Print

Mál nr. 29/2019

ALC A321 7237 LLC (Eva B. Helgadóttir lögmaður)
gegn
Isavia ohf. (Hlynur Halldórsson lögmaður)
Lykilorð
 • Kærumál
 • Aðfarargerð
 • Kröfugerð
 • Úrskurður
 • Ómerking úrskurðar Landsréttar
Reifun

Kærður var úrskurður Landsréttar en með honum var staðfestur úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu ALC um að því yrði heimilað að fá tilgreint loftfar tekið með beinni aðfarargerð úr vörslum I ohf. og afhent sér. I ohf. hafði fyrir Landsrétti krafist þess að úrskurður héraðsdóms yrði staðfestur um annað en málskostnað en ALC hafði aðallega krafist þess að málinu yrði vísað þaðan frá dómi og til vara staðfestingar úrskurðarins. Í hinum kærða úrskurði hafnaði Landsréttur aðalkröfu ALC en tók að því búnu til endurskoðunar forsendur úrskurðar héraðsdóms sem var svo staðfestur að niðurstöðu til. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ef ALC hefði jafnframt kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti til Landsréttar og krafist þess að breytt yrði niðurstöðu hans hefði orðið að taka úrlausn héraðsdóms um einstakar málsástæður aðilanna til endurskoðunar eftir þeirri meginreglu sem fælist í 1. mgr. 98. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að samþykki málsaðili dómkröfur sem gagnaðili beinir að honum verði ekki í dómsúrlausn tekin afstaða til málsástæðna að baki viðkomandi kröfu eða hluta hennar heldur verði niðurstaða reist á samþykki einu og sér. Í skilningi fyrrefnds ákvæðis fólst í varakröfu ALC fyrir Landsrétti samþykki á þeim þætti í dómkröfum I ohf. sem laut að staðfestingu úrskurðar héraðsdóms um að synja ALC um heimild til aðfaragerðar. Hefði því Landsrétti borið að verða við kröfu I ohf. og staðfesta niðurstöðu úrskurðarins um þetta atriði án þess að taka á nokkurn hátt afstöðu til röksemda fyrir henni og leysa einvörðungu úr ágreiningi aðilanna um málskostnað. Var því talið að með hinum kærða úrskurði hefði í verulegum atriðum verið vikið frá réttri meðferð málsins og því óhjákvæmilegt án kröfu að ómerkja úrskurðinn og vísa málinu á ný til Landsréttar til löglegrar meðferðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason, Helgi I. Jónsson, Karl Axelsson og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. maí 2019, en kærumálsgögn bárust réttinum 6. júní sama ár. Kæruleyfi var veitt 19. júní 2019 á grundvelli 5. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kærður er úrskurður Landsréttar 24. maí 2019, en með honum var staðfestur úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. sama mánaðar, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að honum yrði heimilað að fá loftfar af gerðinni Airbus A321-211 með skráningarauðkenninu TF-GPA tekið með beinni aðfarargerð úr vörslum varnaraðila og afhent sér. Sóknaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Landsrétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur um annað en málskostnað. Í báðum tilvikum krefst sóknaraðili málskostnaðar fyrir Landsrétti og Hæstarétti.

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Í báðum tilvikum krefst hann kærumálskostnaðar.

I

1

WOW air hf. mun hafa verið stofnað í september 2011 og upphaflega verið einkahlutafélag en breytt á síðari stigum í hlutafélag. Starfaði það við farþegaflutninga í flugi og tók í því skyni meðal annars á leigu loftför, sem munu hafa verið tuttugu talsins þegar mest var. Samkvæmt gögnum málsins er sóknaraðili, sem hefur aðsetur í Delaware í Bandaríkjum Norður-Ameríku, dótturfélag Air Lease Corporation, en samstæða þess félags mun leigja út um 370 farþegaflugvélar og vera skipulögð með þeim hætti að sjálfstætt dótturfélag sé rekið um eignarhald að hverju loftfari og útleigu þess.

Sóknaraðili gerði 21. apríl 2016 samning við WOW air ehf. um leigu á farþegaþotu af gerðinni Airbus A321 til átta ára og fékk sóknaraðili afsal fyrir henni frá framleiðanda 5. ágúst sama ár. Farþegaþotan virðist í framhaldi af því hafa verið afhent WOW air ehf. og skráð í loftfaraskrá samgöngustofu, sbr. 9. gr. laga nr. 60/1998 um loftferðir, með auðkenninu TF-GPA. Þar kom fram að sóknaraðili væri eigandi loftfarsins og WOW air ehf. umráðandi þess.

Fyrir liggur að í lok febrúar 2019 hafi WOW air hf. staðið í skuld við varnaraðila að fjárhæð 1.953.625.714 krónur vegna svonefndra notendagjalda í tengslum við starfsemi félagsins á Keflavíkurflugvelli, sbr. 71. gr. laga nr. 60/1998, en svo virðist sem þau gjöld hafi safnast upp með vanskilum allt frá júní 2018. Um þær mundir mun WOW air hf. hafa haft fimmtán farþegaþotur á leigu, þar af sjö frá samstæðu Air Lease Corporation, og virðist fyrrnefnda félagið hafa þá skuldað samstæðunni samtals 16.640.156,30 bandaríkjadali vegna ógreiddrar leigu og notkunar á varahlutum á tímabilinu frá október 2018 til mars 2019.

Air Lease Corporation sendi WOW air hf. tölvubréf 27. mars 2019, þar sem lýst var yfir að fyrrnefnda félagið teldi það síðarnefnda hafa vanefnt skyldur sínar samkvæmt sjö leigusamningum um farþegaþotur, sem gerðir hafi verið í apríl og maí 2016. Þessu fylgdi sóknaraðili síðan eftir með bréfi til WOW air hf. 28. mars 2019, þar sem lýst var yfir riftun á samningi þeirra frá 21. apríl 2016 um leigu á loftfarinu með auðkenninu TF-GPA vegna vanskila á leigugjaldi, samtals 1.505.688,06 bandaríkjadölum, og greiðslum fyrir varahluti að fjárhæð alls 679.823,16 bandaríkjadalir. Með tölvubréfi, sem varnaraðili sendi forstjóra WOW air hf. aðfaranótt 28. mars 2019, var tilkynnt að varnaraðili hafi ákveðið að neyta heimildar samkvæmt 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998 til að aftra för loftfarsins TF-GPA þar til áðurgreind skuld félagsins vegna notendagjalda yrði greidd eða trygging sett fyrir henni. Að morgni sama dags mun WOW air hf. hafa tilkynnt samgöngustofu að félagið afsalaði sér flugrekstrarleyfi, sem því hafði verið veitt eftir ákvæðum IX. kafla laga nr. 60/1998. Í framhaldi af því var félagið samkvæmt kröfu stjórnar þess tekið til gjaldþrotaskipta eftir hádegi sama dag. Eftir að það hafði verið gert sendi varnaraðili tilkynningu til sóknaraðila um ákvörðun sína um að aftra för loftfarsins TF-GPA þar til heildarskuld WOW air hf. vegna notendagjalda af öllum farþegaþotum á vegum félagsins yrði greidd eða trygging sett fyrir henni. Samkvæmt gögnum málsins hefur varnaraðili haldið vörslum loftfarsins á Keflavíkurflugvelli allar götur frá því að hann sendi framangreindar tilkynningar.

2

Sóknaraðili krafðist þess fyrir Héraðsdómi Reykjaness 17. apríl 2019 að sér yrði heimilað að fá loftfarið með auðkenninu TF-GPA tekið úr vörslum varnaraðila með beinni aðfarargerð og fengið sér. Krafa þessi var tekin fyrir í þinghaldi 23. sama mánaðar og andmælti varnaraðili því að hún næði fram að ganga. Með úrskurði 2. maí 2019 hafnaði héraðsdómur kröfu sóknaraðila, en kvað svo á að hvor aðili skyldi bera sinn kostnað af málinu. Sá úrskurður var reistur á þeim forsendum að varnaraðila væri heimilt á grundvelli 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998 að aftra för loftfarsins og halda þannig vörslum þess svo lengi sem notendagjöld til hans, sem tengdust gagngert þessu tiltekna loftfari, hefðu ekki verið greidd eða trygging sett fyrir þeim. Á hinn bóginn var þar hafnað málsástæðum varnaraðila, sem lutu að því að hann nyti heimildar samkvæmt áðurnefndu lagaákvæði til að aftra för loftfarsins þar til gerð yrðu skil á heildarskuld WOW air hf. vegna notendagjalda og þá án tillits til þess hvaða loftförum gjöldin tengdust í einstökum atriðum.

Með bréfi 3. maí 2019 krafðist sóknaraðili þess að varnaraðili veitti sér upplýsingar um fjárhæð notendagjalda, sem tengdust fyrrnefndu loftfari og greiða bæri samkvæmt forsendum úrskurðar héraðsdóms „til að leysa TF-GPA úr haldi“. Var tekið fram í bréfinu að samkvæmt útreikningi sóknaraðila, sem styddist við gögn málsins, næmu þessi gjöld 55.457.390 krónum og 229.029 evrum og myndi hann ganga út frá því að sá útreikningur væri réttur ef varnaraðili kæmi ekki öðru á framfæri fyrir lok sama dags. Varnaraðili tók ekki afstöðu til útreikningsins. Lagði sóknaraðili þessar fjárhæðir inn á bankareikninga hans 6. maí 2019 og krafðist þess að fá loftfarið afhent.

3

Varnaraðili kærði framangreindan úrskurð til Landsréttar 3. maí 2019 og krafðist þess að hann yrði staðfestur um annað en málskostnað, sem sóknaraðila yrði gert að greiða sér í héraði og fyrir Landsrétti. Í kæru sinni tók varnaraðili fram að þótt fallist hafi verið í úrskurði héraðsdóms á kröfu hans, sem lyti að heimild til beinnar aðfarargerðar, hafi komið fram „röksemdir og ályktanir í forsendum“ úrskurðarins, sem varnaraðili teldi „ótækt að standi óhaggaðar.“ Af þessum sökum krefðist hann fyrir Landsrétti „staðfestingar á úrskurðarorði hins kærða úrskurðar hvað hina beinu aðfarargerð varðar, en með breyttum forsendum.“ Að auki krefðist hann breytingar á niðurstöðu úrskurðarins um málskostnað.

Fyrir Landsrétti krafðist sóknaraðili þess aðallega að málinu yrði vísað þaðan frá dómi, en til vara að úrskurður héraðsdóms yrði staðfestur. Þá krafðist hann kærumálskostnaðar.

Í hinum kærða úrskurði hafnaði Landsréttur aðalkröfu sóknaraðila, en tók að því búnu til endurskoðunar forsendur úrskurðar héraðsdóms. Taldi Landsréttur að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að varnaraðila hafi verið óheimilt að neyta ákvæðis 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998 til að aftra för loftfarsins með auðkenninu TF-GPA vegna ógreiddra notendagjalda, sem WOW air hf. hafi stofnað til vegna hvers kyns starfsemi félagsins á Keflavíkurflugvelli, þar á meðal þjónustu við loftför í eigu annarra en sóknaraðila. Var niðurstaða úrskurðar héraðsdóms því staðfest um annað en málskostnað, en sóknaraðili var dæmdur til að greiða varnaraðila samtals 2.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti.

II

Sóknaraðili hefur lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um fyrrgreindar kröfur sínar fyrir Hæstarétti og eru þannig engin efni til að verða við aðalkröfu varnaraðila um að málinu verði vísað héðan frá dómi.

Samkvæmt 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989, sbr. 4. mgr. 150. gr. og 3. mgr. 151. gr. laga nr. 91/1991, var varnaraðila heimilt að kæra úrskurð héraðsdóms til Landsréttar og krefjast þess að úrskurðurinn yrði staðfestur um annað en málskostnað, sem sér yrði dæmdur úr hendi sóknaraðila, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar 16. nóvember 2000 í máli nr. 223/2000 og 21. júní 2018 í máli nr. 615/2017, enda svara hagsmunir í máli þessu bersýnilega til hærri fjárhæðar en nemur áfrýjunarfjárhæð samkvæmt 1. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991. Var því ekki ástæða til að vísa málinu frá Landsrétti, svo sem sóknaraðili gerði þar kröfu um og krefst einnig hér fyrir dómi. Hefði sóknaraðili jafnframt kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti til Landsréttar og krafist þess að breytt yrði niðurstöðu úrskurðarins um að hafna kröfu hans um heimild til aðfarargerðar hefði orðið að taka úrlausn héraðsdóms um einstakar málsástæður aðilanna til endurskoðunar eftir því, sem dómkröfur þeirra hefðu gefið tilefni til, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar 23. mars 1999 í máli nr. 94/1999 og 29. ágúst 2013 í máli nr. 387/2013. Í máli þessu stóð á hinn bóginn ekki þannig á, enda kærði sóknaraðili ekki úrskurðinn, heldur krafðist hann þess að úrskurðurinn yrði staðfestur ef Landsréttur yrði ekki við aðalkröfu hans um að málinu yrði vísað þaðan frá dómi.

Eins og mál þetta lá fyrir Landsrétti bar af framangreindum ástæðum að gæta að þeirri meginreglu, sem felst í 1. mgr. 98. gr. laga nr. 91/1991, en þar kemur fram að sæki stefndi þing í héraði og samþykki hann kröfu stefnanda í einu og öllu skuli leggja dóm á mál þeirra í samræmi við þá afstöðu stefnda. Af reglu þessari, sem gildir við meðferð máls fyrir Landsrétti samkvæmt 166. gr. sömu laga og tekið getur hvort heldur til dómkröfu aðila í heild eða eingöngu afmarkaðs hluta af henni sem gagnaðili hans samþykkir, leiðir að í dómsúrlausn verður ekki tekin afstaða til málsástæðna að baki viðkomandi kröfu eða hluta hennar, enda hafi aðilarnir forræði á sakarefninu, heldur verður niðurstaða reist á samþykkinu einu og sér. Gildir þá einu hvort aðili lýsi sig sammála málsástæðum gagnaðila síns eða samþykki kröfu hans af allt öðrum sökum en þeim, sem gagnaðilinn hefur byggt á með málsástæðum sínum. Í skilningi 1. mgr. 98. gr. laga nr. 91/1991 fólst í varakröfu sóknaraðila fyrir Landsrétti samþykki á þeim þætti í dómkröfum varnaraðila, sem laut að staðfestingu niðurstöðu héraðsdóms um að synja sóknaraðila um heimild til aðfarargerðar. Samkvæmt framansögðu bar Landsrétti þegar af þessari ástæðu að verða við kröfu varnaraðila og staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um þetta atriði án þess að taka á nokkurn hátt afstöðu til röksemda hans fyrir henni og leysa síðan einvörðungu úr ágreiningi aðilanna um málskostnað í héraði. Í þeirri úrlausn hefði engu getað breytt hvort röksemdir fyrir niðurstöðu héraðsdóms um önnur atriði kynnu í einhverju að hafa þótt ekki geta staðist.

Af framangreindu leiðir að með hinum kærða úrskurði var í verulegum atriðum vikið frá réttri meðferð málsins. Er því óhjákvæmilegt án kröfu að ómerkja úrskurðinn og vísa málinu á ný til Landsréttar til löglegrar meðferðar. Verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er ómerktur og er málinu vísað á ný til Landsréttar til löglegrar meðferðar.

Varnaraðili, Isavia ohf., greiði sóknaraðila, ALC A321 7237 LLC, 1.000.000 krónur í kærumálskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Úrskurður Landsréttar 24. maí 2019.

Landsréttardómararnir Aðalsteinn E. Jónasson, Kristbjörg Stephensen og Sigurður Tómas Magnússon kveða upp úrskurð í máli þessu.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

     Sóknaraðili skaut málinu til Landsréttar með kæru 3. maí 2019 en kærumálsgögn bárust réttinum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. maí 2019, í málinu nr. A-53/2019, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að nánar tilgreind farþegaþota yrði tekin með beinni aðfarargerð úr vörslum sóknaraðila og afhent varnaraðila. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.

     Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar um annað en málskostnað og að varnaraðila verði gert að greiða sér málskostnað í héraði. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

     Varnaraðili krefst aðallega frávísunar frá Landsrétti en til vara staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Niðurstaða

Frávísunarkrafa varnaraðila

     Í 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 er mælt fyrir um heimild manns til að beina til héraðsdómara beiðni um að skyldu þess efnis, sem mælt er fyrir um í 72. og 73. gr. laganna, verði fullnægt með aðfarargerð þótt aðfararheimild samkvæmt 1. gr. laganna liggi ekki fyrir. Ef lög leiða ekki til þess að slíkri beiðni um útburð eða innsetningu verði þegar vísað á bug skal, samkvæmt 2. mgr. 78. gr. laganna, fara með beiðnina samkvæmt þeim reglum sem mælt er fyrir um í 13. kafla laganna. Í 4. mgr. 84. gr. laganna, sem er að finna í umræddum 13. kafla, er mælt fyrir um að úrskurðir héraðsdómara samkvæmt kaflanum sæti kæru til Landsréttar. Hinn kærði úrskurður felur í sér lokaákvörðun um innsetningarbeiðni gerðarbeiðanda en um slíka úrskurði segir í 3. málslið 4. mgr. 84. gr. að þeir verði ekki kærðir nema fullnægt sé almennum skilyrðum til áfrýjunar dómi í einkamáli.

     Samkvæmt framansögðu fer um heimild til að fá úrskurðinn endurskoðaðan fyrir Landsrétti með kæru eftir 151. og 152. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þegar litið er til þeirra hagsmuna sem innsetningarbeiðnin varðar er ótvírætt að þeir svara til lágmarks áfrýjunarfjárhæðar samkvæmt 1., sbr. 3. mgr. 152. gr. laganna.

     Með úrskurðarorðum hins kærða úrskurðar var fallist á dómkröfu sóknaraðila um að aðfararbeiðni varnaraðila yrði hafnað. Samkvæmt forsendum hins kærða úrskurðar féllst héraðsdómari þó á málatilbúnað varnaraðila að stærstum hluta. Héraðsdómari féllst ekki á kröfu sóknaraðila um málskostnað og var hann felldur niður. Sóknaraðili er ósammála forsendum hins kærða úrskurðar þótt hann krefjist staðfestingar á niðurstöðu hans um annað en málskostnað. Dómkröfur sóknaraðila fyrir Landsrétti lúta þannig að því að staðfest verði efnisleg niðurstaða hins kærða úrskurðar um að synja beiðni varnaraðila um innsetningu en að úrskurðinum verði breytt hvað varðar niðurstöðu um málskostnað.

     Samkvæmt 3. mgr. 151. gr. laga nr. 91/1991 má meðal annars áfrýja dómi í því skyni að honum verði breytt að efni til eða hann staðfestur, sbr. til dæmis dóma Hæstaréttar 16. nóvember 2000 í máli nr. 223/2000 og 21. júní 2018 í máli nr. 615/2017. Þar sem sömu skilyrði eru samkvæmt framansögðu sett fyrir kæru á lokaákvörðun um ágreiningsefni sem mál er rekið um samkvæmt 13. kafla laga nr. 90/1989 og fyrir áfrýjun dóms og með vísan til þess hvernig umræddu ákvæði laga nr. 91/1991 hefur verið beitt af Hæstarétti í sambærilegum kærumálum, sbr. dóm réttarins 23. mars 1999  í máli nr.  94/1999 og 29. ágúst 2013 í máli nr. 387/2013, verður ekki fallist á kröfu varnaraðila um að málinu verði vísað frá Landsrétti.

     Þótt dómkrafa sóknaraðila lúti að því að fá úrskurðinn staðfestan og varnaraðili fallist á þá kröfu verður með hliðsjón af málatilbúnaði sóknaraðila, sem héraðsdómari féllst aðeins á að litlu leyti, að fallast á með sóknaraðila að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að fá úrskurð héraðsdóms endurskoðaðan í heild sinni og þar með þær forsendur sem byggt var á í úrskurðinum og aðila greinir enn á um.

Aðfararbeiðni varnaraðila

     Í máli þessu reynir á hvort fullnægt sé skilyrðum 78. gr. laga nr. 90/1989 til þess að skylda sóknaraðila til að veita varnaraðila umráð flugvélarinnar TF-GPA þótt aðfararheimild til slíks, sbr. 73. gr. laganna, liggi ekki fyrir. Í 78. gr. er það gert að skilyrði fyrir því að bein aðfarargerð verði heimiluð að réttindi gerðarbeiðanda séu svo ljós að sönnur verði færðar fyrir þeim með gögnum sem aflað verður samkvæmt 83. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 83. gr. takmarkast sönnunarfærsla í máli sem hér um ræðir við aðilaskýrslur og sýnileg sönnunargögn, önnur en mats- og skoðunargerðir. Þá segir í 3. mgr. greinarinnar að aðfararbeiðni skuli að jafnaði hafnað ef varhugavert verður talið að gerðin nái fram að ganga á grundvelli þeirra sönnunargagna, sem heimilt er að afla samkvæmt framansögðu. 

     Óumdeilt er að sóknaraðili rekur Keflavíkurflugvöll sem er alþjóðlegur flugvöllur. Sóknaraðili fer nú með rekstur flugvallarins á grundvelli laga nr. 76/2008 um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl. Sóknaraðili hefur því heimild samkvæmt 1. og 2. mgr. 71. gr. laga nr. 60/1998 um loftferðir til þess að innheimta gjöld meðal annars til að standa undir rekstri flugvallarins og fyrir þeirri aðstöðu, búnaði og mannvirkjum, sem starfsemi tengd flugsamgöngum nýtir á flugvellinum. Samkvæmt 3. mgr. greinarinnar skal gjaldskrá birt með tryggum hætti þar sem meðal annars er kveðið nánar á um fjárhæð gjalds, sundurliðun þess ef við á og innheimtu.  Í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 76/2008 segir að stjórn sóknaraðila skuli setja þjónustugjaldskrá fyrir félagið og samkvæmt 2. mgr. greinarinnar skal sóknaraðili auglýsa gjaldskrár sínar og efnislegar breytingar á heimasíðu sinni. Sóknaraðili heldur því fram að gjaldtaka hans hafi verið byggð á gjaldskrá sem birt hafi verið á heimasíðu flugvallarins í samræmi við framangreind lagaákvæði.

     WOW air hf. var úrskurðað gjaldþrota 28. mars 2019. Félagið var handhafi flugrekstrarleyfis sem gefið var út af Samgöngustofu. Óumdeilt er að varnaraðili er eigandi loftfarsins TF-GPA sem er farþegaþota af gerðinni Airbus A321-211. Þá er óumdeilt að WOW air hf. hafði umráð loftfarsins á grundvelli leigusamnings 21. apríl 2016 við varnaraðila. Leigusamningurinn var til átta ára frá afhendingu flugvélarinnar en hún var afhent flugfélaginu 5. ágúst 2016. Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. og d-lið 2. mgr. 14. gr. laga nr. 60/1998 er heimilt að skrá hér á landi loftfar sem íslenskum flugrekanda er heimilt að nota í rekstri sínum ef það er í eigu einstaklinga eða lögaðila með ríkisfang og heimilisfesti í ríki sem Ísland hefur samið við vegna þess og skal þá skráð hver umráðandi er ef hann er annar en eigandi. WOW air hf. var skráður umráðandi loftfarsins TF-GPA í loftfaraskrá Samgöngustofu. Við gjaldþrot WOW air hf. hafði félagið umráð 15 flugvéla og er ágreiningslaust að sjö þeirra voru í eigu dótturfélaga móðurfélags varnaraðila, Air Lease Corporation. Óumdeilt er að þetta móðurfélag varnaraðila hafði þann háttinn á að stofna sérstakt félag með takmarkaðri ábyrgð um eignarhald hverrar flugvélar sem félagið átti og leigði WOW air hf.

     Samkvæmt gögnum málsins stóð WOW air hf. ekki í skilum með notendagjöld og greiðslur vegna annarrar þjónustu sem félagið naut af hálfu sóknaraðila á Keflavíkurflugvelli og höfðu þessi vanskil staðið yfir allt frá árinu 2017. WOW air hf. samþykkti greiðsluáætlun 21. nóvember 2018 um mánaðarlegar greiðslur vanskila vegna ógreiddra notendagjalda sem stofnast höfðu vegna þjónustu sóknaraðila við loftför sem notuð voru í starfsemi WOW air hf. á Keflavíkurflugvelli allt frá júní 2018. Áttu greiðslur vanskilanna að standa yfir fram í nóvember 2019. Samkvæmt gögnum sem sóknaraðili hefur lagt fram voru vanskil WOW air hf. við hann við gjaldþrot félagsins nærri tveir milljarðar króna.

     Samkvæmt gögnum sem sóknaraðili aflaði hjá WOW air hf. var félagið við gjaldþrot þess einnig í miklum vanskilum við félög í eigu móðurfélags varnaraðila vegna ógreiddra leigugreiðslna allt frá október 2018, meðal annars vegna flugvélarinnar TF-GPA.

     Samkvæmt gögnum málsins sendi sóknaraðili forstjóra WOW air hf. tilkynningu 28. mars 2019 þar sem fram kom að þar sem ekki hefði verið staðið við samkomulag um greiðslu notendagjalda, greiðsla hefði ekki borist vegna þeirra og ekki verið samið um greiðslu þeirra eða annarra ógreiddra gjalda eða trygging sett fyrir skilvísri greiðslu hefði sóknaraðili, í samræmi við heimild í 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998, ákveðið að aftra frekari för loftfarsins TF-GPA, sem væri í rekstri flugfélagins, þar til skuldin hefði verið greidd eða fullnægjandi trygging sett fyrir greiðslu hennar. Í tilkynningunni kom fram að hin ógreiddu notendagjöld næmu 1.953.625.714 krónum og var vísað til meðfylgjandi yfirlits. Samkvæmt gögnum málsins var tilkynningin send forstjóra WOW air hf. sem viðhengi með tölvupósti sem honum var sendur 28. mars 2019 klukkan 1.49. Forstjórinn staðfesti móttöku tilkynningarinnar með tölvupósti sama dag klukkan 2.31.

     Samkvæmt gögnum málsins rifti varnaraðili og móðurfélag hans samningi við WOW air hf. um leigu á flugvélinni TF-GPA 28. mars 2019. Vanskil á leigu voru þá talin vera 1.505.688,06 bandaríkjadalir og á varasjóðum 679.823,16 bandaríkjadalir. Deginum áður hafði móðurfélagið sent WOW air hf. tilkynningu um vanefndir á leigusamningum um flugvélina TF-GPA og sex aðrar flugvélar.

     Óumdeilt er að WOW air hf. skilaði inn flugrekstrarleyfi að morgni 28. mars 2019 og að félagið var úrskurðað gjaldþrota um klukkan 13.30 sama dag.

     Sóknaraðili sendi varnaraðila tilkynningu síðar sama dag um að beitt hefði verið umræddri heimild í 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998 til að stöðva flugvélina TF-GPA. Óumdeilt er að sóknaraðili hefur nú vörslur flugvélarinnar og byggir ætlaða heimild sína til að stöðva för hennar á síðastnefndu lagaákvæði.

     Ekki er ágreiningur með aðilum um að atvik hafi átt sér stað í framangreindri tímaröð 28. mars 2019. Samkvæmt því hafi beiting þeirrar greiðsluþvingunar, sem 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998 felur í sér, komið til framkvæmda áður en bú WOW air hf. var tekið til gjaldþrotaskipta, félagið skilaði inn flugrekstrarleyfi og varnaraðili rifti leigusamningi um flugvélina TF-GPA. Augljóst er að slík greiðsluþvingun gæti ekki náð tilgangi sínum ef hún félli niður við riftun leigusamnings eða gjaldþrot flugfélags. Líta verður svo á að greiðsluþvingunin, sem sóknaraðili beitti og tilkynnti umráðanda flugvélarinnar TF-GPA upp úr miðnætti 28. mars 2019, hafi haldið gildi sínu þrátt fyrir þá atburði sem gerðust síðar sama dag á sama hátt og haldsréttur og önnur tryggingarúrræði hefðu gert.

     Í aðfararmáli þessu reynir á hvort varnaraðili hafi gert nægilega ljóst að réttur hans sem eiganda flugvélarinnar til umráða yfir henni gangi svo skýrlega framar rétti sóknaraðila til að aftra för flugvélarinnar að ekki sé varhugavert að fallast á að hún verði tekin úr vörslum sóknaraðila og fengin varnaraðila í hendur þótt aðfararheimild liggi ekki fyrir.

     Við mat á því hvort gerðin á að ná fram að ganga reynir á túlkun á þeirri heimild sem sóknaraðila, sem rekstraraðila flugvallar hefur verið veitt, samkvæmt 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998, til að aftra för loftfars af flugvelli en fyrri málsliður ákvæðisins er nú svohljóðandi: „Samgöngustofu og þeim sem starfrækir flugvöll eða flugleiðsöguþjónustu er heimilt að aftra för loftfars af flugvelli uns gjöld eru greidd eða trygging sett fyrir greiðslu vegna þess loftfars sem í hlut á eða annarrar starfsemi hlutaðeigandi eiganda eða umráðanda loftfarsins.“

     Við setningu laga nr. 60/1998 var 1. mgr. 136. gr. laganna svohljóðandi: „Flugmálastjórn er heimilt að aftra för loftfars af flugvelli uns gjöld eru greidd eða trygging sett fyrir greiðslu vegna þess loftfars sem í hlut á eða annarrar starfsemi flugrekandans.“

     Með lögum nr. 21/2002 voru gerðar breytingar á síðastnefndu ákvæði sem eftir breytingarnar hljóðaði þannig: „Flugmálastjórn Íslands er heimilt að aftra för loftfars af flugvelli uns gjöld eru greidd eða trygging sett fyrir greiðslu vegna þess loftfars sem í hlut á eða annarrar starfsemi hlutaðeigandi eiganda eða umráðanda loftfarsins.“  Í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð með frumvarpi sem varð að þeim lögum segir meðal annars: „Ákvæði núgildandi 136. gr. loftferðalaga lúta að tvennu, annars vegar þeirri heimild til greiðsluþvingunar sem felst í því að meina brottflug loftfari flugrekanda sem skuldar Flugmálastjórn Íslands gjöld, sem starfsemi hans varða, […] Eins og greiðsluþvingunarheimildin er orðuð í lögunum í dag er hún bundin flugrekendum en með frumvarpinu er lagt til að hún verði útvíkkuð til allra eigenda eða umráðenda loftfara.“

     Með 18. gr. laga nr. 102/2006 og 12. gr. laga nr. 59/2013 var Samgöngustofu og þeim sem starfrækir flugvöll eða flugleiðsöguþjónustu veitt sú heimild sem Flugmálastjórn Íslands hafði áður.

     Af orðalagi 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998 og framangreindum lögskýringargögnum leiðir að í heimild til að aftra för loftfars felst lögheimiluð greiðsluþvingun sem beitt verður uns gjöld eru greidd vegna þess loftfars sem aftrað er farar eða annarrar starfsemi hlutaðeigandi eiganda eða umráðanda loftfarsins, þar á meðal gjalda sem eru til komin vegna annars loftfars í umráðum sama umráðanda en í eigu annars eiganda, eða trygging sett fyrir greiðslu þessara gjalda. Ákvæðinu er þannig berum orðum ætlað að þvinga eiganda eða umráðanda loftfarsins til þess að greiða hvers kyns gjöld fyrir þjónustu sem eigandi eða umráðandi hefur þegið af þeim sem starfrækir flugvöll eða flugleiðsöguþjónustu. Ekki er að finna í ákvæðinu neinar takmarkanir á umfangi þeirra gjalda sem heimilt er að þvinga fram greiðslur á með því að aftra för loftfars eða hversu lengi vanskil mega hafa staðið. Þá verður ekki ráðið af ákvæðinu að samningar við umráðanda loftfars um greiðslufrest á vangreiddum gjöldum geti komið í veg fyrir beitingu greiðsluþvingunar gagnvart eiganda.

     Fallist er á með varnaraðila að beiting ákvæðisins með þeim hætti sem sóknaraðili hefur beitt því sé verulega íþyngjandi fyrir hann sem eiganda loftfars. Varnaraðili hefur meðal annars haldið því fram að ákvæðið, eins og sóknaraðili hafi beitt því gagnvart honum, brjóti gegn stjórnarskrárvörðum eignarréttindum hans samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar.

     Í löggjöf er að finna ýmsar heimildir til handa kröfuhöfum til að beita tryggingar- og þvingunarúrræðum, einhliða eða á grundvelli samnings, til þess að tryggja eða knýja á um greiðslu lögmætra krafna og geta þessi úrræði beinst að eigum þriðja manns. Á slík tryggingar- og þvingunarúrræði, lögmæti þeirra og innbyrðis forgang, reynir meðal annars í kapphlaupi kröfuhafa við að tryggja hagsmuni sína þegar þeir horfa fram á gjaldþrot skuldara.

