Print

Mál nr. 10/2020

Vörður tryggingar hf. (Eva B. Helgadóttir lögmaður)
gegn
A (Jónas Þór Jónasson lögmaður)
Lykilorð
  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Örorkubætur
  • Uppgjör
  • Varanleg örorka
  • Örorkumat
  • Lífeyrissjóður
Reifun

A krafði V hf. um eftirstöðvar skaðabóta vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir við störf um borð í fiskiskipi. Í málinu deildu aðilar um rétt V hf. til að draga frá bótum vegna varanlegrar örorku eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóðum samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. V hf. byggði á því að miða skyldi áætlaðar framtíðargreiðslur til A við þær greiðslur sem hann naut frá lífeyrissjóðum á stöðugleikapunkti en til vara að miða skyldi rétt A til greiðslna frá lífeyrissjóðum við 50% varanlega örorku A. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að þótt upplýsingar um greiðslur sem tjónþoli hefði notið á stöðugleikapunkti gæfu að jafnaði vísbendingu um hvaða greiðslna hann mætti vænta til framtíðar, yrðu þær upplýsingar ekki einar og sér lagðar til grundvallar við ákvörðun um frádrátt. Þá ákvörðun yrði að byggja á heildarmati á því hvort og þá hvaða réttinda til greiðslna tjónþoli myndi njóta í framtíðinni. Til grundvallar matinu yrði að leggja allar upplýsingar sem fyrir lægju þegar það færi fram og unnt væri að draga af ályktanir um hvernig réttindi til slíkra greiðslna myndu þróast í framtíðinni. Hæstiréttur leit til þess að greiðslur sem A naut á stöðugleikapunkti voru tímabundnar til þriggja ára og að gera mátti ráð fyrir því að þær tækju breytingum að þeim tíma liðnum vegna ólíkra matsforsendna í samþykktum lífeyrissjóðsins LV. Þá hefði legið fyrir við bótauppgjörið endurmat trúnaðarlæknis lífeyrissjóðsins LV, um að örorka A til almennra starfa væri minni en 40%, sem leiddi til þess að A naut ekki örorkulífeyris þegar það fór fram né síðar. Með hliðsjón af því var ekki fallist á með V hf. að miða ætti áætlun um rétt A til örorkulífeyris frá lífeyrissjóðum í framtíðinni við þær greiðslur sem hann naut á stöðugleikapunkti. Þá var ekki fallist á með V hf. að rétt væri að miða við að A myndi í framtíðinni njóta örorkulífeyris frá lífeyrissjóðum miðað við áætlaða 50% örorku. Í því tilliti var litið til ólíkra forsendna að baki mati á fjárhagslegri örorku samkvæmt skaðabótalögum annars vegar og örorkumati trúnaðarlæknis lífeyrissjóðsins LV hins vegar. Þá hefði V hf. ekki freistað þess að hnekkja forsendum eða niðurstöðum þess örorkumats sem lífeyrissjóðurinn byggði á þá ákvörðun sína að greiða A ekki örorkulífeyri. Loks renndu gögn um tekjur A fyrir fullt starf í landi á árunum 2018 til 2020 stoðum undir að A hefði ekki haft réttmæta ástæðu til að fá örorkumat lífeyrissjóðsins endurskoðað í þeim tilgangi að sækja örorkulífeyri úr sjóðnum. Voru kröfur A því teknar til greina.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon og Viðar Már Matthíasson fyrrverandi hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. febrúar 2020. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar á öllum dómstigum en til vara að málskostnaður verði látinn niður falla.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Mál þetta lýtur að ágreiningi um uppgjör á kröfu stefnda á hendur áfrýjanda um greiðslu eftirstöðva skaðabóta fyrir varanlega örorku úr kjarasamningsbundinni slysatryggingu sjómanna vegna afleiðinga vinnuslyss sem stefndi varð fyrir um borð í fiskiskipi 17. mars 2014.

Uppgjör bóta fór fram milli aðila 4. maí 2017, meðal annars á grundvelli þeirrar niðurstöðu örorkumats 25. nóvember 2016 að stefndi hefði orðið fyrir skerðingu á getu til að afla tekna sem metin yrði til 40% varanlegrar örorku. Í matinu var stöðugleikapunktur ákveðinn 12. febrúar 2016. Við uppgjörið dró áfrýjandi frá bótum 40% af eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris, sem stefndi hafði fengið greiddan frá lífeyrissjóðum fram til apríl 2017, 2.921.345 krónur, og 40% af eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris sem áfrýjandi áætlaði að stefndi myndi njóta frá lífeyrissjóðum í framtíðinni miðað við að hann byggi til framtíðar við 50% skerðingu á getu til að vinna við önnur störf en sjómennsku, sem nam 17.180.256 krónum. Útreikningar á eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris voru miðaðir við stöðugleikapunkt. Báðir aðilar gerðu fyrirvara við uppgjörið.

Stefndi aflaði matsgerðar dómkvaddra manna 12. febrúar 2018 og komust þeir að þeirri niðurstöðu að varanleg örorka stefnda væri hæfilega metin 50%. Stöðugleikapunkt töldu þeir hinn sama og í fyrra áliti.

 Í málinu er hvorki ágreiningur um bótaskyldu áfrýjanda né varanlega örorku stefnda. Þá er ekki tölulegur ágreiningur. Stefndi byggir kröfu um greiðslu eftirstöðva bóta, miðað við 50% varanlega örorku, á því að ekki sé grundvöllur til að draga frá bótunum eingreiðsluverðmæti ætlaðs örorkulífeyris frá lífeyrissjóðum í framtíðinni. Krafa hans lýtur því að hækkun bóta vegna varanlegrar örorku um 11.685.825 krónur og ofteknum frádrætti vegna ætlaðs örorkulífeyris í fyrra bótauppgjöri að fjárhæð 17.180.256 krónur. Héraðsdómur og Landsréttur tóku kröfu stefnda að fullu til greina.

Með áfrýjuninni freistar áfrýjandi þess að fá niðurstöðu Landsréttar hnekkt. Hann telur að draga beri frá bótagreiðslum 40% af eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris sem ætla megi að  stefndi muni eiga rétt á í framtíðinni miðað við þær örorkulífeyrisgreiðslur sem hann hafi notið frá lífeyrissjóðum á stöðugleikapunkti. Þær greiðslur hafi tekið mið af þeirri niðurstöðu örorkumats, sem Lífeyrissjóður Vestmannaeyja hafi aflað, um 100% örorku stefnda til fyrri starfa á sjó. Til vara telur áfrýjandi rétt að miða frádráttinn við 40% af eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóðnum í framtíðinni sem taki mið af ætlaðri 50% örorku stefnda til almennra starfa.

Beiðni um áfrýjunarleyfi var meðal annars studd þeim rökum að óvissa væri um túlkun og beitingu 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og fordæmisgildi dóma Hæstaréttar, þar sem ítrekað hefði verið kveðið á um að leggja bæri til grundvallar að reikna skyldi greiðslur samkvæmt fyrrnefndu ákvæði til eingreiðsluverðmætis miðað við stöðu tjónþola við stöðugleikapunkt og draga þá fjárhæð frá bótum. Málið hefði verulegt fordæmisgildi enda teldi áfrýjandi að dómur Landsréttar væri á skjön við fyrri fordæmi og með honum hefði rétturinn gerbreytt bótauppgjörum. Áfrýjunarleyfi var veitt á þeim grunni að úrslit málsins gætu haft fordæmisgildi um túlkun og beitingu 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga.

II

Stefndi varð fyrir umræddu vinnuslysi 17. mars 2014 við störf í fiskiskipinu [...]. Hann var tryggður hjá áfrýjanda fyrir afleiðingum slíks slyss með kjarasamningsbundinni slysatryggingu sjómanna.

Stefndi var sjóðfélagi í Lífeyrissjóði Vestmannaeyja þegar hann slasaðist og réttur hans til örorkulífeyris úr sjóðnum grundvallaðist á 12. kafla samþykkta hans. Í grein 12.1 í samþykktunum er kveðið á um að sjóðfélagi sem verður fyrir orkutapi sem talið er að svari til 50% örorku eða meira, og hefur greitt í lífeyrissjóð í að minnsta kosti tvö ár, eigi rétt á örorkulífeyri úr sjóðnum. Þá er í grein 12.4 kveðið á um að hundraðshluta orkutaps og tímasetningu þess skuli ákveða á grundvelli örorkumats trúnaðarlæknis sjóðsins samkvæmt reglum um læknisfræðilegt örorkumat og að fengnum upplýsingum um heilsufarssögu og starfsorku sjóðfélaga aftur í tímann. Þá segir í greininni að fyrstu þrjú árin eftir orkutapið skuli örorkumat aðallega miðað við vanhæfni sjóðfélaga til að gegna því starfi sem hann hafi gegnt og aðild hans að sjóðnum er tengd. Að því tímabili loknu skuli orkutapið metið á ný með tilliti til vanhæfni sjóðfélaga til almennra starfa, nýrra upplýsinga um heilsufar og störf og árangurs af endurhæfingu. Orkutap skuli síðan endurmetið eftir því sem stjórn sjóðsins telji ástæðu til.

Samkvæmt endurmati trúnaðarlæknis lífeyrissjóðsins 21. apríl 2016 á orkutapi stefnda taldi hann ljóst að vegna slyssins myndi stefndi ekki „stunda sjómennsku aftur í framhaldi þessa“. Hann mat örorku stefnda til fyrri starfa 100% frá 17. mars 2014 til loka apríl 2017 en þá skyldi hún endurmetin. Ekki er ágreiningur um að stefndi fékk greiddan örorkulífeyri frá lífeyrissjóðnum í samræmi við þetta mat fram til apríl 2017 og að draga beri eingreiðsluverðmæti 40% þeirra greiðslna,  2.921.345 krónur, frá skaðabótum vegna varanlegrar örorku.

Aðilar öfluðu sameiginlega álitsgerðar læknis og lögfræðings um afleiðingar slyssins. Í álitsgerð þeirra 25. nóvember 2016 kom fram að einkenni stefnda væru til þess fallin að valda verulegri skerðingu á getu hans til að afla tekna þegar litið væri til starfsreynslu hans til sjós. Möguleika stefnda til starfa við sjómennsku í framtíðinni töldu þeir litla. Þá töldu þeir að einkenni stefnda í kjölfar slyssins myndu há honum að einhverju marki við léttari störf tengd sjávarútvegi í landi þrátt fyrir að þau reyndu ekki jafn mikið á líkamlega burði. Í álitsgerðinni kom fram að geta stefnda til að afla tekna í framtíðinni vegna afleiðinga slyssins svaraði til 40% varanlegrar örorku. Stöðugleikapunkt, þegar ekki hafi verið að vænta frekari bata hjá stefnda, töldu þeir vera 12. febrúar 2016.

