Print

Mál nr. 302/2016

Garðar Stefánsson (Garðar G. Gíslason hrl., Birgir Már Björnsson hdl. 1. prófmál)
gegn
Saltverki Reykjaness ehf. (Guðmundur B. Ólafsson hrl., Páll Kristjánsson hdl. 3. prófmál), og Nordic Sea Salt ehf. (Guðmundur B. Ólafsson hrl., Jón Bjarni Kristjánsson hdl. 2. prófmál), og Saltverk Reykjaness ehf..  (Guðmundur B. Ólafsson hrl.) gegn Garðari Stefánssyni  (Garðar G. Gíslason hrl.)
Lykilorð
  • Einkahlutafélag
  • Ógilding samnings
Reifun
Í desember 2013 samþykkti meirihluti hluthafa á hluthafafundi S ehf. tillögu stjórnar félagsins um staðfestingu kaupsamnings frá febrúar sama ár þar sem allar eignir þess voru seldar N ehf. G, sem var eigandi 34,5% hlutar í S ehf., lagðist gegn samþykkt hluthafafundarins og krafðist í málinu annars vegar ógildingar á henni og hins vegar að kaupsamningurinn yrði ógiltur. Fallist var á fyrri kröfu G á þeim grunni að ákvörðun hluthafafundarins hefði falið í sér brot gegn 1. og 2. mgr. 70. gr. a. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, sbr. 71. gr. sömu laga, þar sem að stjórnin hefði ekki aflað skýrslu með yfirlýsingu endurskoðanda um að samræmi væri milli greiðslu félagsins og þess endurgjalds sem félagið hefði fengið. Þá var með skírskotun til 1. og 3. mgr. 70. gr. a., 4. mgr. 71. gr. og 77 laga nr. 138/1994 litið svo á að umræddur kaupsamningur væri ekki bindandi fyrir S ehf. og að aðstaðan skyldi, væri það mögulegt, verða eins og samningurinn hefði ekki verið gerður. Var því jafnframt fallist á síðari kröfu G um að ógilda bæri kaupsamninginn.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir og Árni Kolbeinsson fyrrverandi hæstaréttardómari og Stefán Már Stefánsson prófessor.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. apríl 2016. Hann krefst þess að ógiltur verði nánar tilgreindur kaupsamningur milli gagnáfrýjanda og stefnda frá 7. febrúar 2013. Þá krefst hann þess að staðfest verði ákvæði héraðsdóms um ógildingu ákvörðunar hluthafafundar gagnáfrýjanda 16. desember sama ár. Loks krefst aðaláfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti óskipt úr hendi gagnáfrýjanda og stefnda.   

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 29. júní 2016. Hann krefst sýknu af kröfum aðaláfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms „er varðar þær dómkröfur sem gerðar voru á hendur honum“ og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Málsatvikum er skýrlega lýst í hinum áfrýjaða dómi.

Ágreiningsefni málsins eru tvö. Annars vegar deila aðaláfrýjandi og gagnáfrýjandi um það, hvort ómerkja beri ákvörðun hluthafafundar í gagnáfrýjanda 16. desember 2013 þar sem tillaga stjórnar félagsins um staðfestingu kaupsamnings 7. febrúar sama ár milli gagnáfrýjanda og stefnda var samþykkt. Með kaupsamningnum voru allar eignir gagnáfrýjanda seldar stefnda fyrir 22.000.000 krónur. Hins vegar deila málsaðilar um, hvort ógilda skuli kaupsamninginn.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um fyrrnefnda ágreiningsefnið.

Þá verður í ljósi atvika málsins staðfest með vísan til forsendna sú niðurstaða héraðsdóms að aðaláfrýjandi hafi sem eigandi 34,5% hluta í gagnáfrýjanda lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr kröfu sinni um síðarnefnda álitaefnið, þótt hann sé sjálfur ekki aðili að kaupsamningi þeim, sem krafan tekur til, sbr. 1. mgr. 71. gr., og 3. mgr. 70. gr. a., laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög.

Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. a. í lögum nr. 138/1994 er samningur, sem fellur undir lagagreinina án þess að undantekningar í 1. til 5. tölulið málsgreinarinnar eigi við, ekki bindandi fyrir félagið þegar ekki hefur verið gætt þeirrar aðferðar sem mælt er fyrir um í 2. mgr. greinarinnar. Samkvæmt 4. mgr. 71. gr. laganna skal, ef úrslit í dómsmáli verða þau að ákvörðun hluthafafundar telst ógild, ómerkja þá ákvörðun sem um ræðir, eða breyta henni, en síðarnefnda úrræðið kemur þó ekki til álita í máli þessu. Í 3. mgr. 70. gr. a. er síðan berum orðum mælt fyrir um að sé samningur ekki bindandi fyrir félagið, sbr. 1. mgr. greinarinnar, skuli greiðslur ganga til baka að því marki sem þær hafi verið inntar af hendi. Um framkvæmd slíks uppgjörs eru nánari fyrirmæli í 77. gr. laganna.

Samkvæmt framansögðu leiðir það af fyrirmælum 1. og 3. mgr. 70. gr. a. í lögum nr. 138/1994 að samningur gagnáfrýjanda og stefnda er ekki bindandi fyrir þann fyrrnefnda. Þau réttaráhrif þess, sem mælt er fyrir um í 4. mgr. 71. gr. laganna, eru að ákvörðunin telst ógild og hana skuli ómerkja. Þá felst í 3. mgr. 70. gr. a. og vísan í þeirri málsgrein til 77. gr. laganna að greiðslur, hafi þær verið inntar af hendi, skuli ganga til baka með tilgreindum hætti sé það unnt, en sé það útilokað er í 2. mgr. 77. gr. mælt fyrir um úrræði, sem kostur er að grípa til. Með framangreindum ákvæðum er mælt fyrir um að þegar samningur er ekki bindandi fyrir félagið vegna fyrirmæla reglnanna skuli aðstaðan, sé það mögulegt, verða eins og samningur hafi ekki verið gerður. Leiðir þetta til þess að fallist verður á kröfu aðaláfrýjanda um að ógilda beri kaupsamninginn.

Í samræmi við þessi málsúrslit verða gagnáfrýjandi og stefndi dæmdir óskipt til að greiða aðaláfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er óraskaður um að ómerkt sé ákvörðun hluthafafundar í gagnáfrýjanda, Saltverki Reykjaness ehf., sem haldinn var 16. desember 2013 um að staðfesta kaupsamning félagsins og stefnda, Nordic Sea Salt ehf., frá 7. febrúar sama ár.

Kaupsamningurinn milli gagnáfrýjanda og stefnda 7. febrúar 2013 er ógildur.

Gagnáfrýjandi og stefndi greiði óskipt aðaláfrýjanda, Garðari Stefánssyni, 1.200.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. janúar 2016.

                                                                                           I

         Mál þetta, sem var dómtekið 27. nóvember sl., er höfðað 17. febrúar 2014 af Garðari Stefánssyni, Hringbraut 54 í Reykjavík, gegn Nordic Sea Salt ehf., Ofanleiti 27 í Reykjavík, og 18. febrúar 2014 gegn Saltverki Reykjaness ehf., Kirkjustétt 6 í Reykjavík.

         Gagnvart stefnda, Saltverki Reykjaness ehf., eru dómkröfur stefnanda þær að ógilt verði ákvörðun hluthafafundar í félaginu 16. desember 2013 um að staðfesta kaupsamning, dags. 7. febrúar 2013, um sölu á öllum eigum félagsins til stefnda, Nordic Sea Salt ehf. Stefnandi gerir jafnframt þá kröfu gagnvart báðum stefndu að kaupsamningur, dags. 7. febrúar 2013, milli Saltverks Reykjaness ehf. og Nordic Sea Salt ehf. verði ógiltur með dómi. Af hálfu stefnanda er enn fremur krafist málskostnaðar úr hendi stefndu að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

         Stefndi, Saltverk Reykjaness ehf. krefst sýknu auk málskostnaðar samkvæmt mati dómsins og vaxta af málskostnaði samkvæmt 3. kafla vaxtalaga frá 15. degi eftir uppkvaðningu dóms til greiðsludags.

         Stefndi, Nordic Sea Salt ehf., krafðist þess í öndverðu aðallega að öllum kröfum stefnanda yrði vísað frá dómi. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði héraðsdóms 11. nóvember sl. Að því frágengnu krefst félagið sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaðar samkvæmt mati dómsins auk vaxta af málskostnaði samkvæmt 3. kafla vaxtalaga frá 15. degi eftir uppkvaðningu dóms til greiðsludags.

                                                                                        II

         Málsatvik eru þau að stefnandi stofnaði Saltverk Reykjaness ehf. ásamt Birni Steinari Jónssyni og Yngva Eiríkssyni. Eignarhlutur stefnanda var 34,5%, en hann starfaði enn fremur sem framkvæmdastjóri félagsins um skeið. Markmiðið með stofnun félagsins var að hrinda í framkvæmd viðskiptahugmynd um saltvinnslu á Reykjanesi í Ísafjarðardjúpi. Framleiðsla á salti mun hafa hafist á Reykjanesi í smáum stíl árið 2011. Samkvæmt því sem fram hefur komið fyrir dómi var á árinu 2012 unnið að því að auka framleiðslugetu saltvinnslunnar.

         Breytingar urðu á eigendahópi félagsins í september 2012. Félagið Dos ehf., sem er í eigu Jóns Pálssonar, föður Björns Steinars, hafði fyrr á árinu lánað stefnda, Saltverki Reykjaness ehf., 10 milljónir króna í peningum. Í málinu hefur komið fram að Daníel Helgason hafi lánað Dos ehf. umrædda fjármuni. Samkvæmt lánssamningnum átti Dos ehf. þess kost að breyta láninu í hlutafé. Í september 2012 nýtti Dos ehf. sér þennan rétt, sbr. tilkynningu þess efnis 6. þess mánaðar. Þar kemur fram að með því falli skuldin með áföllnum vöxtum niður. Þá segir þar að gert sé ráð fyrir því að hlutnum verði skipt milli Dos ehf. og Þarabakka ehf. eða „óstofnaðs félags í eigu Þarabakka ehf. / Daníels Helgasonar“.

         Með yfirlýsingu 20. júní 2012 munu Yngvi Eiríksson og stefndi, Saltverk Reykjaness ehf., hafa komist að samkomulagi um að fyrir 15. september 2012 myndi félagið, eða annar aðili sem félagið tilnefndi, kaupa 15% hlut Yngva í félaginu (75.000 hlutir). Á stjórnarfundi 14. september 2012 kom fram að 5.000 hlutir hefðu þegar verið keyptir á grundvelli þessa samkomulags og að 70.000 hlutir væru eftir. Þar sem félaginu hefði ekki tekist að afla fjár til að fjármagna kaupin af Yngva lagði meirihluti stjórnarinnar það til að Daníel Helgason keypti hlutina af Yngva fyrir hönd óstofnaðs félags. Stefnandi lagðist gegn þessari ákvörðun. Hún var hins vegar samþykkt af Birni Steinari Jónssyni og Jóni Pálssyni. Því er haldið fram af stefndu að Daníel hafi þó aldrei orðið eigandi þessara hluta þar sem Dos ehf. hafi gengið inn í kaupin á grundvelli forkaupsréttar. Stefnandi byggir aftur á móti á því að kaup Daníels á hlutunum hafi gengið eftir og að hann hafi við það orðið eigandi þessara hluta.

         Áform voru jafnframt uppi um að danskur fjárfestir, Søren Rosenkilde, keypti 20% hlut í félaginu. Með þeirri ráðstöfun átti að tryggja félaginu fjármagn til að auka framleiðslugetuna. Mun óformlegt samkomulag hafa verið gert við fjárfestinn sumarið 2012 um að hann keypti þennan hlut á 60 til 70 milljónir króna. Fram hefur komið að stefnt hafi verið að því að nota hlutina frá Yngva m.a. við þessi viðskipti. Ekkert varð þó af þessum kaupum danska fjárfestisins.

