Print

Mál nr. 379/2017

Dánarbú A og dánarbú B (Helgi Birgisson hrl.)
gegn
C, dánarbúi D (Reimar Pétursson hrl.), E (Hjördís E. Harðardóttir hrl.), F (Hlöðver Kjartansson hrl.) og G (enginn)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Dánarbú
  • Opinber skipti
  • Ómerking héraðsdóms
Reifun
Kærður var úrskurður héraðsdóms í máli þar sem deilt var um skiptingu lands í eigu tveggja dánarbúa sem voru undir opinberum skiptum. Hafði héraðsdómur vísað málinu frá dómi án kröfu á grundvelli 1. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991 og 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991, þar sem ekki væri unnt að taka ágreiningsefnið til meðferðar eins og það var lagt fyrir. Í dómi sínum rakti Hæstiréttur atvik málsins stuttlega og þær kröfur sem aðilarnir gerðu til hins umþrætta lands. Með vísan til þess og skírskotun til þess að taka þyrfti afstöðu til þess hversu stór hluti umræddrar fasteignar skyldi teljast til dánarbúanna svo unnt væri að skipta þeim eftir lögum nr. 20/1991, taldi rétturinn ekkert því til fyrirstöðu að héraðsdómari færi með þau ágreiningsatriði er að því lytu. Var hinn kærði úrskurður því ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar á ný.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 11. júní 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 31. maí 2017 þar sem sem máli varnaraðilanna C og dánarbús D á hendur sóknaraðilum og varnaraðilunum E, F og G var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðilarnir C og dánarbú D taka undir kröfur sóknaraðila en varnaraðilarnir F og E krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Með úrskurði héraðsdóms Reykjaness 12. ágúst 2014 var tekið til opinberra skipta dánarbú hjónanna A, sem andaðist 4. febrúar það ár og B, sem andaðist 10. júní sama ár. Þau áttu saman fimm börn, varnaraðilana G, C, F, E og D sem andaðist 30. apríl 2016 og hefur dánarbú hans tekið við aðild að málinu.

Meðal eigna í búinu er hlutdeild í óskiptri landspildu úr landi jarðarinnar [...] Grímsnes- og Grafningshreppi [...] sem hin látnu hjón og börn þeirra eignuðust að jöfnu samkvæmt þinglýstu afsali 23. maí 1968. Í afsalinu er spildan sögð vera „ca 8 hektarar að stærð“ og jafnframt er mörkum hennar lýst þar.

Samkvæmt gögnum málsins munu A og B hafa reist sitt hvort sumarhúsið á hinu óskipta landi, auk þess sem hún hafi farið með eignarhald á sumarhúsi sem fyrir var á landinu. Einnig munu varnaraðilarnir E, G og F hver um sig hafa reist sér sumarhús á landinu. Mun hvert þessara húsa hafa fengið sérstakt fastanúmer í Landskrá fasteigna.  Á hinn bóginn hefur engum spildum verið skipt úr landinu.

Samkvæmt kaupsamningi og afsali 31. maí 2013 seldi A varnaraðilanum C „sumarhúsið við [...], Grímsnes- og Grafningshreppi, landnr. [...], stærð sumarhús er 50,4 m² og eignarlóð samkv. FMR er 6000 m².“ Kaupverð var 7.500.000 krónur, þar af skyldu 3.500.000 krónur greiðast við kaupsamning og 4.000.000 krónur með útgáfu skuldabréfs til fjögurra ára með 5% ársvöxtum. B ritaði undir skjalið sem samþykk sölunni og varnaraðilinn D sem annar votta. Þá er í gögnum málsins ódagsett yfirlýsing B um að hún hafi á árinu 2001 afsalað til D áðurnefndu sumarhúsi sem fyrir var á landinu og hafi hjónin metið það á 1.300.000 krónur, en um hafi verið að ræða fyrirframgreiddan arf. Þá hafi D verið ætluð 5.000 fermetra lóð með húsinu. Einnig er í gögnum málsins kaupsamningur 1. apríl 2012 milli varnaraðilanna G og E þar sem hin fyrrnefnda seldi hinni síðarnefndu „sumarhús ... ásamt einum hektara lands ... úr 8 ha landspildu jarðarinnar [...] í Grímsneshreppi í Árnessýslu skv. afsali dags. 23. maí 1968.“ Rituðu aðrir eigendur undir samþykki fyrir sölunni.