Trúnaðarlæknir Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja endurmat orkutap stefnda vegna slyssins að nýju 23. mars 2017 og komst þá að þeirri niðurstöðu að varanleg örorka stefnda til fyrri sjómanns- og erfiðisstarfa væri 100% frá 17. mars 2014. Þá mat hann örorku stefnda til „annarra almennra starfa“ minni en 40%. Niðurstöðuna byggði trúnaðarlæknirinn meðal annars á vottorði læknis 8. mars 2017 og samtali við stefnda þar sem fram kom að hann ætlaði að láta á það reyna að vinna almenn störf. Ágreiningslaust er að stefndi hefur ekki notið örorkulífeyris frá Lífeyrissjóði Vestmannaeyja frá apríl 2017.

Aðilar gengu til uppgjörs bóta 4. maí 2017 á grundvelli matsgerðarinnar 25. nóvember 2016. Við uppgjörið dró áfrýjandi frá bótum fjárhæð sem svaraði til 40% af eingreiðsluverðmæti örorkulífeyrisgreiðslna frá þremur lífeyrissjóðum sem áfrýjandi taldi að stefndi hefði notið frá stöðugleikapunkti og myndi njóta til ellilífeyrisaldurs. Annars vegar var miðað við 100% örorku frá slysdegi og fram til 30. apríl 2007 og hins vegar að lífeyrissjóðirnir myndu meta örorku hans 50% eftir það og út starfsævina. Útreikningar á eingreiðsluverðmæti voru miðaðir við verðlag á stöðugleikapunkti 12. febrúar 2016. Áfrýjandi lagði til grundvallar þessum frádrætti útreikninga tryggingastærðfræðings á eingreiðsluverðmæti ætlaðra greiðslna örorkulífeyris og lífeyrisuppbótar til stefnda frá Lífeyrissjóði Vestmannaeyja, Gildi lífeyrissjóði og Almenna lífeyrissjóðnum. Reiknaðir voru þrír kostir hvað varðar frádrátt vegna örorkulífeyris stefnda frá 30. apríl 2017 til lífeyrisaldurs, miðað við 50%, 75% og 100% örorku. Niðurstaða útreikninga miðað við 50% örorku frá þeim tíma var að eingreiðsluverðmæti ætlaðra greiðslna frá Lífeyrissjóði Vestmannaeyja myndi nema 47.410.114 krónum, frá Gildi lífeyrissjóði samtals 2.600.859 krónum og Almenna lífeyrissjóðnum 243.030 krónum eða alls 50.254.003 krónum en 40% af þeirri fjárhæð næmi 20.101.601 krónu.

Við uppgjörið gerði stefndi fyrirvara um rétt til frekari bóta yrði varanleg örorka og/eða miski hans síðar metin hærri en samkvæmt þeirri álitsgerð sem lögð var til grundvallar við uppgjörið. Þá gerði stefndi fyrirvara við frádrátt greiðslna frá lífeyrissjóðum frá bótum fyrir varanlega örorku og um rétt til dráttarvaxta. Áfrýjandi hafði áður, í tölvubréfi til lögmanns stefnda 6. apríl 2017, sem fylgdi tilboði áfrýjanda um uppgjör bóta, gert þann áskilnað að endurskoða frádrátt örorkulífeyris til hækkunar ef í ljós kæmi að stefndi yrði að fullu óvinnufær.

Stefndi fékk lækni og lögfræðing dómkvadda 29. september 2017 til að meta meðal annars varanlega örorku sína vegna afleiðinga slyssins 17. mars 2014. Þeir komust að þeirri niðurstöðu í matsgerð 12. febrúar 2018 að varanleg örorka stefnda væri hæfilega metin 50%. Í forsendum matsmanna kom fram að ljóst væri að afleiðingar slyssins hefðu haft umtalsverð áhrif á starfsgetu stefnda og að ólíklegt væri að hann ætti afturkvæmt í sjómannsstörf. Enn fremur væri starfsgeta hans til líkamlega krefjandi starfa í landi umtalsvert skert. Fram kom í matsgerðinni að stefndi hefði ekki stundað launuð störf eftir slysið. Hins vegar ætti stefndi að geta unnið léttari almenn störf í landi, til dæmis störf sem tengdust sjávarútvegi, en stefndi hefði menntað sig til slíkra starfa. Matsmenn töldu þó ljóst að slík störf væru mun verr launuð en þau sem hann hefði gegnt á sjó. Þá töldu þeir starfsval stefnda og tekjumöguleika frekar takmarkaða vegna búsetu hans.

III

1

Í málinu reynir á hvað eigi að leggja til grundvallar við ákvörðun um hvort stefndi muni eiga rétt til örorkulífeyris frá lífeyrissjóðum í framtíðinni, sem koma eigi til frádráttar skaðabótum vegna varanlegrar örorku eftir ákvæðum 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, og eftir atvikum hversu ríkan rétt stefndi muni eiga.

Stefndi var á slysdegi tryggður hjá áfrýjanda samkvæmt kjarasamningsbundinni slysatryggingu sjómanna, sbr. 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Óumdeilt er að bætur vegna varanlegrar örorku stefnda samkvæmt tryggingunni skuli ákvarðast samkvæmt ákvæðum skaðabótalaga, þar á meðal ákvæðum laganna sem mæla fyrir um frádrátt frá bótum.  

Um varanlega örorku vegna líkamstjóns segir í 1. mgr. 5. gr. skaðabótalaga að valdi líkamstjón, þegar heilsufar tjónþola sé orðið stöðugt, varanlegri skerðingu á getu til að afla vinnutekna eigi hann rétt á bótum fyrir varanlega örorku.  Í 4. mgr. sömu greinar, eins og henni var breytt með 4. gr. laga nr. 37/1999, er fjallað um frádrátt frá skaðabótakröfu vegna líkamstjóns og segir þar meðal annars að frá slíkri kröfu dragist 40% af reiknuðu eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði og skuli við útreikninginn miðað við 4,5% ársafvöxtun.

Mat á varanlegri örorku er einstaklingsbundið fjárhagslegt mat. Metið er með svokallaðri mismunaaðferð sem miðar að því að áætla mismun þeirra atvinnutekna sem ætla má að tjónþoli hefði unnið sér inn ef líkamstjónið hefði ekki orðið og þeirra tekna sem hann muni að líkindum hafa í framtíðinni að teknu tilliti til þeirra áhrifa sem líkamstjónið hefur á aflahæfi hans. Matið miðast við heilsufarslega stöðu tjónþola þegar frekari bata er ekki að vænta. Mat á því hvenær svo er komið og hið fjárhagslega örorkumat er að jafnaði unnið talsvert síðar á grundvelli allra tiltækra upplýsinga sem þá liggja fyrir og til þess eru fallnar að treysta grundvöll undir ályktanir og spár um getu tjónþola til að afla atvinnutekna í framtíðinni.

2

Af hálfu áfrýjanda er aðallega byggt á því að honum sé heimilt, í kjölfar niðurstöðu dómkvaddra matsmanna um 50% varanlega örorku stefnda, að endurskoða fyrri frádrátt og draga frá greiðslu bóta til hans 40% af eingreiðsluverðmæti ætlaðra örorkulífeyrisgreiðslna í framtíðinni miðað við að þær verði í samræmi við þær greiðslur sem hann naut frá Lífeyrissjóði Vestmannaeyja á stöðugleikapunkti 12. febrúar 2016. Þær greiðslur hafi miðast við 100% örorku stefnda til starfa á sjó. Hækkun frádráttarins frá því sem miðað hafi verið við í fyrra bótauppgjöri nemi hærri fjárhæð en hækkun bóta miðað við 50% varanlega örorku í stað 40% sem nemi 5.494.432 krónum. Því sé krafist sýknu í málinu. Áfrýjandi telur hækkun fjárhagslegrar örorku stefnda í 50%, samkvæmt matsgerð dómkvaddra matsmanna, renna stoðum undir að stefndi muni njóta greiðslna örorkulífeyris frá lífeyrissjóðum vegna slyssins í framtíðinni.

Eins og rakið er í dómi Hæstaréttar 18. september 2003 í máli nr. 520/2002 er með ákvæðum skaðabótalaga meðal annars leitast við að bæta áætlað framtíðartjón tjónþola. Í dóminum sagði að samkvæmt orðalagi 4. mgr. 5. gr. laganna og lögskýringargögnum yrðu lögin ekki skýrð á annan hátt en að miða bæri framtíðarfrádrátt vegna greiðslna af félagslegum toga við þann tíma sem tjónþoli gæti ekki vænst frekari bata. Yrði það ekki gert nema mið væri tekið af því hvernig mál tjónþola stæðu á þeim tíma og áætla út frá því hvernig þau myndu þróast í framtíðinni samkvæmt meðaltalslíkindareglu.

Í dómi Hæstaréttar 20. október 2005 í máli nr. 119/2005 reyndi á hvernig haga bæri frádrætti örorkubóta frá Tryggingastofnun ríkisins frá bótum fyrir líkamstjón. Í forsendum dómsins segir svo: „Áfrýjandi fór fram á að tjón hans yrði bætt af réttargæslustefnda og var það gert með eingreiðslu í uppgjöri 13. janúar 2004, þar sem miðað var við stöðugleikapunkt áfrýjanda 3. júní 2001. Forsendur slíkrar eingreiðslu eru að skaðabætur fyrir varanlega örorku vegna slyss séu greiddar fyrir líkindatjón fram í tímann og að frá skaðabótum dragist að sama skapi áætlaðar framtíðargreiðslur frá almannatryggingum vegna slyssins, eins og gert er ráð fyrir í 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Enda þótt endurmeta skuli varanlega örorku áfrýjanda hjá Tryggingastofnun ríkisins í lok janúar 2006 verður vegna þessara forsendna fyrir tjónsuppgjöri að miða við að mat stofnunarinnar muni ekki breytast í þeim mæli í framtíðinni að ekki sé unnt að draga þessar uppreiknuðu bótagreiðslur frá metnum skaðabótum.“ Í dómum réttarins 27. september 2012 í máli nr. 45/2012 og 13. júní 2013 í máli nr. 20/2013 er jafnframt vísað til stöðugleikapunkts hvað varðar viðmiðunardag við útreikninga á eingreiðsluverðmæti greiðslna og réttinda sem koma eiga til frádráttar samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga.

