Print

Mál nr. 43/2019

Isavia ohf. (Hlynur Halldórsson lögmaður)
gegn
ALC A321 7237 LLC (Eva B. Helgadóttir lögmaður)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Aðfarargerð
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Kröfugerð
  • Frávísunarúrskurður staðfestur
Reifun

ALC krafðist þess að sér yrði heimilað að fá loftfar tekið með beinni aðfarargerð úr vörslum I ohf. og afhent sér. Með úrskurði héraðsdóms var krafa ALC tekin til greina og kveðið á um að málskot frestaði ekki aðfarargerðinni. Í úrskurði Landsréttar, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, kom fram að ALC hefði þegar fengið umráð loftfarsins. Var því talið að I ohf. hefði ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá hnekkt niðurstöðu héraðsdóms og málinu því vísað frá Landsrétti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason, Greta Baldursdóttir, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. september 2019, en kærumálsgögn bárust réttinum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 29. ágúst 2019 þar sem máli varnaraðila á hendur sóknaraðila var vísað frá Landsrétti. Kæruheimild er í 5. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. a. lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður „verði felldur úr gildi og breytt á þann veg“ aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hafnað verði kröfu varnaraðila um að honum verði heimilað að fá loftfar af gerðinni Airbus A321-211, með skráningarnúmerið TF-GPA, tekið með beinni aðfarargerð úr vörslum sóknaraðila og afhent sér. Að því frágengnu krefst hann þess að viðurkennt verði „að skilyrði hafi skort fyrir fullnustu þeirra réttinda sem varnaraðili krafðist á grundvelli hins kærða úrskurðar með aðfarargerð sýslumannsins á Suðurnesjum þann 18. júlí 2019.“ Þá krefst sóknaraðili þess að viðurkennt verði „að skilyrði hafi skort til að hafna kröfu sóknaraðila um að málskot til Landsréttar og eftir atvikum Hæstaréttar frestaði réttaráhrifum aðfarargerðarinnar.“ Loks krefst hann málskostnaðar á öllum dómstigum.

Varnaraðili kærði úrskurð Landsréttar fyrir sitt leyti 11. september 2019. Hann krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og málskostnaðar á öllum dómstigum.

Eins og áður greinir er kæruheimild í a. lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt ákvæðinu, svo sem því var breytt með 9. gr. laga nr. 76/2019, sæta dómsathafnir Landsréttar um frávísun frá réttinum kæru til Hæstaréttar. Í slíku máli verður aðeins höfð uppi krafa um að hin kærða dómsathöfn verði felld úr gildi í því skyni að málið verði tekið til efnismeðferðar fyrir Landsrétti. Af þeim sökum koma ekki til álita hér fyrir dómi þær kröfur sem sóknaraðili tefldi fram fyrir Landsrétti og vísað var þar frá dómi.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest sú niðurstaða hans að vísa kröfum sóknaraðila frá dómi. Jafnframt verður staðfest sú niðurstaða úrskurðarins að fella niður málskostnað í héraði og kærumálskostnað fyrir Landsrétti.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Isavia ohf., greiði varnaraðila, ALC A321 7237 LLC, 500.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Landsréttar 29. ágúst 2019.

Landsréttardómararnir Kristbjörg Stephensen, Oddný Mjöll Arnardóttir og Sigurður Tómas Magnússon kveða upp úrskurð í máli þessu.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

1. Sóknaraðili skaut málinu til Landsréttar með kæru 17. júlí 2019 sem barst réttinum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 17. júlí 2019 í málinu nr. A-816/2019 þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að honum yrði heimilað að fá farþegaþotu af gerðinni Airbus A321-211, með skráningarnúmerið TF-GPA, tekna úr umráðum sóknaraðila með beinni aðfarargerð og varnaraðila úrskurðaður málskostnaður úr hendi sóknaraðila. Þá var í úrskurðinum kveðið á um að málskot til Landsréttar frestaði ekki aðfarargerðinni. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.

2. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og honum breytt á þann veg að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að beiðni varnaraðila verði hafnað en að því frágengnu að viðurkennt verði að skilyrði hafi skort fyrir fullnustu þeirra réttinda sem varnaraðili krafðist, á grundvelli hins kærða úrskurðar, með aðfarargerð sýslumannsins á Suðurnesjum 18. júlí 2019. Jafnframt krefst sóknaraðili þess að kæra fresti réttaráhrifum þar til úrskurður gengur fyrir Landsrétti og eftir atvikum dómur í Hæstarétti. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila í héraði og fyrir Landsrétti.

3. Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Landsrétti en til vara krefst hann staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila fyrir Landsrétti.

Niðurstaða

4. Forsaga málsins er sú að 28. mars 2019 beitti sóknaraðili heimild í 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998 um loftferðir til að aftra för loftfarsins Airbus A321-211, með skráningarnúmerið TF-GPA, frá Keflavíkurflugvelli þar til greidd hefðu verið ógreidd gjöld eða trygging sett fyrir greiðslu ógreiddra gjalda sem WOW air hf. hafði stofnað til við sóknaraðila í starfsemi sinni. Loftfarið er í eigu varnaraðila. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 2. maí 2019 var beiðni varnaraðila um innsetningu í loftfarið hafnað. Í forsendum úrskurðarins kom fram sú lögskýring að einungis væri unnt að aftra för loftfarsins á grundvelli 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998 vegna þeirra gjalda sem stofnað hefði verið til vegna viðkomandi loftfars en ekki vegna heildargjalda viðkomandi eiganda eða umráðamanns.

5. Varnaraðili greiddi í kjölfar úrskurðarins gjöld sem hann taldi mega rekja til notkunar umrædds loftfars og lagði 6. maí 2019 fram nýja beiðni til Héraðsdóms Reykjaness um innsetningu í loftfarið.

6. Sóknaraðili skaut úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 2. maí 2019 til Landsréttar með kæru og krafðist þess meðal annars að hann yrði staðfestur. Varnaraðili krafðist þess að málinu yrði vísað frá Landsrétti en til vara að úrskurðurinn yrði staðfestur. Með úrskurði, sem kveðinn var upp 24. maí 2019 í máli nr. 321/2019, komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu að hinn kærði úrskurður skyldi vera óraskaður um annað en málskostnað. Lögskýringu héraðsdóms á 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998 var þó hafnað.

7. Héraðsdómur Reykjaness vísaði hinni nýju innsetningarbeiðni varnaraðila frá dómi með úrskurði 29. maí 2019.

8. Varnaraðili skaut úrskurði Landsréttar frá 24. maí 2019, um fyrstu innsetningarbeiðnina, til Hæstaréttar með kæru 28. maí 2019. Hæstiréttur ómerkti hinn kærða úrskurð með dómi 27. júní 2019 í máli nr. 29/2019 og vísaði málinu á ný til Landsréttar til löglegrar meðferðar. Hæstiréttur taldi að eins og málið hefði legið fyrir Landsrétti hefði borið að gæta að þeirri meginreglu sem fælist í 1. mgr. 98. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þar kæmi fram að sækti stefndi þing í héraði og samþykkti kröfu stefnanda í einu og öllu skyldi leggja dóm á mál þeirra í samræmi við þá afstöðu stefnda. Af þessari meginreglu sem gilti við meðferð máls fyrir Landsrétti samkvæmt 166. gr. sömu laga, fælist að í dómsúrlausn yrði ekki tekin afstaða til málsástæðna að baki viðkomandi kröfu eða hluta hennar, enda hefðu aðilarnir forræði á sakarefninu, heldur yrði niðurstaða reist á samþykkinu einu og sér. Gilti þá einu hvort aðili lýsti sig sammála málsástæðum gagnaðila síns eða samþykkti kröfu hans af allt öðrum sökum en þeim sem gagnaðilinn hefði byggt á með málsástæðum sínum. Landsrétti hefði þegar af þessari ástæðu borið að verða við kröfu varnaraðila og staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um þetta atriði án þess að taka á nokkurn hátt afstöðu til röksemda hans fyrir henni og leysa síðan einvörðungu úr ágreiningi aðilanna um málskostnað í héraði. Í forsendum Hæstaréttar var sérstaklega tekið fram að í þeirri úrlausn hefði engu getað breytt hvort röksemdir fyrir niðurstöðu héraðsdóms um önnur atriði kynnu í einhverju að hafa ekki þótt geta staðist.

9. Landsréttur tók málið til meðferðar að nýju og staðfesti hinn kærða úrskurð Héraðsdóms Reykjaness með úrskurði sínum 3. júlí 2017 að öðru leyti en hvað varðaði málskostnað í héraði. Í forsendum úrskurðar Landsréttar kom meðal annars fram að í kærumálinu, eins og það væri lagt fyrir Landsrétt, yrði ekki tekin afstaða til þess hvort forsendur hins kærða úrskurðar um önnur atriði en lytu að niðurstöðu hans stæðust.

10. Varnaraðili lagði fram þriðju innsetningarbeiðni sína í umrætt loftfar í Héraðsdómi Reykjaness 2. júlí 2019. Með hinum kærða úrskurði 17. júlí 2019 var fallist á kröfu varnaraðila um innsetningu í farþegaþotu hans af gerðinni Airbus A321-211, með skráningarnúmerið TF-GPA. Kröfu sóknaraðila um að málskot til Landsréttar myndi fresta aðfarargerðinni var hafnað. Sóknaraðili kærði úrskurðinn engu að síður til Landsréttar sama dag og hann var kveðinn upp.

11. Sama dag og úrskurðurinn var kveðinn upp var sóknaraðili boðaður til fyrirtöku 18. júlí 2019 hjá sýslumanninum á Suðurnesjum. Í fyrirtökunni var tekin fyrir krafa varnaraðila um að fá farþegaþotuna tekna úr umráðum sóknaraðila. Samkvæmt endurriti úr gerðarbók sýslumannsins á Suðurnesjum hafnaði sýslumaður kröfu sóknaraðila um að gerðinni yrði frestað. Sýslumaður skoraði jafnframt á umboðsmann sóknaraðila að afhenda varnaraðila umráð umræddrar farþegaþotu og varð hann við þeirri áskorun. Var gerðinni þar með lokið.

12. Kæra sóknaraðila barst Landsrétti 18. júlí 2019 og fékk hann þá frest til 31. sama mánaðar til að skila málsgögnum og greinargerð í samræmi við 3. mgr. 147. gr. laga nr. 91/1991. Málsgögn og greinargerð sóknaraðila bárust Landsrétti 30. júlí 2019 og fékk varnaraðili þá frest til 6. ágúst sama ár til að skila greinargerð í samræmi við 1. mgr. 148. gr. laga nr. 91/1991. Varnaraðili skilaði greinargerð sinni til Landsréttar 6. ágúst 2019 en samkvæmt 1. mgr. 149. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 6. gr. laga nr. 76/2019 um breytingu á þeim lögum, gat Landsréttur þá fyrst úrskurðað um kæruefnið.

13. Þar sem varnaraðili fékk 18. júlí 2019 umráð farþegaþotu sinnar hefur sóknaraðili ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá hnekkt niðurstöðu hins kærða úrskurðar um heimild til aðfarargerðar. Málinu verður því vísað frá Landsrétti að þessu leyti. Að fenginni þeirri niðurstöðu er ekki tilefni til að fjalla um þá niðurstöðu héraðsdómara að málskot fresti ekki réttaráhrifum úrskurðarins og er málinu einnig vísað frá Landsrétti að því leyti.

14. Þrautavarakrafa sóknaraðila lýtur að aðfarargerð sýslumannsins á Suðurnesjum 18. júlí 2018 en ekki að hinum kærða úrskurði Héraðsdóms Reykjaness. Þegar af þeirri ástæðu verður þrautavarakröfunni vísað frá Landsrétti.

15. Rétt er að málsaðilar beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Landsrétti.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá Landsrétti að öðru leyti en hvað varðar ágreining um málskostnað í héraði.

 

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 17. júlí 2019

 

Með aðfararbeiðni, sem móttekin var í Héraðsdómi Reykjaness 2. júlí 2019, hefur gerðarbeiðandi, ALC A321 7237, LLC, 2140 S. Dupont Highway, Camden, Delaware, 19934, Bandaríkjunum, krafist þess að farþegaþota af gerðinni Airbus A321-211, með skráningarnúmerið TF-GPA, sem staðsett er á Keflavíkurflugvelli, verði tekin með beinni aðfarargerð úr vörslum gerðarþola og fengin gerðarbeiðanda til fullra og takmarkalausra umráða og lagt verði fyrir sýslumann að tryggja að brottför farþegaþotunnar verði ekki aftrað af gerðarþola.

Þess er krafist að gerðin fari fram á kostnað gerðarþola og honum verði gert að greiða gerðarbeiðanda málskostnað, sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Gerðarþoli er ISAVIA ohf., kt. 550210-0370, Reykjavíkurflugvelli, 101 Reykjavík. Krefst gerðarþoli aðallega að kröfu gerðarbeiðanda verði vísað frá dómi. Til vara krefst gerðarþoli þess að beiðni gerðarbeiðanda verði hafnað. Til þrautavara krefst gerðarþoli þess að ef fallist verði á kröfu gerðarbeiðanda þá verði kveðið á í úrskurði að málskot til æðra dóms fresti aðfarargerðinni á hendur gerðarþola þar til endanlegur úrskurður Landsréttar og eftir atvikum dómur Hæstaréttar gengur. Þá krefst gerðarþoli, í öllum tilvikum, að gerðarbeiðanda verði gert að greiða gerðarþola málskostnað.

Munnlegur málflutningur fór fram um kröfu aðila þann 15. júlí sl. og var krafan tekin til úrskurðar að honum loknum.

 

Málsatvik:

Gerðarbeiðandi er eigandi farþegaþotunnar TF-GPA. Með leigusamningi, dags. 21. apríl 2016, hvar gerðarbeiðandi var leigusali og WOW air hf. leigutaki, var farþegaþotan TF-GPA leigð til WOW air hf. Samkvæmt leigusamningnum skyldi hann gilda í átta ár frá afhendingu farþegaþotunnar að telja. Farþegaþotan var afhent WOW air hf. þann 5. ágúst 2016.

            Samkvæmt gerðarþola söfnuðust upp skuldir WOW air hf. við gerðarþola frá árslokum 2017 og hafi stærstu vanskilin verið vegna svokallaðra notendagjalda sem komi fram í notendagjaldskrá Keflavíkurflugvallar en einnig hafi verið um að ræða vanskil vegna kaupa á annarri þjónustu af gerðarþola. WOW air hf.  hafi greitt næstu mánuði reglulega inn á vanskilin sem hækkuðu þó jafnóðum. Þann 21. nóvember sl. hafi WOW air hf. gefið út einhliða yfirlýsingu um það hvernig félagið myndi greiða upp vanskil sín og einnig yfirlýsingu þar sem félagið hafi lýst því yfir að það myndi tryggja að að minnsta kosti eitt loftfar á flugrekstrarleyfi félagsins yrði ávallt á Keflavíkurflugvelli eða á leið til Keflavíkurflugvallar og komið með staðfestan komutíma. Á þeim tíma var WOW air hf. með sextán loftför á flugrekstrarleyfi félagsins. Þar af voru ellefu vélar frá ellefu dótturfélögum móðurfélags gerðarbeiðanda. Í byrjun mars sl. hafi WOW air hf. hætt að greiða til gerðarþola í samræmi við greiðsluáætlun sína.

Gerðarbeiðandi lýsti yfir vanefnd við WOW air hf. með tilkynningu, dags. 27. mars 2019, vegna vangoldinna leigugreiðslna upp á samtals USD 2.185.511. Í kjölfarið rifti gerðarbeiðandi leigusamningnum, með tilkynningu, dags. 28. mars 2019. Aðfaranótt 28. mars 2019 sendi gerðarþoli WOW air hf. tilkynningu um að för farþegaþotunnar yrði aftrað á grundvelli 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998 um loftferðir. WOW air hf. staðfesti móttöku tilkynningarinnar skömmu síðar. Að morgni 28. mars 2019 lagði WOW air hf. inn flugrekstrarleyfi sitt til Samgöngustofu. Síðar þann sama dag, um klukkan 13:30, var WOW air hf. úrskurðað gjaldþrota í Héraðsdómi Reykjavíkur. Klukkan 17:10, 28. mars 2019, barst gerðarbeiðanda tilkynning frá gerðarþola, þar sem tilkynnt var um að för farþegaþotunnar frá Keflavíkurflugvelli yrði stöðvuð þar til öll vangreidd gjöld WOW air hf. til gerðarþola hefðu verið að fullu greidd. Gerðarþoli vísaði til 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga sem lagagrundvallar aðgerða sinna. Enn fremur áskildi gerðarþoli sér rétt til að selja farþegaþotuna á nauðungarsölu ef skuldin væri ekki að fullu greidd eða um hana samið innan skamms tíma.

Á símafundi þann 1. apríl 2019 kröfðust forsvarsmenn gerðarbeiðanda þess að gerðarþoli sundurliðaði vangreidd gjöld WOW air hf. niður á einstaka farþegaþotur. Á fundi þann 10. apríl 2019 kröfðust lögmenn gerðarbeiðanda þess sama. Var í kjölfarið, með tölvupósti dags. 11. apríl 2019, skorað skriflega á gerðarþola að veita þessar upplýsingar.

Þann 17. apríl 2019 lagði gerðarbeiðandi fram aðfararbeiðni til Héraðsdóms Reykjaness þar sem krafist var að farþegaþotan TF-GPA yrði tekin úr umráðum gerðarþola og fengin gerðarbeiðanda. Fyrst eftir að gerðarbeiðandi hafði lagt fram þessa aðfararbeiðni veitti gerðarþoli honum einhverjar upplýsingar um sundurliðun kröfu sinnar á hendur WOW air. Það gerði hann með því að afhenda gerðarbeiðanda þann 28. apríl 2019 nokkurn fjölda skjala á minnislykli. Gerðarbeiðandi lét sjálfur vinna samantekt upp úr skjölunum og komst þá að þeirri niðurstöðu að sú fjárhæð kröfu gerðarþola sem tengdist notkun farþegaþotunnar TF-GPA næmi 55.457.390 krónum og EUR 229.029.

Þann 29. apríl 2019 gerði gerðarbeiðandi gerðarþola tilboð um að greiða þann hluta af skuldum WOW air hf. við gerðarþola sem tengdust beint rekstri og starfsemi TF-GPA. Tilboðið gilti fram til miðnættis þann 1. maí 2019. Í tilboðinu fólst yfirlýsing gerðarbeiðanda um að hann myndi fella málarekstur sinn niður ef tilboðið yrði samþykkt. Tilboðinu var hafnað með tölvupósti þann 30. apríl 2019.

Gerðarþoli skilaði greinargerð sinni í þessu fyrsta máli þann 30. apríl 2019. Munnlegur málflutningur fór fram um kröfuna þann 2. maí 2019 og seinna sama dag var kveðinn upp úrskurður þar sem beiðni gerðarbeiðanda var hafnað. Í forsendum úrskurðarins sagði að gerðarþola væri „heimilt að hamla för flugvélarinnar TF-GPA frá Keflavíkurflugvelli á meðan gjöld tengd þeirri flugvél væru ógreidd en ekki vegna ógreiddra annarra gjalda WOW air hf.“ Strax daginn eftir, 3. maí 2019, sendi gerðarbeiðandi gerðarþola bréf þar sem skorað var á hann að staðfesta fjárhæð ógreiddra gjalda vegna TF-GPA sem og veita upplýsingar um greiðslustað. Var jafnframt áskilið að ef ekki væru veittar aðrar upplýsingar væri gerðarbeiðanda rétt að líta svo á að hans ályktun um fjárhæð gjaldanna væri rétt. Því bréfi svaraði lögmaður gerðarþola síðar sama dag, án þess að upplýsa neitt nánar um fjárhæð þeirra gjalda sem tengjast TF-GPA.

Sama dag, 3. maí 2019, kærði gerðarþoli úrskurð héraðsdóms í þessu fyrsta máli til Landsréttar og gerði þær dómkröfur að úrskurðurinn yrði staðfestur um annað en málskostnað.

Að morgni 6. maí 2019 greiddi gerðarbeiðandi gjöld farþegaþotunnar TF-GPA inn á reikning gerðarþola. Strax í kjölfarið sendi gerðarbeiðandi gerðarþola áskorun um að leysa þegar farþegaþotuna úr haldi sínu. Síðar sama dag lagði gerðarbeiðandi fram nýja aðfararbeiðni fyrir Héraðsdómi Reykjaness. Áður en úrskurður vegna síðari aðfararbeiðni var upp kveðinn kvað Landsréttur upp úrskurð þann 24. maí 2019, þar sem úrskurður héraðsdóms um synjun aðfarargerðarinnar var staðfestur en með breyttum forsendum, líkt og gerðarþoli hafði krafist, og málskostnaður dæmdur.

Þann 29. maí 2019 kvað Héraðsdómur Reykjaness upp úrskurð sinn vegna aðfararmáls tvö, þar sem málinu var vísað frá dómi með vísan til 2. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, þar sem Landsréttur hefði kveðið upp úrskurð í hinu fyrra máli.

Gerðarbeiðandi óskaði eftir leyfi til að kæra úrskurð Landsréttar til Hæstaréttar með beiðni um kæruleyfi, dags. 29. maí 2019, og kæru dagsettri sama dag. Hæstiréttur veitti kæruleyfið með ákvörðun, dags. 19. júní 2019.

            Með dómi Hæstaréttar, dags. 27. júní 2019, var úrskurður Landsréttar ómerktur og málinu vísað á ný til Landsréttar til löglegrar meðferðar. Í dómi Hæstaréttar segir að Landsrétti hafi borið að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms, enda höfðu báðir málsaðilar krafist þeirrar niðurstöðu fyrir réttinum, og leysa síðan einvörðungu úr ágreiningi aðila um málskostnað í héraði. Sagði svo nánar í dómi Hæstaréttar að við slíkar aðstæður gildi einu hvort aðilar lýsi sig sammála málsástæðum hvor annars, eða samþykki kröfur af öðrum ástæðum og að Landsrétti hafi borið að staðfesta úrskurð héraðsdóms án þess að taka á nokkurn hátt afstöðu til röksemda aðila fyrir henni.

Samkvæmt framansögðu liggur aðeins ein dómsúrlausn fyrir um efniságreining aðila, en það er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness í hinu fyrsta aðfararmáli A-53/2019.

Málsástæður og lagarök gerðarbeiðanda.

Líkt og gerðarbeiðandi rekur og rakið er hér að framan hefur mál gerðarbeiðanda verið til meðferðar fyrir dómstólum frá því að hin fyrsta aðfararbeiðni var lögð fram þann 17. apríl 2019. Þegar niðurstaða um hana hafi legið fyrir með úrskurði héraðsdóms þann 2. maí 2019 hafi gerðarbeiðandi talið sér rétt að greiða þann hluta skulda WOW air hf. við gerðarþola sem héraðsdómur hafði komist að niðurstöðu um að greiða þyrfti til að fá umráð vélarinnar. Um þetta vísast til bréfa gerðarbeiðanda til gerðarþola frá 3. og 6. maí 2019.

Gerðarþoli kærði hins vegar úrskurð héraðsdóms í hinu fyrsta máli og krafðist þess að Landsréttur gerði „breytingar á forsendum úrskurðarins.“ Samkvæmt niðurstöðu Hæstaréttar byggðist bæði kæra gerðarþola og úrskurður Landsréttar á rangri túlkun á meginreglum réttarfars. Úrskurður Landsréttar var því ómerktur, þar sem Landsréttur þótti hafa í „verulegum atriðum vikið frá réttri meðferð málsins“ og sé í niðurstöðu Hæstaréttar kveðið mjög skýrlega á um að Landsrétti hafi einungis verið heimilt, eins og málið hafi legið fyrir réttinum, að leysa úr ágreiningi um málskostnað en staðfesta að öðru leyti synjun héraðsdóms á hinni fyrstu aðfararbeiðni með vísan til þess eins að aðilar gerðu ekki ágreining um þá niðurstöðu þó að þeir væru ósammála um forsendur.

