Print

Mál nr. 588/2017

Lögreglustjórinn á Suðurlandi (Grímur Hergeirsson saksóknarfulltrúi)
gegn
X (Leifur Runólfsson hdl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Nálgunarbann
Reifun

Staðfest var ákvörðun lögreglustjóra um að X skyldi sæta nálgunarbanni á grundvelli laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. september 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 14. september 2017, þar sem staðfest var ákvörðun sóknaraðila 8. sama mánaðar um að varnaraðili skuli sæta nánar tilgreindu nálgunarbanni. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann þóknunar til handa skipuðum verjanda sínum.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir, greiðist úr ríkissjóði eftir 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, Leifs Runólfssonar héraðsdómslögmanns, 186.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 14. september 2017.

Árið 2017, fimmtudaginn 14. september, er á dómþingi Héraðsdóms Suðurlands, sem háð er að Austurvegi 4, Selfossi, af Ragnheiði Thorlacius héraðsdómara, kveðinn upp eftirfarandi úrskurður:

            Með bréfi dagsettu 11. september sl., mótteknu sama dag, hefur lögreglustjórinn á Suðurlandi, sóknaraðili þessa máls, krafist þess með vísan til 1. mgr. 12. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili, að staðfest verði ákvörðun lögreglustjóra frá 8. september sl., þar sem X, kt. [...], varnaraðila þessa máls, var gert að sæta nálgunarbanni samkvæmt 4. gr. laga nr. 85/2011, þannig að bann var lagt við því að varnaraðili komi eða sé við [...] eða annan þann dvalarstað sem félagsmálayfirvöld kunna síðar að ákvarða brotaþola þessa máls, A, kt. [...], á svæði sem afmarkast af 50 metra radíus mælt frá miðju hússins. Jafnframt var varnaraðila bannað að veita brotaþola eftirför, heimsækja, nálgast á almannafæri, sem nemur 50 metra radíus frá staðsetningu brotaþola hverju sinni, eða vera með nokkru öðru móti í beinu sambandi við brotaþola, svo sem með  símtölum, tölvupósti eða öðrum hætti. Í ákvörðun lögreglustjóra kemur fram að það sé mat lögreglustjóra að skilyrði séu til að lögreglustjóri taki að eigin frumkvæði ákvörðun um beitingu nálgunarbanns á grundvelli laga nr. 85/2011.

            Í máli þessu var gefið út útivistarfyrirkall þann 12. september 2017, og var málið tekið fyrir 13. sama mánaðar. Af hálfu lögreglustjóra sótti Grímur Hergeirsson fulltrúi lögreglustjóra þing og lagði meðal annars fram samantekt af yfirheyrslum þriggja vitna. Varnaraðili sótti þing ásamt Jóni Páli Hilmarssyni hdl., sem var skipaður verjandi hennar. Varnaraðili naut aðstoðar túlks við þinghaldið. Þá mætti í dóminn Kristrún Elsa Harðardóttir hdl., sem skipuð var réttargæslumaður brotaþola.

            Varnaraðili mótmælti kröfunni. Verjandi krafðist þóknunar fyrir störf sín. Réttargæslumaður brotaþola kvað brotaþola óska þess að krafa lögreglustjóra næði  fram að ganga. Þá gerði réttargæslumaður kröfu um þóknun. Málið var tekið til úrskurðar í framangreindu þinghaldi.