Á skiptafundi 6. nóvember 2014 lýstu erfingjar sig samþykka því að skiptastjóri myndi leita leiða til að skipta upp hinni 80.000 fermetra landspildu milli eigenda. Á skiptafundi 11. nóvember 2015 lagði skiptastjóri fram tillögu um hlutfallslega skiptingu landsins í samræmi við framangreind afsöl og skyldi hlutur F vera 11.428,5 fermetrar, E 21.428,5 fermetrar, D 16.428,5 fermetrar, D 17.428,5 fermetrar og G 1.428,5 fermetrar. Hlutur dánarbús B í landspildunni væri 6.428,5 fermetrar en hlutur dánarbús A 5.428,5 fermetrar. Varnaraðilar voru ekki einhuga um þessa tillögu og lýsti F því yfir að öll systkinin ættu fara með jafnan eignarhlut að landinu, en E vefengdi sérstaklega að C hefði eignast 6.000 fermetra af landinu fyrir afsal frá föður þeirra 31. maí 2013 og að D væri heldur ekki unnt að leggja fram fullnægjandi eignarheimild fyrir þeim 5.000 fermetrum sem hann ætti að hafa fengið frá móður þeirra. Eftir árangurslausar sáttatilraunir skaut skiptastjóri ágreiningnum til héraðsdóms 17. nóvember 2015 með vísan til 122. gr. laga nr. 20/1991 með kröfu um „að héraðsdómur leysi úr ágreiningi erfingja um eignarétt þeirra til 80000 fm. landspildu úr jörðinni [...], Grímsnes- og Grafningshreppi, og úrskurði hver teljist vera eignarhluti dánarbúsins og hvers erfingja um sig í hinu óskipta landi jarðarinnar.“ Var því jafnframt lýst yfir að dánarbúin þyrftu að eiga aðild að málinu, en ekki væru af þeirra hálfu gerðar sérstakar kröfur um það hlutfall af landinu sem til skipta skyldi koma.

Fyrir héraðsdómi gerði varnaraðilinn C aðallega þá kröfu að staðfestur yrði „eignarréttur hans að samtals 17.428,57 fermetrum í óskiptu landi sóknaraðila og varnaraðila“ en til vara að staðfestur yrði „eignarréttur hans að 11.428,57 fermetrum“ í hinu óskipta landi. Varnaraðilinn dánarbú D gerði aðallega þá kröfu að staðfestur yrði „eignarréttur hans að samtals 16.428,57 fermetrum í óskiptu landi sóknaraðila og varnaraðila“ en til vara að staðfestur yrði „eignarréttur hans að 11.428,57 fermetrum“ í hinu óskipta landi. Varnaraðilinn F gerði þá kröfu að staðfestur yrði „jafn eignarréttur hennar og annarra málsaðila ... hvers að 1/7 – einum sjöunda hluta – í sérstakri og óskiptri sameign að 8 ha. landspildu úr landi jarðarinnar [...] í Grímsnes- og Grafningshreppi í Árnessýslu“. Varnaraðilinn E gerði þá kröfu aðallega að staðfestur yrði „eignarréttur hennar að samtals  21.428,57 fermetrum í óskiptu landi sóknaraðila og varnaraðila“ en til vara að staðfestur yrði eignarréttur hennar að 11.428,57 fermetrum“ í hinu óskipta landi. Varnaraðilinn G hefur ekki látið málið til sín taka.

Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði þótti héraðsdómi ekki unnt að taka til meðferðar ágreiningsefnið eins og það var lagt fyrir og vísaði málinu frá án kröfu með skírskotun til 1. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991.  

II

Samkvæmt 1. mgr. 122. gr. laga nr. 20/1991 skal beina til héraðsdóms ágreiningi um atriði sem rísa við opinber skipti sem fyrirmæli laganna kveða á um að gera skuli svo og ef skiptastjóri telur þörf úrlausnar héraðsdóms um önnur ágreiningsatriði. Þá er tíundað í greininni hvað skuli koma fram í kröfu skiptastjóra til héraðsdóms. Skal meðal annars tilgreina hver þau opinberu skipti séu þar sem ágreiningur hafi risið, nöfn þeirra sem aðild eigi að ágreiningnum, um hvað ágreiningurinn standi og hverjar kröfur hafi komið fram í því sambandi. Loks skal skiptastjóri tilgreina hvort hann telji dánarbú þurfa að eiga aðild að máli um ágreininginn. Skulu kröfunni fylgja gögn sem varða ágreiningsefnið, sbr. 2. mgr. greinarinnar. Mál sem koma til kasta héraðsdóms eftir 122. gr. sæta síðan meðferð eftir almennum reglum XVII. kafla laganna, sbr. 3. mgr. greinarinnar.  

Eins og að framan er rakið eignuðust hjónin A og B hvort um sig 1/7 af umræddri 8 hektara landspildu með heitinu [...], eða hvort um 11.428,57 fermetra úr landi jarðarinnar [...]. Standa deilur milli varnaraðila um hvort allur sá hluti skuli teljast eign dánarbúsins og koma til skipta milli erfingja, eða hvort annað eða bæði þeirra hjóna hafi í lifanda lífi með lögmætum hætti ráðstafað hlutum af landspildunni á þann hátt sem að framan er rakið. Af hálfu skiptastjóra var á skiptafundi 11. nóvember 2015 lögð fram tillaga um hlutfallslega skiptingu hinnar 80.000 fermetra landspildu milli varnaraðila. Samkvæmt tillögunni hefði hlutur dánarbús B í landspildunni orðið 6.428,5 fermetrar eftir ráðstöfun hennar á 5.000 fermetrum lands og sumarhúss til varnaraðilans D, en hlutur dánarbús A 5.428,5 fermetrar eftir ráðstöfun hans á 6.000 fermetrum lands og sumarhúss til varnaraðilans C. Kæmu því til skipta milli varnaraðila 11.837 fermetrar lands í stað þeirra 22.857 fermetra sem ágreiningslaust er að komu í hlut þeirra hjóna samkvæmt afsalinu 23. maí 1968. Varnaraðilarnir F og E hafa á hinn bóginn vefengt að foreldrar þeirra hafi með gildum hætti ráðstafað þessum hlutum landsins.

