Print

Mál nr. 553/2016

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari)
gegn
X (Brynjólfur Eyvindsson hdl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Nálgunarbann
Reifun

Staðfest var ákvörðun lögreglustjóra um að X skyldi sæta nálgunarbanni á grundvelli laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. júlí 2016 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. ágúst sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júlí 2016 þar sem felld var úr gildi ákvörðun sóknaraðila um að varnaraðili skyldi sæta nálgunarbanni. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Sóknaraðili krefst þess að staðfest verði ákvörðun hans frá 11. mars 2016 um að varnaraðila verði gert að sæta nálgunarbanni í sex mánuði þannig að lagt sé bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A og B, [...] í [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið, mælt frá miðju hússins. Jafnframt að lagt sé bann við því að varnaraðili veiti A og B eftirför, nálgist þau á almannafæri eða setji sig í samband við þau með öðrum hætti.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Fram kemur í gögnum málsins að varnaraðili hefur allt frá árinu 2010 verið undir grun um að beita barnsmóður sína, A, áreiti, hótunum og ofbeldi og eru í málaskrá lögreglu skráð 11 tilvik frá árunum 2010 til 2013 þar sem brotaþoli tilkynnti slíka háttsemi af hálfu varnaraðila. Varnaraðila var vísað úr landi og sætti endurkomubanni á tímabilinu frá 1. mars 2013 til 1. mars 2015. Þann 7. júní 2015 tilkynnti brotaþoli að varnaraðili væri staddur á heimili hennar og viðhefði hótanir. Í kjölfar þess var varnaraðila gert að sæta nálgunarbanni gagnvart brotaþola en það var fellt úr gildi 12. júní sama ár að því er virðist á þeim forsendum að aðilar hefðu verið í samskiptum eftir að bannið var lagt á. Þann 15. desember 2015 óskaði brotaþoli eftir aðstoð lögreglu þar sem varnaraðili væri á heimili hennar og hefði í frammi hótanir, meðal annars um líflát. Þessum ásökunum neitaði varnaraðili við skýrslugjöf hjá lögreglu. Tíu dögum síðar eða 25. desember 2015 tilkynnti brotaþoli til lögreglu að varnaraðili hefði komið á heimili sitt og beitt sig líkamlegu ofbeldi. Við skýrslutöku neitaði varnaraðili slíkum ásökunum en í skýrslu lögreglu kemur fram að brotaþoli hafi verið með ákomur á andliti „sýnilegar bólgur í kringum vinstra augað.“ Ennfremur liggur fyrir að 13. janúar 2016 gerði velferðarsvið [...] kröfu um nálgunarbann en sóknaraðili tók hins vegar ekki ákvörðun í málinu fyrr en 9. febrúar sama ár og hafnaði þá kröfunni. Ríkissaksóknari felldi þá ákvörðun úr gildi 10. mars 2016 og lagði sóknaraðili þá nálgunarbann á varnaraðila 11. sama mánaðar.  Er krafist staðfestingar á þeirri ákvörðun í þessu máli. Ákvörðunin var þó ekki birt varnaraðila fyrr en 20. júlí 2016 og miðast réttaráhrif hennar því við þann dag, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 85/2011. Um ástæður þess að ekki reyndist unnt að birta varnaraðila ákvörðunina fyrr verður það helst ráðið að þann 9. febrúar 2016 hafi verið ráðgert að varnaraðili hæfi afplánun 5 mánaða fangelsisrefsingar. Til þess kom þó ekki og virðist varnaraðili ekki hafa fundist næstu mánuði. Hann var loks handtekinn 19. júlí 2016.

Við úrlausn dómstóla um lögmæti ákvörðunar lögreglustjóra um nálgunarbann samkvæmt 7. gr. laga nr. 85/2011 ber fyrst og fremst að líta til málavaxta eins og þeir horfðu við þegar ákvörðunin var tekin. Eins og atvikum máls þessa er háttað hefur ekki verið sýnt fram á af hálfu varnaraðila að neitt það hafi gerst sem breytt geti grundvelli ákvörðun sóknaraðila 11. mars 2016 eftir að hún var tekin. Hefur það ekki þýðingu í þessu sambandi að ekki reyndist unnt að birta varnaraðila ákvörðunina fyrr en rúmum fjórum mánuðum síðar.

