Print

Mál nr. 765/2017

M (Katrín Theodórsdóttir lögmaður)
gegn
K (Erlendur Þór Gunnarsson lögmaður)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Skilnaður
  • Fjárslit milli hjóna
  • Frávísunarúrskurður staðfestur
Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem máli M, sem krafðist skilnaðar frá K að borði og sæng, var vísað frá dómi á þeim grundvelli að hvorki lægi fyrir samkomulag aðila um fjárskipti né opinber skipti hafin vegna fjárslita þeirra, sbr. 1. mgr. 44. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. desember 2017, en kærumálsgögn bárust 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. nóvember 2017, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild var í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Hinn kærði úrskurður verður með vísan til forsendna staðfestur um annað en málskostnað.

Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af rekstri málsins á báðum dómstigum.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. nóvember 2017.

Mál þetta var höfðað 3. febrúar 2017 af M, [...], Reykjavík gegn K, [...], Kópavogi. Málið var tekið til úrskurðar eftir munnlegan málflutning um frávísunarkröfu stefndu 31. október sl.

Stefnandi krefst þess að honum verði með dómi veittur skilnaðar að borði og sæng frá stefndu. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefndu.

Stefnda krefst aðallega frávísunar en til vara fellst hún á kröfu um skilnað að borði og sæng. Þá krefst hún málskostnaðar.

Stefnandi krefst þess að kröfu stefndu um frávísun málsins verði hafnað.

I.

Stefnandi og stefnda kynntust í veislu hjá sameiginlegum vinum í byrjun árs 2015 og hófu samanband mjög skömmu síðar. Eftir að samband þeirra hafði staðið yfir í um þrjá mánuði kveður stefnandi að stefnda hafi farið að nefna hjónaband. Gengu aðilar í hjónaband [...] 2015.

Af frásögn stefnanda verður ráðið að fyrstu þrír til fjórir mánuðir hjúskapar aðila hafi gengið vel. Þegar stefnda var hins vegar komin með dvalarleyfi sem hún öðlaðist vegna hjónabands með íslenskum ríkisborgara kveður stefnandi allt hafa farið á verri veg, eins og lýst er nánar í stefnu en ástæðulaust er að taka upp í úrskurð þennan. Stefnda á hinn bóginn lýsir því að stefnandi hafi fljótlega byrjað að beita hana andlegu ofbeldi, viljað vita hverju sinni hvar hún væri stödd, viljað stjórna því hvernig hún væri klædd og hvort hún notaði andlitsfarða. Hafi stefnandi neitt stefndu til að gera ákveðna hluti og hótað því ella að hann myndi sjá til þess að hún fengi ekki endurnýjun á dvalarleyfi.

Vaxandi ágreiningur var með aðilum og leiddi hann til þess að sögn stefnanda að stefnda flutti út af heimilinu í byrjun janúar 2016. Stefnda lýsir því hins vegar svo að í kjölfar þess að stefnandi rak hana úr vinnu þar sem þau störfuðu bæði, hafi hún fengið taugaáfall og farið í bráðainnlögn á Landspítalanum. Eftir dvölina þar hafi stefnda komið að læstum dyrum þar sem stefnandi hafði skipt um lás. Eftir það hafi hún dvalið hjá systur sinni.

Stefnandi telur að stefnda hafi stofnað til hjúskaparins þann [...] 2015 í andstöðu við ákvæði útlendingalaga eða einungis í þeim tilgangi að öðlast hér dvalarleyfi. Stefnda hafnar þessu alfarið.

Stefnandi óskaði hjónaskilnaðar frá stefndu og lýsti yfir eignaleysi fyrir sýslumanninum í Reykjavík í fyrirtöku 30. mars 2016. Aðilar eiga ekki börn saman. Í bréfi sýslumannsins í Reykjavík frá 29. nóvember 2016 kemur fram að stefnda hafi ekki mætt til viðtals þrátt fyrir boðun og því var málinu vísað frá embættinu.

