Print

Mál nr. 29/2018

Glitnir HoldCo ehf. (Ólafur Eiríksson lögmaður)
gegn
Útgáfufélaginu Stundinni ehf. og Reykjavik Media ehf. (Sigríður Rut Júlíusdóttir lögmaður)
Lykilorð
 • Friðhelgi einkalífs
 • Tjáningarfrelsi
 • Stjórnarskrá
 • Mannréttindasáttmáli Evrópu
 • Fjölmiðill
 • Vernd heimildarmanna
 • Vitni
 • Lögbann
 • Kröfugerð
Reifun

Haustið 2017 birtist í vikublaðinu Stundinni og í vefútgáfu sama blaðs viðamikil fréttaumfjöllun um viðskipti þáverandi forsætisráðherra og skyldmenna hans við G ehf. í aðdraganda bankahrunsins í október 2008. Vísað var til þess að upplýsingarnar um umrædd viðskipti hefðu komið fram í gögnum sem rekja mætti til forvera G ehf. sem Ú ehf. hefði undir höndum og ynni úr í samstarfi við R ehf. og breska fjölmiðilinn The Guardian. Í október 2017 fékk G ehf. lagt lögbann við því að Ú ehf. birti fréttir eða aðra umfjöllun, sem byggð væri á eða unnin upp úr gögnum eða kerfum G ehf. sem undirorpin væru trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Héraðsdómur og Landsréttur höfnuðu staðfestingu lögbannsins og við veitingu áfrýjunarleyfis til Hæstaréttar var tekið fram að lögbannið hefði fallið úr gildi samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Á hinn bóginn samþykkti Hæstiréttur að taka til úrlausnar ágreining aðila annars vegar um hvort blaðamönnum Ú ehf. yrði gert að svara fyrir dómi nánar tilgreindum spurningum sem lutu að tilvist, efni og vörslum þeirra gagna sem fréttaumfjöllunin hefði tekið til og hins vegar hvort umfjöllunin hefði falið í sér brot gegn 58. gr. laga nr. 161/2002, 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Hvað varðaði fyrrgreinda ágreiningsefnið tók Hæstiréttur fram að samkvæmt orðanna hljóðan miðist vernd a. liðar 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sem og ákvæði 25. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla fyrst og fremst við það að óheimilt sé að upplýsa um það hver sé heimildarmaður í skilningi laganna. Með hliðsjón af athugasemdum við síðastgreint ákvæði, ákvæðum 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og að virtri dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu var talið að heimildavernd blaðamanna væri ætluð rýmri þýðing en svo. Í henni fælist jafnframt sá áskilnaður að blaðamanni yrði ekki gert skylt að veita upplýsingar sem gæti leitt til þess að kennsl yrði borin á heimildarmanninn. Þá yrði að ætla blaðamanni verulegt svigrúm til þess að meta hvort að svör við spurningum tengdum tilvist slíkra gagna kynni hugsanlega að veita vísbendingar um hver heimildarmaðurinn væri. Var því fallist á með héraðsdómi og Landsrétti að vitnunum yrði ekki gert skylt að svara umræddum spurningum. Hvað varðaði síðargreinda ágreiningsefnið taldi Hæstiréttur að 58. gr. laga nr. 161/2002 fullnægði þeirri kröfu 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmálans að sú skerðing sem ákvæðið hefði í för með sér á tjáningarfrelsi ætti sér stoð í lögum og stefndi að lögmætu markmiði. Við mat á nauðsyn þeirrar takmörkunar, sem fólst í viðurkenningarkröfu G ehf. um bann við miðlun gagnanna og upplýsinga úr þeim, vægjust á frelsi fjölmiðla til að gera almenningi grein fyrir þeim upplýsingum sem þar komu fram og réttur viðskiptamanna G ehf. til bankaleyndar og friðhelgi einkalífs. Vísað var til þess að meta þyrfti umfjöllunina með heildstæðum hætti en þegar lögbannið var sett á hefðu einungis 12 dagar verið í að kosið yrði til Alþingis. Þá hefði meginþungi umfjöllunarinnar lotið að viðskiptum þáverandi forsætisráðherra og aðila honum tengdum. Áréttað var að rétturinn til að fjalla opinberlega um málefni kjörinna stjórnmálamanna væri rýmri heldur en ella, auk þess sem hafa þyrfti í huga stöðu Ú ehf. og R ehf. sem fjölmiðla og það hlutverk sem þeir gegna í lýðræðisþjóðfélagi. Var því einnig fallist á með héraðsdómi og Landsrétti að umrædd fréttaumfjöllun Ú ehf. og R ehf. hafi verið heimil.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason, Greta Baldursdóttir, Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. nóvember 2018 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst þess aðallega að úrskurðir héraðsdóms, um að hafna kröfum áfrýjanda um að nafngreindum vitnum verði gert að svara nánar tilgreindum spurningum, verði felldir úr gildi og lagt fyrir vitnin að svara spurningunum í heild eða hluta. Samhliða krefst áfrýjandi þess að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar. Til vara krefst áfrýjandi þess að viðurkennt verði að stefndu sé óheimilt að birta eða fá birtar fréttir eða aðra umfjöllun sem byggð er á eða unnin upp úr gögnum úr fórum eða kerfum áfrýjanda og undirorpin eru trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Að því frágengnu krefst áfrýjandi þess að viðurkennt verði að stefndu sé óheimilt að birta eða fá birtar fréttir eða aðra umfjöllun sem byggð er á eða unnin upp úr nánar tilgreindum 1.013 tölvuskrám úr fórum eða kerfum áfrýjanda. Þá krefst áfrýjandi í öllum tilvikum málskostnaðar í héraði, fyrir Landsrétti og Hæstarétti.

Stefndu krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Í báðum tilvikum krefjast stefndu málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Mál þetta á rætur að  rekja til fréttaflutnings stefndu af viðskiptum nafngreindra viðskiptamanna áfrýjanda, sem hann kveður byggja á gögnum í sinni eigu sem aflað hafi verið með ólögmætum hætti og háð séu bankaleynd. Hinn 16. október 2017 fékk áfrýjandi lagt lögbann við því að stefndu birtu fréttir eða aðra umfjöllun, sem byggð væri á eða unnin upp úr gögnum eða kerfum áfrýjanda og undirorpin væru trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Í eftirfarandi dómsmáli krafðist áfrýjandi staðfestingar lögbannsins, auk þess sem hann hafði uppi viðurkenningarkröfu þess efnis að stefndu væri óheimilt að birta fréttir og aðra umfjöllun sem byggð væri á gögnum frá áfrýjanda. Þá krafðist áfrýjandi þess að stefndu yrði gert að afhenda sér umrædd gögn sem og afrit þeirra Stefndu kröfðust sýknu af öllum dómkröfum áfrýjanda. Undir rekstri málsins í héraði reis einnig ágreiningur um þagnarskyldu starfsmanna fjölmiðla um atriði varðandi heimildir fyrir fréttunum og skyldu tiltekinna starfsmanna stefndu til að svara fyrir dómi spurningum þar að lútandi. Stefndu voru sýknuð í héraðsdómi og var sú niðurstaða staðfest í hinum áfrýjaða dómi. Kröfu áfrýjanda um afhendingu gagnanna var vísað frá dómi samkvæmt endanlegum dómi Landsréttar 16. mars 2018 í máli nr. 189/2018 og er lögbannið nú fallið úr gildi, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Fyrir Hæstarétti stendur því eftir ágreiningur um þá úrskurði héraðsdóms, sem staðfestir voru af Landsrétti, að synja kröfu áfrýjanda um að nafngreind vitni svöruðu nánar tilgreindum spurningum um tilvist og vörslu gagnanna, en aðalkrafa áfrýjanda um ómerkingu héraðsdóms er á því reist. Til vara hefur áfrýjandi uppi framangreinda viðurkenningakröfu sína og til þrautavara hefur hann afmarkað kröfu um viðurkenningu við nánar tilgreindar skrár sem tilgreindar eru í kröfugerðinni. Reisir áfrýjandi dómkröfur sínar einkum á 58. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Sýknukröfu sína styðja stefndu við a. lið 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og 25. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla, sbr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

II

Fyrir flutning málsins beindi Hæstiréttur þeirri fyrirspurn til málsaðila hvort þeir hefðu í hyggju að krefjast þess að hinn áfrýjaði dómur yrði ómerktur með vísan til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu 12. mars 2019 í máli Guðmundar Andra Ástráðssonar gegn Íslandi. Þar var því slegið föstu að ranglega hefði verið staðið að skipan tiltekins einstaklings í embætti landsréttardómara með þeim afleiðingum að við meðferð málsins hafi ekki verið fullnægt því skilyrði 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu að skipan dómstóls skuli ákveðin með lögum. Það sama ætti við að þessu leyti um einn af þeim þremur landsréttardómurum sem kváðu upp dóm í málinu. Af hálfu málsaðila var því lýst yfir að ekki yrði krafist ómerkingar hins áfrýjaða dóms af þessum sökum.

III

1

Stefndu eru fjölmiðlar í skilningi 13. töluliðar 1. mgr. 2. gr. laga nr. 38/2011 og halda báðir úti fréttasíðum á netinu. Þá gefur stefndi Útgáfufélagið Stundin ehf. jafnframt út dagblaðið Stundina. Áfrýjandi, sem áður bar heitið Glitnir banki hf., og starfaði sem banki og hélt sem slíkur úti almennri bankastarfsemi, þar með talið innlána- og fjárfestingabankastarfsemi á grundvelli laga nr. 161/2002. Fjármálaeftirlitið tók 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar áfrýjanda á grundvelli 100. gr. a. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, vék stjórn hans frá störfum og setti yfir hann skilanefnd. Með stoð í sömu lagaheimild tók Fjármálaeftirlitið þá ákvörðun að ráðstafa tilteknum eignum og skuldum áfrýjanda til nýs aðila, Nýja Glitnis banka hf. Var sú ákvörðun tekin 14. sama mánaðar og öðlaðist þegar gildi. Hinn 11. maí 2009 skipaði Héraðsdómur Reykjavíkur slitastjórn yfir áfrýjanda til þess að annast slitameðferð hans og 14. desember 2015 komst á nauðasamningur með áfrýjanda og kröfuhöfum hans. Í kjölfarið mun félagaformi áfrýjanda hafa verið breytt í einkahlutafélag og nafni hans breytt.

2

Hinn 6. október 2017 birtist í vikublaðinu Stundinni viðamikil fréttaumfjöllun um viðskipti Bjarna Benediktssonar þáverandi forsætisráðherra og skyldmenna hans við Glitni banka hf. í aðdraganda bankahrunsins í október 2008. Kom þar meðal annars fram að Bjarni hefði selt „fyrir rúmlega 50 milljónir króna í Sjóði 9 hjá Glitni banka dagana 2. til 6. október árið 2008 og bjargaði þannig sjálfum sér frá því að tapa peningum í bankahruninu dagana á eftir.“ Í umfjölluninni var jöfnum höndum vísað til gagna frá slitastjórn og tölvupósta, auk þess sem birt voru afrit af viðskiptakvittunum og öðrum skjölum, svo og orðrétt endurrit tölvupósta milli ýmissa aðila. Þá var tekið fram að upplýsingarnar um sölu Bjarna og ættingja hans á eignum í Sjóði 9 og tölvupóstsamskipti við starfsmann bankans kæmu fram í gögnum sem Stundin hefði undir höndum og ynni úr í samstarfi við stefnda Reykjavik Media ehf. og breska fréttamiðilinn The Guardian.

Þennan sama dag, 6. október 2017, birtust jafnframt nokkrar fréttir um framangreind viðskipti á vefsíðu stefnda Útgáfufélagsins Stundarinnar ehf. Var þar einnig vísað til tölvupósta og gagna frá slitastjórn Glitnis og sömuleiðis birt afrit af skjölum og endurrit tölvupósta. Þá var að sama skapi vísað til þess að upplýsingarnar um umrædd viðskipti hefðu komið fram í gögnum „innan úr Glitni banka hf.“ sem Stundin hefði undir höndum og unnið væri úr í samstarfi við stefnda Reykjavik Media ehf. og breska fréttamiðilinn The Guardian. Ennfremur birtist sama dag frétt á vefsíðu The Guardian þar sem greint var frá því að forsætisráðherra Íslands, sem þá hafi verið alþingismaður og átt sæti í efnahags- og skattanefnd, hafi selt eignir að andvirði nokkurra milljóna króna í fjárfestingarsjóði hjá Glitni banka hf. nokkrum klukkustundum áður en Fjármálaeftirlitið hefði tekið bankann yfir í október 2008. Í greininni var um heimildir ýmist vísað til gagna, þar með talið lekinna gagna (e. leaked documents) og tölvupósta og tekið fram að tilteknir einstaklingar hjá Stundinni og Reykjavik Media ehf. hefðu unnið að vinnslu greinarinnar með fréttamiðlinum.

Næstu daga héldu áfram að birtast fréttir á vefsíðu Stundarinnar um fjárhagsleg málefni þáverandi forsætisráðherra og aðila honum tengdum. Voru þar einnig til umfjöllunar fjárhagsleg málefni ýmissa lögaðila sem átt höfðu í viðskiptum við áfrýjanda. Var við umfjöllunina áfram vísað til gagna og tölvupósta frá Glitni banka hf. sem fjölmiðillinn hefði undir höndum og meðal annars tekið fram að þau væru bæði „ítarleg og víðfeðm“.

3

Með bréfi til Fjármálaeftirlitsins 13. október 2017 tilkynnti áfrýjandi um hugsanlegt brot gegn 58. gr. laga nr. 161/2002. Vísaði áfrýjandi til þess að frá 6. sama mánaðar hafi dagblaðið Stundin birt á vefsíðu sinni alls níu fréttir sem sagðar væru afrakstur samvinnu blaðamanna Stundarinnar, Reykjavik Media ehf. og breska fjölmiðilsins The Guardian. Væri um að ræða fréttir sem virtust byggja á upplýsingum úr kerfum áfrýjanda og bundnar væru bankaleynd samkvæmt áðurgreindu lagaákvæði. Um ítarlega umfjöllun væri að ræða um viðskipti nafngreindra fyrrverandi viðskiptavina bankans, þar sem tölvupóstsamskipti, minnisblöð og drög að bréfum væru birt. Ljóst væri að um væri að ræða upplýsingar sem ekki hefðu verið aðgengilegar almenningi og því bundnar trúnaði samkvæmt greindu ákvæði 58. gr. laga nr. 161/2002. Fór áfrýjandi þess á leit að Fjármálaeftirlitið tæki málið til rannsóknar.

Sama dag og áfrýjandi sendi Fjármálaeftirlitinu framangreinda tilkynningu lagði hann fram beiðni um lögbann hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Fór áfrýjandi fram á að lögbann yrði þá þegar lagt við birtingu stefndu á fréttum eða annarri umfjöllun sem byggð væri á eða unnin upp úr gögnum úr fórum eða kerfum áfrýjanda og undirorpin væru trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002. Óskaði áfrýjandi einnig eftir því að lögbannið yrði látið ná til bæði birtingar gagnanna í heild eða hluta, upplýsinga úr gögnunum og efnislegrar umfjöllunar um þau. Jafnframt fór áfrýjandi fram á að stefnda Útgáfufélaginu Stundinni ehf. yrði gert að fjarlægja allar fréttir af vefsíðu sinni, þar sem framangreind gögn væru birt, eða fram kæmu upplýsingar eða önnur efnisleg umfjöllun sem byggð væri á þeim, svo og að stefndu yrði gert að afhenda sýslumanni öll gögn og afrit af þeim sem þeir hefðu í fórum sínum og stöfuðu frá áfrýjanda. Loks krafðist áfrýjandi þess að umbeðin lögbannsgerð yrði tekin fyrir án tafar og án þess að stefndu yrði tilkynnt um að lögbannsbeiðni væri komin fram, en um þá kröfu sína vísaði áfrýjandi til 3. töluliðar 3. mgr. 21. gr. laga nr. 90/1989 um aðför og 3. mgr. 26. gr., sbr. 4. mgr. 8. gr. laga nr. 31/1990.

Fulltrúi sýslumanns tók lögbannsbeiðni áfrýjanda fyrir 16. október 2017 á skrifstofu stefnda Útgáfufélagsins Stundarinnar ehf. Var fyrirsvarsmanni félagsins þar kynnt krafa áfrýjanda og honum leiðbeint um réttarstöðu þess. Við fyrirtökuna féll áfrýjandi frá kröfu sinni um að félaginu yrði gert að fjarlægja allar fréttir af vefsíðu sinni þar sem fram kæmu upplýsingar úr umræddum gögnum eða umfjöllun sem byggð væri á þeim. Af hálfu stefnda Útgáfufélagsins Stundarinnar ehf. var gerðinni mótmælt og lögð fram skrifleg bókun þar sem gerð var frekari grein fyrir þeim mótmælum. Af hálfu sýslumanns var fallist á mótmæli félagsins varðandi kröfu áfrýjanda um afhendingu gagna, en tekin til greina krafa hans um að lagt yrði lögbann við því að stefndi Útgáfufélagið Stundin ehf. birti fréttir eða aðra umfjöllun, sem byggð væri á eða unnin upp úr gögnum eða kerfum áfrýjanda og undirorpin væru trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002. Var félaginu í kjölfarið leiðbeint um þýðingu lögbannsins og gerðinni því næst lokið.

Síðar þennan sama dag tók fulltrúi sýslumanns fyrir lögbannsbeiðni áfrýjanda gegn stefnda Reykjavik Media ehf. á lögheimili félagsins. Var kröfunni einnig mótmælt af hálfu þess stefnda og þau mótmæli tekin til greina að því er varðaði kröfu áfrýjanda um afhendingu gagna. Á hinn bóginn var fallist á kröfu áfrýjanda um að lagt yrði lögbann við því að stefndi Reykjavik Media ehf. birti fréttir eða aðra umfjöllun sem byggð væri á eða unnin upp úr gögnum úr fórum eða kerfum áfrýjanda og undirorpin væru trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002. Var hinu stefnda félagi í kjölfarið leiðbeint um þýðingu lögbannsins og gerðinni lokið.

4

Með réttarstefnu 23. október 2017 höfðaði áfrýjandi mál þetta á hendur stefndu. Krafðist hann annars vegar staðfestingar á lögbanninu og hins vegar viðurkenningar á því að stefndu væri óheimilt að birta eða fá birtar fréttir eða aðra umfjöllun sem byggð væri á eða unnin upp úr gögnum úr fórum eða kerfum áfrýjanda og undirorpin væru trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002. Þá krafðist áfrýjandi þess að stefndu yrði gert að afhenda sér öll gögn og afrit af þeim sem þeir hefðu í fórum sínum og kæmu úr kerfum eða fórum áfrýjanda, hvort sem þau væru á rafrænu eða öðru formi. Í þinghaldi 18. desember 2017 lagði áfrýjandi fram bókun þar sem hann tilgreindi alls 1.013 rafræn skjöl sem hann taldi stefndu hafa undir höndum. Kom fram í bókuninni að hjá embætti héraðssaksóknara væri til rannsóknar mál sem varðaði gagnastuld hjá áfrýjanda og að tilgreining skjalanna í bókuninni væri í samræmi við yfirlit sem áfrýjandi hefði fengið yfir þau gögn sem embættið hefði undir höndum og ættu uppruna sinn í kerfum áfrýjanda. Þá setti áfrýjandi fram varakröfur sem voru samhljóða aðalkröfum hans, að því undanskildu að í þeim var vísað til tilgreindra 1.013 rafrænna skjala í stað almennrar tilvísunar til gagna úr fórum eða kerfum áfrýjanda.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2018 var kröfum áfrýjanda er lutu að afhendingu gagna vísað frá dómi en stefndu að öðru leyti sýknaðir af kröfum hans. Áfrýjandi kærði frávísunarákvæði héraðsdóms til Landsréttar 15. febrúar 2018, sem staðfesti þau með úrskurði 16. mars sama ár. Áfrýjandi skaut úrskurði Landsréttar til Hæstaréttar sem vísaði málinu af sjálfsdáðum frá Hæstarétti með dómi 5. júní 2018 í máli nr. 8/2018 á þeim grundvelli að brostið hefði heimild til kæru úrskurðarins.

Áfrýjandi skaut dómi héraðsdóms til Landsréttar 19. febrúar 2018 og krafðist þess aðallega að felldir yrðu úr gildi úrskurðir héraðsdóms sem gengið höfðu undir rekstri málsins, þar sem hafnað hafði verið kröfum hans um að tilteknum vitnum yrði gert að svara nánar tilgreindum spurningum og lagt yrði fyrir vitnin að svara spurningunum í heild eða að hluta. Samhliða því krafðist áfrýjandi þess að dómur héraðsdóms yrði ómerktur og málinu vísað aftur heim í hérað til löglegrar meðferðar. Að öðru leyti hafði áfrýjandi uppi sömu kröfur og hann hafði gert fyrir héraðsdómi og ekki höfðu þar sætt frávísun. Með dómi Landsréttar 5. október 2018 voru fyrrgreindir úrskurðir héraðsdóms staðfestir og kröfu áfrýjanda um ómerkingu héraðsdóms hafnað. Þá var héraðsdómur staðfestur um aðrar kröfur áfrýjanda.

Með beiðni 1. nóvember 2018 leitaði áfrýjandi leyfis Hæstaréttar til að áfrýja framangreindum dómi Landsréttar til Hæstaréttar. Með ákvörðun réttarins 23. nóvember 2018 var vísað til þess að vegna ákvæðis 2. mgr. 39. gr. laga nr. 31/1990 gæti áfrýjandi ekki lengur krafist staðfestingar á hinu álagða lögbanni. Á hinn bóginn gæti málið haft almennt gildi að því er varðaði kröfur áfrýjanda um viðurkenningu á því að stefndu væri óheimilt að birta fréttir og aðra umfjöllun sem byggð væri á gögnum sem stöfuðu frá áfrýjanda. Þá reyndi einnig á álitaefni um þagnarskyldu starfsmanna fjölmiðla um atriði varðandi heimildir fyrir fréttum. Á þeim grundvelli var fallist á beiðni áfrýjanda um áfrýjunarleyfi hvað þá þætti málsins varðaði.  

IV

Stefndu höfðu hvorki uppi kröfu um frávísun málsins fyrir héraðsdómi né Landsrétti og kemur hún ekki til álita að öðru leyti en því sem það fellur undir Hæstarétt að kanna kröfugerðina af sjálfsdáðum.

Fallist er á það með stefndu að fyrri hluti aðalkröfu áfrýjanda, þess efnis að úrskurðir héraðsdóms um skyldu nánar tilgreindra vitna til að svara tilteknum spurningum, geti ekki í ljósi seinni hluta aðalkröfunnar um ómerkingu héraðsdóms haft sjálfstæða þýðingu og feli að réttu lagi í sér málsástæðu fyrir þeirri kröfu. Verður því ekki lagður á hana sérstakur dómur.

            Að öðru leyti eru ekki þeir annmarkar á kröfugerð og málatilbúnaði áfrýjanda sem varðað geta frávísun málsins frá dómi án kröfu.  

V

Aðalkröfu sína um ómerkingu hins áfrýjaða dóms reisir áfrýjandi á því að héraðsdómur hafi með úrskurðum 5. janúar 2018, sem Landsréttur staðfesti með hinum áfrýjaða dómi, ranglega synjað að leggja fyrir þrjú tilgreind vitni að svara spurningum sem lutu að tilvist, efni og vörslum þeirra gagna sem dómkröfur áfrýjanda taka til. Með þeirri niðurstöðu hafi áfrýjandi verið sviptur rétti til að viðhafa lögmæta sönnunarfærslu og eigi sá annmarki að leiða til ómerkingar héraðsdóms.

Í héraðsdómi er nánar rakið efni a. liðar 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 sem og ákvæði 25. gr. laga nr. 38/2011. Þar er réttilega dregin sú ályktun að samkvæmt orðanna hljóðan miðist vernd þeirra lagagreina fyrst og fremst við það, eins og háttar til í þessu máli, að starfsmönnum fjölmiðaveitu, sem og þeim sem henni tengjast með þeim hætti sem gerð er grein fyrir í 2. mgr. 25. gr., sé óheimilt að upplýsa um það hver sé heimildarmaður í skilningi tilvitnaðra ákvæða laga. Þær spurningar sem áfrýjandi gerir ágreining um lúta á hinn bóginn fyrst og fremst að gögnum, sem stafað geta frá áfrýjanda og stefndu búi yfir. Orðalag tilvitnaðra lagaákvæða fær þó ekki eitt og sér ráðið niðurstöðunni um það hversu rík vernd heimildarmanns er við þessar aðstæður og er þar til fleiri atriða að líta.

Ákvæði 25. gr. laga nr. 38/2011 fólu í sér nýmæli. Í lögskýringargögnum kemur meðal annars fram í athugasemdum við umrætt ákvæði að verndun trúnaðar á milli fjölmiðlafólks og heimildarmanna sé eitt af grundvallarskilyrðum þess að fjölmiðlar geti lagt sitt af mörkum til lýðræðisþjóðfélagsins og einn af hornsteinum tjáningarfrelsis þeirra. Síðan segir svo: „Í tjáningarfrelsi að þessu leyti felst m.a. réttur til að taka við og miðla upplýsingum sem eiga erindi til almennings. Það liggur í hlutarins eðli að til þess að tryggja að fjölmiðlar njóti þessa er nauðsynlegt að búa svo um hnútana að fjölmiðlafólk geti heitið heimildarmönnum sínum nafnleynd og staðið vörð um það loforð. Ef fullnægjandi heimildavernd er ekki tryggð getur það orðið til þess að upplýsingar sem erindi eiga til almennings verði ekki látnar í té vegna ótta heimildarmanna um að þeir eigi yfir höfði sér hefndaraðgerðir atvinnurekanda, stjórnvalda eða annarra sem hagsmuni hafa af því að upplýsingum sé haldið leyndum.“ Þá var áréttað í athugasemdunum að þrátt fyrir að kveðið væri á um vernd heimildarmanna í réttarfarslögum þætti allt að einu rétt að mæla einnig fyrir um slíka vernd með almennum hætti í heildarlöggjöf um fjölmiðla og hefði við þá reglusetningu meðal annars verið höfð hliðsjón af tilmælum Evrópuráðsins frá árinu 2000 um rétt blaðamanna til að greina ekki frá heimildarmönnum sínum. Um 1. mgr. 25. gr. frumvarpsins kemur einnig fram að lagt sé til að ákvæðið nái jafnt til allra starfsmanna fjölmiðlaþjónustuveitenda og sé það að því leyti víðtækara en ákvæði réttarfarslöggjafar um undanþágu frá vitnaskyldu. Ennfremur segir að 1. mgr. 25. gr. taki „með ótvíræðum hætti til heimildargagna, enda getur verið augljóst samband á milli slíkra gagna og persónu heimildarmanns svo sem fram kemur í dómi Hæstaréttar í máli nr. 419/1995.“ Af framangreindu má draga þá ályktun að tilætlan löggjafans með lögfestingu sérstakrar reglu um vernd heimildarmanna í lögum um fjölmiðla hafi verið sú að treysta þá vernd enn frekar frá því sem verið hafði á grundvelli slíkra reglna í réttarfarslöggjöf.

