Print

Mál nr. 1/2019

Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra (Agnes Björk Blöndal fulltrúi)
gegn
X (Sunna Axelsdóttir lögmaður)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Kæruheimild
  • Frávísun frá Hæstarétti
Reifun

Kærður var úrskurður Landsréttar, þar sem staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta nánar tilgreindu nálgunarbanni á grundvelli laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Hæstiréttur taldi bresta heimild til kæru úrskurðarins og vísaði málinu því frá Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir, Helgi I. Jónsson, Karl Axelsson og Viðar Már Matthíasson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. janúar 2019, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 3. janúar 2019, þar sem staðfestur var úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 21. desember 2018, en með honum var staðfest ákvörðun sóknaraðila 18. sama mánaðar um að varnaraðili sætti nánar tilgreindu nálgunarbanni. Um kæruheimild vísar varnaraðili til 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði ómerktur, til vara að hann verði felldur úr gildi, en að því frágengnu að nálgunarbanninu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann þóknunar til handa skipuðum verjanda sínum.

Sóknaraðili krefst þess aðallega að „kæru til Hæstaréttar verði vísað frá“, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Með dómi Hæstaréttar 14. október 2011 í máli nr. 557/2011 var komist að þeirri niðurstöðu að í lögum nr. 85/2011 væri ekki að finna sérstaka kæruheimild og að hinn kærði úrskurður, um brottvísun af heimili og nálgunarbann, félli ekki undir neina af kæruheimildum þágildandi 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Af því tilefni var með lögum nr. 39/2012, um breytingu á lögum nr. 85/2011, mælt fyrir um í fyrri málslið 3. mgr. 15. gr. þeirra að kæra mætti til æðri dóms úrskurð dómara um hvort lagt yrði á nálgunarbann eða um brottvísun af heimili, svo og úrskurð sem gengi í máli um slíka kröfu, ef hann gæti sætt kæru eftir almennum reglum 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008. Þá sagði í 2. málslið greinarinnar að um kæru giltu sömu reglur og um kæru úrskurðar héraðsdómara samkvæmt lögum um meðferð sakamála. Með 72. gr. laga nr. 117/2016, um breytingu á ýmsum lögum vegna stofnunar millidómstigs, sem öðlaðist gildi 1. janúar 2018, sbr. 90. gr. laganna, var kveðið á um þá breytingu á 2. málslið 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 að um kæru til Landsréttar og Hæstaréttar giltu sömu reglur og um kæru úrskurðar héraðsdómara samkvæmt lögum nr. 88/2008.

Í almennum athugasemdum með frumvarpi því, er varð að fyrrgreindum lögum nr. 117/2016, kemur fram að í lögum nr. 49/2016, um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála (millidómstig), hafi verið tekið af skarið um að kæruheimildir til Landsréttar í sakamálum yrðu þær sömu og áður til Hæstaréttar, en að kæruheimildir til Hæstaréttar yrðu hins vegar mjög takmarkaðar eða aðeins þær sem taldar væru upp í 1. mgr. 68. gr. laganna, sem yrði 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála. Þá segir að í frumvarpinu sé að finna breytingar á ákvæðum fjögurra tilgreindra laga, sem lúti að því að um kærur á úrskurði Landsréttar gildi ákvæði XXXII. kafla laga um meðferð sakamála, eins og sá kafli muni hljóða eftir gildistöku laga nr. 49/2016. Af þessum ákvæðum leiði að aðeins þeir úrskurðir Landsréttar, sem taldir eru upp í a. - d. liðum 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála, eins og greinin muni hljóða eftir gildistöku laga nr. 49/2016, séu kæranlegir til Hæstaréttar. Um 72. gr. laganna segir í athugasemdum með ákvæðinu að það þarfnist ekki skýringa.

Sem fyrr greinir er í fyrri málslið 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 kveðið á um kæru til æðri dóms. Í síðari málslið 3. mgr. greinarinnar er, eins og henni var breytt með 72. gr. laga nr. 117/2016, einungis mælt fyrir um að um kæru til Landsréttar og Hæstaréttar gildi sömu reglur og um kæru úrskurðar héraðsdómara samkvæmt lögum um meðferð sakamála, en ekki kveðið sérstaklega á um kæruheimild til Hæstaréttar.