            Í ákvörðun lögreglustjóra kemur fram að með bréfi félagsþjónustu [...] til lögreglu, dags. 2. september sl., hafi verið óskað eftir lögreglurannsókn á meintu viðvarandi andlegu og líkamlegu ofbeldi varnaraðila gegn dóttur hennar, brotaþolanum A. Kom fram að brotaþoli hafi verið vistuð tímabundið utan heimilis á grundvelli barnaverndarlaga nr. 80/2002. Í ákvörðun lögreglustjóra kemur fram að brotaþoli hafi greint frá alvarlegu og ítrekuðu ofbeldi af hálfu varnaraðila áður en fjölskyldan flutti til Íslands fyrir þremur árum. Dregið hafi úr ofbeldinu eftir að til Íslands kom en það byrjað fljótlega aftur. Um hafi verið að ræða barsmíðar með opnum lófa eða krepptum hnefa og hafi varnaraðili leitast við að höggin lentu í andliti brotaþola. Tilgreindi brotaþoli sambýlismann varnaraðila sem vitni af atvikunum og vinkonu sína í eitt skipti. Kvaðst brotaþola hafa liðið mjög illa inn á heimilinu og óskað eftir að þurfa ekki að fara þangað aftur. Einnig greindi brotaþoli frá komu varnaraðila á [...] eftir að brotaþoli fór þangað í vistun sem og símhringingum og skilaboðum frá varnaraðila. Í ákvörðun lögreglustjóra er gerð grein fyrir framburði sambýlismanns varnaraðila hjá lögreglu sem hafi þvertekið fyrir að hafa orðið vitni að ofbeldi varnaraðila í garð brotaþola. Þá hafi varnaraðili alfarið neitað sök í málinu í yfirheyrslu hjá lögreglu.

            Þá er í ákvörðun lögreglustjóra gerð grein fyrir bréfum barnaverndaryfirvalda til lögreglu í tengslum við þetta mál. Greint er frá vistun hálfsystur brotaþola utan heimilis á grundvelli 31. gr. barnaverndarlaga og áhyggjum barnaverndarstarfsmanna af því að varnaraðili og sambýlismaður hennar fari gegn fyrirmælum um umgengni og samskipti við brotaþola, jafnvel að þau fari inn á vistunarheimilið í þeim tilgangi að sækja börnin.

            Í ákvörðun lögreglustjóra segir að fyrir liggi að brotaþoli hafi sakað varnaraðila um ítrekað og alvarlegt ofbeldi í hennar garð til margra ára. Hin ætluðu brot, sem séu til rannsóknar hjá lögreglu, kunni að varða við 218. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og hugsanlega einnig við 98. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Það sé mat lögreglustjóra að framburður brotaþola sé trúverðugur. Að mati lögreglustjóra sé, þrátt fyrir neitun varnaraðila, fram kominn rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi framið refsiverð brot gegn brotaþola. Með hliðsjón af aðstæðum og alvarleika hinna meintu brota sem um ræðir, muni vægari úrræði en nálgunarbann ekki vernda friðhelgi og tryggja öryggi og hagsmuni brotaþola að mati lögreglustjóra, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 85/2011. 

Forsendur og niðurstaða

            Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili nr. 85/2011, getur sá maður sem misgert er við, brotaþoli, fjölskylda hans eða annar honum nákominn borið fram beiðni til lögreglu um að maður, sakborningur, sem brotið hefur gegn honum eða raskað friði hans á annan hátt, sæti nálgunarbanni og/eða brottvísun af heimili. Samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar hefur lögráðamaður brotaþola og sá sem kemur fram fyrir hönd félagsþjónustu og/eða barnaverndarnefndar í sveitarfélagi þar sem viðkomandi er búsettur sömu heimild og í 1. mgr. greinir. Þá kemur fram í 3. mgr. greinarinnar að lögreglustjóri geti að eigin frumkvæði tekið mál til meðferðar samkvæmt lögum þessum ef hann telur ástæðu til og háttar þannig til í máli þessu, sbr. og 1.mgr. 7. gr. laga nr. 85/2011. Fellst dómurinn á það mat lögreglustjóra að uppfyllt séu skilyrði 3.mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 7. gr. laganna í máli þessu