Beiðni var sett fram um nálgunarbann 13. janúar 2016 í kjölfar tveggja fyrrnefndra atvika í desember 2015 en fyrri samskipti varnaraðila við brotaþola eru að nokkru rakin hér að framan sem og í hinum kærða úrskurði. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/2011 er heimilt að líta til þess við mat á því hvort nálgunarbanni skuli beita hvort háttsemi sakbornings á fyrri stigum hafi verið þannig að hætta sé talin á að hann muni hafa í frammi háttsemi sem lýst er í 4. gr. laganna. Þegar allt þetta er virt er nægjanlega leitt í ljós að skilyrði a. og b. liða 4. gr. laga nr. 85/2011 séu uppfyllt. Verður að telja að friðhelgi brotaþola og barnsins verði ekki vernduð með öðrum og vægari úrræðum en nálgunarbanni. Samkvæmt þessu verður krafa sóknaraðila tekin til greina.

Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.

Dómsorð:

Staðfest er ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 11. mars 2016 um að varnaraðila, X, verði gert að sæta nálgunarbanni í sex mánuði þannig að lagt sé bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A og B, [...] í [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið, mælt frá miðju hússins. Jafnframt er lagt bann við því að varnaraðili veiti A og B eftirför, nálgist þau á almannafæri eða setji sig í samband við þau með öðrum hætti.

Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 196.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.                

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. júlí 2016.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti ákvörðun lögreglustjóra frá 11. mars 2016 þess efnis að X skuli sæta nálgunarbanni í 6 mánuði þannig að lagt sé bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A og B, [...],[...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið, mælt frá miðju hússins. Jafnframt að lagt verði bann við því að X veiti A og B eftirför, nálgist þau á almannafæri eða setji sig í samband við þau með öðrum hætti.

          Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að forsaga málsins sé sú að X og A hafi byrjað samband sitt árið 2010. Þau hafi eignast B son sinn árið 20[...]. Samkvæmt úrskurði sýslumanns sé A með fullt forræði yfir B og X njóti ekki umgengnisréttar við hann. X hafi verið vísað á brott frá Íslandi 1. mars 2013 og hlotið endurkomubann til 1. mars 2015. Fyrir liggi rökstuddur grunur að X hafi beitt A ofbeldi og ógnunum meðan á sambandi þeirra hafi staðið og eftir að hún hafi reynt að enda það.

          Í greinargerðinni segir:

„Mál 007-2016-34119.

Tilkynning barst þann 14. júní sl. um ágreining á milli foreldra barns á leikskólanum [...]. X var mættur í skólann og vildi taka barnið en A kvaðst vera með fullt forræði yfir barninu og einnig væri í gildi nálgunarbann þannig að X mætti ekki koma nálægt sér né barninu. Skv. Máli 007-2015-71147 var ákvörðun tekin um nálgunarbann X gagnvart A og barninu, dagsett 11. mars í 6 mánuði. Ekki reyndist unnt að birta X þessa ákvörðun þar sem hann fannst ekki. X mætti til skýrslutöku þann 20. júlí sl.“

          Lögreglan hafi haft til rannsóknar kærur A vegna meintra hótunar- og ofbeldisbrota X en rannsókn þessara mála hefur verið hætt:

„Mál 007-2015-69649.

