrætti Háskóla Íslands í ágúst 2011 enda kemur fram í skilmálum stefnda að miðinn sé gildur í öllum útdráttum þaðan í frá og á vef stefnda komi fram að um áskrift sé að ræða. Með því að veita stefnda heimild til að skuldfæra greiðslukort sitt hvenær sem stefnda hentaði stóð stefnandi við greiðslur á þann hátt sem stefndi óskaði eftir. Stefnandi var með gilt greiðslukort í ágúst 2011 og hefur verið með gilt kort með sama greiðslukortanúmeri allar götur síðan. Ljóst sé að stefndi gat einnig sótt greiðslur á hendur stefnanda með hvaða öðrum hætti sem honum hentaði, t.d. með kröfu í gegnum heimabanka eða almennri innheimtu. Á móti átti stefnandi rétt á að miðinn yrði með í öllum útdráttum hvers árs.

Lög og reglur um starfsemi stefnda gera ráð fyrir tvenns konar aðferðum við miðakaup, annars vegar að staðgreiða miða í hverjum útdrætti og hins vegar að kaupa ársmiða. Þótt sú útfærsla og aðferð sem stefndi hafi boðið upp á við kaup á miðum á vef sínum eigi sér ekki beina stoð í lögum eða reglugerð um Happdrætti Háskóla Íslands sé nærtækast að líta svo á að stefndi hafi boðið notendum sínum að greiða fyrir ársmiða með þessum hætti enda beri orðalag skilmálanna það með sér að um langtímaskuldbindingu sé að ræða.

Hvergi í lögum eða reglugerð um starfsemi stefnda komi fram að honum sé heimilt að gera það að skilyrði fyrir því að miði sé gildur í næsta útdrætti að greiðsla hafi borist fyrir tiltekinn tíma áður en útdráttur fer fram. Enn fremur sé hvergi lagastoð fyrir því að líta svo á, að miðar séu ógildir þótt reynt hafi verið að skuldfæra greiðslukort í eitt skipti.

Stefnandi átti því rétt á því út frá lögum og reglugerð um Happdrætti Háskóla Íslands að miðar hans væru með í útdrætti í október 2013, þar á meðal miði nr. 4997-B sem var dreginn út enda var hann með gildan ársmiða eða ígildi hans. Stefnandi á því rétt á að fá greidda þá vinningsfjárhæð sem komið hefði í hans hlut ef stefndi hefði staðið að málum í samræmi við lög og reglur.

Í annan stað byggist krafa stefnanda á því, að í skilmálum stefnda hafi falist að stefnandi hafi verið með gildan miða í þessum tiltekna útdrætti í október 2013. Stefnandi eigi því rétt á að fá þann vinning sem dreginn var út á númerið 4997-B í útdrætti stefnda í október 2013.

                Stefnandi kveðst ekki eiga afrit af skilmálum þeim er voru í gildi árið 2011 er hann keypti miðann og telur að þeir séu hinir sömu og voru í gildi árið 2014.

                a.            Stefnandi vísar til 1. mgr. skilmálanna en þar segir:  „Þegar þú hefur staðfest kaupin verður miðinn gildur frá og með næsta útdrætti og öllum úrdráttum þaðan í frá á meðan greiðslusamningnum er ekki sagt upp af þinni hálfu og greiðsla berst til HHÍ fyrir viðkomandi útdrátt.“

Við skráningu á vef stefnda kom einnig fram undir „Skráning upplýsinga“ að tiltekin fjárhæð verði gjaldfærð af korti viðkomandi í hverjum mánuði „enda um áskrift að ræða“.

Í þessu felist að samningssamband hafði komist á milli stefnanda og stefnda, þótt hafa beri í huga að umræddir skilmálar voru einhliðar samdir af stefnda og stefnandi átti engan kost annan en að samþykkja þá. Samkvæmt þeim átti stefnandi rétt á því að þau númer, sem hann hafði í áskrift, væru með í útdrætti hverju sinni og að hann fengi til sín þá vinninga sem kynnu að koma á þau númer. Stefndi átti á móti kröfu á stefnanda fyrir greiðslu vegna miðanna í hverjum útdrætti, alls 19.500 kr. miðað við október 2013.

b. Stefnandi telur að samningssamband aðila hafi falist í því að miðarnir, eða númerin, voru keypt í áskrift. Þannig skilgreindi stefndi sjálfur samningssambandið. Slíkur samningur gengur út á að áskrifandi á rétt á – skrifar sig fyrir – tiltekinni þjónustu eða vöru í ákveðinn tíma, þ.e. áskriftartímabilið. Á móti á sá sem veitir þjónustuna eða selur vöruna í áskrift kröfu á áskrifandann um endurgjaldið. Um sé að ræða gagnkvæman samning. Stefnandi telur að greiðslan sé ekki forsenda afhendingar heldur undirliggjandi samningur aðila. Stefnandi átti rétt á að númerin hans væru með í öllum útdráttum stefnda þar til honum yrði sannarlega tilkynnt um að áskrift hans hefði verið sagt upp eða henni rift með öðrum formlegum hætti. Stefndi átti á móti lögmæta kröfu á hendur stefnanda um greiðslu á áskriftargjaldinu og á raunar enn, líkt og tekið er tillit til í dómkröfu málsins.

