Print

Mál nr. 15/2017

A (Halldóra Kristín Hauksdóttir hdl.)
gegn
B (Ingvar Þóroddsson hrl.), C og D (Þyrí H. Steingrímsdóttir hrl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Börn
  • Barnavernd
  • Stjórnarskrá
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta
Reifun

A höfðaði mál gegn B, C og D og krafðist þess aðallega að sér yrði falin forsjá barnsins E og að ógilt yrði annars vegar ákvörðun B um varanlega vistun barnsins og hins vegar fóstursamningur B við C og D, en með honum var barninu ráðstafað í fóstur til þeirra síðarnefndu til 18 ára aldurs að beiðni móður barnsins. Til vara krafðist A þess að ógilt yrði ákvörðun B um umgengni hans við barnið og að með dómi yrði kveðið á um umgengnisrétt hans. Í úrskurði héraðsdóms var aðalkröfum A vísað frá dómi á grundvelli vanreifunar þar sem A hefði hvorki gert grein fyrir því hvernig hagsmunum stúlkunnar væri best borgið með breytingum á högum hennar né hver forsjárhæfni hans væri. Þá hefði A ekki lögvarða hagsmuni af ógildingu fyrrgreindrar ákvörðunar. Varakröfum A var einnig vísað frá héraðsdómi á þeim grundvelli að ekki væri á valdi dómstóla að kveða á um inntak umgengnisréttar A við E. Í dómi Hæstaréttar kom fram að 2. mgr. 34. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 um endurskoðun ráðstafana um vistun barns utan heimilis samkvæmt 25. gr. laganna tæki eftir orðanna hljóðan einungis til þess foreldris sem samþykkt hefði ráðstöfun. Þar sem slík takmörkun á rétti A til að fá með sama hætti og móðir barnsins endurskoðaða ákvörðun um vistun þess samrýmdist ekki 1. mgr. 65. gr. og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, svo og réttar A sem foreldis E eftir barnalögum nr. 76/2003, gæti hún ekki staðið í vegi fyrir því að A fengi efnisúrlausn dómstóla um aðalkröfur sínar. Þá kom fram að þótt það væri ekki á valdi dómstóla að kveða á um inntak umgengnisréttar ættu þeir úrskurðarvald um hvort barnaverndarnefnd hefði byggt ákvörðun sína á lögmætum grunni. Ógildingarkröfu A þar um yrði þannig ekki heldur vísað frá dómi. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar að öðru leyti en því að staðfest var ákvæði hins kærða úrskurðar um frávísun kröfu A um að kveðið yrði á um inntak umgengnisréttarins með dómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. janúar 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 19. desember 2016, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilinn barnaverndarnefnd B krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðilarnir C og D krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði eignaðist F stúlku 21. janúar 2013 og lýsti hún sóknaraðila föður barnsins. Sóknaraðili mun í kjölfarið hafa óskað eftir því að faðerni barnsins yrði staðreynt með mannerfðafræðilegri rannsókn og eftir að niðurstaða hennar lá fyrir skrifaði hann undir yfirlýsingu hjá sýslumanni 19. mars 2013 þar sem hann lýsti sig föður barnsins. Þar sem sóknaraðili var hvorki í hjúskap né skráðri sambúð með móður barnsins við fæðingu þess fór móðirin ein með forsjána, sbr. 2. mgr. 29. gr. barnalaga nr. 76/2003.

Á grundvelli tilkynninga um aðbúnað barnsins 13. og 14. febrúar 2013 hófust afskipti varnaraðilans barnaverndarnefndar B af málefnum þess og á fundi nefndarinnar 27. sama mánaðar kvað móðirin sig ekki vera tilbúna í foreldrahlutverkið og sagði að hún næði engum tengslum við dóttur sína. Undirritaði hún í kjölfarið yfirlýsingu 13. mars 2013, á grundvelli 25. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, um að hún samþykkti að varnaraðili kæmi barninu í varanlegt fóstur til 18 ára aldurs. Með annarri yfirlýsingu 21. sama mánaðar fól hún varnaraðila barnaverndarnefnd B forsjá barnsins og óskaði eftir því að barnið yrði í fóstri hjá varnaraðilum C og D til 18 ára aldurs. Mun barninu hafa verið ráðstafað í fóstur til þeirra til bráðabirgða 22. mars 2013 og í varanlegt fóstur til 18 ára aldurs með samningi 2. júlí 2013. Í síðargreinda samningnum var þó tekið fram að varnaraðilinn barnaverndarnefnd B færi eftir sem áður með forsjá barnsins. 

Óumdeilt er að sóknaraðili lýsti sig andvígan því að barninu yrði ráðstafað í fóstur og á fundi hjá varnaraðilanum barnaverndarnefnd B 18. mars 2013 kvaðst hann vilja taka barnið að sér með aðstoð móður sinnar. Með tölvubréfi 20. sama mánaðar var honum tilkynnt að eftir fund nefndarinnar þann morgun hefði hún komist að þeirri niðurstöðu að það samræmdist best hagsmunum barnsins að fela varnaraðilunum Cog D umsjá barnsins og að aðstæður þeirra væru að öllu leyti mun betri en sóknaraðila. Hann mun í kjölfarið hafa óskað eftir umgengni við barnið og með úrskurði varnaraðilans barnaverndarnefndar B 4. september 2013, sem staðfestur var með úrskurði kærunefndar barnaverndarmála 8. janúar 2014, var umgengni sóknaraðila ákveðin þrisvar sinnum á ári í tvær klukkustundir í senn.  

II

Aðalkrafa sóknaraðila lýtur að því að honum verði með dómi falin forsjá barnsins og að ógilt verði annars vegar ákvörðun varnaraðilans barnaverndarnefndar B um varanlega vistun barnsins og hins vegar fóstursamningurinn við varnaraðilana C og D. Byggir sóknaraðili meðal annars á því að hann geti á grundvelli 70. gr. stjórnarskrárinnar og 34. gr. barnalaga nr. 76/2003 fengið úrlausn um rétt sinn til að fara með forsjá barns síns án tillits til þess hver fari með forsjá þess. Telur hann barninu fyrir bestu að alast upp hjá fjölskyldu sinni og að hann sé hæfur til þess að fara með forsjána.

Kröfur varnaraðila eru meðal annars reistar á því að sóknaraðili hafi ekki gert grein fyrir forsjárhæfni sinni og því sé málið vanreifað, sbr. e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Þá sé enginn lagagrundvöllur fyrir kröfu sóknaraðila um forsjá barnsins, auk þess sem hann hafi ekki gert grein fyrir því á hvaða forsendum hann geti gert þær ógildingarkröfur sem hann hafi uppi í málinu. Varnaraðilarnir C og D byggja enn fremur á því að sóknaraðili hafi hvorki gert grein fyrir því hvernig þau geti átt aðild að málinu né hvaða kröfum þeim sé ætlað að verða við.

