Print

Mál nr. 848/2017

Þór Ingvarsson (Björgvin Þorsteinsson lögmaður)
gegn
Ísarni ehf. (Ólafur Eiríksson lögmaður)
Lykilorð
  • Ráðningarsamningur
  • Laun
  • Ársreikningur
  • Bókhald
  • Einkahlutafélag
  • Tómlæti
  • Sönnun
  • Vanreifun
Reifun

Þ höfðaði mál á hendur Í ehf. og krafðist greiðslu fjárhæðar sem hann kvað annars vegar til komna vegna vangoldinna launa og hins vegar vegna fjármuna sem hann hefði lánað félaginu og lagt út fyrir í störfum sínum hjá því á nánar tilgreindu tímabili. Hæstiréttur staðfesti þá niðurstöðu héraðsdóms að Þ hefði sakir tómlætis glatað ætluðum rétti sínum til vangoldinna launa úr hendi Í ehf. Hvað varðaði kröfu Þ um endurgreiðslu þeirra fjármuna sem hann kvaðst hafa lánað Í ehf. og lagt út fyrir í störfum sínum hjá félaginu, vísaði Hæstiréttur meðal annars til þess að hún byggði fyrst og fremst á færslum í hreyfingarlista í bókhaldi Í ehf. Hins vegar hefði Þ ekki lagt fram nein gögn að baki þeim bókhaldsfærslum, svo sem samninga, samþykktir stjórnar eða aðrar sambærilegar heimildir. Þá hefði Þ engin gögn lagt fram um að þeir ætluðu fjármunir sem hann væri að krefjast endurgreiðslu á, hefðu komið úr hans hendi. Að öllu virtu taldi Hæstiréttur því ósannað að stofnast hefði til lögvarinnar kröfu Þ á hendur Í ehf. að þessu leyti. Staðfesti Hæstiréttur því niðurstöðu héraðsdóms um sýknu Í ehf. af kröfum Þ.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Árni Kolbeinsson fyrrverandi hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. desember 2017. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 3.818.984 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 9. mars 2016 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Líkt og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi var stefndi stofnaður á árinu 1969 og hefur að aðalstarfsemi smásölu á varahlutum og aukabúnaði í bíla. Mun áfrýjandi hafa gengt starfi framkvæmdastjóra hjá stefnda um tíma, setið í stjórn hans og farið þar með prókúru. Þá er áfrýjandi einn af hluthöfum í félaginu Þingvallaleið ehf. sem fer með 71,44% eignarhlut í stefnda. Mál þetta hefur áfrýjandi höfðað til heimtu skuldar sem hann kveður nema dómkröfu í málinu, og sé til komin vegna vangoldinna launa á árinu 2012 og fjármuna sem hann hafi ýmist lánað stefnda eða lagt út fyrir í störfum sínum hjá honum á árunum 2013 og 2015.

II

Verulega skorti á það í stefnu máls þessa í héraði að áfrýjandi legði fullnægjandi grundvöll að málinu. Um málavexti var vísað til þess að dómkröfur væru tilkomnar vegna „lána stefnanda til stefnda“ og „vangoldinna launa frá árinu 2012.“ Um tilurð og efni ætlaðra krafna var eingöngu vísað til færslna í lista úr bókhaldi stefnda sem bar heitið „Hreyfingar lánardrottna.“ Um lagagrundvöll var síðan vísað til „meginreglna samninga- og kröfuréttar um efndir og gjalddaga fjárskuldbindinga.“ Af hálfu stefnda var krafist frávísunar málsins á grundvelli vanreifunar og þá sérstaklega vísað til þess að málatilbúnaður áfrýjanda væri ekki í samræmi við áskilnað e., g. og h. liða 1. mgr. 80. gr., sbr. 95. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Með úrskurði héraðsdóms 14. október 2016 var kröfu stefnda um frávísun hafnað. Með gagnaframlagningu, meðal annars á grundvelli áskorana áfrýjanda og skýrslutökum, hefur málatilbúnaður áfrýjanda skýrst nokkuð undir rekstri málsins og með hliðsjón af því að stefndi hefur ekki uppi kröfu um frávísun málsins fyrir Hæstarétti eru ekki alveg næg efni til þess að vísa því frá héraðsdómi.