Til viðbótar tilvitnuðum reglum laga nr. 91/1991 og laga nr. 38/2011 kemur sú vernd sem heimildaöflun blaðamanna nýtur sjálfstætt á grundvelli 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Svo sem nánar er rakið í héraðsdómi hefur rík heimildavernd blaðamanna verið staðfest, bæði í dómum Hæstaréttar sem og dómum Mannréttindadómstóls Evrópu, sbr. meðal annars dóm réttarins í máli Goodwin gegn Bretlandi 27. mars 1996. Forsenda fyrir því að fjölmiðlar geti rækt hlutverk sitt er að þeir geti aflað upplýsinga um mál sem hafa þýðingu fyrir almenning og miðlað þeim án afskipta annarra. Einn þáttur í þessu sjálfstæði fjölmiðla er að þeir geti tekið við slíkum upplýsingum í trúnaði án þess að þurfa að gera grein fyrir hvaðan eða frá hverjum þær stafi, sbr. dóm Hæstaréttar 16. júní 2014 í máli nr. 403/2014.

Þá verður ráðið af nýlegri dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu að heimildaverndinni sé ætluð rýmri þýðing en að ná til þess eins að upplýsa nákvæmlega hver heimildamaðurinn er. Í henni felist jafnframt sá áskilnaður að blaðamanni verði ekki gert skylt að veita upplýsingar sem geti leitt til þess að kennsl verði borin á heimildarmanninn, svo sem með því að vera gert að afhenda upplýsingar eða gögn sem blaðamanni hafa af því tilefni verið látin í té, sbr. til hliðsjónar dóma Mannréttindadómstólsins í máli Nagla gegn Lettlandi 16. júlí 2013 og í máli Financial Times Ltd. o.fl. gegn Bretlandi 15. desember 2009.

Til stuðnings kröfu sinni hefur áfrýjandi lagt á það áherslu að samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 38/2011 sé ráðgert að heimildamaður þurfi sérstaklega að taka það fram óski hann nafnleyndar. Ekki hafi verið upplýst um slíka ósk af hálfu ætlaðs heimildarmanns við skýrslutökur í málinu og því geti viðkomandi starfsmenn stefndu ekki borið fyrir sig tilvitnað ákvæði fjölmiðlaga. Í því sambandi er þess að gæta að samkvæmt 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 er ráðgert að afla þurfi sérstaklega leyfis heimildarmanns eigi vitni að vera heimilt að svara spurningum um þau atriði sem nánar eru tilgreind í stafliðum a. – d. 2. mgr. 53. gr. laganna. Með hliðsjón af því áður rakta og yfirlýsta markmiði að rýmka vernd heimildamanna með lögfestingu 25. gr. laga nr. 38/2011 verður orðalag þeirrar lagagreinar skýrt til samræmis við 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 á þann hátt að til þess að blaðamaður geti svarað fyrir dómi spurningum af framangreindum toga þurfi að liggja fyrir ótvírætt leyfi viðkomandi heimildarmanns vitninu til handa. Þar sem slíkt leyfi lá ekki fyrir verður þessari málsástæðu áfrýjanda hafnað.

 Þær spurningar sem áfrýjandi telur að héraðsdómur hafi ranglega synjað að gera blaðamönnunum þremur að svara varða allar gögn sem dómkröfur áfrýjanda taka til og hann telur stefndu nýta með ólögmætum hætti. Eins og mál þetta er vaxið er fyrirfram útilokað að tryggja að svör við spurningunum geti ekki mögulega veitt vísbendingar um það frá hverjum umrædd gögn stafa, en allan vafa þar að lútandi verður að túlka heimildarmanni í hag. Verður ekki gerður greinarmunur þar að lútandi með tilliti til einstakra spurninga áfrýjanda, sem þess utan eru þannig vaxnar að óljóst er af efni þeirra hvaða þýðingu svör við þeim gætu haft fyrir sakarefni málsins. Með hliðsjón af þeirri ríku vernd heimildarmanna að lögum sem hér hefur verið gerð grein fyrir verður að ætla blaðamanni verulegt svigrúm til þess að meta hvort að svör við spurningum tengdum tilvist slíkra gagna kunni hugsanlega að veita vísbendingar um hver heimildarmaðurinn sé. Hvorki meginregla 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991 né einstök ákvæði VIII. kafla þeirra laga fá hnikað þeirri niðurstöðu enda nýtur vernd heimildarmanns sjálfstæðrar verndar 25. gr. laga nr. 38/2011, sem og stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu, svo sem áður er rakið. 

Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða að hafna aðalkröfu áfrýjanda um ómerkingu og heimvísun hins áfrýjaða dóms.

VI

Með varakröfu sinni leitar áfrýjandi viðurkenningar á því að stefndu sé óheimilt að birta fréttir eða aðra umfjöllun sem byggð er á eða unnin upp úr gögnum sem stafa frá áfrýjanda og undirorpin eru trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002. Byggir áfrýjandi á því að fréttaumfjöllun stefndu feli bæði í sér brot gegn greindu ákvæði laga um fjármálafyrirtæki, sem hafi að geyma lögmæta takmörkun á tjáningarfrelsinu, svo og gegn ákvæði 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög þar um nr. 62/1994. Af hálfu stefndu er aftur á móti byggt á því að þeim sé heimilt að birta fréttir sem unnar eru úr gögnunum og er í þeim efnum vísað til 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmálans.

Krafa áfrýjanda um staðfestingu lögbanns þess sem lagt var á fréttaumfjöllun stefndu 16. október 2017 er ekki til úrlausnar hér fyrir dómi. Engu að síður verður við mat á viðurkenningarkröfu hans að hafa í huga aðdraganda þess að lögbannsins var krafist og þær aðstæður sem uppi voru er það var lagt á, enda standa rök til þess að meta umfjöllun stefndu byggða á umþrættum gögnum með heildstæðum hætti.

Svo sem nánar er rakið í forsendum héraðsdóms leiðir af 73. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, að allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Er hér um víðtæka vernd tjáningarfrelsisins að ræða og hefur stjórnarskrárákvæðið verið skýrt svo að í því sé fólginn réttur manna til að miðla upplýsingum með öllum formum tjáningar. Frelsi þetta nær þannig bæði til prentaðs og talaðs máls, auk tjáningar sem kann að felast í annars konar athöfnum. Samkvæmt 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 2. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmálans, er eingöngu heimilt að takmarka þennan rétt að uppfylltum þeim skilyrðum sem þar koma fram, en af þeim leiðir að takmarkanir verða að eiga sér stoð í lögum og stefna að lögmætu markmiði. Þá verða takmarkanirnar að vera nauðsynlegar og mega aukinheldur ekki ganga lengra en nauðsyn ber til í lýðræðisþjóðfélagi.

Eins og áður greinir byggir áfrýjandi á því að þau gögn sem um ræðir hafi verið háð bankaleynd á grundvelli 58. gr. laga nr. 161/2002 og stefndu því verið óheimilt að birta fréttir sem unnar hafi verið úr þeim. Hvað það varðar er fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms, sem Landsréttur staðfesti, að nefnt ákvæði laganna fullnægi áðurgreindum áskilnaði 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmálans um að skerðing á tjáningarfrelsi þurfi að eiga sér stoð í lögum. Er fallist á að sú skerðing sem viðurkenningarkrafa áfrýjanda myndi hafa í för með sér, yrði hún tekin til greina, miði að því að vernda réttindi einstaklinga og lögaðila og koma í veg fyrir að ljóstrað verði upp um gögn og málefni sem leynt eiga að fara. Skerðingin stefnir því að lögmætu markmiði í skilningi 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmálans. Stendur þá eftir að taka afstöðu til þess hvort sú takmörkun sem felst í kröfugerð áfrýjanda sé nauðsynleg og hvort hún gangi lengra en þörf krefur. Við það mat vegast annars vegar á réttur stefndu sem fjölmiðla til að gera almenningi grein fyrir þeim upplýsingum sem fram koma í hinum umþrættu gögnum og hins vegar réttur þeirra sem gögnin fjalla um til að njóta þeirrar leyndar sem kveðið er á um í 58. gr. laga nr. 161/2002, svo og þeirrar friðhelgi er ákvæði 71. gr. stjórnarskrárinnar mælir fyrir um, sbr. og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Við mat á því hvort ganga skuli framar tjáningarfrelsi stefndu eða friðhelgi þeirra aðila sem nefnd gögn lúta að verður að hafa í huga að þegar lögbannið var lagt á 16. október 2017 voru einungis 12 dagar í að kosið yrði til Alþingis og því sýnu brýnna en ella að upplýst fréttaumfjöllun yrði ekki skert meira en nauðsyn bar til, sbr. til hliðsjónar dóm Mannréttindadómstóls Evrópu 19. febrúar 1998 í máli Bowman gegn Bretlandi. Verður jafnframt að líta til þess að meginþungi fréttaumfjöllunar stefndu laut að viðskiptum þáverandi forsætisráðherra og aðila honum tengdum við Glitni banka hf. í aðdraganda falls íslensku viðskiptabankanna þriggja í október 2008. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að fréttaumfjöllun stefndu hafi breyst að þessu leyti eftir að lögbannið féll niður. Hefur hún eftir sem áður einkum beinst að viðskiptaumsvifum þáverandi forsætisráðherra og aðilum tengdum honum í aðdraganda og kjölfar falls bankanna haustið 2008 með sömu áherslum og verið hafa frá upphafi umfjöllunar stefndu.

Almennt er viðurkennt að rétturinn til að fjalla opinberlega um málefni kjörinna stjórnmálamanna sé rýmri en ella og að þeir sem gegni slíkum opinberum trúnaðarstörfum þurfi að þola það að þeir kunni eftir atvikum að njóta lakari verndar samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar heldur en aðrir. Á það ekki hvað síst við þegar umfjöllunarefnið er af þeim toga sem hér um ræðir. Hefur sömu nálgun verið beitt í dómum Mannréttindadómstóls Evrópu við túlkun 8. gr. mannréttindasáttmálans, sbr. til hliðsjónar dóm 17. apríl 2014 í máli Brosa gegn Þýskalandi og dóm 2. júní 2016 í máli Instytut Ekonomichnykh Reform, Tov gegn Úkraínu. Hvað varðar fréttaumfjöllun stefndu verður að hafa í huga stöðu þeirra beggja sem fjölmiðla og það hlutverk sem þeir gegna í lýðræðisþjóðfélagi sem slíkir. Þá verður jafnframt að líta til þess sem áður greinir varðandi væntanlegar alþingiskosningar, sem og þess að um er að ræða umfjöllun um viðskiptasamband eins af æðstu embættismönnum þjóðarinnar við einn af þremur stærstu viðskiptabönkum landsins, í aðdraganda þeirra atburðarrásar sem lauk með því sem kallað hefur verið hið íslenska bankahrun haustið 2008. Eðli máls samkvæmt hefur öll opinber umræða undanfarin ár litast mjög af þeim atburðum og meðal annars lotið að því að greina orsakir þeirra og eftirmála. Í ljósi þeirra stórfelldu almennu áhrifa sem bankahrunið hafði á íslenskt samfélag er og eðlilegt að slíkt uppgjör fari fram á grundvelli opinberrar fréttaumfjöllunar og þeirrar almennu umræðu sem henni að jafnaði fylgir. Verður að líta svo á að umfjöllun stefndu um viðskipti þáverandi forsætisráðherra sé liður í því uppgjöri og eigi sem slík erindi við almenning.

Hvað varðar aðra þá aðila sem greint var frá í umfjöllun stefndu er fallist á þá ályktun héraðsdóms, sem Landsréttur staðfesti, að ekki verði annað séð en að þar hafi í flestum tilvikum verið um að ræða einstaklinga og lögaðila sem tengdust þáverandi forsætisráðherra með einum eða öðrum hætti, ýmist viðskipta- eða fjölskyldutengslum, og viðskiptum við bankann á þeim tíma er um ræðir. Er fallist á að málefni þeirra hafi verið svo samofin umfjöllunarefni stefndu að ekki verði skilið þar á milli, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 1. júní 2006 í máli nr. 541/2005. Í þeim tilvikum þar sem slík tengsl við ráðherrann eru ekki augljós sýnist allt að einu um að ræða aðila sem voru umsvifamiklir eða áberandi í aðdraganda og eftirleik hruns bankanna haustið 2008 eða tengjast þeim aðilum með augljósum hætti. Að breyttu breytanda á það sama við um þá fréttaumfjöllun sem birst hefur eftir að lögbannið féll niður, en ítrekað skal að meta verður umfjöllun stefndu heildstætt að þessu leyti.

Ennfremur er til þess að líta, og þá ekki síst hvað varðar möguleg áhrif viðurkenningakrafna áfrýjanda á banni við miðlun gagnanna og upplýsinga úr þeim til framtíðar litið, að þær eru settar fram án frekari afmörkunar á því um hverja kann að verða fjallað. Ná kröfur áfrýjanda því jafnt til þeirra sem vegna starfa sinna eða stöðu að öðru leyti þurfa að sæta því að búa við skertari friðhelgi einkalífs heldur en aðrir, svo sem áður hefur verið fallist á að meðal annars eigi við um kjörna fulltrúa, og svo á hinn bóginn þeirra sem rétt eiga á slíkri friðhelgi óskertri. Útilokar þessi framsetning áfrýjanda á kröfugerð sinni að unnt sé að fallast á hana. Tekið skal þó fram að einstaklingar sem kunna að telja að á sér hafi verið brotið geta eftir sem áður látið reyna á ætlaðan rétt sinn, sbr. 58. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Samkvæmt framansögðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms eru stefndu sýknuð af varakröfu áfrýjanda um að viðurkennt verði að þeim sé óheimilt að birta fréttir eða aðra umfjöllun sem byggð er á eða unnin upp úr gögnum sem stafa frá áfrýjanda. Þá verða stefndu sýknaðir af þrautavarakröfu áfrýjanda með sömu rökum. Fær sú afmörkun sem þar er gerð ekki breytt því að eftir sem áður er óljóst hvaða einstaklingar sem koma fyrir í tilgreindum gögnum eigi til framtíðar litið að njóta óskoraðrar verndar 58. gr. laga nr. 161/2002 meðan aðrir sem þar koma fyrir njóta, vegna  stöðu sinnar og innbyrðis tengsla, takmarkaðri verndar.

Samkvæmt öllu framanröktu verða stefndu sýknaðir af kröfum áfrýjanda.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti verða staðfest. Áfrýjanda verður gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Stefndu, Útgáfufélagið Stundin ehf. og Reykjavik Media ehf., eru sýknaðir af kröfum áfrýjanda, Glitnis HoldCo ehf.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað eru staðfest.

Áfrýjandi greiði stefndu, hvorum um sig, 1.200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Landsréttar 5. október 2018.

Mál þetta dæma landsréttardómararnir Kristbjörg Stephensen, Ragnheiður Bragadóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

 1. Áfrýjandi skaut málinu til Landsréttar 15. febrúar 2018. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2018 í máli nr. E-3434/2017 og í tengslum við áfrýjunina óskað endurskoðunar á þremur úrskurðum í málinu frá 5. janúar 2018.

 2. Áfrýjandi krefst þess í fyrsta lagi að úrskurðir héraðsdóms í málinu, um að hafna þeim kröfum áfrýjanda að vitnunum Ingibjörgu Dögg Kjartansdóttur, Inga Frey Vilhjálmssyni og Jóhanni Páli Jóhannssyni verði gert að svara tilteknum spurningum, verði felldir úr gildi og lagt fyrir vitnin að svara umræddum spurningum í heild eða að hluta. Í öðru lagi krefst áfrýjandi þess aðallega að dómur héraðsdóms verði ómerktur og honum vísað heim til löglegrar meðferðar fyrir héraðsdómi. Til vara krefst áfrýjandi þess að hinum áfrýjaða dómi verði hrundið og breytt á þá leið að staðfest verði lögbann sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lagði 16. október 2017 við því að hvor stefndu um sig birti fréttir, eða aðra umfjöllun, sem byggðar eru á eða unnar upp úr gögnum eða kerfum áfrýjanda, sem undirorpnar eru trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Jafnframt að viðurkennt verði að stefndu sé hvorum um sig óheimilt að birta og/eða fá birtar fréttir, eða aðra umfjöllun, sem byggðar eru á eða unnar upp úr gögnum úr fórum eða kerfum áfrýjanda og undirorpnar eru trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002. Að því frágengnu krefst áfrýjandi þess að hinum áfrýjaða dómi verði hrundið og breytt á þá leið að staðfest verði lögbann sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lagði 16. október 2017 við því að hvor stefndu um sig birti fréttir, eða aðra umfjöllun, sem byggðar eru á eða unnar upp úr gögnum eða kerfum áfrýjanda, sem undirorpnar eru trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002, að því er varðar nánar tilgreind gögn í 1013 tölvuskrám sem taldar eru upp í áfrýjunarstefnu með skráarheitum. Jafnframt að viðurkennt verði að stefndu sé hvorum um sig óheimilt að birta og/eða fá birtar fréttir, eða aðra umfjöllun, sem byggðar eru á eða unnar upp úr gögnum úr fórum eða kerfum áfrýjanda í nánar tilgreindum 1013 tölvuskrám sem taldar eru upp í áfrýjunarstefnu með skráarheitum. Loks er krafist málskostnaðar fyrir héraði og Landsrétti.

 3. Stefndu krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Landsrétti.

Málsatvik og sönnunarfærsla

 1. Með hinum áfrýjaða dómi vísaði héraðsdómur frá dómi kröfum áfrýjanda um að stefndu yrði gert að afhenda áfrýjanda öll gögn og afrit af þeim, sem stefndu hefðu í fórum sínum, hvort sem þau væru á rafrænu eða öðru formi, sem kæmu úr kerfum áfrýjanda. Jafnframt vísaði héraðsdómur frá dómi varakröfu áfrýjanda um að stefndu yrði gert að afhenda alls 1013 skjöl úr fórum eða kerfum áfrýjanda, sem tilgreind voru í bókun sem lögð var fram í héraði 18. desember 2017, hvort sem þau væru á rafrænu eða öðru formi. Áfrýjandi kærði frávísunarákvæði dómsins til Landsréttar sem staðfesti hin kærðu ákvæði með úrskurði 16. mars 2018 í máli nr. 189/2018.

 2. Krafa áfrýjanda um að úrskurðir héraðsdóms í málinu, um að hafna þeim kröfum áfrýjanda að vitnunum Ingibjörgu Dögg Kjartansdóttur, Inga Frey Vilhjálmssyni og Jóhanni Páli Jóhannssyni yrði gert að svara tilteknum spurningum, verði felldir úr gildi og að lagt verði fyrir vitnin að svara umræddum spurningum í heild eða að hluta, er studd þeim rökum að ákvæði 25. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla eigi ekki við um þær spurningar sem krafist var að vitnin svöruðu. Nánar tiltekið hafi engin raunhæf hætta verið á því að með svörum við þeim yrði afhjúpað hver eða hverjir hefðu verið heimildarmenn stefndu eða með hvaða leiðum gögnin hefðu komið til stefndu. Spurningarnar hafi eingöngu lotið að því hvaða gögn stefndu hefðu undir höndum, hvert efni þeirra væri, hvers konar upplýsingar þau hefðu að geyma um viðskiptamenn áfrýjanda og að hvað miklu leyti væri búið að vinna úr gögnunum. Þótt játa verði fjölmiðlamönnum ákveðið svigrúm til mats á því hvaða spurningum þeir telji sig geta svarað, án þess að vernd heimildarmanna sé stefnt í hættu, geti það svigrúm ekki verið svo rúmt, í ljósi meginreglunnar um vitnaskyldu, að vitnin geti komið sér undan því að svara öllum mögulegum spurningum um þau gögn sem fréttir stefndu byggðust á.

 3. Áfrýjandi byggir jafnframt á því að ekki liggi fyrir að 25. gr. laga nr. 38/2011 eigi við þar sem gildissvið hennar takmarkist við það að heimildarmaður hafi óskað nafnleyndar. Kveðið sé á um í 5. mgr. 56. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að vitni, sem telur sér óskylt að gefa skýrslu eða svara einstökum spurningum eða heldur fram heimildarskorti, beri að leiða líkur að staðreyndum sem veltur á í þeim efnum. Það hafi aðilar og vitni ekki gert enda hafi þau neitað að svara spurningum um hvort heimildarmaðurinn hafi óskað nafnleyndar. Svar við spurningu um hvort heimildarmaður hafi óskað nafnleyndar geti hins vegar augljóslega ekki veitt upplýsingar um hver heimildarmaðurinn sé í tilteknu tilviki og 25. gr. laganna geti því ekki verið grundvöllur heimildar til þess að neita að svara umræddri spurningu. Það að vitnin hafi neitað að svara spurningunni og vísað til 25. gr. laga nr. 38/2011 verði heldur ekki talið fela í sér það svar að heimildarmaður hafi óskað nafnleyndar.

 4. Með vísan til framangreinds telur áfrýjandi að verða eigi við kröfum hans um að vitnunum þremur verði gert að svara spurningum þeim er greinir í kröfugerð, annaðhvort í endurtekinni aðalmeðferð í héraði í samræmi við aðalkröfu áfrýjanda eða í endurtekinni skýrslutöku fyrir Landsrétti.

 5. Áfrýjandi telur stefndu hafa fengið þær heimildir sem þeir byggðu umfjöllun sína á hjá Jon Henley, blaðamanni breska blaðsins Guardian. Þetta komi fram í yfirlýsingu hans sem Stundin hafi birt sama dag og héraðsdómur í málinu hafi verið kveðinn upp. Hann teljist því heimildarmaður stefndu og virðist ekki hafa óskað nafnleyndar. Af yfirlýsingunni megi ekki ráða að stefndu hafi haft nokkur bein samskipti við þann aðila sem Jon eða Guardian hafi fengið gögnin frá. 

 6. Af hálfu stefndu er tekið undir þær röksemdir héraðsdóms að vernd heimildarmanna sé víðtæk og að játa þurfi blaðamönnum rúmt svigrúm til að meta hvað sé til þess fallið að varpa ljósi á hverjir heimildarmenn séu. Því hafi vitnunum ekki borið skylda til að svara spurningum áfrýjanda. Því er hafnað að Jon Henley hafi verið heimildarmaður stefndu enda verði blaðamaður ekki heimildarmaður að frétt þótt hann vinni frétt með öðrum fjölmiðlum og hafi þannig milligöngu um að miðla upplýsingum á viðeigandi stað. Heimildarmaður hafi óskað nafnleyndar og blaðamenn stefndu hafi fengið upplýsingar eða gögn á grundvelli þess trúnaðar. Þeim hafi því verið óheimilt að greina frá nokkru sem kynni að varpa ljósi á heimildarmann.

 7. Af hálfu stefndu er því jafnframt haldið fram að það að vitni hafi neitað að svara spurningu um hvort heimildarmaður hafi óskað nafnleyndar með því að vísa til 25. gr. laga nr. 38/2011 verði að túlka á þann veg að svo hafi verið, enda komi fram í 1. mgr. greinarinnar að óheimilt sé að upplýsa hver sé heimildarmaður hafi hann óskað nafnleyndar.

 8. Krafa áfrýjanda um ómerkingu hins áfrýjaða dóms og heimvísun málsins er einkum byggð á því að það að áfrýjanda hafi ranglega verið meinað að neita lögboðinna úrræða til að færa sönnur á umdeild málsatvik hafi haft úrslitaáhrif á niðurstöðu um aðalkröfu áfrýjanda í héraði og það eitt og sér eigi að leiða til þess að ómerkja beri dóm héraðsdóms og fyrirskipa endurtekna löglega meðferð málsins.

 9. Jafnframt því að hafa uppi framangreindar kröfur um endurskoðun á úrskurðum héraðsdóms 5. janúar 2018 og ómerkingu héraðsdóms óskaði áfrýjandi eftir því að fyrrnefnd þrjú vitni gæfu skýrslu við aðalmeðferð málsins fyrir Landsrétti til að svara þeim spurningum sem héraðsdómur hafði ekki talið þeim skylt að svara. Með ákvörðun 21. júní 2018 hafnaði Landsréttur þeirri ósk áfrýjanda. Byggðist sú ákvörðun á því að niðurstaða umræddra úrskurða héraðsdóms hefði haft grundvallarþýðingu fyrir efnislega úrlausn málsins í héraði og því væri réttara að láta reyna á hvort niðurstaða endurskoðunar á þeim myndi leiða til ómerkingar hins áfrýjaða dóms fremur en að Landsréttur þyrfti, áður en á það reyndi, að skera úr um það við skýrslugjöf vitnanna fyrir réttinum hvort þeim væri skylt að svara sömu spurningum og lagðar voru fyrir þau í héraði.

Niðurstaða

 1. Málsaðila greinir á um hvort Landsréttur geti endurskoðað úrskurði héraðsdóms í málinu um að hafna því að þremur tilteknum vitnum yrði gert að svara tilteknum spurningum. Úrskurðirnir voru kveðnir upp 5. janúar 2018, eftir að aðalmeðferð máls hófst. Þar sem áfrýjandi átti þess ekki kost samkvæmt a-lið 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 að kæra úrskurðina til Landsréttar getur hann, með vísan til síðari málsliðar 1. mgr. 151. gr. sömu laga, leitað endurskoðunar á þeim við áfrýjun málsins.