Í a., b., c. og d. liðum 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 68. gr. laga nr. 49/2016, sem öðlaðist gildi 1. janúar 2018, er mælt fyrir um kæruheimildir úrskurða Landsréttar til Hæstaréttar. Samkvæmt a. lið er unnt að kæra frávísun eða niðurfellingu máls að hluta eða öllu leyti og eftir b. lið sætir úrskurður um hvort dómari í Landsrétti víki sæti í máli kæru. Þá er kveðið á um það í c. lið greinarinnar að unnt sé að kæra úrskurð um réttarfarssekt fyrir Landsrétti og í d. lið að úrskurður um skyldu vitnis samkvæmt 119. gr. laga nr. 88/2008 sé kæranlegur.

Samkvæmt framansögðu eru kæruheimildir úrskurða Landsréttar til Hæstaréttar tæmandi taldar í 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008. Af því leiðir að heimild brestur til kæru í máli þessu og verður því þar af leiðandi vísað frá Hæstarétti.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

 

Úrskurður Landsréttar 3. janúar 2019.

Landsréttardómararnir Ásmundur Helgason, Hervör Þorvaldsdóttir og Ragnheiður Harðardóttir kveða upp úrskurð í máli þessu.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

1      Varnaraðili skaut málinu til Landsréttar með kæru 22. desember 2018, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. janúar 2019. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 21. desember 2018, í málinu nr. [...], þar sem staðfest var ákvörðun sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að sæta nánar tilgreindu nálgunarbanni.  Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011, um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Til vara krefst varnaraðili þess að nálgunarbanninu verði markaður skemmri tími.

2      Varnaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið. Til vara krefst varnaraðili þess að nálgunarbanninu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann þóknunar til handa skipuðum verjanda sínum.

3      Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Niðurstaða

4      Samkvæmt a-lið 4. gr. laga nr. 85/2011 er heimilt að beita nálgunarbanni ef rökstuddur grunur leikur á að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola. Að virtum gögnum málsins er fullnægt þessu skilyrði til að varnaraðila verði gert að sæta nálgunarbanni. Þá verður ekki talið sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Að þessu virtu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

5      Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Landsrétti, sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í úrskurðarorði greinir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 38. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.

Úrskurðarorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun verjanda varnaraðila, Sunnu Axelsdóttur lögmanns, fyrir Landsrétti, 186.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 21. desember 2018

Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra hefur krafist þess að héraðsdómur Norðurlands eystra staðfesti ákvörðun lögreglustjóra frá 18. desember sl., þess efnis að X, kt. [...], [...], sæti nálgunarbanni við A, kt. [...] í fjóra mánuði, þannig að lagt sé bann við því að hann komi á eða í námunda við dvalarstað hennar að [...] á [...]. Bann þetta afmarkist við 25 metra radíus umhverfis framangreindan dvalarstað hennar, mælt frá miðju íbúðar eða húss. Jafnframt sé lagt bann við því að varnaraðili setji sig í samband við brotaþola, nálgist hana á almannafæri, á vinnustað hennar eða hafi samskipti við hana í síma, tölvu eða á annan hátt gegn vilja hennar.

Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfu lögreglustjóra verði hafnað, en til vara að banninu verði markaður skemmri tími. Þá er krafist þóknunar til handa skipuðum verjanda.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að varnaraðili og brotaþoli hafi kynnst fyrir um tveimur og hálfu ári. Brotaþoli hafi þá búið erlendis en samband þeirra þróast þannig að hún hafi fljótt flutt til Íslands og þau gift sig. Þau hafi, þar til nýverið, búið saman í húsi varnaraðila.