Þá tilgreinir stefndi það beinlínis á vef sínum að um áskrift sé að ræða og verður að bera ábyrgð á því orðalagi. Þótt stefndi hafi stillt því þannig upp að áskrifendur skuli gefa upp númer á greiðslukortum sínum til að stefndi geti fengið greitt með þeim hætti, þá sé sá greiðslumáti ekki sá eini sem unnt er að nota til að innheimta áskriftargjaldið. Stefndi gat sótt þá kröfu á hvaða hátt sem honum sýnist, t.d. með því að setja kröfu í heimabanka, senda innheimtubréf eða gíróseðil, en hefur kosið að óska eftir því við áskrifendur að þeir gefi upp kortanúmer sitt. Í því felst að stefndi hefur heimild, hvenær sem hann telur ástæðu til, að skuldfæra kort stefnanda fyrir þeirri greiðslu sem hann á rétt á.

c. Þá bendir stefnandi á að um óreglulegar tímasetningar á skuldfærslum hafi verið að ræða. Hún gat farið fram á tímabilinu 11.-18. hvers mánaðar. Skuldfærsla hafi verið reynd 17. september 2013 og ekki tekist þar sem kortið var komið yfir lánamörk. Ef hún hefði verið reynd fyrr, hefði hún tekist. Ekkert kom fram í þágildandi skilmálum um hvenær reynt yrði að skuldfæra greiðslukortið, hversu oft eða hvað gerðist ef færslan tækist ekki en svo virðist sem stefndi hafi aðeins reynt skuldfærslu einu sinni.

Ítrekað sé að hvergi í lögum eða reglugerð um starfsemi stefnda kemur fram að greiðsla þurfi að hafa borist fyrir ákveðið tímamark áður en útdráttur fer fram. Enn fremur er hvergi lagastoð fyrir því að líta svo á að miðar séu ógildir þótt reynt hafi verið að skuldfæra greiðslukort í eitt skipti.

Þá bauð stefndi ekki upp á neina aðra leið til að greiða kröfuna, t.d. í gegnum heimabanka eða með millifærslu eða þvíumlíkt. Þá er enn fremur ljóst að stefndi hefði getað innheimt kröfu sína eftir að útdrátturinn fór fram, enda féll krafa hans á hendur stefnanda vegna áskriftargjaldsins ekki niður við það að útdrátturinn fór fram heldur átti hann kröfuna áfram. Ljóst sé að stefndi hafði almennt sterka stöðu til að innheimta gjaldið, hann var með heimild stefnanda til að skuldfæra greiðslukort hans fyrir miðaverðinu. Auk þess gat stefndi ávallt haldið eftir hluta af vinningsfé sem kæmi á miða sem ekki höfðu verið greiddir.

        d.            Þá telur stefnandi að stefndi hafi brotið gegn eigin skilmálum. Þar sem stefndi skilgreindi samningssamband aðila sem áskrift voru stefnanda gefnar ákveðnar væntingar um að svo væri og þar af leiðandi væru þau númer sem hann væri með í áskrift gild í hverjum útdrætti þar til samningssambandinu væri sagt upp. Væntingar stefnanda voru með öðrum orðum þær að stefndi myndi sækja kröfu sína á hendur honum vegna miðanna þótt skuldfærsla tækist ekki í einstökum tilfellum.

        e.             Þá lét stefndi undir höfuð leggjast að tilkynna stefnanda um að greiðsla hefði ekki borist. Þar sem stefndi virðist túlka samningssamband aðila á þann hátt að ekki sé um að ræða áskriftarsamband eða gagnkvæman samning heldur staðgreiðsluviðskipti, bar stefnda að upplýsa stefnanda um að greiðsla hefði ekki borist. Þetta var sérstaklega mikilvægt í ljósi þess að túlkun stefnda á samningssambandinu leiddi til þess að ef greiðsla barst ekki, þá var miðinn ekki gildur í næsta útdrætti. Þar sem stefnandi fékk ekki slíkt bréf, gat stefnandi ekki vitað að greiðsla hefði ekki borist. Stefnandi stóð þannig verr að vígi hvað þetta varðar en aðili í hefðbundnum staðgreiðsluviðskiptum þar sem strax koma fram upplýsingar um að greiðsla hafi ekki borist.

        f.             Þá ber að horfa til þess að stefndi hélt áfram að skuldfæra greiðslur á greiðslukorti stefnanda fyrir næsta útdrátt á eftir, þ.e. fyrir útdráttinn í nóvember 2013 og hefur gert það allar götur síðan. Þetta gerði stefndi án nokkurrar tilkynningar eða útskýringar til stefnanda. Ljóst sé því að stefndi leit á engan hátt svo á að neins konar vanefnd hefði orðið af hálfu stefnanda sem hefði þær afleiðingar að samningssambandi þeirra væri sagt upp eða því rift eða að stefnandi hygðist ekki ætla að taka þátt í happdrættinu til frambúðar. Af þessu má einnig ljóst vera að samningur aðila var í gildi þegar útdráttur í október 2013 fór fram.

