Print

Mál nr. 432/2017

Landvernd (Sif Konráðsdóttir hrl.)
gegn
Landsneti hf. (Þórður Bogason hrl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Flýtimeðferð
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Aðild
  • Sakarefni
  • Frávísunarúrskurður staðfestur
Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli L á hendur L hf. um ógildingu á tilteknu framkvæmdaleyfi var vísað frá dómi, en L hafði áður átt aðild að máli um gildi leyfisins fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í dómi héraðsdóms kom fram að í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála væri að finna ákvæði þar sem vikið væri frá þeirri almennu reglu stjórnsýsluréttar að sá einn gæti orðið aðili að máli fyrir stjórnvöldum sem ætti einstaklegra, beinna og lögvarinna hagsmuna að gæta. Í lögunum væru hins vegar engin sérákvæði um aðild að dómsmáli sem höfðað væri um ákvörðun stjórnvalds á grundvelli laganna. Færi því um aðild að slíku dómsmáli eftir almennum reglum, þ.á m. þeirri grunnreglu að dómstólar leysi ekki úr sakarefni nema sýnt sé að það skipti að lögum máli fyrir stöðu stefnanda að fá dóm um það. Vísaði héraðsdómur til þess að við fullgildingu hins svonefnda Árósasamnings hér á landi hefði þurft að ráðast í allmargar lagabreytingar, m.a. með setningu laga nr. 130/2011. Með vísan til lögskýringargagna taldi héraðsdómur ljóst að vilji löggjafans hefði ekki staðið til þess að umræddar lagabreytingar hafi átt að leiða til breytinga á almennum réttarfarsreglum um aðild. Þannig veitti hin sérstaka heimild laga nr. 130/2011 félagasamtökum sem uppfylltu ákveðin skilyrði, heimild til þess að koma að kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni. Hún veitti hins vegar ekki þeim sem ekki hefðu lögvarinna hagsmuna að gæta, rétt til höfðunar dómsmáls vegna annars en þess hvort réttra formreglna hefði verið fylgt við úrskurð nefndarinnar. Samkvæmt því og með vísan til þess að L hefði ekki sýnt fram á lögvarða hagsmuni sína af málinu var því vísað frá dómi. Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms með þeirri áréttingu að við setningu laga nr. 130/2011 hefði löggjafinn tekið afstöðu til áskilnaðar Árósasamningsins um að sá hluti almennings sem málið varði hafi aðgang að kæruleiðum fyrir rétti eða hjá annarri og óhlutdrægri stofnun sem komið hefði verið á fót með lögum.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. júní 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 17. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 26. júní 2017 þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Mál þetta sætir flýtimeðferð samkvæmt XIX. kafla laga nr. 91/1991.

Í 1. mgr. 11. gr. tilskipunar 2011/92/ESB um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila kunna að hafa á umhverfið er með sama hætti og í 2. mgr. 9. gr. Árósasamningsins gert ráð fyrir því að „sá hluti almennings, sem málið varðar ... hafi aðgang að reglum um meðferð kæru fyrir rétti eða hjá annarri óháðri og óhlutdægri stofnun sem hefur verið komið á fót með lögum ...“ Til þessa áskilnaðar tók löggjafinn afstöðu við setningu laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála svo sem nánari grein er gerð fyrir í hinum kærða úrskurði. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Rétt er að kærumálskostnaður falli niður.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra mánudaginn 26. júní 2017

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefnda 2. júní, er höfðað með réttarstefnu, útgefinni 5. maí 2017. Málið var þingfest 11. maí. Stefnandi er Landvernd, Þórunnartúni 6, Reykjavík en stefndi er Landsnet  hf., Gylfaflöt 9, Reykjavík. Málið er rekið skv. XIX. kafla laga nr. 91/1991.

Stefnandi krefst þess að ógilt verði með dómi framkvæmdaleyfi stefnda vegna lagningar Kröflulínu 4, sem sveitarstjórn Skútustaðahrepps samþykkti 26. október 2016 og gefið var út þann dag. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda. Í þessum þætti málsins krefst stefndi þess að málinu verði vísað frá dómi og málskostnaðar úr hendi stefnanda. Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfunni verði hafnað en sér úrskurðaður málskostnaður sérstaklega vegna þessa þáttar málsins. 

Málavextir

Mál þetta snýst um kröfu stefnanda um ógildingu framkvæmdaleyfis sem sveitarstjórn Skútustaðahrepps veitti stefnda hinn 26. október 2016 vegna lagningar svonefndrar Kröfulínu 4, 220 kV háspennulínu frá Kröfluvirkjun í Skútustaðahreppi að gufuaflsvirkjun á Þeistareykjum í Þingeyjarsveit. Leyfið var auglýst í Lögbirtingablaði 2. nóvember 2016 en áður út gefið leyfi vegna sömu framkvæmdar hafði verið fellt úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 10. október 2016.

Hinn 7. nóvember 2016 kærðu stefnandi og félagið Fjöregg, félag um náttúruvernd og heilbrigt umhverfi í Mývatnssveit, til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þá ákvörðun sveitarstjórnarinnar að veita framkvæmdaleyfið og kröfðust þess að leyfið yrði fellt úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um að framkvæmdir yrðu stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni, en þeirri kröfu hafnaði nefndin með úrskurði 24. nóvember 2016.

Hinn 4. apríl 2017 hafnaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kröfu stefnanda og Fjöreggs, félags um náttúruvernd og heilbrigt umhverfi í Mývatnssveit, um ógildingu framkvæmdaleyfisins.

Málsástæður og lagarök stefnda í þessum þætti málsins

Stefndi segir stefnanda vera frjáls félagasamtök sem starfi að umhverfismálum. Fjalli stefnandi um réttmæti aðildar sinnar og dómkröfu í réttarstefnu. Stefndi kveðst mótmæla þeirri umfjöllun í heild sinni.