III

Af málatilbúnaði áfrýjanda verður ekki skýrlega ráðið hvort rekja megi launakröfu hans til starfa hans sem framkvæmdastjóra hjá stefnda eða til annarra starfa á hans vegum, en í málinu liggja hvorki fyrir ráðningarsamningur við áfrýjanda, bókanir úr fundargerðum stjórnar né önnur gögn um störf hans. Af þeim launaseðlum sem lagðir hafa verið fram í málinu verður þó ráðið að mánaðarlaun áfrýjanda hjá stefnda á árinu 2012 hafi numið 200.000 krónum og að laun hans, að staðgreiðslu og iðgjöldum frádregnum, hafi í öllum tilvikum verið færð inn á viðskiptamannareikning áfrýjanda hjá stefnda. Hefur áfrýjandi borið því við að laun hans hafi ekki verið borguð út vegna fjárskorts stefnda á umræddu ári og krafa hans að fjárhæð 360.921 króna þannig stofnast. Fær staðhæfing hans þessa efnis nokkra stoð í framburði Nínu Þórsdóttur sem starfaði sem bókari hjá stefnda á árunum 2010 til 2015.

Í ársreikningum stefnda fyrir árin 2012, 2013 og 2015 eru skammtímaskuldir meðal annars greindar í „Viðskiptaskuldir“ og „Ógreitt vegna starfsfólks.“ Í ársreikningum stefnda fyrir árin 2012 og 2013 eru engar fjárhæðir tilgreindar undir síðarnefnda liðnum, en í ársreikningi stefnda fyrir árið 2015 eru þar tilgreindar 1.353 krónur. Hefur áfrýjandi haldið því fram að ógreidd laun sín hafi verið færð undir liðinn Viðskiptaskuldir“ í ársreikningunum.

Stöðu sinnar vegna bar áfrýjandi ábyrgð á því að bókhald stefnda væri fært í samræmi við lög og venjur, sbr. 3. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, og að í ársreikningi væri efnahagsreikningur þannig sundurliðaður að hann gæfi skýra mynd af eignum, skuldum og eigin fé í árslok, sbr. fyrirmæli 4. mgr. 23. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald, sbr. 22. gr., sbr. 5. gr. sömu laga. Það var hann ekki og engar skýringar að finna í athugasemdum með honum. Framangreind tilgreining í ársreikningi á ætlaðri launaskuldbindingu stefnda uppfyllti ekki þær lögbundnu kröfur. Liggur því ekki annað fyrir en að áfrýjandi hafi fyrst haft uppi kröfu af þessu tilefni með héraðsdómsstefnu sem birt var fyrir fyrirsvarsmanni stefnda 23. mars 2016. Voru þá liðin rétt tæplega fjögur ár frá því að til ætlaðra skuldbindinga átti að hafa stofnast. Verður því, þegar af þeirri ástæðu, staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að áfrýjandi hafi sakir tómlætis glatað ætluðum rétti sínum til vangoldinna launa úr hendi stefnda, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 3. nóvember 2016 í máli nr. 144/2016.

IV

Krafa áfrýjanda um endurgreiðslu fjármuna sem hann kveðst ýmist hafa lánað stefnda ellegar lagt út fyrir í þágu starfsemi hans á árunum 2013 og 2015 nemur samtals 3.458.063 krónum. Krafan byggist fyrst og fremst á fyrrnefndum hreyfingalista úr bókhaldi stefnda. Af hálfu áfrýjanda hafa á hinn bóginn ekki verið lögð fram í málinu nein gögn að baki þeim bókhaldsfærslum eða um heimild stefnda til slíkrar lántöku, svo sem samningar, samþykktir af vettvangi stjórnar eða aðrar sambærilegar heimildir. Þá bendir ekkert til þess að gætt hafi verið ákvæða 48. gr. laga nr. 138/1994 við hinar ætluðu lánveitingar. Áfrýjandi hefur heldur ekki lagt fram nein gögn til stuðnings þeirri fullyrðingu sinni að þeir ætluðu fjármunir sem hann krefst endurgreiðslu á hafi komið úr hans hendi. Var það þó þeim mun mikilvægara í ljósi þess að krafan vegna þessa nemur á fjórðu milljón króna. Þá bera ársreikningar stefnda á árunum 2013 og 2015 ekki sérstaklega með sér að til slíkrar skuldar hafi verið stofnað við áfrýjanda sem stjórnarmann í félaginu. Var slíkrar tilgreiningar ekki síst þörf í ljósi þess að áfrýjandi hefur ekki sýnt fram á að stjórn stefnda á umræddum tíma hafi verið upplýst um ætlaðar lánveitingar hans og fyrirgreiðslu af þessum toga. Að öllu þessu virtu er ósannað að stofnast hafi til lögvarinnar kröfu áfrýjanda á hendur stefnda framangreinds efnis.

Samkvæmt framansögðu verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu stefnda af kröfu áfrýjanda.

