Print

Mál nr. 552/2017

Jóhannes Þór Hilmarsson (Þorbjörg I. Jónsdóttir lögmaður)
gegn
Íslandsbanka hf. (Stefán A. Svensson lögmaður)
Lykilorð
  • Fjármálafyrirtæki
  • Skuldabréf
  • Veð
  • Gengistrygging
  • Kröfugerð
  • Vanreifun
  • Frávísun frá héraðsdómi
Reifun

J tók tvö lán hjá forvera Í hf. með veðskuldabréfum útgefnum 21. október 2004 og 23. mars 2007. Á árinu 2011 greiddi J upp bæði veðskuldabréfin með útgáfu tveggja nýrra veðskuldabréfa hjá Í hf. Í málinu krafðist J þess aðallega að hann bæri ekki greiðsluskyldu samkvæmt hinum nýju skuldabréfum, en til vara að skuld hans við Í hf. væri lægri en sem næmi kröfum samkvæmt bréfunum. Byggði J meðal annars á því að Í hefði aldrei eignast kröfurnar á hendur sér frá forvera sínum og að hann væri ekki réttur eigandi þeirra. Þá byggði J á því að hin upphaflegu lán hefðu verið bundin ólögmætri gengistryggingu og að hann hefði að verulegu leyti verið búinn að greiða þau upp og nægjanlega miðað við þær fjárhæðir sem upphaflega hafi verið teknar að láni. Í héraði var varakröfu J vísað frá dómi og Í hf. sýknaður af aðalkröfu hans. Í dómi sínum vísaði Hæstiréttur til þess að þar sem J hefði ekki skotið ákvæði héraðsdóms um frávísun til Hæstaréttar eftir reglum XXIV. kafla laga nr. 91/1991 kæmi hún ekki til skoðunar fyrir réttinum. Hvað aðalkröfu J varðaði taldi Hæstiréttur að verulega skorti á að rökrétt samhengi væri á milli hennar og málsástæðna hans og væri málatilbúnaður hans í slíkri andstöðu við d. og e. liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 að ekki yrði hjá því komist að vísa málinu frá héraðsdómi vegna vanreifunar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Karl Axelsson og Oddný Mjöll Arnardóttir landsréttardómari.  

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. september 2017. Hann krefst þess aðallega að viðurkennt verði með dómi að hann „beri ekki greiðsluskyldu vegna krafna stefnda skv. skuldabréfum stefnda nr. 510-158202 og 549-182640 (182641)“, en til vara að viðurkennt verði með dómi „að skuld áfrýjanda við stefnda sé lægri en skv. kröfum stefnda vegna skuldabréfa nr. 510-158202 og 549-182640 (182641).“ Í báðum tilvikum krefst áfrýjandi þess jafnframt að stefnda verði gert að aflýsa framangreindum veðskuldabréfum af fasteigninni að Roðamóa 3 í Mosfellsbæ. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi undirgekkst áfrýjandi skuldbindingar við forvera stefnda annars vegar samkvæmt veðskuldabréfi 21. október 2004 og hins vegar samkvæmt veðskuldabréfi 23. mars 2007. Gefin voru út tvö ný veðskuldabréf 23. maí 2011 og var tekið fram í þeim báðum að þau kæmu í stað fyrrnefndra bréfa sem jafnframt væru greidd upp með hinum nýju bréfum.

Í hinum áfrýjaða dómi eru ítarlega raktar þær röksemdir sem áfrýjandi ber fram til stuðnings kröfum sínum. Í héraði krafðist stefndi frávísunar á varakröfu áfrýjanda og í þinghaldi 18. nóvember 2016 var ákveðið að málflutningur yrði um þá kröfu samhliða flutningi um efni máls, með vísan til 2. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Með hinum áfrýjaða dómi var varakröfu áfrýjanda vísað frá héraðsdómi, en stefndi jafnframt sýknaður af aðalkröfu hans.

Til að koma fram endurskoðun á niðurstöðu héraðsdóms um frávísun varakröfunnar hefði áfrýjandi þurft að skjóta til Hæstaréttar ákvæði héraðsdóms um frávísun eftir reglum XXIV. kafla laga nr. 91/1991, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 19. júní 2002 í máli nr. 3/2002. Með því að þessa var ekki gætt kemur varakrafa áfrýjanda ekki til skoðunar fyrir Hæstarétti.

Þær málsástæður sem áfrýjandi teflir fram til stuðnings aðalkröfu sinni sýnast annars vegar þess efnis að þeim sé ætlað að leiða til sýknu í samræmi við kröfugerð hans en hins vegar aðeins til lækkunar á kröfum stefnda. Áfrýjandi vísar meðal annars til þess að þau tvö veðskuldabréf, sem tilgreind eru í dómkröfu hans, hafi komið í stað tveggja eldri veðskuldabréfa sem bæði hafi verið bundin ólögmætri gengistryggingu og að endurútreikningar stefnda á skuld samkvæmt síðargreindum bréfum hafi verið rangir. Ekki er gerð fullnægjandi töluleg grein fyrir kröfugerð áfrýjanda, en þær forsendur og viðmið sem hann vísar til gefa helst til kynna, svo sem fyrr segir, að hann telji sig öðrum þræði í skuld við stefnda þótt hann krefjist sýknu að öllu leyti. Sú staðreynd að varakröfu áfrýjanda var vísað frá héraðsdómi eykur jafnframt enn á óskýrleikann í málatilbúnaði hans.

