Print

Mál nr. 349/2016

Björgólfur Thor Björgólfsson (Þorsteinn Einarsson hrl.)
gegn
Árna Harðarsyni, Vilhelm Róberti Wessman og Salt Investments ehf. (Jóhannes Bjarni Björnsson hrl., Hildur Ýr Viðarsdóttir hdl.  3. prófmál)
Lykilorð
  • Lán
  • Félag
  • Umboð
  • Skuldskeyting
  • Skaðabætur
Reifun

Í september 2007 gekk B í sjálfskuldarábyrgð fyrir helming skuldbindinga M GmbH samkvæmt lánssamningi við G hf. Í málinu krafðist B þess að Á, V og S ehf. yrði gert að greiða sér óskipt aðallega 2.000.000 evrur, en til vara lægri fjárhæð. Reisti hann kröfur sínar á því að Á og V hefðu í desember 2007 án umboðs og heimildar látið millifæra 4.000.000 evrur í eigu M GmbH af reikningi A hf. inn á reikning S ehf., sem var að mestu í eigu V, og nýtt í eigin þágu. Taldi B að vegna vanskila á greiðslum af láni M GmbH hefði krafa G hf. á hendur sér vegna ábyrgðarinnar verið 2.000.000 evrum hærri en annars hefði orðið sökum ólögmætrar og saknæmrar háttsemi Á og V. Í dómi Hæstaréttar kom fram að greiðsla M GmbH til A hf. í september 2007 hefði falið í sér lán til hins síðarnefnda félags. Að því virtu og með vísan til þess að skort hefði samþykki framkvæmdastjóra M GmbH til millifærslu fjárhæðarinnar frá A hf. til S ehf. var litið svo á að ráðstöfunin hefði verið ólögmæt á sínum tíma. Á hinn bóginn hefði M GmbH með lánssamningi árið 2010 staðfest að S ehf. hefði yfirtekið lánið sem A hf. hafði upphaflega verið veitt. Í samningnum hefði í raun falist skuldbindandi samþykki M GmbH sem lánveitanda við því að S ehf. yrði fyrir skuldskeytingu nýr skuldari að láninu í stað A hf., en með þessu hefði brostið grundvöll fyrir því að B gæti krafist skaðabóta vegna ráðstöfunar fjárins til S ehf. Voru Á, V og S ehf. því sýknaðir í málinu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir, Helgi I. Jónsson og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 3. mars 2016. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 20. apríl 2016 og var áfrýjað öðru sinni 6. maí sama ár. Áfrýjandi krefst þess að stefndu verði gert að greiða sér óskipt, aðallega 2.000.000 evrur en til vara lægri fjárhæð, í báðum tilvikum með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. júlí 2010 til 4. september 2014, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Samkvæmt gögnum málsins var stefndi Salt Investments ehf. árið 2007 í eigu stefnda Vilhelms Róberts Wessman, sem átti 94% hlutafjár í félaginu, stefnda Árna Harðarsonar, sem átti 2% hlutafjárins, og annarra hluthafa. Sat Vilhelm Róbert einn í stjórn félagsins, en Árni var framkvæmdastjóri þess. Salt Investments ehf. átti að öllu leyti félagið Salt Pharma S.à r.l. Þá var áfrýjandi eini eigandi félagsins Novator Pharma II S.à r.l. Síðastnefnd tvö félög voru í jöfnum hlutföllum eigendur Mainsee Holding ehf., áður OOG ehf., en samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 2007 sat stefndi Árni einn í stjórn þess.

Þetta félag keypti 5. september 2007 þýska félagið Mainsee 516 V V GmbH. Í samningi um kaupin var meðal annars tekið fram að Angelika Hundt væri leyst undan störfum sem framkvæmdastjóri hins þýska félags og tæki lausnin þegar í stað gildi, jafnframt því sem Sigurgeir Guðlaugsson væri ráðinn til starfa sem framkvæmdastjóri þess og tæki ráðning hans þegar gildi. Í samningnum sagði ennfremur „að samþykktar breytingar á samþykktum félagsins taki ekki gildi fyrr en með skráningu í fyrirtækjaskrá“. Samkvæmt vottorði fyrirtækjaskrár í Frankfurt am Main barst henni tilkynning 3. mars 2008 um að heiti umrædds félags hafi verið breytt í Mainsee Pharma GmbH og framkvæmdastjóri þess væri Sigurgeir Guðlaugsson sem tekið hafi við því starfi af Angeliku Hundt. Hefði framkvæmdastjórinn „heimild til að koma einn fram fyrir hönd félagsins og til að framkvæma viðskiptalega löggjörninga í nafni félagsins“. Í ársreikningi Mainsee Pharma GmbH fyrir árið 2007, sem undirritaður var 13. október 2009, sagði að Angelika Hundt hafi gegnt starfi framkvæmdastjóra þess frá 15. ágúst 2007 til 2. mars 2008, en Sigurgeir Guðlaugsson frá 3. sama mánaðar. Í ársreikningi félagsins fyrir árið 2009, sem dagsettur var 15. ágúst 2010, kom fram að Sigurgeir væri enn eini stjórnandi þess frá 3. mars 2008. Loks má geta þess að í júlí 2007 mun Novator Pharma S.à r.l., sem var að stærstum hluta í eigu áfrýjanda, hafa tekið yfir allt hlutafé í Actavis Group hf., en stefndi Vilhelm Róbert var framkvæmdastjóri þess hlutafélags.

Með samningi 7. september 2007 keypti Mainsee 516 V V GmbH af DeltaSelect GmbH samheitalyfjarekstur síðarnefnda félagsins. Umsamið kaupverð var 50.000.000 evrur, auk þess sem fyrrnefnda félagið skuldbatt sig til að kaupa vörubirgðir af því síðarnefnda fyrir bókfært verð birgðanna auk virðisaukaskatts sem greitt yrði innan 60 daga frá afhendingu þeirra. Glitnir banki hf. veitti Mainsee 516 V V GmbH lán til kaupanna að fjárhæð 56.250.000 evrur samkvæmt samningi 6. sama mánaðar. Ritaði Sigurgeir Guðlaugsson undir samninginn fyrir hönd hins þýska félags sem framkvæmdastjóri þess. Sama dag gengust áfrýjandi og stefndi Vilhelm Róbert í hlutfallslega sjálfskuldarábyrgð fyrir skuldbindingum félagsins samkvæmt lánssamningnum þannig að ábyrgð hvors þeirra takmarkaðist við helming skuldbindinganna. Jafnframt gerðu áfrýjandi og Vilhelm Róbert með sér samkomulag þar sem meðal annars kom fram að ætlunin væri að selja Mainsee 516 V V GmbH til Actavis Group hf. eða annarra, tengdum því félagi, „eins fljótt og verða má.“ Sú fyrirætlun gekk þó ekki eftir og halda stefndu því fram að orsökin hafi verið skilyrði, sem Actavis Group hf. hafi verið sett af lánveitanda Novator Pharma S.à r.l. þegar það félag tók lán til yfirtöku á hlutafélaginu, svo sem áður greinir.