Engin efni eru til þess að verða við þeirri kröfu áfrýjanda, sem hann gerði undir rekstri málsins fyrir Hæstarétti, að lögmanni stefnda verði gerð réttarfarssekt á grundvelli c. og d. liða 1. mgr. 135. gr. laga nr. 91/1991.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað hér fyrir dómi eins og í dómsorði greinir, en við ákvörðun hans er tekið tillit til þess að samhliða þessu máli er rekið annað samkynja mál.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Þór Ingvarsson, greiði stefnda, Ísarni ehf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. október

Mál þetta, sem dómtekið var 7. september sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu sem var birt 23. mars 2016 af Þór Ingvarssyni, Stigahlíð 56, 105 Reykjavík, á hendur Ísarni ehf., Skógarhlíð 10, 105 Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 3.938.960 kr. auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 120.307 kr. frá 31. mars 2012 til 30. apríl 2012, af 360.921 kr. frá 30. apríl 2012 til 9. mars 2016 og af 3.938.960 kr. frá 9. mars 2016 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun þann 9. janúar 2015, 24.452 kr., sem dregst frá skuldinni miðað við stöðu hennar á innborgunardegi.

                Þá krefst stefnandi málskostnaðar, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

                Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaðar.

                Í greinargerð krafðist stefndi þess aðallega að málinu yrði vísað frá dómi, en með úrskurði dómsins uppkveðnum 14. október 2016 var hafnað kröfu stefnda um frávísun málsins.

II.

Málsatvik

Hið stefnda félag var stofnað árið 1969 og annast samkvæmt skráningu í hlutafélagaskrá smásölu á varahlutum og aukabúnaði í bíla. Samkvæmt framlögðum ársreikningum stefnda fyrir reikningsárin 2012, 2013 og 2015 er félagið í eigu þriggja hluthafa en þar af er Þingvallaleið ehf. stærsti hluthafinn með 71,44% hlut. Hinn 4. júní 2015 var ritað undir kauptilboð um hlutafé í Þingvallaleið ehf. Tilboðsgjafi samkvæmt kauptilboðinu voru stefnandi og KÖS ehf. fyrir hönd óstofnaðs einkahlutafélags, en tilboðshafar voru Elín Ingvarsdóttir, Ingvar Mar Jónsson, Sigríður Ingvarsdóttir, Sigurður Ingvarsson og Þóranna Jónsdóttir. Samkvæmt kauptilboðinu skyldi tilboðsgjafi eignast 18 hluti í Þingvallaleið ehf., en heildarhlutafé félagsins var 20 hlutir, annars vegar með því að kaupa samtals 12 hluti af tilboðshöfum en hins vegar skyldi stefnandi leggja sex hluti inn í tilboðsgjafa. Þingvallaleið ehf. skyldi hins vegar eiga áfram tvo eigin hluti.

Sama dag voru gerðar breytingar á bæði stjórn og framkvæmdastjórn Þingvallaleiðar ehf. Stefnandi hafði fram að þeim degi verið framkvæmdastjóri Þingvallaleiðar ehf. um árabil, prókúruhafi og stjórnarmaður. Á hluthafafundi sama dag voru Bjarni Karlsson, Ingvar Mar Jónsson, Sigríður Ingvarsdóttir, Þóranna Jónsdóttir og stefnandi kjörin í stjórn. Jafnframt var Konráð Örn Skúlason ráðinn framkvæmdastjóri Þingvallaleiðar ehf. Fyrir 4. júní 2015 höfðu stefnandi, Ingvar Mar Jónsson og Róbert Þór Þórsson setið í stjórn Þingvallaleiðar ehf.

Samkvæmt kauptilboðinu skyldi uppgjör viðskipta eiga sér stað eigi síðar en 4. janúar 2016. Á fundi sem haldinn var þann dag varð ágreiningur milli stefnanda og KÖS ehf. um efndir kauptilboðsins. Varð því ekki af því að stefnandi legði sína hluti inn í félagið SPV 25 ehf., sem KÖS ehf. hafði stofnað í þeim tilgangi að vera tilboðsgjafi. Dómsmál var rekið um þann ágreining fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og var kveðinn upp dómur í málinu 30. júní sl.

Samkvæmt hlutafélagaskrá var stjórn stefnda skipuð, samkvæmt fundi 23. nóvember 2011, stefnanda, Þórönnu Jónsdóttur og Ingvari Mar Jónssyni, auk þess sem Ólafía Jóna Ólafsdóttir var varamaður í stjórn. Hinn 11. apríl 2016 sögðu Þóranna og Ingvar Mar sig úr stjórn stefnda með tilkynningu til fyrirtækjaskrár. Var þá stefnandi einn eftir í stjórn stefnda. Róbert Þór Þórsson var framkvæmdastjóri stefnda og voru hann og stefnandi með prókúru fyrir stefnda. Hluthafafundur stefnda var haldinn 27. apríl sl. og voru þá kjörnir í stjórn Eyþór Hauksson, Bjarni Karlsson og Konráð Örn Skúlason, auk þess sem Þorvaldur Hauksson var kosinn varamaður í stjórn. Konráð Örn er samkvæmt vottorði úr fyrirtækjaskrá núverandi framkvæmdastjóri stefnda og eini prókúruhafinn.