 2. Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 38/2011 er starfsmönnum fjölmiðlaveitu, sem hlotið hafa leyfi eða skráningu hjá fjölmiðlanefnd, óheimilt að upplýsa hver sé heimildarmaður að grein, riti, frásögn, tilkynningu eða öðru efni, hvort sem það hefur birst eða ekki, hafi heimildarmaður eða höfundur óskað nafnleyndar. Samkvæmt 2. mgr. er starfsmönnum fjölmiðlaveitu jafnframt óheimilt í slíkum tilvikum að láta af hendi gögn sem hafa að geyma upplýsingar um heimildarmann eða höfund. Samkvæmt 3. mgr. verður heimildarvernd samkvæmt 1. og 2. mgr. einungis aflétt með samþykki viðkomandi heimildarmanns eða á grundvelli 119. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

 3. Samkvæmt endurritum af framburði vitnanna Inga Freys Vilhjálmssonar og Jóhanns Páls Jóhannssonar fyrir héraðsdómi voru þeir ekki spurðir að því hvort heimildarmaður Stundarinnar hefði óskað nafnleyndar. Kemur því ekki til álita hvort þeim hefði verið skylt að svara slíkri spurningu. Slíkri spurningu var hins vegar beint til vitnisins Ingibjargar Daggar Kjartansdóttur, ritstjóra og blaðamanns. Hún svaraði því til að hún gæti ekki tjáð sig um neitt sem varðaði heimildarmenn. Nánar aðspurð svaraði hún því til að hún yrði bara að vísa til 25. greinar.

 4. Með hliðsjón af atvikum máls þessa, öðrum spurningum um heimildarmenn og gögn sem lagðar voru fyrir Ingibjörgu Dögg svo og með vísan til inntaks 25. gr. laga nr. 38/2011 verður fallist á með stefndu að svar hennar við umræddri spurningu verði að túlka með þeim hætti að hún hafi talið sér óheimilt með vísan til 25. gr. laga nr. 38/2011 að svara spurningum um heimildarmann af þeirri ástæðu að höfundur hefði óskað nafnleyndar.

 5. Ekki verður fallist á með áfrýjanda að upplýst hafi verið að Jon Henley teljist hafa verið heimildarmaður stefndu í skilningi 25. gr. laga nr. 38/2011 og að þar sem hann hafi ekki óskað nafnleyndar hafi vitnin ekki getað borið fyrir sig vernd heimildarmanna samkvæmt fyrrnefndu ákvæði og a-lið 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991. 

 6. Með skírskotun til framangreinds og að öðru leyti með vísan til forsendna í úrskurðum héraðsdóms 5. janúar 2018, þar sem hafnað var kröfum áfrýjanda um að vitnin Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, Ingi Freyr Vilhjálmsson og Jóhann Páll Jóhannsson svöruðu nánar tilgreindum spurningum, eru úrskurðirnir staðfestir.

 7. Með vísan til framangreindrar niðurstöðu verður aðalkröfu áfrýjanda um ómerkingu á hinum áfrýjaða dómi og heimvísun málsins hafnað.

 8. Eins og fram kemur í forsendum héraðsdóms vegast á í máli þessu tvenns konar mikilvæg mannréttindi sem njóta verndar stjórnarskrárinnar, annars vegar tjáningarfrelsi stefndu sem nýtur verndar 2. mgr., sbr. 3. mgr. 73. gr. og hins vegar réttur viðskiptamanna áfrýjanda til friðhelgis einkalífs sem nýtur verndar 1. mgr., sbr. 3. mgr. 71. gr.

 9. Með vísan til gagna málsins er fallist á þær forsendur héraðsdóms að umfjöllun Stundarinnar hafi í megindráttum beinst að viðskiptaháttum í einum af stóru viðskiptabönkunum fyrir fall þeirra 2008 og viðskiptaumsvifum þáverandi forsætisráðherra og lögaðila og einstaklinga sem tengdust honum fjölskylduböndum og/eða í gegnum viðskipti sem jafnframt tengdust eða voru fjármögnuð af umræddum banka. Enda þótt komið hafi fram í umfjöllun þessa stefnda upplýsingar um einstaklinga og lögaðila, svo sem kennitölur og heimilisföng, sem rétt hefði verið að afmá, verður ekki dregið í efa að umfjöllunin átti að stærstum hluta erindi til almennings á þeim tíma sem hún var sett fram í aðdraganda þingkosninga. Með vísan til forsendna héraðsdóms er fallist á að ekki verði dregnar þær ályktanir af umfjölluninni að ætlunin hafi verið að nýta þau bankagögn sem stefndu höfðu undir höndum og njóta verndar samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002 til þess að fjalla um fjárhagsmálefni einstaklinga sem ekki eiga erindi til almennings.

 10. Með skírskotun til framangreindra athugasemda en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður ekki fallist á varakröfur áfrýjanda fyrir Landsrétti og verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms um þær staðfest eins og nánar greinir í dómsorði.

 11. Niðurstaða hins áfrýjaða dóms um málskostnað í héraði verður staðfest.

 12. Áfrýjanda verður gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Landsrétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um þær kröfur sem dæmdar voru að efni til í héraði svo og um málskostnað.

Áfrýjandi, Glitnir HoldCo ehf. greiði stefndu, Útgáfufélaginu Stundinni ehf. og Reykjavík Media ehf., hvorum um sig 1.200.000 krónur í málskostnað fyrir Landsrétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2018

 

I.

Mál þetta var þingfest 31. október 2017 og dómtekið 5. janúar 2018.

 

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru aðallega:

Að staðfest verði lögbann það sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lagði 16. október 2017 við því að stefndi Útgáfufélagið Stundin ehf. birti fréttir eða aðra umfjöllun, sem byggð er á eða unnin upp úr gögnum eða kerfum stefnanda, sem undiropin eru trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

Að staðfest verði lögbann það sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lagði 16. október 2017 við því að stefndi Reykjavik Media ehf. birti fréttir eða aðra umfjöllun, sem byggð er á eða unnin upp úr gögnum úr fórum eða kerfum stefnanda, sem undiropin eru trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

Að viðurkennt verði að stefnda, Útgáfufélaginu Stundinni ehf., sé óheimilt að birta og/eða fá birtar fréttir eða aðra umfjöllun sem byggð er á eða unnin upp úr gögnum úr fórum eða kerfum stefnanda og undiropin eru trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

Að viðurkennt verði að stefnda, Reykjavik Media ehf., sé óheimilt að birta og/eða fá birtar fréttir eða aðra umfjöllun sem byggð er á eða unnin upp úr gögnum úr fórum eða kerfum stefnanda og undiropin eru trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

Að stefnda, Útgáfufélaginu Stundinni ehf., verði gert að afhenda stefnanda öll gögn og afrit af þeim sem hann hefur í fórum sínum, hvort sem þau eru á rafrænu eða öðru formi, sem koma úr fórum eða kerfum stefnanda.

Að stefnda, Reykjavik Media ehf., verði gert að afhenda stefnanda öll gögn og afrit af þeim sem hann hefur í fórum sínum, hvort sem þau eru á rafrænu eða öðru formi, sem koma úr fórum eða kerfum stefnanda.

 

Til vara krefst stefnandi:

Að staðfest verði lögbann það sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lagði 16. október 2017 við því að stefndi Útgáfufélagið Stundin ehf. birti fréttir eða aðra umfjöllun, sem byggð er á eða unnin upp úr gögnum eða kerfum stefnanda, sem undiropin eru trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, að því er varðar alls 1013 skjöl sem tilgreind eru í bókun sem lögð var fyrir dóminn 18. desember 2017.

Að staðfest verði lögbann það sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lagði 16. október 2017 við því að stefndi Reykjavik Media ehf. birti fréttir eða aðra umfjöllun, sem byggð er á eða unnin upp úr gögnum úr fórum eða kerfum stefnanda, sem undiropin eru trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, að því er varðar alls 1013 skjöl sem tilgreind eru í bókun sem lögð var fyrir dóminn 18. desember 2017.

Að viðurkennt verði að stefnda, Útgáfufélaginu Stundinni ehf., sé óheimilt að birta og/eða fá birtar fréttir eða aðra umfjöllun sem byggð er á eða unnin upp úr alls 1013 skjölum úr fórum eða kerfum stefnanda sem tilgreind eru í bókun sem lögð var fyrir dóminn 18. desember 2017.

Að viðurkennt verði að stefnda, Reykjavik Media ehf., sé óheimilt að birta og/eða fá birtar fréttir eða aðra umfjöllun sem byggð er á eða unnin upp úr alls 1013 skjölum úr fórum eða kerfum stefnanda sem tilgreind eru í bókun sem lögð var fyrir dóminn 18. desember 2017.

Að stefnda, Útgáfufélaginu Stundinni ehf., verði gert að afhenda stefnanda alls 1013 skjöl úr fórum eða kerfum stefnanda sem tilgreind eru í bókun sem lögð var fyrir dóminn 18. desember 2017, hvort sem þau eru á rafrænu eða öðru formi.

Að stefnda, Reykjavik Media ehf., verði gert að afhenda stefnanda alls 1013 skjöl úr fórum eða kerfum stefnanda sem tilgreind eru í bókun sem lögð var fyrir dóminn 18. desember 2017, hvort sem þau eru á rafrænu eða öðru formi.

 

Í öllum tilvikum krefst stefnandi að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu að mati dómsins.

Stefndi, Útgáfufélagið Stundin ehf., krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar að skaðlausu, auk álags á málskostnað.

Stefndi, Reykjavik Media ehf., krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar að skaðlausu, auk álags á málskostnað.

 

II. Málavextir

Stefnandi, sem áður hét Glitnir banki hf., hélt úti almennri bankastarfsemi, þ.m.t. innlána- og fjárfestingarbankastarfsemi á grundvelli laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar bankans 7. október 2008 á grundvelli 100. gr. a í lögum nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, og skipaði bankanum skilanefnd. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008 voru tilteknar eignir og skuldir bankans færðar til nýs banka, Nýja Glitnis hf. Stefnandi átti þó áfram öll gögn sem höfðu tilheyrt starfsemi hans.

Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði stefnanda slitastjórn 11. maí 2009, á grundvelli 101. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. lög nr. 44/2009, til þess að annast slitameðferðina, sem síðar var staðfest með úrskurði héraðsdóms 22. nóv­em­ber 2010. Nauðasamningur komst á með stefnanda og kröfuhöfum hans 14. desember 2015. Á hluthafafundi stefnanda, sem haldinn var 23. desember 2015, var ákveðið að breyta félagaformi stefnanda í einkahlutafélag og breyta nafni hans í Glitni HoldCo ehf.

Stefndi, Útgáfufélagið Stundin ehf., er fjölmiðlafyrirtæki, sem gefur út dagblaðið Stundina og heldur úti vefsíðunni www.stundin.is. Stefndi er fjölmiðill samkvæmt 13. tölulið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 38/2011, um fjölmiðla.

Stefndi, Reykjavik Media ehf., sem heldur úti vefsíðunni www.rme.is, er einnig fjölmiðill samkvæmt 13. tölulið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 38/2011.

Í desember 2016 var í fjölmiðlum fjallað um viðskipti dómara við Hæstarétt Íslands sem tengdust stefnanda. Umfjöllunin hófst með frétt um hlutafjáreign Markúsar Sigurbjörnssonar, þáverandi forseta réttarins, sem birt var á heimasíðu Ríkisútvarpsins 5. desember 2016. Þeirri umfjöllun var fylgt eftir með umfjöllun í Kastljósi Ríkisútvarpsins og í kvöldfréttum Stöðvar 2 að kvöldi þess sama dags. Í kjölfarið fylgdi frekari umfjöllun um fjárhagsleg málefni dómara við Hæstarétt og Sigríðar Logadóttur, aðallögfræðings Seðlabanka Íslands.

Í október 2017 voru birtar fréttir á vef og í dagblaði stefnda, Útgáfufélags Stundarinnar ehf., sem sagðar voru afrakstur samvinnu blaðamanna stefnda, Útgáfufélags Stundarinnar ehf., stefnda, Reykjavik Media ehf., og breska fjölmiðilsins Guardian. Samkvæmt fréttaumfjölluninni sjálfri byggði hún á gögnum „innan úr Glitni banka“. Í fréttunum var fjallað ítarlega um viðskipti nafngreindra viðskiptamanna stefnanda og tölvupóstsamskipti þeirra við bankann, sem og innbyrðis tölvupóstsamskipti fyrrverandi starfsmanna stefnanda um viðskiptamenn hans.

Fyrsta umfjöllunin birtist 6. október 2017 í prentaðri útgáfu Stundarinnar en þar var fjallað um viðskipti Bjarna Benediktssonar, föður hans og föðurbróður, dagana fyrir hrun bankakerfisins. Í fréttinni sagði að Bjarni hefði selt fyrir rúmlega 50 milljónir króna í Sjóði 9 hjá Glitni banka á tímabilinu 2. til 6. október árið 2008 og þannig bjargað sjálfum sér frá því að tapa peningum í bankahruninu dagana á eftir.

Í kjölfarið birti stefndi, Útgáfufélag Stundarinnar ehf., reglulega fréttir um fjárhagsleg málefni þáverandi forsætisráðherra, Bjarna Benediktssonar. Í þeirri umfjöllun var einnig fjallað um fjárhagsleg málefni annarra einstaklinga, sem ýmist tengjast fyrrverandi forsætisráðherra fjölskylduböndum eða hafa starfað með honum á vettvangi viðskiptalífsins. Meðal þeirra eru Benedikt Sveinsson, Einar Sveinsson, Benedikt Einarsson, Guðrún Sveinsdóttir, Ingimundur Sveinsson, Jón Benediktsson, Sveinn Benediktsson, Hermann Guðmundsson, Hjalti Geir Kristjánsson, Guðbjörg Edda Eggertsdóttir og Ásta Sigríður Einarsdóttir.

Í fréttunum var einnig fjallað um fjárhagsleg málefni lögaðila sem höfðu verið viðskiptamenn stefnanda, til að mynda N1 hf., Hrómund ehf., Hafsilfur ehf., BNT hf., Hæng ehf. og Hólm ehf. Voru þar birtar viðskiptakvittanir úr kerfum stefnanda og skjáskot úr kerfum stefnanda sem sýndu persónuupplýsingar, upplýsingar um fjármál og upplýsingar um viðskipti viðskiptamanna hans. Auk þess voru birt tölvuskeyti og endurrit tölvuskeyta, bæði innbyrðis milli starfsmanna stefnanda og milli starfsmanna stefnanda og viðskipta­manna hans. Jafnframt voru birt vinnugögn úr fórum stefnanda, þ.m.t. minnisblöð og drög að bréfum sem aldrei voru send út.

Stefnandi kveður að sér hafi þá orðið ljóst að þær upplýsingar sem stefndu hefðu undir höndum væru ekki aðgengilegar almenningi. Umfjöllunin væri byggð á gögnum sem stöfuðu frá stefnanda og væru undirorpnar trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að stefndu hafi birt hluta af þeim gögnum sem þeir hafi sagst hafa undir höndum í umfjöllun sinni en í öðrum tilvikum hafi stefndu vísað til og fjallað um efni gagnanna án þess að birta gögnin sjálf. Stefnandi vísar til þess að frá 6. október 2017 til 13. október sama ár, þegar stefnandi lagði fram beiðni um lögbann hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, hafi verið birtar um tíu fréttir á vefnum stundin.is sem byggðar hafi verið á trúnaðargögnum í eigu stefnanda. Auk þess hafi fjórar opnur í dagblaðinu Stundinni, sem gefið var út 6. október 2017, verið unnar upp úr gögnunum. Aðrir miðlar hafi unnið fréttir úr framangreindri umfjöllun, svo sem Morgunblaðið (mbl.is), Fréttablaðið (visir.is), DV (dv.is), Ríkissjónvarpið (ruv.is) og erlendir fjölmiðlar. Stefnandi vísar einnig til þess að 6. október 2017 birti breski fjölmiðillinn Guardian frétt sem sögð var byggja á sömu gögnum. Fyrir liggur að engar frekari fréttir voru birtar upp úr gögnunum af hálfu Guardian.

Eftir að stefnandi lagði fram lögbannsbeiðni hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu birtust tvær fréttir til viðbótar á vefnum www.stundin.is, 14. og 16. október 2017. Stefnandi kveður því að alls hafi birst a.m.k. tólf fréttir á vefnum www.stundin.is og fjórar opnur í dagblaðinu Stundinni, sem byggi á gögnum í eigu stefnanda og undirorpnar séu trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002.

Stefnandi tilkynnti um gagnaleka til Fjármálaeftirlitsins að morgni 13. október 2017. Kveðst stefnandi hafa fengið það staðfest að upplýsingarnar einskorðuðust ekki við þá einstaklinga sem þegar hefði verið fjallað um heldur væru þetta upplýsingar um þúsundir fyrrverandi og núverandi viðskiptamanna stefnanda, þar með talið upplýsingar um viðskipti aðila í einkabankaþjónustu, viðskipti aðila með hlutabréf í Glitni á árunum 2003 til 2008 og upplýsingar um viðskipti einstaklinga og lögaðila í sjóðum sem stefnandi hafi rekið. Stefnandi kveður upplýsingarnar ná yfir nokkurra ára tímabil og að þær séu verulega ítarlegar. Þetta séu meðal annars hreyfingalistar, útprentanir, vinnuskjöl, viðskiptayfirlit og tölvuskeyti fjölda starfsmanna. Vegna þessa hafi stefnandi talið nauðsynlegt að grípa strax til aðgerða.

Rétt fyrir lok vinnudags 13. október 2017 krafðist stefnandi þess lögbanns sem nú er krafist staðfestingar á. Fulltrúi sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu og lögmaður stefnanda komu á ritstjórnarskrifstofu stefnda, Útgáfufélags Stundarinnar ehf., 16. október 2017, til þess að taka fyrir lögbannsbeiðni stefnanda, dagsetta 13. október 2017.

Af hálfu beggja stefndu er því haldið fram að fyrirtökur lögbannsbeiðninnar hafi verið fyrirvaralausar og gerðar í miklum flýti. Stefndu hafi þannig ekki verið tilkynnt um fyrirtökur lögbannsbeiðninnar, með vísan til 3. töluliðar 3. mgr. 21. gr. laga nr. 90/1989, um aðför, sbr. 3. mgr. 26. gr. og 4. mgr. 8. gr. laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl.

Samkvæmt endurriti úr gerðarbók sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu var beiðni stefnanda um lögbann á hendur stefnda Útgáfufélaginu Stundinni ehf. tekin fyrir kl. 16:15. Kemur þar fram að fyrirsvarsmaður stefnda, Jón Trausti Reynisson, hafi hist fyrir á skrifstofum stefnda og hann hafi lagt fram eftirfarandi skrifleg mótmæli:

„Ákvörðun sýslumanns um lögbann á umfjöllun um viðskipti þingmanns, sem nú er forsætisráðherra, er gríðarlegt inngrip inn í opinbera umræðu í lýðræðisríki. Hún er einnig óréttlætanleg valdbeiting gegn stjórnarskrárbundnu tjáningarfrelsi.

Fordæmi eru fyrir því að umfjöllun byggð á gögnum úr bankakerfinu, svokölluðum Panama-skjölum, hafi haft afgerandi áhrif á stjórnmálaumræðu í landinu. Upplýsingar um viðskipti kjörinna fulltrúa samhliða trúnaðarstörfum þeirra fyrir almenning eiga erindi til almennings.

Hagsmunir almennings og opinberrar umræðu eru ríkari en hagsmunir fjármálafyrirtækja af því að halda leynd yfir viðskiptum í aðdraganda [hruns] bankakerfisins á Íslandi.

Fulltrúar sýslumanns og lögmaður Glitnis mættu fyrirvaralaust á skrifstofu ritstjórnar Stundarinnar til þess að takmarka tjáningarfrelsi og upplýsingafrelsi.

Mikið ójafnræði er á milli málsaðila í málinu. Annars vegar er fjármálafyrirtæki með gríðarlega fjármuni að baki sér. Hins vegar er lítið fjölmiðlafyrirtæki sem býr við erfitt rekstrarumhverfi. Fjölmiðillinn hefur ekki fengið tækifæri til að undirbúa málsvörn sína, líkt og fjármálafyrirtækið. Þá hefur Glitnir þegar sent út fréttatilkynningu um málið án þess að ritstjórnin eða fjölmiðlafyrirtækið hafi fengið tækifæri til að koma á framfæri sínu sjónarmiði í opinberri umræðu.“

 

Í gerðabók sýslumannsins er ekki tekin afstaða til þessara mótmæla heldur einungis bókað að sýslumaður leggi að kröfu stefnanda lögbann við því að stefndu „birti fréttir eða aðra umfjöllun, sem byggð er á eða unnin upp úr gögnum eða kerfum gerðarbeiðanda, sem undirorpin eru trúnaði skv. 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki“. Í framhaldinu kemur fram að stefnda hafi verið leiðbeint um þýðingu lögbannsins og mættu kynnt efni bókunarinnar. 

Sama dag komu fulltrúi sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu og lögmaður stefnanda á ritstjórnarskrifstofu stefnda, Reykjavik Media ehf., sem einnig er heimili fyrirsvarsmanns félagsins og tóku fyrir lögbannsbeiðni stefnanda, dagsetta 13. október 2017. Samkvæmt gerðabók sýslumanns mótmæli fyrirsvarsmaður félagsins kröfu stefnanda. Þá mótmælti hann eigin aðild og aðild stefnanda að málinu. Vísaði hann þá til þess að það væri Stundin sem hefði birt þær fréttir sem lögbannið beindist gegn en ekki Reykjavík Media ehf. Stefnandi hefði því ekki lögvarða hagsmuni af því að fá lögbann á hendur Reykjavík Media. Þá var kröfu stefnanda mótmælt efnislega.

Í framhaldinu kemur fram að stefnda hafi verið leiðbeint um þýðingu lögbannsins og mættu kynnt efni bókunarinnar. Í gerðabók sýslumannsins var ekki tekin afstaða til þessara mótmæla heldur lögbannið staðfest með sama hætti og gagnvart stefnda Útgáfufélaginu Stundinni ehf. og tekið fram að stefnda hefði verið leiðbeint um þýðingu lögbannsins.

Mál þetta er höfðað til staðfestingar dómstóla á framangreindu lögbanni.

 

III. Málsástæður aðila

 

Málsástæður stefnanda

Stefnandi byggir kröfu sína um lögbann á því að umfjöllunin byggi á gögnum sem samkvæmt stefndu sjálfum stafi frá stefnanda og varði fjármuni og viðskipti nafngreindra viðskiptamanna hans. Stefnandi telur ljóst að umræddum gögnum hafi verið stolið frá honum. Það sjáist meðal annars á því að í fréttaflutningi stefndu hafi verið vísað til draga að riftunarbréfi til eins viðskiptamanna stefnanda sem stefnandi hafði undirbúið en ekki sent frá sér.

Stefnandi telur að gögn um framangreind drög að riftunarbréfi geti ekki stafað frá neinum öðrum en honum. Sama eigi við um skjáskot og skjöl úr kerfum stefnanda og tölvuskeyti milli fyrrverandi starfsmanna stefnanda, sem stefndu hafi birt með umfjöllun sinni. Mörg þessara gagna hafi ekki verið send til aðila sem staðið hafi utan stefnanda og gögnin hafi því ekki verið aðgengileg almenningi. Stefnandi viti ekki hver hafi staðið að því að koma umræddum gögnum í hendur stefndu, í trássi við þagnarskyldu laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, en það sé til rannsóknar hjá embætti héraðs­saksóknara.

Stefnandi kveður að fyrirhuguð hafi verið frekari umfjöllun sem byggi á umræddum gögnum og vísar um það til þess að í umfjöllun Guardian hafi komið fram að umfjöllunin sé unnin úr gríðarlega miklu magni af gögnum sem blaðamenn allra miðlanna þriggja hafi aðgang að. Ritstjóri og framkvæmdastjóri stefnda, Útgáfufélags Stundarinnar ehf., Jón Trausti Reynisson, hafi með innleggi á Facebook-vegg sinn, 11. október 2017, skrifað: „Umfjöllun Stundarinnar um gögn sem fengin eru með samstarfi við The Guardian og Reykjavik media heldur áfram. [...]“ Stefnandi vísar einnig til þess að blaðamaður Stundarinnar, Jóhann Páll Jóhannsson, hafi með innleggi á Facebook-vegg sinn, 13. október 2017, skrifað: „Stundin heldur áfram fréttaflutningi af viðskiptum [...]. Gögnin sem Stundin og The Guardian hafa unnið upp úr varpa ljósi á [...].“ Stefnandi telur að þetta hafi gefið skýrt til kynna að umfjöllun stefndu hafi ekki verið lokið heldur hafi þeir enn verið að vinna úr hinum stolnu gögnum og að frekari frétta byggðum á þeim hafi verið að vænta. Það hafi verið staðfest með innleggi Jóhanns Páls á Facebook-vegg hans, eftir samþykkt lögbannsins 16. október 2017, þar sem hann skrifaði: „Við getum því miður ekki birt fleiri fréttir upp úr Glitnisgögnunum að sinni. [...]“ Þessi fyrirætlun stefndu hafi einnig verið staðfest með ummælum Jóns Trausta Reynissonar, meðal annars í frétt á www.visir.is 17. október 2017. Í fréttinni hafi verið haft eftir Jóni Trausta að umfjöllun stefndu um gögn frá stefnanda hafi ekki verið lokið.

Stefnandi telur að ljóst sé af fréttaflutningi stefndu að þeir hafi undir höndum umtalsvert magn gagna um viðskipta- og einkamálefni fyrrverandi og núverandi viðskiptamanna stefnanda. Stefndu hafi í umfjöllun sinni birt slík gögn og/eða upplýsingar sem unnar hafi verið upp úr gögnunum. Þá hafi verið ljóst að slíkri umfjöllun yrði fram haldið. Hafi stefnanda því verið nauðsynlegt að krefjast lögbanns við háttsemi stefndu 13. október 2017.

 

Um aðild stefndu

Stefnandi byggir á því að báðum stefndu sé réttilega stefnt í málinu. Í umfjöllun Stundarinnar hafi komið fram að fréttir hafi verið unnar upp úr gögnum innan úr stefnanda í samstarfi við stefnda, Reykjavik Media ehf., og breska blaðið Guardian. Því sé ljóst að báðir stefndu hafi gögn stefnanda undir höndum og að báðir hafi unnið að fréttaflutningi byggðum á þeim.

Stefnandi kveður aðild stefndu til varnar byggja á 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Ljóst sé að skilyrði ákvæðisins séu fyrir hendi enda eigi kröfur hans rætur að rekja til sömu atvika og aðstöðu, þ.e. haldi stefndu á gögnum sem frá stefnanda stafa og vinnslu og birtingu upplýsinga úr þeim.