Samkvæmt framansögðu skortir verulega á að rökrétt samhengi sé milli málsástæðna áfrýjanda og aðalkröfu hans í málinu. Er málatilbúnaður hans í slíkri andstöðu við d. og e. liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 að ekki verður hjá því komist að vísa aðalkröfu áfrýjanda frá dómi sökum vanreifunar. Af því leiðir að kröfum áfrýjanda um afléttingu veðskuldabréfa verður jafnframt vísað frá héraðsdómi og þar með málinu í heild sinni.

Eftir þessum úrslitum og með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber að dæma áfrýjanda til að greiða stefnda málskostnað, sem ákveðinn verður í einu lagi vegna reksturs málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Áfrýjandi, Jóhannes Þór Hilmarsson, greiði stefnda, Íslandsbanka hf., samtals 900.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júní 2017.

Mál þetta, sem var dómtekið 23. maí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Jóhannesi Þór Hilmarssyni og Rakel Baldursdóttur, Lundi 3, Mosfellsbæ, á hendur Íslandsbanka hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík, með stefnu birtri 28. júní 2016.

Hinn 18. nóvember 2016 féll stefnandi Rakel Baldursdóttir frá öllum kröfum á hendur stefnda. Því stendur stefnandi, Jóhannes Þór Hilmarsson, einn að málssókn þessari.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að viðurkennt verði með dómi að stefnandi beri ekki greiðsluskyldu vegna krafna stefnda skv. skuldabréfum stefnda nr. 510-158202 og 549-182640 (182641).

Til vara er þess krafist að viðurkennt verði með dómi að skuld stefnanda við stefnda sé lægri en skv. kröfum stefnda vegna skuldabréfa nr. 510-158202 og 549-182640(182641).

Í báðum tilvikum er jafnframt gerð krafa um að ákveðið verði með dómi að stefndi skuli aflýsa veðlánum nr. 510-158202 og 549-182460(182641) af fasteigninni Roðamóa 3 í Mosfellsbæ, fnr. 226-0502.

Þá krefst stefnandi þess að hafnað verði frávísunarkröfu stefnda á varakröfu stefnanda.

Þá er gerð krafa um málskostnað úr hendi stefnda.

Stefndi krefst frávísunar varakröfu stefnanda og að því marki sem kröfum er ekki vísað frá dómi er krafist sýknu af öllum kröfum hans. Þá er krafist málskostnaðar.

I

Stefnandi tók tvö gengistryggð lán hjá Íslandsbanka hf., annað árið 2004 og hitt árið 2007. Bæði voru þau tryggð með veði í fasteign stefnanda að Roðamóa í Mosfellsbæ. Nafni Íslandsbanka hf. var síðar breytt í Glitnir banki hf. Samkvæmt heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, tók Fjármálaeftirlitið hinn 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar í Glitni banka hf., vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd. Í framhaldi af því var á grunni Glitnis banka hf. stofnaður nýr banki, Nýi Glitnir banki hf., sem nú ber heitið Íslandsbanki hf., stefndi í þessu máli, og fjallar mál þetta um greiðslukröfur þess banka gagnvart stefnanda.

Hinn 23. maí 2011 voru gefin út tvö ný veðskuldabréf í stað eldri bréfa. Í öðru skuldabréfinu að höfuðstól 25.054.805 kr. er kveðið á um að það sé gefið út til uppgreiðslu á veðskuldabréfi á sömu eign, útgefnu hinn 21. október 2004 að fjárhæð 19.000.000 kr. að eftirstöðuvum 35.779.788 kr. hinn 29. apríl 2011. Því er hér um lækkun að ræða að fjárhæð 10.724.983 kr. Í hinu skuldabréfinu, að höfuðstól 6.375.639 kr., segir að það sé gefið út til uppgreiðslu á veðskuldabréfi á sömu eign, útgefnu hinn 23. mars 2007 að fjárhæð 5.000.000 kr. að eftirstöðvum 13.241.807 kr. hinn 29. apríl 2011. Með því að gefa út ný skuldabréf voru fyrri lánin endurútreiknuð og lækkuð um samtals 17.591.151 kr., það er lækkun að fjárhæð 10.724.983 kr. vegna eldra bréfsins og 6.866.168 kr. vegna yngra bréfsins. Samkvæmt gögnum málsins hefur stefnandi greitt af lánum þessum síðan. Í ljósi orðalags kröfugerðar stefnanda verður að líta svo á að ekki sé tölulegur ágreiningur í málinu.

Stefnandi kveður að honum hafi ekki verið ljóst fyrr en eftir undirritun hinna nýju skuldabréfa á árinu 2011, að við fall Glitnis, kt. 550500-3530, og stofnun og yfirfærslu krafna til Nýja Glitnis hf., kt. 491008-0160 (nú Íslandsbanki hf.), skv. ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2008, hafi þinglýsing lánaskjala við stefnanda yfir á hinn nýja banka misfarist. Þannig hafi í erindi Fjármálaeftirlitsins til Sýslumannsins í Reykjavík, dags. 28. október 2008, verið óskað eftir því að öll bein og óbein eignarréttindi, þ.m.t. veðkröfur yrðu færð yfir á nafn Nýja Glitnis banka. Af þinglýsingarvottorði vegna Roðamóa 3 í Mosfellsbæ, verði ekki séð að slík yfirfærsla hafi farið fram, fyrr en eftir 3. október 2014. Stefnandi telur því að hann hafi ekki haft upplýsingar um þetta þegar hann skrifaði undir ný lánaskjöl við stefnda á árinu 2011. Því telji hann með öllu óljóst, að stefndi hafi nokkurn tíma átt þær kröfur, sem bréfin er hann undirritaði á árinu, áttu að greiða.