Fallist er á ályktun héraðsdóms um að ekki hafi þýðingu við úrlausn máls þessa hvort varnaraðilinn E hafi keypt hluta lands varnaraðilans G 1. apríl 2012, eða 10.000 fermetra. Á hinn bóginn þarf að taka afstöðu til þess hversu stór hluti fasteignarinnar [...] skuli teljast til dánarbúanna svo unnt sé að skipta þeim eftir lögum nr. 20/1991. Samkvæmt framansögðu og með vísan til 3. mgr. 122. gr. laganna er ekkert því til fyrirstöðu að héraðsdómari fari með þau ágreiningsatriði er að þessu lúta.

Samkvæmt öllu framanrituðu verður að ómerkja hinn kærða úrskurð og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar á ný.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 31. maí 2017.

Við fyrirtöku máls þessa, þann 9. maí 2017, lýsti dómari þeirri skoðun sinni að hann teldi vera þá galla á málinu að það varðandi frávísun án kröfu skv. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991 um skipti dánarbúa o.fl.

Gafst málsaðilum kostur á því að tjá sig munnlega um þá afstöðu dómara þann 17. maí sl. og málið að því loknu tekið til úrskurðar.

Skiptastjóri telur að ekki séu forsendur til að vísa málinu frá dómi án kröfu.

Sóknaraðili C telur að taka beri málið til efnislegrar meðferðar í samræmi við kröfur skiptastjóra. Verði málinu vísað frá gerir sóknaraðili þá kröfu að varnaraðilum F og E verði óskipt gert að greiða honum málskostnað í samræmi við framlagt málskostnaðaryfirlit.

Sóknaraðili db. D telur að taka beri málið til efnislegrar meðferðar í samræmi við kröfur hans. Verði málinu vísað frá gerir sóknaraðili þá kröfu að varnaraðilum F og E verði óskipt gert að greiða honum málskostnað í samræmi við framlagt málskostnaðaryfirlit.

Varnaraðili E telur að ekki beri að vísa málinu frá án kröfu og sé krafan enn dómtæk, a.m.k. um varakröfur málsins. Þá gerir hún kröfu á hendur sóknaraðilum um greiðslu málskostnaðar í samræmi við framlagða tímaskýrslu.

Varnaraðili F telur að vísa beri málinu frá án kröfu, enda verði ekki bætt úr kröfugerð málsins. Þá gerir hún þá kröfu að sóknaraðilum og dánarbúi A og B, aðallega in solidum, en til vara hverjum fyrir sig, verði gert að greiða henni málskostnað að skaðlausu samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti eða að mati dómsins. 

I

Málavextir

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness þann 12. ágúst 2014 var dánarbú hjónanna A og B tekið til opinberra skipta. Sama dag var Helgi Birgisson hrl. skipaður skiptastjóri dánarbúanna.

Á skiptafundi þann 11. nóvember 2015, hafði skiptastjóri sett upp hvernig hann teldi að skiptingu óskiptrar landspildu væri:

                      Db. B                                     11.428,5 –   5.000              =   6.428,5 ferm.

                      Db. A                                     11.478,5 –   6.000              =   5.428,5 ferm.

                      F                                            11.428,5                               = 11.428,5 ferm.

                      E                                            11.428,5 + 10.000              = 21.428,5 ferm

                      D                                            11.428,5 +   5.000              = 16.428,5 ferm.

                      C                                            11.428,5 +   6.000              = 17.428,5 ferm.

                      G                                            11.428,5 –  10.000             =   1.428,5 ferm.

                                                                     Samtals:                                   80.000,0 ferm.

F lýsti því yfir að hún teldi þessa skiptingu ranga og að öll systkinin og dánarbúin ættu að eiga jafnan eignarhlut. Umboðsmaður F vefengdi að C hefði eignast 6.000 fm til viðbótar af landinu fyrir afsal frá föður sínum og taldi að D gæti ekki lagt fram fullnægjandi eignarheimild fyrir þeim 5.000 fm sem hann segði að hefðu komið frá móður þeirra. C sagðist þá jafnframt vefengja eignarrétt E.

Með bréfi, dags. 17. nóvember 2015, krafðist skiptastjóri þess að Héraðsdómur Reykjaness leysti úr framangreindu, með vísan til 122. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl. nr. 20/1991.

Í kröfu skiptastjóra segir: „Með vísan til framanritaðs er þess óskað að héraðsdómur leysi úr ágreiningi erfingja um eignarétt þeirra til 80.000 fm. landspildu úr jörðinni [...], Grímsnes og Grafningshreppi, og úrskurði hvað teljist vera eignarhluti dánarbúsins og hvers erfingja um sig í hinu óskipta landi jarðarinnar.