        g.             Þá hefur stefndi uppfært skilmála sína þannig að sjálfvirk skuldfærsla fari fram „um 2 dögum eftir hvern útdrátt (12.–15. hvers mánaðar) fyrir endurnýjun næsta mánaðar á eftir“. Enn fremur segir nú í skilmálunum: „Athygli er vakin á því að það er ávallt á ábyrgð miðaeiganda að tryggja að greiðsla berist fyrir endurnýjun miða í hvert sinn. Ef skuldfærsla mistekst fær miðaeigandi bréf þess efnis. Honum gefst þá tækifæri til að greiða fyrir næstu endurnýjun með öðrum hætti.“

Stefnandi telur ljóst, að uppfærðir skilmálar taka einmitt á þeim atriðum sem á reyndi í tilfelli stefnanda. Nú komi fram með skýrum hætti hvenær skuldfærsla fer fram, en svo var ekki áður og raunar allur gangur á því hvenær skuldfærslan fór fram, sbr. fyrri umfjöllun. Einnig kemur fram hvað gerist ef skuldfærsla tekst ekki. Þetta kom ekki fram í eldri skilmálum stefnda. Með þessum nýju skilmálum hefur stefndi í raun viðurkennt í verki að eldri skilmálar og framkvæmd voru ekki nægjanlega skýr og breytt starfslagi sínu í samræmi við þau atriði sem stefnandi hefur tilgreint í erindi sínu.

h.            Þá byggir stefnandi á því að aðstöðumunur sé á aðilum málsins og til þess verði að líta við mat á málinu og túlkun  þeirra skilmála sem stefndi setti einhliða. Stefndi hefur sérþekkingu og sérfræðinga í sinni þjónustu. Því berir að túlka allan vafa stefnanda í haga, sbr. 1. mgr. 36. gr. b og 1. mgr. 36. gr. a í lögum nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga (smnl.).

Til vara er á því byggt, að stefndi hafi með athafnaleysi sínu gagnvart stefnanda, með því að tilkynna honum ekki um að greiðsla hafi borist og með því að ógilda miða stefnanda, brotið gegn stjórnsýslulögum og þar með valdið stefnanda tjóni sem greiða skal skaðabætur fyrir.

Stefnandi telur að háttsemi stefnda sé brot gegn stjórnsýslulögum og leiði til bótaskyldu úr hendi stefnda. Stefndi sé opinber aðili sem starfar samkvæmt sérstökum lögum og sé með einkaleyfi á rekstri happdrættis á Íslandi. Ljóst sé því að stefndi sé stjórnvald sem beri að starfa eftir ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og meginreglna stjórnsýsluréttarins.

Ákvörðun um að númer stefnanda væri ekki með í útdrætti 10. október 2013 hafi þannig verið stjórnvaldsákvörðun og um hana gilda málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga. Stefnda bar þannig að gæta meðalhófs, sbr. ákvæði 12. gr. laganna og enn fremur að gefa stefnanda kost á andmælum, sbr. 13. gr. laganna eða eftir atvikum að gefa stefnda kost á að tjá sig um málið, sbr. 14. gr. laganna. Háttsemi stefnda var því ekki í samræmi við stjórnsýslulög og meginreglur stjórnsýsluréttarins.

Jafnvel þótt talið yrði að starfsemi stefnda væri þess eðlis að hún ætti ekki með beinum hætti undir stjórnsýslulög sé ljóst að stefndi, sem opinber aðili sem starfar samkvæmt sérstökum lögum, ber að viðhafa vandaða stjórnsýsluhætti, s.s. að gefa aðilum kost á að tjá sig um mál og eftir atvikum bæta úr því ef greiðsla hefur ekki borist. Einnig hvílir sú skylda á stefnda að byggja á málefnalegum sjónarmiðum, sbr. II. kafla stjórnsýslulaga, þótt um sé að ræða einkaréttarlega samninga. Ekkert slíkt var gert í þessu tilfelli af hálfu stefnda.

Stefndi telur að háttsemi stefnda hafi farið í bága við ákvæði stjórnsýslulaga og af því hlotist tjón sem stefnandi varð fyrir og stefnda beri að bæta. Í samræmi við hina almennu sakareglu skaðabótaréttarins skal sá sem veldur öðrum tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti bæta tjónþola það tjón sem telja má sennilega afleiðingu af athöfn eða athafnaleysi tjónvalds.

Stefnandi telur því að bótaskylda stefnda sé til staðar og nemur bótakrafan þeirri fjárhæð sem stefnandi hefði fengið í vinning líkt og dómkrafan ber með sér og nánar sé gerð grein fyrir í stefnu.

