Print

Mál nr. 430/2016

Karl Emil Wernersson (Ólafur Eiríksson hrl.)
gegn
þrotabúi Háttar ehf. (Helgi Birgisson hrl.)
Lykilorð
  • Gjaldþrotaskipti
  • Riftun
  • Vanreifun
  • Frávísun frá héraðsdómi
Reifun
Þb. H ehf. krafðist riftunar á greiðslum sem millifærðar voru af bankareikningum H ehf. inn á tilgreinda reikninga K og byggði meðal annars á því að ósannað væri að H ehf. hefði staðið í skuld við K. Með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 839/2015, sbr. 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, var talið að fyrir lægi dómsniðurstaða um að K hefði veitt H ehf. lán í tengslum við kaup félagsins á F ehf. Var því talin brostin forsenda fyrir þeim málatilbúnaði þb. H ehf. að H ehf. hefði ekki staðið í skuld við K. Þá var talið að í málatilbúnaði þb. H ehf. hefði skort verulega á að gerð hefði verið grein fyrir atvikum sem hefðu að þessu frágengnu getað rennt stoðum undir kröfugerð hans og í meginatriðum látið við það sitja að lýsa efni lagaákvæða að baki henni. Var málinu því vísað frá héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Greta Baldursdóttir og Þorgeir Ingi Njálsson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. júní 2016. Hann krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur, en að því frágengnu að hann verði sýknaður af kröfum stefnda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Bú Háttar ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 12. júlí 2012. Eins og rakið er í héraðsdómi var áfrýjandi eini hluthafi félagsins, auk þess sem hann var stjórnarmaður og framkvæmdastjóri þess. Með kaupsamningi 10. apríl 2007 keypti félagið alla hluti í Hrossaræktarbúinu Feti ehf. og nam kaupverðið 525.000.000 krónum. Samkvæmt samningnum átti að greiða 225.000.000 krónur við afhendingu hins selda en sex mánuðum síðar átti að greiða 300.000.000 krónur. Af hálfu áfrýjanda hefur því verið haldið fram að hann hafi lánað Hætti ehf. 395.000.000 krónur til að standa skil á kaupverðinu. Þetta hafi hann gert annars vegar með því að greiða beint til seljanda þá fjárhæð sem inna átti af hendi við afhendingu hlutanna og hins vegar með því að leggja 170.000.000 krónur inn á reikning Háttar ehf. 4. janúar 2008. Hafi Háttur ehf. af þessu tilefni gefið út tvö veðskuldabréf til áfrýjanda, annars vegar 2. júní 2007 að fjárhæð 225.000.000 krónur og hins vegar 4. janúar 2008 að fjárhæð 170.000.000 krónur. Samkvæmt ljósritum af skuldabréfunum voru áfrýjanda settir að veði til tryggingar greiðslu skuldarinnar allir eignarhlutir í Hrossaræktarbúinu Feti ehf.

Stefndi höfðaði mál 2. apríl 2013 til að fá rift ráðstöfun Háttar ehf. sem fólst í samkomulagi um skuldauppgjör 15. september 2011, en með því var öllum eignarhlutum í Hrossaræktarbúinu Feti ehf. ráðstafað til áfrýjanda til greiðslu á framangreindri skuld við hann. Kom fram í samkomulaginu að skuldin væri að fjárhæð 610.353.990 krónur, en andvirði hlutanna, sem kæmi til frádráttar, næmi 400.000.000 krónum eftir sameiginlegu mati Háttar ehf. og áfrýjanda. Jafnframt var þess krafist að áfrýjanda yrði gert að afhenda stefnda alla hluti í félaginu. Var þessi málatilbúnaður í stefnu til héraðsdóms byggður á því að samkomulagið væri málamyndagerningur til að skjóta fjármunum undan fullnustugerðum skuldheimtumanna og að Háttur ehf. hefði aldrei skuldað áfrýjanda þá fjárhæð sem hann kveðst hafa lánað félaginu. Með dómi héraðsdóms 21. september 2015 var fallist á kröfur stefnda. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar, sem með dómi 24. nóvember 2016 í máli nr. 839/2015 vísaði því frá vegna vanreifunar. Var sú niðurstaða aðallega byggð á því að við flutning málsins fyrir Hæstarétti hafi komið fram að ágreiningslaust væri að áfrýjandi hafi lánað Hætti ehf. 395.000.000 krónur í tengslum við kaup félagsins á Hrossaræktarbúinu Feti ehf.