Hinn 7. september 2007 greiddi Glitnir banki hf. hluta af lánsfjárhæðinni, 50.000.000 evrur, inn á reikning hjá þýskum banka til greiðslu á umsömdu kaupverði samkvæmt fyrrgreindum samningi milli Mainsee 516 V V GmbH og DeltaSelect GmbH. Samdægurs voru lagðar inn á reikning Actavis Group hf. hjá Glitni banka hf. 4.450.000 evrur af lánsfjárhæðinni sem aðilar eru sammála um að hafi síðar átt að nota til greiðslu fyrir vörubirgðir samkvæmt samningnum. Hins vegar greinir þá á um hvort á þessum tíma hafi verið um að ræða lán frá Mainsee 516 V V GmbH til Actavis Group hf, sem hafi átt að endurgreiða ef ekkert yrði af kaupum á vörubirgðunum, svo sem áfrýjandi heldur fram, eða fé, sem síðarnefnda félagið gæti nýtt í eigin þágu enda þá staðið til að það yfirtæki hið fyrrnefnda, eins og ráða má af málatilbúnaði stefndu. Í skýrslu stefnda Árna fyrir héraðsdómi kom fram að einhvern tíma í nóvember 2007 hafi verið orðið ljóst að ekki yrði af fyrirhuguðum kaupum á birgðunum.

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi sendi starfsmaður stefnda Salt Investments ehf. tölvubréf 29. nóvember 2007 til deildarstjóra fjárstýringar Actavis Group hf., með afriti til stefnda Árna, og óskaði eftir því að „rúmar EUR 4m“ yrðu lagðar inn á reikning einkahlutafélagsins í byrjun desember. Í vitnaskýrslu fyrir héraðsdómi bar starfsmaðurinn að þetta hafi verið gert að frumkvæði Árna sem var eins og áður segir framkvæmdastjóri hins stefnda félags. Í samræmi við beiðnina voru 4.000.000 evrur greiddar 3. desember 2007 af reikningi Actavis Group hf. inn á reikning Salt Investments ehf. hjá Glitni banka hf., að frádregnum kostnaði. Fyrir dómi sagðist Sigurgeir Guðlaugsson ekki hafa vitað af þessari greiðslu fyrr en í lok árs 2009 eða byrjun árs 2010. Ágreiningur er milli aðila um ástæður fyrir greiðslunni og hvers eðlis hún hafi verið, svo sem síðar verður fjallað um.

Í áðurnefndum ársreikningi Mainsee Pharma GmbH, áður Mainsee 516 V V GmbH, fyrir árið 2007 sagði meðal annars að félagið hefði á því ári fengið tekjur frá nákomnum fyrirtækjum að fjárhæð 107.226 evrur. Í skattframtali félagsins fyrir sama ár kom á hinn bóginn fram að það hefði gert lánssamning við stefnda Salt Investments ehf. að fjárhæð 107.226 evrur.

Meðal annars vegna vanskila á greiðslum af láninu, sem Mainsee 516 V V GmbH hafði tekið hjá Glitni banka hf. 6. september 2007, var móðurfélagi þess, Mainsee Holding ehf., tilkynnt 4. nóvember 2009 að bankinn hefði selt veðsetta hluti stefnda Salt Investments ehf. og Novator Pharma II S.à r.l. í því og þar með dótturfélaginu  Mainsee Pharma GmbH til GL Investments ehf. Í maí 2010 var síðan gerður lánssamningur milli Mainsee Pharma GmbH sem lánveitanda og Salt Investments ehf. sem lántaka, undirritaður af Sigurgeiri Guðlaugssyni fyrir hönd fyrrnefnda félagsins og stefnda Árna fyrir hönd þess síðarnefnda. Í samningnum sagði meðal annars: „Í desembermánuði árið 2007 greiddi Actavis Group hf. reiðufé sem skuldað var lánveitanda til lántakanda að upphaflegri höfuðstólsfjárhæð EUR 4.450.000,00. Í þeim tilgangi að staðfesta skriflega að greiðslan sé lán frá lánveitanda til lántakanda ... samþykkja aðilar lánssamnings þessa ... eftirfarandi: ... Lánveitandi hefur veitt lántakanda að uppfylltum skilmálum og háð skilyrðum samnings þessa lán að höfuðstólsfjárhæð EUR 4.450.000,00. Aðilar staðfesta hér með lánveitinguna skriflega.“ Fyrir héraðsdómi kvaðst Sigurgeir á þessum tíma hafa verið framkvæmdastjóri og eini stjórnandi Mainsee Pharma GmbH og hafi hann gert umræddan samning að höfðu samráði við Glitni banka hf., en dótturfélag bankans var  þá sem fyrr greinir orðið eigandi félagsins. Með samningi 24. nóvember 2010 voru eignir Mainsee Pharma GmbH seldar dótturfélagi Actavis Group hf., Actavis Deutschland GmbH & Co. KG, að undanskildum eignum, sem sérstaklega voru tilgreindar í samningnum, þar með talinni áðurnefndri kröfu fyrstgreinda félagsins á hendur stefnda Salt Investments ehf.

II

Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi reisir áfrýjandi kröfu sína um skaðabætur á hendur stefndu á sakarreglunni með því að stefndu Árni og Vilhelm Róbert hafi án umboðs og heimildar látið millifæra 4.000.000 evrur í eigu Mainsee 516 V V GmbH af reikningi Actavis Group hf. inn á reikning stefnda Salt Investments ehf. og nýtt í eigin þágu. Áfrýjandi kveðst hafa samið við Glitni banka hf. 19. júlí 2010 um fulla greiðslu á ábyrgðarskuldbindingu sinni frá 6. september 2007. Krafa bankans á hendur sér vegna ábyrgðarinnar hafi verið 2.000.000 evrum hærri en annars hefði orðið sökum ólögmætrar og saknæmrar háttsemi stefndu og nemi tjón sitt þeirri fjárhæð. Hér fyrir dómi heldur áfrýjandi því einnig fram að fjárhagsstaða Salt Investments ehf. hafi verið slæm á þeim tíma þegar millifærslan átti sér stað og hafi Árni og Vilhelm Róbert þá þegar vitað eða mátt vita að félagið gæti ekki endurgreitt fjármunina. Þessi málsástæða var ekki höfð uppi í héraði og kemur hún því ekki til álita við úrlausn málsins, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Stefndu byggja kröfu sína um sýknu meðal annars á því að stefndi Árni hafi á þeim tíma, sem um ræðir, verið í fyrirsvari fyrir Mainsee 516 V V GmbH og því verið heimilt að flytja féð frá Actavis Group hf. til stefnda Salt Investments ehf. Einnig hafi legið fyrir í ársreikningi hins þýska félags fyrir árið 2007 að um hafi verið að ræða lán frá því til hins stefnda félags. Þá verði ráðstöfunin á fénu til þess síðarnefnda 3. desember 2007 allt að einu talin lögmæt þar sem gerður hafi verið um hana sérstakur samningur í maí 2010, en tilgangurinn með honum hafi verið að staðfesta að um hafi verið að ræða lán frá þýska félaginu til hins stefnda félags.

III

Samkvæmt framansögðu heldur áfrýjandi því fram að greiðslan á 4.450.000 evrum til Actavis Group hf. 7. september 2007 hafi verið lán til félagsins frá Mainsee 516 V V GmbH sem borið hafi að endurgreiða þegar fyrir lá í nóvember sama ár að ekkert yrði af kaupum þýska félagsins á vörubirgðum af DeltaSelect GmbH. Í stað þess hafi stefndi Árni án heimildar látið millifæra 3. desember 2007, með vitund og vilja stefnda Vilhelms Róberts, 4.000.000 evrur af fjárhæðinni frá Actavis Group hf. til stefnda Salt Investments ehf.