III

Stefndi byggir á því að stefnandi hafi ekki átt gildan ársmiða í flokka-happdrætti stefnda á árinu 2013, í skilningi laga nr. 13/1973 og reglugerðar nr. 348/1976. Skipulag flokkahappdrættisins sé lögboðin. Með a-lið 1. mgr. 1. gr. fyrrgreindra laga nr. 73/1973, með áorðnum breytingum, sé boðið að skipta skuli þeim hlutum sem dregið sé um á ári hverju í 12 flokka, einn í mánuði hverjum. Það „iðgjald fyrir hvern hlut“, sé því verð fyrir einn hlutamiða í einum flokki, þ.e. fyrir útdrátt eins miða í einum mánuði. Þetta ákvæði sé einnig að finna í 9. gr. fyrrgreindrar reglugerðar nr. 348/1976 og nánar er fjallað um hlutamiða í 10. gr. hennar. Þar sé einnig fjallað um kaup á svonefndum „ársmiðum“, sem séu hlutamiðar sem gilda „fyrir alla drætti á sama ári“. Loks sé tekið fram í 1. mgr. 11. gr. reglugerðarinnar, sbr. 1. gr. rgl. 1043/2012, að hægt sé að gera miða að ársmiða eftir að drættir, einn eða fleiri, hafa farið fram, en þá „skal hann greiða fyrirfram fyrir þá drætti, sem eftir eru“. Af þessum ákvæðum leiðir að til þess að miðanúmer sé gilt í tilteknum flokki þurfi að kaupa hlutamiða fyrir það númer í þeim flokki, en einnig sé hægt að greiða fyrir fram fyrir alla drætti sem eftir séu á sama ári og gera miðann þar með að ársmiða, sem gildi þá í öllum þeim dráttum. Kaupin þurfa því að hafa átt sér stað fyrir viðkomandi útdrátt eða útdrætti og greiðsla verður því að hafa borist fyrir fram. Þessu til samræmis sé í skilmálum um alla greiðslusamninga um happdrættismiða sem keyptir hafa verið á heimasíðu stefnda, þar á meðal í þeim skilmálum sem voru í gildi þegar aðilar gerðu með sér samning 23. ágúst 2011 um þann happdrættismiða sem hér um ræðir, þ.e. miða nr. 4997-B, ávallt kveðið skýrlega á um að á meðan greiðslusamningur sé í gildi muni viðkomandi miðar vera gildir í sérhverjum útdrætti ef „greiðsla berst til [stefnda] fyrir viðkomandi útdrátt“. Sé þessi skilmáli áréttaður m.a. í reglum um happdrættismiða, lýsingu á starfseminni og algengum spurningum og svörum, sem birtar eru á heimasíðu stefnda í texta sem birtist á skjá þegar gengið er frá viðskiptunum og í staðfestingu á greiðslusamningi sem sendur er miðakaupanda að því loknu. Stefndi hefur aldrei boðið ársmiða til kaups á heimasíðu sinni heldur eingöngu hlutamiða. Hvað varðar kaup stefnanda á hlutamiðum á grundvelli greiðslusamnings um miða nr. 4997-B sé í umræddum skilmálum sérstaklega áréttað að við kaup á miðum í gegnum vef stefnda væri verið að „greiða fyrir 1 mánuð“ og yrði því fjárhæð fyrir verð eins hlutamiða skuldfærð af greiðslukorti hans við staðfestingu á miðakaupunum. Því sé gert ráð fyrir að kaup á hlutamiðum muni fara fram með skuldfærslum á greiðslukort stefnanda en stefnda ekki veitt nein heimild til að skuldfæra greiðslukort stefnanda fyrir fram fyrir alla drætti sem eftir voru ársins 2011, hvað þá að skuldfæra kortið fyrir fram fyrir alla drætti á árinu 2013, þ.e. árið sem umræddur vinningur féll.

Stefndi mótmælir því sem röngu að með því að selja stefnanda þá áskriftarþjónustu 23. ágúst 2011 í greiðslusamningi um happdrættismiða nr. 4997-B, að stefnandi mætti greiða fyrir kaup á hlutamiðum á númerið með mánaðarlegum skuldfærslum á greiðslukort sitt, hafi stefndi selt stefnanda „í reynd“ ársmiða, í skilningi 11. gr. reglugerðar nr. 348/1976, sbr. 1. gr. rgl. 1043/2012. Þá sé því enn fremur mótmælt sem röngu að með þessum greiðslusamningi hafi stefnandi einnig greitt fyrir fram fyrir útdrætti á síðari árum.

Stefndi heldur því fram að greiðslusamningur um mánaðarlegar skuldfærslur felli ekki úr gildi skýran skilmála um að greiðsla verði að berast stefnda fyrir hvern útdrátt. Stefndi heldur því fram að stefnanda hafi verið send staðfesting greiðslusamningsins í kjölfar viðskipta sinna 2011, eins og í öll önnur skipti sem hann hefur gert greiðslusamninga um happdrættisnúmer á heimasíðu stefnda.

Þá mótmælir stefndi sem röngu, að á skráningarfrelsi á vef hans á árinu 2011 hafi komið fram þau orð „enda um áskrift að ræða“. Þá er af hálfu stefnda bent á að jafnvel eftir að þeirri tilgreiningu var bætt í skráningartextann, að um áskrift væri að ræða, þá hélst sá skilmáli óbreyttur að greiðsla þyrfti að berast stefnda fyrir útdrátt til þess að miði yrði gildur í honum. Þessi viðbót breytti því ekki eðli viðskipta stefnda við miðaeigendur með því að veita þeim rétt til vinninga í útdráttum sem þeir höfðu ekki greitt fyrir þátttöku í.