III

Eins og áður greinir var ákvörðun um varanlega vistun barns sóknaraðila reist á 25. gr. barnaverndarlaga. Þar segir í 1. mgr. að barnaverndarnefnd geti, eftir því sem nánar er ákveðið í áætlun samkvæmt 23. gr. laganna, með samþykki foreldra tekið við forsjá eða umsjá barns og ráðstafað barni í fóstur, sbr. a. lið 1. mgr., eða tekið við forsjá eða umsjá barns og vistað barn utan heimilis á heimili eða stofnun eða leitað nánar tilgreindra annarra úrræða til umönnunar, rannsóknar, meðferðar eða stuðnings. Í 2. mgr. 25. gr. segir síðan að fóstur eða vistun samkvæmt 1. mgr. skuli eigi standa lengur en þörf krefur og að ráðstafanir skuli að jafnaði vera tímabundnar og sæta reglulegri endurskoðun eftir því sem nánar sé kveðið á um í fóstur- eða vistunarsamningi.

Um réttarstöðu foreldris sem ekki fer með forsjá barns er fjallað í 67. gr. a. laganna, en þar segir í 1. mgr. að barnaverndarnefnd skuli kanna grundvöll þess að ráðstafa barni til þess foreldris sem ekki fer með forsjá þess þegar forsjárforeldri afsalar sér umsjá eða forsjá samkvæmt 25. gr. laganna. Kemur einnig fram í 4. mgr. ákvæðisins að áður en barni er ráðstafað í fóstur skuli barnaverndarnefnd ávallt leita umsagnar þess foreldris sem ekki fer með forsjá barns.

Í 34. gr. barnaverndarlaga er síðan fjallað um endurskoðun ráðstafana samkvæmt 25. gr. laganna. Þar segir í 2. mgr. að hafi foreldri veitt samþykki fyrir úrræði samkvæmt 25. gr. laganna sem ætlað er að standa þar til barn verður lögráða eða hafi foreldri verið svipt forsjá samkvæmt 29. gr. þeirra geti foreldri gert kröfu á hendur barnaverndarnefnd, foreldri sem fer með forsjá samkvæmt 67. gr. a eða 67. gr. b og fósturforeldrum, ef það á við, fyrir dómi um að samningi verði hnekkt eða dómi um sviptingu breytt og að foreldri verði falin forsjá eða umsjá barns að nýju. Í athugasemdum með frumvarpi að lögunum sagði að ákvæðið ætti við þegar foreldri vilji draga til baka samþykki sitt fyrir ráðstöfunum samkvæmt 25. gr. laganna sem hefur verið ætlað að vara þar til barn verður lögráða og þegar foreldrar vilji fá breytt eldri dómi um sviptingu forsjár.

IV

Í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar er mælt fyrir um þá grundvallarreglu að öllum beri réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur með réttlátri málsmeðferð fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstól. Það sama leiðir af 1. mgr. 6. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Í þessum ákvæðum felst sjálfstæð regla um að menn skuli almennt eiga rétt á að bera mál sín undir dómstóla og verður að skýra ákvæði í almennum lögum sem takmarka þennan rétt með hliðsjón af því, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands 2. júní 2015 í máli nr. 340/2015. Þá segir í 65. gr. stjórnarskrárinnar að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda. Í lögskýringargögnum kom fram að í jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar væru ekki fólgin ákveðin efnisréttindi, heldur fælist mikilvægi hennar fyrst og fremst í því að henni væri ætlað að vera almenn leiðbeiningarregla um bann við mismunun, sem bæri ávallt að hafa að leiðarljósi, ekki einvörðungu við setningu laga, heldur og við skýringu þeirra.

Af framangreindu verður ráðið að 2. mgr. 34. gr. barnaverndarlaga tekur eftir orðanna hljóðan aðeins til þess foreldris sem samþykkt hefur ráðstöfun eftir 25. gr. laganna. Felur ákvæðið, skýrt með þeim hætti, í sér tálmun þess að sóknaraðili geti leitað dóms um það hvort endurskoða beri ákvarðanir í tengslum við barn hans. Í ljósi framangreindra ákvæða stjórnarskrárinnar, réttar sóknaraðila sem foreldris barnsins, sbr. meðal annars 1. mgr. 28. gr. barnalaga og 1. mgr. 7. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013 um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, verður ekki séð að málefnaleg rök standi til þeirrar mismununar foreldra sem gert er ráð fyrir í síðastgreinda ákvæðinu. Er í því sambandi meðal annars til þess að líta að varnaraðilanum barnaverndarnefnd B bar eftir 67. gr. a barnaverndarlaga að leita eftir afstöðu sóknaraðila til vistunar barnsins og lýsti hann þeirri ósk sinni að hann fengi forsjá þess í sínar hendur. Verður ekki séð að það samrýmist framangreindum ákvæðum stjórnarskrárinnar að girða fyrir að sóknaraðili, sem kom samkvæmt þessu að ákvörðun um vistun barnsins samkvæmt 25. gr. barnaverndarlaga, geti með sama hætti og móðir barnsins leitað endurskoðunar á þeirri ákvörðun. 

Að virtu öllu framanrituðu verður fallist á það með sóknaraðila að löggjöf geti ekki við þessar aðstæður takmarkað rétt manns til að fá úrlausn dómstóla um málefni er varða hagsmuni hans, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Með vísan til þessa verður því ekki talið að þær takmarkanir á aðild máls, sem kveðið er á um í 25. gr. barnaverndarlaga, geti staðið í vegi fyrir því að sóknaraðili fái efnisúrlausn dómstóla um fyrrgreindar kröfur sínar.

V

Aðalkrafa sóknaraðila samkvæmt héraðsdómsstefnu lýtur sem fyrr segir að því að honum verði falin forsjá barnsins og að ógilt verði annars vegar ákvörðun varnaraðilans barnaverndarnefndar B um að ráðstafa barni sóknaraðila í varanlegt fóstur og hins vegar fóstursamningurinn við varnaraðilana C og D. Í stefnu er greint frá atvikum máls svo og þeim málsástæðum sem sóknaraðili byggir fyrrgreindar kröfur sínar á og fer ekki á milli mála hvert sakarefnið er. Þá verður ekki framhjá því litið að sóknaraðili mun eiga þess kost undir rekstri málsins í héraði að afla sönnunargagna og eftir atvikum flytja fram nýjar málsástæður telji hann þörf á því til frekari skýringar málatilbúnaði sínum, sbr. 1. mgr. 57. gr. barnaverndarlaga, auk þess sem dómari mun geta lagt fyrir aðila að afla nánar tilgreindra gagna, sbr. 2. mgr. 56. gr. laganna. Verður málinu því ekki vísað frá vegna vanreifunar.