Stefnandi krafðist opinberra skipta fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með beiðni sem barst dómnum 21. mars sl. Kröfunni var hafnað með úrskurði dómsins 23. júní sl. í málinu nr. D-[...], einkum á þeim forsendum að ekki væri ljóst hvort stefnandi ætti eignir umfram skuldir og ekkert lægi fyrir um eignastöðu stefndu. Því væru ekki lagaskilyrði til að verða við kröfunni, sbr. 109. gr. laga nr. 20/1991.  

Stefnandi lagði fram aðra kröfu 30. júní sl. Stefnandi sótti hins vegar ekki þing þegar málið var þingfest. Var því málið fellt niður í samræmi við 1. mgr. 44. gr. laga nr. 20/1991 og stefndu úrskurðuð ómaksþóknun.

II.

Stefnandi byggir kröfu sína um skilnað að borði og sæng á 2. mgr. 41. gr., sbr. 34. gr., hjúskaparlaga nr. 31/1993. Í 2. mgr. 41. gr. hjúskaparlaga segi að leita megi skilnaðar hjá dómstólum ef ekki er samkomulag um annað, en málinu hafi verið vísað frá sýslumanni þar sem stefnda hafi ekki mætt í boðaða fyrirtöku.

Stefnandi byggir kröfu sína á 34. gr. hjúskaparlaga en þar segi að maki sem ekki telur sig geta haldið áfram hjúskap sínum eigi rétt til skilnaðar að borði og sæng.

Stefnandi heldur því fram að lagaskilyrði séu til skilnaðar að borði og sæng skv. 44. gr. hjúskaparlaga. Aðilar eigi ekki börn saman og bú aðila sé eignalaust. Skattframtöl stefnanda frá 2015 og 2016 sýni eignaleysi stefnanda. Stefnandi kveðst ekki gera kröfu í eignir sem stefnda kann að eiga.

Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Varðandi lögsögu í hjúskaparmálum er vísað til 1. og 2. tl. 1. mgr. 114. gr. laga nr. 31/1993. Um varnarþing vísast til 1. mgr. 115. gr. s.l., sbr. 90. gr. laga nr. 91/1991.

III.

Kröfu sína um frávísun máls byggir stefnda á því að skilyrði 44. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 séu ekki uppfyllt. Samkvæmt ákvæðinu skal, áður en skilnaður er veittur, annað tveggja vera, samkomulag milli hjóna um fjárskipti eða opinber skipti hafin vegna fjárslita. Einnig nægir ef fyrir liggur yfirlýsing beggja um eignaleysi, staðfest fyrir sýslumanni eða dómara eftir því hvar skilnaðarmál er til meðferðar. Samkvæmt orðanna hljóðan sé vafalaust að yfirlýsing annars hjóna um eignaleysi nægir ekki.

Stefnda telur að framlögð gögn málsins beri með sér að bú hjónanna sé ekki eignalaust en þar sé að finna bifreiðina [...], innstæður á bankareikningum og einnig sé verðmæti í innbúi þeirra hjóna. Þá kveður stefnda stefnanda einnig skráðan fyrir fasteignum í heimalandi hans og hefur lagt fram útprentanir sem hún segir að séu af Facebook síðu stefnanda þar sem hann birtir myndir af fasteignum og segist eigandi þeirra.

IV.

Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu stefndu verði hafnað og telur að uppfyllt séu skilyrði til þess að fallast á stefnukröfu hans. Stefnandi telur þannig að með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. D-[...] hafi því verið slegið föstu að um eignaleysi væri að ræða í búinu.

V.

Eins og að framan greinir hefur stefnandi tvívegis óskað eftir opinberum skiptum á búi aðila. Í síðara málinu reyndi ekki á hvort eignir væru í búinu eða ekki, enda var málið fellt niður vegna útivistar stefnanda þegar til stóð að þingfesta það. Í fyrra málinu var kröfu um opinber skipti hafnað með úrskurði. Meginrökin fyrir þeirri niðurstöðu voru þau að miðað við gögn málsins hefði ekki verið leitt í ljós að annar aðili ætti eignir umfram skuldir en það væri skilyrði þess að opinber skipti til fjárslita færu fram sbr. 109. gr. laga nr. 20/1991. Þingsókn féll niður af hálfu stefndu í þessu máli en engin gögn lágu fyrir um eignastöðu stefndu í málinu og afstaða hennar til stöðu búsins lá heldur ekki fyrir.

