Print

Mál nr. 90/2017

A (Sveinn Andri Sveinsson hrl.)
gegn
Velferðarsviði Reykjavíkur (Kristbjörg Stephensen hrl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Nauðungarvistun
Reifun
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem nauðungarvistun A var framlengd um 12 vikur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. febrúar 2017 en kærumálsgögn bárust réttinum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. janúar 2017 þar sem nauðungarvistun sóknaraðila á sjúkrahúsi var framlengd í tólf vikur með heimild til rýmkunar samkvæmt mati yfirlæknis.  Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann þóknunar til handa talsmanni sínum vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur með þeim hætti sem í dómsorði greinir, sbr. 1. mgr. 29. gr. a. lögræðislaga.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun talsmanns sóknaraðila sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur þannig að nauðungarvistun sóknaraðila, A, stendur í tólf vikur frá 31. janúar 2017 að telja.

Þóknun talsmanns sóknaraðila, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns,  vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 124.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. janúar 2017.

 

I.

Með kröfu 26. janúar 2017 sem barst réttinum sama dag, krefst sóknaraðili, velferðarsvið Reykjavíkurborgar, þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að nauðungarvistun A, kt. [...],[...], í 21 sólarhring frá 10. janúar sl., verði framlengd til 12 vikna, með heimild til rýmkunar samkvæmt mati yfirlæknis, sbr. 29. gr. a. lögræðislaga nr. 71/1997. Aðild sóknaraðila styðst við 20. gr. laga nr. 71/1997, með síðari breytingum.

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Þá er þess krafist af hans hálfu að þóknun skipaðs verjanda hans Sveins Andra Sveinssonar hrl. greiðist úr ríkissjóði í samræmi við 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997.

Málið var þingfest 26. janúar 2017 og strax í kjölfarið var tekin skýrsla af vitni og síðan fór fram munnlegur málflutningur og málið tekið til úrskurðar að honum loknum.

II

Um helstu málsatvik, sem studd eru gögnum, segir í kröfu sóknaraðila til dómsins, að varnaraðili hafi komið til innlagnar á bráðageðdeild Landspítalans 32C hinn 6. janúar sl. Áður hafði hann leitað á bráðaþjónustu geðsviðs í lok nóvember 2016. Frá innlögn hafi varnaraðili verið verulega veikur með mikil örlyndis- og geðrofseinkenni. Þá komi fram í málsgögnum að hann hafi verulega skert sjúkdómsinnsæi. Jafnframt að reynt hafi verið að fá varnaraðila til að þiggja áframhaldandi meðferð á sjúkrahúsi en það sé mat meðhöndlandi læknis varnaraðila að hann sé enn of veikur til að geta gefið upplýst samþykki um áframhaldandi meðferð. Þó sé varnaraðili í hægum bata en áframhaldandi sjúkrahúsvist honum hins vegar nauðsynleg.

Um málsatvik vísar sóknaraðili að öðru leyti til málsatvikalýsingar í framlögðu læknisvottorði og annarra gagna málsins.

III.

Kröfu um framlengingu nauðungarvistunar til 12 vikna grundvallar sóknaraðili á heimild í 29. gr. a lögræðislaga nr. 71/1997 og byggir á því að varnaraðili eigi við geðsjúkdóm að stríða eða verulegar líkur séu á því að svo sé og að læknar telji framlengingu nauðungarvistunar óhjákvæmilega. Ekki hafi náðst samvinna um áframhaldandi innlögn að 21 degi loknum.

Í niðurlagi vottorðs B geðlæknis segi: „Hann er betri af sínum einkennum en ljóst þykir að 21 dags nauðungarvistun er ekki nóg til að tryggja honum fullan bata og er að auki hætta á frekari versnun verði hann útskrifaður of snemma. Það er því mat undirritaðrar að áframhaldandi nauðungarvistun í allt að 12 vikur með rýmkun sé nauðsynleg.“

Með hliðsjón af framanrituðu, gögnum málsins og aðstæðum öllum telji sóknaraðili að framlenging nauðungarvistunar til 12 vikna sé nauðsynleg svo unnt sé að veita varnaraðila viðeigandi læknismeðferð en henni verði ekki komið við með öðrum hætti.

IV.