Stefnandi óskaði hinn 18. desember 2012 og 3. nóvember 2014 eftir endurútreikningi á lánum við stefnda, miðað við dóm Hæstaréttar sem féll 14. febrúar 2011. Stefndi féllst ekki á að endurreikna lánin frekar samanber bréfin frá 11. mars 2013 og 18. desember 2014 og vísaði til þess að af hálfu stefnda væri talið að lán stefnanda væru sambærileg lánum sem dæmd höfðu verið lögmæt.

Þar sem stefnandi hefur dregið í efa að stefndi hafi átt upprunalegu skuldabréfin hefur hann krafist þess að fá afrit af frumritum upprunalegu skuldabréfanna frá 2004 og 2007. Stefndi kveðst í bréfi dags. 5. janúar 2016 ekki hafa bréf þessi undir höndum þar sem hann hafi sent stefnanda þau hinn 21. júlí 2011. Því mótmælir stefnandi.

II

Stefnandi telur sig ekki bera greiðsluskyldu á kröfum samkvæmt þeim skuldabréfum sem tilgreind séu í stefnukröfum.

Byggist krafan í fyrsta lagi á því, að við stofnun stefnda í október 2008 hafi þær kröfur sem stefnandi hafi þá skuldað gamla Íslandsbanka/Glitni ekki verið færðar með réttum hætti yfir til stefnda og hafi því fallið niður. Stefndi hafi aldrei eignast kröfurnar á hendur stefnanda, sem hann hafi stofnað til með lántökum í eldri bankanum á árunum 2004 og 2007 og þegar af þeirri ástæðu sé hann ekki réttur eigandi að þeim í dag. Þá hafi stefnandi aðeins skrifað undir ný skuldabréf hjá stefnda á árinu 2011, til skuldbreytingar á eldri lánunum, þar sem hann hafi verið í góðri trú um að stefndi ætti þær kröfur sem hann beindi að honum. Þau skuldabréf séu því ekki skuldbindandi gagnvart honum í dag, þar sem honum hafi við undirritun bréfanna, bæði verið gefnar ófullnægjandi og rangar upplýsingar af starfsmönnum stefnda og upplýsingum sem máli skiptu hafi verið haldið fyrir honum. Byggir stefnandi á því að með þessu hafi starfsmenn stefnda með sviksamlegum og ósanngjörnum hætti fengið stefnanda til að undirrita bréfin. Því sé stefnanda ekki skylt að greiða þær kröfur sem lýst sé í dómkröfum.

Í annan stað byggist krafa stefnanda á því að stefndi sé ekki réttur eigandi kröfunnar. Kröfur stefndu séu byggðar á eldri skuldabréfum sem hafi áður sannanlega verið í eigu gamla Íslandsbanka/Glitnis og þeim hafi stefndi neitað að framvísa. Telji stefnandi því slíkan vafa leika á því að stefndi eigi réttmætar kröfur á hendur stefnda, að fallast beri á kröfu hans. Stefnandi telur að stefndi eigi ekki rétt á greiðslu án framvísunar upphaflegu skuldabréfanna og áritana á það um greiðslur. Stefnandi heldur því fram að þar sem stefndi hafi hafnað því að framvísa frumriti skuldabréfanna þá kunni stefndi mögulega ekki að vera réttur eigandi að bréfinu og þar með eigi stefndi ekki þær kröfur á stefnanda sem lýst sé í dómkröfum. Hafi stefnda skv. 1. gr. tilskipunar um áritun afborgana á skuldabréf frá 9. febrúar 1798, borið við uppgreiðslu hinna fyrri bréfa, að skila stefnanda aftur bréfinu, með áritaðri kvittun. Þá hafi stefnandi verið nauðbeygður til að undirrita þau skuldabréf sem hafi komið í stað hinna fyrri.

Í þriðja lagi byggist krafa stefnanda á því að hann hafi að verulegu leyti greitt kröfur skv. veðskuldabréfum nr. 510-158202 og 549-182640(182641) og nægjanlega miðað við þær fjárhæðir sem hafi upphaflega verið teknar að láni. Hin upphaflegu skuldabréf hafi verið ólögmæt gengistryggð lán og valdi það ógildi á loforði stefnanda um endurgreiðslu. Af hálfu stefnanda sé byggt á því að nauðsynlegt sé að skoða lánasamningana og endurnýjanir þeirra heildstætt. Stefnandi vísar sérstaklega til þess að á umsóknareyðublaði um lánin hafi annars vegar verið sótt um lán að fjárhæð 19.000.000 kr. í íslenskum krónum, og hins vegar 5.000.000 kr. lán í íslenskum krónum, sem síðan hafi af hálfu bankans verið breytt í erlendar myntir. Hafi þannig verið um lán í íslenskum krónum að ræða með gengisviðmiði. Hafi lánin borið heitin ,,Veðskuldabréf í erlendum gjaldmiðlum. Húsnæðislán“ og ,,Veðskuldabréf í erlendum gjaldmiðlum“. Hafi lán stefnanda verið greitt út í íslenskum krónum og verið tekin vegna fjármögnunar íslenskrar fasteignar. Stefnandi, sem hafi verið lántaki þessara lána, hafði á þessu tímabili aðeins tekjur í íslenskum krónum og því enga möguleika á að greiða afborganir með erlendum myntum, né not fyrir útgreidda erlenda mynt sér til handa. Engar erlendar myntir hafi þannig skipt um hendur, heldur hafi báðir samningsaðilar uppfyllt aðalskyldur sínar með greiðslu íslenskra króna. Hafi stefnandi ávallt greitt útsenda greiðsluseðla lánsins með íslenskum krónum og efnt þannig skyldu sína skv. samningi aðila. Í samræmi við meginreglur samningaréttar sé rétt að horfa fremur til efnis lánasamnings en forms hans, og með hliðsjón af því verði að telja að í skuldabréfunum felist ólögmæt gengistrygging láns. Telur stefnandi að gengistrygging þessi hafi verið ólögmæt skv. 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og þegar af þeirri ástæða sé ekki til staðar greiðsluskylda vegna lánanna.