Í ljósi þýðingar stöðugleikapunkts við uppgjör bóta vegna varanlegrar örorku samkvæmt 1. mgr. 5. gr. skaðabótalaga er rétt að reikna eingreiðsluverðmæti greiðslna eða réttinda sem koma eiga til frádráttar miðað við sömu dagsetningu. Þótt upplýsingar um greiðslur sem tjónþoli naut á stöðugleikapunkti gefi að jafnaði vísbendingu um hvaða greiðslna hann megi vænta til framtíðar verða þær upplýsingar ekki einar og sér lagðar til grundvallar við ákvörðun um frádrátt. Þá ákvörðun verður, samkvæmt framangreindum dómum og dómi réttarins 8. desember 2011 í máli nr. 242/2011,  að byggja á heildarmati á því hvort og þá hvaða réttinda til greiðslna tjónþoli muni njóta í framtíðinni. Þannig geta þær greiðslur sem tjónþoli nýtur á stöðugleikapunkti verið tímabundnar og ólíklegt að framhald verði á þeim auk þess sem undir hælinn kann að vera lagt hvort tjónþoli hafi á stöðugleikapunkti sótt allan rétt sem hann kann að eiga til slíkra greiðslna. Til grundvallar framangreindu mati verður þannig að leggja allar upplýsingar sem fyrir liggja þegar það er gert og unnt er að draga af ályktanir um hvernig réttindi til slíkra greiðslna muni þróast í framtíðinni.

Óumdeilt er að stefndi naut á stöðugleikapunkti 12. febrúar 2016 tímabundinna greiðslna örorkulífeyris frá Lífeyrissjóði Vestmannaeyja sem tóku mið af mati trúnaðarlæknis sjóðsins um 100% örorku stefnda til starfa við sjómennsku í þrjú frá slysdegi. Ef mið er tekið af grein 12.4 í samþykktum sjóðsins lá fyrir á stöðugleikapunkti að ekki mætti gera ráð fyrir að stefndi héldi óbreyttum réttindum til örorkulífeyris frá sjóðnum að liðnum þremur árum frá slysinu. Eftir þann tíma hlaut réttur stefnda til örorkulífeyris að taka mið af nýju mati trúnaðarlæknis lífeyrissjóðsins á orkutapi hans sem samkvæmt samþykktum sjóðsins skyldi þá metið með tilliti til vanhæfni stefnda til almennra starfa, auk nýrra upplýsinga um heilsufar og árangurs af endurhæfingu. Við uppgjör skaðabóta 4. maí 2017 lá fyrir endurmat trúnaðarlæknis lífeyrissjóðsins 23. mars sama ár um að örorka stefnda til almennra starfa væri minni en 40%. Stefndi naut því ekki örorkulífeyris þegar uppgjör bóta fór upphaflega fram og hefur ekki notið síðar.

Samkvæmt framansögðu verður ekki fallist á með áfrýjanda að miða eigi áætlun um rétt stefnda til örorkulífeyris frá sjóðnum í framtíðinni við þær greiðslur sem hann naut á stöðugleikapunkti.

3

Af hálfu áfrýjanda er á því byggt til vara að í öllu falli sé rétt að líta svo á að stefndi muni í framtíðinni njóta réttinda til örorkulífeyris frá lífeyrissjóðum miðað við ætlaða 50% örorku og því beri að lækka kröfu stefnda sem því nemur eða um 17.180.256 krónur. Áfrýjandi vísar meðal annars til þess að stefndi geti samkvæmt grein 18.3 í samþykktum Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja sótt bótarétt tvö ár aftur í tímann. Þá vísar áfrýjandi til þess að málatilbúnaður stefnda um að hann hafi meira en 50% vinnugetu til almennra starfa sé ekki í samræmi við niðurstöðu dómkvaddra matsmanna um hækkun varanlegrar örorku úr 40% í 50%, sem meðal annars hafi verið byggð á lýsingu stefnda sjálfs á matsfundi á afleiðingum slyssins. Sú lýsing hafi ekki verið í samræmi við upplýsingar sem hann hafi gefið trúnaðarlækni lífeyrissjóðsins, þegar hann undirgekkst endurmat á orkutapi, um að hann treysti sér til að hefja störf á almennum vinnumarkaði.

Stefndi byggir á því að það sé komið undir ákvörðun Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja hvort hann muni njóta greiðslna örorkulífeyris í framtíðinni. Þá byggir hann á því að hann hafi stundað vinnu í landi og haft launatekjur frá 2018 og því sé ekkert sem bendi til þess að það mat sem lífeyrissjóðurinn hafi lagt til grundvallar því að greiða honum ekki örorkulífeyri muni breytast í framtíðinni.

Við úrlausn þess hvort sú niðurstaða dómkvaddra matsmanna að varanleg örorka stefnda sé 50% renni nægum stoðum undir þann málatilbúnað áfrýjanda að rétt sé að miða við að stefndi muni í framtíðinni njóta örorkulífeyris frá lífeyrissjóðum, miðað við ætlaða 50% örorku, verður að hafa í huga mismunandi matsgrundvöll. Annars vegar verður að skoða forsendur mats á fjárhagslegri örorku samkvæmt skaðabótalögum og hins vegar forsendur þess örorkumats trúnaðarlæknis Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja sem lagt var til grundvallar ákvörðun um að greiða stefnda ekki örorkulífeyri að liðnum þremur árum frá vinnuslysi.

Bætur samkvæmt 1. mgr. 5. gr. skaðabótalaga miða að því að bæta mönnum varanlega skerðingu vinnutekna af völdum líkamstjóns frá stöðugleikapunkti til ætlaðra starfsloka. Í samræmi við það miðar mat á varanlegri örorku samkvæmt skaðabótalögum að því að áætla fjártjón tjónþola í framtíðinni vegna afleiðinga tjónsatburðar á grundvelli samanburðar á atvinnuþátttöku fyrir tjónsatburð og ætlaðri atvinnuþátttöku í framtíðinni. Örorkumat trúnaðarlæknis Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja skal hins vegar vera í samræmi við ákvæði samþykkta lífeyrissjóðsins.

Eins og glöggt kemur fram í áðurnefndri matsgerð 12. febrúar 2018 byggðist niðurstaða um 50% fjárhagslega örorku stefnda einkum á því að mjög ólíklegt væri að stefndi ætti afturkvæmt til starfa á sjó en að hann ætti að geta unnið við léttari almenn störf í landi. Þá töldu matsmenn ljóst að laun fyrir slík störf í landi væru mun lægri en þau sem stefndi hefði haft á sjó. Áfrýjandi hefur fallist á að greiða bætur í samræmi við niðurstöðu þessa mats á fjárhagslegri örorku stefnda og hefur ekki andmælt forsendum þess.

Samkvæmt grein 12.1 í samþykktum Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja á sjóðfélagi, sem verður fyrir orkutapi sem talið er að svari til 50% örorku eða meira og hefur greitt í lífeyrissjóð í að minnsta kosti tvö ár, rétt á örorkulífeyri úr sjóðnum í samræmi við áunnin réttindi. Ef mið er tekið af orðalagi greinar 12.4 er gert ráð fyrir að hundraðshluta örorkutaps og tímasetningu þess skuli ákveða á grundvelli örorkumats trúnaðarlæknis sjóðsins samkvæmt reglum um læknisfræðilegt örorkumat og að fengnum upplýsingum um heilsufarssögu og starfsorku sjóðfélaga aftur í tímann.  Líta verður svo á að átt sé við áþekkt mat á örorku og miðað er við þegar fjárhæð miska er ákveðin samkvæmt 1. mgr. 4. gr. skaðabótalaga. Þrátt fyrir umrætt orðalag segir síðan í grein 12.4 í samþykktunum að fyrstu þrjú árin eftir orkutap skuli örorkumat aðallega miðað við vanhæfni sjóðfélaga til að gegna því starfi sem hann hefur gegnt og aðild hans að sjóðnum er tengd en að því tímabili loknu með tilliti til vanhæfni hans til annarra starfa. Síðastgreinda orðalagið bendir fremur til þess að matið eigi að reisa á öðrum grundvelli en læknisfræðilegu örorkumati. Örorkumöt trúnaðarlæknis lífeyrissjóðs Vestmannaeyja sem liggja fyrir í málinu benda til þess að mötin hafi ekki verið reist á reglum um mat á læknisfræðilegri örorku.

Upplýsingar sem stefndi hefur lagt fram fyrir Landsrétti og ný gögn sem hann hefur lagt fram fyrir Hæstarétti um tekjur fyrir fullt starf í landi á árunum 2018 til 2020 renna stoðum undir að hann hafi ekki haft réttmæta ástæðu til að fá örorkumat trúnaðarlæknis lífeyrissjóðsins 23. mars 2017 endurskoðað í þeim tilgangi að sækja örorkulífeyri úr lífeyrissjóðum.

Enda þótt áfrýjandi byggi á því að ætla megi að stefndi muni í framtíðinni njóta örorkulífeyris frá lífeyrissjóðum hefur hann ekki freistað þess að hnekkja forsendum eða niðurstöðu þess örorkumats trúnaðarlæknis sem þeir hafa byggt á ákvarðanir sínar um að greiða stefnda ekki örorkulífeyri. Þá hefur hann ekki skorað á stefnda að óska endurmats á örorkumatinu.

Samkvæmt þessu verður við uppgjör bóta til stefnda að miða við að hann eigi ekki rétt til greiðslna örorkulífeyris frá lífeyrissjóðum frá apríl 2017 sem koma eigi til frádráttar við uppgjör bóta til hans vegna slyssins 17. mars 2014.  Hinn áfrýjaði dómur verður því staðfestur.

Eftir úrslitum málsins verður áfrýjanda gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Vörður tryggingar hf., greiði stefnda, A, 1.200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Landsréttar 20. desember 2019.

Mál þetta dæma landsréttardómararnir Davíð Þór Björgvinsson og Jóhannes Sigurðsson og Sigríður Ingvarsdóttir, settur landsréttardómari.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

1        Áfrýjandi skaut málinu til Landsréttar 9. apríl 2019. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 20. mars 2019 í málinu nr. E-1671/2018.

2        Áfrýjandi krefst sýknu af öllum kröfum stefnda. Þá krefst hann aðallega málskostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti en til vara að málskostnaður verði látinn niður falla.

3        Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Landsrétti.