Líkt og gerðarbeiðandi rakti í sinni annarri aðfararbeiðni, dags. 6. maí 2019, taldi hann rétt, í ljósi afstöðu gerðarþola til bréfa gerðarbeiðanda þann 3. og 6. maí 2019, að höfða nýtt aðfararmál til að fá umráð loftfars síns. Gerðarþoli hafi hins vegar haldið því fram að þar sem niðurstaða héraðsdóms um hina fyrri aðfararbeiðni væri til meðferðar fyrir Landsrétti bæri að vísa hinni síðari beiðni frá dómi. Féllst héraðsdómur á þá kröfu gerðarþola og vísaði beiðninni frá dómi með úrskurði þann 29. maí 2019.

Í úrskurði héraðsdóms segir um þá niðurstöðu að vísa málinu frá dómi: „Þar sem niðurstaða í fyrra máli aðila, mál réttarins nr. A-53/2019 hefur verið staðfest í Landsrétti í mál nr. 321/2019, uppkveðnum þann 24. maí sl., verður máli þessu vísað frá dómi með vísan til 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.“

Gerðarbeiðandi byggir á því að í ljósi niðurstöðu Hæstaréttar fái þessi niðurstaða héraðsdóms ekki staðist. Gerðarbeiðandi byggir á því að eina dómsniðurstaðan um efniságreining aðila sé úrskurður héraðsdóms í hinu fyrsta aðfararmáli. Samkvæmt niðurstöðu þess úrskurðar var gerðarþola talið heimilt að aftra brottför TF-GPA meðan gjöld sem tengdust þeirri farþegaþotu beint væru enn ógreidd. Gerðarbeiðandi hafi nú greitt þau gjöld og samt hafi hann ekki fengið umráð farþegaþotunnar. Hafi gerðarþoli raunar lýst því yfir skriflega að hann muni ekki una þeirri niðurstöðu héraðsdóms.

Af framangreindum ástæðum virtum sé gerðarbeiðanda nauðugur sá einn kostur að höfða nýtt aðfararmál, númer þrjú í röð aðfararmála, til að fá umráð farþegaþotu sinnar.

Gerðarbeiðandi byggir á því að engin efni séu til að vísa máli þessu frá dómi og ekkert því til fyrirstöðu að héraðsdómur úrskurði að gerðin megi fara fram. Niðurstaða Landsréttar um kæru gerðarþola hafi nú verið ómerkt með dómi Hæstaréttar og hafi því engin áhrif á þetta mál. Þá sé ljóst að Landsréttur muni ekki, samkvæmt skýrum fyrirmælum Hæstaréttar, leysa með neinum hætti úr efniságreiningi aðila um túlkun á ákvæði 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga vegna fyrstu aðfararbeiðni gerðarbeiðanda. Það geti því eingöngu komið í hlut héraðsdóms að leysa úr málinu í þeim búningi sem það er eftir að gerðarbeiðandi greiddi gjöld vegna TF-GPA í samræmi við forsendur úrskurðar héraðsdóms í hinu fyrsta máli.

Þá geti niðurstaðan um hina fyrri aðfararbeiðni ekki haft útilokunaráhrif, res judicata, gagnvart þessari beiðni samkvæmt 2. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála. Þegar dómstóll tekur afstöðu til þess hvort bein aðfarargerð skuli fara fram er í fræðilegum skilningi aðeins um það fjallað hvort skilyrði séu fyrir því að dómstólar þvingi fram efndir á skyldu aðila sem ekki vilji af fúsum vilja efna þá skyldu sjálfur. Það sé því aðeins um það fjallað hvort sú skylda sé til staðar og sé nægilega afdráttarlaus. Í beinni aðfarargerð sé því sakarefni ekki ráðstafað með þeim hætti að það hafi útrýmandi réttaráhrif á síðari málarekstur milli sömu aðila um sömu efnisatriði, t.d. í venjulegu einkamáli, enda sé það hugtaksatriði í beinni aðfarargerð.

Úrskurður héraðsdóms um að synja um beina aðfarargerð hafi því ekki nein réttaráhrif önnur en þau að gerðin fari ekki fram við óbreyttar aðstæður.

Loks bendir gerðarbeiðandi á að sú aðfararbeiðni, sem hér sé lögð fyrir dóminn, byggist á nýrri aðstöðu miðað við þá fyrstu, þar sem gerðarbeiðandi hafi nú greitt þau gjöld sem forsendur úrskurðar sögðu að gerðarþola væri heimilt að aftra för vegna. Af því leiði að jafnvel þótt niðurstaða héraðsdóms í hinu fyrsta máli geti talist hafa útrýmandi réttaráhrif, þá gerir hún það ekki gagnvart þessari beiðni eftir að atvik máls hafi breyst. Það liggi í hlutarins eðli.

Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. aðfararlaga geti sá, sem með ólögmætum hætti sé aftrað að neyta réttinda sem hann tjái sig eiga, beint til héraðsdómara beiðni um skyldu til afhendingar þeirra réttinda, sbr. 73. gr. sömu laga, þótt aðfararheimild liggi ekki fyrir. Meginskilyrðið sé að réttindin séu nægilega skýr og afdráttarlaus, m.t.t. þeirrar takmörkuðu sönnunarfærslu sem leyfist í slíku máli. Telja megi að atvik máls séu ekki umdeild í fyrirliggjandi máli auk þess sem óumdeilanleg sönnunargögn hafi verið lögð fram af hálfu gerðarbeiðanda um eignarhald hans á farþegaþotunni TF-GPA og önnur þau atvik sem skipti máli.

Samkvæmt þessu séu réttindi gerðarbeiðanda skýr og afdráttarlaus í skilningi aðfararlaga. Vörslur gerðarþola á farþegaþotunni felist í því að för hennar sé aftrað og með því takmörkuð með viðamiklum hætti umráð gerðarbeiðanda á eign sinni áfram þrátt fyrir að gerðarbeiðandi hafi greitt öll gjöld sem tengist farþegaþotunni TF-GPA. Gerðarbeiðandi byggi á því að það sé alveg ljóst að þessar aðgerðir gerðarþola séu ólögmætar.

Samkvæmt 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga sé Samgöngustofu og þeim sem starfrækir flugvöll eða flugleiðsöguþjónustu heimilt að aftra för loftfars af flugvelli uns gjöld séu greidd eða trygging sett fyrir greiðslu vegna þess loftfars sem í hlut eigi eða annarrar starfsemi hlutaðeigandi eiganda eða umráðanda loftfarsins.

Eins og að framan greini hafi túlkun dómstólsins í hinu fyrra aðfararmáli verið sú að heimildin leyfði gerðarþola að aftra för TF-GPA vegna þeirra gjalda sem tengist því tiltekna loftfari, eftir að gerðarbeiðandi sé aftur orðinn umráðamaður þess, en ekki vegna annarra ógreiddra gjalda hins gjaldþrota WOW air hf., enda hafi aðrar farþegaþotur sem WOW air hf. hafði í rekstri verið gerðarbeiðanda alls óviðkomandi. Í samræmi við þessa niðurstöðu hafi gerðarbeiðandi nú greitt öll gjöld sem tengist TF-GPA og vilji því fá full og ótakmörkuð umráð eignar sinnar.

Ákvæði 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga sé verulega íþyngjandi gagnvart gerðarbeiðanda. Því verði ákvæðinu ekki beitt með þeim hætti að það veiti gerðarþola víðtækari heimildir en leiðir skýrlega af orðalagi þess, það leiði af almennum reglum um túlkun lagaákvæða. Þar að auki tryggi 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar friðhelgi eignarréttarins. Það sé almenn lögskýringarregla að hvers konar lagaheimild sem skerði stjórnarskrárvarinn rétt verði skýrð þrengjandi lögskýringu og að hvers kyns vafi um inntak slíkrar skerðingar verði skýrður í hag þess sem fyrir verður. Samkvæmt orðalagi 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga sé alveg ljóst að ákvæðið veiti ekki lögveðsréttindi, haldsrétt eða nokkur slík óbein eignarréttindi í nokkru loftfari. Um slíkan óbeinan eignarrétt með afdráttarlausum hætti þyrfti að mæla fyrir um í texta ákvæðisins ef því væri ætlað að stofna til slíkra réttinda. Því eigi gerðarþoli ekkert eignarréttartilkall af neinu tagi til farþegaþotu gerðarbeiðanda, hvorki beint né óbeint.

Einnig sé ljóst að hvorki ákvæði 1. mgr. 136. gr. né 71. gr. loftferðalaga leggi nokkra kröfuréttarlega skyldu á eiganda loftfars, hvorki beina né óbeina, til að greiða gjöld sem fallið hafa til í starfsemi annars aðila. Hafi gerðarbeiðandi, sem eigandi loftfarsins, ekkert haft með söfnun skulda WOW air hf. að gera. Það eitt að ákvæði 71. gr. laganna mæli ekki bókstaflega fyrir um á hvern leggja eigi gjöldin breytir ekki áratugalangri framkvæmd um álagningu þjónustugjalda í íslenskum rétti. Slík gjöld, sem og raunar aðrar kröfur sem stofnist vegna kaupa á þjónustu, séu ávallt lögð á þann sem nýtir eða kaupir þjónustuna hverju sinni.

Hvað varði það orðalag 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga, að aftra megi för loftfars vegna vangreiddra gjalda umráðamanns, bendir gerðarbeiðandi á að það sé WOW air hf. sem hafi stofnað til gjaldanna. WOW air hf. sé hætt starfsemi og hafi verið úrskurðað gjaldþrota og sé ekki lengur umráðamaður TF-GPA.

Bréf gerðarþola til WOW air hf. um nóttina fyrir gjaldþrotið hafi enga þýðingu haft þar sem gerðarbeiðandi hafi enga tilkynningu fengið um aðgerðir gerðarþola fyrr en á síðara tímamarki. Ákvöð, sem beint hafi verið að WOW air hf., get ekki haft réttaráhrif gagnvart gerðarbeiðanda. Þá byggi gerðabeiðandi á því að þegar WOW air hf. hafi skilað inn flugrekstrarleyfi sínu þá hafi gerðarþoli ekki lengur getað beitt heimildum loftferðalaga. Þá hafi ákvæði gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991 tekið við í kjölfar úrskurðar um gjaldþrot og verði gerðarþoli því að láta sér þau úrræði sem þar greini duga til að fá greiðslu kröfu sinnar. Á þeim tímapunkti gjaldfalla allar kröfur á hendur hinu gjaldþrota félagi, þar á meðal jafnframt krafa gerðarþola á hendur WOW air hf. Aðgerðir gerðarþola feli í sér að viðhaldið sé viðvarandi ástandi sem verði að reynast lögmætt á hverjum tíma. Jafnvel þótt svo væri litið á að aðgerðir gerðarþola hafi talist lögmætar í öndverðu, áður en WOW air hf. hafi verið úrskurðað gjaldþrota, eða áður en gerðarbeiðandi greiddi þau gjöld sem tengist TF-GPA, sé í öllu falli ljóst að eftir það tímamark geti þær ekki talist lögmætar gagnvart gerðarbeiðanda. Rétt sé að taka fram í þessu samhengi að orðalag ákvæðis 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga sé í nútíð, ekki í þátíð, og leyfi því ekki gerðarþola að aftra för loftfars vega vangreiddra gjalda fyrrverandi umráðanda eða eiganda loftfars.

Gerðarbeiðandi byggir á að skýra verði ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga til samræmis við sögulega þróun þess og samkvæmt því sem fram komi í lögskýringargögnum. Í frumvarpi til núgildandi loftferðalaga sé vísað til þess að eldri lög hafi tilgreint að heimildin næði til einna lendingargjalda, þ.e. til síðustu lendingar viðkomandi loftfars. Það fyrirkomulag þekkist enda víða um lönd en sé þá einmitt takmarkað við það eða nánar tilgreint tímabil, og sé gerðarbeiðanda vel um það kunnugt, enda dótturfélag eins stærsta flugvélaleigufyrirtækis í heiminum. Það að flugvallargjöld fái að safnast upp um margra mánaða skeið og í því mæli sem um ræði í þessu máli eigi sér engin fordæmi og hvað þá að það hafi mátt vera á kostnað leigusala loftfars.

Þá skal sérstaklega tekið fram að í þeim dómi Hæstaréttar Bretlands sem gerðarþoli hefur ítrekað vísað til á fyrri stigum námu þau gjöld flugfélagsins, sem krafist var greiðslu á gegn því að leysa viðkomandi loftfar úr haldi flugvallaryfirvalda, um tveimur milljónum dollara. Til samanburðar hefur gerðarþoli krafið gerðarbeiðanda um sem nemur sautján milljónum dollara gegn því að leysa TF-GPA úr haldi sínu. Tilvísunum gerðarbeiðanda til viðkomandi dóms er alfarið mótmælt sem þýðingarlausum og jafnvel þótt litið væri til þess dóms við úrlausn málsins verður að gæta þess að umdeilt lagaákvæði breskra loftferðalaga, sem þar var deilt um, er miklum mun skýrara og fyrirsjáanlegra en ákvæði 1. mgr. 136. gr. laganna. Auk þess geta úrlausnir erlendra dómstóla um þarlend lagaákvæði engin áhrif haft á túlkun íslenskra dómstóla á íslenskum lagaákvæðum. Þegar heimild núgildandi 1. málsl. 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga hafi fyrst verið lögfest, sbr. 149. gr. laga nr. 34/1964, var heimildin svohljóðandi: „Réttum umráðanda flugvallar, sem er heimill almenningi, er rétt að aftra för loftfars af flugvellinum, uns eftirgjald eftir síðustu lendingu og notkun loftfarsins af vellinum er greitt eða trygging sett fyrir greiðslu þess. Í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð með frumvarpi til laganna, sbr. athugasemdir við 148. gr. frumvarpsins, hafi nánara inntaki heimildarinnar ekki verið lýst. Hins vegar hafi komið fram að varlega hefði þurft að stíga til jarðar við innleiðingu ákvæðisins vegna skuldbindinga samkvæmt sáttmála um alþjóðlega viðurkenningu á réttindum í loftförum frá 19. júní 1948, sem svo hafi verið innleiddur með lögum nr. 21/1966. Fram komi að rætt hafi verið um það milli ríkja Norðurlandanna, hvort slíkt ákvæði færi í bága við ákvæði sáttmálans. Af athugasemdunum og samhengi þeirra við sáttmálann megi ráða að ekki hafi þótt ástæða til að veita flugvallaryfirvöldum eiginleg tryggingarréttindi yfir loftfari, heldur einungis úrræði til að knýja á um greiðslu notendagjalda og að þau væru greidd jafnóðum og markmiðið því að koma í veg fyrir uppsöfnun þeirra.

Gerðarbeiðandi vísi til umfjöllunar í athugasemdum með frumvarpi til núgildandi loftferðalaga. Þar sé ekki annað sagt en að með reglu 1. málsl. 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga sé gildissvið eldri reglu „útvíkkað nokkuð“ frá eldri lögum. Gerðarbeiðandi telji það ekki geta staðist hefðbundin lögskýringarsjónarmið og ákvæði stjórnarskrár að sú útvíkkun sé án marka eða takmarkana. Í öllu falli sé ljóst að ekki hafi staðið til að breyta inntaki eða þýðingu úrræðisins, einungis að heimilt væri að beita því vegna ógreiddra gjalda vegna fleiri lendinga en einungis þeirrar síðustu. Bendir gerðarbeiðandi á í því sambandi að ein lendingargjöld loftfars af þessari gerð séu í kringum 400 þúsund krónur. Gerðarþoli telji ákvæðið hins vegar nú geta tryggt greiðslu á um tveggja milljarða króna skuld WOW air hf. Sú „útvíkkun“ sé fimmþúsundföld. Við setningu núgildandi loftferðalaga var ákvæðið svohljóðandi:

Flugmálastjórn er heimilt að aftra för loftfars af flugvelli uns gjöld eru greidd eða trygging sett fyrir greiðslu vegna þess loftfars sem í hlut á eða annarrar starfsemi flugrekandans.

Orðalagi ákvæðisins hafi verið breytt lítillega með lögum nr. 21/2002, og varð svohljóðandi:

Flugmálastjórn Íslands er heimilt að aftra för loftfars af flugvelli uns gjöld eru greidd eða trygging sett fyrir greiðslu vegna þess loftfars sem í hlut á eða annarrar starfsemi hlutaðeigandi eiganda eða umráðanda loftfarsins.“ Í lögskýringargögnum koma fram nánari skýringar á þessari breytingu. Þar segir: „Ákvæði núgildandi 136. gr. loftferðalaga lúta að tvennu, annars vegar þeirri heimild til greiðsluþvingunar sem felst í því að meina brottflug loftfari flugrekanda sem skuldar Flugmálastjórn Íslands gjöld, sem starfsemi hans varða, og hins vegar að því að knýja leyfis- og skírteinishafa til að rækja skyldur sínar að viðlögðum dagsektum. Í þeirri umorðun ákvæðisins sem lögð er til er vikið að þessu sama, en nýmælin felast í ákvæðum um févíti, auk þess sem dagsektaákvæðin eru gerð mun ítarlegri og skýrari. Eins og greiðsluþvingunarheimildin er orðuð í lögunum í dag er hún bundin flugrekendum en með frumvarpinu er lagt til að hún verði útvíkkuð til allra eigenda eða umráðenda loftfara.

Breytingin hafi lotið að því að skipta út orðinu „flugrekandi“ fyrir orðin „eiganda eða umráðanda“. Ástæða breytingarinnar hafi því augljóslega verið sú að reyna að sjá við þeirri aðstöðu þegar eigendur loftfara, sem þó hafi ekki verið flugrekendur, hafi safnað skuldum við gerðarþola og forvera hans. Með lagabreytingunni hafi gerðarþola verið veitt greiðsluþvingunarheimild, eins og það sé orðað í skýringum með ákvæðinu í greinargerð, gagnvart eigendum og umráðendum loftfara vegna skulda þeirra sjálfra, enda hafði gerðarþoli áður engin slík úrræði gagnvart þeim, nema þá og því aðeins að þeir teldust „flugrekendur“. Af lögskýringargögnum sé ljóst að með þessu var verið að tryggja að greiðsla gjaldanna væri í forgangi í rekstri flugfélags og að þau væru ávallt greidd jafnóðum.

Samkvæmt þágildandi ákvæðum laganna hafi þeir einir talist „flugrekendur“ sem hlotið höfðu leyfi til loftferðastarfsemi, sem nauðsynlegt hafi verið til loftferða í atvinnuskyni, sbr. ákvæði 80. gr. og 1. mgr. 48. gr. þágildandi loftferðalaga. Ýmiss konar önnur flugstarfsemi hafi nýtt þjónustu gerðarþola og forvera hans, enda hafi ráðherra verið sérstaklega heimilt að ákveða að annars konar flugstarfsemi skyldi vera leyfisskyld þótt hún væri ekki rekin í atvinnuskyni, sbr. 10. gr. laga nr. 75/2005 um breytingu á loftferðalögum.

Af lögskýringargögnum verði hins vegar hvergi ráðið að ætlunin hafi verið að mæla fyrir um hlutlæga ábyrgð eiganda loftfars á skuldum umráðanda þess, í þeim tilvikum sem umráðandi hafi ekki einnig verið eigandi, eins og gerðarþoli leggi út af. Hvergi nokkurs staðar í lögskýringargögnum, allt frá því að heimildin var fyrst tekin í lög, sé vísað til þess að eigandi loftfars eigi að vera ábyrgur fyrir skuldum umráðanda þess. Þvert á móti verði að skilja breytinguna sem gerð hafi verið með lögum nr. 21/2002 sem svo að með henni hafi ætlunin verið að veita flugvallaryfirvöldum þvingunarheimild gagnvart fleiri skuldendum notendagjalda en bara þeim sem hlotið höfðu flugrekstrarleyfi, enda hafi engin slík heimild verið til staðar í lögum þangað til. Ætlunin hafi ekki verið að gera eiganda loftfars ábyrgan fyrir skuldum umráðanda þess, enda hefði þá verið um grundvallarbreytingu á heimildinni að ræða og ætla megi að það hefði sérstaklega verið tekið fram í lögskýringargögnum ef svo hefði verið.

Gerðarbeiðandi leggur sérstaka áherslu á orðalagið sem notað sé í lögskýringargögnum, að um greiðsluþvingunarúrræði sé að ræða. Í orðanotkuninni felist að tilgangur ákvæðisins hafi ávallt verið sá að knýja notendur þjónustu gerðarþola um greiðslu álagðra gjalda. Enga vísbendingu megi finna í lögskýringargögnum um að heimildin hafi átt að hafa þann tilgang að virka eins og tryggingarréttindi og þá eftir atvikum með tryggingu í eignum þriðja manns. Greiðsluþvingunarúrræði gagnvart skuldara gjalda sé allt annars konar úrræði en tryggingarréttindi í eigum þriðja manns og byggi gerðarbeiðandi á því að ef ákvæðið fæli slík réttindi í sér hefði slíkur áskilnaður þurft að koma skýrlega fram í lögunum sjálfum og lögskýringargögnum. Svo sé hins vegar ekki.

Gerðarbeiðandi telur samkvæmt framangreindu að einhver mörk hljóti að vera á gildissviði 1. málsl. 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga og þar með heimild gerðarþola til þess að beita greiðsluþvingun. Ekki síst í samhengi við þau mörk sem eignarréttarákvæði stjórnarskrár seti lagaákvæðum sem skerði eignarréttindi. Gerðarbeiðandi byggi á því að lagaheimildina beri að skýra þröngri lögskýringu með vísan til þessa. Um sé að ræða íþyngjandi þvingunarráðstöfun og takmörkun á eignarréttindum; eign sem njóti sérstakrar verndar 72. gr. stjórnarskrár og 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu. Í öllu falli telji gerðarbeiðandi að ekki sé tækt að túlka 1. máls. 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga rýmra en svo að það heimili gerðarþola í mesta lagi að aftra brottför TF-GPA uns gjöld vegna þess loftfars séu greidd. Sé það í samræmi við einu gildu efnislegu niðurstöðu dómstóls um inntak ákvæðisins.

Eins og fram komi í bréfi gerðarþola til gerðarbeiðanda, dags. 28. mars 2019, hefur krafa gerðarþola á hendur WOW air hf. verið í vanskilum frá 30. júní 2018. Krafan hafi því vaxið og safnað kostnaði og dráttarvöxtum frá þeim tíma allt þar til WOW air hf. var úrskurðað gjaldþrota þann 28. mars 2019. Gerðarbeiðandi hafi aldrei verið upplýstur af hálfu gerðarþola um kröfur eða vanskil WOW air hf. fyrr en með þessu bréfi, sem honum hafi borist klukkan 17:10 28. mars 2019. Þá hafi gerðarbeiðanda aldrei verið tilkynnt um að hans eign gæti mögulega staðið til tryggingar þeim skuldum.

Gerðarbeiðandi byggir á því að réttur gerðarþola til að aftra brottför TF-GPA sé fallinn niður fyrir tómlætis sakir. Á hverjum tíma frá því að vanskil WOW air hf. hófust hafi  gerðarþoli haft möguleika til að beita heimild sinni skv. 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga. Um sé að ræða brottfarir flugvéla í rekstri WOW air hf. sem hlaupi á þúsundum eða tugum þúsunda. Við hverja og eina einustu brottför á flugvél í rekstri WOW air hf. í röska níu mánuði, þrjá fjórðu hluta úr heilu ári, hafi gerðarþoli haft tækifæri til þess að beita heimild loftferðalaga. Það ákvað hann hins vegar að gera ekki. Hann hafi því haft, í níu mánuði, árangursríkt innheimtuúrræði sem hann hefði getað borið fyrir sig, mörgum sinnum á dag, til að knýja á um greiðslu skuldar WOW air hf. Gerðarþoli beinlínis ákvað að beita ekki því úrræði sem honum sé að lögum falið einmitt til að tryggja greiðslu notendagjalda við flugvöll í rekstri sínum. Tilgangurinn með því að gerðarþola sé að lögum falið þetta úrræði sé að knýja á um og tryggja að notendagjöld séu ávallt í skilum. Með því að gerðarþoli ákvað að nýta það ekki hafi réttur hans til að nýta það á síðari stigum vegna skulda, sem þegar höfðu stofnast til, fallið niður fyrir tómlætis sakir. Með gjaldþroti WOW air hf. hafi sú heimild endanlega fallið niður og gerðarþola gert að hlíta meginreglum gjaldþrotaskiptaréttar.

