Print

Mál nr. 20/2019

Þrotabú Saga Capital hf. (Þorsteinn Einarsson lögmaður)
gegn
F fasteignafélagi ehf. (Guðmundur Ingvi Sigurðsson lögmaður)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Þóknun
  • Frávísun frá héraðsdómi
Reifun

Kærður var úrskurður Landsréttar þar sem ógilt var ákvörðun kröfuhafafundar, sem haldinn var við slitameðferð á SC hf. í apríl 2016, um greiðslu þóknunar til slitastjórnar félagsins. Í dómi Hæstaréttar kom fram að samkvæmt 128. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. væri unnt við gjaldþrotaskipti að andmæla á skiptafundi réttmæti þóknunar, sem skiptastjóri teldi sig eiga tilkall til vegna starfa sinna, og leita eftir atvikum dómsúrlausnar eftir 171. gr. sömu laga um ágreining um það efni. Á hinn bóginn leiddu ákvæði laga nr. 21/1991 og 161/2002 um fjármálafyrirtæki ekki til þess, þótt slitameðferð á félagi sem starfrækt hefur fjármálafyrirtæki væri undanfari gjaldþrotaskipta á því, að skiptastjóri eða skiptafundur í þrotabúinu yrði fremur en endranær bær um að taka ákvörðun um réttmæti þóknunar, sem fyrrum fyrirsvarsmaður félagsins, eftir atvikum slitastjórnarmaður, hefði látið greiða sér fyrir störf sín í þágu þess áður en til gjaldþrotaskiptanna hefði komið. Talið var að úr réttmæti slíkrar aðgerðar yrði fráleitt leyst í dómsmáli, sem rekið væri eftir ákvæðum 5. þáttar laga nr. 21/1991, heldur yrði þrotabú félagsins, vildi það ekki una við slíka ráðstöfun, að leita riftunar á henni eftir reglum XX. kafla laganna og endurheimtu á greiðslunni. Engin stoð væri fyrir því í fyrrgreindum lögum að reka mál í þeim búningi sem varnaraðili kaus að klæða ágreining um umrædda þóknun. Þegar af þeirri ástæðu var málinu vísað frá héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason, Greta Baldursdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. mars 2019, en kærumálsgögn bárust réttinum 29. sama mánaðar. Kæruleyfi var veitt 11. apríl 2019 á grundvelli 2. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kærður er úrskurður Landsréttar 5. mars 2019, þar sem ógilt var ákvörðun kröfuhafafundar, sem haldinn var við slitameðferð á Saga Capital hf. 15. apríl 2016, um greiðslu þóknunar til slitastjórnar félagsins að fjárhæð samtals 40.000.000 krónur auk virðisaukaskatts. Sóknaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að kröfu varnaraðila um ógildingu fyrrgreindrar ákvörðunar verði hafnað. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar á öllum dómstigum.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Hæstarétti var tilkynnt með bréfi 29. maí 2019 að Hildu ehf., sem var aðili að málinu í héraði og fyrir Landsrétti, hafi verið slitið og félagið afskráð 16. sama mánaðar, en kröfur félagsins á hendur sóknaraðila hafi áður verið framseldar til F fasteignafélags ehf. Í samræmi við þetta er F fasteignafélag ehf. orðið varnaraðili að málinu hér fyrir dómi.

Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var mál þetta munnlega flutt 4. júní 2019.

I

Saga Capital hf., sem upphaflega mun hafa borið heitið Saga Capital Fjárfestingarbanki hf., mun hafa verið stofnað á árinu 2006 og haft starfsleyfi frá Fjármálaeftirlitinu, sem það ákvað að afturkalla 28. september 2011. Í framhaldi af því krafðist Fjármálaeftirlitið 16. desember 2011 fyrir héraðsdómi að félagið yrði tekið til slitameðferðar á grundvelli 1. töluliðar 2. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með áorðnum breytingum. Félagið tók til varna gegn þeirri kröfu, en hana tók héraðsdómur til greina með úrskurði 16. maí 2012, sem var staðfestur í dómi Hæstaréttar 14. júní sama ár í máli nr. 394/2012. Héraðsdómur skipaði lögmennina Arnar Sigfússon og Ástráð Haraldsson ásamt Sigrúnu Guðmundsdóttur endurskoðanda í slitastjórn, sem tók þar með við réttindum og skyldum stjórnar félagsins og hluthafafundar, sbr. 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002.

Slitastjórnin mun hafa gefið út innköllun vegna slitanna 1. júní 2012 og boðað þar um leið til kröfuhafafundar, sem haldinn var 16. ágúst sama ár, sbr. 102. gr. laga nr. 161/2002. Á þeim fundi var lögð fram skrá um lýstar kröfur, sem voru 23 talsins og námu samtals 2.297.813.055 krónum, og var Hilda ehf. meðal kröfuhafa. Á fundinum, sem var sóttur af hálfu tólf kröfuhafa, reis ágreiningur um viðurkenningu nokkurs fjölda krafna. Þar greindi slitastjórn einnig frá því mati sínu að „afar ólíklegt“ væri að eignir félagsins myndu nægja til að standa við skuldbindingar þess, sbr. 5. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, en þetta væri þó háð vafa vegna óvissu um eignir félagsins og hver endanleg fjárhæð viðurkenndra krafna yrði. Þá var fjallað á fundinum um viðskipti, sem félagið hafi átt við Seðlabanka Íslands, Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf. og íslenska ríkið, og boðaði slitastjórnin að kanna þyrfti nánar hvort einhverjar ráðstafanir í þeim viðskiptum væru riftanlegar eða gætu leitt til skaðabótaskyldu viðsemjenda félagsins. Jafnframt kynnti slitastjórnin að hún hygðist taka sér greiðslu smám saman af fé félagsins upp í áfallna þóknun fyrir störf sín og yrði þar miðað við tiltekið tímagjald, en slitastjórnin áskildi sér þó rétt til að taka þóknun með tilliti til hagsmuna, sem í húfi væru við sölu eigna, eða ávinnings, sem félagið kynni að njóta af öðrum aðgerðum. Í þessu sambandi var fært í fundargerð að tveir kröfuhafar hafi óskað eftir að „fyrirætlanir um gerð reikninga á grundvelli hagsmunaþóknunar yrðu kynntar fyrirfram á skiptafundi.“ Í lok fundarins var greint frá því að næsti kröfuhafafundur yrði haldinn á tilteknum stað og tíma 18. janúar 2013 og „yrði minnt á fundinn með tölvubréfum til fulltrúa kröfuhafa“.