Í málinu liggur fyrir vottorð B geðlæknis frá 24. janúar sl. Þar er gerð grein fyrir sjúkdómsferli og félagslegum aðstæðum varnaraðila. Varnaraðili er að verða 34 ára, einhleypur og barnlaus. Hann kveðst hafa verið með ADHD frá barnsaldri en hafi ekki verið formlega greindur fyrr en 2012 af geðlækni starfandi á stofu. Hann hefur frá þeim tíma notað á stundum Concerta. Varnaraðili byrjaði að drekka áfengi á unglingsaldri en frá 25 ára aldri verið í blandaðri neyslu, fyrst og fremst kókaíni og amfetamíni og þá að sögn einkum af og til um helgar. Undanfarna mánuði hefur hann einnig notað stera, testosteron auk náttúrulyfja, en varnaraðili kveðst hafa verið í töluverðri neyslu frá ársbyrjun 2016 eftir að hann hætti í vinnu.

Fyrsta koma varnaraðila á geðdeild var 24. nóvember sl. [...] Var þarna metin ör og með jaðarranghugmyndir. Vildi þó ekki sæta eftirliti en samþykkti að taka lítinn skammt af geðrofslyfi til að tryggja svefn.

Varnaraðili kom næst á bráðaþjónustu geðsviðs með systur sinni 6. janúar sl. Var þá að mati lækna í kláru örlyndi með geðrofseinkenni. Var hann verulega hugsanatruflaður og gerði sér litla grein fyrir sér eða aðstæðum sínum. Að sögn geðlæknis á bráðageðdeild 32C tókst með eftirgangsmunum að fá varnaraðila til að samþykkja innlögn á deildina.

Strax það kvöld vildi varnaraðili útskrifast en var þá metinn í örlyndisástandi með geðrofseinkenni og hann nauðungarvistaður í 72 klukkustundir. Þar sem þetta ástand var viðvarandi var farið fram á 21 dags vistun sem var samþykkt með úrskurði héraðsdóms 12. janúar sl. Sú úrlausn var kærð til Hæstaréttar með kæru 19. janúar og er beðið niðurstöðu réttarins.

Greint er frá því í læknisvottorði að varnaraðili telur líðan sína hafa breyst í mars 2014 þegar hann hafi orðið fyrir einhvers konar hugljómun; hann hafi verið í alsæluástandi og ekki þurft svefn í tvo mánuði. Varnaraðili neitar því að hann hafi verið í neyslu á fíkniefnum á þessum tíma. Hann fann í kjölfarið fyrir leiða í vinnunni og tók sér frí og ferðaðist til [...] til að læra [...]. Varnaraðili var orðinn óánægður á þessum tíma í vinnu sinni og svo fór að hann sagði upp þegar hann kom heim, eða í desember 2015. Varnaraðili rekur ástand sitt nokkuð til þess að hann hafi kynnst konu í [...] eftir þetta. [...].

Varnaraðili hefur til þessa þurft mikið af lyfjum í legu sinni á geðdeild og á stundum sjálfur beðið um aukaskammt. Hann er sagður hafa breytilegt innsæi í sjúkdóm sinn, kannist stundum við að vera í örlyndi en þvertekur fyrir það þess á milli. Hann er sagður hafa margoft beðið um útskrift og hafni áframhaldandi innlögn.

                Í yfirlýsingu sem meðferðarlæknir varnaraðila hefur gefið 24. janúar 2017 (augljóslega ranglega dagsett 24. janúar 2016), sem er vafalaust gefin samkvæmt fyrirmælum 2. mgr. 29. gr. a, lögræðislaga, segir að varnaraðili hafi verið verulega veikur með mikil örlyndis- og geðrofseinkenni. Hann hafi verulega skert sjúkdómsinnsæi. Telji varnaraðili núverandi meðferð gagnslausa og hann þurfti einungis að taka Conserta til að ná heilsu og því geti hann útskrifast nú þegar. Jafnframt kemur fram að reynt hafi verið að fá varnaraðila til að þiggja áframhaldandi meðferð á sjúkrahúsi en meðferðarlæknir telur varnaraðila of veikan til að geta gefið upplýst samþykki um slíkt. Meðferðarlæknir telur varnaraðila í hægum bata en nauðsynlegt sé þó að hann sé áfram til meðferðar á sjúkrahúsi því ella séu líkur á bata verulega skertar.

                Við úrlausn málsins er og horft til vottorðs C geðlæknis frá 9. janúar sl. sem gefið var út í tilefni af framkominni beiðni um nauðungarvistun varnaraðila til 21 dags.