Í því máli sem hér er til úrlausnar liggja hins vegar fyrir gögn sem stefnda hefur lagt fram, sem hún telur sýna fram á að stefnandi eigi eignir í útlöndum. Vísar stefnda þessu til stuðnings til útprentana af „facebook“ síðu stefnanda þar sem hann birti myndir af fasteignum sem hann segi í sinni eigu. Stefnda byggir þannig á því að eignir í búinu séu umfram skuldir.

Engin frekari sönnunarfærsla hefur farið fram um þetta atriði en fyrir liggur þó að ekki er hægt að líta svo á að fyrir liggi yfirlýsingar beggja aðila í hjónabandinu um eignaleysi.

Samkvæmt gögnum málsins byggist yfirlýsing stefnanda um eignaleysi að mestu á skuld hans við vinnuveitanda sinn að fjárhæð 1.050.000 kr. m.v. 3. október sl. Þessu til marks hefur stefnandi lagt fram undir rekstri málsins, yfirlýsingu yfirmanns síns og samkomulag milli [...] og stefnanda frá 16. október 2015 um lánveitingu til stefnanda að fjárhæð 1.400.000 krónur. Um eignastöðu búsins er í stefnu vísað til skattframtala aðila. Í því nýjasta, þ.e. framtali ársins 2016 vegna 2015, er þessarar skuldar ekki getið. Hins vegar kemur fram að bankainnistæður nemi 846.692 krónum og getið er eignar í bifreið að fjárhæð 531.441 króna. Skuldir eru samkvæmt framtalinu sagðar 42.671 króna. Því verður ekki byggt á skattframtali aðila um meint eignaleysi.

Þyngra vegur þó að stefnda fullyrðir að búið eigi eignir umfram skuldir og hefur sjálf því ekki lýst yfir eignaleysi. Þótt ekki sé hægt að fallast á að sönnun um þetta atriði hafi tekist hefur þó stefnda leitt að því ákveðnar líkur að eitthvað sé til skiptana í búi aðila.

Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 skal áður en skilnaður er veittur annað tveggja vera; samkomulag milli hjóna um fjárskipti eða opinber skipti vera hafin vegna fjárslita.  Í 95. gr. sömu laga eru ákvæði um fjárskiptasamning milli hjóna en einnig um það að í stað fjárskiptasamnings geti komið til yfirlýsing hjóna um eignaleysi, sem staðfest er fyrir sýslumanni eða dómara eftir því hvar skilnaðarmálið er til meðferðar.  Um hið síðargreinda hefur verið talið vafalaust af orðalagi og samhengi að yfirlýsing annars hjóna um eignaleysi nægir ekki, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 172/2006.

Eins og málum háttar hér telur dómurinn því bresta lagaskilyrði þau sem fram koma í 1. mgr. 44. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, til að fallast á kröfu stefnanda um skilnað að borði og sæng frá stefndu þrátt fyrir að stefnda geri til vara sömu dómkröfu. Því verður þannig hafnað að fyrir liggi endanleg dómsúrlausn um að bú aðila sé eignalaust.

Máli þessu verður því vísað frá dómi.

Eftir þessum úrslitum, og með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, verður stefnanda gert að greiða stefndu málskostnað sem telst hæfilegur 400.000 krónur þ.m.t. virðisaukaskattur.

Af hálfu stefnanda flutti málið Katrín Theódórsdóttir héraðsdómslögmaður og af hálfu stefndu Auður Kolbrá Birgisdóttir héraðsdómslögmaður.

Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi greiði stefndu 400.000 krónur í málskostnað.