Fyrri varakrafa sóknaraðila lýtur að því að úrskurður varnaraðilans barnaverndarnefndar B um umgengni sóknaraðila við barnið verði felldur úr gildi. Um þá kröfu er til þess að líta að sóknaraðili á rétt til umgengni við barnið nema hún sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum þess og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun barnsins í fóstur, sbr. 2. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga. Þótt dómstólar kveði ekki á um inntak umgengnisréttar eiga þeir úrskurðarvald um hvort barnaverndarnefnd hafi byggt ákvörðun sína á lögmætum grunni. Verður fyrri varakröfu sóknaraðila samkvæmt þessu því ekki vísað frá dómi. Með síðari varakröfu sinni leitar sóknaraðili hins vegar eftir því að með dómi verði kveðið á um inntak umgengnisréttar hans við barnið. Samkvæmt 4. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga kemur í hlut barnaverndarnefndar og við málskot kærunefndar barnaverndarmála að úrskurða um ágreining varðandi umgengni við barn sem ráðstafað hefur verið í fóstur. Verður því staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um frávísun þeirrar kröfu. Að öðru leyti verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Málskostnaður og ákvörðun gjafsóknarkostnaðar í héraði bíður efnisdóms.

Varnaraðilum verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Vísað er frá héraðsdómi kröfu sóknaraðila, A, um að með dómi verði kveðið á um inntak umgengnisréttar sóknaraðila við barnið E. Lagt er fyrir héraðsdóm að taka málið að öðru leyti til efnismeðferðar.

Varnaraðilar, Barnaverndarnefnd B, C og D, greiði sóknaraðila óskipt 400.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 19. desember 2016.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfur allra stefndu föstudaginn 4. nóvember 2016 er höfðað 27. og 31. maí 2016 af A, [...] á hendur Barnaverndarnefnd B, [...] og C og D, til heimilis í [...].

Í stefnu eru dómkröfur stefnanda settar fram svo: „Stefnandi gerir aðallega eftirfarandi dómkröfur: 1. Að stefnanda verði með dómi falin forsjá barnsins [E], kt. [...] til 18 ára aldurs hennar. 2. Að ógilt verði með dómi ákvörðun stefndu, barnaverndarnefndar B, um að vista barnið E, kt [...] í varanlegu fóstri til 18 ára aldurs og að fóstursamningur dags. 2. júlí 2013 verði ógiltur. Verði kröfu stefnanda um forsjá hafnað gerir stefnandi eftirfarandi varakröfur: 1. Að úrskurður stefndu, barnaverndarnefndar B, um umgengni stefnanda við barnið [E], kt. [...], dags. 28. ágúst 2013 verði felldur úr gildi. 2. Þá er þess krafist að með dómi verði kveðið á um inntak umgengnisréttar stefnanda við barnið, [E], kt. [...]. [...] Þess er í öllum tilvikum krafist að stefndu, C, kt. [...] og D kt. [...], verði gert að þola dóm í máli þessu.“ Loks krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu Barnaverndarnefndar B eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Öll stefndu krefjast þess að málinu verði vísað frá dómi og málskostnaðar úr hendi stefnanda. Til vara krefjast öll stefndu sýknu af kröfum stefnanda.

Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfunum verði hafnað. Verði frávísunarkröfurnar teknar til greina verði stefndu Barnaverndarnefnd gert að greiða stefnanda málskostnað.

Við munnlegan málflutning um frávísunarkröfurnar féll stefnandi frá kröfu sem hann hafði gert um að úrskurðað yrði til bráðabirgða um umgengnisrétt sinn við stúlkuna á meðan mál þetta væri til meðferðar.

Hinn 18. marz 2015 höfðaði stefnandi mál á hendur stefndu Barnaverndarnefnd B og gerði þar þær kröfur að ógilt yrði ákvörðun stefndu um að vista stúlkuna í varanlegu fóstri og að sér yrði falin forsjá hennar til átján ára aldurs hennar. Til vara krafðist stefnandi þess að kveðið yrði á um inntak umgengnisréttar síns við stúlkuna. Þá gerði stefnandi kröfu um að úrskurðað yrði um umgengnisrétt sinn við stúlkuna til bráðabirgða á meðan málið yrði rekið. Málinu var vísað frá dómi með úrskurði 18. júní 2015 og sá úrskurður var staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 459/2015 sem kveðinn var upp hinn 13. ágúst 2015.

Málavextir

Hinn 21. janúar eignaðist 18 ára stúlka, F, stúlkubarn. Daginn eftir beindi hún til sýslumanns beiðni um faðernisviðurkenningu og meðlag og lýsti stefnanda föður stúlkunnar. Hinn 25. janúar komu móðirin og stefnandi fyrir sýslumanninn á [...] og óskaði stefnandi eftir mannerfðafræðilegri rannsókn til að staðreyna faðernið og að niðurstöðum hennar fengnum skrifaði hann undir faðernisviðurkenningu hjá sýslumanni hinn 19. marz. Daginn eftir staðfesti sýslumaður samkomulag stefnanda og móðurinnar um að hann greiddi einfalt meðlag með stúlkunni til 18 ára aldurs hennar.

Afskipti stefndu Barnaverndarnefndar B af málum stúlkunnar hófust á grundvelli tilkynninga um aðbúnað hennar, 13. og 14. febrúar 2013. Er bókað í fundargerð „teymisfundar í barnavernd í máli barnsins“, dags. 27. febrúar 2013, að þann dag hafi móðirin komið ásamt föður sínum á fund starfsmanns stefndu og óskað eftir „aðstoð við að ættleiða dóttur sína“, eins og það er orðað í bókuninni. Segir svo: „F segist ekki vera tilbúna í foreldrahlutverkið, að hún nái engum tengslum við dóttur sína. Faðir F styður dóttur í ákvörðun sinni þau telja að tímabundið fóstur sé ekki nóg að það væri barninu fyrir bestu að hún væri ættleidd.“

Hinn 20. marz 2013 er bókað að mál stúlkunnar hafi verið til könnunar allt frá fyrstu tilkynningu um vanrækslu barnsins, sem lotið hafi forsjá móður sinnar. Áhyggjur hafi meðal annars „verið af óstöðugleika og vanþroska móðurinnar og truflun á tengslamyndun. Hefur það m.a. gerst á könnunartímanum að móðirin hefur yfirgefið barnið í meira en sólarhring oftar en einu sinni.“ Hafi móðirin nú „óskað eftir aðstoð barnaverndar við að koma barninu í fóstur með það fyrir augum að sú ráðstöfun verði varanleg. Hún hefur einnig nefnt möguleika á því að gefa barnið til ættleiðingar. Er hún tilbúin til þess að afsala sér forsjá til nefndarinnar og hefur undirritað samþykki fyrir vistun barnsins.“ Er því næst bókað að „í samráði við forsjáraðila barnsins [sé] það mat teymisins að það samræmist best hagsmunum þess að fara nú í umsjá“ hjónanna stefndu C og D, sem séu að mati teymisins mjög vel hæf til að fóstra barnið. Verði gerður við þau samningur um vistun barns og sé stefnt að varanlegu fóstri hjá þeim að loknum reynslutíma. Þá segir: „Skv. 67. gr-a í barnaverndarlögum hefur grundvöllur þess að vista barnið hjá föður þess verið kannaður og honum boðið að leggja fram umsögn sína vegna fóstursins. Afstaða föðurins liggur nú fyrir og gerir hann skýra kröfu um að taka barnið að sér. Mat teymisins í umboði barnaverndar er engu að síður það sem fram hefur komið, að þeim [hjónum] skuli falin umsjá barnsins enda eru aðstæður þeirra að öllu leyti mun betri en föðurins, sem ekki hefur verið í aðstöðu til að mynda tengsl við barnið og fer ekki með forsjá þess.“

Hinn 13. marz 2013 samþykkti móðir stúlkunnar að stefnda Barnaverndarnefnd sækti um varanlegt fósturheimili fyrir hana. Hinn 20. marz sömdu stefnda Barnaverndarnefnd og hjónin stefndu C og D um að þau tækju að sér umsjá og umönnun stúlkunnar skv. 84. gr. barnaverndarlaga frá þeim degi til 20. júní 2013.