Í fjórða lagi byggist sýknukrafan á því að við gerð lánasamninga sinna hafi kröfuhafi í upphafi ekki sinnt skyldu sinni skv. lögum nr. 121/1994 um neytendalán, s.s. skyldu sinni til að greina stefnanda frá heildarlántökukostnaði, árlegri hlutfallstölu kostnaðar, heildarupphæð greiðslu, þ.e. samtölu höfuðstóls, vaxta og kostnaðar, fjárhæð greiðslna og mögulegum breytingum á lánskjörum á samningstímanum, sbr. 4. og 6. gr. laganna. Þá sé stefnandi neytandi sem hafi verið í viðskiptum við sérhæft fjármálafyrirtæki þar sem stefnanda hafi ekki verið gerð grein fyrir eðli skuldabréfanna með fullnægjandi hætti við töku upphaflegu lánanna. Hafi stefndi ekki sinnt þessari skyldu sinni sem skyldi og sé því ósanngjarnt af honum í skilningi 33. og 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga að krefjast frekari innheimtu krafnanna. Þá séu skuldabréfin enn fremur óskýr um fleiri hluti og í raun svo miklum annmörkum háð að furðu sæti að notast hafi verið við það í lánsviðskiptum. Þannig sé sérstaklega byggt á því af hálfu stefnanda að skjölin séu óskýr, sem og þau skjöl sem þau hafi átt að koma í staðinn fyrir, að greiðslukröfur stefnda verði ekki byggðar á þeim.

Í fimmta lagi byggist krafa stefnanda á því að veðréttur fyrir kröfu stefnda hafi tapast þar sem stefndi hafi sýnt af sér tómlæti við að tryggja veðréttindi sín. Þannig hafi stefndi ekki sinnt þeirri skyldu sinni eftir hrun íslenska bankakerfisins og eftirfarandi kröfuhafaskipti á upphaflegum skuldabréfum, að láta þinglýsa nauðsynlegum skjölum um veðrétt sinn skv. ákvörðun Fjármálaeftirlits. Beri stefnda af þessum ástæðum að hlutast til um að veðréttindum þessum verði aflýst, þegar af þeirri ástæðu. Þar sem það hafi ekki verið gert hafi veðréttur fyrir kröfunum fallið niður og þá hafi hin nýju skuldabréf, sem hafi eingöngu verið gefin út vegna þeirra fyrri, ekki átt að njóta veðréttar í fasteign stefnanda, skv. meginreglu 34. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Þá hafi við meðferð málsins hjá sýslumannsembættinu ekki verið fylgt ákvæðum þinglýsingalaga og ekki sé fyrir hendi leiðréttingarheimild til handa þinglýsingarstjóra í tilviki sem þessu, sbr. 27. gr. þinglýsingalaga. Beri stefnda því einnig að hlutast til um aflýsingu bréfanna, verði fallist á aðalkröfu stefnanda, enda sé þá ekki lengur til staðar skuld stefnanda við stefnda.

Varakrafan byggist á sömu málsástæðum og aðalkrafan, auk þess sem sérstaklega sé vísað til þess að stefnandi hafi þegar greitt þá fjárhæð sem stefnandi hafi tekið að láni. Þannig sé krafa stefnda of há og hafi stefndi þannig krafist of hárra vaxta af stefnanda. Byggir stefnandi á því að ólögmætt og ósanngjarnt sé af stefnda að krefjast hærri eftirstöðva en sem nemi upphaflegum höfuðstól að frádregnum innborgunum stefnanda.

Einnig byggist krafan á því að stefndi geti ekki krafist viðbótarvaxta fyrir liðna tíð og með hliðsjón af reglu um fullnaðarkvittanir hafi stefndi krafist of hárrar greiðslu af stefnendum og ekki fært höfuðstól lánanna með réttum hætti. Stefnandi hafi verið í góðri trú um lögmæti skuldbindingar sinnar og hafi stefndi tekið við greiðslum þeirra án fyrirvara. Þá hafi mikill aðstöðumunur verið á milli kröfuhafa og skuldara, enda séu skuldarar neytendur sem hafi tekið lán hjá stefnda, fjármálastofnun með sérþekkingu á sínu sviði. Þá telur stefnandi að það standi stefnda nær að bera þann vaxtamun sem leitt hafi af ólögmætri gengistryggingu. Stefnandi hafi haft réttmætar væntingar um að greiðsluseðlar sem honum hafi verið sendir væru réttir.

III

Stefndi hafnar málatilbúnaði stefnanda og krefst sýknu af aðalkröfu hans. Stefndi telur það hafið yfir vafa að hann hafi tekið við kröfum á hendur stefnda við bankahrunið. Stefndi tekur fram að margoft hafi verið staðfest í dómaframkvæmd um skil stefnda og Glitnis banka hf. Þá leiði af stjórnvaldsákvörðun Fjármálaeftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda Glitnis banka hf. til Nýja Glitnis banka hf., sem nú beri heiti stefnda, að öllum eignum Glitnis banka hf., þ.m.t. „kröfuréttindum“, skyldi ráðstafað til stefnda nema þær væru sérstaklega „undanskildar framsalinu“ samkvæmt nánari tilgreiningu í viðauka við ákvörðunina. Kröfuréttindi Glitnis banka hf. á hendur stefnanda falli ljóslega ekki undir þennan viðauka og sé því ekki einu sinni borið við. Allur málatilbúnaður stefnanda sé því haldlaus. Málatilbúnaði á borð við að stefnanda hafi verið gefnar „ófullnægjandi og rangar upplýsingar ...“ og viðlíka sé jafnframt mótmælt. Eins sé að því að gæta, formsins vegna, að jafnvel þótt kröfuréttindin hefðu ekki færst yfir til stefnda, þá leiði slíkt að lögum ekki til niðurfellingar kröfuréttar, líkt og stefnandi virðast telja og krefjast í reynd viðurkenningar á, heldur hlyti stefnandi að standa í skuld við Glitni banka hf. Eins sé að því að gæta, að hvað sem líði framsali kröfuréttindanna þá hafi stefnandi undirgengist gildar skuldbindingar gagnvart stefnda samkvæmt tveimur skuldabréfunum dags. 23. maí 2011 og viðurkennt þær í verki með greiðslum af þeim.

