Print

Mál nr. 577/2016

Ákæruvaldið (Daði Kristjánsson saksóknari)
gegn
Þorsteini Sindra Elíassyni (Ragnar Aðalsteinsson hrl.)
, (Valgeir Pálsson hrl. lögmaður brotþola )
Lykilorð
  • Brenna
  • Einkaréttarkrafa
Reifun
Þ var sakfelldur fyrir brot gegn 169. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa látið hjá líða að gera það sem í hans valdi hafi staðið til að vara við eða afstýra eldsvoða sem bróðir hans hafði valdið og var sakfelldur fyrir. Var refsing hans ákveðin fangelsi í fjóra mánuði. Á hinn bóginn var Þ sýknaður af bótakröfu T hf. með vísan til meginreglu skaðabótaréttar um að maður verði ekki skaðabótaskyldur vegna athafnaleysis þegar hann hafi ekki haft tengsl við þá atburðarrás sem síðar leiði til tjóns.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 29. júlí 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara sýknu af henni.

Tryggingamiðstöðin hf. krefst þess að ákærði greiði sér 12.596.852 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. júlí 2016 til greiðsludags, auk málskostnaðar.

I

Með ákæru héraðssaksóknara 14. júní 2016 var X gefin að sök brenna að kvöldi 7. mars 2016 með því að hafa kveikt í slæðu sem var á stól í herbergi hans að [...] í Reykjavík, hent stólnum á dýnu og skilið brennandi dýnuna eftir inni í herberginu og valdið þannig eldsvoða, sem hafði í för með sér almannahættu og eignatjón, en eldurinn hafi magnast upp og nánast borist um allt húnæðið er slökkvistarf hófst, með þeim afleiðingum að húsið eyðilagðist, ásamt þeim munum og tækjum sem voru innandyra. Var brotið talið varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 164. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Með hinum áfrýjaða dómi var X sakfelldur samkvæmt ákæru, en sýknaður af refsikröfu vegna sakhæfisskorts og gert að sæta öryggisgæslu, sbr. 62. gr. almennra hegningarlaga. Jafnframt var hann sýknaður af einkaréttarkröfu þeirri, sem höfð er uppi í málinu. Er málið ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti hvað hans þátt varðar.

Ákærða Þorsteini Sindra er gefið að sök í sömu ákæru að hafa látið hjá líða að gera það sem í hans valdi stóð til þess að vara við eða afstýra framangreindum eldsvoða, en hann hafi hvorki gert tilraunir til að slökkva eldinn, tilkynna um eldinn til lögreglu eða slökkviliðs né kannað hvort einhver væri inni í húsnæðinu þegar hann yfirgaf vettvang ásamt X. Þá hafi hann ekki hafið virkar björgunaraðgerðir til björgunar verðmæta eða mannslífa. Er brot hans talið varða við 169. gr. almennra hegningarlaga.

Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi, sem honum er gefin að sök í ákærunni, og gert að sæta fangelsi í sex mánuði. Þá var hann dæmdur til að greiða Tryggingamiðstöðinni hf. 12.596.852 krónur, ásamt nánar tilgreindum vöxtum, auk málskostnaðar. Fyrir Hæstarétti leitar ákærði endurskoðunar á héraðsdómi eftir a., b. og c. liðum 1. mgr. 196. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

II

Fallist er á með héraðsdómi að ákærði hafi verið sakhæfur í skilningi 15. gr. almennra hegningarlaga á verknaðarstundu og að ætla megi að refsing beri árangur, sbr. 16. gr. sömu laga.

Aðspurður um ástæðuna fyrir því að ákærði reyndi ekki að hringja í lögreglu umrætt sinn skýrði hann svo frá fyrir héraðsdómi að það hafi verið vegna þess að „þetta var bróðir minn sem, sem hérna ... kveikti í og ég vil ekkert vera að ... segja lögreglunni eitthvað frá því.“ Af þessum framburði ákærða verður ráðið að hann hafi af ásetningi látið hjá líða að gera aðvart um brennuna vegna þess að bróðir hans var valdur að henni.

Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða og heimfærslu til refsákvæðis. Er refsing hans ákveðin fangelsi í fjóra mánuði, en til frádráttar henni kemur samkvæmt 76. gr. almennra hegningarlaga með fullri dagatölu gæsluvarðhald sem hann sætti frá 9. til 16. mars 2016.

III

Tryggingamiðstöðin hf. krefst þess með vísan til 1. mgr. 22. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 að ákærði greiði sér 12.596.852 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 23. júlí 2016 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi ákærða, sbr. 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Í skaðabótarétti gildir sú meginregla að maður verður ekki skaðabótaskyldur vegna athafnaleysis þegar hann hefur ekki tengsl við þá atburðarás, sem síðar leiðir til tjóns. Svo sem áður greinir var fyrrgreindur X sakfelldur fyrir að hafa valdið þeim eldsvoða sem hér um ræðir. Verður að telja að ósannað sé af hálfu bótakrefjanda að ákærði Þorsteinn Sindri hafi haft þau tengsl við atburðarás máls þessa að hann beri skaðabótaábyrgð á tjóni því sem af eldsvoðanum hlaust. Verður hann því sýknaður af bótakröfunni. 