 

Um staðfestingu lögbanns

Stefnandi byggir kröfur sínar um staðfestingu lögbanns á því að öllum lagaskilyrðum 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl., fyrir álagningu lögbanns hafi verið fullnægt og því hafi sýslumaðurinn á höfuðborgar­svæðinu réttilega lagt lögbann við athöfnum stefndu í samræmi við 1. og 2. tölulið dómkrafna stefnanda.

Hvað varði fyrsta skilyrðið um yfirvofandi eða byrjaða athöfn, þá leiki ekki vafi á að stefndu hafi þegar hafið þá athöfn sem lögbannsbeiðnin nái til og að frekari athafnir hafi verið yfirvofandi. Þannig hafi stefndu þegar verið búnir að birta fjölmargar fréttir sem byggðar hafi verið á gögnum í eigu stefnanda, sem bundin séu bankaleynd samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Í þeim fréttum hafi verið fjallað um og birt gögn um viðskipta- og einkamálefni fyrrverandi og núverandi viðskiptamenn stefnanda. Stefndu hafi því komið á ákveðnu ástandi sem einungis hafi verið hægt að stöðva með lögbanni, samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990.

Stefnandi vísar einnig til þess að stefndu og starfsmenn þeirra hafi auk þess lýst því yfir að von væri á frekari fréttaumfjöllun sem byggði á gögnunum. Stefndu hafi síðan staðfest þetta eftir að lögbann hafi verið lagt á með yfirlýsingum um að þeir hafi ekki verið búnir að birta allt það sem þeir hafi viljað úr umræddum gögnum. Frekari athafnir, sem brotið hefðu gegn réttindum stefnanda, hafi því verið yfirvofandi í skilningi 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990.

Stefnandi byggir á því að birting stefndu á fréttum og annarri umfjöllun, sem byggð hafi verið á eða unnin upp úr gögnum eða kerfum stefnanda, sé í andstöðu við 58. gr. laga nr. 161/2002 og ákvæði laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Í því sambandi vísar stefnandi til þess að þær upplýsingar sem stefndu hafi yfir að búa um stefnanda og fyrrverandi og núverandi viðskiptamenn hans njóti verndar 71. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, um friðhelgi einkalífs. Birting stefndu á upplýsingum úr gögnunum brjóti því gegn stjórnarskrárvörðum réttindum stefnanda og fyrrverandi og núverandi viðskiptamanna hans.

Að mati stefnanda geti áframhaldandi birting upplýsinga úr gögnum sem stafi frá stefnanda mögulega leitt til skaðabótaskyldu hans. Hafi sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu því verið rétt að leggja lögbann við athöfnum stefndu til að tryggja að ekki yrði frekar brotið gegn rétti stefnanda. Um frekari málsástæður og lagarök um lögvarinn rétt stefnanda sé vísað í heild til þeirrar umfjöllunar sem hér á eftir kemur.

Þá byggir stefnandi á því að réttarreglur um refsingu og skaðabætur tryggi ekki nægilega rétt stefnanda og að réttindi hans fari forgörðum yrði beðið dóms. Einnig byggir stefnandi á því að ekki sé stórfelldur munur á hagsmunum stefnanda og stefndu. Stefnandi kveður það útilokað að hann hefði getað tryggt hagsmuni sína og fyrrverandi og núverandi viðskiptamanna sinna með öðrum hætti en lögbanni og að réttindi þeirra allra hefðu farið forgörðum eða orðið fyrir teljandi spjöllum hefði ekki verið fallist á lögbannsbeiðni stefnanda. Skilyrði 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 séu uppfyllt hvað þetta varðar. Vísar stefnandi til þess að tvær fréttir hafi verið birtar sem byggt hafi á umræddum gögnum frá því að stefnandi hafi krafist lögbannsins 13. október 2017 þar til að fallist hafi verið á kröfur hans 16. s.m.

Með lögbanninu hafi stefnandi, sem eigandi og ábyrgðarmaður þeirra gagna sem frá honum stafi, leitast við að koma í veg fyrir frekari brot gegn 58. gr. laga nr. 161/2001, ákvæðum laga nr. 77/2000 og réttindum stefnanda og fyrrverandi og núverandi viðskiptamanna hans samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Stefndi, Útgáfufélag Stundarinnar ehf., hafi áður en lögbannið var sett birt nær daglega fréttir sem unnar hafi verið úr gögnunum, í samstarfi við stefnda, Reykjavik Media ehf. Legið hafi fyrir að umfjöllun á grundvelli gagnanna yrði haldið áfram.

Stefnandi vísar til þess að umrædd gögn séu ekki aðgengileg almenningi enda hafi þau að geyma upplýsingar sem undiropnar séu þagnarskyldu. Birting þeirra á almennum vettvangi hefði fyrirgert þeim trúnaði sem þeim sé tryggður með lögum. Reglur um refsingu eða skaðabætur hefðu því ekki getað tryggt rétt stefnanda. Eina úrræðið sem hafi komið til greina til að tryggja trúnað um upplýsingarnar hafi verið að koma í veg fyrir birtingu þeirra.

Stefnandi byggir einnig á því að sú vernd sem reglur skaðabótaréttar veiti sé ekki til þess fallin að tryggja hagsmuni hans nægilega. Til dæmis liggi ekki fyrir hver beri ábyrgð á því að gögnin hafi komist í hendur stefndu. Þá verði jafnframt að telja verulegum annmörkum háð fyrir stefnanda að sýna fram á að skilyrðum skaðabótaskyldu stefndu sé fullnægt. Auk þessa verði að telja verulegan vafa leika á því hvort stefndu hefðu bolmagn til að bæta það tjón sem kunni að verða vegna birtingu gagnanna og upplýsinga úr þeim. Í því sambandi vísar stefnandi til þess að samkvæmt ársreikningum stefndu fyrir árið 2016 sé eiginfjárstaða þeirra veik. Eigið fé stefnda, Útgáfufélags Stundarinnar ehf., hafi verið jákvætt um 2.887.804 krónur í lok árs 2016 og eigið fé stefnda, Reykjavik Media ehf., jákvætt um 5.609.116 krónur. Einnig verði að líta til þess að þótt ljóst megi vera að um fjárhagslegt tjón sé að ræða þá sé illmögulegt að segja til um hvert tjón af birtingu efnisins kunni að verða. Til að mynda er erfitt að áætla um hversu marga viðskiptamenn stefnanda upplýsingar hefðu verið birtar án lögbanns. Vísar stefnandi til þess að í nýlegri frétt stefndu hafi verið að finna upplýsingar um lánveitingar til svokallaða „Engeyinga“ og viðskiptafélaga þeirra. Þar hafi verið að finna upplýsingar um lánveitingar til einstaklinga, kennitölur þeirra og reikningsnúmer. Þá sé erfitt að mæla það tjón á ímynd og orðspori stefnanda sem af háttsemi stefndu hlýst. Af þeim sökum leiði ólögmæt háttsemi stefndu til skerðingar á réttindum stefnanda og fyrrverandi og núverandi viðskiptamanna stefnanda þannig að ekki verði bætt úr síðar.

Stefnandi vísar til þess að almennar reglur skaðabótaréttarins leggi þær skyldur á tjónþola að hann takmarki tjón sitt eftir föngum. Það hafi því verið nauðsynlegt fyrir stefnanda að grípa til þeirra úrræða sem honum voru tæk, þar á meðal að óska eftir lögbanni til að stöðva yfirvofandi athafnir sem leitt hafi getað til frekara tjóns af völdum gagnalekans.

Að öllu framansögðu virtu kveðst stefnandi hafa sýnt fram á að uppfyllt séu skilyrði 24. gr. laga nr. 31/1990 og því beri að taka til greina 1. og 2. lið dómkrafna hans um staðfestingu lögbannsins.

 

Um kröfur stefnanda um að viðurkennt verði að stefndu sé óheimilt að birta og/eða fá birtar fréttir eða aðra umfjöllun sem byggð er á eða unnin upp úr gögnum úr fórum eða kerfum stefnanda.

Stefnandi vísar til þess að samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, séu stjórnarmenn fjármálafyrirtækis, framkvæmdastjórar, endurskoðendur, starfsmenn og hverjir þeir sem taka að sér verk í þágu fyrirtækisins, bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa síns og varði viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna þess, nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt lögum. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar sé sá sem veiti viðtöku upplýsingum af því tagi sem í 1. mgr. greini bundinn þagnarskyldu með sama hætti og þar greini. Stefnandi byggir á því að orðalag ákvæðisins sé fortakslaust og það taki til allra sem veiti slíkum upplýsingum viðtöku. Engin takmörk séu sett við tiltekinn flokk viðtakenda og eigi ákvæðið því einnig við um blaðamenn. Þá sé ekkert að finna í lögskýringagögnum sem gefi til kynna að gildissvið ákvæðisins sé takmarkað hvað varði viðtakendur upplýsinganna. Því verði að túlka ákvæðið eftir orðanna hljóðan þannig að það taki til fjölmiðla líkt og annarra.

Stefnandi byggir á því að ekki sé nægjanlegt fyrir hann að fara fram á að stefndu sjálfum sé óheimilt að birta fréttir sem byggi á umræddum gögnum, heldur hafi hann einnig lögvarða hagsmuni af því að fá viðurkennt með dómi að stefndu sé óheimilt að fá birtar eða láta birta, á öðrum miðlum, fréttir sem byggi á gögnunum. Vísar stefnandi til þess að stefndi, Reykjavik Media ehf., hafi í umfjöllun um annað mál unnið með Kastljósi Ríkisútvarpsins að flutningi frétta og afrakstur þeirrar vinnu hafi verið birtur á vettvangi Kastljóss. Því sé það einnig nauðsynlegt að viðurkennt verði með dómi að stefndu sé ekki aðeins óheimilt að birta umfjöllun byggða á gögnunum á sínum eigin vettvangi, hvort heldur sé í prent- eða vefútgáfum, heldur einnig að þeim sé óheimilt að birta slíka umfjöllun í samstarfi við aðra miðla á vettvangi þeirra.

Stefnandi kveður að þau gögn sem málið varði innihaldi upplýsingar um viðskipta- og einkamálaefni viðskiptamanna stefnanda sem starfað hafi sem fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum nr. 161/2002 þegar upplýsingarnar hafi orðið til. Gögnin innihaldi upplýsingar um viðskipti þúsunda fyrrverandi og núverandi viðskiptamanna stefnanda, þar með talið um viðskipti aðila í einkabankaþjónustu, viðskipti aðila með hlutabréf í Glitni á árunum 2003 til 2008 og um viðskipti einstaklinga og lögaðila í sjóðum sem stefnandi hafi rekið. Nái upplýsingarnar yfir nokkurra ára tímabil. Nánar tiltekið sé um að ræða hreyfingalista, útprentanir, vinnuskjöl, viðskiptayfirlit, tölvupósta o.fl. Það sé því ljóst að afhending gagnanna til stefndu hafi brotið gegn 58. gr. laga nr. 161/2002 enda sé afhending upplýsinganna sem þar greini óheimil nema að skylt sé að veita þær samkvæmt lögum. Jafnframt sé ljóst að birting stefndu á umræddum gögnum, ásamt fréttum og annarra umfjöllun byggða á gögnunum, sé í andstöðu við ákvæði 1. og 2. mgr. 58. gr. laganna. Sá sem móttaki upplýsingar sem þar greini sé enda bundinn af trúnaði með sama hætti og starfsmenn fjármálafyrirtækis. Í athugasemdum við ákvæði 58. gr. í frumvarpi að lögum nr. 161/2002 komi fram að miðlun trúnaðarupplýsinga leiði ekki til þess að trúnaðinum sé aflétt gagnvart öðrum en móttakanda upplýsinganna. Þá telur stefnandi að gögnin hafi borið með sér að stafa frá fjármálafyrirtæki og að þau væru undirorpin trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002. Því geti stefndu ekki talist hafa verið í góðri trú um að þeim væri heimilt að greina frá þeim.

Stefnandi kveður þær upplýsingar sem stefndu hafi yfir að búa um starfsemi hans og fyrrverandi og núverandi viðskiptamenn hans njóti verndar 71. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, til friðhelgi einkalífs. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hafi verið staðfest að á aðildarríkjum hvíli ekki aðeins skylda til þess að forðast að brjóta gegn friðhelgi einkalífsins heldur og jafnframt almenn skylda til þess að tryggja raunhæf réttindi samkvæmt sáttmálanum. Þótt fjölmiðlar njóti almennt verndar tjáningar­frelsisákvæðis 73. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og 1. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, geti þau réttindi ekki ein og sér heimilað stefndu að birta upplýsingar úr ólöglega fengnum gögnum um einkamálefni annarra aðila sem jafnframt njóti ríkrar verndar. Af 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og 2. mgr. 10. gr. mannréttinda­sáttmála Evrópu, leiði jafnframt að heimilt sé að takmarka tjáningarfrelsi að því gefnu að slík takmörkun uppfylli þrjú tiltekin skilyrði. Kveðst stefnandi byggja á því að þau skilyrði séu fyrir hendi.

Stefnandi kveður fyrsta skilyrðið vera að um slíka takmörkun sé mælt í lögum. Þetta skilyrði byggi fyrst og fremst á þeim forsendum að borgurunum þurfi að vera ljósar þær skorður sem þeim séu settar og að þeir geti hagað sér í samræmi við það. Þá megi hin lögmælta takmörkun ekki vera of almenn heldur verði hún að vera bundin við ákveðnar aðstæður eða tilvik, þannig að ekki leiki vafi til hvaða aðstæðna hún nær. Ljóst sé að þetta skilyrði sé fyrir hendi. Þannig sé sérstaklega kveðið á um það í 1. og 2. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 að þeir sem fái upplýsingar um viðskipta- og einkamálaefni viðskiptamanna fjármálafyrirtækja séu bundnir þagnarskyldu. Þessi lögmælta takmörkun á tjáningarfrelsi sé skýr og afmarkað sé við hvaða aðstæður hún gildi.

Stefnandi kveður annað skilyrðið vera að slík takmörkun byggi á lögmætum markmiðum. Í þessu skilyrði felist að takmörkunin verði að vera studd við eitthvert þeirra markmiða sem talin séu í 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, þ.m.t. réttindi og mannorð annarra. Það sé ekki nauðsynlegt að markmiðið sé orðað nákvæmlega í lagaheimildinni sjálfri en það þurfi hins vegar að vera unnt að sýna fram á tengsl þess við 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar. Ljóst sé að þetta skilyrði sé uppfyllt, enda sé ákvæði 58. gr. laga nr. 161/2002 ætlað að vernda réttinn til friðhelgi einkalífs. Sérstaklega sé kveðið á um að þagnarskyldan gildi um allt það sem varði viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna og önnur atriði sem leynt skuli fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hafi verið staðfest að verndun upplýsinga sem undirorpnar séu trúnaði, þ.m.t. viðskipta- og fjárhagsupplýsinga, sé lögmætt markmið. Tilgangur 58. gr. laga nr. 161/2002 sé að vernda réttindi annarra og af því leiði að ákvæðið byggi á lögmætum markmiðum samkvæmt 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar.

Stefnandi kveður þriðja skilyrðið vera að takmörkun á tjáningarfrelsi þurfi að vera nauðsynleg í lýðræðislegu þjóðfélagi. Af dómum Mannréttindadómstóls Evrópu leiði að tjáningarfrelsið sé hvorki algjört né án takmarkana þegar það rekst á önnur réttindi sáttmálans heldur beri ríkinu skylda til þess að meta það hvort slík réttindi réttlæti takmörkun á tjáningarfrelsinu. Ríkið hafi rúmt svigrúm til mats við að finna jafnvægi milli réttinda sem takist á. Stefnandi telji ljóst að þetta skilyrði sé uppfyllt enda hafi löggjafinn talið sérstaka ástæðu til þess að vernda upplýsingar sem safnist hjá fjármálafyrirtækjum um viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna. Í þeirri lagasetningu felist að farið hafi fram mat á hinum gagnstæðu hagsmunum, annars vegar friðhelgi einkalífs og hins vegar tjáningarfrelsi. Það liggi fyrir að stefndu hafi nú þegar með ólögmætum hætti fengið afhentar margs konar og viðkvæmar fjárhags­upplýsingar og upplýsingar um einkamálefni, sem og um eignir og skuldir einstaklinga og lögaðila og um tölvupóstsamskipti einstaklinga við stefnanda. Löggjafinn hafi talið nauðsynlegt að vernda einstaklinga og lögaðila fyrir birtingu slíkra gagna og hafi viðskiptamenn stefnanda því rétt á því lögum samkvæmt að um slík gögn sé ekki fjallað opinberlega eða þau rædd í fjölmiðlum. Stefnandi undirstriki í þessu sambandi að því fari fjarri að allir þeir viðskiptamenn stefnanda sem fjallað hafi verið um í fréttaflutningi stefndu teljist til opinberra persóna. Þvert á móti hafi þar verið að finna persónuupplýsingar og fjárhagsupplýsingar um einstaklinga sem ekki séu opinberar persónur eða gegni opinberum stöðum og eigi ekkert erindi við almenning. Að auki sé að minnsta kosti hluti þeirra upplýsinga sem birtar hafi verið um opinbera persónu ekki þess eðlis að þær falli undir almannahagsmuni og eigi erindi til almennings.

Stefnandi kveður stefndu hafa tekið á móti upplýsingum um þúsundir slíkra einstaklinga og hafi þegar birt upplýsingar um suma þeirra. Undir slíkum kringumstæð­um sé ótækt að telja stefndu heimilt að móttaka og sitja á slíku magni gagna sem undirorpin séu trúnaði og eiga ekkert erindi við almenning og sigta í gegnum þau í leit að fréttaefni. Þótt hluti gagnanna varði opinberar persónur þá sé ljóst að yfirgnæfandi hluti þeirra varði þær ekki. Verði, þegar um jafn umfangsmikinn gagnastuld sé að ræða, að vega hagsmuni hins yfirgnæfandi meirihluta, það er þeirra einstaklinga og lögaðila sem ekki teljist opinberar persónur, þyngra og ekki heimila stefndu umráð gagnanna og leit í þeim að einhverju til birtingar, í andstöðu við lögverndaðan rétt einstaklinga og lögaðila. Stefnandi vísar til þess að öðrum kosti myndu stefndu hafa, um ófyrirséða framtíð, yfir að ráða gríðarlega stórum gagnabanka sem hafi að geyma upplýsingar um viðskipta- og einkamálefni þúsunda einstaklinga og lögaðila.

Stefnandi byggir á því, með vísan til alls framangreinds, að takmörkun 1. og 2. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 á tjáningarfrelsi stefndu uppfylli öll skilyrði 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar.

Stefnandi byggir einnig á því að varðveisla stefndu á gögnum og umfjöllun þeirra um viðskipta- og einkamálefni viðskiptamanna stefnanda feli í sér brot gegn lögum nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Vinnsla persónuupplýsinga, þar með talin varðveisla þeirra og birting, sé óheimil nema að eitthvert skilyrða 8. gr., og eftir atvikum 9. gr., laga nr. 77/2000 sé fyrir hendi. Ekki sé ástæða til að víkja frá ákvæðum laganna til að samræma rétt til einkalífs annars vegar og tjáningarfrelsis hins vegar, sbr. 5. gr. laga nr. 77/2000, eins og nánar hefur verið rakið hér að framan.

Auk framangreinds telur stefnandi að birting upplýsinganna geti mögulega leitt til skaðabótaskyldu stefnanda. Fyrir liggi að umtalsverðu magni gagna hafi verið stolið úr vörslu stefnanda. Þar á meðal séu persónu- og fjárhagsupplýsingar sem varði núverandi og fyrrverandi viðskiptamenn stefnanda, svo sem um eignir þeirra og skuldir, viðskipti og samskipti við stefnanda. Ljóst sé að birting slíkra upplýsinga geti rýrt orðspor einstaklinga, valdið þeim verulegum óþægindum, vanlíðan og andlegum þjáningum. Verði talið að varðveisla stefnanda á upplýsingunum hafi ekki verið fullnægjandi geti það leitt til þess að stefnanda verði gert að bæta það tjón sem viðskiptamenn hans verði fyrir vegna birtingu upplýsinganna. Áframhaldandi birting upplýsinganna geti því valdið verulegu tjóni fyrir stefnanda.

 

Um kröfur stefnanda um að stefndu verði gert að afhenda öll gögn, úr fórum eða kerfum stefnanda, og afrit af þeim.

Stefnandi krefst þess að stefndu verði, hvorum um sig, gert að afhenda stefnanda öll gögn, sem komi úr fórum eða kerfum stefnanda, og afrit af þeim, sem þeir hafa undir höndum, hvort sem þau séu á stafrænu eða öðru formi. Stefnandi byggir þessa kröfu á því að gögnin séu hans eign. Stefndu beri þar af leiðandi að skila gögnunum og afritum af þeim aftur til stefnanda, sem sé réttur eigandi þeirra. Eins og áður hafi komið fram hafi gögnunum verið stolið úr fórum og kerfum stefnanda og séu þau nú, samkvæmt yfirlýsingum stefndu, í höndum þeirra.

Stefnandi vísar til þess að hald stefndu á gögnunum sé í andstöðu við 58. gr. laga nr. 161/2002, ákvæði laga nr. 77/2000, 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Verði umrædd gögn ekki afhent sé verið að viðhalda ólögmætu haldi stefndu á gögnunum í andstöðu við nefnd ákvæði og eignarétt stefnanda. Jafnvel þótt talið yrði að stefndu væri þrátt fyrir þetta heimilt að fjalla um afmarkaðan hluta þessara gagna, á grundvelli 73. gr. stjórnarskrárinnar, og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, myndi það ekki leiða til þess að stefndu væri heimilt að halda gögnunum í heild sinni. Um þetta vísi stefnandi til þess sem að framan sé rakið um að upplýsingarnar varði viðskipti þúsunda fyrrverandi og núverandi viðskiptamanna stefnanda. Ljóst sé að stefndu geti ekki réttlætt hald sitt á upplýsingum um viðskipta- og einkamálefni þessara aðila á sjónarmiðum um vernd tjáningarfrelsis.

Stefnandi kveðst, með vísan til 2. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, skora á stefndu að leggja fram þau gögn sem þeir hafa undir höndum og koma „innan úr“ stefnanda, eins og þeim hafi verið lýst í fréttaumfjöllun stefndu. Nánar tiltekið skori stefnandi á stefndu að leggja fram öll gögn sem þeir hafi undir höndum og komi úr fórum eða kerfum stefnanda. Þar sem gögnin falli undir þagnarskylduákvæði 58. gr. laga nr. 161/2002 telji stefnandi rétt að gögnin verði lögð fyrir dómara í trúnaði og gegn þagnarskyldu, sbr. 1. mgr. 69. gr. laga nr. 91/1991.

Stefnandi byggir á því að verði stefndu ekki við áskorun hans verði að leggja frásögn hans um efni gagnanna til grundvallar í málinu. Stefnandi kveður gögnin innihalda upplýsingar um viðskipti þúsunda fyrrverandi og núverandi viðskiptamanna stefnanda, þar með talið upplýsingar um viðskipti aðila í einkabankaþjónustu, viðskipti aðila með hlutabréf í Glitni á árunum 2003 til 2008 og upplýsingar um viðskipti einstaklinga og lögaðila í sjóðum sem stefnandi hafi rekið, eins og að framan greini.

Stefnandi byggir kröfu um staðfestingu lögbannsins á 1. mgr. 24. gr. og VI. kafla laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Stefnandi byggir einnig á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, einkum 58. gr. laganna, lögum nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, einkum 8. gr. laganna, stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, einkum 71. og 73. gr. hennar, mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, einkum 8. og 10. gr. sáttmálans, og á almennum reglum skaðabótaréttar. Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Þá byggir stefnandi á því að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til kostnaðar við rekstur lögbannsmálsins fyrir sýslumanni. Um varnarþing vísar stefnandi til 1. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991. Þá byggir stefnandi málshöfðun þessa á 36. gr. laga nr. 31/1990.

 

Málsástæður stefndu

Málatilbúnaður stefndu er að mestu leyti samhljóða og var mál þeirra flutt sameiginlega við aðalmeðferð málsins. Verða málsástæður stefndu því reifaðar í einu lagi hér.

 

Um meðferð málsins hjá sýslumanni

Stefndu byggja á því að þeir hafi ekki hlotið réttláta málsmeðferð við meðferð málsins hjá sýslumanni, samkvæmt 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og 70. gr. stjórnarskrárinnar. Ekki hafi verið jafnræði með aðilum (e. equality of arms) enda stefnandi í yfirburðarstöðu í ýmsu tilliti.

Stefnandi hafi í fyrsta lagi yfirburðarstöðu fjárhagslega. Stefnandi sé eignarhaldsfélag sem haldi utan um eignir kröfuhafa fallins banka. Stefndu séu hins vegar báðir sjálfstæðir, litlir fjölmiðlar. Í krafti fjárhagslegrar yfirburðarstöðu sinnar hafi stefnandi farið fram á lögbann við umfjöllun stefndu. Stefnandi hafi haft nægan tíma og fjárhagslega burði til þess að undirbúa slíka beiðni, með aðstoð lögmanna.

Í beiðninni hafi verið farið fram á að stefndu yrði ekki tilkynnt um gerðirnar fyrirfram með vísan til 3. töluliðar 3. mgr. 21. gr. laga nr. 90/1989, um aðför, sbr. 3. mgr. 26. gr. og 4. mgr. 8. gr. laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl., þvert á almennan rétt gerðarþola. Þrátt fyrir að stefnandi hafi ekki rökstutt í lögbannsbeiðni hvernig skilyrði séu fyrir beitingu þessa undantekningarákvæðis, hafi fulltrúi sýslumanns fallist á þessa kröfu, einnig án rökstuðnings. Stefndu telji þetta augljóst merki þess að yfirvaldið hafi dregið taum stefnanda í málinu enda hafi með þessu verið komið á algjöru ójafnræði milli aðila án þess að rök byggju að baki. Með ofangreindum hætti hafi verið brotið gegn 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um rétt á rökstuddum ákvörðunum (e. reasoned judgment). Skilyrði 3. töluliðar 3. mgr. 21. gr. laga nr. 90/1989, séu enn fremur ekki uppfyllt.