Sóknaraðili D skilaði greinargerð þann 8. febrúar 2016, þar sem þess var aðallega krafist að staðfestur yrði eignarréttur hans á 16.428,5 fm en til vara að staðfestur væri eignarréttur hans á 11.428,5 fm. D lést þann 30. apríl 2016 og tók dánarbú hans þá við réttindum hans.

Sóknaraðili C skilaði greinargerð þann 8. febrúar 2016, þar sem þess er aðallega krafist að staðfestur verði eignarréttur hans á 17.428,5 fm en til vara að staðfestur verði eignarréttur hans á 11.428,5 fm.

Varnaraðili E lagði fram greinargerð þann 9. mars 2016, þar sem þess er aðallega krafist að staðfestur verði eignarréttur hennar á 21.428,5 fm. en til vara að staðfestur verði eignarréttur hennar á 11.428,5 fm. Þá var jafnframt gerð krafa um að hafnað yrði aðalkröfum sóknaraðila, C og D, um staðfestingu á eignarrétti þeirra á 16.428,5 fm og 17.428,5 fm.

Varnaraðili F lagði fram greinargerð þann 9. mars 2016, þar sem þess er krafist að staðfestur verði jafn eignarréttur hennar og annarra málsaðila að 1/7 hluta hvers þeirra í óskipta landinu.

Varnaraðili G hefur ekkert látið málið til sín taka.

Í greinargerð skiptastjóra, sem lögð var fram 9. mars 2016, segir að ágreiningsefnið lúti að 8 hektara óskiptu landi, og þá hver sé annars vegar eignarhlutur dánarbúsins í landinu og hins vegar eignarhlutur hvers erfingja um sig og þar með hversu stór hluti landsins eigi að koma til skipta. Þá sagði að dánarbúið mundi ekki blanda sér í ágreining erfingja og gerði ekki sjálfstæðar kröfur í málinu, en aðild dánarbúsins að málinu væri hins vegar óhjákvæmileg þar sem niðurstaða þess mundi hafa bein áhrif á hagsmuni dánarbúsins sem eins eiganda að hinu óskipta landi, sbr. 18. gr. laga nr. 91/1991.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness þann 13. júlí 2016 var hafnað kröfu varnaraðila F um dómkvaðningu matsmanns um mat á markaðsvirði sumarhúss og lóðar sem A hafði selt skv. kaupsamningi til sóknaraðilans C úr sömu landspildu þann 31. maí 2013 og B ritað undir samþykki sem maki. Var úrskurðurinn staðfestur af Hæstarétti í máli nr. 539/2016.

Þann 8. janúar 2017 var máli þessu endurúthlutað til núverandi dómara málsins. Þá var kominn upp ágreiningur í málinu um framlagningu matsbeiðni og sjúkragagna af hálfu varnaraðila F. Fór fram munnlegur málflutningur um þá kröfu þann 1. mars 2017 og úrskurður kveðinn upp þann 24. mars 2017 þar sem hafnað var framlagningu þeirra gagna.

Dómari taldi að sá galli væri á málinu að það varðandi frávísun án kröfu skv. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991 um skipti dánarbúa o.fl., og ekki yrði, eins og málið var lagt fyrir dóminn, kveðinn upp efnisleg niðurstaða.

II

Athugasemdir málsaðila

Skiptastjóri, Helgi Birgisson hrl., f.h. dánarbúa A og B, vísaði til 1. mgr. 122. gr. laga nr. 20/1991 um skipti dánarbúa, um að skiptastjóri gæti vísað ágreiningi um opinber skipti til héraðsdóms um önnur ágreiningsefni en fyrirmæli laganna kvæðu á um. Taldi skiptastjóri að álitaefni þessa máls væru ekki frábrugðin að forminu til og fram kæmu í dómi Hæstaréttar nr. 729/2016. Skiptastjóri taldi að dómari málsins gæti úrskurðað um hver væri eign dánarbúanna út frá þinglýstum gögnum málsins, en kvaðst ekki gera neina kröfu fyrir hönd dánarbúanna, þar sem hann vildi ekki blanda sér í ágreining málsaðila og að erfingjarnir ættu að geta „dekkað“ kröfugerðina. Skiptastjóri bar að erfingjum hafi ekki með formlegum hætti verið heimilað að reka málið fyrir dómi fyrir hönd dánarbúanna. Skiptastjóri kvaðst vera sammála dómara um að ágreiningur málsins væri í reynd um þrjá löggerninga um framsal á þremur spildum úr hinu umþrætta landi. Þá taldi skiptastjóri, spurður af dómara, að ágreiningur um 10.000 fm spildu sem uppi væri um framsal hennar á milli annarra varnaraðila málsins, kæmi dánarbúunum ekkert við. Skiptastjóri vakti athygli á því að allir erfingjar hefðu fengið fundargerðir skiptabúanna sendar eftir skiptafundi og hefðu getað gert athugasemdir hefði þess verið þörf. Um málskostnaðarkröfu F á hendur skiptastjóra persónulega vildi skiptastjóri benda á að í greinargerð hennar væri aðeins höfð uppi krafa um málskostnað á hendur sóknaraðilum en ekki dánarbúunum eða honum.