Gerðarbeiðandi byggir á því að gerðarþoli hafi ekki haft heimildir til þess að láta vanskil gjalda eða skulda WOW air hf. við gerðarþola safnast upp án greiðslu með þessum hætti. Að minnsta kosti geti sú ákvörðun gerðarþola ekki verið á kostnað gerðarbeiðanda eða með einhvers konar tryggingu í hans eignum. Um sé að ræða eiginlega lánveitingu gerðarþola til WOW air hf. samtals að fjárhæð um tveir milljarðar króna. Sú lánveiting hafi verið án aðkomu gerðarbeiðanda og án hans samþykkis. Svo virðist sem lánveitingin hafi verið undir því yfirskini að gerðarþoli taldi sig geta leitað tryggingar fyrir láninu í farþegaþotu sem sé eign gerðarbeiðanda, án nokkurs samþykkis hans.

Rétt sé að taka fram í þessu samhengi að starfsmenn gerðarþola, þeir Karl Alvarsson og Sveinbjörn Indriðason, hafi sent WOW air hf. skjal þann 30. september 2018 undir yfirskriftinni „Greiðsluáætlun WOW air“. Það skjal hafi verið samið af Karli og ekki breytt af neinum öðrum en Sveinbirni, það sjáist af eigindum skjalsins (enska: properties). Þar hafi verið gert ráð fyrir að WOW air hf. greiddi skuld sína, eins og hún hafi staðið þá, með tólf mánaðarlegum afborgunum og áskilið að WOW air hf. hefði alltaf a.m.k. eina flugvél á flugrekstrarleyfi félagsins tiltæka á Keflavíkurflugvelli til tryggingar. Þá hafi WOW air hf. verið bannað að gera nokkuð það sem „raskað [gæti] möguleika ISAVIA til að grípa til stöðvunarheimilda“ svo vísað sé orðrétt til skjalsins sem gerðarþoli útbjó.

Sömu fyrirætlanir hafi ítrekað verið staðfestar í fundargerðum stjórnar gerðarþola.

Allt frá þessum tíma og þar til WOW air hf. hafi verið úrskurðað gjaldþrota hlýddi WOW air hf. þessu boði. Þetta afhjúpi berlega þann ásetning gerðarþola að leyfa WOW air hf. skuldasöfnun í skjóli þess að greiðsla yrði heimt af óviðkomandi leigusala ef allt færi á versta veg og grípa þá til þvingunarúrræðis sem þeim sé fengið sem innheimtumanni þjónustugjalda. Þá hafi WOW air hf. greitt samkvæmt samkomulaginu fyrstu fjóra mánuðina eftir að hafa fengið skjalið sent frá gerðarþola. Rétt sé að geta þess að gjöld að fjárhæð um þrír milljarðar króna hafi fallið til í starfsemi WOW air hf. frá því að vanskil hófust í júní 2018, en WOW air hf. hafi greitt um þriðjung þeirra á tímabilinu þar til félagið fór í þrot.

Þá sé einnig vert að geta þess að um miðjan september 2018 hafi WOW air hf. lokið skuldabréfaútboði þar sem hafi safnast um fimmtíu milljónir evra, eða sem nemi tæpum sjö milljörðum króna. Þrátt fyrir það virðist gerðarþoli ekki hafa gert neinn reka að því að krefjast uppgjörs á vangreiddum gjöldum WOW air hf. á þessu tímamarki, heldur veitt áframhaldandi fyrirgreiðslu í trausti þess að njóta tryggingar í eignum þriðja manns, án aðkomu eða samþykkis hans.

Gerðarbeiðandi líti svo á að eign hans geti ekki staðið til tryggingar á láni gerðarþola til WOW air hf. nema að undangengnu skýru og yfirlýstu samþykki gerðarbeiðanda. Slíkt samþykki sé ekki til staðar og hefði aldrei verið veitt og geti gerðarþoli ekki með einhliða túlkun á ákvæði 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga teygt gildissvið þess þannig að eign gerðarbeiðanda standi, þrátt fyrir það, til tryggingar á skuldum WOW air hf. Háttsemi gerðarþola, sem birtist í gögnum málsins, að áskilja sér tryggingu frá WOW air hf. í eignum þriðja manns, gerðarbeiðanda, án þess að tilkynna eigandanum, sé ámælisverð, alvarleg og ólögleg.

Fyrirsvarsmenn gerðarþola hafi lýst því ítrekað í fundargerðum og í fjölmiðlum að sú ákvörðun að veita WOW air hf. þennan greiðslufrest hafi verið byggð á viðskiptalegum forsendum. Sú viðskiptalega ákvörðun verði hins vegar ekki eftir á látin vera tryggð með einhvers konar veði eða tryggingu í eign þriðja manns á grundvelli einhliða túlkunar gerðarþola og sé alfarið án samþykkis eiganda. Gerðarbeiðandi telji að gerðarþoli hafi ekki haft heimildir til að veita WOW air hf. lán með þessum hætti, hvorki samkvæmt lögum, eigin gjaldskrá eða eigin skilmálum. Þá geti háttsemi gerðarþola ekki með neinu móti haft bindandi réttaráhrif gagnvart gerðarbeiðanda né gert það að verkum að eignir hans teljist hafa verið settar að veði, án lagaheimildar eða samkomulags við gerðarbeiðanda.

Samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar hafi lánveitendum verið sett ströng skilyrði og gerðar strangar kröfur til sönnunar á tilvist veðréttinda eða annarra trygginga og að þau byggist á skýrum og ótvíræðum gögnum. Til dæmis ef enginn formlegur samningur sé til staðar eða ef orðalag sé óskýrt eða óljóst eða samningur einhliða hafi Hæstiréttur fellt úr gildi öll slík veðréttindi eða tryggingar. Þessir mælikvarðar séu jafnvel enn strangari þegar undirliggjandi veðréttindi séu í eigu þriðja manns. Ef litið sé til þeirra reglna sem gerðarþoli hafi sett sjálfur skulu öll gjöld að meginreglu greidd fyrirfram og áður en loftfar yfirgefi flugvöllinn, sbr. ákvæði 9.1. Samkvæmt ákvæði 9.1.1 megi gerðarþoli heimila að gjöldin séu greidd eftir á og þá beri að senda viðkomandi skuldara reikning þar sem honum sé veittur 30 daga greiðslufrestur frá dagsetningu reiknings. Gerðarþoli megi gera kröfu um fyrirframgreiðslu eða bankaábyrgð frá öllum flugfélögum sem hafi ekki verið í viðskiptum við gerðarþola síðustu tólf mánuði eða hafa verið í vanskilum hjá gerðarþola. Samkvæmt ákvæði 9.1.2 verði fyrirframgreiðslan að ná yfir öll gjöld viðkomandi flugfélags og áætluð flug og ákvæði 9.1.3 mæli fyrir um að bankaábyrgð verði að ná yfir lengra tímabil en þrjá mánuði og gildi í að minnsta kosti þrjá mánuði eftir að flugáætlun endar. Gerðarþoli megi krefjast þess að ábyrgðin gildi um óákveðinn tíma. Gerðarbeiðandi telji það ljóst af ofangreindu að framganga gerðarþola gagnvart WOW air hf. sé í andstöðu við reglur gerðarþola sjálfs. Jafnvel þótt hún hafi verið heimil samkvæmt eigin reglum gerðarþola, geti viðskiptaleg ákvörðun gerðarþola ekki verið á ábyrgð og áhættu þriðja manns. Gerðarbeiðandi geti ekki borið ábyrgð á þessari framgöngu gerðarþola og allra síst þannig að eignir hans verði látnar eftir á vera til tryggingar þessum ráðstöfunum gerðarþola. Eignir gerðarbeiðanda hafi aldrei verið settar til tryggingar á láni gerðarþola til WOW air hf. og geti þessi ráðstöfun gerðarþola ekki talist njóta tryggingar á grundvelli túlkunar gerðarþola á ákvæði 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga. Sú túlkun sé fullkomlega ófyrirsjáanleg, leiði ekki af orðalagi ákvæðisins, brjóti gegn meðalhófi og sé þar af leiðandi  andstæð 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar um vernd eignarréttar. Gerðarbeiðandi hafi því aldrei getað séð fyrir eða mátt hafa séð það fyrir að gerðarþoli myndi brjóta eigin birtar reglur og ganga fram með þessum hætti.

Sú aðgerð gerðarþola að telja sig geta gengið að eignum gerðarþola til tryggingar á láni þeirra til WOW air hf. eigi sér hvorki lagalega heimild né heimild í samningum. Hún sé jafnframt mögulega refsiverð, en það hljóti að þurfa að gera þá kröfu til stjórnenda og stjórnarmanna opinberra hlutafélaga að þeir fylgi og hlíti þeim reglum sem um starfsemi gilda og hafa verið opinberlega birtar. Að mati gerðarbeiðanda fái framganga gerðarþola enga stoð í ákvæði 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga. Þessi framganga sé að mati gerðarbeiðanda til þess fallin að leigusalar flugvéla forðist, banni eða takmarki leigutökum alla umferð um flugvöll gerðarþola. Enda eigi leigusalar erfitt um vik að átta sig á mögulegri áhættu samfara leigunni þegar ekki er tryggt að farið sé að lögum og birtum reglum. Það er alvarleg staða.

Í hinum ómerkta úrskurði Landsréttar sé vísað til leigusamnings gerðarbeiðanda og WOW air hf.  til stuðnings þeirri túlkun á inntaki 1. málsl. 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga sem lögð hafi verið til grundvallar í hinum ómerkta úrskurði. Gerðarbeiðandi mótmælir fyrirfram öllum slíkum röksemdum í þessu máli. Móðurfélag gerðarbeiðanda leigi flugvélar til yfir 55 landa í sex heimsálfum og flugvélar í eigu móðurfélags gerðarbeiðanda hafa viðkomu í nánast öllum ríkjum heims. Leigusamningsákvæðin, sem Landsréttur vísaði til, séu stöðluð og sniðin að starfsemi móðurfélags gerðarbeiðanda í heild sinni. Ekki sé samið um einstaka samningsákvæði við hvern leigutaka. Af samningnum verði því engar ályktanir dregnar um ætlaða grandsemi gerðarbeiðanda. Gerðarbeiðanda þyki einnig rétt að taka fram að hann hafi aldrei byggt á því að hafa ekki vitað um tilvist ákvæðis 1. málsl. 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga eða að hann kannist ekki við að hafa lent í kostnaði við að losa flugvélar þegar leigutakar hafa orðið gjaldþrota. Það sé hins vegar ætíð afmarkað með skýrum hætti við nánar tilgreind tímabil og/eða loftör og aldrei af þeirri stærðargráðu að krafist sé greiðslu allra skulda heils flugrekanda um margra mánaða skeið. Ekki síst í ljósi þess að sú uppsöfnun sé andstæð þeim reglum og skilmálum sem gerðarþoli hafi gefið út. Gerðarbeiðandi telur því ótækt að miða við að vegna ákvæða í leigusamningnum hafi beiting gerðarþola á 1. málsl. 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga mátt vera fyrirsjáanleg.

Þá telur gerðarbeiðandi þá aðferðafræði Landsréttar, í hinum ómerkta úrskurði, að túlka þvingunarúrræði 1. málsl. 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga með hliðsjón af einkaréttarlegum og stöðluðum samningi gerðarbeiðanda við WOW air hf., ekki vera lögfræðilega tæka. Það hvernig þvingunarúrræði skuli túlkað og hvort það stenst stjórnarskrá geti ekki ráðist af öðru en lagaákvæðinu sjálfu og viðteknum lögskýringarreglum íslensks réttar – aldrei af óviðkomandi einkaréttarlegum samningi tveggja aðila.

Í hinum ómerkta úrskurði Landsréttar hafi einnig verið gert að forsendu að það hafi verið forsenda fyrir starfsemi gerðarbeiðanda og tekjuöflun, að WOW air hf. fengi að lenda á Keflavíkurflugvelli. Gerðarbeiðandi bendir á að þessi röksemdafærsla standist enga skoðun og mótmælir fyrirfram slíkum rökstuðningi gerðarþola. Gerðarbeiðandi hefði aldrei leyft loftfari sínu að lenda á Keflavíkurflugvelli hefði hann órað fyrir því að hann ætti von á þessari framgöngu gerðarþola og að eign hans væri tekin til tryggingar á margra mánaða vanskilum heils flugfélags, sem safnast hefði upp vegna starfsemi sem var að nær öllu leyti alls ótengd þessu tiltekna loftfari. Bendir gerðarbeiðandi á að enginn skortur sé á aðilum sem vilja leigja flugvélar. Forsenda Landsréttar, í hinum ómerkta úrskurði, sé rökleysa. Með þessum sama hætti mætti segja að starfsemi gerðarbeiðanda sé forsenda fyrir starfsemi og rekstri gerðarþola. Ef engar flugvélar hefðu verið til leigu hefði WOW air hf. aldrei orðið til. Aðleiðsla Landsréttar fái ekki staðist. Beri að hafna henni, og mögulegri viðlíka rökfærslu gerðarþola, sem rangri og haldlausri.

Gerðarbeiðandi mótmælir einnig fyrirfram hvers kyns rökstuðningi, svo sem byggt sé á í hinum ómerkta úrskurði Landsréttar, um að þar sem ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga tilgreini engar takmarkanir sé gerðarþola stætt á að þvinga fram allar greiðslur, hverju nafni sem þær nefnast, með beitingu ákvæðisins. Svo virðist sem Landsréttur hafi talið gerðarþola hafa ótakmarkað svigrúm og heimild til þess að beita úrræðinu að því er virðist að eigin geðþótta. Eins konar opinn tékka til að leyfa skuldasöfnun flugfélags í skjóli þess að hægt sé að þvinga þriðja aðila til greiðslu. Af slíkum forsendum leiði að engu hefði skipt þótt WOW air hf. hefði verið tvöfalt stærra flugfélag og vanskilin hefðu staðið yfir lengur, jafnvel allt frá stofnun flugfélagsins. Slík skýring ákvæðisins fái ekki staðist, og gerðarbeiðandi byggir þvert á móti á því að sú staðreynd, að lagaákvæðið tilgreini hvorki né afmarki gildissvið sitt, sé grunnástæða þess að valdbeiting gerðarþola hljóti að skoðast sem óheimil. Gerðarbeiðandi bendir til hliðsjónar á fordæmi Hæstaréttar um túlkun lagaákvæða sem takmarka mannréttindi, t.a.m. Hrd. 1988, bls. 1532, sbr. eftirfarandi: „Lagaákvæði er takmarka mannréttindi verða að vera ótvíræð. Sé svo ekki, ber að túlka þau einstaklingi í hag, því að mannréttindaákvæði eru sett til verndar einstaklingum en ekki stjórnvöldum.“ Gerðarbeiðandi vísar einnig til Hrd. 1996, bls. 2956, þar sem fram kom eftirfarandi umfjöllun: „Fyrirmæli stjórnarskrárinnar um, að atvinnufrelsi verði ekki skert nema með lagaboði, verða ekki túlkuð öðruvísi en svo, að hinum almenna löggjafa sé óheimilt að fela framkvæmdavaldshöfum óhefta ákvörðun um þessi efni. Löggjöfin verður að mæla fyrir um meginreglur, þar sem fram koma takmörk og umfang þeirrar réttindaskerðingar, sem talin er nauðsynleg.“ Gerðarbeiðandi vísar einnig til  Hrd. 2000, bls. 1621, þar sem fjallað var um eignarréttarákvæði stjórnarskrár, sbr. eftirfarandi: „Í 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 er kveðið á um friðhelgi eignarréttar og í 75. gr. hennar um atvinnufrelsi, sbr. 10. gr. og 13. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995. Má hvorugt skerða nema með lagaboði að því tilskildu, að almenningsþörf krefji. Þessi fyrirmæli stjórnarskrárinnar verða ekki túlkuð öðruvísi en svo, að hinum almenna löggjafa sé óheimilt að fela framkvæmdarvaldshöfum óhefta ákvörðun um þessi efni. Löggjöfin verður að mæla fyrir um meginreglur, þar sem fram komi takmörk og umfang þeirrar réttindaskerðingar, sem talin er nauðsynleg.“

Gerðarbeiðandi telur í þessu ljósi lögskýringu Landsréttar, sem byggt hafi verið á í hinum ómerkta úrskurði, að valdbeiting gerðarþola sé heimil einmitt af því að ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga tilgreini engin mörk, ekki tæka. Ákvörðun gerðarþola sé íþyngjandi og skerði eignarrétt gerðarbeiðanda. Lögskýring Landsréttar feli í sér ótakmarkaða útvíkkun á þvingunarúrræði loftferðalaga gagnvart öðrum en þeim sem hafi stofnað til skuldarinnar. Svo virðist sem Landsréttur hafi talið það gerðarþola til hagsbóta að ákvæðið tilgreini ekki hvers konar tryggingarréttindi það feli í sér og það leiði til ótakmarkaðs svigrúms gerðarþola til að beita lagaheimildinni. Með öðrum orðum að gerðarþola sé heimilt að beita þessari valdheimild eins og honum sýnist. Stjórnarskráin setji löggjafa mörk og óljós og óskýr lagaákvæði sem skerði stjórnarskrárvarin réttindi séu ekki tæk. Telur gerðarbeiðandi með vísan til ofangreindra fordæma að forsendur Landsréttar í hinum ómerkta úrskurði standist ekki og hafnar fyrirfram hvers kyns röksemdum í þá veru.

Umrætt ákvæði loftferðalaga tilgreini ekki hvaða gjöld um sé að ræða og kveður ekki á um hvaða réttindi gerðarþoli hafi. Ákvæðið kveði ekki á um lögveð eða haldsrétt. Þá mæli ákvæðið á engan hátt fyrir um stofnun kröfuréttinda né heldur um heimild gerðarþola til að leita fullnustu í viðkomandi loftfari. Gerðarbeiðandi telur að allur vafi um túlkun ákvæðisins skuli meta honum í hag enda beri að beita því í samræmi við meginreglur stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttar, sem setji ekki bara löggjafa mörk heldur jafnframt þeim sem úrræðinu beiti.

Í þessu samhengi vill gerðarbeiðandi árétta að hann telji það augljóst að með beitingu þvingunarinnar sé gerðarþoli að beita opinberu valdi, sem honum sé falið með lögum, og að allar meginreglur um töku stjórnvaldsákvarðana gildi um þá valdbeitingu.

Ef litið sé til þess með hvaða hætti Hæstiréttur hafi túlkað lagaákvæði sem þó kveða á um stofnun lögveðs eða annarra réttinda gagnvart þriðja manni þá þurfi slík lagaákvæði ekki aðeins að kveða skýrt og nákvæmlega á um slíkan rétt heldur einnig hvað falli nákvæmlega þar undir. Frumskilyrði fyrir stofnun slíkra tryggingaréttinda sé skýr og afdráttarlaus lagaheimild. Ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga nefni ekki hvað felist í réttinum annað en að aftra för og gerðarþoli eigi því ekki kröfurétt, veðrétt, haldsrétt né önnur óbein eignarréttindi í eignum gerðarbeiðanda. Gerðarþoli sé samt sem áður með beitingu valdheimildarinnar að þvinga fram greiðslu eða tryggingu á öllum skuldum þriðja manns sem tengist ekki nema að takmörkuðu leyti loftfari gerðarbeiðanda. Sé því ljóst að ekki sé um samrættar kröfur að ræða, sem sé þó skilyrði fyrir stofnun haldsréttar. Bendir gerðarbeiðandi á að WOW air hf. hafi verið með margar flugvélar í sínum rekstri og margar þeirra honum alls óviðkomandi. Ef umrætt ákvæði loftferðalaga teljist fela í sér ígildi haldsréttar gæti slíkur réttur einungis náð til skuldar sem tengist beint loftfarinu vegna hugtaksskilyrðis haldsréttar um samrætingu. Gerðarbeiðandi hafi hins vegar nú greitt allar kröfur sem tengist loftfarinu TF-GPA.

Gerðarbeiðandi vísar til dóms Hæstaréttar frá 1991, á bls. 138, sem fjallaði um túlkun á þágildandi ákvæði tollalaga. Í því máli hafi því verið hafnað að ógreiddur söluskattur teldist njóta lögveðsheimildar ákvæðisins þar sem það hafi ekki verið sérstaklega tilgreint í ákvæðinu. Ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga hafi ekki að geyma neina tilgreiningu eða afmörkun á því vegna hvaða gjalda gerðarþoli geti beitt ákvæðinu til að þvinga fram greiðslu. Í texta ákvæðisins sé vísað til „gjalda“ án nokkurrar nánari tilgreiningar. Bendir gerðarbeiðandi á að í gjaldskrá og skilmálum gerðarþola séu alls kyns gjöld í rekstri gerðarþola, lendingargjöld, brottfarargjöld, stöðugjöld, flugvallaröryggisgjöld, gjöld vegna öryggisskoðunar við komu farþega frá ríkjum utan Evrópu, innritunargjöld og flugumferðargjöld svo dæmi séu nefnd. Ákvæði loftferðalaga nefni ekkert hvaða gjöld veiti gerðarþola, hinu opinbera hlutafélagi, rétt til að krefjast greiðslu með beitingu þvingunarúrræðisins. Í ljósi ofangreinds dóms Hæstaréttar og þess svigrúms sem gildi um túlkun á ákvæðum sem veiti kröfuhöfum ríkari rétt til þess að þvinga fram greiðslu og ekki síst úr hendi þriðja manns, beri að túlka slík íþyngjandi ákvæði þröngt. Gerðarbeiðandi telur af því leiða að skýrt þurfi að kveða á um það í lagaákvæði loftferðalaga ef gerðarþola skuli ætlað að vera heimilt að þvinga fram greiðslu á öðrum gjöldum en tengist beint því loftfari sem þvingunin beinist gegn.

Vísar gerðarbeiðandi einnig til dóms Hæstaréttar frá 1977, á bls. 1065, þar sem hafi reynt á túlkun ákvæðis þágildandi siglingalaga nr. 66/1963 og það hvort talstöðvargjöld teldust tryggð með sjóveðrétti. Lagaákvæðið tilgreindi að „lestargjöld, vitagjöld, hafnargjöld og önnur slík opinber gjöld“ nytu sjóveðréttar. Þrátt fyrir að ákvæðið tilgreindi „önnur slík opinber gjöld“ taldi Hæstiréttur talstöðvargjöldin ekki njóta sjóveðréttar. Gerðarbeiðandi telur að af þessu megi leiða að opin eða óljós lagaákvæði verði ekki túlkuð rúmt. Allra síst þannig að gengið sé á eignarréttindi aðila. Í tilvitnuðum dómi Hæstaréttar hafi eyðutilvísunin ekki verið talin nægilega skýr til að talstöðvargjöld teldust njóta lögveðréttar í skipinu. Ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga nefnir ekkert í dæmaskyni heldur segir opið og óljóst „gjöld“. Telur gerðarbeiðandi að beiting ákvæðisins með þeim hætti að þvinga fram allar skuldir WOW air hf. án þess að tilgreina eða sundurliða hvaða gjöld það séu og hvernig þau tengist loftfarinu sé andstæð eignarréttarákvæði stjórnarskrár. Landsréttur virtist líta svo á, í hinum ómerkta úrskurði, að það að ekki sé tilgreindur lögveðréttur í ákvæðinu sjálfu leiði til ríkari réttar gerðarþola en í þeim tilvikum sem lögveðréttur sé tryggður með lagaheimild. Þá forsendu telur gerðarbeiðandi vera bersýnilega ranga og mótmælir fyrirfram hvers kyns röksemdum í þá veru.

Þá sé gerðarbeiðandi ósammála þeirri aðleiðslu Landsréttar, sem byggt hafi verið á í hinum ómerkta úrskurði, að tilgangur ákvæðis 1. málsl. 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga sé að tryggja almannahagsmuni og þar með sé beiting gerðarþola á ákvæðinu lögleg. Öllum röksemdum í þá veru er fyrirfram mótmælt.