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð að öðru leyti en því að kostnaður vegna dómtúlks að fjárhæð 16.185 krónur fellur ekki undir sakarkostnað, sbr. 2. mgr. 216. gr. laga nr. 88/2008. Þá hafa af hálfu ákæruvaldsins ekki verið færð rök fyrir því að reikningar Vöku, samtals að fjárhæð 82.300 krónur, falli undir sakarkostnað samkvæmt 1. mgr. sömu lagagreinar. Verður helmingur samtölu þessara fjárhæða, 49.242 krónur, því dreginn frá þeim kostnaði, sem talinn var til annars sakarkostnaðar og ákærði var dæmdur til að greiða í héraði. Samkvæmt því verður ákærði dæmdur til að greiða 726.842 krónur vegna þessa hluta sakarkostnaðar.

Ákærða verður gert að greiða ⅔ hluta alls áfrýjunarkostnaðar málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákærði, Þorsteinn Sindri Elíasson, sæti fangelsi í fjóra mánuði, en til frádráttar refsingu kemur gæsluvarðhald hans frá 9. til 16. mars 2016.

Ákærði er sýkn af einkaréttarkröfu Tryggingamiðstöðvarinnar hf.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað eru staðfest að öðru leyti en því að ákærði greiði 726.842 krónur í annan sakarkostnað.

Ákærði greiði ⅔ hluta alls áfrýjunarkostnaðar málsins, 655.377 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Ragnars Aðalsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 620.000 krónur.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júlí 2016.

Mál þetta, sem dómtekið var miðvikudaginn 29. júní 2016, er höfðað með ákæru, útgefinni af héraðssaksóknara 14. júní 2016, á hendur X kt. [...], og Þorsteini Sindra Elíassyni, kt. [...] báðum til heimilis að [...], Reykjavík, fyrir eftirtalin hegningarlagabrot, framin að kvöldi mánudagsins 7. mars 2016, að [...] í Reykjavík:

1.       Á hendur X fyrir brennu með því að hafa kveikt í slæðu sem var á stól í herbergi hans að [...], hent stólnum á dýnu og skilið brennandi dýnuna eftir inni í herberginu og valdið þannig eldsvoða, sem hafði í för með sér almannahættu og eignatjón en eldurinn magnaðist upp og hafði nánast borist um allt húsnæðið er slökkvistarf hófst, með þeim afleiðingum að húsið eyðilagðist, ásamt þeim munum og tækjum sem voru innandyra.

Telst þetta varða við 1., sbr. 2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

2.       Á hendur Þorsteini Sindra Elíassyni fyrir að hafa látið hjá líða að gera það sem í hans valdi stóð, til þess að vara við eða afstýra eldsvoða sem varðar við 1., sbr. 2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. ákærulið 1, en Þorsteinn gerði hvorki tilraunir til að slökkva eldinn eða tilkynna um eldinn til lögreglu eða slökkviliðs né kannaði hvort einhver væri inni í húsnæðinu þegar hann yfirgaf vettvang ásamt meðákærða. Þá hóf Þorsteinn ekki virkar björgunaraðgerðir til björgunar verðmæta eða mannslífa.

Telst þetta varða við 169. gr. almennra hegningarlaga.

Í ákæru er þess krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Til vara er þess krafist að ákærða X verði gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun, sbr. 62. gr. almennra hegningarlaga, og greiða allan sakarkostnað.

Af hálfu Tryggingamiðstöðvarinnar hf., kt. 660269-2079, er þess krafist að hver sá, einn eða fleiri, sem uppvísir eru að því að hafa gerst sekir um brot það er krafa málsins er sprottin af, verði dæmdir til að greiða félaginu 12.596.852 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá tjónsdegi til 14. júní 2016, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt 3. mgr. 176. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

      Verjandi ákærða X krefst þess aðallega að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, en til vara að honum verði dæmd vægasta refsing er lög leyfa.

Verjandi ákærða Þorsteins Sindra krefst þess aðallega að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, til vara að refsing ákærða verði felld niður, en til þrautavara að honum verði dæmd vægasta refsing er lög leyfa.

Verjendur krefjast þess er aðallega að bótakröfu verði vísað frá dómi, til vara er krafist sýknu af bótakröfu, en til þrautavara að bætur verði stórlega lækkaðar.

Þá krefjast verjendur hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins sem greiðist úr ríkissjóði.

Málsatvik

                Mánudagskvöldið 7. mars 2016 barst lögreglu tilkynning um að reyk legði frá húsinu að [...] í Reykjavík. Þegar lögreglumenn komu á vettvang sást eldur loga út um glugga austan megin í húsinu og lá mikill reykur yfir hverfinu. Húsið sem um ræðir er iðnaðarhúsnæði, en í því voru tvö bifreiðaverkstæði, líkamsræktarstöð, vinnustofa og íbúð listmálara, auk bifreiðageymslu í kjallara. Rætt var við vitni á vettvangi, A og B, sem kváðust hafa verið við vinnu á bifreiðaverkstæði vestan megin í húsinu þegar þeir hefðu orðið eldsins varir. Þá gáfu tveir erlendir ferðamenn sig fram við lögreglu og kváðust hafa séð til tveggja manna sem gengu fram hjá brennandi húsinu og hefði virst sem bruninn kæmi þeim lítið á óvart. Meðal gagna málsins er ljósmynd sem vitnin tóku af húsinu og mönnunum úr fjarlægð. Þá liggur fyrir myndbandsupptaka úr öryggismyndavél Utanríkisráðuneytisins við Rauðarárstíg, þar sem sjá má tvo menn ganga fram hjá brennandi húsinu.

