Print

Mál nr. 114/2017

Þrotabú Azazo hf. (Arnar Þór Stefánsson hrl.)
gegn
Ólafi Páli Einarssyni (Lára V. Júlíusdóttir hrl.)
Lykilorð
  • Málskostnaðartrygging
  • Frávísun frá Hæstarétti
Reifun

Máli þrotabús A hf. gegn Ó var vísað frá Hæstarétti þar sem þrotabúið afhenti ekki skilríki fyrir málskostnaðartryggingu innan þess frests sem það hafði til þess að setja hana.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Azazo hf. skaut málinu til Hæstaréttar 17. febrúar 2017 og krafðist aðallega sýknu af kröfum stefnda en til vara að þær yrðu lækkaðar. Þá var gerð krafa um málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. 

Stefndi krafðist staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt gögnum sem lögð hafa verið fyrir Hæstarétt var bú Azazo hf. tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 3. október 2017 og tók búið við aðild málsins fyrir Hæstarétti. Af því tilefni krafðist stefndi þess að áfrýjanda yrði gert með vísan til b. liðar 1. mgr. 133. gr., sbr. 166. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Fallist var á þá kröfu og áfrýjanda veittur tveggja vikna frestur til að afhenda skilríki fyrir tryggingunni sem ákveðin var 600.000 krónur. Sú trygging hefur ekki verið sett og ber því samkvæmt 3. mgr. 133. gr., sbr. 166. gr. sömu laga að vísa málinu sjálfkrafa frá Hæstarétti.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.       

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Áfrýjandi, þrotabú Azazo hf., greiði stefnda, Ólafi Páli Einarssyni, 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 22. nóvember 2016.

I.

                Mál þetta, sem tekið var til dóms 25. október 2016, er höfðað með birtingu stefnu 8. janúar 2016.

                Stefnandi er Ólafur Páll Einarsson, kt. [...], Ásakór 14, Kópavogi.

                Stefndi er Azazo hf., kt. [...], Bæjarhrauni 22, Hafnarfirði.

                Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 5.810.327 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. október 2015 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu samkvæmt mati dómsins að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.

                Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að honum verði dæmdur málskostnaður að mati dómsins.

II.

Með ráðningarsamningi, dagsettum 14. nóvember 2014, réð stefnandi sig til starfa hjá stefnda sem framkvæmdastjóri þróunarsviðs og skyldi jafnframt sitja í framkvæmdastjórn fyrirtækisins. Stefndi er hugbúnaðar- og þekkingarfyrirtæki sem sérhæfir sig m.a. í stjórnun upplýsinga og skjala og rafrænum undirskriftum, en stefnandi er rafmagnsverkfræðingur að mennt. Gagnkvæmur uppsagnarfrestur samkvæmt ráðningarsamningi aðila var sex mánuðir, en um ráðningarkjör var að öðru leyti vísað til ákvæða í kjarasamningi SA og VR.

Stefndi kveðst hafa á árinu 2008 hannað og markaðssett upplýsingastjórnunarkerfið „CoreData“. Á árinu 2013 hafi fyrirtækið bætt við lausn sem boðið hafi upp á rafræna undirritun skjala. Rafræn undirritun hafi síðar verið boðin fram sem sérlausn undir heitinu „AzazoSign“. Kveðst stefndi hafa frá árinu 2013 verið í samstarfi við leiðandi erlend fyrirtæki um markaðssetningu á lausnum og þjónustu, m.a. á sviði rafrænnar undirritunar skjala. Meðal fyrirtækja sem stefndi sé í samkeppni við sé fyrirtækið SignWise sem skráð sé í Eistlandi, en það fyrirtæki bjóði upp á sambærilega lausn og stefndi vegna rafrænnar undirritunar og hafi gert frá árinu 2014.

Stefnandi hóf störf hjá stefnda í febrúar 2015. Að sögn stefnda fór stefnandi í byrjun mars sama ár á ráðstefnu erlendis fyrir hönd fyrirtækisins. Markmið ferðarinnar hafi verið að koma lausnum stefnda á framfæri og kynna sér lausnir samkeppnisaðila stefnda. Eftir ráðstefnuna hafi stefnandi lagt til að stefndi hæfi samstarf við fyrirtækið SignWise, en vegna kröfu þess fyrirtækis um takmarkanir á sölu lausna á öðrum mörkuðum en Íslandi hafi verið fallið frá þeim áformum. Um svipað leyti hafi samningaviðræður stefnda við Íslandsbanka hafist um samstarf í tengslum við AzazoSign, en Íslandsbanki hafði þá þegar tekið aðrar lausnir stefnda í notkun. Óumdeilt er að stefnandi tók þátt í þeim viðræðum ásamt forstjóra stefnda og kveður stefndi að samningur fyrirtækisins við Íslandsbanka hafi skipt stefnda miklu máli til að vekja athygli innanlands á AzazoSign og auka líkur á því að önnur stór fyrirtæki fylgdu í kjölfarið.