Stefndu kveða að þegar komið hafi verið á ritstjórnarskrifstofur þeirra til þess að leggja á umþrætt lögbann, hefðu fréttir verið fluttar um efnið í marga mánuði. Fréttirnar hefðu borið með sér að ritstjórn hefði farið gaumgæfilega yfir hvað ætti erindi til almennings og unnið fréttir í einhvern tíma. Stefnandi hafi ekki óskað eftir lögbanni strax og fréttir hafi farið að birtast heldur mörgum mánuðum síðar og hafi hann með aðgerðum sínum sýnt að ekki séu skilyrði fyrir beitingu undanþágureglu 3. töluliðar 3. mgr. 21. gr. laga nr. 90/1989. Í lögbannsbeiðni stefnanda sé varakrafa, sbr. 2. mgr. 29. gr. l. nr. 31/1990, en í málinu sé ekki fjallað um hvaða mat hafi farið fram á aðal- og varakröfum stefnanda, hvorri gagnvart annarri. Sýslumaður hafi því gengið lengra en nauðsyn hafi krafið, án rökstuðnings og á kostnað þess að stefndu gætu notið réttlátrar málsmeðferðar.

Þá kveðst stefndi, Reykjavik Media ehf., ekki hafa birt fréttirnar heldur hafi það verið stefndi, Útgáfufélag Stundarinnar ehf., unnið upp úr gögnunum í samstarfi við Reykjavik Media ehf. Því hafi ekki verið skilyrði til að víkja frá þeirri meginreglu og grundvallarrétti stefnda, Reykjavik Media ehf., að boða hann til fyrirtöku gerðarinnar enda engir hagsmunir í húfi sem gætu réttlætt slíkt, að teknu tilliti til aðstæðna.

Að mati stefndu hafi málsmeðferð sýslumanns, boðunarleysi og skortur á rökstuðningi, styrkt yfirburðarstöðu stefnanda enn frekar. Lögmaður stefnanda hafi gætt hagsmuna hans við gerðina en stefndu hafi ekki fengið að njóta slíkrar aðstoðar nema að takmörkuðu leyti í gegnum síma og án nægilegs undirbúnings.

Stefndu kveða að mikill asi hafi verið við fyrirtöku lögbannsbeiðni stefnanda. Stefndi, Útgáfufélag Stundarinnar ehf., kveður að sér hafi aðeins verið gefnar um 10-15 mínútur til að kynna sér framkomna beiðni og gerðinni svo fram haldið án þess að lögmaður hans gæti verið viðstaddur. Fyrirsvarsmanni stefnda, Útgáfufélags Stundarinnar ehf., hafi verið gefnar nokkrar mínútur til að rita bókun en áður en hann hafi klárað bókunina hafi honum verið tilkynnt að ekki væri hægt að bíða lengur, ljúka þyrfti gerðinni. Þá hafi fulltrúi sýslumanns tilkynnt fyrirsvarsmanni stefnda, Útgáfufélags Stundarinnar ehf., frá öndverðu að til stæði að fallast á lögbannsbeiðnina og að hann vildi því hraða fyrirtökunni eins og kostur væri. Fyrirsvarsmaður stefnda hafi þó náð að gera lögmanni stefnanda grein fyrir því að krafa í lögbannsbeiðni um að stefnda yrði gert að fjarlægja allar fréttir á vefsíðu sinni stæðist ekki og hafi sú krafa verið dregin til baka. Þá hafi sýslumaður fallist á andmæli stefnda um að krafa stefnanda um afhendingu sýslumanns á afritum gagna frá heimildarmönnum bryti gegn 25. gr. laga nr. 38/2011, um fjölmiðla. Aðrar mótbárur stefnda hafi ekki verið teknar til greina, þ.m.t. andmæli við lögbannið, og hafi fulltrúi sýslumanns fallist á beiðni stefnanda um að „lögbann verði lagt þá þegar við birtingu gerðarþola, Útgáfufélagsins Stundarinnar ehf. (...) á fréttum eða annarri umfjöllun byggðri á eða unna upp úr fórum eða kerfum gerðarbeiðanda, sem undiropin eru trúnaði skv. 58. gr. l. nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Óskað er eftir því að lögbannið taki bæði til birtingar gagnanna í heild eða hluta og/eða upplýsinga úr gögnunum eða efnislegrar umfjöllunar um þær“.

Stefndi, Reykjavik Media ehf., kveður með sama hætti að fulltrúi sýslumanns hafi tilkynnt fyrirsvarsmanni hans frá öndverðu að til stæði að fallast á lögbannsbeiðnina enda hefði þegar verið lagt lögbann á meðstefnda, Útgáfufélag Stundarinnar ehf. Fulltrúi sýslumanns hefði því viljað hraða fyrirtökunni eins og kostur væri. Ekki hafi verið gert hlé til þess að stefndi gæti notið lögmannsaðstoðar á staðnum en þar sem fyrirsvarsmaður hans hefði fengið fregnir, m.a. úr fjölmiðlum, af því að lögbann hefði verið lagt á meðstefnda hefði hann náð að hringja í lögmann sem hafi verið í símanum meðan lögbannsgerðin hafi farið fram. Með sama hætti og gagnvart meðstefnda hefði krafa stefnanda um að stefnda yrði gert að fjarlægja allar fréttir á vefsíðu sinni verið dregin til baka. Einnig hafi sýslumaður fallist á andmæli stefnda um að krafa um afhendingu sýslumanns á afritum gagna frá heimildarmönnum bryti gegn 25. gr. laga nr. 38/2011. Ekki hafi verið fallist á aðrar mótbárur stefnda og hafi fulltrúi sýslumanns fallist á beiðni stefnanda um að „lögbann verði lagt þá þegar við birtingu gerðarþola, Reykjavik Media ehf. (...) á fréttum eða annarri umfjöllun byggðri á eða unna upp úr fórum eða kerfum gerðarbeiðanda, sem undiropin eru trúnaði skv. 58. gr. l. nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Óskað er eftir því að lögbannið taki bæði til birtingar gagnanna í heild eða hluta og/eða upplýsinga úr gögnunum eða efnislegrar umfjöllunar um þær“.

Með þessu hafi jafnræði aðila verið raskað verulega, í andstöðu við 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 70. gr. stjórnarskrárinnar.

Stefndu álíta að þeir hafi því ekki fengið nægan tíma til undirbúnings málsvarnar í máli sem varði tjáningarfrelsi fjölmiðla og flókin lagatæknileg atriði. Stefndu telja vítavert að fulltrúi sýslumanns hafi látið gerðirnar fram ganga við þessar aðstæður, án þess að leiðbeina stefndu um réttindi þeirra og stöðu, sbr. 27. gr. laga nr. 31/1990, og veita þeim raunhæfan kost á að undirbúa vörn sína og njóta aðstoðar lögmanns. Þetta hafi verið til þess að auka á upplifun stefndu af valdníðslu. Stefndu byggja á því að sýslumaður hafi, við gerðirnar, brotið gegn lagaákvæðum um leiðbeiningaskyldu, gengið lengra en nauðsyn hafi krafið og þar með brotið gegn meðalhófsreglunni og misfarið með vald.

Stefndi, Útgáfufélag Stundarinnar ehf., vísar til þess að fyrirsvarsmaður félagsins hafi ekki fengið nægilegan tíma til að ljúka við ritun bókunar við gerðina og verði að telja að brotið hafi verið gegn grundvallarrétti stefnda til réttlátrar málsmeðferðar með því offorsi sem var við gerðina. Brotið hafi verið gegn jafnræði aðila og gengið mun lengra en nauðsyn hafi krafið.

Stefndi, Reykjavik Media ehf., telur einnig að brotið hafi verið gegn grundvallarrétti hans til réttlátrar málsmeðferðar með því offorsi sem var við gerðina og að brotið hafi verið gegn jafnræði aðila og gengið mun lengra en nauðsyn hafi krafið.

Stefndu kveða að þeim hafi verið tilkynnt að fyrir lægi að lögbannið yrði samþykkt. Telja verði að þessi fyrirfram mótaða afstaða fulltrúa sýslumanns til ágreiningsefnisins, áður en stefndu hafi fengið færi á að færa rök fyrir máli sínu, sanni að yfirvaldið hafi dregið taum stefnanda. Þessu til stuðnings vísa stefndu til þess að stefnandi hafi lagt fram tryggingu áður en komið hafi verið á ritstjórnarskrifstofur stefndu en engin efnisleg umfjöllun hafi farið fram um þá fjárhæð sem stefnandi hafi lagt fram eða hvort hún væri nægileg í ljósi aðstæðna. Stefndu telji trygginguna allt of lága og úr samhengi við tryggingar í sambærilegum málum. Hún taki ekki mið að því að fjölmiðlaumfjöllun sé atvinnurekstur stefndu og að með lögbanninu hafi stefnandi valdið stefndu gríðarlegu tjóni.

Um yfirburðarstöðu stefnanda vísa stefndu einnig til tengsla málsins við þáverandi forsætisráðherra. Umfjöllun Stundarinnar hafi varðað tengsl þáverandi forsætisráðherra og Glitnis, fyrirrennara stefnanda, og samtvinnun fjárhagslegra hagsmuna þeirra. Einnig sé fjallað um þessi tengsl í þekktri skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Í lok síðasta árs hafi ýmsir fjölmiðlar fjallað um fjárhagsleg málefni dómara við Hæstarétt Íslands innan Glitnis, þ. á m. Stundin. Svo virðist sem stefnandi hafi einhverra hluta vegna ekki haft áhuga á að krefjast lögbanns á þá umfjöllun, sem í eðli sínu hafi verið eins og sú umfjöllun sem nú sé krafist lögbanns á. Eins verði ekki litið framhjá umfjöllun Ríkisútvarpsins um sömu málefni og sem virðist vera á grundvelli sömu gagna og hér um ræði. Stefnandi hafi ekki talið ástæðu til að krefjast lögbanns á umfjöllun Ríkisútvarpsins eða á umfjöllun breska blaðsins Guardian, sem einnig hafi fjallað um gögnin. Umfjöllun Guardian sé enn í gangi, þvert á það sem stefnandi byggi á í stefnu málsins en hann hafi ekki farið fram á lögbann á þá umfjöllun.

Stefndu vísa til þess að það hafi ekki verið fyrr en 13. október 2017, eftir að stefndi, Útgáfufélag Stundarinnar ehf., hafi farið að fjalla um málefni þáverandi forsætisráðherra og fjölskyldu hans, sem stefnandi hafi farið fram á lögbann vegna umfjöllunar um Glitni banka. Sú tímasetning og val stefnanda á umfjöllun sem hann telji ekki þola dagsljósið veki athygli. Þegar stefnandi hafi krafist lögbannsins hafi tvær vikur verið í kosningar og þáverandi forsætisráðherra hafi verið í framboði. Vísa stefndu um þetta til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli nr. 58493/13. Einnig veki athygli að stefnandi hafi beðið fram á síðasta dag með að birta stefnu í málinu og kosið að þingfesta málið átta dögum síðar, þ.e. eftir kosningar til Alþingis 28. október 2017. Af því leiði að stefndu hafi ekki getað fjallað frekar um gögnin fyrir kosningarnar. Stefnandi hafi því náð að þagga niður stjórnmálaumræðu í fjölmiðlum í aðdraganda kosninga. Í því felist alvarleg aðför að tjáningarfrelsinu. Ekki verði fram hjá því litið hvaða þýðingu það hafi að lögbann sé lagt við stjórnmálaumfjöllun í aðdraganda alþingiskosninga og skuli það hafa áhrif m.a. við ákvörðun málskostnaðar enda sé ótækt að aðilar í fjárhagslegri yfirburðarstöðu geti þaggað niður í fjölmiðlum í andstöðu við lög og hagsmuni almennings.

Stefnandi leiti nú staðfestingu dómstóla á lögbanninu en útilokað sé að fallast á þá kröfu. Stefndu telja brýnt að málinu verði hraðað eins og kostur sé því á meðan lögbannið sé í gildi sæti þeir ólögmætum takmörkunum á stjórnarskrárvörðu tjáningarfrelsi og upplýsingum, sem eigi erindi til almennings, sé haldið frá honum.

Um umfjöllun um aðra einstaklinga en þáverandi forsætisráðherra sé vísað til allra sömu sjónarmiða og rakin séu í greinargerð þessari. Stefndu kveða alla þá einstaklinga vera áberandi í viðskiptalífinu. Umfjöllunin hafi átt erindi til almennings og sé þegar um garð gengin. Stefnandi eigi ekki lögvarða hagsmuni um úrlausn álitaefna sem varði friðhelgi einkalífs þeirra og með vísan til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 541/2005 verði umfjöllun um þá ekki aðskilin frá umfjöllun um þáverandi forsætisráðherra. Þá hafi meðalhófs verið gætt í umfjölluninni og allra sjónarmiða um ábyrga ritstjórn.

Stefndu telja einsýnt að hafna hefði átt lögbanninu frá upphafi enda sé það í senn of víðtækt sem og brot gegn fjölmiðlafrelsi, sem varið sé í stjórnarskrá, mannréttindasáttmála Evrópu og lögum um fjölmiðla. Stefndu taki að þessu leyti undir alvarlegar athugasemdir Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, sem gegni m.a. eftirlitshlutverki með lýðræði í Evrópu, um lögbannið.

 

Um aðild stefnanda og lögvarða hagsmuni

Stefndu telja stefnanda ekki vera réttan aðila að málinu og krefjast sýknu með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Stefndu byggja á því að stefnandi uppfylli ekki skilyrði 24. gr. laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Hann hafi enda ekki sannað að afhöfnin „muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans“.

Stefnandi byggi á því að gögnin sem hann segi stefndu hafa undir höndum hafi að geyma upplýsingar um fyrrum viðskiptavini Glitnis banka en alvarlegir vankantar séu á slíkri aðild stefnanda. Þá sé ósannað með öllu hvaða viðskiptavinir Glitnis, ef aðrir, kunni að vera í gögnum sem stefndu sem fjölmiðlar hafi fengið aðgang að eða afhent.

Í fyrsta lagi byggi stefnandi á því að viðskiptavinir Glitnis banka séu viðskiptavinir hans og að hann kunni að bera skaðabótaábyrgð vegna fyrrnefndra gagna. Stefndu mótmæla lýsingu stefnanda á ætluðum gagnaleka sem ósannaðri. Stefndu hafi ekkert staðfest um téð gögn. Þá sé lýsingu stefnanda á umfangi gagnanna sérstaklega mótmælt og vísa stefndu til 25. gr. laga nr. 38/2011, um fjölmiðla. Stefndu mótmæli því einnig að stefnandi eigi umrædd gögn. Réttindi og skyldur hins fallna Glitnis banka, sem varðað hafi innlán og útlán, hafi að mestu leyti færst til Nýja Glitnis hf., nú Íslandsbanka hf.

Stefnandi byggi á því að stefndu hafi upplýsingar um ótilgreindan fjölda viðskiptamanna sinna og fjárhagsupplýsingar þeirra en ekkert liggi fyrir um hvort upplýsingarnar séu frá Glitni komnar. Þá liggi ekkert fyrir um hvort ætlaðar fjárhagsupplýsingar, hafi þær borist úr Glitni, tilheyri þeim hluta bankans sem farið hafi í gegnum slitameðferð og síðar í eignarhaldsfélagið Glitnir HoldCo eða hvort þær varði t.d. útlán sem færst hafi til Nýja Glitnis hf., nú Íslandsbanka hf. Þvert á móti megi ráða af gögnum sem stefnandi hafi lagt fram, þ. á m. tölvuskeyti, að þau hafi færst til Íslandsbanka en ekki slitastjórnar Glitnis og síðar stefnanda. Stefndu vísa til þess að stefnandi hafi enda þurft aðstoð Íslandsbanka hf. til þess að fletta upp í þeim. Þá liggi ekkert fyrir um að öll skjölin hafi komið frá sömu heimild. Er aðild stefnanda í besta falli vanreifuð og fái stefndu ekki séð að sýslumaður hafi átt að fallast á lögbann við svo óljósar aðstæður um lögvarða hagsmuni og aðild. Sé það mat dómsins að þetta varði ekki sýknu eigi að vísa málinu frá án kröfu.

Í öðru lagi telji stefndu ljóst að jafnvel ef fyrir lægi að gögnin væru frá þeim hluta bankans sem flust hafi til stefnanda, þá hafi hann ekki framvísað umboði eða lagaheimild sem heimili honum að fara í dómsmál fyrir ótilgreindan fjölda viðskiptavina. Stefnandi vísi m.a. til 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sem ætlað sé að vernda viðskiptamenn banka en ekki bankastofnunina sjálfa. Ákvæðinu sé ætlað að vernda stjórnarskrárvarinn rétt til friðhelgi einkalífs, sem eðli málsins samkvæmt tilheyri einstaklingum en ekki einkahlutafélögum. Stefndu vísa til þess að viðskiptavinir hins fallna banka hafi lögvarða hagsmuni af slíku máli en ekki eignarhaldsfélag kröfuhafa um hluta eigna hins fallna banka. Umfjöllun síðustu vikna hafi varðað þáverandi forsætisráðherra en hann hafi lýst því yfir að hann hafi ekki farið fram á lögbann og að hann telji umfjöllunina lið í lýðræðislegri umræðu. Stefnandi eigi ekki lögvarða hagsmuni af því að úrskurðað sé um friðhelgi einkalífs þeirra ótilgreindu aðila sem hann vísi til í lögbannsbeiðni, allra síst þeirra sem hafi lýst því yfir að þeir séu mótfallnir málinu. Með aðild sinni og raunar einnig með of víðtækum dómkröfum sé stefnandi því að bera fyrir dóm lögspurningu um mörk tjáningarfrelsis fjölmiðla og 58. gr. laga nr. 161/2002. Það sé ótækt, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.

Stefnandi byggi á því að um sé að ræða „gögn í eigu gerðarbeiðanda sem hefur verið stolið“. Stefnandi viti hins vegar ekki hvaða gögn þetta séu og geti því ekkert fullyrt um það. Fyrir liggi að gögn úr hinum föllnu bönkum liggi víðar og megi nefna sem dæmi að umfjöllun um þáverandi forsætisráðherra sé einnig í skýrslu rannsóknar­nefndar Alþingis. Gögnin gætu því t.d. hafa komið úr fórum rannsóknarnefndar Alþingis en gögn sem nefndin hafi stuðst við hafi síðar verið afhent Þjóðskjalasafni. Þjóðskjalasafn veiti aðgang að gögnum á grundvelli upplýsingalaga og því kunni að vera að einhver hafi fengið gögnin afhent þaðan. Þá liggi gögn hinna föllnu banka á ýmsum lögmannsstofum, hjá kröfuhöfum bæði hérlendis og erlendis og svona mætti áfram telja. Jafnframt sé ekkert sem sanni að gögnin séu stolin en það hafi þar að auki engin áhrif á dómsniðurstöðuna, svo sem Mannréttindadómstóll Evrópu hafi ítrekað staðfest, sbr. t.d. dóma í málum nr. 29183/95, 49085/07, 73469/10, 26419/10, 39315/06, 15054/07, 15066/07 og 69698/01. Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir þessari fullyrðingu og verði að sanna að gögnin hafi komið frá honum. Með því að vanrækja þetta séu lögvarðir hagsmunir hans alfarið ósannaðir.

Stefnandi byggi aðild sína á því að hann kunni að geta orðið skaðabótaskyldur vegna ætlaðs gagnaleka. Fram hafi komið í fjölmiðlum að lögbannsbeiðnin hafi verið að ráðum tryggingafélags. Ósannað sé að gögnin hafi komið frá stefnanda og sé meint skaðabótaskylda hans einnig ósönnuð. Allt að einu myndi slíkt ekki réttlæta aðild að lögbannsmáli. Sé tjón stefnanda af umfjöllun stefnda hugsanleg skaðabótaskylda hans gagnvart ótilgreindum og ætluðum viðskiptavinum, þá sé unnt að bæta ætlað tjón með greiðslu skaðabóta. Þar af leiðandi séu skilyrði fyrir lögbanni ekki fyrir hendi, sbr. 1. tölulið 2. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990. Fjárhagsstaða stefndu breyti engu þar um. Stefnanda bresti því lagaheimild til lögbannsins.

Loks vísi stefnandi til meints tjóns á orðspori vegna leka um viðskiptavini. Slíkt eigi varla við þar sem stefnandi sé ekki banki í rekstri heldur eignarhaldsfélag kröfuhafa utan um eignir, sem eigi enga viðskiptavini. Ómögulegt sé að greina hvert ætlað tjón stefnanda geti verið við þær aðstæður og viðurkenni hann það raunar sjálfur í gerðarbeiðninni. Stefnandi sé sjálfur að valda sér orðsporstjóni með málatilbúnaði sínum, sem hafi verið gagnrýndur harðlega bæði hérlendis og erlendis, þ.m.t. af alþjóðlegum eftirlitsstofnunum.

Hvað sem framangreindu líði byggja stefndu á því að mat á því, hvort stefnandi eigi lögvarðan rétt, samkvæmt 24. gr. laga nr. 31/1990, á lögbanni á fjölmiðlaumfjöllun, skuli fara fram á grundvelli 73. gr. stjórnarskrárinnar. Í því felist m.a. mat á því hvort brýn samfélagsleg þörf sé fyrir þögguninni (e. pressing social need), sbr. ótal dómafordæmi Mannréttindadómstóls Evrópu. Engar kröfur séu hins vegar gerðar að lögum til þess að stefndu sýni fram á brýna samfélagslega þörf fyrir tjáningunni. Með aðild og málatilbúnaði stefnanda fari matið ekki fram á því hvort tjáningin brjóti gegn friðhelgi heldur hvort hún brjóti gegn 58. gr. laga nr. 161/2002, sem séu almenn lög gagnvart stjórnarskrárákvæði um tjáningarfrelsi. Mat á því hvort þörf sé á þöggun og þar með hvort stjórnarskrárvarinn réttur stefndu til tjáningar eigi að víkja fyrir ætluðum réttindum stefnanda eigi ekki heima hjá framkvæmdavaldinu heldur á ritstjórnarskrifstofum og verði aðeins endurskoðað af dómstólum, sbr. til hliðsjónar dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli nr. 39315/06. Framkvæmda­valdið hafi tekið sér vald sem það hafi ekki þegar það hafi fallist á lögbannið enda hafi stefnandi ekki lögvarða hagsmuni af lögbanni við þessar aðstæður. Þegar af þeirri ástæðu verði að fella lögbannið úr gildi.

 

Um aðild stefnda, Reykjavik Media ehf.

Stefndi, Reykjavik Media ehf., byggir á því að aðild hans að lögbanninu og máli þessu sé órökstudd með öllu. Hann hafi ekki birt greinar á heimasíðu sinni eða annars staðar upp úr þeim gögnum sem deilt sé um og ekkert bendi til þess að það standi til. Þá liggi ekkert fyrir um að gögnin sem deilt sé um séu í fórum stefnda, Reykjavik Media ehf., og því sé ljóst að ekki hafi verið skilyrði fyrir lögbanni á hann. Verði þegar af þeirri ástæðu að aflétta lögbanni á stefnda, Reykjavik Media ehf.

Það styðji ekki kröfur stefnanda að stefndi, Útgáfufélag Stundarinnar ehf., hafi unnið úr gögnunum í samstarfi við stefnda, Reykjavik Media ehf., sem hafi engar fréttir birt. Stefndi, Reykjavik Media ehf., verði ekki gerður ábyrgur fyrir umfjöllun meðstefnda og ætluðum kröfum gegn meðstefnda verði ekki beint gegn stefnda, Reykjavik Media ehf., vegna þess eins að fram hafi komið að þeir hafi unnið fréttir í samstarfi hvor við annan. Stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af kröfunum, sem feli í sér lögspurningar samkvæmt 25. gr. laga nr. 91/1991. Verði því ekki séð að stefndi, Reykjavik Media ehf., sé réttur aðili að kröfum stefnanda og beri að sýkna hann á grundvelli 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

 

Um skilyrði lögbanns samkvæmt 24. gr. laga nr. 31/1990

Stefndu byggja á því að stefnandi eigi ekki lögvarða hagsmuni samkvæmt 24. gr. laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Stefndu telji einnig að önnur skilyrði 24. gr. séu ekki fyrir hendi og vísi um það til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 541/2005.

Þegar gerðin hafi verið tekin fyrir hefði umþrætt umfjöllun verið í gangi um margra mánaða skeið. Um þetta vísa stefndu til frétta frá desember 2016, sem stefnandi leggi fram í málinu. Stefnandi hafi hins vegar ekki farið fram á lögbann fyrr en 13. október 2017 og hafi ekkert aðhafst í millitíðinni. Stefnandi hafi því sjálfur gert ljóst að ætluð krafa hans þyldi bið og geti skilyrði lögbanns því ekki verið fyrir hendi. Þá hafi stefnandi beðið í tæpar tvær vikur frá því að umfjöllun um þáverandi forsætisráðherra hafi byrjað, áður en hann hafi farið fram á lögbannið.

Stefnandi hafi þá farið fram á lögbann á alla umfjöllun upp úr tilteknum gögnum vegna þess að hann telji þau varða ótilgreinda einkahagsmuni ótilgreinds fjölda viðskiptavina hins fallna Glitnis banka. Sú krafa eigi sér enga stoð í lögum, gögnum málsins eða umfjöllun stefnda. Ritstjórn stefnda, Útgáfufélags Stundarinnar ehf., hafi farið vandlega yfir þau gögn sem hún hafi undir höndum og hafi valið og unnið efni sem hún hafi talið eiga erindi til almennings. Það sem ekki eigi erindi til almennings sé ekki birt af stefnda, Útgáfufélagi Stundarinnar ehf., sem axli ritstjórnarlega ábyrgð sína og skyldur að lögum og samkvæmt stjórnarskrá. Stefndi, Reykjavik Media ehf., kveður einnig að aðkoma hans hafi verið í samræmi við skyldur hans. Stefndu hafi ekki fjallað um ótilgreindan fjölda viðskiptavina Glitnis banka fyrir hrun eða einkamálefni einstaklinga sem ekki eigi erindi til almennings. Kröfugerð stefnanda sé því allt of víðtæk og yrði fallist á hana fæli það í sér sjálfstætt brot gegn tjáningarfrelsinu, sbr. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli nr. 26419/10.

Lögbannsbeiðni stefnanda varði ekki tiltekið málefni sem ekki megi birta heldur leggi stefnandi öll hugsanleg gögn til grundvallar lögbanni, jafnvel óumdeilda tjáningu sem vinna mætti upp úr gögnunum. Slík kröfugerð sé ekki aðeins úr hófi heldur beinlínis ólögmæt.

