Print

Mál nr. 782/2017

Barnaverndarnefnd Eyjafjarðar (Sigmundur Guðmundsson lögmaður), A og B (Þyrí H. Steingrímsdóttir lögmaður)
gegn
C (Árni Pálsson lögmaður)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns
Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var beiðni C um dómkvaðningu matsmanns.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kærum 5. desember 2017 en kærumálsgögn bárust réttinum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 23. nóvember 2017 þar sem tekin var til greina beiðni varnaraðila um dómkvaðningu matsmanns. Kæruheimild var í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að framangreindri beiðni varnaraðila verði hafnað.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Að gengnum dómi Hæstaréttar 15. febrúar 2017 í máli nr. 15/2017 eru dómkröfur varnaraðila í efnisþætti málsins aðallega þær að honum verði í fyrsta lagi falin forsjá barnsins D til 18 ára aldurs og í öðru lagi að ógilt verði með dómi ákvörðun sóknaraðilans Barnaverndarnefndar Eyjafjarðar um að vista barnið í varanlegu fóstri til 18 ára aldurs og að fóstursamningur sem sóknaraðilinn Barnaverndarnefnd Eyjafjarðar gerði 2. júlí 2013 við sóknaraðilana A og B verði ógiltur. Verði kröfu sóknaraðila um forsjá hafnað gerir varnaraðili þá kröfu til vara að úrskurður sóknaraðilans Barnaverndarnefndar Eyjafjarðar 28. ágúst 2013 um umgengni við barnið D verði felldur úr gildi.

Í hinum kærða úrskurði er gerð grein fyrir kröfu varnaraðila um dómkvaðningu matsmanns og þeim spurningum sem varnaraðili óskar eftir að lagðar verði fyrir matsmann og hann leggi sérfræðilegt mat á. Með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar er staðfest sú niðurstaða að umbeðin dómkvaðning fari fram og að fyrir matsmann verði lagðar fyrsta og önnur matsspurning en ekki sú fjórða.

Með þriðju matsspurningunni óskar varnaraðili eftir því að matsmaður taki afstöðu til þess hvernig best sé að haga umgengni varnaraðila við barnið verði ekki fallist á forsjárkröfu hans, þannig að best verði tryggðir hagsmunir þess og réttur varnaraðila og barnsins til að umgangast hvort annað. Málatilbúnaður varnaraðila er að þessu leyti á því reistur að þó svo að Hæstiréttur hafi með dómi í máli nr. 15/2017 staðfest að inntak umgengnisréttar varnaraðila og barnsins verði ekki ákveðinn með dómi eigi dómstólar eigi að síður úrskurðarvald um hvort ákvörðun barnaverndarnefndar 28. ágúst 2013 hafi verið byggð á lögmætum grunni. Eins og greinir í hinum kærða úrskurði ber þriðja matsspurningin þess merki að hafa verið ætlað að styðja við þá varakröfu varnaraðila sem vísað var frá héraðsdómi með dómi Hæstaréttar í máli nr. 15/2017 en ekki þá varakröfu sem eftir stendur að gengnum þeim dómi. Samkvæmt þessu og þar sem telja verður að umrædd matsspurning sé bersýnilega tilgangslaus til sönnunar um hvort barnaverndarnefnd hafi byggt umrædda ákvörðun sína um umgengnisrétt á lögmætum grunni, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991, verður þriðja matsspurningin ekki lögð fyrir matsmann.

Rétt er að hvor aðila beri sinn kostnað af rekstri málsins hér fyrir dómi.

Varnaraðila hefur ekki verið veitt gjafsókn vegna kærumáls þessa og verður gjafsóknarkostnaður því ekki dæmdur.

Dómsorð:

Dómkvaddur skal matsmaður samkvæmt beiðni varnaraðila, C, til að leggja mat á þau atriði sem greinir í fyrstu og annarri matsspurningu.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 23. nóvember 2017

Mál þetta er höfðað 27. og 31. maí 2016 af C, [...], Akureyri á hendur Barnaverndarnefnd Eyjafjarðar, Akureyri, og B og A, til heimilis í [...], Akureyri. Í þessum þætti málsins, sem tekinn var til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi  fimmtudaginn 28. september, krefst stefnandi þess að dómkvaddur verði matsmaður til að leggja mat á forsjárhæfni stefnanda og fleiri atriði. Stefndu krefjast þess að synjað verði um dómkvaðninguna.