Sóknaraðili C telur að málinu hafi verið réttilega skotið til dómsins. Í greinargerð sóknaraðila sé aðallega gerð krafa um staðfestingu á 17.428,5 fm. Hvað varakröfu varði hafi ekki legið ljóst fyrir á þeim tíma hvort 1/7 hluti landsins væri óumdeildur eða ekki. Byggir sóknaraðili kröfu um aukningu umfram 1/7 hlut á afsali frá A sem hafi ekki verið ógilt og telji hann sig eiga rétt á því að fá þá hluti úr dánarbúunum. Sé tilgreining skiptastjóra og kröfur sóknaraðila nægjanlega skýrar til þess að dómari geti tekið afstöðu til þeirra. Sóknaraðili gerði ekki athugasemdir við  kröfur varnaraðila E og F að því er varðar staðfestingu hvorrar um sig á 1/7 hluta landskikans. Sóknaraðili segist hins vegar hafa ítrekað við meðferð málsins gert athugasemdir við það að kröfur varnaraðila er lúti að því að hafna kröfum sóknaraðila standist ekki ákvæði skiptalaga og laga um meðferð einkamála. Komi tvennt til greina, annars vegar að vísa kröfum varnaraðila frá dómi þar sem þeir hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úrslausn um kröfuna, eða að sýkna sóknaraðila af kröfum varnaraðila með vísan til 16. gr. laga nr. 91/1991, þar sem þeir hafi ekki fært fram sönnur þess að þeir fari með málið eftir umboði dánarbúanna. Ekki væri neinn ágreiningur af hálfu sóknaraðila um kröfu varnaraðila E um 10.000 fm., heldur hefði sú krafa komið fram af hálfu varnaraðilans F. Um málskostnaðarkröfur varnaraðila kvaðst sóknaraðili mótmæla þeim og vilja benda á, að ef galli væri á málinu sem varðaði frávísun, þá væri sá galli ekki á ábyrgð sóknaraðila. Þá hafi varnaraðilar E og F rekið málið áfram þrátt fyrir augljósa vankanta á kröfugerð þeirra og með kröfum um framlagningu gagna af hálfu varnaraðilans F sem hefðu verið studdar af E.

Sóknaraðili db. D telur að það liggi ljóst fyrir samkvæmt beiðni skiptastjóra, um hvað ágreiningur málsins snýst. Taki kröfugerð sóknaraðila mið af því með hvaða hætti ágreiningnum hafi verið vísað til dómsins. Séu því engir þeir gallar að leitt geti til frávísunar málsins án kröfu. Liggi ljóst fyrir hvað sóknaraðilar séu að biðja um. Ekki sé ágreiningur um að í upphafi hafi eignarhlutur allra verið jafn eða 1/7 hluti landsins. Ágreiningur málsins varði síðari tíma ráðstafanir A og B um það land eða hvort 5.000 fm umfram það hafi verið ráðstafað til sóknaraðila. Ekki séu lagaskilyrði til að vísa málinu frá í heild sinni og hvað sem öðru líði ekki dómkröfum sóknaraðila sem séu nægilega skýrar til þess að taka megi þær til efnislegrar meðferðar. Ef einhverjir annmarkar séu á málinu hefði mátt ákveða að E væri sóknaraðili málsins en ekki varnaraðili, en enginn ágreiningur sé um þá 10.000 fm. Þá megi halda því fram að kröfugerð varnaraðilans F sé haldin þeim formgöllum að ekki sé ágreiningur um 1/7 hluta hennar. Geti þeir annmarkar ekki leitt til þess að vísa beri kröfum sóknaraðila frá dómi. Komi til greina að vísa málinu frá að hluta þá varði sú frávísun hluta varnaraðila. Þá geti gallar á málatilbúnaði málsins ekki verið á ábyrgð sóknaraðila og því sé gerð krafa um að varnaraðilum F og E verði gert óskipt að greiða sóknaraðila málskostnað, óháð því hvort málinu verði vísað frá í heild eða að hluta. Hafi málið dregist á langinn með tilheyrandi kostnað vegna aðgerða F með stuðningi E. 