     Eins og sóknaraðili hefur bent á er það forsenda starfsemi og tekjuöflunar varnaraðila og móðurfélags hans, sem eiga flugvélar og leigja þær út, að flugvélarnar geti lent á flugvöllum og fengið þar þjónustu. Þjónusta sóknaraðila við WOW air hf. var þannig jafnframt innt af hendi í þágu þeirrar starfsemi sem varnaraðili og móðurfélag hans reka.

     Sóknaraðila er, sem rekstraraðila alþjóðaflugvallar sem er opinn almenningi, skylt samkvæmt 15. gr. Chicago-sáttmálans um alþjóðlegt flug (Convention on International Civil Aviation), sem undirritaður var 7. desember 1944 og varð skuldbindandi fyrir Ísland 20. apríl 1947, að hafa flugvöllinn opinn öllum loftförum aðildarríkja sáttmálans. Sóknaraðili er þannig undir þeirri kvöð að taka við loftförum, heimila þeim afnot af búnaði, aðstöðu og mannvirkjum flugvallarins og veita þeim þjónustu óháð eignarhaldi og umráðum.

     Til þess að sóknaraðili geti rækt framangreinda skyldu er honum nauðsynlegt að innheimta gjöld fyrir þjónustu sína. Innheimta slíkra gjalda getur verið vandkvæðum háð ekki síst hjá flugrekstraraðilum, erlendum jafnt sem innlendum, sem ekki eru eigendur loftfara sem þeir starfrækja. Eins og sóknaraðili hefur bent á væri heimild 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998 til að aftra loftfari för gagnslítil ef hún tæki aðeins til gjalda sem tengdust því loftfari enda þyrfti sóknaraðili þá að aftra för allra loftfara í flugflota viðkomandi flugfélags, sem nýta þjónustu sóknaraðila, til þess að tryggja hagsmuni sína vegna vanskila á greiðslu gjalda. Það væri til þess fallið að gera út af við starfsemi viðkomandi flugfélags og valda félaginu, öllum þeim sem leigt hefðu því flugvélar og fjölmörgum öðrum víðtæku og ef til vill ótímabæru tjóni. Heimildin í 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998 er þannig til þess fallin að takmarka tjón sem gæti leitt af ótímabærri rekstrarstöðvun flugfélaga.

     Þótt beiting sóknaraðila á greiðsluþvingunarúrræði 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998 gagnvart varnaraðila komi vissulega harkalega niður á honum er til þess að líta að ákvæðið hefur verið í gildi í núverandi mynd frá því áður en varnaraðili leigði WOW air hf. flugvélina TF-GPA. Eins og sóknaraðili hefur bent á má af ákvæðum leigusamnings varnaraðila og WOW air hf. um flugvélina TF-GPA 21. apríl 2016, ráða að varnaraðili hafi beinlínis gert ráð fyrir því að til kyrrsetningar á flugvélinni gæti komið til tryggingar greiðslu ógreiddra gjalda vegna annarra flugvéla. Þannig er í íslenskri þýðingu á grein 15.10.1, í þeim kafla samningsins sem fjallar um þóknanir og gjöld vegna flugleiðsögu og flugvallar svo og önnur gjöld, kveðið á um að leigutaki skuli án tafar greiða eða láta greiða, innan tímabils sem leigutaki og opinber aðili eða viðkomandi flugumferðarstjórnar-, flugvallar- eða flugleiðsöguyfirvöld koma sér saman um, meðal annars öll flugvallargjöld sem lögð hafa verið á „sem tengjast loftfarinu eða öðrum loftförum sem leigutaki rekur“. Jafnframt er í íslenskri þýðingu á grein 15.10.2 kveðið á um að leigutaki skuli strax eftir að hann fær í hendur skriflega beiðni frá leigusala útvega honum lista yfir þá flugvelli þar sem hann starfrækir reglulega loftfarið og önnur loftför í flota sínum. Jafnframt heimili leigutaki flugvöllum og fleiri tilteknum aðilum sem gætu gert kröfu til loftfarsins að staðfesta við leigusala stöðu á greiðslum leigutaka til slíks aðila á hverjum tíma. Þá hefur sóknaraðili réttilega bent á að í grein 19.19 í leigusamningnum sé kveðið á um að leigutaki skuli við skil á hinu leigða loftfari hafa greitt öll flugvallargjöld og önnur gjöld sem gætu gefið tilefni til tryggingarréttinda í flugvélinni eða réttar til að aftra för hennar. Þá er sérstaklega tekið fram að ekki skipti máli hvort til gjaldanna hafi verið stofnað vegna hins leigða loftfars eða annarra loftfara sem leigutaki reki og að gjöld vegna annarra loftfara geti stofnað til tryggingarréttinda í hinu leigða loftfari.

     Framangreind ákvæði leigusamningsins benda eindregið til þess að beiting greiðsluþvingunar 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998, með þeim hætti sem sóknaraðili beitti henni, hafi verið talin möguleg þegar varnaraðili og WOW air hf. gengu til samninga um leigu á vélinni og þar með fyrirsjáanleg.

     Eins og áður er rakið hafði varnaraðili ýmis úrræði til að koma í veg fyrir eða takmarka tjón sitt vegna beitingar sóknaraðila á greiðsluþvingun á grundvelli 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998 áður en til hennar kæmi, til dæmis að nýta sér heimild í leigusamningnum til að afla sér upplýsinga um ógreidd gjöld WOW air hf. vegna starfsemi félagsins á Keflavíkurflugvelli eða rifta leigusamningnum vegna vanskila á leigugreiðslum.

     Samkvæmt öllu framansögðu þykir þvingunarúrræði 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998 skýrt og afdráttarlaust og þar sem ákvæðið er augljóslega sett í þágu flugumferðar og þar með í almannaþágu og beiting þess fyrirsjáanleg fyrir varnaraðila og aðra þá sem standa í flugrekstri kemur ekki til álita að í því felist slík skerðing á eignarrétti varnaraðila að ekki verði byggt á því í málinu vegna 72. gr. stjórnarskrárinnar. 

     Samkvæmt nýjum gögnum sem lögð hafa verið fram í Landsrétti greiddi varnaraðili til sóknaraðila 6. maí 2019, eftir uppkvaðningu hins kærða úrskurðar, 55.457.390 krónur og 229.029 evrur. Samkvæmt bréfi lögmanna varnaraðila til lögmanns sóknaraðila sama dag telur varnaraðili að greiðslur þessar hafi verið til samræmis við forsendur hins kærða úrskurðar en að í þeim felist ekki viðurkenning á skyldu hans til að greiða fjárhæðirnar. Í niðurlagi bréfsins kom fram að samkvæmt niðurstöðu héraðsdóms væru því engin efni til að sóknaraðili aftraði brottför flugvélarinnar TF-GPA og var krafist staðfestingar á því að brottför flugvélarinnar yrði ekki lengur aftrað. Af hálfu sóknaraðila hefur ekki verið fallist á að greiðslur þessar eigi að leiða til þess að för loftfarsins verði ekki lengur aftrað.

     Ekki liggur fyrir í málinu að varnaraðili hafi greitt eða sett tryggingu fyrir greiðslu allra þeirra gjalda sem WOW air hf. skuldaði sóknaraðila við gjaldþrot félagsins 28. mars 2019 og beiting greiðsluþvingunarúrræðis 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998 er samkvæmt framansögðu með réttu ætlað að knýja á um að verði greidd.

     Þar sem ákvæði 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998, eins og því var beitt af sóknaraðila gagnvart varnaraðila, þykir ekki hafa vegið gegn stjórnarskrárvörðum eignarrétti varnaraðila og þar sem varnaraðili þykir ekki hafa sýnt fram á með skýrum hætti að sóknaraðila hafi af öðrum ástæðum verið óheimilt að aftra för flugvélarinnar TF-GPA vegna ógreiddra gjalda sem stofnað var til af hálfu umráðanda hennar, WOW air hf., vegna hvers kyns starfsemi félagsins á Keflavíkurflugvelli, þar á meðal þjónustu við önnur loftför í eigu annarra aðila en í umráðum félagsins, verður ekki fallist á beiðni varnaraðila um að loftfarið verði tekið úr vörslum sóknaraðila og fengið varnaraðila með aðfarargerð.

     Í aðfararmáli þessu verður ekki tekin afstaða til þess hvort sóknaraðili eigi kröfu á hendur varnaraðila um greiðslu þeirra gjalda sem WOW air hf. stofnaði til gagnvart sóknaraðila. Ekki verður heldur tekin afstaða til þess, með öðrum hætti en að framan greinir, hvaða gjöld varnaraðili þarf að greiða eða setja tryggingu fyrir til þess að létt verði af flugvélinni TF-GPA þvingunarúrræði 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998.

     Með vísan til framangreindra forsendna verður niðurstaða hins kærða úrskurðar, eins og hún kemur fram í úrskurðarorði hans, staðfest um annað en málskostnað.

     Þar sem varnaraðili hefur tapað málinu í öllu verulegu í héraði og fyrir Landsrétti verður honum, með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, gert að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað fyrir Landsrétti sem þykir hæfilega ákveðinn í einu lagi eins og í úrskurðarorði greinir.

Úrskurðarorð:

Hinn kærði úrskurður skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Varnaraðili, ALC A321 7237, LLC, greiði sóknaraðila, Isavia ohf., samtals 2.000.000 króna í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

 

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 2. maí 2019

 

Með aðfararbeiðni, sem móttekin var í Héraðsdómi Reykjaness 17. apríl 2019, hefur sóknaraðili, ALC A321 7237, LLC, 2140 S. Dupont Highway, Camden, Delaware, 19934, Bandaríkjunum, krafist dómsúrskurðar um að farþegaþota af gerðinni Airbus A321-211, með skráningarnúmerið TF-GPA, sem staðsett er á Keflavíkurflugvelli, verði tekin með beinni aðfarargerð úr vörslum gerðarþola ISAVIA ohf., kt. 550210-0370, Reykjavíkurflugvelli, 101, Reykjavík, og fengin gerðarbeiðanda til fullra og takmarkalausra umráða og lagt verði fyrir sýslumann að tryggja að brottför farþegaþotunnar verði ekki aftrað af gerðarþola. Þess er krafist að gerðin fari fram á kostnað gerðarþola og honum verði gert að greiða gerðarbeiðanda kostnað hans af gerðinni.

                Fyrirtaka var þann 23. apríl sl. Var gerðarþola veittur frestur í viku til að skila greinargerð og frekari gögnum. Fór munnlegur málflutningur fram þann 2. maí sl. og var krafan tekin til úrskurðar að honum loknum.

Málsatvik.

Um atvik máls segir í kröfu sóknaraðila að með leigusamningi dags. 21. apríl 2016, þar sem  gerðarbeiðandi hafi verið leigusali og WOW air hf. leigutaki, hafi farþegaþotan TF-GPA verið leigð til WOW air hf. Samkvæmt leigusamningnum skyldi leigusamningurinn gilda í átta ár frá afhendingu farþegaþotunnar að telja. Farþegaþotan hafi verið afhent WOW air hf. þann 5. ágúst 2016.

Samkvæmt gerðarþola söfnuðust upp skuldir WOW air hf. við gerðarþola frá árslokum 2017 og hafi stærstu vanskilin verið vegna svokallaðra notendagjalda sem komi fram í notendagjaldskrá Keflavíkurflugvallar en einnig hafi verið um að ræða vanskil vegna kaupa á annarri þjónustu af gerðarþola. WOW hafi greitt næstu mánuði reglulega inn á vanskilin sem hafi þó hækkað jafnóðum. Þann 21. nóvember sl. hafi WOW gefið út einhliða yfirlýsingu um það hvernig félagið myndi greiða upp vanskil sín og einnig yfirlýsingu þar sem félagið hafi lýst því yfir að það myndi tryggja að að minnsta kosti eitt loftfar á flugrekstrarleyfi félagsins yrði ávallt á Keflavíkurflugveli eða á leið til Keflavíkurflugvallar og komið með staðfestan komutíma. Á þeim tíma hafi WOW air verið með sextán loftför á flugrekstrarleyfi fálagsins. Þar af hafi ellefu vélar verið frá ellefu dótturfélögum móðurfélags gerðarbeiðanda. Í byrjun mars sl. hafi WOW air hætt að greiða til gerðarþola í samræmi við greiðsluáætlun sína. 

Aðfaranótt 28. mars sl. kr. 01:40 sendi gerðarþoli WOW air tölvupóst og bréf þar sem WOW air var tilkynnt um að gerðarþoli myndi beita 1. mgr. 136. gr. loftferðarlaga vegna vanskila WOW air samkvæmt greiðsluáætlun og ákveðið að aftra för TF-GPA, sem var í rekstri og umráðum WOW air þar til skuldin væri greidd eða fullnægjandi trygging sett fyrir greiðslu hennar. Var sú tilkynning móttekin og staðfest kl. 02.31 sömu nótt af forstjóra WOW air.

                Í leigusamningi WOW air og gerðarbeiðanda eru skilgreind tiltekin atvik sem vanefndatilvik (e. „Event of Default“), sbr. gr. 20.1 í leigusamningnum. Eitt af tilgreindum vanefndatilvikum er að umsamdar leigugreiðslur séu ekki greiddar innan þriggja daga frá gjalddaga. Kveður gerðarbeiðandi  að hann hafi lýst yfir vanefnd við WOW air hf. með tilkynningu þann  27. mars 2019 vegna vangoldinna leigugreiðslna upp á samtals USD 2.185.511. Í kjölfari hafi gerðarbeiðandi rift leigusamningnum, með tilkynningu dags. 28. mars 2019. Riftunin hafi verið gerðarbeiðanda heimil samkvæmt gr. 20.2 í leigusamningnum. Áhrif riftunar séu tiltekin í gr. 20.2.4 í leigusamningnum, þar sem gerðarbeiðanda sé leyft að rifta með tilkynningu og taka í kjölfarið full umráð farþegaþotunnar. Til að ná þeim fullu umráðum hafi gerðarbeiðandi m.a. mátt fara hvert þangað sem farþegaþotan væri staðsett og veita flugstjórum fyrirmæli um að fljúga farþegaþotunni á hvaða flugvöll sem gerðarbeiðanda þóknaðist.

                Að morgni 28. mars 2019, kl. 08:15, lagði  WOW air hf. inn flugrekstrarleyfi sitt til Samgöngustofu. Síðar þann sama dag, um klukkan 13:30, var WOW air hf. úrskurðað gjaldþrota í Héraðsdómi Reykjavíkur. Klukkan 17:10 þann sama dag bars gerðarbeiðanda tilkynning frá gerðarþola, þar sem tilkynnt var um að för farþegaþotunnar frá Keflavíkurflugvelli yrði stöðvuð þar til öll vangreidd gjöld WOW air hf. til gerðarþola væru að fullu greidd. Hafi gerðarþoli vísað til 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998 um loftferðir, sem lagagrundvöll aðgerða sinna. Enn fremur hafi gerðarþoli áskilið sér rétt til að selja farþegaþotuna á nauðungarsölu ef skuldin væri ekki að fullu greidd eða um hana samið innan skamms tíma.

                Samkvæmt gerðarbeiðanda áttu fulltrúar gerðarbeiðanda fund þann 1. apríl sl. með stjórnendum og lögmanni gerðarþola, með það fyrir augum að semja um lausn vandamálsins. Á þeim fundi hafi stjórnendur gerðarþola hins vegar engan samningsvilja sýnt eða vilja til að leyfa gerðarbeiðanda að fá umráð eignar sinnar með því að setja aðrar tryggingar eða gefa afslátt af neinu tagi. Þá hafi lögmenn gerðarbeiðanda átt fund með lögmönnum gerðarþola þann 10. apríl s.l. í því skyni að kanna sáttagrundvöll. Þeim umleitunum hafi verið tekið fálega. Reynt hafi verið að krefja gerðarþola um bæði sundurliðun kröfunnar og upplýsingar um mögulegar tryggingar í stað farþegaþotunnar, sem sé mun verðmætari en sú krafa sem gerðarþoli telji sig eiga á hendur WOW air hf. og vill að gerðarbeiðandi greiði. Skorað hafi verið á gerðarþola að upplýsa um þau gjöld sem væru áfallin og tengjast TF-GPA. Ella væri litið svo á að engin áfallin gjöld tengdust TF-GPA. Gerðarbeiðandi kveðst ekki hafa  fengið svar við áskoruninni og sé því ekki annað tækt en að líta svo á að engin áfallin gjöld tengist TF-GPA. Hafi gerðarþoli því engar forsendur til þess að aftra för loftfarsins.