         Í kjölfar fyrrgreinds stjórnarfundar 12. september 2012 sagði stefnandi sig úr stjórninni með tilkynningu 18. september 2012. Þá sagði hann upp starfi sínu sem framkvæmdastjóri stefnda Saltverks Reykjaness ehf. Um svipað leyti stofnaði hann félagið Norður & Co ehf. með Søren Rosenkilde, en það félag framleiðir nú salt úr sjó á Reykhólum, eins og nánar er fjallað um í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 18. mars 2014 í málinu nr. E-1040/2013. Í þeim dómi var komist að þeirri niðurstöðu að flest benti til þess að stefnandi hefði hafið undirbúning að framangreindum rekstri meðan hann bar enn þá trúnaðarskyldur gagnvart stefnda, Saltverki Reykjaness ehf., sem framkvæmdastjóri félagsins.

         Á hlutahafafundi í Saltverki Reykjaness ehf. 8. október 2012 lagði stjórnarformaður félagsins, Björn Steinar Jónsson, fram tillögu um að hlutafé í félaginu yrði hækkað um sem næmi 20% af nafnvirði. Í fundargerð kemur fram að aðrar leiðir til fjármögnunar væru útilokaðar. Stefnandi lagðist gegn tillögunni og hlaut hún því ekki samþykki. Fært er til bókar í fundargerð að stjórn félagsins áskildi sér í þessu ljósi rétt til þess „að grípa til hverra þeirra aðgerða sem nauðsynlegar eru til þess að vernda alla hlutaðeigandi aðila er eiga kröfur á félagið“.

         Hluthafafundur var haldinn í félaginu 16. nóvember 2012 þar sem meðal annars var fjallað um slæma fjárhagsstöðu þess. Á fundinn mætti Ásgeir Runólfsson fyrir hönd stefnanda. Lét Ásgeir bóka í fundargerð að ástæða væri til að hafa miklar áhyggjur af fjárhagsstöðu félagsins og vísaði þar til þess að stefnanda hefði borist bréf frá Landsbankanum um veruleg vanskil félagsins á nýsköpunarláni. Í þessu sambandi vakti Ásgeir athygli á skyldu stjórnar til að gefa félag upp til gjaldþrotaskipta, sbr. 80. gr. laga um einkahlutafélög. Óskaði hann eftir því að upplýst yrði hvort félagið gæti staðið við greiðslu gjaldfallinna skuldbindinga sinna. Þá vakti hann athygli á skyldum stjórnar félagsins samkvæmt 51. gr. laga um einkahlutafélög um að haga öllum störfum sínum í samræmi við hagsmuni félagsins.

         Í málinu liggur einnig fyrir boðun á hluthafafund 7. desember 2012. Á dagskrá þess fundar voru tveir liðir; „Fjárhagsupplýsingar félagsins“ og „Önnur mál“. Í stefnu kemur fram að stefnandi hafi ekki sótt fundinn. Fundargerð þessa fundar liggur ekki fyrir í málinu.

         Þann 7. febrúar 2013 gerðu stefndu Saltverk Reykjaness ehf. og Nordic Sea Salt ehf. með sér kaupsamning þar sem síðarnefnda félagið keypti allar eignir félagsins af fyrrnefnda félaginu, þ.e. „vörumerki, nafn, umbúðir, hönnun, viðskiptavild, framleiðslutæki (s.s. forsuðuofnar, saltpanna) og aðrar eignir“, eins og segir í samningnum. Kaupverðið nam 22 milljónum króna. Í samningnum kemur fram að bókfært verð eigna félagsins nemi 9.267.582 krónum. Þessi liður samanstóð af áhöldum, öðrum tækjum og bifreiðum. Það sem út af stóð, 12.732.418 krónur, var endurgjald fyrir aðrar eignir sem ekki höfðu verið eignfærðar í ársreikningi félagsins. Mælt var fyrir um það að söluverðið yrði greitt annars vegar með 10 milljónum króna í reiðufé og hins vegar með yfirtöku á skuldum stefnda Saltverks Reykjaness ehf. við Lagnalagerinn ehf., Metal ehf., R.V. Pípulagnir ehf. og Agerlin ehf. að fjárhæð 12 milljónir króna. Stjórnarformaður Saltverks Reykjaness ehf., Björn Steinar, samþykkti samninginn fyrir hönd seljanda og Daníel Helgason fyrir hönd kaupanda.

         Fyrir liggur að kaupandinn, stefndi Nordic Sea Salt ehf., leigir félagi með heitinu Saltverk ehf., þau framleiðslutæki og aðrar eignir sem skiptu um hendur samkvæmt framangreindum kaupsamningi. Í stjórn Saltverks ehf. sitja feðgarnir Jón Pálsson og Björn Steinar Jónsson. Saltverk ehf. hét áður Geforma ehf. en tilkynnt var um breytt heiti félagsins til hlutafélagaskrár 20. nóvember 2012. Félag þetta mun alfarið vera í eigu Jóns Pálssonar. Allar vörur sem áður höfðu verið framleiddar af Saltverki Reykjaness ehf. eru nú framleiddar af Saltverki ehf. eins og umbúðir þeirra bera með sér.

         Stefnandi kveður það hafa komið sér í opna skjöldu á árinu 2013 að svo virtist sem allar eigur Saltverks Reykjaness ehf. hefðu verið seldar án þess að það hefði verið tilkynnt hluthöfum. Lögmaður hans fór fram á það fyrir hans hönd, með bréfi, dags. 17. október 2013, að tafarlaust yrði boðað til hluthafafundar. Kom þar fram að ástæða kröfunnar væri grunur um að Björn Steinar og Jón Pálsson hafi valdið stefnda, Saltverki Reykjaness ehf., tjóni „í þeim tilgangi að afla sjálfum sér og félögum þeim tengdum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað Saltverks Reykjaness ehf. og annarra hluthafa og kröfuhafa félagsins“. Laut beiðnin að nánar tilgreindum atriðum sem lögmaðurinn fór fram á að rædd yrðu á fundinum, þar á meðal um tengsl þeirra Björns Steinars og Jóns við einkahlutafélagið Saltverk ehf. og um öll viðskipti, peningafærslur og eignafærslur frá Saltverki Reykjaness ehf. til Saltverks ehf. á tímabilinu frá 1. október 2012 til 15. október 2013. Þegar ekki var orðið við þessari beiðni fór lögmaðurinn þess á leit við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið að boðað yrði til hluthafafundar á grundvelli 2. mgr. 62. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög.

         Með bréfi 20. nóvember 2013 var boðað til aðalfundar í Saltverki Reykjaness sem haldinn skyldi 3. desember 2013. Lögmaður stefnanda áréttaði í tölvuskeyti til Björns Steinars 27. nóvember 2013 beiðni stefnanda um að framangreindar upplýsingar yrðu veittar. Lögmaður stefnanda sótti aðalfundinn 3. desember 2013 fyrir hans hönd. Á fundinum var afgreiðslu ársreiknings félagsins fyrir árið 2012 frestað til framhaldsaðalfundar. Ákveðið var af hálfu stjórnar félagsins að tilteknum spurningum af hálfu stefnanda yrði svarað, þar á meðal hvort viðskipti hefðu átt sér stað milli félagsins og Saltverks ehf. Var þeim svarað á þá leið að engin viðskipti hefðu átt sér stað milli þessara félaga. Öðrum spurningum, sem ekki þóttu tengjast starfsemi félagsins, var hins vegar ekki svarað, þ. á m. hvort feðgarnir Björn Steinar og Jón tengdust Saltverki ehf. Undir liðnum „Önnur mál“ á dagskrá gerði stjórnarformaður félagsins, Björn Steinar, grein fyrir fyrrgreindri sölu á öllum eignum félagsins til Nordic Sea Salt ehf. og ástæðum hennar. Á fundinum svaraði stjórnarformaðurinn spurningum lögmanns stefnanda um framangreind viðskipti. Lögmaður stefnanda lét bóka í fundargerð að stefnandi áskildi sér rétt til skaðabóta vegna sölunnar þar sem hún hafi verið saknæm og ólögmæt. Því mótmælti stjórnarformaður félagsins. Aðalfundinum var frestað til 16. desember 2013.

         Á fyrrgreindum aðalfundi óskaði lögmaður stefnanda meðal annars eftir því að framangreindur kaupsamningur yrði lagður fram á næsta fundi. Með tölvuskeyti 5. desember 2013 áréttaði lögmaðurinn þessa beiðni og fór fram á að fá sent rafrænt eintak samningsins. Enn fremur krafðist hann þess að fá fundargerðir allra hluthafafunda og stjórnarfunda í félaginu á árunum 2012 og 2013. Með bréfi 6. desember 2013 fór lögmaðurinn fram á það fyrir hönd stefnanda að hluthafafundur yrði haldinn í félaginu þar sem dagskráin yrði svohljóðandi:

         „1. Ógilt verði með vísan til 70. gr. a laga nr. 138/1994, sú ákvörðun stjórnar að selja allar eignir félagsins með kaupsamningi í byrjun árs 2013, til Nordic Sea Salt ehf., og viðskiptin látin ganga til baka, enda fór salan ekki fram með fengnu samþykki hluthafafundar félagsins.

         2. Stjórn félagsins leggi fram afrit af kaupsamningi og öll gögn varðandi það verðmat sem lá til grundvallar ákvörðun stjórnar um sölu á öllum eignum félagsins til Nordic Sea Salt ehf.

         3. Stjórn upplýsi um viðskipti með 70.000 hluti í félaginu, sem áður voru í eigu Daníels Helgasonar í gegnum óstofnað hlutafélag hans sbr. fundargerð stjórnarfundar dags. 14. september 2012, fundargerð hluthafafundar 8. október 2012 og 16. nóvember 2012, en samkvæmt skýrslu stjórnar með ársreikningi félagsins fyrir árið 2012 eru hlutirnir skráðir sem eign Dos ehf.

         4. Stjórn upplýsi hvort og þá hvernig forkaupsréttur félagsins og annarra hluthafa, sbr. 7. gr. samþykkta félagsins, hafi verið virtur við viðskiptin milli Dos ehf. og óstofnaðs félags í eigu Daníels Helgasonar um 70.000 hluti í félaginu.“

         Stjórnarformaður stefnda, Saltverks Reykjaness ehf., boðaði til framhaldsaðalfundar 16. desember 2013 með tölvuskeyti 9. desember 2013 þar sem dagskrá fundarins var tilgreind. Sama dag boðaði stjórnarformaðurinn til hluthafafundar sem halda átti í beinu framhaldi af aðalfundinum 16. desember. Í fyrsta lið á dagskrá þess fundar var „Staðfesting kaupsamnings um sölu á eignum félagsins til Nordic Sea Salt ehf.“ Því næst fylgdu þau fundarefni sem farið hafði verið fram á af hálfu stefnanda að tekin yrðu fyrir. Kaupsamningurinn sem ágreiningur aðila lýtur að fylgdi með fundarboðinu sem viðhengi. 

         Lögmaður stefnanda sótti framhaldsaðalfundinn 16. desember 2013 fyrir hönd stefnanda. Með honum var einnig Sigurður Pálsson endurskoðandi. Stjórnarformaðurinn, Björn Steinar, sat fundinn vegna eigin hluta og fyrir hönd Dos ehf. Á fundinum voru gerðar athugasemdir af hálfu stefnanda við ársreikninginn í fimm ítarlegum bókunum. Afgreiðslu ársreikningsins var frestað að tillögu stjórnarformanns til framhaldsaðalfundar 8. janúar 2014. 