Stefnandi sagði upp starfi sínu hjá stefnda með uppsagnarbréfi 25. september 2015. Ástæða þess var að sögn stefnanda sú að á þessum tíma hafi verið mikil óvissa um rekstur stefnda og m.a. hafði orðið dráttur á greiðslu launa til starfsmanna og stjórnarmanna. Í uppsagnarbréfinu óskaði stefnandi eftir því að ná samkomulagi við stefnda um að starfslok yrðu eins fljótt og unnt væri. Óumdeilt er að á sama tíma voru samningaviðræður við Íslandsbanka hf. um rafrænar undirskriftir á lokastigi og kveðst stefndi hafa lagt sig fram um að tryggja starfskrafta stefnanda hjá fyrirtækinu. Fór forstjóri stefnda þess á leit við stefnanda að hann drægi uppsögnina til baka. Stefnandi féllst ekki á þessa beiðni stefnda, enda kveðst hann þegar hafa tekið ákvörðun um að segja upp starfinu hjá stefnda. Í áðurgreindum samningaviðræðum við Íslandsbanka hafi verið gert ráð fyrir að stefnandi myndi leiða mikilvægt verkefni á sviði rafrænna undirskrifta og hafi verið rætt um þróunarsamstarf til einhverra ára og jafnvel um bindandi samstarf í tiltekinn lágmarkstíma. Stefnandi kveður að sér hafi fundist mikilvægt að Íslandsbanki myndi ekki ganga til samninga án þess að áður yrði upplýst um fyrirhuguð starfslok hans hjá stefnda og því hafi hann lagt ríka áherslu á að tilkynnt yrði sérstaklega um það. Stefnandi kveðst hafa vakið máls á þessu á fundi framkvæmdastjórnar 6. október 2015, en á þeim fundi hafi verið framkvæmdastjóri rekstrarsviðs og forstjóri stefnda. Kveðst stefnandi hafa talið heppilegast að sá síðarnefndi myndi greina Íslandsbanka frá þeirri stöðu sem upp væri komin. Forstjóri stefnda hafi hafnað þessu og krafist þess að stefnandi greindi samningsaðila ekki frá uppsögninni.

Stefndi kveður að framangreind ósk stefnanda hafi komið stefnda á óvart og hafi stefndi ekki talið rétt að tengja starfslok stefnanda við samningsgerðina eða framgang verkefnisins, enda hafi þá tæpir sex mánuðir verið eftir af uppsagnarfresti stefnda. Þá hafi verkefnið ekki á nokkurn hátt verið svo nátengt persónu stefnanda að brotthvarf hans úr starfi hálfu ári seinna ætti að geta haft afgerandi áhrif á framvindu þess. Kveðst stefndi þvert á móti hafa gert ráð fyrir að fljótlega eftir samningsgerðina myndi Ólafur leggja aukna áherslu á þróun nýrra viðskiptatækifæra. Forstjóri stefnda hafi viljað hafa ráðrúm til að skipuleggja framvindu verkefnisins og huga að ráðningu eftirmanns áður en viðskiptavinum yrði tilkynnt um mannabreytingar.

Stefnandi kveðst hafa talið óheiðarlegt að greina samningsaðilum ekki frá uppsögn sinni og því kveðst hann hafa tekið af skarið og tilkynnt Íslandsbanka um hana með tölvupósti 13. október 2015. Áður hafi hann endurtekið beðið forstjóra stefnda um að senda slíkan póst, m.a. á fundi framkvæmdastjórnar stefnda fyrr um daginn. Í kjölfar þess að stefnandi sendi tilkynninguna til Íslandsbanka hafi stefndi óskað eftir því að hann færi heim og héldi sig utan vinnustaðar að svo stöddu. Að sögn stefnda var tekin sú ákvörðun að stefnandi héldi sig heima á meðan mál hans væri kannað, enda hafi mátt skilja framgöngu stefnanda á þann veg að hann teldi sig hafa persónulega hagsmuni af því að tefja eða koma í veg fyrir samningagerðina við Íslandsbanka. Stefnandi kveður að daginn eftir að hann tilkynnti Íslandsbanka um starfslok sín hjá stefnda hafi verið búið að loka fyrir allt tölvuaðgengi hans hjá stefnda, nafn hans hafi verið tekið út af starfsmannalista á heimasíðu fyrirtækisins og honum eytt út af starfsmannasvæði stefnda á Facebook.