Hinn 21. marz 2013 afsalaði móðir stúlkunnar forsjá hennar til stefndu. Jafnframt óskaði hún eftir að stúlkan yrði í fóstri hjá stefndu C og D til átján ára aldurs.

Hinn 2. júlí 2013 gerðu stefnda og hjónin C og D með sér fóstursamning skv. 68. gr. barnaverndarlaga og skyldi hann gilda til átján ára aldurs stúlkunnar. Tekið var fram að stefnda Barnaverndarnefnd B færi áfram með forsjá stúlkunnar.

Hinn 14. ágúst 2013 var fóstursamningurinn lagður fyrir fund stefndu Barnaverndarnefndar til staðfestingar. Kom stefnandi ásamt lögmanni sínum á fundinn og lagði fram skjal þar sem óskað var eftir „skriflegum rökstuðningi [stefndu Barnaverndarnefndar] fyrir eftirfarandi“, og voru svo taldar upp ýmsar spurningar um málsmeðferð stefndu, svo sem hvaða „ástæður lágu að baki þess að gengið var fram hjá föður sem mögulegs umsjáraðila barnsins“, hvort farið hafi fram „mat á hæfi föður til að fara með umsjá barnsins“ og hvers vegna hafi strax verið gerður varanlegur fóstursamningur við óskylda einstaklinga en ekki reynt að koma barninu tímabundið til föður þess. Í lok skjalsins setur stefnandi fram þá kröfu að „ákvörðun barnaverndar um að setja barnið í varanlegt fóstur til 18 ára verði ógild og að honum verði falin forsjá barn[s] síns“, en til vara „að hann fái ríflega umgengni við barnið að undangenginni aðlögun“, sem hann útfærði nánar í skjalinu.

Á fundi hinn 28. ágúst 2013 staðfesti stefnda Barnaverndarnefnd fóstursamninginn og kvað ákvörðun um varanlegt fóstur hafa verið tekna „með lögformlegum hætti.“ Var jafnframt ákveðið að barnið skyldi hafa umgengni við stefnanda með nánar greindum hætti, þrisvar á ári í tvær klukkustundir í senn.

Stefnandi kom í viðtal hjá stefndu Barnaverndarnefnd hinn 18. marz 2013 og lýsti andstöðu sinni við að stúlkunni yrði ráðstafað í fóstur og kvaðst vilja taka hana að sér, með aðstoð móður sinnar sem var viðstödd viðtalið. Hinn 20. marz svaraði stefnda Barnaverndarnefnd stefnanda og kvað niðurstöðu sína vera þá að bezt samrýmdist hagsmunum stúlkunnar að hún yrði vistuð hjá stefndu C og D enda væru aðstæður þeirra allar betri en stefnanda. Í framhaldi af þessu fjallaði stefnda Barnaverndarnefnd um óskir stefnanda um umgengni við stúlkuna og lauk þeim þætti með úrskurði hinn 28. ágúst 2013. Þann úrskurð kærði stefnandi til kærunefndar barnaverndarmála sem staðfesti hann með úrskurði 8. janúar 2014.

Málsástæður og lagarök stefndu Barnaverndarnefndar B í þessum þætti málsins

Stefnda segir að krafa sín um frávísun sé á því byggð að málið sé svo vanreifað af hálfu stefnanda og að öllum málatilbúnaði hans í stefnu og öðrum gögnum sé svo áfátt að efnisdómur verði ekki lagður á málið. Sé stefndu af þeim sökum illmögulegt að taka til efnislegra varna. Sé málatilbúnaður stefnanda í skýrri andstöðu við d og e liði 80. gr. laga nr. 91/1991.

Vegna kröfu stefnanda um forsjá stúlkunnar

Stefnda segir að stefnandi reisi kröfu sína um forsjá barnsins á 34. gr. barnalaga nr. 76/2003 og 70. gr. stjórnarskrárinnar. Mál barnsins hafi verið til meðferðar hjá stefndu samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002. Stefnda hafa hafið könnun málsins hinn 13. febrúar 2013 í kjölfar barnaverndartilkynningar en barnið hafi þá verið þriggja vikna gamalt. Afsal móður barnsins á forsjá til stefndu, hafi verið með heimild í 25. gr. barnaverndarlaga og samþykki hennar fyrir varanlegu fóstri hafi verið veitt samkvæmt 48. gr. laganna. Samningar um vistun barnsins hjá fósturforeldrum hafi verið gerðir samkvæmt 84. og 68. gr. laganna. Stefnda kveðst byggja á því að stefnanda sé ekki heimilt að höfða mál gegn barnaverndarnefnd vegna forsjár barnsins á grundvelli barnalaga. Dómstólar hafi ekki heimild til að taka slíka kröfu til greina, enda skuli fara með mál barnsins samkvæmt barnaverndarlögum. Samkvæmt 34. gr. barnalaga, er stefnandi byggi kröfu sína á, komi skýrt fram að dómari skeri úr ágreiningi foreldra um forsjá barns og lögheimili. Þar sé ekki getið um heimild annarra til að standa að slíkum dómsmálum. Stefnda segist einnig benda á að í 2. mgr. 34. gr. barnalaga komi skýrt fram að ákvörðun um forsjá skuli tekin með hliðsjón af því hvað barni sé fyrir beztu. Sé í því sambandi horft til ýmissa atriða, þar á meðal hæfis foreldra og tengsla barna við foreldra. Þó tiltekin ákvæði barnalaga geti átt við um aðra en foreldra sem fara með forsjá barns, sbr. 4. mgr. 29. gr. laganna, þá eigi þau einungis við um þá er fari með forsjá samkvæmt barnalögum. Stefnda fari með forsjá barnsins samkvæmt barnaverndarlögum. Stefnda kveðst benda á að í barnaverndarlögum sé að finna ýtarlegar reglur um málsmeðferð. Í 67. gr. a sé gerð grein fyrir réttarstöðu forsjárlauss foreldris sem ekki fari með forsjá barns ef forsjárforeldrið hefur afsalað sér forsjá. Við þær aðstæður leggi barnaverndarnefnd mat á það hvort hagsmunir barns séu tryggðir með forsjá eða umsjá hins forsjárlausa foreldris og taki ákvörðun um hvar barn skuli vistað, byggða á hagsmunum barnsins. Stefnda segist telja að með málshöfðun sinni sé stefnandi í raun að krefjast þess að dómstólar taki ákvörðun sem lögum samkvæmt heyri undir stefndu að taka samkvæmt barnaverndarlögum og byggi á frjálsu mati stefndu. Kveðst stefnda telja að slík ákvörðun sé ekki á valdsviði dómstóla, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 og beri því að vísa kröfu stefnanda frá dómi. Stefnda kveðst jafnframt benda á, að komi til þess að dómur fallist á kröfu stefnanda um ógildingu ákvörðunar um fóstur barnsins, eins og stefnandi krefjist jafnframt, veiti sú niðurstaða stefnanda ekki heimild til þess að krefja stefndu um forsjá barnsins á grundvelli barnalaga. Hún gæti hinsvegar leitt til þess að stefndu bæri að taka málið fyrir að nýju samkvæmt 67. gr. a barnaverndarlaga. Þá kveðst stefnda benda á að forsjá stefndu sé tilkomin með yfirlýsingu móður barnsins, dags. 21. marz 2013, um afsal hennar á forsjá til stefndu. Þar hafi móðirin jafnframt óskað eftir því að meðstefndu færu með varanlegt fóstur barnsins. Stefnandi hafi ekki gert kröfu um ógildingu yfirlýsingar móður barnsins.