Þann 15. desember 2015 óskaði A eftir aðstoð lögreglu þar sem X hafði gert sig heimakominn í íbúð hennar og hún yfirgefið íbúðina í kjölfarið af ótta við hann. Hún segir X hafa hótað að drepa hana ef hún hefði samband við lögreglu.  Í skýrslu lögreglu kemur fram að lögreglumaður hafi hringt í X en hann neitað að tala við lögreglu og skellt á. Í skýrslu hjá lögreglu þann 20. janúar 2016 kvað X ekki rétt að hann hafi þröngvað sér inn á heimili A og verið með hótanir í hennar garð. Hann kvaðst hafa verið þarna með hennar leyfi og þau meðal annars borðað saman. Hann kvað hana oft fá brjálæðiskast og hafi hringt. X kvaðst ekki muna hvers vegna hún hringdi í lögregluna í þetta skipti. X kvaðst á þessum tíma hafa búið á heimilinu. Hann væri fluttur út núna og væri búinn að skila henni lyklinum að íbúðinni. X kvaðst ekki hafa haft í neinum hótunum við hana og sagði að þetta væri allt ímyndun í henni. Hann kvaðst ekki hafa meitt hana þarna og hafi aldrei gert. X sagði að A hafi einu sinni verið með nálgunarbann á hann í hálft ár en þau hafi hist samt nær daglega til þess að borða saman og vera með strákinn. X sagði að þetta væri allt skáldskapur í henni þegar hún hringi í lögregluna.

Mál 007-2015-71147.

Þann 25. desember 2015 barst lögreglu beiðni um aðstoð frá A, [...], þar sem X hafi slegið hana í viðurvist B sonar þeirra. A sagði að fyrrverandi sambýlismaður hennar X væri enn að hrella hana. Honum hafi verið vísað úr landi brott fyrir 3 – 4 árum og hafi þau slitið samvistum í kjölfarið. Hann hafi svo komið aftur eftir að endurkomubanni lauk og viljað halda áfram frá fyrra horfi en hún ekki viljað það en hann sé ekki að meðtaka það eða vilji ekki meðtaka það. Nokkur nýleg dæmi um það hafi ratað inn á borð lögreglu. A kvaðst hafa verið að ryksuga herbergi sonar þeirra þegar dyrabjöllunni hafi verið hringt og sonur hennar farið og opnað dyrnar en X þá komið askvaðandi inn. Þegar hún hafi séð hann hafi hún öskrað strax á hjálp en hann þá rokið að henni og slegið hana með krepptum hnefa í andlitið, nærri hægra auga. Í kjölfarið hafi hann tekið um háls hennar og þrengt að en hann hafi hætt þessu þegar sonur þeirra fór að hágráta. X hafi svo yfirgefið heimilið með son þeirra X, og kvatt með orðunum „Fuck you bitch, call me tomorrow“. Í skýrslu [...], rslm, kemur fram að A hafi verið með sýnilega bólgur í kringum vinstra augað. Þegar lögregla var á vettvangi hringdi X í A og kom í framhaldinu með drenginn. X var handtekinn og færður á lögreglustöð. X neitaði sök. Í skýrslutöku þann 25. desember 2015 sagði hann að hún hafi ekki boðið honum inn. X kvað A hafa klætt strákinn og hann fengið leyfi til að fara með drenginn í burtu.“