                Gerðarþoli mótmælir því að gerðarbeiðandi hafi átt fund með stjórnendum gerðarþola. Kveður gerðarþoli að lögmenn gerðarbeiðanda og gerðarþola hafa átt nokkra fundi vegna málsins þar á meðal einn símafund ásamt Carol Forsyte yfirlögfræðing móðurfélags gerðarbeiðanda. Hafi gerðarbeiðandi á þeim fundum neitað að greiða kröfur gerðarþola og hvorki lagt fram tryggingar til greiðslu krafna gerðarþola né komið með tillögur að því hvernig slíkar tryggingar ættu að vera.

                Kveður gerðarbeiðandi að gerðarþoli hafi ekki orðið við kröfum gerðarbeiðanda um sundurliðun kröfunnar á hendur WOW air hf. og hvernig hún tengist því loftfari sem gerðarþoli hefur aftrað brottför. Að sama skapi hafi gerðarþoli ekki lagt fram yfirlit yfir innborganir WOW air hf. inn á kröfuna og hvernig þeim innborgunum hafi verið ráðstafað. Telur gerðarbeiðandi sjálfsögð réttindi sín, áður en gripið sé til íþyngjandi aðgerða gegn sér og sínu loftfari, að innborgunum sé ráðstafað til greiðslu á þeim gjöldum sem kunni að tengjast því loftfari.

                Þar sem gerðarbeiðandi telur að hann hafi enga skyldu til að greiða skuldir þriðja manns og þar sem hann telur stöðvun gerðarþola á för farþegaþotunnar ólögmæta, hafi hann því engan annan kost en að krefjast innsetningar skv. 1. mgr. 78. gr., sbr. 73. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.

Málsástæður og lagarök gerðarbeiðanda.

Gerðarbeiðandi byggir á því að samkvæmt 1. mgr. 78. gr. aðfararlaga geti sá sem með ólögmætum hætti sé aftrað að neyta réttinda sem hann tjáir sig eiga, beint til héraðsdómara beiðni um skyldu til afhendingar þeirra réttinda, sbr. 73. gr. sömu laga, þótt aðfararheimild liggi ekki fyrir. Meginskilyrðið sé að réttindin séu nægilega skýr og afdráttarlaus, m.t.t. þeirrar takmörkuðu sönnunarfærslu sem leyfist í slíku máli.

                Telja megi að atvik máls sem slík séu ekki umdeild í fyrirliggjandi máli auk þess sem óumdeilanleg sönnunargögn hafi verið lögð fram af hálfu gerðarbeiðanda um eignarhald hans á farþegaþotunni TF-GPA og önnur þau atvik sem skipti máli. Hins vegar hafi gerðarþoli sýnt í verki þá afstöðu sína að hann telur sér heimilt að takmarka eignarráð gerðarbeiðanda, með því að aftra för farþegaþotunnar þar til allar skuldir WOW air hf. hafi verið greiddar, með stoð í 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga. Samkvæmt þessu séu réttindi gerðarbeiðanda skýr og afdráttarlaus í skilningi aðfararlaga, og aðeins þurfi að skera úr um lögmæti aðgerða gerðarþola með túlkun viðeigandi lagaákvæða. Vörslur gerðarþola á farþegaþotunni felist í því að för hennar sé aftrað og með því takmörkuð með viðamiklum hætti umráð gerðarbeiðanda á eign sinni.

                Gerðarbeiðandi byggir á því að það sé alveg ljóst að aðgerðir gerðarþola séu ólögmætar. Samkvæmt 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga sé Samgöngustofu og þeim sem starfræki flugvöll eða flugleiðsöguþjónustu heimilt að aftra för loftfars af flugvelli uns gjöld séu greidd eða trygging sett fyrir greiðslu vegna þess loftfars sem í hlut á eða annarrar starfsemi hlutaðeigandi eiganda eða umráðanda loftfarsins.

                Gerðarbeiðandi byggir á því að þessi lagaheimild heimili ekki aðgerðir gerðarþola, að aftra för TF-GPA, við þær aðstæður sem uppi séu í máli þessu. Ákvæði 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga sé verulega íþyngjandi gagnvart gerðarbeiðanda. Því verði ákvæðinu ekki beitt með þeim hætti að það veiti gerðarþola víðtækari heimildir en leiði skýrlega af orðalagi þess,  það leiðir af almennum reglum um túlkun lagaákvæða. Þar að auki tryggi 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar friðhelgi eignarréttarins. Lykilþáttur í eignarréttinum sé rétturinn til friðsamlegrar nýtingar eignar, þ. á m. ráðstöfunar og hvers kyns umráða, innan þeirra almennu marka sem lög mæli fyrir um og takmarkana vegna réttinda annarra sem leiða af lögum eða samningsskuldbindingum. Þær takmarkanir verði að vera skýrar og því verði ekki til óbein eignarréttindi eða tryggingarréttindi eða kvaðir nema um það sé fjallað með skýrum og afdráttarlausum hætti í lögum eða samningi. Það sé almenn lögskýringarregla að hvers konar lagaheimild sem skerði stjórnarskrárvarinn rétt verði skýrð þrengjandi lögskýringu og að hvers kyns vafi um inntak slíkrar skerðingar verður skýrður í hag þess sem fyrir verði. Eins og ítrekað hafi verið slegið föstu í dómaframkvæmd Hæstaréttar verður löggjöf, sem mæli fyrir um skerðingu stjórnarskrárvarinna réttinda, að mæla fyrir um bæði takmörk og umfang slíkrar réttindaskerðingar. Engin slík fyrirmæli séu í 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga.

Samkvæmt orðalagi 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga sé alveg ljóst að ákvæðið veiti ekki lögveðsréttindi, haldsrétt eða nokkur slík óbein eignarréttindi í nokkru loftfari, enda þyrfti að mæla fyrir um slíkan óbeinan eignarrétt með afdráttarlausum hætti í texta ákvæðisins ef því væri ætlað að stofna til slíkra réttinda. Því eigi gerðarþoli ekkert eignarréttartilkall til farþegaþotu gerðarbeiðanda, hvorki beint né óbeint.

Einnig sé ljóst að ákvæði 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga leggur enga kröfuréttarlega skyldu á eigenda loftfars, hvorki beina né óbeina, til að greiða gjöld sem féllu til í starfsemi annars aðila, enda hafi gerðarbeiðandi, sem eigandi loftfarsins, ekkert með söfnun skulda WOW air hf. að gera.

Gerðarþoli hafi ekki gefið út neinar leiðbeiningarreglur um beitingu ákvæðis 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga. Þá séu engar frekari leiðbeiningar að finna í lögskýringargögnum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Einu aðgerðirnar sem ákvæði 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga heimili, samkvæmt framansögðu, séu að „aftra för“ loftfars, við alveg tilteknar aðstæður, það sé vegna skulda viðkomandi eiganda eða umráðamanns loftfarsins. Hvorki það ákvæði, né önnur ákvæði loftferðalaga, mæli fyrir um aðrar heimildir til að innheimta vangreidd gjöld gegn neinum öðrum aðila en þeim sem sjálfur hefur stofnað til gjaldanna. Þá verði slíkar heimildir ekki leiddar af öðrum lögum eða meginreglum.

Eins og að framan greini, þá myndi ákvæði 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga ekki lögveðsrétt eða sambærileg óbein eignarréttindi í loftfari, né nokkurs konar önnur tryggingaréttindi sem dugi sem lögmætur og nægilegur grundvöllur nauðungarsölu samkvæmt lögum nr. 90/1991. Þá sé ekkert í ákvæði 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga sem stofni til kröfuréttinda á hendur gerðarbeiðanda vegna vangreiddra flugvallagjalda WOW air hf. Af því leiði að gerðarþoli geti ekki með nokkru lögmætu móti knúið gerðarbeiðanda til að greiða skuldir WOW air hf. né heldur leitað fullnustu í eigum gerðarbeiðanda á grundvelli aðfararlaga eða nauðungarsölulaga. Gerðarbeiðanda beri engin skylda að lögum til að greiða vangreidd flugvallagjöld WOW air hf.

Gerðarbeiðandi byggir á því að ef ákvæði 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga hefði verið ætlað að stofna til tryggingarétta vegna vangreiddra flugvallagjalda í eignum óviðkomandi þriðja manns, hefði það þurft að koma fram með skýrum og afdráttarlausum hætti í ákvæðinu sjálfu, þar sem mælt væri fyrir um takmörk og umfang þeirra tryggingaréttinda og leiði til fullnustu.

Hvað varði það orðalag 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga, að aftra megi för loftfars vegna vangreiddra gjalda umráðamanns, bendir gerðarbeiðandi á að það sé WOW air hf. sem hafi  stofnað til gjaldanna. WOW air hf. sé hætt starfsemi og hafi verið úrskurðað gjaldþrota og sé ekki lengur umráðamaður TF-GPA. Röð atvika sé sem hér greinir:

Gerðarbeiðandi sendi WOW air hf. vanefndatilkynningu 27. mars 2019 og í beinu framhaldi tilkynningu um riftun leigusamnings, dags. 28. mars 2019. Gerðarþoli sendi tilkynningu til WOW air hf. um að öftrun farar TF-GPA aðfararnótt 28. mars 2018. WOW air hf. skilaði inn flugrekstrarleyfi að morgni 28. mars 2019. WOW air hf. var úrskurðað gjaldþrota um klukkan 13:30 28. mars 2019. Gerðarþoli tilkynnti gerðarbeiðanda um að aftra ætti för TF-GPA frá Keflavíkurflugvelli, með tilkynningu sem barst klukkan 17:10 28. mars 2019.

Þessi röð atvika sé óumdeild. Gerðarbeiðandi byggir á því að um leið og WOW air hf. hafi skilað inn flugrekstrarleyfi sínu hafi það félag ekki lengur geta talist umráðamaður nokkurs loftfars. Í öllu falli, eigi síðar en þegar WOW air hf. var úrskurðað gjaldþrota, enda uppfyllti félagið þá ekki lengur nein skilyrði þess að teljast flugrekstraraðili. Þá hafi verið búið að rifta leigusamningi um TF-GPA og eftir það hafi  WOW air hf. engin réttindi haft yfir farþegaþotunni.

Bréf gerðarþola til WOW air hf. nóttina fyrir gjaldþrotið hafi enga þýðingu þar sem gerðarbeiðandi fékk enga tilkynningu um aðgerðir gerðarþola fyrr en á síðara tímamarki. Ákvöð, sem beint hafi verið að WOW air hf., geti ekki haft réttaráhrif gagnvart gerðarbeiðanda.

Þá byggir gerðabeiðandi á því að þegar WOW air hf. skilaði inn flugrekstrarleyfi sínu þá hafi gerðarþoli ekki lengur getað beitt heimildum loftferðalaga. Þá tóku ákvæði gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991 við í kjölfar úrskurðar um gjaldþrot og verði gerðarþoli því að láta sér þau úrræði sem þar greinir duga til að fá greiðslu kröfu sinnar.

Aðgerðir gerðarþola fela í sér að viðhaldið sé viðvarandi ástandi sem verði að reynast lögmætt á hverjum tíma. Jafnvel þó svo væri litið á að aðgerðir gerðarþola hafi talist lögmætar í öndverðu, áður en WOW air hf. var úrskurðað gjaldþrota, sé í öllu falli ljóst að eftir það tímamark hafi þær ekki getað talist lögmætar gagnvart gerðarbeiðanda.

Rétt sé að taka fram í þessu samhengi að orðalag ákvæðis 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga sé í nútíð, ekki í þátíð, og leyfi því ekki gerðarþola að aftra för loftfars vega vangreiddra gjalda fyrrverandi umráðanda eða eiganda loftfars.

Eins og fram komi í bréfi gerðarþola til gerðarbeiðanda, dagsettu 28. mars 2019, hafi krafa gerðarþola á hendur WOW air hf. verið í vanskilum frá 30. júní 2018. Krafan hafi því vaxið og safnað kostnaði og dráttarvöxtum frá þeim tíma allt þar til WOW air hf. var úrskurðað gjaldþrota þann 28. mars 2019. Gerðarbeiðandi hafi aldrei verið upplýstur af hálfu gerðarþola um kröfur eða vanskil WOW air hf. fyrr en með þessu bréfi, sem honum hafi borist klukkan 17:10 þann 28. mars 2019.

Gerðarbeiðandi byggir á því að gerðarþoli hafi ekki haft heimildir til þess að láta vanskil gjalda eða skulda WOW air hf. við gerðarþola safnast upp án greiðslu með þessum hætti. Að minnsta kosti geti sú ákvörðun gerðarþola ekki verið á kostnað gerðarbeiðanda eða með einhvers konar tryggingu í hans eignum. Um sé að ræða eiginlega lánveitingu gerðarþola til WOW air hf. samtals að fjárhæð um tvo milljarða króna. Sú lánveiting hafi verið án aðkomu gerðarbeiðanda og án hans samþykkis. Svo virðist sem lánveitingin hafi verið undir því yfirskini að gerðarþoli hafi talið sig geta leitað tryggingar fyrir láninu í farþegaþotu sem sé eign gerðarbeiðanda, án nokkurs samþykkis hans. Rétt sé að taka fram í þessu samhengi að starfsmenn gerðarþola, þeir Karl Alvarsson og Sveinbjörn Indriðason, sendu WOW air hf. skjal þann 30. september 2018 undir yfirskriftinni „Greiðsluáætlun WOW air“. Það skjal hafi verið samið af Karli og ekki breytt af neinum öðrum en Sveinbirni, það sjáist af eigindum skjalsins. Þar hafi verið gert ráð fyrir því WOW air hf. greiddi skuld sína, eins og hún stóð þá, með 12 mánaðarlegum afborgunum og áskilið að WOW air hf. hefði alltaf a.m.k. eina flugvél á flugrekstrarleyfi félagsins tiltæka á Keflavíkurflugvelli til tryggingar. Þá hafi WOW air hf. verið bannað að gera nokkuð það sem „raskað [gæti] möguleika ISAVIA til að grípa til stöðvunarheimilda“. 

Allt frá þessum tíma og þar til WOW air hf. varð gjaldþrota hafi WOW air hf. hlýtt þessu boði. Þetta afhjúpi berlega þann ásetning gerðarþola að leyfa WOW air hf. skuldasöfnun í skjóli þess að greiðsla yrði heimt af óviðkomandi leigusala ef allt færi á versta veg. Þá hafi WOW air hf. greitt samkvæmt samkomulaginu fyrstu fjóra mánuðina eftir að hafa fengið skjalið sent frá gerðarþola. Rétt sé að geta þess að gjöld að fjárhæð um þrjá milljarða króna féllu til í starfsemi WOW air hf. frá því að vanskil hófust í júní 2018, en WOW air hf. hafi greitt um þriðjung þeirra á tímabilinu þar til félagið fór í þrot.

Þá sé einnig vert að geta þess að um miðjan september 2018 hafi WOW air hf. lokið skuldabréfaútboði þar sem söfnuðust um 50 milljónir evra, eða sem nemi tæpum sjö milljörðum króna. Þrátt fyrir það virðist gerðarþoli ekki hafa gert neinn reka að því að krefjast uppgjörs á vangreiddum gjöldum WOW air hf. á þessu tímamarki, heldur veitt  áframhaldandi fyrirgreiðslu í trausti þess að njóta tryggingar í eignum þriðja manns.

Gerðarbeiðandi lítur svo á að eign hans geti ekki staðið til tryggingar á láni gerðarþola til WOW air hf. nema að undangengnu skýru og yfirlýstu samþykki gerðarbeiðanda. Slíkt samþykki sé ekki til staðar og hefði aldrei verið veitt og geti gerðarþoli ekki með einhliða túlkun á ákvæði 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga teygt gildissvið þess þannig að eign gerðarbeiðanda standi, þrátt fyrir það, til tryggingar á skuldum WOW air hf. Háttsemi gerðarþola, sem birtist í gögnum málsins, að áskilja sér tryggingu frá WOW air hf. í eignum þriðja manns, gerðarbeiðanda, án þess að einu sinni tilkynna eigandanum, sé ámælisverð, alvarleg og ólögleg.

