Print

Mál nr. 498/2017

Lögreglustjórinn [...] (( ))
gegn
X (Trausti Ágúst Hermannsson hdl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Nálgunarbann
Reifun
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem felld var úr gildi ákvörðun sóknaraðila um að varnaraðili skyldi sæta nánar tilgreindu nálgunarbanni.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. ágúst 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 1. ágúst 2017, þar sem felld var úr gildi ákvörðun sóknaraðila 26. júlí sama ár um að varnaraðili skyldi sæta nánar tilgreindu nálgunarbanni. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind ákvörðun hans verði staðfest.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá hafa foreldrar varnaraðila og brotaþoli, A, flutt lögheimili sitt á tiltekið heimilisfang í Reykjavík, en varnaraðili hefur skráð lögheimili í [...]. Af hálfu varnaraðila er því haldið fram að hann og [...] hafi flutt dvalarstað sinn til Reykjavíkur, en brotaþoli dvelji enn á fyrra lögheimili sínu í [...].

Í hinum kærða úrskurði er gerð grein fyrir þeirri sérfræðimeðferð sem varnaraðili hefur þegið eftir að hann upplýsti sjálfur um ætluð brot sín. Þar kemur einnig fram að ekki liggi fyrir að hann hafi brotið gegn [...] síðan í apríl 2016 og að hann hyggist á þessu skólaári hefja nám við menntaskóla utan Reykjavíkur þar sem hann muni dvelja á heimavist. Hann hefur lagt fram gögn um að umsókn sín um dvöl á heimavist skólans hafi verið samþykkt.

Með framangreindum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin er með virðisaukaskatti eins og í dómorði greinir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, Trausta Ágústs Hermannssonar héraðsdómslögmanns, 186.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands þriðjudaginn 1. ágúst 2017

            Með bréfi dagsettu 28. júlí 2017 hefur lögreglustjórinn [...] krafist þess með vísan til 1. mgr. 12. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili, að staðfest verði ákvörðun lögreglustjórans sem tekin var þann 26. júlí sl. með vísan til 2. mgr. 3. gr. laganna um að X, kt. [...], hafi verið gert að sæta nálgunarbanni gagnvart [...], A, kt. [...], brotaþola í máli þessu, í þrjá mánuði frá og með birtingu ákvörðunarinnar 27. júlí 2017, sbr. 4. gr. laganna. Hafi verið lagt bann við því að varnaraðili kæmi að eða væri við heimili brotaþola að [...], veitti brotaþola eftirför, nálgaðist hann á almannafæri sem næmi 50 metra radíus frá staðsetningu hans hverju sinni eða setti sig í sambandi við hann með nokkru móti.  Framangreind ákvörðun lögreglustjóra var birt varnaraðila 27. júlí sl. kl. 10:05 og skyldi hún gilda í þrjá mánuði frá birtingu. Trausti Ágúst Hermannsson hdl. hefur verið skipaður verjandi varnaraðila og Aníta Óðinsdóttir hdl. hefur verið skipuð réttargæslumaður brotaþola.

            Málið var þingfest á Selfossi í gær og sótti verjandi varnaraðila þing. Varnaraðili sótti ekki þing en gefið hafði verið út útivistarfyrirkall sem var birt varnaraðila 28. júlí sl. Réttargæslumaður brotaþola mætti fyrir dómi. Verjandinn mótmælti framkominni kröfu fyrir hönd varnaraðila og krafðist þess aðallega að kröfu um nálgunarbann yrði hafnað en til vara að tímalengd þess yrði stytt. Þá krafðist hann þóknunar fyrir störf sín auk greiðslu ferðakostnaðar. Réttargæslumaður brotaþola  gerði kröfu um að ákvörðun lögreglustjóra yrði staðfest. Þá gerði lögmaðurinn einnig kröfu um þóknun og greiðslu ferðakostnaðar. Málið var því tekið til úrskurðar í þessu þinghaldi eftir að sækjandi, verjandi og réttargæslumaður brotaþola höfðu tjáð sig um lagaatriði.

