Print

Mál nr. 483/2017

A (Inga Lillý Brynjólfsdóttir hdl.)
gegn
Velferðarsviði Reykjavíkurborgar (Kristbjörg Stephensen hrl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Nauðungarvistun
Reifun
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem nauðungarvistun A var framlengd.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. júlí 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 4. ágúst sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. júlí 2017, þar sem nauðungarvistun sóknaraðila var framlengd í tólf vikur frá 22. sama mánaðar að telja. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hafnað verði kröfu varnaraðila um framlengingu nauðungarvistunar, en til vara  að henni verði markaður skemmri tími. Þá krefst sóknaraðili þóknunar til handa skipuðum verjanda sínum vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur héraðsdómslögmanns, 124.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.                        

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. júlí 2017

I.

Með kröfu 17. júlí 2017 sem barst réttinum sama dag, krefst sóknaraðili, Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, þess að nauðungarvistun, A, kt. [...], [...], Reykjavík, verði framlengd í allt að 12 vikur með rýmkun, sbr. 1. mgr. 29. gr. a lögræðislaga nr. 71/1997. Aðild sóknaraðila styðst við 20. gr. laga nr. 71/1997, með síðari breytingum.

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað, en til vara að nauðungarvistuninni verði markaður skemmri tími. Þá er þess krafist af hans hálfu að þóknun skipaðs verjanda hans Ingu Lillý Brynjólfsdóttur hdl. greiðist úr ríkissjóði í samræmi við 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997.

Málið var þingfest 20. júlí 2017 og strax í kjölfarið var tekin skýrsla af vitni og síðan fór fram munnlegur málflutningur og málið tekið til úrskurðar að honum loknum.

II.

Um helstu málsatvik, sem studd eru gögnum, segir í kröfu sóknaraðila til dómsins, að varnaraðili sé [...] gömul einhleyp kona sem búi í eigin húsnæði í [...]. Varnaraðili sé á örorku vegna alvarlegs undirliggjandi geðsjúkdóms og hafi verið um langt skeið. Varnaraðili eigi einn uppkomin son, sem hún hafi verið í reglulegu sambandi við. Varnaraðili eigi langa sögu um Paranoid schizophreniu auk þess sem hún hafi verið í reglulegri áfengisdrykkju undanfarna mánuði. Varnaraðili hafi verið í lyfjameðferð til langs tíma en hafi ekki hitt lækni sinn í marga mánuði. Varnaraðili hafi komið í lögreglufylgd á bráðamóttöku geðdeildar Landspítala Háskólasjúkrahúss þann 29. júní sl. og hafi vegna veikinda sinna verið nauðungarvistuð á geðdeild til 21. dags með samþykki sýslumanns 1. júlí sl.

Eftir að varnaraðili hafi verið vistuð á geðdeild hafi bati hennar gengið hægt og hún hafi verið algjörlega innsæislaus í þörf sína fyrir lyfjameðferð og sjúkrahúsvist. Varnaraðili sé enn haldin miklum geðrofseinkennum, auk ranghugmynda og ofskynjana. Þá komi fram í málsgögnum að reynt hafi verið að ná meðferðarsambandi við varnaraðila og komast hjá áframhaldandi nauðungarvistun hennar, en án árangurs.

Með kröfu sóknaraðila fylgdi læknisvottorð B geðlæknis á deild 32C frá 14. júlí sl., og læknisvottorð C sérfræðilæknis, frá 30. júní 2017, sem og beiðni um nauðungarvistun varnaraðila dagsett 1. júlí 2017. Um málsatvik vísar sóknaraðili að öðru leyti til málsatvikalýsingar í framlögðum læknisvottorðum og annarra gagna málsins.

III.

Kröfu um framlengingu nauðungarvistunar til 12 vikna grundvallar sóknaraðili á heimild í 29. gr. a lögræðislaga nr. 71/1997 og byggir á því að varnaraðili eigi við geðsjúkdóm að stríða eða verulegar líkur séu á því að svo sé og að læknar telji framlengingu nauðungarvistunar óhjákvæmilega. Varnaraðili sé enn innsæislaus í veikindi sín og hvorki hafi náðst samvinna varðandi lyfjameðferð né áframhaldandi innlögn að 21 degi loknum.