Í skýrslum lögreglu er gerð grein fyrir umfangsmiklum aðgerðum á vettvangi, en meðal annars voru nærliggjandi íbúðarhús rýmd. Fram kemur að slökkvistarf hafi staðið fram eftir nóttu og að um altjón hafi verið að ræða á húsnæðinu. Fljótlega bárust ábendingar um að ákærðu hefðu dvalið á svefnlofti ofan við æfingarsal líkamsræktarstöðvarinnar sem í húsinu var og vaknaði grunur um að þeir hefðu valdið brunanum. Ákærði X var lagður inn á geðdeild daginn eftir atvikið, en ákærði Þorsteinn Sindri var handtekinn sama dag, eftir að hafa gengið berserksgang í strætisvagni. Við yfirheyrslu hjá lögreglu sem fram fór 14. mars játaði X að hafa kveikt í húsnæðinu. Þá játaði ákærði Þorsteinn Sindri við yfirheyrslu 11. mars að hafa verið viðstaddur þegar það átti sér stað.

                Í skýrslu tæknideildar lögreglu er húsinu nánar lýst og kemur fram að bifreiðaverkstæðin hafi verið á suðurhlið hússins, en aðstaða listmálara og líkamsræktarstöðin „[...]“ á norðurhlið þess. Eldsupptök hafi verið á millilofti fyrir ofan líkamsræktarsalinn, austast í húsinu, og þar hafi verið mest brunnið. Kemur fram að eldurinn virðist hafa leitað upp á við frá milliloftinu í þak og síðan áfram eftir þakinu í vesturátt. Skýrslunni fylgja ljósmyndir og teikningar af húsnæðinu.

                Við rannsókn málsins var C verkfræðingur dómkvaddur til að meta hvort almannahætta hafi stafað af íkveikjunni, sem hafi verið þess eðlis að mönnum hafi verið bersýnilegur lífsháski búinn eða haft í för með sér augljósa hættu á yfirgripsmikilli eyðingu á eignum annarra manna, sbr. 164. gr. almennra hegningarlaga. Í matsgerð kemur fram að húsið að [...] hafi verið byggt úr steinsteypu, kjallari og ein hæð, skráð 1624 m². Burðarbitar í þaki hafi verið strengjasteypubitar, en þakið járnklætt á timburlangbönd og þakpappa. Einangrun hafi líklega verið einangrunarplast. Húsið hafi verið fjögur rammabil með útbyggingu til vesturs og því hafi verið skipt með vegg þannig að réttingaverkstæði var í vestasta bili og útbyggingu, en bifreiðaverkstæði í þremur austari bilum. Á hæðinni hafi verið sett upp milligólf úr timbri og á því hafi líkamsræktarstöðin verið í austurenda, en vinnuaðstaða og ósamþykkt íbúðarhúsnæði listamanns í vesturenda. Af ljósmyndum megi sjá að innveggir hafi að mestu verið úr timbri og klæddir spónaplötum eða sambærilegu efni og það sama eigi við um milligólf og þak. Að utan hafi húsið verið með steinveggjum. Inngangur í líkamsræktarstöðina hafi verið um hurð á norðurhlið og hafi verið gengið inn í salinn um timburstiga upp á opið milligólf úr timbri, um 4 x 6 metrar að stærð, sem náð hafi sem næst inn undir mitt hús. Veggirnir milli líkamsræktarstöðvarinnar og bifreiðaverkstæðisins hafi verið úr timbri og klæddir spónaplötum og verði ekki greint af ljósmyndum að í þeim hafi verið steinull til að auka brunamótstöðu. Sama eigi við um aðra innveggi í húsinu. Starfsemin sem þar fór fram virðist því öll hafa verið í einu brunahólfi.

