Print

Mál nr. 727/2017

A (Magnús Björn Brynjólfsson hrl.)
gegn
Velferðarsviði Reykjavíkurborgar (Ebba Schram hrl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Nauðungarvistun
Reifun

Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um nauðungarvistun A á sjúkrahúsi sem ákveðin hafði verið af sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Helgi I. Jónsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. nóvember 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. nóvember 2017, þar sem staðfest var ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 15. sama mánaðar um nauðungarvistun sóknaraðila á sjúkrahúsi. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila fyrir Hæstarétti sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila fyrir Hæstarétti, Magnúsar Björns Brynjólfssonar hæstaréttarlögmanns, 124.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

                                                                           

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. nóvember 2017.

Með kröfu, sem er dagsett 15. nóvember sl., fer sóknaraðili, A, kt. [...], [...] í [...], fram á að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dags. 15. nóvember sl., þar sem fallist var á að sóknaraðili yrði vistaður á sjúkrahúsi á grundvelli heimildar í 3. mgr., sbr. 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Jafnframt krefst sóknaraðili þess að málskostnaður skipaðs talsmanns hans greiðist úr ríkissjóði, sbr. 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga. Málið var þingfest í dag, 20. nóvember 2017, og tekið samdægurs til úrskurðar.

Varnaraðili, Velferðarsvið Reykjavíkur, krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og að ákvörðun sýslumannsins um vistun sóknaraðila á sjúkrahúsi verði staðfest.

Í beiðni varnaraðila til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að hún eigi rætur að rekja til beiðni frá geðsviði LSH um aðkomu að nauðungarvistun sóknaraðila. Þar er vísað til meðfylgjandi læknisvottorðs sem og þess að lögregla hafi endurtekið þurft að hafa afskipti af sóknaraðila, en hann hafi verið metinn hættulegur öðrum. Hann hafi hins vegar ekki innsæi í veikindi sín og neiti innlögn á geðdeild. Sé nauðungarvistun hans því talin óhjákvæmileg til að unnt sé að veita honum viðeigandi meðferð og stuðning.

         Með beiðninni fylgdi vottorð geðlæknisins B, dags. 14. nóvember sl. Þar kemur fram að sóknaraðili hafi verið lagður inn á deild 32C 10. nóvember sl. þar sem hann hafi verið metinn í neyslutengdu geðrofi. Hafi hann áfram verið hugsanatruflaður og með virkar ranghugmyndir 13. nóvember sl. en viljað útskrifast. Því hafi hann verið nauðungavistaður á grundvelli 72ja tíma reglunnar kl. 19.40 þann dag. Þá segir í vottorðinu að sóknaraðili eigi langa sögu um vímuefnaneyslu og eigi að baki fjölda innlagna á geðsviði vegna neyslu og neyslutengds geðrofs. Hafi hann verið þrisvar sinnum á deild 33A á þessu ári, síðast í september 2017. Við þá dvöl hafi komið fram að sóknaraðili hefði verið að nota sterk efni samfleytt í 20 til 30 daga, þ.e. amfetamín, spítt, rítalín og önnur örvandi efni sem hann hafi ekki viljað gefa upp, sem og róandi lyf. Hafi hann þá verið með miklar ranghugmyndir um að nágrannakona hans væri „undercover“ lögreglukona sem fylgdist með sér, auk þess sem hann hafi verið viss um að falin myndavél leyndist heima hjá honum. Sóknaraðili hafi einnig komið nokkrum sinnum á bráðamóttöku í október 2017 vegna amfetamínneyslu og geðrofsástands. Hann hafi afplánað dóm frá miðjum október til byrjun nóvembermánaðar. Eftir það hafi lögregla ítrekað þurft að hafa afskipti af sóknaraðila vegna óláta. Hafi hann haft vaxandi ranghugmyndir og jafnvel ógnað fólki með hnífi. Hafi ranghugmyndirnar snúist mikið um nágranna sóknaraðila. Fram komi í sjúkraskrá að faðir sóknaraðila hafi áhyggjur af því að sóknaraðili geri nágrannakonum sínum eitthvað þar sem ranghugmyndirnar snúist um þær. Þá segir í beiðninni að sóknaraðili hafi ógnað formanni húsfélagsins í blokkinni, þar sem hann búi, með hnífi um miðjan október sl.

