Print

Mál nr. 92/2017

A (Stefán Karl Kristjánsson hrl.)
gegn
Velferðarsviði Reykjavíkurborgar (Kristbjörg Stephensen hrl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Nauðungarvistun
Reifun
Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um nauðungarvistun A á sjúkrahúsi sem ákveðin hafði verið af sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Karl Axelsson og Davíð Þór Björgvinsson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. febrúar 2017 en kærumálsgögn bárust réttinum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. febrúar 2017, þar sem staðfest var ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 31. janúar sama ár um nauðungarvistun sóknaraðila á sjúkrahúsi.  Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann þóknunar til handa talsmanni sínum vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun talsmanns sóknaraðila sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

          Þóknun talsmanns sóknaraðila, Stefáns Karls Kristjánssonar  hæstaréttarlögmanns, 124.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. febrúar 2017.

I

Með kröfu, sem dagsett er 31 janúar sl. og barst réttinum 1. febrúar sl., hefur sóknaraðili, A, kt. [...], [...], [...], krafist þess að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu dags. 31. janúar sl., þar sem fallist var á að hann yrði vistaður á sjúkrahúsi á grundvelli 3. mgr., sbr. 2. mgr., 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Til vara er þess krafist að nauðungarvistun verði markaður skemmri tími en til 21 dags. Jafnframt krefst sóknaraðili þess að málskostnaður skipaðs talsmanns síns verði greiddur úr ríkissjóði, sbr. 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga. Málið var þingfest 3. febrúar 2017 og tekið samdægurs til úrskurðar.

Varnaraðili, velferðarsvið Reykjavíkurborgar, krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og áðurnefnd ákvörðun sýslumanns um vistun sóknaraðila á sjúkrahúsi verði staðfest. Um aðild varnaraðila er vísað til 20. gr. laga nr. 71/1997, sbr. og d-liðar 2. mgr. 7. gr. sömu laga.

II

Í beiðni varnaraðila, 31. janúar 2017, til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um nauðungarvistun sóknaraðila kemur fram að sóknaraðili sé 40 ára karlmaður með alvarlega persónuleikaröskun af andfélagslegum og „paranoid“ persónuleikaþáttum. Auk þess hafi hann „borderline“ þætti ásamt því að eiga við vímuefnavandamál að stríða. Hann hafi verið sjálfræðissviptur til tveggja ára með úrskurði héraðsdóms þann 8. desember 2014. Hann hafi legið inni sjálfviljugur ýmist á réttar- eða öryggisdeild síðan sjálfræðissviptingunni lauk á meðan hann bíði eftir öryggisbúsetu utan spítala. Þann 30. janúar sl. hafi sóknaraðili misst stjórn á sér og verið í kjölfarið nauðungarvistaður í 72 klst. og beittur þvingaðri lyfjagjöf. Í beiðni velferðarsviðs var að öðru leyti vísað til læknisvottorðs B geðlæknis, dags. 30. janúar sl., sem fylgdi beiðninni.

Í greindu læknisvottorði B er m.a. tekið fram að sóknaraðili sé með alvarlega persónuleikaröskun af andfélagslegum og „paranoid“ persónuleikaþáttum. Auk þess hafi hann „borderline“ þætti ásamt því að eiga sögu um vímuefnaneyslu. Hann hafi áður fengið dóm vegna íkveikju í íbúð á [...]. Hafi hann afplánað þrjú ár á Litla-Hrauni en verið fluttur yfir á réttargeðdeild Landspítalans að Kleppi þann 17. desember 2014 þar sem hann hafi veri hættur að taka lyf og verið erfiðari í umgengni eftir að sjálfræðissvipting hans rann út um sumarið 2014. Hann hafi á ný verið sviptur sjálfræði til tveggja ára þann 8. desember 2014 og hafi legið inni ýmist á réttar- eða öryggisgeðdeild, sjálfviljugur, á meðan hann bíði eftir öryggisbúsetu utan spítalans. Hann hafi gert samning við yfirlækni um að hegða sér vel. Fyrir um 2-3 vikum hafi hann þó misst stjórn á sér og kastað af sér vatni á gólfið. Hann hafi í framhaldinu verið fluttur á öryggisgang í stuttan tíma en jafnað sig fljótt og því verið fluttur aftur á almennan gang öryggisdeildarinnar. Þann 30. janúar sl. hafi sóknaraðili á ný misst stjórn á sér og brotið sjónvarp á deildinni. Aðdragandi þess hafi verið enginn að heitið geti. Samsjúklingur hafi lagt hönd sína á öxl sóknaraðila og beðið hann um að vera vin sinn. Í kjölfarið hafi sóknaraðili verið settur í 72 klst. nauðungarvistun, sprautaður niður með cisordinol acutard, 200 mg í vöðva, og fluttur yfir á öryggisgang réttargeðdeildar.