Stefnandi kveður að stefndi skuldi honum fé vegna ógreiddra launa frá árinu 2012. Þá kveðst stefnandi hafa lánað stefnda fé á árinu 2015 auk þess sem hann hafi lagt út fyrir kostnaði í þágu stefnda á árunum 2013 og 2015.

Með innheimtubréfi, dags. 2. febrúar 2016, krafði stefnandi stefnda um greiðslu þeirra krafna sem mál þetta lýtur að. Með bréfi, dags. 19. febrúar 2016, hafnaði stefndi greiðsluskyldu með vísan til þess að ekki hefði verið sýnt fram á tilvist, efni eða fjárhæðir umræddra krafna.

Mál þetta höfðaði stefnandi eins og að framan er rakið með stefnu sem var þingfest 7. apríl 2016.

III.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi rekur að krafa hans sé til komin vegna peningalána sem hann hafi veitt stefnda og vangoldinna launa frá árinu 2012. Stefndi hafi greitt skatta og öll gjöld vegna launanna. Stefnandi hafi lánað stefnda fjármuni svo hægt væri að flytja inn varahluti sem og vegna ýmissa útgjalda sem tengdust rekstri stefnda, t.d. vegna bókhaldsþjónustu. Enginn skriflegur gerningur hafi farið fram vegna þessara fjárútláta. Samkvæmt viðskiptamannareikningi stefnanda hjá stefnda standi skuldin nú í 3.914.508 krónum án dráttarvaxta. Þar af séu 360.921 króna vegna vangreiddra launa. Í kröfugerð stefnanda sé tekið tillit til innborgana sem séu sérstaklega merktar ákveðnum greiðslum til stefnanda.

Stefnandi sundurliðar kröfu sína á svofelldan hátt:

Nr.        Útgáfudagur       Gjalddagi           Fjárhæð                      

  1.        31.03.2012        31.03.2012        120.307 kr.                 

  2.        30.04.2012        30.04.2012        120.307 kr.                 

  3.        30.04.2012        30.04.2012        120.307 kr.                 

  4.        07.08.2013        09.02.2016        1.649.792 kr.              

  5.        26.06.2015        09.02.2016        200.000 kr.                 

  6.        30.06.2015        09.02.2016        1.200.000 kr.              

  7.        14.07.2015        09.02.2016        100.000 kr.                 

  8.        04.08.2015        09.02.2016        70.000 kr.                    

  9.        26.08.2015        09.02.2016        180.000 kr.

10.        07.09.2015        09.02.2016        100.000 kr.

11.        11.11.2015        09.02.2016        78.247 kr.

Stefnandi hafi krafist greiðslu skuldarinnar með bréfi dags. 9. febrúar 2016 og sé því dráttarvaxta krafist þegar liðinn var mánuður frá því að stefndi var sannanlega krafinn um greiðslu skuldarinnar af öðrum kröfum en launum, sem beri dráttarvexti frá gjalddaga.

Við aðalmeðferð málsins vísaði lögmaður stefnanda til þess að kröfur stefnanda fengju stoð í framburði vitna og skjölum sem stefndi hefði sjálfur lagt fram undir rekstri málsins. Ekki væri tölulegur ágreiningur með aðilum. Ekkert lægi fyrir um að stefnandi hefði tekið fé út úr hinu stefnda félagi og stefndi hafi enga gagnkröfu gert á hendur stefnanda. Stefnandi mótmæli því að sönnunarbyrði hans sé þyngri vegna þeirrar stöðu sem hann gegndi hjá stefnda. Það sé stefnda að sanna að skuldir hans við stefnanda séu óskuldbindandi fyrir stefnda. Því sé mótmælt með vísan til ársreikninga að handbært fé stefnda hefði dugað til að greiða skuldir við stefnanda. Því sé hafnað að stefnandi hafi ekki haft heimild til að semja við sjálfan sig. Einnig þurfi að sýna fram á eitthvað óvenjulegt. Slíkt sé ekki sannað, enda sé óumdeilt að stefnandi hafi innt vinnu af hendi fyrir stefnda. Þá sé því mótmælt að stefnandi hafi ekki haft heimild til lántöku fyrir hönd stefnda. Stefnandi hafi haft prókúruumboð fyrir stefnda og það hafi ekki verið takmarkað með neinum hætti. Prókúra veiti prókúruhafa mjög víðtækt umboð. Hagsmunum stefnda hafi verið betur borgið með lánum stefnanda, enda hafi þau verið vaxtalaus. Þáverandi stjórn hafi vitað af þessu og engar athugasemdir gert. Tilgangur reglna um einkahlutafélög sé að vernda félagið gegn öflun ótilhlýðilegra hagsmuna.