Eftir að upp kom mál sem varðaði ætlað ofbeldi og hótanir varnaraðila gegn brotaþola 15. september sl. hafi varnaraðili flutt tímabundið af heimili þeirra að [...] en svo snúið til baka. Varnaraðili hafi fljótlega aftur byrjað að hóta henni og smána. Hann hafi ákveðið að selja húsið að [...] og hótað henni lífláti myndi hún ekki skrifa undir pappíra þar að lútandi. Hann hafi einnig krafist þess að hún undirritaði skjöl um skilnað þar sem hún afsalaði sér eignum en hún hafi neitað því. Varnaraðili hafi loks rekið hana út og hún þá flutt að núverandi heimili sínu. Varnaraðili hafi þó fljótt haft samband aftur til að fá hana aftur til sín. Hann hafi m.a. veitt henni eftirför þegar hún var á heimleið frá kirkju og kallað til hennar hótanir og smánað hana, ítrekað komið á vinnustað hennar og veitt henni eftirför þegar hún var á heimleið eftir vinnu, og bæði kallað til hennar niðrandi orð og hrint henni þannig að hún hafi fallið fram fyrir sig og höfuð hennar skollið í jörðina. Hann hafi lýst því yfir að hann vildi ekki vilja lifa án hennar, en síðan einnig að ef hann fengi ekki allan peninginn þeirra þá „væri út um hana“, sem hún hafi skilið sem líflátshótun. Þá hafi hann bæði hótað henni að ef hún haldi skilnaðinum til streitu muni hann drepa hana og að hann ætli að flytja inn til hennar þegar búið væri að afhenda nýjum eigendum húsið þar sem þau bjuggu. Þá kvaðst hún hafa orðið fyrir miklu símaónæði af hálfu varnaraðila. Hún hafi lýst því að hún óttaðist mjög um öryggi sitt, sérstaklega í kjölfar þess að hún hafi aftur leitað til lögreglu. 

Lögreglustjóri hefur lagt fram lögregluskýrslur og dagbókarfærslur vegna fyrri afskipta af heimili varnaraðila og brotaþola, sem og læknisvottorð.

Brotaþoli hringdi eftir aðstoð lögreglu 13. maí 2017 vegna árásar af hálfu varnaraðila. Þegar komið var á vettvang sat brotaþoli grátandi upp við vegg og hélt um höfuð sér og lýsti því að varnaraðili hafi rifið í hár hennar og hent henni í gólfið þannig að höfuð hennar hafi skollið í. Þá hafi hann sparkað í höfuð hennar og hótað henni lífláti. Samkvæmt vottorði B læknis leitaði brotaþoli á bráðamóttöku í fylgd lögreglu sama dag. Hún var þá í miklu uppnámi og grét, með hraðan hjartslátt og hækkaðan blóðþrýsting. Hún hafði mikil eymsl aftan til í hnakka, í hársverði beggja vegna, og með dreift mar upp eftir upphandleggjum, fingrafarabletti, marbletti og klór.

Lögregla var í þrígang kölluð til vegna tilkynninga frá aðilum sem höfðu áhyggjur af ólátum frá heimili varnaraðila og brotaþola, 21. október, 13. nóvember og 26. nóvember 2017. Í þau skipti lýsti brotaþoli ekki ofbeldi af hálfu varnaraðila fyrir lögreglu.

Þann 15. mars 2018 hringdi brotaþoli í neyðarlínu en ekkert heyrðist nema öskur, grátur og skruðningar. Lögregla fór á staðinn. Þá lá brotaþoli grátandi á gólfinu og hélt um bak sitt. Lögregla fylgdi henni á bráðamóttöku. Í vottorði C læknis kemur fram að brotaþoli hafi lýst því að varnaraðili hafi ráðist á hana. Hann hafi rifið hálsmál skyrtu hennar og slitið hálsmen, sparkað með hné í kvið hennar og hrint henni í gólfið og niður stiga. Hún hafi náð að hringja í neyðarlínuna. Brotaþoli hafi grátið og sjáanlega verið stirð í hreyfingum og verkjuð í mjóbaki. Á báðum handleggjum hafi verið um 4 cm. roðasvæði sem líkist mari. Samkvæmt vottorði D læknis leitaði hún að nýju til læknis 19. mars vegna sama atviks, og kvartaði undan verkjum í lendarhygg og höfði og svefnleysi. Hún óskaði einnig aðstoðar við að flytja frá eiginmanni sínum og var vísað til sálfræðings heilsugæslunnar.