Gerðarbeiðandi fellst í sjálfu sér á að tilgangur ákvæðisins sé að tryggja almannahagsmuni og að innheimtumaður notendagjalda geti knúið á um greiðslu þeirra. Það eitt og sér geri framgöngu gerðarþola og beitingu ákvæðisins í því tilviki sem hér um ræði ekki löglega. Almannahagsmunir séu tryggðir með því að tryggja að gjöldin séu greidd jafnóðum og til þess sé ákvæði loftferðalaga ætlað. Um leið og gerðarþoli hafi tekið þá viðskiptalegu ákvörðun að leyfa gjöldunum að safnast upp, án þvingana, taldi hann það væntanlega þjóna betur almannahagsmunum að beita heimildinni ekki til þess að þvinga fram greiðslur jafnóðum eins og hans eigin reglur gera ráð fyrir. Rétt sé að árétta hér að gerðarþoli sjálfur hafi metið þá almannahagsmuni sem tengdust áframhaldandi rekstri WOW air hf., án beitingar þvingunarúrræðisins, ríkari en þá almannahagsmuni sem tengdust innheimtu notendagjalda jafnóðum, þar sem beiting þvingunarúrræðisins á fyrri stigum hefði mögulega valdið gjaldþroti WOW air hf. Á þetta hafa forsvarsmenn gerðarþola sjálfir bent og vísað til „viðskiptalegrar ákvörðunar“ um að beita ekki þvinguninni. Gerðarbeiðandi telur ekki standast skoðun að honum sé gert að bera kostnað af þeirri viðskiptalegu ákvörðun gerðarþola og að röksemdafærsla gerðarþola á fyrri stigum um almannahagsmuni, sem Landsréttur gerði að sinni í hinum ómerkta úrskurði, sé innbyrðis mótsögn.

Gerðarbeiðandi byggir á að ekkert í lögum heimili gerðarþola að framkvæma slíkt hagsmunamat. Löggjafinn hafi þegar metið það sem svo að vegna þeirrar þjónustu sem gerðarþoli sinni í almannaþágu sé honum nauðsyn á að hafa yfir að ráða öflugu úrræði til að knýja notendur þjónustunnar um greiðslu notendagjalda. Í því felist af hálfu löggjafans að hann hafi þegar metið það sem svo að þeir hagsmunir vegi þyngra en hagsmunirnir af því að viðhalda rekstri flugfélags í greiðsluerfiðleikum. Það sé því ekki á forræði gerðarþola að endurskoða það mat.

Að mati gerðarbeiðanda verði að skoða beitingu gerðarþola á 1. málsl. 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga í þessu ljósi. Gerðarþoli hafi þannig þegar metið það sem svo að það þjónaði betur almannahagsmunum að tryggja áframhaldandi rekstur WOW air hf., í stað þess að beita heimildinni fyrr og hætta þannig á að hrinda af stað atburðarás sem gæti leitt til gjaldþrots félagsins. Gerðarþoli geti ekki síðar, þegar ljóst hafi verið að tilraunir hans til að tryggja áframhaldandi rekstur WOW air hf. myndu ekki bera árangur, beitt fyrir sig úrræðinu í 1. málsl. 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga með vísan til þess að það sé gert í þágu almannahagsmuna. Gerðarþoli hafi þá þegar metið það sem svo að aðrir hagsmunir og meiri, sem einnig væru í almannaþágu, væru ríkari en hagsmunirnir af innheimtu notendagjalda WOW air hf.

Loks byggir gerðarbeiðandi á því að á gerðarþola, sem sé opinbert hlutafélag, hvíli sérstakar skyldur. Þó gerðarþoli sé ekki stjórnvald í strangasta skilningi þá fari hann með valdheimildir á grundvelli laga og sinni opinberri sýslan að stóru leyti. Ekki síst þegar hann beiti þvingunarúrræði á borð við 1. málsl. 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga. Í þeim tilvikum beri að gera til hans sambærilegar kröfur og gerðar séu endranær til stjórnvalda þegar íþyngjandi stjórnvaldsákvarðanir séu teknar. Bæði til efnis og undirbúnings ákvörðunar.

Ekki fáist séð að neinar meginreglur stjórnsýsluréttar hafi verið virtar þegar við töku ákvörðunar gerðarþola um öftrun farar loftfars gerðarbeiðanda. Hvorki þegar ákvörðunin hafi verið tekin né síðar. Telur gerðarbeiðandi að það eigi að leiða til þess að valdbeitingin sé að vettugi virðandi. Landsréttur hafi enga afstöðu tekið til þessa í hinum ómerkta úrskurði sínum né hvaða áhrif það hafi á heimildir gerðarþola og það hvort hann geti gengið um lagaheimild 1. málsl. 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga eins og um einkaréttarlegt úrræði sé að ræða og beitt í viðskiptalegum tilgangi til tryggingar á fyrirgreiðslu til flugfélags, sem nú sé orðið gjaldþrota.

Gerðarbeiðandi byggir á því að sú ákvörðun gerðarþola að aftra brottför farþegaþotunnar með skráningarnúmer TF-GPA sé augljóslega og án nokkurs vafa ólögmæt, sérstaklega eftir að gerðarbeiðandi sé búinn að greiða þau gjöld sem tengist þotunni TF-GPA. Með ákvörðuninni sé því með ólögmætum hætti komið í veg fyrir full umráð gerðarbeiðanda yfir réttmætri eign sinni og skilyrði 1. mgr. 78. gr. aðfaralaga nr. 90/1989 því uppfyllt til að aðfarargerðin geti farið fram. Gerðarbeiðandi krefst þess því að dómurinn leggi fyrir sýslumanninn á Suðurnesjum að tryggja brottför farþegaþotunnar frá Keflavíkurflugvelli.

Gerðarbeiðandi leggur áherslu á að ekki skuli fresta réttaráhrifum úrskurðar um að heimila aðförina, sbr. 2. mgr. 84. gr. aðfararlaga, verði á hana fallist á annað borð. Meginreglan sé sú að ekki eigi að fallast á kröfu um að málskot fresti aðfarargerð. Heimildin til frestunar á helst við þegar málefnið varðar ófjárhagslega hagsmuni, svo sem þegar úrskurðað er um umráð yfir barni. Gerðarbeiðandi telji ekkert slíkt eiga við í þessu máli. Þá verði gerðarbeiðandi fyrir tjóni hvern dag sem honum er haldið frá því að nýta réttmæta eign sína, sem hann telji gerðarþola bera ábyrgð á, og því sameiginlegir hagsmunir aðila að úrskurður virðulegs dóms geti komið til framkvæmdar strax.

Telja verði að hagsmunir gerðarbeiðanda af skjótri úrlausn málsins séu miklum mun meiri en hagsmunir gerðarþola af frestun réttaráhrifa. Verðmæti farþegaþotunnar sé mörgum sinnum meiri en heildarfjárhæð allra skulda WOW air hf. við gerðarþola. Þá nemi þau gjöld sem tengist TF-GPA sérstaklega einungis brotabroti af verðmæti vélarinnar, en það hlaupi á milljörðum. Í þessu sambandi skipti einnig máli að málatilbúnaður gerðarþola á fyrri stigum hafi að stórum hluta lotið að því að hann telji sig eiga fjárkröfu á hendur gerðarbeiðanda. Hafi gerðarþoli þannig haldið því fram að skýra verði ákvæði 71. gr. loftferðalaga og 1. mgr. 136. gr. á þann veg að bæði umráðandi, þ.e. notandi þjónustu gerðarþola, og eigandi loftfars beri ábyrgð á greiðslu notendagjalda. Málatilbúnaðurinn verði ekki skýrður öðruvísi en svo að gerðarþoli telji sig beina kröfu á hendur gerðarbeiðanda. Eigi gerðarþoli slík réttindi á hendur gerðarbeiðanda sé honum í lófa lagið að fylgja þeim rétti sínum eftir með málshöfðun og breytir í því sambandi engu um hvort loftfar í eigu gerðarbeiðanda sé staðsett á Keflavíkurflugvelli eða ekki. Málsvörn gerðarþola að þessu leyti eigi því ekki að koma í veg fyrir að gerðin nái fram að ganga.

Gerðarbeiðandi byggir á því að taka verði háttsemi gerðarþola til skoðunar við mat á því hvort fallast beri á kröfu hans um að fresta réttaráhrifum úrskurðarins, komi slík krafa fram.

Gerðarbeiðandi höfðaði hið fyrsta aðfararmál í þeirri viðleitni sinni til að fá úr því skorið með eins fljótlegum hætti og kostur sé hvort aðgerðir gerðarþola standist lög. Um leið og niðurstaða héraðsdóms í fyrsta máli lá fyrir hlutaðist gerðarbeiðandi til um að greidd yrðu þau gjöld sem tengdust TF-GPA, jafnvel þótt málatilbúnaður hans hafi lotið að því að honum bæri ekki greiða neinn hluta skulda WOW air hf. Í kjölfarið hugðist gerðarbeiðandi svo einfaldlega höfða annað aðfararmál, svo sem hann svo gerði, til að fá úr því skorið hvort greiðslan dygði til að fá farþegaþotuna afhenta. Gerðarþoli fór hins vegar þá leið að kæra úrskurðinn til Landsréttar, á vægast sagt veikum grunni líkt og Hæstiréttur hefur nú staðfest. Gerðarbeiðandi benti strax á að kæran til Landsréttar stæðist ekki meginreglur réttarfars og tók jafnframt fram að gerðarþoli gæti eftir sem áður tekið til varna í hinu síðara aðfararmáli. Gerðarþoli þyrlaði hins vegar aftur upp réttarfarslegu moldviðri fyrir héraðsdómi til að fá hinu síðara máli vísað frá dómi. Framangreind háttsemi gerðarþola staðfestir svo ekki verði um villst að hann hafi gert flest það sem í hans valdi stendur til að koma í veg fyrir að gerðarbeiðandi fái efnislega úrlausn dómstóla um beitingu gerðarþola á heimild 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga. Hefur hann við hvert tækifæri krafist frávísunar málsins frá héraðsdómi. Kæra hans til Landsréttar, ein sér, hafi tafið málið um átta vikur. Gerðarþoli veit sem rétt sé að það kosti gerðarbeiðanda verulega fjármuni að TF-GPA standi föst á Keflavíkurflugvelli. Nemi tjón gerðarbeiðanda af þeim sökum nú yfir hundrað milljónum króna, þar af hafi það kostað gerðarbeiðanda um 80 milljónir króna meðan beðið var eftir niðurstöðu Landsréttar og svo Hæstaréttar um kæru gerðarþola í átta vikur. Kæru sem aldrei hafi átt rétt á sér, nema þá afmarkað um málskostnað. Gerðarbeiðandi hafi bent á annmarka hennar strax í upphafi. Augljóst sé að gerðarþoli hefur leitast við að tefja málið, eins og honum frekast er unnt, í því skyni að knýja gerðarbeiðanda til að greiða upp skuldir WOW air hf. þegar tjónið af öftrun brottfarar farþegaþotunnar verði orðið óbærilegt. Þær tilraunir hans hafi þegar borið þann ávöxt, sem áður segir.

Gerðarbeiðandi byggir því á að gerðarþoli hafi með háttsemi sinni fyrirgert rétti sínum til að héraðsdómur fallist á kröfu um frestun réttaráhrifa úrskurðarins. Dómurinn verði að sjá í gegnum tilraunir gerðarþola til að afvegaleiða málið og skera á hnútinn, í eitt skipti fyrir öll. Gerðarbeiðandi bendir einnig á að hann beri samkvæmt skýrum fyrirmælum 16. kafla aðfararlaga skaðabótaábyrgð á því tjóni sem gerðarþoli kunni að verða fyrir ef síðar verði leitt í ljós að skilyrði hafi skort til aðfararinnar. Hagsmunir gerðarþola séu því ekki þannig vaxnir að honum sé nauðsyn þess að fá réttaráhrifum gerðarinnar frestað, enda eigi hann þess ávallt kost að höfða mál gegn gerðarbeiðanda telji hann sig eiga lögvarða kröfu á hendur gerðarbeiðanda. Ítrekað sé það sem áður segi að meginreglan sé sú að ekki skuli fresta réttaráhrifum aðfarar þegar hagsmunirnir eru eingöngu fjárhagslegir. Sú meginregla spili að sjálfsögðu saman við skýr ákvæði 16. kafla laganna um skaðabótaábyrgð gerðarbeiðanda á tjóni af völdum gerðarinnar. Í þessu sambandi bendir gerðarbeiðandi einnig á að hann hafi nálgast og reynt að nálgast gerðarþola vegna viðræðna um sameiginlega lausn málsins. Gerðarbeiðandi hafi boðið gerðarþola að setja aðra farþegaþotu, sem einnig hafi verið staðsett á Íslandi þegar WOW air hf. varð gjaldþrota, í stað TF-GPA, þar sem hin síðarnefnda hafði þegar verið leigð til evrópsks flugfélags. Þeim umleitunum var alfarið hafnað af gerðarþola og hafi hann þá borið fyrir sig réttaróvissu.

Gerðarbeiðandi bendir einnig á að upplýsingagjöf gerðarþola hafi verið alls ófullnægjandi og raunar með miklum ólíkindum. Raunar virðist gerðarþoli hafa gert flest það sem í hans valdi stendur til að halda mikilvægum upplýsingum frá gerðarbeiðanda. Þannig hafi gerðarþoli, þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir, aldrei upplýst gerðarbeiðanda um endanlega fjárhæð skulda WOW air hf. við gerðarþola, sem krafist sé greiðslu á gegn því að leysa TF-GPA úr haldi. Þá hafi gerðarþoli ekki á neinu stigi málsins veitt neina sundurliðun á því hvernig gjöldin hafi fallið til vegna hvers loftfars í rekstri WOW air hf. fyrir sig. Þær upplýsingar hafi gerðarbeiðandi þurft að vinna sjálfur. Þá hafi gerðarþoli aldrei upplýst um hvernig innborgunum WOW air hf. hafi verið ráðstafað sem greiðslum inn á tiltekna reikninga, eða hvernig þeim hafi verið ráðstafað upp í greiðslur vaxta og höfuðstóls. Rétt sé að geta þess að þær upplýsingar sem gerðarþoli hafi þó veitt munnlega, um að greiðslum WOW air hf. hafi að öllum líkindum alltaf verið ráðstafað inn á elsta gjaldfallna ógreidda reikning WOW air hf., fá alls kostar ekki staðist miðað við gögn málsins. Það sé því lítið byggjandi á þeim upplýsingum sem þó hafi verið veittar um ráðstöfun innborgana. Framangreindur skortur á upplýsingum sé alvarlegur með hliðsjón af því hversu viðurhlutamikil ákvörðun það sé að aftra brottför loftfars og þegar af þeirri ástæðu geti það ekki verið gerðarbeiðanda sjálfs að reikna það út sjálfur og öðrum kosti giska á hvaða gjöld honum beri með réttu að greiða gegn því að loftfar hans verði leyst úr haldi. Gerðarþola beri samstundis og hann beitir úrræði 1. mgr. 136. gr. að upplýsa nákvæmlega um hvaða gjöld hann telji að eiganda loftfars beri að greiða til að fá það leyst úr haldi og gerðarþoli ber áhættuna af því ef það er ekki gert með fullnægjandi hætti.

Gerðarbeiðandi byggir á því að það standi gerðarþola miklum mun nær að bera hallann af allri réttaróvissu sem kunni að tengjast heimildum hans samkvæmt ákvæði 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga. Framganga og beiting gerðarþola á heimild loftferðalaga sé á hans eigin ábyrgð. Gerðarþoli hafi sjálfur sagt að hann hafi beitt heimildinni margoft áður. Honum ætti því að vera umfang og takmörk heimildarinnar fullljós. Það hafi verið á ábyrgð gerðarþola að haga beitingu úrræðisins með þeim hætti að það haldi fyrir dómi og standist kröfur stjórnarskrár.

Gerðarbeiðandi byggir á því að það eitt að héraðsdómur fallist á að beiting úrræðisins hafi ekki verið í samræmi við lög útiloki að gerðarþoli njóti þess hagræðis að fresta skuli réttaráhrifum þeirrar ákvörðunar meðan beðið er úrlausnar æðri dóms. Gerðarþola beri að beita úrræðinu með þeim hætti að það standist skoðun og það allan þann tíma sem úrræðinu sé beitt. Hafi verið tveir eða fleiri skýringarkostir tækir við túlkun ákvæðisins beri gerðarþola að túlka ákvæðið til samræmis við þann skýringarkost sem sé minnst íþyngjandi fyrir gerðarbeiðanda. Því sé alfarið mótmælt að gerðarbeiðandi þurfi að láta flugvél sína standa á Keflavíkurflugvelli meðan gerðarþoli aflar niðurstöðu dómstóla um umfang og inntak ákvæðis 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga. Það hljóti að vera á ábyrgð gerðaþola að beita ákvæðinu með þeim hætti að vafa geti ekki valdið um heimildina.

Málsástæður og lagarök gerðarþola.

Gerðarþoli krefst þess aðallega að beiðni gerðarbeiðanda verði vísað frá dómi. Til vara krefst gerðarþoli þess að beiðni gerðarbeiðanda verði hafnað.Til þrautavara krefst gerðarþoli krefst þess, verði fallist á beiðni gerðarbeiðanda að einhverju leyti, að í úrskurði héraðsdóms verði kveðið á um að málskot til æðra dóms fresti aðfarargerð á hendur gerðarþola þar til endanlegur úrskurður Landsréttar og eftir atvikum dómur Hæstaréttar gengur.

Þá krefst gerðarþoli þess í öllum tilvikum að honum verði dæmdur málskostnaður úr hendi gerðarbeiðanda að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi.

Gerðarþoli kveður gerðarbeiðanda, ALC A321 7237, LCC, vera dótturfélag eins stærsta leigufyrirtækis heims á loftförum, Air Lease Corporation, sbr. skilgreiningu á  hugtakinu „Parent“ á bls. 8 í Aircraft Lease Agreement milli gerðarbeiðanda og WOW air hf. („WOW“). Móðurfélagið hafi þann háttinn á að stofna sérstakt eignarhaldsfélag um hvert loftfar, en móðurfélagið muni með þeim hætti eiga rúmlega 370 loftför sem séu í leigu úti um allan heim, sbr. heimasíðu Air Lease Corporation, https://airleasecorp.com/. Móðurfélagið sé í viðskiptum við um 200 flugfélög um allan heim og eigi í viðskiptum í um 70 löndum.

Þegar WOW hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta 28. mars 2019 hafi félagið verið með 15 loftför í leigu, þar af hafi sjö loftför verið í eigu móðurfélags gerðarbeiðanda með framangreindum hætti. Þar á meðal hafi tvö loftför sem þá voru staðsett á Keflavíkurflugvelli, TF-SKY og TF-GPA.

Áður en WOW hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta hafi gerðarþoli beint tilkynningu til félagsins um að för loftfarsins TF-GPA yrði aftrað frá Keflavíkurflugvelli þar til greidd hefðu verið gjöld eða trygging sett fyrir greiðslu gjalda sem WOW hafði stofnað til við gerðarþola í starfsemi sinni, eins og heimilt væri samkvæmt 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998 um loftferðir. Þegar tilkynningin var send hafi WOW verið skráð umráðamaður loftfarsins í loftfaraskrá Samgöngustofu en gerðarbeiðandi eigandi þess. Skuld WOW við gerðarþola þegar för loftfarsins hafi verið aftrað hafi numið 1.953.625.714 krónum. Átti þá eftir að taka tillit til gjalda vegna marsmánaðar 2019.

Í kjölfarið hafi gerðarbeiðandi krafist innsetningar í loftfarið þann 17. apríl sl. Gerðarþoli hafi skilaði greinargerð til Héraðsdóms Reykjaness þann 30. apríl 2019 og málflutningur farið fram í Héraðsdómi Reykjaness þann 2. maí 2019. Sama dag hafi verið kveðinn upp úrskurður þar sem fallist var á kröfur gerðarþola um að hafna kröfu gerðarbeiðanda. Hins vegar hafi málskostnaður verið felldur niður.

Forsendur í úrskurði héraðsdóms hafi meðal annars verið á þá leið að gerðarþola væri heimilt að „að hamla för flugvélarinnar TF-GPA frá Keflavíkurflugvelli á meðan gjöld tengd þeirri flugvél eru ógreidd en ekki vegna ógreiddra annarra gjalda WOW air. hf. við ISAVIA vegna flugvéla í eigu þriðja aðila.“ Gerðarþoli hafi talið forsendurnar rangar og kærði því úrskurðinn daginn eftir til Landsréttar og krafðist staðfestingar úrskurðar héraðsdóms um annað en málskostnað.

Þann 6. maí 2019 hafi gerðarbeiðandi sent bréf til gerðarþola þar sem hann tilkynnti að hann hefði innt af hendi greiðslu inn á reikning gerðarþola sem hann kvað vera fyrir gjöldum sem gerðarbeiðandi telji að rekja megi til loftfarsins TF-GPA. Þar með hafi gerðarbeiðandi talið sig vera búinn að greiða kröfur sem hann gæti borið ábyrgð á samkvæmt 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga og þar með væru engin efni til að aftra för TF-GPA af Keflavíkurflugvelli. Bréfinu hafi gerðarþoli svarað sama dag þar sem fram komi að innborganirnar feli hvorki í sér fullnaðargreiðslu né uppgjör á þeim gjöldum sem gerðarþoli telji að gerðarbeiðanda beri að greiða eða setja tryggingu fyrir til að fá loftfarið í hendur.

Í kjölfarið hafi gerðarbeiðandi krafist á ný innsetningar í loftfarið og lagt fram nýja aðfararbeiðni fyrir Héraðsdóm Reykjaness þann 6. maí 2019 í máli nr. A-56/2019. Krafa gerðarbeiðanda hafi verið orðrétt sú sama og hann hafði uppi í máli nr. A-53/2019.

Gerðarbeiðandi hafi ekki kært fyrir sitt leyti úrskurð héraðsdóms í máli A-53/2019 til Landsréttar. Þann 13. maí 2019, sjö dögum eftir að gerðarbeiðandi innti af hendi fyrrnefndar greiðslur til gerðarþola, hafi gerðarbeiðandi skilað greinargerð af sinni hálfu í kærumálinu til Landsréttar. Í greinargerð til Landsréttar hafi gerðarbeiðandi krafist frávísunar málsins en að því frágengnu hafi gerðarbeiðandi krafist staðfestingar á úrskurði héraðsdóms. Þá lagði gerðarbeiðandi fram bréf sitt, dags. 6. maí 2019, og greiðslukvittanir sem ný gögn fyrir Landsrétt.

Með úrskurði 24. maí 2019 hafi Landsréttur staðfest úrskurð héraðsdóms um synjun aðfarargerðarinnar. Hafnaði Landsréttur aðalkröfu gerðarbeiðanda og tók til endurskoðunar forsendur úrskurðar héraðsdóms 2. maí 2019. Hafnaði Landsréttur forsendum héraðsdóms að nánast öllu leyti, leysti úr lagalegum álitaefnum og málsástæðum aðila og rökstuddi staðfestingu á synjun á beiðni gerðarbeiðanda með öðrum hætti en héraðsdómur hafði gert. Hafi Landsréttur talið að gerðarþola hefði verið heimilt að neyta ákvæðis 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998 til að aftra för loftfarsins með auðkenninu TF-GPA vegna ógreiddra notendagjalda, sem WOW air hf. hafi stofnað til vegna hvers kyns starfsemi félagsins á Keflavíkurflugvelli, þar á meðal þjónustu við loftför í eigu annarra en gerðarbeiðanda. Þó svo að gerðarbeiðandi hafi greitt gerðarþola fjárhæðir þann 6. maí 2019 sem gerðarbeiðandi hafi haldið fram að hafi verið til samræmis við forsendur úrskurðar héraðsdóms þá væru engin efni til að heimila brottför loftfarsins TF-GPA. Í forsendum úrskurðar Landsréttar segir að „…ekki liggi fyrir í málinu að varnaraðili hafi greitt eða sett tryggingu fyrir greiðslu allra þeirra gjalda sem  WOW   air   hf.   skuldaði   sóknaraðila   við   gjaldþrot   félagsins   28.   mars   2019   og   beiting greiðsluþvingunarúrræðis 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998 er samkvæmt framansögðu með réttu ætlað að knýja á um að verði greidd.“  

Hafi úrskurðarorð héraðsdóms verið staðfest um annað en málskostnað, en gerðarbeiðandi hafi verið dæmdur til að greiða gerðarþola málskostnað þar sem gerðarbeiðandi hefði tapað málinu í öllum atriðum fyrir héraðsdómi og fyrir Landsrétti.

