Print

Mál nr. 569/2017

Héraðssaksóknari (Arnþrúður Þórarinsdóttir saksóknari)
gegn
X (Arnar Kormákur Friðriksson hdl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Skýrslugjöf
Reifun
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu A um að X yrði gert að víkja úr þinghaldi meðan hún gæfi skýrslu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að samkvæmt meginreglu í sakamálaréttarfari ætti ákærði að eiga þess kost að vera viðstaddur aðalmeðferð í máli sem höfðað væri gegn honum og að undantekningar frá þeirri meginreglu bæri að skýra þröngt. Að því virtu að hvorki lægi fyrir vottorð læknis eða sálfræðings né að sýnt hefði verið fram á að aðstæður væru með sérstökum hætti vegna aldurs vitnis eða fjölskyldutengsla var talið að ekki væri unnt að fallast á kröfu H. Var því hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. september 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. september 2017, þar sem fallist var á kröfu brotaþola, A, um að varnaraðila skuli vikið úr dómsal meðan hún gefur skýrslu. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Samkvæmt 1. mgr. 166. gr. laga nr. 88/2008 á ákærði rétt á að vera við aðalmeðferð máls. Þó getur dómari, samkvæmt 1. mgr. 123. gr. sömu laga, að kröfu ákæranda eða vitnis ákveðið að ákærða verði vikið úr þinghaldi meðan vitnið gefur skýrslu telji dómari að nærvera ákærða geti orðið vitninu sérstaklega til íþyngingar og haft áhrif á framburð þess. Á þeirri undantekningarreglu byggir sóknaraðili þá kröfu sína að varnaraðili víki úr þinghaldi þegar brotaþoli gefi skýrslu.  

Samkvæmt framansögðu gildir sú meginregla í sakamálaréttarfari að ákærði eigi þess kost að vera viðstaddur aðalmeðferð og önnur þinghöld í máli sem höfðað hefur verið gegn honum. Undantekningar frá þeirri reglu ber að skýra þröngt og þarf ríka ástæðu til að vikið verði frá henni. Í málinu liggja hvorki fyrir vottorð læknis eða sálfræðings til stuðnings kröfu sóknaraðila né er sýnt fram á að aðstæður séu með þeim sérstaka hætti vegna aldurs vitnis og fjölskyldutengsla, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 23. mars 2015 í málinu nr. 216/2015, að unnt sé að fallast á kröfu sóknaraðila. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 7. september 2017

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 31. ágúst síðastliðinn, höfðaði héraðssaksóknari með ákæru, útgefinni 12. apríl 2017, á hendur X, kennitala [...], [...], Reykjavík, „fyrir nauðgun og brot í nánu sambandi, með því að hafa á alvarlegan hátt ógnað lífi, heilsu og velferð sambýliskonu sinnar, A, sem hafði þá búið með ákærða í mánuð, með ofbeldi, frelsissviptingu og hótunum að kvöldi miðvikudagsins 4. janúar 2017 og fram á aðfaranótt fimmtudagsins 5. janúar 2017 á heimili þeirra beggja að [...] í Hafnarfirði, er ákærði reif A úr náttbuxum sem hún klæddist, lagðist ofan á hana og hafði við hana samræði í leggöng, þrátt fyrir að hún hafi ekki sagst vilja það og ýtt [...] henni niður er hún reyndi að reisa sig við. Eftir þetta sofnaði ákærði og hélt A hjá sér en þegar hann vaknaði þvingaði hann hana til kynmaka í leggöng og til að hafa við sig munnmök. Í beinu framhaldi af því sló ákærði A ítrekað í höfuðið þar sem hún lá í rúminu og er hún reyndi að komast frá honum og út úr íbúðinni, þá lokaði ákærði hurðinni, reif í hár hennar, hrinti eða ýtti henni í gólfið, sló hana í höfuðið þar sem hún lá í gólfinu og tók í framhaldinu um hendurnar á henni, reif í hárið á henni og dró hana upp í rúm og á meðan á þessu stóð hótaði ákærði A lífláti. Hlaut A af háttseminni yfirborðsáverka víða á andliti og líkama, mar með margúlum á báðum augnlokum, marbletti undir augum og kúlu ofarlega á enni, heilahristing, rof á hljóðhimnu vinstra megin, skurð innanvert á neðri vör, marbletti og þrota í húð á upphandleggjum, mar og hrufl á hné, mar á lærum og húðrispur og mar aftan á baki.“

Háttsemi ákærða er talin varða við 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. gr. laga nr. 61/2007 og 4. gr. laga nr. 23/2016. Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Í ákærunni er tilgreind einkaréttarkrafa brotaþola.