Næsti kröfuhafafundur var haldinn 7. febrúar 2013 og var þá fært í fundargerð að kröfuhöfum hafi verið tilkynnt með ábyrgðarbréfum að fundinum hafi verið frestað til þess dags. Fundurinn var sóttur af hálfu þrettán kröfuhafa og greindi slitastjórnin meðal annars frá stöðu eigna félagsins, svo og því að ekki væru enn forsendur til að meta hvort þær myndu nægja til að standa við skuldbindingar þess. Einnig greindi slitastjórnin frá því að hún hafi gert samning í september 2012 við endurskoðunarfyrirtæki um að það gerði „úttekt á tilteknum gerningum“ Saga Capital hf. á árunum 2008 til 2011 og legði mat á hvenær félagið hafi orðið ógjaldfært. Borist hafi drög að skýrslu um þetta og hafi þau verið afhent Eignasafni Seðlabanka Íslands ehf. í lok janúar 2013 svo að því félagi gæfist kostur á að koma fram athugasemdum. Í drögunum væri talið að Saga Capital hf. hafi orðið ógjaldfært í október 2008 og að tilteknar ráðstafanir félagsins í viðskiptum við Seðlabanka Íslands væru riftanlegar, en þær hafi orðið því til tjóns, sem gæti hafa numið allt að 19.000.000.000 krónum. Boðaði slitastjórnin að taka yrði ákvarðanir „um framhald málsmeðferðar vegna skýrslunnar“ þegar hún lægi fyrir í endanlegri mynd, en í því skyni yrði næsti kröfuhafafundur haldinn á tilteknum stað og tíma 23. maí 2013. Yrði fundurinn „boðaður með tölvubréfum til fulltrúa kröfuhafa“.

Kröfuhafafundur var haldinn síðastgreindan dag og var hann sóttur af hálfu átján kröfuhafa. Þar gerði slitastjórn grein fyrir störfum sínum frá síðasta fundi, svo og að fram hafi komið að Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf. myndi ekki afhenda skriflegar athugasemdir við þau drög að skýrslu, sem áður var getið, en af hálfu félagsins hafi á hinn bóginn verið bornar fram munnlega nokkrar athugasemdir á fundi með einum slitastjórnarmanna. Á kröfuhafafundinn mættu einnig starfsmenn endurskoðunarfyrirtækisins, sem hafði þá lokið við skýrslu um viðskipti Saga Capital hf. við Seðlabanka Íslands og fleiri, og gerðu þeir grein fyrir niðurstöðum sínum. Að því búnu kom fram að slitastjórnin teldi að það þyrfti „að fylgja niðurstöðu skýrslunnar eftir“ með kröfum á hendur Eignasafni Seðlabanka Íslands ehf. og eftir atvikum íslenska ríkinu og þá með málsókn ef nauðsyn krefði. Lægi ekki enn fyrir hvers Saga Capital hf. myndi krefjast, en „stefnt væri að þingfestingu dómsmáls í september.“ Að endingu var tekið fram í fundargerð að næsti kröfuhafafundur yrði haldinn á tilteknum stað og tíma 20. september 2013 og yrði hann boðaður með tölvubréfum til kröfuhafa.

 Á kröfuhafafundi 20. september 2013 var mætt af hálfu átján kröfuhafa og lýsti slitastjórnin þar framvindu meðferðar á lýstum kröfum á hendur Saga Capital hf., svo og stöðu eigna félagsins. Hún greindi síðan frá undirbúningi málsóknar gegn Seðlabanka Íslands, Eignasafni Seðlabanka Íslands ehf. eða eftir atvikum íslenska ríkinu, svo og að hún teldi fram komið að einnig yrði að höfða mál á hendur Hildu ehf. til riftunar á tiltekinni ráðstöfun. Slitastjórnin hafi upplýst að stefnt væri að því að þingfesta riftunarmál „á næstu vikum“ og hafi ekki komið fram athugasemdir frá fundarmönnum vegna þess. Í lok fundargerðar var síðan tekið fram að næsti kröfuhafafundur yrði haldinn á tilteknum stað og tíma 13. desember 2013 og var þess sem fyrr getið að boðað yrði til hans með tölvubréfum til kröfuhafa.