         Í  vottorðinu segir enn fremur að þegar sóknaraðili hafi komið á bráðamóttöku geðdeildar 10. nóvember sl. hafi hann verið ör og undir áhrifum örvandi efna í viðtali. Hafi hann sýnt starfsmanni ógnandi tilburði og svarað höstuglega þegar hann hafi verið spurður um vopnaburð í anddyri. Hann hafi verið metinn í hættu að skaða aðra miðað við sögu hans og framkomu. Þá hafi hann verið með miklar aðsóknarhugmyndir um að CIA og önnur yfirvöld væru á eftir sér. Hafi innsæi hans verið skert þó að hann hafi samþykkt að leggjast inn og þiggja lyf. Meðan hann hafi legið inni hafi hann verið með töluverð geðrofseinkenni og verulega hugsanatruflaður. Þar sem hann hafi óskað eftir því að fá að útskrifast 13. nóvember sl. hafi hann verið settur á 72ja tíma relgu vegna geðrofseinkenna, en verið mjög ósáttur við þá ákvörðun.

         Í vottorðinu segir að við læknisskoðun hafi sóknaraðili verið spenntur og tortrygginn þó að hann hafi að mestu verið vinalegur og brosmildur. Þar er vikið að ýmsu sem hann greindi lækninum frá. Kemur þar fram að hann hafi svarað öllum spurningum læknisins með yfirborðskenndum hætti og ekki viljað fara út í djúpar samræður. Kvaðst hann í viðtalinu alltaf vera mjög vinalegan og góðan við nágranna sína. Hafi hann gert þeim eitthvað rangt hafi hann beðið þá afsökunar og gefur þá skýringu á þeirri hegðun að hann væri með ADHD. Fram kemur í vottorðinu að hann hafi síðan dregið strax úr þessu. Þar segir enn fremur að sóknaraðili hafi í fyrstu sagt að hann svæfi illa á nóttunni og hlustaði þá oft á tónlist. Hann hafi hins vegar farið að draga úr því þegar hann var spurður að því hvort tónlistin hefði verið of hátt stillt. Hann hafi jafnframt greint frá því að hann væri með tvöfaldar gardínur heima hjá sér til loka að sér þar sem nágrannar hans væru oft að kíkja inn um gluggann og fylgjast með honum. Hann hafi síðan dregið strax úr þessu. Þá hafi hann greint lækninum frá því að foreldrar hans væru óvinir hans og að þeir væru geðveikir. Væri faðir hans viljandi að reyna að skemma fyrir honum. Fram kemur í vottorðinu að þegar liðið hafi á viðtalið hafi sóknaraðili farið að ókyrrast og orðið spenntari. Endurtók hann að hann væri ekki geðveikur og óskaði eftir útskrift. Neitar hann algerlega að hann væri í neyslu vímuefna, en sagðist taka rítalín að læknisráði. Hann neitaði þó að gefa upp skammtastærðir og nafn læknisins sem ávísaði honum rítalíni. Kveðst hann þurfa betri geðlækni sem sé reiðubúinn að ávísa honum réttum lyfjum við ADHD. Þá upplýsti hann að margt sé rangt í sjúkraskrá hans og að hann sé búinn að ræða við landlækni sem ætli að láta breyta sjúkraskránni og hafa hana „hreina“.

         Í vottorðinu segir um viðtalið að sóknaraðili sé ör og greinilega „paranoid“ og með vott af ranghugmyndum. Þá sé hann hugsanatruflaður og hafi ekki innsæi í vandann sem hann glími við. Hann sé jafnframt í afneitun og óski eftir útskrift. Í niðurstöðu vottorðsins er sóknaraðili greindur með brátt og skammvinnt geðrof ótilgreint (F 23.9) og það sem kallað er „mental and behavioural disorder due to multible drug use of other psychoactive substances – dependence syndrome (F 19.2), en í skýrslu læknisins fyrir dómi kom fram að um væri að ræða lyfjafíkn. Þá kemur fram í vottorðinu að sóknaraðili hafi verið með viðvarandi geðrofseinkenni og ranghugmyndir sem versni greinilega við neyslu. Grunur leiki á því að hann sé að þróa með sér geðrofssjúkdóm. Bent er á að hann hafi verið metinn í geðrofsástandi í viðtali þrátt fyrir að hann neiti geðrofseinkennum, neyslu o.s.frv. Þá kemur fram í niðurstöðu læknisvottorðsins að sóknaraðili sé innsæislaus í veikindi sín. Er þar talið að sóknaraðili þurfi að vera áfram á geðdeild til að tryggja öryggi og veita honum viðeigandi meðferð. Því sé nauðungarvistun talin óhjákvæmileg, sbr. 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga.

         B geðlæknir gaf símaskýrslu fyrir dómi. Hún staðfesti vottorð sitt og gerði nánari grein fyrir ástandi sóknaraðila við komu á geðdeild og við skoðun. Kvað hún viðtalið hafa tekið langan tíma og að hann hafi verið tregur til ræða hugsanir sínar og ástand. Því hafi einkennin ekki verið æpandi. Hann hafi hins vegar verið hugsanatruflaður og þegar á heildina er litið mátti greina geðrofseinkenni.

