Print

Mál nr. 517/2016

Samtök sparifjáreigenda (Hróbjartur Jónatansson hrl.)
gegn
Hreiðari Má Sigurðssyni (Hörður Felix Harðarson hrl.), Ingólfi Helgasyni (enginn), Magnúsi Guðmundssyni (Hörður Felix Harðarson hrl.), Ólafi Ólafssyni (Þórólfur Jónsson hrl.) og Sigurði Einarssyni (Gestur Jónsson hrl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Stefnubirting
  • Varnarþing
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
Reifun
S kærði úrskurð héraðsdóms þar sem máli hans gegn H, I, M, Ó og SE var vísað frá dómi á þeirri forsendu að málið hefði verið höfðað á röngu varnarþingi. Talið var að fullnægt hefði verið skilyrðum 4. mgr. 32. gr. laga nr. 91/1991 til að reka mál S á hendur H, M, og Ó fyrir hlutaðeigandi héraðsdómi, en I og SE samkvæmt 1. mgr. 42. gr. sömu laga. Þá var ekki talið skipta máli hvort stefna hefði verið birt fyrir H, M og Ó sjálfum þar sem sótt hafði verið verið þing af þeirra hálfu við þingfestingu málsins í héraði, sbr. 4. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. júlí 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 1. júlí 2016, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnislegrar meðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðilarnir Hreiðar Már Sigurðsson, Magnús Guðmundsson, Ólafur Ólafsson og Sigurður Einarsson krefjast hver fyrir sitt leyti staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Varnaraðilinn Ingólfur Helgason hefur ekki látið málið til sín taka.

I

Sóknaraðili höfðaði mál þetta fyrir Héraðsdómi Vesturlands með stefnu 9. febrúar 2016 og krafðist þess að varnaraðilar yrðu dæmdir óskipt til að greiða sér aðallega 902.493.733 krónur og til vara aðra lægri fjárhæð með nánar tilgreindum vöxtum, en að því frágengnu að viðurkennd yrði „skaðabótaskylda stefndu in solidum gagnvart stefnanda vegna fjártjóns stefnanda sem hlaust af markaðsmisnotkun stefndu með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. á tímabilinu 1. nóvember 2007 til 9. október 2008.“ Í öllum tilvikum krafðist sóknaraðili jafnframt málskostnaðar. Í upphafi stefnunnar kom fram að varnaraðilarnir Hreiðar og Magnús ættu lögheimili í Luxembourg, en hefðu fasta búsetu að „Kvíabryggju, 350 Grundarfirði.“ Varnaraðilinn Ólafur ætti lögheimili í Sviss og varnaraðilinn Sigurður á nánar tilgreindum stað í Reykjavík, en þeir hefðu einnig fasta búsetu að Kvíabryggju. Varnaraðilinn Ingólfur ætti lögheimili í Luxembourg. Í sérstökum lið í stefnunni var tekið fram um varnarþing að vísað væri til 1. mgr. 32. gr. laga nr. 91/1991 „þar sem mælt er fyrir um að ef einstaklingur eigi fasta búsetu á öðrum stað en hann á lögheimili sé heimilt að sækja hann í þeirri þinghá.“ Varnaraðilarnir Hreiðar, Magnús, Ólafur og Sigurður væru að afplána refsingu samkvæmt dómi Hæstaréttar 12. febrúar 2015 í máli nr. 145/2014 í „fangelsinu að Kvíabryggju á Snæfellsnesi og teljast því eiga fasta búsetu þar.“ Um varnaraðilann Ingólf var varðandi varnarþing vísað til 1. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991.

Í málinu liggja fyrir vottorð stefnuvotts um að hann hafi birt stefnuna fyrir varnaraðilanum Sigurði sjálfum að Kvíabryggju 10. febrúar 2016, en fyrir nafngreindum fangavörðum þar vegna varnaraðilanna Hreiðars, Magnúsar og Ólafs sama dag. Ekki er að sjá að stefnan hafi verið birt fyrir varnaraðilanum Ingólfi.

Við þingfestingu málsins 5. apríl 2016 var mætt af hálfu varnaraðilanna Hreiðars, Magnúsar, Ólafs og Sigurðar, en ekki af hálfu varnaraðilans Ingólfs. Vegna þeirra fjögurra fyrstnefndu voru þá lagðar fram bókanir, þar sem krafist var að málinu yrði vísað frá dómi og þeim dæmdur málskostnaður. Röksemdir fyrir þeim kröfum eru raktar í hinum kærða úrskurði, en með honum var málinu sem fyrr segir vísað frá dómi.