Af gögnum málsins verður ráðið að slitastjórn Saga Capital hf. hafi átt fundi og bréfaskipti við starfsmenn Seðlabanka Íslands, sem virðast hafa ráðið málefnum Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. og Hildu ehf., í framhaldi af kröfuhafafundinum 20. september 2013 og hafi þá komið fram af hendi þeirra síðarnefndu tillögur um leiðir til að komast hjá dómsmálum til riftunar á ráðstöfunum fyrstnefnda félagsins. Þær ráðagerðir munu hafa orðið að engu þegar Saga Capital hf. höfðaði mál gegn Hildu ehf. 10. október 2013 og síðan Eignasafni Seðlabanka Íslands ehf. 14. nóvember sama ár og krafðist riftunar á tilteknum ráðstöfunum, svo og greiðslu á 960.068.761 krónu í fyrrnefnda málinu og 14.294.255.079 krónum í því síðarnefnda.

Í málinu liggur ekki fyrir fundargerð frá kröfuhafafundi í Saga Capital hf. 13. desember 2013. Samkvæmt framlögðum svörum slitastjórnarmanna í félaginu við fyrirspurnum lögmanns sóknaraðila var fundur þessi haldinn á tilsettum stað og tíma og gerð drög að fundargerð, sem hafi síðan glatast vegna bilunar í tölvubúnaði. Enginn hafi mætt til fundarins af hálfu kröfuhafa og hafi verið ákveðið að boða ekki til frekari funda að sinni, enda hafi þá verið búið að höfða dómsmál til riftunar og engin sérstök fundarefni fyrir dyrum.

Dómur gekk í Hæstarétti 11. febrúar 2016 í máli því, sem Saga Capital hf. höfðaði samkvæmt áðursögðu gegn Hildu ehf., og var það nr. 382/2015. Með dóminum var rift greiðslu Saga Capital hf. 6. desember 2010 á 1.043.621.412 krónum til Hildu ehf., sem var jafnframt gert að greiða fyrrnefnda félaginu 960.068.761 krónu með dráttarvöxtum frá 10. október 2013 til greiðsludags og samtals 2.300.000 krónur í málskostnað á báðum dómstigum. Greiðsla samkvæmt þessum dómi á samtals 1.279.208.444 krónum virðist hafa verið innt af hendi skömmu eftir að hann gekk.

Með auglýsingu, sem birt var í Lögbirtingablaði 30. mars 2016, boðaði slitastjórn Saga Capital hf. til kröfuhafafundar, sem haldinn yrði 15. apríl sama ár, og var tiltekið að þar yrði „fjallað um framhald slitameðferðarinnar.“ Samkvæmt fundargerð mætti enginn á fundinn af hálfu kröfuhafa og voru því engir aðrir viðstaddir hann en slitastjórnarmenn. Sagði í fundargerðinni að greint hafi verið frá rekstri dómsmála til riftunar á ráðstöfunum, svo og að Hilda ehf. hafi greitt kröfu samkvæmt dóminum frá 11. febrúar 2016. Því næst hafi verið rætt „um hagsmunaþóknun vegna niðurstöðu Hildumálsins“, en slitastjórn hafi á fyrsta kröfuhafafundi áskilið sér rétt til að taka slíka þóknun vegna hagsmuna, sem hún ynni undir félagið, og hafi enginn gert þar athugasemdir af því tilefni. Á hinn bóginn hafi tveir kröfuhafar óskað eftir því á fyrsta fundinum að „slík hagsmunaþóknun yrði kynnt sérstaklega fyrirfram“ á kröfuhafafundi og hafi meðal annars af þeim sökum verið ákveðið að boða til þessa fundar. Fram kom að „full hagsmunaþóknun“ vegna málsins á hendur Hildu ehf. myndi nema 53.000.000 krónum auk virðisaukaskatts, en slitastjórn hafi ákveðið „að takmarka þóknun sína vegna málsins við kr. 40.000.000- auk vsk.“ Við svo búið var fundinum slitið.

Í málinu er óumdeilt að slitastjórnarmönnum hafi verið greidd þóknun í samræmi við framangreinda ákvörðun kröfuhafafundar og þá þannig að í hlut Ástráðs Haraldssonar hafi komið 20.000.000 krónur, Arnars Sigfússonar 10.000.000 krónur og Sigrúnar Guðmundsdóttur 10.000.000 krónur, en í öllum tilvikum hafi virðisaukaskattur verið lagður við þær fjárhæðir. Ekki liggja fyrir reikningar fyrir þessum greiðslum og heldur ekki upplýsingar um hvenær þær hafi verið inntar af hendi.

Af gögnum málsins verður ekki séð að frekari kröfuhafafundir hafi verið haldnir út af slitameðferð á Saga Capital hf. Með dómi Hæstaréttar 16. nóvember 2017 í máli nr. 687/2016 var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. í málinu, sem Saga Capital hf. höfðaði samkvæmt áðursögðu gegn því félagi 14. nóvember 2013. Slitastjórn Saga Capital hf. mun í framhaldi af þessu hafa lagt fyrir héraðsdóm 10. janúar 2018 kröfu um að bú félagsins yrði tekið til gjaldþrotaskipta á grundvelli 7. mgr. 103. gr. a. laga nr. 161/2002 og var sú krafa tekin til greina með úrskurði 19. sama mánaðar. Skipaði héraðsdómur Arnar Sigfússon og Sigrúnu Guðmundsdóttur til að gegna störfum skiptastjóra sóknaraðila.