Stefnda segir tilvísun stefnanda til 70. gr. stjórnarskrárinnar órökstudda. Stefnda kveðst ætla að með þeirri tilvísun sé stefnandi að vísa til þess að hann eigi rétt til að bera ágreiningsefni um forsjá barnsins fyrir dómstóla. Stefnda kveðst telja að þótt stefnandi eigi sjálfur um það val á hvaða grundvelli hann sæki mál sitt, beri honum að gera það með hliðsjón af reglum réttarfars um skýrleika málatilbúnaðar og á grundvelli réttarreglna er gildi á viðkomandi sviði. Stefnandi hafi ekki lögvarinn rétt til að krefjast forsjár á grundvelli barnalaga.

Stefnda segist telja, telji dómurinn heimilt að reka mál á grundvelli 34. gr. barnalaga, að málið sé engu síður vanreifað af hálfu stefnanda. Stefnda kveðst byggja á því að verulega skorti á að stefnandi geri viðhlítandi grein fyrir atriðum varðandi hæfni hans til að fara með forsjá barnsins. Líkt og verið hafi í fyrri málsókn stefnanda gegn stefndu, staðhæfi stefnandi að barninu sé fyrir beztu að honum verði falin forsjá þess. Þetta staðhæfi hann án þess að víkja einu orði að aðstæðum barnsins þann tíma er barnið hafi verið í fóstri, ríflega þrjú ár. Ályktun stefnanda um hæfni hans virðist einungis á því byggð að ætíð sé barni bezt að alast upp hjá kynforeldri en það sé ekki rökstutt frekar. Þá vísi stefnandi til þess að hann hafi snúið við blaðinu eftir að hafa misstigið sig á yngri árum, búi við stöðugleika og sé í öruggri vinnu. Hið síðastnefnda sé stutt gögnum en að öðru leyti fái staðhæfingar stefnanda ekki stoð í gögnum málsins. Stefnda segist telja að fullt tilefni hefði verið til þess að stefnandi upplýsti um hvort hann hefði haldið sig frá neyzlu fíkniefna, upplýsti um áfengisneyzlu sína og sakaferil. Að mati stefndu geri skortur á upplýsingum af hálfu stefnanda það að verkum að erfitt sé fyrir stefndu að átta sig á því hvaða atvik það séu sem leiða eigi til þess að stefnanda verði falin forsjá barnsins. Stefnda segist telja að þó ríkar skyldur séu lagðar á dómara um að upplýsa mál vegna forsjár barna, þá verði ekki úr þessu  bætt síðar með öflun matsgerðar sérfróðs aðila eins og stefnandi boði í stefnu. Telji dómurinn rétt að málið sé rekið á grundvelli barnalaga, segist stefnda telja að stefnanda hefði boðið að fylgja reglum laganna að öðru leyti. Stefnda byggi á því að krafa stefnanda um forsjá uppfylli ekki áskilnað 1. mgr. 33. gr. a barnalaga, en þar komi fram að mál vegna forsjár verði ekki höfðað án þess að sátta sé leitað. Um ófrávíkjanlega skyldu sé að ræða og því telji stefnda að vísa beri málinu frá dómi.

Vegna kröfu um ógildingu á ákvörðun um fóstur og ógildingu fóstursamnings

Stefnda segir stefnanda reisa kröfu sína um ógildingu ákvörðunar stefndu um vistun barns í fóstri og um ógildingu vistunarsamnings, dags. 2. júlí 2013, á því að málsmeðferð stefndu hafi ekki verið í samræmi við lög. Stefnda segist telja að stefnandi hafi ekki skýrt hvaða hagsmuni hann hafi af því að frá framangreinda ákvörðun ógilta sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 459/2015. Stefnda segist telja að verulega skorti á að stefnandi greini frá því í stefnu hvernig hann geti átt aðild að máli um ógildingu fóstursamnings. Samningurinn hafi verið gerður á grundvelli 68. gr. barnaverndarlaga og stefnandi sé ekki aðili að honum. Stefnda segist benda á að heimildir til endurskoðunar ráðstafana samkvæmt barnaverndarlögum séu takmarkaðar, sbr. 34. gr. laganna. Samkvæmt ákvæðinu sé einungis því foreldri sem veitt hafi samþykki sitt samkvæmt 25. gr. barnaverndarlaga, heimilt að gera kröfu í dómsmáli á hendur barnaverndarnefnd og eftir atvikum fósturforeldrum um að samningi um fóstur verði hnekkt. Samkvæmt því geti forsjárlaust foreldri ekki staðið að slíkri málsókn og því eigi stefnandi ekki lögvarinn rétt í þeim efnum. Þá hafi forsjárlaust foreldri barns er ráðstafað hafi verið í fóstur ekki heimild til að kæra slíka ákvörðun barnaverndarnefndar til úrskurðarnefndar velferðarmála, áður kærunefndar barnaverndarmála, sbr. 67. gr. a barnaverndarlaga.  Stefnda segist telja að takmörkun þessi á málsaðild fyrir dómstólum og stjórnsýslu sé sett með hagsmuni barna í huga, meðal annars til þess að ekki sé raskað stöðugleika í uppeldi barnsins.