II

Sóknaraðili hefur lagt fyrir Hæstarétt bréflega staðfestingu varðstjóra í fangelsinu að Kvíabryggju frá 7. júlí 2016 á því að varnaraðilarnir Hreiðar, Magnús, Ólafur og Sigurður hafi allir verið vistaðir þar 10. febrúar sama ár. Þá hefur sóknaraðili lagt fram bréf 4. júlí 2016 frá stefnuvotti, sem gerði fyrrnefnd vottorð um birtingu stefnu 10. febrúar sama ár. Í bréfinu segir að hann hafi gefið sig fram við tvo nafngreinda fangaverði þegar hann kom á Kvíabryggju síðastgreindan dag. Fangaverðirnir hafi haft samband við þessa fjóra varnaraðila og tjáð þeim að stefnuvottur biði þeirra á skrifstofu fangelsisins. Hafi varnaraðilinn Sigurður komið þangað og stefnan verið birt fyrir honum. Síðan hafi varnaraðilinn Ólafur komið, en sagt stefnuvottinum að nægilegt væri að birta fyrir fangaverði, sem hafi svo verið gert. Á hinn bóginn hafi varnaraðilarnir Hreiðar og Magnús hvorugur komið og fangavörður því fylgt stefnuvottinum í hús, þar sem þeir hafi verið vistaðir. Þegar þangað hafi verið komið hafi þessir varnaraðilar verið í herbergjum sínum og haft læst að sér, en þegar bankað hafi verið á dyr hafi þeir hvor fyrir sig kallað fram að þeir myndu ekki skrifa undir nokkuð. Að því er þá varðar hafi stefnan því verið birt þar fyrir fangaverði.

III

Af framansögðu verður ráðið að sóknaraðili hefur kosið að reka mál sitt á hendur varnaraðilum fyrir Héraðsdómi Vesturlands. Enginn varnaraðila á lögheimili í umdæmi þess dómstóls og styðst þetta val sóknaraðila því ekki við meginreglu fyrri málsliðar 1. mgr. 32. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt því, sem sóknaraðili tók fram í héraðsdómsstefnu og áður greinir, taldi hann á hinn bóginn heimilt að reka málið fyrir nefndum dómstól á grundvelli síðari málsliðar sama lagaákvæðis, en þar er tekið fram að sækja megi mann í annarri þinghá en þar sem hann á lögheimili ef hann á þar fasta búsetu. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er ekki unnt að líta svo á að varnaraðilarnir Hreiðar, Magnús, Ólafur og Sigurður hafi átt fasta búsetu í skilningi síðari málsliðar 1. mgr. 32. gr. laga nr. 91/1991 í umdæmi Héraðsdóms Vesturlands þótt þeir hafi dvalið í fangelsi innan þess umdæmis á þeim degi, sem stefna var birt.

Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði byggði sóknaraðili jafnframt á því við munnlegan málflutning um frávísunarkröfu varnaraðilanna Hreiðars, Magnúsar, Ólafs og Sigurðar að heimild stæði í 4. mgr. 32. gr. laga nr. 91/1991 til að reka það fyrir Héraðsdómi Vesturlands, en þessir varnaraðilar hafi andmælt því að sóknaraðili fengi að styðjast við það lagaákvæði sökum þess að ekki hafi verið vísað til þess í stefnu. Um þau andmæli varnaraðilanna er þess að gæta að hvorki er áskilið í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 að tiltaka þurfi berum orðum í héraðsdómsstefnu á hvaða grundvelli stefnandi máls telji stefnda eiga varnarþing í þeirri þinghá, þar sem sækja á málið, né verður ætlast til að stefnandi svari fyrirfram í stefnu atriðum, sem stefndi kann að tefla fram til stuðnings kröfu um frávísun máls frá dómi. Eru því ekki efni til að líta svo á að framangreind röksemd sóknaraðila hafi verið of seint fram komin.