Kröfur stefnanda séu ófyrndar. Stefndi geri ekki greinarmun á fyrningartíma launa og peningalána. Peningalán fyrnist á tíu árum. Heimilt sé að ráðstafa innborgunum til greiðslu á elstu skuldum, nema skýr fyrirmæli séu gefin um annað. Stefndi hafi sýnt af sér tómlæti. Núverandi og fyrrverandi stjórnarmönnum í stefnda hafi verið kunnugt um skuldir stefnda við stefnanda. Athugasemdir hefðu fyrst verið gerðar við viðskiptamannareikning stefnanda þremur til fjórum árum eftir stofnun skulda. Loks væri dráttarvöxtum ekki mótmælt sérstaklega.

Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna samninga- og kröfuréttar um efndir og gjalddaga fjárskuldbindinga. Varðandi kröfur um vexti er vísað til 12. gr. og 1. mgr. 6. gr. sbr. III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu með síðari breytingum. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Málsástæður og lagarök stefnda Þingvallaleiðar ehf.

                Stefndi vísar í fyrsta lagi til þess að kröfur stefnanda séu ósannaðar. Stefnunni fylgi engin gögn um einstaka kröfuliði stefnanda, utan svokallaðs viðskiptamannareiknings sem sé almenns eðlis. Af honum verði ekki nema að afar takmörkuðu leyti ráðið hvað hver kröfuliður varði. Ekki sé gerð tilraun til að greina frá grundvelli hvers kröfuliðar með gögnum, svo sem með því að leggja fram kvittanir, lánssamninga, ráðningarsamninga, launayfirlit o.s.frv. Þá sé framlagður viðskiptamannareikningur bersýnilega ekki tæmandi um lögskipti aðila.

                Enga umfjöllun sé að finna í stefnu um einstaka kröfuliði. Það standi stefnanda mun nær en stefnda að gera grein fyrir einstökum kröfuliðum. Enga umfjöllun sé að finna í stefnu um hver hafi haft umsjón með viðskiptamannareikningi stefnda. Í stefnu sé ranglega hermt að framlagður tölvupóstur stafi frá endurskoðanda stefnda. Hið rétta sé að um er að ræða skoðunarmann stefnda sem sé viðskiptafræðingur og hafi hvorki yfirfarið viðskiptamannareikninginn né staðreynt aðra reikninga félagsins, sbr. ummæli í ársreikningum stefnda 2012 og 2013. Annar skoðunarmaður undirriti fyrrnefnda ársreikninginn. Í ljósi framangreinds meðal annars hafi verið sérstök ástæða fyrir stefnanda að reifa einstaka kröfuliði í stefnu.

                Varðandi kröfu stefnanda um vangoldin laun vísar stefndi til þess að í stefnu sé ekki fjallað meðal annars um af hverju stefnandi hafi verið á launum hjá stefnda, hvaða starfi hann hafi gegnt, hver launakjör stefnanda hafi verið, hvernig þau hafi þróast og hver hafi samið við hann hvert sinn. Nauðsynlegt sé að greina frá þessu þar sem stefnandi geti ekki einhliða ákveðið laun sín og samið þannig við sjálfan sig fyrir hönd stefnda, sbr. til hliðsjónar grunnreglu 48. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Það veki sérstaka athygli að allar kröfur stefnanda vegna vangoldinna launa stafi frá árinu 2012. Hafi stefnandi fengið greidd laun árin 2013, 2014 og 2015, af hverju hafi þá ekki verið búið að gera upp við hann vegna vangoldinna launa frá árinu 2012 ef krafa hans er raunveruleg? Samkvæmt ársreikningum virðist hafa verið til handbært fé hjá stefnda árið 2012, auk þess sem sérstaklega sé tilgreint í ársreikningum stefnda 2012 og 2013 að 0 krónur séu ógreiddar vegna starfsfólks. Ótrúverðugt sé að krafa stefnanda sé raunveruleg og að eðlilegur viðskiptatilgangur búi að baki því að stefnandi hafi fengið greidd laun að fullu árin 2013, 2014 og 2015 en að ekki sé búið að gera upp við hann vangoldin laun frá árinu 2012.

                Í stefnu sé ekki vikið að tilurð og grundvelli einstakra kröfuliða vegna meintra peningalána stefnanda til stefnda. Ekki sé vikið að því af hverju stefnandi telji að hann hafi haft heimild til að skuldbinda stefnda gagnvart sjálfum sér. Þá sé ekki vikið að því að einhver annar hafi skuldbundið stefnda gagnvart stefnanda. Ekki liggi annað fyrir en að stefnandi hafi verið almennur starfsmaður hjá stefnda og sem slíkur hafi hann ekki haft heimild til að skuldbinda stefnda með lántökum hjá sjálfum sér.