Varnaraðili F upplýsti að í þinghaldi þann 8. febrúar 2016 eða þinghaldi þann 9. mars 2016 hafi hann beint því til dómara og lögmanna hvort málinu hefði réttilega verið vísað til dómsins samkvæmt 127. gr. laga nr. 20/1991, enda haft efasemdir um það en ekkert verið að gert. Nú hefði verið staðfest af skiptastjóra að varnaraðili hafi á skiptafundum borið brigður á hæfi foreldra þeirra til að undirrita þá löggerninga sem ágreiningur málsins standi til, en ekkert hafi verið skráð um þann ágreining. Hefði borið að gera það og ljúka fundargerð við lok hvers fundar. Hefði varnaraðili gert ýmsar athugasemdir sem ekki hefðu verið færðar í fundargerð. Á þeim grunni að þessi ágreiningur hefði komið upp á skiptafundi hefði varnaraðili gert áskilnað og boðað sönnunarfærslu um þessa málsástæðu um gildi löggernings. Hefði varnaraðili fjárhagslega og persónulega hagsmuni af því að fá úrslausn um þann ágreining. Varnaraðila sé nú hins vegar með úrskurðum réttarins og dómi Hæstaréttar nr. 539/2016 meinuð sönnunarfærsla um þetta atriði og ekki verði úr því bætt undir rekstri málsins. Varnaraðili telur að sá galli sem hafi verið á málinu sé ekki honum að kenna og að kostnaður málsins sé alfarið á ábyrgð skiptastjóra og dánarbúanna. Leggur varnaraðili það undir dóminn að ákveða hvort skiptastjóri verði einn eða sameiginlega með dánarbúunum úrskurðaður til greiðslu málskostnaðar auk álags, og þótt ekki hafi verið gerð krafa á hendur þeim í greinargerð sé það gert nú.

Varnaraðili E taldi að aðild dánarbúanna að málinu lægi ljós fyrir þótt ekki væri gerð sérstök krafa af þeirra hálfu. Hins vegar væru aðilar málsins ekki samstíga í aðalkröfu sinni en væru samstíga í varakröfum og því kæmi til greina að úrskurða efnislega um þá kröfu. Varnaraðili taldi jafnframt að í raun væri ekki ágreiningur um þá skiptingu sem fram kæmi í varakröfum, að upphaflega hefðu 1/7 hlutar landsins tilheyrt hverjum málsaðila. Taldi varnaraðili að hún hefði hagsmuni af því að úrskurðað yrði um þá 10.000 fm sem varnaraðili hefði fengið til viðbótar, enda hefðu komið fram athugasemdir frá sóknaraðilum um þá landspildu. Snérist málið því ekki eingöngu um réttindi sóknaraðila eins og skilja mætti af því sem fram hefði komið. Um málskostnaðarkröfur vildi varnaraðili benda á að sóknaraðilar hefðu verið lítt viljugir til þess að leysa málið og þá hefði varnaraðili ekki verið aðili að þeim tveimur ágreiningsmálum sem þegar hafi verið úrskurðað um.

III

Niðurstaða

Ágreiningi málsaðila var skotið til dómsins af skiptastjóra með vísan til 122. gr. laga nr. 20/1991 um skipti dánarbúa o.fl., en samkvæmt ákvæðinu getur skiptastjóri einn lagt ágreining um atriði um opinber skipti fyrir héraðsdóm, þótt ekki sé um lögákveðin tilvik að ræða, ef skiptastjóri telur þörf á úrslausn héraðsdóms um önnur ágreiningsefni. Segir í greinargerð að þau ágreiningsefni séu jafnan þess eðlis að þau geti í fyllingu tímans orðið tilefni til mótmæla gegn frumvarpi að úthlutun. Skv. 3. tölulið 1. mgr. 122. gr. skal skiptastjóri í kröfu sinni til héraðsdóms tilgreina um hvað ágreiningur standi og hverjar kröfur hafi komið fram.

Á skiptafundi 1. júlí 2015 hafði D gert kröfu um að viðurkennt yrði að hann ætti 1,5 hektara úr hinu óskipta landi og þar af hafi 0,5 hektarar bæst við árið 2001. Var þessu mótmælt af hálfu F og E. Skiptastjóri tók ekki afstöðu til þeirrar kröfu á fundinum. Á fundi skiptastjóra með erfingjum, þann 11. nóvember 2015, hafði skiptastjóri stillt upp hugmynd hans að því hver væri eignarhlutur hvers erfingja og dánarbúanna í hinu óskipta landi í samræmi við þinglýst afsal frá 23. maí 1968, um 1/7 hluti hvers þeirra, eða 11.428,5 fm. Þá gerði skiptastjóri ráð fyrir því að innbyrðis eignarhlutföll hefðu breyst vegna þriggja gerninga. Í fyrsta lagi að B hefði á árinu 2001 framselt 5.000 fm til D. Í öðru lagi að G hefði með kaupsamningi, dags. 1. apríl 2012, selt 10.000 fm til E og í þriðja lagi að A hefði með kaupsamningi og afsali, dags. 31. maí 2013, selt 6.000 fm til C.

Á fundinum lýsti F þeirri skoðun sinni „að öll systkinin fari með jafnan eignarhlut í landinu og hlutur dánarbúsins eigi að skiptast jafnt með þeim.“ Umboðsmaður E vefengdi að C hefði eignast 6.000 fm til viðbótar af landinu fyrir afsal frá föður sínum og taldi að D gæti ekki lagt fram fullnægjandi eignarheimild fyrir þeim 5.000 fm sem hann segði að hafi komið frá móður þeirra. Sóknaraðili C sagðist jafnframt vefengja eignarétt E.