               

B geðlæknir og meðferðarlæknir varnaraðila gaf skýrslu í málinu. Hún staðfesti það mat sitt að varnaraðili væri alvarlega veikur og skorti verulega innsæi í veikindi sín. Hann væri í geðhvörfum og örlyndisástandi auk þess að vera hugsanatruflaður. Fleiri greiningar nefndi læknirinn sem ástæðulaust er að tilgreina hér. Hún sagði varnaraðila vera á móti frekari vistun og ekki til samstarfs. Hins vegar væri bati byrjaður en hann væri hægur. Taldi læknirinn brýna nauðsyn til nauðungarvistunar nú og göngudeildarmeðferð væri ekki kostur í núverandi stöðu. Hún hefði hins vegar greint varnaraðila frá því, að þá þegar og sú leið væri metin fær, yrði hún farin. 

Varnaraðili óskaði eftir því að gefa skýrslu fyrir dómi. Þau skilaboð bárust hins vegar frá deild 32C að hann væri ekki í ástandi til að yfirgefa deildina þar sem hann væri að eigin ósk nýbúinn að fá sterka lyfjasprautu. Dómari ákvað því að heimsækja varnaraðila á sjúkrahúsið og ræða við hann. Viðstaddur viðtalið var skipaður verjandi varnaraðila. Varnaraðili var mjög lyfjaður og á stundum erfitt að skilja hann, og í engu standi til að yfirgefa deildina og gefa skýrslu fyrir dómi. Hann mótmælti þó kröfunni eindregið og mótmælti því að hann þyrfti á sjúkrahúsdvöl að halda og sagðist ekki vera veikur.

Verjandi varnaraðila mótmælir kröfu sóknaraðila um nauðungarvistun. Telur hann að ekki séu uppfyllt skilyrði lögræðislaga til þess að verða við kröfunni. Benti verjandi á að varnaraðili væri í bata og innsæi hans að aukast og væri í dag fullnægjandi. Varnaraðili væri samstarfsfús og hefði tekið þau lyf sem honum væru ráðlögð. Ekki væri fullreynt með vægari úrræði svo sem göngudeildarmeðferð, en varnaraðili hefði lýst sig reiðubúinn til að nýta sér slíka meðferð og mæta í viðtöl og skoðanir eins og óskað væri eftir. Verjandi benti á að veikindi varnaraðila væru ný til komin og engin saga um geðsjúkdóma fyrir þann tíma. Verjandi taldi að öllu virtu að ekki væri sýnt fram á að brýna nauðsyn bæri til að nauðungarvista varnaraðila.

V.

Með vísan til gagna málsins og vættis geðlæknisins B, fyrir dómi þykir nægjanlega í ljós leitt að nauðsynlegt sé að varnaraðili verði áfram nauðungarvistaður á sjúkrahúsi og fái þar viðeigandi lyfjagjöf, aðstoð, meðferð og eftirfylgni svo færa megi líðan hans til betri vegar. Við lok núverandi nauðungarvistunar er geðrænt ástand varnaraðila enn alvarlegt þótt í hægum bata sé, og innsæi hans skert þótt þar hafi einnig orðið að því er virðist framfarir. Hefur því ekki tekist að ná nægjanlegum tökum á ástandi hans og ljóst að meiri tíma þarf til að ná utan um vandann. Verður því ekki talið að við þessar aðstæður dugi önnur eða vægari úrræði til að tryggja heilsu og batahorfur varnaraðila.

Er það niðurstaða dómsins að uppfyllt séu skilyrði 29. gr. a í lögræðislögum nr. 71/1997, sbr. 17. gr. laga nr. 84/2015, til að verða við kröfu sóknaraðila um framlengingu nauðungarvistunar varnaraðila í 12 vikur, en með heimild til rýmkunar samkvæmt mati yfirlæknis, í samræmi við kröfu sóknaraðila og með velferð varnaraðila í huga. 

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997, sbr. 5. mgr. 29. gr. a sömu laga, ber að greiða úr ríkissjóði allan kostnað málsins, þar með talda þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Fallist er á þá kröfu sóknaraðila, velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, að framlengja til tólf vikna, nauðungarvistun varnaraðila, A, kt. [...], með heimild til rýmkunar samkvæmt mati yfirlæknis, sbr. 29. gr. a. lögræðislaga nr. 71/1997. Kostnaður af málinu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns 180.000 krónur.