II

Í máli þessu gerir stefndi þá kröfu að rift verði með dómi greiðslum sem millifærðar voru af tveimur bankareikningum Háttar ehf. inn á tilgreinda reikninga áfrýjanda á tímabilinu 19. júní 2009 til 27. mars 2012, samtals að fjárhæð 51.979.000 krónur. Jafnframt er þess krafist að áfrýjanda verði gert að greiða stefnda þessa fjárhæð ásamt vöxtum. Með hinum áfrýjaða dómi, sem var kveðinn upp 9. mars 2016, var fallist á kröfur stefnda. Var sú niðurstaða reist á þeirri málsástæðu stefnda að ósannað væri að Háttur ehf. hafi staðið í skuld við áfrýjanda. Var greiðslum til áfrýjanda, sem inntar voru af hendi fyrir frestdag við skiptin, samtals að fjárhæð 12.500.000 krónur, rift með vísan til þess að um hafi verið að ræða örlætisgerninga sem falli undir reglu 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þá var niðurstaða héraðsdóms um riftun á greiðslum eftir frestdag, samtals að fjárhæð 39.479.000 krónur, byggð á 2. mgr. 139. gr. laganna.

III

Áfrýjandi krafðist þess í héraði að málinu yrði vísað frá dómi. Þeirri kröfu hafnaði héraðsdómur með úrskurði 20. desember 2013 og leitar áfrýjandi meðal annars endurskoðunar á þeirri niðurstöðu. Er krafa hans þar að lútandi reist á því að málatilbúnaður af hálfu stefnda sé óglöggur og lýsingu málsástæðna svo áfátt að óhjákvæmilegt sé sökum vanreifunar að vísa málinu frá héraðsdómi.

Með framangreindum dómi Hæstaréttar 24. nóvember 2016 liggur fyrir sú dómsniðurstaða um málsatvik, sbr. 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að áfrýjandi hafi lánað Hætti ehf. 395.000.000 krónur í tengslum við kaup félagsins á Hrossaræktarbúinu Feti ehf. Í ljósi þessa og þess sem áður er rakið um stöðu lánsins að undangengnu samkomulagi um uppgjör á hluta þess, en ekki liggja fyrir aðrar upplýsingar um hana, er brostin forsenda fyrir þeim málatilbúnaði stefnda að Háttur ehf. hafi ekki staðið í skuld við áfrýjanda. Þá er engin grein gerð fyrir því í stefnu með hvaða hætti ákvæði 131. gr. laga nr. 21/1991 geti allt að einu átt við um riftunarkröfu stefnda. Að þessu frágengnu byggir stefndi kröfugerð sína í málinu á 134. gr. laganna að því er varðar greiðslur til áfrýjanda fyrir frestdag og ákvæðum 1. mgr. 139. gr. og 141. gr. þeirra eftir hann. Sá annmarki er á málatilbúnaði stefnda að þessu leyti að í stefnu til héraðsdóms skortir verulega á að gerð sé grein fyrir atvikum sem rennt gætu stoðum undir kröfugerð hans og í meginatriðum látið við það sitja að lýsa efni lagaákvæða að baki henni. Á þetta ekki hvað síst við um þann málsgrundvöll stefnda að greiðslur til áfrýjanda fyrir frestdag hafi skert greiðslugetu Háttar ehf. verulega. Að þessu gættu verður að fallast á það með áfrýjanda að málið sé svo vanreifað að óhjákvæmilegt sé að vísa því frá héraðsdómi.      

Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnda gert að greiða áfrýjanda málskostnað á báðum dómstigum sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Stefndi, þrotabú Háttar ehf., greiði áfrýjanda, Karli Emil Wernerssyni, samtals 1.200.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

 

               

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. mars 2016.

 

Mál þetta, sem höfðað var 5. apríl 2013, var tekið til úrskurðar 7. mars sl. að lokinni aðalmeðferð. Stefnandi er þrotabú Háttar ehf., Hlíðarsmára 6, Reykjavík. Stefndi er Karl Wernersson, Engihlíð 9, Reykjavík.

Í málinu gerir stefnandi í fyrsta lagi þá kröfu að rift verði með dómi ráðstöfun Háttar ehf. til handa stefnda sem fram fór með eftirfarandi greiðslum af reikningum Háttar ehf. nr. [...] í Arion banka hf. og nr. [...] í Íslandsbanka inn á reikninga stefnda á tímabilinu 19. júní 2009 til 27. mars 2012, samtals að fjárhæð 51.979.000 krónur:

Fyrir frestdag: Af reikningi [...]

Dags.

Kt. móttakanda

Nafn móttakanda

Upphæð

14.10.2010

[...]

Karl Emil Wernersson

3.000.000 kr.

01.04.2011

[...]

Karl Emil Wernersson

5.000.000 kr.

 

Af reikningi [...]

Dags.

Kt. móttakanda

Nafn móttakanda

Upphæð

19.06.2009

[...]

Karl Emil Wernersson

4.000.000 kr.

24.03.2010

[...]

Karl Emil Wernersson

500.000 kr.

 

Eftir frestdag: Af reikningi [...]

Dags.

Kt. móttakanda

Nafn móttakanda

Upphæð

26.05.2011

[...]

Karl Emil Wernersson

 10.600.000 kr.

05.07.2011

[...]

Karl Emil Wernersson

180.000 kr.

26.07.2011

[...]

Karl Emil Wernersson

400.000 kr.

02.08.2011

[...]

Karl Emil Wernersson

1.000.000 kr.

16.08.2011

[...]

Karl Emil Wernersson

2.500.000 kr.

01.09.2011

[...]

Karl Emil Wernersson

5.900.000 kr.

13.09.2011

[...]

Karl Emil Wernersson

2.000.000 kr.

13.10.2011

[...]

Karl Emil Wernersson

3.200.000 kr.

18.10.2011

[...]

Karl Emil Wernersson

6.200.000 kr.

17.11.2011

[...]

Karl Emil Wernersson

2.319.000 kr.

29.12.2011

[...]

Karl Emil Wernersson

400.000 kr.

29.12.2011

[...]

Karl Emil Wernersson

600.000 kr.

29.12.2011

[...]

Karl Emil Wernersson

1.900.000 kr.

03.01.2012

[...]

Karl Emil Wernersson

600.000 kr.

16.01.2012

[...]

Karl Emil Wernersson

600.000 kr.

09.03.2012

[...]

Karl Emil Wernersson

550.000 kr.

27.03.2012

[...]

Karl Emil Wernersson

530.000 kr.

Samtals:                                                                                                               51.979.000 kr.

Stefnandi krefst þess í öðru lagi að stefnda verði gert að endurgreiða honum 51.979.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. apríl 2013 til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar.

                Stefndi krefst aðallega sýknu en til vara lækkunar greiðslukröfu stefnanda. Hann krefst einnig málskostnaðar.

                Með úrskurði 20. desember 2013 var kröfu stefnda um frávísun málsins hafnað.