                Í ákvörðun lögreglustjóra kemur fram að [...] hafi borist beiðni frá barnaverndarnefnd [...], dags. 26. júlí 2017, um að lögreglustjórinn hlutaðist til um og tæki ákvörðun um að varnaraðila yrði gert að sæta nálgunarbanni gagnvart [...], brotaþola í máli þessu, til að tryggja öryggi hans, en varnaraðili hafi ítrekað brotið kynferðislega gegn brotaþola.

                [...]

                Fram kemur í greinargerð lögreglustjóra að drengirnir hafi báðir sótt sálfræðimeðferð á vegum barnaverndar frá því málið hafi komið upp. Brotaþoli hafi sótt meðferðarviðtöl hjá C sálfræðingi hjá Barnahúsi en meðferð hans sé nú á lokastigi. Samkvæmt vottorði C sé brotaþoli með mörg einkenni sem þekkt séu meðal þeirra sem sætt hafi kynferðislegu ofbeldi. Áfallastreitueinkenni eins og endurupplifanir, forðun og ofurárvekni komi skýrt fram hjá honum. Sjálfsmynd drengsins sé verulega brotin eftir langvarandi streituvaldandi aðstæður og sé ljóst að afleiðingar þess kynferðisofbeldis sem hann hafi sætt af hálfu [...] séu ekki til þess fallnar að bæta sjálfsmynd hans og trú á eigin getu. Varnaraðili hafi sótt SÓK meðferðarviðtöl (meðferðarúrræði fyrir börn og ungmenni sem sýnt hafa óæskilega kynferðislega hegðun) hjá D sálfræðingi á vegum Barnaverndarstofu. Samkvæmt bréfi D sé varnaraðili meðferðartækur og hafi verið virkur í sinni meðferð þegar bréfið hafi verið ritað. Varnaraðili hafi sjálfur komið fram með vandann og hafi hann gengist við brotum sínum í meðferð. Varnaraðili hafi orðið [...] sl. og hafi hvorki lögregla né barnavernd upplýsingar um hvort hann sé enn virkur í meðferð sinni.

                Varnaraðili mun einnig hafa gengist undir mat á geðheilbrigði sem unnið hafi verið af E geðlækni. Niðurstöður matsins hafi borist lögreglustjóranum þann 21. desember sl. en þar komi fram að varnaraðili sé örugglega sakhæfur og hafi enga alvarlega geðsjúkdóma. [...]. Þá komi fram að varnaraðili sé í meðferð hjá sálfræðingi og telji matsmaður að varnaraðili þurfi slíka meðferð áfram þar sem við vissar aðstæður geti stafað hætta af honum enn í dag. [...].

                   Fram kemur í greinargerðinni að rannsókn málsins sé nú lokið og hafi málið verið sent héraðssaksóknara til ákvörðunar um saksókn. Þá kemur fram að frá því málið hafi komið upp hafi lögreglustjórinn tekið ákvörðun um nálgunarbann og brottvísun af heimili fjórum sinnum. Ákvörðun lögreglustjórans hafi tvisvar verið staðfest með úrskurði héraðsdóms og í tvígang verið felld úr gildi með úrskurði dómsins.

Lögreglustjóri byggir á því að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um að hafa framið refsivert brot gagnvart brotaþola en brotin varði við XXII. kafla almennra hegningarlaga og hafi beinst gegn [...] sem auki enn frekar á grófleika þeirra. Þá beri að nefna að dómurinn hafi fallist á með lögreglustjóra að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um að hafa brotið kynferðislega gegn brotaþola með fyrri úrskurðum í málum sem varða varnaraðila og brotaþola. Auk þess telur lögreglustjórinn að séu [...] í samskiptum sé yfirvofandi hætta á því að varnaraðili brjóti gegn brotaþola á ný. Eftir að varnaraðili hafi  greint frá brotum sínum og hafið SÓK meðferð hafi hann aftur brotið gegn brotaþola. Þá komi fram í matsgerð E geðlæknis að varnaraðili [...]. Hvorki lögreglustjórinn né barnavernd hafi upplýsingar um hvort varnaraðili  sé enn virkur í þeirri meðferð sem matsmaður hafi talið þörf á en með hliðsjón af því að varnaraðili hafi verið búsettur í [...] frá því um áramót telji lögreglustjórinn síður líklegt að svo sé.

