Print

Mál nr. 709/2016

Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir saksóknari)
gegn
Baldri Guðmundssyni (Helgi Jóhannesson hrl., Víðir Smári Petersen hdl. 2. prófmál), Davíð Berndsen Bjarkasyni (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.), Jeffrey Felice Angelo Uyleman (Haukur Örn Birgisson hrl., Ómar Örn Bjarnþórsson hdl. 1. prófmál) og Peter Schmitz (Björgvin Jónsson hrl., Arnór Halldórsson Hafstað hdl. 1. prófmál)
Lykilorð
  • Ávana- og fíkniefni
  • Ákæra
  • Matsgerð
  • Sakarkostnaður
  • Upptaka
Reifun
Í málinu voru B, D, J og P ákærðir fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa á árinu 2015 staðið saman að innflutningi á samtals 19.448,96 g af amfetamíni og 2.597,44 g af kókaíni frá Hollandi til Íslands ætluðu til söludreifingar í ágóðaskyni. Í héraðsdómi, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, voru B og D sakfelldir fyrir að hafa lagt á ráðin um innflutning og fjármagnað að hluta kaup á fíkniefnunum og kostnað við innflutning þeirra, J fyrir að hafa flutt fíkniefnin til Íslands frá Hollandi og P fyrir að hafa undirbúið og aðstoðað J við flutning efnanna. Við ákvörðun refsingar var meðal annars litið til magns fíkniefnanna og styrkleika þeirra, hlutverks hvers og eins auk sakaferils D. Að þessu virtu og með hliðsjón af 1. og 6. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 var B gert að sæta fangelsi í átta ár, D í átta ár og sex mánuði og J og P í fimm ár hvor.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Eiríkur Tómasson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson og Ingibjörg Benediktsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 10. október 2016 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu Baldurs Guðmundssonar, Davíðs Berndsen Bjarkasonar og Peter Schmitz um áfrýjun og 17. sama mánaðar af hálfu ákæruvaldsins gagnvart ákærða Jeffrey Felice Angelo Uyleman. Af hendi ákæruvaldsins er gerð krafa um að refsing allra ákærðu verð þyngd en héraðsdómur staðfestur að öðru leyti.

Ákærði Baldur krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hann verði sýknaður en að því frágengnu að refsing verði milduð og að „gæsluvarðhaldsvist og farbann sem hann hefur sætt komi að öllu leyti í stað refsingar, eða a.m.k. til frádráttar henni“.

Ákærði Davíð krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hann verði sýknaður, að þessu frágengnu að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur en að öðrum kosti að refsing verði milduð.

Ákærði Jeffrey krefst aðallega sýknu, til vara að sér verði ekki gerð refsing eða hún verði látin niður falla, en að því frágengnu að hún verði milduð.

Ákærði Peter krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð og komi  gæsluvarðhaldsvist hans til frádráttar henni.

I

Kröfu sína um frávísun málsins frá héraðsdómi reisa ákærðu Baldur og Davíð á því að verknaðarlýsingu í ákæru um ætlaðan þátt þeirra í brotinu, sem ákært er fyrir, sé verulega áfátt. Því sé ekki lýst þar hvernig þeir hafi skipulagt og staðið að þeim innflutningi fíkniefna, sem málið varðar. Ákærði Baldur reisir kröfuna einnig á því að í ákæru sé lýst í einu lagi háttsemi sem honum og ákærða Davíð sé gefin að sök. Háttsemin sé ekki sundurgreind nema að litlu leyti þótt hlutur hvors um sig sé um margt ekki talinn hinn sami í málatilbúnaði ákæruvalds. Ákærðu telja báðir að ákæran sé af þessum ástæðum í andstöðu við c. og d. liði 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og það eigi að leiða til frávísunar málsins.

Þá reisir ákærði Davíð frávísunarkröfuna einnig á því að rannsókn lögreglu hafi verið verulega áfátt. Hann kveður snemma hafa orðið ljóst að tveir nafngreindir Hollendingar hafi skipulagt innflutning fíkniefnanna til Íslands. Svo virðist sem enginn reki hafi þó verið gerður að því að fá þá framselda til Íslands þótt vafalaust sé að framburður þeirra hefði varpað ljósi á málið. Lögreglan hefði ekki virst hafa neinn áhuga á því að upplýsa málið eða draga þessa menn til ábyrgðar þótt þeir hefðu í raun skipulagt og fjármagnað innflutninginn. Í þessu felist brot gegn hlutlægnisskyldu lögreglu við rannsókn máls, sbr. 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008, sem sé svo alvarlegur annmarki að leiða eigi til frávísunar.

Í ákæru er öllum ákærðu gefið að sök stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa á árinu 2015 staðið saman að innflutningi á tilgreindu magni fíkniefna frá Hollandi til Íslands, sem ætlað hafi verið til söludreifingar í ágóðaskyni en þeir hafi skipt með sér verkum á þann hátt sem nánar er lýst í ákærunni. Hlut hvors ákærðu Jeffrey og Peter er lýst sérstaklega en hlut ákærðu Baldurs og Davíðs í einu lagi þannig að þeir hafi lagt á ráðin um innflutninginn, fjármagnað að hluta kaupin á fíkniefnunum og kostnað við innflutning þeirra. Í framhaldinu er því síðan lýst hvernig ákæruvaldið telji að greiðslur hafi farið fram og loks tekið fram að ákærði Baldur hafi verið handtekinn 28. september 2015 á tilgreindum stað eftir að hafa fylgt eftir bifreiðinni, þar sem fíkniefnin voru falin, en fyrirhugað hafi verið að hann veitti þeim viðtöku á bifreiðastæði tiltekins fyrirtækis. Lýsing á sakargiftum í ákæru er glögg og leikur enginn vafi á því hvaða háttsemi hverjum ákærðu er gefin að sök. Ætlaður hlutur ákærðu Baldurs og Davíðs í broti er svo samofinn að hagræði felst í því að lýsa honum í einu lagi að því marki sem kostur er. Verður hafnað röksemdum þessara ákærðu um að lýsing sakargifta í ákærunni fullnægi ekki fyrirmælum c. og d. liða 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008.

Af hálfu íslensku lögreglunnar var óskað aðstoðar lögregluyfirvalda í Hollandi meðal annars í því skyni að fá teknar skýrslur af nokkrum Hollendingum, sem taldir voru hafa tengsl við málið. Lögregluyfirvöld í Hollandi urðu við þessari beiðni og voru teknar skýrslur af nokkrum mönnum í þágu rannsóknar málsins, meðal annars af þeim tveimur mönnum sem ákærði Davíð telur að taka hefði átt skýrslur af hér á landi. Skýrslur sem hollenska lögreglan tók af mönnunum liggja fyrir í málinu. Samkvæmt þessu eru haldlausar þær röksemdir ákærða Davíðs að lögregla hafi við rannsókn málsins ekki sinnt hlutlægnisskyldu sinni með því að tryggja ekki að teknar yrðu skýrslur af mönnunum. Þegar af þeirri ástæðu verður því hafnað að ákvæði 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 hafi verið brotin við rannsókn lögreglu.

Samkvæmt öllu framangreindu verður kröfum ákærðu Baldurs og Davíðs um frávísun málsins frá héraðsdómi hafnað.

Kröfu um ómerkingu héraðsdóms reisir ákærði Davíð á því að þrjú nafngreind hollensk vitni hafi ekki komið fyrir dóm til að gefa skýrslu. Um er að ræða sömu tvo menn og hann telur að lögregla hefði átt að taka skýrslu af, svo og konu þá sem var í bifreiðinni með ákærða Jeffrey við komu til landsins 22. september 2015. Telur þessi ákærði að brýnt hafi verið að taka skýrslu fyrir dómi af vitnunum og varði þessi misbrestur á meðferð málsins ómerkingu héraðsdóms, sbr. 1. mgr. 204. gr. laga nr. 88/2008.  

Í skýrslu héraðssaksóknara 22. ágúst 2016 er lýst ítrekuðum tilraunum embættisins til þess að fá vitnin þrjú til að koma fyrir dóm til skýrslugjafar. Fylgja ýmis gögn til staðfestingar því sem fram kemur í skýrslunni. Ekkert þessara vitna féllst á að koma til landsins í þessu skyni. Þótt vitnin hafi ekki gefið skýrslu fyrir dómi lágu, eins og fyrr segir, fyrir skýrslur lögreglu í Hollandi af tveimur þeirra, en einnig af því þriðja sem tekin var af hollensku lögreglunni 31. maí 2016. Þótt þessi vitni hafi ekki komið fyrir dóm, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir héraðssaksóknara til þess, leiðir það ekki til ómerkingar héraðsdóms, en skýrslur þeirra hjá lögreglu í Hollandi reyndust ekki upplýsandi um atvik málsins. Héraðsdómur gat einnig metið hvort þær skýrslur hefðu sönnunargildi við úrlausn málsins, sbr. 3. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008. 

Ákærði Davíð telur einnig að ómerkja beri héraðsdóm því mat dómsins á sönnunargildi framburðar síns og tilgreinds vitnis sé rangt svo miklu varði um niðurstöðu málsins, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008. Engum stoðum hefur verið rennt undir þessa staðhæfingu og verður henni hafnað.

II

Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi er sakfelling ákærða Davíðs að hluta reist á rannsókn lögreglu þar sem sú niðurstaða kom fram að hann hafi á tímabilinu 14. til 28. september 2015 notað sérútbúinn síma af Blackberry gerð með númerinu [...], sem ætlaður hafi verið til þess að hafa dulkóðuð samskipti og auk þess var ekki unnt að hlera. Lögreglumaður sá, sem rannsóknina vann, gaf skýrslu fyrir dómi og gerði þar ítarlega grein fyrir rannsókninni og niðurstöðu hennar. Ákærði Davíð óskaði 6. desember 2016, að gengnum dómi í héraði, eftir því að dómkvaddur yrði maður til þess að meta, miðað við tilteknar forsendur, hvort sami maður hafi verið notandi tveggja tilgreindra símanúmera. Tilgangi matsbeiðni var lýst svo að ætlunin væri ,,að sanna að ákærði Davíð hafi ekki verið notandi símanúmersins [...], en héraðsdómur byggði á því til stuðnings sakfellingu í forsendum hins áfrýjaða dóms“. Tveir menn voru dómkvaddir í þessu skyni og luku þeir matsgerð sinni 8. febrúar 2017. Matsmennirnir gáfu báðir skýrslu fyrir héraðsdómi þar sem þeir staðfestu matsgerðina og svöruðu spurningum um efni hennar. Hvorki matsgerðin né skýrslur matsmanna fyrir dómi hnekkja að neinu leyti framagreindri lögreglurannsókn og niðurstöðum hennar.

Að þessu öllu gættu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans.

Ákærðu verða dæmdir til greiðslu alls áfrýjunarkostnaðar málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjenda sinna og þóknun þeirra fyrir hagsmunagæslu við úrlausn krafna um farbann yfir ákærðu eftir að héraðsdómur gekk. Við ákvörðun málsvarnarlauna verjanda ákærða Davíðs er jafnframt tekið tillit til vinnu hans í tengslum við öflun matsgerðar. Þá verður ákærði Davíð dæmdur til greiðslu matskostnaðar 4.083.878 krónur. Við ákvörðun á fjárhæðum þóknana, sem tilgreindar eru í dómsorði, er tekið tillit til virðisaukaskatts.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærðu Baldur Guðmundsson, Jeffrey Felice Angelo Uyleman og Peter Schmitz greiði hver fyrir sitt leyti málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, hæstaréttarlögmannanna Helga Jóhannessonar, Hauks Arnar Birgissonar og Björgvins Jónssonar, 1.860.000 krónur til hvers um sig. Ákærði Davíð Berndsen Bjarkason greiði málsvarnarlaun verjanda síns fyrir Hæstarétti, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 2.108.000 krónur, svo og 4.083.878 krónur í matskostnað. Ákærðu greiði allir sameiginlega annan áfrýjunarkostnað, 277.424 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 21. september 2016.

Mál þetta, sem var dómtekið 24. f.m., var höfðað með ákæru héraðssaksóknara, útgefinni 5. apríl 2016, á hendur Jeffrey Felice Angelo Uyleman, hollenskum ríkisborgara, fæddum [...], Peter Schmitz, hollenskum ríkisborgara, fæddum [...], Baldri Guðmundssyni, kt. [...], [...] í Reykjavík, og Davíð Berndsen Bjarkasyni, kt. [...], [...] í Kópavogi.

