Print

Mál nr. 590/2017

Íslenska ríkið (Fanney Rós Þorsteinsdóttir lögmaður)
gegn
Gunnari Erni Kristjánssyni (Sigurður G. Guðjónsson lögmaður)
Lykilorð
  • Skattur
  • Rannsókn
  • Stjórnsýsla
Reifun

G höfðaði mál á hendur Í og gerði þá kröfu að felldir yrðu úr gildi úrskurðir ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar þar sem kveðið hafði verið á um að tilteknar greiðslur til erlends félags, sem sýnt þótti að G og viðskiptafélagi hans nytu ávinnings af, skyldu virtar sem skattskyld laun G. Þá krafðist G þess að Í yrði gert að endurgreiða sér þá fjárhæð sem honum hafði verið gert að greiða í kjölfar endurákvörðunar á opinberum gjöldum hans af þessum sökum. Í niðurstöðu sinni vísaði héraðsdómur meðal annars til þess að afla hefði þurft upplýsinga frá endurskoðanda hins erlenda félags og breskum skattyfirvöldum áður en jafn íþyngjandi ákvörðun hefði verið tekin. Með því að það hefði ekki verið gert yrði að fallast á að skattyfirvöld hefðu ekki séð til þess að málið hefði verið nægilega upplýst áður en hinar umþrættu ákvarðanir voru teknar og þar með brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð þess. Tók héraðsdómur því kröfur G til greina og staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Greta Baldursdóttir, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Ásgeir Magnússon dómstjóri.  

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. september 2017. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að fjárkrafa stefnda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefnda, Gunnari Erni Kristjánssyni, 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. júní 2017.

Mál þetta, sem dómtekið var 10. maí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu þingfestri 10. nóvember 2016 af Gunnari Erni Kristjánssyni, búsettum í Slóvakíu, á hendur íslenska ríkinu.

I.

        Stefnandi gerir þá kröfu að felldir verði úr gildi úrskurður yfirskattanefndar í kærumálinu nr. 321/2015 og úrskurður ríkisskattstjóra dagsettur 31. janúar 2014, með tilvísunarnúmerið 20121002146, sem báðir kveða á um endurákvörðun opinberra gjalda stefnanda gjaldárin 2006, 2007, 2008 og 2009, og stefnda gert að endurgreiða stefnanda 18.310.753 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995, sbr. og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001um vexti og verðtryggingu frá 16. desember 2015 til greiðsludags. 

        Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða málskostnað auk virðisaukaskatts.

        Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda. Þá er einnig krafist málskostnaðar en til vara að hann verði látinn falla niður.

II.

Málsatvik

        Mál þetta varðar kröfu stefnanda um ógildingu á úrskurðum yfirskattanefndar frá 2. desember 2015 og ríkisskattstjóra frá 31. janúar 2014. Þá krefst stefnandi endurheimtu tekjuskatts, sem greiddur var 16. desember 2015 í kjölfar niðurstöðu yfirskattanefndar. Endurákvörðun ríkisskattstjóra fór fram í kjölfar rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins á skattskilum stefnanda vegna tekjuáranna 2005, 2006, 2007 og 2008. Skattrannsóknarstjóri byggir á því að hafa hafið rannsóknina 12. ágúst 2010 með því að tilkynna stefnanda símleiðis að rannsókn væri hafin á skattskilum hans. Í rannsóknarskýrslu skattrannsóknarstjóra frá 2. oktbóber 2012 kemur fram að embættið hafi þann 13. ágúst 2010 sent tölvupóst til stefnanda á netfangið [...] Rannsókninni lauk með rannsóknarskýrslu dagsettri 2. október 2012.

        Tilefni rannsóknarinnar verður rakið til rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins á bókhaldi og skattskilum Bræðranna Ormsson ehf. og Ormsins fjárfestingafélags ehf. Stefnandi kom til skýrslutöku hjá embætti skattrannsóknarstjóra dagana 27.október 2010, 31. maí 2011 og 20. desember 2011. Einnig voru teknar skýrslur af viðskiptafélaga stefnanda, Sigurði Sigfússyni, og fleiri aðilum.

        Þann 17. apríl 2012 sendi skattrannsóknarstjóri stefnanda skýrslu, dags. 17. sama mánaðar, um rannsókn embættisins á skattskilum hans og gaf honum kost á að tjá sig um hana. Andmæli bárust með bréfi 29. júní sama ár og í kjölfarið var tekin saman endanleg skýrsla um rannsóknina. Í skýrslunni var fjallað um framkomin andmæli stefnanda og tekin afstaða til þeirra. Andmælin leiddu ekki til efnislegrar breytingar á skýrslunni, eins og tekið var fram í bréfi skattrannsóknarstjóra frá 9. október 2012.

        Í skýrslu skattrannsóknastjóra var fjallað um tengsl stefnanda við erlend félög. Þá kom fram að við skýrslutöku 27. október 2010 hefði verið lögð fyrir stefnanda mynd, sem ætlað væri að sýna tengsl íslenskra og erlendra félaga sem tengdust honum. Stefnandi hafi staðfest að myndin væri í meginatriðum rétt að því undanskildu að Topaz Holding Ltd. væri ekki eigandi íslenskra félaga tilgreindra á myndinni. Nánar væri um að ræða tvo sjálfseignarsjóði, e. trusts, sem nefndust X-Sel Trust og Y-Sel Trust og væru báðir skráðir á Jersey. Saman ættu sjóðirnir félagið Alverglen Limited, sem skráð var á Jómfrúaeyjum. Alverglen Limited ætti breska félagið Topaz Holding Ltd. Í rannsóknarskýrslunni var rakið að við skýrslutökur af stefnanda og viðskiptafélaga hans, Sigurði Sigfússyni, hefði komið fram að stefnandi hefði látið stofna Y-Sel Trust og hann verið rétthafi þess sjóðs eða „named beneficary“. Sama ætti við um Sigurð Sigfússon og Y-Sel Trust. Þeir Sigurður hafi báðir verið skráðir directors hjá Topaz Holding Ltd. Það félag hefði sent reikninga á íslensku félögin Seafood Union ehf., Sturlaug & Co ehf., Vörukaup ehf., Lomacon ehf. og Bræðurna Ormsson ehf.

        Í rannsóknarskýrslunni kom ennfremur fram að stefnandi hefði upplýst við skýrslutöku að Topaz Holding Ltd. væri fjárfestingafélag. Félagið hefði ekki starfsmenn, heldur hefði það keypt alla þjónustu. Stjórn félagsins hefi unnið í samráði við sig og Sigurð. Stefnandi hefði talið að samningar hefðu verið gerðir milli Topaz Holding Ltd. og Seafood Union eh., Bræðranna Ormsson ehf. og Vörukaupa ehf. um að þau félög yrðu rukkuð fyrir ráðgjafaþjónustu og greiðslur samkvæmt því hefðu verið mánaðarlegar. Stefnandi taldi samningana liggja fyrir hjá Topaz Holding Ltd. Hann hafi ekki talið viðskiptin milli félaganna óeðlileg enda hefðu stefnandi og Sigurður verið „directors“ hjá Topaz Holding Ltd. en jafnframt tengst íslensku félögunum. Stefnandi hefði unnið í sjálfboðaliðastarfi hjá Topaz Holding Ltd. en vonast til að þar myndu skapast verðmæti í framtíðinni. Viðskiptafélagar hans, Sigurður og Birgir, hefðu heldur ekki þegið laun frá félaginu. Við skýrslutöku 32. maí 2011 hafi stefnandi greint frá því að hann hefði óskað eftir samningum milli Topaz Holding Ltd. og íslensku félaganna frá bókhalds- og endurskoðunarskrifstofu félagsins í Bretlandi en hann hefði ekki fengið nein gögn.

        Þá gerði skattrannsóknarstjóri grein fyrir upplýsingum Sigurðar Sigfússonar, sem fram komu við skýrslutöku af honum 30. ágúst 2010. Sigurður hefði greint frá því að með reikningum frá Topaz Holding Ltd. hefðu verið innheimtar greiðslur fyrir ýmis ráðgjafastörf

og hefði vinnuframlag hans og Sigurðar að hluta til legið að baki þeirri þjónustu sem Topaz Holding Ltd. hefði innheimt fyrir. Þeir hefðu þó ekki verið á launum hjá félaginu, enda hefðu engir starfsmenn verið hjá félaginu. Um aðkeypta vinnu hefði verið að ræða án þess að Sigurður hefði getað tilnefnt þá aðila sem selt hefðu félaginu þjónustu sína. Samkvæmt skýringum Sigurðar hefði Topaz Holding Ltd. gefið út þessa reikninga vegna ráðgjafar í sambandi við mögulega útrás bræðranna Ormsson ehf. og Vörukaupa ehf. en ekkert hefði orðið af þeirri útrás. Aðspurður hefði Sigurður greint frá því að trúlega hefðu hann, stefnandi og Birgir samið við íslensku félögin fyrir hönd Topaz Holding Ltd. og einnig útbúið sölureikningana. Um óformlegt samkomulag hafi verið að ræða milli Topaz Holding Ltd. og íslensku félaganna og ekki hefðu verið gerðir þjónustusamningar. Sigurður hafi neitað því að hafa fengið helming tekna Topaz Holding Ltd. en tekjurnar hefðu að einhverju leyti verið nýttar til fjárfestinga í íslenskum félögum samkvæmt ákvörðunum hans og stefnanda þegar þeir voru í stjórn félagsins.