Næstu daga áttu stefnandi og forstjóri stefnda í samskiptum í gegnum smáskilaboð í síma áður en þau funduðu hinn 16. október 2015.

Stefnandi kveður að hinn 23. október 2015 hafi málsaðilar átt fund þar sem farið hafi verið þess á leit við stefnanda að hann ynni út uppsagnarfrestinn við greiningarvinnu, en tilboðið hafi falið í sér að hann ynni ekki lengur sem framkvæmdastjóri þróunarsviðs í samræmi við starfslýsingu í ráðningarsamningi. Að öðrum kosti myndi hann láta af störfum og héldi þá launum út mánuðinn. Þessu hafi stefnandi hafnað. Stefndi kveður stefnanda hafa tjáð sér að hann gæti ekki fellt sig við neinar breytingar á starfsviði eða verkefnum og myndi ekki koma til vinnu á öðrum forsendum.

Stefndi kveður að forstjóri stefnda hafi fram að þessu ekki haft upplýsingar um að stefnandi hefði þegar hafið undirbúning að samkeppni við stefnda. Stefnandi hafi hins vegar í lok september upplýst nokkra samstarfsfélaga sína um að hann hefði flogið til Eistlands frá Ítalíu á meðan hann dvaldi þar í sumarfríi og rætt við fyrirsvarsmenn fyrirtækisins SignWise um að hann yrði samstarfs- eða umboðsaðili þeirra á Íslandi. Þegar þessar upplýsingar hafi borist forstjóra stefnda hafi verið tekin ákvörðun um fyrirvaralausa riftun ráðningarsambandsins, enda hafi verið ljóst að stefnandi hafði gerst sekur um alvarlegt brot á trúnaðarskyldu gagnvart stefnda.

Stefnandi kveður að hinn 26. október 2015 hafi honum borist bréf frá stefnda með fyrirsögninni „Fyrirvaralaus uppsögn“. Þar hafi honum verið tilkynnt að honum væri vikið fyrirvaralaust úr starfi og jafnframt að launagreiðslur féllu niður frá og með sama tíma. Jafnframt hafi komið fram í bréfinu að nettenging og sími yrðu flutt yfir á hans kennitölu og þess óskað að tölvu yrði skilað fyrir klukkan 17 sama dag.

Stefnandi kveður lögmann sinn hafa sent stefnda bréf 27. október 2015 þar sem ólögmætum brottrekstri hans hafi verið mótmælt og þess krafist að riftun ráðningarsamnings yrði afturkölluð. Þar hafi jafnframt komið fram að stefnandi væri reiðubúinn til að vinna út uppsagnarfrest við þau störf og á þeim kjörum sem hann hefði verið ráðinn til í ráðningarsamningi í nóvember 2014. Yrði ekki fallist á þetta yrði litið svo á sem ekki væri óskað eftir frekara vinnuframlagi hans. Bréfinu hafi verið svarað 30. október 2015 þar sem stefndi neitaði því að um ólögmætan brottrekstur hefði verið að ræða. Í kjölfarið eða 5. nóvember 2015 hafi lögmaður stefnanda sent bréf til innheimtu á launum og orlofi frá brottrekstrardegi og út uppsagnarfrest.

Stefndi kveður að í beinu framhaldi af starfslokum stefnanda hafi stefnandi hafið undirbúning að stofnun félags í beinni samkeppni við stefnda. Skrifað hafi verið undir stofnskrá og samþykktir SignWise ehf. 18. desember 2015. Stefnandi sé eini stofnandi félagsins, en hann hafi upplýst í viðtölum við fjölmiðla að SignWise í Eistlandi eigi jafnframt hlut í félaginu. Samkvæmt stofnskrá sé tilgangur félagsins „að þróa, selja og innleiða hugbúnað og skyldar lausnir sem hjálpa fyrirtækjum að ná fram hagræðingu í rekstri með því að rafvæða innri og ytri ferla“. Stefnandi hafi verið framkvæmdastjóri félagsins frá stofnun þess.

