Print

Mál nr. 292/2017

Ákæruvaldið (enginn)
gegn
X (enginn)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Brotaþoli
  • Réttargæslumaður
Reifun
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem A var synjað um skipun réttargæslumanns.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Ingibjörg Benediktsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.

Brotaþoli, A, skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. maí 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. maí 2017, þar sem brotaþola var synjað um skipun réttargæslumanns. Kæruheimild er í e. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þess er krafist að lagt verði fyrir héraðsdómara að skipa tiltekinn lögmann réttargæslumann brotaþola.

Hvorki sóknaraðili né varnaraðili hafa látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Sú háttsemi sem varnaraðila er gefin að sök er í ákæru talin varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en læknisfræðileg gögn sem liggja fyrir í málinu bera ekki með sér að brotaþoli hafi í umrætt sinn orðið fyrir svo verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði, að skylt sé að tilnefna honum réttargæslumann, sbr. 2. mgr. 41. gr. laga nr. 88/2008. Í málinu liggur fyrir einkaréttarkrafa brotaþola og nýtur hann aðstoðar lögmanns við að fylgja henni eftir. Að þessu virtu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. maí 2017.

                Í málinu er ákærða gefið að sök að hafa ráðist á brotaþola og veitt honum allnokkra áverka. Brot hans er talið varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Þá krefjast börn brotaþola þjáninga- og miskabóta en ekki er ákært fyrir atlögu gegn þeim.

                Lögmaður brotaþola og barna hans hefur krafist þess að verða skipaður réttargæslumaður þeirra allra. Börn brotaþola eru ekki brotaþolar, sbr. 1. mgr. 39. gr. laga nr. 88/2008 og þegar af þeirri ástæðu er því hafnað að skipa þeim réttargæslumann.

                Það er skilyrði fyrir skipun réttargæslumanns skv. 41. gr. nefndra laga að brotaþoli hafi þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslumanns til að gæta hagsmuna sinna. Við þetta mat verður að líta til stöðu brotaþola og alvarleika málsins. Þótt hér kunni að vera um alvarlega líkamsárás að ræða verður ekki framhjá því litið að hvorki staða brotaþola né áverkarnir gefa til kynna að brotaþoli hafi þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslumanns til að gæta hagsmuna sinna og er kröfunni því hafnað.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

ÚRSKURÐARORÐ:

Kröfu um skipun réttargæslumanns er hafnað.