                Ákærðu er gefið að sök stórfellt fíkniefnalagabrot „með því að hafa á árinu 2015 staðið saman að innflutningi á samtals 19.448,96 g af amfetamíni og 2.597,44 g af kókaíni frá Hollandi til Íslands ætluðu til söludreifingar í ágóðaskyni en ákærðu skiptu með sér verkum sem hér greinir;

1. Gegn ákærða Jeffrey, með því að hafa, að beiðni ótilgreindra aðila, flutt fíkniefnin til Íslands frá Hollandi sem voru falin í sérútbúnum geymsluhólfum undir framsætum og í miðjustokk bifreiðar af gerðinni Volkswagen Touran með skráningarnúmerið [...] sem ákærði ók til Danmerkur og þaðan með farþegaferjunni Norrænu sem kom til Seyðisfjarðar þann 22. september og þaðan áfram til Hafnar í Hornafirði. Þann 23. september ók ákærði bifreiðinni frá Höfn í Hornafirði til höfuðborgarsvæðisins, þann 24. september var bifreiðinni ekið til Keflavíkur og að morgni 25. september ók ákærði bifreiðinni að skammtímastæði flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og hélt í kjölfarið af landi brott. Mánudaginn 28. september kom ákærði aftur til Íslands með flugi frá Amsterdam og ók bifreiðinni [...] að bænum [...] þar sem fyrirhugað var að fjarlægja fíkniefnin úr bifreiðinni en þar var ákærði handtekinn ásamt meðákærða Peter og fíkniefnin fundust síðar við leit.

2. Gegn ákærða Peter, fyrir að hafa undirbúið og aðstoðað meðákærða Jeffrey fyrir báðar ferðir hans til Íslands í september 2015, og séð um að bóka gistingu að bænum [...] í þeim tilgangi sem lýst er í ákærulið 1. Mánudaginn 28. september kom ákærði til Íslands með flugi frá Kaupmannahöfn og mælti sér mót við meðákærða Jeffrey við bæinn [...] í þeim tilgangi að fjarlægja fíkniefnin úr bifreiðinni [...]. Ætlaði ákærði að koma fíkniefnunum áleiðis til meðákærða Baldurs á bifreiðastæðinu við [...] til að hægt yrði að koma þeim í söludreifingu.

3. Gegn ákærðu Baldri og Davíð, fyrir að hafa lagt á ráðin um innflutning og fjármagnað að hluta kaup á fyrrgreindum fíkniefnum og kostnað við innflutning þeirra, eins og lýst er í ákærulið 1. Kaupin voru fjármögnuð með greiðslum ákærðu Baldurs og Davíðs í reiðufé inn á 30 ikort, á tímabilinu 22. júlí til 10. september, að fjárhæð samtals 9.090.000 krónur sem virkjuð voru með símanúmerunum [...] og [...] og notuð til úttekta úr hraðbönkum víða í Evrópu á tímabilinu 23. júlí til 17. september að fjárhæð samtals 8.027.726 krónur. Að auki var ákærði Baldur handtekinn 28. september skammt frá bænum [...], eftir að hafa fylgt eftir bifreiðinni [...] en fyrirhugað var að ákærði Baldur veitti fíkniefnunum móttöku á bifreiðastæði [...].“

Telst háttsemi ákærðu varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Einnig er þess krafist með heimild í 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002, að gerð verði upptæk þau fíkniefni sem getið er í ákæru og hald var lagt á. Þá er jafnframt gerð krafa um upptöku á bifreiðinni [...] samkvæmt heimild í 1. tölulið 1. mgr. 69. gr. a. almennra hegningarlaga, sbr. 2. gr. laga nr. 149/2009. Loks er þess krafist að samtals 15.600 evrur í reiðufé, sem fundust við leit í bifreiðinni [...] sem ákærði Baldur hafði til umráða við handtöku þann 28. september 2015, verði gerðar upptækar með vísan til 1. mgr. 69. gr. b. almennra hegningarlaga, sbr. 2. gr. laga nr. 149/2009.

                Ákærðu krefjast sýknu af sakargiftum samkvæmt ákæru.

Auk þess að reisa sýknukröfu sína á því að ekki hafi verið færðar fram fullnægjandi sannanir um þau ákæruatriði sem honum eru gefin að sök byggir ákærði Jeffrey hana á sakhæfisskorti, sbr. 15. gr. almennra hegningarlaga. Til vara gerir hann þá kröfu að honum verði ekki gerð refsing og vísar því til stuðnings til 16. gr. sömu laga. Að því frágengnu er gerð krafa um vægustu refsingu sem lög leyfa og að hún verði að fullu bundin skilorði.

                Af hálfu ákærðu Peter og Davíðs er til vara gerð krafa um vægustu refsingu sem lög leyfa. Þá krefst ákærði Baldur þess að kröfu sem beint er að honum um upptöku fjármuna verði hafnað.

I

                Ákærði Jeffrey Felice Angelo Uyleman kom til Seyðisfjarðar með ferjunni Norrænu að morgni þriðjudagsins 22. september 2015. Hafði hann komið um borð í ferjuna í Hirtshals í Danmörku á bifreið af gerðinni Volkswagen Touran með skráningarnúmerið [...], en þangað hafði hann ekið henni frá Hollandi. Í för með honum var samlandi hans, kona að nafni A. Við komu þeirra hingað til lands framkvæmdu tollverðir leit í bifreiðinni og mun fíkniefnaleitarhundur sem notaður var við hana hafa gefið merki sem bentu til þess að fíkniefni gætu verið falin í henni. Enda þótt engin fíkniefni hafi fundist við þessa leit vaknaði sterkur grunur um að þessu væri annan veg farið og ákvað tollgæslan því að fylgja málinu eftir með því að tilkynna lögreglu um það. Hófust rannsóknaraðgerðir lögreglu þegar í stað og gengu þær í fyrstu út á skyggingu, sbr. 89. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, það er að haft yrði stöðugt eftirlit með bifreiðinni og ferðum ákærða og A. Hinn 24. september lá síðan fyrir heimild til afhendingar undir eftirliti, sem mælt er fyrir um í sama lagaákvæði, en það er rannsóknaraðgerð sem felst í því að fresta að leggja hald á, en hafa undir stöðugu eftirliti, fíkniefnasendingu eða aðra ólöglega eða grunsamlega vörusendingu á leið til landsins, um landið eða úr landi, með það að markmiði að upplýsa um viðtakanda sendingar, aðferðir við innflutning og hugsanlegt dreifikerfi og afla þannig sönnunargagna um refsiverða háttsemi, sbr. 15. gr. reglna nr. 516/2011 um sérstakar aðferðir og aðgerðir lögreglu við rannsókn sakamáls. Fyrir liggur, svo sem rakið er í ákæru, að daginn sem ákærði kom til landsins ók hann bifreiðinni [...] frá Seyðisfirði til Hafnar í Hornafirði þar sem hann og A gistu fyrstu nóttina. Daginn eftir héldu þau til Reykjavíkur og gistu næstu nótt á hóteli í Hafnarfirði. Að morgni fimmtudagsins 24. september ók ákærði bifreiðinni fyrst til Reykjavíkur en þaðan til Reykjanesbæjar þar sem þau gistu á hóteli aðfaranótt föstudagsins. Þau flugu síðan af landi brott að morgni föstudags og var förinni heitið til Dusseldorf í Þýskalandi. Bifreiðinni hafði ákærði þá lagt í skammtímastæði við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Hann kom aftur til Íslands með flugi frá Amsterdam mánudaginn 28. september og var þá einn á ferð. Ákærði Peter Schmitz kom til landsins sama dag með flugi frá Kaupmannahöfn. Ók ákærði Jeffrey bifreiðinni [...] frá flugstöðinni að bænum [...] á Vatnsleysuströnd þar sem hann hitti ákærða Peter sem kom þangað akandi á bílaleigubíl með skráningarnúmerið [...]. Lét lögregla þar til skarar skríða og handtók ákærðu, en af gögnum málsins verður ráðið að það hafi gerst um klukkan 16:40. Ákærði Baldur var handtekinn um svipað leyti þar sem hann var staddur í bifreið með skráningarnúmerið [...] skammt frá [...] og ákærði Davíð var handtekinn á heimili sínu í Kópavogi laust eftir klukkan 20 þennan sama dag, en við eftirlit lögreglu hafði vaknað grunur um að þeir tengdust málinu.  

Farið var með bifreiðina [...] í bílamiðstöð ríkislögreglustjóra í Reykjavík þar sem framkvæmd var leit í henni, en áður hafði hún verið skoðuð í gegnumlýsingartæki hjá tollgæslunni. Í skýrslu um leitina kemur fram að við gegnumlýsinguna hafi komið í ljós óeðlileg form í botni bifreiðarinnar. Um leitina sjálfa segir svo: „Við leit í bifreiðinni fundust í hólfum undir framsætum alls 10 pakkningar sem innihéldu hvít efni, ætlað amfetamín. Greinilegt var að búið var að vanda mikið við frágang efnanna í bílnum, meðal annars fundust fjarstýringar sem stjórna sætum bifreiðarinnar, þannig að hægt var að komast að leynihólfunum með auðveldum hætti. Þess ber að geta að hólfin sem efnin fundust í höfðu verið búin til og í rauninni var búið að búa til falskt gólf í bifreiðinni framanverðri. Í stokki á milli framsæta var búið að saga gat og búið var að koma fyrir þar fjórum pakkningum af ætluðu kókaíni, en þær pakkningar voru meðal annars merktar með sporðdrekamynstri. Einnig var búið að þrykkja sporðdrekamynstur á sjálfa kókaínklumpana í tveimur stærri pakkningunum.“ Efnin sem fundust við leitina hafi verið afhent tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Heildarþyngd haldlagðs amfetamíns samkvæmt skýrslu hennar reyndist vera 19.448,96 g. Var eitt efnissýni sent til rannsóknar hjá Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði samkvæmt rannsóknarbeiðni 30. september 2015 og kemur efnaskrárnúmerið 31250/5 fram á henni. Í málinu liggur fyrir matsgerð 13. október 2015 um rannsókn á efnissýni sem ber það númer. Samkvæmt henni var rannsakað sýni sem við komu var 5,878 g en 2,504 g eftir þurrkun. Reyndist það innihalda amfetamín. Bentu efnapróf til þess að amfetamínið væri að mestu á formi amfetamínsúlfats. Styrkur amfetamínbasa í sýninu var 62%, sem samsvarar 84% af amfetamínsúlfati. Heildarþyngd haldlagðs kókaíns var 2.597,44 g. Voru fjögur efnissýni send til rannsóknar hjá rannsóknastofunni með framangreindri rannsóknarbeiðni með efnaskrárnúmerunum 31250/11-14. Segir um rannsókn á þessum efnissýnum í matsgerðinni að þau hafi öll innihaldið kókaín og tetramísól. Efnapróf hafi bent til þess að kókaínið væri að mestu á formi kókaínklóríðs. Styrkur kókaíns í sýnunum hafi verið á bilinu 49 til 57% sem samsvari 55 til 64% af kókaínklóríði.

Við leit lögreglu í bifreiðinni [...] fannst meðal annars skjal á hollensku sem samkvæmt efni sínu felur í sér leiðbeiningar um ákveðin atriði. Þar segir meðal annars svo í íslenskri þýðingu: „Gott að vita og mikilvæg mál. Frá [...] í átt að [...] og þar yfir landamærin í átt að Hamborg. Á leiðinni, ekki skilja bílinn eftir óvaktaðan og notaðu stór bílastæði, helst með veitingastað eða bensínstöð eða eitthvað álíka. ... Rétt áður en þú ferð um borð í bátinn þarf hinn farþeginn að fara út úr bílnum og labba um borð í bátinn. Hún verður að taka sinn eigin handfarangur með í bátinn. ... Þegar þið yfirgefið bátinn, reynið að vera á miðakrein ef þið getið, en ef menn segja ykkur að fara annað verðið þið að hlýða því. Ef þú getur keyrt af stað, eltu þá alla bílana fyrstu 20 km, þar er nefnilega bara einn vegur sem fer að þjóðveginum. Ekki taka út úr hraðbanka/ekki taka fyrirfram. Borgaðu bara með kreditkorti, þó það séu 3 evrur. Geymdu allar kvittanir, borða, hótel o.s.frv. Til þess er svarta taskan. ... Bókaðu hótel eða íbúð á Seyðisfirði þegar þú ferð til baka. Vertu líka kominn til baka 3 klst. fyrir brottför. Ef það er einhver vafi þá hringdu í okkur beint.“ Þá hafði ákærði meðferðis tvo farsíma sem hald var lagt á.

Við leit í bílaleigubifreiðinni sem ákærði Peter hafði til umráða fundust tvö skjöl, annars vegar leigusamningur um bifreiðina og hins vegar kort sem sýnir akstursleiðina frá Keflavíkurflugvelli að [...], en samkvæmt gögnum málsins hafði hann daginn áður tekið á leigu íbúðarhús sem þar er. Þá hafði ákærði í fórum sínum tvo farsíma og spjaldtölvu sem lagt var hald á.