Eins og að framan greinir leitaði brotaþoli til lögreglu 18. september sl. vegna atvika 15. september 2018. Þá hafi verið mikil læti í varnaraðila og hann m.a. lýst því hvernig hann gæti drepið hana. Hann hafi farið út, en um kvöldið hafi hann byrjað aftur og þá hótað henni með stórum eldhúshnífi og lýst því hvernig hann ætlaði að skera hana. Hún hafi verið mjög hrædd og farið út þegar færi gafst. Hann hafi verið búinn að taka síma hennar og hún gengið að lögreglustöðinni. Þegar á reyndi hafi hún ekki þorað inn og snúið aftur heim. Varnaraðili hafi þá verið sofnaður og hún farið inn í svefnherbergi og sett rúm fyrir dyrnar þannig að hann kæmist ekki inn til hennar. Hann hafi hótað henni að nýju að morgni og hún fór út af heimilinu að morgni 16. september sl. Hún fékk tímabundið húsaskjól og lögreglustjóri ákvað að varnaraðili skyldi sæta nálgunarbanni við brotaþola. Héraðsdómur hafnaði staðfestingu þess banns og brotaþola flutti fljótt aftur á sameiginlegt heimili hennar og varnaraðila.

Lögreglustjóri kveðst byggja ákvörðun sína á gögnum vegna gruns um refsiverð brot varnaraðili gegn brotaþola 17. desember sl. Fyrir liggi rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi framið brot sem varði m.a. við 1. mgr. 217. gr., 233. gr. b. og 1. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga og hætta sé á að hann muni raska friði brotaþola. Það sé mat lögreglustjóra að friðhelgi brotaþola verði ekki tryggð með öðrum og vægari hætti en með nálgunarbanni.

Varnaraðili kveður frásögn brotaþola um atburði 17. desember sl. ósanna.

Niðurstaða

Samkvæmt 4. gr.laga nr. 85/2011 er heimilt að beita nálgunarbanni annars vegar ef rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað friði brotaþola á annan hátt eða hins vegar ef hætta er á að viðkomandi brjóti gegn brotaþola.

Mál það er varða ætluð brot varnaraðila 17. desember sl. er ekki fullrannsakað. Lögregla hefur ítrekað haft afskipti af varnaraðila og brotaþola en ekkert fyrri mála hefur leitt til útgáfu ákæru. Hins vegar liggur einnig fyrir að brotaþoli er flutt af heimili varnaraðila, skilnaðarmál þeirra er til meðferðar hjá sýslumanni og þau hafa bæði lögmenn til aðstoðar við fjárskipti. Því verður ekki séð að varnaraðili hafi ríka hagsmuni af því að hafa nokkurt samband við brotaþola gegn vilja hennar. Nálgunarbann felur því ekki í sér mikla skerðingu á réttindum varnaraðila. Verður ákvörðun lögreglustjóra því staðfest, utan það að ekki þykir ástæða til að marka nálgunarbanninu lengri tíma en tvo mánuði.

Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Sunnu Axelsdóttur lögmanns, 182.900 krónur, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011. Þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Júlíar Óskar Antonsdóttur lögmanns 161.200 krónur, greiðist einnig úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 48. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011. Tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts.

Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Staðfest er ákvörðun lögreglustjórans á Norðurlandi eystra frá 18. desember sl., þess efnis að X, kt. [...],[...],[...], sæti nálgunarbanni við A, kt. [...], þannig að lagt sé bann við því að hann komi á eða í námunda við dvalarstað hennar að [...] á [...]. Bann þetta afmarkist við 25 metra radíus umhverfis framangreindan dvalarstað hennar, mælt frá miðju íbúðar eða húss. Jafnframt er lagt bann við því að varnaraðili setji sig í samband við brotaþola, nálgist hana á almannafæri, á vinnustað hennar eða hafi samskipti við hana í síma, tölvu eða á annan hátt. Bann þetta gildi í tvo mánuði.

Þóknanir skipaðs verjanda varnaraðila, Sunnu Axelsdóttur lögmanns, 182.900 krónur og skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Júlíar Óskar Antonsdóttur lögmanns, 161.200 krónur, greiðast úr ríkissjóði.