            Lögð var fram skýrslutaka af brotaþola hjá lögreglu í hljóð og mynd sem dómari hefur kynnt sér. Þar greinir brotaþoli frá því að ástandið í fjölskyldunni hafi aldrei verið gott, þ.e. samband hennar og varnaraðila og hafi þær rifist jafnvel út af smávægilegum atvikum. Greindi brotaþoli frá ítrekuðu ofbeldi af hendi varnaraðila áður en fjölskyldan flutti til Íslands fyrir um þremur árum síðan, þ.e. í [...], nánar tiltekið frá því brotaþoli byrjaði þar í 3. bekk er þær mæðgur fluttu frá ömmu brotaþola. Á þeim tíma hafi varnaraðili lamið brotaþola í klessu og ekki leyft henni að fara í skóla eftir það til að koma í veg fyrir að marblettir sem hún hafi fengið sæjust og hafi slíkt gerst nokkrum sinnum. Varnaraðili hafi í gegnum tíðina slegið sig með opnum lófa eða krepptum hnefa og leitist við að högg lentu í andlit brotaþola. Þá kvaðst brotaþoli muna eftir atviki þegar varnaraðili hafi hent í hana glasi sem hafi lent í mjöðm hennar. Í skýrslu brotaþola kemur fram að eftir að fjölskyldan flutti til Íslands hafi í fyrstu dregið úr barsmíðum því þá hafi athygli varnaraðila beinst að sambýlismanninum og litlu systur brotaþola. Kvaðst brotaþoli ekki hafa greint frá ofbeldinu hér á Íslandi þar til fyrir skömmu í viðtali við félagsráðgjafa. Átök milli þeirra hafi síðan byrjað aftur og af minnsta tilefni. Með hækkandi aldri hafi brotaþola tekist að verjast höggum í andlit frá varnaraðila og var að skilja á brotaþola að ástandið hafi versnað þegar hún, líklega í 10. bekk, hafi farið að standa á rétti sínum. Lýsti brotaþoli einu tilviki en þá hafi varnaraðili ráðist að brotaþola í kjölfar þess að komið hafi í ljós að brotaþoli hafði rétt fyrir sér í deilu þeirra í milli. Brotaþola hafi tekist að verja sig og hafi hún í átökunum slegið varnaraðila. Í átökum sem þessum hafi varnaraðili þó náð að koma höggi á brotaþola, oftast í andlit eða höfuð. Einnig hafi varnaraðili hrist hana og togað í hana og hafi hún náð að koma brotaþola upp að vegg eða skáp. Brotaþoli tilgreindi atvik sem hafi átt sér stað eftir að hún flutti til Íslands, líklega í fyrra. Varnaraðili hafi komið inn í herbergi brotaþola þar sem brotaþoli og B vinkona hennar voru staddar og skammast og haft hátt. Taldi brotaþoli að vinkonan hefði séð varnaraðila lemja sig en B hafi orðið hrædd og farið fram. Þegar brotaþoli kom fram hafi B spurt brotaþola hvort allt væri í lagi. Um fjölda ofbeldisatvika eftir að til Íslands kom kvað brotaþoli þau hafa átt sér stað einu sinni í mánuði en á verri tímabilum í lífi varnaraðila hafi hún beitt brotaþola ofbeldi vikulega. Brotaþoli kvaðst aldrei hafa leitað læknis. Hún hafi hulið áverka og áverka í andliti hafi hún í tvö skipti hulið með farða. Brotaþoli kvað sambýlismann varnaraðila oft hafa orðið vitni af ofbeldinu en aldrei gripið inn í með neinum hætti. Einnig greindi brotaþoli frá því að hafa verið meinað að borða fyrr en hún hefði lokið heimilisverkum, t.d. ef hún hafi ekki lokið að þrífa herbergi sitt eða vaska upp. Lýsti brotaþoli slæmri líðan á heimilinu og óskum sínum um að þurfa ekki að fara þangað aftur. Samskipti milli hennar og varnaraðila hafi verið erfið í mörg ár og sambandið slæmt.

            Í skýrslutöku yfir varnaraðila hafnar hún öllum ásökunum um ofbeldi gagnvart brotaþola, en annað slagið, stundum tvisvar í viku eða sjaldnar, rífist þær á háu nótunum. Lýsti varnaraðili tveimur tilvikum, annars vegar hafi hún klappað á öxl brotaþola, sem hafi verið úlpuklædd, þegar brotaþoli hafi óhlýðnast og farið út að kvöldi til. Hins vegar hafi hún einu sinni tekið í hönd brotaþola og leitt hana úr eldhúsi inn í herbergi brotaþola. Lögregla tók einnig skýrslu af sambýlismanni varnaraðila sem staðfesti rifrildi milli varnaraðila og brotaþola út af strákamálum en hafnaði því alfarið að varnaraðili hafi lagt hendur á brotaþola eða að henni hafi verið meinað að borða. Lögregla yfirheyrði vinkonu varnaraðila sem búið hefur á heimilinu í rúma þrjá mánuði. Kvað hún brotaþola ekki hlýða varnaraðila og af þeim sökum séu samskipti þeirra stundum ekki góð. Hins vegar hafi vitnið aldrei hafa orðið vör við að neinn væri beittur ofbeldi á heimilinu né vitað til þess að varnaraðili beitti börn sín ofbeldi á nokkurn hátt. 