Brotaþoli gaf skýrslu fyrir dómi við rannsókn málsins 9. janúar 2017 og mun hafa farið til útlanda í beinu framhaldi af því og ekki komið aftur. Með tölvubréfi sækjanda til dómara 21. júní 2017 boðaði sækjandi að brotaþoli myndi á ný gefa skýrslu fyrir dómi við aðalmeðferð málsins sem ákveðin hafði verið 31. ágúst sama ár. Í tölvubréfi til dómara 21. júní 2017 boðaði réttargæslumaður brotaþola að hún myndi krefjast þess að ákærði viki úr sal á meðan brotaþoli gæfi skýrslu við aðalmeðferð málsins. Verjandi ákærða greindi frá því að ákærði myndi ekki samþykkja það. Vegna embættisanna dómara og sumarleyfa var málið ekki flutt um þennan ágreining fyrr en 31. ágúst síðastliðinn. Í þinghaldi þann dag ítrekaði réttargæslumaður brotaþola kröfuna. Bókað var af sækjanda að ákæruvaldið tæki undir kröfu brotaþola. Ákærði hafnaði kröfunni og var sakflytjendum þá gefinn kostur á að tjá sig um kröfuna. Að því loknu var krafan tekin til úrskurðar.

Krafa brotaþola er byggð á heimild 1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Vísar brotaþoli til þess að ákærði sé sakaður um að hafa brotið mjög alvarlega gegn brotaþola og hafi brot hans haft alvarlegar afleiðingar. Brotaþoli hafi verið mjög illa farin líkamlega eins og gögn málsins staðfesti. Þá hafi brotin haft áhrif á andlega líðan brotaþola og öryggistilfinningu. Tvö skilyrði þurfi að vera uppfyllt til að unnt sé að krefjast þess að ákærði víki úr sal, það er að nærvera ákærða geti orðið vitninu sérstaklega til íþyngingar og að það geti haft áhrif á framburð vitnisins. Hvort tveggja sé til staðar í málinu. Ákærði og brotaþoli hafi verið í nánu sambandi þegar árásin hafi átt sér stað og þeim mun meiri neikvæð áhrif verði af nærveru ákærða, heldur en ef um ókunnugan mann væri að ræða. Þá beri gögn málsins með sér að brotaþoli hafi óttast um líf sitt á verkanaðarstundu, en brotaþoli hafi greint svo frá fyrir dómi að hún telji að hún væri ekki á lífi ef nágrannar hefðu ekki orðið varir við árásina og kallað á lögregluna.

Við meðferð málsins lýsti ákæruvaldið því yfir að það tæki undir kröfu brotaþola um að ákærða verði vikið úr sal á meðan brotaþoli gefur skýrslu við aðalmeðferð málsins. Vísað er til þess að ákærði sé borinn sökum um alvarlega atlögu að lífi, heilsu og kynfrelsi brotaþola sem ákært sé fyrir. Aðstæður í málinu séu mjög sérstakar, enda hafi brotaþoli sérstaklega flutt til landsins til að búa með ákærða og hafði sambúðin staðið samfellt í einn mánuð þegar atvik málsins urðu. Brotaþoli hafi kosið að fara úr landi eftir að hún hafði gefið skýrslu fyrir dómi og sé það ástæða þess að brotaþoli hafi ekki fengið sálfræðimeðferð hér á landi. 