                   Með hliðsjón af öllu framangreindu telur lögreglustjórinn að skilyrði a. og b. liðar 4. gr. laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili nr. 85/2011 séu uppfyllt en þess beri að geta að 4. gr. laganna áskilur aðeins að annað hvort skilyrði a. eða b. liðar þurfti að vera uppfyllt til heimilt sé að beita nálgunarbanni. Þá telur lögreglustjórinn að ekki sé hægt að vernda friðhelgi brotaþola með öðrum eða vægari hætti, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna. Önnur vægari úrræði á vegum barnaverndar hafi verið reynd, t.a.m. vistun varnaraðila utan heimilis og yfirlýsing sem foreldrar hafi undirritað um að þeir myndu tryggja að [...]. Þau úrræði hafi ekki komið í veg fyrir samskipti milli [...] þar sem sl. haust hafi þeir farið að hittast undir handleiðslu meðferðaraðila sem gengið hafi vel að þeirra mati og hafi barnaverndin því ekki lagst gegn fyrirkomulaginu. Að mati barnaverndar hafi þó ýmislegt bent til þess að [...] hafi ekki viljað vera í samskiptum við hvorn annan en gert það til að þóknast foreldrum sínum.

                   Varnaraðili sé nú [...] og hafi lögregla upplýsingar frá barnaverndarnefnd að þeir [...] séu í samskiptum þar sem ítrekað hafi sést til þeirra saman upp á síðkastið, m.a. við vinnu og í frístundum. Foreldrar drengjanna hafi ekki upplýst barnaverndarnefnd um breytta stöðu mála en samskipti foreldra og barnaverndar hafi verið takmörkuð þar sem skorti á vilja foreldra til að vinna málið með barnaverndarnefnd.

                   Lögreglustjóri telji því að brotaþoli þurfi þá réttarvernd sem lög um nálgunarbann og brottvísun af heimili veiti þrátt fyrir að varnaraðili eigi lögheimili í [...] en brotaþoli [...] þar sem varnaraðili dvelji nú [...] og foreldrar þeirra hafi ekki reynt að koma í veg fyrir að þeir eigi í samskiptum. Þá telji lögreglustjórinn að það hafi mjög slæm áhrif á brotaþola að vera í samskiptum við varnaraðila þar sem brotaþoli hafi ítrekað komist í kast við lögin eftir að málið hafi komið upp. Þá hafi barnavernd upplýst lögreglu um að brotaþoli hafi einnig sýnt af sér óæskilega hegðun í skólanum, m.a. kastað síma sínum og tölvu kennara í vegg auk þess að hafa kastað stól í átt að kennara. Þá hafi brotaþoli sagt að hann vilji deyja og hann langaði að drepa ákveðna aðila sem hann hafi verið  búinn að setja á svokallaðan „hit list“. Telji nefndin að hegðun brotaþola megi rekja til samskipta hans við [...] og þessi hegðun hans sé þess eðlis að á einhverjum tímapunkti geti hann skaðað sjálfan sig eða aðra. Því telji barnaverndarnefnd mikilvægt að koma í veg fyrir samskipti milli þeirra [...] og telji nefndin að þau úrræði sem hún geti gripið til séu ekki líkleg til að skila árangri vegna skorts á vilja foreldra til að vinna að málinu með barnaverndarnefnd. Hafi nefndin því talið nauðsynlegt að leita til lögreglu og óska eftir að lögreglustjóri tæki ákvörðun um nálgunarbann til að tryggja öryggi brotaþola.

Niðurstaða:

            Samkvæmt a-lið 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili er heimilt að beita nálgunarbanni ef rökstudd ástæða er til að ætla að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola eða eins og segir í b-lið sömu lagagreinar að hætta sé á að viðkomandi muni fremja háttsemi samkvæmt a-lið gagnvart brotaþola.  Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laganna getur sá maður sem misgert er við, brotaþoli, fjölskylda hans eða annar honum nákominn borið fram beiðni til lögreglu um að maður, sakborningur, sem brotið hefur gegn honum eða raskað friði hans á anna hátt, sæti nálgunarbanni og/eða brottvísun af heimili. Samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar hefur lögráðamaður brotaþola og sá sem kemur fram fyrir hönd félagsþjónustu og/eða barnaverndarnefndar í sveitarfélagi þar sem viðkomandi er búsettur sömu heimild og í 1. mgr. greinir. Þá kemur fram í 3. mgr. lagagreinarinnar að lögreglustjóri geti að eigin frumkvæði tekið mál til meðferðar samkvæmt lögum þessum ef hann telur ástæðu til.  