                Stefnandi og fyrirsvarsmaður stefnda, Brynja Guðmundsdóttir, komu fyrir dóminn og gáfu aðilaskýrslu. Þá komu fyrir dóminn sem vitni Alexander Michael Couper, Ari Björnsson og Steinar Karl Kristjánsson.

III.

Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á því að hann hafi ekki gerst brotlegur við ráðningarsamning aðila frá 14. nóvember 2014 með nokkrum þeim hætti sem heimilað hafi stefnda fyrirvaralausa riftun hans. Stefnandi hafi ekki farið á svig við fyrirmæli með óheimilum hætti þegar hann tilkynnti viðskiptavini stefnda um persónulega hagi sína. Stefnandi kveðst byggja á því að atvinnurekendur geti ekki bundið starfsmenn sína þagnarskyldu um eigin uppsagnir. Slíkt myndi flokkast sem skerðing á atvinnufrelsi þar sem starfsmönnum væri þá gert ókleift að leita sér að nýrri vinnu. Í aðdraganda tilkynningar hans til Íslandsbanka kveðst stefnandi hafa farið þess á leit við forstjóra stefnda að hann upplýsti um uppsögnina. Þegar það hafi ekki verið gert kveðst stefnandi hafa greint forstjóra stefnda frá því að hann myndi sjálfur upplýsa um þetta atriði.

Í bréfi stefnda til stefnanda frá 26. október 2015 hafi brottvikningin verið rökstudd með því að stefnandi hefði orðið uppvís að því að vinna gegn hagsmunum stefnda og að stefnandi hefði sýnt af sér framferði sem væri ósamrýmanlegt trúnaðarskyldum hans við fyrirtækið, án þess að það væri skýrt nánar. Þá kom fram að fyrirsvarsmenn stefnda teldu að fyrirvaralaus starfslok stefnanda væru til þess fallin að valda fyrirtækinu tjóni og að stefndi áskildi sér rétt í þeim efnum. Í bréfi lögmanns stefnda 30. október 2015 hafi verið vísað til þess að stefnandi hygðist fara í samkeppnisrekstur að uppsagnarfresti liðnum og að undirbúningur að samkeppnisrekstri væri þegar hafinn. Þá hafi verið vísað til þess í bréfinu að stefnandi hefði flogið út til fundar við erlendan samkeppnisaðila í þeim tilgangi að gerast samkeppnisaðili stefnda á Íslandi.

Stefnandi kveður að hið rétta sé að erlent fyrirtæki hafi haft samband við hann áður en hann sagði upp störfum hjá stefnda og boðið honum að kanna atvinnutækifæri. Stefnandi kveðst hafa þekkt starfsmenn hins erlenda fyrirtækis persónulega um áraskeið. Á þessum tímapunkti hafi verið mikil óvissa um rekstur stefnda og m.a. hafi orðið dráttur á greiðslu launa til starfsmanna og stjórnarmanna. Stefnandi kveður að hefði orðið af því að stefnandi gengi til liðs við erlenda fyrirtækið hefði hann ekki orðið starfsmaður samstarfsaðila stefnda, enda starfi félögin hvort á sínum markaðinum. Þá hafi aldrei verið gengið út frá því í samskiptum stefnanda við erlenda fyrirtækið að hann gengi til liðs við það fyrr en í fyrsta lagi að loknum uppsagnarfresti hjá stefnda. Stjórnarskrárvarið atvinnufrelsi stefnanda gangi lengra en skylda hans til að gæta hagsmuna stefnda í víðtækum skilningi.

Stefnandi kveðst hafna því að trúnaðarskylda hafi verið rofin á uppsagnartíma. Samskipti stefnanda við hið erlenda fyrirtæki hafi verið þau að erlenda fyrirtækið hafi haft samband við hann á fyrra tímabili eftir að misbrestur hafði orðið á launagreiðslum frá stefnda. Umrætt fyrirtæki starfi ekki á íslenskum markaði og eigi ekki í neinni samkeppni við stefnda.