Stefndi kveðst byggja á að eins og dómkröfur séu úr garði gerðar hafi stefnandi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn þeirra. Hagsmunir stefnanda geti ekki lotið að því að fá framkvæmdaleyfi fellt úr gildi, enda sé eingöngu á því byggt að stefnandi hafi látið sig varða vernd Mývatns á ýmsan hátt á undanförnum árum. Á engan hátt sé því svarað á hvern hátt efnisúrlausn dómkröfu varði einstaklega og lögvarða hagsmuni stefnanda, sem hvorki fari með opinbert vald á þessu svæði né sé þar landeigandi. Því sé aðild stefnanda byggð á almennum sjónarmiðum og í dómkröfu hans felist í raun lögspurning, sbr. 25. gr. laga nr. 91/1991.

Öðru máli kunni að gegna þegar metnir séu hagsmunir stefnanda af því að fá ákvarðanir stjórnvalda ógiltar, í stjórnsýslumáli sem stefnandi kunni að hafa átt aðild að, til dæmis með heimild í lögum. Hins vegar lúti hvorki kröfugerð né málatilbúnaður stefnanda að slíku. Því beri þegar af þessari ástæðu að vísa málinu frá héraðsdómi.

Stefndi segir að í málinu liggi fyrir að um sé að ræða tvær ákvarðanir stjórnvalda. Annars vegar ákvörðun lægra setts stjórnvalds, sveitarstjórnar Skútustaðahrepps, dags. 26. október 2016, en hins vegar ákvörðun æðra setts stjórnvalds, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 148/2016, dags. 4. apríl 2017.

Stefndi segir að stefnandi taki fram í réttarstefnu að hann hafi af því lögvarða hagsmuni að fá úrlausn dómstóla um gildi ákvörðunar sveitarfélagsins Skútustaða­hrepps, dags. 26. október 2016. Þessu kveðst stefndi mótmæla.

Stefndi kveðst benda á að stefnandi eigi kæruaðild að stjórnsýslumáli hjá æðra stjórnvaldi svo sem vegna útgáfu framkvæmdaleyfis, á grundvelli undanþágu í lögum. Umræddur úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sé hin endanlega og bindandi stjórnvaldsákvörðun í málinu, sem hafi leyst af hólmi ákvörðun lægra setts stjórnvalds, sveitarfélagsins Skútustaðahrepps.

Stefndi segir stefnanda byggja á því að ekki sé þörf á ógildingu úrskurðar úrskurðarnefndarinnar þar sem stefnandi hafi beina og lögvarða hagsmuni af því að krefjast ógildingar framkvæmdaleyfisins vegna Kröflulínu 4. Þessu mótmæli stefndi.

Stefndi segir að samkvæmt framansögðu sé sá annmarki á kröfugerð stefnanda sem geri það að verkum að ekki sé unnt að taka kröfur stefnanda til greina. Fallast beri á kröfu stefnda um frávísun þegar af þeim sökum. Kveðst stefndi vísa til meginreglu einkamálaréttarfars um nauðsyn á lögvörðum hagsmunum, sem meðal annars fái stoð í 1. mgr. 24. og 1. mgr. 25. gr. laga nr. 19/1991.

Stefndi segir stefnanda vísa til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 137/2012. Sá dómur hafi hins vegar ekki fordæmisgildi hér. Í málinu hafi kröfugerð verið takmörkuð við ógildingu ákvörðunar sveitarfélags, en ekki jafnframt krafist ógildingar útgefins leyfis. Þá hafi almenn félagasamtök ekki átt aðild að málinu. Þegar af þessum sökum séu atvik frábrugðin og fordæmisgildi ekkert.

 Stefndi segir að athygli veki að kröfugerð í máli þessu sé nákvæmlega sú sama og gerð hafi verið í dómsmáli sem rekið hafi verið um gildi framkvæmdaleyfis sveitarfélagsins Voga vegna Suðurnesjalínu 2, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 575/2016. Stefndi kveðst taka fram að atvik í því máli hafi í mörgum atriðum verið mjög frábrugðin þeim aðstæðum sem uppi séu í þessu máli. Megi þar nefna að stefnendur hafi verið landeigendur er haft hafi beina og lögvarða hagsmuni af ákvörðun sveitarstjórnar Voga um að samþykkja útgáfu framkvæmdaleyfis. Það eigi ekki við í þessu máli. Þá hafi ekki legið fyrir úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Verði almennum hagsmunum náttúrverndarsamtaka ekki skipað á sama bekk og sérstökum hagsmunum landeigenda í þessu tilliti.

Atvik séu hér önnur og verði kröfugerð stefnanda að miðast við það. Stefnandi geti ekki, í andstöðu við undirstöðurök og rótgrónar meginreglur einkamálaréttarfars, höfðað mál þetta eins og úrskurður æðra stjórnvaldsins sé ekki til staðar og með því sniðgengið áðurnefndar reglur, sem og reglur um aðild þeirra sem átt hafi aðild að viðkomandi stjórnsýslumáli.

Stefnandi segir að dómsmáli þessu sé eingöngu beint að leyfishafa, stefnda Landsneti hf. Í því sambandi kveðst stefndi taka fram að hann telji að það leiði af almennum reglum einkamálaréttarfars, ákvæðum einkamálalaga nr. 91/1991, sbr. einkum 2. mgr. 18., 19. gr. og 1. mgr. 80. gr. þeirra laga, dómvenjum, kröfugerð stefnanda og málatilbúnaði hans að öðru leyti, að sjálfstæður atbeini og aðild sveitarfélagsins Skútustaðahrepps sé nauðsyn í máli þessu til þess að unnt sé að taka til varna og leysa efnislega úr sakarefni málsins. Að mati stefnda leiði þessi annmarki á aðild einn og sér, þ.e.a.s. skortur á aðild sveitarfélagsins er ákvörðunina hafi tekið, til frávísunar málsins.