                Í matsgerðinni kemur fram að mat á almannahættu hafi verið unnið með hliðsjón af eftirfarandi viðmiðum: a) Hættu á að hagsmunir, þ.e. fjárhagsmunir eða líf og limir manna sem bundnir voru við húsið að [...], færu forgörðum er eldur var lagður að því. b) Hættu á að hagsmunir færust eða spilltust utan þeirrar eignar sem kveikt var í, svo sem nálæg hús, bifreiðar eða önnur mannvirki og lausafjármunir og þeir sem höfðust að í nágrenni við húsið. Íkveikjan hafi verið í rúmdýnu á milligólfi úr timbri og eldurinn borist frá henni yfir í nálæga hluti og áfram um rýmið, en ekki valdið yfirtendrun í rými líkamsræktarstöðvarinnar. Varðandi lið a) sé ljóst að eldurinn hafi magnast upp og breiðst út frá því sem í var kveikt út um það sem var á milligólfinu og upp í þakið og eftir því yfir í aðra hluta hússins, með þeim afleiðingum að þakið hafi logað yfir öllum hlutum hússins. Húsið sjálft, allar innréttingar og lausafé, þ.m.t. bifreiðar á verkstæðum, hafi eyðilagst af eldi, reyk og vatni. Þannig sé öruggt að fjárhagsmunir sem bundnir voru við húsið hafi farið forgörðum við íkveikjuna. Tveir starfsmenn sem voru að störfum á bifreiðaverkstæðinu í vesturenda hússins hafi átt greiða leið þaðan eftir að þeir urðu varir við reyk og eld. Að öðru leyti hafi húsið verið mannlaust, en íbúi í ósamþykktu íbúðinni hafi verið að heiman. Ekki hafi því verið hætta á að líf og limir annarra manna í húsinu færu forgörðum við íkveikjuna. Varðandi lið b) sé ljóst að eftir að húsið var farið að brenna hafi reyk og hitageislun lagt frá því yfir nálæg hús, einkum húsin við Snorrabraut á milli Laugavegar og Grettisgötu, númer 31 til 35 og 35A, sem eru í átta metra fjarlægð. Vindur hafi staðið af suðvestri að húsunum. Fram kemur að gafl á Snorrabraut 35A er steyptur og gluggalaus og ekki hætta á að eldur geti breiðst út í húsið eða til annarra framangreindra húsa sem eru fjær. Reykur frá eldinum hafi hins vegar getað lagst yfir húsin og valdið tjóni á þeim og innanstokksmunum. Þá hefðu bifreiðar í sundinu á milli húsanna getað eyðilagst við eldinn. Húsin sunnan Grettisgötu, nr. 90 til 98, séu steinsteypt og múruð og hafi verið í öruggri fjarlægð, en um 20 metrar séu þar á milli. Reykur frá eldinum hefði hins vegar getað lagst yfir þau hús og valdið tjóni á þeim og innanstokksmunum hefði vindáttin verið önnur. Sama eigi við um önnur hús í nágrenninu sem standi fjær. Þá hefðu bifreiðar á nærliggjandi bifreiðastæðum getað eyðilagst við eldinn. Engum hafi hins vegar verið bersýnilegur lífsháski búinn í þessum húsum því eldur hefði ekki getað borist í þau.

                Helstu niðurstöður matsins voru þær að íkveikjan hefði þróast á þann veg að æfingasvæðið hafi orðið alelda og eyðilagst. Vegna ófullnægjandi hólfunar og auðbrennanlegra byggingarefna hafi eldurinn náð að berast yfir í aðra hluta hússins og valda yfirgripsmikilli eyðingu á þeim ásamt lausafé öllu. Starfsmennirnir á verkstæðinu hafi getað forðað sér út um hurðir á því en húsið hafi verið mannlaust að öðru leyti. Almannahætta hafi verið til staðar vegna eignatjóns sem af íkveikjunni varð, en mönnum hafi ekki verið bersýnilegur lífháski búinn vegna atviksins.

                Í málinu liggur fyrir vottorð D geðlæknis vegna ákærða X. Kemur þar fram að ákærði hafi fyrst leitað á geðdeild Landspítala í júnímánuði 2014, en hafi sjö sinnum lagst inn á geðdeild á síðustu tveimur árum og einu sinni sætt nauðungarvistun. Hann hafi frá upphafi viðurkennt að hafa misnotað amfetamín og að hafa notað efnið svo árum skipti. Vel þekkt sé að neysla amfetamíns geti valdið geðrofseinkennum og versnandi undirliggjandi geðrofssjúkdómi. Hafi geðrofseinkenni farið versnandi hjá ákærða, sem lýsi sér í mikilli aðsóknarkennd. Sjúkdómsinnsæi hans sé ekkert þegar einkennin séu verst. Í innlögn á deild 33A í apríl 2015 hafi komið fram að ákærði hefði kveikt í herbergi sem hann hafði þá á leigu og hafi hann þá virst vera í geðrofi. Ákærði hafi leitað á geðdeild daginn eftir íkveikjuna að [...] og lýst mikilli aðsóknarkennd. Í samantekt læknisins kemur fram að ekki sé ljóst hvort geðrofseinkenni ákærða orsakist eingöngu af vímuefnanotkun eða hvort um sé að ræða undirliggjandi geðsjúkdóm. Að mati læknisins hafi hann verið í geðrofsástandi í þau tvö skipti sem hann hafi viðurkennt að hafa kveikt í, og geti það hafa haft áhrif á dómgreind hans og gerðir.