Varðandi þá málsástæðu stefnanda að „stefndi eigi ekki rétt á greiðslu án framvísunar upphaflegu skuldabréfanna og áritanna á það um greiðslur“ tekur stefndi fram að frumrit hinna upphaflegu veðskuldabréfa á frá 2004 og 2007, hafi verið send stefnanda í almennum pósti 21. júlí 2011. Stefndi hafi þau því ekki undir höndum. Hvað sem líði mótmælum stefnanda hér að lútandi þá standi lög, þ.m.t. reglur fjármunaréttar, aldrei til þess, þ.m.t. eins og málatilbúnaður stefnenda sé upp byggður, að „stefndi eigi ekki rétt á greiðslu án framvísunar upphaflegu skuldabréfanna og áritanna á það um greiðslur“, og sé málatilbúnaður stefnanda hér að lútandi verulega á reiki, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Vegna umfjöllunar stefnanda þessu tengdu um að stefndi kunni „mögulega ekki að vera réttur eigandi að bréfinu“, og viðlíka, þá sé jafnframt að því að gæta að stefnandi hafi undirgengist gildar skuldbindingar gagnvart stefnda samkvæmt veðskuldabréfunum tveimur frá 23. maí 2011. Einnig sé því sérstaklega andmælt að stefnandi hafi verið nauðbeygður til að undirrita nýju veðskuldabréfin. Hvað sem öðru líði verði að líta svo á að stefnandi hafi í verki viðurkennt greiðsluskyldu sína samkvæmt skuldabréfunum.

Varðandi þriðju málsástæðu stefnanda um að hann telji greiðsluskyldu sína niður fallna, eða í öllu falli of háa, á þeim grunni að hann hafi greitt „nægjanlega miðað við þær fjárhæðir sem voru upphaflega teknar að láni“ og að hin „upphaflegu skuldabréf hafi verið ólögmæt gengistryggð lán og valdi það ógildi á loforði stefnanda Jóhannesar um endurgreiðslu“, tekur stefndi fram að sambærilegum málsástæðum hafi margoft verið hafnað í réttarframkvæmd. Af heiti hinna upphaflegu veðskuldabréfa, tilgreiningu vaxta og síðast en ekki síst tilgreiningu skuldbindinganna sem slíkra, þ.m.t. þeirrar staðreyndar að höfuðstólsfjárhæða sé skýrlega getið í erlendum gjaldmiðlum, leiðir að um gild lán í erlendum gjaldmiðlum sé að ræða, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar 7. júní 2012 í máli nr. 524/2011 og fjölmarga fleiri dóma réttarins af sama toga. Form og efni skuldaskjalanna hafi ótvírætt borið með sér að um væri að ræða lán í hinum tilgreindu erlendu myntum. Og jafnvel þótt um gengistryggð lán væri að tefla þá leiði slíkt ekki til brottfalls greiðsluskyldu í heild sinni. Auk þess hafi enginn reki verður gerður að því að sýna fram á að skuldbindingarnar teldust upp greiddar miðað við þá forsendu að þær teldust gengistryggðar. Þvert á móti leiðir ljóslega af gögnum málsins, þ.m.t. framlögðum útreikningum stefnanda, að svo getur aldrei verið, þ.m.t. þótt stuðst yrði við svokallaða „fullnaðarkvittanaleið“. Þá sé einnig tekið fram, þótt stefnandi virðist reyndar ekki halda öðru fram, að órjúfanleg forsenda „fullnaðarkvittanaleiðar“, þ.m.t. skylda til slíks endurútreiknings, sé að hinar upphaflegu skuldbindingar séu gengistryggðar skuldbindingar í íslenskum krónum, enda að öðrum kosti ekki að lögum verið að beina viðbótarkröfu vegna vangreiddra vaxta að lántaka, þ.m.t. með hinum „nýju“ veðskuldabréfum, og svo sem liggi í hlutarins eðli.