Stefndi segir að hér gildi í fyrsta lagi almennar meginreglur einkamálaréttarfars. Meginreglan sé sú að stefna beri því stjórnvaldi sem tekið hafi ákvörðun þá er dómkröfur lúti að. Þessu til stuðnings kveðst stefndi benda á dóm Hæstaréttar Íslands  í máli nr. 324/1999. Í því máli hafi Hæstiréttur talið að ekki væri unnt með dómi að ógilda stjórnvaldsákvörðun nema því stjórnvaldi, sem ákvörðunina tók, væri stefnt til varna í málinu. Þá kveðst stefndi benda á nýlegan úrskurð Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. E-1121/2015 þar sem reynt hafi á aðild sveitarfélagins Voga við útgáfu framkvæmdaleyfis vegna Suðurnesjalínu 2. Hafi það orðið niðurstaða héraðsdóms Reykjaness að aðild sveitarfélagsins Voga væri nauðsynleg. Hafi héraðsdómur meðal annars vísað til þess að önnur niðurstaða leiddi til þess málið yrði ekki nægjanlega upplýst, og að án aðildar sveitarfélagsins fengju málsaðilar ekki raunhæft tækifæri til að leggja viðhlítandi grundvöll að málinu. Þá hafi og verið talið að hlutaðeigandi sveitarfélagi bæri að skýra ákvarðanir sínar og standa skil gerða sinna við meðferð opinberra valdheimilda. Ekki hafi verið gerð athugasemd við þessa úrlausn héraðsdóms í dómi Hæstaréttar, sbr. mál nr. 575/2016. Kveðst stefndi taka undir þessi sjónarmið dómstóla. Þá sé bent á nauðsyn aðildar sveitarfélaga í dómum Hæstaréttar þegar komi að úrlausn um gildi framkvæmdaleyfa þeirra, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 265/2014 og 425/2008.

Stefndi kveðst telja í öðru lagi ljóst að án aðildar sveitarfélagsins Skútustaðahrepps verði málið ekki nægjanlega upplýst og af þeim sökum verði ekki unnt að leggja dóm á kröfur stefnanda. Út frá almennum reglum réttarfars, og með hliðsjón af málatilbúnaði stefnanda, verði stefndi ekki látinn bera hallann af því ef gögn frá því stjórnvaldi, er ákvörðunina tók, og sjónarmið þess skortir í málið. Það sé ekki hlutverk stefnda að taka til varna þegar málatilbúnaður stefnanda og sakarefni máls lúti beinlínis að afstöðu sveitarfélagsins og ákvörðun þess. Sveitarfélagið Skútustaðahreppur hafi lögvarða hagsmuni af því að svara fyrir eigin stjórnsýslu og ákvarðanir, sem að hluta séu matskenndar. Kalli það enn frekar á nauðsyn aðildar sveitarfélagsins og afstýri mögulegum réttarspjöllum.

Í því sambandi kveðst stefndi benda á málsástæður stefnanda í málsgreinum sem merktar séu nr. 43 til 48, sbr. og málgreinar merktar nr. 53, 58, 77 til 82 og 88 í réttarstefnu. Tilvitnaðar málsástæður í stefnu eigi það sammerkt að þær lúti allar að því að sveitarfélagið hafi brotið gegn skyldum sínum að lögum við umrædda leyfisveitingu. Ekki sé um tæmandi talningu slíkra málsástæðna í stefnu, en alltjent sé ljóst að tilvitnaður málatilbúnaður stefnanda kalli á aðild sveitarfélagsins Skútustaðahrepps. Dómur um sakarefnið hafi óhjákvæmilega bein áhrif á lögvarða hagsmuni sveitarfélagsins, sem leyfisveitanda og sem eftirlitsstjórnvalds. Stefndi kveðst krefjast frávísunar af þeim sökum.

Í þriðja lagi kveðst stefndi taka fram að horfa verði til eðlis leyfisveitingar hverju sinni og þeirrar löggjafar sem að baki henni búi þegar meginreglur réttarfars um aðild og lögvarða hagsmuni séu skoðaðar. Þá verði og að skoða dómvenjur.

Stefndi segir stefnanda vísa til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 204/2008 vegna aðildar til varnar. Það mál varði útgáfu byggingarleyfis. Stefnandi þess máls hafi gert kröfu um ógildingu stjórnvaldsákvarðana er varðað hafi samþykkt á útgáfu byggingarleyfis ásamt því að gerð hafi verið krafa um ógildingu byggingarleyfisins sjálfs sem gefið hafi verið út á grundvelli þessara ákvarðana. Stefndi kveðst mótmæla því að sá dómur geti haft fordæmisgildi, enda sé um eðlisólíkar leyfisveitingar að ræða. Ekki sé unnt að álykta sem svo að dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 204/2008 sé fordæmisgefandi þegar komi að aðild sveitarfélags í dómsmáli vegna ógildingar á framkvæmdaleyfi, sem grundvallist á annarri löggjöf.

Stefndi segir að af dómafordæmum sé ljóst að við úrlausn mála er varði kröfu um ógildingu byggingaleyfis hafi orðið til dómvenjur varðandi aðild, sem ekki eigi við í máli þessu, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 326/2005, en þar komi meðal annars fram að miðað við dómaframkvæmd verði ekki gerð krafa um að sveitarfélag eigi aðild að dómsmáli þar sem fjallað sé um gildi byggingarleyfis. Hið gagnstæða gildi um framkvæmdaleyfi og styðji dómafordæmi nauðsyn aðildar sveitarstjórnar í slíkum málum.

Þá sé ljóst að telji stefnandi sig krefjast endurskoðunar úrskurðar úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál í máli nr. 148/2016 með dómkröfum sínum, sé ekki undir nokkurum kringumstæðum unnt að reka mál þetta án aðildar sveitarfélagsins.