Skömmu eftir þetta leitaði Hilda ehf. upplýsinga frá öðrum skiptastjóranum um kostnað af störfum slitastjórnar Saga Capital hf. og virðist Hilda ehf. hafa fengið um miðbik febrúar 2018 vitneskju um að áðurgreindar þóknanir hafi verið greiddar. Fundargerð kröfuhafafundarins, sem haldinn var 15. apríl 2016, fékk félagið síðan senda frá skiptastjóranum 2. apríl 2018. Með tölvubréfi til hans 4. sama mánaðar lýsti Hilda ehf. þeirri skoðun að ákvörðunin á þeim fundi um greiðslu þóknana hafi verið „með öllu ólögmæt“ og krafðist þess að „slitastjórn endurgreiði umrædda fjárhæð til búsins ásamt dráttarvöxtum“, en að öðrum kosti að ágreiningi „um gildi þessa fundar“ yrði beint til héraðsdóms á grundvelli 1. mgr. 171. gr. laga nr. 21/1991.

Skiptafundur var haldinn í sóknaraðila 13. júní 2018 og lagði Hilda ehf. þar fram skrifleg mótmæli við lögmæti kröfuhafafundarins 15. apríl 2016 ásamt því að ítreka kröfu um að ágreiningi um þetta yrði vísað til héraðsdóms. Samkvæmt fundargerð frá skiptafundinum virðast skiptastjórar ekki hafa tekið þar afstöðu til þessa erindis Hildu ehf., en í bréfi 19. júní 2018 var því svarað á þann veg að skiptastjórar teldu þennan ágreining ekki eiga undir ákvæði 3. mgr. 128. gr. og 171. gr. laga nr. 21/1991 og væri þeim því ekki skylt að vísa honum til héraðsdóms. Hilda ehf. krafðist þess í bréfi til héraðsdóms 4. júlí 2018 að skiptastjórunum yrði vikið úr starfi. Fór að endingu svo að skiptastjórar leituðu með bréfi 20. september 2018 úrlausnar héraðsdóms um ágreininginn og var mál þetta þingfest af því tilefni 18. október sama ár. Í greinargerð í héraði krafðist Hilda ehf. sem sóknaraðili málsins „að ákvörðun kröfuhafafundar varnaraðila, dags. 15. apríl 2016, um greiðslu á hagsmunatengdri þóknun til slitastjórnar varnaraðila að fjárhæð kr. 40.000.000 auk virðisaukaskatts, verði ógilt með dómi“, svo og málskostnaðar. Krafa þessi um ógildingu ákvörðunarinnar var tekin til greina í úrskurði héraðsdóms 11. janúar 2019 og var sú niðurstaða staðfest með hinum kærða úrskurði.

II

Þótt héraðsdómur hafi með áðurnefndum úrskurði 16. maí 2012, sem Hæstiréttur staðfesti með dómi 14. júní sama ár, kveðið á um að Saga Capital hf. væri tekið til slitameðferðar eftir ákvæðum XII. kafla laga nr. 161/2002 varð engin breyting á stöðu þess félags sem persónu að lögum, heldur leiddi af úrskurðinum að sett var yfir félagið slitastjórn, sem tók við réttindum og skyldum stjórnar þess og hluthafafundar til að gegna því hlutverki að koma fram skuldaskilum í félaginu og ljúka síðan slitameðferðinni eftir einhverri af þeim leiðum, sem mælt er fyrir um í 103. gr. a. laganna. Varð ekki með þessu til nokkurt „slitabú“, sem svo er nefnt í úrskurði héraðsdóms, heldur hófst lögbundin meðferð til að slíta hlutafélagi, sem hafði áður starfrækt fjármálafyrirtæki og misst leyfi til þeirrar starfsemi. Eftir ákvæðum XII. kafla laga nr. 161/2002 gilda tilteknar reglur laga nr. 21/1991 við slíka slitameðferð á fjármálafyrirtæki, þar á meðal um meðferð krafna á hendur því, sbr. 102. gr. fyrrnefndu laganna, og ráðstöfun hagsmuna þess, sbr. 103. gr. þeirra, en afla má undir slitameðferðinni úrlausnar dómstóla um ágreining um ýmis slík atriði eftir sömu reglum og gilda við gjaldþrotaskipti samkvæmt 5. þætti síðarnefndu laganna.

Samkvæmt 7. mgr. 103. gr. a. laga nr. 161/2002 getur komið til þess að slitameðferð á félagi, sem starfrækt hefur fjármálafyrirtæki, ljúki með því að tekin sé til greina krafa slitastjórnar í félaginu um að bú þess verði tekið til gjaldþrotaskipta. Þannig fór eftir áðursögðu fyrir Saga Capital hf. Varð til við uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskiptin 19. janúar 2018 ný persóna að lögum, sem er sóknaraðili, sbr. 72. gr. laga nr. 21/1991, en Saga Capital hf. leið þar með undir lok. Í slíku tilviki gildir sú sérregla samkvæmt 8. mgr. 103. gr. a. laga nr. 161/2002 að óraskað skuli standa það, sem gert hefur verið við slitameðferðina varðandi kröfur á hendur félaginu, þar á meðal innköllun til kröfuhafa og meðferð lýstra krafna. Jafnframt er þar mælt svo fyrir að sá dagur, sem dómsúrlausn gekk um að félagið væri tekið til slitameðferðar, jafngildi að því er varðar réttaráhrif eftir lögum nr. 21/1991 þeim degi, sem úrskurður gengur um gjaldþrotaskipti. Undangengin slitameðferð á félagi samkvæmt XII. kafla laga nr. 161/2002 veldur á hinn bóginn að öðru leyti en þessu engum afbrigðum við gjaldþrotaskipti á búi þess.