                Ekki sé vikið að því af hverju stefnandi hafi talið nauðsynlegt eða hagkvæmt að lána stefnda. Það sé athyglisvert að með hliðsjón af ársreikningi stefnda 2013 verði ekki séð að nauðsynlegt hafi verið fyrir stefnda að fá að láni hjá stefnanda þá fjármuni sem stefnandi haldi fram að hann hafi lánað stefnda. Einnig veki sérstaka athygli að flest hinna meintu lána séu frá síðari hluta ársins 2015, eftir að eigendaskipti urðu á stærsta hluthafa stefnda. Stjórnendur Þingvallaleiðar ehf. hafi þó engar upplýsingar haft um þessar lántökur stefnda.

                Telji dómurinn að tilvist og efni krafna stefnanda sé sannað byggir stefndi í öðru lagi á því að kröfurnar séu ekki skuldbindandi fyrir stefnda þar sem stefnandi hafi hvorki haft umboð fyrir hönd stefnda til að taka lán frá sjálfum sér né til að semja við sjálfan sig um launakjör. Þá hafi enginn þar til bær aðili tekið ákvörðun fyrir hönd stefnda um lántöku frá stefnanda, en stefnandi hafi heldur ekki byggt á því að svo hafi verið. Hið sama eigi við um ákvörðun launa stefnanda hjá stefnda. Jafnframt séu einstök peningalán vegna ráðstafana sem hafi ekki varðað rekstur stefnda og því sé stefndi ekki skuldbundinn til að greiða slíkar kröfur.

                Verði talið að tilvist og efni hinna meintu krafna stefnanda sé sannað byggir stefndi kröfu sína um sýknu í þriðja lagi á því að kröfur stefnanda séu fyrndar og fallnar niður fyrir tómlæti. Almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda sé fjögur ár, sbr. 3. gr. laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda. Af þessu leiði að kröfur stefnanda 31. janúar og 28. febrúar 2012 séu fyrndar. Af stefnu megi ráða að innborgunum þann 5. mars 2013 að fjárhæð 120.307 kr. og 120.307 kr. hafi verið ráðstafað inn á þessar fyrndu kröfur. Þar sem þessir kröfuliðir séu fyrndir sé þess krafist að umræddum innborgunum verði ráðstafað inn á ófyrnda kröfuliði.

                Stefndi byggir einnig á því að kröfuliðir stefnanda frá árunum 2012 og 2013 séu fallnir niður fyrir sakir tómlætis. Langur tími sé liðinn frá því að stofnað var til krafnanna og geti stefnandi ekki að öllum þessum tíma liðnum haft uppi kröfu um efndir án þess að hafa haldið rétti sínum til laga. Stefnandi hafi verið aðili að áðurnefndu kauptilboði um hlutafé í Þingvallaleið ehf. sem var undirritað 4. júní 2015. Við ákvörðun kaupverðs hluta í Þingvallaleið ehf. hafi verið tekið mið af eignum félagsins, þ. á m. hlutafé í stefnda. Við þá vinnu hafi stefnandi ekki vakið athygli á meintum kröfum sínum á hendur stefnda, sem hefði getað haft áhrif á ákvörðun kaupverðs. Hafi kröfurnar því jafnframt fallið niður fyrir traustfang hins nýja eiganda meirihluta hlutafjár í Þingvallaleið ehf.

                Verði talið að tilvist og efni hinna meintu krafna stefnanda sé sannað byggir stefndi kröfu sína um sýknu í fjórða lagi á því að hann eigi gagnkröfu á hendur stefnanda. Gagnkrafa stefnda eigi rætur sínar að rekja til langvarandi fjárdráttar stefnanda sem stefndi telji sig nýlega hafa komist á snoðir um. Stefndi hafi farið þess á leit við PricewaterhouseCoopers ehf. að félagið yfirfari reikninga og bókhald stefnda undanfarin ár og taki saman skýrslu um fjárreiður stefnda og hvort mögulegur fjárdráttur hafi átt sér stað. Stefndi áskilji sér allan rétt til að hafa uppi gagnkröfu til skuldajafnaðar og/eða eftir atvikum gagnkröfu til sjálfstæðs dóms, komi í ljós að framangreind skýrsla staðfesti grunsemdir stefnda, sbr. 3. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

                Málskostnaðarkrafa stefnda byggi á 130 gr. laga nr. 91/1991. Um lagarök byggi stefndi á ákvæðum laga nr. 91/1991, einkum 28. gr., 80. gr., 95. gr. og XXI. kafla, lögum nr. 138/1994, um einkahlutafélög, lögum nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og meginreglum einkamálaréttarfars, fjármunaréttar og félagaréttar.

IV.