Samkvæmt 4. mgr. 32. gr. laga nr. 91/1991 er heimilt að sækja mann, sem búsettur er erlendis, í þeirri þinghá þar sem hann er staddur við birtingu stefnu ef mál varðar fjárskyldu hans við mann, sem búsettur er hér á landi, eða lögaðila sem hér á varnarþing. Í skilningi þessa lagaákvæðis voru varnaraðilarnir Hreiðar, Ingólfur, Magnús og Ólafur búsettir erlendis þegar málið var höfðað, en í því leitar sóknaraðili, sem samkvæmt héraðsdómsstefnu á varnarþing í Reykjavík, dóms um fjárskyldu allra varnaraðilanna gagnvart sér. Í ljósi áðurgreindra gagna eru engin efni til að efast um að varnaraðilarnir Hreiðar, Magnús og Ólafur hafi ásamt varnaraðilanum Sigurði allir verið staddir í fangelsinu að Kvíabryggju í þinghá Héraðsdóms Vesturlands við birtingu stefnu 10. febrúar 2016. Gagnvart þeim þremur fyrstnefndu var því fullnægt skilyrðum 4. mgr. 32. gr. laga nr. 91/1991 til að reka mál sóknaraðila á hendur þeim fyrir Héraðsdómi Vesturlands, en gagnvart varnaraðilunum Sigurði og Ingólfi stendur þar með heimild til þess sama í 1. mgr. 42. gr. sömu laga. Eins og áður var getið var sótt þing af hálfu varnaraðilanna Hreiðars, Magnúsar, Ólafs og Sigurðar við þingfestingu málsins í héraði og getur þegar af þeirri ástæðu engu skipt hvort stefna hafi verið birt fyrir þeim þremur fyrstnefndu sjálfum, sbr. 4. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991. Að þessu öllu virtu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðilunum Hreiðari, Magnúsi, Ólafi og Sigurði verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir, en gagnvart varnaraðilanum Ingólfi verður málskostnaður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðilar, Hreiðar Már Sigurðsson, Magnús Guðmundsson, Ólafur Ólafsson og Sigurður Einarsson, greiði óskipt sóknaraðila, Samtökum sparifjáreigenda, 350.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 1. júlí 2016.

I.

Mál þetta er höfðað af Samtökum sparifjáreigenda, Borgartúni 23, Reykjavík, með stefnu birtri 10. og 19. febrúar 2016. Stefndu eru Hreiðar Már Sigurðsson, með lögheimili í Lúxemborg, en sagður í stefnu vera með fastan dvalarstað að Kvíabryggju, Grundarfirði, Ingólfur Helgason, með lögheimili í Lúxemborg, Magnús Guðmundsson, með lögheimili í Lúxemborg, en sagður í stefnu vera með fastan dvalarstað að Kvíabryggju, Ólafur Ólafsson, með lögheimili í Sviss, en sagður í stefnu vera með fastan dvalarstað að Kvíabryggju, og Sigurður Einarsson, með lögheimili að Þorragötu 7, Reykjavík, en sagður í stefnu vera með fastan dvalarstað að Kvíabryggju. Málið var tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu stefndu Hreiðars Más, Magnúsar, Guðmundar og Sigurðar hinn 10. júní sl.

                Stefnandi krefst þess aðallega að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda 902.493.733 krónur, ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 9. október 2008 til þingfestingardags, en með dráttarvöxtum skv. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

                Til vara krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda skaðabætur að álitum, ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 9. október 2008 til þingfestingardags, en með dráttarvöxtum skv. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

                Til þrautavara krefst stefnandi þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefndu in solidum gagnvart stefnanda vegna fjártjóns stefnanda sem hlotist hafi af markaðsmisnotkun stefndu með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. á tímabilinu 1. nóvember 2007 til 9. október 2008.

                Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins.

                Af hálfu stefndu Hreiðars Más, Magnúsar, Guðmundar og Sigurðar var mætt við þingfestingu málsins og þess krafist með framlagðri bókun að málinu yrði vísað frá dómi. Í kjölfarið neyttu sömu stefndu heimildar í 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til að leggja einungis fram greinargerð um frávísunarkröfuna. Í greinargerðum þessara stefndu er ítrekuð krafa þeirra um að málinu verði vísað frá dómi. Jafnframt krefjast þeir málskostnaðar að mati dómsins.

                Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu stefndu verði hafnað.

II.