                Þá telur stefndi að málsástæða stefnanda, um að stefndi hefði átt kröfu á stefnanda fyrir greiðslu vegna miðanna í hverjum útdrætti, alls 19.500 kr. miðað við október 2013, eigi enga stoð í tilvitnuðum skilmálum um viðskiptin og stangist berlega á við bæði skilyrði fyrir að miði teljist gildur í útdrætti og þau ákvæði reglugerðar um starfsemina sem boða að greiða skuli fyrir fram fyrir þátttöku. Þá hafði stefnandi ekkert tilefni til að ætla að viðskiptum aðila með hinn umþrætta miða, númer 4997-B, yrði með þessum hætti hagað á allt annan veg en öllum öðrum viðskiptum hans og stefnda með miða í flokkahappdrætti stefnda.

Af hálfu stefnda er því mótmælt sem röngu að með gerð greiðslusamnings aðila 23. ágúst 2011, m.a. um miða númer 4997-B, hafi stefnandi öðlast rétt til allra vinninga sem kynnu að falla á það númer, óháð því hvort greiðslukortafyrirtæki hans hefði heimilað greiðslu fyrir kaupum á hlutamiða á númerið fyrir viðkomandi útdrátt eða hann gengið frá greiðslu tímanlega með öðrum hætti.

Af hálfu stefnda er því mótmælt sem ósönnuðu, að um „áskriftarsamning“ hafi verið ræða og umfjöllun  um „gagnkvæma samninga“ og „staðgreiðsluviðskipti“ en ekki sé vikið að neinum þeim réttarreglum um slík viðskipti sem geti vikið úr vegi þeim skilmála að greiðsla þurfi að berast fyrir útdrátt.

Þá segir í stefnu að þótt stefndi hafi „stillt því þannig upp að áskrifendur“ skuli gefa upp númer á greiðslukortum sínum til að stefndi geti fengið greitt með þeim hætti, þá sé sá greiðslumáti ekki sá eini sem unnt sé að nota til að „innheimta áskriftargjaldið“. Stefndi hafi getað sótt þá kröfu á hvaða hátt sem honum sýndist, t.d. með því að „setja kröfu í heimabanka, senda innheimtubréf eða gíróseðil, en hefur kosið að óska eftir því við áskrifendur að þeir gefi upp kortanúmer sitt“. Einnig hér sé litið fram hjá þeim skýra og afdráttarlausa skilmála í viðskiptum aðila að greiðsla skuli hafa borist stefnda fyrir útdrátt, sem og þeirri staðreynd að ekkert í greiðslusamningi aðila eða skilmálum um viðskiptin renni stoðum undir að aðilar hafi samið um að kaup færu fram þó að greiðsla bærist ekki fyrr en eftir útdrátt eða að stefnda væri ætlað, eða yfirhöfuð heimilt, að innheimta vangoldin „áskriftargjöld“ vegna útdrátta sem hefðu þegar farið fram.

Þá bendir stefndi á, að tímasetning beiðna um skuldfærslu breytir ekki greiðsluskyldu stefnanda. Stefndi mótmælir sem ósönnuðu að fyrir liggi að ef stefndi hefði reynt skuldfærslu á einhverjum öðrum degi í viðkomandi mánuði sé ljóst að hún hefði tekist. Því sé mótmælt af hálfu stefnda að honum hafi borið skylda til að reyna skuldfærslu á einhverjum öðrum degi en gert var í september 2013. Þá sé bent á að sá greiðslumáti sem aðilar sömdu um sé alfarið á forræði stefnanda og kortafyrirtækis hans. Stefndi hafi engar upplýsingar um stöðu á korti stefnanda hverju sinni, en þær hafa stefnandi og útgefandi kortsins. Það sé því ekki á ábyrgð stefnda að senda inn ítrekaðar beiðnir um skuldfærslur ef honum er neitað um slíkar beiðnir af útgefanda korts stefnanda. Loks sé því mótmælt að stefndi hafi „ekki boðið upp á neina aðra leið til að greiða kröfuna“. Eins og fram kemur í því bréfi sem stefndi sendi stefnanda eftir að beiðni hans um skuldfærslu var hafnað 17. september 2013 þá þurfti „að greiða fyrir miðana hjá næsta umboði“ stefnda til þess að happdrættismiðar hans yrðu gildir í næsta útdrætti, þ.e. í flokki 10. Í umboðum stefnda sé bæði tekið við greiðslum í reiðufé og með skuldfærslum á greiðslukort, þ.e. á kredit- eða debetkort.

Stefndi ítrekar að samningssambandi stefnda og miðaeigenda var hvorki lýst sem „áskrift“ í þeim skilmálum sem voru í gildi þegar umræddur miði var keyptur né í þeim upplýsingum sem fram komu á vefsíðu stefnda við gerð greiðslusamnings um miðann. Jafnvel þótt svo hefði verið þá sé því mótmælt að slík lýsing hefði nokkru breytt um það afdráttarlausa skilyrði fyrir þátttöku stefnanda í útdrættinum að greiðsla bærist stefnda áður en hann færi fram. Þá sé því sérstaklega mótmælt að það að nefna viðskiptasamband aðila „áskrift“ hefði gefið stefnanda réttmætar væntingar um að þetta afdráttarlausa skilyrði væri þar með fallið brott og þess í stað yrði tekið upp það fyrirkomulag að „stefnda myndi sækja kröfu sína á hendur honum“ eftir á.