Helstu ágreiningsefni og yfirlit málsatvika

Í málinu er deilt um heimild stefnanda til að rifta þeim greiðslum sem vísað er til í kröfugerð hans, svo og krefjast endurgreiðslu á grundvelli 142. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Ekki er um það deilt að þær færslur sem vísað er til í kröfugerð stefnanda hafi farið fram. Hins vegar deila aðilar um það hvort greiðslurnar hafi falið í sér greiðslur á skuldum stefnanda við stefnda og þá hverjar þessar skuldir hafi verið. Að svo búnu lýtur ágreiningur aðila að því hvort fullnægt sé skilyrði nánari ákvæða XX. kafla laga nr. 21/1991 til þess að fallist verði á kröfur stefnanda.

Stefndi var eini hluthafi Háttar ehf. sem mun hafa stundað ýmsar fjárfestingar, meðal annars í fasteignum og með kaupum á hlutum í félögum. Samkvæmt gögnum úr hlutafélagaskrá var stefndi annar tveggja stjórnarmanna Háttar ehf. auk þess að vera framkvæmdastjóri og prókúruhafi á þeim tíma sem atvik málsins áttu sér stað. Samkvæmt sömu gögnum hafði einn stjórnarmaður heimild til að rita firma félagsins. Svo sem fram kemur í greinargerð stefnda var fjármögnun Háttar ehf. einkum tvenns konar; annars vegar í formi lána frá stefnda og hins vegar bankalán.

Í greinargerð stefnda er rakið gengi Háttar ehf., afleiðingar hruns á fjármálamörkuðum haustið 2008 fyrir félagið, viðræður við viðskiptabanka félagsins og loks tildrög þess að bankinn krafðist að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Kemur fram að 7. september 2011 hafi starfsmaður bankans tilkynnt um að frekari viðræðum væri hafnað og kröfu um gjaldþrotaskipti, sem lögð hafði verið fram í héraðsdómi 6. apríl þess árs, yrði haldið til streitu.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 18. nóvember 2011 var bú Háttar ehf. tekið til gjaldþrotaskipta samkvæmt beiðni sem barst héraðsdómi 6. apríl þess árs og áður greinir. Með dómi Hæstaréttar 21. desember 2011 var þessi úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi. Ný beiðni um gjaldþrotaskipti barst héraðsdómi 14. janúar 2012. Var félagið að nýju tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 14. júlí 2012. Kröfulýsingarfresti lauk 7. október þess árs. Samkvæmt kröfuskrá sem lögð hefur verið fram hafnaði skiptastjóri kröfum stefnda í þrotabúið sem byggðu á framangreindum skuldabréfum.

Ekki var um munnlegar skýrslur að ræða við aðalmeðferð málsins.

Málsástæður og lagarök aðila

Í stefnu segir að stefndi hafi í krafti stöðu sinnar í Hætti ehf., bæði sem eigandi og forsvarsmaður, ákveðið að ráðstafa fjármunum félagsins til sín til þess að skjóta fjármunum undan fullnustugerðum skuldheimtumanna, annars vegar með færslum af reikningi Háttar ehf. fyrir frestdag sem talinn er vera 6. apríl 2012 og hins vegar með færslum til sjálfs sín eftir frestdag af sömu reikningum. Þessar ráðstafanir hafi verið gerðar honum sjálfum til hagsbóta. Að því er varðar greiðslur fyrir frestdag er vísað til 131. gr. laga nr. 21/1991 og þess að greiðslur til stefnda hafi verið gjafagerningar. Ef talið verður að stefndi hafi átt kröfu gegn Hætti ehf. er vísað til 134. gr. laga nr. 21/1991 og talið að greiðslurnar hafi skert greiðslugetu Háttar ehf. verulega og mismunað kröfuhöfum. Að því er varðar greiðslur eftir frestdag er vísað til 139. gr. laga nr. 21/1991. Einnig er vísað til riftunarreglu 141. gr. laganna. Krafa um endurgreiðslu er byggð á 142. gr. laga nr. 21/1991.