         Eins og boðað hafði verið var hluthafafundur haldinn í kjölfar framahaldsaðalfundarins og sóttu sömu aðilar fundinn fyrir hönd sömu eigenda. Lögmaður stefnanda lagði fyrst fram dagskrártillögu þess efnis að annar og þriðji dagskrárliður yrðu teknir fyrir á undan fyrsta dagskrárlið. Greidd voru atkvæði um breytingartillöguna og var hún felld með atkvæði meirihluta eigenda.

         Undir fyrsta dagskrárlið fundarins er bókað í fundargerð að stjórnarformaðurinn hafi farið yfir aðdraganda að gerð fyrirliggjandi kaupsamnings. Tók hann fram að þegar legið hafi fyrir að ekkert yrði af þeirri hlutafjáraukningu sem lögð hafi verið til hafi eitthvað þurft að gera „til að bjarga félaginu“. Lögmaður stefnanda lagði fram bókun á fundinum þar sem því var haldið fram að sala á öllum eignum félagsins fæli í sér breytingu á tilgangi þess. Þá var í bókuninni tekið fram að til grundvallar ákvörðun um staðfestingu kaupsamningsins liggi ekki fyrir „neinar fjárhagslegar upplýsingar varðandi félagið s.s. verðmat undirliggjandi eigna, réttmæti skulda, upplýsingar um að kröfuhafar samþykki skuldskeytingar“. Jafnframt var á það bent að ekki lægi fyrir skýrsla samkvæmt 2. mgr. 70. gr. a í lögum nr. 138/1994. Þá er því haldið fram í bókuninni að kaupsamningurinn væri ólögmætur þar sem ekki hafi legið fyrir samþykki hluthafafundar fyrir ráðstöfuninni, en ekki sé unnt að staðfesta samninginn eftir á. Í umræðu um samninginn er bókað að kaupverð eignanna hafi verið 22 milljónir króna og að það væri að fullu greitt. Kaupsamningurinn var því næst borinn upp og var hann samþykktur með meirihluta atkvæða gegn atkvæði stefnanda. Var þá bókað að stefnandi teldi ákvörðun hluthafafundarins ólögmæta og að hann áskildi sér rétt til þess að höfða mál til ógildingar á henni og leggja fram kæru vegna umboðssvika við söluna.

         Á fundinum var tillaga stefnanda um að sala á öllum eignum félagsins yrði felld úr gildi borin undir atkvæði og hún felld með meirihluta atkvæða. Undir þriðja dagskrárlið, er laut að því að leggja fram kaupsamning og öll gögn sem legið hafi til grundvallar ákvörðun um söluna, er bókað að stjórnarformaðurinn hafi upplýst að kaupsamningurinn hafi verið lagður fram og að með sölunni hafi „verið hámarkað virði eigna félagsins“. Um verðmatið vísaði hann til samningsins sem samþykktur hafi verið undir fyrsta dagskrárlið. Aðspurður um undirliggjandi gögn um verðmat tók hann fram að fyrir lægi bókfært verðmat á ýmsum eignum. Þá hafi verið ljóst að „tekjustraumar“ hafi sýnt „að ekki væri um verðmæti að ræða“ enda hafi tekjur ekki dugað fyrir framleiðslukostnaði og launum. Sigurður Pálsson endurskoðandi, sem eins og áður segir sat fundinn ásamt lögmanni stefnanda, tók fram að bókfært verð lægi fyrir en ekki markaðsverð, auk þess sem ekki lægi fyrir mat á verðmæti óefnislegra eigna. Af fundargerð verður ráðið að allnokkur umræða hafi orðið um verðmatið í kjölfarið og hvort það hafi verið eðlilegt. Þá spurði lögmaður stefnanda um þær skuldir sem hefðu verið yfirteknar af kaupanda eignanna. Stjórnarformaðurinn svaraði því til að þessar skuldir, samtals að fjárhæð 12 milljónir króna, hafi skipst „nokkuð jafnt“ milli aðila og gat þess að umrædd félög „hafi verið að selja félaginu efni á árinu 2012 og tilgreindi þau félög“. Aðspurður um skuld við félagið Agerlin ehf. og hvers vegna hefði verið stofnað til skulda við það félag þegar stefndi, Saltverk Reykjaness ehf., hafi staðið svona illa, svaraði stjórnarformaðurinn að það hafi verið gert „vegna þess að reynt hafi verið að bjarga félaginu“. Jafnframt svaraði stjórnarformaðurinn því játandi að samþykki lánardrottna fyrir yfirtöku á skuldunum hafi legið fyrir.

         Undir fjórða og fimmta dagskrárlið svaraði stjórnarformaðurinn því til að öllum hluthöfum hafi verið tilkynnt um sölu Yngva Eiríkssonar á hlutum í félaginu og þeim gerð grein fyrir forkaupsrétti þeirra. Hafi Dos ehf. gengið inn í viðskiptin. Í tilefni af athugasemd lögmanns stefnanda um að Daníel Helgason hafi eftir sem áður sótt fund sem haldinn hafi verið 16. nóvember 2012 sem eigandi, tók stjórnarformaðurinn fram að Dos ehf. hafi nýtt sér forkaupsréttinn innan tímamarka og að greiðsla hafi verið innt af hendi eftir þann fund. 

         Stefnandi lagði fram kæru 23. desember 2013 til sérstaks saksóknara. Kæran laut að þremur atriðum; í fyrsta lagi að ráðstöfun á öllum eigum Saltverks Reykjaness ehf. með kaupsamningnum 7. febrúar 2013, í öðru lagi að veitingu rangra og ófullnægjandi upplýsinga við gerð ársreiknings félagsins 2012 og í þriðja lagi að framvísun rangra tilkynninga til opinberra skráningaryfirvalda um hagsmuni félagsins.

         Í málinu liggur fyrir tilkynning Björns Steinars Jónssonar til hlutafélagaskrár um breytingu á heiti Saltverks Reykjaness ehf. í E.K.Á. ehf. frá 5. nóvember 2013 ásamt breytingu á samþykktum félagsins. Undir rekstri málsins var upplýst að nafni félagsins hefði verið breytt aftur í Saltverk Reykjaness ehf. með úrskurði hlutafélagaskrár.

         Framhaldsaðalfundur í stefnda, Saltverki Reykjaness ehf., var haldinn 8. janúar 2014. Þar var leiðréttur ársreikningur lagður fram, en fram kemur að leiðréttingin hafi lotið að skýrslu stjórnar um aukningu hlutafjár og skýringum sem gerðar hefðu verið athugasemdir við á framhaldsaðalfundi 16. desember 2013. Jafnframt lagði stjórnarformaðurinn fram bókun sem ætlað var að skýra málið. Ársreikningurinn var því næst borinn upp og hann samþykktur með atkvæðum Björns Steinars og Dos ehf. en af hálfu stefnanda voru greidd atkvæði gegn samþykkt reikningsins. Undir liðnum „Önnur mál“ beindi lögmaður stefnanda ýmsum spurningum að stjórnarformanni er lutu að því hvers vegna ekki væri gerð grein fyrir sölu á öllum eignum félagsins í skýrslu stjórnar með ársreikningi 2012. Stjórnarformaður vísaði þá til fyrri svara. Þá vakti lögmaður stefnanda athygli á því að lögð hefði verið fram kæra á hendur stjórnarformanninum og hluthöfunum Jóni Pálssyni og Daníel Helgasyni. Stjórnarformaðurinn lagði því næst fram tvær bókanir. Í þeirri fyrri voru nánari upplýsingar gefnar um eigendaskipti að hlutum í félaginu sem ekki hefðu átt sér stað fyrr en Dos ehf. hafði greitt óstofnuðu félagi í eigu Daníels Helgasonar fyrir hlutina. Í síðari bókuninni var því mótmælt að tilgangi stefnda, Saltverks Reykjaness ehf., hafi verið breytt við sölu á öllum eignum félagsins. Síðan er stefnanda kennt um bága fjárhagsstöðu félagsins og tekið fram að stjórn félagsins hafi orðið að leysa úr málum og takmarka þann skaða sem hann hefði valdið því. Eftir að stefnandi hafi hafnað hlutafjáraukningu hafi hafi önnur úrræði en sala á eignum ekki verið möguleg. Er því haldið fram að öllum hluthöfum hafi verið gert þetta ljóst á hluthafafundum. Þá er staðhæft í bókuninni að salan hafi farið fram í samræmi við lög nr. 138/1994 og að með henni hafi verðmæti eigna félagsins verið hámarkað. Þá var tekið fram að í ljósi athugasemda stefnanda hefði verið leitað til óháðs endurskoðanda og hann fenginn til að leggja mat á verðmæti eigna félagsins. Niðurstaða hans styðji að mati stjórnar að verðið hafi verið eðlilegt.

         Lögmaður stefnanda mótmælti efni bókunarinnar í heild sinni og óskaði afrits af umræddu áliti óháðs endurskoðanda. Þá ítrekaði hann beiðni um sundurliðun yfirtekinna skulda samkvæmt kaupsamningi.

         Eins og rakið hefur verið var mál þetta höfðað 17. og 18. febrúar 2014. Stefndi hefur lagt fram í málinu minnisblað Deloitte ehf. sem stafar frá starfsmönnum Fjármálaráðgjafar Deloitte, Árna Jóni Árnasyni og Jóhanni Guðjónssyni. Niðurstaða þeirrar greiningar er að heildarkaupverð á eignum Saltverks Reykjaness ehf. samkvæmt kaupsamningnum umdeilda hafi verið „í hærra lagi“, sérstaklega kaupverð vörumerkisins.

         Fyrir liggur að kæru stefnanda til sérstaks saksóknara sem að framan greinir hafi verið vísað frá. Þeirri ákvörðun mun hafa verið skotið til ríkissaksóknara sem hafi staðfest hana.

                                                                                        III

1. Málsástæður og lagarök stefnanda

         Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á því að ákvörðun stjórnar stefnda Saltverks Reykjaness, að selja allar eignir félagsins til stefnda Nordic Sea Salt ehf. með kaupsamningi 7. febrúar 2013, hafi brotið gegn samþykktum stefnda, Saltverks Reykjaness ehf., og ákvæðum laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Þá brjóti ákvörðun hluthafafundar 16. desember 2013 um að staðfesta kaupsamninginn og viðhalda þannig ólögmætum gerningi stjórnarinnar frá 7. febrúar 2013 einnig gegn samþykktum félagsins og ákvæðum laga nr. 138/1994.

         Af hálfu stefnanda er á það bent að það sé meginregla samkvæmt lögum um einkahlutafélög að hluthafafundur fari með æðsta vald í málefnum félagsins. Stjórn félags fari hins vegar með málefni félagsins, mótar stefnu þess, gætir hagsmuna félagsins gagnvart þriðja aðila og taki afstöðu í mikilvægum málum. Hlutverk stjórnarinnar sé þannig að annast um að skipulag og starfsemi félagsins sé jafnan í réttu og góðu horfi og að tryggja að eftirlit sé með starfsemi félagsins, meðal annars bókhaldi þess og meðferð fjármuna. Samkvæmt lögum hvíli á stjórnarmönnum ríkar skyldur gagnvart félaginu og öllum hluthöfum þess.

         Stefnandi byggir í fyrsta lagi á því að með sölu á öllum rekstri og eignum stefnda, Saltverki Reykjaness ehf., 7. febrúar 2013 hafi tilgangi félagsins í raun verið breytt eða honum í það minnsta raskað svo verulega að slík ákvörðun geti ekki talist gild nema með samþykki 2/3 hluta hluthafa, sbr. 28. gr. samþykkta stefnda. Þar sem það hafi ekki legið fyrir við gerð kaupsamningsins og ekki heldur fengist á hluthafafundi 16. desember 2013 sé ákvörðun stjórnarinnar 7. febrúar 2013 um sölu á öllum eignum félagsins til Nordic Sea Salt ehf., ásamt staðfestingu hluthafafundar stefnda Saltverks Reykjaness ehf. eftir á þann 16. febrúar 2013, ólögmætar.