             Í fyrri úrskurðum dómsins hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að rökstuddur grunur leiki á því að varnaraðili hafi beitt [...], sem nú er [...] ára gamall, andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi um margra ára skeið og hefur varnaraðili kannast við háttsemi sína í sálfræðiviðtölum og við skýrslutökur hjá lögreglu. Þá hefur hann greint föður sínum frá því að hann hafi brotið kynferðislega gegn brotaþola. Þá liggur fyrir framburður fyrrverandi samstarfsmanns varnaraðila sem hefur greint frá því að varnaraðili hafi viðurkennt að hafa brotið kynferðislega gegn brotaþola og jafnframt hafi hann lýst mikilli reiði og hatri í garð brotaþola og einnig lýst þeim vilja sínum að brotaþoli verði beittur alvarlegum ofbeldisverkum sem gætu leitt hann til dauða. Varnaraðili hefur áður sætt nálgunarbanni og brottvísun af heimili frá 20. maí 2016  og aftur frá 16. júní 2016 og hafa þessar ráðstafanir verið staðfestar með dómsúrskurðum. Með úrskurði dómsins þann 20. júlí 2016 var ákvörðun lögreglustjórans [...] um nálgunarbann og brottvísun af heimili sem tekin var þann 14. júlí 2016 felld úr gildi, en þá var m.a. litið til þeirra ráðstafana sem gripið hafði verið til af hálfu barnaverndarnefndar og foreldra [...] til að tryggja öryggi brotaþola og höfð hliðsjón af 1. mgr. 6. gr. framangreindra laga. Þá var sambærilegri kröfu hafnað með úrskurði dómsins frá 28. desember 2016 en á því var byggt að varnaraðili væri farinn af landi brott til [...] til að hefja nám í [...]. Lægi ekki fyrir neitt um að hann væri væntanlegur aftur til Íslands á þeim tíma sem nálgunarbanni og brottvísun af heimili væri ætlað að gilda. Var því hvorki talin þörf á úrræðunum eins og málum væri nú komið, né heldur hafi verið sýnt fram á að vægari úrræði gætu ekki dugað til að tryggja lögverndaða hagsmuni brotaþola.

            Af gögnum málsins verður ekki ráðið að varnaraðili hafi brotið gegn brotaþola síðan í apríl á síðasta ári. Undir meðferð málefna varnaraðila og brotaþola á síðasta ári undirrituðu foreldrar drengjanna yfirlýsingar þess efnis að þau myndu sjá til þess og tryggja að [...] yrðu í engum samskiptum meðan málið væri til rannsóknar hjá lögreglu og myndu þau hlíta fyrirmælum barnaverndar og lögreglu varðandi samskipti drengjanna. Yrði misbrestur á þessu  myndi barnavernd taka málið til endurskoðunar og grípa til frekari ráðstafana til að tryggja öryggi drengjanna. Slík yfirlýsing liggur ekki fyrir að þessu sinni og samkvæmt lögregluskýrslu voru varnaraðili, foreldrar drengjanna og [...] þeirra mjög ósátt þegar ákvörðun um nálgunarbann var birt varnaraðila þann 27. júlí sl. Kváðu þau að verið væri að vinna í þessu máli og hefði það gengið vel. Hafi varnaraðili sagst hafa farið til [...] til að læra og vinna í sjálfum sér og hefði hann ekkert gert af sér í meira en ár. Hafi [...] drengjanna verið mjög reið og ekki skilið hvers vegna [...] fengi ekki að vera í friði til að vinna í sínum málum. Hafi hún skorað á varnaraðila að skrifa hvorki undir yfirlýsinguna né fara eftir henni. Hafi lögreglumaðurinn þá gert þeim grein fyrir því að færi varnaraðili ekki eftir nálgunarbanninu myndi hann brjóta lög og yrði brugðist við því með viðeigandi hætti. Hafi varnaraðili sagt að hann hefði komið til [...] í lok júní. Hann hefði farið í viku til [...] í byrjun júlí og komið aftur til [...] í kringum 15. júlí og hygðist hann fara austur á land þann 17. ágúst. Þá segir í lögregluskýrslunni að foreldrar drengjanna hafi viljað koma því á framfæri að þau væru mjög ósátt við ákvörðun lögreglustjóra um nálgunarbann og væru þau ekki viss um að eftir henni yrði farið.