Samkvæmt 128. gr. laga nr. 21/1991 er unnt við gjaldþrotaskipti að andmæla á skiptafundi réttmæti þóknunar, sem skiptastjóri telur sig eiga tilkall til vegna starfa sinna, og leita eftir atvikum dómsúrlausnar eftir 171. gr. sömu laga um ágreining um það efni. Þau lagaákvæði, sem áður var getið, leiða á hinn bóginn ekki til þess, þótt slitameðferð á félagi sem starfrækt hefur fjármálafyrirtæki sé undanfari gjaldþrotaskipta á því, að skiptastjóri eða skiptafundur í þrotabúinu verði fremur en endranær bær um að taka ákvörðun um réttmæti þóknunar, sem fyrrum fyrirsvarsmaður félagsins, eftir atvikum slitastjórnarmaður, hefur látið greiða sér fyrir störf sín í þágu þess áður en til gjaldþrotaskiptanna kom. Úr réttmæti slíkrar aðgerðar verður fráleitt leyst í dómsmáli, sem rekið er eftir ákvæðum 5. þáttar laga nr. 21/1991, heldur verður þrotabú félagsins, vilji það ekki una við ráðstöfun sem þessa, að leita riftunar á henni eftir reglum XX. kafla laganna og endurheimtu á greiðslunni. Samkvæmt þessu er engin stoð fyrir því í lögum nr. 161/2002 eða lögum nr. 21/1991 að reka dómsmál í þeim búningi, sem Hilda ehf. kaus hér að klæða ágreining um þóknunina, sem slitastjórnarmenn greiddu sér á grundvelli ákvörðunar kröfuhafafundarins í Saga Capital hf. 15. apríl 2016. Þegar af þeirri ástæðu verður máli þessu vísað frá héraðsdómi.

Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila málskostnað á öllum dómstigum, sem ákveðinn er í einu lagi svo sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Varnaraðili, F fasteignafélag ehf., greiði sóknaraðila, þrotabúi Saga Capital hf., samtals 1.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti og Hæstarétti.

 

                                                                             

Úrskurður Landsréttar 5. mars 2019.

Landsréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Oddný Mjöll Arnardóttir og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson kveða upp úrskurð í máli þessu.

        Málsmeðferð og dómkröfur aðila

1.  Sóknaraðili skaut málinu til Landsréttar með kæru 22. janúar 2019 en kærumálsgögn bárust réttinum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 11. janúar 2019 í málinu nr. X-6/2018 þar sem ákvörðun kröfuhafafundar Saga Capital hf. 15. apríl 2016 um greiðslu á hagsmunatengdri þóknun til slitastjórnar félagsins að fjárhæð 40.000.000 króna auk virðisaukaskatts var ógilt. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

2. Sóknaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi en til vara að öllum kröfum varnaraðila verði hafnað. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

3. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Málsatvik og sönnunarfærsla

4. Eins og er rakið í úrskurði héraðsdóms kynnti slitastjórn Saga Capital hf. á fyrsta fundi kröfuhafa við slit fyrirtækisins, sem haldinn var 16. ágúst 2012, að hún myndi taka sér greiðslu af fé búsins upp í áfallna þóknun meðan á slitum stæði og jafnframt að slitastjórnin áskildi sér rétt til að taka sér þóknun með tilliti til þeirra hagsmuna sem um væri fjallað vegna sölu eigna, útlagningar til veðhafa eða hagsmuna sem hún ynni undir búið. Af því tilefni óskuðu tveir kröfuhafar eftir því að fyrirætlanir um gerð reikninga á grundvelli hagsmunaþóknunar yrðu kynntar fyrir fram á kröfuhafafundi.

5. Á tímabilinu 7. febrúar til 13. desember 2013 hélt slitastjórn Saga Capital hf. fjóra kröfuhafafundi vegna slitameðferðarinnar. Í tilviki fyrsta fundarins fór boðun fram með ábyrgðarbréfi til kröfuhafa en í öðrum tilvikum með tölvubréfi. Að því marki sem gögn málsins bera með sér voru fundirnir vel sóttir af kröfuhöfum. Á kröfuhafafundi 15. apríl 2016 tók slitastjórn Saga Capital hf. ákvörðun um að greiða sér 40.000.000 króna þóknun af fé búsins vegna niðurstöðu riftunarmáls þess gegn varnaraðila. Til fundarins var boðað með auglýsingu í Lögbirtingablaði 30. mars sama ár til að fjalla um framhald slitameðferðar. Enginn kröfuhafi sótti fundinn.

6. Hinn 19. janúar 2018 var bú Saga Capital hf. tekið til gjaldþrotaskipta. Skiptafundur til að fjalla um skrá um lýstar kröfu var haldinn 13. júní sama ár. Á fundinum mótmælti varnaraðili lögmæti kröfuhafafundar Saga Capital hf. 15. apríl 2016 og þeirra ákvarðana sem þar hefðu verið teknar.

Niðurstaða

7. Hinn 27. maí 2014 tilkynnti varnaraðili slitastjórn Saga Capital hf. að allar kröfur sínar á hendur félaginu hefðu verið framseldar Eignarsafni Seðlabanka Íslands ehf. Með munnlegu samkomulagi í lok árs 2017, sem fært var í skriflegt form 7. maí 2018, seldi Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf. kröfur sínar á hendur Saga Capital hf. aftur til varnaraðila. Við framsalið öðlaðist varnaraðili rétt til að hafa uppi mótmæli vegna ákvarðana sem teknar voru undir slitum Saga Capital hf. á því tímabili sem kröfurnar voru í eigu Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. í sama mæli og það síðarnefnda naut. Að þessu athuguðu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er staðfest niðurstaða hans um að hafna kröfum sóknaraðila um frávísun málsins frá héraðsdómi og um sýknu á grundvelli aðildarskorts.