         Stefnandi byggir í öðru lagi á því að ákvörðun hluthafafundar stefnda, Saltverks Reykjaness ehf., 16. desember 2013 um staðfestingu hins ólögmæta kaupsamnings frá 7. febrúar 2013 eftir á, hafi verið tekin á grundvelli ófullnægjandi, rangra og hlutdrægra upplýsinga. Vísar stefnandi til þess að á fundinum hafi ekki legið fyrir neitt verðmat á undirliggjandi eignum og forsendum kaupsamningsins, þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir stefnanda um upplýsingar um þau atriði. Samkvæmt 1. mgr. 66. gr. laga nr. 138/1994 beri félagsstjórn og framkvæmdastjóra að leggja fram á hluthafafundi upplýsingar um þau málefni sem skipta máli eða geta haft áhrif á afstöðu hluthafa til mála er ákvörðun á að taka um á fundinum. Engar slíkar upplýsingar hafi legið fyrir á hluthafafundinum 16. desember 2013 eða á fyrri hluthafafundum í félaginu. Þá hafi stjórnin ekki upplýst um efni kaupsamningsins í skýrslu með ársreikningi 2012 sem lagður hafi verið fram á fundinum, þrátt fyrir skyldu stjórnar til slíks, sbr. 65. gr. laga nr. 3/2006. Telur stefnandi að stjórn stefnda, Saltverks Reykjaness ehf., hafi af ásetningi reynt í lengstu lög að leyna efni kaupsamningsins og undirliggjandi forsendum hans fyrir hluthafafundinum 3. desember 2013 og þannig þvingað fram samþykkt hluthafafundar á kaupsamningnum 16. desember 2013, án þess að fyrir lægju fullnægjandi upplýsingar um samninginn og forsendur hans.

         Stefnandi vísar einnig til þess að á hluthafafundinum 16. desember 2013 hafi hann óskað eftir því að fyrsta lið í dagskrá fundarins, um staðfestingu kaupsamningsins, yrði frestað þar til umfjöllun um liði 2 og 3 hefði farið fram, sem m.a. lutu að forsendum kaupsamningsins. Þeirri tillögu hafi verið hafnað af hálfu annarra hluthafa en stefnanda, þ.m.t. Birni Steinari Jónssyni, stjórnarmanni og framkvæmdastjóra stefnda, Saltverks Reykjaness ehf., sem hafi tekið ákvörðun og ritað undir kaupsamninginn í nafni stefnda Saltverks Reykjaness ehf. Með því hafi meirihluti hluthafa, sem Björn Steinar Jónsson hafi farið með allan atkvæðisrétt fyrir, tekið ákvörðun á hluthafafundi um staðfestingu á sölu á öllum eignum félagsins, án þess að fyrir lægju upplýsingar sem máli gætu skipt um afstöðu hluthafa og er ákvörðunin af þeim sökum ólögmæt.

         Stefnandi byggir í þriðja lagi á því að til grundvallar ákvörðun hluthafafundar stefnda, Saltverks Reykjaness ehf., 16. desember 2013 um staðfestingu kaupsamningsins, hafi ekki legið fyrir neinar fjárhagslegar upplýsingar varðandi stefnda Saltverk Reykjaness ehf., s.s. verðmat undirliggjandi eigna, réttmæti skulda, upplýsingar um að kröfuhafar samþykki skuldskeytingar o.fl. Ekki hafi heldur legið fyrir skýrsla, sbr. 2. mgr. 70. gr. a. í lögum nr. 138/1994, líkt og áskilið er þegar um samning milli félagsins og hluthafa er að ræða. Slíka skýrslu hafi borið að senda með fundarboði fundarins 16. desember 2013, ásamt því að senda hana hlutafélagaskrá. Stefnandi vísar til þess að kaupandi samkvæmt kaupsamningnum hafi verið stefndi, Nordic Sea Salt ehf., sem hafi verið í eigu Daníels Helgasonar, en hann hafi verið hluthafi í stefnda og stór lánveitandi bæði stefnda og hluthafans Dos ehf. Þar sem slíkra gagna hafi ekki verið aflað í tengslum við samninginn sé ákvörðun hluthafafundarins 16. desember 2013 ólögmæt.

         Stefnandi byggir í fjórða lagi á því að ákvörðun hluthafafundar stefnda, Saltverks Reykjaness ehf., 16. desember 2013, um staðfestingu hluthafafundar á kaupsamningi frá 7. febrúar 2013 eftir á, skerði rétt þess hluthafa sem ekki hafi átt hlut í eða tengst kaupandanum, stefnda Nordic Sea Salt ehf., til arðgreiðslna og annarrar úthlutunar úr stefnda. Skerðing á þessum rétti stefnanda sem hluthafa hafi verið stefnda Nordic Sea Salt ehf. til hagsbóta, sem og öðrum hluthöfum sem ýmist hafi verið eigendur stefnda Nordic Sea Salt ehf. eða í viðskiptatengslum við hann.

         Stefnandi vísar m.a. til þess að 22. nóvember 2012, eða tæpum þremur mánuðum áður en umræddur kaupsamningur var gerður, hafi einkahlutafélag í eigu Jóns Pálssonar, hluthafa í stefnda, Saltverki Reykjaness ehf., tekið upp nafnið „Saltverk ehf.“, og Björn Steinar Jónsson, hluthafi og stjórnarformaður stefnda Saltverks Reykjaness ehf. hafi tekið sæti í stjórn þess félags. Saltverk ehf. hafi frá því í febrúar 2013 verið framleiðandi og söluaðili allra vara sem áður hafi verið framleiddar og seldar af hálfu stefnda, Saltverks Reykjaness ehf., líkt og umbúðir varanna beri með sér. Telur stefnandi þannig ljóst að stjórnarformaðurinn og hluthafinn Björn Steinar Jónsson, ásamt hluthöfunum Jóni Pálssyni og Daníel Helgasyni, hafi þegar í nóvember 2012 farið að undirbúa viðtöku þeirra á þeim verðmætum sem seld hafi verið með kaupsamningnum 7. febrúar 2013 og þeir notið verulegra hagsbóta af gerningnum. Liður í þeim undirbúningi hafi m.a. verið, að Dos ehf. nýtti í árslok 2012 forkaupsrétt sinn að hlutafé í stefnda Saltverki Reykjaness ehf. sem Daníel Helgason keypti í september 2012. Þannig hafi Daníel Helgason ekki lengur verið hluthafi stefnda, Saltverks Reykjaness ehf., heldur þess í stað kaupandi að öllum eignum félagsins samkvæmt kaupsamningi í febrúar 2013 í gegnum stefnda, Nordic Sea Salt ehf.

         Stefnandi telur því að ákvörðun hluthafafundar stefnda, Saltverks Reykjaness ehf., hafi verið bersýnilega til þess fallin að afla ákveðnum hluthöfum og öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa félagsins. Þannig hafi ákvörðun um staðfestingu kaupsamningsins, í ljósi atvika allra, aflað stefnda, Nordic Sea Salt ehf., eiganda þess félags og hluthöfunum Jóni Pálssyni og Birni Steinari Jónssyni, ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa í stefnda Saltverki Reykjaness ehf., þ.m.t. stefnanda. Stefnandi telur að af þessum sökum hafi ekki verið lögmætt að lýsa tillöguna samþykkta án samþykkis þeirra hluthafa sem ekki áttu hlut í eða tengdust stefnda, Nordic Sea Salt ehf., eða Saltverki ehf. Fundarstjóra hafi borið að lýsa tillöguna fellda vegna þessa samkvæmt 70. gr. laga nr. 138/1994. Þá hafi hún jafnframt skert rétt hluthafa til arðgreiðslu og annarrar úthlutunar úr hendi félagsins, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 69. gr. laga nr. 138/1994.

         Til vara er á því byggt af hálfu stefnanda að ákvörðunin um staðfestingu kaupsamningsins sé því aðeins gild að hluthafar, sem ráði yfir meira en 9/10 hlutum þess hlutafjár sem farið er með atkvæði fyrir á hluthafafundinum, gjaldi henni jákvæði, sbr. 2. mgr. 69. gr. laga nr. 138/1994. Þá er einnig á því byggt að ákvörðunin hafi raskað réttarsambandi milli hluthafa verulega og sé hún því aðeins gild að þeir hluthafar, sem sæta eiga réttarskerðingu, gjaldi henni jákvæði sbr. 3. mgr. sama ákvæðis. Þó að ákvörðunin hafi ekki verið færð í búning breytingar á félagssamþykktum telur stefanandi að hún hafi haft öll þau sömu áhrif og kveðst stefnandi byggja á framangreindum ákvæðum með lögjöfnun.

         Stefnandi byggir í fimmta lagi á því, að með ákvörðun hluthafafundarins 16. desember 2013, um staðfestingu á kaupsamningnum frá 7. febrúar 2013, hafi stefnandi sem hluthafi, sem ekki tengdist kaupandanum stefnda Nordic Sea Salt ehf., í raun sætt innlausn á hlutum sínum án þess að um slit stefnda Saltverks Reykjaness ehf. hafi verið að ræða. Stefnandi telur að ekki hafi verið lögmætt að lýsa tillöguna samþykkta án samþykkis þeirra hluthafa er sættu innlausn á hlutum sínum. Hafi fundarstjóra borið að lýsa tillöguna fellda vegna þessa samkvæmt 3. tölulið 69. gr. laga nr. 138/1994. Þar sem það hafi ekki verið gert og tillagan samþykkt án samþykkis stefnanda hafi ákvörðun hluthafafundarins verið ólögmæt.

         Með vísan til alls framangreinds telur stefnandi að hin umdeilda ákvörðun um staðfestingu kaupsamnings frá 7. febrúar 2013, sem lýst hafi verið samþykkt á hluthafafundi í stefnda Saltverki Reykjaness ehf. 16. desember 2013, hafi verið tekin með ólögmætum hætti auk þess sem hún brjóti í bága við lög um einkahlutafélög og samþykktir félagsins. Stefnandi telur framangreinda annmarka valda ógildi ákvörðunarinnar svo ómerkja skuli hana á grundvelli 4. mgr. 71. gr. laga nr. 138/1994.

         Varðandi kröfu um ógildingu kaupsamningsins, dags. 7. febrúar 2013, milli stefndu er til viðbótar við framangreint byggt á því að ákvörðun um um sölu á öllum eignum stefnda Saltverks Reykjaness ehf. með kaupsamningi feli í eðli sínu í sér breytingu á tilgangi félagsins samkvæmt samþykktum, enda leiði ákvörðunin til þess að félagið hætti rekstri samkvæmt skráðum tilgangi sínum. Telur stefnandi að slík meiri háttar ákvörðun um sölu á öllum eignum félagsins rúmist ekki innan heimilda stjórnar og því hafi hluthafafundi borið að taka slíka ákvörðun. Samþykki hluthafafundar hafi ekki legið fyrir 7. febrúar 2013 og hafi salan fyrst komið til kasta hluthafafundar rúmum tíu mánuðum eftir að salan átti sér stað og þá eftir ítrekaðar fyrirspurnir stefnanda til stjórnar félagsins og eftir að krafa hafði komið fram um að boðað yrði til hluthafafundar þar sem krafa um ógildingu umrædds kaupsamnings yrði á dagskrá.