Í læknisvottorði er einnig greint frá ástandi sóknaraðili við skoðun sem fram fór að kvöldi 30. janúar sl. Var sóknaraðila lýst af vakthafandi lækni með þeim hætti að sóknaraðili hafi verið ótilhafður og af honum megn líkamslykt. Í stað þess að heilsa hafi hann ausið óhróðri yfir lækni m.a. um útlit og framkomu auk þess sem hann væri reiður öllum sem komi að meðferð hans. Fram kemur að sóknaraðili sé fyllilega rauntengdur, áttaður á stund, stað og eigin persónu í viðtalinu. Geðslag hafi verið nánast hlutlaust. Hann sýni nokkuð eðlileg geðhrif en lýsi mikilli reiði sem hann segi að sé að gera sig brjálaðan. Ekki hafi komið fram ranghugmyndir eða önnur merki geðrofs í viðtalinu, en hann hafi verið tortrygginn í garð læknisins. Jafnframt hafi komið fram að þegar sóknaraðili hafi verið spurður nánar út í hvers vegna hann hafi migið á gólf kvaðst hann hafa verið reiður og verið með þessu athæfi að sýna starfsfólki öllu fyrirlitningu sína. Að sama skapi kvaðst hann hafa verið reiður þegar hann hafi brotið sjónvarpið, en gaf ekki frekari skýringar á hegðun sinni. Fram kemur í vottorðinu að sóknaraðili upplifi sig greinilega beittan miklu ranglæti og bregðist við því á fremur barnalegan hátt með því að „hrauna yfir“ lækni með dónaskap ásamt því að hækka röddina. Sóknaraðila til tekna megi þó taka fram að hann hafi fengið í hendur djúsglas þegar hann hafi verið að koma fram í viðtalið en hann hafi drukkið úr glasinu og lagt það frá sér án þess að skvetta djúsnum yfir lækni, en búist hafi verið við því. Sóknaraðili hafi þannig látið nægja dónaskap og andlegt ofbeldi gagnvart lækni. Um afstöðu sóknaraðila til meðferðarinnar segir í vottorðinu að hann sé ósáttur við nauðungarvistun og meðferð.

Í læknisvottorðinu segir enn fremur að það sé mat læknis að óhjákvæmilegt sé að nauðungarvista sóknaraðila, sbr. 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga svo unnt sé að veita honum viðeigandi meðferð. Það megi jafna ástandi sóknaraðila við alvarlegan geðsjúkdóm. Ástand sóknaraðila sé með þeim hætti að hann sýni ógnandi hegðun og hegðunartruflun. Hann eigi sögu um mikið ofbeldi og alvarleg afbrot ef hann er ómeðhöndlaður. Hann ráði ekki við hegðun sína núna og verði að teljast stjórnlaus. Í ljósi fyrri sögu sé talið óhjákvæmilegt að nauðungarvista sóknaraðila til þess að koma við lyfjameðferð til lengri tíma.

Sóknaraðili gaf skýrslu fyrir dóminum. Hann kvaðst hafa verið sjálfviljugur á Kleppi frá 8. desember 2016. Þar hafi hann dvalið þar sem hann hafi engan annan stað til þess að búa á. Hann hafi óskað eftir að komast í sjálfstæða búsetu. Þá telur hann geðlyf sem honum séu gefin fara illa í hann. Hann taki þó þau lyf sem borin séu fyrir hann en hafi látið í ljós við lækna að hann sé því mótfallinn.

C, yfirlæknir réttar- og öryggisgeðdeildar Landspítala ‒ Háskólasjúkrahúss að Kleppi, er meðhöndlandi læknir sóknaraðila. Staðfesti hann að sóknarðaðili hefði dvalið sjálfviljugur að Kleppi. Ástæða nauðungarvistunar hans væri sú að sóknaraðili hefði tekið kast og hent dóti á sjónvarpið. Hann hafi verið mjög ofstopafullur og ógnandi og því hafi verið nauðsynlegt að róa hann niður til að fá hann til að sýna eðlilega framkomu. Ekki hafi verið hægt annað en að beita nauðungarvistun. Hafi hann fengið hlutlausan geðlækni, B, sem væri sérfræðingur á deildinni til þess að skrifa vottorðið sem hún gerði á sjálfstæðan hátt. Taldi hann mál sóknaraðila sérstakt. Kvað hann sóknaraðila vera með klára geðgreiningu, sem væri aðsóknargeðklofi á tímabilum, en hann teldi sóknaraðila þó einkum vera með „kverúlens paranoju“ sem valdi því að hann verði mjög vænisjúkur undir álagi. Hann treysti engum. Mat læknisins væri að sóknaraðili væri mjög hættulegur nú. Spurning væri hvað ætti að gera þegar menn væru hættulegir umhverfinu. Sóknaraðili væri ekki til samvinnu. Nú væri hann á öryggisgangi réttargeðdeildar vegna þess að hann væri talinn hættulegur eins og sakir standa. Tók hann fram að sóknaraðili hefði hegðað sér vel undanfarin tvö ár og hvers vegna honum fór allt í einu að líða svona illa og haga sér með þeim hætti sem lýst hefur verið gæti læknir ekki svarað. Staðan væri á hinn bóginn svona í dag, hún væri ótrygg og þess vegna þyrfti sóknaraðili vistun.