Þá hafnar stefndi þeirri málsástæðu stefnanda að stefndi hafi „við gerð lánssamninga“ í upphafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt lögum nr. 121/1994 um neytendalán og vísar í því sambandi meðal annars til 4. og 6. gr. laganna. Stefnanda hafi heldur ekki verið gerð næg grein fyrir „eðli skuldabréfanna með fullnægjandi hætti við töku upphaflegu lánanna“. Ósanngjarnt sé að „krefjast frekari innheimtu krafnanna“, sbr. 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Eins sé því haldið fram að „skjölin séu óskýr“, o.þ.u.l. Öllum þessum málsástæðum, þ.m.t. um óskýrleika skuldaskjala, sé hafnað. Af stefnu málsins verði reyndar ekki ráðið hvort hér sé vísað til hinna upphaflegu veðskuldabréfa eða þeirra sem hafi komið í þeirra stað, eða beggja. Að því er varði fyrsta veðskuldabréfið þá verði ekki annað ráðið af greiðsluáætlun sem var fylgiskjal veðskuldabréfsins og veðskuldabréfinu sjálfu, en að fyrirmælum laga nr. 121/1994 sé fylgt í einu og öllu. Sama sé að segja um nýju veðskuldabréfin og framlagða greiðsluáætlun. Stefndi hafi á hinn bóginn ekki í fórum sínum greiðsluáætlun vegna skuldabréfs dags. 23. maí 2007, en sú skylda verði heldur ekki talin hvíla á fjármálafyrirtækjum að varðveita slík gögn þannig að þau séu aðgengileg níu árum síðar, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 17. apríl 2012 í máli nr. 141/2012, að breyttu breytanda. Stefndi telji enga ástæðu til að ætla að brotalöm hafi verið hér á og það sé stefnanda að sanna slíkt. Þess utan séu mótbárur sem þessar haldlausar gagnvart grandlausum framsalshafa, hér stefnda, sbr. almennar viðskiptabréfareglur, þ.m.t. um form og efni skuldaskjala, en byggt sé á sömu sjónarmiðum í tengslum við aðrar málsástæður stefnanda, eftir því sem við geti átt.

Hvað sem öllum málatilbúnaði stefnanda líði þá leiði jafnframt af 3. mgr. 14. gr. laga nr. 121/1994 og grunnrökum þess ákvæðis og laganna í heild, þ.m.t. eins og þau verði skýrð með hliðsjón af skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum og almennum reglum fjármuna- og neytendaréttar, að brot gegn lögunum leysi ekki skuldara sjálfkrafa undan greiðsluskyldu, svo sem málatilbúnaður stefnanda virðist hins vegar ganga út frá, hvað þá þegar horft sé til þess að stefnandi hafi greitt athugasemda- og fyrirvaralaust vexti og annan kostnað af umræddum skuldbindingum frá öndverðu, sem og til þeirrar staðreyndar að ákvæði þeirra um vexti og annan kostnað séu skýr og ótvíræð. Hafi stefnanda ekki getað dulist inntak skuldbindinga sinna í þessu tilliti. Hafi í dómaframkvæmd heldur ekki verið talið að vanræksla upplýsingagjafar samkvæmt lögum nr. 121/1994 hafi þá réttarverkan í för með sér sem stefnandi krefst, heldur þurfi annað og meira að koma til. Þá verði ekki ráðið hvernig ætluð brotalöm í tengslum við þegar uppgreiddar eldri skuldbindingar geti haft réttarverkanir í för með sér að því er áhræri hinar nýju skuldbindingar og hvað þá eins og málatilbúnaður stefnanda sé fram settur.

Varðandi sjöttu málsástæðu stefnanda um að veðréttur stefnda sé fallinn niður vegna tómlætis þá hafnar stefndi því. Af málatilbúnaði stefnanda sé helst að skilja að hann telji þinglýsingu veðskjala, og ætlað tómlæti stefnda í þeim efnum, geti ráðið úrslitum um veðrétt stefnda og raunar leiða til niðurfellingar hans. Þessi málatilbúnaður, þ.m.t. tilvísun til 34. gr. laga nr. 39/1978 um þinglýsingar, sé haldlaus og ósamþýðanlegur verndarhagsmunum þinglýsinga, þ.e. að tryggja vernd gagnvart þriðja manni, og almennum reglum veðréttar. Málatilbúnaði stefnanda er tengist „meðferð málsins hjá sýslumannsembættinu“, o.þ.u.l., sé jafnframt hafnað, þ.m.t. að ekki hafi verið farið að lögum nr. 39/1978, en þess utan geti slíkt að réttu lagi ekki haft í för með sér þá réttarverkan sem stefnandi krefst.

Stefndi krefst þess að varakröfu stefnanda verði vísað frá dómi. Krafa uppfylli ekki skilyrði þau sem gerð séu til skýrleika viðurkenningarkrafna og svo sem orðalag kröfugerðar beri með sér, sbr. orðalagið að „... skuld stefnanda sé lægri en skv. kröfum stefnda ...“, án frekari tilgreiningar, sem leiði til frávísunar þessa kröfuliðar. Efnislega sé varakröfunni mótmælt með sömu rökum og aðalkröfunni. Stefndi leyfi sér þó að taka fram, að væru upphaflegu veðskuldabréfin haldin ólögmætri gengistryggingu svo sem stefnandi byggi á, þvert gegn réttarframkvæmd Hæstaréttar, og sem stefndi andmæli sérstaklega, þá standi ekki rök til þess að krefjast vangreiddra vaxta fyrir liðna tíð og eðlilegt sé að leiðrétta fjárhæð/stöðu hinna nýju skuldbindinga til samræmis. Varakrafa stefnanda sé hins vegar slíkum annmörkum háð, þ.á m. með tilliti til skýrleikakrafna, að hún teljist raunar ódómtæk. Þá mótmælir stefndi framlögðum einhliða útreikningi stefnanda.

Af öllu framangreindu leiði jafnframt að engin rök standa til þess að fallast á kröfu stefnanda um aflýsingu veða. Í tengslum við allt framangreint sé byggt á því að stefnandi hafi í verki viðurkennt greiðsluskyldu sína, sem leiði þegar til sýknu.

IV

Mál þetta er höfðað með þeirri aðalkröfu að viðurkennt verði að stefnandi beri ekki greiðsluskyldu vegna krafna samkvæmt skuldabréfum stefnda nr. 510-158202 og 549-182640 (182641).