Niðurstaða

4        Mál þetta lýtur að uppgjöri á skaðabótum vegna slyss sem stefndi varð fyrir 17. mars 2014 um borð í fiskiskipinu [...]. Í málinu er deilt um hvort miða skuli frádrátt samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 við batahvörf, sem í gögnum málsins er vísað til sem stöðugleikatímapunkts, eða síðari dagsetningu. Í útreikningum tryggingarstærðfræðings á reiknuðu endurgreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóðnum er miðað við þau réttindi sem stefndi naut við batahvörf.

5        Í 4. málslið 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga kemur fram að frá skaðabótakröfu skuli draga 40% af reiknuðu eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði og skal við útreikninginn miðað við 4,5% ársávöxtun. Í ákvæðinu er ekki kveðið á um hvort miða skuli við stöðu tjónþola hjá lífeyrissjóði við batahvörf, ólíkt því sem segir í 1. mgr. sömu greinar um mat á bótum fyrir varanlega örorku. Ákvæði 4. mgr. 5. gr. tók á sig núverandi mynd að þessu leyti þegar því var breytt með 4. gr. laga nr. 37/1999. Samkvæmt eldra ákvæðinu voru greiðslur sem tjónþoli fékk frá þriðja manni vegna líkamstjóns, þar með talið lífeyrissjóði, ekki dregnar frá við uppgjör bóta fyrir varanlega örorku.

6        Í athugasemdum við 4. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 37/1999 kemur meðal annars fram að lagt sé til að til frádráttar bótum fyrir varanlega örorku komi greiðslur af félagslegum toga sem komi í hlut tjónþola vegna örorkunnar. Þá kemur fram að lengi hafi verið álitamál hvernig fara beri með örorku­lífeyri við uppgjör slysabóta. Rétt til örorkulífeyris öðlist menn með iðgjaldagreiðslum til lífeyrissjóðs. Í eðli sínu sé örorkulífeyrir samsettur annars vegar sem tryggingabætur sem tjónþoli hafi sjálfur greitt iðgjald af og hins vegar sem tryggingabætur þar sem vinnu­veitandi greiði iðgjaldið. Algengast sé að launþeginn greiði 4% tekna sinna í lífeyrissjóðsiðgjald en vinnuveitandinn 6% ofan á greidd laun. Iðgjaldshluti vinnu­veitandans sé þó stundum hærri. Samkvæmt lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða sé öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnu­rekstur eða sjálfstæða starfsemi skylt að tryggja sér lífeyrisréttindi með aðild að lífeyris­sjóði. Vegna lagaskyldunnar megi færa fyrir því rök að réttur til örorkulífeyris sé annars eðlis en bótaréttur sem fáist úr frjálsum slysatryggingum. Örorkulífeyrir sé, vegna lagaskyld­unnar, nær því að vera félagslegt úrræði. Áður en skaðabótalögin tóku gildi árið 1993 hafi dómstólar haft verðmæti örorkulífeyris til hliðsjónar við ákvörðun bóta, án þess þó að verðmætið væri dregið frá að fullu við ákvörðunina. Almennt öðlist tjón­þoli ekki rétt til örorkulífeyris frá lífeyrissjóði nema varanleg örorka hans sé a.m.k. 40%.

7        Eins og ráðið verður af tilvitnuðum athugasemdum við 4. gr. frumvarps, sem varð að lögum nr. 37/1999, er tilgangur reglna skaðabótaréttarins um bætur fyrir varanlega örorku að bæta tjónþola tap á atvinnutekjum sem hann mun að líkindum verða fyrir í framtíðinni þannig að hann verði jafnsettur og ef tjónið hefði aldrei orðið, eins og nánar er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. skaðabótalaga miðast mat á varanlegri örorku við batahvörf, sem er það tímamark þegar heilsufar tjónþola er orðið stöðugt og ekki er að vænta frekari bata.

8        Samkvæmt greinum 12.1 og 12.3 í samþykktum Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja um lágmarksréttindi og fleira frá 8. maí 2015 á sjóðfélagi, sem verður fyrir orkutapi sem talið sé að svari til 50% örorku eða meira og hafi greitt í lífeyrissjóð í a.m.k. tvö ár, rétt á örorkulífeyri úr sjóðnum, enda hafi hann orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins. Fram kemur í grein 12.4 að hundraðshluta orkutaps og tímasetningu þess skuli ákveða á grundvelli örorkumats trúnaðarlæknis sjóðsins samkvæmt reglum um læknisfræðilegt örorkumat og að fengnum upplýsingum um heilsufarssögu og starfsorku sjóðfélaga aftur í tímann. Fyrstu þrjú árin eftir orkutapið skuli örorkumat aðallega miða við vanhæfni sjóðfélaga til að gegna því starfi er hann hefur gegnt en að því tímabili loknu skuli orkutap metið á ný með tilliti til vanhæfni sjóðfélaga til almennra starfa, nýrra upplýsinga um heilsufar og störf og árangurs af endurhæfingu. Orkutap skuli síðan endurmetið eftir því sem stjórn sjóðsins telji ástæðu til.

9        Dómar Hæstaréttar Íslands sem raktir eru í héraðsdómi, þar sem reynt hefur á frádrátt bóta samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, eiga það sameiginlegt að þar hafa tjónþolar notið bóta við batahvörf og að endurmat á örorku mundi ekki breytast í þeim mæli í framtíðinni að ekki væri unnt að draga reiknaðar örorkubætur frá skaðabótum vegna varanlegrar örorku. Atvik þessa máls eru ósambærileg, enda liggur fyrir að eftir batahvörf, en áður en aðilar máls gengu til uppgjörs, var orkutap stefnda metið að nýju af Lífeyrissjóði Vestmannaeyja, sem leiddi til þess að stefndi naut ekki lengur réttar til örorkulífeyris hjá lífeyrissjóðnum. Við batahvörf voru umtalsverðar líkur á því að réttindi stefnda til örorkulífeyris myndu skerðast þar sem framtíðarviðmið örorkulífeyrisréttinda hans hjá lífeyrissjóðnum skyldu samkvæmt samþykktum hans miða við örorku til almennra starfa en ekki sjómennsku. Áfrýjandi ber sönnunarbyrðina fyrir réttmæti þess frádráttar sem hann gerði við bótauppgjörið.  Hann hefur á hinn bóginn ekki fært fram gögn eða rök fyrir því að örorkumat stefnda hjá lífeyrissjóðnum sé líklegt til að breytast þannig að hann muni á ný njóta réttar til örorkulífeyris hjá sjóðnum. Yrði fallist á kröfu áfrýjanda myndi það við þessar aðstæður leiða til þess að stefndi fengi tjón sitt ekki að fullu bætt í samræmi við þau grundvallarsjónarmið sem liggja að baki reglum skaðabótalaga. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

10       Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Landsrétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Vörður tryggingar hf., greiði stefnda, A, 1.000.000 króna í málskostnað fyrir Landsrétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. mars 2019.

I.

Dómkröfur o.fl.:

Mál þetta var höfðað 23. maí 2018 og dómtekið 28. febrúar 2019. Stefn­andi er A, [...]. Stefndi er Vörður trygg­ingar hf., Borgartúni 25, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 28.866.081 krónu með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 12. febrúar 2016 til 2. janúar 2017, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 17.180.256 krónum en 4,5% vöxtum af 11.685.825 krónum frá þeim degi til 16. mars 2018, en með dráttarvöxtum af 28.866.081 krónu frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að skað­­­­­­lausu að mati dómsins, í samræmi við þá hagsmuni sem í húfi eru og vinnu mál­flytjanda, og að tekið verði tillit til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar, en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og máls­­­­­­­­­­kostnaður verði látinn niður falla.

 

II.

Málsatvik:

1.

Stefnandi, sem er fæddur árið [...], slas­aðist 17. mars 2014 þegar hann var við störf á fiskiskipinu [...]. Stefn­andi varð óvinnufær eftir slysið og leitaði sér læknis­­­­aðstoðar og sjúkra­­þjálfunar til að ná bata. Stefnandi hafði starfað mestalla sína starfs­­­­­ævi fram að slysinu við sjómennsku á fiskiskipum, sem háseti, matsveinn og vélar­­­­vörður, og hafði lokið hluta af námi í vél­stjórn.

Stefn­andi var tryggður hjá stefnda samkvæmt kjara­samn­ings­bundinni slysa­­­trygg­ingu sjó­manna, sbr. 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985, en bætur sam­kvæmt slysatrygg­ing­­­unni eru ákvarð­aðar á grundvelli laga nr. 50/1993 með síðari breyt­ingum.

 

2.

Stefnandi naut á slysdegi réttinda hjá Lífeyrissjóði Vestmannaeyja o.fl. sam­kvæmt lög­­um nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi líf­eyris­sjóða, sbr. síðari breyt­­­­­­ingar.

Með matsgerð B læknis, dagsettri 21. apríl 2016, til Lífeyris­sjóðs Vestmannaeyja, var lagt mat á orkutap. Samkvæmt því mati var örorka stefn­­­anda til fyrri starfa talin vera 100% frá slys­degi til 30. apríl 2017 og var meðal annars tekið fram að stefnandi myndi ekki stunda sjómennsku framvegis.

 

3.

Með sameiginlegri matsbeiðni aðila, dagsettri 4. nóvember 2015, var óskað eftir því að C læknir og D lögmaður mætu tíma­bundnar og varan­­legar afleiðingar slyssins á grundvelli laga nr. 50/1993.

Í matsgerð C og D, dagsettri 25. nóvember 2016, greinir meðal annars að tímabil tímabundins atvinnutjóns samkvæmt 2. gr. laga nr. 50/1993 hafi verið metið og það talið eiga við frá slysdegi til 12. febrúar 2016, þegar stöðug­leika­tíma­punkti var náð. Tímabil þján­inga samkvæmt 3. gr. sömu laga hafi verið metið og það talið eiga við í jafn­langan tíma. Varanlegur miski sam­­kvæmt 4. gr. lag­anna var hæfi­­lega metinn 18 stig. Þá var varanleg örorka sam­kvæmt 5. gr. laga nr. 50/1993 metin 40%.

 

4.

Með bréfi til stefnda 2. desember 2016 krafðist stefnandi uppgjörs bóta fyrir tíma­bundnar og varanlegar afleiðingar slyssins, sbr. fyrrgreinda matsgerð C og D frá 25. nóvember sama ár. Af því tilefni óskaði stefndi eftir útreikningi trygg­inga­­stærð­­­fræðings á eingreiðslu­verð­­­­­­mæti bóta­greiðslna frá líf­eyris­­­sjóðum til stefn­­anda vegna slyss­ins, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993 með síðari breytingum.