         Stefnandi telur því að það hafi ekki rúmast innan umboðs stjórnar samkvæmt samþykktum stefnda, Saltverks Reykjaness ehf., eða lögum um einkahlutafélög nr. 134/1994, að stjórnin seldi allar eignir félagsins með kaupsamningi, dags. 7. febrúar 2013, til stefnda, Nordic Sea Salt ehf. Auk 55. gr. laga um einkahlutafélög vísar stefnandi jafnframt til 10. gr. samþykkta stefnda, Saltverks Reykjaness ehf. Telur stefnandi framangreind ákvæði ekki verða skýrð þannig að stjórn félags sé heimilt að ákveða að selja allar eignir félagsins, og þar með að hætta rekstri stefnda, Saltverks Reykjaness ehf., án þess að slík sala hafi verið ákveðin á hluthafafundi félagsins að undangenginni ítarlegri umfjöllun um ástæður hennar. Stefnandi byggir á því að stjórn stefnda, Saltverks Reykjaness ehf., hafi verið óheimilt gagnvart hluthöfum að fara þannig út fyrir tilgang félagsins eins og hann hafi verið ákveðinn í samþykktum þess.

         Stefnandi telur jafnframt að ákvörðun stjórnar stefnda, Saltverks Reykjaness ehf., að selja allar eignir félagsins til stefnda, Nordic Sea Salt ehf., með kaupsamningi dags. 7. febrúar 2013, hafi verið bersýnilega til þess fallin að afla ákveðnum hluthöfum og öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa stefnda, Saltverks Reykjaness ehf., í skilningi 51. gr. laga um einkahlutafélög. Vísar stefnandi til þess að hluthafinn Björn Steinar Jónsson, sem ritaði undir kaupsamninginn, og hluthafinn Dos ehf. séu eigendur eða stjórnendur Saltverks ehf. sem strax í kjölfar ráðstöfunarinnar hafi farið með allar þær eignir sem hafi verið andlag kaupsamningsins dags. 7. febrúar 2013. Þannig hafi ákvörðun um sölu eignanna, í ljósi atvika allra, aflað stefnda, Nordic Sea Salt ehf., eiganda þess félags, og hluthöfunum Jóni Pálssyni og Birni Steinari Jónssyni, ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa í stefnda, Saltverki Reykjaness ehf., þ.m.t. stefnanda. Stjórnarformaður stefnda, Saltverks Reykjaness ehf., Björn Steinar Jónsson, hafi í ljósi tengsla sinna við einkahlutafélagið Saltverk ehf. og atvika allra, verið óheimilt að taka ákvörðun um þessa samningsgerð, sbr. 48. gr. laga um einkahlutafélög.

         Stefnandi telur samkvæmt öllu framangreindu að kaupsamningurinn 7. febrúar 2013 sé óskuldbindandi fyrir stefnda, Saltverk Reykjaness ehf., á grundvelli 1., sbr. 2. tölulið 52. gr. laga um einkahlutafélög., þar sem Björn Steinar Jónsson, stjórnarformaður stefnda, Saltverks Reykjaness ehf., hafi með undirritun kaupsamningsins farið út fyrir takmarkanir heimildar sinnar til að skuldbinda félagið, sbr. 1. tölulið 52. gr. laga um einkahlutafélög. Með því hafi stjórn félagsins farið út fyrir umboð sitt og gerst brotleg við samþykktir félagsins sem og ákvæði laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Það leiði að mati stefnanda til þess að ógilda beri samninginn.

         Um aðild stefnda, Nordic Sea Salt ehf., byggir stefnandi á 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kröfu sína um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

2. Málsástæður og lagarök stefnda, Saltverks Reykjaness ehf.

         Af hálfu stefnda, Saltverks Reykjaness ehf., er á það bent að tilraunaframleiðsla hafi hafist á vegum stefnda á árinu 2011. Nauðsynlegt hafi verið að auka framleiðslugetu félagsins, meðal annars til að koma vörunni á erlendan markað. Enginn ágreiningur hafi verið um þetta markmið í hluthafahópnum. Með það að leiðarljósi hafi verið farið í auknar fjárfestingar á árinu 2012 undir stjórn stefnanda. Hafi verið stefnt að því að mæta þeim með hlutafjáraukningu. Samhliða hafi stefnandi unnið að því að fá aðra fjárfesta að félaginu.

         Stefndi kveður því stefnanda hafa verið mjög meðvitaðan um nauðsyn þess að auka hlutaféð og verið fylgjandi því að það yrði gert. Í umræðum um aukið hlutafé hafi komið upp ágreiningur um hvort allir hluthafar ættu að falla frá forkaupsrétti, en einn hluthafinn, Dos ehf., hafi viljað halda sínum hlut í félaginu.

         Stefndi kveður stefnanda hafa um miðjan september 2012 hætt við að fá danska fjárfestinn Søren Rosenkilde til samstarfs. Þess í stað hafi hann stofnað eigið félag með Søren um sams konar starfsemi og stefndi hafi verið í, þ.e.a.s. framleiðslu á salti. Telur stefndi ljóst af öllum gögnum málsins að stefnandi hafi þá þegar verið farinn að vinna gegn hagsmunum hins stefnda félags.

         Stefndi kveður skuldbindingar félagsins hafa verið miklar og að sjálfskuldarábyrgðir hluthafa hafi verið byrjaðar að falla. Á hluthafafundi 8. október 2012 hafi því verið lagt til að hlutafé félagsins yrði aukið um 20% eða úr 609.756 hlutum í 762.195 hluti. Því hafi verið hafnað af hálfu stefnanda. Félagið hafi því staðið eftir með miklar skuldbindingar án þess að geta aukið við framleiðslu sína til að geta greitt skuldir.

         Um stöðu félagsins um þær mundir vísar stefndi til minnisblaðs frá Deloitte hf., dags. 13. mars 2014. Þar komi fram að í lok árs 2012 hafi stefndi aldrei skilað framlegð af rekstri sínum og að á árinu 2012 hafi EBITDA verið neikvæð um 54%. Þar að auki hafi félagið verið enn þá í þróun og reksturinn ekki orðinn sjálfbær. Skammtímaskuldir hafi verið háar og ljóst að töluverða ytri fjármögnun hafi þurft til að félagið gæti átt möguleika á því að halda áfram rekstri. Þar er einnig haft eftir stjórnendum félagsins að lánsfjármögnun hafi ekki verið fær, auk þess sem hlutafjáraukningin hafi ekki verið samþykkt. Í þessu ljósi sé komist að þeirri niðurstöðu í minnisblaðinu að félagið hafi á þessum tímapunkti ekki verið rekstrarhæft og rekstrarvirði þess því ekkert.

         Stefndi byggir á því að vegna afstöðu stefnanda til hlutafjáraukningar hafi verið ljóst að stjórn félagsins yrði að hámarka eignir félagsins til þess að geta greitt þær skuldbindingar sem félagið hafði tekið sér á hendur á árinu 2012.

         Af hálfu stefnda er á það bent að afstaða stefnanda hafi verið öllum ljós eins og fram hafi komið á hluthafafundinum 8. október 2012. Vísar stefndi til þess að á þeim tíma hafði stefnandi yfirgefið félagið fyrirvaralaust og stofnað annað félag í beinni samkeppni við stefnda. Á fundinum hafi hann lagst gegn hlutafjáraukningunni, en það hafi augsýnilega ekki verið gert með hagsmuni félagsins að leiðarljósi. Vilji hans hafi þvert á móti staðið til þess að koma stefnda í þrot. Það sjáist síðan best á hluthafafundi fimm vikum síðar er fulltrúi hans minni á skyldu stjórnar til að gefa félagið upp til gjaldþrotaskipta þar sem fjárhagsstaða sé svo erfið. Afstaða stefnanda á hluthafafundi hafi því beinlínis verið í andstöðu við 70. gr. laga um einkahlutafélög.

         Stefndi bendir á að á hluthafafundinum hafi stjórn félagsins látið bóka að brugðist yrði við afstöðu stefnanda með öllum þeim ráðum sem væru félaginu til hagsbóta. Þar sem ekki hafi verið unnt að fá frekara fjármagn að láni og hlutafjáraukning hafi verið úr sögunni hafi eina leiðin verið að selja eignir. Með kaupsamningnum umdeilda hafi eignirnar verið seldar á 22 milljónir króna. Með þeim fjármunum hafi skuldir við alla kröfuhafa nema hluthafa verið greiddar.

         Stefndi bendir á að seldar hafi verið efnislegar eignir, s.s. bifreiðar og framleiðslutæki sem og vörumerki. Þar hafi ein bifreið verið seld á 368.000 krónur og önnur fyrir 341.747 krónur. Framleiðslutæki og áhöld hafi verið seld á 8.557.835 krónur. Kaupverð á vörumerki, umbúðum og hönnun hafi numið 12.737.418 krónum. Það sé niðurstaða í fyrrgreindu minnisblaði Deloitte að verðmæti efnislegra eigna sé í samræmi við markaðsviðskipti milli ótengdra aðila. Þá sé eðlilegt að miða við bókfært virði framleiðslutækjanna þar sem enginn markaður sé fyrir svona tæki. Byggir stefndi á því að það endurspegli raunhæft kaupverð milli ótengdra aðila. Um vörumerkið segir í minnisblaðinu að þar sem hlutafjáraukning hafi verið nauðsynleg til þess að félagið gæti orðið rekstrarhæft sé virði vörumerkisins nær ekkert. Í minnisblaðinu séu þó færð rök fyrir verðmæti vörumerkisins væri það nýtt í rekstrarhæfu félagi. Miðað við þær forsendur sé komist að þeirri niðurstöðu að verðmæti vörumerkisins nemi 5,6 milljónum króna. Samkvæmt þessu byggir stefndi á því að kaupverð upp á 12,2 milljónir króna hafi verið langt yfir raunvirði vörumerkisins hvernig sem á málið sé litið.

         Stefndi mótmælir því harðlega að stjórn félagsins hafi farið út fyrir umboð sitt. Ein aðalskylda stjórnar sé að tryggja hag hluthafa og gera ekkert sem geti valdið félaginu tjóni. Eins og málsatvikum sé háttað hafi stjórnin þurft að bregðast hratt við vegna afstöðu stefnanda, en vilji hans hafi staðið til þess að félagið færi í þrot. Stjórnin hafi því haft fulla heimild til að taka ákvarðanir sem vörðuðu hagsmuni félagsins. Ákvörðunin um sölu eigna hafi falið í sér að hámörkuð voru verðmæti eignanna sem hefðu farið forgörðum við gjaldþrotaskipti. Stefndi mótmælir því harðlega að stjórnin hafi farið út fyrir umboð sitt, en ákvörðunin hafi verið gerð með vitund og vilja meirihluta hluthafa, enda hafi Björn Steinar, sem ritaði undir samninginn, verið eigandi að 34,5% hlut og Jón Pálsson, sem ritaði sem vottur á samninginn, verið fulltrúi hlutahafa 31% hlutafjár.

         Stefndi kveður það einnig rangt að tilgangi félagsins hafi verið breytt. Hann sé sá sami og áður. Vegna afstöðu stefnanda hafi félagið hins vegar ekki verið rekstrarhæft. Þar sem ekki hafi verið hægt að auka hlutaféð hafi verið nauðsynlegt að selja eignir. Stefndi staðhæfir að það hafi ekkert með breyttan tilgang að gera, hann sé eftir sem áður sá sami, en félagið hafi hins vegar skort rekstrarfé.

         Stefndi hafnar því einnig að ákvörðun um sölu eigna hafi verið tekin á grundvelli „ófullnægjandi, rangra og hlutdrægra upplýsinga“. Stefndi tekur fram að við söluna hafi legið fyrir að auka þyrfti hlutafé til þess að gera fyrirtækið rekstrarhæft. Um það hafi ekki verið deilt, enda hafi stefnandi unnið að því sjálfur að fá inn nýja hluthafa. Ársreikningur fyrir árið 2012 gefi rétta mynd af stöðu félagsins og því hafi ekki verið um neitt annað að ræða en að selja eignir. Hafi verið staðfest í minnisblaði Deloitte að eignirnar hafi verið seldar langt umfram markaðsverð.