Stefndi mótmælir því að honum hafi borið að tilkynna stefnanda um að beiðni hans um skuldfærslu á kort stefnanda hafi verið hafnað og að stefndi hafi látið það undir höfuð leggjast. Engin skylda hvíli á stefnda, hvorki samkvæmt settum réttarreglum eða ákvæðum í skilmálum um viðskipti aðila, að tilkynna stefnanda ef það greiðslukort sem hann hefur sjálfur tiltekið, og hefur einn alfarið forræði á, reynist ekki vera tiltækt þegar beiðni um skuldfærslu berst kortafyrirtæki hans.

Stefndi bendir á að í þeim skilmálum sem stefnandi samþykkti við gerð greiðslusamnings um viðkomandi happdrættismiða sé sérstaklega gert ráð fyrir að samningurinn falli ekki úr gildi þó að greiðsla berist ekki fyrir sérhvern útdrátt og miðinn verði því ekki með í þeim útdráttum. Sé þess í stað tekið fram að miðinn verði gildur í öllum útdráttum „á meðan greiðslusamningnum er ekki sagt upp af þinni hálfu og greiðsla berst til [stefnda] fyrir viðkomandi útdrátt“. Þá sé því mótmælt sem röngu að breytingar á skilmálum stefnda séu vegna máls þessa eins og stefnandi ýjar að.

Þá hafnar stefndi því að ætlaður aðstöðumunur málsaðila hafi þýðingu í málinu og eigi að leiða til sýknu.

Stefndi hafnar því að háttsemi hans hafi valdið stefnda tjóni. Því er hafnað að ákvörðun um að miði stefnanda hafi ekki verið með í útdrætti í 10. flokki 2013 hafi verið stjórnvaldsákvörðun og að stefndi hafi við þá ákvörðun brotið gegn málsmeðferðarreglum 12.-14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og meginreglum stjórnsýsluréttarins, auk þess sem stefndi hafi ekki viðhaft vandaða stjórnsýsluhætti eða byggt á málefnalegum sjónarmiðum „sbr. II. kafla stjórnsýslulaga“, eins og segir í stefnu. Stefndi telur að umrædd ákvörðun sé einkaréttarlegs eðlis og að málefnaleg sjónarmið liggi henni til grundvallar, enda byggist hún á samningi aðila sem sé í samræmi við skilmála um þjónustuna og þær réttarreglur sem um hana gilda.

Þá sé því hafnað að stefndi hafi valdið stefnanda tjóni með því athafnaleysi sínu að tilkynna stefnanda ekki um að greiðsla hefði ekki borist, að stefnandi hafi „alltaf greitt fyrir sína miða hjá stefnda“ og að stefndi hefði getað t.d. sett kröfu sína í almenna innheimtu. Er öllum þessum staðhæfingum mótmælt af hálfu stefnda sem röngum. Þá sé því mótmælt að skilyrðum sakarreglum skaðabótaréttarins sé fullnægt.

Að lokum byggir stefndi á því að krafa stefnanda sé of seint fram komin þar sem vinningsins var ekki vitjað innan árs frá drætti þess flokks sem vinningurinn féll í.

IV

Ágreiningslaust er að stefnandi festi kaup á svokölluðum trompmiða nr. 4779-B á heimasíðu stefnda í ágúst 2011 og í skilmálum stefnda vegna kaupanna stóð að miðinn væri gildur frá og með næsta útdrætti og öllum útdráttum þaðan í frá á meðan greiðslusamningnum væri ekki sagt upp af hálfu stefnanda og greiðsla myndi berast stefnda fyrir viðkomandi útdrátt. Þá er einnig ágreiningslaust að ekki reyndist unnt að skuldfæra greiðslukort stefnanda hinn 17. september 2013 þar sem notkun kortsins var komin umfram lánamörk þann mánuðinn. Kjarninn í málsókn stefnanda er sá að hann telur að happadrættismiði hans hafi verið gildur, þrátt fyrir að hann hafi ekki greitt fyrir endurnýjun hans fyrir útdrátt og þar með brotið gegn skilmálum þeim er giltu er hann keypti miðann.