Sam­­­kvæmt út­­­reikn­­ing­um tryggingastærðfræðingsins, dagsettum 9. febrúar 2017, var ein­­­greiðslu­verð­mæti bóta­­greiðslna frá lífeyrissjóðum frá fyrrgreindu tíma­marki stöðug­­­­l­eikatímapunkts til 67 ára aldurs stefn­anda metið 20.101.601 króna mið­að við 50% örorku og 37.281.858 krónur mið­að við 100% ör­orku.

 

5.

Stefnandi leitaði til E, læknis við Heil­­brigðis­stofnun Suður­lands í Vestmannaeyjum. Í vottorði læknisins til Lífeyrissjóðs Vest­manna­eyja, dag­­settu 8. mars 2017, greindi meðal annars að stefnandi teldist vinnufær til almennra starfa frá og með dag­setningu vott­orðsins en hann væri hins vegar óvinnu­fær til að starfa á sjó og til erfiðis­­­vinnu.

Með matsgerð B, læknis, dagsettri 23. mars 2017, til Líf­eyris­sjóðs Vestmannaeyja, þar sem vísað var til fyrrgreinds læknisvottorðs, var orkutap stefn­­anda endurmetið. Í þeirri matsgerð var lagt til grund­­­­vallar að örorka stefnanda til fyrri sjó­manns­­­starfa og erfiðis­starfa væri 100% og að hún væri varan­leg frá 17. mars 2014 að telja. Ör­orka til annarra almennra starfa væri hins vegar minni en 40%.

Að þessu virtu miðaði lífeyrissjóðurinn við að örorkulífeyrisgreiðslur frá sjóðnum til stefnda féllu niður frá þeim tíma, sbr. grein 12.1 í sam­þykktum líf­eyris­sjóðsins um lágmarks­réttindi og fleira.

 

6.

Bótatilboð stefnda var sent til lögmanns stefnanda með tölvuskeyti 6. apríl 2017. Tilboðið var sett fram með fyrirvara, og þá sérstaklega varðandi ein­greiðslu­­verð­mæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóðnum samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993. Í því til­boði var miðað við að stefnandi fengi 50% áframhaldandi örorkumat hjá lífeyris­sjóðn­um. Að sögn stefnda gerði hann þetta í sáttatilgangi enda hefði legið fyrir að stefn­­­­­andi væri metinn til 100% tíma­bund­innar örorku hjá líf­eyris­­sjóðn­um á stöðug­­­­leikatíma­punkti 12. febrúar 2016 og að út­reikn­ingur trygginga­stærð­fræð­­ings­ins hefði tekið mið af því. Vísað var til hins sam­eigin­lega örorkumats um langan starfsferil stefnanda á sjó og að hann hefði tjáð sig um það á matsfundi að hann ætti erfitt með að sjá atvinnu­möguleika sína á öðrum svið­um. Þá benti stefndi á að fram kæmi í ör­­orku­matinu að ein­­­kenni stefn­­­anda í kjöl­­far slyssins myndu há hon­um að einhverju marki við léttari störf þrátt fyrir að þau reyndu ekki jafn mikið á líkam­lega burði. Að því virtu teldi stefndi að allar líkur væru á því að stefnandi yrði metinn hið minnsta til 50% lág­marks­­­­­örorku hjá lífeyrissjóðnum og að hann myndi í fram­tíð­inni þiggja greiðslur þaðan. Kæmi hins vegar annað í ljós, til dæmis að stefn­andi yrði áfram að fullu óvinnu­­­­­­fær, þá áskildi stefndi sér allan rétt til að endur­skoða frádráttinn til hækkunar. 

Lögmaður stefnanda óskaði eftir því við stefnda 7. apríl 2017 að félagið uppfærði bóta­­tilboð sitt miðað við fyrrgreindar niðurstöður lífeyrissjóðsins 23. mars sama ár um að örorkulífeyrisgreiðslur féllu niður. Með svari stefnda 25. apríl 2017 var beiðn­inni hafnað en fyrra bótatilboð áréttað. Í svar­­­­­­inu var lagt til grund­vallar að miða ætti við stöðu tjón­­þola á stöðugleikatímapunkti þegar kæmi til frádráttar á grund­velli 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993 vegna eingreiðslu­verð­­mætis örorkulífeyris frá líf­eyris­sjóði. Með þessu væri miðað við sama tímamark og ætti við um varan­lega ör­orku. Hið sama ætti við þótt fyrir lægi að frek­ari greiðslur myndu ekki berast að svo stöddu. Önnur niður­­staða væri í andstöðu við mark­­­­­­­­­­mið laga nr. 50/1993 um endan­legt uppgjör og var vís­að til nánar tilgreindra dóma Hæsta­réttar Íslands. Þessu til viðbótar var tekið fram að stefn­di teldi að það væri stefn­­anda í hag að í bótauppgjöri yrði ekki miðað við 100% greiðslur úr lífeyrissjóði til framtíðar, eins og hugsanlega væri rétt að gera, og stefndi myndi gera fyrirvara um í upp­gjöri aðila. Þá ítrekaði stefndi fyrra bótatilboð sitt en taldi rétt að ágreiningur um hvort frádráttur vegna eingreiðslu­verð­mætis ör­orku­­lífeyris væri réttmætur mynda fara fyrir dóm­­stóla svo skýrt fordæmi fengist fyrir því hvort síð­­ari breyting á bótarétti tjónþola hjá lífeyrissjóði gæti breytt for­sendum upp­­gjörs. 

 

7.

Aðilar náðu ekki saman um framangreindan ágreining. Fullnaðaruppgjör sam­kvæmt lögum nr. 50/1993 fór fram 4. maí 2017 á grundvelli hinnar sameiginlegu mats­gerðar C og D, dagsettrar 25. nóvember 2016. Uppgjörið var með fyrirvara næðist ekki sam­­­­komulag um bætur. Í bótauppgjörinu var meðal annars lagt til grund­vallar að frá­dráttur yrði frá bótum stefn­­anda fyrir varanlega örorku miðað við að hann fengi 50% örorkulíf­eyris­­­greiðslur frá apríl 2017 og þar til hann næði 67 ára aldri. Nánar til­tekið nam frá­drag stefnda frá bótum stefnanda vegna örorku­lífeyris­greiðslna samtals 20.101.601 krónu, þar af 2.921.345 krónum vegna slíkra greiðslna sem stefnandi fékk frá stöðugleika­tímapunkti til og með mars 2017, sem ekki var ágrein­ingur um. Því til við­­bótar var hins vegar miðað við að hann sætti frádragi að fjár­hæð 17.180.256 krónur vegna tíma­bils­ins frá apríl 2017 til 67 ára aldurs stefnanda. Stefnandi tók á móti bóta­greiðslu stefnda með nokkrum fyrir­­­vörum af hans hálfu sem skráðir voru á fylgiskjali með kvittun um full­naðaruppgjör. Fyrirvararnir voru meðal annars um lögmæti fyrr­greinds frá­­dráttar vegna greiðslna frá líf­eyrissjóði frá apríl 2017 til 67 ára aldurs og einnig um hugsan­legan rétt hans til frek­ari bóta yrði varanleg ör­orka eða miski síðar met­inn hærri en sam­kvæmt fyrr­greindri matsgerð.

 

8.

Í framhaldi af bótauppgjörinu óskaði stefnandi eftir mati dómkvaddra matsmanna á afleiðingum slyssins með tilliti til varanlegs miska og varanlegrar örorku, sbr. 4. og 5. gr. laga nr. 50/1993 með síðari breytingum. Í matsgerð dómkvaddra matsmanna, F bæklunarlæknis og G lögmanns, dagsettri 12. febrúar 2018, voru niðurstöður matsgerðar C og D um varanlegan miska og stöðug­leikatíma­­­­punkt stefnanda óbreyttar. Varanleg örorka hans var hins vegar metin 50% og þar með hækkuð um 10% frá því sem var í hinni fyrri matsgerð. Með tölvu­­skeyti til stefnda 16. sama mánaðar krafðist lögmaður stefnanda greiðslu á frek­ari skaða­­­bótum til stefnanda að fjárhæð 11.685.825 krónur, auk vaxta og kostn­aðar, á þeim grundvelli að varanleg örorka væri 10% hærri en miðað hefði verið við í fyrr­­greindu bótauppgjöri. Þá var áréttað að hluti bóta fyrir varanlega örorku sam­kvæmt fyrri matsgerð væri enn ógreiddur.

Viðbótarkröfunni var hafnað með tölvuskeyti stefnda 20. mars sama ár. Í því skeyti var áréttað að félagið teldi rétt að miða frádrátt sam­kvæmt 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993 við stöðu tjónþola á stöðugleikatímapunkti. Vísað var til þess að stefn­andi hefði verið algjörlega óvinnufær frá slysdegi og ekki verið á vinnumarkaði frá þeim degi. Við fyrra uppgjör hefði félagið ákveðið að miða einungis við 50% greiðslur frá líf­­­eyris­­sjóði til fram­búðar í stað 100%, sem félagið hefði áskilið sér að endur­skoða ef stefn­­­­­andi yrði áfram óvinnufær. Þá var vísað til niðurstöðu dómkvaddra mats­manna þar sem fram kæmi að stefnandi hefði ekki stundað neina launaða vinnu eftir slysið og að hann hefði upplýst að öll störf sem tengdust menntun hans væru líkamlega krefj­andi. Dómkvaddir matsmenn hefðu því hækkað varanlega örorku hans úr 40% í 50%. Teldi stefndi því að að miða ætti frádrátt við 100% greiðslur úr líf­­eyrissjóði til 67 ára aldurs enda hefði félagið áskilið sér rétt til að endurskoða frá­drátt á síðari stig­um. Þá taldi stefndi, miðað við þessar forsendur, að félagið væri búið að ofgreiða stefn­anda 5.494.432 krónur og að þessu virtu hafnaði félagið frekari bótagreiðslum vegna slyss­ins. 

 

III.