Stefndi reisir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að málið hafi ekki verið höfðað innan lögbundins sex mánaða frests samkvæmt 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991. Kröfulýsingarfrestur hafi runnið út þann 7. október 2012 og ekkert verið því til fyrirstöðu að höfða riftunarmálið innan sex mánaða frests skv. 1. mgr. 148. gr. laganna. Í annan stað telur stefndi að grundvöllur málatilbúnaðar stefnanda sé rangur. Lagt sé til grundvallar að stefndi hafi ekki átt veðkröfu á hendur Hætti ehf. og greiðslurnar geti því ekki hafa verið endurgreiðslur á þeim kröfum. Þessi staðhæfing stefnanda sé með öllu órökstudd og algerlega vanreifuð. Vísar stefndi einkum til þess að hann hafi átt kröfur á grundvelli tveggja veðskuldabréfa sem gefin voru út til hans af hálfu Háttar ehf. og hafi þetta verið staðfest með dómi réttarins í máli nr. e 1546/12 21. september sl.

Stefndi mótmælir því að frestdagur við gjaldþrotaskiptin sé 6. apríl 2011 og telur hann eiga að vera 16. janúar 2012. Stefndi byggir á því að ákvæði 139. gr. laga nr. 21/1991 sé verulega íþyngjandi í garð riftunarþola og byggi á þeim rökum að þrotamaður eigi nánast ekkert að hafast að eftir að beiðni um gjaldþrotaskipti komi fram. Þessi aðstaða sé hins vegar með allt öðrum hætti í fyrirliggjandi máli. Þannig hafi meira en 15 mánuðir liðið frá þeim frestdegi sem byggt er á í stefnu þar til bú stefnanda var tekið til gjaldþrotaskipta. Byggir stefndi á því að ótækt sé að miða frestdag við það tímamark við slíkar aðstæður. Ógerningur sé að reka félag í fullum rekstri lengur en í eitt ár eftir reglum 139. gr. laga um nr. 21/1991. Sé það enda svo að skiptastjóri stefnanda hafi sjálfur byggt á því við innköllun að frestdagur væri 16. janúar 2012 og sé hann bundinn af því.

Stefndi telur 131. gr. laga nr. 21/1991 ekki koma til álita þar sem frestdagur hafi verið 16. janúar 2012 og hafi því sex mánaða frestur samkvæmt ákvæðinu verið liðinn um tilteknar greiðslur. Ekki sé byggt á 2. mgr. ákvæðisins sem komi þar af leiðandi ekki til greina. Þá telur stefndi sannað að ekki hafi verið um gjafagerning að ræða heldur greiðslur á gjaldföllnum skuldum Háttar ehf. við stefnda, eða a.m.k. réttmæta trú aðila um að svo væri. Engin grein hafi verið gerð fyrir skilyrðum örlætisgerninga í málatilbúnaði stefnanda.

Að því er varðar 134. gr. laga nr. 21/1991 hafnar stefndi því að greiðslurnar hafi skert greiðslugetu stefnanda verulega. Enga tilvísun sé að finna til 2. mgr. greinarinnar eða hvernig skilyrði hennar eigi að vera uppfyllt í málinu. Einnig er hér vísað til fyrri sjónarmiða um tilgreiningu frestdags. Stefnandi byggi málatilbúnað sinn á því að ekki hafi verið um greiðslu skuldar að ræða og sé hann við þetta bundinn. Eigi því að sýkna stefnda af kröfu stefnanda samkvæmt þessari grein. Stefndi hafnar því einnig að greiðslur fyrir ætlaðan frestdag hafi rýrt greiðslugetu stefnanda verulega en þetta beri stefnanda að sanna. Vísar hann til þess að samkvæmt ársreikningi stefnanda fyrir árið 2007 hafi heildareignir hans numið 1.554.012.230 krónum og samkvæmt ársreikningi stefnanda fyrir árið 2008 hafi heildareignir hans numið 1.722.925.357 krónum. Sem hlutfall af framangreindum stærðum hafi greiðslurnar því rétt aðeins numið um 0,029% - 0,322% af heildareignum og því verið óverulegar.