Stefndu Hreiðar Már, Magnús, Guðmundur og Sigurður byggja frávísunarkröfu sína í fyrsta lagi á því að málið sé höfðað á röngu varnarþingi. Enginn hinna stefndu eigi lögheimili í þinghá Héraðsdóms Vesturlands, sbr. 2. tl. 2. gr. dómstólalaga nr. 15/1998.  Benda þeir á að varðandi val varnarþings gagnvart þeim sé í stefnu vísað til síðari málsliðar 1. mgr. 32. gr. laga nr. 91/1991, en gagnvart stefnda Ingólfi sé vísað til 1. mgr. 42. gr. sömu laga. Fram komi í síðari málslið 1. mgr. 32. gr. að eigi maður fasta búsetu í annarri þinghá en þar sem lögheimili hans sé skráð megi einnig sækja hann í þeirri þinghá. Í athugasemdum við framangreint ákvæði í frumvarpi því er orðið hafi að lögum nr. 91/1991 komi fram að orðin föst búseta í ákvæðinu séu notuð með hliðsjón af ákv. 2. mgr. 1. gr. laga um lögheimili nr. 21/1990 og sé ætlast til þess að þau verði skýrð í samræmi við það. Í því ákvæði komi fram að maður teljist hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hafi bækistöð sína, dveljist að jafnaði í tómstundum sínum, hafi heimilismuni sína og svefnstaður hans sé þegar hann sé ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika. Þá segi í 3. mgr. sömu lagagreinar að dvöl í gistihúsi, fangelsi, vinnuhæli, sjúkrahúsi, athvarfi, heimavistarskóla, verbúð, vinnubúðum eða öðru húsnæði, sem jafna megi til þessa, sé ekki ígildi fastrar búsetu. Í stefnu sé sagt að stefndu hafi dvalarstað í fangelsinu á Kvíabryggju, sem sé í Eyrarsveit og í umdæmi Héraðsdóms Vesturlands. Slík dvöl teljist ekki „föst búseta“, eins og skýrt verði ráðið af framangreindum tilvitnum, en það sé ófrávíkjanlegt skilyrði þess að ákvæðinu verði beitt. Að lögum sé því engin heimild til að reka mál þetta fyrir Héraðsdómi Vesturlands, án sérstaks samþykkis stefndu, en slíkt samþykki sé ekki til staðar.

                Stefndu byggja í öðru lagi á því að stefna hafi ekki verið birt þeim með lögmætum hætti, en hún hafi verið birt fyrir fangaverði í fangelsinu að Kvíabryggju. Ljóst sé af framangreindri umfjöllun að stefndu eigi ekki „fasta búsetu“ í fangelsinu. Þá liggi fyrir að þeir eigi þar ekki lögheimili. Þegar birta eigi stefnu á stað þar sem stefndi dveljist, fyrir öðrum en honum sjálfum, gildi sú regla skv. 3. mgr. 85. gr. laga nr. 91/1991 að birta verði stefnu fyrir heimilismanni stefnda. Hugtakið heimilismaður hafi verið túlkað með þeim hætti að þar sé átt við þá sem haldi heimili með stefnda. Fangavörður á Kvíabryggju verði augljóslega ekki talinn halda heimili með stefndu. Því sé ljós að stefna í máli þessu hafi ekki verið birt með lögmætum hætti.

III.

Til stuðnings því að frávísunarkröfu stefndu verði hafnað vísar stefnandi til þess að í 1. mgr. 32. gr. laga nr. 91/1991 sé kveðið á um að eigi maður fasta búsetu á öðrum stað en hann eigi lögheimili sé heimilt að sækja hann í þeirri þinghá. Stefndu, aðrir en stefndi Ingólfur, hafi verið í afplánun á Kvíabryggju þegar stefnan var birt. Þeir hafi því verið þar með fasta búsetu í skilningi framangreinds ákvæðis. Að því er varði stefnda Ingólf sé um varnarþing vísað til 1. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991.

                Fyrir liggi að mætt hafi verið fyrir alla stefndu nema stefnda Ingólf við þingfestingu málsins. Fram komi í 4. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991 að sæki stefndi þing við þingfestingu máls breyti engu þótt stefna hafi ekki verið birt eða komið á framfæri við hann, galli hafi verið á birtingu eða birt hafi verið með of skömmu fyrirvara.

                Þá vísar stefnandi til þess að skv. 2. málslið 1. mgr. 32. gr. laga nr. 91/1991 megi sækja mann sem sé búsettur erlendis í þeirri þinghá þar sem hann sé staddur við birtingu stefnu ef mál varði fjárskyldu hans við mann sem búsettur sé hér á landi eða félag, stofnun eða samtök sem eigi varnarþing hér. Óumdeilt sé að krafa stefnanda á hendur stefndu sé fjárkrafa íslensks aðila og að stefndu, aðrir en Ingólfur, hafi allir verið búsettir erlendis þegar stefnan var birt.

IV.