Þótt framkomnar athugasemdir hafi beint varðað hagsmuni dánarbúanna tók skiptastjóri enga afstöðu til þeirra en sendi málið til héraðsdóms með eftirfarandi tilgreiningu: „Með vísan til framanritaðs er þess óskað að héraðsdómur leysi úr ágreiningi erfingja um eignarétt þeirra til 80.000 fm. ..., og úrskurði hvað teljist vera eignarhluti dánarbúsins og hvers erfingja um sig í hinu óskipta landi jarðarinnar.

Í nefndu afsali frá árinu 1968 varð hver málsaðila eigandi að 1/7 hluta landsins, eða 11.428,5 fm hver og hefur engin athugasemd verið gerð um þá grunnskiptingu. Af hinu óskipta landi, 80.000 fm, eru 5/7 hlutar þess þinglýst eign erfingjanna. Engar kröfur hafa komið fram, hvorki af hálfu dánarbúanna eða erfingja, um að sá hluti hins óskipta lands eigi að tilheyra dánarbúunum. Enginn ágreiningur er því um stærsta hluta þess lands sem ágreiningur er sagður um. Í bókunum skiptafunda kemur fram að ágreiningur málsins standi eingöngu um framsal og löggerninga um þrjár nánar tilgreindar spildur. Í athugasemdum sínum var skiptastjóri sammála dómara að ágreiningur málsins væri í reynd um þær spildur. Er tilgreining ágreinings því ekki rétt sbr. 3. tl. 1. mgr. 122. gr. laga nr. 20/1991, sbr. og 3. tl. 1. mgr. 127. gr. sömu laga, sem aftur hefur leitt til þess að málsaðilar eru ekki samstíga í sínum fullnaðarkröfum.

Skiptastjóri vísar til 1. mgr. 122. gr. laga nr. 20/1991 um að þörf hafi verið á úrlausn héraðsdómara um ágreiningsefnið.

Hvað varðar framangreindar þinglýstar eigur erfingjanna þá er ekki um að ræða ágreining um opinber skipti. Ekki er ágreiningur um nefndar eignarheimildir, sem telja verður frumskilyrði þess að málið verði tekið til úrlausnar. Engin krafa stendur til þess að þeir eignarhlutar renni með nokkrum hætti til dánarbúanna og munu þeir því ekki koma til úthlutunar úr þeim. Því verður ekki dæmt um hver sé eign hvers erfingja um ágreiningslausar eignir eða að staðfestur verði eignarréttur þeirra að þeim eignum í ágreiningsmáli eftir ákvæðum laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.

Með sama hætti verður ekki leyst úr ágreiningi um þá 10.000 fm spildu sem varnaraðilinn G seldi úr sínum 1/7 hluta landsins til varnaraðilans E. Eins og ágreiningsmálinu var stillt upp er enginn til sóknar um þennan hluta málsins. Enginn málsaðila gerir kröfu um riftun á nefndum kaupsamningi, en vegna kröfugerðar varnaraðilans F, sem má rekja til framangreindrar tilgreiningar ágreiningsefnis, verður að ætla að ágreiningur sé um þann kaupsamning. Skiptastjóri bar í athugasemdum sínum fyrir dóminum að umrædd spilda kæmi dánarbúunum ekkert við og fæst því ekki séð að uppfyllt séu ákvæði 1. mgr. 122. gr. laga nr. 20/1991, um þörf eða heimild til úrslausnar héraðsdóms um nefnda spildu.

Að mati dómsins getur þörf á úrslausn héraðsdóms um ágreiningsefni, sem reis við opinber skipti dánarbúanna, aðeins tekið til tveggja spildna úr hinu óskipta landi. Annars vegar er um að ræða kaup sóknaraðilans C á 6.000 fm af A og framsal á 5.000 fm til sóknaraðilans D frá B.

Sóknaraðilar C og db. D telja, að jafnvel þótt málsaðilar séu ekki samstíga í kröfugerð sinni um aðalkröfur, þá sé kröfugerð þeirra nægjanlega skýr til þess að taka málið til efnislegrar meðferðar um aðalkröfur í þeirra.

Á skiptafundi þann 11. nóvember 2015 hafði skiptastjóri sett upp skiptingu hins óskipta lands með þeim hætti að umræddar tvær spildur væru ekki hluti af eign dánarbúanna og ættu því að bætast við 1/7 eignarhluta hvors sóknaraðila. Í greinargerð sinni fyrir dóminum segist skiptastjóri ekki blanda sér í ágreining erfingja og geri hann ekki sjálfstæðar kröfur í málinu, en dánarbúin væru eftir sem áður eigendur að hinu óskipta landi, án tilgreiningar á þeirri eign. Dómari taldi að framangreind uppsetning á skiptafundi 11. nóvember 2015 ætti að marka þá eignarhluta sem skiptastjóri gerði kröfu um sem eign dánarbúanna. Borið undir skiptastjóra hvort sá skilningur dómara væri réttur, bar skiptastjóri að það væri dómara að finna út úr því, og að dómari málsins gæti úrskurðað um hver væri eign dánarbúanna út frá þinglýstum gögnum málsins, og að erfingjarnir ættu að geta „dekkað“ kröfugerðina.