Í málinu sjálfu eru dómkröfur stefnanda þessar: „Stefnandi gerir aðallega eftirfarandi dómkröfur: 1. Að stefnanda verði með dómi falin forsjá barnsins D, kt. [...] til 18 ára aldurs hennar. 2. Að ógilt verði með dómi ákvörðun stefndu, barnaverndarnefndar Eyjafjarðar, um að vista barnið D, kt. [...] í varanlegu fóstri til 18 ára aldurs og að fóstursamningur dags. 2. júlí 2013 verði ógiltur. Verði kröfu stefnanda um forsjá hafnað gerir stefnandi [þá varakröfu að úrskurður stefndu, barnaverndarnefndar Eyjafjarðar, um umgengni stefnanda við barnið C, kt. [...], dags. 28. ágúst 2013 verði felldur úr gildi. [...] Þess er í öllum tilvikum krafist að stefndu, B, kt. [...] og A, kt. [...], verði gert að þola dóm í máli þessu.“ Loks krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu Barnaverndarnefndar Eyjafjarðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Stefndu krefjast sýknu af öllum kröfum stefnanda.

Upphaflega krafðist stefnandi þess, sem annarrar varakröfu, að með dómi yrði kveðið á um inntak umgengnisréttar stefnanda við barnið.

Stefndu kröfðust öll frávísunar málsins í heild.

Með úrskurði héraðsdóms, uppkveðnum 19. desember 2016, var málinu vísað frá dómi. Með dómi í máli nr. 15/2017 staðfesti Hæstiréttur Íslands frávísun áðurgetinnar annarrar varakröfu stefnanda en lagði fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar að öðru leyti.

Milli stefnanda og stefndu Barnaverndarnefndar var rekið annað mál vegna sömu atvika. Hinn 18. marz 2015 höfðaði stefnandi mál á hendur stefndu Barnaverndar­nefnd og krafðist þess að ógilt yrði ákvörðun nefndarinnar um að vista barnið í varanlegu fóstri og að sér yrði falin forsjá þess. Til vara krafðist hann þess að ákveðið yrði inntak umgengnisréttar síns við barnið. Málinu var vísað frá dómi með úrskurði 18. júní 2015. Hæstiréttur Íslands staðfesti þann úrskurð með dómi í máli nr. 459/2015 sem kveðinn var upp 13. ágúst 2015.

Í matsbeiðni sinni, dags. 6. september 2017, óskar stefnandi eftir því að „,matsmaður skoði og leggi sérfræðilegt mat á neðangreinda þætti:

1. Aðstæður og hæfi [stefnanda] til þess að fara með forsjá stúlkunnar, þ. á. m. helstu persónuleikaeinkenni og tengslahæfni.

2. Stöðu og líðan stúlkunnar og sérþarfir, ef við á, og getu matsbeiðanda til að sinna þeim.

3. Óskað er eftir að matsmaður fjalli einnig um hvernig best væri að haga umgengni [stefnanda] við barnið, ef ekki verður fallist á forsjárkröfu hans, þannig að best verði tryggðir hagsmunir barnsins og réttur [stefnanda] og barnsins til að umgangast hvort annað.

4. Annað það sem matsmaður telur nauðsynlegt vegna málsins.“

Málsástæður stefnanda í þessum þætti málsins

Stefnandi segir forsjárhæfnismat mjög mikilvægt í málinu, til að varpa ljósi á forsjárhæfni sína vegna kröfu sinnar um forsjá. Synjun um öflun matsgerðar stríði gegn meginreglum um réttláta málsmeðferð.

Svar matsmanns um hvernig umgengni stefnanda við barnið yrði bezt fyrir komið megi nota til að undirbyggja kröfu um ógildingu úrskurðar um umgengnina. Einnig geti svarið komið að notum ef aðilar reyna sættir.

Stefnandi segir dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 15/2017 bindandi og verði málinu því ekki vísað frá nú, eins og stefndu hafi lagt til.

Stefnandi segir að ekki sé hægt að hafna matsbeiðni vegna orðalags þar eða vegna þess að spurningar séu of víðar. Hugsanlega megi breyta orðalagi spurninga með samkomulagi aðila.

Málsástæður stefndu í þessum þætti málsins

Öll stefndu krefjast þess að synjað verði um dómkvaðningu. Vísa þau til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 334/2017, sem kveðinn var upp 21. júní 2017, og segja að ljóst sé af þeim dómi að stefnandi þessa máls eigi ekki lögvarða hagsmuni vegna kröfu um forsjá barnsins, en í dóminum komi fram að krafa um forsjá gangi í berhögg við 2. gr. stjórnarskrárinnar. Málsatvik séu mjög sambærileg og dómkröfur einnig.