Þegar úrskurður Landsréttar hafi legið fyrir var kveðinn upp úrskurður í Héraðsdómi Reykjaness í aðfararmáli númer tvö. Með úrskurði héraðsdóms þann 29. maí 2019 í máli A-56/2019 hafi kröfu gerðarbeiðanda verið vísað frá dómi og honum gert að greiða gerðarþola málskostnað. Sagði í forsendum héraðsdóms að gerðarbeiðandi gerði sömu kröfur fyrir dómi og hann gerði í máli nr. A-53/2019. Úrskurður Landsréttar lægi fyrir í því máli og því yrði að vísa máli nr. A-56/2019 frá dómi með vísan til 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991.

Þann 19. júní 2019 hafi Hæstiréttur Íslands veitt gerðarbeiðanda kæruleyfi og þar með heimild til að kæra úrskurð Landsréttar nr. 321/2019 til Hæstaréttar. Í kæru til Hæstaréttar  hafi gerðarbeiðandi krafðist þess aðallega að málinu yrði vísað frá Landsrétti, en til vara að hinn kærði úrskurður yrði staðfestur um annað en málskostnað.

Hæstiréttur hafi kveðið upp dóm í málinu þann 27. júní 2019. Í dóminum hafi rétturinn fyrst tekið fram að gerðarþola hafi verið heimilt að kæra úrskurð héraðsdóms til Landsréttar til staðfestingar og hafnaði þar með frávísunarkröfu gerðarbeiðanda. Þessu næst hafi Hæstiréttur staðfest úrskurð Landsréttar og vísað málinu á ný til Landsréttar til löglegrar meðferðar. Í forsendum dóms Hæstaréttar sé vikið að kröfugerð gerðarbeiðanda fyrir Landsrétti. Þar segir: „Hefði sóknaraðili jafnframt kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti til Landsréttar og krafist þess að breytt yrði niðurstöðu úrskurðarins um að hafna kröfu hans um heimild til aðfarargerðar hefði orðið að taka úrlausn héraðsdóms um einstakar málsástæður aðilanna til endurskoðunar eftir því, sem dómkröfur þeirra hefðu gefið tilefni til, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar 23. mars 1999 í máli nr. 94/1999 og 29. ágúst 2013 í máli nr. 387/2013. Í máli þessu hafi á hinn bóginn ekki staðið þannig á, enda hafi  sóknaraðili ekki kært úrskurðinn, heldur krafðist hann þess að úrskurðurinn yrði staðfestur ef Landsréttur yrði ekki við aðalkröfu hans um að málinu yrði vísað þaðan frá dómi.“

Í dómi Hæstaréttar hafi enn fremur sagt að eins og málið hafi legið fyrir Landsrétti hafi réttinum af framangreindum ástæðum borið að gæta að meginreglu 1. mgr. 98. gr. laga nr. 91/1991, en þar komi fram að sæki stefndi þing í héraði og samþykki hann kröfu stefnanda í einu og öllu skuli leggja dóm á mál þeirra í samræmi við þá afstöðu stefnda. Af reglu þessari, sem hafi gilt við meðferð máls fyrir Landsrétti samkvæmt 166. gr. sömu laga og tekið gæti hvort heldur til dómkröfu aðila í heild eða eingöngu afmarkaðs hluta af henni sem gagnaðili hans hafi samþykkt, hafi það leitt til þess að í dómsúrlausn yrði ekki tekin afstaða til málsástæðna að baki viðkomandi kröfu eða hluta hennar, enda höfðu aðilarnir forræði á sakarefninu, heldur yrði niðurstaða reist á samþykkinu einu og sér. Gilti þá einu hvort aðili lýsti sig sammála málsástæðum gagnaðila síns eða samþykkti kröfu hans af allt öðrum sökum en þeim sem gagnaðilinn hefði byggt á með málsástæðum sínum. Í skilningi 1. mgr. 98. gr. laga nr. 91/1991 fælist í varakröfu gerðarbeiðanda fyrir Landsrétti samþykki á þeim þætti í dómkröfum gerðarþola sem lyti að staðfestingu niðurstöðu héraðsdóms um að synja gerðarbeiðanda um heimild til aðfarargerðar. Samkvæmt framansögðu hafi Landsrétti þegar af þessari ástæðu borið að verða við kröfu gerðarþola og staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um þetta atriði án þess að taka á nokkurn hátt afstöðu til röksemda hans fyrir henni og leysa síðan einvörðungu úr ágreiningi aðilanna um málskostnað í héraði. Í þeirri úrlausn hefði engu getað breytt hvort röksemdir fyrir niðurstöðu héraðsdóms um önnur atriði kynnu í einhverju að hafa þótt ekki geta staðist.

Landsréttur hafi kveðið upp nýjan úrskurð í málinu þann 3. júlí 2019. Í úrskurðinum segi að varakrafa gerðarbeiðanda sé að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þegar af þeirri ástæðu að í varakröfu varnaraðila felist samþykki, í skilningi 1. mgr. 98. gr., sbr.  166.  gr.  laga  nr.  91/1991,  á  þeim  þætti  í  dómkröfum  gerðarbeiðanda,  sem  lúti  að staðfestingu  á  niðurstöðu  héraðsdóms  um    synja  varnaraðila  um  heimild  til aðfarargerðar, verði niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest um annað en málskostnað.

Gerðarbeiðandi hafi nú lagt fram þriðju aðfararbeiðnina, með sömu dómkröfunni um sama sakarefnið og dæmt hafi verið í fyrri tveimur dómsmálum aðila. Krafa gerðarbeiðanda í þessu þriðja innsetningarmáli er orðrétt sú sama og hann hafi haft uppi í máli nr. A-53/2019, þar sem aðfararbeiðni var hafnað. Þetta sé einnig sama krafan og hann hafði uppi í máli nr. A-56/2019, þar sem aðfararbeiðni var vísað frá dómi. Telja verður einsýnt að ekki skipti máli hversu oft aðili beri sama sakarefnið undir dómstóla – niðurstaðan verði ávallt sú sama.

            Gerðarþoli krefst þess aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi.

Gerðarþoli kveður mál þetta vera rekið samkvæmt 13. kafla laga nr. 90/1989 um aðför. Samkvæmt 1. mgr. 84. gr. laganna gildi almennar reglur um meðferð einkamála um rekstur slíkra mála, að því leyti sem ekki sé kveðið á um annars konar málsmeðferð í 13. kafla laganna. Þar af leiðandi verði að ganga út frá því að ef ekki finnst sérregla í kaflanum gildi almennar reglur um málsmeðferð.  

Gerðarþoli telur að í úrskurði Landsréttar frá 3. júlí 2019 í máli nr. 321/2019, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 29/2019 frá 27. júní 2019, felist sú afstaða að með því að kæra ekki fyrir sitt leyti úrskurð héraðsdóms til Landsréttar, en gera í staðinn sömu dómkröfur og gerðarþoli, hafi gerðarbeiðandi samþykkt kröfur gerðarþola fyrir Landsrétti. Í slíku samþykki felist jafnframt samþykki við þeim málatilbúnaði sem kröfurnar séu reistar á. Þetta hafi gerðarbeiðanda verið heimilt, enda hafi hann forræði á sakarefninu. Af þessu leiði að gerðarbeiðandi hefur ráðstafað sakarefni málsins með þeim hætti að hann sé bundinn af samþykki sínu og geti ekki fengið því breytt í síðari dómsmálum. Gerðarþoli byggi þannig á því að réttaráhrif úrskurðar Landsréttar í máli 321/2019, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 29/2019, komi í veg fyrir að gerðarbeiðandi geti borið undir dómstóla á ný sömu kröfu um beiðni um innsetningu milli sömu aðila, um sama hlutinn, við sömu aðstæður og atvik. Engin lagaskilyrði séu til þess að gerðarbeiðandi geti ráðstafað sakarefninu með framangreindum hætti en fengið síðan samþykki sitt við málatilbúnaði gerðarbeiðanda endurskoðað af dómstólum í síðari innsetningarbeiðni, sem sé sama efnis og sú sem hafi legið til grundvallar samþykki hans samkvæmt 1. mgr. 98. gr. eml. Í þessu sambandi bendir gerðarþoli á að gerðarbeiðandi geti ekki haft í hendi sér hvort ágreiningur málsaðila fái úrlausn æðri dóms og í raun aftrað því að gerðarþoli fái notið réttar síns til að fá forsendur og niðurstöðu héraðsdóms endurskoðaða, sem Hæstiréttur sannarlega hafi sagt í dómi sínum að gerðarþoli hefði lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um. Sérstaklega fráleitt væri ef gerðarbeiðandi gæti komið í veg fyrir þennan rétt gerðarþola með því að samþykkja kröfur hans. Verði að skoða ráðstöfun gerðarbeiðanda á sakarefninu í þessu ljósi og beri þegar af þessari ástæðu að vísa kröfu gerðarbeiðanda frá dómi.

Gerðarþoli byggir einnig á því að með því að gerðarbeiðandi krafðist þess í greinargerð þann 13. maí 2019 fyrir Landsrétti að úrskurði héraðsdóms um synjun innsetningar yrði staðfestur, sjö dögum eftir að hann innti af hendi greiðslur til gerðarþola 6. maí 2019, hafi gerðarbeiðandi með þeirri málflutningsyfirlýsingu fallist á allar málsástæður og röksemdir gerðarþola til að aftra för flugvélarinnar. Með yfirlýsingu sinni hafi gerðarbeiðandi samþykkt að gerðarþola hafi verið heimilt að beita 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga og að gerðarbeiðanda hafi ekki með ólögmætum hætti verið aftrað að neyta réttinda sinna í skilningi 78. gr. afl. Með greiðslum þann 6. maí 2019 og síðar kröfugerð gerðarbeiðanda fyrir Landsrétti hafi falist bindandi ráðstöfun á sakarefninu að þessu leyti.

Vegna bindandi réttaráhrifa úrskurðar Landsréttar nr. 321/2019 þann 3. júlí 2019 og fyrrnefndra athafna gerðarbeiðanda geti hann ekki í nýju innsetningarmáli krafist þess að fá innsetningu í loftfarið með vísan til þess að hafa greitt gjöld sem tengjast eingöngu TF-GPA enda hafði gerðarbeiðandi þá þegar krafist þess fyrir dómstólum að staðfest yrði synjun á innsetningu þrátt fyrir greiðsluna. Málsástæðu um þetta atriði hefði gerðarbeiðandi í síðasta lagi getað haft uppi í kærumálinu til Landsréttar í máli nr. 321/2019 með því að gagnkæra úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti, eins og fram komi í dómi Hæstaréttar, sem gerðarbeiðandi hafi ekki gert. Leiði bindandi réttaráhrif niðurstöðu úrskurðar Landsréttar ásamt útilokunarreglu 5. mgr. 101. gr. eml. til þess að gerðarbeiðandi geti ekki nú krafist innsetningar á þeim grunni að hann hafi innt af hendi greiðslu sem hann telji að jafna megi til gjalda „…sem tengjast TF-GPA.“ Beri þegar af þessari ástæðu að hafna kröfu gerðarbeiðanda.

Þá byggir gerðarþoli á því að úrskurður Landsréttar hafi bindandi áhrif samkvæmt 1. og 2. mgr. 116. gr. eml. Samkvæmt 1. mgr. 116. gr. eml. sé dómur bindandi um úrslit sakarefnis milli aðila um þær kröfur sem þar séu dæmdar að efni til. Samkvæmt 2. mgr. 116. gr. verði krafa sem hafi verið dæmd að efni til ekki borin aftur undir sama eða hliðsettan dómstól. Þessum almennu reglum sé ætlað að koma í veg fyrir að í gildi séu tvær dómsúrlausnir um sama sakarefnið á sama tíma. Ákvæðið gildi um rekstur mála samkvæmt aðfararlögum.

Samkvæmt 1. mgr. 84. gr. afl. feli úrskurður Landsréttar í sér efnislega lokaafgreiðslu ágreiningsmáls sem rekið hafi verið fyrir héraðsdómi, samsvarandi við efnisdóm í einkamáli. Vegna þessa hafi endanlegir úrskurðir Landsréttar í aðfararmálum réttaráhrif samkvæmt 1. og 2. mgr. 116. gr. eml. út frá reglum um valdmörk dómstóla. Með uppkvaðningu dóms eða úrskurðar Landsréttar falli niður réttaráhrif úrlausnar héraðsdóms og séu úrlausnir Landsréttar æðri úrlausnum héraðsdóms. Þessar röksemdir gildi fullum fetum um dómsúrlausnir í aðfararmálum skv. 13. kafla aðfararlaga. Megi m.a. benda á að í 2. mgr. 83. gr. afl. komi fram að grundvallarregla réttarfars um res judicata áhrif dóma á við um aðfararmál. Leiði það einnig beint af 116. gr. eml., sbr. 1. mgr. 84. gr. afl. Af því leiði að óheimilt er að bera sama sakarefnið aftur undir dómstól. Þar sem gerðarbeiðandi krefjist efnislegrar úrlausnar um kröfu sem þegar hafi verið fjallað og úrskurðað um af dómstóli beri að vísa málinu frá dómi á grundvelli 2. mgr. 116. gr. eml.

Þá byggir gerðarþoli á því að meginreglur réttarfars komi í veg fyrir að gerðarbeiðandi geti höfðað nýtt innsetningarmál milli sömu aðila, um sama hlut og styðjast við sömu atvik og aðstöðu með því að bera fyrir sig aðrar málsástæður eða önnur lagarök, sbr. 5. mgr. 101. gr. eml. Gerðarþoli byggir á þeirri meginreglu réttarfars að láti gerðarbeiðandi undir höfuð leggjast að halda uppi málsástæðum  sem hann hefði átt að tefla fram í fyrra máli þegar tilefni gafst til, girði 5. mgr. 101. gr. eml. fyrir að hann geti haldið þeim fram í síðara máli með sömu kröfugerð í nýrri málssókn milli sömu aðila um sama hlut, aðstæður og atvik. Allar þær málsástæður sem gerðarbeiðandi hafi uppi í þessu máli hafði hann ýmist uppi í hinu fyrsta innsetningarmáli nr. A-53/2019 og öðru nr. A-56/2019 eða hefði átt að hafa þær þar uppi. Beri að vísa máli hans frá dómi af þeim sökum skv. 2. mgr. 116. gr. eml. auk þess sem óheimilt sé að byggja á hinum nýju málsástæðum gerðarbeiðanda. Í greinargerð gerðarþola til Hæstaréttar á dskj. nr. 43 sé að finna yfirlit yfir nýjar málsástæður gerðarbeiðanda. Vísast til þess.

Skýrasta fordæmið um rétta dómsúrlausn í máli þessu sé úrskurður héraðsdóms í málinu nr. A-56/2019. Atvik í því máli eru nákvæmlega þau sömu og í þessu máli. Í báðum tilvikum liggi fyrir úrskurður Landsréttar þar sem deila aðila er leidd til lykta efnislega og með endanlegum hætti. Sakarefnið sem nú sé borið að nýju undir héraðsdóm sé nákvæmlega það sama og var til úrlausnar fyrir Landsrétti og er ítrekað að þegar gerðarbeiðandi hafi skilað greinargerð til Landsréttar með kröfum sínum og röksemdum (og ákvað að gagnkæra ekki fyrsta úrskurð héraðsdóms) hafi hann þá þegar innt af hendi greiðslu til gerðarþola. Landsréttur hafi því tekið afstöðu til málsins að teknu tilliti til greiðslunnar í báðum úrskurðum sínum. Þar af leiðandi sé sakarefni þessa máls nákvæmlega það sama og hafi verið afgreitt með bindandi dómsúrlausn Landsréttar. Niðurstaðan nú hljóti því að verða sú sama og í málinu nr. A-56/2019.

Gerðarþoli krefst þess til vara að aðfararbeiðni gerðarbeiðanda verði hafnað. Sé til stuðnings kröfunni byggt á sömu málsástæðum og hafðar séu uppi til stuðnings aðalkröfu gerðarþola um frávísun, en vegna sérstöðu aðfararmála leiði gallar á formhlið máls allt eins til höfnunar og frávísunar aðfararbeiðni. Að auki sé byggt á þeim málsástæðum sem greinir í eftirfarandi umfjöllun.

Aðfararlög byggjast á þeirri grundvallarreglu að aðför fari ekki fram nema á grundvelli dómsúrlausnar um aðfararheimild eða sátt. Sérkenni innsetningargerða sem fari eftir 12. kafla afl., sbr. 3. mgr. 1. gr. afl., sé að þær fari fram án þess að fyrir liggi aðfararheimild skv. 1. mgr. 1. gr. afl. Séu innsetningargerðir því þröngt afmarkaðar undantekningar frá fyrrnefndri grundvallarreglu. Mat dómstóla á því, sbr. 13. kafla afl., hvort fullnægja megi skyldu án þess að fyrir liggi aðfararheimild sé strangt. Forsendur og grundvöllur hins stranga mats fari meðal annars fram á grundvelli fyrirmæla í 3. mgr. 83. gr. afl. Þar komi fram að að jafnaði skuli aðfararbeiðni hafnað ef varhugavert verði talið að gerðin nái fram að ganga á grundvelli þeirra takmörkuðu sönnunargagna, sem heimilt sé að afla samkvæmt ákvæðum 13. kafla afl.

Í greinargerð með 78. gr. afl. sé skilyrðum fyrir því að beiðni um innsetningargerð nái fram að ganga, lýst með þeim orðum, að gerðarbeiðandi eigi svo ljós réttindi, að sönnur verði færðar fyrir þeim með þeim gögnum, sem afla megi fyrir dómi samkvæmt reglum 83. gr.  Síðar segi um sömu grein:  „Í fræðikenningum jafnt sem dómaframkvæmd hefur löngum verið byggt á því, að það sé skilyrði beinnar aðfarargerðar að krafa gerðarbeiðanda sé skýr eða ljós; að um skýlaus réttindi sé að ræða eða að réttmæti kröfu gerðarbeiðanda sé það ljóst, að öldungis megi jafna til að dómur hafi gengið um hana.“

Í dómaframkvæmd hafi allur vafi um rétt gerðarbeiðanda, þ.e. að réttur hans sé svo skýr og ótvíræður að hann gangi framar rétti gerðarþola, ávallt leitt til þess að dómstólar hafni innsetningu. Sé t.d. vafi um umfang réttinda, kröfur gerðarbeiðanda eða gögn óljós eða misvísandi hafi slíkar aðstæður leitt til þeirrar niðurstöðu að varhugavert hafi þótt í ljósi 3. mgr. 83. gr. afl. að gerðin nái fram að ganga.  

Eins og lýst sé í greinargerð gerðarþola í m.a. fyrsta aðfararmálinu, málsgreinum 58-61, séu kröfur gerðarbeiðanda og málsástæður studdar við svo umdeildar og flóknar atvikalýsingar og málsástæður að útilokað sé að leiða sakarefnið til lykta með beinni aðfarargerð. Mótmælir gerðarþoli þeim fjölmörgu málsástæðum sem gerðarbeiðandi styðst við sem röngum og ósönnuðum. Eigi það sérstaklega við um fjárhæð gjalda sem beinlínis tengist þjónustu við loftfarið TF-GPA. Gerðarbeiðandi beri sönnunarbyrði fyrir þessum fullyrðingum. Útreikningurinn byggist á dómskjali nr. 25 sem sé ekki sönnunargagn í skilningi X. kafla eml., heldur útbúið sérstaklega af gerðarbeiðanda. Hafi gerðarþoli ávallt áskilið sér rétt til að mótmæla þeirri fjárhæð, og telur gerðarþoli að niðurstaða um fjárhæðina verði ekki fengin í aðfararmáli heldur almennu dómsmáli, eftir atvikum að undangenginni matsgerð. Telur gerðarþoli að við þessar aðstæður sé varhugavert að gerðin nái fram að ganga og beri því að hafna henni, sbr. lokamálslið 3. mgr. 83. gr. afl.

Þá byggir gerðarþoli á því að mat dómstóla á því hvort fullnægja megi skyldu án þess að fyrir liggi aðfararheimild, byggist á því hvort meintur eignarréttur gerðarbeiðanda á loftfarinu gangi framar efni 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga sem veiti gerðarþola lögbundinn rétt og heimild til að aftra för loftfars af flugvelli uns gjöld séu greidd eða trygging sett fyrir greiðslu vegna þess loftfars sem í hlut eigi eða annarrar starfsemi hlutaðeigandi eiganda eða umráðanda loftfarsins.

Jafnvel þótt Hæstiréttur hafi með dómi sínum ómerkt fyrri úrskurð Landsréttar í málinu, verði að líta til þess að sú ómerking hafi verið vegna þess að gerðarbeiðandi hafi samþykkt allar dómkröfur gerðarþola er lutu að innsetningarbeiðni gerðarþola. Þegar af þeirri ástæðu hafi borið að fallast á kröfur gerðarþola fyrir Landsrétti og taldi Hæstiréttur að Landsréttur hafi farið út fyrir hlutverk sitt með því að taka efnislega afstöðu til málsástæðna aðila. Þrátt fyrir það sé sú sérstaka aðstaða fyrir hendi að fyrir liggi efnisleg úrlausn Landsréttar um þær dómkröfur og málsástæður sem hafðar séu uppi í þessu máli. Í fyrri dómsúrlausn Landsréttar hafi verið talið að gerðarbeiðandi hafi ekki sýnt fram á að réttur hans sé svo ótvíræður og skýr að hann gangi framar heimild gerðarþola samkvæmt 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga. Ekki verði betur séð en að í dómi Hæstaréttar nr. 29/2019 sé með óbeinum hætti tekið undir þá niðurstöðu. Þá hafi gerðarbeiðandi ráðstafað sakarefni málsins með bindandi hætti, bæði með greiðslum til gerðarþola og með þeim viðurkennt rétt gerðarþola til að beita ákvæði 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga, en auk þess hafi hann með kröfugerð sinni fyrir Landsrétti farið fram á staðfestingu á því að gerðinni skyldi hafnað þrátt fyrir þær greiðslur. Vísar gerðarþoli til lögskýringargagna með 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga og einnig dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. E-4565/2013. Hljóti þessi aðstaða, þ.e. samþykki gerðarbeiðanda á málatilbúnaði gerðarþola, í öllu falli að leiða til þess að varhugavert sé að gerðin nái fram að ganga í skilningi 3. mgr. 83. gr. afl.

Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið sé að mati gerðaþola hafið yfir allan vafa að réttur gerðarbeiðanda víki fyrir lögbundnum rétti gerðarþola til þess að aftra för loftfarsins TF-GPA. Verði af þeim sökum að hafna beiðni gerðarbeiðanda.

Dómur Hæstaréttar Íslands þann 27. júní 2019 um ómerkingu á úrskurði Landsréttar þann 24. maí 2019 byggist eingöngu að því að réttarfarsskilyrðum hafi ekki verið fullnægt við meðferð málsins fyrir Landsrétti. Hins vegar verði, eins og fyrr segi, ekki fram hjá því litið að Landsréttur hafi efnislega leyst úr þeim lagaatriðum og málsástæðum sem til skoðunar hafi verið í því máli en þær eigi sömuleiðis við um þetta mál. Landsréttur hafi leyst með öðrum hætti úr lagaatriðum og málsástæðum en héraðsdómur hafi gert í úrskurði nr. A-53/2019 þann 2. maí 2019 og tekið undir málsástæður, túlkun og skýringar gerðarþola á efni og inntaki 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga. Komi það m.a. fram í málskostnaðarákvörðun Landsréttar í hinum ómerkta úrskurði þann 24. maí 2019, þar sem gerðarbeiðandi sé látinn bera málskostnað þar sem hann hafi tapað málinu í öllu verulegu í héraði og fyrir Landsrétti.  