8. Af hálfu varnaraðila er á því byggt að allt fram að fundinum 15. apríl 2016 hafi kröfuhafafundir sem haldnir hafi verið vegna slita Saga Capital hf. ávallt verið boðaðir með bréfi til kröfuhafa og að tekið hafi verið fram í öllum fundargerðum fyrri funda að næsti fundur yrði boðaður með tölvubréfum. Sóknaraðili hefur ekki mótmælt framangreindu en byggir á því að boðun til kröfuhafafundar með auglýsingu í Lögbirtingablaði verði ávallt að telja lögmæta samkvæmt 3. mgr. 79. gr. laga nr. 21/1991 og að slitastjórn félagsins hafi ekki skuldbundið sig til að boða ávallt fundi með tölvubréfi.

9. Samkvæmt 3. mgr. 79. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 4. mgr. 101 gr. og 3. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, skal í boðun kröfuhafafundar koma fram hvar og hvenær hann verði haldinn og hvert fundarefnið verði í meginatriðum. Sé ekki kveðið á um annað í lögunum geti slitastjórn kosið hvort hún boði til fundar með auglýsingu sem hún fái birta með minnst viku fyrirvara í Lögbirtingablaði eða með tilkynningu til hvers og eins sem á rétt til fundarsóknar. Samkvæmt 2. mgr. 79. gr. laga nr. 21/1991 skal leitast við að fundir verði haldnir á slíkum stað og tíma að ætla megi að sem flestir fundarmenn eigi hægt með að sækja þá. 

10. Með því að slitastjórn Saga Capital hf. ákvað og upplýsti undir lok hvers kröfuhafafundar að boðað yrði til næsta kröfuhafafundar með tölvubréfi varð hvað sem framangreindu líður ekki með réttu lagi boðað til fundarins 15. apríl 2016 eingöngu með auglýsingu í Lögbirtingablaði.

11. Þar sem fundurinn 15. apríl 2016 var ekki löglega boðaður kemur 2. mgr. 128. gr. laga nr. 21/1991 ekki í veg fyrir að varnaraðili, sem leiðir rétt sinn frá Eignasafni Seðlabanka Íslands ehf., hafi uppi mótmæli og kröfur vegna þeirra ákvarðana sem þar voru teknar, en hann mótmælti lögmæti fundarins og þeirri ákvörðun slitastjórnar sem þar var tekin um að greiða sér 40.000.000 króna í hagsmunatengda þóknun á næsta fundi sem boðað var til.

12. Samkvæmt framangreindu var fyrrnefnd ákvörðun slitastjórnar tekin á fundi sem haldinn var án fullnægjandi boðunar kröfuhafa. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur á þann hátt sem í úrskurðarorði greinir.

13. Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í úrskurðarorði greinir.

Úrskurðarorð:

Niðurstaða hins kærða úrskurðar um að hafnað sé frávísun málsins er staðfest.

Ákvörðun kröfuhafafundar Saga Capital hf. 15. apríl 2016 um greiðslu á 40.000.000 króna hagsmunatengdri þóknun auk virðisaukaskatts til slitastjórnar félagsins er ógilt. 

Sóknaraðili, þrotabú Saga Capital hf., greiði varnaraðila, Hildu ehf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 11. janúar 2019.

Mál þetta barst dómnum 20. september og var tekið til úrskurðar 16. nóvember sl.  Sóknaraðili er Hilda ehf., Lágmúla 6, Reykjavík.  Varnaraðili er þrotabú Sögu Capitals hf., Glerárgötu 36, Akureyri.

Sóknaraðili krefst þess að ákvörðun kröfuhafafundar varnaraðila 15. apríl 2016, um greiðslu á hagsmunatengdri þóknun til slitastjórnar varnaraðila að fjárhæð 40.000.000 króna auk virðisaukaskatts verði ógilt.  Þá er krafist málskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi, en til vara að öðrum kröfum sóknaraðila verði hafnað.  Þá er krafist málskostnaðar.

I

Bú Sögu Capitals ehf. var tekið til slitameðferðar 16. maí 2012 og voru lögmennirnir Ástráður Haraldsson og Arnar Sigfússon og Sigrún Guðmundsdóttir löggiltur endurskoðandi skipuð í slitastjórn.  Með úrskurði 19. janúar 2018 var búið tekið til gjaldþrotaskipta og Arnar Sigfússon lögmaður og Sigrún Guðmundsdóttir löggiltur endurskoðandi skipuð skiptastjórar.  Verður hér á eftir talað um varnaraðila hvort sem fjallað er um slitabúið eða þrotabúið.

Sóknaraðili kveðst vera langstærsti kröfuhafinn í búi varnaraðila sem eigandi um 99% samþykktra krafna, en varnaraðili kveður hann engar slíkar kröfur eiga.

II

Slitastjórn kynnti á fyrsta kröfuhafafundi að hún myndi taka sér greiðslu smámsaman af fé búsins upp í áfallna þóknun að gættum skilyrðum 2. ml. 2. mgr. 77. gr. laga nr. 21/1991.  Einnig upplýsti hún að hún áskildi sér rétt til að taka þóknun með tilliti til þeirra hagsmuna sem um væri fjallað vegna sölu eigna, útlagningar til veðhafa eða vegna hagsmuna sem slitastjórn ynni undir búið.  Nokkrir kröfuhafar óskuðu þá eftir því að fyrirætlanir um gerð reikninga á grundvelli hagsmunaþóknunar yrðu kynntar fyrirfram á skiptafundi.  Ákveðið var einnig að næsti fundur yrði haldinn á tilteknum stað á tilteknum tíma og yrði minnt á fundinn með tölvubréfum.  Þyrfti að boða fund fyrr, yrði slíkur fundur einnig boðaður með tölvubréfum.