             Verjandi  varnaraðila hefur lagt fram staðfestingu á sálfræðiviðtölum sem varnaraðili hefur sótt hjá D sálfræðingi, dags. 29. júlí 2017. Þar kemur fram að varnaraðili hafi verið í sálfræðiviðtölum frá mars til desember 2016, alls um fjörutíu tíma. Hann hafi verið í eftirfylgd frá áramótum 2017 hjá sálfræðingnum og í upphafi meðferðar hafi hann verið metinn með tilliti til áhættuþátta og meðferð skipulögð. Hann hafi lokið öllum virkum þáttum meðferðar og hafi hún skilað árangri og hafi ekki komið fram upplýsingar um að varnaraðili hafi sýnt af sér frekari óviðeigandi hegðun frá því síðasta vor. Fram kemur í vottorðinu að varnaraðili hafi verið í skóla í [...] frá janúar til júní 2017 og á því tímabili hafi hún átt svokölluð skypeviðtöl við hann í alls sex skipti. Hann hafi komið til landsins þann 21. júní sl. og samdægurs komið í viðtal. Væri fyrirhugað að hann verði áfram í eftirfylgd og væri hann í fullri samvinnu varðandi eftirfylgdina og hafi hann haft frumkvæði að því að hafa samband ef svo bæri undir. Þá lagði verjandinn fram staðfestingu frá [...] þess efnis að varnaraðili hafi fengið inni á heimavist skólans á haustönn 2017 og kemur fram að heimavistin opni þann 20. ágúst nk. Verjandinn lagði einnig fram leigusamning þar sem fram kemur að móðir varnaraðila hafi gert húsaleigusamning um íbúðarhúsnæði í [...] til eins árs og væri upphaf leigutíma 29. júlí sl.. Verjandinn upplýsti að varnaraðili væri farinn til [...] ásamt móður sinni og byggju þau nú í þessari íbúð.

            Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 85/2011 verður nálgunarbanni og/eða brottvísun af heimili aðeins beitt þegar ekki þykir sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til. Í máli þessu ber að líta sérstaklega til þess að ekkert liggur fyrir um að varnaraðili hafi brotið gegn [...] síðan í apríl á síðasta ári. Þá liggur fyrir vottorð sálfræðings um jákvæðan árangur af meðferð sem varnaraðili hefur sætt undanfarið og þá ber að líta til þess að varnaraðili hefur nú flutt til [...] með móður sinni og hyggst hefja skólanám á [...] síðar í þessum mánuði. Ekkert liggur fyrir um það að varnaraðili sé væntanlegur til [...] á þeim tíma sem nálgunarbanni er ætlað að gilda. Samkvæmt öllu framansögðu verður því að telja að hvorki sé þörf á nálgunarbanni eins og málum er nú komið né hefur verið sýnt fram á að vægari úrræði geti ekki dugað til að tryggja lögverndaða hagsmuni brotaþola. Verður því ekki hjá því komist að fella ákvörðun lögreglustjóra úr gildi.

            Með vísan til annars vegar 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 og hins vegar 3. mgr. 48. gr. sömu laga, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011, greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Trausta Ágústs Hermannssonar hdl., 210.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, auk ferðakostnaðar lögmannsins, 13.200 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Anítu Óðinsdóttur hdl., 105.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, auk ferðakostnaðar lögmannsins, 13.200 krónur, greiðist einnig úr ríkissjóði.

            Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

            Ákvörðun lögreglustjórans [...] um nálgunarbann sem tekin var þann 26. júlí 2017 og birt var varnaraðila, X, kt. [...], þann 27. júlí 2017 kl. 10:05, er felld úr gildi. 

            Greiða skal úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Trausta Ágústs Hermannssonar hdl.,  210.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, auk ferðakostnaðar lögmannsins, 13.200 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Anítu Óðinsdóttur hdl., 105.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, auk ferðakostnaðar lögmannsins, 13.200 krónur, greiðist einnig úr ríkissjóði.