Öll stefndu segja að matsgerð, þar sem reynt væri að varpa ljósi á forsjárhæfni stefnanda sé tilgangslaus, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Eigi hið sama við um mat á inntaki umgengni enda hafi Hæstiréttur, í dómi í máli nr. 15/2017, staðfest frávísun kröfu stefnanda um að kveðið verði á um inntak umgengni hans verið barnið.

Stefnda Barnaverndarnefnd segir að í matsbeiðni sé ekki byggt á því að mat á eðlilegri umgengni sé ætlað að rökstyðja kröfu um ógildingu ákvörðunar barnaverndarnefndar. Ekki komi heldur fram í matsbeiðninni hvað eigi að sanna með matinu.

Stefnda Barnaverndarnefnd segir að stefnandi hafi með tómlæti glatað rétti til að biðja um mat. Stefnda vísar til fyrra máls stefnanda á hendur sér og þess tíma sem liðið hafi frá þingfestingu þessa máls og þar til matsbeiðni hafi verið lögð fram. Kveðst stefnda vísa hér til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 558/2011.

Stefndu A og B segja að afla megi upplýsinga um líðan og stöðu barnsins með einfaldari hætti en dómkvaðningu matsmanns, svo sem með því að afla upplýsinga frá leikskóla og barnaverndarnefnd. Dómkvaðning matsmanns, með tilheyrandi rannsóknarvinnu, sé íþyngjandi fyrir barnið.

Stefndu A og B segja matsbeiðni mjög óljósa og að í raun séu ekki lagðar fram sérstakar matsspurningar heldur álitamál sem matsmanni sé ætlað að hafa skoðun á. Eigi þetta við um öll atriðin en sérstaklega það síðasta.

Niðurstaða

Í öndverðu kröfðust öll stefndu frávísunar málsins og féllst dómurinn á þá kröfu með úrskurði. Svo sem rakið hefur verið staðfesti Hæstiréttur Íslands þá niðurstöðu einungis að því er varðaði þáverandi aðra varakröfu stefnanda. Í dómsorði var lagt fyrir héraðsdóm að taka málið að öðru leyti til efnismeðferðar. Í þessum þætti málsins byggja öll stefndu á nánar tilteknum hæstaréttardómi sem síðar féll og varðar annað mál. Túlka stefndu þann dóm svo að samkvæmt honum sé ljóst að stefnandi þessa máls hafi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta með kröfu sinni um forsjá og synja beri um dómkvaðningu matsmanns. Hafa öll stefndu raunar lýst yfir fyrir dómi að þau telji efni til þess að dómurinn vísi málinu frá að eigin frumkvæði.

Að mati dómsins getur túlkun á umræddum hæstaréttardómi, sem varðar annað mál, ekki breytt afdráttarlausum fyrirmælum Hæstaréttar Íslands um að héraðsdómur taki til efnismeðferðar það mál sem hér er rekið, þar á meðal kröfu stefnanda um að sér verði veitt forsjá stúlkunnar.

Frávísun héraðsdóms á kröfum stefnanda var meðal annars reist á því að þær væru vanreifaðar. Var þar á meðal talið að eigin hæfni stefnanda til að fara með forsjána væri vanreifuð. Í forsendum Hæstaréttar Íslands fyrir dómi í máli nr. 15/2017 segir meðal annars að stefnandi muni eiga þess kost undir rekstri málsins í héraði að afla sönnunargagna og eftir atvikum flytja fram nýjar málsástæður telji hann þörf á því til frekari skýringar málatilbúnaði sínum auk þess sem dómari hafi heimild 2. mgr. 56. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 til að leggja fyrir aðila að afla nánar tilgreindra gagna. Yrði málinu því ekki vísað frá vegna vanreifunar.

Með matsbeiðni sinni nú freistar stefnandi þess að leiða eigin forsjárhæfni í ljós. Er það að því leyti til þess fallið að upplýsa málið.