         Í skýrslu skattrannsóknarstjóra var fjallað nánar um tengsl stefnanda við umrædd íslensk félög og rakið að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum og vitnisburði hefðu stefnandi og Sigurður Sigfússon, ýmist annar eða báðir, verið skráðir stjórnarmenn í þeim félögum sem reikningar í nafni Topaz Holding Ltd. voru gefnir út á. Þeir hefðu unnið ýmiss konar ráðgjafastörf í þágu umræddra félaga og hefðu reikningar í nafni Topaz Holding Ltd. verið vegna starfa þeirra. Ekkert hefði komið fram um að aðrir hefðu komi að þeirri þjónustu.

        Fram kom að það var mat skattrannsóknarstjóra að greiðslur innheimtar með reikningum útgefnum í nafni Topaz Holding Ltd. hefðu í raun verið greiðslur til stefnanda og Sigurðar Sigfússonar persónulega og þær bæri að skattleggja samkvæmt 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, á grundvelli 1. töluliðarA-liðar lagagreinarinnar að því er stjórnarlaun varðaði eða á grundvelli B-liðar vegna ráðagjafagreiðslna. Það var mat skattrannsóknarstjóra að stefnandi hefði vanframtalið tekjur samtals að fjárhæð 29.940.012 krónur sem innheimtar hafi verið með reikningum í nafni Topaz Holding Ltd. á tekjuárunum 2005 til og með 2008, en stefnandi hefði ekki talið fram neinar tekjur frá Topaz Holding Ltd.

        Loks var í skýrslu skattrannsóknarstjóra vikið að reikningum frá Minerva Financial Sevices Ltd. á hendur Vörukaupum ehf., sem það félag hefði fært í bókum sínum. Samkvæmt reikningunum væri um að ræða þjónustu við X-Sel Trust og Y-Sel Trust auk Alvarglen Limited. Það var mat skattrannsóknarstjóra að stefnandi og Sigurður hefðu nýtt fjármuni Vörukaupa ehf. í eign þágu þar sem um væri að ræða greiðslur í þágu sjálfseignarsjóða og erlendra félaga er þeim tendust. Um væri að ræða persónulegan kostnað stefnanda og Sigurðar sem skattleggja bæri samkvæmt 7. gr. laga nr. 90/2003. Vantaldar tekjur stefnanda á árinu 2006 vegna þessa væru 464.092 kr., eða sem næmi helmingi heildarfjárhæðar umræddra reikninga.

        Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 9. október 2012, var mál stefnanda sent ríkisskattstjóra til meðferðar, sbr. 6. mgr. 103. gr. laga nr. 90/2003. Þar kom fram að rannsókn skattrannsóknarstjóra hefði leitt í ljós vantaldar tekur stefnanda að fjárhæð 30.404.104 krónur. Í kjölfar bréfs skattrannsóknarstjóra til stefnanda þar sem honum var meðal annars tilkynnt að mál hans hefði verið sent ríkisskattstjóra til meðferðar sendi umboðsmaður hans skattrannsóknarstjóra bréf þann 2. desember 2012 þar sem afstöðu embættisins var andmælt. Skattrannsóknarstjóri framsendi ríkisskattstjóra umrætt bréf 18. janúar 2013.

        Með bréfi ríkisskattstjóra 23. október 2013 var stefnanda tilkynnt um boðaða breytingu á gjöldum gjaldárin 2006 til og með 2009 á grundvelli skýrslu skattrannsóknarstjóra. Stefnandi sendi ríkisskattstjóra bréf 18. desember 2013, þar sem fyrirhugaðri skattbreytingu var mótmælt. Úrskurður um breytingar á opinberum gjöldum framangreind ár er frá 31. janúar 2014 og nemur hækkun gjaldstofna 30.404.104 krónum auk 25% álags á hækkun stofna, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003.

        Stefnandi fór fram á endurupptöku úrskurðar ríkisskattstjóra 27. febrúar 2014. Beiðninni fylgdu ljósrit af ársreikningum Topaz Holding Ltd. fyrir rekstrarárin 2005, 2006, 2007 og 2008. Stefnandi sendi ríkisskattstjóra beiðni um endurupptöku skattamáls síns nr. 20121002151 þann 27. febrúar 2014. Með bréfi þessu fylgdu ljósrit ársreikninga Topaz Holding Ltd. fyrir rekstrarárin 2005, 2006, 2007 og 2008. Ríkisskattstjóri hafnaði endurupptökukröfu stefnanda með bréfi 23. maí 2014. Þar sagði m.a. um framlagða ársreikninga:

        „Ársreikningar Topaz Holding Ltd. (TH) eru ekki endurskoðaðir. Í ársreikningi 2005 tilgreinir TH veltu upp á 146.979 GBP og stjórnunarkostnað upp á 139.980 GBP. Útskrifaðir tekjureikningar á hendur viðskiptavinum sem lagðir eru fram fyrir það ár í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins nema 87.532 GBP þannig að þeir gætu rúmast innan þeirrar veltu. Engin nánari greining er samt á þessum fjárhæðum í ársreikningi.
        Í ársreikningi TH fyrir árið 2006 er ekki getið neinna breytinga á reikningsskilaaðferðum eða á framsetningu ársreiknings. M.a. segir í skýringu 1.2: „Turnover comprises revenue recognised by the company in respect of goods and services supplied, exclusive of Value Added Tax and trade discounts.“ Velta eða brúttótekjur skv. ársreikningi það ár nema 16.007 GBP á meðan reikningar útgefnir á hendur viðskiptavinum af TH sem birtir eru í skýrslu skattrannsóknarstjóra námu 176.706 GBP á því ári. Ekkert samræmi er því í tekjum samkvæmt ársreikningi og tekjureikningum sem skrifaðir voru út í nafni félagsins.

        Í ársreikningi TH fyrir 2007 segir í skýringu 2 sem er nýtt: „Fees receivable represent the net of fees paid and received“ án þess að greint sé frekar frá því hvort eða hvaða áhrif þessi framsetning hafi á fjárhæðir sem eru birtar í rekstrarreikningi. Velta eða brúttótekjur samkvæmt ársreikningi þess árs námu 18.079 GBP en útskrifaðir reikningar á hendur viðskiptavinum á því ári, sem birtir eru í skýrslu skattrannsóknarstjóra, námu 336.703 GBP. Ekkert samræmi er því í tekjum samkvæmt ársreikningi og tekjureikningum sem skrifaðir voru út í nafni félagsins.
        Í ársreikningi 2008 segir í skýringu nr. 2: „Fees receivable represent the net of fees paid and received“ án þess að greint sé nánar frá því hvort eða hvaða áhrif það hafi á fjárhæðir í rekstrarreikningi. Í skýringu 2 á þessu ári kemur fram að velta eða brúttótekjur, sem námu 106.112 GBP, sundurliðist í sundry income að fjárhæð 25.912 GBP og fees að fjárhæð 80.200 GBP. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra kemur fram að útskrifaðir tekjureikningar á hendur viðskiptavinum hafi numið 186.169 GBP. Ekkert samræmi er því í tekjum samkvæmt ársreikningi og tekjureikningum sem skrifaðir voru út í nafni félagsins. Þegar horft er til framangreindra atriða er ljóst að ekkert samræmi er í þeim upplýsingum sem fram koma í ársreikningi og þeim tekjureikningum sem TH hefur gefið út sem kröfur á hendur þeim félögum sem rannsóknin náði til. Hafi félagið jafnað saman tekjum og gjöldum í framsetningu ársreiknings þá er það almennt andstætt almennum reikningsskilareglum og t.d. í ósamræmi við 13. gr. íslensku ársreikningalaganna nr. 3/2006 þar sem segir: „Óheimilt er að fella saman eignir og skuldir eða tekjur og gjöld innan einstakra liða.“ Ársreikningar TH eru heldur ekki studdir neinum gögnum, s.s. stöðulista aðalbókar eða hreyfingalista yfir tekjur sem gætu skýrt þennan mun, og geta þeir því ekki með nokkru móti orðið grundvöllur þess að RSK ógildi úrskurð sinn.  
         Í úrskurði sínum byggði ríkisskattstjóri á því að greiðslur félaganna samkvæmt reikningum frá Topaz Holding hefðu verið greiðslur fyrir vinnuframlag gjaldanda og viðskiptafélaga hans. Hvort umræddar greiðslur voru tekjufærðar hjá félaginu breytir engu varðandi tekjufærslu hjá gjaldanda. Í málinu var því haldið fram að umræddir reikningar frá TH væru vegna aðkeyptrar ráðgjafar. Framlögð gögn, þ.e. ársreikningar og skattframtöl Topaz Holding Ltd. ásamt fleiru, styðja í engu þá staðhæfingu gjaldanda og því verður ekki séð að þau breyti neinu varðandi niðurstöðu úrskurðar ríkisskattstjóra. Það hefur ekki áhrif á niðurstöðu ríkisskattstjóra í máli gjaldanda hvernig hann og Sigurður ráðstöfuðu þeim tekjum sem þeir fengu fyrir vinnuframlag sitt fyrir hin íslensku félög. Framlögð gögn gefa því ekki tilefni til endurupptöku nefnds úrskurðar ríkisskattstjóra. Varðandi annað það sem fram kemur í beiðni umboðsmanns gjaldanda um endurupptöku úrskurðar ríkisskattstjóra vísast til viðkomandi úrskurðar.“

         Stefnandi og eiginkona hans kærðu 17. apríl 2014 úrskurð ríkisskattstjora um endurákvörðun opinberra gjalda stefnanda gjalda árin 2006 til og með 2009 og kröfðust þess að úrskurðurinn yrði felldur úr gildi. Yfirskattanefnd kvað upp úrskurði í málinu 2. desember 2015 og hafnaði öllum kröfum.

III.