Sá grunur lögreglu að ákærði Baldur ætti aðild að málinu var í fyrstu byggður á því að hann hafi ítrekað verið staddur á sömu slóðum og bifreiðin [...] allt frá því að henni var ekið inn á bifreiðastæði við [...] í [...] á leið til Reykjavíkur miðvikudaginn 23. september 2015 og þar til hann var handtekinn. Er það mat ákæruvalds að gögn um skyggingu, sem liggja frammi í málinu, sýni fram á að ákærði hafi verið staddur þar á Mercedes Benz bílaleigubifreið með skráningarnúmerið [...] á sama tíma og hollenska bifreiðin kom þangað. Við skyggingu daginn eftir í Reykjanesbæ hafi ákærði síðan í talsverða stund verið á sömu slóðum og hollenska bifreiðin, en hann ók þá Skoda Octavia bílaleigubifreið með skráningarnúmerið [...] og var ákærði Davíð í för með honum. Ákærði hafi síðan sést á sömu bifreið við flugstöðina á Keflavíkurflugvelli á sama tíma og ákærði Jeffrey kom aftur til landsins mánudaginn 28. september og loks á Vatnsleysustrandarvegi skammt frá [...] þegar ákærðu Jeffrey og Peter komu þangað. Kemur fram í lögregluskýrslu sem rituð var í tilefni af því að bifreiðin hafi sést á Vatnsleysustrandarvegi á þessum tíma að henni hafi verið lagt utan vegar, nánar tiltekið við afleggjara að sumarhúsi rétt sunnan við akveg að bænum [...], og að bein sjónlína sé frá þeim stað og að [...]. Séu í raun ekki margir aðrir staðir á þessum slóðum þar sem jafn gott sé að fylgjast með bænum og akstursleiðum til og frá húsinu.

Leit var gerð í bifreiðinni [...] að fengnum dómsúrskurði. Í henni fundust svört lambhúshetta, svartir hanskar, sjónauki ásamt tösku utan um hann og umslag sem í voru 15.600 evrur. Kemur fram í lögregluskýrslu um leitina að sjónaukinn hafi legið í framsæti bifreiðarinnar farþegamegin og að peningarnir hafi verið geymdir í hanskahólfinu.

Strax í kjölfar þess að ákærðu voru handteknir hófst umfangsmikil lögreglurannsókn. Gerð var húsleit á dvalarstað ákærða Baldurs að [...] við Hafnarfjörð, á þáverandi heimili ákærða Davíðs að [...] í Kópavogi, í bifreið þess síðarnefnda og skrifstofuhúsnæði sem hann hafði til umráða ásamt öðrum, og hald lagt á fjölda gagna sem lögregla telur að tengist málinu. Þar á meðal eru farsímar og tölvur sem rannsakaðar hafa verið með tilliti til sakargifta í málinu og er þar um viðamikla rannsókn að ræða. Þá fannst fjöldi svokallaðra ikorta, en það eru fyrirframgreidd greiðslukort. Kom í ljós við rannsókn málsins að ákærðu lögðu umtalsverðar fjárhæðir inn á slík kort hér á landi sem síðan voru teknar út í hraðbönkum erlendis. Loks hefur verið leitast við að afla gagna frá Hollandi til að varpa ljósi á málið. Verður gerð grein fyrir rannsókn lögreglu að því marki sem þörf krefur í kafla II hér á eftir.       

Ákærðu Baldur og Davíð hafa alfarið neitað því að hafa átt aðild að þeim innflutningi á fíkniefnum sem ákæra tekur til. Þá hefur ákærði Peter neitað sök og haldið því fram að hann hafi ekki vitað annað en að hann væri að taka þátt í því að flytja peninga hingað til lands sem nota ætti til kaupa á sumarhúsi. Hann hafi sjálfur komið með peningasendingu til landsins í ágúst þetta sama ár og gengið út frá því að verið væri að endurtaka leikinn. Fyrir dómi hefur ákærði Jeffrey neitað að hafa haft um það vitneskju að fíkniefni væru falin í bifreiðinni [...].

                Ákærði Baldur er búsettur á Spáni. Samkvæmt gögnum málsins ferðaðist hann nokkrum sinnum til Íslands árið 2015, síðast 8. september, en að sögn hans hafði hann áformað að fljúga aftur til Spánar ekki seinna en mánudaginn 28. sama mánaðar.

Ákærðu sættu gæsluvarðhaldi vegna málsins frá 29. september til 22. desember 2015 og hafa þaðan í frá sætt farbanni.

II

1.

                Samkvæmt framburði ákærðu Jeffrey og Peter var ferð þeirra til Íslands farin að undirlagi tveggja samlanda þeirra, B og C. Gengur sá síðarnefndi undir nafninu C og verður það hér eftir aðallega notað þegar á hann er minnst. Hafa þeir báðir hafnað beiðni ákæranda um að gefa skýrslu í málinu fyrir dómi. Hið sama á við um A. Þau hafa þó öll gefið skýrslu hjá lögreglu í Hollandi þar sem þau neituðu að hafa átt aðild að innflutningi fíkniefna hingað til lands. Af skýrslu A verður ráðið að hún hafi gefið þá skýringu á ástæðum þess að hún og ákærði flugu af landi brott að morgni föstudagsins 25. september 2015 að faðir hennar væri veikur. Þá hefur vitni sem seldi þeim flugmiðana daginn áður borið um það að karlmaðurinn hafi talað um að þau þyrftu að snúa aftur heim til Hollands vegna veikinda náins ættingja og að hann myndi koma seinna til að sækja bílinn.  

2.

Málið var þingfest 14. apríl 2016. Við fyrirtöku þess 20. sama mánaðar lagði verjandi ákærða Jeffrey fram beiðni um að dómkvaddur yrði matsmaður með háskólapróf í sálfræði og reynslu af réttarsálfræðilegum verkefnum til að leggja mat á eftirfarandi atriði:

1.   Hvort ákærði hafi verið haldinn andlegum vanþroska eða öðru samsvarandi ástandi   í september 2015 þannig að honum hafi verið alls ófært að stjórna gerðum sínum í skilningi 15. gr. almennra hegningarlaga.

2.   Hvort ákærði hafi verið andlega miður sín vegna vanþroska eða annarrar truflunar í september 2015, þó ekki á eins háu stigi og greinir í 15. gr. laga nr. 19/1940, sbr. lið 1, og hvort ætla megi að refsing geti borið árangur, sbr. 16. gr. sömu laga.

3.   Hvort vitsmunalegar þroskatruflanir eða áþekk vanhæfni geti hafa leitt til þess að ákærði sá ekki fyrir afleiðingar gjörða sinna og/eða spurði sig ekki eðlilegra spurninga um hvað kynni að leynast í bifreið hans við komuna til Íslands eins og óskertur maður hefði gert.

4.   Hvort ákærði kunni að vera svo sefnæmur, vegna þroskatruflana eða áþekkrar vanhæfni, að reiðilestur/þrýstingur lögreglu geti orðið til þess að hann játi sök eða fallist á frásögn lögreglu að einhverju leyti.

D sálfræðingur var dómkvödd til að framkvæma hið umbeðna mat, en áður hafði lögregla falið E geðlækni að framkvæma geðrannsókn á ákærða. Var það niðurstaða E í álitsgerð 4. desember 2015 að ekkert benti til þess að þau atriði sem talin eru upp í 15. gr. almennra hegningarlaga ættu við um ákærða og að með vísan til 16. gr. sömu laga væri ekkert í sjálfu sér sem kæmi í veg fyrir að refsing kynni að bera árangur ef sök sannaðist á hann. Meðan á þessari rannsókn stóð var dr. F taugasálfræðingi falið að gera taugasálfræðilegt mat á ákærða. Lá fyrir skrifleg greinargerð um það 29. nóvember 2015 sem E studdist meðal annars við í álitsgerð sinni og er fylgigagn hennar. Í þeim kafla greinargerðarinnar sem ber yfirskriftina samantekt og álit segir að taugsálfræðilegt mat sýni að [...]. Niðurstöður bendi til að [...].   

Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 var ákveðið að hinn dómkvaddi matsmaður þyrfti ekki að semja skriflega matsgerð heldur skyldi hann mæta fyrir dóm áður en aðalmeðferð færi fram og gefa þar skýrslu um niðurstöðu matsins. Fór sú skýrslutaka fram í þinghaldi 24. maí 2016, en þá var einnig lögð fram samantekt matsmanns þar sem gerð er grein fyrir tilgangi mats, grundvelli þess og niðurstöðum. Þá gaf matsmaður skýrslu að nýju fyrir dómi við aðalmeðferð málsins. Í framangreindri samantekt kemur fram að matið sé byggt á viðtölum við ákærða, niðurstöðum sálfræðilegra prófa og málsskjölum sem matsmanni var veittur aðgangur að. Um niðurstöður segir svo:

1.     Miðað við þau gögn og upplýsingar telur undirrituð ekki að 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eigi við um ástand [Jeffrey] hvorki á verknaðarstund né á öðrum tímapunkti.

2.     Undirrituð telur að 16. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eigi ekki við um [Jeffrey].

3.     Það er mat undirritaðrar að [Jeffrey] sé með slakan þroska einkum á tilteknum sviðum sem gerir það að verkum að hann er ekki jafn fær og aðrir í að meðtaka, vinna úr og draga rökréttar ályktanir. Hann á erfitt með að setja fram heildarmynd af aðstæðum og á til að einblína á ákveðna þætti á kostnað annarra upplýsinga sem fyrir liggja. Hann á einnig erfitt með að tengja saman orsakir og afleiðingar hegðunar. Þá er geta hans til að muna og rifja upp einnig slök og getur það enn frekar gert honum erfitt fyrir að vinna úr upplýsingum. Líkur eru á því að þessir vankantar hafa orðið til þess að hann hafi ekki spurt sig rökréttra spurninga um hvað kynni að hafa leynst í bifreið hans við komuna til Íslands eða, ef svo er, gert sér grein fyrir afleiðingum þess til lengri tíma litið.

4.     [Jeffrey] telst ekki sefnæmur samanborið við aðra. Hins vegar ber að nefna að hann er þóknunargjarn, hjálpsamur og lítt tortrygginn. Gera þessir eiginleikar það að verkum að hann er áhrifagjarn og hefur ekki góða færni í að vera gagnrýninn á aðstæður.

3.

                Með framburði ákærða Peter og rannsókn lögreglu á farsíma sem hann hafði í fórum sínum þegar hann var handtekinn er í ljós leitt að hann og áðurnefndur C voru í símasamskiptum dagana 27. og 28. september 2015. Um var að ræða smáskilaboð og hljóðar meginefni þeirra svo í íslenskri þýðingu: „Sunnudagur 27.09.2015: Klukkan 11:37. P: Þetta er nýja númerið mitt fyrir [A; þýtt sem bók, bókun eða bókhald] og okkar stóra barn. Fyrir þig heldur hitt númerið áfram að vera til en þetta fyrir viðskiptin. Klukkan 12:28. C: Ertu með heimilisfang á húsinu handa mér. Klukkan 18:53-54: P: [...] ... [...] km frá [staðnum þar sem við ætlum að hittast]. Mánudagur 28.09.2015: Klukkan 14:38. P: Lentur rétt í þessu. C: Flott. Klukkan 15:15. C: Ætlar þú að hafa samband við hann? Klukkan 15:16. P: Já, er nýbúinn að því, er að bíða eftir viðbrögðum. Klukkan 15:57. C: Hvers konar bíl ertu á? Klukkan 16:09. P: Suzuki Swift, en ég hef samband við þig eftir 15 mínútur. Klukkan 16:18. C: Hver á þriðja bílinn eru þeir að spyrja. Klukkan 16:20. P: Maðurinn sem hleypti okkur inn. Klukkan 16:25. P: Þeir eru þó ekki að fara að reka á eftir, þá hefðu þeir átt að taka það út sjálfir, er búinn að vera á fótum síðan 7 í gær og hef ekkert borðað. Þegar ég er búinn að ná því út þá hringi ég innan 15 mínútna á umtöluðum stað. Klukkan 16:27. C: Ertu þá þegar með það? Klukkan 16:32. P: Nei, þessi maður labbar um hérna. Við vorum bara að koma inn, þarf að leita að poka. Þessi gaur þarf að fara. Kúkalabbarnir eru ekki að taka þetta út en eru að keyra um hérna og skipa fyrir. Klukkan 16:37. C: Þvílíkur gaur. Stendur hann hjá þér. Ég hef aðeins sagt, ef hann er svona nálægt þá getur hann eins gott tekið þetta með, þá þarft þú ekki að keyra. Klukkan 16:38. P: Já asnarnir. Er ekki með bílskúrslykil og er að leita að einhverju til að setja þetta í. Klukkan 16:39. P: Löggan.  C: Andskotinn.“

                Þá var aflað úrskurðar héraðsdóms til hlustunar og upptöku á símtölum á milli ákærða Jeffrey og C 25. og 28. september 2015, þar á meðal eftir að ákærði var að nýju kominn til landsins, og á milli ákærðu Jeffrey og Peter á meðan þeir voru að aka að [...]. Þykir ekki ástæða til að gera sérstaka grein fyrir því sem þessum aðilum fór í milli að öðru leyti en því að samtal ákærðu gekk aðallega út á að leiðbeina ákærða Jeffrey um akstursleið að áfangastað á Vatnsleysuströnd.