                E geðlæknir var dómkvaddur til að vinna geðheilbrigðisrannsókn á ákærðu, með hliðsjón af 15. og 16. gr. almennra hegningarlaga. Í matsgerð segir um ákærða X að hann hafi fyrst fengið ranghugmyndir um 35 ára aldur. Hann hafi þá notað amfetamín um tíu ár skeið og í töluverðu magni á undanförnum átta árum. Frá þeim tíma hafi hann ekki stundað neina vinnu, en verið á örorkubótum. Undanfarin tvö ár hafi ákærði margoft legið á fíknideild geðdeildar Landspítalans og komi fram í sjúkraskrá að hann hafi þá oft verið mjög veikur. Hann hafi einu sinni áður kveikt í íbúðarhúsnæði sínu og skýri hann íkveikjur sínar með ranghugmyndum, sem nánar er lýst í matsgerðinni. Sú spurning hljóti að vakna hvort neysla amfetamíns eigi þátt í ranghugmyndakerfi ákærða og geðrofsástandi á undanförnum árum. Þá kemur fram að geðrofsjúkdómar séu algengir í ætt ákærða.

Í matinu segir að ákærði eigi við alvarlegan geðrofssjúkdóm að stríða auk amfetamínfíknar. Um sé að ræða tvo alvarlega sjúkdóma og auki amfetamínneysla á geðrofseinkenni og verði til þess að mjög erfitt sé að meðhöndla sjúkdóminn. Íkveikjurnar tvær hafi átt sér líkan aðdraganda, en í bæði skiptin virðist hafa verið um skyndiákvörðun að ræða, sem ákærði skýri með ranghugmyndum. Mjög líklegt sé að þessi íkveikjuhegðun haldi áfram, fái ákærði ekki viðeigandi meðferð í því skyni að slá á geðrofseinkenni og ranghugmyndir. Nauðsynlegt sé að gera allt sem mögulegt er til að hindra áframhaldandi amfetamínneyslu. Er það niðurstaða matsgerðarinnar að ákærði hafi umræddan dag verið í geðrofsástandi, auk þess sem hann hafi verið í langvarandi neyslu amfetamíns. Hann sé með flókið kerfi ranghugmynda, sem séu hluti af geðklofasjúkdómi sem hann hafi haft í mörg ár. Telur matsmaður, með vísan til 15. gr. almennra hegningarlaga, að ákærði hafi verið ófær að stjórna gerðum sínum umræddan dag.

                Í matsgerð um geðhagi ákærða Þorsteins Sindra kemur fram að sjúkdómsgreiningar sem hann hafi fengið á geðdeild Landspítala séu a[...], fíkniheilkenni af völdum annarra örvandi lyfja og athyglisbrestur með ofvirkni. Hann hafi um árabil átt við alvarlegan fíknisjúkdóm að stríða, sem lýsi sér fyrst og fremst í því að hann misnoti lyf, aðallega amfetamín. Þess utan sé ljóst að hann sé með [...], en greinilegt sé að amfetamínið hafi mjög slæm áhrif á þann sjúkdóm. Þá eigi ákærði sögu um ofbeldi, en hafi þó fyrst og fremst skeytt skapi sínu á dauðum munum. Hann hafi margoft verið lagður inn á geðdeildir Landspítala, aðallega öryggisgeðdeild, allt frá árinu 2008. Einnig hafi hann dvalið á Litla-Hrauni vegna afbrota og síðast verið látinn laus þaðan 16. febrúar síðastliðinn. Hann hafi verið í talsverðri neyslu efna á meðan hann dvaldi á Litla-Hrauni. Þá hafi hann farið að nota örvandi lyf í talsverðu magni strax eftir að hann var látinn laus þaðan. Í sjúkraskrá Landspítala komi fram að hann hafi haft geðrofseinkenni á þeim tíma sem bruninn átti sér stað, en geðlæknar túlki geðrofseinkennin þannig að þau séu til komin vegna neyslu hans á amfetamíni. Eftir að ákærði var látinn laus af Litla-Hrauni síðast hafi hann dvalið hjá bróður sínum í iðnaðarhúsnæðinu við [...] og hafi þeir báðir verið í neyslu. Ákærði hafi lýst því að hann hafi að einhverju leyti verið undir hælnum á bróður sínum, sem sé um margt ráðandi í sambandi þeirra. Bróðir hans hafi ítrekað skipað honum að þegja og þess vegna hafi hann ekkert aðhafst þegar hann kveikti í, en hann hafi ekki getað skýrt ástæður þess frekar. Er það niðurstaða matsgerðarinnar að geðrofseinkenni ákærða hafi ekki átt þátt í athafnaleysi hans þegar bróðir hans kveikti í húsnæðinu. Með vísan til 15. gr. almennra hegningarlaga er talið að geðsjúkdómur sá sem ákærði sé sannarlega haldinn hafi ekki verið þess valdandi að hann hafi verið ófær hinn 7. mars síðastliðinn um að stjórna gerðum sínum. Þá kunni amfetamínneysla að hafa leikið þar eitthvert hlutverk, en fyrst og fremst verði athafnaleysi ákærða rakið til þess að hann hafi verið hræddur við bróður sinn, sem augljóslega hafi verið verulega veikur á þeim tíma sem íkveikjan varð. Með vísan til 16. gr. almennra hegningarlaga er ekkert talið koma í veg fyrir að refsing kunni að bera árangur, sannist sök ákærða. Hitt sé ljóst að nauðsynlegt sé að ákærði fái viðeigandi meðferð í formi lyfjagjafar við geðklofasjúkdómi þeim sem hann er haldinn og allt beri að gera til þess að koma í veg fyrir að hann neyti örvandi lyfja, sem hann hafi ítrekað gert mörg undanfarin ár.