Stefndi segir að vísa beri málinu frá þar sem almennar reglur réttarfars og dómvenjur leiði til þess að stefna beri öllum aðilum sem átt hafi aðild á kærustigi málsins innan stjórnsýslunnar. Skylda sé að hafa samaðild með öllum þeim sem áttu aðild að kærumálinu, eða í það minnsta stefna þeim öllum til varnar. Í máli þessu liggi fyrir úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 148/2016, sem sé hinn endanlegi úrskurður á stjórnsýslustigi í tengslum við útgáfu framkvæmdaleyfis vegna Kröflulínu 4. Kærendur hafi verið tveir, annars vegar stefnandi Landvernd, og hins vegar Fjöregg, félag um náttúruvernd og heilbrigt umhverfi í Mývatnssveit, Skútustaðahreppi. Um kæruaðild þessara aðila hafi verið byggt á 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Stefndi segir að á dómsmáli þessu sé sá réttarfarslegi annmarki, sem leiða eigi til frávísunar þess, að Fjöregg eigi ekki aðild að því. Skortur á aðild Fjöreggs fari gegn almennum reglum einkamálaréttarfars eins og þær hafi verið mótaðar af dómstólum, sbr. til dæmis dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 429/1997 og 431/2001. Þá kveðst stefndi og byggja á 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 eða eftir atvikum 19. gr. sömu laga í þessu sambandi.

Með sömu rökum sé byggt á því að stefnanda hafi borið að stefna Skútustaðahreppi til að þola dóm, svo sem áður segi.

 Stefndi segir að í réttarstefnu sé ekki að finna viðhlítandi rök fyrir því hvers vegna Fjöregg hafi ekki stefnt í málinu, líkt og lög krefji. Ekki stoði stefnanda að vísa til þess í réttarstefnu að Fjöregg hafi ákveðið að láta mál þetta ekki til sín taka. Sé slíkum málatilbúnaði hafnað sem rökleysu. Þá verði ekki séð að stefnandi sé bær til þess að ráðstafa hagsmunum Fjöreggs með þessum hætti.

Stefndi segir að í réttarstefnu, einkum málsgrein nr. 9, rökstyðji stefnandi aðild sína og hagsmuni með vísan til norræns réttar, einkum danskrar dómaframkvæmdar um lögvarða hagsmuni umhverfisverndarsamtaka í málum um náttúruvernd og aðra umhverfisvernd. Þessum málsástæðum stefnanda sé mótmælt. Þá sé því einnig mótmælt að umræddir dómar danskra dómstóla hafi fordæmisgildi þegar komi að úrlausn þessa máls.

Stefndi kveðst í fyrsta lagi taka fram að um aðildarskilyrði fyrir íslenzkum dómstólum fari eftir óskráðum meginreglum einkamálaréttarfars, sem byggð séu á ákvæðum laga um meðferð einkamála, sbr. einkum 24. gr. og 25. gr. þeirra laga, og dómvenjum íslenzkra dómstóla. Sé um að ræða þá meginreglu sem feli í sér að hagsmunir stefnanda af úrlausn máls þurfi að vera lögvarðir. Ekki sé viðurkennd sú regla að hver eigi sök sem vilji þegar komi að aðild fyrir íslenzkum dómstólum og skipti í því sambandi ekki máli þótt náttúruverndarsamtök eigi í hlut.

Stefndi segir að í íslenzkum lögum sé ekki að finna sérákvæði um aðild náttúruverndarsamtaka að dómsmálum. Aðildarskilyrði íslenzks réttar, eins og þau hafi verið mótuð af Hæstarétti Íslands, leiði þannig til þess að ekki sé sjálfgefið að náttúruverndarsamtök, eða aðrir þeir er láta sig umhverfisvernd varða, geti sjálfkrafa átt aðild að dómsmálum umfram það sem leiði af hinum þröngu aðildarskilyrðum réttarfars. Kveðst stefndi hér vísa til dóma Hæstaréttar Íslands í máli nr. 231/2002 og 171/2004.

Stefndi kveðst benda á að aðild umhverfissamtaka á stjórnsýslustigi mála á grundvelli undantekningarreglna um aðild, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, feli ekki sjálfkrafa í sér að þeir hinir sömu aðilar teljist hafa lögvarða hagsmuni fyrir dómstólum. Að mati stefnda sé ekki unnt fyrir stefnanda að rökstyðja aðild sína að dómsmáli þessu, og um leið rökstyðja lögvarða hagsmuni sína, með því einu að draga víðtækari ályktanir af undantekningarreglum í lögum, sem kveði á um frávik frá almennum reglum stjórnsýsluréttar um aðild við rekstur slíkra mála. Um aðild fyrir dómstólum gildi almennar reglur einkamálréttarfars.

Stefndi segist í öðru lagi byggja á, að eins og málatilbúnaði stefnanda sé hagað sé ekki unnt að fallast á að hagsmunir hans teljist vera einstaklegir umfram aðra þannig að niðurstaða hafi áhrif á réttarstöðu hans að lögum. Hagsmunir stefnanda séu almennir og opinberir, líkt og hann sjálfur byggi á, sbr. ummæli hans sjálfs í réttarstefnu: „Stefnanda sé falin gæsla almannahagsmuna...“. Stefndi kveðst mótmæla þessu en benda um leið á skyldur sínar á grundvelli raforkulaga, nr. 65/2003, sem séu í almannaþágu.

Til hliðsjónar megi benda á að í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 575/2016, sem fjallað hafi um framkvæmdaleyfi í tengslum við Suðurnesjalínu 2, hafi stefnendur í málinu verið þinglýstir eigendur þeirra jarða sem fyrirhuguð háspennulína hafi legið um og hafi þeir beina haft lögvarða hagsmuni sem slíkir. Slíkt eigi ekki við í máli þessu.