Málsástæður og lagarök stefnanda

        Stefnandi vísar til þess að hann hafi verið forstjóri SÍF hf. í nokkur ár og hafi árið 2004 ásamt tveimur fyrrum samstarfsmönnum félagsins, þeim Birgi Sævari Jóhannssyni fyrrum forstjóra SÍF hf. í Frakklandi og Sigurði Sigfússyni sölustjóra félagsins á Ítalíu, ákveðið að stofna til atvinnurekstrar innan Evrópusambandsins og á Evrópska efnahagssvæðinu, meðal annars á Íslandi. Umgjörð rekstrarins hafi verið samkvæmt lögum Englands og verið gerð með aðstoð lögmanna og endurskoðenda í Frakkalandi og á Englandi, þar á meðal enska endurskoðunarfirmans Ladimeji & Co. Meðal eigenda þess er Dapo Ladimeji. Birgir Sævar Jóhannsson, hafi að mestu séð um samskipti við hina erlendu lögmenn og endurskoðendur meðan hann tók þátt í rekstrinum.

        Samkvæmt ráðleggingum hinna erlendu sérfræðinga hafi verið stofnaðir sjálfseignarsjóðirnir Y-Sel og X-Sel í janúar 2005 á Jersey. Um þann þátt hafi séð Minerva Financial Services Ltd. á Jersey. Stefnandi og Sigurður Sigfússon voru rétthafar ,,beneficiary“ hvor síns sjálfseignarsjóðs. Stefnandi var rétthafi Y-Sel og Sigurður rétthafi X-Sel. Sjálfseignarsjóðirnir hafi átt að jöfnu félagið Alverglen Ltd., sem skráð var á Jersey. Alverglen Ltd. hafi átt allt hlutafé í Obsidian Properties Ltd. Uk, Topaz Holding Ltd., Opal Seafood Ltd. og 66,7% hlutafjár í Olivine Investment Ltd. UK. Hvert þessara félaga hafi svo átt hluti í ýmsum rekstrarfélögum, eins og mynd á dskj. nr. 8, II. hefti merkt 6.31, sýnir. Rekstrarfélögin voru, Bræðurnir Ormsson ehf., Vörukaup ehf., Sturlaugur & Co ehf. og Seafood Union ehf., sem öll voru íslensk, Mono S.r.o., Ormsson Slovakia S.r.o. og Home Studio S.r.o. frá Slóvakíu.

        Stefnandi byggir málssókn sína á þeirri málsástæðu í fyrsta lagi að rannsókn embættis skattrannsóknarstjóra ríkisins og ríkisskattstjóra á skattamáli hans hafi farið í bága við reglur um rannsókn skattamála og haft það eitt að markmiði að telja til tekna hjá stefnanda og viðskiptafélaga hans, Sigurði Sigfússyni, ráðgjafa- og þjónustutekjur Topaz Holding Ltd., sem sé enskur skattþegn.

        Stefnandi bendir í fyrsta lagi á að samkvæmt 7. mgr. 103. gr. laga um tekjuskatt beri embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins við skattrannsókn að gæta ákvæða laga um meðferð sakamála eftir því sem við getur átt, einkum varðandi réttarstöðu hins grunaða. Af þessu ákvæði leiði að embætti skattrannsóknarstjóra verði að virða þá meginreglu sakamálaréttarfars, sem leidd er af 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, að hver sakborningur á rétt til þess að vera talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð. Af þessari reglu leiði að embætti skattrannsóknarstjóra verði að haga rannsókn sinni af þeirri hlutlægni, sem boðin er í 2. mgr. 53. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, og gæta jafnt að þeim atriðum, sem horfa til sýknu eða sektar, þess sem grunaður er um skattalagabrot.

        Embætti skattrannsóknarstjóra hafi þverbrotið þessa reglu við rannsókn máls stefnanda. Þannig hafi rannsakendur hjá embættinu ekki hirt um að afla gagna frá enskum skattayfirvöldum um enska skattþegninn Topaz Holding Ltd. og skattskil hans þar í landi. Rannsakendur hjá embætti skattrannsóknarstjóra hafi heldur ekki hirt um að afla gagna um rekstur Topaz Holding Ltd. frá stjórnendum félagsins eða endurskoðanda þess, eins og þeir voru þó ítrekað hvattir til að gera. Rannsakandinn, Ómar Ingi Bragason, sem tók þátt í að yfirheyra stefnanda 31. maí 2011, hafi sagt að það væri hugmynd. Þeirri hugmynd hafi aldrei verið hrint í framkvæmd þar sem stjórnendur rannsóknar skattamáls stefnanda hjá embætti skattrannsóknarstjóra hafi frá upphafi gefið sér að greiðslur innheimtar samkvæmt reikningum útgefnum af Topaz Holding Ltd. á hendur Bræðrunum Ormsson ehf., Seafood Union ehf., Lomacon ehf., Sturlaugi & Co ehf. og Vörukaupum ehf. árin 2005 til 2008 hefðu í raun verið greiðslur til stefnanda að hluta og Sigurðar Sigfússonar að hluta. Þetta viðhorf rannsakenda komi m.a. fram hjá Írisi Kristjánsdóttur við yfirheyrslu á stefnanda 27. október 2010, sbr. dskj. nr. 8. Rannsakandi, sem hafi gefið sér niðurstöðu rannsóknar, geti aldrei hafa gætt hlutlægni.

        Rannsakendur hjá embætti skattrannsóknarstjóra hafi stofnað til rannsóknar á meintum skattalagabrotum stefnanda á gögnum, sem komið var til embættisins af fyrrum starfsmönnum Bræðranna Ormsson ehf., sem töldu sig eiga harma að hefna. Þessir aðilar hafi með ólögmætum hætti farið inn í gögn stefnanda og Sigurðar Sigfússonar, sem vistuð höfðu verið í tölvukerfum Bræðranna Ormsson ehf., afritað þau að einhverju leyti og látið skattrannsóknarstjóra í té. Með þessu hafi starfsmenn Bræðranna Ormsson ehf. brotið gegn friðhelgi einkalífs stefnanda, sem verndað sé af  71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem hefur lagagildi hér á landi, sbr. lög nr. 62/1994. Friðhelgi einkalífs megi ekki takmarka nema með lögum beri brýna nauðsyn til vegna réttinda annarra. Jafnframt hafi starfsmenn Bræðranna Ormsson ehf. brotið gegn ákvæðum laga um fjarskipti nr. 81/2003, sem sé refsivert bæði samkvæmt lögum um fjarskipti og almennum hegningarlögum. Rannsakendur hjá skattrannsóknarstjóra hafi gerst hlutdeildarmenn í þeim brotum þegar þeir hagnýttu sér hin stolnu gögn. Lögmæt skattrannsókn verði ekki byggð á öðrum gögnum, en þeim sem skattyfirvöld afla með þeim hætti sem lög heimila þeim. Með því að hagnýta sér gögn um persónuleg málefni stefnanda og erlendra lögaðila, sem stefnandi hefur hagsmuni af að gangi vel rekstrarlega og varðveitt voru á einkasvæði hans hjá Bræðrunum Ormsson ehf., hafi skattrannsóknarstjóri auk þess brotið gegn ákvæðum IX. og XI. kafla laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sem geymi skýrar reglur um það hvernig skuli meðal annars staðið að leit, símhlustun og öðrum sambærilegum úrræðum sem miða að því að rannsaka eða fylgjast með fjarskiptum. Meðal gagna, sem embætti skattrannsóknarstjóra hafi fengið úr tölvugögnum stefnanda, hafi verið reikningar Topaz Holding Ltd. á hendur félögunum, sem ekkert tengdust Bræðrunum Ormsson ehf., svo sem Vörukaupum ehf., Seafood Union ehf., Sturlaugi & Co ehf., Lomacon ehf. og Mono S.r.o. í Slóvakíu. Afrit 14 reikninga á hendur Mono S.r.o. er að finna á dskj. nr. 8, III. hefti merkt 8.69 til 8. 82. Þeir séu allir án fylgiskjalanúmera, enda stöfuðu þau hvorki frá Topaz Holding Ltd. né Mono S.r.o.

        Skattrannsóknarstjóri hafi ekki nýtt sér lögbundna heimild í 2. mgr. 94. gr. laga um tekjuskatt til að ganga úr skugga um hvort embættið hefði fengið öll gögn sem skipt gætu máli við rannsókn þess eða aðeins þau sem gagnaþjófarnir hafi talið að kæmu sér verst fyrir stefnanda og Sigurð Sigfússon, sem þeim var í nöp við. Í því sambandi megi benda á að einn þeirra reikninga sem starfsmenn skattrannsóknarstjóra lögðu fyrir stefnanda við yfirheyrslu 27. október 2010, sbr. dskj. nr. 8, I. hefti, merkt 1.64 til 1.97, og sé á hendur Bræðrunum Ormsson ehf., sé sagður útgefinn 28. desember 2008 en vegna þjónustu í nóvember 2007. Stefnandi hvarf úr stjórn Bræðranna Ormsson ehf. í byrjun október 2008. Þessi reikningur sé án fylgiskjalsnúmers og enginn viti hver bjó hann til. Skattrannsóknarstjóri hafi heldur ekki gengið úr skugga um hvort þau gögn sem hann hafði fengið send með tölvupósti hefðu í raun verið fylgiskjöl í bókhaldi hinna íslensku félaga, eins og glöggt kom fram þegar stefnandi var yfirheyrður af starfsmönnum skattrannsókna 2011. Starfsmenn embættis skattrannsóknarstjóra hafi heldur ekki gert sér grein fyrir því að hluti þeirra gagna, sem þeir voru, með geymdu kreditreikninga, eins og stefnandi hafi bent þeim á við yfirheyrsluna 31. maí 2011.