Fram kemur í stefnu, og sýnist óumdeilt, að allir stefndu eiga lögheimili utan umdæmis Héraðsdóms Vesturlands. Stefndu Hreiðar Már, Ingólfur og Magnús eiga lögheimili í Lúxemborg, stefndi Ólafur á lögheimili í Sviss og stefndi Sigurður á lögheimili í Reykjavík.

                Til stuðnings því að sækja málið hér fyrir dómi vísar stefnandi í stefnu til síðari málsliðar 1. mgr. 32. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en þar kemur fram að eigi maður fasta búsetu í annarri þinghá en þar sem lögheimili hans er skráð megi sækja hann í þeirri þinghá. Tiltekur stefnandi að stefndu Hreiðar Már, Magnús, Ólafur og Sigurður afpláni allir refsidóma í fangelsinu á Kvíabryggju á Snæfellsnesi og teljist þeir því eiga þar fasta búsetu í skilningi ákvæðisins. Þá sé vísað til 1. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991 varðandi heimildina til að höfða málið á hendur stefnda Ingólfi hér fyrir dómi. Í athugasemdum í frumvarpinu við framangreint lagaákvæði segir meðal annars svo: „Orðin föst búseta eru notuð hér með hliðsjón af ákvæðum 2. mgr. 1. gr. laga um lögheimili, nr. 21/1990, og er ætlast til þess að þau verði skýrð í samræmi við það.“ Í tilvitnaðri 2. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1990 kemur fram að maður teljist hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðsæðra atvika. Þá er tiltekið í 3. mgr. sömu lagagreinar að meðal annars dvöl í fangelsi sé ekki ígildi fastrar búsetu. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að stefnanda hafi verið heimilt að höfða mál þetta hér fyrir dómi á hendur stefndu Hreiðari Má, Magnúsi, Ólafi og Sigurði á grundvelli framangreindrar heimilisvarnarþingsreglu.

                Við munnlegan málflutning um frávísunarkröfu stefndu kom fram hjá stefnanda að hann byggði heimild sína til að sækja málið á hendur stefndu Hreiðari Má, Magnúsi og Ólafi hér fyrir dómi einnig á varnarþingsreglu 4. mgr. 32. gr. laga nr. 91/1991, þar sem fram kemur að sækja megi mann sem búsettur er erlendis í þeirri þinghá þar sem hann er staddur við birtingu stefnu ef mál varðar fjárskyldu hans við mann sem er búsettur hér á landi eða félag, stofnun eða samtök sem eiga varnarþing hér. Stefndu mótmæltu því að stefnandi gæti byggt á þessari varnarþingsreglu þar sem ekki hefði verið vísað til hennar í stefnu. Þar sem ekki er um að ræða nýja málsástæðu, eins og stefndi heldur fram, heldur tilvísun til lagareglu verður ekki á þessi mótmæli fallist. Fram kemur í fyrirliggjandi stefnubirtingarvottorðum að stefna máls þessa var birt fyrir fangavörðum á Kvíabryggju vegna stefndu Hreiðars Más, Magnúsar og Ólafs. Ekki verður af vottorðunum ráðið hvers vegna stefnan var ekki birt fyrir þeim sjálfum, en fyrir liggur hins vegar að stefnan var birt fyrir stefnda Sigurði þar sem hann var staddur á Kvíabryggju. Þá verður heldur ekkert af vottorðunum ráðið hvort þeir Hreiðar Már, Magnús og Ólafur hafi verið staddir á Kvíabryggju þegar stefnubirtingin fór fram eða annars staðar í þinghá dómstólsins. Þar sem stefnandi hefur heldur ekki sýnt fram að það á annan hátt að sú hafi verið raunin verður ekki talið að stefnanda hafi verið heimilt að sækja mál þetta á hendur framangreindum stefndu hér fyrir dómi.

                Með hliðsjón af framangreindu, og þar sem stefnandi kveður málssóknina á hendur stefnda Ingólfi hér fyrir dómi, og eftir atvikum stefnda Sigurði, styðjast við heimildina í 1. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991, til að sækja málið á varnarþingi annarra stefndu í málinu, verður að telja að mál þetta sé höfðað á röngu varnarþingi. Verður málinu því vísað frá dómi.

                Stefnandi greiði stefndu, Hreiðari Má, Magnúsi, Ólafi og Sigurði, hverjum fyrir sig 300.000 krónur í málskostnað.

                Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

                Stefnandi greiði stefndu, Hreiðari Má Sigurðssyni, Magnúsi Guðmundssyni, Ólafi Ólafssyni og Sigurði Einarssyni, hverjum fyrir sig 300.000 krónur í málskostnað.