C geðlæknir, sem er meðferðarlæknir sóknaraðila á 32C, gaf einnig símaskýrslu fyrir dómi. Hún greindi frá því að staðan á sóknaraðila væri alvarleg enda hefði hann verið í fíkniefnaneyslu í mörg ár. Vísaði hún til þess að hann hafi reglulega verið lagður inn með geðrof sem tengst hefur fíkniefnaneyslu. Tók fram að hún óttaðist að sóknaraðili væri jafnvel að þróa með sér langvarandi geðrofssjúkdóm. Það kæmi hins vegar betur í ljós hvort svo sé þegar lengra liði á dvöl hans á geðdeild og neyslan væri ekki lengur að trufla. Væri aðeins um neyslutengt geðrof að ræða ætti ástand sóknaraðila að lagast fljótlega. Það tæki hins vegar lengri tíma ef hann væri að glíma við djúpstæðari geðrofseinkenni. Tók hún fram að slíkur geðrofssjúkdómur gæti þróast í kjölfar langvarandi fíkniefnaneyslu og þyrfti ekki að eiga aðra skýringu. Hún gat þess að ástand sóknaraðila hefði lagast nokkuð frá því að hann lagðist inn, en þá hafi hann verið mikið veikur. Hins vegar væri full ástæða til að hann væri áfram á sjúkrahúsi um sinn þó að erfitt væri að segja hvort hann þyrfti að vera þar allan þann tíma sem nauðungarvistunin varir.

Verjandi sóknaraðila lagði áherslu á að vilji hans stæði eindregið til þess að nauðungarvistuninni yrði aflétt enda heilsufari hans ekki þannig háttað að skilyrði væru til hennar.

Niðurstaða:

         Samkvæmt 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, sbr. 1. málslið 2. mgr. sömu greinar, má vista sjálfráða mann gegn vilja sínum á sjúkrahúsi til meðferðar í allt að 21 sólarhring ef hann er haldinn alvarlegum geðsjúkdómi eða verulegar líkur eru taldar á því að svo sé eða að ástand hans sé þannig að jafna megi til alvarlegs geðsjúkdóms. Er það jafnframt skilyrði nauðungarvistunar í svo langan tíma að hún sé talin óhjákvæmileg að mati læknis.

         Fyrir liggur vottorð geðlæknis þar sem fram kemur að sóknaraðili hafi við komu á geðdeild 10. nóvember sl. og við skoðun 14. sama mánaðar verið með neyslutengd geðrofseinkenni. Í þessu ljósi og með vísan til þess sem fram hefur komið fyrir dómi um heilsufar sóknaraðila meðan hann hefur dvalið á geðdeild verður á það fallist að verulegar líkur séu á því að sóknaraðili sé haldinn alvarlegum geðsjúkdóm eða að ástand hans sé þannig að jafna megi til þess.

         Sóknaraðili er afar andvígur innlögn á geðdeild þó að hann hafi fallist á að taka lyf sem geta slegið á einkenni hans þegar á dvöl hans hefur liðið. Í skýrslu C geðlæknis fyrir dómi kom þó fram að enn mætti greina geðrofseinkenni auk þess sem hana grunar að hann sé búinn að þróa með sér langvinnan geðrofssjúkdóm. Kvað hún brýnt að hann yrði áfram vistaður á geðdeild. Í þessu ljósi telur dómurinn nauðsynlegt að meta heilsufar sóknaraðila frá degi til dags. Ekki er því tímabært að aflétta nauðungarvistun að svo stöddu og ekki er unnt að slá því föstu í hve langan tíma hann þurfi að dvelja á sjúkrahúsi. Í því ljósi ber að fallast á að að nauðsynlegt sé að sóknaraðili verði áfram vistaður á geðdeild til að tryggja honum viðeigandi lyfjagjöf, aðstoð og eftirfylgni. Eins og heilsufari sóknaraðila er háttað ber því að fallast á að vistun sóknaraðila gegn vilja hans sé óhjákvæmileg. Skilyrðum 3. mgr., sbr. 1. málslið 2. mgr. 19. gr. lögræðislega nr. 71/1997, er því fullnægt og ekki efni til að marka vistuninni skemmri tíma. Því verður að hafna kröfu sóknaraðila um að fella ákvörðun sýslumanns úr gildi eins og hann fer fram á.

         Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga ber að greiða allan kostnað málsins úr ríkissjóði, þar á meðal þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Magnúsi Birni Brynjólfssyni hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 173.600 krónur, og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

         Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

         Hafnað er kröfu sóknaraðila, A, um að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 15. nóvember 2017 um nauðungarvistun hans á grundvelli 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.

         Allur kostnaður málsins, þar með talin þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Magnúsar Björns Brynjólfssonar hrl., 173.600 krónur, greiðist úr ríkissjóði.