        Í rannsóknarskýrslu skattrannsóknarstjóra sé byggt á því að reikningar útgefnir í nafni Topaz Holding Ltd. til Lomacon ehf. að fjárhæð 12.020.217 kr. séu tilkomnir vegna starfa stefnanda og Sigurðar Sigfússonar í þágu þess félags og beri að skoða sem tekjur hjá þeim að jöfnu. Þessi niðurstaða sé beinlínis röng og sýni, eins og það sem að framan er rakið, að markmið rannsóknarinnar var ekki að leiða hið sanna í ljós, heldur að gera tekjur Topaz Holding Ltd. að launatekjum hjá stefnanda og Sigurði Sigfússyni. Þessu til stuðnings sé rétt að benda á skýrslu Reynis Gunnlaugssonar, fyrrum framkvæmdastjóra Lomacon ehf. hjá embætti skattrannsóknarstjóra 7. febrúar 2011, sbr. dskj. nr. 8, I. hefti, merkt 1.128 til 1.136. Í skýrslu Reynis komi fram að Lomacon ehf. hafði greitt sænsku félagi, Lidén Consulting, ýmist beint eða fyrir milligöngu Topaz Holding Ltd. Þessar greiðslur til Lidén sagði Reynir vera verktakalaun til félags hans, Sverker, í Svíþjóð, sem á að hafa komið á viðskiptum fyrir félagið. Stefnandi hafi líka unnið að hagsmunum Lomacon ehf. erlendis og það ekki síður en Sverker, eins og fram kemur í skýrslu Reynis. Stefnandi kom meðal annars að því að tryggja félaginu lánsfé hjá erlendum bönkum, lána félaginu fé og koma á viðskiptum fyrir það. Fyrir þessa þjónustu stefnanda innheimti Topaz Holding Ltd. meðal annars þóknun sína. Sú þóknun hafi ekki gengið til stefnanda og Sigurðar Sigfússonar, frekar en þóknunin sem Topaz Holding Ltd. innheimti fyrir Lidén Consulting. Einu gögnin sem embætti skattrannsóknarstjóra hafi aflað í raun í tengslum við rannsókn skattamáls stefnanda voru annars vegar hreyfingalistar frá hinum íslensku félögum sem Topaz Holding Ltd. hafði selt þjónustu og hins vegar frá skattyfirvöldum á Jersey. Hreyfingarlistar hinna íslensku fyrirtækja séu ekki sönnun um annað en að einhverjir reikningar frá Topaz Holding Ltd. voru greiddir. Gögn fengin frá skattyfirvöldum á Jersey sanni heldur ekki að greiðslur íslensku félaganna til Topaz Holding Ltd. hafi verið tekjur stefnanda og Sigurðar Sigfússonar. Rétt sé svo að benda á að skattyfirvöld á Jersey settu skattrannsóknarstjóra þröngar skorður um notkun þeirra gagna sem þau sendu, eins og sjá má af samskiptum starfsmanna skattrannsóknarstjóra við Malcom Campell hjá Comptroller of Taxes á Jersey. Í bréfi Lisu Karen Yoder, starfsmanns skattrannsóknarstjóra, til Malcom Campell, dagsettu 10. febrúar 2011, staðfesti hún að þær upplýsingar, sem verði veittar af hálfu hinna erlendu skattayfirvalda, verði aðeins notaðar í tengslum við refsiverð skattalagabrot. Engu að síður hafi skattrannsóknarstjóri látið ríkisskattstjóra þessi gögn í té. Síðargreinda embættið hafi aldrei fallist á það fremur en íslenskir dómstólar að endurákvörðun skatts með álagi feli í sér refsingu eða refsikennd viðurlög.

        Malcom Campell hjá Comptroller of Taxes á Jersey hafi sent Lisu Karen Yoder hjá skattrannsóknarstjóra bréf, dagsett 11. júlí 2011. Í því komi fram að stefnandi sé það sem kallað er í bréfinu ,,the sole settlor“ sjálfseignarsjóðsins Y-Sel, sbr. dskj. nr. 8, III. hefti. Samkvæmt bréfinu átti þessum sjóði að hafa borist innborganir frá ýmsum fjárfestingarfélögum samtals að fjárhæð 47.241 sterlingspund á tímabilinu 11. janúar 2005 til 13. október 2006. Stefnandi hafi ávallt kannast við tilvist Y-Sel sjálfseignarsjóðsins. Stefnandi kannast hins vegar ekki við þær greiðslur, sem eiga að hafa borist honum frá Y-Sel, sem rétthafa Y-Sel, á tímabilinu 26. október 2005 til 22. febrúar 2006 að fjárhæð 103.899 sterlingspund. Útborgun úr Y-Sel hafi samkvæmt þessu verið hærri en innborgun. Þessi gögn sanni ekki að stefnandi hafi í raun fengið hluta þeirra greiðslna sem Topaz Holding Ltd. innheimti af hinum íslensku félögum. Skattrannsóknarstjóri hefði ekki leitað frekari skýringa á því með atbeina skattyfirvalda á Jersey hvernig stæði á því að útborgun væri hærri en innborgun. Ekki hafi heldur verið reynt að afla upplýsinga um hvort Y-Sel ætti eða hefði einhvern tíma átt bankareikning eða -reikninga. Rannsakendur hjá embætti skattrannsóknarstjóra hafi heldur ekki viljað skoða eða rannsaka hve mikið fé hefði runnið til Bræðranna Ormsson ehf. frá Topaz Holding Ltd. til að mæta viðvarandi rekstrarfjárskorti.

                Stefnandi vísar til þess að starfsmenn ríkisskattstjóra séu við rannsókn og töku ákvarðana í skattamálum bundnir af reglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ríkisskattstjóri megi  því ekki taka íþyngjandi skattákvörðun, nema að undangenginni eigin rannsókn, sbr. 10. gr. laga nr. 37/1993. Ríkisskattstjóri hafi ekki unnið sjálfstæða rannsókn á skattskilum stefnanda, heldur lagði til grundvallar ákvörðun sinni niðurstöðu hinnar ólögmætu rannsóknar embættis skattrannsóknarstjóra á skattskilum stefnanda, eins og úrskurðurinn á  dskj. nr. 4, beri með sér. Í úrskurði ríkisskattstjóra sé meðal annars sérstaklega tekið fram að ekkert hefði komið fram við rannsóknina, sem gæfi vísbendingu um að Topaz Holdin Ltd. hefði verið að innheimta ráðgjafarkostnað vegna þriðja aðila. Þetta sé rangt. Topaz Holding Ltd. hafi verið að innheimta ráðgjafarkostnað. Það sé óumdeilt, þar sem stjórnendur hinna íslensku félaga færðu greiðslurnar til Topaz Holding Ltd. til gjalda hjá þeim. Auk þess liggi líka fyrir gögn um það að Topaz Holding Ltd. hafi aldrei greitt stefnanda eitt eða neitt. Ríkisskattstjóri geti ekki upp á sitt eindæmi breytt tekjum erlends skattþegns í tekjur hjá íslenskum skattþegnum með þeim rökum einum að hann geti metið það sjálfstætt hvenær skattskyldu sé til að dreifa og hvers sú skattskylda sé.

        Ríkisskattstjóri geti ekki komið sér undan þeirri skyldu að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en hann tekur ákvörðun með því einu að vísa til þess að á stefnanda hafi hvílt skýlaus upplýsingaskylda samkvæmt 94. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003. Rannsóknarskyldan hvíli á ríkisskattstjóra. Undan þeirri skyldu geti hann ekki vikið sér með því að vísa á skattþegn og krefjast þess að hann leggi fram upplýsingar um starfssemi erlendra aðila. Stefnandi gerði hvað hann gat til að fá nauðsynleg gögn og upplýsingar um Topaz Holding Ltd, meðal annars um rekstur og skattskil. Þegar þær lágu fyrir og staðfestu það, sem stefnandi hafði ávallt haldið fram, hafi ríkisskattstjóri kosið að horfa framhjá þeim en ekki leita upplýsinga um enskan rétt, m.a. um framsetningu ársreikninga í Englandi. Yfirskattanefnd, sem stundum hefur í úrskurðum sínum lagt áherslu á að skattamál væru rannsökuð á fullnægjandi hátt áður en ákvörðun um breytingu á opinberum gjöldum skattþegns væri tekin, hafi horft fram hjá öllum þeim hnökrum, sem á rannsókn máls stefnanda var, og litið svo á að hérlend skattayfirvöld gætu horft framhjá rekstri löglegs erlends félags og skattskyldu þess í heimaríki sínu, og ákveðið að tekjur þess, sem greiddar voru af íslenskum félögum, skuli teljast að hluta til launatekjur stefnanda. Hvergi í íslenskri löggjöf sé skattyfirvöldum falið það vald að breyta lögmætum viðskiptum milli félaga sem stofnað er til í lögmætum tilgangi. Skattamálefnum á að skipa með lögum og skattalög verður að túlka þröngt, þar sem eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar setur skattheimtu ríkisins skorður. Stefnanda hafi verið frjálst að koma að stofnun félaga á Englandi vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Þeim félögum, sem stofnuð voru samkvæmt enskum rétti og lutu enskum lögum, hafi verið heimilt að eiga viðskipti við önnur félög innan ríkja Evrópusambandsins og á Evrópska efnahagssvæðinu. Það gerðu hin ensku félög meðal annars í Svíþjóð, í Slóvakíu og á Íslandi. Rekstur íslensku félaganna, sem hin ensku fjárfestu í, fór að mestu illa vegna óðaverðbólgu og gengishruns. Reksturinn Mono S.r.o í Slóvakíu hafi hins vegar gengið betur og starfsemin í Svíþjóð verið seld. Hvort og hvenær starfsemi Topaz Holding Ltd., eins hinna ensku félaga, skilar einhverju til eigenda sinna, sé ekki komið í ljós. Íslensk skattayfirvöld geti hins vegar ekki ákveðið að ákveðinn hluti tekna Topaz Holding Ltd. skuli vera laun stefnanda og þar með tekið fram fyrir hendur á lögmætri stjórn félagsins í Englandi. Hið eina, sem íslensk skattayfirvöld geta, eða gátu, var að reyna að hafna því að greiðslur til Topaz Holding Ltd. væru frádráttarbær gjöld í rekstri þeirra. Skattayfirvöld hafi engan reka gert að því, ekki einu sinni gagnvart Bræðrunum Ormsson ehf. þegar það félag var tekið í skattskoðun á árinu 2005. Stefnandi hafi aldrei getað talið sér til tekna greiðslur, sem hann fékk ekki. Stefnandi   hafi hins vegar gert grein fyrir því á skattaframtali sínum að Topaz Holding Ltd. hefði lánað honum fé. Það hafi félaginu verið heimilt samkvæmt enskum lögum.