Niðurstaða

                Við aðalmeðferð málsins kom stefnandi fyrir dóminn og gaf aðilaskýrslu. Einnig komu fyrir dóminn vitnin Konráð Örn Skúlason, Ásgeir Erling Gunnarsson, Nína Þórsdóttir og Þóranna Jónsdóttir. Jafnframt gáfu vitnin Ingvar Mar Jónsson, Sæmundur Tryggvi Sigmundsson og Ásmundur Sigurðsson símaskýrslu. Verður vitnað til framburðar þeirra eftir því sem þurfa þykir.

Krafa stefnanda byggir í fyrsta lagi á launum frá árinu 2012 sem stefnandi kveður ógreidd. Meðal gagna málsins er viðskiptamannareikningur stefnanda hjá stefnda. Þar eru skráðar launagreiðslur til stefnanda á árinu 2012. Færslurnar eru dagsettar 31. janúar 2012 að fjárhæð 120.307 krónur, 28. febrúar 2012 að fjárhæð 120.307 krónur og 31. mars 2012 að fjárhæð 120.307 krónur. Þá eru tvær færslur dagsettar 30. apríl 2012, hvor að fjárhæð 120.307 krónur. Samtals eru þessar launagreiðslur að fjárhæð 601.535 krónur. Að sögn stefnanda hefur verið tekið tillit til innborgana sem séu sérstaklega merktar ákveðnum greiðslum til stefnanda í bókhaldi stefnda. Stefnandi gerir kröfu um laun fyrir tímabilið frá 31. mars 2012 til 30. apríl 2012 og verður að skilja málatilbúnað hans þannig að hann telji laun fyrir janúar og febrúar 2012 uppgreidd.

Ekki er lagður fram ráðningarsamningur við stefnanda og er ekki upplýst hvort skriflegur ráðningarsamningur hafi verið gerður við hann. Meðal gagna málsins eru launaseðlar fyrir mánuðina janúar til maí 2012. Á öllum launaseðlunum kemur fram að heildarlaun stefnanda hafi verið 200.000 krónur á mánuði. Að frádregnu iðgjaldi og staðgreiðslu skatta hafi fjárhæðin 120.307 krónur verið ,,greitt í viðskiptareikning“, en engin laun verið greidd út.

Samkvæmt framburði stefnanda og Nínu voru opinber gjöld og framlög í lífeyrissjóð dregin frá launum stefnanda þannig að umræddar upphæðir séu það sem stefnandi hafi átt að fá útborgað. Þá kvaðst stefnandi ekki hafa gengið eftir því að fá launin greidd síðar vegna tímaskorts, en hann hefði unnið alla daga frá því snemma að morgni til kvölds. Hann hefði þó vænst þess að fá launin greidd.

Með vísan til alls þessa verður að fallast á það með stefnanda að hann hafi nægilega sýnt fram á að hann hafi verið starfsmaður stefnda, að útborguð laun hans hafi átt að vera 120.307 krónum á mánuði og að launin séu ógreidd.

Kemur þá til skoðunar hvort krafa stefnanda um ógreidd laun sé fallin niður fyrir sakir tómlætis. Í málinu eru lagðir fram ársreikningar stefnda fyrir árin 2012, 2013 og 2015. Undir liðnum ,,Skammtímaskuldir“ í öllum ársreikningunum eru tilgreindar annars vegar ,,Viðskiptaskuldir“ og hins vegar ,,Ógreitt vegna starfsfólks“. Í ársreikningunum fyrir árin 2012 og 2013 er undir liðnum ,,Ógreitt vegna starfsfólks“ engin skráð skuld. Í ársreikningi fyrir árið 2015 er skuld undir þessum lið að fjárhæð 1.353 krónur. Í ársreikningi fyrir árið 2012 eru ,,Viðskiptaskuldir“ sagðar vera 1.969.228 krónur, í sama lið í ársreikningi fyrir árið 2013 er skráð skuld að fjárhæð 3.779.403 krónur og í sama lið í ársreikningi fyrir árið 2015 er skráð skuld að fjárhæð 4.380.730 krónur. Undir rekstri málsins lagði stefndi fram sundurliðun á þeirri fjárhæð sem er skráð undir liðinn ,,Viðskiptaskuldir“ í ársreikningnum fyrir árið 2015. Í þeirri sundurliðun kemur fram að skuld við lánardrottna sé að fjárhæð 3.385.351 króna, en viðskiptaskuldir séu að fjárhæð 995.379 krónur. Aðspurð sagði Nína í framburði sínum fyrir dóminum að laun stefnanda hafi verið færð undir liðinn ,,Viðskiptaskuldir“ í ársreikningunum.