Þá kveðst stefndi benda á niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í máli nr. 33/2016, milli sömu aðila. Stefnandi hafi höfðað mál gegn stefnda og gert kröfu um ógildingu á kerfisáætlun 2014-2023. Í málinu hafi af hálfu stefnda verið byggt á því að skortur væri á lögvörðum hagsmunum. Málinu hafi verið vísað frá, meðal annars með eftirfarandi rökum: „Án tillits til þess hvort áfrýjandi [Landvernd] hafi nokkru sinni haft lögvarða hagsmuni af því að fá áætlun af þessum toga fellda úr gildi, er hvað sem öðru líður ljóst að þeir hagsmunir hafi liðið undir lok með samþykkt nýrrar áætlunar“. Í dómi Hæstaréttar Íslands nr. 171/2004 hafi verið fallizt á kröfu sóknaraðila um frávísun, meðal annars þar sem talið var að þeir hagsmunir sem varnaraðili hefði byggt málatilbúnað sinn á, þar með taldir náttúruverndar- og útivistarhagsmunir, teldust ekki til lögvarðra hagsmuna, sbr. og niðurstaða Hæstaréttar Íslands í máli nr. 231/2002.

Þá segir stefndi að ekki sé unnt fyrir stefnanda að rökstyðja aðild sína að dómsmáli þessu með vísan til ákvæða Árósasamningsins. Sé slíkum málsástæðum hafnað.

Fullgilding Árósamningsins hafi ekki opnað fyrir aðild umhverfisverndarsamtaka að dómsmálum umfram það sem mælt sé fyrir um í sérlögum eða að uppfylltum almennum skilyrðum laga um meðferð einkamála í héraði. Engar breytingar hafi verið gerðar á lögum nr. 91/1991 er kynnu að veita stefnanda beina aðild að dómsmáli sem þessu. Árósasamningurinn sé ekki réttarheimild sem stefnendur geti byggt rétt sinn beint á gagnvart stefnda án þess að ákvæði hans hafi verið leidd í lög á Íslandi. Við innleiðingu ákvæða Árósasamningsins hafi verið farin svo kölluð stjórnsýsluleið, sbr. lög nr. 130/2011, en opnað hafi verið fyrir aðild umhverfissamtaka á stjórnsýslustigi í tilteknum málaflokkum.

Stefndi kveðst í þriðja lagi byggja á að við mat á meginreglum réttarfars um lögvarða hagsmuni geti haft þýðingu hvert markmið málshöfðunar sé og hvernig kröfugerð sé háttað með tilliti til þess.

Í málinu leggi stefnandi fram töluvert magn gagna, sem að mati stefnda hafi ekki þýðingu við úrlausn málsins. Þrátt fyrir að dómkröfur stefnanda lúti að því að fá framkvæmdaleyfi ógilt, í kjölfar niðurstöðu úrskurðarnefndar, virðist sem málatilbúnaður stefnanda og sakarefni miði í raun að því að fá efnislega afstöðu dómstóla um ákvarðanir annarra stjórnvalda, svo sem ákvarðanir stjórnvalda í tengslum við skipulag, til að mynda svæðisskipulag háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025 sem staðfest hafi verið af umhverfisráðherra hinn 16. janúar 2008. Ætti stefnandi að einhverju leyti lögvarða hagsmuni myndu þeir eingöngu lúta að málsmeðferð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 148/2016, og verði dómkröfur og sakarefni málsins að miðast við það.

Stefndi kveðst byggja á því að dómkröfur verði að vera settar fram í tengslum við sakarefnið og verði samhengi að vera milli dómkrafna og þeirra málsástæðna sem byggt sé á. Kveðst stefndi telja að málatilbúnaður stefnanda fari að þessu leyti gegn meginreglu um lögvarða hagsmuni af úrlausn máls og ákvæði 1. mgr. 80. gr. eml., sbr. einkum d og e liðar, sbr. og til hliðsjónar dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 423/2001, sbr. og til dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 272/2002 og 65/2013.

Stefndi segist telja ljóst að málið sé svo verulega vanreifað í skilningi 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, að varði frávísun þess, að sem án kröfu.

Stefndi kveðst byggja á grundvallarreglu íslensks réttar, sem sé að sá sem krefst réttinda sér til handa í dómsmáli verði að gera skýra grein fyrir þeim. Um sé að ræða meginreglu um ákveðna og skýra kröfugerð.

Stefndi kveðst telja stefnanda hafi látið undir höfuð leggjast að skýra grundvöll kröfugerðar sinnar og sé enga umfjöllun að finna í réttarstefnu um ástæður þess að ekki gerð krafa um ógildingu hinnar endanlegu og bindandi stjórnvaldsákvörðunar í málinu, úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 148/2016, sem þó sé grundvöllur framkvæmdaleyfisins og aðildar stefnanda að stjórnsýslumáli þar að lútandi.

Stefndi kveðst byggja á því að þegar gerð sé krafa um ógildingu stjórnvaldsákvörðunar sé ljóst að í slíku dómsmáli verði að jafnaði ekki byggt á öðrum gögnum en þeim er legið hafi til grundvallar þegar hlutaðeigandi stjórnvöld hafi tekið ákvörðun sína. Í réttarstefnu sé ekki vísað til neins einstaks dómskjals til stuðnings málatilbúnaði stefnanda. Stefndi kveðst telja að gagnaframlagning stefnanda sé úr hófi fram og umfram það sem liggur til grundvallar fyrirliggjandi ákvörðunum Skútustaðahrepps og úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 148/2016.

Stefndi segir að meðal dómskjala sé að finna ógrynni gagna úr öðrum stjórnsýslumálum og hinar ýmsu ákvarðanir stjórnvalda sem geri stefnda erfitt um vik að taka til varna í máli þessu. Stefnandi gangi meira að segja svo langt að leggja fram stefnu úr öðru dómsmáli. Sé um að ræða gögn sem geti ekki haft þýðingu við úrlausn málsins. Einnig leiði þessi gagnaframlagning til þess að málatilbúnaður stefnanda sé vanreifaður og óskýr og virðist sem byggt sé á málsástæðum úr öðrum stjórnsýslumálum og dómsmálum. Sé stefnda gert ókleift að taka til varna í málinu sökum þess að hann fái ekki greint sakarefni málsins. Sé því gerð krafa um frávísun málsins.