Kröfur stefnanda sundurliðast þannig:

Laun á uppsagnarfresti (5 x 870.000                                                                               4.350.000 krónur

(+ 0,18 af 870.000 vegna október)                                                                                       156.600 krónur

Orlof frá 1.5.2015 og út uppsagnarfrest 30.4.2016

(27 dagar á ári (40.147/67 x 27)                                                                                        1.083.987 krónur

Orlofsuppbót 26.20.15 - 30.04.16 (42.000 x 0,43)                                                              18.060 krónur

Desemberuppbót 26.10.15-30.04.16

(0,26 x 78.000 = 20.280 kr. + 4/12 af 78.000 =26.000 kr.)                                                46.280 krónur

Bifreiðastyrkur út uppsagnarfrest (30.000 x 5,18)                                                            155.400 krónur

Samtals                                                                                                                                   5.810.327 krónur

Stefnandi vísar máli sínu til stuðnings til ráðningarsamnings, svo og kjarasamnings Samtaka atvinnulífsins og VR. Enn fremur kveðst stefnandi byggja á lögum nr. 19/1979 um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum. Þá vísar stefnandi til meginreglna kröfuréttar, meginreglu samningaréttar um skuldbindingargildi samninga og meginreglu vinnuréttar um að launþegi eigi rétt á að fá greidd laun samkvæmt vinnusamningi. Jafnframt vísar stefnandi til 75. gr. stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi.

Stefnandi kveður kröfu um málskostnað byggða á 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Stefnandi kveðst ekki reka virðisaukaskattsskylda starfsemi, sbr. lög nr. 50/1988, og sé óskað eftir að tillit verði tekið til þess við ákvörðun málskostnaðar. Um dráttarvexti er vísað til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og um varnarþing til 33. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

IV.

Stefndi kveðst byggja sýknukröfu sína á því að riftun ráðningarsamnings aðila hafi verið lögleg og í samræmi við almennar reglur vinnuréttar. Kveðst stefndi fyrst og fremst vísa til meginreglunnar um trúnað í ráðningarsambandi, en í trúnaðarskyldunni felist að starfsmanni sé óheimilt á ráðningartíma að vinna gegn hagsmunum vinnuveitanda síns og geti brot á þeirri skyldu varðað riftun án aðvörunar eða fyrirvara.

Stefnandi hafi verið í stöðu framkvæmdastjóra hjá stefnda og hafi því borið ríkari trúnaðarskyldu en almennt gerist. Stefnandi hafi þekkt til allra þátta í rekstri stefnda sem máli skiptu í samkeppni á markaði. Hann hafi því verið í einstakri stöðu til að semja við samkeppnisaðila stefnda og miðla trúnaðarupplýsingum sem styrkt gætu stöðu samkeppnisaðila. Stefnandi hafi átt fund með samkeppnisaðila stefnda, SignWise, með það að markmiði að það fyrirtæki hæfi starfsemi á Íslandi sem hann yrði í forsvari fyrir. Hafi það falið í sér alvarlegt brot á trúnaðarskyldunni og réttlætt fyrirvaralausa uppsögn af hálfu stefnda. Ekki sé hægt að gera þá kröfu til fyrirtækja í samkeppnisrekstri að þau haldi framkvæmdastjóra í vinnu sem hafi hafið undirbúning að samstarfi við samkeppnisaðila. Ekki sé um það deilt að stefnandi hafi átt fund með SignWise í Eistlandi í byrjun september 2015, en eins og rakið sé í atvikalýsingu stefnda sé SignWise samkeppnisaðili stefnda á sviði rafrænna undirskrifta.

Þegar litið sé til yfirlýsinga stefnanda um að hefja samkeppni við stefnda, eindreginnar óskar stefnanda um að hætta sem fyrst störfum hjá stefnda og þess að hann hafi þegar eftir starfslok hafið vinnu við stofnun félagsins SignWise Ísland ehf. verði að telja staðfest að fundur stefnanda með SignWise í Eistlandi hafi haft þann eina tilgang að undirbúa komu SignWise til Íslands í samkeppni við stefnda.

Verði fallist á með stefnanda að ekki hafi verið fyrir hendi lögmætur grundvöllur til riftunar ráðningarsamnings aðila kveðst stefndi krefjast þess að bótakröfu stefnanda verði hafnað eða bætur lækkaðar verulega. Kveðst stefndi byggja þá kröfu á almennum skaðabótareglum.