Gerðarbeiðandi telur að í reynd taki Hæstiréttur undir með Landsrétti um að skýring héraðsdóms á ákvæði 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga sé ekki í samræmi við efni ákvæðisins eða lögskýringargögn að baki núgildandi ákvæði 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga. Leggi Hæstiréttur lykkju á leið sína og tiltaki í þessu samhengi að Landsrétti hefði borið að leysa úr málinu á grundvelli samþykkis gerðarbeiðanda við málatilbúnaði gerðarþola á grundvelli 1. mgr. 98. gr. eml., jafnvel þótt niðurstöður héraðsdóms um önnur atriði „…kynnu í einhverju að hafa  þótt  ekki  geta staðist.“ Framangreind ummæli bendi, að mati gerðarþola, til þess að Hæstiréttur taki undir lagalega úrlausn Landsréttar í málinu.

Sambærilegar vísbendingar sé að finna í síðari úrskurði Landsréttar frá 3. júlí sl. í málinu nr. 321/2019, en í forsendum hans segir: „Í kærumáli þessu, eins og það er lagt fyrir Landsrétt, verður ekki tekin afstaða til þess hvort forsendur hins  kærða  úrskurðar  um  önnur  atriði  en  lúta    niðurstöðu úrskurðarins standist. Þannig verður ekki tekin afstaða til þess hvort sóknaraðili eigi kröfu á hendur  varnaraðila um greiðslu þeirra gjalda sem WOW air  hf. stofnaði  til gagnvart sóknaraðila og heldur ekki til þess hvaða gjöld varnaraðili þarf að greiða eða setja tryggingu fyrir til þess að létt verði af flugvélinni TF-GPA þvingunarúrræði 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998 um loftferðir.“ Gerðarþoli telur að ráða megi af þessari lykkju sem Landsréttur lagði á leið sína í forsendum úrskurðarins, til að taka af allan vafa um hvað fælist ekki í úrskurðinum, að Landsréttur sé enn sömu skoðunar um efnislega skýringu á 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga og þegar fyrri úrskurður réttarins hafi verið kveðinn upp.

Úrlausn Landsréttar á lagalegum úrlausnarefnum, þótt hana sé að finna í ómerktum úrskurði réttarins, skipti að mati gerðarþola verulegu máli fyrir þetta mál. Sé þar fjallað um öll sömu lagalegu álitaefni milli sömu aðila og séu uppi í þessu máli, kröfugerð gerðarbeiðanda í þessu máli sé sú sama og atvik og aðstæður allar þær sömu. Telji gerðarþoli einsýnt að Landsréttur mun leysa efnislega úr því innsetningarmáli sem hér sé fyrir dómi með sama hætti og fram komi í hinum ómerkta úrskurði, komist málið einhvern tímann á það stig að fá þar efnisumfjöllun að nýju.

Gerðarþoli byggir á öllum sömu röksemdum, málsástæðum og lagasjónarmiðum og fyrri úrskurður Landsréttar sé reistur á.

Gerðarþoli kveður skilyrði beinnar aðfarargerðar koma fram í 78. og 83. gr. afl. Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. afl. geti sá krafist útburðar eða innsetningar, sem er „…með ólögmætum hætti aftrað að neyta réttinda, sem hann tjáir sig eiga og telur svo ljós, að sönnur verði færðar fyrir þeim með gögnum, sem aflað verður skv. 83. gr.“ Samkvæmt 3. mgr. 83. gr. laganna sé einungis heimilt að færa fram skjalleg sönnunargögn til stuðnings beinni aðfarargerð og skuli aðfararbeiðni að jafnaði hafnað ef varhugavert verði talið að gerðin nái fram að ganga á grundvelli þeirra sönnunargagna sem heimilt sé að afla samkvæmt ákvæðinu.

Í greinargerð gerðarþola í dómsmálinu nr. A-53/2019, sem og í greinargerð gerðarþola til Landsréttar í málinu nr. 321/2019, greinargerð gerðarþola til Hæstaréttar í málinu nr. 29/2019 og í greinargerð gerðarþola til héraðsdóms í málinu nr. A-56/2019, séu raktar málsástæður gerðarþola fyrir höfnun innsetningar. Séu þær röksemdir hér með gerðar að hluta að greinargerð þessari.

Samkvæmt 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga er gerðarþola heimilt að aftra för loftfars „...uns gjöld eru greidd eða trygging sett fyrir greiðslu vegna þess loftfars sem í hlut á eða annarrar starfsemi hlutaðeigandi [...] umráðanda loftfarsins.“ Ákvæðið vísi til greiðslu lögmætra gjalda á grundvelli 71. gr. laganna. Sömu heimildir komi skýrlega fram í almennum viðskipta- og samningsskilmálum gerðarþola sem gerðarbeiðandi hafi vitað um eða mátt vera kunnugt um, sbr. grein 3.6 skilmálanna.

Óumdeilt sé að þegar loftfarinu TF-GPA hafi verið öftruð för frá Keflavíkurflugvelli hafi WOW air verið umráðamaður þess og hafi auk þess hvorki verið lýst gjaldþrota né misst flugrekstrarleyfi sitt. Jafnframt sé óumdeilt að WOW skuldi gerðarþola háar fjárhæðir, bæði vegna þjónustu við umrætt loftfar sem og vegna annarrar starfsemi WOW á Keflavíkurflugvelli og í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Áréttað sé að mat á því hvort gerðarþola hafi verið heimilt að aftra för loftfarsins miðist að sjálfsögðu við aðstöðuna þegar för loftfarsins var aftrað. Breytingar á stöðu aðila eftir það tímamark, svo sem með skráningu í loftfaraskrá eða töku WOW til gjaldþrotaskipta, breyti engu, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í málinu nr. 692/2010. Ef aðgerðin hafi verið lögmæt í öndverðu sé hún það enn.

Tilkynningu um öftrun farar loftfarsins hafi verið beint að WOW air hf. áður en félagið hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta og þegar félagið var skráður umráðamaður loftfarsins í loftaraskrá Samgöngustofu. Slíka tilkynningu þurfi ekki líka að senda eiganda loftfarsins og hafi það því engin réttaráhrif hvenær eigandi sé upplýstur um stöðvun farar loftfarsins.

Jafnvel þótt gerðarbeiðandi hafi nú einhliða innt af hendi greiðslu sem hann telji nema gjöldum „vegna þess loftfars sem í hlut á“ hafi hvorki verið innt af hendi greiðsla né sett trygging vegna „annarrar starfsemi hlutaðeigandi  […] umráðanda loftfarsins.“ Þar af leiðandi sé gerðarþola enn heimilt að aftra för loftfarsins. Ótvírætt orðalag ákvæðisins sjálfs, sem og öll lögskýringargögn við núgildandi 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga og forvera ákvæðisins styðji þessa skýringu, sbr. málsgr. 16-29 í greinargerð gerðarþola til Landsréttar. Í hinum ómerkta úrskurði Landsréttar leggi rétturinn til grundvallar að ekki sé ágreiningur með aðilum um að atvik hafi átt sér stað í þeirri tímaröð sem þar sé rakin og að líta verði svo á að greiðsluþvingunin sem gerðarþoli hafi sent WOW air hf. kl. 1.49 að morgni 28. mars 2019 haldi gildi sínu þrátt fyrir atburði er hafi gerst síðar sama dag, á sama hátt og haldsréttur og önnur tryggingarúrræði hefðu gert.

 Gerðarþoli mótmælir því sem fram komi í aðfararbeiðni að ráða megi af greinargerð  með frumvarpi er síðar varð að lögum nr. 34/1964, þar sem 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga hafi verið fyrst lögfest, sbr. 149. gr. laga nr. 34/1964 og samhengi þeirra við hinn svokallaða Chicago sáttmála, „…að ekki hafi þótt ástæða til að veita flugvallaryfirvöldum eiginleg tryggingarréttindi yfir loftfari, heldur einungis úrræði til að knýja á um greiðslu notendagjalda og að þau væru greidd jafnóðum og markmiðið því að koma í veg fyrir uppsöfnun þeirra.“ Í greinargerð með 148. gr. frumvarpsins, er varð að 149. gr. laga nr. 34/1964, sé vísað til ákvæðis 77. gr. frumvarpsins en þar segi jafnframt eftirfarandi: „Það hefur verið rætt rækilega á Norðurlöndum, hvort ákvæði þetta væri samrýmanlegt ákvæðum sáttmála um alþjóðlega viðurkenningu á réttindum í loftförum, sem undirritaður var 19. júní 1948, en í sáttmálanum er eigi nefndur sá réttur flugvallareiganda, sem í 148. gr. getur. Eigi verður séð, að ákvæði 148. gr. rekist á sáttmálann þar sem flugvellir eru frumskilyrði þess, að loftför verði hagnýtt.“ Í ljósi tilvitnaðs texta í frumvarpinu, greinargerð og lagatextans megi ljóst vera að fullyrðingar gerðarbeiðanda séu beinlínis rangar og verði á engan hátt séð að söguleg þróun ákvæðis 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga styðji á nokkurn hátt við málatilbúnað gerðarbeiðanda.

Gerðarþoli er ósammála þeirri skýringu á 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga sem komi fram í úrskurði héraðsdóms í málinu nr. A-53/2019 og gerðarþoli byggir nú allan málatilbúnað sinn á. Í úrskurðinum komi m.a. fram að ekki sé að finna í lögskýringargögnum hvað löggjafinn eigi við með orðunum „annarrar starfsemi hlutaðeigandi eiganda eða umráðanda loftfarsins“. Gerðarþoli bendir á að í athugasemdum við 136. gr. í frumvarpi til loftferðalaga, sem lagt var fram á 122. löggjafarþingi 1997-98 og síðar varð að lögum nr. 60/1998, segir: „…gildissviðið hefur verið útvíkkað nokkuð frá því sem gilt hefur, því samkvæmt núgildandi ákvæðum takmarkast beiting þessarar heimildar við síðustu lendingu þess loftfars sem í hlut á.“

Gerðarþoli telur ljóst að með því að „útvíkka [ákvæðið] nokkuð“ frá því þegar það takmarkaðist við síðustu lendingu þess loftfars sem í hlut á, hafi ætlunin augljóslega verið að ákvæðið tæki til fleiri tilvika og gjalda en einungis þeirra er tengdust viðkomandi loftfari. Var útvíkkuninni ætlað að ná til gjalda vegna „annarrar starfsemi flugrekandans“ eins og augljóst er af orðalaginu í hinu breytta ákvæði. Hvorki í lagaákvæðinu sjálfu, greinargerð með því né öðrum lögskýringargögnum er að finna ráðagerð um að ákvæðið taki aðeins til gjalda vegna viðkomandi loftfars. Hefði það verið ætlunin hefði ákvæðið verið orðað með þeim hætti og varla talað um það í lögskýringargögnum að verið væri að „útvíkka [það] nokkuð“.

Gerðarþoli telur að þegar með setningu ákvæðis 136. gr. með loftferðalögum nr. 60/1998 hafi verið komin skýr heimild fyrir rekstraraðila flugvallar til að aftra för loftfars á vegum flugrekanda, óháð eignarhaldi þess, vegna ógreiddra gjalda í starfsemi flugrekandans. Þá bendi gerðarþoli á að Alþingi hafi breytt ákvæði 136. gr. loftferðalaga að efni til þrisvar sinnum frá þeim tímapunkti. Varpi umræddar breytingar ótvíræðu ljósi á tilgang og efnisinnihald ákvæðisins.

Árið 2002 hafi verið gerð breyting á ákvæði 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga, með 18. gr. laga nr. 21/2002. Hafi gildissvið ákvæðisins verið útvíkkað með því að láta greiðsluþvingunarúrræðið ná til allra eigenda eða umráðenda loftfara. Í frumvarpi til breytinga á loftferðalögum sem síðar hafi orðið að lögum nr. 21/2002 hafi verið að finna svofellt ákvæði: „18. gr. 136. gr. laganna orðast svo: Flugmálastjórn Íslands er heimilt að aftra för loftfars af flugvelli uns gjöld eru greidd eða trygging sett fyrir greiðslu vegna þess loftfars sem í hlut á eða annarrar starfsemi hlutaðeigandi eiganda eða umráðanda loftfarsins.“ Breyting frá fyrra orðalagi 1. mgr. 136. gr. í lögum nr. 60/1998 er undirstrikuð.

Í greinargerð með ákvæðinu segi: „Ákvæði núgildandi 136. gr. loftferðalaga lúta að tvennu, annars vegar þeirri heimild til greiðsluþvingunar sem felst í því að meina brottflug loftfari flugrekanda sem skuldar Flugmálastjórn Íslands gjöld, sem starfsemi hans varða, og hins vegar að því að knýja leyfis- og skírteinishafa til að rækja skyldur sínar að viðlögðum dagsektum. Í þeirri umorðun ákvæðisins sem lögð er til er vikið að þessu sama, en nýmælin felast í ákvæðum um févíti, auk þess sem dagsektaákvæðin eru gerð mun ítarlegri og skýrari. Eins og greiðsluþvingunarheimildin er orðuð í lögunum í dag er hún bundin flugrekendum en með frumvarpinu er lagt til að hún verði útvíkkuð til allra eigenda eða umráðenda loftfara.

Gildissvið 136. gr. loftferðalaga allt frá setningu laganna árið 1998 sé þannig staðfest í greinargerðinni, greiðsluþvingunarheimildin nái til allra gjalda „sem starfsemi [flugrekandans] varða“. Skýrara geti það ekki verið og augljóst að ákvæðið nái til allra gjalda, en ekki eingöngu gjalda vegna viðkomandi vélar sem aftrað sé för. Þá sé greiðsluþvingunarheimildin útvíkkuð með breytingunni frá 2002 þannig að í stað þess að heimildin nái til starfsemi flugrekanda sé gerðarþola heimilað að stöðva för loftfars vegna ógreiddra gjalda „eiganda eða umráðanda“ viðkomandi loftfars.

Orðið „gjöld“ í greinargerðinni vísi til gjaldtökuheimildar 71. gr. loftferðalaga. Staðfest sé í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 29/2019 að för loftfarsins TF-GPA sé aftrað vegna slíkra gjalda, en þar segi: „Fyrir liggur að í lok febrúar 2019 hafi WOW air hf. staðið í skuld við varnaraðila að fjárhæð 1.953.625.714 krónur vegna svonefndra notendagjalda í tengslum við starfsemi félagsins á Keflavíkurflugvelli, sbr. 71. gr. laga nr. 60/1998, en svo virðist sem þau gjöld hafi safnast upp með vanskilum allt frá júní 2018.“

Efnisleg afstaða Landsréttar í hinum ómerkta úrskurði sé í samræmi við framangreind lögskýringargögn. Telji Landsréttur að í 1.  mgr.  136.  gr.  laga  nr.  60/1998  felist lögheimiluð greiðsluþvingun sem beitt verði uns gjöld séu greidd vegna  þess  loftfars  sem  aftrað    farar  eða  annarrar  starfsemi  hlutaðeigandi  eiganda  eða  umráðanda loftfarsins, þar á meðal gjalda sem séu til komin vegna annars loftfars í umráðum sama umráðanda en í eigu annars eiganda, eða trygging sett fyrir greiðslu þessara gjalda. Ákvæðinu sé þannig berum orðum ætlað að þvinga eiganda eða umráðanda loftfarsins til þess að greiða hvers kyns gjöld fyrir þjónustu sem eigandi eða umráðandi hafi þegið af þeim sem starfræki flugvöll eða flugleiðsöguþjónustu. Ekki sé    finna  í  ákvæðinu  neinar  takmarkanir  á  umfangi  þeirra  gjalda  sem  heimilt      þvinga  fram greiðslur á með því að aftra för loftfars eða hversu lengi vanskil megi hafa staðið. Þá verði ekki ráðið af ákvæðinu að samningar við umráðanda loftfars um greiðslufrest á vangreiddum gjöldum geti komið í veg fyrir beitingu greiðsluþvingunar gagnvart eiganda.

Engum vafa sé því undirorpið að greiðsluþvingunarheimildin nái bæði til gjalda vegna viðkomandi loftfars og „annarrar starfsemi“ umráðandans eða eigandans. Í greinargerðinni sé vísað til „…greiðsluþvingunar sem felst í því að meina brottflug loftfari flugrekanda sem skuldar Flugmálastjórn Íslands gjöld, sem starfsemi hans varða...“. Hér sé vísað til allra gjalda umráðanda loftfars, sem séu ógreidd, vegna starfsemi hans á flugvellinum. Orðalag 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga sé þar af leiðandi mjög skýrt og lögskýringargögn taki af allan vafa um efnisinnihald þess.

Þessi skýring á ákvæðinu fái einnig ótvíræða stoð í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. E-4565/2013.

Ákvæði 136. gr. loftferðalaga mæli fyrir um réttindi til handa gerðarþola sem svari til lögbundins haldsréttar enda séu öll hugtaksskilyrði haldsréttar uppfyllt með orðalagi ákvæðisins. Samkvæmt orðalagi þess megi beita því gagnvart loftfari flugrekanda, hvort sem flugrekandinn sé eigandi eða umráðamaður loftfarsins. Heimildinni megi beita vegna ógreiddra gjalda umráðanda loftfars hvenær sem er meðan á rekstrinum stendur og nái heimildin til heimtu skulda sem tengist viðkomandi loftfari sem og skulda vegna annarrar starfsemi viðkomandi umráðanda. Í heimildinni felist að aftra megi för loftfarsins þar til skuldin sé greidd eða trygging sett fyrir henni. Sé tilgangur ákvæðisins augljóslega hinn sami og haldsréttar, þ.e. að knýja á um greiðslu.

Hinn lögbundni haldsréttur gerðarþola nái því til að tryggja allar skuldir umráðamanns loftfarsins, en ekki bara skuldir sem hafi verið stofnað til vegna notkunar viðkomandi loftfars. Sé löggjafanum að sjálfsögðu heimilt að mæla þannig fyrir um ríkari haldsrétt í lögum en myndi leiða af ólögfestum reglum um haldsrétt, enda sé 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga skýr um þau réttindi sem ákvæðið tryggi. Ótvírætt sé að ekki er unnt að krefjast innsetningar í lausafé sem sé undirorpið haldsrétti. Af þessari ástæðu beri að verða við kröfum gerðarþola.

Þá byggir gerðarþoli á því að ef ákvæði 136. gr. loftferðalaga verði ekki talið fela í sér lögbundna haldsréttarheimild veiti ákvæðið honum veðréttindi í loftfari því sem aftrað hefur verið för. Um sé að ræða handveð, sbr. til hliðsjónar skilgreiningu 3. mgr. 1. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð. Innsetningu verði ekki komið fram gagnvart umráðamanni sem eigi handveð í því sem krafist sé innsetningar í.  Ákvæði 136. gr. loftferðalaga veiti að öðru leyti gerðarþola augljóslega rétt til að aftra för loftfarsins. Umráð gerðarþola yfir loftfarinu séu lögmæt. Því verði innsetningu ekki komið við samkvæmt kröfum gerðarbeiðanda.

Öllum sjónarmiðum gerðarbeiðanda um að gerðarþoli hafi veitt WOW air hf. „eiginlega lánveitingu“ sé hafnað. Vanskil hafi orðið á greiðslu WOW air hf. á þjónustugjöldum. WOW air hf. hafi upplýst gerðarþola um áætlanir sínar til að vinna bug á þeim vanskilum og hafi þær staðist að hluta. Slíkar tilraunir til efnda geti ekki talist lánveiting í nokkrum skilningi þess orðs.

Þá sé því einnig hafnað að gerðarþoli hafi sýnt af sér tómlæti við beitingu innheimtuúrræða. Gerðarþoli, líkt og gerðarbeiðandi, hafi haft þá von að rekstri WOW air hf. yrði bjargað. Á þeim tíma sem vanskil hafi staðið yfir hafi fjölmargt verið sem gaf þeirri von byr undir báða vængi; skuldabréfaútboð, viðræður við Icelandair Group, Indigo Partners LLC, viðræður við kröfuhafa um að breyta kröfum þeirra í hlutafé o.s.frv. Úrræði 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga feli í sér viðamikið inngrip í rekstur umráðamanns viðkomandi loftfars. Því beri að beita heimildinni af varkárni. Heimildinni hafi á endanum verið beitt. Viðskiptalegu mati gerðarþola á því hvenær sé rétt að beita heimildinni verði aldrei jafnað til tómlætis. Beiting heimildarinnar með þeim hætti sem gerðarbeiðandi leggi til í aðfararbeiðni myndi líklega leiða til þess að millilandaflug legðist af á Keflavíkurflugvelli.

Til frekari staðfestingar megi benda á að samkvæmt yfirliti á dómskjali 61 yfir ógreidda reikninga WOW air hf. vegna leigu á loftförum í eigu gerðarbeiðanda og móðurfélags gerðarbeiðanda hafi elstu ógreiddu leigugreiðslur WOW air hf. verið frá október 2018, þar á meðal fyrir loftfarið TF-GPA. Þrátt fyrir að skilyrði riftunar eða uppsagnar leigusamningsins hafi þannig fyrir löngu verið fram komin, sbr. grein 20.1.1, 20.1.24 og 20.1.25 í leigusamningi milli gerðarbeiðanda og WOW air, hafi gerðarbeiðandi kosið að nýta sér ekki heimildir til riftunar, en halda fremur samstarfi við leigutaka og umráðanda loftfarsins áfram, væntanlega í þeirri von að úr rættist í starfsemi WOW air hf. og vanskilin yrðu gerð upp. Mat gerðarbeiðanda hafi því verið það sama og gerðarþola.

Riftun gerðarbeiðanda á leigusamningnum hafi enga þýðingu við úrlausn þessa máls. Í fyrsta lagi hafi riftunin farið fram eftir að gerðarþoli beitti heimild 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga. Í öðru lagi geri ákvæði í leigusamningnum beinlínis ráð fyrir því að við riftun skuli gerðarbeiðandi breyta skráningu í loftfaraskrá, sbr. ákvæði 20.3. Breyting á skráðum umráðaaðila TF-GPA í loftfaraskrá Samgöngustofu hafi ekki farið fram fyrr en 4. apríl 2019, löngu eftir að för loftfarsins var aftrað. Hafi riftunin því enga þýðingu.

Málflutningsyfirlýsingar gerðarbeiðanda í aðfararbeiðni um að ákvæði 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga sé óskýrt, túlkað vítt og beitt af ósanngirni séu einfaldlega rangar. Í leigusamningi WOW air hf. og gerðarbeiðanda sé þvert á móti gert ráð fyrir að gerðarþoli geti beitt því úrræði sínu að stöðva loftfar gerðarbeiðanda vegna allra skulda WOW air hf. við gerðarþola. Þannig áskilji gerðarbeiðandi sér í grein 15.10.1 á dskj. nr. 3 rétt til endurkröfu á hendur WOW air hf., komi til þess að gerðarbeiðandi þurfi að greiða ógreidd gjöld vegna annarra loftfara „sem leigutaki rekur“ eins og segir orðrétt í ákvæðinu. Þá sé í grein 19.19 leigusamningsins ákvæði sem fjalli um að við skil á hinni leigðu farþegaþotu skuli WOW air hf. hafa greitt öll flugvallargjöld og önnur gjöld sem gætu gefið tilefni til tryggingarréttinda í flugvélinni eða réttar til að aftra för hennar. Gerðarþoli veki sérstaka athygli á því að í greininni sé tekið fram að ekki skipti máli hvort til gjaldanna hafi verið stofnað vegna viðkomandi loftfars eða annarra loftfara sem leigutaki reki og að gjöld vegna annarra loftfara geti stofnað til tryggingarréttinda í hinu leigða loftfari.