Með skírskotun til þess, sem áður greinir, er fallist á með áfrýjanda að greiðslan 7. september 2007 hafi falið í sér lán frá hinu þýska félagi til Actavis Group hf. Af hálfu stefndu er því borið við að stefndi Árni hafi haft fullgilda heimild til að ráðstafa stærstum hluta lánsins til stefnda Salt Investments ehf. á grundvelli umboðs samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Í gögnum málsins, sem stafa frá þeim tíma er hér um ræðir, kemur ekkert fram um að Árni hafi gegnt starfi á vegum þýska félagsins, sem veitti honum heimild til þessarar ráðstöfunar, en staða hans sem eina stjórnarmanns í móðurfélaginu Mainsee Holding ehf. heimilaði honum það ekki. Þar sem á skorti samþykki framkvæmdastjóra og eina stjórnanda þýska dótturfélagsins á þeim tíma, hvort heldur Angeliku Hundt eða Sigurgeirs Guðlaugssonar, var ráðstöfun fjárins til Salt Investments ehf. því ólögmæt á sínum tíma.

Með lánssamningnum í maí 2010, sem undirritaður var fyrir hönd Mainsee Pharma GmbH, áður Mainsee 516 V V GmbH, af Sigurgeiri Guðlaugssyni, framkvæmdastjóra og eina stjórnanda félagsins á þeim tíma, var staðfest að stefndi Salt Investments ehf. hefði yfirtekið lánið sem Actavis Group hf. var veitt í september 2007. Í samningnum fólst í raun skuldbindandi samþykki þýska félagsins sem lánveitanda við því að hið stefnda félag yrði fyrir skuldskeytingu nýr skuldari að láninu í stað hins upphaflega, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 66/1998, sem birtur er í dómasafni það ár, bls. 3631. Með þessu brast grundvöll fyrir því að áfrýjandi gæti krafist skaðabóta úr hendi stefndu vegna ráðstöfunarinnar 3. desember 2007. Þegar af þeirri ástæðu verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu þeirra af kröfum hans.

Eftir þessum málsúrslitum og með vísan til 2. mgr. 132. gr. laga nr. 91/1991 verður áfrýjanda gert að greiða stefndu málskostnað, hverjum fyrir sig, sem ákveðinn er í einu lagi á báðum dómstigum eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um sýknu stefndu, Árna Harðarsonar, Vilhelms Róberts Wessman og Salt Investments ehf., af kröfum áfrýjanda, Björgólfs Thors Björgólfssonar.

Áfrýjandi greiði stefndu, hverjum um sig, samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. febrúar 2016

Mál þetta var höfðað 18. júlí 2014 og dómtekið 28. janúar 2016.

Stefnandi er Björgólfur Thor Björgólfsson, 55 Clarendon Road, London, Bretlandi.

Stefndu eru Árni Harðarson, Bergstaðastræti 49, Reykjavík, Vilhelm Róbert Wessman, Lálandi 10, Reykjavík, og Salt Investments ehf, Smáratorgi 3, Kópavogi.

                Stefnandi krefst þess að stefndu verði gert að greiða stefnda sameiginlega (in solidum) 2.000.000 evra með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 19. júlí 2010 til þingfestingardags, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags.

Stefnandi krefst þess til vara að stefndu verði sameiginlega (in solidum) dæmdir til að greiða honum skaðabætur að álitum ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 19. júlí 2010 til þingfestingardags, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags.

Þá krefst stefnandi þess í aðalkröfu og varakröfu að stefndu verði sameiginlega (in solidum) dæmdir til að greiða honum málskostnað samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða mati dómsins.

Af hálfu stefndu er þess krafist að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefndu málskostnað.

I.

Málavextir

Þegar atvik máls þessa áttu sér stað voru stefnandi, Björgólfur Thor, og stefndi, Vilhelm Róbert Wessman, viðskiptafélagar. Stefnandi var framan af ráðandi hluthafi í Actavis Group hf. sem er í dag með stærri samheitalyfjafyrirtækjum heims. Í eigu félagsins er fjöldi fyrirtækja í lyfjageiranum. Í júlí 2007 varð stefnandi einn eigandi Actavis Group hf. í gegnum félag sitt, Novator Pharma S. à r.l. 

Stefndi Vilhelm Róbert var forstjóri félagsins frá 2002 eftir að félagið Delta hf., sem hann veitti forstöðu, var sameinað Actavis Group hf. Hann lét af störfum hjá Actavis Group hf. í ágúst 2008. Stefndi Árni Harðarson starfaði einnig hjá félaginu, fyrst sem einn af framkvæmdastjórum þess en síðar sem lögfræðingur. Hann hætti í júlí 2007 og tók þá við starfi framkvæmdastjóra hjá stefnda Salt Investments ehf. en félagið er í eigu stefnda Vilhelms Róberts. 

Félagið Mainsee Holding ehf. var til jafns í eigu Novator Pharma II S. à r.l., félags í eigu stefnanda, og Salt Pharma S. à r.l., félags í eigu stefnda Vilhelms Róberts, sem jafnframt var dótturfélag stefnda Salts Investments ehf. Mainsee Holding ehf. var eigandi alls hlutafjár þýska félagsins, Mainsee. 516 V V GmbH, síðar Mainsee Pharma GmbH (hér eftir Mainsee). Í júlí 2007 mun stefndi Vilhelm Róbert hafa keypt 12% í Novator Pharma.

Þann 6. september 2007 gerðu stefnandi og stefndi Vilhelm Róbert samkomulag við Glitni banka hf. um að gangast í skiptaábyrgð (pro rata) til jafns fyrir skuldbindingum Mainsee gagnvart Glitni banka hf. Daginn eftir keypti Mainsee rekstur DeltaSelect GmbH fyrir samheitalyf og voru kaupin fjármögnuð með 56.250.000 evra láni frá Glitni banka hf. Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. kaupsamningsins var kaupverð starfseminnar 50.000.000 evra og greiddi bankinn þá upphæð inn á geymslureikning seljanda í banka í Þýskalandi. Í samningnum var sérstakt ákvæði, grein 13c, um kaup á vörubirgðum en greiðsla fyrir þær átti fara fram við afhendingu, þó ekki síðar en 60 dögum eftir undirritun. Ágreiningslaust er að málsaðilar áætluðu kaupverð fyrir vörubirgðir allt að 4.450.000 evrum en verðið kemur ekki fram í samningnum.

Samhliða fyrrnefndum samningi voru gerðir samningar við dótturfélög Actavis Group hf., m.a. um dreifingu lyfja DeltaSelect GmbH þar eð Mainsee hafði ekki lyfsöluheimildir og um leigu reksturs Mainsee til Actavis Group hf. Óumdeilt er að til stóð að Mainsee yrði síðar sameinað Actavis Group hf. Dráttur varð á kaupum félagsins á vörulager DeltaSelect GmbH og ekki varð heldur af sölu Mainsee til Actavis Group hf. af viðskiptalegum ástæðum sem ítarlega eru raktar í greinargerð og vikið verður að hér á eftir.