                Stefndi mótmælir því að skilyrði 139. gr. laga nr. 21/1991 séu uppfyllt en langstærstur hluti greiðslnanna hafi reyndar verið inntur af hendi fyrir frestdag. Stefndi vísar jafnframt til þess að stefnandi hafi með bindandi málflutningsyfirlýsingu sinni afmarkað málatilbúnað sinn með þeim hætti að greiðslurnar hafi ekki falið í sér greiðslu á skuld. Þegar af þeirri ástæðu geti hann ekki rift greiðslu skuldar með vísan til 139. gr. laganna. Hann telur einnig að reglur XVII. kafla laga nr. 21/1991 hefðu leitt til þess að skuld stefnanda við stefnda hefði greiðst við gjaldþrotaskiptin, a.m.k. að stórum hluta. Þannig byggir stefndi á því að skuldin hafi verið tryggð með veði í öllum hlutum stefnanda í Hrossaræktarbúinu Feti ehf. Með hliðsjón af úrlausn málsins er ekki þörf á því að reifa málsástæður stefnda vegna 141. gr. laga nr. 21/1991.

                Stefndi byggir varakröfu sína um lækkun greiðslukröfu stefnanda í fyrsta lagi á því að lækka eigi kröfu stefnanda sem nemur greiðslum fyrir frestdag þar sem skilyrði til riftunar séu bersýnilega ekki fyrir hendi. Í öðru lagi hafi 15 af þeim 17 greiðslum sem inntar voru af hendi eftir ætlaðan frestdag samkvæmt málatilbúnaði stefnanda í raun réttri verið inntar af hendi eftir réttilega ákvarðaðan frestdag. Í þriðja lagi beri að lækka dómkröfur stefnanda hlutfallslega sem nemur verðmæti þess veðs sem stefndi hafði fyrir kröfum sínum, enda hefði hann í öllu falli fengið sem verðmæti þess nam upp í skuldina ef ekki hefði komið til greiðslnanna.

Niðurstaða

                Með vísan til dóms Hæstaréttar 11. nóvember 2013 í máli nr. 694/2013 verður höfðun málsins miðuð við birtingu stefnu á vinnustað stefnda. Var því ekki runninn út frestur til höfðunar málsins samkvæmt 148. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. þegar málið var höfðað 5. apríl 2013. Með vísan til áðurlýstra atvika málsins og röksemda stefnanda telur dómurinn enn fremur að miða beri við að frestdagur við skipti Háttar ehf. hafi verið 6. apríl 2011.

Í máli þessu liggur fyrir að fjárhæðir voru færðar af reikningi Háttar ehf. yfir á reikning stefnda sem var aðaleigandi félagsins og prókúruhafi. Í málinu er óupplýst hvaða starfsmaður framkvæmdi færslurnar eða hver hafi verið yfirlýstur tilgangur þeirra. Þá hafa ekki komið fram skýringar af hálfu stefnda á færslunum aðrar en þær að um hafi verið að ræða greiðslur á gjaldföllnum skuldum félagsins við hann, en í greinargerð er því hreyft að hér hafi meðal annars verið um að ræða skuldir samkvæmt þeim skuldabréfum sem fjallað var um í máli nr. e 1546/12 og lauk með dómi réttarins 21. september sl.