Í vottorði B geðlæknis á deild 32C frá 14. júlí sl. komi fram að varnaraðili hafi sýnt einkenni geðsjúkdóms, þ.e. ranghugmyndir og ofskynjanir. Varnaraðili sé ekki til samvinnu. Hún sé innsæislaus í sjúkdóm sinn, telji sig ekki þurfa á heilbrigðisaðstoð að halda og vilji ekki dvelja á geðdeild. Frá því að varnaraðili hafi lagst inn hafi hún sýnt merki um aðsóknarkennd, greinilegar ranghugmyndir og atferli sem bendi til ofskynjana. Það hafi því reynst nauðsynlegt að beita nauðungarsprautu með forðalyfjum til að tryggja lyfjameðferð. Lítil breyting hafi orðið á ástandi varnaraðila og einkennum frá því að hún lagðist inn og áframhaldandi meðferð sé því mikilvæg til að tryggja lyfjameðferð.

Það sé mat undirritaðs læknis og annarra meðferðaraðila að áframhaldandi nauðungarvistun í allt að 12 vikur sé nauðsynleg til að tryggja áframhaldandi lyfjameðferð og endurhæfingu varnaraðila. Að öðrum kosti séu verulegar líkur á því að ástand varnaraðila muni verða óbreytt eða versna.

IV.

Krafa sóknaraðila nú um framlengingu nauðungarvistunar varnaraðila í 12 vikur byggist á meðfylgjandi læknisvottorði B geðlæknis á deild 32C frá frá 14. júlí sl. Í vottorðinu er rakinn sjúkdómsferill og félagsleg staða varnaraðila.

Í greindu vottorði B geðlæknis á deild 32C frá 14. júlí kemur fram að það sé mat meðferðaraðila að hún sé í bráðu geðrofi sem rekja megi til þess að hún hafi hætt að taka inn lyf sem séu nauðsynleg til að meðhöndla undirliggjandi, alvarlegan geðsjúkdóm sem hún hafi verið greind með. Hún hafi frá innlögn sýnt merki um aðsóknarkennd, lýst greinilegum ranghugmyndum og sýnt af sér atferli sem bendi til ofskynjana. Einnig hafi það komið fram að geta hennar til að sinna störfum almenns daglegs lífs séu verulegar skert.

Þá hafi innsæi varnaraðila einnig verið verulega skert og hún haldið því staðfestalega fram að hún glími ekki við veikindi sem krefjist inngrips eða meðhöndlunar. Frá því að varnaraðili hafi lagst inn hafi hún daglega krafist þess að verða útskrifuð þar sem hún þurfi ekki á meðferð að halda. Þá virðist hún ekki meðtaka upplýsingar varðandi þau lög sem geri meðferðaraðilum kleift að halda henni nauðugri og beita meðferð. Þá séu sterkar líkur á því að varnaraðili hafi reynt að blekkja meðferðaraðila varðandi inntöku lyfja. Það hafi því reynst nauðsynlegt að beita nauðungarsprautu með forðalyfjum til að tryggja lyfjameðferð.  Frá því að varnaraðili hafi lagst inn hafi lítil sem engin breyting orðið á ástandi hennar og einkennum. Það sé því verulega mikilvægt að áframhaldandi meðferð sé tryggð til að viðhalda lyfjameðferð því óljóst sé hversu lengi varnaraðili hafi verið án lyfja. Um langvinn veikindi sé að ræða og miklar líkur séu á því að þörf á endurhæfingu verði óumflýjanleg í kjölfarið á meðferð á bráðageðdeild. Í þessu ljósi sé það mat undirritaðs og annarra meðferðaraðila að áframhaldandi nauðungarvistun í allt að 12 vikur sé nauðsynleg til að tryggja áframhaldandi lyfjameðferð og endurhæfingu. Að öðrum kosti séu verulegar líkur á því að ástand varnaraðila muni verða óbreytt eða versna. Sonur varnaraðila sé upplýstur og samþykkur áframhaldandi nauðungarvistun.