Þann 7. september 2007, daginn sem ofangreind kaup gengu í gegn, sendi stefndi Árni tölvubréf til Mark Keatley fjármálastjóra Actavis Group hf. og kvaðst vera að ljúka við lánssamning við Glitni banka hf. Segir í tölvubréfinu að 50 milljónir evra verði greiddar á geymslureikningi og lagði hann til að 4 milljónir evra fyrir fyrrnefndar vörubirgðir yrðu lagðar inn á bankareikning Actavis Group hf., „...svo það væri öruggt fyrir Actavis að halda 4 milljónum fyrir hönd þýska SPV. Þetta þýðir líka að þýska SPV þarf ekki að stofna sérstakan reikning hjá Glitni á morgun og ganga í gegnum peningaþvættisferlið. Ég hugsaði að Actavis gæti nýtt sér þetta þótt ekki væri formlegt lán frá SPV (því það væri mögulega í ósamræmi við skilmála DB). Actavis notar síðan þessa fjármuni í fyllingu tímans til að borga fyrir birgðirnar og það er ekki fyrr en varan verður seld áfram.“ Í svarbréfi fjármálastjórans var á þetta fallist með orðunum „Þetta er mjög góð áætlun. Ég staðfesti samþykki mitt.“ Afrit bréfsins var sent Rafnari Lárussyni, deildarstjóra fjárstýringar Actavis Group hf., þar sem hann er beðinn um að aðstoða Árna við að koma vörslureikningnum á fót. Þar segir jafnframt; „athugaðu að þetta gefur okkur í raun 4 m eur sem skammtímahöggvörn, sem er gagnlegt í samhengi við sjóðsstýringu...“. Í kjölfarið voru 4.450.000 evrur lagðar inn á reikning Actavis Group hf.

Á þessum tíma var stefndi Árni stjórnarformaður Mainsee Holding ehf., móðurfélags Mainsee. Sigurgeir Gunnlaugsson var starfsmaður Novator og framkvæmdastjóri Mainsee ásamt því að sitja í stjórn Mainsee Holding ehf. með stefnda Árna.

Þann 29. nóvember 2007 sendi starfsmaður stefnda Salt Investments ehf., Matthías H. Johannessen, tölvuskeyti til Rafnars, með afriti til stefnda Árna, og óskaði eftir því að „rúmar“ 4 milljónir evra yrðu lagðar inn á bankareikning Salt Investments ehf. í byrjun desember. Daginn eftir óskaði hann jafnframt eftir uppgjöri á vöxtum fyrir það tímabil sem féð hafði legið hjá Actavis Group hf. Við beiðninni var orðið þann 3. desember 2007 og voru 4 milljónir evrur lagðar inn á reikning Salt Investments ehf. Engar skýringar komu fram undir rekstri málsins á því hvers vegna öll upphæð vörulagersins var ekki millifærð og er ekki annað að sjá en að 450.000 evrur hafi orðið eftir á reikningi Actavis Group hf.

Í maí 2010 var gerður sérstakur samningur milli Mainsee annars vegar sem lánveitanda og Salt Investments ehf. sem lántaka. Samningur þessi er ódagsettur en undirritaður af Sigurgeir Guðlaugssyni f.h. Mainsee og stefnda Árna. Tilgangur samningsins er sagður að skjalfesta skriflega lánveitingu til lántaka að upphæð 4.450.000 evrur. Fram kemur að með vöxtum og dráttarvöxtum frá 6. september 2007 sé skuldin 31. september 2009 samtals 5.706.5551 evrur.

Þann 4. nóvember 2009 tók Glitnir banki hf. yfir Mainsee Holding ehf. sem var selt dótturfélagi bankans, GL Investments ehf. Rúmu ári síðar seldi bankinn þýsku dótturfélagi Actavis Group hf. lyfsölurekstur og ýmsar eigur Mainsee en kaupverðið var 30 milljónir evra. Í sölusamningi er tekið fram að undanskilið sé í sölu eigna Mainsee krafa félagsins á hendur stefnda Salt Investments ehf. vegna láns þess sem mál þetta snýst um.

Af hálfu stefndu er lögð á það áhersla að forsaga ofangreindra viðskipta skipti máli þegar mat er lagt á réttmæti þeirra ráðstafana sem hér um ræðir. Gera þeir ítarlegar athugasemdir við málsatvikalýsingu í stefnu og rekja jafnframt forsögu fyrirhugaðra viðskipta sem áður var vikið að. Í greinargerð er því lýst að fyrirætlanir um að Actavis Group hf. tæki yfir DeltaSelect GmbH hafi ekki gengið eftir vegna strangra skilyrða Deutsche Bank sem sett voru í kjölfar þess að bankinn fjármagnaði að stærstum hluta yfirtöku stefnanda á Actavis Group hf. í júlí 2007. Þessi skilyrði hafi takmarkað verulega heimildir til frekari lántöku eða til að ganga í fjárhagslegar ábyrgðir. Skilyrðin hafi m.a. falið í sér að Actavis Group hf. hafi ekki verið heimilt að taka á sig fjárhagslegar skuldbindingar nema að mjög takmörkuðu leyti. Varð því úr að Mainsee myndi eiga og reka DeltaSelect GmbH tímabundið eða þar til Actavis Group hf. gæti tekið það yfir. Glitnir banki hf. hafi veitt Mainsee lán til kaupanna á félaginu og sett sem skilyrði að stefnandi og Vilhelm Róbert gengjust í persónulega ábyrgð fyrir lánveitingunni. Hafi stefndi Vilhelm Róbert hins vegar sett það skilyrði að stefnandi myndi skuldbinda sig til að standa að því að Mainsee yrði selt til Actavis Group hf. eins fljótt og auðið yrði á nánar tilgreindu verði eins og samkomulag þeirra beri með sér en það er á meðal gagna málsins. Hafi auk þess ætíð verið ætlunin að fyrrgreint rekstrarfyrirkomulag DeltaSelect GmbH yrði tímabundið og þar með lánið einnig en það var aðeins til 15 mánaða.

Stefnandi vísar til þess að hann hafi í kjölfar yfirtöku Glitnis banka hf. á Mainsee og sölu eigna þess verið krafinn um greiðslu á grundvelli yfirlýsingar hans um ábyrgð á lánssamningi Mainsee og bankans. Hafi hann gert samkomulag við bankann þann 19. júlí 2010 um uppgjör krafna bankans samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingunni. Telur hann ljóst að krafa bankans á hendur honum hafi verið hærri en hún hefði ella orðið vegna saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefndu og var mál þetta því höfðað. 

Þann 30. maí 2014 lagði stefnandi fram kæru til sérstaks saksóknara á hendur stefndu Árna og Vilhelm Róbert vegna ætlaðra auðgunarbrota þeirra í tengslum við millifærslu fjármuna Mainsee yfir á reikning Salt Investments ehf. Af kærunni varð helst ráðið að ætlað brot væri talið fjárdráttur, þ.e. brot gegn 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Kærunni var vísað frá þann 28. nóvember 2014. Var talið að það sem ráðið yrði af fyrirliggjandi gögnum gæfi ekki vitneskju eða grun um að refsivert brot hefði verið framið í tengslum við millifærsluna. Stefnandi kærði ákvörðun þessa til ríkissaksóknara og krafðist þess að hún yrði felld úr gildi og málið tekið til rannsóknar. Í afstöðu ríkissaksóknara til kærunnar dagsettri 20. janúar 2015 segir að ríkissaksóknari taki undir rök sérstaks saksóknara um að viðskipti þau sem urðu tilefni kæru væru ekki með þeim hætti að séð verði að brot hafi verið framið gegn 247. gr. almennra hegningarlaga. Var ákvörðun sérstaks saksóknara um að vísa málinu frá því staðfest.