         Af hálfu stefnda kemur fram að stjórnarformaður félagsins hafi skýrt mjög nákvæmlega frá því á aðalfundi þess hvað gerðist á árinu 2012. Hafi hann greint sérstaklega frá þeirri stöðu sem hafi verið komin upp og að við því hafi verið brugðist í upphafi árs 2013 með sölu eigna. Þetta komi skýrt fram í fundargerð. Engum upplýsingum hafi verið haldið leyndum og því sé fráleitt að halda því fram að ekki hafi verið gerð grein fyrir sölu eigna á aðalfundinum og að hann sé ógildur þess vegna.

         Stefndi tekur fram að samningur um sölu eigna félagsins hafi ekki verið við hluthafa stefnda og því eigi athugasemdir stefnanda með vísan til 2. mgr. 70. gr. laga nr. 138/1994 ekki við. Hins vegar liggi fyrir minnisblað Deloitte um stöðu félagsins á þeim tíma sem salan fór fram og um verðmæti eigna.

         Stefndi mótmælir málsástæðu stefnanda þess efnis að ákvörðun hluthafafundar hafi verið til þess að afla ákveðnum hluthöfum og öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa félagsins. Stefndi telur að þessi staðhæfing sé á engan hátt rökstudd í stefnu. Veki það athygli að stefnandi geri ekki nokkra tilraun til þess að sýna fram á að samningurinn sé ósanngjarn eða með hvaða hætti hluthöfum hafi verið mismunað. Sönnunarbyrðin um þetta hvíli á stefnanda en hann hafi ekki gert minnstu tilraun til að sanna staðhæfingar sínar, hvorki með framlagningu matsgerðar né með öðrum hætti. Krafan sé því vanreifuð og uppfylli ekki 80. gr. laga nr. 91/1991, en það leiði sjálfkrafa (ex officio) til frávísunar eða sýknu.

         Stefndi tekur fram í þessu sambandi að hið rétta sé að eignir stefnda hafi verið seldar langt yfir markaðsverði og með sölunni hafi því verið bjargað sem hægt hafi verið að bjarga enda sé félagið enn starfandi. Tilvísun stefnanda á þessum forsendum til 70. gr. laga nr. 138/1994 eigi því ekki við. Stefndi minnir þó á að markmið stefnanda hafi verið að koma félaginu í þrot. Stefnandi hafi beitt atkvæðisrétti sínum í samræmi við markmið sitt, en í því hafi falist að hann hafi verið að reyna að afla sér ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa í félaginu.

         Í tilefni af þeirri málsástæðu stefnanda að þurft hafi samþykki þeirra sem fari með 9/10 hlutafjár til að salan gæti orðið að veruleika tekur stefndi fram að stefnandi byggi á því að hann, sem eigandi 34,5% hlutafjár, geti ekki einungis komið í veg fyrir aukningu hlutafjár til að bjarga félaginu úr rekstrarerfiðleikum, heldur eigi hann einnig að geta komið í veg fyrir að gerðar séu nauðsynlegar ráðstafanir til að hámarka verðmæti eigna félagsins sem hefðu farið forgörðum ef félagið hefði verið sett í þrot. Hafi stefnandi viljað koma í veg fyrir að hægt væri að greiða lánardrottnum kröfur sem ella hefðu ekki fengist greiddar. Þessi sjónarmið stefnanda eigi ekki við nein rök að styðjast. Um hafi verið að ræða ákvörðun sem gerð hafi verið í neyð vegna afstöðu stefnanda og þeirra óeðlilegu persónulegu hagsmuna sem hann hafi verið að vernda sjálfum sér til hagsbóta, þvert á hagsmuni félagsins. Ákvörðunin hafi fengið stuðning ríflega 65% atkvæða og hafi verið fyllilega lögmæt.

         Í tilefni af þeirri málsástæðu stefnanda að ákvörðunin hafi falið í sér innlausn á hlut stefnanda í félaginu tekur stefndi fram að hér hafi verið um að ræða ákvörðun meirihluta hluthafa er varðaði hagsmuni félagsins og eigi stefnandi enn þá sinn hlut í félaginu.

         Stefndi kveður kröfu stefnanda um að ákvörðun hluthafafundar um sölu á eignum verði ógilt einnig byggja á því að ekki hafi verið farið eftir formreglum við ákvörðunartökuna. Þessum sjónarmiðum er harðlega mótmælt af hálfu stefnda. Stjórnendur félagsins hafi verið komnir upp að vegg með reksturinn vegna afstöðu stefnanda. Leitað hafi verið þeirra leiða sem færar hafi verið og hafi eina raunhæfa lausnin falist í því að selja eignir. Sú ákvörðun hafi síðan verið borin upp á hluthafafundi og verið samþykkt með meirihluta atkvæða. Það að samningurinn hafi ekki verið gerður með fyrirvara um samþykki hluthafafundar breyti í engu þeirri staðreynd að ákvörðunin hafi verið borin undir hluthafafund og samþykkt.

         Stefndi telur kröfu stefnanda um ógildingu samningsins ekki eiga við nein rök að styðjast. Þó að fallist yrði á kröfur stefnanda um að formskilyrðum við ákvörðunartöku hafi ekki verið fullnægt séu ekki lagaskilyrði fyrir því að ógilda samninginn. Í 2. tölulið 52. gr. laga nr. 138/1994 komi fram að samningur sem gerður er af hálfu félags sé bindandi nema viðsemjandi hafi vitað eða mátt vita um heimildarskortinn og telja verði ósanngjarnt að viðsemjandinn haldi fram rétti sínum. Stefndi telur stefnanda ekki hafa með neinum hætti sýnt fram á að umrædd skilyrði séu uppfyllt. Því beri að sýkna stefnda af kröfum um ógildingu samningsins.

         Þá byggir stefndi á því að krafan sé vanreifuð og taki ekki með neinum hætti á því hvernig skil og endurgreiðsla eigi að fara fram. Af þeim sökum beri að vísa þessari kröfu sjálfkrafa (ex officio) frá dómi eða sýkna stefnda af kröfum stefnanda vegna vanreifunar og aðildarskorts.

         Stefndi tekur að lokum fram að ef fallist verði á kröfur stefnanda hafi það í för með sér verulegt tjón fyrir hluthafa stefnda.

         Stefndi rökstyður málskostnaðarkröfu sína með því að vísa til 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

3. Málsástæður og lagarök stefnda, Nordic Sea Salt ehf.

         Stefndi, Nordic Sea Salt ehf., vísar til þess að samkvæmt kaupsamningi, dags. 7. febrúar 2013, hafi félagið keypt allar helstu eignir Saltverks Reykjaness ehf. á samtals 22.000.000 krónur. Kaupverðið hafi verið innt af hendi með greiðslu í peningum að fjárhæð 10.000.000 kr. og með yfirtöku skulda við tilgreinda aðila að fjárhæð 12.000.000 kr. Í kaupsamningi sé tilgreint hvernig kaupverð sé fundið.

         Stefndi tekur fram að þegar kaupin áttu sér stað hafi engin eignatengsl verið á milli Saltverks Reykjaness ehf. og stefnda. Stefndi hafi lýst áhuga sínum á því að koma inn í rekstur Saltverks Reykjaness ehf. með því að kaupa 15% hlut Yngva Eiríkssonar en til þess hafi ekki komið þar sem einn af hluthöfum Saltverks Reykjaness ehf. hafi leyst þann hlut til sín á grundvelli forkaupsréttar.

         Stefndi byggir á því að engin rök séu færð fyrir því af hverju eigi að ógilda kaupsamning aðila. Engin rök séu færð fyrir staðhæfingum um að samningurinn sé ósanngjarn eða með hvaða hætti hluthöfum hafi verið mismunað. Sönnunarbyrðin hvíli á stefnanda en hann hafi ekki gert minnstu tilraun til að færa rök fyrir staðhæfingum sínum, hvorki með framlagningu matsgerðar né með öðrum hætti. Krafan sé því vanreifuð og fullnægi ekki skilyrði 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá byggi krafan á atvikum eða sjónarmiðum sem stefndi hafi ekki komið nálægt og ekki getað haft nein áhrif á eða svarað fyrir. Stefndi byggir jafnframt á því að það sé forsenda þess að unnt sé að ógilda samninginn að fyrir liggi með hvaða hætti skil og endurgreiðsla eigi að fara fram. Hvergi sé minnst á þann þátt í stefnunni. Þar sem stefnandi bjóði ekki endurgjald eða gerir grein fyrir því hvernig stefnda verði tryggt slíkt endurgjald sé krafan raunar ekki dómtæk. Þá sé aðild stefnda að málinu vanreifuð.

         Stefndi byggir einnig á því að ekki séu lögmæt skilyrði til þess að ógilda samninginn. Í 2. tölulið 52. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög komi fram að samningur sem gerður er af hálfu félags sé bindandi nema viðsemjandi hafi vitað eða mátt vita um heimildarskortinn og telja verði ósanngjarnt að viðsemjandinn haldi fram rétti sínum.

         Stefndi bendir í þessu sambandi á að samningur aðila hafi verið undirritaður af Birni Steinari Jónssyni stjórnarformanni f.h. félagsins, auk þess sem hann er vottaður af Jóni Pálssyni sem sé hluthafi í félaginu í gegnum hlutafélagið DOS ehf. Saman eigi þeir meirihluta í Saltverki Reykjaness ehf. Stefndi hafi ekki haft neina ástæðu til að ætla að ekki væri rétt staðið að ákvörðun um sölu eignanna og því hafi hann verið í góðri trú við samningsgerðina. Þá hafi kaupverðið verið vel yfir raunvirði og því ekki hægt að halda því fram að stefndi væri að hagnast á kostnað hluthafa á viðskiptunum. Það hafi legið ljóst fyrir stefnda að hann þyrfti að leggja fram umtalsvert fé til viðbótar til þess að gera reksturinn sjálfbæran sem hann hafi og gert. Staðfesting á að kaupverð hafi verið umtalsvert hærra en raunvirði komi fram í minnisblaði endurskoðunarskrifstofunnar Deloitte.

         Stefnandi hefur því að mati stefnda ekki með neinum hætti reynt að sýna fram á grandsemi stefnda. Því liggi ekki fyrir nein rök eða forsendur fyrir því að ógilda beri samninginn. Þá er jafnframt byggt á því að ákvörðun forsvarsmanna Saltverks Reykjaness ehf. hafi verið lögmæt enda hafi samningurinn verið staðfestur á hluthafafundi. Að öðru leyti vísar stefndi til framkominna röksemda meðstefnda í sama máli.

         Stefndi kveðst byggja málskostnaðarkröfu sína á ákvæðum 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

                                                                                        IV

1. Krafa um ómerkingu samþykktar hluthafafundarins 16. desember 2013

         Eins og rakið hefur verið samþykkti meirihluti hluthafa á hluthafafundi 16. desember 2013 tillögu stjórnar stefnda, Saltverks Reykjaness ehf., um staðfestingu kaupsamnings, dags. 7. febrúar 2013, þar sem allar eignir félagsins voru seldar stefnda, Nordic Sea Salt ehf. Stefnandi, sem er eigandi 34,5% hlutar í hinu stefnda félagi, Saltverki Reykjaness ehf., lagðist gegn samþykkt hluthafafundarins og krefst ógildingar á henni. Samkvæmt 1. mgr. 71. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög getur hluthafi, stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri höfðað mál vegna ákvörðunar hluthafafundar sem hefur verið tekin með ólögmætum hætti eða brýtur í bága við lögin eða samþykktir félagsins. Ganga verður út frá því að málshöfðun stefnanda sé reist á þessari heimild.