Stefnda segir að verði talið að stefnandi geti átt aðild að máli til ógildingar fóstursamnings byggi stefnda á því að slíkri kröfu verði ekki komið að nema á grundvelli hagsmuna barns. Stefnda byggi á því að rökstuðningur stefnanda í þeim efnum sé verulega vanreifaður, í máli hans sé hvergi vikið að því hvernig það geti þjónað hagsmunum barnsins að taka það úr umsjá fósturforeldra, er hafi alið það upp eins og sitt eigið nær alla ævi þess. Barnið sé kennt við meðstefnda, C, og kalli fósturforeldra sína eðlilega pabba og mömmu. Samskipti barnsins og stefnanda hafi einungis verið í umgengni er ákveðin hafi verið með úrskurði kærunefndar barnaverndarmála hinn 8. janúar 2014. Stefnandi vísi máli sínu til stuðnings og réttarframkvæmdar, án þess að skýra það frekar. Þá vísi stefnandi til ýmissa lagagreina, meðal annars 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar, 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 1. mgr. 8. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, auk ýmissa ákvæða barnalaga, barnaverndarlaga og stjórnsýslulaga. Stefnda segist telja verulega skorta á að stefnandi skýri í stefnu með hverjum hætti stefnda eigi að hafa brotið gegn framangreindum réttarreglum og með því gengið gegn réttindum stefnanda og barnsins. Tilvísanir stefnanda til lagaákvæða og alþjóðasamninga, eigi það sammerkt að vera án tengsla við atvik málsins að mati stefndu. Þá sé að mati stefndu, erfitt að átta sig á því nauðsynlega samhengi sem þurfi að vera milli málsástæðna og kröfugerðar stefnanda og málsástæðna og annarra atvika málsins. Stefnandi vísi máli sínu til stuðnings til 60. gr. stjórnarskrárinnar án þess að útskýra það frekar í stefnu. Stefnda segir þetta ekki vera efnisleg rök fyrir kröfu stefnanda um ógildingu fóstursamnings. Þótt dómstólum sé heimilt að fella ákvörðun stjórnvalds úr gildi, sé þeim almennt ekki heimilt að taka nýja ákvörðun í máli er stjórnvöldum hefur verið falið að taka á grundvelli frjáls mats.

Vegna kröfu um úrskurður stefndu um umgengni verði felldur úr gildi.

Stefnda kveðst telja stefnanda ekki hafa lögvarða hagsmuni af því að fá ógiltan úrskurð stefndu um umgengni sem kveðinn hafi verið upp hinn 28. ágúst 2013. Stefnda fái ekki séð að niðurstaða dómsmáls um ógildingu úrskurðar stefndu skipti stefnanda máli að lögum, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Stefnandi hafi kært úrskurð stefndu til kærunefndar barnaverndarmála er staðfest hafi úrskurð stefndu með úrskurði þann 8. janúar 2014. Úrskurður kærunefndar hafi verið, líkt og úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála nú, endanlegir á stjórnsýslustigi, sbr. 2. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 1007/2013 um kæruvernd barnaverndarmála. Úrskurður kærunefndar hafi verið byggður á þeim gögnum er fyrir hafi legið við meðferð málsins hjá stefndu auk greinargerðar stefnanda og stefndu og meðstefndu. Úrskurðurinn hafi verið rökstuddur í samræmi við reglur 31. gr. stjórnsýslulaga, þar sem ráð sé gert fyrir meiri kröfum til rökstuðnings en í málum á fyrsta stjórnsýslustigi. Að mati stefndu hafi úrskurður kærunefndar réttaráhrif, óháð afdrifum úrskurðar stefndu um umgengni og leiði kröfugerð stefnanda því ekki til niðurstöðu er skipti stefnanda máli að lögum.

Stefnda kveðst telja, verði ekki á þetta fallizt, að verulega sé vanreifað af hálfu stefnanda hvaða atvik það séu sem leiða eigi til ógildingar úrskurðar stefndu. Stefnandi byggi kröfu sína ekki á því að reglur um málsmeðferð hafi verið brotnar, heldur vísi hann eingöngu til sjónarmiða um réttindi barns til að þekkja báða foreldra sína og njóta umönnunar þeirra. Að mati stefndu lúti röksemdir stefnanda fyrir ógildingu samningsins eingöngu að inntaki umgengni stefnanda við barnið. Stefnda kveðst telja að dómur geti ekki byggt niðurstöðu um ógildingu úrskurðar stefndu um umgengni á slíkum sjónarmiðum. Það sé í verkahring stefndu og eftir atvikum úrskurðarnefnd velferðarmála að kveða á um inntak umgengni barna sem ráðstafað hafi verið í fóstur sbr. 4. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga. Stefnda kveðst sérstaklega benda á að stefnandi hafi ekki gert kröfu um endurskoðun úrskurðar um umgengni sbr. 6. mgr. 74. gr. laganna.

Vegna kröfu um að kveðið verði á um inntak umgengnisréttar

Stefnda segist telja stefnanda ekki geta byggt kröfu sína um inntak umgengni á 5. mgr. 34. gr. barnalaga. Geri stefnandi hér sambærilega kröfu og Hæstiréttur hafi vísað frá dómi í máli stefnanda gegn stefndu nr. 459/2015. Stefnda kveðst vísa til þess að barnið sé vistað í fóstri hjá meðstefndu á grundvelli barnaverndarlaga og að ákvörðun um inntak umgengnisréttar sé í verkahring stefndu og eftir atvikum úrskurðarnefndar velferðarmála sbr. 4. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga.

Stefnda kveðst byggja kröfu sína um málskostnað á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991. Þá krefjist stefnda þess að við ákvörðun málskostnaðar verði litið til reglna um greiðslu virðisaukaskatts af málflutningsþóknun sbr. lög nr. 50/1988.

Málsástæður og lagarök stefndu C og D í þessum þætti málsins

Stefndu segjast byggja frávísunarkröfu sína fyrst og fremst á því að krafa á hendur sér um að „þola dóm í máli þessu“ eigi sér ekki lagastoð. Krafan eins og hún sé sett fram virðist ekki segja til um réttindi eða skyldur stefndu og komi ekki fram hvort að þeim sé stefnt um athafnaskyldu eða til athafnaleysis, viðurkenningar eða afhendingar réttinda stefnanda til handa. Þá virðist ekki byggt á því í stefnu að dómsorðið eigi að segja til um réttarstöðu þeirra að öðru leyti. Óljóst sé því hver aðild stefndu sé í málinu og virðist sem engar dómkröfur séu gerðar á hendur þeim. Fari því dómkrafan gegn meginreglum einkamálaréttarfars enda verði ekki aðrir taldir aðilar að einkamáli en þeir sem geri dómkröfur eða kröfum sé beint að, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 309/1994. Í málinu sé ekki byggt á ákvæðum 21. gr. laga nr. 91/1991 þannig að stefndu séu gerð þátttakendur að málinu með réttargæzlustefnu. Virðist sem dómkröfur beinist að þeim í þeim tilgangi að dómur um allar hugsanlegar kröfur stefnanda bindi hendur þeirra að einhverju leyti eða öllu. Að hvaða leyti svo eigi að vera og á grunni hvaða lagaheimilda sé hins vegar með öllu óljóst. Krefjist stefndu því frávísunar allra krafna á hendur sér.