Stefnandi geri tilraun til þess að rökstyðja kröfugerð sína í stefnu málsins með því að tilgreina tiltekna einstaklinga sem umfjöllunin hafi varðar. Stefndu vísa til þess að sú málsástæða sé of seint fram komin, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, enda hafi stefnandi eingöngu tilgreint þáverandi forsætisráðherra í lögbannsbeiðninni. Hafi stefnandi ætlað að byggja á því að umfjöllun um umrædda aðila ætti ekki erindi til almennings hefði slíkt þurft að koma fram í lögbannsbeiðni, áður en fallist hafi verið á lögbannið. Hvað sem því líði þá varði umfjöllunin aðila sem tekið hafi virkan þátt í íslensku viðskiptalífi og njóti því verndar tjáningarfrelsis. Einnig sé ljóst, af dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 541/2005, að jafnvel þótt fjallað sé um einstakling sem ekki eigi erindi til almennings, þá sé nægilegt að umfjöllunin um viðkomandi sé liður í umfjöllun um atriði sem erindi eigi til almennings til þess að hún njóti verndar. Í slíkum tilvikum heimili umfjöllunin jafnvel að gengið sé á rétt einstaklings til friðhelgi einkalífs. Þetta þýði að jafnvel þótt fallist yrði á það að aðrir einstaklingar í gögnunum séu ekki opinberar persónur, þvert á andmæli stefndu, og að umfjöllun um þá varði friðhelgi þeirra, þá sé umfjöllunin allt að einu heimil, m.a. með vísan til framangreinds dóms, vegna tengsla við umfjöllun um þáverandi forsætisráðherra.

Af framangreindu leiði að skilyrði 24. gr. laga nr. 31/1990, um að lögbann skuli beinast að athöfn sem sé byrjuð eða yfirvofandi, séu ekki fyrir hendi. Ekkert bendi til þess að til hafi staðið að fjalla um handahófsvalda viðskiptavini Glitnis banka eða einkamálefni sem ekki eigi erindi til almennings. Þær fréttir sem þegar hafi verið birtar, um þáverandi forsætisráðherra og tengda aðila, sem hafi verið virkir í viðskiptalífinu, eigi allar erindi til almennings og eru yfirstaðnar samkvæmt lögum nr. 31/1990.

Stefndu vísa til þess að stefnandi hafi breytt kröfugerð sinni í stefnu málsins með því að skipta kröfu sinni upp og breyta orðalagi frá endurriti sýslumanns. Stefndu byggja á því að sýkna verði þá af kröfum stefnanda vegna þess að stefnandi sé ekki að krefjast staðfestingar á lögbanni heldur hafi hann í reynd uppi nýja kröfu. Óhjákvæmilega verði að skoða frávísun án kröfu við þær aðstæður og vegna annarra atriða sem talin séu upp í greinargerð þessari. Að auki sé kröfugerð stefnanda valkvæð og gangi viðurkenningarkrafan mun lengra en lögbannið.

 

Um 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki

Stefndu byggja á því að 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, eigi ekki við um fjölmiðla og að ef að svo væri þá bryti það gegn ákvæðum stjórnarskrár. Stefndu byggja á því að 58. gr. takmarki ekki tjáningarfrelsi fjölmiðla til að fjalla um mál sem eigi erindi til almennings.

Stefndu vísa til þess að lög nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, séu almenn lög eins og lög nr. 38/2011, um fjölmiðla. Hin síðarnefndu séu þó bæði yngri og sérlög. Sé misræmi á milli laganna þá séu lög um fjölmiðla því rétthærri.

Í lögum nr. 38/2011 sé áréttuð vernd heimildarmanna, sbr. 25. gr. laganna, sem einnig leiði af 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 73. gr. stjórnarskrárinnar. Af heimildarverndinni leiði að fjölmiðlar geti tekið við gögnum, sem heimildarmanni hafi verið óheimilt að afhenda fjölmiðlum, og eigi gögnin erindi til almennings sé fjölmiðlum rétt og skylt að miðla því sem þar komi fram á grundvelli 73. gr. stjórnarskrárinnar, hvað sem líði þagnarskylduákvæðum laga. Með hliðsjón af því að hin yngri lög fjalli um heimildarvernd, sem dregin sé beint af 73. gr. stjórnarskrárinnar, sem sannarlega sé rétthærri en lög nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, verði ávallt að túlka 58. gr. laga nr. 161/2002 með þeim hætti að ákvæðið nái ekki til blaðamanna.

Stefndu telja ljóst af ákvæði 58. gr. laga nr. 161/2002 að „viðtakandi“ vísi til þeirra sem taki við gögnum í tengslum við hefðbundna starfsemi bankans, t.d. í starfi sínu í tengslum við þinglýsingar. Annað verði heldur ekki lesið út úr lögskýringargögnum ákvæðisins. Hefði ætlunin verið að láta „viðtakendur“ eiga við um blaðamenn myndi slíkt hafa komið fram í ákvæðinu eða a.m.k. í greinargerð frumvarps að lögunum. Þá hefði einnig verið óþarfi að sundurliða ákvæðið eða að tengja það við bankastarfsmenn líkt og gert sé í 1. mgr. ákvæðisins, ætti ákvæðið að eiga við um alla. Síðasta setningin í lokamálsgreininni útiloki samkvæmt orðanna hljóðan að hún eigi við um blaðamenn því enginn afhendi blaðamanni slík gögn og uppfylli síðan þá lagaskyldu að brýna þagnarskylduna fyrir blaðamanninum, hvað gögnin varðar.

Stefndu vísa til þess að bæði Hæstiréttur Íslands og Mannréttindadómstóll Evrópu hafi fjallað um gögn sem þessi og hafi fellt þau undir heimildaverndina, sbr. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í málum nr. 29183/95, 69698/01, 62202/00, 15054/07, 15066/07, 39315/06 og 73469/10 og dóm Hæstaréttar Íslands frá 1996, bls. 40, og dóma réttarins í málum nr. 272/2000 og 541/2005. Eigi umfjöllun erindi til almennings sé fjölmiðlamönnum heimilt að fjalla um slík gögn. Af því leiði að væru ákvæði 58. gr. laga nr. 161/2002 talin eiga við um blaðamenn fæli það í sér brot gegn tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu. Sama ætti við þótt skýrt væri kveðið á um í 58. gr. að hún tæki til blaðamanna enda sé óheimilt að takmarka tjáningu með þessum hætti. Sé það mat dómsins að 58. gr. eigi einnig við um fjölmiðla verði þar af leiðandi að víkja lögunum til hliðar á þeim grundvelli að umfjöllunin eigi erindi til almennings. Ella yrði brotið gegn 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

 

Um tjáningarfrelsi stefndu

Hvað sem öllu framangreindu líði byggja stefndu á því að umfjöllunin njóti verndar ákvæða stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu um tjáningarfrelsi. Lögbannið brjóti í bága við þessi grundvallarréttindi stefndu og almennings, sem eigi rétt á þessum upplýsingum. Engin skilyrði séu til þess að takmarka tjáningarfrelsi stefndu.

Mannréttindadómstóll Evrópu skilgreini fjölmiðla sem varðhunda almennings (e. public watchdog) og fyrir liggi skýr dómaframkvæmd um það hvenær megi takmarka tjáningu þeirra, sbr. t.d. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli nr. 17488/90. Fjölmiðlar þurfi aldrei að sýna fram á þörf fyrir umfjöllun, heldur þurfi sá sem vilji takmarka tjáningu fjölmiðla að sýna fram á knýjandi samfélagslega þörf fyrir þöggun. Alfarið hafi verið litið fram hjá þessari sönnunarstöðu við lögbannsgerðina.

Stefndu telja að vart þurfi að deila um að tengsl stjórnmálamanna og viðskiptalífsins eigi erindi til almennings. Alþingi hafi sett á laggirnar sérstaka rannsóknarnefnd sem skilað hafi af sér níu binda skýrslu um fjármálakerfið fyrir efnahagshrunið 2008. Þar sé sérstök umfjöllun um tengsl stjórnmálamanna við fjármálastofnanir, m.a. vegna hárra útlána og mikilla tengsla þarna á milli. Fjallað hafi verið um Bjarna Benediktsson í skýrslunni, þ. á m. um sömu upplýsingar og stefndi, Útgáfufélag Stundarinnar ehf., hafi fjallað um í október 2017. Nánar tiltekið segi í skýrslunni:

 

„Helstu lán Bjarna Benediktssonar voru í Glitni banka hf. Annars vegar var um bein lán að ræða og hins vegar um lán í gegnum framvirka samninga. Fyrir utan einn um 45 milljóna króna framvirkan samning um hlutabréf Glitnis í upphafi árs 2006 voru þeir framvirku samningar allir um hlutabréf erlendra banka, Deutsche Bank, Morgan Stanley og Lehman Brothers.“

 

Þessi umræða hafi verið svo áberandi að nafni Bjarna Benediktssonar og fjárhæð skulda hans hjá Glitni fyrir hrun sé varpað upp á skjá í leiksýningunni Guð blessi Ísland í Borgarleikhúsinu. Umfjöllun stefnda, Útgáfufélags Stundarinnar ehf., varði þetta álitamál og tiltekið hafi verið að hún væri „hluti af ítarlegri umfjöllun Stundarinnar um viðskipti Bjarna Benediktssonar og fjölskyldu hans fyrir hrun og samband hans við Glitni“.

Stjórnmálaumræða (e. political speech) sé sú tjáning sem njóti hvað ríkustu verndar og ganga megi lengra í slíkri umfjöllun en ella. Það eigi ekki síst við í málum sem varði framþróun lýðræðis, sbr. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í málum nr. 29032/95, 7942/05 og 24838/05. Umræða um aðdraganda, orsakir og afleiðingar hrunsins, þ.m.t. óeðlileg samtvinnun stjórnmála og viðskipta og óeðlilegt aðgengi stjórnmálamanna að lánsfé í hinum föllnu bönkum fyrir hrun, verði að vera óheft. Stefndu vísa um þetta til sjónarmiða um tilgang umfjöllunar, sbr. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í málum nr. 13778/88, 19983/92, 64520/10, 4678/07 og 50591/12 og dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 274/1997. Tilgangurinn sé að upplýsa almenning um orsakir og afleiðingar hrunsins. Það sé einnig útgangspunktur skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og nauðsynleg umræða til framþróunar lýðræðis og til þess að koma í veg fyrir að atburðir eins og hrunið endurtaki sig. Aukin vernd slíkrar tjáningar um hrunið hafi þegar verið staðfest af íslenskum dómstólum, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 100/2011. Umræðan eigi því bersýnilega erindi í þjóðfélagsumræðu. Málefni Bjarna Benediktssonar og fjölskyldu hans hafi verið mikið til umfjöllunar síðastliðin tíu ár, eins og hann hafi sjálfur haft orð á. Að takmarka slíka umfjöllun sé augljóst og alvarlegt brot gegn tjáningarfrelsi sem varið sé af stjórnarskránni og mannréttindasáttmála Evrópu. Kröfugerð stefnanda og umfjöllunin sem um ræði skuli metin í samhengi við þessa þjóðfélagsumræðu, sbr. aðferðafræði Mannréttindadómstóls Evrópu.

Þá hafi umfjöllun stefnda, Útgáfufélags Stundarinnar ehf., verið í aðdraganda kosninga, sem veiti henni aukna vernd. Við slíkar aðstæður sé tjáningarfrelsi í stjórnmálaumræðu afar rúmt, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 321/2008 og dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli nr. 5709/09. Eignarhaldsfélag kröfuhafa fallins banka eigi enga kröfu til takmörkunar á tjáningu um málefni forsætisráðherra í aðdraganda kosninga. Enn óeðlilegra sé að slík krafa sé gerð án samþykkis forsætisráðherrans, sem sjálfur hafi fordæmt lögbannið.

Stefndu byggja á því að fjölmiðlum sé heimilt og skylt að fjalla um og birta gögn, óháð því hvernig þau hafi orðið til eða verið aflað. Þetta leiði m.a. af heimildarverndinni sem dregin sé af 73. gr. stjórnarskrárinnar og lögfest í 25. gr. laga nr. 38/2011, um fjölmiðla, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands frá 1996, bls. 40. Stefndu telja að grundvallarmisskilnings gæti í málatilbúnaði stefnanda og afgreiðslu sýslumanns því þótt bankastarfsmenn og aðrir sem fái gögn afhent í tengslum við bankastarfsemi séu bundnir trúnaði þá fari annað mat fram við það hvort fjölmiðli sé heimilt að fjalla um sömu gögn.

Mat á því hvort fjölmiðlum sé heimilt að fjalla um gögn, t.d. gögn sem heimildarmaður hafi með ólögmætum hætti afhent fjölmiðli, velti ekki á því hvort heimildarmaðurinn hafi verið bundinn trúnaði um gögnin heldur hvort upplýsingar í gögnunum eigi erindi til almennings og hvort fjölmiðillinn gæti að ritstjórnarlegum skyldum sínum í umfjölluninni. Um þetta hafi verið fjallað af dómstólum, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 541/2005 og til hliðsjónar dóm réttarins í máli nr. 272/2000 og dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli nr. 29183/95. Mannréttinda­dómstóll Evrópu hafi með beinum hætti tekið á því mati sem fram fari um birtingu gagna sem fjölmiðill komist yfir vegna brots á lögbundinni þagnarskyldu, í máli nr. 69698/01. Stefndu telja að sömu sjónarmið eigi við hér, þ.e. um hvort umfjöllunin eigi erindi til almennings og tjáningin sé þar með vernduð. Stefndu vísa einnig til þess að samkvæmt lögum nr. 161/2002 sé móttaka á gögnum sem lúti að bankaleynd ekki óheimil.

Um ofangreint vísa stefndu einnig til sjónarmiða um vernd uppljóstrara.

Þá mótmæla stefndu því að lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, hafi áhrif á tjáningarfrelsi fjölmiðla með þeim hætti sem stefnandi byggi á. Lögin takmarki ekki tjáningu sem þessa. Tilvísun stefnanda til 8. og 9. gr. laganna eigi ekki við því efnið sé eingöngu unnið í þágu fréttamennsku, sbr. 5. gr. laganna.

Stefndu kveða að þeir hafi gætt að öllum ritstjórnarlegum skyldum og ábyrgð í umfjölluninni, af samviskusemi og í samræmi við lög. Umfjöllunin hafi verið faglega unnin og sett fram í góðri trú. Stefndu hafi hvorugur birt handahófskennd gögn úr gamla Glitni banka heldur þvert á móti hafi ritstjórn valið úr þau atriði sem eigi erindi til almennings. Þá hafi þeim aðilum, sem fjallað hafi verið um, verið veittur kostur á að tjá sig um umfjöllunina en þeir hafi kosið að gera það ekki. Takmörkun tjáningarinnar sé þar með ólögmæt, sér í lagi með jafn íþyngjandi hætti og leiði af jafn víðtæku lögbanni.

Stefnandi byggi á því að gögnin varði mál sem njóti friðhelgi einkalífs en eins og að framan sé rakið eigi hann enga aðild að slíkri kröfu. Stefnandi eigi ekki lögvarða hagsmuni sem lúta að friðhelgi einkalífs þriðju aðila, án umboðs frá þeim. Þess utan eigi málsástæður um friðhelgi einkalífs ekki við enda hafi umfjöllunin varðað þáverandi forsætisráðherra landsins, sem sé opinber persóna og hafi verið kosinn til þess að gegna trúnaðarstörfum í þágu almennings. Vísa stefndu um þetta til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 103/2014. Þáverandi forsætisráðherra hafi sjálfur opnað á umræðuna, tekið þátt í henni og reynt að villa um fyrir henni og þar með kallað á andsvör, sbr. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli nr. 26118/10. Þá varði umfjöllunin einnig hæfi slíks aðila, m.a. á siðferðilegum mælikvarða, með vísan til skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, til að gegna opinberu embætti, sbr. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í málum nr. 346/04, 39779/04, 37986/09 og 64520/10. Við þær aðstæður séu heimildir til umfjöllunar rýmkaðar. Að auki hafi Bjarni Benediktsson sjálfur talað um nauðsyn þess að slíta sig frá viðskiptalífinu til þess að geta einbeitt sér að stjórnmálum. Forsætisráðherra landsins njóti afar takmarkaðs réttar til friðhelgi einkalífs við þessar aðstæður og í öllu falli ljóst að tjáningarfrelsi fjölmiðla og réttur almennings til upplýsinga vegi þyngra. Málsástæður stefnanda um aðra aðila í gögnunum séu sem fyrr segi of seint fram komnar en þess fyrir utan eigi umfjöllun um þá einnig erindi til almennings vegna efnisins, þátttöku umræddra aðila í íslensku viðskiptalífi og tengsla þeirra við umfjöllunina. Um þetta vísa stefndu til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli nr. 44081/13 og dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 100/2011. Þá liggi ekkert fyrir um stefndu hafi ætlað að fjalla um einkamálefni almennra borgara sem ekki eigi erindi til almennings. Stefndu kveða að slíkt standi ekki til og að þeir ræki ritstjórnarlegar skyldur sínar af kostgæfni. Fullyrðingar um annað séu rangar og ósannaðar.

Stefndu vísa til þess að umfjöllunin feli m.a. í sér gildisdóma og endursögn, bæði úr fjölmiðlum og því sem fram komi í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Tjáningin njóti þar með aukinnar verndar, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 103/2014 og dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í málum nr. 13778/88, 65518/01, 29032/95 og 14234/88. Raunar hafi Hæstiréttur Íslands þegar dæmt mál sem varðað hafi endursögn úr fjölmiðlum og nauðsyn þess að fjalla um glæfralega fjármálahegðun einstaklinga fyrir hrun, í dómi réttarins í máli nr. 100/2011.

Stefndu geri athugasemd við það að sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hafi fallist á að skerða stjórnarskrárvarinn rétt stefndu til tjáningar með þessum hætti, ekki síst í ljósi þess hve mörg vafaatriði séu í málinu, þ.á m. um aðild stefnanda og stefnda, Reykjavik Media ehf. Mat á því hvort skilyrði 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar séu fyrir hendi heyri undir dómstóla. Mat á því hvort upplýsingar eigi erindi til almennings tilheyri ritstjórn og geti síðan komið til endurskoðunar hjá dómstólum. Það sé hins vegar ekki í samræmi við vernd tjáningarfrelsis að láta fulltrúa framkvæmdavaldsins, hér sýslumanns, taka þessar ákvarðanir. Stefndu byggja á því að slík framkvæmt brjóti gegn stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu, sér í lagi með jafn víðtæku lögbanni og hér um ræði, sem varði ekki tiltekið efni umfjöllunar heldur heildarnotkun gagna.

 

Um viðurkenningarkröfu stefnanda

Stefndu byggja kröfu sýna um að verða sýknaðir af viðurkenningarkröfum stefnanda um að stefndu sé óheimilt að birta og/eða fá birtar fréttir eða aðra umfjöllun sem byggð sé á eða unnin upp úr gögnum eða úr fórum stefnanda, á öllu því sem að framan greinir. Telja stefndu að viðurkenningarkröfur stefnanda brjóti í bága við tjáningarfrelsi stefndu enda eigi umfjöllunin erindi til almennings, eins og að framan sé rakið. Að mati stefndu fela viðurkenningarkröfur stefnanda í sér lögspurningu samkvæmt 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, því stefnandi eigi ekki lögvarða hagsmuni af kröfu sem varði ætluð réttindi viðskiptavina fallins banka. Stefndu sjái heldur ekki hvernig stefnandi geti átt kröfu sem þess á hendur stefnda, Reykjavik Media ehf., sem ósannað sé að hafi gögnin undir höndum og hafi ekki birt neitt upp úr þeim.

Að mati stefndu felist í kröfugerð stefnanda sjálfstætt brot gegn stjórnarskrárvörðu tjáningarfrelsi stefndu. Kröfugerðin sé svo víðtæk að útilokað sé að fallast á hana. Þetta eigi við um bæði efni hennar og aðild. Um þetta vísa stefndu til þeirrar vísireglu sem fram komi í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í máli nr. 43380/10 um að ónákvæm tjáning njóti einnig verndar.

Stefndu vísa til þess að kröfugerð stefnanda lúti ekki aðeins að ritstjórnarvaldi stefndu heldur sé þess krafist að stefndu sé óheimilt að „fá birtar“ fréttir upp úr umþrættum gögnum. Stefndu hafi ekki ritstjórnarvald yfir öðrum birtingaraðilum á Íslandi og sé þessi krafa því svo óljóst að athuga verði hvort henni beri að vísa frá dómi án kröfu. Þá vísa stefndu til þess að krafan sé valkvæð, sbr. orðalagið „og/eða“. Stefndu geti ekki ákveðið hvort fréttir birtist í öðrum fjölmiðlum og byggja því á aðildarskorti hvað þennan lið kröfugerðar stefnanda varðar, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

Stefndu vísa einnig til þess að krafan sé mjög víðtæk og mun víðtækari en lögbannskrafa stefnanda. Hún sé reyndar svo víðtæk að hún eigi ekkert skylt við þá kröfu. Með viðurkenningarkröfunni sé krafist takmörkunar á allri umfjöllun til framtíðar á grundvelli 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Yrði fallist á þá kröfu myndi það leiða til ritskoðunar og sé það andstætt 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar sem kveði á um að aldrei megi leiða í lög ritskoðun. Stefndu mótmæli því í öllu falli að krafa stefnanda sé um sjálfstæð réttindi sem lögbanni sé ætlað að vernda, samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga nr. 31/1990, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 541/2005.

 

Um kröfu stefnanda um upptöku gagna

Stefndu byggja á því að krafa stefnanda um upptöku gagna sé bæði andstæð lögbannslögum, fjölmiðlalögum, stjórnarskránni og mannréttindasáttmála Evrópu. Í fyrsta lagi þá sé unnt að hafa uppi slíka kröfu við lögbannsgerð en ekki sem sjálfstæða kröfu í dómsmáli, sbr. VI. kafla laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl., og dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 541/2005. Krafan geti því ekki komið til álita í málinu og sé ekki sjálfstæð krafa, samkvæmt 2. mgr. 36. gr. l. nr. 31/1990.

Í öðru lagi brjóti krafan gegn 25. gr. laga nr. 38/2011, um fjölmiðla, um heimildavernd, sem eins og fram hafi komið, leiði einnig af tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu. Stefndu geti því ekki orðið við áskorun stefnanda, enda myndi hann með því brjóta lög. Stefndu byggja á því að stefnandi geti ekki byggt þennan lið kröfugerðarinnar á dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 218/2002. Í málinu hafi verið deilt um kvikmynd en ekki umfjöllun blaðamanna um gögn sem óheimilt sé að afhenda samkvæmt 25. gr. laga nr. 38/2011, þ. á m. dómara. Þá hafi lögbannskrafa í framangreindu máli varðað ákveðið efni sem fjalla hafi átt um opinberlega. Málatilbúnaður stefnanda í þessu máli lúti ekki að slíku heldur að notkun gagna, án tillits til þess efnis sem vinna megi upp úr þeim. Vísa stefndu til þess sem að framan greini um heimildarvernd og til dóms Hæstaréttar Íslands frá 1996, bls. 40. Stefndu kveða að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi ítrekað tekið á aðgerðum yfirvalda sem hafi haft áhrif á heimildarverndina og gagnaöflun yfirvalda sem brjóti gegn heimildarvernd. Vísa stefndu um þetta til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli nr. 73469/10. Í þeim dómi hafi sérstaklega verið fjallað um ógnina (e. chilling effect) sem leiði af því, komist yfirvöld í gögn sem blaðamenn hafi frá heimildarmönnum. Stefndu vísi einnig til dóma Mannréttinda­dómstóls Evrópu í málum nr. 26419/10 og 39315/06.

Stefndu byggja á því að stefnandi hafi ekki sannað að hann eigi gögnin sem um ræði. Hann hafi ekki sýnt fram á að upphaflegu gögnin hafi stafað frá þeim hluta Glitnis banka sem síðar hafi flust til stefnanda eða að gögnin sem stefndu hafi undir höndum hafi komið frá stefnanda sjálfum. Stefndu vísa til þess að tölvuskeyti sem vísað hafi verið til í tengslum við Falson, frá Ægi Birgissyni, séu frá þeim tíma þegar hann hafi starfað hjá Straumi og VBS en ekki Glitni. Þegar af þeirri ástæðu sé ljóst að tilgreind tölvuskeyti milli Ægis og Bjarna hafi aldrei verið í kerfum eða gögnum Glitnis banka. Þar af leiðandi sé alls ósannað að gögnin séu þaðan komin þannig að stefnandi eigi aðild að þessu máli.

Stefndu telja að jafnvel þótt gögnin komi frá stefnanda þá sé ekki hægt að fallast á að hann eigi eignarrétt yfir afriti af þeim gögnum. Slíkt leiði ekki af eignarrétti. Þá séu önnur úrræði tiltæk að lögum, telji aðili annan aðila hafa eign sína. Kæra megi slíkt til lögreglu sem hafi milligöngu um að nálgast eignina og unnt sé að fara fram á innsetningu hjá sýslumanni. Stefnandi hafi ekki vísað í neina lagaheimild fyrir þessari kröfu og rökstyðji ekki hvers vegna hann telji sig eiga tilkall til þess að fá afhent ljósrit af ætlaðri eign hans. Stefndu telja ástæðuna fyrir því vera að enginn lagalegur grundvöllur sé fyrir þessari kröfu. Stefndu byggja á því að framangreind krafa stefnanda sé því andstæð lögum og þar að auki allt of víðtæk. Stefnandi hafi ekki rökstutt hvers vegna afhenda eigi öll gögn í stað þess að krefjast t.d. afhendingu þeirra gagna sem þegar hafi verið birt upp úr eða þeirra sem ekki hafi verið birt upp úr. Stefndu sjái enn fremur ekki hvernig stefnandi geti átt lögvarða hagsmuni af því að hin síðarnefndu gögn verði afhent dómnum í þessu máli. Stefndu vísa til þess að móttaka gagna, sem lúti bankaleynd, eða að hafa slík gögn undir höndum feli ekki í sér brot á 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

Þá telja stefndu að stefnandi hafi ekki útskýrt hvaða tilgangi það þjóni að afhenda gögnin sem þegar hafi verið birt. Stefndu hafi þegar framkvæmt ritstjórnar­athugun á því hvað eigi erindi til almennings og hvað ekki. Það nægi að fara yfir þær fréttir sem lagðar hafi verið fram til þess að meta hvort þær hafi átt erindi til almennings. Stefndu sjái ekki hvaða tilgangi það þjóni að afhenda gögn frá heimildarmanni og telja að slík aðgerð feli í sér brot gegn 25. gr. laga nr. 38/2011, um fjölmiðla, og 73. gr. stjórnarskrárinnar, sem nái til verndar heimildarmanna. Slíkar kröfur hafi ítrekað verið taldar ámælisverðar og brjóta gegn 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í málum nr. 15054/07, 15066/07, 39315/06, 26419/10, 73469/10, 49085/07, 73571/10, 39293/98 og 20436/02.