         Stefnandi byggir kröfu sína að þessu leyti meðal annars á því að með ákvörðun um sölu á öllum rekstri og eignum hins stefnda félags hafi tilgangi þess í raun verið breytt eða honum raskað í þeim mæli að 2/3 hluthafa hafi þurft að samþykkja ákvörðunina. Um það vísar stefnandi til 28. gr. samþykkta félagsins. Í framlögðum samþykktum stefnda, Saltverks Reykjaness ehf., er í grein 28 fjallað um slit félagsins. Þar segir að með tillögum um slit og skipti á félaginu skuli fara sem um breytingar á samþykktunum, en um þær er fjallað í 27. gr. Í 28. gr. samþykktanna segir að atkvæði hluthafa sem ráða minnst 2/3 hlutum af heildarhlutafé þurfi til að ákvörðun um slit, skipti eða sameiningu sé gild.

         Sala á öllum eignum einkahlutafélags felur ekki í sér ákvörðun um slit á félaginu þó að það valdi því að rekstri þess sé hætt og að það geti verið undanfari þess að félaginu verði slitið samkvæmt fyrirmælum XIII. kafla laga nr. 138/1994. Slíkri ráðstöfun verður heldur ekki jafnað til þess að félaginu hafi verið slitið, enda hættir það með því ekki að vera til. Þá felur slík ákvörðun ekki í sér breytingu á ákvæðum samþykkta félags um tilgang þess. Staðfesting á kaupsamningi um allar eignir félags fela heldur ekki í sér breytingar á félagssamþykktum. Því koma fyrirmæli 69. gr. laga nr. 138/1994 ekki til álita, hvorki með beinum hætti né með lögjöfnun. Af þessum sökum verður að hafna öllum málsástæðum stefnanda sem byggjast á framangreindum sjónarmiðum.

         Stefnandi byggir einnig á því að samþykkt hluthafafundarins hafi verið reist á ófullnægjandi, röngum og hlutdrægum upplýsingum. Því til stuðnings vísar stefnandi meðal annars til þess að ekkert verðmat á eignunum hafi legið fyrir fundinum þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir um framlagningu slíkra gagna. Telur stefnandi að synjun á því að veita slíkar upplýsingar hafi falið í sér brot á 1. mgr. 66. gr. laga nr. 138/1994.

         Í framangreindu ákvæði er kveðið á um upplýsingaskyldu félagsstjórnar og framkvæmdastjóra gagnvart einstökum hluthöfum á hluthafafundi um þau málefni sem skipta máli um mat á ársreikningi félagsins og stöðu þess að öðru leyti eða áhrif geta haft á afstöðu hluthafa til mála er ákvörðun á að taka um á fundinum. Sé það mat félagsstjórnar að upplýsingagjöfin sé til verulegs tjóns fyrir félagið er henni heimilt að láta hjá líða að veita umbeðnar upplýsingar. Stefndi, Saltverk Reykjaness ehf., hefur ekki haldið því fram að þessi undantekning eigi við. Kemur þá til skoðunar hvort félagsstjórnin hafi brotið gegn ákvæði þessu og þá eftir atvikum hvort það geti leitt til þess að samþykkt fundarins verði felld úr gildi.

         Eins og rakið hefur verið sagði stefnandi sig úr stjórn stefnda, Saltverks Reykjaness ehf., í september 2012 og hóf að leggja drög að rekstri sem var í beinni samkeppni við félagið. Stefnandi var þó áfram eigandi 34,5% hluta í félaginu. Eftir að stefnandi hafnaði tillögu stjórnar um hækkun hlutafjár 8. október 2012 taldi stjórn félagsins og meirihluti eigenda þess að rétt væri að ganga til samninga við stefnda Nordic Sea Salt ehf. um sölu á eignum félagsins fyrir 22 milljónir króna, sbr. kaupsamning dags. 7. febrúar 2013.

         Samkvæmt ársreikningi 2012 námu skammtímaskuldir félagsins í árslok 27.845.036 krónum, en eignir þess voru á sama tíma samtals 12.972.425 krónur, þar af varanlegir rekstrarfjármunir 9.267.582 krónur. Tap varð af rekstri ársins sem nam 10.864.285 krónum. Ársreikningur þessi var kynntur á aðalfundi félagsins 3. desember 2013. Kaupsamningurinn var sendur lögmanni stefnanda með fundarboði 9. desember 2013, eins og áður greinir. Þar kemur fram að áhöld, önnur tæki og bifreiðar séu seld á bókfærðu verði, eða á 9.267.582 krónur. Allar aðrar eignir voru seldar á 12.732.418 krónur. Jafnframt er í kaupsamningnum gerð grein fyrir greiðslutilhögun þannig að kaupandi myndi greiða 10 milljónir með reiðufé og að 12 milljónir króna yrðu greiddar með yfirtöku á skuldum við tilgreind félög.

         Ekki liggja fyrir frekari gögn um mat á verðmæti þeirra eigna sem um ræðir er félagsstjórn gat látið stefnanda í té. Þá leitaðist stjórnarformaður stefnda, Saltverks Reykjaness ehf., við að svara spurningum lögmanns stefnanda á fundinum 16. desember 2013, þ. á m. um mat á verðmæti eignanna, áður en atkvæði voru greidd um tillögu stjórnarinnar um staðfestingu kaupsamningsins. Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið telur dómurinn að ekki hafi verið færð viðhlítandi rök fyrir því að stefnandi hafi ekki fengið þær upplýsingar sem hann óskaði eftir og félagsstjórninni var skylt að veita honum samkvæmt 1. mgr. 66. gr. laga nr. 138/1994 áður en hluthafafundurinn tók afstöðu til kaupsamningsins. Þá hefur hann heldur ekki fært sönnur á að honum hafi verið veittar rangar upplýsingar um forsendur að baki kaupsamningnum. Því ber að hafna málsástæðum stefnanda sem á þessu byggjast. Engu breytir í þessu efni þó að ekki hafi verið vikið að sölunni í skýrslu stjórnar með ársreikningi 2012, eins og eðlilegt hefði verið í ljósi 5. töluliðar 1. mgr. 65. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga.

         Eins og áður segir byggir stefnandi á því að félagsstjórnin hafi vanrækt að afla nauðsynlegs mats á verðmæti þeirra eigna sem skiptu um hendur samkvæmt kaupsamningnum. Ekki verður lögð slík skylda á félagsstjórn einkahlutafélags nema á grundvelli lagafyrirmæla eða samnings. Stefnandi hefur ekki vísað til annarra fyrirmæla í þá veru en 2. mgr. 70. gr. a í lögum nr. 138/1994.

         Í 1. mgr. 70. gr. a í lögum nr. 138/1994, sbr. 26. gr. laga nr. 68/2010, er kveðið á um að samningur milli félagsins og hluthafa, móðurfélags hluthafa, stjórnarmanns eða framkvæmdastjóra félagsins, sem nemi að raunvirði minnst 1/10 hlutafjárins á undirritunartíma samningsins, bindi ekki félagið nema að fengnu samþykki hluthafafundar. Á þessu eru ákveðnar undantekningar sem ekki verður séð að eigi við um þann kaupsamning sem mál þetta er sprottið af. Í 2. mgr. 70. gr. a í lögunum kemur fram að í þeim tilvikum er samningur fellur undir greinina sé félagsstjórn skylt að afla skýrslu samkvæmt 5. gr., sbr. 6. gr. og 6. gr. a–6. gr. b. Verður skýrslan að geyma yfirlýsingu þess efnis að samræmi sé milli greiðslu félagsins og þess endurgjalds sem félagið fær, sbr. 5. tölul. 2. mgr. 5. gr. laganna. Skýrsla þessi á að fylgja fundarboði til hluthafafundar auk þess sem senda skal hana til hlutafélagaskrár. Er með ákvæðinu leitast við að tryggja þá hagsmuni hluthafa og lánardrottna að hlutaféð haldist innan félagsins.

         Ákvæði þetta ber með sér að eiga fyrst og fremst við um samninga við hluthafa og þá fyrirsvarsmenn félagsins sem nefndir eru í 1. mgr. ákvæðisins. Í 4. mgr. 70. gr. a er ákvæðið þó einnig látið ná til samninga við þá sem teljast nákomnir þessum aðilum. Samkvæmt 4. tölulið málsgreinarinnar á það meðal annars við um félag „sem viðkomandi sjálfur eða einhver sem eru nefndir í 1. til 3. tölulið hefur yfirráð yfir í skilningi 2. gr. laganna“.

         Raunvirði þess kaupsamnings sem gerður var milli stefndu 7. febrúar 2013 er vel yfir þeim mörkum sem fram koma í 70. gr. a í lögum nr. 138/1994. Kemur þá til skoðunar hvort samningsaðilar hafi verið svo tengdir að nauðsynlegt hafi verið að afla samþykkis hluthafafundar til að hann yrði bindandi í samræmi við fyrirmæli ákvæðisins og láta skýrslu samkvæmt 2. mgr. 70. gr. a í lögunum fylgja fundarboði.

         Viðsemjandi stefnda, Saltverks Reykjaness ehf., stefndi, Nordic Sea Salt ehf., er í eigu Daníels Helgasonar. Samkvæmt gögnum málsins og því sem fram kom við skýrslutökur við aðalmeðferð málsins liggur fyrir að um miðjan september 2012 lagði Daníel fram fjármagn til kaupa á þeim hlutum sem enn þá voru í eigu Yngva Eiríkssonar í stefnda, Saltverki Reykjaness ehf., um það leyti er samkomulag um kaup félagsins á þessum hlutum var að renna út, gegn því að Daníel héldi á þeim hlutum, eins og komist var að orði í skýrslu Björns Steinars fyrir dómi. Samkvæmt framburði hans og Daníels var gripið til þessarar ráðstöfunar í skyndi í því skyni að greiða fyrir því að danski fjárfestirinn Søren Rosenkilde gæti orðið hluthafi í félaginu eins og gert hafði verið ráð fyrir. Þegar í ljós hafi komið að hann hafði ekki lengur áhuga á félaginu staðhæfa þeir að Dos ehf. hafi gengið inn í kaupin á þessum hlutum á grundvelli forkaupsréttar. Ekki hafi verið gengið frá greiðslu fyrr en í desember 2012 en þangað til hafi Daníel Helgason verið skráður fyrir hlutunum fyrir hönd óstofnaðs félags. Jón Pálsson, eigandi Dos ehf., bar á svipaða leið fyrir dómi.

         Samkvæmt fundargerðum hluthafafunda sem liggja fyrir í málinu frá 8. október og 12. nóvember 2012 sótti Daníel Helgason fundina fyrir hönd „óstofnaðs félags“. Verður að ætla að hann hafi á þeim tíma verið réttur eigandi þeirra hluta sem áður höfðu verið í eigu Yngva og fær það stoð í því sem að framan greinir.

         Skylt er að halda hlutaskrá í einkahlutafélögum þar sem skráð eru nöfn og aðrar upplýsingar eigenda hluta í félaginu, sbr. 6. gr. samþykkta stefnda og 19. gr. laga nr. 138/1994. Þegar eigendaskipti verða á hlut ber að skrá það í hlutaskrána þegar þau hafa verið tilkynnt og sönnur hafa verið færðar á eigendaskiptin. Skal þar geta um eigendaskipta- og skráningardag og getur sá sem eignast hefur hlut ekki beitt réttindum sínum sem hluthafi nema nafn hans hafi verið skráð í hlutaskrá eða hann tilkynnt og fært sönnur á eign sína á hlutnum, sbr. 4. mgr. 19. gr. laganna.

         Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið verða stefndu að færa sönnur á að breyting hafi orðið á framangreindu eignarhaldi þeirra hluta sem hér um ræðir. Engar upplýsingar úr hlutaskrá stefnda, Saltverks Reykjaness ehf., hafa verið lagðar fram í málinu til upplýsingar um það atriði. Önnur sönnunargögn um eigendaskipti á hlutunum hafa heldur ekki verið lögð fram í málinu. Því verður að ganga út frá því að Daníel Helgason hafi átt þessa hluti þegar kaupsamningurinn 7. febrúar 2013 var gerður. Þar sem hann var jafnframt eigandi viðsemjanda félagsins, stefnda, Nordic Sea Salt ehf., fellur kaupsamningurinn undir 70. gr. a í lögum nr. 138/1994, sbr. 4. tölulið 4. mgr. ákvæðisins. Af þeim sökum gat ekki orðið af kaupunum nema með samþykki hluthafafundar í stefnda, Saltverki Reykjaness ehf. 