            Samkvæmt gögnum málsins hafa málefni fjölskyldunnar verið til meðferðar hjá barnaverndaryfirvöldum um tveggja ára skeið og segir í gögnum frá barnavernd að upplýsingar og vísbendingar hafi komið fram um að varnaraðili beitti brotaþola líkamlegu og andlegu ofbeldi. Svo virðist sem málið hafi verið kært til lögreglu í kjölfar þess að brotaþoli greindi félagsráðgjafa barnaverndar frá hinu meinta ofbeldi af hálfu varnaraðila. Eins og rakið hefur verið hér að framan hefur lögregla tekið skýrslur af varnaraðila, sambýlismanni varnaraðila og vinkonu varnaraðila sem búið hefur á heimilinu síðan 1. júní sl. Varnaraðili neitaði alfarið að beita brotaþola ofbeldi en viðurkennir að þær mæðgur rífist oft með tilheyrandi hávaða. Staðfesta framangreind vitni frásögn varnaraðila. Við þingfestingu málsins lagði lögreglustjóri fram skýrslur lögreglu af yfirheyrslum yfir vitnunum B og C, vinkonum brotaþola, og D starfsmanni barnaverndar. Vitnið B staðfesti frásögn brotaþola af atviki í herbergi brotaþola sem vitnið taldi hafa verið þegar þær voru í 10. bekk. Kvað hún varnaraðila hafa kallað brotaþola illum nöfnum og gert lítið úr henni. Þá hafi hún heyrt brotaþola segja við varnaraðila „ertu heimsk að lemja mig“. Þegar brotaþoli hafi komið út úr herberginu hafi hún verið með greinilegan roða á vinstri helming andlitsins, verið grátandi og skolfið. Þá hafi brotaþoli stundum hringt í sig grátandi og sagt ekki vilja vera lengur á heimilinu og hata fjölskyldu sína vegna ástandsins. Þá greindi vitnið D, sem hefur sinnt aðstoð á heimilinu á vegum barnaverndar, frá því að hafa einu sinni, þegar vitnið hafi staðið fyrir utan inngang í íbúð fjölskyldunnar, heyrt hluta af rifrildi milli varnaraðila og brotaþola og hafi varnaraðili þá kallað brotaþola vistleysing en brotaþoli brostið í grát. Vitnið C kvað brotaþola yfirleitt ekki líða vel, bæði vegna strákamála og samskiptavanda við varnaraðila en þær rífist og deili um ýmsa hluti. Vitnið kvaðst ekki vita hvort brotaþoli hafi orðið fyrir ofbeldi á heimilinu en einu sinni séð þær ýta við hvor annarri í kjölfar þess að brotaþoli þótti varnaraðili ekki hafa sinnt yngri systur hennar fullnægjandi. Þá hafi brotaþoli einu sinni komið á heimili vitnisins og greint vitninu frá því að varnaraðili hafi, eftir rifrildi, rekið brotaþola að heiman og sagt henni að koma aldrei aftur. Þá hafi brotaþoli sagt vitninu að varnaraðili kalli hana oft ljótum nöfnum, s.s. heimska, fávita, mellu og annað í þeim dúr.

            Samkvæmt 4. gr. laga nr. 85/2011 er heimilt að beita nálgunarbanni ef rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola eða, samkvæmt b-lið greinarinnar, að hætta er á að viðkomandi brjóti gegn brotaþola samkvæmt a-lið. Dómari fellst á það með lögreglustjóra að brotaþoli sé trúverðug í framburði sínum. Þrátt fyrir að engin læknisfræðileg gögn er varði brotaþola liggi fyrir í máli þessu, þykir í ljósi framburðar brotaþola, sem að mati dómara fær stuðning í framburði vitnisins B, og að hluta til í framburði vitnanna C og D, framkomin rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi framið refsivert brot gegn brotaþola.