Þá sé og um vanreifun að ræða þar sem stefnandi hefði þurft að skýra nánar í réttarstefnu hvers vegna hann hafi kosið að víkja frá framangreindum meginreglum réttarfars um aðild. Skorti verulega á að stefnandi geri viðhlítandi grein fyrir aðild í málinu til varnar, meðal annars hvers vegna hann kjósi að stefna ekki sveitarfélaginu Skútustaðahreppi sem leyfisveitanda, sem teljist hafa beina og lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Þá skorti einnig umfjöllun um hvers vegna Fjöregg eigi ekki aðild að dómsmáli þessu.

Að mati stefnanda sé annmarkinn verulegur og til þess fallin að koma niður á möguleikum stefnda til þess að taka til varna í málinu.

Kveðst stefndi telja að með framangreindu fyrirkomulagi á málatilbúnaði og kröfugerð stefnanda sé brotið gegn 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, einkum d, e, f og g lið. Beri því að vísa málinu frá.

Málsástæður og lagarök stefnanda í þessum þætti málsins

Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað og að málið verði tekið til efnismeðferðar.

Stefnandi kveðst vera umhverfisverndarsamtök á landsvísu sem hafi látið sig vernd við Mývatn varða á ýmsan hátt. Mál hafi verið rekin og séu rekin vegna þessa á stjórnsýslu- og dómstigi. Þar á meðal hafi stefnandi í tvígang kært til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála skv. lögum nr. 130/2011 framkvæmdaleyfi er Skútustaðahreppur hafi veitt fyrir Kröflulínu 4, en stefnandi njóti kæruréttar á grundvelli ákvæða síðastgreindra laga og Árósasamnings um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum, sem skuldbindandi sé fyrir íslenzka ríkið, en hann hafi verið fullgiltur af Íslands hálfu hinn 16. september 2011.

Stefnandi kveðst hafa verið aðili að kærumáli sem rekið hafi verið fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, mál nr. 148/2016, og úrskurður hafi gengið í 4. apríl 2017, vegna sömu ákvörðunar og mál þetta fjalli um. Stefnandi kveðst taka fram að samtökin Fjöregg, sem einnig hafi staðið að kæru í því máli og í máli nr. 46/2016 þar sem kærð hafi verið fyrri leyfisveiting til Landsnets vegna sömu framkvæmdar, hafi ákveðið að láta mál þetta ekki til sín taka. Valdi það ekki frávísun málsins, sem snúist um ógildingu stjórnvaldsákvörðunar Skútustaðahrepps. Þá hafi engin þörf verið á að stefna Skútustaðahreppi til varnar í málinu. Ef stefndi telji hagsmuni sína fyrir borð borna með því að Skútustaðahreppur eigi ekki aðild að málinu hafi honum verið unnt að stefna honum sjálfur og skora á hann sér til liðveizlu, sbr. 1. mgr. 21. gr. laga nr. 91/1991.

     Stefnandi segir að fyrirhugað sé að háspennulínan, sem mál þetta fjalli um, liggi um land sem verndar njóti samkvæmt náttúruverndarlögum og kveðst stefnandi hafa sent kröfu um það til Skipulagsstofnunar 10. marz 2015 að nýtt umhverfismat færi fram fyrir Kröflulínu 4 í málsmeðferð þeirri samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda sem lokið hafi með veitingu framkvæmdaleyfis þess er mál þetta fjalli um. Stefnandi segir hagsmuni sína meðal annars felast í því að samtökin reki dómsmál fyrir héraðsdómi Reykjavíkur, mál nr. E-3628/2016, til að knýja íslenzka ríkið til að friðlýsa nokkur landsvæði í Skútustaðahreppi, þar á meðal Leirhnjúkshraun, í samræmi við lagaskyldu sbr. bráðabirgðaákvæði II í lögum nr. 97/2004. Framkvæmd sú er mál þetta fjalli um myndi raska því svæði, Leirhnjúkshrauni, á óafturkræfan hátt, auk þess sem hún myndi raska Neðra-Bóndhólshrauni, en bæði þessi hraun njóti lagaverndar skv. a-lið 2. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013, sem eldhraun runnin á nútíma, auk þess sem framkvæmdin raski óbyggðum víðernum sem njóti nú verndar skv. 3. gr. sömu laga. Stefnandi kveðst hafa látið sig stjórnsýslumeðferð málsins varða með því að hafa gert kröfu um endurtekið umhverfismat eins og áður segi, og rekið um þá kröfu stjórnsýslumál á kærustigi. Stefnandi kveðst einnig hafa í tvígang rekið stjórnsýslumál á kærustigi til ógildingar framkvæmdaleyfa er Skútustaðahreppur hafi gefið út til handa stefnda fyrir Kröflulínu 4, mál úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála nr. 46/2016 og nr. 148/2016, og loks kveðst hann reka, ásamt samtökunum Fjöreggi, stjórnsýslumál á kærustigi til þess að knýja á um framfylgd úrskurðar umhverfisráðuneytis frá 13. maí 2003 um að fjarlægður verði vegslóði úr Leirhnjúkshrauni og um ógildingu leyfis Landsvirkjunar vegna þeirra framkvæmda, mál úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála nr. 132/2016. Stefnanda séu játaðir lögvarðir hagsmunir í 2. mgr. 91. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013, með kærurétti til æðra stjórnvalds á ákvörðunum er lúti að framkvæmd laganna, auk þeirra lögvörðu hagsmuna er leiði af 3. mgr. 9. gr. Árósasamningsins en samkvæmt því ákvæði skuli aðildarríki, er fullgilt hafi samninginn, tryggja almenningi og samtökum þeirra aðgang að dómstóli eða öðrum úrskurðaraðila í málum en varði meint brot einkaaðila eða stjórnvalda gegn landslögum að því er varði umhverfismál. Stefnanda sé falin gæzla almennahagsmuna samkvæmt Árósasamningnum og sé játuð kæruaðild í lögum nr. 130/2011, til samræmis við ákvæði 2. mgr. 9. gr. Árósasamningsins og 11. gr. tilskipunar 2011/92/ESB um réttláta málsmeðferð í umhverfismálum varðandi þær framkvæmdir er hafi umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér.