Í yfirlýsingu um að reynt hafi verið að ná meðferðarsambandi og komast hjá áframhaldandi nauðungarvistun í allt að 12 vikur með rýmkun, sem meðferðarlæknir varnaraðila hefur gefið 14. júlí 2017, sem er vafalaust gefin samkvæmt fyrirmælum 2. mgr. 29. gr. a, lögræðislaga, segir að varnaraðili hafi nú verið á bráðageðdeild 32C frá 29. júní sl. Frá komu á deild hafi komið fram einkenni í formi ranghugmynda og ofskynjana sem bendi til versnunar á alvarlegum undirliggjandi geðsjúkdóm varnaraðila. Varnaraðili hafi virst vera sátt með að taka inn lyf þrátt fyrir að hún telji sig ekki þurfa þau en síðar hafi komið í ljós sterkur grunur um að hún hafi komið undan lyfjum og blekkt meðferðaraðila. Varnaraðili lýsi því áfram að hún telji sig ekki glíma við veikindi. Litlar sem engar breytingar hafi orðið á ástandi varnaraðila frá innlögn og í ljósi alvarleika einkenna sem stafi af alvarlegum undirliggjandi geðsjúkdómi sé nauðsynlegt að tryggja áframhaldandi lyfjameðferð. Innsæisleysi og skortur á samstarfi og samskiptum við lækna og starfsfólk hafi verið áberandi í legu hennar á bráðageðdeild. Reynt hafi verið að útskýra fyrir varnaraðila mikilvægi lyfjameðferðar og semja við hana um áframhaldandi meðferð eftir nauðungarvistun. Það sé hins vegar ljóst varnaraðili sé ekki metin fær um að taka rökréttar ákvarðanir um velferð sína. Hún hafi alfarið hafnað allri meðferð. Innsæisleysi sé mikið og samvinna um áframhaldandi meðferð því ekki til staðar. Það sé því mat læknis að eina leiðin til að tryggja áframhaldandi lyfjameðferð og bata sé með framlengingu á nauðungarvistun. Að öðrum kosti séu líkur á bata varnaraðila verulega skertar. 

Læknirinn B, sem jafnframt er meðferðarlæknir varnaraðila, staðfesti vottorð sitt frá 14. júlí sl. og yfirlýsingu um að reynt hafi verið að ná meðferðarsambandi við varnaraðila og komast hjá áframhaldandi nauðungarvistun í allt að 12 vikur með rýmkun, frá 14. júlí 201. Greindi hann frá því við skýrslugjöf fyrir dómnum að varnaraðili væri með geðrofssjúkdóm. Það hafi verið staðfest án nokkurs vafa í núverandi innlögn. Hæfni hennar til þess að sjá um sig hafi versnað ásamt hún sé haldinn ranghugmyndum og ofskynjunum. Varnaraðili sé algjörlega innsæislaus í veikindi sín og geri sér ekki grein fyrir nauðsynlegri framlengingu á nauðungarvistun. Taldi læknirinn brýna nauðsyn til nauðungarvistunar nú því að öðrum kosti væri ekki hægt að koma við og framfylgja nauðsynlegri lyfjameðferð. Varnaraðili hefði sjálf lýst því að hún myndi hætta lyfjameðferð ef hún myndi losna úr innlögn.