4.

                Við rannsókn á fartölvu í eigu ákærða Davíðs, sem hald var lagt á við húsleit á heimili hans, reyndist hún innihalda nokkur excel-skjöl sem lögregla telur að hafi verið ætlað að halda utan um sölu á fíkniefnum af hans hálfu og að afrakstri hennar hafi verið varið til kaupa á þeim fíkniefnum sem ákæra tekur til. Er þessi grunur aðallega byggður á því að þegar smellt er á einstakar tölur í skjölunum sést að þær eru margfeldi tveggja talna sem talið er að sýni annars vegar söluverð á einu grammi af amfetamíni eða kókaíni samkvæmt upplýsingum lögreglu um það og magn þessara efna við sölu hverju sinni, þó þannig að margfalda þarf fjárhæðir með tölunni 1000. Þá sé hver dálkur í skjölunum auðkenndur með heiti sem talið er að vísi til kaupenda hverju sinn. Þessu til viðbótar er það mat lögreglu að tölvupóstur sem fannst við þessa tölvurannsókn renni frekari stoðum undir þennan grun. Loks er á því byggt að fjárhæðir í skjölunum miðað við framangreindan útreikning á þeim samrýmist ágætlega innlögnum á ikort sem gerð verður grein fyrir hér á eftir. Við skýrslugjöf hjá lögreglu hafnaði ákærði því alfarið að þessi grunur ætti við rök að styðjast. Hann gat þó ekki gefið skýringar á því hvað þarna væri á ferðinni og bar því jafnan við að um svo mikið magn talna væri að ræða að hann þyrfti að fá að skoða þetta betur, en bætti því við þegar líða tók á skýrslutökuna að þetta „gæti verið verkefni eða eitthvað tengt náminu“. Þegar skjölin voru borin undir hann við skýrslutöku fyrir dómi 10. ágúst 2016 sagði hann það fráleitt að þau hefðu að geyma skráningu á fíkniefnaviðskiptum og var helst á því að skjölin tengdust verkefnavinnu í námi hans í [...]. Ákærði gaf skýrslu að nýju fyrir dómi 23. ágúst 2016, en þá hélt hann því fram að hann hafi stundað veðmál á netinu og að hann hafi haldið utan um þau með þeim excel-skjölum sem hér um ræðir. Hafði ákærði þá lagt fram gögn og leitt vitni sem renna eiga stoðum undir þennan framburð hans.

5.

Við húsleit hjá ákærða Davíð var lagt hald á Canon EOS 650D myndavél. Við rannsókn lögreglu á minniskorti sem var í vélinni reyndist það innihalda myndir sem sýna Norrænu við höfn í Seyðisfirði og aðstæður þar sem bifreiðum er ekið í land og tollskoðun fer fram. Kemur fram í lögregluskýrslu að rannsókn á minniskortinu hafi leitt það í ljós að myndirnar hafi verið teknar klukkan 9 að morgni 9. júlí 2015. Við skýrslugjöf hjá lögreglu kannaðist ákærði ekki við að hafa tekið þessar myndir og kvaðst oft hafa lánað myndavélina og að margir hefðu fengið að nota hana.

6.

Við húsleit lögreglu á dvalarstað ákærða Baldurs að [...] við Hafnarfjörð fundust meðal annars 25 svonefnd ikort sem áður hefur verið vikið að. Í vitnisburði G, framkvæmdastjóra H ehf., sem annast dreifingu þessara korta hér á landi, kom fram að um sé að ræða svokölluð rafeyriskort sem gefin séu út af fyrirtæki í London og seld í 24 löndum í Evrópu. Nánar tiltekið séu þetta fyrirframgreidd MasterCard greiðslukort sem virki eins og debetkort þar sem ekki sé hægt að taka meira út af hverju korti en innstæða er fyrir. Öll ikort séu tengd símanúmeri og í 90% tilvika skráð á nafn. Til þess að virkja kortið þarf pin-númer sem hægt er að fá sent með smáskilaboðum í það símanúmer sem kortið er tengt. Tengja megi fjögur kort við hvert símanúmer, en í því máli sem hér um ræðir hafi vegna mistaka verið vikið frá þeirri reglu. Hámarksfjárhæð á kort sé 420.000 krónur á almanaksári þegar kort er ekki skráð á nafn og ekki uppfært með því að notandi skili inn afriti af tilteknum gögnum, til dæmis ökuskírteini eða vegabréfi. Ef uppfærsla á sér á hinn bóginn stað er hámarksfjárhæð 585.000 krónur á dag en hámarksinnstæða á korti hverju sinni sé 1.500.000 krónur. Hleðsla inn á kortin sé rafræn í 90% tilvika, en annars sé hægt að leggja inn á þau á pósthúsum, í bönkum og á skrifstofu H ehf. Í þeim tilvikum þegar lagt er inn á ikort með reiðufé sé haldið utan um það með skráningu hjá félaginu. Samkvæmt fyrirliggjandi skýrslu I lögreglufulltrúa, sem rituð var 12. október 2015, leiddi rannsókn lögreglu á þessum 25 kortum í ljós að á tímabilinu 22. júlí til 2. september 2015 voru lagðar inn á þau á skrifstofu H ehf. hér á landi 7.940.000 krónur í reiðufé. Á tímabilinu 23. júlí til 8. september hefðu verið teknar 6.996.334 krónur út af kortunum í hraðbönkum í öðrum Evrópulöndum. Rannsóknargögn sýni jafnframt að ákærði Davíð hafi lagt inn rúmlega helming framangreindrar fjárhæðar, eða 4.439.992 krónur, á tímabilinu 21. til 25. ágúst 2015. Ákærði Baldur hafi síðan komið á skrifstofu H ehf. við [...] í Reykjavík 10. september 2015 og tæmt umrædd 25 kort, en innstæða á þeim hafi þá numið 42.159 krónum. Sama dag hafi hann keypt fimm ný kort og lagt 230.000 krónur inn á hvert þeirra, eða samtals 1.150.000 krónur. Út af þessum kortum hefðu verið teknar 1.031.392 krónur í hraðabönkum í Hollandi dagana 12. til 17. september 2015. Samtals hefðu því verið lagðar 9.090.000 krónur inn á framangreind 30 ikort á tímabilinu 22. júlí til 10. september 2015 og samtals teknar út af þeim í hraðbönkum í Evrópu 8.027.726 krónur á tímabilinu 23. júlí til 17. september sama ár. Í þessari lögregluskýrslu kemur einnig fram að kortin sem fundust á dvalarstað ákærða Baldurs hafi verið virkjuð í gegnum símanúmerin [...] og [...]. Þá hafi símkort með númerinu [...] fundist við leit í bifreið ákærða Davíðs, en það númer hafi verið tengt 5 af þessum 25 kortum og notað til að virkja þau. Í annarri skýrslu sem I ritaði 28. október 2015 kemur fram að aflað hafi verið ljósmynda frá Hollandi sem sýni tvo menn taka út peninga í hraðbönkum í Amsterdam af ikortum sem framangreind lögreglurannsókn tekur til. Svo sem tekið er fram í skýrslunni og framlagðar ljósmyndir bera með sér hylur annar þessara manna andlit sitt með hettu og sólgleraugum. Ekki hafa verið borin kennsl á hinn manninn. Við skýrslutökur hjá lögreglu kusu ákærðu að meginstefnu til að neita að svara spurningum sem snertu ikortin.   

7.

                Svo sem fram hefur komið voru tveir BlackBerry farsímar haldlagðir við leit hjá ákærða Baldri. Við rannsókn á þeim síma sem ákærði á að hafa haldið á þegar hann var handtekinn, en númer hans var [...], kom í ljós að ekki var unnt að ná gögnum úr tækinu þar sem það væri dulkóðað og engin úrræði væru fyrir hendi hér á landi til að rannsaka innihald símans. Var tekin ákvörðun um að senda hann til Hollands til rannsóknar. Sérfræðingur á réttarvísindastofnun Hollands, J, sem hafði rannsóknina með höndum skrifaði skýrslu um hana þar sem segir meðal annars svo í íslenskri þýðingu: „Hljóðnemi símans var ekki til staðar. Einn möguleiki er sá að hljóðneminn hafi verið fjarlægður til að koma í veg fyrir mögulega hlerun á símanum. Í símanum var forritið SecureChat frá fyrirtækinu SCA. Þetta spjallforrit gerir kleift að dulkóða spjall án þess að skilja eftir merki þess í leifturminninu.“ Með síðastnefnda orðinu er samkvæmt neðanmálsgrein í skýrslunni átt við tiltekna tegund af tölvuminnisflögu (e. flash memory). Hinn BlackBerry síminn sem fannst við leit hjá ákærða Baldri var með númerið [...]. Hefur ákærði skýrt svo frá að hann hafi keypt haldlagða BlackBerry síma í verslun í Amsterdam í Hollandi sem heiti [...] og fleiri síma sömu gerðar sem hann hafi selt hér á landi.