Helstu málsástæður og lagarök stefnanda:

Stefnandi gerir í málinu kröfu á hendur stefnda um greiðslu eftirstöðva bóta fyrir varanlega örorku úr slysatryggingu sjómanna vegna afleiðinga sjóvinnuslyss 17. mars 2014. Stefnandi tekur fram að í málinu sé hvorki ágreiningur um bótaskyldu stefnda né niður­stöðu matsgerðar dómkvaddra matsmanna um 50% varanlega örorku vegna af­­leiðinga slyssins. Þá sé heldur ekki deilt um útreikning á bótum til hans fyrir varan­lega örorku. Ágreiningurinn taki hins vegar til þess hvort heimild sé fyrir frá­dragi sam­­­kvæmt 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993 frá bótum stefnanda fyrir varanlega örorku. Nánar tiltekið snýst ágreiningurinn um það hvort slík heimild sé fyrir hendi eftir mars 2017 með tilliti til endur­­mats Líf­­eyrissjóðs Vestmannaeyja á örorku stefnanda til almennra starfa sem leitt hafi til þess að stefnandi átti ekki lengur rétt á örorku­lífeyris­greiðslum frá sjóðn­um sam­kvæmt sam­þykkt­um hans. 

Stefnandi tekur fram að við uppgjör bóta samkvæmt fyrri matsgerð hafi stefnda verið heimilt að draga fjárhæð frá bótum stefnanda fyrir varanlega örorku sem nemi 40% af reiknuðu eingreiðsluverðmæti örorkulífeyrissjóðsgreiðslna stefnanda frá stöðug­­­­­­leikatíma­­punkti fram í mars 2017. Frá þeim tíma hafi þær greiðslur hins vegar fallið niður. Frekara frádrag eftir þann tíma hafi því verið óheimilt þar sem stefn­andi njóti ekki lengur fyrrgreinds örorkulífeyrisréttar. Að mati stefnanda hljóti það að vera for­­senda fyrir slíku frádragi að hann eigi rétt til slíkra greiðslna. Að því virtu eigi við­bótar­­­­­­­frádrag stefnda ekki rétt á sér og afstaða hans til þess sé fjarstæðukennd og standist ekki skoðun. Þá hafi dómar sem stefndi vísi til ekki fordæmisgildi þar sem máls­­­­­­­atvik séu ósambærileg.

Stefnandi vísar til þess að við uppgjör bóta samkvæmt matsgerð, dagsettri 25. nóv­ember 2016, hafi stefndi að ósekju haldið eftir 17.180.256 krónum þar sem hann hafi talið að heimilt væri að draga frá bótum stefnanda fjárhæð sem næmi 40% af reikn­­­­­uðu eingreiðsluverðmæti miðað við 50% örorkulífeyrisgreiðslur til stefnanda, vegna tíma­­­bilsins frá apríl 2017 uns stefnandi næði 67 ára aldri. Niðurstaða dóm­kvaddra mats­manna hefði svo leitt til viðbótarbótaréttar stefnanda að fjárhæð 11.685.825 krónur vegna hækkunar á varanlegri örorku. Eftir að stefnandi hafi krafið stefnda um þá fjárhæð hafi stefndi breytt afstöðu sinni til frádrags og talið sér heimilt að miða við 100% örorkulífeyrisgreiðslur í stað 50% áður. Stefndi hafi því talið sér heimilt að draga 34.360.512 krónur frá bótum stefnanda fyrir varanlega ör­orku, vegna tímabilsins frá apríl 2017 til 67 ára aldurs hans. Að því virtu hefði stefndi hafnað kröfu stefn­­­anda um greiðslu viðbótarbóta og lagt til grundvallar að hann hefði ofgreitt honum bætur fyrir varanlega örorku að fjárhæð 5.494.432 krónur.

Stefnandi byggir á því að augljóst sé að viðbótarfrádrag stefnda sé óheimilt sam­kvæmt lögum nr. 50/1993, einkum miðað við gagnályktun frá 4. mgr. 5. gr. laganna. Þá telur stefnandi að afstaða stefnda fái ekki samrýmst reglum kröfuréttar, meðal annars um óréttmæta auðgun, né heldur skilmálum gildandi vátryggingar. Telur stefn­andi að engin stoð sé fyrir þeirri lögskýringu stefnda að fái tjónþoli greiddan tíma­­bund­­inn ör­orku­lífeyri frá lífeyrissjóði á stöðugleikatíma­punkti þá leiði það til þess að heimilt sé að miða við að áframhald verði á líf­eyrisgreiðslum til 67 ára aldurs, og jafn­vel þó að það liggi fyrir að svo sé ekki í raun og veru. Hug­lægt mat stefnda geti ekki ráðið því hversu háa fjár­hæð honum sé heimilt að draga frá lögmætum bóta­kröfum stefnanda. Þessu til við­bótar byggir stefnandi á því, fallist dómstólar á það að við­bótar­frádragið sé heimilt, að stefndi sé engu að síður bundinn af bótauppgjöri sínu 4. maí 2017, enda hafi hann ekki gert fyrirvara í uppgjörinu um að frádragið skyldi vera hærra.

Stefnandi tekur fram að samkvæmt framangreindu sé höfuðstóll bótakröfu hans í máli þessu 28.866.081 króna og beri krafan 4,5% vexti frá stöðug­leika­tímapunkti 12. febrúar 2016, en dráttarvexti af 17.180.256 krónum frá 2. janúar 2017, þegar mán­uður var liðinn frá því að bótakrafa var gerð á grundvelli fyrra matsins, og af 28.866.081 krónu frá 16. mars 2018, þegar mánuður var liðinn frá því að stefnda var send bóta­krafa á grundvelli matsgerðar dómkvaddra matsmanna.

Um málskostnaðarkröfu vísar stefnandi til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um með­ferð einkamála. Í því sambandi tekur hann fram að sérstaklega eigi að líta til 131. gr. þeirra laga þar sem hann telji að varnir stefnda séu fráleitar. Þá vísar stefnandi til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt varðandi málflutningsþóknun. Um lagarök að öðru leyti vísar stefnandi til ákvæða laga nr. 50/1993 með síðari breytingum, auk skil­mála slysa­trygg­­­ingar sjómanna hjá stefndu. Einnig vísar stefnandi til laga nr. 30/2004 um vá­­trygg­­­­ingarsamninga og dómafordæma Hæstaréttar Íslands án frekari til­grein­ingar. Þessu til viðbótar, að því er varðar vexti og dráttarvexti, vísar stefnandi til laga nr. 38/2001 og laga nr. 50/1993.

 

Helstu málsástæður og lagarök stefnda:

Stefndi tekur fram að ágreiningur aðila afmarkist við það hvort heimilt sé að draga frá greiðslu vegna varanlegrar örorku stefnanda áætlaðar örorkulífeyrisgreiðslur frá lífeyris­sjóðum, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993. Stefndi reisir sýknukröfu á því að stefnandi hafi fengið að fullu greitt tjón vegna varanlegrar örorku í umræddu slysi.

Nánar tiltekið varðandi sýknukröfu vísar stefndi til þess að samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993 skuli greiða skaðabætur fyrir varanlega örorku, valdi líkamstjón, þegar heilsufar tjónþola er orðið stöðugt, varanlegri skerðingu á getu til að afla vinnu­tekna. Um sé að ræða bætur sem greiddar séu fyrir líkindatjón fram í tímann. Við tíma­­­­­­­­­­mark á mati tjónsins sé tekið mið af ástandi tjónþola á stöðugleikatímapunkti en þá sé heil­­­brigðisástand tjónþola orðið stöðugt að mati matsmanna sem leggi mat á varan­­­­legar afleiðingar slyss. Í tilfelli stefnanda hafi stöðugleikatímapunktur verið ákveðinn 12. febrúar 2016 samkvæmt niðurstöðu matsgerðar C læknis og D lögmanns, dagsettri 25. nóvember sama ár. Þá sé ekki ágrein­ingur hjá aðilum um tímamark stöðug­­­­leika­tímapunkt­sins. Mat á varan­leg­um afleiðingum slyss miðist við stöðuleikatíma­punkt, þegar fyrir liggi samkvæmt læknis­­­fræðilegu mati að ekki verði að vænta frekari bata á heilsu­fari tjónþola í kjölfar slyss. Þann 12. febrúar 2016 hafi því ekki verið að vænta frek­­­ari bata á heilsu stefn­anda og læknisfræðilegt mat og bótauppgjör hafi því sam­kvæmt lögum nr. 50/1993 átt að taka mið af stöðu stefn­­anda á þeim degi.

Á stöðugleikatímapunkti, 12. febrúar 2016, hafi stefnandi verið metinn til 100% ör­­orku til fyrri starfa af matslækni á vegum Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja. Samkvæmt mati B læknis sé orkutap stefnanda til fyrri starfa 100% frá slys­degi 17. mars 2014 til 30. apríl 2017. Fyrir liggi, og sé í reynd óumdeilt, að stefnandi hafi á stöðug­leikatímapunkti átt rétt á mánaðarlegum greiðslum úr lífeyrissjóði vegna slyss­­­­­­ins. Þegar að bótauppgjöri hafi komið hafi því bæði verið eðlilegt og það sam­rýmst ákvæðum skaðabótalaga að þær greiðslur yrðu færðar til eingreiðslu­verðmætis svo unnt væri að draga þær fjárhæðir frá skaðabótakröfu. Niðurstaða trygg­inga­stærð­fræð­ings­ sé óumdeild og stefnandi hafi ekki bent á neina ann­marka á þeim út­reikn­ing­um sem ættu að leiða til þess að ekki væri unnt að leggja út­reikn­ingana til grund­vallar bóta­­­­uppgjöri vegna slyssins.  

Stefndi tekur fram að hann byggi á því að frádrátt vegna lífeyrisgreiðslna sam­kvæmt 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993 eigi að miða við það tímamark þegar heilsa stefn­­­­­­­anda hafi verið orðin stöðug, sem sé sama tímamark og gildi um 1. mgr. 5. gr. lag­­­­­anna. Óumdeilt sé að stöðugleikatímapunktur stefnanda hafi samkvæmt mati verið mið­­aður við 12. febrúar 2016. Stefnda hafi því borið að miða frádrátt vegna greiðslna frá líf­­­­eyrissjóði við það tímamark sem samkvæmt markmiði laga nr. 50/1993 ætti að vera endan­­legt. Ekkert í lögum nr. 50/1993 bendi til þess að miða eigi frádrátt sam­kvæmt ákvæðinu við annað tímamark en mælt sé fyrir um í 1. mgr. 5. gr. laganna. Stefndi tekur fram að ef túlkun og málatilbúnaður stefnanda yrði ofan á þá myndi það leiða til mikillar réttaróvissu enda sé þá sá möguleiki fyrir hendi að bóta­uppgjör verði aldrei endan­legt þar sem bæði tjónþolar og vátryggingafélög gætu, þegar þannig stæði á, breytt forsendum uppgjörsins eftir á vegna þess að greiðslur frá lífeyris­sjóði og almanna­­tryggingum hefðu breyst til ýmist lækkunar eða hækkunar. Stefndi telur að sú til­­högun geti ekki gengið þegar litið sé til eðlis skaða­bóta­uppgjörs og markmiða með lög­um nr. 50/1993.