 

Við aðalmeðferð málsins játaði ákærði X að hafa valdið eldsvoða í húsnæðinu með þeim hætti sem í ákæru greinir. Ákærði kvað þá bræðurna hafa verið saman í herberginu þegar hann kveikti í. Þeir hefðu verið að neyta amfetamíns dagana á undan og hefði þeim liðið mjög illa. Þeir hefðu rifist og hann hefði látið vanlíðan sína bitna á bróður sínum. Hann kvaðst hafa ætlað að sækja svefntöflur til móður sinnar, en þegar út úr húsinu kom hefði hann skynjað að þar væri fullt af fólki sem hefði verið að gera honum lífið leitt. Hann hefði því snúið aftur í herbergið og fengið sér sígarettu. Hann hefði síðan kveikt með kveikjara í slæðu sem lá á stól og kastað stólnum á dýnu sem þarna var. Hann kvaðst ekkert hafa verið að hugsa þegar hann gerði þetta. Hann hefði reynt að slökkva eldinn með því að hella yfir hann vatni úr katli, sparkað í dýnuna og snúið henni við, en það hefði ekki dugað til. Hann hefði sagt bróður sínum að fara út, tekið tölvuna sína, sjónvarpið og úlpu og farið út á eftir honum. Ákærði kvaðst telja að hann hefði verið inni í húsinu í um 10 til 15 mínútur eftir að hann kveikti í. Þeir hefðu beðið eftir lögreglu fyrir utan, en hún hefði ekki verið komin þegar þeir fóru af vettvangi. Þá hefði húsið verið orðið alelda. Þeir hefðu farið til móður sinnar og sofið þar um nóttina, en hann hefði lagst inn á geðdeild daginn eftir.

                Ákærði lýsti því að hann hefði verið lagður í einelti af tveimur mönnum um árabil. Að hans sögn væru þessir menn morðingjar, sem hefðu jafnframt búið í húsinu vikum saman, talað til hans í gegnum veggi og áreitt með ýmsum hætti. Ekki væri um ranghugmyndir að ræða, eins og haldið hefði verið fram í málinu.

Ákærði Þorsteinn Sindri Elíasson neitaði sök við meðferð málsins fyrir dómi. Hann lýsti því að ákærði X hefði kveikt í blaði eða klút og hent í dýnu í herberginu. Hann hefði orðið stjarfur, frosið, og ekki vitað hvað var að gerast. Hann hefði verið í um 5 til 10 mínútur í herberginu eftir að kviknaði í. Bróðir hans hefði sagt honum að fara út. Hann hefði tekið úlpuna sína og beðið eftir honum niðri. Bróðir hans hefði síðan komið út með sjónvarpið og tölvuna og þeir gengið saman heim til móður sinnar. Ákærði kvaðst hvorki hafa reynt að slökkva eldinn né gert viðvart um hann. Þá hafi hann ekki kannað hvort einhverjir aðrir væru í húsinu. Hann kvað bróður sinn hafa beðið sig um að láta lögregluna ekki vita af þessu.

Ákærði kvað andlega líðan sína hafa verið slæma í aðdraganda atviksins. Hann hefði dvalið í herberginu hjá bróður sínum um þriggja vikna skeið, en áður hefði hann verið heimilislaus eftir að hann losnaði úr fangelsinu. Hann hefði einnig leitað á geðdeild vegna ranghugmynda sem lýstu sér í því að hann heyrði raddir sem gerðu grín að honum og baktöluðu hann. Þeir bræðurnir hefðu verið að neyta amfetamíns dagana fyrir atvikið, en hann kvaðst ekki hafa verið undir vímuáhrifum þegar þetta var. Þeir hefðu farið að rífast, en báðir hefðu verið með ranghugmyndir og hefði bróður hans liðið mjög illa. Meðal annars hefði bróðir hans beðið hann um að sparka og kýla í veggi vegna fólks sem væri statt í húsinu. Ákærði kvaðst sjálfur hafa heyrt í einhverjum stúlkum hinum megin við vegginn.

Ákærði kvað eldinn hafa magnast upp á mjög skömmum tíma eftir að bróðir hans kveikti í, eða á einni til þremur mínútum. Hefði verið kominn „stór eldur“ þegar hann fór út. Hann kvaðst ekki geta séð hvernig hann hefði átt að slökkva eldinn, en í herberginu hefði aðeins verið lítill pottur með vatni. Þá kvaðst hann telja að hann hefði skilið símann sinn eftir í herberginu þegar hann fór út. Hann hefði ekki reynt að hringja í lögreglu eða slökkvilið vegna þess að bróðir hans hefði gert þetta og hann hefði ekki viljað segja frá því.