Við uppsögn stefnanda 25. september 2015 hafi hann óskað eftir samkomulagi um „að starfslok [yrðu] eins fljótt og hægt er.“ Þessa ósk sé ekki hægt að skilja á annan veg en að stefnandi hafi viljað láta af störfum sem fyrst og þar með falla af launaskrá hjá stefnda. Stefnandi hafi annaðhvort haft í hyggju að fara sem fyrst í annað starf eða vera utan vinnumarkaðar um tíma. Stefnandi eigi þar af leiðandi enga réttmæta bótakröfu á hendur stefnda, enda sé það forsenda bótakröfu að stefnandi hafi orðið fyrir fjártjóni vegna riftunar stefnda.

Stefnandi hafi verið á launaskrá hjá stefnda til og með 26. október 2015 eða í mánuð eftir að hann sagði upp störfum. Megi telja öruggt að stefnandi hefði þá hvort eð er verið fallinn af launaskrá hefði verið fallist á beiðni hans um starfslok „eins fljótt og hægt er.“ Hafi stefnandi því ekki orðið fyrir fjártjóni sem rekja má til riftunar stefnda á ráðningarsamningi aðila.

Kröfu um lækkun á bótakröfu kveðst stefndi byggja á því að stefnandi hafi eigi síðar en í byrjun desember 2015 hafið störf við stofnun SignWise Ísland ehf. í beinni samkeppni við stefnda og með vísan til fundar stefnanda með fyrirsvarsmanni SignWise í Eistlandi í byrjun september 2015 verði að telja mjög líklegt að stefnandi hafi allt frá þeim tíma unnið að stofnun fyrirtækisins. Eins og málum sé háttað verði að mati stefnda að gera þá kröfu til stefnanda að hann sýni fram á hið gagnstæða.

Stefndi kveður kröfu um málskostnað styðjast við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, aðallega 130. og 131. gr. laganna.

V.

Af hálfu stefnda er á því byggt að stefnandi hafi brotið gegn trúnaðarskyldum sínum gagnvart stefnda með því að funda með fyrirsvarsmönnum SignWise í lok sumars 2015 með það að markmiði að vinna að því að það fyrirtæki hæfi starfsemi hér á landi, sem stefnandi yrði í forsvari fyrir.

Óumdeilt er að að stefndi og fyrirtækið SignWise hafa bæði unnið að lausnum er varða rafrænar undirskriftir skjala og þykir ljóst að hefði fyrirtækið SignWise hafið starfsemi hér á landi hefði það verið í beinni samkeppni við stefnda.

Óumdeilt er að stefnandi átti fund með fyrirsvarsmönnum fyrirtækisins SignWise í Tallin í Eistlandi sumarið 2015. Hefur stefnandi borið um að fyrirsvarsmaður SignWise hafi hringt í hann þegar hann var staddur í sumarfríi á Ítalíu til að inna hann frétta af hugsanlegum samstarfssamningi SignWise og stefnda sem þá var til skoðunar hjá stefnda. Í símtalinu hafi fyrirsvarsmaður SignWise skynjað að stefnandi væri óánægður með hlutskipti sitt hjá Azazo hf. vegna fjárhagserfiðleika fyrirtækisins, en stefnandi kveður að dráttur hafi orðið á launagreiðslum til hans. Hafi fyrirsvarsmaður SignWise þá lagt til að stefnandi millilenti í Tallin á leið heim úr sumarfríinu og kæmi á fund með fyrirsvarsmönnum fyrirtækisins. Jafnframt hefur komið fram í málinu að stefnandi var kunnugur fyrirsvarsmönnum SignWise og starfsemi þess fyrirtækis úr fyrra starfi sínu hjá Símanum hf.

Stefnandi kveður fundinn hafa verið nokkurs konar atvinnuviðtal. Fyrirsvarsmenn SignWise hafa átt frumkvæði að fundinum og þeir hafi leitt alla umræðu á honum. Hafi þeir rætt um verkefni SignWise og framtíðarsýn hvað varðaði markaði erlendis, sérstaklega í Armeníu, Portúgal og Finnlandi. Einnig hafi þeir spurt hvort hann gæti hugsað sér að flytja út á næstu árum og hvort hann hygði á frekari barneignir, en fyrirsvarsmenn SignWise hafi tjáð honum að fæðingarorlofskerfið í Eistlandi væri mjög sterkt. Á fundinum hafi honum hins vegar hvorki verið gert atvinnutilboð né boð um nokkurs konar samstarf. Að lokum hafi fyrirsvarsmenn SignWise tjáð honum að ef aðstæður hans breyttust í framtíðinni vildu þeir gjarnan að hann hefði samband við þá.