Við úrlausn málsins er og horft til vottorðs C geðlæknis, dags. 1. júlí 2017 sem gefið var út í tilefni af framkominni beiðni um nauðungarvistun varnaraðila til 21 dags. Við aðalmeðferð málsins gaf C sem stödd er erlendis, skýrslu fyrir dóminum um síma en hún tók á móti varnaraðila við upphaf nauðungarvistunar hennar. Hún staðfesti vottorð sitt og svaraði spurningum um heilsufar varnaraðila. Hún sagði að aðdragandi innlagnar varnaraðila hefði verið sá að tilkynnt hefði verið um skrýtna hegðun af hálfu varnaraðila. Varnaraðili hefði komið eðlilega fyrir, við fyrsti kynni en fljótlega hefði farið að bera á ranghugmyndum og jafnvel ofskynjunum. Varnaraðili væri með tvær sjúkdómsgreiningar. Annars vegar paranoid schizophrenia og hins vegar alkahólisma.

Varnaraðili var ekki talinn í stakk búinn að gefa skýrslu fyrir dómi. Dómari ákvað því að heimsækja varnaraðila á sjúkrahúsið og ræða við hana. Viðstaddur viðtalið var skipaður verjandi varnaraðila. Varnaraðili mótmælti kröfunni og vildi komast heim, mótmælti hún því að hún þyrfti á sjúkrahúsdvöl að halda. Þá lýsti hún því að hún ætti hún ekki við áfengisvandamál að stríða. Hún væri á leiðinni til Noregs og því kæmi sér afar illa fyrir hana að vera sjálfræðissvipt. Varnaraðili bar einnig um það að læknir á spítalanum hefði sagt henni fyrr um daginn að til stæði að senda hana heim. B, geðlæknir staðfesti að sú frásögn ætti ekki við rök að styðjast.

Verjandi varnaraðila mótmælir kröfu sóknaraðila um nauðungarvistun. Telur hún að ekki séu uppfyllt skilyrði 29. gr. a. lögræðislaga nr. 71/1997 til þess að verða við kröfunni sem fæli í sér afar íþyngjandi frelsissviptingu. Varnaraðili telji sig ekki veika og því sé því hafnað að nauðungarvistun sé nauðsynleg. Hvað varði varakröfu varnaraðila um styttri sviptingartíma sé vísað til meðalhófsreglunnar.

V.

Með vísan til gagna málsins og vættis geðlæknanna B og C, fyrir dómi þykir nægjanlega í ljós leitt að nauðsynlegt sé að varnaraðili verði áfram nauðungarvistuð á sjúkrahúsi og fái þar viðeigandi lyfjagjöf, aðstoð, meðferð og eftirfylgni svo færa megi líðan hennar til betri vegar. Við lok núverandi nauðungarvistunar er geðrænt ástand varnaraðila enn alvarlegt að mati sérfræðings sem hefur annast hana, og innsæi hennar mjög skert. Hefur því ekki tekist að ná nægjanlegum tökum á ástandi  hennar og ljóst að meiri tíma þarf til að ná utan um vandann. Verður því ekki talið að við þessar aðstæður dugi önnur eða vægari úrræði til að tryggja heilsu og batahorfur varnaraðila, en frekar skammur tími er liðinn frá því að slík úrræði voru reynd en þá reyndist varnaraðili ekki vera til samstarfs.

Er það niðurstaða dómsins að uppfyllt séu skilyrði 29. gr. a í lögræðislögum nr. 71/1997, sbr. 17. gr. laga nr. 84/2015, til að verða við kröfu sóknaraðila um framlengingu nauðungarvistunar varnaraðila í 12 vikur, en með heimild til rýmkunar samkvæmt mati yfirlæknis, í samræmi við kröfu sóknaraðila og með velferð varnaraðila í huga. 

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997, sbr. 5. mgr. 29. gr. a sömu laga, ber að greiða úr ríkissjóði allan kostnað málsins, þar með talda þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur héraðsdómslögmanns, að fjárhæð 170.000 krónur þ.m.t. virðisaukaskattur.

Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Fallist er á þá kröfu sóknaraðila, Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, að framlengja til tólf vikna, nauðungarvistun varnaraðila, A, kt. [...],[...], Reykjavík, með heimild til rýmkunar samkvæmt mati yfirlæknis, sbr. 29. gr. a. lögræðislaga nr. 71/1997. Kostnaður af málinu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur héraðsdómslögmanns 170.000 krónur.