         Eins og áður segir varð skýrsla samkvæmt 2. mgr. umræddrar greinar að fylgja fundarboði um hluthafafund sem boðað var til í því skyni að leita samþykkis hluthafafundar fyrir kaupsamningnum. Skýrslu af þessu tagi er meðal annars ætlað að tryggja að ákveðnir hluthafar sölsi ekki undir sig hagsmuni eða eignir félags með ótilhlýðilegum hætti á kostnað félagsins eða annarra hluthafa. Ákvæðið er ófrávíkjanlegt og verður að líta svo á að hafi skýrslu af þessu tagi ekki verið aflað þegar félagið gerir samning við nákominn í skilningi 4. mgr. 70. gr. a í lögum nr. 138/1994 hafi ákvörðun hluthafafundar verið tekin með ólögmætum hætti í skilningi 1. mgr. 71. gr. sömu laga. Engrar skýrslu var aflað af stjórn stefnda, Saltverks Reykjaness ehf., um þau atriði sem kveðið er á um í 2. mgr. 70. gr. a í lögunum áður en boðað var til hluthafafundarins sem haldinn var 16. desember 2013. Þessi annmarki á undirbúningi að samþykkt hluthafafundarins var svo verulegur að fallast verður á það með stefnanda að ómerkja beri samþykkt fundarins á téðum kaupsamningi. Því verður fallist á fyrri kröfulið stefnanda.

2. Krafa um ógildingu kaupsamnings um eignir stefnda, Saltverks Reykjaness ehf.

         Stefnandi krefst þess jafnframt að kaupsamningur milli beggja stefndu 7. febrúar 2013 verði ógiltur. Reisir hann þessa kröfu meðal annars á því að stjórn stefnda, Saltverks Reykjaness ehf., hafi verið óheimilt að selja eignir félagsins til stefnda, Nordic Sea Salt ehf. Röksemdir stefnanda fyrir því eru í meginatriðum þær sömu og fyrir fyrri kröfuliðnum. Þannig telur stefnandi að salan hafi falið í sér breytingu á tilgangi félagsins og að hluthafafundur hafi einn getað ákveðið að hætta rekstri samkvæmt skráðum tilgangi. Þá hafi stjórnin verið vanhæf til að taka slíka ákvörðun. Að auki er á því byggt að salan hafi verið til þess fallin að afla ákveðnum hluthöfum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa í stefnda, Saltverki Reykjaness ehf., þannig að það hafi varðað við 51. gr. sömu laga.

         Með framangreindri kröfu leitar stefnandi ógildingar á samningi sem hann á ekki aðild að, heldur báðir stefndu sem tekið hafa til varna í málinu og krefjast sýknu. Stefnandi er þó eigandi rúmlega 1/3 hluta í stefnda, Saltverki Reykjaness ehf. Í málatilbúnaði stefnanda kemur fram sú afstaða hans að saman fari hagsmunir hans og félagsins. Virðist kröfugerð stefnanda að þessu leyti miða að því að samningurinn verði ógiltur þannig að félagið og stefndi, Nordic Sea Salt ehf., verði eins settir og samningurinn hefði ekki komist á, enda telur hann að samningurinn gangi gegn hagsmunum félagsins og þar með gegn hans eigin lögvörðu hagsmunum sem eiganda umtalsverðs hluta í félaginu. Með vísan til þessara sjónarmiða og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 116/2002 verður að líta svo á að stefnanda skorti ekki lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr síðari kröfulið sínum.

         Í málinu eru atvik þó með þeim hætti að hluthafafundur staðfesti kaupsamninginn sem deilt er um með samþykki meirihluta hluthafa 16. desember 2013. Við það öðlaðist samningurinn gildi sem ekki verður hnekkt með vísan til röksemda um að stjórn stefnda, Saltverks Reykjaness ehf., hafi í öndverðu ekki haft heimild samkvæmt lögum og samþykktum félagsins til að gera samning um sölu á öllum eignum félagsins. Við dómsuppsögu þessa dóms hefur samþykkt hluthafafundarins verið ómerkt með vísan til 71. gr. laga nr. 138/1994, þar sem ekki var aflað skýrslu með yfirlýsingu endurskoðanda um að samræmi sé milli greiðslu félagsins og þess endurgjalds sem félagið hafi fengið, sbr. 2. mgr. 70. gr. a í sömu lögum. Sú niðurstaða getur hins vegar ekki leitt til þess að fella beri kaupsamninginn einnig úr gildi. Þá hefur því þegar verið hafnað að með sölu á öllum eignum félagsins hafi félaginu verið slitið eða að jafna beri þeirri ráðstöfun til slita á því þannig að 2/3 hluthafa hafi þurft að samþykkja ákvörðunina. Jafnframt hefur röksemdum stefnanda er lúta að því að samþykki allra hluthafa hafi þurft til að gera samninginn með vísan til 69. gr. laga nr. 138/1994 verið hafnað. Þessu til viðbótar fær dómurinn ekki séð að með gerð samningsins hafi stjórnarformaður félagsins farið út fyrir takmarkanir á heimild sinni, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 52. gr. laga nr. 138/1994, enda greip stjórnin til þessara ráðstafana með vilja meirihluta hluthafa í félaginu, eins og undirritun kaupsamningsins ber með sér.

         Aðrar málsástæður er lúta að efni og réttaráhrifum kaupsamningsins, sem stefnandi teflir fram til stuðnings því að kaupsamningurinn verði felldur úr gildi, koma eftir sem áður til álita. Þær eru einkum á því reistar að sú ráðstöfun sem samningurinn kveður á um hafi verið til þess fallin að afla ákveðnum hluthöfum og öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa stefnda, Saltverks Reykjaness ehf., sbr. 51. gr. laga nr. 138/1994. Í því ákvæði er félagsstjórn, framkvæmdastjóra og öðrum þeim er hafa heimild til þess að koma fram fyrir hönd félagsins meinað að gera nokkrar þær ráðstafanir sem eru fallnar til þess að afla ákveðnum hluthöfum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa eða félagsins. Af 70. gr. sömu laga leiðir að hluthafafundur getur ekki lagt blessun sína yfir þess háttar ráðstafanir þannig að þær öðlist gildi.

         Á stefnanda hvílir að færa sönnur á að ráðstöfun samkvæmt umræddum kaupsamningi sé þess eðlis að ákveðnir hluthafar hafi öðlast ótilhlýðilega hagsmuni á hans kostnað eða félagsins. Efni samningsins hefur þegar verið rakið. Jafnframt hefur verið vikið að röksemdum stjórnarformanns stefnda, Saltverks Reykjaness ehf., fyrir því að ákveðið var að selja allar eignir félagsins. Taldi hann að félagið ætti ekki annarra kosta völ en að selja eignir eða að óska gjaldþrotaskipta vegna erfiðrar fjárhagsstöðu þess eftir að stefnandi hafnaði hlutafjáraukningunni. Félagið hefur fært rök fyrir því að heildarkaupverð eignanna hafi í raun verið hærra en eðlilegt getur talist og vísa þar einkum til minnisblaðs fjármálaráðgjafar Deloitte, dags. 13. mars 2014. Ágreiningslaust er að kaupverðið var notað til að gera upp skuldir stefnda, Saltverks Reykjaness ehf., sem samkvæmt framlögðum ársreikningi námu í heild 27.845.036 krónum í árslok 2012. Stefnandi hefur aftur á móti ekki fært neinar sönnur á að kaupverðið hafi verið óeðlilega lágt eða að yfirteknar skuldir hafi með réttu átt að vera lægri. Ekki liggur því fyrir að með kaupsamningnum hafi einstakir hluthafar í félaginu eða aðrir aðilar öðlast ótilhlýðilega hagsmuni á kostnað stefnanda eða félagsins.

         Eins og rakið hefur verið liggja fyrir skýrar vísbendingar um bága fjárhagsstöðu stefnda, Saltverks Reykjaness ehf., í árslok 2012. Þá hafa ekki verið færðar sönnur á að kaupverð eignanna samkvæmt kaupsamningnum 7. febrúar 2013 hafi verið óeðlilegt. Ekki liggur annað fyrir en að andvirði eignanna hafi verið notað til að gera upp allar skuldir við aðra en eigendur. Það þjónar ekki hagsmunum félags í fjárhagsvanda að halda atvinnurekstri áfram þar til gjaldþrot blasir við. Sala eigna félags við þær aðstæður getur verið til hagsbóta fyrir alla þá sem hagsmuna eiga að gæta, svo sem starfsmenn, kröfuhafa, viðskiptavini og eigendur. Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið liggur ekki fyrir að  stjórnarformaður stefnda, Saltverks Reykjaness ehf., hafi við gerð samningsins við stefnda, Nordic Sea Salt ehf., sem væntanlegur rekstraraðili saltvinnslunnar átt verulega hagsmuni er hafi farið í bága við hagsmuni stefnda, Saltverks Reykjaness ehf., sbr. 48. gr. laga nr. 138/1994.

         Samkvæmt öllu framangreindu er ekki efni til þess að fallast á síðari kröfulið stefnanda og verða stefndu því sýknaðir af honum.

3. Niðurstaða og málskostnaður

         Samkvæmt framansögðu er fallist á fyrri kröfulið stefnanda gagnvart stefnda, Saltverki Reykjaness ehf., um að ákvörðun hluthafafundar í félaginu 16. desember 2012 um staðfestingu á kaupsamningnum 7. febrúar sama ár verði ómerkt. Aftur á móti eru báðir stefndu sýknaðir af síðari kröfulið stefnanda um ógildingu þess sama kaupsamnings.

         Eftir atvikum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þykir rétt að stefndi, Saltverk Reykjaness ehf., greiði stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 600.000 krónur og er þá tekið tillit til þess að þessi stefndi er sýknaður af síðari kröfuliðnum. Með vísan til sama ákvæðis verður stefnanda gert að greiða stefnda, Nordic Sea Salt ehf., málskostnað. Við ákvörðun hans ber að taka tillit til þess að stefndi, Nordic Sea Salt ehf., fór fram á frávísun málsins, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði 11. nóvember 2014 og ákvörðun málskostnaðar látin bíða lokaniðurstöðu málsins. Í því ljósi og að teknu tilliti til eðlis málsins og þess ágreinings sem þar er til umfjöllunar þykir rétt að stefnandi greiði stefnda, Nordic Sea Salt ehf., 400.000 krónur í málskostnað.

         Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. Aðilar og dómari voru á sama máli um að óþarft væri að flytja málið að nýju.

         Af hálfu stefnanda flutti mál þetta Birgir Már Björnsson hdl. v. Guðmundar G. Gíslasonar hdl. Af hálfu stefndu flutti Guðmundur B. Ólafsson hrl. málið.

         Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

                                                                        D Ó M S O R Ð :

         Ákvörðun hluthafafundar í stefnda, Saltverki Reykjaness ehf., 16. desember 2013 um að staðfesta kaupsamning, dags. 7. febrúar 2013, um sölu á öllum eigum félagsins til stefnda, Nordic Sea Salt ehf., er felld úr gildi.

         Stefndu eru sýknaðir að öðru leyti af kröfum stefnanda, Garðars Stefánssonar.

         Stefndi, Saltverk Reykjaness ehf., greiði stefnanda 600.000 krónur í málskostnað. Stefnandi greiði stefnda, Nordic Sea Salt ehf., 400.000 krónur í málskostnað.