Við niðurstöðu málsins verður að líta til hinnar sérstöku starfsemi sem stefndi hefur með höndum. Um er að ræða happdrætti, þ.e. viðskiptavinir eru að kaupa væntingu um fjárhagslegan vinning. Stundum kemur vinningur en oftar ekki, allt eftir því hvernig útdrátturinn er. Stefndi starfar á grundvelli laga og reglugerðar og í samkeppni við önnur peningahappdrætti. Starfsemi stefnda er lögboðin en samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga um stefnda nr. 13/1973 er boðið að skipta skuli þeim hlutum sem dregið er um á ári hverju, í 12 flokka og skal dráttur fara fram fyrir einn flokk í mánuði hverjum, dráttur 1. flokks í janúarmánuði og 12. flokks í desembermánuði. Stefndi þarf að gera upp hvern flokk fyrir sig og því er gert ráð fyrir að viðskiptavinir hafi greitt fyrir endurnýjun miðans fyrir hvern útdrátt sem er í kringum 10. hvers mánaðar. Í þeim tilvikum sem greitt er með greiðslukorti er endurnýjunin skuldfærð fyrir 21. hvers mánaðar fyrir útdráttarmánuðinn svo stefndi hafi fengið uppgjör frá greiðslukortafyrirtækinu fyrir næsta útdrátt. Þó að viðskiptavinir fái ef til vill greiðslufrest með því að setja endurnýjunina á greiðslukort þá er þessi viðskiptamáti í raun staðgreiðsluviðskipti fyrir stefnda. Það að viðskiptavinum stefnda sé heimilað að greiða með greiðslukorti er í anda nútímaviðskiptahátta og stangast ekki við þau lög og reglugerðir sem um stefnda gilda. Með þessum greiðsluhætti er markmiðum laganna og reglugerðarinnar náð og skilmálum fullnægt, þar sem greitt er mánaðarlega fyrir hverja endurnýjun áður en útdráttur á sér stað. Hins vegar er ekki hægt að líta svo á að með mánaðarlegri skuldfærslu á greiðslukort sé verið að kaupa ársmiða, þar sem ekki er tryggt að uppfyllt sé skilyrði skilmála stefnda, um að greiðsla skuli hafa borist stefnda fyrir útdráttinn. Getur hvort sem er gerst að viðskiptavinur loki kortinu eða skipti um kort en samkvæmt gögnum málsins hefur stefnandi greitt endurnýjanir fyrir miðann 4779-B með fjórum mismunandi greiðslukortum. Það er á ábyrgð viðskiptavinar að tryggja að unnt sé að skuldfæra kortið og skiptir ekki máli hvenær tímabilsins skuldfærslan fer fram, enda ekki kveðið á um slíkt í skilmálum stefnda. Ekki er fallist á að stefnandi hafi keypt hinn uppdeilda happdrættismiða í áskrift enda ekki minnst á slíkt í skilmálum þeim er giltu við kaupin á miðunum. Þótt stefndi sé stofnun og stefnandi einstaklingur, þá liggur fyrir að stefnandi hefur víðtæka reynslu af kaupum á happdrættismiðum hjá stefnda og þekkir eða má þekkja skilmálana vel. Telja verður að skilmálarnir séu einnig skýrir um meginatriði málsins, þ.e. að greiða þurfi fyrir miðann fyrir útdráttinn og er það skilyrði í samræmi við ákvæði laga um Happdrætti Háskóla Íslands og reglugerðir settar á grundvelli þeirra. Því er ekki fallist á að tilvísun stefnanda til 1. mgr. 36. gr. b og 1. mgr. 36. gr. a laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga eigi við í málinu.

Samkvæmt þeim skilmálum sem giltu, er stefnandi festi kaup á hinum umdeilda miða á heimasíðu stefnda, keypti stefndi svokallaðan hlutamiða. Hann greiddi fyrir einn mánuð í einu og átti að skuldfæra fjárhæðina á tiltekinn kreditkortareikning í hans eigu. Því er hafnað að um ársmiða hafi verið að ræða með því að skilyrði þess konar miða er, samkvæmt 11. gr. reglugerðar nr. 348/1976, að greiða þurfi fyrir fram fyrir þá drætti sem eftir eru eða fyrir alla útdrætti á árinu. Á sama hátt er hafnað þeirri málsástæðu stefnanda að um ársmiða hafi „í reynd“ verið að ræða. Þá er haldlaus sú málsástæða að um einhvers konar áskriftarsamning sé að ræða, sem geri það að verkum að stefnandi þurfi ekki að standa við þá skilmála sem giltu er hann gerði samninginn, þ.e. að greiðsla fyrir endurnýjun hafi sannanlega borist stefnda fyrir útdrátt.

Samkvæmt samningi málsaðila við kaupin á 4997-B bar að skuldfæra kreditkort stefnanda mánaðarlega fyrir endurnýjuninni. Því bar stefnanda að sjá til þess að unnt væri að skuldfæra téða greiðslu. Ekki var samið svo um að stefnda hafi borið að reyna ítrekað að skuldfæra greiðsluna eða innheimta andvirði endurnýjunar með öðrum leiðum, svo sem að senda kröfu í heimabanka. Telja verður að það hafi verið umfram skyldu að stefndi tilkynnir að skuldfærsla á kreditkortið hafi mistekist, samanber bréf stefnanda til stefnda 19. september 2013 sem stefnandi telur sig þó ekki hafa fengið.