                Við leit í bifreið ákærða Davíðs fundust tveir tómir kassar utan af BlackBerry síma. Er í ljós leitt að svokallað IMEI-númer á öðrum þeirra er hið sama og IMEI-númer þess síma sem ákærði Baldur hafði meðferðis þegar hann var handtekinn. Ekkert er vitað um símann sem var í hinum kassanum og IMEI-númer hans hefur ekki komið við sögu í rannsókn lögreglu. Hefur ákærði Davíð borið á þann veg að líklega hafi meðákærði Baldur skilið kassana eftir í bifreiðinni eftir að hafa opnað þá þar og tekið símana úr þeim. Þá hefur ákærði Davíð staðhæft að hann hafi aldrei átt BlackBerry síma eða haft slíkan síma til umráða. Allt að einu er það ætlan ákæruvalds að reyndin sé önnur. Er það byggt á því að rannsókn lögreglu hafi leitt í ljós að farsími í eigu ákærða með númerið [...] og BlackBerry sími með tilteknu IMEI-númeri og símanúmerinu [...], sem ekki hefur komið í leitirnar, hafi fylgst talsvert að á tímabilinu 14. til 28. september 2015. Hafa verið lögð fram í málinu rannsóknargögn sem að mati ákæruvalds eiga að staðfesta þetta. Er í skýrslu sem rituð var af K rannsóknarlögreglumanni 29. febrúar 2016 gerð grein fyrir þessari rannsókn og niðurstöðum hennar. Þar segir meðal annars svo: „Við skoðun á símagögnum kom í ljós ákveðin tenging á milli [...], einkasíma Davíðs, og BlackBerry símans [...]. Gögnin voru samkeyrð á þann veg að allar tengingar sem þessi tvö símtæki áttu á innan við sömu mínútu voru dregnar fram. Þá var fjarlægð milli þeirra senda sem þau notuðu mæld. Markmiðið var að komast að því hvort þessi tvö símtæki myndu fylgjast að. Það skal tekið fram að símarnir geta aldrei verið á sama sendi þar eð þeir vinna á mismunandi kerfum, sími Davíðs er á kerfi Nova á meðan BlackBerry síminn er á kerfi Símans. Þýðir það að símarnir eru aldrei á sama sendi með „0 metra“ í fjarlægð. Talin voru 106 skipti þar sem símarnir tengdust á innan við mínútu. Yfirlit tenginga fylgir í sér skjali. Þykir undirrituðum það sýna töluverða fylgni símanna þar sem þeir ferðast á sömu svæðum á höfuðborgarsvæðinu samtímis. Meðalfjarlægð milli senda á [...] og [...] miðað við einnar mínútu þröskuld var 1594 metrar. Mesta notkunin var í Kópavogi í kringum Smára- og Hjallahverfið.“ Áður er fram komið að á þessum tíma bjó ákærði Davíð að [...] í Kópavogi. Í skýrslunni er einnig gerð grein fyrir því sem þar er kallað „notkunarmynstur einkasíma Davíðs“. Um þetta segir meðal annars svo: „Þegar ferðir einkasíma Davíðs eru skoðaðar veitti skýrsluritari því eftirtekt að svo virðist sem sími Davíðs missi tengingu um það leyti sem mikilvægir atburðir í málinu áttu sér stað. Ákvað hann að kanna frekar notkunarmynstur símanúmersins með það fyrir augum hvort hægt væri að sjá hvort slökkt hefði verið á síma hans á ákveðnum tímapunktum. Til að ákvarða þetta var tímalengd á milli tenginga mæld, þ.e. í hvert sinn sem tenging átti sér stað var mældur tíminn fram að næstu tengingu. Þetta var framkvæmt á allar tengingar frá 1. september til og með 28. september. ... Í ljós kom stökk á milli daga, þ.e. líklega var slökkt á símanum að nóttu til og lítil virkni kvölds og morgna. Mjög mikil notkun er aftur á móti á farsíma Davíðs á hverjum degi enda mjög lítill tími á milli tenginga almennt. Þessi mikla virkni á símanum gerir það að verkum að löng hlé á milli tenginga standa út úr gögnunum. ... Þegar hlé umfram 5 klukkustundir eru skoðuð kom í ljós að yfirleitt var um að ræða hlé sem lauk að morgni til og líkleg útskýring var því nætursvefn. Fjöldi nótta á tímabilinu var 27 og því má gera ráð fyrir 27 löngum hléum á milli tenginga vegna nætursvefns. Vitað er að Davíð var erlendis á tímabilinu sem kemur heim og saman við langt hlé. Séu hléin borin saman við tímalínu máls kemur í ljós að þau passa á nokkrum stöðum við tímalínuna. Skömmu áður en hollenska parið kom að höfuðborgarsvæðinu ferðuðust BlackBerry símarnir [...] og [...] til Hveragerðis. Þá var 2 klst. og 26 mínútna hlé á notkun einkasíma Davíðs. Þegar parið var komið á [...] í Vallarhverfinu ferðaðist [...] þangað þann 23. september klukkan 20:55 og [...] var á svipuðu svæði á þeim tíma. Á því tímabili var 4 klst. og 7 mínútna hlé á notkun einkasíma Davíðs. Þegar Baldur og Davíð fóru til Keflavíkur þann 24. september var 3 klst. og 54 mínútna hlé á notkun einkasíma Davíðs. Gögnin bera með sér að hlé á símnotkun Davíðs séu sjaldgæf og því er óvenjulegt  að svo löng hlé hitti nákvæmlega á þau tímabil þar sem Davíð og/eða BlackBerry farsíminn [...] ferðaðist í beinum tengslum við málið.“ Þá er á meðal gagna málsins greinargerð sem rituð er af L, starfsmanni í upplýsinga- og áætlanadeild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, um rannsókn á tengslum og staðsetningum aðila sem málinu tengjast hér á landi út frá notkun samskiptatækja. Auk þess sem þar er rakið um fylgni á milli BlackBerry síma með númerin [...] og [...] og jafnframt er greint frá í framangreindri skýrslu K kemur fram í greinargerðinni að á milli klukkan 11:42 og 13:33 fimmtudaginn 24. september 2015 hafi símar ákærða Jeffrey ([...]) og A komið fram á sömu sendum í Reykjanesbæ og sími ákærða Baldurs ([...]) og BlackBerry síminn með númerinu [...], sem eignaður hefur verið ákærða Davíð. Það hvernig símarnir flakki á milli senda á svæðinu samsvari því að þeir hafi verið notaðir við [...] og [...] í Reykjanesbæ.

Í greinargerð L er auk þess, sem að framan er getið, rakin niðurstaða athugunar hans á staðsetningu tiltekinna símtækja hverju sinni út frá þeim sendum sem númer þeirra koma fram á. Samkvæmt greinargerðinni og þeim gögnum sem hann studdist við er það niðurstaða hans að BlackBerry sími í eigu ákærða Baldurs með númerinu [...] hafi komið fram á sendum við Seyðisfjörð að morgni 22. september 2015 við [...] laust eftir klukkan 15 daginn eftir og í miðbæ Hafnarfjarðar um það bil klukkustund síðar. Símar ákærða Jeffrey og A hafi tengst sendum í nágrenni þessara staða á sama tíma og ákærði Baldur var þar staddur. Þá kemur fram í umfjöllun í  greinargerðinni að sími ákærða Peter hafi tengst sendi við Leifsstöð klukkan 14:35 mánudaginn 28. september 2015 og að framangreindur BlackBerry sími ákærða Baldurs hafi tengst sama sendi 16 mínútum áður. Þá hefðu símar ákærðu komið fram á sendum í Keflavík frá klukkan 14:57 til 16:57 þennan sama dag. Af töflum og uppdráttum í greinargerðinni verður á hinn bóginn ráðið að númer þess BlackBerry síma sem síðast er vísað til hafi verið [...] og fær það samrýmst því að ákærði var með þann síma undir höndum þegar hann var handtekinn.                 

Þar er samkvæmt framansögðu mat lögreglu að ákærðu hafi báðir haft samskonar BlackBerry síma undir höndum og notað þá til að eiga í dulkóðuðum samskiptum. Þannig hafi ekki verið um hefðbundin símasamskipti að ræða á milli þeirra aðila sem tengjast málinu heldur hafi þau farið fram í gegnum tiltekna samskiptamiðlun á internetinu. Af þessum sökum finnist engin gögn um bein samskipti aðila, símtöl eða smáskilaboð, til dæmis á milli ákærðu og þeirra manna sem staddir voru í Hollandi og talið er að hafi átt aðild að innflutningi þeirra fíkniefna sem ákært er fyrir í málinu hingað til lands. 

III

                Í þessum kafla dómsins verður gerð grein fyrir framburði ákærðu við aðalmeðferð málsins og við skýrslugjöf hjá lögreglu eftir því sem þörf er á.

                Teknar voru fimm skýrslur af ákærða Jeffrey við rannsókn málsins. Í fyrstu skýrslutöku kvaðst hann ekki hafa vitað að fíkniefni væru í bifreiðinni og að ferð hans hingað til lands hafi átt að vera skoðunar- og skemmtiferð. Í þeirri næstu hélt hann sig í fyrstu við þennan framburð sinn en gekkst síðan við því að hafa tekið að sér að flytja hingað fíkniefni fyrir tvo Hollendinga og að annar þeirra héti B. Hann hafi ekkert vitað um tegund fíkniefnanna og magn en fullyrti að hann hefði aldrei tekið þetta að sér miðað við það magn sem fundist hefði í bifreiðinni að sögn lögreglu. Bifreiðina hafi hann fengið stuttu áður en hann lagði upp í ferðina til Íslands. Honum hafi verið sagt að fíkniefnin væru vel falin í bifreiðinni og að hann ætti að skilja hana eftir á einhverjum stað þegar hann væri kominn til Íslands og þá kæmu menn og tækju þau í sínar vörslur. Við þriðju skýrslutöku var ákærði afdráttarlaus í þeim framburði sínum að honum hafi verið skýrt frá því um það bil tveimur vikum áður en hann hélt til Íslands að hann ætti að flytja til landsins þrjá pakka af fíkniefnum. Tegund fíkniefna hafi ekki verið nefnd og magn ekki heldur. Viðstaddir auk hans hafi verið B, ákærði Peter og C. Hann hafi átt að fá 7000 evrur fyrir að gera þetta og verið búinn að móttaka helming þeirrar greiðslu þegar hann lagði upp í seinni ferð sína hingað til lands. Í síðustu tveimur skýrslutökunum kvaðst ákærði ekki vera viss um að ákærði Peter hafi verið viðstaddur þegar borist hafi í tal að um fíkniefnasendingu væri að ræða en dró að öðru leyti ekki til baka það sem að framan er rakið.

                Í skýrslu sinni fyrir dómi hvarf ákærði frá þessari játningu sinni. Kvaðst hann hafa tekið að sér að flytja þrjá pakka hingað til lands en ekki vitað hvað væri í þeim. Þá kvaðst hann ekki minnast þess að hafa skýrt frá málsatvikum hjá lögreglu með þeim hætti sem haft er eftir honum samkvæmt framansögðu og að þetta væri í öllu falli ekki rétt þar sem hann hafi fyrst vitað um tilvist fíkniefna í bifreiðinni þegar lögreglumenn skýrðu honum frá því að þau hefðu fundist þar. Tók hann fram að hann hafi verið mjög stressaður meðan á skýrslutökunum stóð og að „hausinn á honum verið í algjöru rugli“ en nú væri hann miklu rólegri og gerði sér betur grein fyrir því hvað var að gerast. Beðinn um að lýsa tildrögum fyrri ferðar sinnar hingað til lands svaraði ákærði því til að maður sem hann hefði þekkt í fjögur ár hafi spurt hann hvort hann vildi ekki ferðast til Íslands. Mál hefðu síðan þróast á þann veg að hann hafi fallist á að gera það en það hafi aldrei verið rætt að hann ætti að flytja með sér fíkniefni. Talað hafi verið við hann um skemmtilega ferð til Íslands og að hann hafi átt að fá greiddar 7000 evrur fyrir að fara í hana. Inntur eftir því af hverju hann hafi átt að fá þessa greiðslu fyrir að fara í ferðina sagði ákærði að hann hafi talið að einhver sem ætti heima hér á landi þyrfti að fá eitthvað sem honum væri ætlað að flytja með sér en hann hafi ekkert vitað hvað það var. Það hafi verið rætt um þrjá pakka og ekkert umfram það. Honum hafi ekkert fundist grunsamlegt við þetta og því ekki spurt um hvað væri í pökkunum. Afhending á pökkunum þegar til Íslands væri komið hafi ekki átt að vera í höndum hans. B og C hefðu beðið hann um að fara í þessa ferð. Hann hafi átt að láta vita C þegar hann væri kominn til Íslands og þá yrði honum leiðbeint í gegnum síma um það hvað hann ætti að gera. Það hafi gengið eftir og reyndar hefðu þeir verið í nokkrum símasamskiptum þegar hér var komið sögu. Ferðaupplýsingar hafi hann einnig nálgast á netinu og síðan hafi meðákærði Peter líka hjálpað honum. Spurður um bílinn kvaðst ákærði ekki vita hver væri eigandi hans en búið hafi verið að skrá hann á sitt nafn stuttu áður en hann lagði af stað í ferðina. Hann hafi farið með C til að sækja bílinn. Hann hafi hitt konuna sem fór með honum til Íslands kvöldið áður en þau lögðu af stað. Hann hafi ekki hitt hana áður og ekki vitað af hverju hún var látin fara með honum. Hún hafi ekki haft ökuskírteini meðferðis og hann því ekið bifreiðinni. Í skýrslu sinni gaf ákærði þá skýringu á ástæðum þess að þau flugu af landi brott að morgni föstudagsins 25. september að þeim hafi verið skipað að gera það. Ástæðan hafi sennilega verið sú að menn hafi fengið veður af því að eitthvað væri ekki í lagi hér og nefndi hann lögregluna í því sambandi. Hann hafi ekki veitt því athygli að honum væri veitt eftirför en engu að síður verið farið að gruna það þegar hér var komið sögu að fíkniefni væru í bílnum. Fram að þessu hafi hann engan grun haft um þetta. Ákærði Peter hafi sótt hann á flugvöllinn í Dusseldorf. Daginn eftir hafi hann heimsótt B og C og talað við þá um ferðina. Þeir hefðu sagt að hann þyrfti að fljúga til baka til Íslands næsta mánudag. Ákærði Peter, sem hafi líka flogið til Íslands þennan dag, hafi þá bókað flugið fyrir hann en hann hafi sjálfur greitt fyrir það. Aðspurður gat ákærði ekki gefið skýringu á því af hverju þeir ferðuðust ekki saman til Íslands. Hlutverk hans í tengslum við þessa seinni ferð hans hingað til lands hafi verið bundið við það að aka bifreiðinni frá flugstöðinni og að húsinu þar sem þeir voru síðan handteknir. Hafði hann enga skýringu á því af hverju meðákærða var ekki falið að hafa þetta verk með höndum. Honum hafi líklega verið ætlað að afgreiða málið. Þegar þeir voru báðir komnir til landsins hefðu þeir skipst á sms-skilaboðum og líklega talað saman í síma einu sinni. Hann hafi enga hugmynd haft um það hvert hann ætti að fara en meðákærði hafi leiðbeint honum. Hugmyndin hafi síðan verið sú að þegar búið væri að afgreiða málið myndi hann aka bifreiðinni aftur til Seyðisfjarðar og sigla með ferjunni til baka. Spurður um hvort hann hafi verið búinn að móttaka einhverja greiðslu fyrir að fara í ferðina áður en hann var handtekinn svaraði hann því játandi og sagði að það hefðu verið 3.000 evrur. Inntur eftir því hversu lengi hann hefði þekkt meðákærða Peter sagði ákærði að hann hafi fyrst hitt hann þremur vikum áður en hann fór fyrst til Íslands. Meðákærði hafi verið á staðnum þegar ákærði móttók framangreinda greiðslu en ekki séð þegar það gerðist. Þá er þess að geta að þegar ákærða var sýndur leiðbeiningamiði á hollensku sem fannst við leit í bifreiðinni og áður er getið skýrði hann frá því að C hafi látið hann fá miðann. Loks ber að nefna að í framburði ákærða kom fram að hann hafi unnið við það í heimalandi sínu að keyra út mat. 