 

Að öllu framangreindu virti telja stefndu ljóst að lögbannskrafa stefnanda og kröfur hans í máli þessu séu í senn of víðtækar og brjóta í bága við tjáningarfrelsisrétt stefndu. Stefnandi hafi, með framsetningu krafna sinna og fráleitum kröfum um afhendingu gagna frá heimildarmönnum, gerst sekur um að misnota þau úrræði sem honum séu tiltæk að lögum í því skyni að gera tilraun til þess að þagga niður umræðu sem stefndu eigi stjórnarskrárvarinn rétt til að tjá og almenningur á Íslandi eigi rétt á að heyra.

Stefndu byggja málatilbúnað sinn á 70. og 73. gr. stjórnarskrár, 6. og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og 19. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. auglýsing í C-deild stjórnartíðinda nr. 10/1979. Stefndu byggja einnig á 24. gr. laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl., lögum nr. 90/1989, um aðför, lögum nr. 38/2011, um fjölmiðla, einkum 25. gr. laganna, og lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, einkum 58. gr. laganna. Stefndu byggja kröfu um málskostnað á 1. mgr. 130. gr. og 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Stefndu krefjast þess að þeim verði bættur málskostnaður að fullu og krefjast auk þess álags á málskostnað á grundvelli 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991. Málatilbúnaður stefnanda feli í sér brot gegn tjáningarfrelsi stefndu og hafi frá upphafi verið tilefnislaus. Stefndu telja dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 541/2005 hafa fordæmisgildi í málinu og hafi stefnanda mátt vera það ljóst. Stefndu telja að stefnandi geti, í krafti aðstöðumunar, nýtt yfirburðarstöðu sína til kælingaráhrifa á frjálsa fjölmiðlun og það verði að líta alvarlegum augum. Stefndu séu báðir sjálfstæðir fjölmiðlar og vinni eftir metnaðarfullum ritstjórnarstöðlum, ólíkt t.d. miðlum sem hafi birt öll gögn án skoðunar á því hvað eigi erindi til almennings. Ótækt sé að refsa sjálfstæðum fjölmiðlum sem sinni skyldum sínum með tilefnislausum málssóknum og tilheyrandi málskostnaði sem alkunna sé að standi frjálsri fjölmiðlum fyrir þrifum hér á landi. Starfsumhverfi sjálfstæðra fjölmiðla sé ógnað með málssókn stefnanda sem fyrirsjáanlega eigi sér ekki stoð. Stefndu telja að í þessu máli sé svo langt gengið, af hálfu stefnanda, að honum geti ekki dulist að hann eigi ekki þær kröfur sem hann geri á hendur stefndu. Stefnandi hafi höfðað þetta mál að þarflausu sem og án tilefnis. Þar að auki megi stefnandi vita að staðhæfingar hans og kröfur séu rangar og haldlausar. Stefndu telji að framsetning dómkrafna stefnanda og málshöfðun þessa verði að virða honum til sakar á þann máta að honum verði gert skýrt að hann eigi engar slíkar kröfur á hendur stefndu.

Stefndu telja að dómstólar verði að standa vörð um tjáningarfrelsi frjálsra og óháðra fjölmiðla, bæði beint og óbeint. Það verði aðeins gert með því að bæta fjölmiðlum málskostnað í málum sem þessum, að fullu. Ekki megi líta fram hjá því að þegar dómstólar dæma fjölmiðlum í hag, í málum sem varði tjáningarfrelsið, þá hafi verið gerð tilraun til þöggunar. Í þessu máli séu staðreyndirnar mun alvarlegri því þegar hafi verið lagt á lögbann samkvæmt allt of víðtækri kröfu stefnanda. Þöggunin hafi því þegar orðið og sé viðvarandi á meðan málið sé rekið fyrir dómstólum. Stefnanda hafi í raun tekist, með málsókninni, að þagga niður í lýðræðislegri umræðu sem varði framþróun lýðræðisins, og það í aðdraganda alþingiskosninga. Umræðan hafi því verið kæld, a.m.k. varðandi stefndu, sem báðum hafi með lögbanninu verið bannað að taka þátt í slíkri umræðu. Að því virtu telji stefndu rétt að fjárhæð málskostnaðar, með álagi, endurspegli alvarleika máls þessa, sbr. 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991.

 

IV. Niðurstaða

 1. Helstu ágreiningsefni aðila

Ágreiningurinn sem fjallað er um í þessu máli lýtur í grundvallaratriðum að hvaða marki fjölmiðlar njóta tjáningarfrelsis í lýðræðissamfélagi og hvenær réttur einstaklinga til að njóta friðhelgi um einkamálefni sín og að spornað sé gegn því að fjallað sé um þau í fjölmiðlum kann að vera tjáningarfrelsinu yfirsterkari. Í því sambandi reynir jafnframt á hvort slík réttindi vegi nægilega þungt til að heimilt sé að stöðva umfjöllun fjölmiðils í krafti lögbanns. Þá verður jafnframt að taka afstöðu til þess hvort aðili borð við stefnanda geti að réttu lagi gert kröfu um lögbann vegna réttinda einstaklinga sem voru eitt sinn viðskiptamenn hans.

Stefnandi, Glitnir Holdco ehf., gerir í fyrstu tveimur liðum dómkrafna sinna kröfu um að staðfest verði lögbann sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 16. október 2017 við því að stefndu birti fréttir eða aðra umfjöllun, sem byggð er á eða unnin upp úr gögnum eða kerfum stefnanda og undirorpin eru trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

Stefndu, Útgáfufélagið Stundin ehf. og Reykjavík Media ehf., krefjast báðir sýknu af þessum kröfum. Í því sambandi hafa stefndu í fyrsta lagi vísað til þess að meðferð málsins hjá sýslumanni hafi verið áfátt og að stefnanda skorti lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Í öðru lagi hafa stefndu vísað til þess að lögbannið fari í bága við ákvæði 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um tjáningarfrelsi og því sé ekki fullnægt þeim áskilnaði 24. gr. laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl., að stefnandi hafi sannað eða gert sennilegt að athöfn, byrjuð eða yfirvofandi, hafi brotið eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans.

 

2. Meðferð málsins hjá sýslumanni.

Stefndu byggja sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að þeir hafi ekki notið réttlátrar málsmeðferðar hjá sýslumanni. Vísa stefndu þá til þess að fulltrúi sýslumanns hafi fallist á kröfu um lögbann án rökstuðnings þrátt fyrir að stefnandi hafi ekki rökstutt í beiðni sinni hvernig skilyrði undantekningarákvæðis 3. mgr. 21. gr. laga nr. 90/1989 væru uppfyllt. Af málatilbúnaði stefndu verður jafnframt ráðið að gerðar séu athugasemdir við þá efnislegu ákvörðun sýslumanns að fallast á lögbannsbeiðnina án þess að rökstyðja niðurstöðu sína að því leyti. Auk þess telja stefndu að málsmeðferð sýslumanns hafi verið áfátt að því leyti að þeim var ekki leiðbeint um réttindi þeirra og stöðu, sbr. 27. gr. laga nr. 31/1990, og veittur raunhæfur kostur á að undirbúa vörn sína og njóta aðstoðar lögmanns.

Ágreiningslaust er að stefndu var ekki tilkynnt um lögbannsgerðirnar fyrirfram. Fyrir liggur að í lögbannsbeiðni stefnanda var þess krafist að gerðin yrði tekin fyrir tafarlaust og án þess að stefndu væri tilkynnt um að beiðnin væri fram komin, samkvæmt 3. tölulið 3. mgr. 21. gr. laga nr. 90/1989, um aðför, sbr. 3. mgr. 26. gr. og 4. mgr. 8. gr. laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Var sú krafa rökstudd með vísan til þess að athafnirnar sem lögbanns var beiðst við hafi þá þegar verið hafnar og að nauðsynlegt væri að bregðast skjótt við.

Ljóst er að það leiðir af fyrrnefndum ákvæðum 3. mgr. 26. gr. og 4. mgr. 8. gr. laga 31/1990 að við meðferð sýslumanns á beiðni um lögbann gildir sú almenna regla, sem sett er fram í 1. mgr. 21. gr. laga nr. 90/1989, að tilkynna skuli gerðarþola með hæfilegum fyrirvara að beiðni sé fram komin og um meginefni hennar. Í sama ákvæði segir að gerðarþola skuli um leið tilkynnt hvar gerðin muni byrja og á hvaða tíma tiltekins dags. Ekki eru gerðar ákveðnar kröfur um þann fyrirvara sem ber að hafa á tilkynningum samkvæmt 1. mgr. 21. gr. heldur er sýslumanni falið að meta hvaða fresti sé viðeigandi að veita. Í athugasemdum við 21. gr. frumvarps að lögum nr. 90/1989 kemur fram að jafnan ætti ekki að vera þörf á lengri fresti en svo, að gerðarþoli geti átt þess kost að hliðra til t.d. vinnu til að vera staddur við gerð og eftir atvikum að leita upplýsinga um réttarstöðu sína.

Í 3. tölulið 3. mgr. 21. gr. laga nr. 90/1989 er síðan kveðið á um heimild til þess að víkja frá tilkynningarskyldu samkvæmt 1. mgr. ef hætt þykir að gerðarbeiðandi verði fyrir sérstökum réttarspjöllum af drætti vegna tilkynningar. Í fyrrgreindum athugasemdum frumvarps að lögum nr. 90/1989 kemur fram að þessa undantekningarheimild verði að skýra þröngt, þannig að hún eigi aðeins við ef mjög brýnum hagsmunum gerðarbeiðanda yrði stefnt í hættu með frekari bið.

Að mati dómsins verður að telja að hagsmunir gerðarbeiðanda af því að koma í veg fyrir uppljóstrun trúnaðarupplýsinga hafi ákveðna sérstöðu við mat á því hvort undantekningarheimild 3. tölul. 3. mgr. 21. laga nr. 90/1989 eigi við um lögbannsbeiðni, enda er ljóst að gerðarþola kann í slíkum tilvikum að vera auðvelt að koma í veg fyrir að lögbannið nái tilgangi sínum með því að miðla upplýsingunum annað. Að sama skapi verður ekki litið framhjá því að með því að tilkynna stefndu ekki fyrirfram um lögbannsbeiðnina var dregið úr möguleikum stefndu til að leita sér leiðbeininga um réttarstöðu sína og taka til efnislegra varna gagnvart beiðninni. Þegar litið er til atvika málsins, og einkum þess að fyrsta umfjöllun stefndu hafði birst 7 dögum áður en stefnandi setti fram lögbannsbeiðni sína, telur dómurinn verulegan vafa leika á því hvort skilyrði ákvæðisins hafi verið uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 31/1990 færir sýslumaður gerðabók um þær gerðir sem lögin taka til en um form hennar fer eftir reglum sem ráðherra setur. Þá segir í 2. mgr. 4. gr. sama ákvæðis að um framlagningu gagna við gerðina og varðveislu þeirra, efni bókunar sýslumanns um hana í gerðabók og undirritun og viðurvist votts við hana skuli farið eftir fyrirmælum 32. gr., 2. og 3. mgr. 33. gr., 34. gr. og 1. mgr. 51. gr. laga um aðför nr. 90/1989.

Það leiðir af framangreindu ákvæði 2. mgr. 4. gr., sbr. einnig 2. mgr. 33. gr. laga nr. 89/1990, að sýslumanni ber skylda að greina frá því í gerðabók hvar og hvenær aðfarargerð fer fram, nöfn aðila og umboðsmanna eða málsvara þeirra, hver gögn hafa verið lögð fram við gerðina og ,,hvernig hún hefur að öðru leyti farið fram“. 

Að því er varðar síðastnefnda atriðið þá er sérstaklega vakin athygli á því í athugasemdum við ákvæði 2. mgr. 33. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 90/1989 að ætlast sé til að í bókun komi fram um ,,allar ákvarðanir, sem sýslumaður hefur beinlínis orðið að taka vegna sérstakra krafna, mótmæla eða athugasemda málsaðila.“ 

Í ljósi orðalags 2. mgr. 33. gr. laga nr. 90/1989 og tilvitnaðra ummæla í lögskýringargögnum verður túlka ákvæði 2. mgr. 33. gr. laga nr. 90/1989 með þeim hætti að sýslumanni beri að færa upplýsingar um þau atriði í gerðabók ef brugðið er á einhvern hátt út frá þeim almennu reglum sem gilda um framkvæmd lögbannsgerðar. Verður að leggja til grundvallar að slík skylda eigi við þegar vikið er frá þeirri meginreglu að tilkynna gerðarbeiðanda um framkomna lögbannsbeiðni og eins þegar lögbannsbeiðninni er mótmælt sem slíkri. Við þær aðstæður verður þá að taka fram í gerðabók hver hafi orðið niðurstaðan um mótmælin og hvernig sú niðurstaða hafi fengist.

Með vísan til þess sem hér að framan er rakið verður að telja að sýslumanni hafi verið rétt að gera frekari grein fyrir því í gerðabók hvers vegna fallist var á kröfu stefnanda um að taka fyrir lögbannsbeiðni stefnanda tafarlaust og án þess að stefndu væri tilkynnt um að beiðnin væri fram komin. Þá verður jafnframt að telja að sýslumanni hafi borið að gera grein fyrir því í gerðabók hvernig hann komst að þeirri niðurstöðu sinni að hafna mótmælum stefndu, þar sem vísað var m.a. til sjónarmiða um tjáningarfrelsi, þegar beiðni stefnanda um lögbann var tekin fyrir.

Þegar tekin er afstaða til þess hvaða áhrif það hefur fyrir úrlausn þessa máls að sýslumaður gerði ekki grein fyrir því hvers vegna væri vikið frá meginreglu laganna um tilkynningu lögbannsins verður þó að líta til þess að fyrirsvarsmenn stefndu voru báðir viðstaddir lögbannsgerðirnar og að þeim var báðum gefið færi á að ráðfæra sig við lögmenn og færa til bókar mótmæli sín við gerðirnar. Af þeim sökum verður ekki séð að skortur á því að stefndu væru tilkynnt um lögbannið og því að tekin væri afstaða til fráviks frá tilkynningarskyldu í gerðabók hafi leitt til réttarspjalla við gerðirnar.

Að mati dómsins hafa stefndu ekki sýnt fram á með hvaða hætti leiðbeiningaskyldu hafi ekki verið sinnt við gerðina eða hvernig það hafi haft áhrif á framgang mála. Verður í því sambandi að horfa til þess að í gerðarbók um fyrirtöku lögbannsbeiðninnar á hendur stefnda Útgáfufélaginu Stundinni ehf., sem fyrirsvarsmaður félagsins undirritaði, kemur fram að fyrirsvarsmanninum hafi verið leiðbeint um réttarstöðu sína við fyrirtöku lögbannsbeiðninnar 16. október 2017 og að hann hafi ekki gert athugasemdir við efni bókunarinnar. Þótt fyrirsvarsmaður stefnda Reykjavík Media ehf. hafi neitað að undirrita bókun um fyrirtöku síðar sama dag verður um það atriði að horfa til þess að efni bókunarinnar er sérstaklega vottað. Þá hefur ekkert komið fram í málinu um að ákvörðun tryggingar hafi verið í andstöðu við ákvæði 3. mgr. 8. gr. og 30. gr. laga nr. 31/1990.

Hvað varðar þær fullyrðingar í málatilbúnaði stefndu að þeim hafi verið tilkynnt af hálfu fulltrúa sýslumanns að fyrir lægi að lögbannið yrði samþykkt áður en sú varð reyndin og fulltrúi sýslumanns hafi dregið taum stefnanda við meðferð málsins þá fær dómurinn ekki séð að þær fullyrðingar eigi stoð í gögnum málsins. Verður af þeim sökum að hafna málatilbúnaði stefndu að þessu leyti. Þá verður ekki séð að sú aðstaða að stefnandi hafi meiri fjárhagslegan styrk en stefndu geti leitt til þess að slíks ójafnræðis hafi gætt með aðilum að það gangi í berhögg við ákvæði 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð. Málsástæðum stefndu um þetta atriði er því hafnað. 

Eftir stendur hins vegar að sýslumanni bar eftir sem áður gera grein fyrir því í gerðabók hvernig hann komst að þeirri niðurstöðu sinni að hafna mótmælum stefndu þegar lögbannsbeiðnirnar voru teknar fyrir. Að mati dómsins getur það atriði ekki eitt og sér valdið því að lögbannið verði talið ólögmætt, enda verður í því sambandi að taka afstöðu til þess hver efnisleg réttindi stefnanda eru í málinu. Um það er fjallað í kafla IV.4.

 

 1. Aðild Glitnis Holdco ehf. að málinu og lögvarðir hagsmunir félagsins

Stefndu byggja sýknukröfu sína í öðru lagi á því að stefnandi sé ekki réttur aðili málsins og að hann hafi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn þess. Stefnandi hefur hins vegar vísað til þess að samkvæmt fjölmiðlaumfjöllun stefnda, Útgáfufélags Stundarinnar ehf., hafi hún verið unnin í samvinnu við stefnda, Reykjavik Media ehf., og byggt á gögnum „innan úr Glitni banka“. Telur stefnandi að umrædd tilvitnun frá október 2017 gefi það eindregið til kynna að stefndu hafi unnið umfjöllunina upp úr gögnum sem koma frá stefnanda.

Þegar tekin er afstaða til þeirra sjónarmiða stefndu að stefnanda skorti lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins verður að hafa í huga að samkvæmt ákvæði 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar ber öllum réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Af þessu leiðir að almennt verður að gæta varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að stefnendur skorti lögvarða hagsmuni. Þannig ber að jafnaði ekki að vísa frá málum á slíkum forsendum nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæft gildi fyrir lögverndaða hagsmuni stefnanda að fá leyst úr sakarefninu

Stefnandi hefur til stuðnings kröfu sinni einkum vísað til ákvæðis 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, um þagnar­skyldu starfsmanna þeirra og annarra sem vinna verk í þeirra þágu. Dómurinn telur ljóst að umræddu ákvæði er fyrst og fremst ætlað að vernda viðskiptahagsmuni viðskiptavina fjármálafyrirtækis en ekki hagsmuni fyrirtækisins sjálfs. Hvað sem því líður verður þó ekki horft fram hjá því að stefnandi ber ábyrgð á því að trúnaðar sé gætt um þær upplýsingar sem í ákvæðinu greinir, bæði í samræmi við ákvæðið sjálft, sem og ákvæði 11. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, um skyldur ábyrgðaraðila samkvæmt síðarnefndu lögunum. Verður þá enn fremur að líta til þess hafi stefnandi sem ábyrgðaraðili unnið með persónuupplýsingar í andstöðu við ákvæði laga nr. 77/2000 kann hann að bera skaðabótaábyrgð samkvæmt 43. gr. laganna.

                Í ljósi þessa verður að telja að stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að trúnaðar sé gætt um upplýsingar sem frá honum stafa og undirorpnar eru trúnaði samkvæmt ákvæði 58. gr. laga nr. 161/2002. Verður þá jafnframt að horfa til þess að þær upplýsingar sem ákvæðið tekur til kunna jafnframt, eins og dómafordæmi Hæstaréttar bera með sér, að falla undir ákvæði 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs. Að mati dómsins verður enn fremur að gæta þess sjónarmið um lögvarða hagsmuni og aðild af úrlausn álitaefna um friðhelgi einkalífs verði ekki afmörkuð of þröngt, enda kann slíkt að draga úr því að slík réttindi verði vernduð með raunhæfum og virkum hætti fyrir dómstólum.

Með vísan til þess sem að framan er rakið telst stefnandi því vera réttur aðili að málinu og hafa lögvarða hagsmuni af úrlausn dómkrafna sinna. Hvað varðar aðild stefnda, Reykjavik Media ehf., þá er í umfjöllun stefnda, Útgáfufélags Stundarinnar ehf., vísað sérstaklega til þess að umfjöllunin sé unnin í samvinnu þeirra tveggja og breska fjölmiðilsins Guardian. Stefnandi má því með réttu ætla að umfjöllun, sem er afrakstur samvinnu stefndu, geti birst hvort heldur sem er í fjölmiðlum stefnda, Útgáfufélags Stundarinnar ehf., eða annars staðar fyrir tilstuðlan stefnda, Reykjavik Media ehf. Stefnandi hefur því einnig lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr kröfum sínum á hendur stefnda, Reykjavik Media ehf. og það félag telst því með réttu aðili málsins.

 

 

 

 1. Skilyrði lögbanns og heimild stefndu til að birta og

fá birtar fréttir eða aðra umfjöllun byggða á gögnum frá stefnanda

Stefnandi hefur sem áður segir krafist þess að lögbannið sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lagði 16. október 2017 við því að stefndi Útgáfufélagið Stundin ehf. birti fréttir eða aðra umfjöllun, sem byggð er á eða unnin upp úr gögnum eða kerfum stefnanda, sem undiropin eru trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002, verði staðfest. Telur stefnandi að hann hafi þegar sannað eða gert sennilegt að athafnir stefndu, byrjaðar eða yfirvofandi, hafi brotið eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans og þar með fullnægt áskilnaði 24. gr. laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl.

Varnir stefndu byggja hins vegar á því að þeir hafi fullan rétt á að birta fréttir úr sömu gögnum eða kerfum með vísan til 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem hefur lagagildi hér á landi, sbr. lög nr. 62/1994.

Samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmálans eiga allir rétt á að láta í ljós hugsanir sínar og skoðanir, svo og að taka við og skila áfram upplýsingum og hugmyndum heima og erlendis án afskipta stjórnvalda. Þá er þar jafnframt kveðið á um að eingöngu megi gera takmarkanir á þessum rétti að uppfylltum þeim skilyrðum sem fram koma í 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmálans. Í því felst að takmarkanirnar verða að byggjast á lögum, stefna að lögmætum markmiðum og ekki ganga lengra samrýmist lýðræðishefðum eða er nauðsynlegt í lýðræðisþjóðfélagi.

Enda þótt samkvæmt framangreindu sé gengið út frá því að tjáningarfrelsið geti sætt takmörkunum er engu að síður mælt fyrir um það í síðari málslið 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar að takmarkanir á tjáningarfrelsi megi ekki vera með þeim hætti að þær feli í sér ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi.

Ljóst er að ef horft væri einungis til orðalags 2. mgr. 73. gr. væri nærtækt að álykta að það fæli í sér skýlaust bann við hvers kyns tálmunum sem koma í veg fyrir að tjáning geti farið fram og upplýsingum sé miðlað. Af athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að stjórnskipunarlögum nr. 97/1995, en með þeim lögum var ákvæðið innleitt í stjórnarskrána, verður hins vegar ekki dregin sú ályktun að gert hafi verið ráð fyrir svo afgerandi banni. Þannig segir í athugasemdunum:

 

,,Með banni við ritskoðun og öðrum sambærilegum tálmunum er hér nánar tiltekið átt við að ekki megi lögfesta reglur sem feli í sér að maður verði knúinn til að leita opinbers leyfis fyrir fram til að mega tjá skoðun sína við aðra. Er þannig gengið út frá að almennt verði þær takmarkanir á tjáningarfrelsi sem geti talist heimilar eftir 11. gr. frumvarpsins að koma fram á þann hátt að þeim verði fyrst og fremst beitt eftir að tjáning hefur átt sér stað, líkt og gerist við málsókn til að koma fram viðurlögum vegna meiðyrða sem felist í þegar föllnum ummælum. Eftir atvikum eiga þær þó við áður en tjáningin á sér stað ef komið er fram að hún vofi yfir eins og getur t.d. gerst þegar leitað er lög­banns til að koma í veg fyrir útgáfu rits sem geymir ærumeiðandi ummæli um mann. “

 

Af framangreindu er ljóst að þegar núgildandi ákvæði 73. gr. stjórnarskrárinnar var sett með tilkomu stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995 var ekki uppi ráðagerð um að taka fyrir að lögbann yrði notað sem réttarúrræði til að koma í veg fyrir að tiltekin tjáning færi fram. Í innlendri dómaframkvæmd sem og dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur einnig verið gengið út frá því að ákvæði 73. gr. stjórnarskrárinnar og sem ákvæði 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu standi því ekki í vegi að lögbanni verði beitt til að hindra tjáningu. Í 2. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmálans kemur reyndar beinlínis fram að takmörkunum megi beita til þess að koma í veg fyrir uppljóstran trúnaðarmála. Eftir sem áður eru takmörkunum af þessu tagi settar þær skorður í stjórnarskránni og mannréttindasáttmálanum að þær verða eiga sér stoð í lögum, stefna að lögmætu markmiði og ekki ganga lengra en nauðsynlegt er í lýðræðissamfélagi.

Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur hins vegar verið talið að þær hættur sem felast í fyrirfram tálmunum á tjáningarfrelsi geri kröfu um að dómstóllinn taki þess háttar skerðingar og forsendur þeirra til rækilegrar athugunar. Á það einkum við þegar slíkum tálmunum er beitt gegn fjölmiðlum, enda séu fréttir í eðli sínu þannig að þær hafi lítið geymsluþol og hvers kyns töf á birtingu þeirra, jafnvel þótt skammvinn sé, geti svipt þær gildi sínu og valdið því að áhuginn fyrir þeim hverfi (sjá hér til hliðsjónar m.a. dóm Mannréttindadómstólsins frá 26. nóvember 1991 í máli nr. 13585/88 Observer og Guardian gegn Bretlandi, 60. málsgrein og þá dóma sem þar er vitnað til). Í því felst m.a. að gerðar eru auknar kröfur til rökstuðnings fyrir slíkum íhlutunum, þess að lagalegur grundvöllur þeirra sé skýr og að íhlutanirnar séu fyrirsjáanlegar (sjá hér m.a. til hliðsjónar dóm Mannréttindadómstólsins frá 14. mars 2002 í máli nr. 26229/95 Gaweda gegn Pólandi, 32. málsgrein).

Það leiðir af 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar að tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum. Þegar litið er til athugasemda við frumvarp það sem varð að stjórnarskipunarlögum nr. 97/1995 og dómaframkvæmdar Hæstaréttar verður að ganga út frá því að með lögum í þessum skilningi sé að meginstefnu átt við sett lög frá Alþingi.