Gerðarbeiðandi telur að gerðarþoli hafi engar heimildir haft til að veita WOW air hf. lán með þessum hætti, hvorki samkvæmt lögum, eigin gjaldskrá eða eigin skilmálum. Þá geti háttsemi gerðarþola ekki með neinu móti haft bindandi réttaráhrif gagnvart gerðarbeiðanda né gert það að verkum að eignir hans teljist hafa verið settar að veði, án lagaheimildar eða samkomulags við gerðarbeiðanda. Svo virðist sem gerðarþoli telji að hann geti á einhvern hátt komið í veg fyrir umráð gerðarbeiðanda á eign sinni, með því að aftra för farþegaþotu gerðarbeiðanda þar til þetta lán gerðarþola til WOW air hf. sé uppgreitt, allt með vísan til 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga, þar sem hann telji sig njóta eiginlegra veðréttinda í eign gerðarbeiðanda.  Slík túlkun fái enga stoð í lagaákvæðinu sjálfu, stjórnarskrá né eðli máls. Af þeim sökum leiti gerðarbeiðandi til dómsins til þess að fá eign sína afhenta til frjálsra og óskertra umráða og afnota.

Hæstiréttur hafi sett lánveitendum ströng skilyrði og gert strangar kröfur til sönnunar á tilvist veðréttinda eða annarra trygginga og að þau byggi á skýrum og ótvíræðum gögnum. Til dæmis ef engin formlegur samningur sé til staðar eða ef orðalag sé óskýrt eða óljóst eða samningur einhliða hafi Hæstiréttur fellt úr gildi öll slík veðréttindi eða tryggingar. Þessir mælikvarðar séu jafnvel enn strangari þegar undirliggjandi veðréttindi séu í eigu þriðja manns.

Ef litið sé til þeirra reglna sem gerðarþoli hafi sett sjálfur skulu öll gjöld að meginreglu greidd fyrirfram og áður en loftfar yfirgefur flugvöllinn, sbr. ákvæði 9.1. Samkvæmt ákvæði 9.1.1. megi gerðarþoli heimila að gjöldin séu greidd eftir á og þá beri að senda viðkomandi skuldara reikning þar sem honum sé veittur 30 daga greiðslufrestur frá dagsetningu reiknings. Gerðarþoli megi gera kröfu um fyrirframgreiðslu eða bankaábyrgð frá öllum flugfélögum sem hafi ekki verið í viðskiptum við gerðarþola síðustu tólf mánuði eða hafi verið í vanskilum hjá gerðarþola. Samkvæmt ákvæði 9.1.2. verði fyrirframgreiðslan að ná yfir öll gjöld viðkomandi flugfélags og áætluð flug og ákvæði 9.1.3. mæli fyrir um að bankaábyrgð verði að ná yfir lengra tímabil en þrjá mánuði og gilda í að minnsta kosti þrjá mánuði eftir að flugáætlun endar. Gerðarþoli megi krefjast þess að ábyrgðin gildi um óákveðinn tíma. Gerðarbeiðandi telur það ljóst af ofangreindu að framganga gerðarþola gagnvart WOW air hf. sé í andstöðu við reglur gerðarþola sjálfs. Gerðarbeiðandi geti ekki borið ábyrgð á þessari framgöngu gerðarþola og allra síst þannig að eignir hans verði látnar eftir á hafa verið til tryggingar þessum ráðstöfunum gerðarþola. Eignir gerðarbeiðanda hafi aldrei verið settar til tryggingar á láni gerðarþola til WOW air hf. og geti þessi ráðstöfun gerðarþola ekki talist njóta tryggingar á grundvelli túlkunar gerðarþola á ákvæði 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga. Sú túlkun sé fullkomlega ófyrirsjáanleg, leiði ekki af orðalagi ákvæðisins, brjóti gegn meðalhófi og er þar af leiðandi andstæð 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar um vernd eignarréttar.

Gerðarbeiðandi vekur sérstaka athygli dómsins á því í að þann 25. mars 2019 var hafi forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, spurð um skuldir WOW air hf. gagnvart gerðarþola. Í viðtalinu hafi forsætisráðherra svarað því til að það væru „ákveðnar tryggingar fyrir skuldum WOW air“. Forsætisráðherra hafi hins vegar ekki verið tilbúin til þess að útskýra nánar í hverju umræddar tryggingar væru fólgnar. Með því skjali sem skiptastjóri WOW air hf. hefur afhent og hefur að geyma inntak samkomulags WOW air hf. og gerðarþola sé hins vegar ljóst hvað forsætisráðherra hafi átt við. Mögulega kunni að vera að forsætisráðherra hafi fengið þær upplýsingar að aðgerð gerðarþola hafi verið lögmæt en gerðarbeiðandi telur engan vafa leika á um að aðgerð og lánveiting gerðarþola standist enga skoðun og eigi sér engan lagalegan grundvöll. Gerðarbeiðandi telji ljóst af þessu að gerðarþoli hafi litið svo á að hægt væri að ganga að eignum leigusala flugvéla sem hafi verið notaðar í rekstri WOW air hf. með misnotkun á ákvæði 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga. Sé að mati gerðarbeiðanda ásetningur gerðarþola ljós með þessu og að það lán sem gerðarþoli hafi veitt WOW air hf. í níu mánuði hafi átt að tryggja með þessum hætti. Það lán hafi hins vegar gerðarþoli veitt á eigin ábyrgð og án nokkrar aðkomu gerðarbeiðanda.

Lánveiting gerðarþola til WOW air hf. sé að mati gerðarbeiðanda bæði ólögleg og ámælisverð. Sú aðgerð gerðarþola að telja sig geta gengið að eignum gerðarþola til tryggingar á láni þeirra til WOW air hf. eigi sér hvorki lagalega heimild né heimild í samningum. Hún sé jafnframt mögulega refsiverð, en það hljóti að þurfa að gera þá kröfu til stjórnenda og stjórnarmanna opinberra hlutafélaga að þeir fylgi og hlíti þeim reglum sem um starfsemi gilda og hafi verið opinberlega birtar. Að mati gerðarbeiðanda fái framganga gerðarþola enga stoð í ákvæði 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga. Þessi framganga sé að mati gerðarbeiðanda til þess fallin að leigusalar flugvéla forðist, banni eða takmarki leigutökum alla umferð um flugvöll gerðarþola, enda eigi leigusalar erfitt um vik að átta sig á mögulegum áhættum samfara leigunni þegar ekki sé tryggt að farið sé að lögum og birtum reglum. 

Gerðarbeiðandi byggir á því að sú ákvörðun gerðarþola að aftra brottför farþegaþotunnar með skráningarnúmer TF-GPA sé augljóslega og án nokkurs vafa ólögmæt. Með ákvörðuninni sé því með ólögmætum hætti komið í veg fyrir full umráð gerðarbeiðanda yfir réttmætri eign sinni og skilyrði 1. mgr. 78. gr. aðfaralaga nr. 90/1989 því uppfyllt til að aðfarargerðin geti farið fram. Gerðarbeiðandi krefst þess því að dómurinn leggi fyrir sýslumanninn á Suðurnesjum að tryggja brottför farþegaþotunnar frá Keflavíkurflugvelli.

Málsástæður og lagarök gerðarþola.

Gerðarþoli krefst þess að beiðni gerðarbeiðanda, um að farþegaþota af gerðinni Airbus A321-211, með skráningarnúmerið TF-GPA, sem staðsett er á Keflavíkurflugvelli, verði tekin með beinni aðfarargerð úr vörslum gerðarþola og fengin gerðarbeiðanda til fullra og takmarkalausra umráða og lagt verði fyrir sýslumann að tryggja að brottför farþegaþotunnar verði ekki aftrað af gerðarþola, verði hafnað.

Verði fallist á beiðni gerðarbeiðanda að einhverju leyti, krefst gerðarþoli þess að í úrskurði héraðsdóms verði kveðið á um að málskot til æðra dóms fresti aðfarargerð á hendur gerðarþola þar til endanlegur dómur Landsréttar og eftir atvikum Hæstaréttar gengur.

Þá krefst gerðarþoli þess að honum verði dæmdur málskostnaður úr hendi gerðarbeiðanda að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi.

Gerðarþoli byggir á því að hann sé rekstraraðili alþjóðaflugvallar og hafi lagaheimild í 1. og 2. mgr. 71. gr. loftferðalaga til að innheimta gjöld til að standa undir rekstri flugvallar og fyrir þeirri aðstöðu, búnaði og mannvirkjum sem nýtt séu fyrir starfsemi tengd flugsamgöngum á flugvellinum. Gjaldtaka sé samkvæmt gjaldskrá sem gerðarþoli birti sbr. 3. mgr. 71. gr. sl. á heimasíðu flugvallarins. Gjaldtaka 1. og 2. mgr. 71. gr. loftferðalaga byggist á því sérgreinda endurgjaldi sem fæst gegn greiðslu gjaldsins og miðist við þann kostnað sem almennt hljótist af því að veita þá þjónustu. Gjaldinu sé ætlað að standa undir kostnaði við þá þjónustu sem gjaldanda er veitt.

Gerðarþoli telur að umdeilt sé að WOW air hf. hafi verið handhafi flugrekstrarleyfis sem útgefið var af Samgöngustofu. WOW air hafi verið umráðaaðili fjölda loftfara, tuttugu  þegar mest lét en félagið hafi verið skráður umráðaaðili fimmtán loftfara í loftfaraskrá Samgöngustofu 28. mars 2019. WOW sem umráðaaðili loftfaranna hafi fengið úthlutað afgreiðslutíma fyrir loftför í umráðum félagsins á Keflavíkurflugvelli og haldið þar úti umfangsmikilli flugstarfsemi. Móðurfélag gerðarbeiðanda hafi leigt WOW air loftför, mest sextán loftför, og hafi haft miklar leigutekjur af hinum leigðu loftförum sem öll hafi nýtt mannvirki, búnað og aðstöðu Keflavíkurflugvallar.

Gerðarþoli bendir á að þjónusta sem loftfar nýti á flugvelli, í formi aðstöðu, búnaðar, mannvirkja og allrar starfsemi tengd flugsamgöngum á flugvellinum, sé bæði nýtt af umráðanda og eiganda loftfarsins. Ástæðan sé sú að starfsemi gerðarbeiðanda byggist alfarið á leigu loftfara. Leigutakarnir, umráðaaðilar loftfaranna, nýti svo loftförin til tekjuöflunar og greiði þannig leigugjaldið. Útilokað sé að nýta loftförin án flugvalla og aðstöðunnar þar. Notkun á aðstöðu og þjónustu sem gerðarþoli veiti sé þannig forsenda þess að gerðarbeiðandi geti yfir höfuð leigt loftför til leigutaka líkt og WOW air.

Notkun á aðstöðu og þjónustu flugvallarins hafi sömuleiðis verið forsenda þess að umráðandinn WOW air hafi getað haldið úti flugrekstri á flugvellinum. Notkun leigutaka og leigusala á mannvirkjum, aðstöðu búnaði og þjónustu flugvallarins hafi verið forsenda þess að báðir aðilar gætu rekið starfsemi þeirra. Notkun eiganda loftfara og umráðanda þeirra á aðstöðu og þjónustu flugvallarins sé því í þágu og þar með á ábyrgð beggja þessara aðila. Skuldbindingar sem leigutaki stofni til í rekstri sínum, vegna notkunar loftfara í sínum umráðum, séu því ekki óviðkomandi leigusalanum heldur beinlínis nauðsynlegar í þeirri starfsemi sem skapar leigusalanum tekjur. Þetta endurspegli leigusamningur gerðarbeiðanda og WOW sbr. grein 15 í leigusamningi og vikið sé að síðar.

Kveður gerðarþoli framangreind sjónarmið eiga sér stoð í ákvæði 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga þar sem heimilt sé að aftra för loftfars af flugvelli uns gjöld séu greidd eða trygging sett fyrir greiðslu vegna þess loftfars sem í hlut á eða annarrar starfsemi hlutaðeigandi eiganda eða umráðanda loftfarsins. Samkvæmt skýru orðalagi ákvæðisins beri þannig umráðaaðili og eigandi loftfars greiðsluskyldu vegna gjalda sem til falli á grundvelli 71. gr. loftferðalaga.  Loftför sem nýti aðstöðu, búnað og fá þjónustu á flugvöllum séu þess eðlis að þau fari hratt og auðveldlega milli lögsögu ríkja. Geti af þeim sökum reynst örðugt fyrir rekstraraðila flugvalla að innheimta gjöld og skuldir vegna starfsemi eiganda og umráðanda loftfara. Vegna þessa hafi löggjafinn sett sérstaka lagaheimild í 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga, er veitir rekstraraðila flugvallar heimild til að aftra för loftfara af flugvelli, uns gjöld séu  greidd eða trygging sett fyrir greiðslu þeirra.

Gerðarþoli  kveður ákvæði 71. gr. núgildandi loftferðalaga um heimild til gjaldtöku hafa áður verið í 78. gr. loftferðalaga nr. 34/1964. Í greinargerð með frumvarpi þeirra laga sé í umfjöllun um 78. gr. sérstaklega vísað til ákvæðis 149. gr. frumvarpsins, sem þá hafi geymt efnisreglu núverandi 1. mgr. 136. gr. Þar segi að ákvæðið veiti „…umráðanda flugvallar heimild til að aftra för loftfara af flugvelli, unz eftirgjald eftir notkun hans er greitt eða trygging sett fyrir greiðslu þess.“ Framangreinda heimild til þess að aftra för loftfars sé nú að finna í 1. mgr. 136. loftferðalaga. Lagaheimild 1. mgr. 136. gr. nái bæði til skráðs umráðaaðila loftfars og eiganda þess.

Gerðarþoli kveður Keflavíkurflugvöll vera alþjóðaflugvöll og starfsemi flugvallarins meðal annars háð ákvæðum Chicago-sáttmálans (Convention on International Civil Aviation), undirritaðan í Chicago 7. desember 1944 og gekk í gildi fyrir Ísland 20. apríl 1947, ásamt síðari breytingum. Sáttmálinn feli í sér samræmdar reglur um alþjóðaflug. Samkvæmt 10. gr. sáttmálans skuli loftförum heimilt að lenda á flugvöllum aðildarríkja. Í 15. gr. segir m.a. að alþjóðaflugvellir sem opnir séu almenningi skuli vera opnir öllum loftförum aðildarríkja sáttmálans, á grundvelli samræmdra skilmála. Vegna þjóðréttar- og lagaskuldbindinga sé gerðarþoli þannig undir kvöð að taka við öllum loftförum, heimila þeim afnot af búnaði, aðstöðu og mannvirkjum flugvallarins og veita þeim þjónustu, óháð eignarhaldi og umráðum. Vegna þessa hafi löggjafinn sett skýra lagaheimild til handa rekanda flugvallar samkvæmt 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga til þess tryggja greiðslu lögmætra gjalda á grundvelli 71. gr. s.l.

Samkvæmt orðalagi 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga beinist heimildin til að aftra för loftfars að umráðanda loftfarsins, eiganda þess eða báðum. Chicago-sáttmálinn geri ekki kröfu um að sami aðili sé bæði skráður eigandi loftfars og umráðaaðili loftfars. Sé þetta venjubundið fyrirkomulag í alþjóðaflugrekstri og sé meðal annars forsenda þess að gerðarbeiðandi geti leigt loftför sín til leigutaka í öðrum ríkjum. Í 19. gr. sáttmálans segi að skráning loftfara skuli fara eftir landslögum hvers aðildarríkis sáttmálans.

Gerðarþoli bendir í þessu sambandi á tilgang ákvæðis 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga. Séu möguleikar gerðarþola til að innheimta gjöld nánast engir ef hann geti ekki gripið til úrræðisins sé loftfar á flugvelli gerðarþola. Heimildin í 136. gr. loftferðalaga sé mjög víðtæk og nái bæði til þess að aftra för loftfars vegna gjalda sem falla til vegna þess loftfars svo og annarrar starfsemi eiganda eða umráðanda loftfarsins, þó slík gjöld tengist ekki beint því loftfari sem stöðvað er. Þannig byggi heimild gerðarþola til að aftra för loftfars, sem miði að því að tryggja greiðslu skulda, á skýrri lagaheimild. Tilgangur ákvæðisins sé að flugvallarrekandi hafi áhrifaríkt innheimtuúrræði sem beinist að loftfari, einu eða fleiri, hvort sem það sé í umráðum flugrekanda eða eiganda loftfarsins og feli í sér tryggingarrétt í loftfari fyrir ógreiddum gjöldum á grundvelli 71. gr. loftferðalaga.