Í varakröfu stefnanda er þess krafist að „viðurkennt verði með dómi að skuld stefnanda við stefnda sé lægri en skv. kröfum stefnda vegna skuldabréfa nr. 510-158202 og 549-182640 (182641)“. Stefndi hefur krafist þess að varakröfu stefnanda verði vísað frá dómi. Verulega skortir á skýrleika dómkröfunnar. Í stefnu er ekki að finna tölulega útlistun til stuðnings varakröfunni. Einungis er hér um fullyrðingar að ræða. Varakrafan og framsetning hennar fullnægir ekki skilyrðum d- og e-liða 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og verður ekki hjá því komist að vísa henni frá dómi.

Aðalkrafa stefnanda lýtur að tveimur skuldabréfum. Skuldabréf nr. 510-158202, sem er að fjárhæð 25.054.805 kr., er lýst svo á veðskuldabréfinu sjálfu að það sé húsnæðislán, jafngreiðslulán, óverðtryggt með breytilegum vöxtum. Skuldabréfið er tryggt með 1. veðrétti í Roðamóa 3, Mosfellsbæ. Í lok skuldabréfsins segir: „Skjal þetta er gefið út til uppgreiðslu veðskuldabréfs á sömu eign, útgefnu þann 21/10 ´04 upphaflega að fjárhæð kr. 19.000.000, að eftirstövum þann 29/4 ´11 kr. 35.779.788, þ.a vanskil kr. 0.“

Seinna skuldabréfið sem dómkrafan tekur til er nr. 549-182640 og er sambærilegt fyrra bréfinu. Höfuðstóll þess er þó lægri eða 6.375.639 kr. Það er einnig tryggt með veði í Roðamóa 3, Mosfellsbæ. Í lok skuldabréfsins segir: „Skjal þetta er gefið út til uppgreiðslu veðskuldabréfs á sömu eign, útgefnu þann 23/3 ´07 upphaflega að fjárhæð kr. 5.000.000, að eftirstövum þann 29/4 ´11 kr. 13.241.807, þ.a vanskil kr. 0.“

Í málinu liggur fyrir að nefnd skuldabréf eru í skilum og hefur stefnandi því sinnt greiðsluskyldu sinni samkvæmt þeim.

Bæði skuldabréfin eru gefin út 23. maí 2011 og bera það greinilega með sér að verið er að endurreikna skuldabréf stefnanda sem gefin voru út á árunum 2004 og 2007. Eldri bréfin voru veðskuldabréf í erlendum gjaldmiðlum, aðallega í japösnkum jenum. Stefndi hefur reiknað lánin út að nýju, og við endurútreikning þeirra lækkuðu þau um samtals 17.591.151 kr. Þá voru gefin út ný skuldabréf sem mál þetta varðar. Þegar litið er til orðalags skuldabréfsins, á stefnandi ekki að velkjast í vafa um að eldri bréfin voru greidd upp með útgáfu skuldabréfa þeirra er dómkrafan tekur til. Þá bera framlögð ljósrit skuldabréfanna frá 2004 og 2007 það með sér að þau hafi verið afmáð og þess getið í þinglýsingabókum.

Ágreiningur er í málinu um afdrif eldri veðskuldabréfanna frá 2004 og 2007, en stefndi kveður að þeim hafi verið aflýst í þinglýsingabókum og síðan send stefnanda. Stefnandi kveðst aldrei hafa móttekið bréfin. Hér er orð gegn orði, en eins og dómkrafa málsins er sett fram, skiptir ekki máli hvað varð um eldri bréfin. Dómkrafan varðar skuldabréfin sem gefin voru út 23. maí 2011 og krafa stefnanda lýtur að greiðsluskylda á þeim bréfum. Eldri skuldabréfin voru greidd upp með þessum nýju bréfum. Því er málsástæða um afdrif eldri bréfanna haldlaus og ætluð áhrif afdrifa þeirra á greiðsluskyldu stefnanda hinna umdeildu skuldabréfa.

Þá byggir stefnanda einnig á því að við stofnun stefnda í október 2008 hafi þær kröfur sem stefnandi skuldaði þá gamla Íslandsbanka/Glitni ekki verið færðar með réttum hætti yfir til stefnda. Því hafi kröfurnar fallið niður og hafi stefndi aldrei eignast kröfurnar á hendur stefnanda sem hann hafi stofnað til með lántökum í eldri bankanum 2004 og 2007. Varðandi þessa málsástæðu stefnanda þá hefur Hæstiréttur margoft dæmt um réttaráhrif ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins frá 14. október 2008 um ráðstöfun eigna og skulda Glitnis banka hf. til Nýja Glitnis banka hf. Sambærilegar ákvarðanir voru teknar í Fjármálaeftirlitinu varðanda aðrar bankastofnanir í kjölfar bankahrunsins. Hæstiréttur hefur tekið fram að kröfuréttindi eldri bankans hafi færst þegar í stað til nýja bankans og ekki hafi þurft sérstakt framsal í hverju og einu tilviku, eins og stefnandi virðist halda fram. Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hafi verið almenns eðlis, tekin á grundvelli sérstakrar lagaheimildar og varð skuldbindandi fyrir stefnanda við birtingu ákvörðunarinnar án þess að tilkynna hefði þurft hverjum og einum skuldara um að kröfur hefðu flust yfir til bankans. Þar af leiðandi er því hafnað að stefndi hafi ekki eignast greindar kröfur.

Þá heldur stefnandi því fram, að stefndi hafi við undirritun skuldabréfanna 23. maí 2011 gefið stefnanda ófullnægjandi og rangar upplýsingar og stefnandi verið nauðbeygður til að undirrita nýju veðskuldabréfin. Því hefur stefndi mótmælt. Eins og málatilbúnaði stefnanda er háttað eru þessar fullyrðingar vanreifaðar og með öllu ósannaðar og er þessari málsástæðu hafnað. Hins vegar verður hvað sem öðru líður að líta svo á að stefnandi hafi í verki viðurkennt greiðsluskyldu sína samkvæmt skuldabréfunum sem gefin voru út 23. maí 2011 og greitt af þeim svo sem framlögð dómskjöl bera með sér og tilgreint er hér að framan.