Þá kveðst stefnandi vísa til þess að samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, sé öllum áskilinn réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur fyrir dómi. Reglan um lögvarða hagsmuni sé óskráð réttarregla, mótuð af dómstólum. Kveðst stefnandi og vísa til norræns réttar um lögvarða hagsmuni umhverfisverndarsamtaka í málum um náttúruvernd og aðra umhverfisvernd, einkum danskrar dómaframkvæmdar, en skilyrðið um lögvarða hagsmuni sé mótað af dómstólum í Danmörku á sama hátt og á Íslandi, og dómstólar beggja ríkja meti í hverju tilviki fyrir sig, sé því andmælt, hvort um lögvarða hagmuni sé að ræða, sbr. m.a. dóm Eystri Landsréttar Danmerkur frá 1. júlí 1994 í máli U 1994.78 Ø, dóm Hæstaréttar Danmerkur í máli U 2000.1103 H, og dómur Vestri Landsréttar Danmerkur frá 27. apríl 2001 í máli U 2001.1594 V. Málshöfðun þessi falli að markmiðum stefnanda.

Stefnandi segir að ljóst sé, að virtu öllu framangreindu, að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn dómstóla um gildi þeirrar ákvörðunar sveitarfélagsins Skútustaðhrepps hinn 26. október 2016 að veita stefnda framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4 og að gefa út leyfið.

Stefnandi kveðst ekki telja þörf á að krefjast ógildingar úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þar sem kröfum stefnanda hafi verið hafnað, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 137/2012.

Niðurstaða

Það er meginregla í réttarfari að dómstólar leysi ekki úr sakarefni nema sýnt sé að það skipti að lögum máli fyrir stöðu stefnanda að fá dóm um það.  Í máli þessu krefst stefnandi þess að framkvæmdaleyfi sem sveitarstjórn Skútustaðahrepps veitti stefnda til tiltekinnar framkvæmdar verði fellt úr gildi. Stefnandi er ekki eigandi lands á því svæði er framkvæmdin tekur til og hefur þar ekkert opinbert vald. Stefnandi er umhverfisverndarsamtök sem hafa látið sig varða málefni fjölmargra svæða á landinu, þar á meðal þess sem hér um ræðir. Þannig var stefnandi annar þeirra aðila sem fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kröfðust þess að ákvörðun um veitingu framkvæmdaleyfis til stefnda yrði felld úr gildi.

Í 1. ml. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðar­nefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra eigi. Í 2. ml. segir svo að umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök með minnst 30 félaga geti þó kært nánar tilgreindar ákvarðanir án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni enda samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lúti að. Er þannig í 2. ml. vikið frá þeirri almennu reglu stjórnsýsluréttar að sá einn geti orðið aðili að máli fyrir stjórnvöldum, sem eigi einstaklegra, beinna og lögvarinna hagsmuna að gæta. Af slíkum lögbundnum undantekningarreglum verða ekki dregnar víðtækari ályktanir en felast í orðum þeirra, og má um það vísa til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 231/2002. Í lögum nr. 130/2011 eru engin sérákvæði um aðild að dómsmáli, sem höfðað er um ákvörðun stjórnvalds á grundvelli laganna. Fer því um aðild að slíku dómsmáli eftir almennum reglum, þar á meðal þeirri grunnreglu að baki ákvæðum laga nr. 91/1991 að dómstólar leysi ekki úr sakarefni nema sýnt sé að það skipti að lögum máli fyrir stöðu stefnanda að fá dóm um það, og má hér enn vísa til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 231/2002.

Stefnandi vísar til svonefnds Árósasamnings. Í tilefni af fullgildingu hans af Íslands hálfu var allmörgum lögum breytt, sbr. lög nr. 131/2011 um breytingu á ýmsum lögum vegna fullgildingar Árósasamningsins og lög nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því er varð að lögum nr. 131/2011 er rakið að í 2. mgr. 9. gr. Árósasamningsins sé fjallað um aðgang að endurskoðunarleið fyrir dómstólum og/eða öðrum óháðum og hlutlausum aðila um hvort ákvarðanir, aðgerðir eða aðgerðarleysi stjórnvalda, sem fjallað sé um í 6. gr. samningsins, samræmist lögum að efni eða formi. Hér á landi hafi verið talið að gera þyrfti breytingar á lögum til að tryggja að unnt yrði að leggja ákvarðanir um útgáfu leyfa vegna matsskyldra framkvæmda fyrir dómstóla eða óháða og hlutlausa úrskurðaraðila til endurskoðunar og að umhverfisverndarsamtök geti átt aðild að slíkum málum. Í því sambandi væri unnt að velja á milli tveggja leiða. Annars vegar stjórnsýsluleiðar og hins vegar dómstólaleiðar. Stjórnsýsluleiðin fæli í sér að ákvæðum tilgreindra laga á verkefnasviði nánar greindra ráðuneyti sem varða leyfi vegna framkvæmda sem haft geta umtalsverð áhrif á umhverfið yrði breytt og sett yrði á stofn sérstök úrskurðarnefnd til að fjalla um kærur vegna leyfisveitinganna. Þá yrði lögfest kæruheimild til handa umhverfisverndarsamtökum. Í dómstólaleiðinni fælist hins vegar að skilyrði fyrir aðgangi að dómstólum yrðu rýmkuð með setningu sérlaga. Með slíkri rýmkun yrði umhverfisverndarsamtökum veitt heimild til að leggja ákvarðanir um útgáfu leyfa vegna framkvæmda sem haft geta umtalsverð umhverfisáhrif fyrir dómstóla. Í athugasemdunum er rakið að niðurstaðan hafi orðið sú að stjórnsýsluleiðin yrði valin. 