                Í skýrslu sinni fyrir dómi skýrði ákærði Peter Schmitz svo frá aðdraganda ferðar sinnar til Íslands í lok september 2015 að hann hafi fengið símtal frá C eða B og verið beðinn um að takast þessa ferð á hendur til að að nálgast peninga sem búið væri að koma fyrir í leynihólfi í bifreið. Það hafi verið einhver kúnst að ná þeim þaðan en hann hafi fengið skriflegar leiðbeiningar frá C um hvernig ætti að gera það. Spurður um tengsl sín við þá tvímenninga svaraði ákærði því til að hann hafi þekkt B í gegnum sameiginlegan kunningja. Hann hafi samþykkt að gera þetta. Þá hafi hann bókað leigu á húsi að [...] rétt fyrir ferðina til Íslands. Spurður um hvort hann hafi eitthvað þekkt til meðákærða Jeffrey kvaðst ákærði hafa hitt hann í fyrsta skipti um það bil tveimur vikum áður. Þar hafi ákærði verið beðinn um að aðstoða meðákærða við skipulagningu ferðarinnar. Hafi aðstoðin falist í því að bóka fyrir hann far með ferjunni og flugbókun. Af framburði ákærða verður ráðið að á þessum tíma hafi ekkert verið rætt um tilgang ferðar meðákærða til Íslands. Kvaðst ákærði hafa gengið út frá því, svo sem hann hafi síðar verið upplýstur um, að meðákærði ætti að gera það sama og hann hafi sjálfur gert þegar hann ferðaðist til Íslands í ágúst 2015, það er að flytja peninga hingað til lands. Hefur ákærði lýst þeirri ferð svo að hann hafi farið til Íslands með Norrænu og ekið bifreið, sem hann flutti með sér hingað, frá Seyðisfirði og suður um land til Reykjavíkur. Á þeirri leið hafi hann verið stöðvaður af manni sem hann ekki þekkti og bifreiðin sem hann var á verið tekin svo að nálgast mætti peningana sem voru í henni en skilað aftur nokkrum mínútum síðar. Þegar ákærði var fyrir dómi beðinn um að gefa skýringu á því af hverju hann og meðákærði Jeffrey ferðuðust ekki saman til Íslands 28. september 2015 svaraði hann því til að eftir Íslandsferðina hafi hann ætlað að fara í frí til Sardiníu en þurft að koma við hjá kunningja sínum í Þýskalandi á leiðinni þangað til að nálgast þar dót sem hann hafi þurft að hafa með sér í fríið. Í ljósi þessa hafi verið hagstæðast fyrir hann að fljúga til Íslands frá Kaupmannahöfn. Hafnaði ákærði því alfarið að ákærðu hafi haft þennan hátt á í þeim tilgangi að villa um fyrir lögreglu. Þegar þeir voru komnir til landsins hefðu þeir rætt saman í síma. Þá hafi hann líka verið í sambandi við C, þeir hefðu skipst á sms-skilaboðum, en gerð hefur verið grein fyrir meginefni þeirra í kafla II.3 hér að framan. Þegar ákærði var beðinn um að skýra þann hluta þeirra sem snýr að því að einhver væri að reka á eftir því að afhending á því sem var í bílnum færi fram svaraði hann því til að þegar C hafi spurst fyrir um það hver ætti þriðja bílinn, sem stóð við húsið sem hann hafði tekið á leigu að [...], hafi hann gert sér grein fyrir að viðtakandi sendingarinnar eða einhver á hans vegum væri staddur í nágrenninu og væri að fylgjast með honum. Hann hafi ekki vitað hver var þarna á ferð, en fundist sem verið væri að pressa óþarflega mikið á hann og svarað því til að ef svona mikið lægi á gæti þessi aðili bara komið á staðinn og séð um þetta sjálfur. Þá áréttaði ákærði að hann hafi á þessum tíma ekki haft vitneskju um það hverjum hann ætti að afhenda peningana og beðið eftir fyrirmælum þar að lútandi. Að sögn ákærða liðu um það bil 20 mínútur frá því að ákærðu voru komnir að [...] og þar til lögreglumenn birtust þar og handtóku þá. Honum hafi verið ætlað það hlutverk að taka peningana úr bílnum og afhenda þá, meðákærði hafi ekkert átt að koma nærri því. Hann hafi grunað að afhendingin ætti að eiga sér stað við [...] en ekki verið búinn að fá upplýsingar um afhendingarstað þegar hann var handtekinn. Hann hafi átt að fá 5.000 evrur fyrir sína aðkomu sem greiddar yrðu þegar hann kæmi til baka úr þessari ferð. Meðan á öllu þessu ferli stóð hafi aldrei verið minnst á það þannig að hann heyrði að um fíkniefnasendingu væri að ræða og hann hafi aldrei grunað það. Það að hann hafi verið beðinn um að fara til Íslands í lok september í kjölfar þess að meðákærði kom úr fyrri ferð sinni megi líklega rekja til þess að honum hafi ekki verið treyst til að klára verkið. Þá kvaðst ákærði hafa heyrt rætt um það þegar hér var komið sögu að leit hafi verið framkvæmd í bifreið meðákærða við komu hans hingað til lands og að fíkniefnaleitarhundur hafi verið notaður við hana. Það að ekkert hafi komið út úr þeirri leit hafi í huga ákærða verið staðfesting á því að engin fíkniefni væru í bifreiðinni. Inntur eftir því hvort hann hafi átt í einhverjum samskiptum við ákærðu Baldur og Davíð eða þekki til þeirra sagði ákærði svo ekki vera. Fyrir liggur að þegar lögregla kom á vettvang að [...] var ákærði í gúmmíhönskum. Spurður um ástæðu þess sagði ákærði að hann hafi verið að hreinsa klósettið í húsinu, ástandið þar hafi ekki verið mönnum bjóðandi og hann strax ráðist í að þrífa það. Loks er þess að geta að í tengslum við framburð ákærða um greiðslu til hans var borin undir hann skýrsla M lögreglumanns um óformlegt samtal þeirra þar sem ákærði á að hafa skýrt svo frá að ef hann fengi meira en 10.000 evrur frá aðilanum sem hann myndi hitta á Íslandi ætti hann að láta meðákærða Jeffrey fá afganginn. Staðfesti ákærði að lögreglumaðurinn hafi spurst fyrir um það í samtali þeirra hvað hann og aðrir ættu að fá fyrir aðkomu sína að málinu og hann þá nefnt þessar tölur.

Í skýrslu sinni við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærði Baldur ekkert kannast við einstaklinga að nafni B, C eða C. Hið sama ætti við um meðákærðu Jeffrey og Peter. Leiðir hans og þessara manna hafi aldrei legið saman. Aðspurður greindi ákærði svo frá ferðum sínum 21. og 22. september 2015 að hann og unnusta hans hefðu tekið skyndiákvörðun um að fara austur á land. Hefðu þau ekið suðurleiðina þangað og aðallega varið tíma sínum fyrri daginn á Egilsstöðum og Hallormsstað og gist þar um nóttina. Þau hefðu vaknað mjög snemma morguninn eftir og þá ekið til Seyðisfjarðar og skoðað sig aðeins um þar en að því búnu haldið aftur til Reykjavíkur. Tók ákærði sérstaklega fram að hann hafi ekið um Öxi á leið sinni til baka. Hafnaði hann alfarið getgátum um að ferð hans til Seyðisfjarðar hafi tengst innflutningi á fíkniefnum. Aðspurður kvaðst ákærði minnast þess að hafa lagt bifreið, sem hann var með á leigu, á bílastæði við [...] í [...], en svo sem fram er komið er á því byggt af hálfu ákæruvalds að þar hafi hann verið staddur miðvikudaginn 23. september 2015. Kvaðst ákærði hafi verið á „einhverjum rúnti“ og verið á bílastæðinu í eina til tvær klukkustundir. Hann hafi varið tímanum í að senda tölvupóst og sýsla ýmislegt annað. Hann hafi ekki verið þarna staddur til að fylgjast með hollensku bifreiðinni. Kvaðst hann keyra mjög mikið og ávallt hafa gert það í gegnum tíðina. Á ferðum sínum 21. til 23. september hafi hann verið á bílaleigubifreið, hvítum Benz jeppa. Beðinn um að skýra frá ferðum sínum 24. september kvaðst hann hafa farið í ræktina, hitt lögfræðing sinn, skilað Benz bifreiðinni og tekið Skoda bifreið á leigu. Hann hafi farið í klippingu og hitt meðákærða Davíð. Þeir hefðu verið að láta vinna fyrir sig netsíður, það er [...] og [...], og farið til Keflavíkur til að hitta „[N]“, sem sjái um og forriti síðurnar. N þennan hafi hann ekki hitt áður. Þeir hefðu einungis stoppað í nokkrar mínútur hjá honum. Þar sem þeir hefðu verið að velta því fyrir sér að stofna bílaleigu hefðu þeir farið á eina slíka, ekið á flugvallarsvæðið og skoðað bílaleiguaðstöðuna þar, fengið sér að borða og varið tíma saman á staðnum. Megintilgangur ferðarinnar hafi verið að hitta N, að verja saman tíma og velta framangreindum áformum fyrir sér. Greindi hann svo frá tengslum sínum og meðákærða að þeir ættu saman fyrirtæki og hjálpuðust að með ýmislegt, meðákærði hafi meðal annars lánað honum peninga. Þeir væru góðir vinir, en þó hefðu unnustur þeirra bara hist einu sinni.

Aðspurður kvað hann það vera tilviljun að hollenska bifreiðin hafi verið stödd á svipuðum stað í Keflavík og þeir á þessum tíma. Um kvöldið hafi hann farið í mat til ömmu sinnar og afa í [...] með unnustu sinni. Hann hafi ekki farið aftur til Keflavíkur þá. Spurður um hvað hann aðhafðist 28. september kvaðst hann hafa farið suður á Keflavíkurflugvöll um hádegisbil til að skoða bílaleiguaðstöðuna og annað í tengslum við áðurgreindar vangaveltur hans og meðákærða. Systir hans hafi komið til landsins þennan dag og hann séð bíl móður sinnar við flugvöllinn. Bílaleiguaðstöðuna hafi hann skoðað vegna bókunarsíðna fyrir bílaleigur sem þeir hafi verið með í vinnslu á þessum tíma og hugmynda um opnun bílaleigu. Hann hafi ekki haft í hyggju að koma aftur til landsins í bráð og því viljað kynna sér aðstæður fyrir brottför til Spánar. Þá hafi hann farið til Keflavíkur og litið á húsnæði og bílastæði sem þeir hefðu áður skoðað og gæti hentað undir bílaleigu. Svo hafi hann tekið bensín á [...], fengið sér kaffi á [...] og ekið í áttina til Reykjavíkur. Hafi hann ákveðið að koma við hjá ömmu sinni og afa í [...], en þau ekki verið heima. Í kjölfarið hafi hann ekið áfram [...] og meðal annars stansað til að skoða lóð sem auglýst hafði verið til sölu. Hann þekki svæðið ágætlega vegna fyrri búsetu þar. Hann hafi ætlað sér að vera kominn heim klukkan fimm til að sinna fjölskylduerindum. Við gatnamót [...], þegar hann hafi verið að beygja í átt að Hafnarfirði, hafi för hans verið stöðvuð og hann handtekinn. Kvaðst hann engar skýringar hafa á því að hann hafi verið á flugvallarsvæðinu á sama tíma og meðákærði Jeffrey kom til landsins. Þegar borinn var undir hann framburður lögreglumanna þess efnis að hann hafi lagt Skoda bifreiðinni á stað þar sem gott útsýni væri yfir að [...] kvaðst hann hafa stöðvað bifreiðina við skilti sem á hafi staðið „til sölu“ og áréttaði framangreinda skýringu sína á ástæðu þess að hann var þarna staddur. Við handtökuna hafi hann haft meðferðis síma, sígarettur, sódavatnsflösku, útivistarföt, kíki og peninga. Útivistarfatnaðurinn og kíkirinn hafi verið í poka í Benz bifreiðinni og hann fært pokann yfir í Skoda bifreiðina þegar hann skipti um bílaleigubíl. Þá hafi hann verið með BlackBerry síma meðferðis, en þess er áður getið að númer hans var [...]. Kvað hann það rétt að síminn hafi ekki verið með hljóðnema og að hann hafi innihaldið forrit sem heiti „Secure chat“. Hann hafi selt slíka síma, þetta væru dýrir símar sem hann hafi selt í tvö ár. Hátt verð sé tilkomið vegna forritsins „Secure chat“. Hann hafi keypt þessa síma í verslun í Amsterdam í Hollandi og að hún heiti „[...]“. Aðspurður kvað ákærði það geta verið að hann hafi notað símanúmerið [...], það númer geti hafa verið í öðrum BlackBerry símanum sem hann og unnusta hans hefðu átt, en hans persónulega númer á þessum tíma hafi verið spænskt. Hann hafi haft tvo BlackBerry síma meðferðis til að selja þá og hafi unnusta hans verið með annan þeirra. Hann noti þá síma sem hann selji. Þegar ákærði var inntur eftir því hvort hann hafi notað þessa síma til að eiga í dulkóðuðum samskiptum var framburður hans á þann veg að verið gæti að hann hafi sent unnustu sinni dulkóðuð skilaboð, en öðrum ekki.