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi reisir kröfu sína um skaðabætur á hendur stefndu á almennu skaðabótareglunni og byggir á því að stefndu Árni og Vilhelm Róbert hafi, án umboðs og heimildar, látið millifæra 4.000.000 evrur í eigu Mainsee af reikningi Actavis Group hf. inn á reikning Salt Investments ehf. og nýtt í eigin þágu. Stefndu Árni og Vilhelm Róbert hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi með millifærslu fjármunanna inn á bankareikning í eigu félags sem Árni stýrði. Jafnframt hafi þeir sýnt af sér saknæmt og ólögmætt athafnaleysi. Krafa á hendur stefnda Salt Investments ehf. byggi á almennu skaðabótareglunni og reglunni um vinnuveitendaábyrgð.

Óumdeilt sé að Mainsee hafi átt fyrrgreinda fjármuni í vörslu Actavis Group hf. og að stefndi Salt Investments ehf. hafi ekki átt lögmætt tilkall til þeirra.

Á því er byggt að stefndu, Árni og Vilhelm Róbert hafi með millifærslu fjármunanna tekið eign Mainsee traustataki. Sú háttsemi stefndu hafi verið ólögmæt og saknæm enda hafi stefndu ekki haft umboð frá stjórn Mainsee til að ráðstafa fjármunum félagsins til stefnda Salt Investments ehf. Félagið hafi einfaldlega slegið eign sinni á fyrrgreinda fjármuni og nýtt í eigin þágu á kostnað rétts eiganda fjármunanna Mainsee. Þannig hafi þeir misnotað aðstöðu sína og ranga trú starfsmanna Actavis Group hf. um að þeir hefðu heimild til töku fjármunanna.

Stefnandi telur sannað að stefndu, Árni og Vilhelm Róbert, hafi óskað eftir millifærslu fjármunanna enda þótt starfsmaður Salt Investments ehf. hafi sett þá ósk fram í tölvuskeyti.

Stefnandi telur stefnda Vilhelm Róbert hafa staðið á bak við ólögmæta töku fjárins. Þá telur stefnandi a.m.k. hafið yfir allan vafa að hann hafi haft vitneskju um millifærsluna og að hún hafi verið gerð með hans vilja og samþykki. Stefndi Vilhelm Róbert hafi verið eigandi Salt Investments ehf. og virkur stjórnandi þess. Hafi honum að sjálfsögðu ekki geta dulist millifærslan og hafi honum verið kunnugt um eða mátt vera kunnugt um ólögmæti hennar. Stefndi hafi verið forstjóri Actavis Group hf. sem hafi samþykkt millifærslu fjármunanna inn á reikning félags síns og hafi því staðið fyrir millifærslu fjármunanna.

Bæði fyrirtækið og stjórnendur þess hafi sýnt af sér ólögmæta og saknæma háttsemi í skilningi sakarreglunnar með því að móttaka fjármunina og nýta í þágu félagsins og eigenda þess. Þá byggir stefnandi á því að stefndi, Salt Investments ehf., beri skaðabótaábyrgð gagnvart sér sökum saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stjórnenda félagsins, stefndu, Vilhelms Róberts og Árna, sem fyrr er rakin. Byggir sú krafa m.a. á reglum skaðabótaréttar um vinnuveitendaábyrgð.

Verði talið ósannað að stefndu hafi sjálfir fyrirskipað millifærsluna er á því byggt að þeir hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta hegðun og saknæmt og ólögmætt athafnaleysi með því að færa ekki fjármunina aftur til Mainsee. Þar sem ekkert hafi orðið af kaupum Mainsee á vörulager af DeltaSelect GmbH hafi átt að endurgreiða Mainsee 4.450.000 evrur, sem varðveittar voru á bankareikningi Actavis Group hf.

Framangreind háttsemi stefndu hafi skaðað verulega hagsmuni stefnanda, en vegna hennar hafi þeir fjármunir ekki staðið til fullnustu kröfu Glitnis banka hf. á hendur Mainsee samkvæmt lánssamningi aðila. Stefnandi hafi verið ábyrgur fyrir greiðslu 50% krafna Glitnis banka hf. á hendur Mainsee samkvæmt lánssamningi aðila. Stefnandi hafi því orðið fyrir miklu fjárhagstjóni vegna háttsemi stefndu, enda ábyrgð hans meiri en ella hefði verið. Mainsee hafi greitt alls 31.700.000 evrur inn á kröfu Glitnis banka hf. samkvæmt lánssamningi. Þar af hafi 30.000.000 evra verið greiddar inn á kröfuna við yfirtöku Glitnis banka hf. á öllu hlutafé í Mainsee, en eignir félagsins seldar til Actavis Group hf. fyrir þá fjárhæð. Í kjölfar yfirtöku Glitnis banka hf. á félaginu og sölu eigna þess hafi stefnandi verið krafinn greiðslu á grundvelli yfirlýsingar hans um ábyrgð á lánssamningi Mainsee og bankans.

Stefnandi hafi samið við Glitni banka hf. þann 19. júlí 2010 um fulla greiðslu á ábyrgðarskuldbindingu sinni vegna Mainsee. Stefnandi byggir á því að krafa Glitnis banka hf. á hendur honum vegna fyrrgreindrar ábyrgðar hafi verið 2.000.000 evra hærri sökum háttsemi stefndu. Telur hann að ef stefndu hefðu ekki tekið fjármunina traustataki hefðu þeir a.m.k. um síðir gengið til greiðslu inn á lánið og a.m.k. eigi síðar en þann dag sem Glitnir banki hf. yfirtók félagið. Þar með hefði krafa Glitnis banka hf. ekki aðeins lækkað um 31.700.000 evrur heldur einnig um 4.000.000 evra. Í ljósi þess að stefnandi hafi borið 50% skipta ábyrgð (pro rata) á greiðslu skuldbindinga félagsins sé ljóst að krafa bankans á hendur stefnanda hafi verið 2.000.000 evra hærri í júlí 2010 en verið hefði ef þeir fjármunir hefðu verið til taks. Tjón stefnanda nemi þannig 2.000.000 evra og sé mál þetta höfðað til greiðslu bóta vegna þess tjóns hans.

Stefnandi telur skýr orsakatengsl á milli háttsemi stefndu og tjóns stefnanda sem sé sennileg afleiðing háttsemi þeirra.

Verði ekki fallist á kröfu stefnanda á ofangreindum grunni er þess krafist að stefndu verði dæmdir til greiðslu skaðabóta að álitum allt að 2.000.000 evra ásamt vöxtum. Stefnandi byggir á því að nægar líkur séu leiddar að því að tjón hafi hlotist af skaðabótaskyldri háttsemi stefndu, enda sé rökrétt að ætla að ábyrgðarskuldbinding lækki ef aðalskuldari greiði hærri fjárhæð inn á skuld sína. Krafa stefnanda um bætur að álitum byggir á öllum sömu röksemdum og málsástæðum og aðalkrafa

III.

Málsástæður og lagarök stefndu

Stefndu byggja kröfu sína um sýknu í fyrsta lagi á aðildarskorti stefnanda, þar sem hann sé ekki bær til að hafa uppi kröfur á þeim grundvelli að stefndu hafi með saknæmum og ólögmætum hætti tekið fjármuni frá félaginu Mainsee. Ættu málsástæður stefnanda einhverja stoð væri um að ræða kröfu sem félagið ætti á hendur stefndu um skaðabætur, en ekki krafa sem fyrrverandi hluthafi eða aðrir gætu haft uppi. 