Það er meginregla að í barnaverndarstarfi skal beita þeim ráðstöfunum sem ætla má að barni séu fyrir beztu og skulu hagsmunir barna hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda, svo sem kveðið er á um í 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Í íslenzkum barnarétti er meginregla að hagsmunir barns séu hafðir í fyrirrúmi. Verður að telja að í máli, sem snýst um kröfur eins og reynir á í þessu máli, séu hagsmunir barnsins, sem í hlut á, að málið upplýsist sem bezt, áður en ákvarðanir eru teknar sem varða svo mikilsverða hagsmuni þess. Þykir verða að horfa til þess við úrlausn þessa þáttar málsins.

Stefnda Barnaverndarnefnd byggir á því að stefnandi hafi með tómlæti glatað rétti til að óska eftir mati. Nokkuð langt er vissulega frá því málaferli milli aðila hófust, eins og rakið hefur verið. Þegar á allt er horft, og þá ekki sízt framangreinda hagsmuni barnsins af því að málið upplýsist sem bezt, telur dómurinn þó að sá tími, sem þegar er liðinn af málaferlunum, eigi hér ekki að valda því að synjað verði um mat.

Stefndu A og B benda á að fyrirsjáanleg rannsóknarvinna matsmanns verði barninu íþyngjandi. Þótt slíku verði ekki með öllu vísað á bug verður að leggja til grundvallar að matsmaður muni vinna starf sitt af nærgætni gagnvart barninu og gæta þess að raska ró þess sem minnst. Ekkert hefur komið fram sem bendir til að þessu barni yrði slík rannsóknarvinna þungbærari en öðrum börnum.

Í matsbeiðni sinni greinir stefnandi ekki sérstaklega hvað hann hyggst sanna með matinu. Telja verður þó ljóst að með beiðni sinni um að metnar verði aðstæður sínar og forsjárhæfni hyggist hann renna stoðum undir þá kröfu sína að sér verði falin forsjá barnsins. Sama má segja um þá ósk hans að metin verði geta sín til að sinna þörfum stúlkunnar. Við munnlegan málflutning var bent á það af hálfu stefndu Barnaverndarnefndar að stefnandi óskaði ekki eftir að hæfni stefndu A og B yrði metin, en við úrlausn kröfu stefnanda um forsjá mætti vænta samanburðar á stefnanda og þessum stefndu að þessu leyti. Að mati dómsins verður, þrátt fyrir þetta, ekki fullyrt með vissu á þessu stigi að það mat, sem stefnandi óskar þarna eftir, sé sjáanlega tilgangslaust. Að öllu samanlögðu þykir verða að fallast á kröfu stefnanda um dómkvaðningu matsmanns til að svara fyrstu álitaefnunum, en þau þykja ekki svo óskýrt orðuð í matsbeiðni að varði því að ekki verði dómkvatt.

Þriðja álitaefnið sem stefnandi óskar borið undir matsmann ber þess merki að vera ætlað að byggja undir þá varakröfu stefnanda sem vísað hefur verið frá dómi. Í matsbeiðni er ekki byggt á því að henni sé ætlað að byggja undir þá varakröfu sem eftir stendur. Á því var hins vegar byggt af hálfu stefnanda við munnlegan málflutning. Þótt dómstólar kveði ekki á um inntak umgengnisréttar eiga þeir úrskurðarvald um hvort barnaverndarnefnd hafi byggt ákvörðun sína á lögmætum grunni. Ekki þykir alveg bersýnilegt að niðurstaða matsmanns um þetta álitamál sé tilgangslaus til sönnunar um þá varakröfu stefnanda sem hugsanlega mun koma til úrlausnar við efnismeðferð málsins og verður því ekki synjað um dómkvaðningu matsmanns að því leyti.

Fjórða atriðið sem stefnandi vill fá beint til matsmanns er hins vegar að mati dómsins of opið og óskilgreint til þess að það verði borið undir matsmann, en í matsbeiðni skal koma skýrlega fram hvað meta skal, sbr. 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991.

Með vísan til alls framanritaðs verður krafa stefnanda um dómkvaðningu matsmanns tekin til greina en þó þannig að fjórði matsþáttur verður ekki lagður fyrir matsmann.

Halldóra Kristín Hauksdóttir hdl. fer með málið fyrir stefnanda, Sigmundur Guðmundsson hdl. fyrir stefndu Barnaverndarnefnd og Þyrí Halla Steingrímsdóttir hrl. fyrir stefndu A og B. Gætt var 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

Þorsteinn Davíðsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Dómkvaddur skal matsmaður samkvæmt beiðni stefnanda. Fjórða matsatriði skal þó ekki lagt fyrir matsmann.