Samkvæmt 1. gr. loftferðalaga gildi lögin á íslensku yfirráðasvæði. Samkvæmt 9. gr. laganna haldi Samgöngustofa skrá um íslensk loftför. Loftfarið TF-GPA var skráð í loftfaraskrá Samgöngustofu á grundvelli 2. mgr. 10. gr. loftferðalaga. Gerðarbeiðandi var og er skráður eigandi þess í loftfaraskrá Samgöngustofu og leigusali loftfarsins samkvæmt leigusamningi. Samkvæmt staðfestum upplýsingum frá Samgöngustofu hafi skráður umráðandi loftfarsins TG-GPA, verið WOW air hf., allt þar til skráningunni hafi verið breytt í loftfaraskrá þann 4. apríl 2019. Loftfarið hafi því þann 28. mars 2019 verið skráð eign gerðarbeiðanda í loftfaraskrá  og sé enn,  en í umráðum WOW air.

Gerðarþoli byggir á því að 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga sé réttilega beint að loftfari gerðarbeiðanda enda sé hann skráður eigandi loftfarsins í loftfaraskrá Samgöngustofu. Við beitingu ákvæðisins beri eingöngu að líta til þess hver sé skráður eigandi og umráðaaðili loftfars, þegar för loftfars sé aftrað á grundvelli ákvæðisins vegna skulda samkvæmt 71. gr. loftferðalaga. Skuldi annar hvor þessara aðila gjöld sem falli undir ákvæðið sé heimilt að beita 136. gr. laganna. Óumdeilt sé að sú aðstaða var uppi þegar gerðarþoli beitti ákvæðinu. Þegar af þeirri ástæðu beri að hafna kröfum gerðarbeiðanda.

Kveður gerðarþoli riftun gerðarbeiðanda á leigusamningi enga þýðingu hafa við úrlausn þessa máls enda geri ákvæði í leigusamningi gerðarbeiðanda og leigutaka beinlínis ráð fyrir því að við riftun skuli gerðarbeiðandi breyta skráningu í loftfaraskrá sbr. ákvæði 20.3 í samræmi við lög og reglur í skráningarríki loftfarsins, sem í þessu tilfelli sé Ísland. Breyting á skráðum umráðaaðila TF-GPA í loftfaraskrá Samgöngustofu hafi ekki farið fram fyrr en 4. apríl 2019. Hafi riftunin því enga þýðingu við úrlausn sakarefnis þessa máls.

Gerðarþoli byggir einnig á að ósannað sé að réttilega hafi verið staðið að riftun gerðarbeiðanda á leigusamningnum í samræmi við ákvæði leigusamningsins eða hvenær hún fór fram. Í því sambandi megi meðal annars benda á að í kjölfar hinnar meintu riftunar virðist gerðarbeiðandi ekki hafa gripið til neinna aðgerða til að svipta leigutaka umráðum loftfarsins, sbr. grein 20.2 í leigusamningi. Hvað sem umræddri riftun leigusamningsins líði sé ljóst að tilkynning um stöðvun för loftfars hafi réttaráhrif gagnvart umráðamanni loftfarsins. Óumdeilt sé að slíkri tilkynningu var beint að WOW air áður en félagið fór í þrot og þegar félagið var skráður umráðamaður loftfarsins í loftaraskrá Samgöngustofu. Slíka tilkynningu þurfi ekki líka að senda eiganda loftfarsins og hafi það því engin réttaráhrif hvenær eigandi sé upplýstur um stöðvun farar loftfarsins. Gerðarþoli hafi því réttilega beint heimild til að aftra för loftfarsins TG-GPA að umráðanda loftfarsins aðfararnótt 28. mars 2019 og eiganda þess sama dag.

Þá byggir gerðarþoli á því að óumdeilt sé að kröfur gerðarþola séu til komnar vegna starfsemi hlutaðeigandi umráðanda loftfarsins á Keflavíkurflugvelli sem hafi nýtt mannvirki, aðstöðu, búnað og þjónustu á grundvelli ákvæða loftferðalaga. Í aðfararbeiðni sé hvorki fjárhæð kröfunnar mótmælt né tilvist hennar. Þá hafi WOW ar aldrei sett fram slík mótmæli gagnvart reikningum gerðarþola. Gerðarbeiðandi telji aðeins að honum sé óskylt að greiða kröfuna eða að eign hans standi til tryggingar greiðslu. Því sé mótmælt af gerðarþola sem vísi til skýrra lagaheimilda í loftferðalögum um greiðsluskyldu gerðarbeiðanda.

Gerðarþoli byggir á því að 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga feli hvorki í sér eignaupptöku né skerði eignarrétt þannig að gangi gegn ákvæði 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Gerðarþoli byggir á því að löggjafinn hafi sett í lög ýmsar takmarkanir á eignarrétti sem hafi lögmætan tilgang og feli í sér að leggja höft á eignarréttindi til tryggingar greiðslu skulda. Í sumum tilvikum mæli slík lagaákvæði fyrir um tryggingar- eða greiðsluskyldu vegna skulda þriðja manns. Sé almennt talið að löggjafinn hafi svigrúm til að haga reglum einkaréttarins eftir eigin höfði, án þess að til greina komi að beita eignarnámsákvæði stjórnarskrárinnar. Geti slíkar lagareglur leitt til þess að menn verði þvingaðir til að láta af hendi eigur sínar til fullnustu skuldbindinga, sem stofnast hafi samkvæmt réttarreglum einkaréttar, jafnvel þó það hafi ekki verið tilætlun þess sem skuldbindingarnar hvíla á, eða eigi við hann að sakast. Í slíkum tilvikum sé ekki um eignarnám að ræða, jafnvel þó eignaskerðing sem rekja megi til slíkra skuldbindinga geti komið hart niður í vissum tilvikum.

Í ákvæði 1. mgr. 136. gr. loftferðalag felist tímabundin takmörkun á nýtingu eignarréttar. Gerðarbeiðandi geti aflétt þeim takmörkunum með því að greiða kröfuna eða leggja fram tryggingu til greiðslu hennar. Gerðarbeiðandi hafi hvorki greitt skuldina né sett fram tryggingar til að fá loftfarið í hendur þrátt fyrir að gerðarþoli hafi bent gerðarbeiðanda á það þegar í bréfi þann 28. mars 2019  að hann gæti sett tryggingu og fengið umráð loftfarsins í hendur. Lagaheimild 136. gr. loftferðarlaga sé í fullu samræmi við þær takmarkanir á eignarréttindum sem fræðimenn hafa talið heimilar án þess að teljast til eignarnáms. Beri í því sambandi að líta til þess, sem áður segi, að umrædd skuld WOW við gerðarþola sé til komin vegna þjónustu sem gerðarþola sé skylt að inna af hendi og sé forsenda allrar tekjuöflunar í starfsemi bæði WOW air og gerðarbeiðanda. Það sé því ekkert óvænt, ósanngjarnt eða óeðlilegt við að eign gerðarbeiðanda sem hafi verið í umráðum WOW air, standi til tryggingar á greiðslu slíkrar skuldar.

Gerðarþoli byggir á því að gjaldtaka og réttur til að aftra för loftfars komi skýrlega fram í almennum viðskipta- og samningsskilmálum gerðarþola sem gerðarbeiðandi hafi vitað um eða mátt vera kunnugt um sbr. grein 3.6 skilmálanna. 

Gerðaþoli byggir á að einu lagaskilyrðin fyrir beitingu 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga séu að gjöld séu gjaldfallin og ógreidd þegar úrræði um að aftra för loftfars sé beitt, það loftfar sem aðgerðir beinist að sé staðsett á flugvellinum og beinist að umráðanda og/eða eiganda loftfars samkvæmt loftfaraskrá Samgöngustofu.

Gerðarþoli byggir á að öll framangreind skilyrði hafi verið fyrir hendi þegar hann beitti heimild sinni samkvæmt 1. mgr. 136. gr. Gjöld fyrir veitta þjónustu samkvæmt gjaldskrá flugvallarins á grundvelli 71. gr. loftferðalaga hafi verið gjaldfallin, loftfarið hafi verið staðsett á Keflavíkurflugvelli og loftfarið hafi verið skráð í umráðum þess sem ábyrgð beri á framangreindum gjöldum lögum samkvæmt, umráðanda loftfarsins samkvæmt loftferðaskrá Samgöngustofu.

Gerðarþoli kveður skilyrði beinnar aðfarargerðar koma fram í 78. og 83. gr. laga um aðför nr. 90/1989. Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laganna geti sá krafist útburðar eða innsetningar, sem er „…með ólögmætum hætti aftrað að neyta réttinda, sem hann tjáir sig eiga og telur svo ljós, að sönnur verði færðar fyrir þeim með gögnum, sem aflað verður skv. 83. gr.“. Samkvæmt 3. mgr. 83. gr. laganna sé einungis heimilt að færa fram skjalleg sönnunargögn til stuðnings beinni aðfarargerð og skuli aðfararbeiðni að jafnaði hafnað ef varhugavert verði talið að gerðin nái fram að ganga á grundvelli þeirra sönnunargagna sem heimilt er að afla samkvæmt ákvæðinu.

Bein aðfarargerð sé ekki rétt leið til að leysa úr flóknum réttarágreiningi sem krefjist umfangsmikillar sönnunarfærslu, heldur beri að gera það eftir þeim almennu reglum sem réttarskipanin bjóði; með öflun dómsúrlausnar sem í kjölfarið megi styðja beiðni um aðfarargerð við. Skilyrði fyrir því að fallast á kröfu gerðarbeiðanda um innsetningu séu því ströng. Réttmæti umráðakröfu gerðarbeiðanda þurfi bæði að vera auðsannað og að auki nægilega hafið yfir vafa að ekki verði beitt reglu 3. mgr. 83. gr. afl. og aðfararbeiðninni hafnað þar sem varhugavert sé að hún nái fram að ganga.

Þegar framangreind grunnsjónarmið um skilyrði beinna aðfarargerða séu höfð að leiðarljósi telur gerðarþoli augljóst að hafna beri innsetningarkröfu gerðarbeiðanda.

Í fyrsta lagi leiði það beint af orðalagi þeirra lagaákvæða sem við eigi í málinu. Í 1. mgr. 78. gr. afl. segi að krefjast megi innsetningar ef gerðarbeiðanda er „með ólögmætum hætti aftrað að neyta réttinda“ sinna. Í 136. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 er sama orð notað til að lýsa heimildum gerðarþola, en þar segir að „þeim sem starfrækir flugvöll eða flugleiðsöguþjónustu er heimilt að aftra för loftfars af flugvelli uns gjöld eru greidd eða trygging sett fyrir greiðslu vegna þess loftfars sem í hlut á eða annarrar starfsemi hlutaðeigandi eiganda eða umráðanda loftfarsins.“ Óumdeilt sé að gerðarþoli starfræki flugvöll og falli því undir upptalningu á þeim aðilum sem heimilað sé að beita 136. gr. loftferðarlaga og aftra för loftfara. Óumdeilt sé að umráðaaðili þess loftfars, sem krafist sé innsetningar í, vanefndi greiðslu gjalda sem falla undir ákvæðið. Við þær aðstæður sé gerðarþola heimilt að „aftra för“ loftfarsins. Þar sem lagaákvæðið heimili þannig gerðarþola að aftra för loftfarsins, sé útilokað að gerðarþoli hafi með ólögmætum hætti aftrað gerðarbeiðanda frá því að neyta réttinda sinna, eins og 78. gr. afl. geri að skilyrði. Öftrun gerðarþola á för loftfarsins sé lögmæt og byggi á skýrri lagaheimild. Þegar af þeirri ástæðu verði að hafna innsetningarbeiðni gerðarbeiðanda.

Í öðru lagi veiti ákvæði 136. gr. loftferðarlaga gerðarþola lögbundinn haldsrétt í loftfari umráðamanns vegna ógreiddra gjalda sem falla undir ákvæðið. Í haldsrétti felist að haldsréttarhafa sé heimilt að leggja hald á eign og hafa hana í vörslum sínum þar til lögmæt skil séu gerð. Á meðan eign sé höfð í haldi missi bæði eigandi og umráðamaður umráð hennar og afnot. Þá sé réttarframkvæmdin ótvíræð um að umráðamaður geti stofnað til haldsréttar í eigum þriðja manns, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 136/2013. Haldsréttur standi óhaggaður þó gjaldþrotaskipti hefjist á búi eiganda eða umráðamanns og gangi haldsréttur fyrir öðrum kröfum að því leyti sem verðmæti hins haldlagða hrökkvi til, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 692/2010.

Ákvæði 136. gr. loftferðarlaga mæli því fyrir um haldsrétt, enda séu öll hugtaksskilyrði haldsréttar uppfyllt með orðalagi ákvæðisins. Samkvæmt orðalagi þess megi beita því gagnvart loftfari flugrekanda, hvort sem flugrekandinn sé eigandi eða umráðamaður loftfarsins. Heimildinni megi beita vegna vanskila flugrekanda hvenær sem er meðan á rekstrinum standi og nái heimildin til heimtu skulda sem tengist viðkomandi loftfari sem og skulda vegna annarrar starfsemi viðkomandi flugrekanda. Í heimildinni felist að aftra megi för loftfarsins þar til skuldin sé greidd eða trygging sett fyrir henni.

Ótvírætt sé að ekki er unnt að krefjast innsetningar í lausafé sem er undirorpið haldsrétti, sbr. hrd. 1994:1666 og dóm Hæstaréttar í málinu nr. 445/2000. Verði slík krafa þá og því aðeins tekin til greina að gerðarbeiðandi bjóði fram fullnægjandi tryggingu til greiðslu á þeirri skuld sem haldsréttur standi fyrir, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 568/2010. Af þessari ástæðu beri að hafna beiðni gerðarbeiðanda, enda hafir hann enga tryggingu boðið fyrir greiðslu þeirrar skuldar sem haldsréttur er fyrir í flugvélinni.

Í þriðja lagi byggir gerðarþoli á því að ef ákvæði 136. gr. loftferðarlaga verði ekki talið fela í sér lögbundna haldsréttarheimild, veiti ákvæðið honum veðréttindi í loftfari því sem aftrað hefur verið för á grundvelli þess. Um sé að ræða handveð, sbr. til hliðsjónar skilgreiningu 3. mgr. 1. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð. Innsetningu verði ekki komið fram gagnvart umráðamanni sem eigi handveð í því sem krafist sé innsetningar í, eins og ráða megi af forsendum í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 410/2011 og hrd. 1996:1926.

Óumdeilt sé að gerðarþoli hafi gripið til ráðstafana sem lýst sé í 136. gr. loftferðarlaga. Umrædd flugvél sé í vörslum gerðarþola og skilyrði fyrir réttarvernd handveðréttar því uppfyllt. Þar af leiðandi séu umráð gerðarþola yfir flugvélinni lögmæt og gerðarbeiðanda ókleift að krefjast innsetningar í flugvélina.

Í fjórða lagi byggir gerðarþoli á því að hann njóti réttinda yfir loftfarinu sem leiði til þess að hafna beri innsetningarbeiðni. Af réttarframkvæmd sé ljóst að innsetningu verðui ekki komið fram gagnvart þeim sem hafi hlut í vörslum sínum með lögmætum hætti. Við þær aðstæður sé það ekki ólögmætt af umráðamanni hlutarins að aftra því að eigandinn taki hlutinn í sínar vörslur. Megi meðal annars ráða þessa reglu af dómi Hæstaréttar í málinu nr. 738/2012, þar sem vísað sé til þess að „betri réttur“ umráðamanns geti komið í veg fyrir innsetningarbeiðni eiganda hlutarins. Þar sem ákvæði 136. gr. loftferðarlaga veitir gerðarþola augljóslega rétt til að aftra för loftfarsins, án tillits til þess hvaða nafn sé gefið þeim rétti, eða hvernig hann sé flokkaður í fræðikerfi lögfræðinnar, séu umráð gerðarþola yfir loftfarinu lögmæt. Gildi þá einu hvort réttindin verði flokkuð sem tryggingarréttindi, óbein eignarréttindi eða kröfuréttindi. Því verði innsetningu ekki komið við samkvæmt kröfum gerðarbeiðanda.

Af öllu framansögðu telur gerðarþoli ljóst að grundvallarskilyrði 78. gr. aðfaralaga fyrir innsetningu séu ekki uppfyllt. Umráð gerðarþola yfir loftfarinu séu lögmæt og gerðarþola sé  heimilt að lögum að aftra gerðarbeiðanda frá því að taka loftfarið í sínar vörslur. Innsetningu verður ekki komið fram við þær aðstæður.