        Stefnandi geti hvergi fundið heimild skattyfirvalda til að ákveða að hann og Sigurður Sigfússon skuli einir skattskyldir af öllum tekjum sem Topaz Holding Ltd. innheimti hjá hinum íslensku félögum. Skattyfirvöld geti ekki byggt þá ákvörðun á 57. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003. Stefnandi hafi ekki gert samning-/a við einn eða fleiri íslenska skattaðila um tiltekna fjármálaskiptan, sem er verulega frábrugðin því sem almennt gerist, og hann hefur enga greiðslu fengið frá íslenskum skattaðila, sem hann hefur ekki gert grein fyrir. Stefnandi bendir á að Birgir Sævar Jóhansson kom að hinum erlenda rekstri allt frá árinu 2004 þegar Opal Seafood Ltd. keypti Bræðurna Ormsson ehf. með atbeina Ormsins fjárfestingarfélags ehf. Þá hafi Birgir Sævar setið í stjórn Bræðranna Ormsson ehf. til ársloka 2005 þegar hann hætti að vinna að viðskiptum með stefnanda og Sigurði Sigfússyni, í gegnum hið enska fyrirtækjafyrirkomulag sem hann hafði átt drýgstan þátt í að móta, og snéri sér að eigin rekstri í Frakklandi og á Íslandi. Skattyfirvöld geti ekki ákveðið að greiðslur, sem gengu til Topaz Holding Ltd. frá íslenskum félögum séu skattlagðar hjá honum og Sigurði Sigfússyni en Birgi Sævari sé sleppt.

        Með vísan til alls framangreinds beri að taka kröfur stefnanda til greina, fella úrskurði yfirskattanefndar og ríkisskattstjóra úr gildi og dæma stefnda til að endurgreiða ofgreidda skatta auk vaxta, dráttarvaxta og málskostnaðar.        

        Stefnandi á einn aðild að máli þessu þó að úrskurður um niðurfellingu barnabóta eiginkonu hans samkvæmt öðrum úrskurði ríkisskattstjóra hafi verið kærður til yfirskattanefndar.

        Stefnandi byggir málssóknina á reglum um rannsókn skattamála samkvæmt lögum um tekjuskatt nr. 90/2003, lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008 og stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, 70., 71., 72., 75. og 77. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, 6. og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, lögum nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, og lögum um persónuvernd og persónuupplýsingar, nr. 77/2000. Þá er einnig byggt á reglum í samningnum um jafngildi skráðra sem óskráðra samninga. 

        Því er hafnað að skattyfirvöld geti byggt skattlagningu í máli þessu á 1. mgr. 57. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003.

        Endurgreiðslukrafa og krafa um vexti og dráttarvexti byggir á lögum nr. 29/1995, sbr. lög nr. 38/2001.

        Krafa um málskostnað er byggð á 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt á lögum nr. 50/1988.

IV.

Málsástæður og lagarök stefnda

        Stefndi mótmælir málatilbúnaði stefnanda og kröfum á honum reistar og byggir á því að meðferð málsins og úrskurðir ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar um endurákvörðun opinberra gjalda stefnanda séu í samræmi við lög og ekkert tilefni sé til ógildingar þeirra.

        Stefndi mótmælir því að skattayfirvöld hafi ekki gætt hlutlægni í samræmi við lög nr. 88/2008, um meðferð sakamála og jafnframt að brotið hafi verið gegn 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944 og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Stefndi mótmælir því að skattrannsóknarstjóri hafi ekki aflað viðeigandi gagna um Topaz Holding Lt.d. og skattskil félagsins gagnvart enskum skattyfirvöldum ásamt því að hafa gefið sér í rannsókn sinni að tilteknar greiðslur samkvæmt reikningum útgefnum af Topaz Holding Ltd. hafi í raun verið greiðslur til stefnanda og Sigurðar Sigfússonar.

        Stefndi byggir á því að af gögnum málsins megi ráða að nægileg greinargóðar upplýsingar hafi legið fyrir um Topaz  Holding Ltd. á því tímabili sem rannsókn málsins varðar. Þá hafi stefnanda verið í lófa lagið að leggja fram allar þær upplýsingar og gögn sem hann taldi að upplýst gætu málið með fullnægjandi hætti. Við rannsókn skattrannsóknarstjóra lágu fyrir gögn um reikningaútgáfu stefnanda og Sigurðar Sigfússonar í nafni Topaz Holding Ltd. og rannsóknin hafi beinst að skoðun þessara reikninga og fyrir hvaða vinnu og þjónustu var innheimt. Rannsóknin hafi ekki varðað skattskil Topaz Holding Ltd.

        Stefndi bendir á að niðurstaða rannsókna, bæði skattransóknarstjóra og ríkisskattstjóra, byggist fyrst og fremst á gögnum sem stefnandi lagði fram sjálfur og skýrslutökum yfir stefnanda og þeim aðilum sem komu að gerð reikninganna. Með hliðsjón af þeim hafi skattrannsóknarstjóri og síðan ríkisskattstjóri komist að þeirri niðurstöðu að nokkur íslensk félög hefðu greitt stefnanda og Sigurði fyrir stjórnarsetu og/eða annað vinnuframlag í þágu félaganna. Reikningarnir sem Topaz Holding Ltd. gaf út voru vegna vinnu stefnanda og Sigurðar, en á skattframtölum þeirra hafi engin grein verið gerð fyrir tekjum vegna þessarar vinnu. Í skýrslutökum af forsvarsmönnum þeirra félaga, sem voru kaupendur vinnunnar, hafi komið fram að stefnandi og  Sigurður hafi lagt af mörkum vinnu og jafnframt hafi legið fyrir að frá Topaz Holding Ltd. hefðu ekki aðrir innt af hendi það vinnuframlag sem innheimt var fyrir, andstætt fullyrðingum stefnanda og Sigurðar. Allir reikningar hefðu verið greiddir. Niðurstaða skattyfirvalda hafi því verið sú að greiðslurnar tilheyrðu þeim persónulega en ekki Topaz Holdins Ltd.og að líta ætti á greiðslur íslensku félaganna sem skattskyld laun stefnanda og Sigurðar, sbr. A-lið 7. gr. laga nr. 90/2001 og líta ætti fram hjá aðkomu Topaz Holding Ltd. við innheimtu þeirra greiðslna.

        Í úrskurði ríkisskattstjóra segi nánar um þetta atriði: „Með vísan til þess sem að framan greinir er það mat ríkisskattstjóra að í raun hafi gjaldandi sjálfur unnið þá vinnu er Topaz Holding Ltd. innheimti fyrir hjá íslensku félögunum, hvað hans hluta varðar, og tekjurnar því tilheyrt honum persónulega.  Af gögnum málsins og upplýsingum frá gjaldanda og Sigurði verður ekki annað séð en störf hans fyrir hin íslensku félög hafi í eðli sínu verið sambærileg við störf sem alla jafnan falla undir verksvið stjórnenda félaga eða starfandi stjórnarmanna.  Þá hafi gjaldandi innheimt þóknun með svo til jöfnum mánaðarlegum greiðslum eins og um föst laun væri að ræða.  Að mati ríkisskattstjóra eru tekjur gjaldanda af störfum hans fyrir félögin ekki tekjur skv. B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, enda ekkert sem bendir til að umrædd störf hafi verið verktakavinna og að hann hafi sinnt afmörkuðum verkefnum fyrir félögin.  Með vísan til þess sem að framan greinir er það mat ríkisskattstjóra að samband gjaldanda og hinna íslensku félaga hafi verið samband launþega og launagreiðanda.  Er það mat ríkisskattstjóra að gjaldandi hafi í raun verið starfsmaður umræddra félaga og hafi greiðslur félaganna til hans því verið skattskyldar tekjur hans skv. 1. mgr. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.  Það er mat ríkisskattstjóra að líta beri framhjá aðkomu Topaz Holding Ltd. og skattleggja tekjurnar sem laun hjá gjaldanda persónulega.“

        Í VI. kafla úrskurðar yfirskattanefndar nr. 322/2015 í máli stefnanda séu efnisatriði málsins rakin og þar segi meða annars: „Af framburði umræddra starfsmanna og kæranda og Sigurðar sjálfra verður ráðið að útgefnir reikningar Topaz Holding Ltd. hafi alfarið verið að frumkvæði kæranda og Sigurðar og vegna starfa þeirra fyrir félögin. Var um að ræða reglulegar greiðslur á því tímabili er kærandi og Sigurður tengdust félögunum og voru fjárhæðir reikninga á hvert félag svipaðar milli mánaða. Verður að taka undir það með ríkisskattstjóra að greiðslur hinna íslensku félaga til Topaz Holding Ltd. beri öll merki þess að hafa í raun verið launagreiðslur til kæranda og Sigurðar fyrir persónulegt vinnuframlag þeirra. Þá verður ekki annað ráðið af skýrslugjöf kæranda og Sigurðar sem og fyrrum starfsmanna hinna íslensku félaga en að störf kæranda og Sigurðar fyrir félögin hafi í eðli sínu verið störf sem almennt falla undir verksvið stjórnarmanna eða stjórnenda félaga. Ekkert kemur fram í reikningum Topaz Holding Ltd. um aðkeypta þjónustu, svo sem með sundurliðun eða tilvísun til annarra gagna. Verður að telja að það hafi staðið kæranda og Sigurði næst að upplýsa um aðkeypta þjónustu fyrir íslensku félögin hafi verið um slíka þjónustu að ræða. Þá liggur fyrir að Topaz Holding Ltd. hætti að innheimta greiðslur frá félögunum er kærandi og Sigurður hættu afskiptum af félögunum.“