Komið hefur fram að í kveðjupartýi í lok september 2015 á heimili vitnisins Ara Björnssonar, sem þá hafði nýlega látið af störfum hjá stefnda, hafi erfið fjárhagsstaða stefnda komið til tals á milli þeirra sem þar voru, þ.e. stefnanda og vitnanna Ara, Alexanders M. Couper og Steinars Karls Kristjánssonar, en allir hafi þeir starfað hjá stefnda. Fram hafi komið að auk Ara, sem látið hafði af störfum hjá stefnda, hafi hinir einnig verið farnir að líta í kringum sig á vinnumarkaði þar sem viðbúið væri að stefndi færi í þrot. Hefur vitnið Ari greint frá því að stefnandi hafi tjáð þeim að hann hefði nokkru áður farið á fund með fyrirsvarsmönnum SignWise í Eistlandi, en að öðru leyti hefði ekkert komið fram um það hjá stefnanda hversu langt þær viðræður náðu. Vitnin Alexander og Steinar Karl sögðu hins vegar að stefnandi hefði tjáð þeim að hann hygðist láta af störfum hjá stefnda og hefja samstarf með fyrirtækinu SignWise. Meta verður framburð vitnanna Alexanders og Steinars Karls með hliðsjón af því að þeir eru enn starfsmenn stefnda, en að öðru leyti þykir framburður þeirra samrýmast framburði stefnanda og vitnisins Ara um að stefnandi hafi tjáð þeim að hann væri einnig farinn að líta í kringum sig á vinnumarkaði og hefði nýlega átt fund með fyrirsvarsmönnum fyrirtækisins SignWise.

Ekkert er fram komið í málinu um að stefnandi hafi á fundinum í Eistlandi látið fyrirsvarsmönnum eða starfsmönnum SignWise í té upplýsingar um starfsemi stefnda sem leynt áttu að fara. Hefur stefndi reyndar borið um að á fundinum hafi starfsemi stefnda ekkert komið til tals. Þá er ósannað að markmið fundarins hafi verið að undirbúa starfsemi fyrirtækisins SignWise á Íslandi, sem stefnandi yrði í forsvari fyrir, enda bera gögn málsins með sér að stefnandi hafi fyrst hafið undirbúning að samstarfi við fyrirtækið SignWise í desember 2015 eða rúmum tveimur mánuðum eftir að stefndi rifti ráðningarsamningi sínum við stefnanda. Verður það hvorki talið brot á trúnaðarskyldu stefnanda við stefnda að hann hafi íhugað að segja upp störfum hjá stefnda og leita atvinnutækifæra annars staðar né að hann hafi gert ráðstafanir til að stofna til samkeppnisrekstrar eftir að stefndi sleit einhliða ráðningu hans.

Samkvæmt framangreindu hefur stefndi ekki getað sýnt fram á að fyrir hafi legið ástæður er réttlættu fyrirvaralausa riftun hans á ráðningarsamningi aðila. Samkvæmt ráðningarsamningi átti stefnandi rétt á launum á sex mánaða uppsagnarfresti. Ekki þykja efni til að fallast á með stefnda að lækka beri dómkröfur stefnanda með vísan til þess að við uppsögn hafi stefnandi óskað eftir samkomulagi um að starfslok hans yrðu eins fljótt og hægt væri. Þá sýna gögn málsins að félag stefnanda SignWise Ísland ehf. hafði engar tekjur á árinu 2015 eða fyrri hluta árs 2016 og greiddi engin laun á þeim tíma. Jafnframt má sjá af framlögðum gögnum úr staðgreiðsluskrá frá 9. maí 2016 að stefnandi var tekjulaus í nóvember og desember 2015 og a.m.k. fram í maí 2016. Með hliðsjón af öllu framangreindu ber að taka dómkröfur stefnanda til greina, en með aðilum er ekki tölulegur ágreiningur.

                Með hliðsjón af málsúrslitum er stefnda gert að greiða stefnanda 950.000 krónur í málskostnað og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

                Stefndi, Azazo hf., greiði stefnanda, Ólafi Páli Einarssyni, 5.810.327 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. október 2015 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 950.000 krónur í málskostnað.