Þá benda stefndu á að sú skipta yfirlýsing (pro rata), sem stefnandi byggir kröfur sínar á, sé yfirlýsing um sjálfskuldarábyrgð stefnanda. Sé bankanum í sjálfsvald sett hvort hann gangi fyrst að félaginu eða að ábyrgðarmönnum, eða hvort hann gangi t.d. eingöngu að ábyrgðarmönnum. Því ráðist sú skylda sem stefnandi ber samkvæmt yfirlýsingunni ekki af þeim heimtum sem fáist úr félaginu. Samkvæmt yfirlýsingunni lofaði stefnandi að inna af hendi skyldur sínar óháð því hvað fengist frá félaginu upp í lánið. Endurkrafa stefnanda vegna greiðslna á grundvelli þessa ábyrgðarloforðs hans getur því einungis beinst að félaginu sjálfu en ekki að öðrum, en þess megi geta að ekkert liggi fyrir í málinu um að stefnandi hafi haft uppi slíkar kröfur gegn félaginu.

Í öðru lagi byggja stefndu á því að Mainsee sé þýskt félag og um það gildi þýsk lög. Málatilbúnaður stefnanda byggi á því að stefndu hafi með saknæmum og ólögmætum hætti misfarið með fjármuni félagsins Mainsee, með óheimilum flutningi þeirra til stefnda Salts Investments ehf. Vilji stefnandi halda því fram að háttsemi stefndu gagnvart þýska félaginu hafi verið saknæm og ólögmæt verði stefnandi að sanna efni þeirra lagareglna sem eiga við og hvernig tilgreind háttsemi teljist ólögmæt og saknæm samkvæmt þeim lögum sem um félagið gilda, auk fleiri atriða. 

Þá byggja stefndu á því að um lögmæta lánveitingu hafi verið að ræða til stefnda Salt Investments ehf. Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því að háttsemi stefndu hafi verið saknæm og ólögmæt í tengslum við hana. Af hálfu stefndu er á því byggt að gögn málsins sýni skýrlega að stefndi Árni hafi farið með allt fyrirsvar Mainsee jafnt gagnvart Glitni banka hf., DeltaSelect GmbH og móðurfélagi þess PlasmaSelect AG, sem og gagnvart Actavis Group hf. Það hafi því verið honum að fullu heimilt að ákveða að bjóða Actavis Group hf. að vista umrætt fé Mainsee tímabundið. Þá hafi honum af sömu ástæðu jafnframt verið heimilt að flytja féð aftur frá Actavis Group hf. fyrir árslok 2007, þegar þurfti að færa það í ársreikning þess félags sem tekið lán en ganga þess í stað frá því sem lánveitingu til stefnda Salts Investments ehf. og færa það réttilega þannig til bókar, bæði þar og í reikningum Mainsee. Stefndu mótmæla því sem röngu og ósönnuðu að gert hafi verið sérstakt samkomulag milli aðila um að þessir fjármunir skyldu liggja hjá Actavis Group hf. allt svo sem haldið er fram í stefnu.

Stefndu benda á að lánveitingin sem og heimild stefnda Árna til hennar hafi síðan endurtekið verið staðfest af stjórn Mainsee. Um það vísist til ársreikninga félagsins og þeirrar staðreyndar að vaxtatekjur þess af láninu hafi verið sérstaklega tilgreindar í ársreikningi félagsins og í skattframtali þess. Lánveitingin frá Mainsee verði allt að einu talin lögmæt þar sem gerður hafi verið um hana sérstakur lánasamningur við félagið en í 1. grein hans sé áréttað að tilgangurinn með honum sé að „staðfesta skriflega að um sé að ræða lán“ frá Mainsee til Salt Investments ehf.

Þá hafi Glitnir banki hf. einnig staðfest réttmæti og lögmæti lánsins eftir að hafa tekið yfir stjórn Mainsee GmbH, sbr. t.d. samrunaefnahagsreikning Mainsee Holding ehf., ársreikninga hins sameinaða félags og yfirlýsingu um skuldajöfnuð.

Sú málsástæða stefnanda að um einhliða töku á fjármunum hafi verið að ræða samræmist því ekki fyrirliggjandi gögnum. Því sé staðhæfingum stefnanda um að um ólögmætan gerning hafi verið að ræða alfarið mótmælt sem röngum og ósönnuðum.

Af hálfu stefndu er byggt á að háttsemi stefnda Vilhelms Róberts verði, hvað varði umrædda lánveitingu Mainsee til stefnda Salts Investments ehf. þann 3. desember 2007, ekki talin saknæm, þegar af þeirri ástæðu að hann hafi ekki komið að lánveitingunni og ekki vitað af láninu fyrr en það hafði verið veitt og féð flutt til stefnda Salt Investments ehf. Staðhæfingum stefnanda um saknæmi stefnda Vilhelms Róberts er því vísað á bug sem ósönnuðum.

Þá er af hálfu stefndu byggt á að háttsemi stefnda Salt Investments ehf. hafi ekki verið saknæm, enda hafi félagið einfaldlega tekið lán á markaðskjörum og fært samviskusamlega í bækur sínar sem slíkt. Staðhæfingum stefnanda um saknæmi stefnda Salt Investments ehf. sé því vísað á bug sem ósönnuðum.

Háttsemi stefnda Árna varðandi umrætt lán hafi ekki verið saknæm, enda hafi hann hvorki haft ásetning né sýnt af sér nokkra þá hegðun er geti talist til gáleysis hvað varðar meint tjón stefnanda, þ.e. að huglæg afstaða stefnda Árna hafi í engu stuðlað á saknæman hátt að því að stefnandi kunni að hafa greitt Glitni banka hf. hærri fjárhæð en ella í uppgjöri á persónulegri ábyrgð sinni á láni Glitnis banka til Mainsee.

Þvert á móti er af hálfu stefndu byggt á að með því að endurheimta 4 milljónir evra frá félagi stefnanda, Actavis Group hf., og færa fjármunina sem lán til stefnda Salt Investments ehf. á markaðskjörum, hafi huglæg afstaða stefnda Árna réttilega verið að tryggja hagsmuni Mainsee hvað varði fjármunina. Verði það ráðið af þeim aðgerðum sem hann hafi gripið til. Staðhæfingum stefnanda um saknæmi stefnda Árna varðandi meint tjón stefnanda sé því sérstaklega vísað á bug sem ósönnuðum.

Loks er af hálfu stefndu byggt á að málsgrundvöllur stefnanda sé í öllum meginatriðum rangur og ósannaður. Engar sannanir hafi verið færðar fyrir því að stefndu hafi haft ásetning til að valda stefnanda meintu tjóni eða að þeir hafi gerst sekir um gáleysi sem hafi leitt til meints tjóns. Því er staðhæfingum stefnanda um saknæmi stefndu alfarið mótmælt sem röngum og ósönnuðum.

Í stefnu og framlögðum gögnum af hálfu stefnanda sé ekki myndast við að sanna bótagrundvöll krafna hans, svo sem að sýna fram á að skilyrði almennu skaðabótareglunnar, vinnuveitendaábyrgðar eða annarrar bótareglu séu uppfyllt í málinu. Þá hafi stefnandi engar sönnur fært fyrir því að orsakatengsl séu á milli lánveitingarinnar og hins meinta tjóns eða að tjónið hafi verið sennileg afleiðing lántökunnar.