Í nefndaráliti meirihluta umhverfisnefndar Alþingis, er frumvarpið var til meðferðar á Alþingi, segir meðal annars: „Við umfjöllun nefndarinnar var á það bent að í bréfi réttarfarsnefndar til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 17. september 2001, um lagabreytingar vegna Árósasamningsins, kemur fram að hún vill fara varlega við að breyta út af hinni óstaðfestu réttarreglu hérlendis um að kærandi í einkamáli hafi lögvarða hagsmuni. Nefndin ákvað að kalla fulltrúa réttarfarsnefndar á fund til að fara yfir bréfið frá 2001 og athuga hvort þau sjónarmið sem þar koma fram ættu enn við. Á þeim fundi var farið yfir vinnu við málið undanfarinn áratug í tengslum við ábendingar réttarfarsnefndar. Fram kom að með frumvarpi til laga um úrskurðarnefndina séu lagðar til breytingar á ýmsum lögum sem fullgilding Árósasamningsins kallar eftir. Að auki stæði nú til að fara stjórnsýsluleið að markmiðum 9. gr. Árósasamningsins en ekki dómstólaleið. Andinn í bréfi réttarfarsnefndar frá 2001 hafi því skilað sér ágætlega í þau frumvörp sem um ræðir. Ákvæðin í frumvarpinu um actio popularis séu skýr og gildissvið þeirra vel afmarkað. Ekki sé verið að breyta hinum almennu réttarfarsreglum og þær taki því við þar sem þessum frumvörpum sleppir. Meiri hlutinn bendir á að í dómi Hæstaréttar í máli nr. 231/2002 staðfesti dómstóllinn að í skjóli meginreglu fyrri málsliðar 60. gr. stjórnarskrárinnar nýtur sá sem aðild hefur átt að máli fyrir stjórnvaldi almennt réttar til að bera undir dómstóla hvort farið hafi verið að lögum við meðferð þess og úrlausn. Það er því ljóst að ef kærandi er ósáttur við úrskurð úrskurðarnefndarinnar getur hann borið undir dómstóla hvort formsreglum hafi verið fylgt í öllu við úrskurð úrskurðarnefndar og getur þá krafist ógildingar úrskurðarins ef hann telur að svo hafi ekki verið. Hann getur hins vegar ekki krafist þess að ákvörðun ráðherra um að veita tiltekið framkvæmdarleyfi verði felld úr gildi. Almenn kæruaðild fyrir úrskurðarnefndinni leiðir þannig ekki til aðildarréttar fyrir almennum dómstóli ef frá eru talin mál um formsreglur.“ Við frekari meðferð frumvarpsins á þingi var svo sú breyting gerð á því að út féll ákvæði er gerði ráð fyrir að hver ætti sök er vildi.

Eins og áður segir, kemur fram í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 231/2002 að af lögbundnum undantekningarreglum frá þeirri almennu reglu stjórnsýsluréttar, að sá einn geti orðið aðili að máli fyrir stjórnvöldum, sem eigi einstaklegra, beinna og lögvarinna hagsmuna að gæta, verði ekki dregnar víðtækari ályktanir en felast í orðum þeirra, og að ef lögin geyma ekki sérákvæði um aðild að dómsmáli, sem höfðað er um ákvörðun stjórnvalds á grundvelli laganna, fer um aðild að slíku dómsmáli eftir almennum reglum, þar á meðal þeirri grunnreglu að baki ákvæðum laga nr. 91/1991 að dómstólar leysi ekki úr sakarefni nema sýnt sé að það skipti að lögum máli fyrir stöðu stefnanda að fá dóm um það. Ljóst er af áliti meirihluta umhverfisnefndar Alþingis að þessi dómur Hæstaréttar Íslands hefur legið fyrir nefndinni.

Af því sem hér hefur verið rakið er að mati dómsins ljóst að vilji löggjafans stóð ekki til þess að lagabreytingar vegna fullgildingar Árósasamningsins yrðu til þess að hinar almennu réttarfarsreglur um aðild breyttust. Lög nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geyma engin sérákvæði um aðild að dómsmáli. Sú sérstaka heimild sem 3. sbr. 4. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 veitir félagasamtökum, sem uppfylla ákveðin skilyrði, að kæra til úrskurðarnefndarinnar án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni, veitir þeim, sem ekki hefur lögvarinna hagsmuna að gæta, ekki rétt til höfðunar dómsmáls vegna annars en þess hvort formreglna hafi verið fylgt við úrskurð úrskurðarnefndarinnar, en í skjóli meginreglu fyrri málsliðar 60. gr. stjórnarskrárinnar nýtur sá sem aðild hefur átt að máli fyrir stjórnvaldi almennt réttar til að bera undir dómstóla hvort farið hafi verið að lögum við meðferð þess og úrlausn, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 231/2002 og 808/2014.

Í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar er öllum játaður réttur til að fá dóm um réttindi sín og skyldur. Leiðir þessi grein ekki til þess að menn öðlist rétt til aðildar að dómsmáli án þess að eiga lögvarða hagsmuni af dómsmálinu.

Stefnandi vísar til þess að hann hafi höfðað annað dómsmál í því skyni að knýja ríkið til nánar tilgreindrar friðlýsingar lands. Slík málshöfðun stefnanda aflar honum ekki lögvarinna hagsmuna í þessu máli.

Stefnandi vísar til þess hvernig tilteknar erlendar dómsúrlausnir hafi gengið þegar metnir hafi verið lögvarðir hagsmunir. Hafa þær ekki fordæmisgildi hér.

Þegar á allt framanritað er horft hefur stefnandi ekki sýnt fram á að hann hafi lögvarða hagsmuni af málinu og verður því að fallast á kröfu stefnda um frávísun þess. Þegar á allt er horft þykir mega ákveða að málskostnaður milli aðila falli niður.

Af hálfu stefnanda fór Sif Konráðsdóttir hrl. með málið en af hálfu stefnda Kristín Ólafsdóttir hdl.

Þorsteinn Davíðsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Máli þessu er vísað frá dómi.

Málskostnaður fellur niður.