Þegar borið var undir ákærða að útgjöld hans fyrir afnot af bílaleigubifreiðum hér á landi á tímabilinu 4. maí til 20. september árið 2015 hafi samkvæmt gögnum málsins numið 1.429.945 krónum kvað hann það henta sér betur, þrátt fyrir þennan mikla kostnað, að leigja bíla þegar hann væri staddur á landinu frekar en eiga bíl hér. Þegar hann var beðinn um að gefa skýringu á því að á tímabilinu júlí til september 2015 hafi hann samkvæmt gögnum málsins leigt fimm bílaleigubifreiðar og ekið þeim samtals 8.837 kílómetra kvaðst hann aka mjög mikið. Hann sé á ferðinni nánast allan daginn og í hans tilviki sé það ekki óeðlilegt. Spurður um fjárhagsstöðu sína svaraði hann því til að hann hafi skoðað þann möguleika með lögfræðingi sínum að lýsa sig gjaldþrota. Hafi lögfræðingurinn ráðlagt honum að gera það til að koma fjármálum sínum á hreint. Skuldir hans hafi numið fimmtán til tuttugu milljónum króna og hann hafi ekki náð að grynnka á persónulegum skuldum sínum. Inntur eftir því hvernig það færi saman að leigja bílaleigubíla fyrir slíkar fjárhæðir á rúmlega fjögurra mánaða tímabili og reyna á sama tíma að grynnka á skuldum, greindi hann frá því að hann væri „náttúrulega“ með „svartar tekjur“ af sölu síma. Þá kvaðst hann einnig vinna við að finna fasteignir fyrir fólk, hvort sem það væri í leigu- eða kauphugleiðingum, og þegið svartar greiðslur fyrir þá vinnu. Hann hafi komið til landsins til að ganga frá lausum endum og að heimsóknin hafi átt að vera eins stutt og mögulegt væri. Dregist hafi að ganga frá nauðsynlegum pappírum í tengslum við beiðni um gjaldþrotaskipti á búi hans og því hafi hann enn verið á landinu við handtökuna. Hann hafi ætlað utan mánudaginn 28. september og átt að skila Skoda bílaleigubifreiðinni þann dag á flugvellinum á leið úr landi. Vegna þessarar seinkunar á brottför hafi hann framlengt leigu á bílaleigubifreiðinni til 1. október að því er hann taldi.

Spurður um ikort sem hald var lagt á við húsleit á dvalarstað hans að [...] svaraði ákærði því til að fé hafi verið lagt inn á kortin hér á landi og það síðan tekið út af þeim erlendis. Hafi þessi leið verið farin vegna gjaldeyrishafta og til þess að þurfa ekki að ferðast með peninga. Hér hafi meðal annars verið um að ræða hagnað af símasölu. Vegna búsetu sinnar á Spáni hafi hann þurft að koma þessum söluhagnaði úr landi þar sem hann hafi að sjálfsögðu ekki getað notað íslenskar krónur í útlöndum. Hann hafi selt um tuttugu síma á Íslandi og að um dýra síma sé að ræða. Innkaupsverð hafi verið 1.893 evrur og svo bætist við álagning hans. Aðspurður kvað hann það geta staðist að lagðar hafi verið 7.940.000 krónur inn á umrædd 25 ikort á tímabilinu 22. júlí til 2. september 2015 og að meðákærði Davíð hafi lagt inn hluta þessarar fjárhæðar. Þeir hafi aðstoðað hvor annan í þessu. Meðákærði hafi stundað einhver viðskipti með evrur á Íslandi, þannig að hluti af þessum peningum hafi verið frá honum, en hluti frá ákærða sjálfum. Við komur erlendis frá hafi hann flutt með sér evrur til að láta meðákærða fá. Í þessu sambandi tók ákærði það sérstaklega fram að meðákærði hafi ekki aðstoðað hann við sölu á símum. Að sögn ákærða var það að mestu í hans verkahring að taka út af kortunum og það hafi hann gert í hraðbönkum, aðallega á Spáni. Hluti af þessum fjármunum hafi svo verið lagður inn á spænskan bankareikning til að standa straum af búsetu fjölskyldunnar á Spáni. Þá staðfesti ákærði að hann hafi látið tæma framangreind 25 ikort 10. september 2015, en þá hafi innstæða á þeim verið 42.150 krónur. Sama dag hafi hann keypt fimm ný ikort og lagt 230.000 krónur inn á hvert þeirra, samtals 1.150.000 krónur. Þetta hafi hann gert til að kaupa síma í Hollandi. Hann hafi viljað að símarnir biðu hans þegar hann kæmi aftur til Spánar, hann hafi haft þennan háttinn á þar sem hann hafi ekki getað komið við í Hollandi á leiðinni heim. Mest hafi verið unnt að leggja 420.000 krónur inn á hvert kort og auk þess hafi með þessu móti verið þægilegra og fljótlegra að taka út af kortunum vegna takmörkunar á daglegri úttektarheimild. Hann greindi frá því að væntanlega hafi svo einhver á vegum hollensku búðarinnar tekið út jafnvirði 1.031.000 króna í hraðbönkum í Hollandi. Hann hafi enga ástæðu haft til að vantreysta þeim þar sem hann hafi lengi verið í viðskiptum við þá. Hann kvaðst ekki hafa skýringar á því hvers vegna einn þeirra sem tekið hafi þá fjármuni út hafi hulið andlit sitt við úttekt úr hraðbanka. Aðspurður kvað hann innlagnirnar á kortin fimm ekki hafa tengst því að meðákærði Davíð ferðaðist til Parísar sama dag. Hann kvaðst halda að meðákærði hafi ætlað að hitta konuna sína í Danmörku. Hann hafi ekki látið meðákærða hafa þessi kort áður en hann fór í þessa ferð. Þegar ákærða var kynnt að á tímabilinu 22. júlí til 10. september 2015 hafi verið lagðar samtals 9.090.000 krónur inn á ikortin 25 og hann inntur eftir því hvort þar væri alfarið um að ræða hagnað af sölu BlackBerry síma kvað hann svo ekki vera. Hluti þessara fjármuna væri þannig til kominn, en hluti þeirra væri frá meðákærða Davíð. Spurður um hvernig þeir hefðu skipt þessum fjármunum á milli sín svaraði ákærði því til að það hafi verið afgreitt í hverri ferð og engin ástæða til að halda sérstaklega utan um það. Neitaði ákærði því alfarið að fjármunirnir hafi verið notaðir til kaupa á þeim fíkniefnum sem ákæra í málinu tekur til. Þær 15.600 evrur sem hann hafi verið handtekinn með hafi verið hluti af þessum fjármunum. Gaf hann þá skýringu á því að hann hafði þessa fjármuni meðferðis í bifreiðinni að hann og unnusta hans hefðu ætlað að ferðast til Rúmeníu til að hitta [...] og síðar til Ítalíu, þar sem stærstur hluti fjölskyldu hennar búi, til að vera viðstödd brúðkaup þar. Þar hefðu þau ætlað að dvelja í tvær til þrjár vikur áður en þau færu aftur heim til Spánar. Hluta þessara fjármuna hafi staðið til að nota í tengslum við þetta ferðalag þeirra en eftirstöðvarnar verið ætlaðar til uppihalds á Spáni. Hann hafi talið bílaleigubílinn ákjósanlegan geymslustað fjármunanna, þar sem bíllinn yrði það síðasta sem hann myndi yfirgefa áður en að hann færi úr landi. Þegar honum var kynnt að meðákærðu Jeffrey og Peter hafi borið um það fyrir dómi að þeir hafi átt að fá greiddar ýmist 5.000 eða 7.000 evrur fyrir sinn þátt í að koma bifreiðinni til landsins, samanlagt 10.000 til 12.000 evrur, vísaði ákærði til þess að samkvæmt framburði þeirra hefðu þeir átt að fá greitt við heimkomu.

Við skýrslutöku af ákærða Baldri fyrir dómi var honum kynnt að rannsókn lögreglu sýndi að sími hans og símar ákærða Jeffrey og samferðakonu hans, A, hafi allir komið samtímis inn á sendi í miðbæ Hafnarfjarðar, líkt og áður hafi gerst á Seyðisfirði og við [...] og síðar í Keflavík. Greindi hann í kjölfarið frá því að þennan mánuð hafi hann haft aðsetur að [...], sem sé rétt við [...] í Hafnarfirði. Skýringin á þessu sé væntanlega „flökt“ milli Garðaholts og Fjarðar. Er honum var kynnt að þegar meðákærði Jeffrey og A hafi að kvöldi 23. september verið komin á hótel á Völlunum í Hafnarfirði hafi síminn hans og sá sími sem meðákærða Davíð væri ætlað að hafa verið með á þessum tíma verið staðsettir á sömu sendum og símar ákærða Jeffrey og A, kvaðst hann ekki muna hvort hann hafi verið staddur þarna á þessum tíma. Að því er varðar staðsetningu þessara síma í sömu slóðum í öðrum tilvikum vísaði hann til skýringa þar að lútandi sem áður er getið. Staðsetningin á símanum hans passi við ferðir hans í Keflavík, en auk þess hafi þeir farið víðar um bæinn. Þá kannaðist hann aðspurður hvorki við að meðákærði Davíð ætti sams konar síma né að hann hafi verið með símanúmerið [...]. Þegar honum var kynnt að fundist hafi umbúðir utan af BlackBerry símann sem hann sjálfur hafi notað og öðrum sams konar síma í bifreið Davíðs, kvaðst hann halda að hann hafi tekið símana tvo upp í bifreiðinni og skilið umbúðirnar sem þeir voru í eftir þar. Hann og unnusta hans hefðu ekki fengið töskurnar sínar við komuna til landsins og meðákærði hafi ekið honum út á flugvöll morguninn eftir til að ná í þær. Í þeim hafi meðal annars verið sex svona símar sem ákærði hafi ætlað að selja á Íslandi. Meðákærði hafi ekki fengið svona síma frá honum.

Við skýrslutöku hjá lögreglu kaus ákærði að svara fáu um ferðir sínar og gjörðir á tímabilinu 21. til og með 28. september 2015. Þegar þessi afstaða hans var borin undir hann fyrir dómi og þá einkum í ljósi framburðar hans þar svaraði hann því til að í greinargerð saksóknara vegna fyrsta gæsluvarðhaldsúrskurðarins hafi komið fram að hann væri leigutaki að hollensku bifreiðinni. Ekkert annað hafi getað réttlætt það að hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald. Þetta hafi angrað hann og hrætt og því hafi hann ákveðið að tjá sig ekki þar sem viðmótið sem hann hafi mætt hafi verið á þann veg að hann hafi eitthvað haft með þetta að gera og væri sekur. Engu máli hafi skipt hvað hann sagði.