        Stefndi bendir á að almennt sé talið að vinna starfandi stjórnarmanna semslíkra í viðkomandi félögum sé launavinna en ekki verktaka vinna:

        Í niðurstöðu yfirskattanefndar segi síðan: „Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður að fallast á það með ríkisskattstjóra að sýnt hafi verið fram á það með rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins að virða beri greiðslur íslensku félaganna til X Ltd. sem skattskyld laun kæranda og Sigurðar, sbr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, og að líta beri fram hjá aðkomu X Ltd. við innheimtu þeirra greiðslna. Ekki er sérstaklega deilt um skiptingu greiðslnanna milli kæranda og Sigurðar í kæru til yfirskattanefndar og verður því byggt á því að greiðslur hafi runnið til þeirra að jöfnu nema í tilviki Seafood Union ehf...Vegna athugasemda í kæru þess efnis að kærandi hafi ekki fengið neinar greiðslur vegna umræddra starfa skal tekið fram að hvað sem því líður liggur fyrir að kærandi og Sigurður komu því þannig fyrir að umræddar greiðslur rynnu til Topaz Holding Ltd. sem eins og fram er komið er félag sem þeir nutu að lokum ávinnings af. Samkvæmt framansögðu verða hinar kærðu tekjuviðbætur ríkisskattstjóra látnar standa óhaggaðar.“

        Af framangreindu telur stefndi ljóst að umfangsmikil gögn, þar á meðal skýrslutökur, sem lágu fyrir í máli stefnanda hafi sýnt fram á að reikningar sem Topaz Holding Ltd. gaf út voru vegna vinnu stefnanda og Sigurðar. Stefndi telur því að ekki hafi verið ágallar á rannsókn málsins af hálfu skattyfirvalda og hafi hlutlægni verið gætt í hvívetna.

             Stefndi mótmælir sem ósönnuðum staðhæfingum stefnanda um að brotið hafi verið gegn friðhelgi einkalífs hans, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu þar sem persónulegra gagna varðandi stefnanda hafi verið aflað með ólögmætum hætti og rannsakendur hjá skattrannsóknarstjóra séu því hlutdeildarmenn í þeim brotum með því að hagnýta þau. Stefndi leggur áherslu á að í 90. gr. laga nr. 90/2003 sé kveðið á um þá skyldu skattskyldra aðila að afhenda ríkisskattstjóra skýrslur um eignir í árslok á síðastliðnu ári, svo og önnur atriði sem máli skipta við skattlagningu. Verði skattrannsónarstjóri þess áskynja að misbrestur hafi orðið á því að uppfyllt séu ákvæði 90. gr. laga nr. 90/2003 geti hann að eigin frumkvæði hafið rannsókn á hverju því atriði er varði skatta, sbr. 1. mgr. 103. gr. sömu laga. Hvorki lög nr. 90/2003 né lög nr. 88/2008 standi í vegi fyrir því að skattrannsóknarstjóri hagnýti sér gögn sem þriðji aðili afhendir embættinu án þess að kanna hverning þeirra hafi verið aflað en mikilvægir almannahagsmunir felist í því að skattalagabrot séu upplýst. Skattrannsóknarstjóri fékk umrædd gögn afhent frá þriðja aðila og aflaði ekki gagnanna með ólögmætum hætti.

        Stefndi bendir ennfremur á að líkt og rakið hefur verið byggði niðurstaða skattrannsóknarstjóra og síðar ríkisskattstjora fyrst og fremst á skýrslutökum af þeim aðilum sem komu að gerða reikninganna sem um ræðir, það er stefnanda og Sigurðar. Fullyrðingu stefnanda um að tölvuskeyti, sem stefnandi fullyrðir að hafi verið fengin með ólögmætum hætti er mótmælt sem ósönnuðu og þau hafi ekki verið grundvöllur  niðurstöðu rannsóknar skattyfirvalda.

         Stefndi mótmælir því að skattrannsóknarstjóri hafi ekki nýtt sér lögbundna heimild í 2. mgr. 94. gr. laga nr. 90/2003 til að ganga úr skugga um hvort embættið hafi fengið öll gögn sem skipt gætu máli við rannsókn málsins, þar með talið gögn um lántökur Topaz Holding Ltd. Þá er því mótmælt að mat skattrannsóknarstjóra á gögnum málsins, meðal annars reikningum útgefnum í nafni Topaz Holding Ltd., hafi verið rangt og ekki til þess fallið að sýna fram á greiðslur íslensku félaganna til Topaz Holding Ltd. hafi verið tekjur stefnanda og Sigurðar Sigfússonar.

        Sem fyrr greinir var rannsókn skattrannsóknarstjóra og ríkisskattstjóra fyrst og fremst byggð á annars vegar gögnum sem stefnandi lagði fram sjálfur og hins vegar á skýrslutökum af stefnanda og þeim aðilum sem komu bæði að gerð og greiðslu umræddra reikninga. Stefndi telur mikilvægt í þessu sambandi að halda því til haga að rannsókn málsins beindist eingöngu að stefnanda sjálfum en ekki félaginu Topaz Holding Ltd. Gögn málsins bera einnig með sér að stefnandi hafi verið tregur til að láta í té þýðingarmiklar upplýsingar og gögn sem skattyfirvöld fóru fram á en á stefnanda hvíli skýlaus skylda, sbr. 1. mgr. 94. gr. laga nr. 20/2003. Í því ljósi og með hliðsjón af gögnum málsins er það mat stefnda að skattrannsóknastjóri hafi aflað nægilegra gagna svo að hægt væri að leiða að því nægilega miklar líkur að greiðslur íslensku félaganna til Topaz Holding Ltd. væru í raun og veru launagreiðslur til stefnanda og Sigurðar fyrir vinnuframlag þeirra.

        Varðandi athugasemdir í stefnu um reikning sem Topaz Holding Ltd. gaf út á Bræðurnar Ormsson ehf. og dags. sé 28.12.2008 en samkvæmt texta sagður vegna þjónustu og ráðgjafar í nóvember 2007 og samkvæmt númeraröð sé gefinn út í desember 2007 þá áréttar stefndi að rannsóknin hafi varðað skattskil stefnanda. Það hafi ekki verið hluti af rannsókn málsins hvort umræddir reikningar hafi verið fylgiskjöl í bókhaldi íslensku félaganna sem veru greiðendur reikninganna.

        Stefndi mótmælir staðhæfingum stefnanda um að ríkisskattstjóri hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni með fullnægjandi hætti þar sem niðurstaða skattrannstjórnarstjóra hafi verið grundvöllurinn að niðurstöðu ríkisskattstjóra. Því hafi ekki verið brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Stefndi leggur áherslu á að í málum sem tekin hafa verið til rannsóknar af skattrannsóknarstjóra ríkisins, sbr. 6. mgr. nr. 90/2003, verði þungamiðjan óhjákvæmilega skýrsla skattrannsóknarstjóra um viðkomandi rannsókna enda sé markmið með skattrannsóknum meðal annars að leggja grunnað endurákvörðun opinberra gjalda, sbr. frumvarp sem varð að lögum nr. 11/1992 og 12. gr. reglugerðar 373/2001 um framkvæmd skatteftirlits og skattrannsókna. Ríkisskattstjóra ber eftir sem áður að rökstyðja með fullnægjandi hætti ákvarðanir sem hann tekur  á grundvelli skattrannsóknar bæði við boðun breytinga og í úrskurði. Í boðunarbréfi og úrskurði ríkisskattstjóra hafi verið fjallað ítarlega um rannsókn skattrannsóknarstjóra og færa fram þær forsendur sem ríkisskattstjóri taldi að byggja ætti breytingar á, sbr. 96. gr. laga nr. 90/2003. Málsmeðferð hafi því verið í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga.

        Í stefnu sé því haldið fram að í úrskurði ríkisskattstjóra sé meðal annars  sérstaklega tekið fram  að ekkert hefði komið fram við rannsóknina sem gæfi vísbendingu um að Topaz Holding Ltd. hefði verið að innheimta ráðgjafakostnað vegna þriðja aðila. Það sé rangt. Stefndi bendir á að í úrskurði ríkisskattstjóra komi skýrt fram að ríkisskattstjóri telji að reikningar þeir sem innheimir voru í nafni Topaz Holding Ltd.  hafi verið vegna vinnu stefnanda og Sigurðar. Í skýrslutökum af forsvarsmönnum greiðenda hafi sami skilningur komið fram. Í rannsókn skattrannsóknarstjóra hafi hins vegar ekkert komið fram, gegn staðhæfingum stefnanda og Sigurðar að aðrir aðila hafi innt af hendi þá vinnu sem innheimt var fyrir. Af hálfu stefnanda og Sigurðar hafi ársreikningar Topaz Holding Ltd. fyrir árin 2005 til og með 2008 verið lagðir fram. Um þá sé fjallað í bréfi ríkisskattstjóra 23. maí 2014, sbr. umfjöllun um málsatvik.