Varnaraðili höfðaði tvö riftunarmál á hendur sóknaraðila.  Með dómi Hæstaréttar í máli 382/2015 var sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðila 960.068.761 krónu, auk vaxta og málskostnaðar.  Kveðst sóknaraðili hafa greitt kröfuna og lýst nýrri kröfu í slitameðferð varnaraðila.  Er þá kröfu að finna á kröfuskrá sem lögð var fram á skiptafundi 13. júní 2018.  Sóknaraðili var sýknaður af kröfu varnaraðila í hinu riftunarmálinu.  Skiptafundur var haldinn 15. apríl 2016.  Segir í fundargerð að rætt hafi verið um hagsmunaþóknun vegna niðurstöðu „Hildumálsins“ og að slitastjórn hefði áskilið sér rétt til að taka sér þóknun með tilliti til þeirra hagsmuna sem hún ynni undir búið.  Segir að þennan áskilnað hefði slitastjórn kynnt á fyrsta kröfuhafafundi í slitameðferðinni og ekki komið fram athugasemdir en tveir fulltrúar kröfuhafa hefðu óskað eftir að slík hagsmunaþóknun yrði kynnt sérstaklega fyrirfram á formlegum slitafundi.  Meðal annars þess vegna hefði verið afráðið að boða til þessa fundar.  Ákvað slitastjórn að takmarka þóknun sína vegna málsins við 40.000.000 króna auk virðisaukaskatts, en full hagsmuna­þóknun samkvæmt útreikningi hennar væri þó 53.000.000 króna auk virðisaukaskatts.

Fyrir liggur að til þessa fundar var boðað með auglýsingu í Lögbirtingablaði sem birtist 30. mars 2016 og segir í auglýsingunni að á fundinum yrði fjallað um framhald slitameðferðarinnar.  Næst var haldinn skiptafundur 13. júní 2018.  Lagði sóknaraðili þá fram bókun þar sem lögmæti fundarins 15. apríl 2016 var mótmælt ásamt ákvörðunum sem þar hefðu verið teknar, þar á meðal um þóknun.  Var þess krafist að skiptastjóri myndi senda þetta ágreiningsefni til héraðsdóms.  Þann 19. júní var sóknaraðila tilkynnt að því væri hafnað að senda ágreininginn til héraðsdóms til úrlausnar þar sem þeir teldu sér það ekki skylt.  Svo fór að skiptastjórar breyttu þessari afstöðu og var tilkynning um málið móttekin í héraðsdómi 20. september eins og áður segir.

Dómari ákvað að leysa í einu lagi úr kröfu um frávísun og efni máls með heimild í síðari málslið 2. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 3. mgr. 177. gr. laga nr. 21/1991.

III

Varnaraðili kveðst byggja frávísunarkröfu fyrst og fremst á því að sóknaraðili eigi ekki kröfu í bú varnaraðila og hafi því enga hagsmuni í málinu.  Samkvæmt meginreglu laga um gjaldþrotaskipti og fleira nr. 21/1991, geti aðeins kröfuhafar eða þeir sem hagsmuna hafi að gæta látið málefni búsins til sín taka.  Sóknaraðili hafi enga hagsmuni af niðurstöðu málsins.  Aðildarskortur leiði almennt til sýknu, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.  Hér sé á hinn bóginn um það að ræða að málinu sé skotið til héraðsdóms samkvæmt ákvæðum sérlaga nr. 21/1991.  Hljóti þá að verða að líta til ákvæða þeirra um hvaða ágreiningsmálum verði skotið til héraðsdóms og þá með hvaða hætti.  Þar sem sóknaraðili eigi ekki kröfu í bú varnaraðila og hafi enga hagsmuni af niðurstöðu málsins eigi úrlausn þessa ágreiningsefnis, eins og það sé lagt fyrir með aðild sóknaraðila, ekki undir héraðsdóm samkvæmt ákvæðum laga nr. 21/1991 og beri því að vísa því frá dómi.  Sé sóknaraðili óviðkomandi aðili sem leggi lögspurningu fyrir dóminn sem muni ekki hafa nein áhrif á réttarstöðu hans hvorki á einn veg né annan.  Kveðst varnaraðili vísa um þessi atriði til 1. mgr. 24. gr. og 1. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.  Þá kveðst varnaraðili vísa til þess að þrotabú Sögu Capitals ehf. sé annar lögaðili en Saga Capital hf. og hafi ekki orðið til fyrr en við gjaldþrotaúrskurð 19. janúar 2018.  Í 8. mgr. 103. gr. a, laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki segi að það sem gert hafi verið við slitameðferð varðandi kröfur á hendur fyrirtækinu skuli standa óhaggað. Sé því vandséð að dómstóll hafi vald til að úrskurða um ákvörðun slitastjórnar með þeim hætti sem krafist sé í máli þessu með aðild þrotabúsins.  Þá kveðst varnaraðili vísa til 2. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 þar sem slitastjórn sé áskilin heimild til að virða ályktanir kröfuhafafunda að vettugi í ákveðnum tilvikum.  Þessi heimild gildi einnig að breyttu breytanda við gjaldþrotaskiptin samkvæmt áðurnefndri 8. mgr. 103 gr. a laga nr. 161/2002.