          Í greinargerð lögreglustjóra segir að beiðni hafi borist frá Félagsþjónustunni í [...] þann 13. janúar 2016 um nálgunarbann. Í gögnum frá barnaverndarnefnd [...] komi fram að drengurinn hafi tjáð starfsmönnum á leikskóla hans í janúar sl. að „mamma gráta, pabbi búmm, búmm“ og kýlt með annarri hendi út í loftið og hafi A tjáð starfsmönnum að B hafi orðið vitni af ofbeldi gegn henni af hálfu föður hans. Þá komi fram að skólinn hafi miklar áhyggjur af stöðu drengsins og leggi áherslu á mikilvægi þess að B, sem hafi meðal annars verið greindur á einhverfurófi og með þroskaröskun, búi í traustu og öruggu umhverfi. Að mati velferðarsviðs búi A og B í stöðugum ótta vegna ofbeldis af hálfu X og óttast sé um öryggi þeirra. Þá komi fram í bréfi frá Velferðarsviði [...] að tilkynningar hafi borist til barnaverndar um ofbeldi árið 2011. Faðir væri að beita móður líkamlegu ofbeldi á meðgöngunni en þau væru hætt saman en hann væri að ráðast á hana og tæki af henni símann svo hún gæti ekki hringt á aðstoð. Hún hafi þurft að kaupa síma fjórum sinnum. Hún hafi orðið svo hrædd við hann að hún hafi beðið um aðstoð við að komast í Kvennaathvarfið og hafi hjúkrunarfræðingur fylgt henni þangað. Þá komi fram að 8. september 2011 hafi A leitað til starfsmanna barnaverndar. Í viðtali hafi komið fram að hún væri mjög hrædd við barnsföður sinn sem hafi áreitt hana mikið að undanförnu. Hann hafi lamið hana og verið með hótanir við hana. Hann vilji vera með henni og sætti sig ekki við að hún hafi slitið sambandi þeirra. Hún eigi í erfiðleikum með að halda honum fyrir utan íbúðina og gefist upp vegna láta í honum. Hann hafi brotið upp hurðina til að komast inn. Í október 2011 hafi A sagt að hún væri mjög hrædd við barnsföður sinn sem hefði áreitt hana mikið að undanförnu. Hann lemdi hana og væri með hótanir. Í nóvember 2011 hafi A hringt í uppnámi í lögregluna og sagði að unnusti hennar væri að berja hana. Heyra hafi mátt læti og öskur í konunni. Símtalið hafi slitnað og hafi verið hringt til baka. Hafi A þá sagt að maðurinn væri farinn. Þarna hefði X komið og byrjað að berja hurðina að utan og skipað henni að opna sem hún hafi og gert. Hann hafi ekki lagt hendur á hana í það sinn en þegar hún hafi farið inn á baðherbergi til að hringja í lögregluna hafi X brotið upp hurðina inn á bað og síðan yfirgefið íbúðina. Fram hafi komið að þau X væru ekki par en hann kæmi daglega að heimsækja hana og son sinn. Þá eigi þau saman bíl sem hann komi til að fá afnot af.

          Þá segir í greinargerð lögreglustjóra að sjá megi í bréfi Velferðarsviðs [...] fleiri tilkynningar á árunum 2012 til 2015. Þar sem fyrir hafi legið að X skyldi þann 9. febrúar 2016 fara í afplánun 5 mánaða fangelsisrefsingar vegna refsidóms sem hann hafi hlotið árið 2013 hafi beiðni um nálgunarbann verið hafnað. Eftir kæru til ríkissaksóknara hafi ákvörðun lögreglustjórans verið felld úr gildi. Ákvörðun hafi verið tekin um nálgunarbann (11. mars sl.) en ekki reynst unnt að hafa uppi á X. Sjá megi í dagbók lögreglu að lögregla hafi reynt að finna X til þess að taka af honum skýrslu en án árangurs. Þá komi fram í dagbók lögreglu að hann hafi reynt að ná drengnum af leikskólanum á [...] þann 14. júní sl. (framangreint mál nr. 007-2016-34119).

          Í skýrslutöku þann 20. júlí sl. hafi X sagt að hann skildi þetta ekki. A væri klikkuð og væri alltaf að hringja í lögregluna. X segist ekki hafa lamið hana og segi það ekki vera satt. X hafi verið spurður út í fjölmörg mál frá árinu 2010 til 2013 þar sem sem A hafi óskað eftir lögregluaðstoð vegna hans. X kveði hana klikkaða. Hún sæi hann kannski drekka 2-3 bjóra og hringi þá í lögregluna. X hafi í skýrslutöku þann 20. júlí sl. einnig sagt að þau A hafi búið saman fyrir um 6 mánuðum síðan. X hafi verið kynnt ákvörðun um nálgunarbann, hann hafi neitað að undirrita ákvörðunina og sagt að hann hitti son sinn á hverjum degi og að hann svæfi hjá A. Í skýrslunni kemur fram að X upplýsi að A og barnið séu nú í [...] en komi aftur eftir tvær vikur.

          Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að í dagbók lögreglu sé að finna eftirtalin mál þar sem A hafi tilkynnt um áreiti, ógnanir og ofbeldi af hálfu X:

„007-2010-42749: Ágreiningur.  X ræðst á A.

007-2010-59249: Ágreiningur. A óskar eftir aðstoð. 