Stefndi vísar til þess að samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar beri að miða fram­­­­­­­­­­­tíðarfrádrátt vegna greiðslna af félagslegum toga við stöðugleikatímapunkt. Eins og með varanlega örorku byggist frádráttur samkvæmt fyrrnefndri 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993 á líkindamati og reglurnar séu hlutlægar á þann veg að samkvæmt þeim sé farið á sama hátt með alla tjónþola sem eins hátti til um. Eðli máls samkvæmt séu greiðslur úr lífeyrissjóði háðar óvissu að því leyti að örorka sé metin á nýjan leik á nokkurra mánaða fresti. Þannig hátti til með stefnanda. Óvíst sé hver verði niður­staða mats­­­­­­­­læknis þegar núgildandi örorkumat hafi runnið sitt skeið á enda. Niðurstaða mats­gerðar dómkvaddra matsmanna um 50% varanlega örorku stefnanda bendi til þess að stefn­­­andi muni þiggja greiðslur frá lífeyrissjóði í framtíðinni þótt núgildandi mat á orku­­­­­­tapi leggi til grundvallar að stefnandi sé með meira en 50% vinnugetu til almennra starfa. Í þessari aðstöðu komi í reynd skýrt fram nauðsyn þess að frá­dráttur frá varan­legri örorku miðist við stöðugleikatímapunkt hverju sinni og niður­stöðu mats­­­­­­­­­­­­­manna um varanlega örorku. Annað myndi að mati stefnda leiða til réttaróvissu og ómöguleika við að ljúka bótauppgjöri endanlega.

Þá byggir stefndi á því að niðurstaða dómkvaddra matsmanna styðji ekki þau sjónar­­­­­mið stefnanda að hann muni aldrei framar þiggja greiðslur úr lífeyrissjóði vegna slyss­ins. Stefndi telur að stefnandi geti ekki fullyrt þetta með fullri vissu. Skjóti það í reynd skökku við að stefnandi telji heilsufar sitt slíkt að hann hafi meira en 50% vinnu­­­­­­getu til almennra starfa í ljósi þess sem fram komi í niðurstöðu dómkvaddra mats­­­­­­­manna og gögn málsins staðreyni. Þannig greini í niðurstöðu þeirra um varanlega ör­­orku stefnanda: Ljóst er að afleiðingar slyssins hafa haft umtalsverð áhrif á starfs­getu mats­beiðanda og hefur hann ekki stundað nein launuð störf eftir slysið. Mats­menn telja ennfremur mjög ólíklegt þegar horft er til eðli áverka, gagna málsins, við­tals við matsbeiðanda á matsfundi og skoðun að hann muni eiga afturkvæmt í sjó­manns­störf. Ennfremur er starfsgeta hans til líkamlega krefjandi starfa í landi um­tals­vert skert. Hann ætti þó að geta unnið við léttari almenn störf í landi, t.d. störf sem tengjast sjávarútvegi.

Stefndi tekur fram að hann telji að stefnandi geti ekki bæði haldið og sleppt. Lýs­ingar stefnanda á afleiðingum slyssins á matsfundi hjá dómkvöddum mats­mönn­um, sem séu hluti forsendna fyrir niðurstöðu þeirra um varanlega örorka stefnanda, séu í engu samhengi við það sem stefnandi hafi lýst fyrir matslækni lífeyrissjóðs þegar hann gekkst undir mat á orkutapi. Í ljósi þess að stefnandi hafi nú fullyrt að vinnugeta hans sé umtalsvert meiri en á matsfundi hjá dómkvöddum mats­mönnum sé í reynd full ástæða til þess að íhuga hvort endurmeta þurfi varanlega örorku stefnanda til lækk­unar.

Þessu til viðbótar byggir stefndi á því að honum hafi verið heimilt, við útreikning bóta til handa stefnanda í kjölfar niðurstöðu dómkvaddra matsmanna, að draga frá greiðslunni eingreiðsluverðmæti örorkulífeyrisgreiðslna samkvæmt nýjum út­reikning­um og endur­­skoða fyrri frádrátt. Leiði það af meginreglu skaðabótaréttar að stefnandi eigi ekki rétt á hærri bótum en svari raunverulegu tjóni hans, auk þeirrar meginreglu kröfu­réttar að sá sem hafi ofgreitt fé eigi rétt til endurgreiðslu þess sem ofgreitt sé. Í þessu sam­­­bandi beri að ítreka að nýir útreikningar hafi farið fram vegna þess að stefn­andi hafi samkvæmt niðurstöðu dómkvaddra matsmanna orðið fyrir meira tjóni en talið var við fyrra uppgjör, enda hafi varanleg örorka hans hækkað úr 40% í 50% með nýrri niður­­­­stöðu. Hækkun á varanlegri örorku stefnanda samkvæmt niður­stöðu dóm­kvaddra mats­manna renni stoðum undir þau sjónarmið stefnda að allar líkur standi til þess að stefn­andi muni fá greiðslur úr lífeyrissjóði vegna slyssins í fram­tíðinni. Stefndi byggir þar með á því að honum hafi verið heimilt að draga áætlaðar greiðslur úr lífeyrissjóði frá bótum eins og staða stefnanda var á stöðugleika­tíma­punkti. Ef túlkun stefnanda yrði ofar myndi það í reynd leiða til þess að hann fengi hærri bætur en svari raunverulegu tjóni hans, sem gengi í berhögg við þá meginreglu skaða­bóta­réttar að tjónþoli eigi ein­ungis að fá raun­tjón bætt.

Varðandi varakröfu um lækkun á stefnukröfu tekur stefndi fram að hann byggi á því að miða eigi frádrátt vegna eingreiðsluverðmætis greiðslna úr lífeyrissjóði við 50% mat á orkutapi. Í því sambandi vísar stefndi til fyrri umfjöllunar varðandi aðal­kröfu stefnda að breyttu breytanda. Samkvæmt niðurstöðu tryggingastærðfræðings nemi sá frádráttur 20.101.601 krónu sem draga eigi frá kröfu stefnanda á stöðugleika­tímapunkti 12. febrúar 2016.

Þá tekur stefndi fram að verði fallist á kröfur stefnanda að hluta eða í heild þá sé því jafnframt mótmælt að krafa stefnanda eigi að bera dráttarvexti frá 2. janúar 2017, eins og krafist sé. Samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 beri skaðabótakröfur dráttarvexti að liðnum mánuði frá þeim degi er kröfuhafi lagði sannanlega fram upplýsingar sem þörf var á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta. Útreikningur trygginga­stærð­fræð­ings hafi fyrst legið fyrir 9. febrúar 2017. Þá fyrst hafi stefndi haft möguleika á að reikna út fjárhæð bótatilboðs til stefnanda. Að mati stefnda séu engar forsendur til að miða við fyrra tímamark en þegar mánuður var liðinn frá því að útreikningurinn lá fyrir. Að því virtu eigi upphafstími dráttarvaxta að miðast við 9. mars 2017.

Um lagarök að öðru leyti vísar stefndi til fyrrgreindra laga auk meginreglna skaða­­­­­­­­­­­­­bótaréttar. Þá tekur stefndi fram að krafa um málskostnað styðjist við 130. gr. laga nr. 91/1991 en jafnframt sé krafist álags á málskostnað sem nemi virðis­auka­skatti þar sem hann reki ekki virðisaukaskattsskylda starfsemi.

 

IV.

Niðurstöður:

Meðal markmiðs og hlutverks skaðabótareglna er að veita þeim sem verður fyrir tjóni fjárhagslega uppreisn. Hann á að verða eins settur fjárhagslega og ef tjónið hefði ekki orðið. Sömu meginreglur eiga við á sviði vátryggingaréttar. Markmið með bótum fyrir varanlega örorku er að bæta tjónþola tap á atvinnu­­­tekjum sem hann mun að lík­indum verða fyrir í framtíðinni vegna afleiðinga líkams­­tjóns og er um að ræða fram­­tíðar­­­spá. Með þessu er leitast við að vernda hags­muni tjónþola sem felast í afla­hæfi hans, það er getu hans til að afla atvinnutekna í fram­tíðinni. Skerðing á þessari getu, sem að líkindum hefur í för með sér lægri atvinnutekjur í framtíðinni, á að leiða til þess að mismunurinn bætist. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993 mið­ast mat á varan­­legri örorku við það tíma­­mark þegar heilsu­­far tjónþola er orðið stöð­ugt. Er í því sam­bandi miðað við batahvörf eða svo­kall­aðan stöðug­leika­tíma­punkt en það við­mið er fyrst og fremst reist á læknis­fræði­legu mati á því hvenær ekki megi vænta frekari bata eða hvenær heilsufar tjónþola er orðið stöðugt. Samkvæmt 4. málsl. 4. mgr. 5. gr. sömu laga skal draga frá skaðabótakröfu vegna varanlegrar örorku 40% af reiknuðu ein­greiðslu­verð­mæti örorkulífeyris frá líf­eyris­sjóði og skal við útreikn­ing­inn miðað við 4,5% árs­ávöxtun. Tilgangurinn með frá­dráttarreglunni er að girða fyrir að tjón­­­­þoli auðgist á tjóninu vegna félagslegra greiðslna frá þriðja aðila samhliða bótagreiðslu.

Í máli þessu er ekki ágreiningur um bótaskyldu, tímamark stöðugleikatímapunkts, tölu­­legar forsendur við útreikninga eða varanlega örorku stefnanda sam­kvæmt niður­stöðu dómkvaddra matsmanna. Ágrein­ingur­­inn tekur til þess hvort frá­dráttur sam­kvæmt 4. málsl. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993 eigi rétt á sér vegna tjóns stefnanda, eins og áður greinir. Í því ákvæði er ekki kveðið á um að miða skuli við stöðu tjónþola hjá lífeyris­sjóði á stöðug­­leika­tímapunkti andstætt því sem kveðið er á um í 1. mgr. sömu lagagreinar um mat á bótum fyrir varanlega örorku. Stefndi byggir á því að rök­rétt sé að miða við sama tímamark og það fái samrýmst dóma­fordæmum Hæsta­réttar Ís­lands í mál­um nr. 520/2002, 119/2005, 706/2009, 45/2012, 544/2012, 20/2013 og 598/2017. Í þeim dómum hefur meðal annars verið lagt til grund­­vallar að miða beri fram­­­tíðarfrádrátt, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993, vegna greiðslna af félagslegum toga, við þann tíma þegar tjónþoli gat ekki vænst frekari bata og ætla út frá því hvernig mál þróist í fram­tíðinni sam­kvæmt meðaltalslíkindareglu. Þá byggir stefndi á því að frádrátturinn eigi enn fremur rétt á sér eins og mál stefnanda hafi þróast miðað við mat á varanlegri örorku hans og þá fyrirvara sem lágu til grund­vallar bótauppgjöri þeirra.