Þá segjast stefndu byggja frávísunarkröfu sína á því að krafan gagnvart sér sé í engu studd málsástæðum í málsástæðukafla stefnunnar og engin lagarök séu boðin fram henni til stuðnings. Þannig sé ekki ljóst hvert sakarefnið sé gagnvart þeim og krafan sé því vanreifuð. Uppfylli kröfugerð stefnanda gagnvart stefndu hvorki áskilnað laga um meðferð einkamála né meginreglna einkamálaréttarfars um skýrleika og sé því ekki dómtæk í þeim búningi sem hún sé sett fram og beri því að vísa henni frá dómi. Stefndu segjast jafnframt benda á að þegar hafi verið tekin afstaða til þess að kröfugerð stefnanda í heild standist ekki framangreind skilyrði. Sé málið nú lagt fyrir dómstóla í annað sinn og verði ekki séð að um aðra kröfugerð sé að ræða en í fyrra máli. Inntakið sé hið sama og í Hæstaréttarmáli nr. 459/2015 en svo virðist sem sú ein breyting sé gerð að bætt sé við kröfugerðina setningunni „og að fóstursamningur dags. 2. júlí 2013 verði ógiltur“ og auk þess að stefndu C og D „verði gert að þola dóm í máli þessu“, en þó án þess að gerð sé viðhlítandi grein fyrir málsástæðum og eða aðild gagnvart þeim.

Til vara, verði talið að kröfugerð stefnanda standist að einhverju leyti eða öllu, gagnvart meðstefndu Barnaverndarnefnd B eða gagnvart stefndu, segjast stefndu sérstaklega krefjast frávísunarkröfu um ógildingu fóstursamnings sem stefndu séu aðilar að ásamt meðstefndu Barnaverndarnefnd B. Samningur sé gerður á grunni 68. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og sé stefnandi ekki aðili að þeim samningi og geti aldrei orðið. Skýrt hafi verið kveðið á um aðild í athugasemdum með ákvæði í frumvarpi sem orðið hafi að lögum nr. 80/2002. Þar segi að í fyrstu málsgrein sé gert ráð fyrir að við ráðstöfun barns í fóstur skuli barnaverndarnefnd og fósturforeldrar gera með sér fóstursamning. Aðilar samningsins sé barnaverndarnefnd og fósturforeldrar en aðrir, svo sem kynforeldrar barns, séu í reynd ekki aðilar slíks samnings. Þá segjast stefndu vísa til þess að í 77. gr. barnaverndarlaga nr. 88/2002 séu tæmandi taldar þær ástæður sem geti leitt til endurskoðunar fóstursamnings sem gerður sé samkvæmt 68. gr. laganna, það sé ef um sé að ræða ástæður er varði fósturforeldra og/eða líðan og umönnun fósturbarns. Yrði þá um að ræða samkomulag milli aðila samningsins eða úrskurð barnaverndarnefndar sem kæranlegur væri til kærunefndar barnaverndarmála en ekki úrlausnarefni sem ætti undir dómstóla. Aðilar slíks stjórnsýslubarnaverndarmáls yrðu fósturforeldrar og viðkomandi barna­verndarnefnd.

Stefndu segjast byggja frávísunarkröfu sína, hvað varði ógildingu fóstursamningsins, á því að stefnandi geti ekki farið fram á ógildingu á samningi sem hann sé ekki aðili að og það sé ekki á valdsviði dómstóla að ógilda fóstursamninga samkvæmt kröfu þriðja aðila. Sé um að ræða sakarefni sem ekki geti átt undir dómstóla sbr. 24. gr. laga um meðferð einkamála. Beri því að vísa kröfum stefnanda þar um frá dómi. Allar kröfu stefndu í málinu séu byggðar á ákvæðum laga nr. 91/1991, einkum 80. og 24. gr. Einnig sé byggt á ákvæðum barnaverndarlaga nr. 80/2002, einkum XII. kafla. Krafa um málskostnað sé byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991, og einkum 130. gr. Krafa um virðisaukaskatt af málsflutningsþóknun sé byggð á lögum á nr. 50/1988, þar sem lögmönnum sé gert að innheimta virðisaukaskatt vegna þjónustu sinnar. Stefndu séu ekki virðisaukaskattskyld vegna þessa málarekstrar og sé þeim því nauðsynlegt að fá skattinn tildæmdan úr hendi stefnanda.

Málsástæður og lagarök stefnanda í þessum þætti málsins

Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfunum verði hafnað. Hann kveðst hafa stjórnarskrárvarinn rétt til að bera mál sín undir dómstóla og vísar til 65. og 70. gr. stjórnarskrárinnar. Eigi stefnandi ekki að líða fyrir það að stefnda Barnaverndarnefnd fari með forsjá stúlkunnar.

Stefnandi vísar til ríkra hagsmuna sem stúlkan hafi af því að þekkja uppruna sinn. Hafi stefnandi ekki heimild til málshöfðunar hafi barnið ekki möguleika á að fá úrlausn dómstóla um þau réttindi sín.

Stefnandi segir, í tilefni þeirrar málsástæðu stefndu Barnaverndarnefndar að hann hafi ekki gert grein fyrir hæfni sinni til að fara með forsjá stúlkunnar, að ekkert liggi fyrir um vanhæfni sína til þess. Eigi hann að njóta þess vafa sem þar sé á.

Stefnandi segir að mikið skorti á að allar upplýsingar liggi fyrir um þá meðferð sem mál stúlkunnar hafi fengið og hvernig stefnda Barnaverndarnefnd B hafi staðið að því að taka ákvörðun um vistun hennar í varanlegt fóstur. Kveðst stefnandi telja þá ákvörðun hafa verið tekna á óréttmætum grunni og fara gegn markmiðum barnaverndarstarfs. Spyrja megi hvers vegna tímabundið fóstur hefði ekki verið látið standa lengur, fremur en að semja um varanlegt fóstur, og nýta tímann til að kanna möguleika þess að stefnandi fengi forsjá stúlkunnar. Sé málshöfðun stefnanda meðal annars til þess gerð að leiða í ljós hvað hafi farið úrskeiðis hjá stefndu Barnaverndarnefnd B. Verið geti að ómálefnalegar ástæður hafi verið fyrir ákvörðunum stefndu Barnaverndarnefnd og það verði ekki upplýst nema í dómsmáli.

Stefnandi kveðst geta átt aðild að máli til ógildingar samningi þótt hann sé ekki aðili að honum. Vísar hann til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 67/2001 því til stuðnings.

Stefnandi segir að ekki sé ófrávíkjanleg skylda að leitað sé sátta áður en forsjármál sé höfðað.

Stefnandi segir að dómurinn hafi rétt til að ákveða inntak umgengni stefnanda við stúlkuna, fari svo að aðalkröfum stefnanda verði hafnað.

Stefnandi kveðst taka skýrt fram að stefndu C og D séu hæf til að annast stúlkuna. Stefnandi kveðst engar athugasemdir gera við aðbúnað stúlkunnar og fagni því að henni líði vel hjá fósturforeldrunum. Stefnandi vilji ekkert frekar en að stúlkan lifi góðu lífi, en hann vilji hins vegar fá að taka þátt í því lífi.