007-2011-15789: Ágreiningur.  A  óskar eftir aðstoð

007-2011-35534: Tilkynning.  A óskar eftir aðstoð, segir X vera búinn að brjóta sér leið inn til hennar

007-2011-67363: Ofbeldi.  A óskar eftir aðstoð, segir X vera að berja sig.

007-2012-2459: Ágreiningur.  A óskar eftir aðstoð við að vísa X út.

007-2012-14637: Frelsissvipting, húsbrot. Vegfarandi hringir og segir tvo menn vera að veitast að konu fyrir utan félagsþjónustuna í [...].  Hún komst inn í húsið og þeir fóru í burtu í kjölfarið

007-2012-65316: Ágreiningur. A óskar eftir aðstoð, X ræðst á hana við [...] í [...].

007-2013-4236: Tilkynning. A óskar eftir aðstoð, hrædd við X sem er kominn inn á stigagang.

007-2013-7394: Líkamsárás. A óskar eftir aðstoð, X að lemja hana.

007-2013-9051: Ágreiningur. A óskar eftir aðstoð í gegnum 3ja aðila vegna heimiliserja.

007-2015-69649. Tilkynning. A tilkynnir að X hafi komið inn á heimili hennar og neiti að fara út. Fram kemur í dagbók lögreglu kemur fram að hann þröngvi sér alltaf inn í íbúðina hennar í [...] þar sem hún býr ásamt B syni þeirra. Hann bíði á stigaganginum þangað til hún kemur heim úr vinnu og þröngvi sér inn í íbúðina. Hún biðji hann um að láta sig í friði en hann hætti ekki að angra hana. Í gær hafi hann haldið uppteknum hætti og beðið eftir henni og neitað að fara.  Hann hafi hótað henni því að drepa hana ef hún myndi hringja í lögregluna.  Hún hafi yfirgefið íbúðina ásamt B. X hafi orðið eftir í íbúðinni. Í dag hafi hún ákveðið að hringja í lögregluna og komast aftur í íbúðina. Þegar lögregla kom á vettvang var íbúðin mannlaus.

007-2015-32682. Tilkynning. A óskar eftir aðstoð lögreglu þar sem X neitaði að yfirgefa íbúðina og hótaði að drepa A að hennar sögn. X var handtekinn. Hann kvaðst búa á heimili A og að þau væru par. Kvaðst hafa verið ölvaður og þegar það gerist vilji hann alltaf út af heimilinu. Kvaðst ekki hafa beitt hana ofbeldi og ekki hótað henni. X kvaðst eftir skýrslutökuna þann 7. júní 2015 ætla að sækja föt sín og síðan að finna sér nýtt húsnæði. Lögregla fylgdi A heim til sín þann 8. júní til að sækja fatnað og fleira. Þá var X að fela sig á stigaganginum á hæðinni fyrir ofan íbúð hennar. Honum var vísað út.

          Þann 9. júní 2015 undirritaði X ákvörðun um nálgunarbann. Ákvörðunin var síðan felld úr gildi þann 12. júní 2015 en í ljós hafði komið að þau væru að hittast.“

          Í greinargerð lögreglustjóra segir að þau gögn sem lögregla hafi undir höndum beri með sér að A stafi mikil ógn af X og ljóst sé að hún hafi sætt ofbeldi og ógnunum af hendi hans. Þá hafi X valdið henni og syni þeirra B miklu ónæði og vanlíðan með háttsemi sinni.

          Í ljósi ofangreinds telji lögreglustjóri að skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 séu uppfyllt en X liggi undir rökstuddum grun um að hafa beitt A hótunum og líkamlegu ofbeldi sem talið sé varða við 233. gr. og 217. gr. almennra hegningarlaga. Auk þess telji lögregla að sjónarmið um réttindi barns sbr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003 eigi við í þessu tilviki. Þegar litið sé til fyrri sögu þeirra sé talin hætta á að X muni beita A ofbeldi og valda henni og B ónæði sé hann látinn afskiptalaus. Ekki sé talið sennilegt að friðhelgi A og B verði verndað með öðrum og vægari hætti eins og sakir standa. Með vísan til framangreinds og framlagðra gagna sé ítrekað að krafan nái fram að ganga.