Stefnandi bar, sem einn af stjórnarmönnum stefnda, ábyrgð á samningu ársreiknings fyrir félagið vegna reikningsáranna 2012 og 2013, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga. Hann bar því, ásamt öðrum stjórnarmönnum, samkvæmt 1. mgr. 5. gr. sömu laga ábyrgð á því að ársreikningar stefnda fyrir þessi reikningsár gæfu glögga mynd af afkomu stefnda og efnahag félagsins, sbr. einnig 3. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Með sömu rökum bar stefnandi ábyrgð á því að semja ársreikning fyrir stefnda vegna ársins 2015 og að sá ársreikningur gæfi glögga mynd af afkomu stefnda og efnahag félagsins það ár. Stefnanda var því skylt að sjá til þess að kröfu hans um ógreidd laun væri getið í bókhaldi og ársreikningum vegna rekstraráranna 2012, 2013 og 2015. Þessa gætti hann ekki, en tilgreining undir liðnum ,,Viðskiptaskuldir“ án nánari skýringar á því hvort krafa stefnanda væri þar innifalin getur ekki talist gefa glögga mynd af afkomu stefnda og efnahag.

Í kaupsamningi um hlutafé í Þingvallaleið ehf., dags. 4. júní 2015, þar sem stefnandi og KÖS ehf. voru tilboðsgjafar en Elín Ingvarsdóttir, Ingvar Mar Jónsson, Sigríður Ingvarsdóttir, Sigurður Ingvarsson og Þóranna Jónsdóttir voru tilboðshafar, var ekki getið um að stefnandi ætti kröfu á hendur stefnda vegna ógreiddra launa. Hefði stefnanda þó verið rétt að vekja á því athygli í ljósi þess að Þingvallaleið ehf. á mikinn meirihluta hlutafjár stefnda. Þá var krafan ekki tilgreind í ársreikningum stefnda vegna rekstraráranna 2012, 2013 og 2015, eins og áður greinir. Stefnandi hafði fyrst uppi kröfu um greiðslu launa með bréfi til stefnda 2. febrúar 2016. Þegar allt þetta er virt verður að fallast á það með stefnda að stefnandi hafi með tómlæti sínu fyrirgert rétti sínum til vangreiddra launa, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands 3. nóvember 2016 í máli nr. 144/2016 og 2. febrúar 2017 í máli nr. 312/2016. Verður stefndi því sýknaður af þessum lið í kröfu stefnanda.

Stefnandi byggir í öðru lagi á því að hann hafi veitt stefnda peningalán á árinu 2015 og í þriðja lagi byggir hann á því að hann hafi lagt út fyrir útgjöldum í þágu stefnda á árunum 2013 og 2015. Stefnandi var einn stjórnarmanna stefnda á þeim tíma sem hann kveðst hafa veitt stefnda umrædd peningalán og greitt útgjöld í hans þágu. Stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri má samkvæmt 48. gr. laganna ekki taka þátt í meðferð máls um samningsgerð milli félagsins og hans ef hann hefur þar verulegra hagsmuna að gæta sem kunna að fara í bága við hagsmuni félagsins.

Ekkert liggur fyrir um að ákvörðun hafi verið tekin á stjórnarfundum stefnda um að taka lán hjá stefnanda eða heimila honum að greiða útgjöld vegna félagsins. Ekki verður annað séð af málatilbúnaði stefnanda en að hann hafi einhliða ákveðið að veita stefnda umrædd lán og greiða útgjöld í þágu félagsins. Var sú tilhögun í andstöðu við 48. gr. laga nr. 138/1994, enda voru þær fjárhæðir sem um ræðir samanlagt slíkar að stefnandi hafði verulegra hagsmuna að gæta. Skiptir ekki máli þótt einstökum stjórnarmönnum stefnda kunni að hafa verið kunnugt um lánveitingar og útgjöld stefnanda, enda er stjórn einkahlutafélags lögbundin stjórnareining sjálfstæðs lögaðila sem tekur ákvarðanir fyrir hönd félagsins á fundum í samræmi við lögin og samþykktir þess. Viðhorfum, vitneskju eða aðgerðum eins eða fleiri stjórnarmanna verður því almennt ekki samsamað ákvörðunum eða vitneskju stjórnar einkahlutafélags, sbr. dóm Hæstaréttar 28. nóvember 2013 í máli nr. 367/2013. Voru þessar lánveitingar stefnanda og greiðsla útgjalda því í andstöðu við 48. gr. laga nr. 138/1994. Verður stefndi því sýknaður af þessum liðum í kröfu stefnanda.

Í samræmi við framangreint er stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

                Í samræmi við þessa niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda 450.000 krónur í málskostnað. Við ákvörðun málskostnaðar var tekið tillit til málsins nr. E-1148/2017, sem var flutt samhliða máli þessu.

                Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Ísarn ehf., er sýknaður af kröfu stefnanda, Þórs Ingvarssonar.

Stefnandi greiði stefnda 450.000 krónur í málskostnað.