Þá sé með öllu ósannað að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni, í hverju það sé fólgið, hvert umfang þess sé og að stefndu beri ábyrgð á því en ekki stefnandi sjálfur. Eru ástæður þess ítarlega raktar í greinargerð en helstu ástæður þess eru taldar vera að allt frá lánveitingunni hafi lánið til stefnda Salt Investments ehf. verið bókfært sem slíkt hjá Mainsee og síðar Mainsee Holding ehf. Lánið hafi því allan tímann verið til staðar meðal eigna félagsins.

Þá liggi fyrir í ársreikningi Mainsee að þrátt fyrir að það hafi ráðstafað sinni helstu eign til stefnanda með framangreindum hætti og greitt söluandvirðið upp í bankalánið þá hafi það haldið eftir öðrum eignum, einkum láninu til stefnda Salt Investments ehf. Hafi þessi krafa félagsins verið sérstaklega undanþegin við sölu Glitnis banka hf. til dótturfélags Actavis Group hf.

Af hálfu stefndu er jafnframt því byggt á að það sé ósannað hversu mikið Mainsee hafi alls greitt inn á lánið frá Glitni banka hf. Þá sé ósannað að stefnandi hafi greitt kröfu bankans enda komi aðeins fram í gögnum að hann hafi samið um hana. Þá sé í bréfinu heldur ekki staðfest að krafa bankans hafi verið greidd með greiðslu að þeirri fjárhæð sem stefnandi heldur fram.

Af hálfu stefndu er enn fremur byggt á að þó að talið yrði sýnt fram á að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni af þeim sökum að Mainsee hafi ekki að fullu gert upp lán sitt til Glitnis banka ehf. þá sé skýringa á því getuleysi félagsins alfarið að leita í ráðstöfunum stefnanda sjálfs og félaga hans sem rýrðu stórkostlega fjárhag Mainsee til hagsbóta fyrir félög stefnanda og er það nánar rökstutt í greinargerð.

Vaxtakröfum stefnanda er mótmælt sem órökstuddum. Þá er kröfum um dráttarvexti og upphafsdegi þeirra sérstaklega mótmælt.

IV.

Niðurstaða

                Stefnandi krefst skaðabóta úr hendi stefndu og byggir kröfu sína á því að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna athafna- eða athafnaleysis þeirra. Rekur stefnandi tjón sitt til þess er 4.000.000 evra, sem voru í vörslum Actavis Group hf., voru millifærðar í desember 2007 af reikningi félagsins inn á reikning stefnda Salt Investments ehf. Um var að ræða fjármuni sem ætlaðir voru til kaupa á vörubirgðum eins og fram hefur komið, upphaflega að fjárhæð 4.450.000 evrur og voru eign Mainsee. Stefnandi telur að með þessari háttsemi hafi stefndu brotið gegn hagsmunum félagsins og stefnanda en hann hafi gengist í skipta ábyrgð (pro rata) fyrir skuldum félagsins eins og áður er rakið. Kveðst stefnandi persónulega hafa orðið fyrir fjárhagstjóni þar sem ábyrgðargreiðsla hans varð hærri en hún hefði orðið ef þessir fjármunir hefðu staðið til fullnustu kröfu Glitnis banka hf. á hendur Mainsee.

                Sýknukrafa stefndu byggir í fyrsta lagi á aðildarskorti þar sem stefnandi sé ekki bær til að hafa uppi kröfu um að stefndu hafi tekið fjármuni Mainsee með saknæmum hætti. Á þessa málsástæðu stefndu er ekki fallist. Krafa stefnanda á hendur stefndu er á því reist að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna ólögmætrar og saknæmrar háttsemi þeirra. Telst stefnandi vera réttur aðili að þeirri kröfu, sbr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.   

                Stefnandi reisir kröfu sína á hendur stefndu á almennu skaðabótareglunni. Byggir hann á því að ofangreind millifærsla af reikningi Actavis Group hf. yfir á reikning stefnda Salt Investments ehf. hafi verið saknæm og ólögmæt háttsemi. Stefndu Árni og Vilhelm Róbert hafi með millifærslunni dregið fjármuni Mainsee til félagsins. Stefndi Salt Investments ehf. hafi ekki átt neitt tilkall til fjárins og millifærslan hafi ekki verið framkvæmd í umboði fyrirsvarsmanna Mainsee.             Stefndu hafna þessu alfarið og telja að um hafi verið að ræða lögmæta lánveitingu Mainsee til stefnda Salt Investments ehf. sem ávallt hafi verið gerð grein fyrir í bókum beggja félaga. Mainsee eigi enn kröfu á hendur Salt Investments ehf. sem engin tilraun hafi verið gerð til að innheimta.

                Óumdeilt er að stefndi Árni, sem var þegar hér er komið sögu orðinn framkvæmdastjóri stefnda Salt Investments ehf., lagði til ofangreinda millifærslu og var henni eins og áður er lýst fylgt eftir af Matthíasi Johannessen, starfsmanni félagsins. Átti hann í tölvubréfasamskiptum við Rafnar Lárusson sem gerði engar athugasemdir við beiðnina. Voru 4.000.000 evra millifærðar á reikning Salt Investments ehf. 3. desember 2007.

                Stefnandi byggir á því að stefndi Árni hafi ekki haft umboð til þess að gefa fyrirmæli um ofangreinda millifærslu. Forsaga málsins og fyrri viðskipti hafi því afar takmarkaða þýðingu, ef nokkra.

                Dómurinn telur að við mat á því hvort ofangreind háttsemi stefnda Árna verði metin honum til sakar verði að líta til þess sem stefnanda sjálfum mátti vera ljóst í tengslum við umrædda gerninga og hlutverk stefnda. Hvorki stefnandi né stefndi Vilhelm Róbert gáfu skýrslu fyrir dóminum og verður því að draga ályktanir um það atriði af fyrirliggjandi gögnum og framburðum vitna.

Stefnandi hefur ekki andmælt sem rangri lýsingu stefndu á þeim viðskiptum sem fyrirhuguð voru og ætluðu hlutverki Mainsee í þeim. Ljóst má vera að um margþætt verkefni var að ræða þar sem menn höfðu ákveðna framtíðarsýn og lagður var grunnur að með markvissum hætti. Er óumdeilt að Actavis Group hf. var ætlað að njóta þessa að lokum. Verkefnið var í huga stefnanda og stefnda Vilhelms Róberts talið það mikilvægt að þeir gengust í skipta ábyrgð (pro rata) fyrir þeim skuldbindingum sem áður er lýst.

Dómurinn telur að gögn málsins styðji framburð stefnda Árna um hlutverk hans, sem fólst í því að fylgja verkefninu eftir með tillögum og leiðum til lausna, m.a. þegar fyrirætlanir í tengslum við viðskiptin gengu ekki eftir. Hefur þessu hlutverki hans ekki verið mótmælt af stefnanda enda styðja gögn málsins og framburðir vitna að enginn ágreiningur var um það.