       Stefnandi staðhæfi að Topaz Holding Ltd. hafi aldrei greitt honum eitt eða neitt. Eins og rakið hafi verið hafi stefnandi og Sigurður hafi verið „beneficaiaries“ að þeim sjóðum, sem voru eigendur félagsins Alverglen Ltd., sem varð svo eigandi Topaz Holding Ltd. Stefnandi og Sigurður hafi því átt félagið Topaz Holding Ltd., sem innheimtu greiðslurnar og hafði ráðstöfunarétt yfir þessum fjármunum. Staðhæfingar um að þeim hafi ekkert verið greitt geti ekki verið réttar enda hafi þeir ákveðið hvert greiðslur félaganna fyrir vinnu þeirra skyldu renna. Á þessum tíma hafi þeir báðir borið fulla skattskyldu hér á landi, sbr. 1. gr. laga nr. 90/2003 og bar því að standa skil á skatti af endurgjaldi fyrir þá vinnu.

        Stefnandi haldi því fram að íslensk skattyfirvöld geti ekki með stoð í 57. gr. laga nr. 90/2003 breytt lögmætum viðskiptum milli félaga, ákveðið að ákveðinn hluti tekna Topaz Holding Ltd. skuli vera laun stefnanda og þar með tekið fram fyrir hendurnar á lögmætri stjórn félagsins.

        Stefndi bendir á að skattyfirvöldum sé almennt heimilt að leggja á það sjálfstætt mat hvort atvik hafi verið með þeim hætti að tiltekin lagaregla taki til þeirra og séu ekki bundin við mat skattaðila á sömu atvikum. Við þetta mat þurfi skattyfirvöld að sýna fram á að skattaðili hafi hagað einkaréttarlegum ráðstöfunum sínum þannig að komast mætti hjá lögmætri skattlagningu, til dæmis með málamyndagerningi, sem ekki væri ætlað að hafa gildi samkvæmt efni sínu, eða óvenjulegum samningi við annan skattaðila, gerðum með það fyrir augum að sniðganga tiltekna sköttunarreglu, sbr. 1. gr. 57. gr. laga nr. 90/2003.

       Rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins og síðar úrskurður ríkisskattstjóra varðaði stefnanda og tekjur hans en ekki rekstur Topaz Holding Ltd. nema að því leyti að reikningar vegna vinnu stefnanda voru gefnir út í nafni félagsins. Málið hafi ekki varðað tekjufærslur eða gjaldfærslur Topaz Holding Ltd. eða gjaldfærslur þeirra félaga sem greiddu reikningana. Meginatriði málsins sé að stefnandi var að inna af hendi vinnu hér á landi og bar því að gera grein fyrir endurgjaldi fyrir þá vinnu. Stefnandi hafi ekki, þrátt fyrir að hafa staðið að útgáfu reikninganna ásamt Sigurði, gert grein fyrir endurgjaldi fyrir þá vinnu á skattframtölum sínum, þar á meðal stjórnarformennsk og stjórnarsetu í umræddum félögum. Stefndi telur staðhæfingar í stefnu um íhlutun ríkisskattstjóra í málefni erlendra félaga fráleitar.

                Stefndi hafnar öllum málsástæðum og kröfum stefnanda á þeim reistum. Þá hafi stefnandi ekki sýnt fram á neitt sem leitt getil þess að úrskurður yfirskattnefndar 2. desember 2015 og úrskurður ríkisskattstjóra 31. janúar 2014 verði felldir úr gildi og því berði að sýkna stefnda af kröfum stefnanda. Þá mótmælir stefndi vaxtakröfu stefnda, einkum upphafstíma dráttarvaxta.

          Varðandi málskostnað vísar stefndi til XXI. kafla lag nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

V.

Niðurstaða

        Í máli þessu er deilt um það hvort skattyfirvöld hafi rannsakað mál stefnanda á viðhlítandi hátt áður en ákvarðanir voru teknar. Stefnandi byggir á því að skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi ekki aflað viðeigandi gagna um Topaz Holding Ltd. og skattskil félagsins gagnvart enskum skattyfirvöldum. Skattrannsóknarstjóri hafi gefið sér að tilteknar greiðslur samkvæmt reikningum útgefnum af Topaz Holding Ltd. til íslenskra félaga hafi verið greiðslur til stefnanda og Sigurðar Sigfússonar persónulega án þess að styðja þá niðurstöðu sína öðrum rökum en þeim að greiðslur félaganna hafi verið greiðslur fyrir vinnuframlag þeirra og þeir á þessum tíma báðir borið fulla skattskyldu hér á landi. Embætti ríkisskattstjóra hafi ekki hirt um að fá skýringar skráðra eigenda eða endurskoðanda Topaz Holding Ltd. á ársreikningum félagsins þegar búið var að afla þeirra og senda með beiðni stefnanda, dags. 27. febrúar 2014, um endurupptöku úrskurðar ríkisskattstjóra. Ríkisskattstjóri hafi þannig ekki nýtt sér lögbundna heimild í 2. mgr. 94. gr. laga nr 90/2003 til að ganga úr skugga um að embættið hefði fengið öll gögn sem skipt gætu máli við rannsókn málsins. Þá hafi ríkisskattstjóri einnig brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með því að taka íþyngjandi ákvörðun án þess að vinna sjálfstæða rannsókn á skattskilum stefnanda.

        Stefndi byggir á því að skattyfirvöld hafi gætt þeirrar hlutlægni sem boðin sé í lögum nr. 88/2008, um meðferð sakamála, og jafnframt að ekki hafi verið brotið gegn 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Af gögnum málsins megi ráða að nægilega greinargóðar upplýsingar hafi legið fyrir um Topaz Holding Ltd. á því tímabili sem rannsókn tók til. Þá hafi rannsókn skattrannsóknarstjóra og síðar úrskurður ríkisskattstjóra varðað stefnanda og tekjur hans en ekki rekstur Topaz Holding.

        Í samantekt í rannsóknarskýrslu skattrannsóknarstjóra kemur fram rökstuðningur skattrannsóknarstjóra fyrir þeirri ákvörðun sinni að umræddar greiðslur samkvæmt reikninum útgefnum af Topaz Holding Ltd. hafi í raun verið greiðslur til stefnanda og Sigurðar Sigfússonar persónulega. Þar segir: „Þrátt fyrir að þjónusta sú sem skattaðili og Sigurður Sigfússon veittu hafi verið innheimt í nafni Topaz Holding Ltd. telur skattrannsóknarstjóri að skattayfirvöld verði að leggja á það sjálfstætt mat hvort atvik hafi verið með þeim hætti að tiltekin lagaregla taki til þeirra. Í dóma- og úrskurðarframkvæmd í skattamálum hafi verið fallist á að skattyfirvöldum sé heimilt að framkvæmt slík mat og hafi þau þá ekki verið talin bundin við mat skattaðila á sömu atvikum. Hefur verið litið svo á að skattyfirvöld þurfi í vissum tilvikum við mat þetta að sýna fram á að skattaðili hafi hagað einkaréttarlegum ráðstöfunum sínum þannig að komast mætti hjá lögmætri skattlagningu, t.d. með málamyndagerningi sem ekki væri ætlað að hafa gildi samkvæmt efni sínu, eða með óvenjulegum samningi við annan skattaðila, gerðum með það fyrir augum að sniðganga tiltekna sköttunarreglu, sbr. 1.mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.“

        Það var síðan niðurstaða skattyfirvalda að greiðslur vegna umræddra reikninga væru greiðslur sem tilheyrðu stefnanda og Sigurði Sigfússyni persónulega en ekki Topaz Holding Ltd. Líta bæri á greiðslur íslensku félaganna til Topaz Holding Ltd. sem skattskyld laun stefnanda og Sigurðar Sigfússonar, sbr. 1. tölulið A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 og að líta ætti fram hjá aðkomu Topaz Holding Ltd. við innheimtu þeirra greiðslna.

        Dapo Ladimeji, löggiltur endurskoðandi, búsettur í London, Bretlandi, gaf vitnaskýrslu á ensku við aðalmeðferð málsins og löggiltur dómtúlkur túlkaði af ensku á íslensku og af íslensku á ensku. Vitnið kvaðst starfa í City of London og vinna að alþjóðlegum skattaskilum hjá eigin fyrirtæki,Ladimeji & Co.