B geðlæknir gaf einnig skýrslu fyrir dóminum um síma og staðfesti vottorð sitt. Staðfesti hún að sóknaraðili hefði verið sjálfviljugur á Kleppi tímabundið eftir að sjálfræðissvipting rann út. Þá hafi hann gert samning um að vera áfram á Kleppi og fylgja þá öllum reglum. Tók hún fram að hún starfaði sem geðlæknir á fíknigeðdeild við Hringbraut. Hún væri sérfræðingur þar og hefði verið kölluð til að gefa umrætt vottorð. Hún tók fram að sóknaraðili væri haldinn alvarlegri persónuleikaröskun og ætti erfitt með að halda sér innan hefðbundins ramma vegna þess. Hann væri með andfélagslegan persónuleika og líka með persónuleikaþætti með aðsóknarkennd. Þessu mætti jafna við alvarlegan geðsjúkdóm. Innsæi hans væri lélegt. Tók hún fram að persónuleikaröskun væri viðvarandi ástand en aðstæður gætu skapast sem yllu því að einkenni röskunarinnar yrðu verri tímabundið. 

III

Skipaður talsmaður sóknaraðila mótmælir kröfu varnaraðila um nauðungarvistun sóknaraðila. Telur hann að ekki séu uppfyllt skilyrði 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga til þess að verða við kröfunni. Skilyrði laganna sé að vista þurfi mann nauðugan á sjúkrahúsi. Það eigi ekki við um sóknaraðila þar sem hann hafi dvalið sjálfviljugur á Kleppi þegar beiðnin var lögð fram. Þá hafi sóknaraðili ekki sýnt mótþróa undanfarin tvö ár. Þó að hann hafi misst stjórn á sér og brotið sjónvarp nægi slíkt ekki til nauðungarvistunar auk þess sem leitast hafi verið við að koma honum í öryggisbúsetu utan spítala. Þá bendir lögmaður á að B sé ekki yfirlæknir og spurning hvort hún hafi haft umboð yfirlæknis til ritunar vottorðs sem liggur fyrir í málinu. Þá tekur talsmaðurinn fram að sóknaraðili hafi ekki sýnt af sér ofbeldi.

Samkvæmt 18. gr. laga nr. 71/1997, er með nauðungarvistun bæði átt við það þegar sjálfráða maður er færður nauðugur í sjúkrahús og haldið þar og þegar manni, sem dvalið hefur í sjúkrahúsi af fúsum og frjálsum vilja, er haldið þar nauðugum.

Samkvæmt gögnum málsins óskaði meðhöndlandi læknir sóknaraðila, C yfirlæknir réttar- og öryggisgeðdeildar Landspítala ‒ Háskólasjúkrahúss að Kleppi, eftir því við B, geðlækni á fíknigeðdeild við Hringbraut, að hún ritaði læknisvottorð vegna nauðungarvistunar sóknaraðila. Í ljósi þess telur dómurinn að fullnægt hafi verið skilyrðum 4. málsl. 2. mgr. 19. gr. sömu laga og að B hafi haft fullt umboð yfirlæknisins til ritunar þess.

Með vísan til gagna málsins og vættis C og B fyrir dómi þykir nægilega í ljós leitt að nauðsynlegt sé að sóknaraðili verði nauðungarvistaður á sjúkrahúsi og fái þar viðeigandi aðstoð og meðferð við sjúkdómi sínum. Samþykki sjúklings um nauðungarvistun og viðeigandi meðferð þykir ekki nægjanlegt í þessu sambandi. Þar sem önnur eða vægari úrræði þykja ekki duga til að tryggja heilsu og batahorfur hans telur dómurinn að uppfyllt séu skilyrði 3. mgr., sbr. 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 fyrir nauðungarvistun sóknaraðila. Sóknaraðili hefur ekki fært viðhlítandi rök fyrir því að styttri nauðungarvistun en sem nemi að hámarki 21 sólarhring muni duga. Verður ákvörðun sýslumanns um nauðungarvistun sóknaraðila því staðfest. 

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997 ber að greiða úr ríkissjóði allan kostnað málsins, þar með talda þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Stefáns Karls Kristjánssonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 130.000 krónur. Við ákvörðun þóknunar hefur verið tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts.

Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Staðfest er ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 31. janúar sl. um að sóknaraðili, A, skuli vistast á sjúkrahúsi í allt að 21 sólarhring frá þeim tíma sem tiltekinn er í ákvörðuninni.

Allur kostnaður af málinu, þ.m.t. þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Stefáns Karls Kristjánssonar hrl., 130.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.