Vakin sé sérstök athygli á því að í hinum fyrri úrskurði Landsréttar sé vísað til þessa leigusamnings gerðarbeiðanda og WOW air hf. og þýðingu hans fyrir ágreining gerðarbeiðanda og gerðarþola. Bendi Landsréttur á að ákvæði hans hafi beinlínis gert ráð fyrir því að til kyrrsetningar á  TF-GPA  gæti komið til tryggingar greiðslu ógreiddra gjalda vegna annarrar starfsemi leigutaka loftfarsins. Þá bendi Landsréttur einnig á grein 19.19 í leigusamningi gerðarbeiðanda og WOW þar sem kveðið sé á um að leigutaki skuli við skil  á  hinu  leigða  loftfari  hafa  greitt  öll  flugvallargjöld  og  önnur  gjöld  sem  gætu  gefið  tilefni  til tryggingarréttinda í flugvélinni eða réttar til að aftra för hennar. Þá sé sérstaklega tekið fram að ekki skipti  máli  hvort  til  gjaldanna  hafi  verið  stofnað  vegna  hins  leigða  loftfars  eða  annarra  loftfara  sem leigutaki reki og að gjöld vegna annarra loftfara geti stofnað til tryggingarréttinda í hinu leigða loftfari. Hafi Landsréttur komist að þeirri niðurstöðu að ákvæði leigusamningsins bendi eindregið til þess að beiting greiðsluþvingunar 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998, með þeim hætti sem gerðarþoli hafi beitt henni, hafi verið talin möguleg þegar gerðarbeiðandi og WOW air hf. gengu til samninga um leigu á vélinni og þar með fyrirsjáanleg. Undir þetta taki gerðarþoli.

Í þessu sambandi bendi gerðarþoli sérstaklega á að samkvæmt ákvæði 6.1.2(e) í leigusamningnum sé WOW air hf. gert skylt að afhenda gerðarbeiðanda bréf, stílað á opinbera aðila, þar sem WOW air hf. heimili þeim sem bréfið sé stílað á að afhenda gerðarbeiðanda reikningsyfirlit yfir allar skuldir WOW air hf. í tengslum við öll loftför í umráðum þess. Gerðarbeiðandi hafi því tryggt sér fyrirfram heimild til að kynna sér skuldastöðu WOW air hf. við gerðarþola vegna allrar starfsemi WOW air hf. og hafi getað hvenær sem er gripið til aðgerða, teldi hann hagsmunum sínum ógnað á einhvern hátt. Að auki komi fram í grein 12.3.2 í leigusamningi gerðarbeiðanda að áður en loftfarið sé skráð á Íslandi skuli WOW air hf. afhenda gerðarbeiðanda lögfræðiálit frá starfandi lögmanni á Íslandi þar sem gerð sé í smáatriðum grein fyrir þeim lögum og reglum og ferlum sem máli skipta í tengslum við efni leigusamningsins.

Gerðarbeiðanda hafi því verið fullkunnugt um tilvist og efni 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga. Þá sé sambærileg lagaákvæði að finna í lögum annarra ríkja sem gerðarbeiðandi starfi eftir, þ.m.t. lögum Bretlands, en lög þess ríkis gildi t.a.m. um leigusamning gerðarbeiðanda og WOW air hf. um loftfarið TF-GPA. Hæstiréttur Bretlands hafi staðfest að sambærilegt ákvæði í breskum rétti heimili kyrrsetningu loftfars vegna allra skulda viðkomandi umráðamanns, en ekki einungis vegna skulda sem tengjast því loftfari.

Málflutningsyfirlýsingar um að gerðarbeiðandi hafi ekki vitað eða mátt vita um skuld WOW air hf. við gerðarþola séu í besta falli fyrirsláttur. Eins og áður segi megi rekja vanefndir WOW air hf. gagnvart gerðarbeiðanda og systurfélögum að minnsta kosti til októbermánaðar 2018. Á grundvelli þess og almennrar umræðu í innlendum og erlendum fjölmiðum hafi erfið fjárhagsstaða WOW air hf. ekki getað dulist gerðarbeiðanda. Eins og vikið sé að framar hafi gerðarbeiðandi auk þess haft úrræði á grundvelli leigusamningsins til þess að afla sjálfur upplýsinga beint frá gerðarþola um skuldir WOW við gerðarþola. Það hafi gerðarbeiðandi aldrei gert.

Í 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga felist hvorki eignaupptaka né skerðing á eignarrétti þannig að gangi gegn ákvæði 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Löggjafinn hafi sett í lög ýmsar takmarkanir á eignarrétti sem hafi lögmætan tilgang og feli í sér höft á eignarréttindum, m.a. til tryggingar greiðslu skulda. Í sumum tilvikum mæla slík lagaákvæði fyrir um tryggingar- eða greiðsluskyldu vegna skulda þriðja manns. Er almennt talið að löggjafinn hafi svigrúm til að haga reglum einkaréttarins eftir eigin höfði, án þess að til greina komi að beita eignarnámsákvæði stjórnarskrárinnar. Geta slíkar lagareglur leitt til þess að menn verði þvingaðir til að láta af hendi eigur sínar til fullnustu skuldbindinga, sem stofnast hafa samkvæmt réttarreglum einkaréttar, jafnvel þótt það hafi ekki verið tilætlun þess sem skuldbindingarnar hvíla á, eða eigi við hann að sakast. Í slíkum tilvikum er ekki um eignarnám að ræða, jafnvel þótt eignaskerðing sem rekja má til slíkra skuldbindinga geti komið hart niður í vissum tilvikum. Undir framangreind sjónarmið taki Landsréttur í fyrri úrskurði sínum.

Þá beri að nefna að við innlausn gerðarþola á þeim tryggingarréttindum sem felist í 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga eignist gerðarbeiðandi framkröfu á hendur skuldara gjaldanna. Hann verði því ekki fyrir neinni eignaskerðingu að lögum þótt hann geti orðið það í reynd vegna þverrandi greiðslugetu skuldara. Um sé að ræða alþekkta aðstöðu þegar kemur að tryggingaréttindum.

Það sé forsenda starfsemi og tekjuöflunar gerðarbeiðanda og móðurfélags hans, sem eigi flugvélar og leigi þær út, að flugvélarnar geti lent á flugvöllum og fengið þar þjónustu. Þjónusta gerðarþola við WOW air hf. hafi þannig jafnframt verið innt af hendi í þágu þeirrar starfsemi sem gerðarbeiðandi og móðurfélag hans reki. Undir þetta taki Landsréttur í fyrri úrskurði sínum og geri gerðarþoli rök Landsréttar hvað þetta varði að málstæðu af sinni hálfu í máli þessu.

Samkvæmt Chicago-sáttmálanum um alþjóðlegt flug (Convention on International Civil Aviation), sem undirritaður hafi verið 7. desember 1944 og varð skuldbindandi fyrir Ísland 20. apríl 1947, beri gerðarþola að hafa Keflavíkurflugvöll opinn öllum loftförum aðildarríkja sáttmálans. Gerðarþoli sé þannig undir þeirri kvöð að taka við loftförum, heimila þeim afnot af búnaði, aðstöðu og mannvirkjum flugvallarins og veita þeim þjónustu óháð eignarhaldi og umráðum. Til þess að gerðarþoli geti rækt framangreinda skyldu sé honum nauðsynlegt að innheimta gjöld fyrir þjónustu sína. Innheimta  slíkra  gjalda  geti verið vandkvæðum háð, ekki síst hjá flugrekstraraðilum, erlendum jafnt sem innlendum, sem ekki séu eigendur loftfara sem þeir starfræki. Gerðarþoli hafi bent á að heimild 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998 til að aftra loftfari för væri gagnslítil ef hún tæki aðeins til gjalda sem tengdust því loftfari enda þyrfti gerðarþoli þá að aftra för allra loftfara í flugflota viðkomandi flugfélags, sem nýta þjónustu gerðarþola, til þess að tryggja hagsmuni sína vegna vanskila á  greiðslu gjalda. Það væri til þess fallið að gera út af við starfsemi viðkomandi flugfélags og valda félaginu, öllum þeim  sem  leigt  hefðu  því  flugvélar  og  fjölmörgum  öðrum víðtæku og ef til vill ótímabæru tjóni. Heimildin í 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga sé þannig til þess fallin að takmarka tjón sem gæti leitt af ótímabærri rekstrarstöðvun flugfélaga og í raun úrræði sem gangi eins skammt og frekast sé kostur miðað við aðstæður hverju sinni.

Þá vekur gerðarþoli sérstaka athygli á ummælum gerðarbeiðanda í aðfararbeiðni um að hann hafi aldrei „…byggt á því að hafa ekki vitað um tilvist ákvæðis 1. málsl. 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga eða að hann kannist ekki við að hafa lent í kostnaði við að losa flugvélar þegar leigutakar hafa orðið gjaldþrota.“ Hafi gerðarbeiðandi með framangreindri málflutningsyfirlýsingu viðurkennt að hafa þekkt efni ákvæðisins þegar við gerð leigusamningsins við WOW air hf. og þar með viðurkennt afleiðingar þess að heimild samkvæmt ákvæðinu yrði beitt.

Með vísan til framangreindra staðreynda og atvika sé ljóst að engar óvenjulegar eða ósanngjarnar aðstæður séu uppi í málinu og þær forsendur sem aðfararbeiðni sé reist á séu í grundvallaratriðum rangar og ósannaðar. Gerðarbeiðandi hafi vitað eða mátt vita af skuld WOW air hf. við gerðarþola, sem og að gerðarþola hafi verið heimilt að aftra för loftfara í umráðum WOW air hf., þ.m.t. loftfarsins í eigu gerðarbeiðanda, þar til sú skuld var að fullu upp gerð eða trygging sett fyrir henni. Hafi beinlínis verið gert ráð fyrir þessu úrræði gerðarþola í leigusamningi gerðarbeiðanda og WOW air hf. Úrræðið hafi þannig verið vel fyrirsjáanlegt fyrir gerðarbeiðanda og sé fráleitt að halda því fram að þegar því sé beitt felist í því ólögmæt eignarskerðing sem brjóti gegn stjórnarskrá. Þá liggi fyrir að íslenskir dómstólar hafi skýrt 136. gr. loftferðalaga þannig að ákvæðið feli í sér víðtæka heimild til að aftra för loftfara þar til skuldir við gerðarþola hafi verið greiddar. Beiting ákvæðisins sé lögmæt og því verði að hafna beiðni gerðarbeiðanda um að innsetning á grundvelli 1. mgr. 78. gr. fari fram.

Gerðarþoli mótmælir umfjöllun gerðarbeiðanda um að beiting greiðsluþvingunarúrræðis 136. gr. loftferðalaga feli í sér brot á stjórnsýslureglum með vísan til 5. mgr. 101. gr. eml. Gerðarbeiðanda hafi verið í lófa lagið að hafa þessa málsástæðu uppi í fyrsta innsetningarmálinu nr. 53/2019. Að því frágengnu bendir gerðarþoli á að þessi málsástæða gerðarbeiðanda varðar á engan hátt mat á því hvort skilyrði innsetningar eftir 78. gr. afl. eigi við, sbr. 3. mgr. 83. gr. afl. Um gerðarþola gilda lög nr. 76/2008 um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl. Séu samþykktir gerðarþola m.a. grundvallaðar á þessum lögum. Í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 76/2008 segi að ákvæði laga um hlutafélög gildi um félagið ef ekki sé kveðið á um annað í lögunum. Um gerðarþola gildi þannig sömu lög og um önnur hlutafélög og sé gerðarþoli þannig einkaréttarlegur aðili en ekki opinber í tengslum við sakarefni þessa máls. Sérstaklega sé tekið fram í athugasemdum við frumvarp um breytingu á lögum nr. 2/1995, um hlutafélag með síðari breytingum (opinber hlutafélög) að „[á]kvæði stjórnsýslulaga, laga um upplýsingaskyldu og laga um opinbera starfsmenn gilda ekki formlega um opinber hlutafélög.“

Í dómaframkvæmd hafi gerðarþoli ekki verið talinn stjórnvald og ekki talinn falla undir ákvæði stjórnsýslulaga sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr.  326/2014 þar sem Hæstiréttur hafi sérstaklega tekið fram í forsendum dóms síns að stjórnsýslulög og stjórnsýslureglur ættu ekki við um gerðarþola.

Þá séu verkefni gerðarþola sem felist í rekstri alþjóðaflugvallar og að veita aðgang að mannvirkjum, aðstöðu og þjónustu honum tengdum, á grundvelli laga nr. 76/2008 ekki hluti af stjórnsýslu ríkisins. Þá feli ákvarðanir eða aðgerðir gerðarþola er tengist rekstri flugvallarins ekki í sér stjórnvaldsákvarðanir eða meðferð opinbers valds. Þar með geti athafnir gerðarþola ekki falið í sér handhöfn eða beitingu stjórnsýsluvalds í skilningi stjórnsýsluréttar eða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. t.d. 2. mgr. 1. gr. þeirra laga.

Gerðarþoli telur rétt að víkja stuttlega að þeim réttindum sem 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga veitir gerðarþola. Um sé að ræða tryggingarréttindi í eign gerðarbeiðanda, vegna skuldar WOW air hf. við gerðarþola. Gerðarþoli hafi ekki byggt á því að hann eigi jafnframt sjálfstæðan kröfurétt á hendur gerðarbeiðanda, óháð tryggingarréttindunum, en mikið sé gert úr slíku í aðfararbeiðni og sé í þeirri umfjöllun bæði að finna útúrsnúninga og rangfærslur um málatilbúnað gerðarþola.

Í úrskurði héraðsdóms í málinu nr. A-53/2019 sé komist að þeirri niðurstöðu að gerðarþoli eigi beina fjárkröfu á hendur gerðarbeiðanda vegna gjalda sem tengjast loftfarinu TF-GPA, að því er virðist ótengt tryggingarréttindum samkvæmt 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga. Gerðarþoli telur ekkert tilefni til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu en bendir í því sambandi á að beinn kröfuréttur skiptir engu máli við úrlausn ágreinings aðila. Málið snúist um tryggingarréttindi yfir loftfarinu TF-GPA en ekki hvort gerðarþoli eigi jafnframt sjálfstæðan kröfurétt á hendur gerðarbeiðanda, og hversu há sú fjárkrafa sé. Ótvírætt sé hins vegar að á grundvelli 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga nái tryggingarréttindin til allra gjalda sem WOW air hf. skuldar gerðarþola samkvæmt 71. gr. laganna.

Gerðarþoli bendir hins vegar í þessu sambandi á að gerðarbeiðandi sé hluti af félagasamstæðu. Gerðabeiðandi sé dótturfélag í 100% eigu félagsins Air Lease Corporation („ALC“) sem stofnaði gerðarbeiðanda í þeim eina tilgangi að halda utan um eignarhald ALC á farþegaþotunni. Gerðarbeiðandi hafi engan annan tilgang eða rekstur. Með sama hætti hafi ALC stofnað sérstök félög utan um allar þær farþegaþotur sem WOW air hf. leigði af ALC. Svo virðist sem öll dótturfélögin og samstæðan í heild lúti stjórn sömu aðila sem hafi alla þræði á sinni hendi. Hin órjúfanlegu tengsl móðurfélagsins og dótturfélaganna sjást hvað best á því að í leigusamningi gerðarbeiðanda og WOW sé að finna ákvæði um ábyrgðaryfirlýsingu ALC á efndum skuldbindinga gerðarbeiðanda gagnvart WOW air hf. (sjá skilgreiningu á „Parent Guarantee“, bls. 9). Gerðarbeiðandi og ALC séu því eitt og sama fyrirbærið. Sé það m.a. staðfest á dskj. nr. 61, þar sem fram komi að WOW air hf. hafi litið á skuld vegna allra loftfara, sem það hafði á leigu frá dótturfélögum ALC, sem skuld við ALC.

Ef forsendur í úrskurði héraðsdóms í málinu nr. A-53/2019 um beinan kröfurétt gerðarþola á hendur gerðarbeiðanda verði staðfestur endanlega af æðra dómi á gerðarþoli beinar fjárkröfur á hendur öllum dótturfélögum ALC vegna loftfara sem WOW air hf. hafði umráð yfir í rekstri sínum, vegna þjónustu við þau loftför. Við þær aðstæður byggir gerðarþoli á því að honum hafi verið heimilt að kyrrsetja eitt loftfar í eigu samstæðunnar til tryggingar öllum skuldum hennar. Slíkt hafi augljóslega verið til hagsbóta fyrir samstæðuna í heild fremur en ef öll loftför hennar í umráðum WOW air hf. hefðu verið kyrrsett. Líta verði á ALC og dótturfélög þess, þ. á m. gerðarbeiðanda, sem eina efnahagslega einingu í þessu tilliti. Að auki byggir gerðarþoli á því að ákvæði loftferðalaga, þ.m.t. 1. mgr. 136. gr. og 71. gr., verði ekki sniðgengin með því einu að stofna lögaðila utan um hvert loftfar fyrir sig sem hafi engan annan rekstur eða viðskiptalegan tilgang. Því verði að horfa framhjá eignarhaldi dótturfélaga ALC við mat á heimild gerðarþola til að beita úrræði 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga og líta á ALC sem hinn raunverulega eiganda loftfaranna og þar með skuldara viðkomandi gjalda. Á slík réttarframkvæmd sér skýra stoð í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 292/2003.

Verði framangreindar forsendur héraðsdóms staðfestar nemur krafa gerðarþola sem tryggð er með öftrun farar loftfarsins TF-GPA mun hærri fjárhæð er gerðarbeiðandi hefur nú þegar innt af hendi. Beri því að synja beiðninni.

Fallist héraðsdómur á kröfu gerðarbeiðanda og heimili innsetningu mun gerðarbeiðandi þá þegar fá umráð loftfarsins og væntanlega fara með það úr landi án þess að gerðarþoli fái rönd við reist. Við það falli niður öll réttindi gerðarþola yfir loftfarinu, en handhöfn sé t.d. skilyrði bæði haldsréttar og handveðréttar. Myndi slík aðstaða leiða til þess að lögmæt tryggingarréttindi gerðarþola væru töpuð honum með öllu.

Þar af leiðandi krefst gerðarþoli þess að í úrskurðarorði héraðsdóms verði tekið fram að málskot til æðra dóms, hvort sem sé Landsréttar eða Hæstaréttar Íslands, fresti aðfarargerð á hendur gerðarþola þar til endanlegur úrskurður eða dómur æðra dóms gangi, fari svo að kröfur gerðarbeiðanda verði teknar til greina. Sé það eina lögmæta leiðin til að tryggja réttindi gerðarþola, verði niðurstöðu héraðsdóms snúið við eða breytt með úrskurði Landsréttar eða eftir atvikum dómi Hæstaréttar. Byggist krafan á 3. mgr. 84. gr. aðfaralaga.

Sú sérstaka aðstaða sem uppi sé og lýst er í kafla A hér að framan leiði sjálfstætt til þess að fallast beri á þrautavarakröfu gerðarþola. Með öðrum orðum hafi krafa um sama sakarefni, byggð á sömu málsástæðum og málsatvikum, nú þegar verið efnislega dæmd í tvígang í Landsrétti og í báðum tilvikum hefur kröfum gerðarbeiðanda verið hafnað. Gerðarþoli telur augljóst að Landsréttur muni komast að sömu  niðurstöðu verði sakarefnið borið að nýju undir réttinn.

Telji því hinn virðulegi dómur þar af leiðandi að ekki séu efni til að vísa kröfum gerðarbeiðanda frá dómi eða hafna þeim vegna res judicata áhrifa eða bindandi samþykkis gerðarbeiðanda á kröfum gerðarþola, og ef dómurinn telur að hafna beri hinni efnislegu úrlausn Landsréttar um sakarefnið, sé útilokað annað en kveða á um það í úrskurði að málskot til æðra dóms fresti réttaráhrifum. Telur gerðarþoli að þar sem fyrir liggi skýr afstaða Landsréttar til skýringar og beitingar ákvæðis 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga í tengslum við sakarefni þessa máls séu yfirgnæfandi líkur á að úrskurði héraðsdóms yrði breytt á þá leið að innsetningarbeiðni gerðarbeiðanda verði þar hafnað. Verði í ljósi þess vafa, og þess gríðarlega tjóns sem annars hljótist af, að kveða á um það í úrskurðinum að kæra til æðra dóms fresti réttaráhrifum.

Heimild 3. mgr. 84. gr. afl. skuli beitt í þeim tilvikum þegar skaðabætur geti ekki bætt tjón sem hljótist af því að gerð nái fram að ganga. Sú aðstaða sé augljóslega uppi í málinu. Loftfarið TF-GPA sé eina trygging gerðarþola fyrir greiðslu á skuld WOW air hf., en það félag sé gjaldþrota. Ásetningur gerðarbeiðanda sé eins skýr og mögulegt sé, hann hyggist fljúga loftfarinu af landi brott um leið og honum sé það kleift. Verði að benda í því sambandi á að kl. 11:59 þann 9. maí 2019 hafi gerðarþola borist flugáætlun fyrir brottför loftfarsins TF-GPA af Keflavíkurflugvelli. Við það missi gerðarþoli tryggingarréttindi sín og muni aldrei geta endurheimt þau. Verði gerðarbeiðanda gert þetta kleift sé útilokað að vinda ofan af því tjóni sem gerðarþoli verði fyrir, telji æðri dómur niðurstöðu héraðsdóms ranga. Heimild 3. mgr. 84. gr. er augljóslega ætlað að taka til slíkra tilvika.

Jafnvel þótt gerðarbeiðandi yrði talinn ábyrgur fyrir því að ólögmæt aðfarargerð fari fram á grundvelli 1. mgr. 96. gr. afl. telur gerðarþoli augljóst að slík skaðabótakrafa væri því sem næst verðlaus. Sé bent á að gerðarbeiðandi virðist af öllum ummerkjum að dæma vera „skúffufélag“ sem hafi þann eina tilgang að reka framangreint loftfar í tengslum við leigusamning gerðarbeiðanda og WOW air hf. Sé móðurfélagi gerðarbeiðanda í lófa lagið að stofna nýtt félag um næsta leigusamning um loftfarið. Fullnustumöguleikar á hendur slíku félagi séu litlir og ljóst að leita þyrfti atbeina erlendra dómstóla sem þyrftu að fallast á formlega og efnislega niðurstöðu íslenskra dómstóla. Í því sambandi verði að benda á að lögmenn gerðarbeiðanda hafi ekki talið sér heimilt að taka við greiðsluáskorun fyrir hönd félagsins og því hafi gerðarþoli þurft að láta birta greiðsluáskorun á grundvelli 8. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991 á skráðu heimilisvarnarþingi gerðarbeiðanda í Camden í Delaware Bandaríkjunum. Er framangreint til marks um þá erfiðleika sem gerðarþoli standi frammi fyrir við að innheimta lögmætar kröfur sínar, nái gerðin fram að ganga. 

Vegna hinna miklu hagsmuna sem í húfi séu, hversu miklar líkur séu á því að æðri dómur muni fallast á kröfur gerðarþola og þess gríðarlega fjártjóns sem gerðarþoli verður fyrir ef innsetning sé heimiluð áður en endanlegur dómur æðra dóms gangi, gerir gerðarþoli kröfu til þrautavara um að kveðið verði á um það í úrskurði héraðsdóms að kæra til æðra dóms fresti réttaráhrifum.

Komist héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að heimila beri innsetningu í loftfarið gengur slík niðurstaða augljóslega þvert á efnislega úrlausn Landsréttar á þeim lagalegu álitaefnum sem eru uppi í þessu máli og rétturinn hefur þegar leyst úr. Álitaefnin sem Landsréttur hefur þegar leyst úr séu nákvæmlega þau sömu og séu í þessu máli. Engar nýjar eða breyttar aðstæður eða forsendur séu fyrir hendi sem myndu leiða til annarrar niðurstöðu. Telur gerðarþoli því að yfirgnæfandi líkur séu til þess að Landsréttur muni komast að sömu efnislegu niðurstöðu og hann gerði í hinum ómerkta úrskurði og þannig hrinda úrskurði héraðsdóms um aðra niðurstöðu. Í forsendum úrlausnar Landsréttar kemur fram að þar sem „…ákvæði 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998, eins og því var beitt af sóknaraðila gagnvart varnaraðila, þykir ekki hafa vegið gegn stjórnarskrárvörðum eignarrétti varnaraðila og þar sem varnaraðili þykir ekki hafa sýnt fram á með skýrum hætti að sóknaraðila hafi af öðrum ástæðum verið óheimilt að aftra  för  flugvélarinnar TF-GPA vegna ógreiddra gjalda sem stofnað var til af hálfu umráðanda  hennar, WOW air hf., vegna hvers kyns starfsemi félagsins á Keflavíkurflugvelli, þar á meðal þjónustu við önnur loftför í eigu annarra aðila en í umráðum félagsins, verður ekki fallist á beiðni varnaraðila um að loftfarið verði tekið úr vörslum sóknaraðila og fengið varnaraðila með aðfarargerð.“

Við mat héraðsdóms á hagsmunum aðila í tengslum við það hvort til álita komi að fresta réttaráhrifum gerðarinnar ef heimilað yrði að hún færi fram, eru hagsmunir gerðarbeiðanda af því að bíða úrskurðar Landsréttar og eftir atvikum dóms Hæstaréttar smávægilegir miðað við hagsmuni gerðarþola ef gerðin færi fram strax í kjölfar úrskurðar héraðsdóms, en við það falla öll réttindi gerðarþola niður.