         Vitnið kvaðst hafa starfað sem löggiltur endurskoðandi fyrir Topaz Holdindg Ltd., um væri að ræða breskt fyrirtæki sem hefði verið stofnað í samræmi við bresk lög. Spurður um reglur sem gilda um bókhald og reikningsskil fyrir Topaz Holding Ltd. í Bretlandi, svaraði hann því að árlega ætti að leggja ársreikninga fyrir stofnun sem heiti Company House, sem væri samsvarandi fyrirtækjaskrá á Íslandi. Jafnframt skuli skila skattframtölum ásamt fylgiskjölum. Lögð voru fyrir vitnið dómskj. nr. 13, 14, 15 og 16, ársreikningar Topaz Holding Ltd. fyrir árin  2005, 2006, 2007 og 2008. Vitnið kvaðst kannast við þessa ársreikninga. Hann kvaðst hafa staðfest þá með áritun sinni á framhlið hvers þeirra og hefði þeim verið skilað til Company House. Þá voru lögð fyrir vitnið dskj. nr. 17, 18, 19 og 20 og  hann spurður að því frá hverjum þau stöfuðu og hvað þau segðu í raun. Vitnið kvað þau koma beint frá skattyfirvöldum í Bretlandi, skattstofunni bresku. Í stöðu sinni sem löggiltur endurskoðandi hefði vitnið heimild til aðgengis að þessum gögnum og jafnframt heimild til að taka afrit. Á skjölunum komi fram greiddur skatttur, sem hafi verið 1.407 pund vegna árins 2005, sama gildi um allar tölu á skjölum nr. 18, 19 og 20, þ.e. að Topaz Holding Ltd. hafi greitt skatta í Bretlandi. Þá var lagt fyrir vitnið dskj. nr. 29 og nr. 30. Vitnið kannaðist við bæði þessi bréf. Vitnið kvað aðspurt það rétt sem fram komi í dómskjali nr. 29 að engin laun eða aðrar greiðslur hafi verið greiddar út úr Topaz Holding Ltd. til nokkurra aðila. Vitnið kvað það rétt sem fram komi á fylgiskjölum með dómskjali nr. 30. Þar séu sundurliðaðar tölur í efnahagsreikningi og hafi fylgiskjölin verið send breskum skattyfirvöldum. Þau tengist dómskjölum nr. 17, nr. 18, nr. 19 og nr. 20 og leiði til skattlagningar þar. Í bréfi á dómskjali nr. 22 komi fram að ársreikningar Topaz Holding Ltd. séu ekki endurskoðaðir. Aðspurður kvað vitnið það ekki lagaskyldu að endurskoða ársreikninga eins og hjá Topaz Holding á Bretlandi, ESB reglur gildi þar sem þýði að félög af þessari stærðargráðu séu ekki skyldug til að láta endurskoða ársreikninga sína. Spurður um það, sem fram kemur í bréfi ríkisskattstjóra, þ.e. að tekjur Topaz Holding Ltd. hafi verið 146.979 pund og stjórnunarkostnaður 139.980 pund, útskrifaðir tekjureikningar á hendur viðskiptavinum sem lagðir fram það ár, næmu 87.532 pundum þannig að tekjurnar gætu rúmast innan þeirrar reglu, hvers vegna nánari greining væri ekki gerð á þessu í ársreikningi svaraði vitnið að ensk lög gerðu ekki kröfu um nánari greiningu.

         Spurður um það sem fram kemur í bréfi ríkisskattstjóra á dskj. nr. 22, en þar segir að í ársreikningi fyrir árið 2006 sé ekki gerð grein fyrir breytingum á reikningsskilum eða framsetningu ársreiknings, gerði vitnið grein fyrir mismun á veltuframsetningu annars vegar fyrir árið 2005 og hins vegar ársreikninga á dskj. nr. 14, nr. 15 og nr. 16 og kvað að samkvæmt reikningsskilareglum í Bretlandi væri möguleiki á að jafna út ákveðinn kostnað. Það hafi ekki verið gert árið 2005 en þegar vitnið gerði ársreikning fyrir árið 2006 hafi vitnið talið sanngjarnara að jafn út þessar tölur. Báðar aðferðir væru í samræmi við reiknngsskilareglur í Bretlandi. Þessum ársreikningum hafi aðeins verið skilað til Company House, en gögn til skattyfirvalda hafi verið með öðrum hætti. Aðspurður kvaðst vitnið hafa fært bókhald fyrir Topaz Holding Ltd. og hafi bókhaldsgögn verið í sínum fórum. Þá kvað vitnið Topaz Holding Ltd. ekki hafa greitt móðurfélaginu Alverglen Ltd. neina fjármuni.       

        Litið hefur verið svo á að stjórnvöld geti ekki komist hjá því að rannsaka mál á viðhlítandi hátt með því að beita sönnunarreglum í stað rannsóknar. Í þeim tilvikum, sem staðreyndir máls eru ekki nægilega skýrar, er stjórnvöldum óheimilt að grípa til mats- eða sönnunarreglna fyrr en þau hafa árangurslaust reynt að rannsaka mál á tilhlýðilegan hátt. Rannsóknarreglan felur í sér að það stjórnvald sem ákvörðun tekur ber ábyrgð á því að mál hafi verið rannsakað nægilega áður en ákvörðunin var tekin. Þannig getur veruleg vanræksla á rannsókn máls leitt til þess að ákvörðun verði talin ógildanleg, sérstaklega þegar um íþyngjandi ákvarðanir er að ræða.

        Í bréfi ríkisskattstjóra, dags. 23. maí 2014, þar sem hann synjaði beiðni stefnanda um endurupptöku úrskurðar síns frá 27. febrúar sama ár, gerði ríkisskattstjóri margvíslegar athugasemdir við ljósrit ársreikninga Topaz Holding Ltd. fyrir rekstrarárin 2005, 2006, 2007 og 2008. Miðað við framburð löggilts endurskoðanda Topaz Holding Ltd., Dapo Ladimeji, sem gaf vitnaskýrslu við aðalmeðferð, verður að telja þrátt fyrir að af hálfu stefnda sé byggt á því að ekki hafi verið þörf á frekari upplýsingum um Topaz Holding Ltd. umfram það sem legið hafi fyrir í málinu, að brýnt og eðlilegt hafi verið að leitað væri eftir upplýsingum frá breskum skattyfirvöldum og endurskoðanda varðandi ráðstöfun umræddra greiðslna frá íslensku fyrirtækjunum. Þó að bókhald þess fyrirtækis hafi ekki verið til rannsóknar hafi ríkisskattstjóra borið að afla upplýsinga og skýringa um Topaz Holding Ltd. þar sem upplýsa þurfti hvað varð um þessar greiðslu.  Félagið er skráð, löglegt félag í Englandi og skilar samkvæmt framburði vitnisins ársreikningum í samræmi við enskan rétt og greiðir þá skatta sem því ber í heimalandi sínu. Þó að stefndi byggi á því að Topaz Holding Ltd. hafi ekki verið til rannsóknar verður að telja að skattyfirvöldum hafi borið að afla upplýsinga um það hvert umræddar greiðslur runnu þar sem um mjög íþyngjandi ákvarðanir var að ræða. Fram kemur í gögnum málsins að íslenskum skattyfirvöldum var ítrekað bent á að afla upplýsinga frá breskum skattyfirvöldum en tvísköttunarsamningur er í gildi milli landanna og því vart vandkvæðum bundið að afla upplýsinga frá þeim. Skattyfirvöld gáfu sér hins vegar að umræddar greiðslur hefðu runnið til stefnanda og Gunnars Arnar.

        Ríkiskattstjóri getur ekki komið sér undan þeirri skyldu að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en hann tekur ákvörðun með því einu að vísa til skýlausrar upplýsingaskyldu sem hvíli á stefnanda skv. 94. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003 eins og byggt er á af hálfu stefnda. Telja verður að áður en jafn íþyngjandi ákvörðun og hér um ræðir var tekin hjá skattayfirvöldum hafi þeim borið að afla upplýsinga frá endurskoðanda Topaz Holding Ltd. og breskum skattyfirvöldum en það var ekki gert. Þannig verður fallist á að  að skattyfirvöld hafi brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og hafi ekki séð til þess að mál væri nægilega upplýst áður en umþrættar ákvarðanir voru teknar. Ríkiskattstjóri gerði engan reka að því að afla upplýsinga frá skattyfirvöldum í Englandi sem hefði átt að vera auðvelt að afla og er úrskurður hans því ekki byggður á nægilega traustum grunni. Samkvæmt því sem rakið hefur verið ber að fallast á kröfu stefnanda um að fella úr gildi úrskurð ríkisskattstjóra, dags. 31. janúar 2014 með tilvísunarnúmerið 2012002151. Í kæru  stefnanda og eiginkonu 17. apríl 2014 hans til yfirskattanefndar á úrskurði ríkisskattstjóra um endurákvörðun opinberra gjalda gjaldaárin 2006-2009 kom fram að bæði kærandi og Sigurður Sigfússon hafi hvatt starfsmenn skattrannsóknarstjóra og ríkisskattstjória til að afla gagna frá Topaz Holding Ltd. en hvorugir hirt um það. Þrátt fyrir þetta horfði yfirskattanefnd fram hjá  ágöllum á rannsókn málsins og hafnaði því að fella úrskurð ríkisskattstjóra um skattbreytingar stefnanda og eiginkonu hans úr gildi. Þar sem yfirskattanefnd byggði niðurstöðu sína á ófullnægjandi rannsókn skattrannsóknarstjóra og ríkisskattstjóra leiðir af framangreindri niðurstöðu um að fella úr gildi úrskurð ríkisskattstjóra frá 31. janúar 2014 að fella ber einnig úr gildi úrskurð yfirskattanefndar í kærumálinu nr. 321/2015.

        Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta, skal þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. greiða dráttarvexir skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim tíma er gjaldandi sannanlega lagði fram kröfu um endurgreiðslu ofgreiddra skatta, en þann 16. desember 2015 greiddi stefnandi endurákvörðuð opinber gjöld, samtals 18.310.753 kr., með fyrirvara um endurheimtu. Með vísan til þessa ber að dæma stefnda til að endurgreiða stefnanda 18.310.753 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 2. gr. laga nr. 29/1995, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. desember 2015 til greiðsludags. Að fenginni þessari niðurstöðu, sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, ber að dæma stefnda a,  til að greiða stefnanda málskostnað eins og nánar er kveðið á um í dómsorði.

        Vegna embættisanna dómara hefur uppkvaðning dóms dregist umfram frest skv. 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Dómari og aðilar eru sammála um að ekki sé þörf á endurflutningi málsins.

         Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

        Felldur er úr gildi úrskurður yfirskattanefndar í kærumáli nr. 321/2015 og úrskurður ríkisskattstjóra, dagsettur 31. janúar 2014, með tilvísunarnúmerið 20121002146, sem báðir kveða á um endurákvörðun opinberra gjalda, stefnanda Gunnars Arnar Kristjánssonar, gjaldárin 2006, 2007, 2008 og 2009.

        Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda 18.310.753 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 16. desember 2015 til greiðsludags.

        Stefndi greiði stefnanda 700.000 kr. í málskostnað.