Auk ákærðu gáfu skýrslu fyrir dóminum vitnin B og A, sem voru við vinnu á bifreiðaverkstæði í vesturenda hússins þegar eldurinn kom upp, og F, sem kvaðst ásamt unnustu sinni hafa orðið vitni að því er tveir menn gengu frá húsinu með sjónvarpsskjá og tölvubox í sömu mund og sprenging varð af völdum eldsvoðans. Mynd sem þau tóku af húsinu og mönnunum liggur fyrir í málinu, sem að framan greinir, og báru ákærðu kennsl á sig á henni við aðalmeðferð málsins. Þá gáfu G rannsóknarlögreglumaður og matsmennirnir C verkfræðingur og E  geðlæknir skýrslu við aðalmeðferðina og gerðu grein fyrir niðurstöðum sínum.

Niðurstaða

Ákærði X

                Ákærði, X, hefur skýlaust játað þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að hann er sekur um þá háttsemi sem í ákæru greinir og er brot hans þar réttilega fært til refsiákvæða.

                Gerð hefur verið grein fyrir mati á geðheilbrigði ákærða og niðurstöðum þess. Með vísan til þess, og framburðar ákærðu við aðalmeðferð málsins, sem rakinn hefur verið, er það niðurstaða dómsins að ákærði X hafi verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum á verknaðarstundu. Samkvæmt því ber að sýkna hann af kröfu ákæruvalds um refsingu, sbr. 15. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

                Í matinu kemur fram að ákærði sé haldinn geðklofa og fylgi miklar ranghugmyndir sjúkdómi hans. Þá glími hann við amfetamínfíkn, sem hamli sjúkdómsmeðferð hans. Ákærði hafi tvívegis orðið uppvís að íkveikju og er sú hegðun rakin til ranghugmynda sem hann hafi verið haldinn á verknaðarstundu. Telur matsmaður mjög líklegt að ákærði sýni áfram af sér íkveikjuhegðun fái hann ekki viðeigandi meðferð í því skyni að vinna bug á geðrofseinkennum og ranghugmyndum. Ákærði hefur í máli þessu verið fundinn sekur um alvarlegt brot sem almannahætta stafaði af og hafði brot hans í för með sér yfirgripsmikið eignatjón. Að öllu þessu virtu verður honum gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun samkvæmt 62. gr. almennra hegningarlaga. Áfrýjun dóms þessa skal ekki fresta framkvæmd öryggisgæslu, sbr. 5. mgr. 183. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008.

Ákærði Þorsteinn Sindri Elíasson

                Ákærði, Þorsteinn Sindri Elíasson, neitar sök í málinu. Hann hefur þó viðurkennt að hafa hvorki reynt að slökkva eldinn eða tilkynna um hann til lögreglu eða slökkviliðs né kannað hvort einhver væri inni í húsnæðinu áður en hann yfirgaf það. Ákærði hefur borið að hann hafi dvalið í herberginu í um 5 til 10 mínútur eftir að bróðir hans kveikti þar í og hafi mikill eldur verið þegar hann fór þaðan út. Þá hafi hann beðið nokkra stund eftir bróður sínum þegar út var komið. Af ljósmynd sem vitni tóku af brennandi húsinu og myndbandsupptöku úr nálægri öryggismyndavél sést að eldur logaði út um glugga herbergisins þegar ákærðu gengu brott af vettvangi. Í vitnisburði C verkfræðings við aðalmeðferð málsins kom fram að þegar slökkvilið kom á vettvang hafi eldurinn verið farinn að berast eftir þaki og um húsið. Ef tilkynning hefði borist þegar kveikt var í hefði verið meiri möguleiki á því að ráða niðurlögum eldsins áður en hann náði í þakið, þaðan sem hann barst áfram um húsið með tilheyrandi eignatjóni.

Samkvæmt framangreindu lét ákærði hjá líða að gera það sem í hans valdi stóð til þess að vara við eða afstýra eldsvoða, sem bróðir hans hafði valdið, og því eignatjóni sem af hlaust, jafnvel þótt hann hefði getað aðhafst án þess að stofna sér í hættu. Hefur hann gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru greinir og varðar brot hans við 169. gr. almennra hegningarlaga.

Gerð hefur verið grein fyrir matsgerð E geðlæknis um geðheilbrigði ákærða og niðurstöðu hennar. Í vitnisburði E fyrir dóminum kom fram að gögn málsins væru misvísandi um það hvort ákærði hefði haft geðrofseinkenni í umrætt sinn. Niðurstaða matsins hefði þó verið sú að jafnvel þótt slík einkenni hefðu verið til staðar hefðu þau ekki ráðið gerðum hans á þeim tíma. Það hefði fyrst og fremst verið samband þeirra bræðra sem gerði að verkum að ákærði aðhafðist ekki, auk þess sem hann hefði verið vankaður eftir amfetamínneyslu undanfarinna daga. Að mati dómsins samrýmist sú niðurstaða framburði ákærða við aðalmeðferð málsins, en hann gaf þær skýringar á athafnaleysi sínu að bróðir hans hefði bannað honum að gera viðvart um eldsvoðann og að hann hefði ekki viljað koma upp um verknað bróðurins. Með vísan til framangreinds verður talið að ákærði hafi verið sakhæfur í skilningi 15. gr. almennra hegningarlaga þegar brotið var framið. Þá er ekkert komið fram í málinu sem leiðir líkur að því að ástand hans hafi verið, eða síðar orðið, með þeim hætti sem greinir í 16. gr. sömu laga, eða að refsing geti ekki borið árangur gagnvart honum. Verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og dæmdur til refsingar fyrir brot sitt.