Eina þinglýsta skjalið um hið óskipta land er framangreint afsal frá árinu 1968, þar sem hver málsaðila varð eigandi að 1/7 hluta. Af því sem fram kom munnlega hjá skiptastjóra má ætla að hann telji nú að 1/7 hluti landsins tilheyri hvoru dánarbúi og þar með að framsal eignaréttar á 6.000 og 5.000 fm spildum úr dánarbúunum séu óskuldbindandi fyrir dánarbúin. Fær þessi skilningur stoð í bókun skiptafundar, sem haldinn var þann 3. apríl sl. Kemur fram að skiptastjóri ætli ekki að taka afstöðu í málinu og ekki að gera sjálfstæðar kröfur en geri ekki athugasemdir við það að varnaraðilar F og E haldi uppi hagsmunum dánarbúanna með kröfu um að hvoru dánarbúi tilheyri 1/7 landsins, svo sem heimilt væri samkvæmt 3. mgr. 68. gr. laga nr. 20/1991. Var þessari bókun mótmælt af hálfu sóknaraðila.

Samkvæmt 3. mgr. 68. gr. laga nr. 20/1991 getur erfingi haldið uppi hagsmunum dánarbús í eigin nafni til hagsbóta fyrir búið, ef skiptastjóri ákveður að halda ekki uppi hagsmunum sem búin kunna að njóta. Skiptastjóri hefur ekki tekið neina ákvörðun. Skiptastjóri tiltekur í greinargerð sinni að hann sé aðili málsins og ekkert í málinu fram komið um að hann hafi framselt eða afsalað sér þeirri aðild, enda kom fram í munnlegum athugasemdum hans að erfingjum hefði ekki verið formlega veitt heimild, skv. 3. mgr. 68. gr. laga nr. 20/1991, til þess að fara með málið fyrir hönd dánarbúanna. Alls óvíst er samkvæmt þessu hvernig erfingjar geti „dekkað“ kröfugerð hafi þeim ekki formlega verið veitt heimild til þess að fara með þær kröfur fyrir hönd dánarbúanna, auk þess sem ekki er ljóst hverjar þær kröfur dánarbúanna eru. Þá liggur fyrir að einn erfingjanna hefur engar kröfur sett fram um sinn eignarhluta og ekki látið málið neitt til sín taka hvorki hjá skiptastjóra né fyrir dómi, en þess er samt krafist að dæmt verði um eignarrétt hans í hinu óskipta landi, þrátt fyrir að sá eignarhlutur komi dánarbúunum ekkert við.

Ein helsta málsástæða í þessu máli varðar andlegt hæfi A og B og hvort löggerningar sem þau hafi undirritað, og þar með um umþrættar spildur, séu óskuldbindandi fyrir dánarbúin. Skiptastjóri staðfesti á skiptafundi þann 3. apríl sl., að hann kannist við að F hefði borið brigður á hæfi foreldra sinna. Hins vegar er ekkert skráð um þá athugasemd í bókun skiptafunda eða hver afstaða annarra erfingja eða skiptastjóra hafi verið til þess. Því lá ekki formlega fyrir hvort ágreiningur væri um það atriði þegar málið var sent héraðsdómi.

Varnaraðili F hefur á grundvelli tilnefningar ágreiningsefnis málsins, freistað þess að leggja fram sönnunargögn um löggerningshæfi foreldra erfingja og gögn um sönnun á verðmæti umþrættra spildna, en því verið hafnað af sóknaraðilum. Með úrskurði dómsins þann 13. júlí 2016 var beiðni varnaraðila þar um hafnað og sá úrskurður staðfestur í dómi Hæstaréttar nr. 539/2016. Enn var varnaraðila F neitað um að leggja fram gögn þessu til stuðnings með úrskurði dómsins þann 24. mars sl., með vísan til þess að ekki hafi verið gætt ákvæða 3. mgr. 68. gr. laga nr. 20/1991, á þann hátt að hvorki henni né öðrum málsaðilum hafi formlega verið veitt heimild til þess að fara með hagsmuni dánarbúanna. Er sá úrskurður dómsins endanlegur eins og á stendur.

Framangreind málsmeðferð hefur leitt til þeirra aðstæðna, að ef fallist yrði á kröfur sóknaraðila um að taka málið til efnislegs úrskurðar um nefndar tvær spildur, þá yrði dæmt um réttindi varnaraðila, án þess að varnaraðilum gæfist kostur á því að leggja fram sönnunargögn um sakarefnið. Sú málsmeðferð væri ekki réttlát og brot á 70. gr. stjórnarskrárinnar.

Með vísan til alls framangreinds er það afstaða dómsins að ágreiningsefnið eins og það er tilgreint og lagt fyrir dóminn, sé haldið svo verulegum göllum að það verði ekki tekið til efnislegrar meðferðar, og er málinu vísað frá dómi án kröfu, með vísan til 1. mgr. 100 gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl.

Eins og atvikum er háttað þykir rétt að hver málsaðila beri sinn kostnað af rekstri málsins.

Úrskurðinn kveður upp Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð.

Máli þessu er vísað frá dómi án kröfu.

Málskostnaður fellur niður.