Þá séu kröfur gerðarbeiðanda og málsástæður í annan stað studdar við það umdeilda og flókna málsatvikalýsingu að útilokað sé að leiða sakarefnið til lykta með beinni aðfarargerð. Eins og áður segi felst í beinum aðfarargerðum undantekning frá þeirri meginreglu að afla beri dóms um réttindi manna og fullnusta þau svo með aðfararbeiðni. Vegna þessa sérstaka eðlis beinna aðfarargerðar gildi takmarkanir á sönnunarfærslu við rekstur slíkra mála og beri að hafna beinum aðfarargerðum ef vafi leiki á réttindum gerðarbeiðanda. 

Þegar málatilbúnaður gerðarbeiðanda sé borinn saman við þessi grunnskilyrði innsetningar sé augljóst að bein aðfarargerð sé rangur farvegur fyrir kröfur gerðarbeiðanda. Gerðarbeiðandi byggi málatilbúnað sinn á flóknum málsatvikalýsingum sem eigi að leiða til þess að ákvæði 136. gr. loftferðarlaga verði ekki beitt „við þær aðstæður sem uppi eru í máli þessu“ eins og segir í aðfararbeiðni. Með öðrum orðum sé allur málatilbúnaður gerðarbeiðanda á því reistur að skýru orðalagi 136. gr. verði samt sem áður ekki beitt vegna aðstæðna sem gerðarbeiðandi telji sérstakar. Virðist hin sérstöku málsatvik aðallega tengjast því að gerðarbeiðandi hafi ekki verið upplýstur um skuld WOW við gerðarþola, að gerðarþoli hafi veitt WOW „eiginlega lánveitingu“ án aðkomu og samþykkis gerðarbeiðanda, að það hafi verið „ásetningur gerðarþola að leyfa WOW air hf. skuldasöfnun í skjóli þess að greiðsla yrði heimt af óviðkomandi leigusala“, að gerðarþoli hafi engan reka gert að því að krefjast uppgjörs í kjölfar skuldabréfaútboðs WOW í september 2018 og að 136. gr. loftferðarlaga verði ekki beitt nema fyrir liggi samþykki gerðarbeiðanda fyrir því. Þá byggir málatilbúnaður gerðarbeiðanda ennfremur á „inntaki samkomulags WOW air hf. og gerðarþola“ sem gerðarbeiðandi telji að sé að finna á skjali sem sé „samið af Karli og ekki breytt af neinum öðrum en Sveinbirni“, þ.e. starfsmönnum gerðarþola.

Framangreindar málsatvikalýsingar og fjölmargar fleiri sem gerðarbeiðandi styðji málsástæður sínar við verði ekki sannaðar á grundvelli þeirra skjallegu gagna sem liggi fyrir í málinu. Nægi þar að benda á þá huglægu afstöðu starfsmanna gerðarþola sem kröfur gerðarbeiðanda séu reistar á. Mun ítarlegri sönnunarfærslu þurfi til og blasi meðal annars við að leiða þurfi fjölda vitna til að bera um framangreind atvik. Þar sem kröfur gerðarbeiðanda styðjist alfarið við þessar málsástæður séu réttindi gerðarbeiðanda langt í frá nægilega skýr til að fullnægja skilyrðum innsetningar samkvæmt 83. gr. aðfararlaga. Við þær aðstæður beri að hafna aðfararbeiðninni eins og fjölmargar dómsúrlausnir Hæstaréttar bera með sér.

Gerðarþoli byggir á því að leigusamningur gerðarbeiðanda og leigutaka loftfarsins TF-GPA beri með sér að gerðarbeiðandi beinlínis geri ráð fyrir því að haldsrétti eða annars konar tryggingarréttindum yrði eða kynni að verða beint að loftförum í eigu gerðarbeiðanda vegna krafna um ógreidd gjöld á flugvöllum, þar á meðal á flugvelli gerðarþola sem leigutaki notaði sem heimahöfn sína. Í þessu sambandi bendir gerðarþoli á t.d. ákvæði í grein 6.1.2(e) í leigusamningi gerðarbeiðanda þar sem leigutaki skuli afhenda gerðarbeiðanda bréf frá leigutaka stílað á flugleiðsöguyfirvöld, flugvallaryfirvöld og aðra opinbera aðila sem geti lagt flugvallargjöld á loftfarið vegna starfsemi leigutaka, þar sem leigutaki heimilar þeim sem bréfið sé stílað á að gefa út til leigusala, að beiðni leigusala á hverjum tíma, reikningsyfirlit yfir allar skuldir leigutaka við slíkt yfirvald í tengslum við öll loftför  sem leigutaki rekur. Ákvæðið sé gerðarbeiðanda nauðsynlegt þar sem ekkert samningssamband sé eins og áður segi milli gerðarbeiðanda og gerðarþola og því gerðarþola óheimilt að afhenda gögn og upplýsingar um gjöld leigutaka og greiðslustöðu við gerðarþola.

Þá sé í grein 1.1 í leigusamningi gerðarbeiðanda hugtakið „veðband“ (e. “Lien“) skilgreint þannig að það taki meðal annars til hvers konar kvaða eða trygginga fyrir efndum, hvernig sem hún komi til, s.s. handveðs, gjalds, innheimtu, kröfu eða réttar til umráða eða til að aftra för. Þá komi fram undir skilgreiningunni „leyfilegt veðband“ (e. “Permitted Lien“) í leigusamningnum að þar undir falli að því er varði loftfarið, meðal annars veðband flugvalla og flugleiðsöguyfirvalda eða annað svipað veðband sem upp komi hverju sinni, í venjubundnum rekstri leigutaka.

Þá sé að finna ítarlegt ákvæði í leigusamningi milli gerðarbeiðanda og gerðarþola í grein 15.10 um tilhögun á greiðslu þóknana og gjalda vegna flugleiðsögu, flugvalla og annarra gjalda. Í kafla 15 í leigusamningnum, sem fjalli um rekstur loftfarsins (e. Operation of Aircraft), sé grein 15.10.1 þar sem kveðið sé á um skyldu leigutaka til að greiða gjöld útlistuð, innan tímabils sem leigutaki og viðkomandi opinber aðili eða viðkomandi flugumferðarstjórnar-, flugvallar- eða flugleiðsöguyfirvöld komi sér saman um, öll flugvallargjöld sem lögð hafi verið á og gerð hefur verið krafa um af hálfu hvers konar opinbers aðila og/eða viðeigandi flugumferðarstjórnar-, flugvallar- eða flugleiðsöguyfirvalda sem tengjast loftfarinu eða öðrum loftförum sem leigutaki reki. Samkvæmt ákvæði 15.10.2 skuli leigutaki afhenda gerðarbeiðanda lista yfir þá flugvelli sem hann starfræki loftförin í flota sínum enda sé beinlínis gert ráð fyrir í grein 12.3.2 í leigusamningi að loftfar fari milli ýmissa lögsagna þar sem mismunandi reglur gildi. Samkvæmt ákvæðinu heimili WOW ari meðal annars flugvöllum og opinberum aðilum, sem gætu gert kröfu til loftfarsins, að staðfesta við gerðarbeiðanda stöðu á greiðslum leigutaka til slíks aðila á hverjum tíma. Þá segi í grein 15.10.3 að ef för loftfarsins sé aftrað eða það tekið löghaldi í tengslum við útistandandi flugvallargjöld sem stofnað hafi verið til á leigutímabilinu, þá, án þess að það hafi áhrif á rétt leigusala skv. 20. gr., samþykki leigutaki að greiða slík gjöld eins fljótt og auðið er og tryggja að för loftfarsins sé ekki lengur aftrað eða slíku löghaldi sé aflétt. Gerðarþoli byggir á að framangreind samningsákvæði í samningi gerðarbeiðanda sýni svo ekki verði um villst að gerðarbeiðanda hafi verið fullkunnugt um að hann gæti bæði þurft að greiða gjöld sem umráðandi loftfarsins hafi stofnað til á flugvellinum í tengslum við starfsemi og að för loftfara gerðarbeiðanda yrði aftrað þar til slík gjöld væru greidd. Verði ekki önnur ályktun dregin  en sú að gerðarbeiðanda hafi verið það fullkunnugt að hann yrði krafinn um þessi gjöld ef viðsemjandinn, WOW stæði ekki skil á þessum gjöldum, einnig við þær aðstæður ef WOW yrði gjaldþrota.

Þá komi fram í grein 12.3.2  í leigusamningi gerðarbeiðanda að áður en loftfarið sé skráð í skráningaríki, en samkvæmt grein 1.1 í leigusamningi er skráningarríki loftfarsins Ísland, skal leigutaki afhenda gerðarbeiðanda lögfræðiálit (e. legal opinion) frá starfandi lögmanni í skráningarríkinu stílað á gerðarbeiðanda þar sem lögmaðurinn skal gera grein í smáatriðum fyrir þeim lögum og reglum og ferlum sem máli skipta í tengslum við efni leigusamningsins (e. „…giving details of the relevant Law and procedures in that jurisdiction“). Byggir gerðarþoli á því að á grundvelli samningsákvæðisins hvíli beinlínis afhafnaskylda á gerðarbeiðanda til þess að afla sér tæmandi upplýsinga um öll þau lög og reglur er kunni að hafa áhrif á samning hans og hið leigða loftfar. Geti gerðarbeiðandi í ljósi framangreinds lagaákvæðis ekki borið fyrir sig vanþekkingu á íslenskum lögum eða haldið því fram að efni íslenskra laga komi honum á óvart. Athafnir gerðarbeiðanda og ákvörðun hans um heimila leigutaka að hafa í leigu og nota loftför hans allt þar til WOW varð gjaldþrota staðfesta að hann tók þá ákvörðun af yfirveguðu ráði, vitandi að eigur hans kynnu að verða til tryggingar greiðslu gjaldanna ef WOW yrði gjaldþrota.   

Þá bendir gerðarþoli á að samkvæmt grein 23.1 í leigusamningi gerðarbeiðanda og WOW gilda gilda ensk lög og ensk lögsaga um samninginn. Í enskum lögum, Civil Aviation Act 1982, sé lagaákvæði sem feli í sér sams konar efnisreglu og sé að finna í 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga. Í 88. grein Civil Aviation Act, sem beri fyrirsögnina „Kyrrsetning og sala flugvélar vegna ógreiddra flugvallargjalda“ sé rekstraraðila flugvallar veitt eftirfarandi heimild: „Þar sem um er að ræða vanskil á flugvallargjöldum vegna flugvélar á flugvelli sem þessi kafli tekur til, getur yfirvald flugvallarins, í samræmi við skilmála þessa kafla –

 1.     kyrrsett, uns greiðsla berst,  annaðhvort

   

  (i) flugvélina sem stofnaði til gjaldanna (hvort sem til þeirra var stofnað af  rekstraraðila flugvélarinnar á þeim tíma sem kyrrsetning hefst);

                  eða

  (ii) hvers konar aðra flugvél þar sem rekstraraðili er í vanskilum á þeim tíma er kyrrsetning hefst; og

   

 2. séu gjöld ekki greidd innan 56 daga frá því að kyrrsetning hefst, selt flugvélina til að standa undir umræddum gjöldum.

   

  Hæstiréttur Bretlands hafi skýrt efni ákvæðisins með dómi í máli nr. CO/12012/2008. Í málinu hafi loftfar eiganda og áfrýjanda málsins, sem var í leigu flugfélagsins Zoom, kyrrsett á Glasgow flugvelli vegna ógreiddra flugvallargjalda eftir að leigutaki og umráðandi loftfarsins varð gjaldþrota. Til að fá umráð vélarinnar aftur varð eigandi loftfarsins að greiða gjöldin, ekki einungis ógreiddar upphæðir sem tengdust loftfari í hans eigu, heldur einnig kröfur vegna annarra loftfara í flota Zoom sem eigandinn hafði engin tengsl við, en í flugflota Zoom voru mun fleiri loftför leigð af öðrum leigusölum. Taldi eigandi kyrrsetta loftfarsins að það væri ósanngjarnt og ólögmætt að honum væri gert að greiða gjöld umfram þau gjöld sem tengdust loftfari hans, þekkt sem svokallað flotaveð (e. Fleet Lien). Hæstiréttur vísaði til ákvæðis 88. gr. í Civil Aviation Act. Taldi rétturinn að þegar gengið hafi verið úr skugga um að vald sé fyrir hendi samkvæmt framangreindri lagaheimild, væri beiting þess valds, að kyrrsetja vélina, jafnframt lögmæt, nema því aðeins að undir vissum kringumstæðum væri valdbeitingin ósanngjörn og óhófleg miðað við aðstæður, t.d. að beitt hefði verið blekkingum eða svikum. Stefndu í málinu, þar á meðal BAA rekstaraðili flugvalla, töldu að ógjaldfærni rekstraraðila loftfarsins, skapaði einmitt þær aðstæður þar sem þörf væri á veðheimild í flota til að tryggja greiðslu gjalda. Taldi dómurinn að þær aðstæður sem uppi voru í málinu væru ekki óvenjulegar. Taldi Hæstiréttur málið, þó eigandinn teldi sig beittan verulegu harðræði, ekki á neinn hátt þess eðlis að tilefni væri til að undanskilja það aðstæðum þar sem unnt er með réttu að beita valdheimildum 88. gr. Civil Aviation Act.

  Í ljósi þess að ensk lög og réttur gilda um leigusamning gerðarbeiðanda og leigutaka og þeirrar dómaframkvæmdar sem vísað sé til hér að framan og sérstaklega í ljósi þeirra samningsákvæða sem rakin hafa verið hafði gerðarbeiðandi fulla ástæðu til að kanna íslensk lög og reglur og ganga úr skugga um hvort þau kynnu að leiða til sambærilegrar réttarstöðu eða hafa áhrif á samning hans við leigutaka WOW.

  Framangreind atriði og ákvæði í leigusamningi gerðarbeiðanda sýni, svo hafið sé yfir allan skynsamlegan vafa, að gerðarbeiðanda var og er full kunnugt um að rekstraraðilar flugvalla hafa lagaúrræði sem gerir þeim kleift að aftra för loftfars í eigu hans vegna skulda hans og leigutaka og umráðanda loftfarsins fyrir ógreiddum gjöldum. 

  Gerðarþoli byggir á því að gerðarbeiðandi vissi eða mátti vera kunnugt um fjárhagsvandræði leigutaka loftfarsins. Því til staðfestingar sé á dskj. 32 og dskj. 33 yfirlit yfir ógreidda reikninga WOW vegna leigu á loftförum í eigu gerðarbeiðanda og annarra loftfara í óbeinni eigu móðurfélags gerðarbeiðanda. Samkvæmt yfirlitinu hafi elstu ógreiddu leigugreiðslur WOW verið frá október 2018, þar á meðal fyrir loftfarið TF-GPA.

  Þrátt fyrir að skilyrði riftunar eða uppsagnar leigusamningsins hafi fyrir löngu verið fram komin, sbr. grein 20.1.1, 20.1.24 og 20.1.25 í leigusamningi, hafi gerðarbeiðandi kosið að nýta sér ekki heimildir til riftunar, en halda fremur samstarfi við leigutaka og umráðanda loftfarsins áfram, væntanlega í þeirri von að úr rættist í starfsemi WOW og vanskilin yrðu gerð upp.

  Þá byggir gerðarþoli sömuleiðis á að gerðarbeiðandi vissi eða mátti vera vel kunnugt um fjárhagsörðugleika leigutaka loftfarsins, þ.m.t. vanskil WOW við gerðarþola, á grundvelli almennrar umræðu í innlendum og erlendum fjölmiðum um fjárhagsstöðu leigutaka loftfarsins. Samkvæmt samantekt á umfjöllun innlendra og erlendra fjölmiðla sem sé að finna á dskj. 22-25 um skuldabréfaútboð WOW, viðræður við Icelandair Group, Indigo Partners LLC og að síðustu viðræður við kröfuhafa WOW um að breyta kröfum þeirra í hlutafé sé ljóst að gerðarbeiðandi var beinn þátttakandi í þeim viðræðum við leigutakann og þar með vissi hann, mátti vera kunnugt um eða átti að geta sér til að leigutaki loftfarsins skuldaði gerðarþola flugvallargjöld. Eins og vikið var að framar hafði gerðarþoli auk þess úrræði á grundvelli leigusamningsins til þess að afla sjálfur upplýsinga beint frá gerðarþola um skuldir WOW við gerðarþola. Það gerði gerðarbeiðandi aldrei.

  Þá hafi gerðarbeiðandi haft úrræði samkvæmt leigusamningi við WOW til að krefja leigutakann um fjárhagsupplýsingar sbr. grein 11.1.1 sem kveði á um skuldbindingu um að afhenda gerðarbeiðanda staðfestan ársreikning.