Engar athugasemdir voru gerðar af hálfu stefnanda er umræddir fjármunir Mainsee voru fyrst millifærðir á reikning hjá Actavis Group hf. að tillögu stefnda Árna. Aðspurður fyrir dómi gaf lögmaður stefnanda þá skýringu að þrátt fyrir að gagnrýna hafi mátt þá ráðstöfun hafi hún verið tímabundin þar til að kaupum vörubirgðanna kæmi. Þegar millifærslan til Salt Investments ehf. átti sér stað hafi hins vegar legið fyrir að ekki yrði af kaupum vörulagersins.

Aðspurður bar stefndi Árni að flutningur fjár Mainsee til stefnda Salt Investments ehf. hafi verið tímabundin ráðstöfun rétt eins og þegar það var flutt til Actavis Group hf. Ekki hafi þótt æskilegt að fjármunirnir yrðu yfir áramótin hjá félaginu sem þyrfti þá að bóka sem skuld við Mainsee. Þykir tölvubréf Mark Keatleys, fjármálastjóra Actavis Group hf., til stefnda Vilhelms Róberts frá 24. október 2007, styðja þetta. Í tölvubréfinu er að finna umbeðnar upplýsingar um lokatölur þriðja ársfjórðungs. Þar segir m.a.: „sjóðsstreymið eins og það mun líta út í samstæðureikningi nýtur góðs af €4,5 m tímabundnu innstreymi frá Mainsee sem snýst við á 4. ársfjórðungi...“

Fyrir dómi bar Mark að gerður hafi verið samningur um að fjármunirnir yrðu ekki færðir frá Actavis Group hf. eftir að þeir voru þangað komnir. Enginn samningur þess efnis liggur fyrir í málinu og verður því ekki byggt á framburðinum um tilvist slíks samnings.

Eins og hér hefur verið rakið er ljóst að sami háttur var hafður á við ákvarðanir um millifærslu fjármuna Mainsee, annars vegar til Actavis Group hf. og hins vegar til stefnda Salt Investments hf. Þá er til þess að líta að staða stefnda Árna var hin sama, þ.e. hann var orðinn framkvæmdastjóri stefnda Salt Investments ehf. Bar stefndi Árni fyrir dóminum að hann hefði eftir að hann fór frá Actavis Group hf. enn gætt hagsmuna Mainsee enda áfram unnið að því verkefni sem þegar var hafið. Er þetta í samræmi við framburð Sigurgeirs og Matthíasar um þetta hlutverk hans.

Eftir millifærsluna til stefnda Salt Investments ehf. voru fjármunirnir færðir sem lán í bækur félaganna beggja, svo og í ársreikninga þar sem m.a. var gerð grein fyrir vaxtatekjum Mainsee af láninu. Hefur stefnandi á engan hátt sýnt fram á að gerð hafi verið tilraun til þess að leyna fjármununum.

Þá er til þess að líta að eftir að Glitnir banki tók yfir Mainsee, var gerður sérstakur lánssamningur milli félagsins og stefnda Salt Investments ehf., dagsettur maí 2010, þess efnis að Mainsee hafi veitt félaginu 4.450.000 evra lán sem yrði gjaldkræft 7 dögum eftir að krafa kæmi fram um greiðslu þess. Undir samninginn rituðu bæði stefndi Árni og Sigurgeir, eini stjórnandi Mainsee, sem báru um að lánssamningurinn hefði verið gerður að ósk þýskra endurskoðenda Mainsee, ellegar yrði litið svo á sem um gjaldfallna skuld væri að ræða.

Líta verður svo á að með samningnum hafi umboð stefnda Árna til millifærslunnar verið staðfest af eiganda kröfunnar sbr. 25. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Undir hann ritaði eini stjórnandi Mainsee en engin formleg stjórn var í félaginu. Eftir að samningurinn var gerður var lánveitingin sérstaklega undanskilin í samningi Glitnis banka hf. við dótturfélag Actavis Group hf. sem áður er getið. Þegar Mainsee var síðar sameinað Mainsee Holding ehf. árið 2011 var lánveitingin tilgreind í ársreikningum Mainsee Holding ehf.

Að öllu ofangreindu virtu þykir sannað að stefndi Árni hafði í krafti stöðu sinnar, sem var alkunn þeim sem hann átti í samskiptum við vegna Mainsee og enginn dró í efa, fullt umboð félagsins til þess að fara fram á að umdeildir fjármunir yrðu fluttir af reikningi Actavis Group hf. yfir á reikning stefnda Salt Investments ehf. Við millifærsluna var ljóst að Mainsee eignaðist kröfu á stefnda sem var þegar gjaldkræf enda var gjalddagi þá ekki umsaminn.

Með hliðjón af því sem hér hefur verið rakið þykir að mati dómsins sýnt að ekki séu uppfyllt grundvallarskilyrði almennu skaðabótareglunnar um saknæmi og ólögmæti háttsemi stefnda Árna og verður hann þegar af þeirri ástæðu sýknaður af öllum kröfum stefnanda. 

                Krafa stefnanda á hendur stefnda Vilhelm Róbert er á því byggð að hann hafi verið eini eigandi stefnda Salt Investments ehf. auk þess að vera forstjóri Actavis Group hf., og því útilokað að hin umdeilda millifærsla hafi átt sér stað án hans samþykkis eða vitneskju.

Engin gögn í málinu eða framburðir vitna styðja að stefndi Vilhelm Róbert hafi komið að ákvörðun þessari með saknæmum eða ólögmætum hætti og breytir því í þessu sambandi engu hver staða hans var í ofangreindum félögum eða almenn vitneskja hans um rekstur þeirra félaga er hann tengdist. Þá verður það ekki virt honum til sakar að hafa ekki gripið til athafna eftir að hann fékk vitneskju um fjármunina á reikningi félagsins. Verður hann þegar af þeirri ástæðu sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

                Krafa stefnanda á hendur Salt Investments ehf. er byggð á því að félagið hafi tekið við fjármunum og nýtt þá í rekstri sínum til tjóns fyrir stefnanda. Auk almennu skaðabótarreglunnar er krafan reist á reglum skaðabótaréttar um vinnuveitendaábyrgð þar sem stefndu Árni og Vilhelm Róbert hafi verið stjórnendur félagsins.

                Af hálfu stefnanda hefur enginn reki verið að því gerður að sýna annars vegar fram á að hið stefnda félag hafi nýtt fjármunina í eigin þágu og hins vegar að orsakatengsl hafi verið á milli nýtingarinnar og ætlaðs fjártjóns stefnanda. Gögn málsins sýna, svo ekki verður um villst, að Mainsee á enn kröfu á hið stefnda félag, sem ekki hefur verið innheimt. Að þessu virtu verður ekki fallist á að athafnir eða athafnaleysi stefnda Salt Investments ehf. hafi verið  saknæm og ólögmæt.

Með vísan til niðurstöðu um sýknu stefndu Árna og Vilhelms Róberts eru skilyrði vinnuveitendaábyrgðar ekki uppfyllt. Verður stefnda Salt Investments ehf. þegar af þeirri ástæðu sýknað af öllum kröfum stefnanda.

                Með hliðsjón af niðurstöðu málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 skal stefnandi greiða stefndu málskostnað sem þykir hæfilegur 1.600.000 krónur.

Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

D Ó M S O R Ð:

                Stefndu, Árni Harðarson, Vilhelm Róbert Wessman og Salt Investments ehf., eru sýknaðir af öllum kröfum stefnanda, Björgólfs Thors Björgólfssonar.

                Stefnandi greiði stefndu 1.600.000 krónur í málskostnað.