Stefnandi heldur því fram, að stefndi hafi ekki sinnt þeirri skyldu sinni eftir hrun íslenska bankakerfisins og eftirfarandi kröfuhafaskipti á upphaflegum skuldabréfum, að láta þinglýsa nauðsynlegum skjölum um veðrétt sinn skv. ákvörðun Fjármálaeftirlits. Beri stefnda af þessum ástæðum að hlutast til um að veðréttindum þessum verði aflýst, þegar af þeirri ástæðu. Hér er vandséð að tengsl séu á milli þessarar málsástæðu stefnanda og aðalkröfu málsins. Vanreifað er hvernig ætlaður skortur á veðsetningu eldri skuldabréfanna frá 2004 og 2007 í kjölfar bankahrunsins í október 2008 eigi að leiða til þess að stefnandi beri ekki greiðsluábyrgð samkvæmt skuldabréfum er gefin voru út hinn 23. maí 2011 og hann hefur undirritað og staðið í skilum með síðan. Því er málsástæða þessi haldlaus.

Þá heldur stefnandi því fram að skuldabréfin frá 2004 og 2007 hafi verið ólögmæt gengistryggð lán og það sé ógildi á loforði stefnanda um endurgreiðslu lánanna frá 2011. Stefndi telur að sambærilegum málsástæðum hafi margoft verið hafnað í réttarframkvæmd. Tekið er undir með stefnda að oft hafi reynt á gildi sambærilegra skuldabréfa, og þessa málsástæðu stefnanda, í dómum Hæstaréttar. Með samanburði á skuldabréfum stefnanda og niðurstöðu Hæstaréttar Íslands til dæmis í málinu nr. 524/2011 var um gild lán í erlendum gjaldmiðli að ræða. Skiptir hvorki máli þótt lánin hafi verið greidd út í íslenskum krónum eða tekin vegna fjármögnunar íslenskrar fasteignar né að stefnandi hafi haft tekjur í íslenskum krónum og er þessari málsástæðu hafnað. 

Þá byggir stefnandi á því að við gerð lánasamninga sinna hafi kröfuhafi í upphafi ekki sinnt skyldu sinni skv. lögum nr. 121/1994 um neytendalán, s.s. skyldu sinni til að greina stefnanda frá heildarlántökukostnaði, árlegri hlutfallstölu kostnaðar, heildarupphæð greiðslu, þ.e. samtölu höfuðstóls, vaxta og kostnaðar, fjárhæð greiðslna og mögulegum breytingum á lánskjörum á samningstímanum, sbr. 4. og 6. gr. laganna. Skilja verður málatilbúnað stefnandi á þann veg að hann eigi við atvik við gerð skuldabréfanna árið 2004 og 2007 með því að í stefnu segir að kröfuhafi hafi ekki sinnt skyldu sinni í „upphafi.“ Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir óundirrituð greiðsluáætlun vegna lánsins sem tekið var árið 2004 að fjárhæð 19.000.000 kr., sem stefnandi leggur fram. Þar er gerð grein fyrir heildarlántökukostnaði, árlegri hlutfallstölu kostnaðar, heildarupphæð greiðslu og fleira. Stefndi kveðst ekki hafa samsvarandi skjal vegna lánsins frá 2007 svo sem honum bar. Það leiðir þó ekki til þess að greiðsluskylda stefnanda samkvæmt skuldabréfum frá 23. maí 2011 sé ekki til staðar. Greiðsluáætlun, undirrituð af stefnanda, liggur fyrir í málinu vegna beggja þeirra skuldabréfa er dómkrafan tekur til. Því er málsástæðu þessari hafnað sem og tilvitnun stefnanda til 33. og 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Þá er ekki fallist á að skuldabréfin séu óskýr og annmörkum háð en í engu getið er í stefnu í hverju óskýrleikinn eða annmarkarnir felast. Þá er heldur ekki rökstudd sú fullyrðing stefnanda að honum hafi ekki verið gerð grein „fyrir eðli skuldabréfanna með fullnægjandi hætti við töku upphaflegu lánanna“.

Þá byggir stefnandi á því að veðréttur fyrir kröfu stefnda hafi tapast þar sem stefndi hafi sýnt af sér tómlæti við að tryggja veðréttindi sín. Stefndi hafi ekki sinnt þeirri skyldu sinni eftir bankahrunið, og eftirfarandi kröfuhafaskiptum á upphaflegum skuldabréfum, að láta þinglýsa nauðsynlegum skjölum um veðrétt sinn samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Að mati dómsins vantar hér verulega á skýrleika málsástæðunnar. Enn og aftur skal áréttað að aðalkrafa málsins lýtur að tveimur skuldabréfum sem gefin voru út 23. maí 2011. Ætlað tómlæti við að tryggja veðréttindi eldri bréfa er greidd voru upp með nýju bréfunum skiptir ekki máli eins og dómkrafan er fram sett. Þá ber ekki nauðsyn til að þinglýsa kröfuhafaskiptum samanber 30. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978.

Með vísan til þess sem að framan greinir er stefndi sýknaður af kröfum stefnanda. Í samræmi við 130. gr. laga um meðferð einkamála ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað svo sem greinir í dómsorði.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

                Varakröfu stefnanda er vísað frá dómi.

                Stefndi, Íslandsbanki hf., er sýknaður af öllum kröfum stefnanda, Jóhannesar Þórs Hilmarsson.

                Stefnandi, Jóhannes Þór Hilmarsson, greiði stefnda 800.000 kr. í málskostnað.