  Með vísan til framangreindra staðreynda og atvika sé ljóst að engar óvenjulegar eða ósanngjarnar aðstæður séu uppi í málinu. Gerðarbeiðandi vissi eða mátti vita af skuld WOW við gerðarþola, sem og að gerðarþola var heimilt að aftra för loftfara í umráðum WOW, þ.m.t. loftfarsins í eigu gerðarbeiðanda, þar til sú skuld var að fullu upp gerð eða trygging sett fyrir henni. Þá liggi fyrir að íslenskir dómstólar hafa skýrt 136. gr. loftferðalaga þannig að ákvæðið feli í sér heimild til að aftra för loftfara þar til skuldir við gerðarþola hafa verið greiddar. Beiting ákvæðisins sé því lögmæt og því verður að hafna beiðni gerðarbeiðanda um að innsetning á grundvelli 1. mgr. 78. gr. fari fram að ganga.

  Fallist héraðsdómur á kröfu gerðarbeiðanda og heimili innsetningu mun gerðarbeiðandi þá þegar fá umráð loftfarsins og væntanlega fara með það úr landi, án þess að gerðarþoli fái rönd við reist. Við það falli niður öll réttindi gerðarþola yfir loftfarinu, en handhöfn sé til dæmis skilyrði bæði haldsréttar og handveðréttar. Myndi slík aðstaða leiða til þess að lögmæt tryggingarréttindi gerðarþola, yrði úrskurði héraðsdóms hnekkt eða breytt gerðarþola í vil, væru töpuð honum með öllu.

  Vegna hinna miklu hagsmuna sem í húfi séu, og þess gríðarlega fjártjóns sem gerðarþoli verði fyrir ef innsetning verði heimiluð áður en endanlegur dómur æðra dóms gengur, gerir gerðarþoli kröfu til vara um að kveðið verði á um það í úrskurðarorði héraðsdóms að málskot til æðra dóms, hvort sem er Landsréttar eða Hæstaréttar Íslands, fresti aðfarargerð á hendur gerðarþola þar til endanlegur dómur æðra dóms gengur. Er það eina lögmæta leiðin til að tryggja réttindi gerðarþola, yrði niðurstöðu héraðsdóms snúið við eða breytt með dómi Landsréttar eða eftir atvikum dómi Hæstaréttar. Byggir krafan á 3. mgr. 84. gr. aðfararlaga

Forsendur og niðurstaða.

Ekki er ágreiningur í máli þessu að gerðarbeiðandi sé lögmætur eigandi flugvélarinnar TF-GPA. Þá er ekki ágreiningur um að leigusamningur var á milli WOW air. hf. og gerðarbeiðanda, sérstaklega um þá flugvél.

                Í máli þessu eru efnisatriði leigusamnings WOW air hf. og gerðarbeiðanda ekki til úrlausnar.

Aðilum ber ekki saman um málsatvik en sá ágreiningur hefur ekki áhrif við úrlausn máls þessa og því ekki ástæða til að reifa þau í löngu máli utan þess sem gert er í kaflanum um málsatvik.

Ágreiningur aðila snýr að því hvort gerðarþola hafi verið heimilt að beita ákvæði 1. mgr. 136. gr. loftferðarlaga nr. 60/1998 og kyrrsetja TF-GPA og einnig hvort heimilt hafi verið að kyrrsetja flugvélina vegna allra skulda WOW air hf. við ISAVIA ohf. eða ekki.

Samkvæmt gögnum málsins tilkynnti gerðarþoli forstjóra WOW air, aðfararnótt 28. mars sl. kl. 01.40, að gerðarþoli myndi beita ákvæði 1. mgr. 136. gr. aðfaralaga. Móttók forstjóri WOW air þá tilkynningu og staðfesti með tölvupósti til gerðarþola kl. 02.31. Klukkan 08:15 lagði forstjóri WOW air inn flugrekstrarleyfi sitt hjá Samgöngustofu. Klukkan 13.30 var félagið WOW air úrskurðað gjaldþrota. Síðar þann sama dag tilkynnti gerðarþoli gerðarbeiðanda um að TF-GPA hafi verið kyrrsett með vísan til 1. mgr. 136. gr. loftferðarlaga. Skráningu á flugvélinni var síðan breytt hjá Samgöngustofu þann 4. apríl sl. Samkvæmt þessu var tilkynningu gerðarþola beint til réttra aðila, WOW air hf. og gerðarbeiðanda. 

Við uppkvaðningu úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur þann 28. mars sl. um að WOW air hf. skyldi tekið til gjaldþrotaskipta fluttust réttindi og skyldur WOW air hf. til þrotabúsins. Hafði WOW air. hf. eftir uppkvaðningu gjaldþrotaúrskurðar enga aðild að samningum sem gerðir voru í nafni félagsins.

Gjaldþrot WOW air og tímasetningar tilkynninga um beitingu 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga, hvenær flugrekstrarleyfinu var skilað til Samgöngustofu, úrskurður um að bú WOW ari skyldi tekið til gjaldþrotaskipta, og tilkynning til gerðarbeiðanda um beitingu 1. mgr. 136. gr. laganna hafa ekki áhrif við úrlausn máls þessa, en gjaldþrotaskipti WOW air hafa ekki áhrif á réttarstöðu gerðarbeiðanda gagnvart gerðarþola og öfugt, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 136/2013. Verður því ekki fallist á þá málsástæðu gerðarbeiðanda að samningur gerðarbeiðanda við WOW air hf. og uppsögn á leigusamningi um flugvélina hafi þau áhrif að skuld WOW air sé gerðarbeiðanda óviðkomandi og að gerðarþola beri að lýsa kröfum sínum í þrotabúið. 

Þá liggur fyrir í gögnum málsins eins og rakið er í greinargerð gerðarþola að gerðarbeiðandi vissi eða mátti vita um skuldastöðu leigutaka síns gagnvart ISAVIA ohf. Verður það ekki rakið frekar hér.

                Í 1. mgr. 136. gr. loftferðarlaga nr. 60/1998 segir meðal annars að Samgöngustofu og þeim sem starfrækir flugvöll eða flugleiðsöguþjónustu sé heimilt að aftra för loftfars af flugvelli uns gjöld eru greidd eða trygging sett fyrir greiðslu vegna þess loftfars sem í hlut á eða annarrar starfsemi hlutaðeigandi eiganda eða umráðanda loftfarsins. Í greinargerð með 136. gr. laganna segir að greinin komi í stað 149. gr. eldri laga en gildissviðið hafi verið útvíkkað nokkuð frá því sem gilt hafði, því samkvæmt eldri lögum takmarkaðist beiting þessarar heimildar við síðustu lendingu þess loftfars sem í hlut átti. Í 1. mgr. 136 gr. laganna segir skýrum orðum að heimilt sé að aftra för loftfars vegna gjalda þess loftfars sem hlut á að máli svo og annarrar starfssemi hlutaðeigandi eiganda eða umráðanda loftfarsins.

                Ekki er að finna í lögskýringargögnum hvað löggjafinn á við með orðunum „annarrar starfsemi hlutaðeigandi eiganda eða umráðanda loftfarsins“. Verður 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga því túlkuð samkvæmt orðanna hljóðan.

Samkvæmt gögnum og yfirliti yfir skuldir WOW air hf. við ISAVIA ohf. eru ógreidd flugumferðar- og flugvallagjöld flugvélarinnar TF-GPA fyrir tímabilið júlí 2018 til 15. desember 2018 að fjárhæð 55.487.390 krónur og lendinga- og brottfarargjöld fyrir sama tímabil EUR 351.259 eða um 48.000.000 króna. Ekki er ágreiningur um heimildir ISAVIA til að innheimta gjöld fyrir þá þjónustu sem félaginu er skylt að veita flugrekstraraðilum eða hefur til þjónustu og flugrekstraaðilar óska eftir kaupum á samkvæmt 71. gr. loftferðarlaga.

Samkvæmt yfirliti um komu og brottfarir TF-GPA kom vélin til Keflavíkur 3. desember sl. og fór sama dag til BGR flugvallar í Bandaríkjunum. Kom flugvélin næst til Keflavíkur þann 12. mars sl. en fór 18. mars til Kaupmannahafnar og sama dag til Íslands. Hefur flugvélin verið á Keflavíkurvelli frá þeim tíma.

Gerðarþoli byggir kröfu sína á því að heildarskuldir WOW air hf. við ISAVIS séu  tæplega tveir og hálfur milljarður vegna allt að fimmtán flugvéla sem WOW air var með í notkun. Telur gerðarþoli, með vísan til dóms Hæstaréttar í Bretlandi, mál nr. CO/12012/2008,  að heimilt sé að beita svokölluðu flotaveði (e. Fleet Lien), vegna skulda WOW air.  Frá því að skuldir WOW air hafi farið að safnast upp hafi félagið verið með fimmtán loftför á flugrekstrarleyfi félagsins. Þar af hafi ellefu vélar verið frá ellefu dótturfélögum móðurfélags gerðarbeiðanda. Í byrjun mars sl. hafi WOW air hætt að greiða til gerðarþola í samræmi við greiðsluáætlun sína.  Telur gerðarþoli að 1. mgr. 136. gr. loftferðarlaga nái yfir allar skuldir WOW air við ISAVIA, hvort sem þær hafi orðið til vegna TF-GPA eða annarra flugvéla í umráðum WOW air.

Samkvæmt því sem liggur fyrir í gögnum málsins lagði WOW air fram greiðsluáætlun þann 21. nóvember 2018 þannig að félagið myndi greiða  30.000.000 króna mánaðarlega frá 1. nóvember 2018 til og með 1. maí 2019 en 145.000.000 króna frá 3. júní 2019 til 1. nóvember 2019. Átti heildarskuldin þá að vera uppgerð. Áttu fyrstu greiðslurnar að greiðast inn á kostnað vegna innheimtu, næst að greiða niður dráttarvexti af hverri ógreiddri greiðslu sem ISAVIA velur að ráðstafa innborgun inn á og greiða, því næst innáborgun viðkomandi greiðslu og síðan koll af kolli þar til öll ógreidd notendagjöld væru uppgreidd. Önnur flugtengd gjöld sem leiði af starfsemi WOW átti að greiða með 15 daga greiðslufresti eða staðgreiða. Greiðslum átti að jafna á móti elstu viðskiptakröfu í bókhaldi ISAVIA hverju sinni.

Þann sama dag eða 21. nóvember 2018 undirritaði forstjóri WOW air yfirlýsingu vegna ofangreindrar greiðsluáætlunar þar sem WOW air kvaðst munu tryggja að að minnsta kosti ein flugvél á flugrekstrarleyfi félagsins yrði á Keflavíkurflugvelli eða á leið til Keflavíkurflugvallar og komin með staðfestan komutíma á öllum tímum á gildistíma greiðsluáætlunarinnar.

Samkomulag það sem WOW air og gerðarþoli gerðu með sér til lausnar á skuldum WOW air við gerðarþola, breyta engu um það hvort gerðarþola var heimilt að kyrrsetja flugvél í umráðum WOW air til tryggingar ógreiddum gjöldum hjá gerðarþola. Breytir samkomulag þetta engu um réttarstöðu gerðarþola eða gerðarbeiðanda varðandi þann ágreining sem hér er til úrlausnar, hvort sem gerðarbeiðanda var kunnugt um það samkomulag eða yfirlýsingu forstjóra WOW air eða ekki frá 21. nóvember sl.

Í gögnum málsins liggja fyrir skjöl er tengjast skuldabréfaútboði WOW air og annarra tilrauna félagsins til að bæta fjárhagsstöðu þess. Skiptir það engu fyrir niðurstöðu máls þessa og verður ekki fjallað frekar um það.

Ágreiningslaust er að gerðarbeiðandi er eigandi flugvélar þeirrar sem mál þetta er sprottið af og hefur hann lýst því yfir að hann sé tilbúinn til að greiða þá skuld sem skapast hefur vegna TF-GPA. Ágreiningslaust er að lendingargjöld og önnur gjöld vegna flugvélarinnar frá júlí 2018 til og með desember 2018 hafa ekki verið greidd. Þá hefur gerðarþoli ekki samþykkt sáttaboð gerðarbeiðanda um greiðslu eða tryggingu til að leysa mál þetta þar sem hann telur það ekki fullnægjandi.

Eins og rakið er að framan og kemur fram í greinargerð gerðarþola voru aðrar flugvélar sem WOW air var með á leigu í eigu annarra félaga en gerðarbeiðanda.

Eins og 1. mgr. 136. gr. loftferðarlaga nr. 60/1998 verður túlkuð og meðhliðsjón af fátæklegum lögskýringagögnum telur dómurinn að ákvæðið veiti ekki heimild til þess að aftra loftfari brottför vegna ógreiddra gjalda annarra eigenda/umráðenda flugvéla þrátt fyrir að sama félag, í þessu tilviki WOW air hf., hafi verið með fleiri flugvélar á leigu frá öðrum leigusölum en gerðarbeiðanda. Hefði skýr heimild til slíks íþyngjandi aðgerða þurft að vera ákveðin með lögum. Svo er ekki. Þá getur slík rúm túlkun ákvæðisins orðið til þess að gerðarþoli gæti valið sér flugfar í eigu ákjósanlegs eiganda til að innheimta ógreidd gjöld umráðamanns flugvéla. Verður gerðarbeiðandi því ekki látinn bera ábyrgð á því að WOW air hf. hafi stofnað til skulda vegna annarra leigusamninga við óskyldan þriðja aðila.

Dómurinn telur hins vegar að 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga heimili gerðarbeiðanda að beina kröfu sinni að eiganda flugvélar eins og umráðamanni samkvæmt orðalagi ákvæðisins.

Er niðurstaða dómsins sú að gerðarþola er heimilt að hamla för flugvélarinnar TF-GPA frá Keflavíkurflugvelli á meðan gjöld tengd þeirri flugvél eru ógreidd en ekki vegna ógreiddra annarra gjalda WOW air. hf. við ISAVIA vegna flugvéla í eigu þriðja aðila.

Gerðarbeiðandi byggir kröfu sína um innsetningu á 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Í 78. gr. kemur fram að ef manni er með ólögmætum hætti aftrað að neyta réttinda, sem hann tjáir sig eiga og telur svo ljóst, að sönnur verði færðar fyrir þeim með gögnum, sem aflað verður skv. 84. gr. sé honum heimilt að beita til héraðsdómara beiðni um skyldu þess efnis. Í 3. mgr. 83. gr. laganna segir að að jafnaði skuli aðfararbeiðni hafnað, ef varhugavert verði talið að gerðin nái fram að ganga á grundvelli þeirra sönnunargagna, sem heimilt sé að afla samkvæmt áðursögðu. Er sönnunarbyrðin gerðarbeiðanda.

Í máli þessu hefur gerðarþoli sýnt fram á að hann eigi fjárkröfu á hendur gerðarbeiðanda, hvort sem það er umráðamaður flugvélarinnar á forræði gerðarbeiðanda eða eigandi loftfarsins samkvæmt 1. mgr. 136. gr. loftferðarlaga.

Þar sem gerðarþoli hefur sýnt fram á að hann hafi haft heimild til að beita ákvæði 1. mgr. 136. gr. loftferðarlaga og að hann eigi fjárkröfu á hendur eiganda loftfarsins, hefur gerðarbeiðandi ekki sýnt fram á að honum sé með ólögmætum hætti aftrað að neyta réttinda sinna eins og skilyrði 78. gr. laga nr. 90/1989 krefjast.

Í máli þessu verður ekki leyst úr þeirri málsástæðu gerðarþola að hann eigi haldsrétt í umþrættu loftfari vegna krafna sinna.

Að öllu framansögðu virtu verður kröfu gerðarbeiðanda um að farþegaþota af gerðinni Airbus A321-211, með skráningarnúmerið TF-GPA, sem staðsett er á Keflavíkurflugvelli, verði tekin með beinni aðfarargerð úr vörslum gerðarþola ISAVIA ohf., og fengin gerðarbeiðanda til fullra og takmarkalausra umráða, hafnað.

Að þessum niðurstöðum fengnum og eðli málsins þykir rétt að hvor aðili beri sinn málskostnað.

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ.

Kröfu gerðarbeiðanda um að farþegaþota af gerðinni Airbus A321-211, með skráningarnúmerið TF-GPA, sem staðsett er á Keflavíkurflugvelli, verði tekin með beinni aðfarargerð úr vörslum gerðarþola ISAVIA ohf., og fengin gerðarbeiðanda til fullra og takmarkalausra umráða er hafnað.

                Málskostnaður fellur niður.