Gerðarþoli byggir á því að hann eigi mjög erfitt með að ná fram rétti sínum ef gerðarbeiðandi hefur flogið loftfarinu til fjarlægra landa en gerðarbeiðandi hefur nú þegar leigt loftfarið til Englands, en slíkur gerningur hefur sjálfkrafa í för með sér að loftfarið verði skráð í breska lögsögu. Með slíkri skráningu í loftfaraskrá annars ríkis yrði komið í veg fyrir að gerðarþoli nái fram rétti sínum, verði loftfarinu leyft að fara af Keflavíkurflugvelli.

Gerðarþoli mótmælir harðlega þeim röngu og ómaklegu aðdróttunum sem fram koma í aðfararbeiðni, þar sem gerðarbeiðandi ber þær sakir á gerðarþola að hann reyni að „…tefja málið, eins og honum frekast er unnt…“ og hafi uppi tilraunir „…til að afvegaleiða málið…“. Gerðarþoli hefur ekki annað gert en að beita þeim lagalegu úrræðum sem honum séu heimil samkvæmt lögum og rétti til þess að verja lögmæta hagsmuni sína. Í þessu sambandi verði einnig að líta til þess að hin farsakennda málsmeðferð sem mál þetta hefur hlotið sé alfarið á ábyrgð gerðarbeiðanda. Gerðarbeiðanda hafi verið í lófa lagið að gagnkæra fyrsta úrskurð héraðsdóms um sakarefnið og fá þannig fram efnislega afstöðu Landsréttar og eftir atvikum Hæstaréttar til sakarefnisins. Hefði gerðarbeiðandi gert það væri málinu nú lokið. Gerðarbeiðandi hafi kosið að gera það ekki, en hafi valið þess í stað að setja fram nýja aðfararbeiðni fyrir héraðsdómi meðan fyrri beiðni hans var enn til meðferðar hjá æðra dómi. Eftir að síðari beiðninni var vísað frá dómi hafi gerðarbeiðandi sett fram þriðju aðfararbeiðnina, sem nú sé hér til meðferðar, þrátt fyrir að endanlegur úrskurður Landsréttar um sakarefnið liggi fyrir. Gerðarþola geti ekki verið kennt um eða hann látinn bera ábyrgð á þessari málsmeðferð. Beri að líta til þess við mat á þrautavarakröfu gerðarþola.

Að lokum sé nauðsynlegt að mótmæla harðlega og átelja enn á ný rangfærslur og ásakanir sem fram koma í aðfararbeiðni, aðallega málsgr. 91 o.áfr. Gerðarþoli hafi aldrei hafnað viðræðum við gerðarbeiðanda, þótt sáttaboðum gerðarbeiðanda hafi verið hafnað. Engum upplýsingum hafi verið haldið frá gerðarbeiðanda og séu slíkar ásakanir ámælisverðar. Gerðarbeiðandi hafi óskað eftir gríðarlegu magni gagna sem honum hafi verið afhent um leið og hægt var. Um fjárhæð skuldar WOW air hf. við gerðarþola hafi strax verið upplýst í tilkynningu um öftrun farar loftfarsins, og hafi það nú m.a. verið staðfest af Hæstarétti. Gerðarþoli hafi vissulega ekki veitt gerðarbeiðanda sundurliðun á þeirri skuld niður á einstök loftför, enda hafi gerðarbeiðanda frá upphafi mátt vera ljóst að gerðarþoli telur þá sundurliðun engu skipta fyrir úrlausn málsins.

Gerðarþoli krefst málskostnaðar úr hendi gerðarbeiðanda samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningum eða mati dómsins og byggir kröfuna á 129. og 130. gr. eml., sbr. 1. mgr. 84. gr. afl. Taka beri tillit til þess að mál þetta sé nú höfðað í þriðja sinni, og að fyrir liggi endanlegur efnisdómur Landsréttar um sakarefnið. Þrátt fyrir það aukist umfang málsins í hvert sinn sem það sé borið undir héraðsdóm og sé síðasta aðfararbeiðnin sú umfangsmesta. Beri að taka tillit til þess við ákvörðun málskostnaðar.

Gerðarþoli skorar á gerðarbeiðanda að leggja fram upplýsingar um stjórnendur gerðarbeiðanda og stjórnendur allra systurfélaga gerðarbeiðanda sem gert höfðu leigusamning um loftfar við WOW air hf.

Gerðarþoli mótmælir dómskjali nr. 25. Gagnið sé ekki skjal eða annað sýnilegt sönnunargagn í skilningi X. kafla eml. heldur einhliða útreikningur gerðarbeiðanda, gerður í tilefni málshöfðunarinnar. Sé óheimilt að taka tillit til skjalsins við úrlausn málsins, sbr. 1. mgr. 83. gr. afl.

Forsendur og niðurstaða.

Gerðarbeiðandi krefst þess í máli þessu að farþegaþota af gerðinni Airbus A321-211, með skráningarnúmerið TF-GPA, sem staðsett er á Keflavíkurflugvelli, verði tekin með beinni aðfarargerð úr vörslum gerðarþola og fengin gerðarbeiðanda til fullra og takmarkalausra umráða og lagt verði fyrir sýslumann að tryggja að brottför farþegaþotunnar verði ekki aftrað af gerðarþola.

            Gerðarþoli krefst þess í fyrsta lagi að málinu verði vísað frá dómi en til vara að kröfu gerðarbeiðanda verði hafnað.

Heimild gerðarbeiðanda styðst við 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Þar segir að ef manni er með ólögmætum hætti aftrað að neyta réttinda, sem hann tjáir sig eiga og telur svo ljós að sönnur verði færðar fyrir þeim með gögnum sem aflað verður skv. 83. gr., er honum heimilt að beina til héraðsdómara beiðni um að skyldu þess efnist sem getur í 72. eða 73. gr. verði fullnægt með aðfarargerð þótt aðfararheimild skv. 1. gr. liggi ekki fyrir.

            Í 73. gr. sömu laga segir að ef aðfararheimild kveði á um skyldu gerðarþola til að veita gerðarbeiðanda umráð annars en þess, sem 72. gr. taki til, skal sýslumaður fullnægja rétti gerðarbeiðanda með því að taka það með valdi úr umráðum gerðarþola og afhenda gerðarbeiðanda. Eiga réttindi gerðarbeiðanda undir þetta ákvæði.

            Ekki er ágreiningur í málinu um það að gerðarbeiðandi sé réttur eigandi farþegaþotunnar. Gerðarþoli kveður hins vegar gerðarbeiðanda vera skúffufyrirtæki og sé fyrirtækið dótturfyrirtæki móðurfélagsins sem geri sérstakt félag utan um hverja flugvél sem leigð sé til þriðja aðila og því beri að líta til þess við úrlausn málsins. Hvort sem svo er eða ekki þá hafa ekki verið bornar brigður á lögmæti stofnunar gerðarbeiðanda og ekki færð rök fyrir því að hann sé ekki lögmætur eigandi flugvélarinnar eins og áskilið er m.a. í 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989.

            Eins og rakið er að framan var krafa um sömu réttindi tekin til úrskurðar þann 2. maí sl. í máli réttarins nr. A-53/2019 og var niðurstaðan sú að gerðarþola hafi verið heimilt að tálma för loftfarsins úr landi á grundvelli þess að ógreidd var krafa gerðarþola sem tengdist og varðaði það loftfar sem kyrrsett var.

Í fyrri úrskurði réttarins, í máli nr. A-53/2019, hafnaði dómurinn þeirri málsástæðu gerðarþola sem taldi að þar sem fyrir lægi að ógreidd væri skuld sem tengdist rekstri WOW air hf. væri gerðarþola heimilt að aftra för þotunnar á grundvelli 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga nr. 60/1998.

Sú niðurstaða héraðsdóms var kærð til Landsréttar, mál nr. 321/2019, af hálfu gerðarþola og var úrskurður kveðinn upp þann 3. júlí sl.,  þar sem niðurstaða héraðsdóms var staðfest en með þeim forsendum að 1. mgr. 136. gr. laganna næði til allra skulda WOW air hf. við gerðarþola. Sú niðurstaða var kærð til Hæstaréttar Íslands. Hæstiréttur ómerkti úrskurð Landsréttar með dómi uppkveðnum 27. júní sl. í máli nr. 29/2019.

Þann 3. júlí sl. gekk úrskurður Landsréttar í máli nr. 321/2019 þar sem úrskurður Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. A-53/2019 var staðfestur um annað en málskostnað.

Gerðarþoli byggir frávísunarkröfu sína á því að búið sé að dæma að efni til um kröfu gerðarbeiðanda. Gerðarbeiðandi sé nú í þriðja sinn að krefjast úrskurðar um afhendingu þotunnar. Héraðsdómur hafi réttilega vísað kröfu gerðarbeiðanda frá dómi með úrskurði í máli nr. A-56/2019 þann 29. maí sl. á þeim forsendum að dæmt hafi verið í málinu í Landsrétti vegna A-53/2019 og með vísan til 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sömu aðstæður séu einnig uppi nú. Gerðarbeiðandi sé nú með þriðju kröfuna fyrir héraðsdómi þar sem hann byggir á sömu málsástæðum, krafan sé á milli sömu aðila og um sömu réttindi. Því beri að vísa þessu máli frá dómi með vísan til 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989.

Í máli réttarins nr. A-53/2019 frá 2. maí sl. krafðist gerðarbeiðandi innsetningar á þotunni með vísan til 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989. Þegar sá úrskurður var kveðinn upp lá ekki fyrir að gerðarbeiðandi hefði greitt þá skuld sem sannanlega mátti rekja til TF-GPA. Var kröfunni þar af leiðandi hafnað þar sem ósannað var að gerðarþoli aftraði vélinni för með ólögmætum hætti. Með kæru þess úrskurðar  til Landsréttar lagði gerðarbeiðandi fram kvittun fyrir þeirri fjárhæð sem hann hafði greitt inn á reikning gerðarþola og reiknuð var út frá gögnum er gerðarþoli hafði sjálfur lagt fram fyrir héraðsdómi. Byggir gerðarþoli á því nú að gerðarbeiðandi geti ekki komið þeirri málsástæðu að nú, þar sem henni hefði verið komið að með kærunni til Landsréttar.

Rétt er að Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms í máli réttarins nr. 321/2019  þann 24. maí sl. en á öðrum efnislegum forsendum en héraðsdómur hafði komist að. Var sú niðurstaða Landsréttar ómerkt í Hæstarétti þann 27. júní sl. í máli nr. 29/2019 og málinu vísað heim til Landsréttar aftur sem aftur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms í máli nr. A-53/2019, sbr. úrskurð Landsréttar þann 3. júlí sl.

Að þessu öllu gættu hefur fyrri niðurstaða Landsréttar í máli, sem vísað var heim frá Hæstarétti til Landsréttar aftur, ekki res judicada áhrif við úrlausn þessa máls og er ekki bindandi við úrlausn þess máls sem nú er úrskurðað um. Þá komu breyttar aðstæður vegna greiðslu skuldar gerðarbeiðanda við gerðarþola ekki til skoðunar fyrir Landsrétti. Þá telur dómurinn að hvorki 1. mgr. 98. gr. né 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 komi í veg fyrir að gerðarbeiðandi geti komið með nýja kröfu um afhendingu TF-GPA enda byggir hann nú á þeirri málsástæðu að sú fyrirstaða sem lá fyrir við uppkvaðningu fyrri úrskurðar, þ.a. ógreidd skuld, sé ekki lengur fyrir hendi.

Verður því þeirri málsástæðu gerðarþola um að vísa beri þessu máli frá dómi hafnað.

            Fyrir liggur í gögnum málsins að gerðarbeiðandi greiddi gerðarþola þá fjárhæð sem hann taldi að tengdist umræddu loftfari og byggði útreikningana á gögnum sem gerðarþoli lagði sjálfur fram í málinu. Gerðarþoli hefur ekki enn sýnt fram á að sú fjárhæð hafi ekki verið nægjanleg heldur byggir á því að honum sé heimilt að aftra för loftfarsins á meðan heildarskuldir WOW air hf. við gerðarþola eru ógreiddar.

            Mál þetta snýst í efni sínu um túlkun á 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga nr. 60/1998 og þá hvort gerðarþola sé heimilt að aftra för farþegaþotunnar TF-GPA vegna ógreiddra skulda WOW air hf. Byggir gerðarþoli á því að eigandi loftfarsins skuldi gerðarþola miklum mun hærri fjárhæðir en eingöngu megi rekja til TF-GPA. Hvorki hafi verið sett trygging fyrir þeirri fjárhæð né sú fjárhæð greidd. Því sé gerðarþola rétt að aftra för loftfarsins. Þessu mótmælir gerðarbeiðandi.

Í forsendum undirréttar í máli nr. A-53/2019 kemur fram að 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga nr. 60/1998 verði túlkuð með hliðsjón af lögskýringagögnum og taldi dómurinn að ákvæðið veitti ekki heimild til þess að aftra loftfari frá brottför vegna ógreiddra gjalda annarra eigenda/umráðenda flugvéla þrátt fyrir að sama félag, í því tilviki WOW air hf., hafi verið með fleiri flugvélar á leigu frá öðrum fyrirtækjum en gerðarbeiðanda. Hafi skýr heimild til slíkra íþyngjandi aðgerða þurft að vera ákveðin með lögum. Svo sé ekki. Var gerðarbeiðandi ekki látinn bera ábyrgð á því að WOW air hf. hafi stofnað til skulda vegna annarra leigusamninga við óskyldan þriðja aðila.

1.      mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998 hljóðar þannig við setningu laganna: „ Flugmálastjórn

er heimilt að aftra för loftfars af flugvelli uns gjöld eru greidd eða trygging sett fyrir greiðslu vegna þess loftfars sem í hlut á eða annarrar starfsemi flugrekandans.“

Með 18. gr. laga nr. 21/2002 var breyting gerð á 1. mgr. 136. gr. þannig að greinin hljóðaði svo: „Flugmálastjórn Íslands er heimilt að aftra för loftfars af flugvelli uns gjöld eru greidd eða trygging sett fyrir greiðslu vegna þess loftfars sem í hlut á eða annarrar starfsemi hlutaðeigandi eiganda eða umráðanda loftfarsins.“

Í greinargerð með breytingarákvæðinu segir að ákvæði núgildandi 136. gr. loftferðalaga lúti að tvennu, annars vegar þeirri heimild til greiðsluþvingunar sem felist í því að meina brottflug á loftfari flugrekanda sem skuldar Flugmálastjórn Íslands gjöld, sem starfsemi hans varði, og hins vegar í því að knýja leyfis- og skírteinishafa til að rækja skyldur sínar að viðlögðum dagsektum. Þá segir að í þeirri umorðun ákvæðisins sem lögð sé til sé vikið að þessu sama, en nýmælin felist í ákvæðum um févíti, auk þess sem dagsektaákvæðin séu gerð mun ítarlegri og skýrari. Eins og greiðsluþvingunarheimildin sé orðuð í lögunum í dag sé hún bundin flugrekendum en með frumvarpinu sé lagt til að hún verði útvíkkuð til allra eigenda eða umráðenda loftfara. Dagsektum séu sett fjárhæðarmörk sem og févítum. Kveðið sé á um málskotsheimildir og fjárnám. Á undanförnum árum hafi það færst í vöxt að fela stjórnvaldshöfum viðlíka heimildir og megi í því sambandi benda á þær heimildir sem Fjármálaeftirlitið og samkeppnisráð hafi samkvæmt þeim lögum sem um starfsemi þessara stofnana gildi. 

Breyting var gerð á ákvæðinu með 12. gr. laga nr. 102/2006 þannig að á eftir orðunum „Flugmálastjórn Íslands“ í 1. mgr. 136. gr., sbr. 18. gr. laga nr. 21/2002, kemur: „og þeim sem starfrækir flugvöll eða flugleiðsöguþjónustu.“ Með 19. gr. laga nr. 50/2012 bættist málsliður við 136. gr. laganna sem hljóðar þannig: „Við 1. mgr. bætist nýr málsliður sem orðast svo: Rekstraraðili flugvallar skal verða við beiðni Umhverfisstofnunar um að aftra för loftfars uns lögmælt gjöld vegna losunar gróðurhúsalofttegunda, er varða viðkomandi loftfar, eru greidd eða trygging sett fyrir greiðslu þeirra.“

Hljóðar ákvæðið í dag þannig með ofantöldum breytingum: „[Samgöngustofu] 1) [og þeim sem starfrækir flugvöll eða flugleiðsöguþjónustu]2) er heimilt að aftra för loftfars af flugvelli uns gjöld eru greidd eða trygging sett fyrir greiðslu vegna þess loftfars sem í hlut á eða annarrar starfsemi hlutaðeigandi eiganda eða umráðanda loftfarsins. [Rekstraraðili flugvallar skal verða við beiðni Umhverfisstofnunar um að aftra för loftfars uns lögmælt gjöld vegna losunar gróðurhúsalofttegunda, er varða viðkomandi loftfar, eru greidd eða trygging sett fyrir greiðslu þeirra.]3)

Eins og rakið er að ofan er meginbreytingin á ákvæðinu sú að nú er heimilt að beita heimildinni bæði gegn umráðanda loftfars og eiganda. Orðalag 1. mgr. 136. gr. laganna er skýrt með það að umráðamanni eða eiganda flugfars verður gert að þola það að heimilt sé að aftra för loftfars en með breytingum á ákvæðinu er hvergi að finna, þrátt fyrir útvíkkun ákvæðisins, umfjöllun um að heimilt sé að beita ákvæðinu gegn eiganda loftfars vegna skulda umráðamanns sem stofnast hafa vegna viðskipta annarra umráðamanna eða eigenda og er óviðkomandi umræddu loftfari. Hafi það verið tilgangur löggjafans hefði í það minnsta þurft að skýra það með einhverjum hætti í umsögnum eða greinargerðum með lögunum eða breytingarlögum. Það er ekki gert. Því verður að túlka ákvæðið samkvæmt orðanna hljóðan og skýrt kemur fram í ákvæðinu að um sé að ræða gjöld vegna loftfars sem í hlut á eða annarrar starfsemi hlutaðeigandi eiganda eða umráðanda loftfarsins. Er með þessu orðalagi verið að vísa til þess loftfars sem tálmað er för frá flugvelli.

Ekki er að finna í lögskýringargögnum hvað löggjafinn á við með orðunum „annarrar starfsemi hlutaeiðandi eiganda eða umráðanda loftfarsins“. Þá er ekkert annað að finna í lögskýringargögnum en að það séu þá gjöld vegna þess loftfars sem hlut á að máli.

Dómurinn telur hins vegar að 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga heimili gerðarþola að beina kröfu sinni að eiganda flugvélarinnar sem og umráðamanni samkvæmt orðalagi ákvæðisins.   

Gerðarþoli lagði fram gögn í máli nr. A-53/2019 á USB-kubbi sem sýndi skuld WOW air hf. og var hver liður tengdur ákveðnu loftfari. Samkvæmt því skjali reiknaði gerðarbeiðandi út og lagði fram í máli þessu þá fjárhæð sem gerðarþoli sjálfur hafði merkt TF-GPA. Greiddi gerðarbeiðandi þá fjárhæð inn á bankareikning gerðarþola þann 6. maí sl. Verður sönnunarbyrðin um að ekki sé um lokagreiðslu vegna TF-GPA að ræða lögð á gerðarþola en hann hefur ekki, þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir gerðarbeiðanda, lagt fram gögn sem sýna ógreidd gjöld tengd TF-GPA.

Að því virtu að gerðarbeiðandi hefur sýnt fram á að hann hafi greitt skuld við gerðarþola vegna TF-GPA, telur dómurinn að gerðarbeiðanda sé aftrað að neyta réttinda sinna með ólögmætum hætti og skilyrði 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 því uppfyllt.

Verður krafa gerðarbeiðanda því tekin til greina.

Ágreiningur aðila um aðrar skuldir WOW air hf. við gerðarþola stendur ekki í vegi fyrir því að krafa gerðarbeiðanda nái fram að ganga, sbr. 79. gr. laganna.

Þá er því ekki til að dreifa í máli þessu að stofnast hafi haldsréttur í TF-GPA þar sem vera vélarinnar á flugvellinum er af völdum gerðarþola gegn vilja gerðarbeiðanda. Að auki eru skuldir WOW air hf. við gerðarþola vegna fjölda annarra flugvéla sem voru í rekstri hjá WOW air hf. og er útilokað að haldsréttur geti stofnast í einni flugvél vegna skulda annarra flugvéla í eigu þriðja aðila. Er þeirri málsástæðu gerðarþola því hafnað. Gerðarbeiðandi hefur greitt þær fjárkröfur sem tengjast TF-GPA og er því ekki skilyrði haldsréttar í flugvélinni lengur fyrir hendi.

            Gerðarþoli krefst þess, fari svo að krafa gerðarbeiðanda verði tekin til greina, að málskot til æðri dóms fresti aðfarargerðinni, sbr. 3. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989. Þessu mótmælir gerðarbeiðandi.

            Í 3. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 segir að málskot úrskurðar héraðsdómara samkvæmt þessum kafla til æðra dóms fresti ekki aðfarargerð, nema fallist hafi verið á kröfu þess efnis í úrskurðinum. Þessi undantekning er einkum komin til með þau tilvik í huga, þar sem hagsmunir gerðarþola af málefni séu ófjárhagslegs eðlis og tjón hans yrði ekki bætt með fégreiðslu, ef gerðin yrði framkvæmd í kjölfar úrskurðar og æðri dómur kæmist síðar að gagnstæðri niðurstöðu við héraðsdómara.

            Varðandi þessa kröfu leggur gerðarþoli ríka áherslu á að verði krafa gerðarbeiðanda tekin til greina, muni flugvélin fara úr landi og nýtt félag búið til um hana. Fjárkrafa gerðarþola verði því varla sótt til gerðarbeiðanda. Tekið er undir það með gerðarþola að hjá honum séu gríðarmiklir fjárhagslegir hagsmunir í húfi. Þrátt fyrir það hefur gerðarþoli látið vanskil viðgangast mánuðum saman með þá vitneskju að eignarhald vélarinnar sé hjá „skúffufyrirtæki“ eins og gerðarþoli nefnir það. Til þess verður einnig að líta að fjárhagslegir hagsmunir gerðarbeiðanda eru mun miklu meiri en gerðarþola.

Gegn mótmælum gerðarbeiðanda er þessari kröfu gerðarþola hafnað.

            Að þessari niðurstöðu fenginni og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, verður gerðarþola gert að greiða gerðarbeiðanda 1.000.000 króna í málskostnað.

            Af hálfu gerðarbeiðanda flutti málið Oddur Ástráðsson lögmaður og af hálfu gerðarþola Hlynur Halldórsson lögmaður.

            Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

 

Úrskurðarorð.

Gerðarbeiðanda, ALC A321 7237, LLC, er heimilt með beinni aðfarargerð að fá farþegaþotuna af gerðinni Airbus A321-211, með skráningarnúmerið TF-GPA, sem staðsett er á Keflavíkurflugvelli, tekna úr umráðum gerðarþola, ISAVIA.

            Gerðarþoli greiði gerðarbeiðanda 1.000.000 króna í málskostnað.

            Málskot úrskurðarins til Landsréttar frestar ekki aðfarargerðinni.