          Niðurstaða

          Samkvæmt 4. gr. laga nr. 85/2011 er heimilt að beita nálgunarbanni ef rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola eða hætta sé á að viðkomandi brjóti gegn brotaþola samkvæmt framansögðu. Samkvæmt 6. gr. laganna verður nálgunarbanni aðeins beitt þegar ekki þykir sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti og skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til. Ákvæðunum er beitt með hliðsjón af lögskýringargögnum og dómvenju, sbr. dóma Hæstaréttar t.d. í málum nr. 793/2014, nr. 62/2015 og nr. 194/2016. Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 85/2011 kemur m.a. fram að við mat á því hvort hætta verði talin á því að maður muni fremja refsivert brot eða á annan hátt raska friði brotaþola verði að líta til fyrri háttsemi þess manns sem krafan beinist gegn og samskipta hans við þann sem vernda á með banninu. Þannig komi til álita fyrri afbrot, hótanir, ögranir og önnur samskipti sem veitt geta rökstudda vísbendingu um það sem kann að vera í vændum. 

          Svo sem greinir í greinargerð lögreglustjóra og fram kemur í gögnum málsins hefur rökstuddur grunur verið um að varnaraðili hafi beitt barnsmóður sína hótunum og líkamlegu ofbeldi frá árinu 2010 og valdið henni og syni þeirra miklu ónæði og vanlíðan og dvöldu þau í Kvennaathvarfinu um tíma. Hlé varð á meðan varnaraðili sætti endurkomubanni eftir brottvísun um tveggja ára skeið, frá 1. mars 2013 til 1. mars 2015. Að beiðni A var nálgunarbann lagt á varnaraðila í júní 2015, en það var afturkallað af lögreglustjóra áður til þess kæmi að það yrði staðfest fyrir dómi og var tilgreind ástæða lögreglustjóra sú að upplýsingar hefðu komið fram um að A hefði verið í samskiptum við varnaraðila eftir að nálgunarbannið var lagt á.

          Í kjölfar tveggja atvika í desember 2015 óskaði barnavernd [...] eftir því með bréfi 13. janúar sl. að varnaraðili yrði látinn sæta nálgunarbanni gagnvart A og barninu. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2011 ber lögreglustjóra að taka ákvörðun um nálgunarbann eigi síðar en sólarhring eftir að beiðni um það berst. Lögreglustjóri fór ekki að þessum lagafyrirmælum og tók upphaflega ákvörðun um synjun beiðninnar 9. febrúar sl. Ríkissaksóknari felldi þá ákvörðun úr gildi 10. mars sl. og lagði lögreglustjóri í kjölfarið á nálgunarbann það sem nú er krafist staðfestingar á, þann 11. mars sl. Ákvörðunin var þó ekki kynnt varnaraðila fyrr en þann 20. júlí sl. og tók því ekki gildi fyrr en þann dag, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 85/2011.

          Við meðferð málsins fyrir dóminum og að tilmælum dómara um að nýlegar upplýsingar yrðu veittar áður en ákvörðun yrði tekin í málinu aflaði lögreglustjóri umsagnar frá barnavernd [...], dags. 26. júlí sl. Í bréfinu er vísað til beiðni barnaverndar frá 13. janúar sl. og kæru hennar til Ríkissaksóknara frá 25. febrúar sl. og segir þar að ítrekaðar séu alvarlegar áhyggjur af þeirri ógn sem A og barninu standi af varnaraðila. Í bréfinu segir að ekkert hafi breyst varðandi ógnandi framkomu varnaraðila og að viðvarandi hræðsla við gjörðir hans umljúki líf mæðginanna. Staða málsins sé með öllu óbreytt og sé afar alvarleg, en ekki eru tíunduð nein ný atvik eða upplýsingar því til stuðnings. Einu upplýsingarnar um aðkomu barnaverndar á þessu ári sem veittar eru í bréfinu eru þær að varnaraðili hafi farið að leikskóla barnsins til að sækja barnið í leyfisleysi þann 14. júní sl., en frá því atviki, sem tilkynnt var lögreglu af leikskólakennara, er greint í framangreindri greinargerð lögreglustjóra. Fram kemur í dagbók lögreglu um það atvik að A hafi upplýst um að hún færi ein með forsjá barnsins og einnig að í gildi væri nálgunarbann, sem reyndist við nánari athugun lögreglu ekki hafa tekið gildi. Varnaraðili var farinn af vettvangi þegar lögregla kom að leikskólanum, en framburðarskýrsla hans um atvikið er frá 21. júlí sl. Þá kemur fram í dagbókarfærslu lögreglu að reynt hafi verið að ná símasambandi við A 23. júní sl., í þeim tilgangi að fá hana til skýrslutöku vegna málsins, en hún hafi ekki svarað í síma og liggur framburður hennar um atvik þessi ekki fyrir.