Ákærði er fæddur í júní 1979 og á hann að baki nokkurn sakaferil allt frá árinu 1995. Samkvæmt sakavottorði hefur honum margoft verið refsað fyrir hegningar-, umferðar- og fíkniefnalagabrot. Þann 11. desember 2013 var hann dæmdur til 19 mánaða fangelsisrefsingar fyrir ránstilraun, en eldri skilorðsdómur var þá jafnframt dæmdur upp. Þá var ákærði dæmdur 9. desember 2014 til tveggja mánaða fangelsisrefsingar fyrir þjófnaðar- og skjalabrot. Þann 16. febrúar síðastliðinn var honum veitt reynslulausn í tvö ár á eftirstöðvum 210 daga refsingar samkvæmt síðastgreindum dómum. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 16. mars síðastliðinn var honum gert að afplána eftirstöðvar reynslulausnarinnar. Ákærði er í máli þessu sakfelldur fyrir almannahættubrot og verður refsing ákveðin með hliðsjón af 2. og 3. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Við ákvörðun refsingar verður þó jafnframt litið til þess sem fram er komið um aðstæður ákærða og samskipti þeirra bræðra, sem samkvæmt gögnum málsins virðist hafa ráðið mestu um athafnaleysi hans í umrætt sinn. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði. Frá refsivist dregst gæsluvarðhald sem hann sætti frá 9. til 16. mars 2016.

Einkaréttarkrafa og sakarkostnaður

Af hálfu Tryggingamiðstöðvarinnar hf. er krafist skaðabóta úr hendi ákærðu að fjárhæð 12.596.852 krónur, auk vaxta. Um er að ræða endurkröfu á grundvelli 1. mgr. 22. gr. skaðabótalaga nr. 90/1993 vegna bóta að fjárhæð 8.815.193 krónur, sem greiddar hafa verið eiganda húseignarinnar, [...] ehf., og bóta að fjárhæð 1.874.869 krónur, sem greiddar hafa verið [...] sf., en félögin voru tryggð lögboðinni brunatryggingu hjá tryggingafélaginu. Þá lýtur endurkrafa að bótum að fjárhæð 1.906.790 krónur, sem greiddar voru úr heimatryggingu verkstæðiseigandans H. Í skaðabótakröfu er að finna nánari sundurliðun bótaþátta og er krafan studd viðhlítandi gögnum.

Dómurinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að ákærði X hafi verið ósakhæfur á verknaðarstundu. Verður hann því ekki talinn bera ábyrgð á því tjóni sem af íkveikjunni hlaust á grundvelli almennra skaðabótareglna. Samkvæmt því verður ákærði sýknaður af bótakröfu í málinu, sbr. 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008.

Ákærði Þorsteinn Sindri er hins vegar talinn sakhæfur. Ber hann því skaðabótaábyrgð á því tjóni sem af broti hans hlaust og hefur bótakrefjandi öðlast endurkröfurétt á hendur honum samkvæmt 1. mgr. 22. gr. laga nr. 50/1993. Verður ákærði dæmdur til greiðslu bótakröfu eins og hún er fram sett, auk vaxta og málskostnaðar, sem í dómsorði greinir.

Með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008, verður ákærði Þorsteinn Sindri dæmdur til að greiða málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Arnar Hilmarssonar hdl., 894.846 krónur, og þóknun verjanda síns á rannsóknarstigi málsins, Lilju Margrétar Olsen hdl., 997.580 krónur. Þá verður ákærða gert að greiða helming sakarkostnaðar samkvæmt yfirliti héraðssaksóknara, sem liggur fyrir í málinu, 776.084 krónur. Með vísan til 2. mgr. sömu lagagreinar greiðist sakarkostnaður ákærða X úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 720.440 krónur. Við ákvörðun þóknunar lögmanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Matthea Oddsdóttir saksóknarfulltrúi.

Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

                Ákærði, X, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins. Ákærði skal sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun samkvæmt 62. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og frestar áfrýjun dómsins ekki framkvæmd hennar.

                Ákærði, Þorsteinn Sindri Elíasson, sæti fangelsi í sex mánuði. Gæsluvarðhald ákærða frá 9. til 16. mars 2016 kemur til frádráttar refsingu.

Ákærði X er sýkn af kröfum Tryggingamiðstöðvarinnar hf.

Ákærði Þorsteinn Sindri greiði Tryggingamiðstöðinni hf. 12.596.852 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 7. mars 2016 til 23. júlí 2016, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags, og 200.000 krónur í málskostnað.

Sakarkostnaður ákærða X greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 720.440 krónur.

                Ákærði Þorsteinn Sindri greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Arnar Hilmarssonar hdl., 894.846 krónur, þóknun verjanda síns á rannsóknarstigi málsins, Lilju Margrétar Olsen hdl., 997.580 krónur, og 776.084 krónur í annan sakarkostnað.