Ákærði mótmælir kröfu brotaþola og krefst þess að henni verið hafnað. Vísar ákærði til þess að tilgreind skilyrði ákvæðis 1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 séu ekki uppfyllt í málinu. Um sé að ræða grundvallarmannréttindi sakborninga og ákærðra að fá að vera viðstaddir þegar brotaþolar gefa skýrslu. Brotaþoli hafi gefið skýrslu fyrir dómi á rannsóknarstigi án þess að ákærði hefði verið boðaður til skýrslutökunnar. Í máli verjanda ákærða kom fram að brotaþoli hefði sent verjandanum tölvubréf og lýst því yfir að hún hefði sagt ósatt um ætlað kynferðisbrot. Því sé komið fram misræmi í framburði brotaþola og snúist málið um mat á trúverðugleika brotaþola. Því hafi verið skorað á ákæruvaldið að leiða brotaþola á ný til skýrslugjafar. Sönnunargildi framburðar brotaþola muni rýrast svo um muni ef fallist verði á kröfu brotaþola, ekki síst í ljósi þeirra aðstæðna að hún komi til með að svara fyrir það misræmi sem upp sé komið.  Þá hafni ákærði því að hið meinta nána samband hans og brotaþola geti haft áhrif. Ákærða sé gefið að sök ofbeldi í nánu sambandi. Staðreyndin sé sú að ákærði og brotaþoli höfðu þekkst í fjóra mánuði með samskiptum á interneti, þegar brotið átti sér stað, og höfðu deilt íbúð í örfáar vikur. Ekki sé því um að ræða langt samband eða yfirburðastöðu ákærða yfir brotaþola. Engin gögn liggi fyrir til stuðnings því sem byggt sé á í málinu. Slík gögn verði að liggja fyrir eigi að víkja ákærða úr sal á meðan brotaþoli gefur skýrslu við aðalmeðferð málsins.

Niðurstaða:

Í 1. mgr. 113. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála segir að ákærða sé bæði rétt og skylt að koma fyrir dóm til skýrslugjafar eftir að mál hefur verið höfðað gegn honum. Þá kemur fram í 2. málslið 1. mgr. 166. gr. sömu laga að ákærði eigi rétt á að vera við aðalmeðferð máls. Þó hafi dómari heimild til að ákveða að ákærði víki af þingi meðan vitni gefur skýrslu í máli. Samkvæmt 1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 getur dómari að kröfu ákæranda eða vitnis ákveðið að ákærða verði vikið úr þinghaldi meðan vitni gefur skýrslu telji dómari að nærvera ákærða geti orðið vitninu sérstaklega til þyngingar og haft áhrif á framburð þess.

Það er meginregla sakamálaréttarfars að ákærði eigi þess kost að vera viðstaddur aðalmeðferð og önnur þinghöld í máli sem höfðað hefur verið gegn honum. Um það vitna ákvæði 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. og d. liður 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, svo og tilvitnuð ákvæði laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Slík ákvæði ber að skýra þröngt og þurfa því ríkar ástæður að vera fyrir hendi til að unnt sé að víkja frá þessari meginreglu. Þarf nærvera ákærða að vera sérstaklega íþyngjandi fyrir þann sem gefa á skýrslu.

Ákærði í málinu er borinn alvarlegum sökum af brotaþola. Er honum gefin að sök nauðgun og brot í nánu sambandi. Upplýst er í málinu að brotaþoli og ákærði höfðu haft samskipti á internetinu í um fjóra mánuði, áður en atvik þau sem ákært er út af áttu sér stað, og búið saman í einn mánuð. Þá liggur fyrir að brotaþoli yfirgaf landið eftir að hafa gefið skýrslu fyrir dómi við rannsókn málsins og hefur ekki snúið til baka. Að virtum atvikum málsins, aðstæðum og tengslum ákærða og brotaþola þykir í ljós leitt að nærvera ákærða við skýrslugjöf geti orðið brotaþola sérstaklega íþyngjandi og einnig haft áhrif á framburð hennar, sbr. ákvæði 1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Að þessu virtu er það niðurstaða dómsins að hagsmunir brotaþola af því að geta eins og á stendur gefið skýrslu án nærveru ákærða vegi þyngra en hagsmunir ákærða af því að vera viðstaddur skýrslugjöf brotaþola. Því er fallist á kröfu brotaþola og skal ákærði víkja úr þinghaldi á meðan brotaþoli gefur skýrslu við aðalmeðferð í málinu. Þess verður gætt að ákærði geti fylgst með skýrslutökunni um leið og hún fer fram og jafnframt að lagðar verði fyrir brotaþola þær spurningar sem ákærði kann að óska eftir að lagðar verði fyrir hana, sbr. 3. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.  

Úrskurðarorð:

                Ákærði, X, skal víkja úr þinghaldi meðan brotaþoli, A, gefur skýrslu.