          Engar upplýsingar liggja fyrir um að varnaraðili hafi brotið gegn A eða barninu frá því í desember 2015, en varnaraðili viðurkennir ekki þau brot. Nokkur tími er því liðinn frá því að þau atvik sem lágu til grundvallar nálgunarbanninu áttu sér stað. Er ekkert í gögnum málsins sem bendir til að varnaraðili hafi eftir það tímamark beitt A líkamlegu ofbeldi eða hótað því og hefur rannsókn málanna verið hætt. Verða umrædd atvik ekki tilefni til að beita nálgunarbanni nú, sjö mánuðum síðar. Í ljósi sögu aðila er ekki girt fyrir að hætta kunni að vera á því að varnaraðili muni brjóta gegn A með þeim hætti, en til þess er einnig að líta að hann hefur staðfastlega neitað þeim sökum og kveðst nú vera í góðu og reglulegu sambandi við hana og barnið. Ekki er að sjá að sá framburður hafi verið borinn undir A eða að  fyrir liggi í gögnum málsins hver afstaða hennar er til nálgunarbannsins, sem lagt var á samkvæmt beiðni barnaverndar [...], eða til staðfestingar þess nú. Hvorki hún né barnið munu nú vera stödd hér á landi. Skipaður réttargæslumaður A hefur ekki náð í hana og er honum ókunnugt um afstöðu hennar.

          Að mati dómsins hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á að skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 séu uppfyllt á þann hátt að hætta sé á því nú að varnaraðili brjóti gegn A eða barninu eða raski friði þeirra með öðrum hætti og verður samkvæmt 6. gr. laganna ekki farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til. Eins og á máli þessu hefur verið haldið af hálfu lögreglustjóra og vegna þeirra takmörkuðu upplýsinga sem er að hafa um samskipti varnaraðila og þeirra aðila sem nálgunarbanninu er ætlað að vernda að undan­förnu þykja forsendur ekki vera fyrir hendi til að staðfesta nú þá ákvörðun sem tekin var 11. mars sl. á grundvelli atvika sem áttu sér stað í desember 2015 og voru tilefni til beiðni um nálgunarbann í janúar 2016.

Með hliðsjón af framangreindu þykir ekki fullnægt skilyrðum 4. gr. laga nr. 85/2011 til að staðfest verði ákvörðun lögreglustjóra frá 11. mars sl. um að varnaraðili sæti nálgunarbanni og verður hún því felld úr gildi.

Þóknun Brynjólfs Eyvindssonar hdl. skipaðs verjanda varnaraðila sem ákveðin er 200.000 krónur greiðist úr ríkissjóði. Einnig greiðist úr ríkissjóði sam­kvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011, þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Sigurðar F. Sigurðssonar hdl., sem ákveðin er 150.000 krónur. 

Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Felld er úr gildi ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 11. mars 2016, sem birt var 20. júlí 2016, þess efnis að varnaraðili, X, sæti nálgunarbanni í 6 mánuði samkvæmt 4. gr. laga nr. 85/2011.

          Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 200.000 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Sigurðar F Sigurðssonar hdl., 150.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.