Þá verður ekki fram hjá því litið að ákveðnar skyldur hvíli einnig á stefnanda sem kaupanda samkvæmt samningi við stefnda. Í gegnum tíðina hefur stefnandi keypt töluvert af hlutamiðum í flokkahappdrætti stefnda eða allt frá febrúar 2009. Við kaupin hefur hann þurft að staðfesta skilmála stefnda, þar á meðal þann skilmála að miði sé „ekki gildur í útdrætti nema fullnægjandi greiðsla hafi sannanlega borist HHÍ tímanlega fyrir útdrátt“. Það verður einnig að gera þá kröfu til stefnda að hann passi að unnt sé að skuldfæra kort hans fyrir endurnýjun miðanna, en gögn málsins bera það með sér að stefnandi hefur áður lent í því, að notkun kortsins hafi verið komin umfram lánamörk þess, þannig að ekki reyndist unnt að skuldfæra endurnýjunina. Stefnandi gat sjálfur fylgst með hvort endurnýjun happdrættisins væri skuldfærð á greiðslukort hans, en yfirlit kreditkortareikningsins barst stefnanda um mánaðamót eða um það bil 10 dögum fyrir útdrátt. Fyrir liggur að stefndi hefur sent bréf þess efnis, að greiðslusamningur hafi komist á um kaup á miðum og einnig bréf þess efnis að ekki hafi náðst að skuldfæra kreditkortið og í tilviki stefnanda hefur það komið fyrir oftar en einu sinni, eða í apríl, nóvember og desember 2009 og janúar 2013. Stefnandi hefur borið að hann hafi ekki fengið bréf þau er varða hinn umdeilda miða. Fyrir dómi fullyrtu starfsmenn stefnda, t.d. Emilía Helga Þórðardóttir og Hans Júlíus Þórðarson, að slík bréf hefðu farið úr húsi stefnda, en ekki verið send í ábyrgðarpósti. Dómurinn telur ólíklegt að bréf þessi hafi farist fyrir í dreifingu, en ekki er að sjá að stefnandi hafi skipt um heimilisfang. Það skiptir þó ekki máli heldur hitt að bréfin um að skuldfærsla hefði mistekist voru send umfram skyldu.

Þá skiptir engu varðandi ætlað gildi miðans í október 2013 að endurnýjunin var gjaldfærð vegna næsta mánaðar á eftir vegna næsta útdráttar. Það var gert í samræmi við skilmála stefnda en þar segir að miðinn sé gildur í öllum útdráttum „á meðan greiðslusamningnum er ekki sagt upp“ af hálfu stefnanda „og greiðsla berist til HHÍ fyrir viðkomandi útdrátt“. Ekkert liggur fyrir um að stefnandi hafi sagt upp samningnum.

Stefnandi heldur því fram að stefndi hafi uppfært skilmála sína þannig að skuldfærsla fer nú fram 12.-15. dag hvers mánaðar fyrir endurnýjun næsta mánaðar á eftir. Einnig er nú tekið fram að það sé á ábyrgð miðaeiganda að tryggja að greiðsla berist fyrir endurnýjun í hvert sinn og ef skuldfærsla mistekst fái miðaeigandi bréf þess efnis þannig að honum gefist tækifæri til að greiða fyrir næstu endurnýjun með öðrum hætti. Með þessum nýju skilmálum telur stefnandi að stefndi hafi í raun viðurkennt í verki að eldri skilmálar og framkvæmd hafi ekki verið næjanlega skýr og breytt starfslagi sínu í samræmi við þau atriði sem stefnandi hefur tilgreint í erindi sínu. Dómurinn telur að stefnandi geti ekki byggt rétt sinn á þessari breytingu á skilmálum. Samkvæmt gögnum málsins virðist skilmálabreyting þessi hafa verið gerð áður en stefnandi sendi bréf sitt 27. mars 2015. Þá skiptir ekki máli varðandi skuldfærsluna á hvaða dögum hún er gerð. Skyldan hvílir á stefnda að hafa kort sitt innan lánamarka.

                Þá byggir stefnandi á því að ákvörðun stefnda um að númer stefnanda væri ekki með í útdrætti 10. október 2013 væri stjórnsýsluákvörðun og um hana giltu málsmeðferðarreglur 12. til 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að mati dómsins eiga þessar tilvitnanir ekki við í málinu. Um einkaréttarlegan samning er að ræða milli stefnanda og stefnda er hann festi kaup á happdrættismiðanum. Slíkir einkaréttarlegir samningar falla ekki undir gildissvið stjórnsýslulaga og því haldlaust að vísa til nefndra lagaákvæða.

                Þá byggir stefnandi á því að hann hafi orðið fyrir tjóni og honum beri bætur og vísar til almennu skaðabótareglunnar um að sá sem veldur öðrum tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti skuli bæta tjónþola það tjón sem telja verður sennilega afleiðingu af athöfn eða athafnaleysi  tjónvalds. Með vísan til þess sem að framan greinir er því hafnað að stefndi hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi. Þá hefur stefnandi ekki sýnt fram á að öðrum skilyrðum reglunnar sé fullnægt.

Með vísan til þess sem að framan greinir er það niðurstaða málsins að sýkna eigi stefnda af öllum kröfum stefnanda.

Samkvæmt 130. gr. laga um meðferð einkamála ber stefnanda að greiða stefnda upp í málskostnað svo sem greinir í dómsorði.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Stefndi, Happdrætti Háskóla Íslands, er sýknað af kröfum stefnanda, Gunnlaugs Hrannars Jónssonar.

Stefnandi, Gunnlaugur Hrannar Jónsson, greiði stefnda 500.000 kr. upp í málskostnað.