Stefnandi hefur í málatilbúnaði sínum einkum vísað til ákvæðis 58. gr. laga nr. 161/2002 til stuðnings kröfu sinni um lögbann sem og ákvæða 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmálans um friðhelgi einkalífs. Fallist er á að með þessum ákvæðum sé fullnægt þeirri kröfu sem sett er í 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar um að skerðing eigi sér stoð í lögum. Á það bæði við um ákvæði 58. gr. laga nr. 161/2002, en einnig verður að telja að ákvæði 71. gr. feli í sér sjálfstæða heimild til takmörkunar á tjáningarfrelsi, sbr. dóm Hæstaréttar frá 21. mars 2000 í máli nr. 306/2001.

Dómurinn fellst hins vegar engan veginn á þau sjónarmið stefnanda að ákvæði 8. og 9. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, geti orðið grundvöllur þess að takmarka tjáningarfrelsi stefndu, enda gilda þau ákvæði laganna ekki þegar persónuupplýsingar eru einvörðungu unnar í þágu fréttamennsku, sbr. 5. gr. sömu laga. Er þá rétt að taka fram að í gögnum málsins er ekkert komið fram sem bendir til þess að stefndu hafi unnið með þær upplýsingar sem mál þetta lýtur að í öðrum tilgangi.

Að mati dómsins verður að telja sýnt að sú skerðing á tjáningarfrelsi stefndu sem fólst í lögbanninu sem sett var á stefndu 16. október 2017 hafi miðað að því lögmæta markmiði að vernda réttindi annarra og koma í veg fyrir uppljóstrun trúnaðarmála, sbr. 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

 Eftir stendur þá að taka afstöðu til þess hvort lögbannið hafi verið nauðsynlegt og samrýmst lýðræðishefðum, eins og gerð er krafa um í fyrrnefndum ákvæðum stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmálans. Við það mat verður að taka afstöðu til þess hvaða vægi þeir hagsmunir sem stefnandi hefur vísað til, þ.e. að leynd skuli ríkja um fjárhagsmálefni einstaklinga, hafi gagnvart megingildum tjáningarfrelsisins um nauðsyn frjálsrar hugsunar og skoðanaskipta fyrir lýðræðislegt samfélag. Verður þá meðal annars að horfa til þess hvernig sú skerðing sem gripið er til kann að raska þessum gildum. Í því sambandi verður þá einnig að taka afstöðu til þess að hvaða marki skerðingin sé til þess fallin að ná því markmiði sem stefnt er að með henni og hvort hún gangi í því skyni lengra en nauðsynlegt er. Við þetta mat verður jafnframt að hafa í huga að almennt þurfa sérstaklega ríkar ástæður að liggja að baki fyrirfram tálmun á tjáningarfrelsi.

Ljóst er að lögbannið sem lagt var á stefndu 16. október sl. fól í sér algert bann við þeir birtu fréttir eða aðra umfjöllun, sem byggð væri á eða unnin upp úr gögnum eða kerfum stefnanda. Lögbannið beindist þannig að rétti stefndu til að fjalla um málefni sem lutu að viðskiptum ákveðinna einstaklinga sem tengdust Glitni hf. áður en Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar bankans 7. október 2008. Með lögbanninu var einnig komið í veg fyrir að almenningur fengi frekari upplýsingar um þau mál sem fjallað var um af hálfu stefndu og þannig raskað grundvallargildum tjáningarfrelsisins um frjáls skoðanaskipti og rétti einstaklinga til að taka við upplýsingum og mynda sér skoðun á samfélagslegum málefnum. Lögbannið fól sem fyrr segir einnig í sér fyrirfram tálmun sem almennt þarf ríkar ástæður til að réttlæta.

Í þessu sambandi verður jafnframt að hafa í huga að þegar lögbannið var lagt á voru einungis 12 dagar til þess að Alþingiskosningar færu fram 28. október. Ljóst er að rétturinn til frjálsra kosninga og frelsið til að tjá sig um stjórnmál eru ein af undirstöðum lýðræðislegs stjórnarfars. Þessi réttindi eru nátengd, enda er tjáningarfrelsi ein af nauðsynlegum forsendum þess að kjósendur í lýðræðissamfélagi geti tjáð hug sinn með því hvernig þeir beita atkvæðisrétti sínum. Af þeim sökum hefur verið talið sérstaklega brýnt að fólk hafi frelsi til að tjá skoðanir sínar og miðla upplýsingum í aðdraganda kosninga (sjá hér til hliðsjónar dóm Mannréttindadómstólsins frá 19. febrúar 1998 í máli Bowman gegn Bretlandi, Reports 1998‑I, 42. málsgrein, og þá dóma sem þar er vitnað til).

Gagnstætt tjáningarfrelsi stefndu stendur hins vegar réttur viðskiptamanna stefnanda til friðhelgi einkalífs. Sá réttur er varinn af 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar, en samkvæmt 3. mgr. sömu greinar verður sá réttur því aðeins takmarkaður með lögum að brýna nauðsyn beri til þess vegna réttinda annarra. Friðhelgi einkalífsins er einnig varin af 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, þar sem hún stendur jafnfætis rétti stefndu til tjáningar og nýtur sömu lagaverndar, sbr. og ákvæði 17. gr. sáttmálans. Eins og atvikum málsins er háttað verður að taka afstöðu til þess hvort eigi að ganga hér framar, frelsi stefndu samkvæmt 2. mgr., sbr. 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar til að fjalla um þau málefni sem urðu tilefni lögbannsins eða réttur viðskiptamanna stefnanda samkvæmt 1. mgr., sbr. 3. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar til friðhelgi einkalífs.

Við þetta mat verður að taka mið af efni þeirrar umfjöllunar stefnda Útgáfufélags Stundarinnar ehf., frá 6. til 16. október 2017 sem varð tilefni lögbannsbeiðni stefnanda. Óumdeilt er að þungamiðja þeirrar umfjöllunar voru þátttaka þáverandi forsætisráðherra í ýmsum viðskiptum sem og einstaklinga og lögaðila sem tengdust honum. Lutu upplýsingarnar sem greint var frá í umfjölluninni fyrst og fremst að fjárhagsmálefnum þeirra og innbyrðis samskiptum sem og samskiptum við bankann, Glitni hf.

Þegar tekin er afstaða til þess hvort sjónarmið um friðhelgi einkalífs geti réttlætt lögbannið sem mál þetta snýr að verður ekki litið fram hjá því að umfjöllun stefnda beindist í öllum aðalatriðum að viðskiptalegum umsvifum þáverandi forsætisráðherra, þ.e. einstaklings sem hefur sem stjórnmálamaður sjálfur gefið kost á sér til opinberra trúnaðarstarfa. Stjórnmálamenn geta almennt ekki vænst þess að njóta sömu verndar og aðrir einstaklingar gagnvart opinberri umfjöllun á grundvelli 71. gr. stjórnarskrárinnar, 8. gr. mannréttindasáttmálans eða annarra lagareglna sem tryggja eiga leynd upplýsinga. Þvert á móti verður að telja að almenningur eigi við ákveðnar aðstæður tilkall til þess að fá upplýsingar um stjórnmálamenn sem að öllu jöfnu myndu teljast til einkamálefna (sjá hér m.a. til hliðsjónar dóm Mannréttindadómstólsins frá 16. nóvember 2004 í máli nr. 53678/00 Karhuvaara og Iltalehti gegn Finnlandi, 45. málsgrein), einkum þegar upplýsingarnar sem um ræðir tengjast því hvernig þeir hafi rækt hlutverk sitt sem stjórnmálamenn.

Við mat á því hvort lögbannið sem hér um ræðir hafi verið í eðlilegu samræmi við þá hagsmuni sem stefnandi hefur vísað til verður ekki litið fram hjá því að umfjöllunin um umsvif þáverandi forsætisráðherra og aðila sem tengdust honum lutu að viðskiptasambandi þeirra við einn hinna föllnu banka, Glitni hf., á sama tíma og hann var þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem þá sat í ríkisstjórn. Umfjöllunin tengdist þannig viðskiptaháttum í einum stóru viðskiptabankanna fyrir fall þeirra 2008 en eins og fram kemur í dómi Hæstaréttar Íslands frá 24. nóvember 2011 í máli nr. 100/2011 hafði hrunið sem varð í íslensku efnahagslífi við fall viðskiptabankanna þriggja haustið 2008 mikil og almenn áhrif á alla starfsemi í landinu og kjör almennings. Opinber umræða og umfjöllun fjölmiðla hafi frá þeim tíma snúist mikið um að greina aðdraganda og orsakir þess hvernig fór og hafi umfjöllun um fjárhagsleg málefni einstakra manna oft verið nærgöngul.

Ljóst er að umfjöllun um viðskiptaleg umsvif þáverandi forsætisráðherra og annarra, þar sem meðal annars var vikið að áhættusömum fjárfestingum sem ekki skiluðu tilætluðum árangri eru þáttur í umfjöllun fjölmiðla um afleiðingar útlánastefnu íslenskra viðskiptabanka og áhættusækni íslenskra fjárfesta, sem kann að hafa átt þátt í því hvernig fór. Eins og vikið er að í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar getur skerðing á frelsi fjölmiðla til að fjalla um slík málefni ekki talist nauðsynleg í lýðræðisþjóðfélagi. Gildir þá einu þótt umfjöllunin byggi á gögnum sem undirorpin eru trúnaði og að birtar hafi verið upplýsingar sem gangi nærri friðhelgi einkalífs tilgreindra einstaklinga.

Hvað varðar umfjöllun stefnda, Útgáfufélags Stundarinnar ehf., um málefni annarra einstaklinga en þáverandi forsætisráðherra, þá eru umræddir einstaklingar ýmist tengdir þáverandi forsætisráðherra fjölskylduböndum eða gegnum viðskipti, auk þess sem þeir höfðu á þeim tíma sem umfjöllunin tók til tengsl við Glitni hf. Er það mat dómsins að umfjöllun um málefni þeirra hafi verið svo samofin fréttaefninu í held að ekki verði greint á milli, sjá hér til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 1. júní 2006 í máli nr. 541/2005. Þá verða ekki dregnar þær ályktanir af umfjöllun stefnda, Útgáfufélags Stundarinnar ehf., að ætlunin sé að fjalla um málefni handahófskenndra einstaklinga sem ekki eigi erindi til almennings.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða dómsins að umfjöllun stefnda, Útgáfufélags Stundarinnar ehf., hafi ekki gengið nær einkalífi þeirra einstaklinga sem um ræði en óhjákvæmilegt hafi verið í opinberri umræðu í lýðræðissamfélagi um málefni sem varðar almenning og að nægar ástæður hafi þar af leiðandi verið fyrir hendi sem réttlættu birtingu þessara skrifa. Breytir það ekki framangreindri niðurstöðu hvernig umþrætt gögn komust í hendur stefndu né heldur að í þeim séu upplýsingar sem undirorpnar séu bankaleynd samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

Samkvæmt þessu er það niðurstaða dómsins að ekki sé fullnægt áskilnaði 24. gr. laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl., að stefnandi hafi sannað eða gert sennilegt að athöfn, byrjuð eða yfirvofandi, hafi brotið eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans. Ber því að synja kröfu stefnanda á hendur stefndu um að staðfest verði lögbann það sem sýslumaðurinn í Reykjavík lagði 16. október 2017 við því að stefndu birti fréttir eða aðra umfjöllun, sem byggð er á eða unnin upp úr gögnum eða kerfum stefnanda, sem undiropin eru trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

Með hliðsjón af þeirri niðurstöðu sem að framan greinir eru stefndu einnig sýknaðir af kröfum stefnanda í lið 3 og 4 í dómkröfum, um að viðurkennt verði að stefndu sé óheimilt að birta og/eða fá birtar fréttir eða aðra umfjöllun sem byggð er á eða unnin upp úr gögnum úr fórum eða kerfum stefnanda og undirorpin eru trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Hefur dómurinn þá litið til þess að umræddar kröfur byggja í reynd á sömu málsástæðum og fyrsta og önnur krafa stefnanda.

 

5. Kröfur stefnanda um afhendingu gagna og afrita af þeim

Í liðum 5 og 6 í dómkröfum stefnanda gerir hann kröfu um að stefndu verði gert að afhenda honum öll gögn og afrit af þeim sem stefndu hafi í fórum sínum, hvort sem þau séu á rafrænu eða öðru formi, sem komi úr fórum eða kerfum stefnanda. Stefnandi byggir þessa kröfu á eignarrétti sínum á gögnunum og afritum af þeim, sem og á því að stefndu sé óheimilt að hafa þær upplýsingar undir höndum sem finna megi í gögnunum, sbr. 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, ákvæði laga nr. 77/2000, um persónuvernd og persónuupplýsinga, 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mann­réttindasáttmála Evrópu.

Kröfur samkvæmt liðum 5 og 6 í dómkröfum stefnanda miða að því að honum verði afhent „öll gögn og afrit“ „hvort sem þau eru á rafrænu eða öðru formi, sem koma úr fórum eða kerfum stefnanda“. Gögnin eru þó ekki frekar tilgreind. Ekkert hefur fram komið í málinu um að einhver frumeintök gagna séu horfin úr fórum stefnanda og er því við það miðað að stefnandi krefjist þess að fá afhent afrit gagnanna á rafrænu eða öðru formi. Þá liggur ekki fyrir í málinu af hvaða gögnum stefnandi telur stefndu hafa afrit, annað en yfirlit yfir rafræn skjöl úr kerfum stefnanda samkvæmt bókun stefnanda í þinghaldi málsins 18. desember 2017. Vísar stefnandi að öðru leyti til þess sem fram kom í fréttaflutningi Stundarinnar um að umfjöllunin byggði á gögnum „innan úr Glitni banka“.

Í því skyni að eyða óvissu um hvaða gögn stefndu hafi afrit af og á hvaða formi þau eru, er í stefnu málsins og með bókun stefnanda í þinghaldi 7. nóvember 2017 skorað á stefndu að upplýsa hvaða gögn þeir hefðu undir höndum, með vísan til 2. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Stefndu urðu ekki við þeirri áskorun og vísuðu til 25. gr. laga nr. 38/2011, um fjölmiðla.

Í framangreindri bókun í þinghaldi málsins 18. desember 2017 tilgreindi stefnandi 1013 rafræn skjöl sem hann telur stefndu hafa undir höndum. Fram kemur í bókuninni að hjá embætti héraðssaksóknara sé til rannsóknar mál sem varði gagnastuld frá stefnanda og birtingu upplýsinga úr þeim. Kveður stefnandi að tilgreining skjalanna í bókuninni sé í samræmi við yfirlit sem hann hafi fengið frá embætti héraðssaksóknara 14. desember 2017, yfir gögn sem embættið hafi undir höndum og eigi uppruna sinn í kerfum stefnanda. Ekkert liggur hins vegar fyrir um efni þessara skjala þannig að unnt sé að leiða líkur að því að þau séu í fórum stefndu.

Líkt og að framan greinir bera flest hinna tilgreindu skjala heiti sem gefa ekkert til kynna um hvert efni þeirra er. Þá er ekki minnst á stefndu í bréfi embættis héraðssaksóknara frá 14. desember sl. og því ekkert sem gefur til kynna að þeir hafi þau skjöl, sem þar eru tilgreind, undir höndum.

Í framangreindri bókun er jafnframt ítrekuð áskorun stefnanda að stefndu leggi fram þau gögn sem þeir hafi undir höndum og komi „innan úr“ stefnanda. Í þinghaldi málsins 22. desember 2017 var af hálfu stefndu áréttað að þau gögn sem þau hefðu undir höndum bæru með sér að þau komið frá heimildarmanni og að þeim væri því óheimilt að lögum að verða við áskorun stefnanda um framlagningu þeirra.

Af hálfu stefnanda var leitast við að upplýsa við aðalmeðferð málsins hvaða gögn stefndu hefðu undir höndum með spurningum sem beint var til fyrirsvarsmanna stefndu og vitna. Jón Trausti Reynisson, framkvæmdastjóri og ritstjóri Stundarinnar, og Jóhannes Kr. Kristjánsson, stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Reykjavik Media ehf., gáfu aðilaskýrslur. Þeir neituðu að svara spurningum lögmanns stefnanda um þau gögn sem stefndu hefðu undir höndum, með vísan til 25. gr. laga nr. 38/2011, um fjölmiðla. Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, ritstjóri og blaðamaður Stundarinnar, Ingi Freyr Vilhjálmsson blaðamaður og Jóhann Páll Jóhannsson blaðamaður gáfu öll vitnaskýrslu fyrir dómi en neituðu að svara spurningum lögmanns stefnanda um þau gögn sem stefndu hefðu undir höndum, með vísan til 25. gr. laga nr. 38/2011. Spurningarnar lutu að því hvaða gögn þau hefðu undir höndum, í hvaða formi gögnin væru, hvort þau kæmu úr kerfum Glitnis, umfangi gagnanna og hvers konar upplýsingar væru í þeim. Þá voru vitnin spurð hvort stefndu hefðu undir höndum þau gögn sem greini í framlögðu yfirliti frá embætti héraðssaksóknara.

Stefnandi krafðist úrskurðar dómara um að framangreindum vitnum yrði gert skylt að svara þeim spurningum sem þau höfðu neitað að svara. Úrskurður var kveðinn upp um kröfuna í sama þinghaldi og var kröfum stefnanda um að vitnunum yrði gert skylt að svara spurningum lögmannsins hafnað.

Í úrskurðinum er rakið að samkvæmt a-lið 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, er vitni óheimilt án leyfis þess sem á í hlut að svara spurningum um hver sé höfundur eða heimildarmaður að riti, grein, frásögn eða tilkynningu sem hefur birst án þess að hann væri nafngreindur, ef vitnið ber ábyrgð að lögum á efni prentaðs rits eða öðru efni sem birtist opinberlega eða það hefur öðlast vitneskju um höfund eða heimildarmann í starfi hjá ábyrgðarmanni. Eins er í 25. gr. laga nr. 38/2011, um fjölmiðla, kveðið á um að starfsmönnum fjölmiðlaveitu sem hlotið hafa leyfi eða skráningu hjá fjölmiðlanefnd sé óheimilt að upplýsa hver sé heimildarmaður að grein, riti, frásögn, tilkynningu eða öðru efni, hvort sem það hefur birst eða ekki, hafi heimildarmaður eða höfundur óskað nafnleyndar. Starfsmönnum fjölmiðlaveitu er jafnframt óheimilt að láta af hendi gögn sem hafa að geyma upplýsingar um heimildarmann eða höfund í slíkum tilvikum. Þá segir í 2. mgr. 25. gr. að bann 1. mgr. gildi einnig um þá sem vegna tengsla við fjölmiðlaveitu eða framleiðslu efnis hefur orðið kunnugt um hver heimildarmaður eða höfundur er eða hefur undir höndum gögn þar að lútandi. Samkvæmt 3. mgr. 25. gr. verður heimildarvernd, samkvæmt 1. og 2. mgr., einungis aflétt með samþykki viðkomandi heimildarmanns eða höfundar eða á grundvelli 119. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.

Í úrskurðinum er einnig rakið að þrátt fyrir að spurningar stefnanda lúti að því hvaða gögn stefndu hafi undir höndum en ekki hver sé heimildarmaður þeirra þá verði ekki horft framhjá því að heimildarvernd blaðamanna njóti sjálfstæðrar verndar samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Játa verði blaðamönnum víðtækt frelsi til tjáningar og einn þáttur í því sé að fjölmiðlar verði að geta tekið við upplýsingum í trúnaði án þess að þurfa að gera grein fyrir því hvaðan eða frá hverjum þær stafi. Verði blaðamönnum því ekki gert skylt að veita upplýsingar sem leitt geti til þess að kennsl verði borin á heimildarmenn hans, þar á meðal upplýsingar um gögn sem blaðamanni hafi verið látin í té. Eðli málsins samkvæmt verði að játa blaðamönnum ákveðið svigrúm til mats á því hvort hann telji uppljóstrun um þau gögn sem hann hafi undir höndum eða starfsaðferðir sínar að öðru leyti vera til þess fallnar að varpa ljósi á það hverjir séu heimildarmenn hans.

Að framangreindu virtu hefur stefnanda ekki tekist að eyða óvissu um það hvaða gögn stefndu hafa afrit af eða á hvaða formi. Af hálfu stefnanda var ekki leitast við að leiða önnur vitni en að framan greinir, t.d. starfsmenn eða fyrrverandi starfsmenn stefnanda, um hvaða gögn þetta kunni að vera. Þá hefur stefnandi ekki lagt fram endurrit þeirra skjala sem hann telur stefndu hafa undir höndum til þess að leitast við að sýna fram á að grundvöllur sé fyrir málatilbúnaði hans. Með vísan til þessa og þeirra sjónarmiða sem rakin eru í úrskurði dómsins frá 5. janúar sl. um vernd heimildarmanna eru enn fremur ekki forsendur til þess að samþykkja frásögn stefnanda um efni þeirra gagna sem stefndu kunna að hafa undir höndum, sbr. 1. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991, enda er stefndu ekki skylt að bera vitni efni þeirra, sbr. 2. mgr. 67. gr. sömu laga. Þá hefur stefnandi ekki gert sérstaka grein fyrir því hvert hann telur efni gagnanna vera heldur vísað til þess almennt að í þeim séu upplýsingar um ótilgreinda einstaklinga sem undirorpnar séu trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

Kröfur stefnanda um afhendingu allra gagna og afrita af þeim uppfylla samkvæmt framansögðu ekki skilyrði um skýrleika sem gera verður, jafnvel þótt litið sé til framlagðs yfirlits yfir 1013 rafræn skjöl. Á kröfunum er einnig sá galli að þær byggja á eignarrétti stefnanda en stefnandi vísar að öðru leyti til lagaákvæða sem varða meðferð upplýsinga. Grundvöllur krafnanna er því einnig óljós. Hvað sem því líður hefur stefnandi, að mati dómsins, ekki sýnt fram á með málatilbúnaði sínum eða framlögðum gögnum að þau gögn sem stefndu hafa undir höndum og koma „innan úr“ stefnanda séu einkagögn stefnanda. Að því virtu er það niðurstaða dómsins að stefnanda hafi ekki tekist að færa sönnur fyrir því hvaða skjöl það eru sem eru í vörslum stefndu og hvaða rétt hann eigi til þeirra. Er kröfugerð stefnanda hvað varðar afhendingu gagna og afrita af þeim, og málatilbúnaður þar að lútandi, af þeim sökum það óljós að vísa verður kröfunum frá dómi án kröfu.

Með bókun í þinghaldi 18. desember 2017 bætti stefnandi varakröfum við kröfugerð sína í málinu. Eru varakröfurnar samhljóða aðalkröfunum nema að því leyti að stefnandi bætir við tilgreiningu alls 1013 rafrænna skjala í stað þess að vísa almennt til gagna úr fórum eða kerfum stefnanda. Fram kemur í bókuninni að stefnandi telji varakröfurnar allar rúmast innan stefnukrafna og að þær séu reistar á sömu málsástæðum og aðalkröfur stefnanda. Einnig kemur fram í bókuninni, sem og í framlögðu bréfi frá embætti héraðssaksóknara, dagsettu 14. desember 2017, að öll tilgreind skjöl séu úr kerfum stefnanda.

Í ljósi þess að umræddar kröfur byggja á sömu málsástæðum og aðalkröfur stefnanda verður þegar með vísan til þess sem að framan er rakið að sýkna stefndu af liðum 7 til 10 í varakröfu stefnanda en vísa frá liðum 11 til 12 í varakröfu stefnanda, enda eru þær sömu annmörkum háðar og liðir 5 til 6 í aðalkröfu sem dómurinn hefur vísað frá dómi.

Dómurinn telur ekki vera nægilegar forsendur fyrir því í málinu að fallast á sjónarmið stefndu að stefnandi hafi höfðað mál þetta af tilefnislausu og því beri að gera honum að sæta álagi á málskostnað, sbr. 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Með tilliti til umfangs málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda, Útgáfufélagi Stundarinnar ehf., málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 1.200.000 krónur og stefnda, Reykjavik Media ehf., málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 1.200.000 krónur.

Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð:

Synjað er kröfu stefnanda, Glitnis HoldCo ehf., um að staðfest verði með dómi lögbann sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lagði á 16. október 2017 við því að stefndu, Útgáfufélagið Stundin ehf. og Reykjavik Media ehf., birti fréttir eða aðra umfjöllun, sem byggð er á eða unnin er upp úr gögnum stefnanda, gögnum úr fórum eða kerfum stefnanda, sem undiropin eru trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

Stefndu, Útgáfufélag Stundarinnar ehf. og Reykjavik Media ehf. eru sýknaðir af kröfu stefnanda um að viðurkennt verði að þeim sé óheimilt að birta og/eða fá birtar fréttir eða aðra umfjöllun sem byggð er á eða unnin er upp úr gögnum úr fórum eða kerfum stefnanda og undiropin eru trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002.

Kröfum stefnanda um að stefndu verði gert að afhenda stefnanda öll gögn og afrit af þeim, sem stefndu hafa í fórum sínum, hvort sem þau eru á rafrænu eða öðru formi, sem koma úr fórum eða kerfum stefnanda, er vísað frá dómi án kröfu.

Stefndu Útgáfufélag Stundarinnar ehf. og Reykjavik Media ehf. eru sýknaðir af varakröfum stefnanda um að staðfest verði lögbann það sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lagði 16. október 2017 við því að stefndu birtu fréttir eða aðra umfjöllun, sem byggð er á eða unnin upp úr gögnum stefnanda, úr gögnum úr fórum eða kerfum stefnanda, sem undiropin eru trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002, að því er varðar alls 1013 skjöl sem tilgreind eru í bókun sem lögð var fyrir dóminn 18. desember 2017.

Stefndu Útgáfufélag Stundarinnar ehf. og Reykjavik Media ehf. eru sýknaðir af varakröfum stefnanda um að viðurkennt verði að þeim sé óheimilt að birta og/eða fá birtar fréttir eða aðra umfjöllun sem byggð er á eða unnin er upp úr 1013 skjölum úr fórum eða kerfum stefnanda sem tilgreind eru í bókun sem lögð var fyrir dóminn 18. desember 2017.

Varakröfum stefnanda um að stefndu verði gert að afhenda alls 1013 skjöl úr fórum eða kerfum stefnanda sem tilgreind eru í bókun sem lögð var fyrir dóminn 18. desember 2017, hvort sem þau eru á rafrænu eða öðru formi, er vísað frá dómi án kröfu.

Stefnandi greiði stefnda, Útgáfufélagi Stundarinnar ehf., 1.200.000 krónur í málskostnað og stefnda, Reykjavik Media ehf., einnig 1.200.000 krónur í málskostnað.