                Eins og málið liggur fyrir telur dómurinn að það hafi staðið stefnda nær að leggja fram gögn um þær skuldir við sig sem hann fullyrðir að Háttur ehf. hafi greitt með framangreindum ráðstöfunum, meðal annars hvort og að hvaða marki þeim var ráðstafað til greiðslu framangreindra skuldabréfa. Svo sem áður greinir liggur hins vegar ekkert fyrir um það í hvaða nánara tilgangi umræddar greiðslur voru framkvæmdar, hvorki almennt né í einstökum tilvikum. Í ljósi sönnunarstöðu málsins verður því á það fallist með stefnanda að líta beri svo á að um hafi verið ræða örlætisgerninga sem falli undir reglu 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991. Hefur ekki verið leitt í ljós að félagið hafi allt að einu verið gjaldfært þrátt fyrir afhendingu umræddra fjármuna. Verður því fallist á riftunarkröfu stefnanda vegna þeirra greiðslna sem áttu sér stað fyrir frestdag. Að fenginni þessari niðurstöðu þarf ekki að taka afstöðu til þess hvort skilyrðum 141. gr. laga nr. 21/1991 sé fullnægt um þessar greiðslur.

                Að því er varðar þær greiðslur sem áttu sér stað eftir frestdag telur dómurinn ljóst að stefnda hafi verið fullkunnugt um að komin var fram beiðni um gjaldþrotaskipti. Þá hefur ekki verið sýnt fram á að umræddar greiðslur hafi verið nauðsynlegar í þágu atvinnurekstrar þrotamannsins, eðlilegar af tilliti til sameiginlegra hagsmuna lánardrottna eða til að fullnægja daglegum þörfum félagsins. Verður því fallist á að greiðslurnar séu riftanlegar samkvæmt 2. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991 sem hér á við.

                Með vísan til framangreinds verður fallist á greiðslukröfu stefnanda samkvæmt 142. gr. laga nr. 21/1991, en engin efni eru til þess að lækka kröfuna af þeim ástæðum sem stefndi hefur vísað til. Það athugast að umrædd niðurstaða málsins er því ekki til fyrirstöðu að stefndi komi fjárkröfum sínum að við skipti stefnanda samkvæmt 143. gr. laganna og er það skiptastjóra að taka afstöðu til slíkra kröfulýsinga samkvæmt nánari reglum laga nr. 21/1991. Fallist verður á dráttarvaxtakröfu stefnanda sem hefur einungis krafist slíkra vaxta frá þingfestingardegi.

                Í ljósi úrslita málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 1.000.000 króna og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Af hálfu stefnanda flutti málið Jóhann Baldursson hdl.

Af hálfu stefnda flutti málið Halldór Brynjar Halldórsson hdl.

Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Eftirfarandi greiðslum af reikningum Háttar ehf. nr. [...] hjá Arion banka hf. og nr. [...] hjá Íslandsbanka hf. inn á reikninga stefnda, Karls Emils Wernerssonar, á tímabilinu 19. júní 2009 til 27. mars 2012, samtals að fjárhæð 51.979.000 krónur, er rift:

a)       Reikningur nr. [...]:

Dags.

Upphæð

19.06.2009

4.000.000 kr.

24.03.2010

500.000 kr.

 

b)       Reikningur nr. [...]:

Dags.

Upphæð

14.10.2010

3.000.000 kr.

01.04.2011

5.000.000 kr.

26.05.2011

10.600.000 kr.

05.07.2011

180.000 kr.

26.07.2011

400.000 kr.

02.08.2011

1.000.000 kr.

16.08.2011

2.500.000 kr.

01.09.2011

5.900.000 kr.

13.09.2011

2.000.000 kr.

13.10.2011

3.200.000 kr.

18.10.2011

6.200.000 kr.

17.11.2011

2.319.000 kr.

29.12.2011

400.000 kr.

29.12.2011

600.000 kr.

29.12.2011

1.900.000 kr.

03.01.2012

600.000 kr.

16.01.2012

600.000 kr.

09.03.2012

550.000 kr.

27.03.2012

530.000 kr.

 

Stefndi greiði stefnanda, þrotabúi Háttar ehf., 51.979.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. apríl 2013 til greiðsludags.

                Stefndi greiði stefnanda 1.000.000 króna í málskostnað.