Fyrrgreindir dómar Hæsta­réttar eiga það sammerkt í framangreindu tilliti að þar var verið að fjalla um greiðslur af félagslegum toga, einkum frá almannatryggingum, sem áttu sér stað á stöðugleikatímapunkti og tals­verðar líkur stóðu til að myndu halda áfram í óbreyttri mynd um ókominn tíma. Í máli þessu háttar hins vegar svo til að stefn­­­­­­­­­andi naut tímabundins örorku­lífeyris frá Líf­eyris­sjóði Vest­mannaeyja o.fl. eftir um­rætt slys fram í mars 2017 miðað við 100% örorku til fyrra sjómannsstarfs sam­kvæmt ör­orku­mati trúnaðarlæknis sjóðsins 21. apríl 2016, sbr. eldra örorkumat sama læknis 8. mars 2015. Sam­kvæmt grein 12.4 í sam­­þykkt­um líf­eyris­­­sjóðs­­ins var fyrr­greind­­­­um örorkulífeyri frá upphafi ætlað að vera tímabundinn til allt að þriggja ára og miðast við van­hæfni stefnanda til að gegna fyrra ­starfi og tók ör­orku­matið mið af því. Eftir það tíma­mark átti örorkulífeyririnn samkvæmt fyrr­greindri grein í samþykktum líf­­eyris­sjóðsins að sæta gagngerðri endur­skoðun á grund­velli nýs mats trún­aðar­­læknis sjóðsins á orku­tapi og miðast við vanhæfni stefn­anda til að gegna almenn­um störfum o.fl. Lá þannig skýrt fyrir frá upphafi, sam­kvæmt sam­þykkt­um lífeyris­sjóðsins, að 100% ör­orku stefn­anda, sem í hans tilviki miðaðist við sjó­manns­­starf, var ekki ætlað að vera viðmið hjá sjóðnum um ókominn tíma með tilliti til áframhaldandi réttar stefn­anda til örorku­lífeyris. Þá liggur jafnframt fyrir að réttar­staða stefn­­anda hjá sjóðn­um til fram­tíðar litið var endur­metin 23. mars 2017 til sam­­ræmis við áskilnað sam­kvæmt grein 12.4 í samþykktum lífeyris­sjóðs­ins. Niður­staða þess mats var sú að ör­orkan var metin 40% til almennra starfa og leiddi það til þess að hann naut ekki lengur réttar til ör­orku­­lífeyris hjá lífeyris­sjóðn­um, sbr. grein 12.1 í sam­­þykktum sjóðs­­ins. Endurmetin réttar­­staða stefn­anda hjá lífeyrissjóðnum lá þannig fyrir áður en bóta­uppgjör gagnvart stefnda fór fram 4. maí 2017. Var því ekki um að ræða ófyrir­­sjáanlega breyt­­ingu eftirá í tengsl­um við bóta­uppgjörið sem var til þess fallin að ganga gegn meginmarkmiði laga nr. 50/1993 um endanlegt uppgjör skaða­bóta. Hefur ekki þýðingu í þessu sam­bandi þótt stefndi hafi ekki haft að­komu að endurskoðun ör­orku­matsins hjá líf­eyris­­sjóðnum eða öflun gagna sem lágu því til grund­vallar. Ekkert í samþykktum sjóðs­ins, sbr. lög nr. 129/1997, né heldur í lögum nr. 50/1993, gerði ráð fyrir aðkomu stefnda að því ­­­mati. Að framangreindu virtu getur fyrr­greind staða stefn­anda hjá líf­eyrissjóðnum á tíma­marki stöðug­leikatíma­punkts ekki gefið raunhæfa mynd af því hvernig mál hans myndi þróast í fram­tíðinni hjá sjóðnum sam­kvæmt meðal­­­­tals­líkinda­reglu, eins og atvik­­­­­­­um er hér hátt­að. Þessu til viðbótar er ágreinings­laust að stefnandi hefur ekki fengið greiddan örorkulífeyri frá líf­eyris­sjóðnum eftir mars 2017. Þá er ekkert í gögn­um málsins sem bendir til þess að slík áform séu uppi eða líkleg í lög­skiptum stefn­anda og sjóðs­ins. Stefndi hefur ekki fært fram hald­bær rök fyrir hinu gagnstæða. Niður­­­­­­­­staða dóm­­­kvaddra mats­manna, dagsett 12. febrúar 2018, um hærra ör­orku­stig stefn­­­anda o.fl., sem stefndi hefur ekki hlutast til um að fá hnekkt með yfirmati, breytir ekki mynd­inni af stöðu stefnanda í framangreindu tilliti. Stefnandi hefur langa sam­­fellda sögu á vinnumarkaði fyrir umrætt slys samkvæmt upp­lýs­ing­um úr mats­gerðum. Sam­­kvæmt gögn­um úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra liggur fyrir að stefn­andi var á vinnu­­­­markaði árið 2018, eftir að niðurstaða dómkvaddra matsmanna lá fyrir. Við aðal­meðferð var upplýst af lögmanni stefnanda að þar var um að ræða starf við [...]. Því til viðbótar var upplýst af lög­mann­inum að stefn­andi hefði nýlega tekið við starfi [...]. Af þessu verður ráðið að afstaða og athafnir stefnanda, sem birtast með framan­greind­um hætti, standi til þess að vera með fulla þátttöku á vinnu­mark­aði til framtíðar litið sem taki til líkam­lega létt­ari almennra starfa í landi. Að mati dómsins samrýmist þetta nægjanlega for­sendum um ætlaða möguleika stefnanda til þátttöku á vinnumarkaði til framtíðar litið, sem greinir í örorkumati trúnaðar­læknis lífeyrissjóðsins 23. mars 2017 og ör­orku­­mati hinna dóm­kvöddu matsmanna 12. febrúar 2018. Að mati dómsins er mála­­tilbún­aður stefnda ekki í nægjan­legu samræmi við 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993 né heldur fyrr­greindar megin­­reglur skaðabóta- og vá­trygginga­réttar um fullar bætur til tjónþola fyrir tjón, eins og hér stendur á. Að öllu framan­­greindu virtu verður ekki fallist á með stefnda að til greina komi að miða frá­drag frá bótum til stefn­anda vegna varanlegrar ör­orku við 40% hlut­fall af reiknuðu ein­­greiðslu­­verðmæti örorku­lífeyris frá Lífeyris­sjóði Vestmanna­eyja o.fl. á stöðug­leikatímapunkti miðað við 100% örorku­ né heldur mið­að við 50% mat á orkutapi. Verður því hvorki fallist á aðal- né varakröfu stefnda. Að þessu virtu verður fallist á dóm­kröfu stefnanda eins og hún er sett fram í stefnu um að stefnda verði gert að greiða honum 28.866.081 krónu.

Í máli þessu er einnig uppi ágreiningur um upphafstíma dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001, að því er varðar 2. janúar 2017. Stefndi mót­mælir því tíma­marki og byggir á því að hann hafi fyrst haft mögu­leika á því að reikna út fjárhæð bóta­­­­­­tilboðs til stefnanda þegar útreikningar trygginga­stærðfræðings lágu fyrir 9. febrúar 2017. Eigi því að miða upphafstíma dráttarvaxta við mánuð eftir þann tíma. Við úr­lausn á þessu atriði er til þess að líta að í greinargerð stefnda sam­kvæmt 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991 er tekið fram að hann hafi óskað eftir útreikn­ingi trygg­­inga­­stærð­fræð­ingsins 9. febrúar 2017. Ekkert í málsgögnum liggur fyrir um aðra dag­­setn­ingu í því sambandi. Að því virtu liggur fyrir að beiðninni var fyrst beint til trygginga­stærð­fræðingsins rúmum tveimur mánuðum frá því að stefnandi sendi bóta­­kröfu til stefnda 2. desember 2016. Er það óvenjulega seint í almennu tilliti. Þá liggur fyrir að hin sam­eiginlega matsgerð C og D lá fyrir í lok nóvember sama ár. Sam­kvæmt dag­setn­­­ingum á gögn­um virðast útreikn­ingar trygginga­stærðfræðings­ins hins vegar hafa legið fyrir sama dag og kallað var eftir þeim. Að framan­greindu virtu verður ekki fallist á með stefnda að unnt sé að miða upp­hafs­tíma við 9. febrúar 2017. Þykir rétt að fallast á með stefnanda að miða við 2. janúar sama ár, sem er mánuður eftir að bóta­kröfu var fyrst beint að stefnda og hann gat brugðist við, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/2001. Verður því fallist á vaxta- og dráttar­vaxta­­kröfu stefn­­anda eins og hún er sett fram og nánar greinir í dóms­­­orði.

Með vísan til 129. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnda gert að greiða stefn­anda málskostnað, annars vegar þóknun vegna vinnu lögmanns hans, sem telst hæfi­lega ákveðin 1.300.000 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts, og hins vegar vegna út­lagðs kostn­aðar stefn­­­­­­anda í tengslum við gagnaöflun frá dómkvöddum mats­­­mönnum, 908.600 krónur, samtals 2.208.600 krónur.

Af hálfu stefnanda flutti mál þetta Jónas Þór Jónasson lögmaður. Af hálfu stefnda flutti málið Eva B. Helgadóttir lögmaður.

Daði Kristjánsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð:

         Stefndi, Vörður tryggingar hf., greiði stefnanda, A, 28.866.081 krónu með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 12. febrúar 2016 til 2. janúar 2017, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 17.180.256 krónum en 4,5% vöxtum af 11.685.825 krónum frá þeim degi til 16. mars 2018, en með dráttarvöxtum af 28.866.081 krónu frá þeim degi til greiðsludags.

         Stefndi greiði stefnanda 2.208.600 krónur í málskostnað.