            Þá verður samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 85/2011 nálgunarbanni aðeins beitt þegar ekki þykir sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til. Í framburði brotaþola hjá lögreglu kom fram að varnaraðili hafi tvisvar sinnum komið á [...] eftir að brotaþoli fór á fósturheimilið í þeim tilgangi að hitta brotaþola, í síðara skiptið líklega föstudaginn 8. september sl., og hafi hún hitt varnaraðila og sambýlismann hennar á veitingastað á [...]. Aðspurð kvaðst brotaþoli myndi láta varnaraðila vita ef hún óskaði eftir að vera í friði og kvaðst brotaþoli telja að slíkt myndi duga til að varnaraðili hefði ekki samband. Kvaðst brotaþoli hafa hætt að svara hringingum og skilaboðum frá varnaraðila þegar hún hafi byrjað að kvarta undan félagsþjónustunni við brotaþola. Verjandi varnaraðili telur að vistun brotaþola utan heimilis í allt að tvo mánuði, samkvæmt úrskurði félagsmálanefndar [...] frá 11. september sl., nægilegan til að tryggja friðhelgi brotaþola. Þá kvað verjandi varnaraðila alfarið neita því að hafa brotið gegn ákvörðun lögreglustjóra um nálgunarbann. Við þingfestingu málsins lagði lögreglustjóri fram skýrslu þar sem fram kemur að brotaþoli hafi greint vistunarforeldri sínu á [...] frá því að varnaraðili hafi haft símsamband við brotaþola og viljað hitta hana. Kemur fram í dagbók lögreglu að framangreind tilkynning hafi borist frá barnaverndaryfirvöldum um hádegi laugardaginn 9. september sl. Með vísan til framangreinds fellst dómurinn á það mat lögreglustjóra að þrátt fyrir vistun brotaþola utan heimilis sé sennilegt að það úrræði út af fyrir sig verndi ekki friðhelgi brotaþola með fullnægjandi hætti.  

            Að öllu framansögðu virtu og vísan til þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu verður að telja að uppfyllt séu skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011, til þess að varnaraðila verið gert að sæta nálgunarbanni, eins og krafist er. Þá þykir einnig, með vísan til rannsóknargagna, uppfyllt skilyrði 6. gr. sömu laga, um að sennilegt sé að friðhelgi brotaþola verði ekki vernduð með öðrum og vægari hætti en með nálgunarbanni, en við það mat er sérstaklega litið til þess að fram hafa komið vísbendingar um að varnaraðili hafi brotið gegn nálgunarbanni lögreglustjóra. Verður þannig fallist á kröfu lögreglustjóra eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

            Með vísan til annars vegar 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 og hins vegar 3. mgr. 48. gr. sömu laga, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011, greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Jóns Páls Hilmarssonar hdl., 337.800 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Kristrúnar Elsu Harðardóttur hdl., 316.200 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og 7.700 króna ferðakostnaður réttargæslumanns, greiðist einnig úr ríkissjóði.

            Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

                Staðfest er ákvörðun lögreglustjórans á Suðurlandi um að varnaraðila, X, kt. [...], verði gert að sæta nálgunarbanni, sbr. 4. gr. laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili nr. 85/2011, í sex vikur að telja frá birtingu ákvörðunarinnar lögreglustjóra að telja, þ.e. föstudaginn 8. september 2017 klukkan 16:08. Þannig er lagt er bann við því að varnaraðili komi á framangreindum tíma að eða sé við [...], eða annan þann dvalarstað sem félagsmálayfirvöld kunna síðar að ákvarða brotaþola, A, kt. [...], á svæði sem afmarkast af 50 metra radíus mælt frá miðju hússins, og jafnframt er varnaraðila bannað að veita brotaþola eftirför, heimsækja, nálgast á almannafæri sem nemur 50 metra radíus frá staðsetningu hennar hverju sinni, eða vera með nokkru öðru móti í beinu sambandi við brotaþola, svo sem með símtölum, tölvupósti eða með öðrum hætti.

            Greiða skal úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Jóns Páls Hilmarssonar hdl., 337.800 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Kristrúnar Elsu Harðardóttur hdl., 316.200 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og ferðakostnað réttargæslumanns, 7.700 krónur, greiðist einnig úr ríkissjóði.