Sóknaraðili vísar til þess um frávísunarkröfuna að hann eigi kröfur í bú varnar­aðila.  Þá mótmælir hann því að varnaraðili eigi ekki aðild að­ málinu.

IV

Í efnisþætti málsins byggir sóknaraðili á því að óheimilt hafi verið að boða til fundar með auglýsingu í Lögbirtingablaði, þar sem allir fyrri fundir hafi verið boðaðir bréflega og tekið fram í öllum fyrri fundargerðum hvernig boðað yrði til næsta fundar. Hafi kröfuhafar haft réttmætar væntingar um að boðað yrði til funda með tölvupósti.

Þá telur sóknaraðili ákvarðanir fundarins ólögmætar, þar sem ekki hafi verið tekið fram í fundarboðinu að ákveðin yrði hagsmunatengd þóknun, heldur aðeins að þar yrði fjallað um framhald slitameðferðar.  Kveðst sóknaraðili hafa haft uppi mótmæli eins fljótt og sér hafi orðið kunnugt um fundinn.

Enn kveðst sóknaraðili byggja á því að fyrrnefnd ákvörðun hafi verið ólögmæt, ósanngjörn og hvorki í samræmi við áskilnað slitastjórnar frá 16. ágúst 2012 né ákvæði 2. mgr. 77. gr. laga nr. 21/1991. Kröfuhafar hafi ekki orðið að neinu leyti bættari vegna niðurstöðu riftunarmálsins.  Sóknaraðili hafi þegar verið búinn að lofa og lýst því yfir að allir aðrir kröfuhafar skyldu fá greitt að fullu í því skyni að flýta fyrir skiptalokum. Riftunarmál gegn eina kröfuhafanum hafi því ekki haft neina þýðingu fyrir aðra kröfuhafa.  Í ljósi þessa hafi sóknaraðili ekki getað búist við því að slitastjórn myndi reikna sér þessa þóknun.

V

Varnaraðili vísar til þess að áskilnaður um hagsmunatengda þóknun hafi verið kynntur í öndverðu á fyrsta kröfuhafafundi.  Hafi enginn mótmælt, en tveir kröfuhafar óskað þess að gerð reikninga á þeim grundvelli yrði kynnt fyrirfram á skiptafundi. Ákvörðun hafi síðan verið kynnt á fundi sem hafi verið löglega boðaður. Sé því sérstaklega mótmælt að boðun hans hafi verið ólögmæt. Slitastjórn hafi ekki skuldbundið sig til að boða fundi ávallt með tölvupósti og fundarboð í Lög­birtinga­blaði hljóti ætíð að vera gilt. Þá kveðst varnaraðili mótmæla þeirri lagatúlkun sóknar­aðila að hann hafi ekki glatað rétti sínum til mótmæla.

Þá mótmælir varnaraðili því að engir hagsmunir hafi unnist til slitabúsins og að riftun hafi verið þýðingarlaus.

VI

Samkvæmt kröfuskrá fer sóknaraðili með kröfu í bú varnaraðila. Hefur hann samkvæmt því lögvarða hagsmuni af því að fá efnislega niðurstöðu. Þá verður ekki litið svo á að þrotabúið eigi ekki aðild að máli um lögmæti ákvarðana á kröfuhafa­fundum slitabús.  Verður því ekki fallist á frávísunarkröfu varnaraðila og ekki heldur efnislegar kröfur að því marki sem þær eru byggðar á aðildarskorti.  Þá verður ekki heldur fallist á það eins og málið liggur fyrir að sóknaraðili hafi glatað rétti til að bera ákvörðunina undir dóm.

VII

Samkvæmt 2. mgr. 79. gr. laga nr. 21/1991 skal í boðun til skiptafundar koma fram m.a. hvert fundarefnið verði í meginatriðum. Er þar einnig kveðið á um að skiptastjóri geti kosið hvort hann boði til fundar með auglýsingu sem hann fær birta í Lögbirtingablaði með viku fyrirvara eða með tilkynningu til hvers og eins sem á rétt til fundarsóknar. Mun síðari hátturinn hafa verið hafður á af hálfu slitastjórnar, en fallast verður á það með varnaraðila að hún hafi ekki verið búin að skuldbinda sig til þess.  Hins vegar skorti á það að uppfyllt væri framangreint skilyrði laga um að geta fundarefnis í meginatriðum, sérstaklega í ljósi þess að tveir kröfuhafar höfðu óskað sérstaklega eftir kynningu á því á skiptafundi, ef tekin yrði ákvörðun um að greiða þóknun af því tagi sem ákveðin var á fundinum.  Verður ekki fallist á að sú ákvörðun hafi fallið undir fundarefnið sem tiltekið var í boðun.  Vegna þessa þykir óhjákvæmi­legt að fallast á kröfu sóknaraðila um ógildingu hennar.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður milli aðila.

Gætt var ákvæðis 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

Erlingur Sigtryggsson dómstjóri kveður upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

Kröfu varnaraðila, þrb. Sögu Capitals ehf., um frávísun máls þessa er hafnað.

Ákvörðun kröfuhafafundar varnaraðila 15. apríl 2016, um greiðslu á hagsmuna­tengdri þóknun til slitastjórnar varnaraðila að fjárhæð 40.000.000 króna auk virðis­aukaskatts er ógilt.

Málskostnaður fellur niður.