Stefnandi segir alls ekki alltaf sjálfgefið að barni sé bezt að vera hjá kynforeldri sínu en hins vegar eigi börn rétt á því að þekkja uppruna sinn.

Niðurstaða

Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003 skal það, sem barni er fyrir beztu, ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess. Þá gildir sú meginregla í barnaverndarstarfi að beita skal þeim ráðstöfunum sem ætla má að barni séu fyrir beztu og skulu hagsmunir barna hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda, svo sem kveðið er á um í 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Hefur löggjafinn hér sett meginreglur um það hvaða hagsmunir skuli hafa forgang þegar málefni barna eru annars vegar. Eru þær málefnalegar og á færi löggjafans að setja. Er þar hvorki brotið gegn jafnræðisreglu né öðrum reglum stjórnarskrárinnar. Fari hagsmunir foreldra og barna þeirra ekki saman verður að horfa til þessara meginreglna íslenzks barnaréttar.

Í aðalkröfu sinni krefst stefnandi þess að honum verði falin forsjá stúlkunnar E, ógilt verði ákvörðun stefndu Barnaverndarnefndar B um að stúlkan skuli vistuð í varanlegu fóstri til átján ára aldurs og ógiltur verði fóstursamningur allra stefndu, dags. 2. júlí 2013.

Fyrir liggur í málinu að stúlkan hefur átt heimili sitt hjá stefndu C og D frá um átta vikna aldri, en hún er nú tæplega fjögurra ára gömul. Er augljóst að stúlkan þekkir ekki aðra skipan sinna mála.

Ekki getur verið vafi á, að í því yrði falin mjög mikil röskun á högum stúlkunnar ef fóstursamningur um hana yrði ógiltur og stefnanda yrði falin forsjá hennar, svo sem hann krefst. Af framangreindum meginreglum barnaréttar er ljóst að svo veigamiklar ákvarðanir yrðu ekki teknar nema litið yrði svo á að þannig yrði hagsmunum stúlkunnar bezt gætt.

Í stefnu er á nær engan hátt rökstutt að sú mikla röskun á högum stúlkunnar, sem í raun er gerð krafa um, yrði henni fyrir beztu. Er ekki reifað sérstaklega í stefnu hverjar aðstæður hennar séu í hinu varanlega fóstri og hvernig þær kynnu að breytast til betri vegar við það að stefnukröfur yrðu teknar til greinar. Er ekki byggt á því í málinu að hagsmunum stúlkunnar sé illa borgið hjá stefndu C og D og kom fram af hálfu stefnanda við munnlegan málflutning um frávísunarkröfurnar að ekkert benti til þess að svo væri. Er hæfni þessara stefndu til að annast stúlkuna ekki dregin í efa af hálfu stefnanda.

Fram kemur í stefnu að stefnandi hafi „misstigið sig á lífsleiðinni“ en hafi snúið við blaðinu, stundi nú vinnu og hafi gert í meira en ár við góðan vitnisburð. Hann eigi nú heima hjá móður sinni en bíði þess að komast í leiguhúsnæði. Í gögnum málsins er að finna staðfestingu vinnuveitenda á því að stefnandi hafi sinnt vinnu sinni vel. Stefnandi byggir á því að barni sé fyrir beztu að alast upp hjá „eigin fjölskyldu“ en að öðru leyti er ekki rökstutt að stúlkunni sé fyrir beztu að gerðar verði þær grundvallarbreytingar á högum hennar sem gerð er krafa um í málinu.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið skortir töluvert á að stefnandi hafi lagt viðhlítandi grunn að aðalkröfum sínum. Þykir verulega vanreifað hvernig hagsmunum stúlkunnar verði bezt talið borgið með því að gera þær breytingar á högum hennar sem stefnandi gerir kröfu um, og hans eigin hæfni til forsjárinnar þykir ekki heldur reifuð sem skyldi. Kröfur stefnanda um ógildingu fóstursamnings en forsjá sér til handa þykja samkvæmt framansögðu svo vanreifaðar að óhjákvæmilegt sé að vísa þeim frá dómi. Að þessu gættu þykir stefnandi ekki hafa lögvarða hagsmuni í málinu af ógildingu ákvörðunar um að stúlkunni verði ráðstafað í varanlegt fóstur. Þykir dómur ekki verða lagður á aðalkröfurnar eins og málið er úr garði gert og verður þegar á þeirri forsendu að fallast á kröfu stefndu um frávísun þeirra.

Varakröfur stefnanda eru þær að úrskurður stefndu Barnaverndarnefndar um umgengni stefnanda við stúlkuna verði felldur úr gildi og að með dómi verði kveðið á um inntak umgengnisréttar stefnanda við hana. Samkvæmt 4. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga kemur í hlut barnaverndarnefndar og við málskot kærunefndar barnaverndarmála að úrskurða um ágreining um umgengni við barn sem ráðstafað hefur verið í fóstur. Er ekki á valdi dómstóla að kveða á um inntak umgengnisréttar þótt þeir eigi úrskurðarvald um hvort barnaverndarnefnd hafi byggt ákvörðun sína á lögmætum grunni. Vísast um þetta til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 459/2015. Er með þessu ekki gengið gegn stjórnarskrárvörðum rétti stefnanda til að bera mál sín undir dómstóla.

Kröfu sína um ógildingu úrskurðar um umgengni stefnanda við stúlkuna byggir hann á því að í úrskurðinum sé sér ætluð of lítil umgengni. Með þeim úrskurði sem stefnandi krefst að verði felldur úr gildi var stefnanda ákveðin nokkur umgengni við barnið á ári hverju og uppruna barnsins er ekki haldið leyndum. Mat á því hversu mikil slík umgengni eigi að vera í hvert sinn á ekki undir dómstóla en eins og áður segir er ekki á valdi þeirra að kveða á um inntak umgengnisréttar við barn sem ráðstafað hefur verið í fóstur og úrskurður barnaverndarnefndar um umgengnisrétt verður ekki ógiltur fyrir dómi af þeim sökum að málsaðila hafi verið úrskurðaður rýrari umgengnisréttur en hann telur réttan. Í samræmi við það sem hér hefur verið rakið verður að vísa báðum varakröfum stefnanda frá dómi.

Með vísan til alls framanritaðs verður máli þessu vísað frá dómi. Stefnandi höfðar nú mál öðru sinni gegn stefndu Barnaverndarnefnd. Þrátt fyrir það og úrslit málsins þykir í ljósi málavaxta og atvika allra rétt að málskostnaður falli allur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Halldóru Kristínar Hauksdóttur hdl., 500.000 krónur, sem ákveðst án tillits til virðisaukaskatts en með tilliti til þess að stefnandi hefur áður höfðað mál vegna sömu málsatvika. Gætt var 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

Af hálfu stefndu Barnaverndarnefndar fór Sigmundur Guðmundsson hdl. með málið en Þyrí Halla Steingrímsdóttir hrl. af hálfu stefndu C og D.

Þorsteinn Davíðsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Máli þessu er vísað frá dómi.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, A, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Halldóru Kristínar Hauksdóttur hdl., 500.000 krónur.