Í skýrslu sinni við aðalmeðferð málsins neitaði ákærði Davíð alfarið að hafa átt aðkomu að þeim innflutningi fíkniefna sem ákært er fyrir í málinu. Kvaðst hann ekkert kannast við meðákærðu Jeffrey og Peter og ekki heldur þá aðila sem hefðu haft réttarstöðu sem sakborningar á fyrri stigum, svo sem B, C eða A. Hann og meðákærði Baldur væru hins vegar vinir og viðskiptafélagar. Þeir væru með bókunarsíður sem heiti [...] og [...]. Önnur viðskipti stundi þeir ekki saman. Hann kvað þá hafa farið til Keflavíkur 24. september á fund með N, sem sé forritari fyrir bókunarsíðuna [...]. Þeir hefðu viljað fara þangað í óvænta heimsókn vegna gruns þeirra um að verkefnið væri ekki komið eins langt á veg og þeim hafi verið tjáð. Á staðnum hafi N strax sent ákærða tölvupóst, nánar tiltekið klukkan 11:46, með vefslóð sem vísað hafi á útlit síðunnar. Í ljós hafi komið að verkefnið væri í ágætum farvegi og ekkert athugavert við það. Þeir hefðu stoppað í skamman tíma á þessum stað, í mesta lagi korter. Hann kvaðst hafa hitt N einu sinni eða tvisvar áður með O, stjórnanda verkefnisins. Það hafi verið sumarið 2015, líklega í maí. Í kjölfar heimsóknarinnar til N hefðu þeir fengið sér að borða, rúntað um og skoðað tiltekna bílaleigu. Neitaði hann því að þeir hefðu verið að fylgst með hollensku bifreiðinni, sem ekið hafi verið af meðákærða Jeffrey í næsta nágrenni við þá þennan dag.

Aðspurður kvaðst ákærði  hafa verið með símanúmerið [...] á þeim tíma sem um ræðir í málinu og kannaðist ekki við símanúmerið [...]. Inntur eftir skýringu á því hvers vegna fundist hafi kassar utan af BlackBerry síma í bifreið hans greindi hann svo frá að líklega hafi þessar umbúðir tilheyrt rusli sem verið hafi í bílnum og að grunur hans væri sá að meðákærði hafi skilið þær þar eftir. Hann kvaðst hafa vitað að meðákærði væri með BlackBerry síma og væri að selja þá hér, en ekki almennilega gert sér grein fyrir að hægt væri að nota þá til að eiga í dulkóðuðum samskiptum. Þá hafnaði ákærði alfarið getgátum lögreglu um að hann hafi haft slíkan síma undir höndum. Hann hafi verið með Iphone síma með númerinu [...] á sér þegar hann var handtekinn og að auki hafi á heimili hans verið lagt hald á síma unnustu hans og síma sem hann noti í tengslum við ferðaþjónustu sem hann reki. Þegar borin var undir ákærða sú ætlan lögreglu að töluverð fylgni hafi verið á milli farsíma hans og BlackBerry síma með númerið [...] kvaðst ákærði hvorki hafa haft þann síma undir höndum né annan sambærilegan síma. Þá væru ályktanir um fylgni ekki réttar þar sem hún hafi aldrei verið mæld. Þá kvaðst hann enga skýringu hafa á því hvers vegna mesta notkun þessa símtækis hafi verið í kringum Smára- og Hjallahverfið í Kópavogi, en í september 2015 bjó hann í [...]. Hann gæti heldur ekki skýrt hvers vegna BlackBerry síminn hafi yfirleitt verið í notkun þegar löng hlé hafi orðið á notkun á einkasíma hans og taldi það reyndar ekki rétt. Það væri líka rangt að hlé á notkun einkasímans hafi oft orðið á sama tíma og einhverjir atburðir áttu sér stað í málinu og BlackBerry síminn var á ferðinni. Þegar ákærða var að þessu sögðu kynnt sú ætlan lögreglu að notkun á þessum tiltekna BlackBerry síma hafi nánast alveg hætt þegar hann var handtekinn, en reyndar hafi mögulega verið kveikt á símanum seinna um kvöldið og síðan aftur mánuði seinna, ítrekaði hann að hann hafi ekki verið með þennan síma og með því að notkun á honum hafi haldið áfram eftir handtöku skildi hann ekki af hverju verið væri að ræða þetta. Að síðustu er þess að geta hér að lútandi að þegar ákærða var gerð grein fyrir því að símarannsókn lögreglu benti til þess að BlackBerry sími með símanúmerið [...] hafi komið inn á senda í Reykjanesbæ á sama tíma og ákærðu voru þar staddir fimmtudaginn 24. september 2015 og sitthvoru megin við tiltekna staðsetningu þeirra kvaðst ákærði ekki geta útskýrt þetta og verða að vefengja „þessi gögn“.

Við leit á heimili ákærða fannst umslag sem á höfðu verið ritaðar talnarunur og tvö símanúmer. Þegar ákærði var beðinn um að skýra þessar áritanir á umslagið kvað hann talnarunurnar vera númer á ikortum, fjögurra tölustafa númer nægi til að leggja peninga inn á slík kort. Símanúmerin séu væntanlega númerin sem ikortin hafi verið virkjuð með. Kvaðst hann aðspurður halda að þetta væru númer þeirra ikorta sem fundist hafi heima hjá meðákærða Baldri, ákærði hafi þurft að hafa þessar tölur til að leggja inn á kortin. Hann hafi lagt inn á um það bil 20 ikort. Hann væri ekki með heildarfjárhæðina á hreinu en kvaðst halda að þar hafi verið um að ræða meira en helming þeirra 7.940.000 króna sem lagðar hefðu verið inn á kortin á tímabilinu 22. júlí til 1. september 2015. Spurður af sækjanda hvar hann hafi fengið þá fjármuni og þá í ljósi þess að opinberar tekjur hans árið 2014 hafi ekki verið miklar, eða í kringum 1.100.000 krónur, kvaðst hann hafa stundað ýmis viðskipti á undanförnum árum. Hann hafi rekið mörg fyrirtæki og stundað gjaldeyrisviðskipti. Hann hafi nánar tiltekið rekið ferðaþjónustufyrirtæki, sem enn sé í rekstri, og mótorhjólaverslun, þar sem talsvert hafi verið greitt í erlendum gjaldeyri. Þá hafi hann framleitt vinsælan drykk og vöru sem tengist neyslu á neftóbaki, sem seld sé í 400 verslunum um land allt. Hann hafi ekki gefið allar tekjur sínar upp til skatts. Loks tiltók ákærði í þessu sambandi að hann hafi fengið greiddar slysabætur árið 2013 sem samkvæmt gögnum málsins námu 2.820.269 krónum. Að því er gjaldeyrisviðskiptin varðar þá hafi meðákærði í tvígang keypt evrur á Spáni fyrir krónur sem lagðar voru inn á ikort hér á landi og flutt þær með sér hingað. Evrurnar hafi ákærði síðan selt hér með 20% hagnaði. Enginn annar en meðákærði hafi tekið fé út af ikortunum og kvaðst ákærði standa í þeirri trú að þá fjármuni sem hann lagði inn á slík kort hafi meðákærði tekið út af þeim á Spáni eða Ítalíu. Þegar ákærða var kynnt að 10. september 2015 hafi meðákærði keypt fimm ný ikort og lagt inn á þau 1.150.000 krónur og að þeir fjármunir hafi að stærstum hluta verið teknir út í hraðbönkum í Hollandi á tímabilinu 12. til 17. september, kvaðst hann ekki vita hvað orðið hafi um þessa fjármuni og hverju þeir hafi tengst. Hann hafi ekki heyrt af þessu fyrr en meðákærði hafi greint frá þessu fyrir dómi og að hann sjálfur hafi enga aðkomu haft að því. Hann kvaðst aðspurður hafa farið til Parísar 10. september 2015 og flogið þaðan beint til Kaupmannahafnar með flugfélaginu Easy Jet. Hann hafi haft tíu mínútur til að skipta um flug og verið kominn til Danmerkur rétt eftir hádegi. Hann hafi verið að heimsækja unnustu sína, vinkonu hennar og dóttur sína, en þær hafi verið í Kaupmannahöfn í skemmtiferð. Hann hefði lent töluvert seinna í Kaupmannahöfn ef hann hefði flogið þangað með Icelandair þennan dag og það hafi að auki verið dýrara fyrir hann. Ferðin hafi verið stutt þannig að hann hafi ekki viljað missa tíma. Hann hafi farið einn í ferðina sem ákveðin hafi verið með nokkrum fyrirvara, en bókuð með dags fyrirvara. Hann kvaðst aðspurður ekki kannast við að hafa tekið ikort með sér til Frakklands fyrir meðákærða og taldi að hann hefði ekki haft tíma til að nálgast þau miðað við að meðákærði hafi lagt inn á þau sama dag og ákærði hélt af landi brott. Hann hafi verið tvo eða þrjá daga í Danmörku og fjölskyldan komið saman heim.

Svo sem rakið er í II. kafla dómsins leiddi rannsókn lögreglu á fartölvu í eigu ákærða Davíðs, sem hald var lagt á við húsleit á heimili hans, í ljós að hún innihélt excel-skjöl sem lögregla telur að hafi verið ætlað að halda utan um sölu á fíkniefnum af hans hálfu og að afrakstri hennar hafi verið varið til kaupa á þeim fíkniefnum sem ákæra tekur til. Þá er þar gerð grein fyrir meginefni framburðar ákærða hjá lögreglu og fyrir dómi um þessi skjöl. Því er við það að bæta að við skýrslutöku fyrir dómi 10. ágúst 2016, þegar skjölin voru borin undir hann, kvaðst hann ekki geta útskýrt merkingu orðanna „var lélegt“ í tilteknum hluta skjalsins eða fyrir hvað talan 2,5 stæði. Sú ætlan lögreglu að talan feli í sér verðlagningu á amfetamíni væri fáránleg. Spurður um annan hluta skjalsins og tölurnar 18 og 20 og þá ætlan lögreglu að þær tölur standi fyrir verð á kókaíni kvað hann það vera hlægilegt, hægt sé að taka fullt af skjölum úr tölvunni hans og láta þau líta tortryggilega út miðað við þessa aðferð lögreglu. Um 300 excel-skjöl hafa verið í tölvunni hans sem verið hafi hvort tveggja skóla- og vinnutölva. Hann hafi örugglega leyst þúsundir excel-verkefna í þessari tölvu og það geti verið skýringin á því að hann muni ekki vel eftir þeim öllum. Þá kannaðist hann ekki við þau nöfn í skjölunum sem einstakir dálkar eru auðkenndir með og var helst á því að lögregla hafi átt við skjölin með því að bæta nöfnunum inn á þau. Þegar tekin var skýrsla af ákærða fyrir dómi að nýju 23. ágúst sl. gaf hann svo sem áður greinir þá skýringu á tilvist þessara skjala að þau tengdust veðmálum sem hann stundaði á netinu. Þegar hann var inntur eftir skýringum á þessum framburði sínum í ljósi fyrri framburðar síns um þessi skjöl kvaðst hann hafa frosið. Erfitt hafi verið „að sjá út úr þessu og þetta eru allt of mikið af gögnum og skjalið er ekki bara eitt stórt veðmálaskjal, heldur almennt heimilisbókhald og utan um rekstur félaga, kostnaður og annað.“ Hann hafi verið undir gífurlegu álagi við fyrri skýrslugjöf, um sé að ræða „svakalegar ásakanir“ og hann hafi einfaldlega „blokkerast“. Hann hafi verið með einhvern skjalabunka fyrir framan sig og ekki verið í jafnvægi. Hann hafi byrjað að stunda veðmál árið 2012 en af alvöru árið 2014. Hann hafi ekki varið miklum tíma í að halda utan um excel-skjalið, það hafi verið frekar hrátt og meira eins og minnismiði. Það hafi ekki verið fyrr en hann setti skjalið upp „alveg frá byrjun, eftir gögnunum ykkar“ og hann getað séð formúlur á bak við hvern og einn lykil sem hann hafi áttað sig á hvað þarna væri á ferðinni. Hann hafi efst í skjalinu séð nöfn sem hann kannaðist við, en þar megi sjá tilvísanir til veðmálaráðgjafa, svokallaðra tipstera. Við útskýringar á merkingu skjalsins tók hann sem dæmi að talan 500 á „sheet G“ sé margfeldi talnanna 2,5 og 200. Talan 2,5 sé stuðull á tiltekinn íþróttaviðburð með ábendingu frá veðmálaráðgjafanum „[...]“. Svo séu tilgreindar ábendingar frá ráðgjöfum sem auðkenndir eru sem „[...]“, „[...]“ og „[...]“ og myndi sú lína þar sem fleiri ráðgjafa er getið lista yfir veðmálaráðgjafa sem gefi ábendingar vegna leikja. Í „sheet G“ sé stuðullinn 2,5 aðallega notaður, en það sé algengur stuðull. Í „sheet B“ notist hann við stuðulinn 18 til 20, en stundum 16. Þegar ákærði var spurður um það hvort hann þurfi ekki að skrá það hjá sér með hvað hætti hann tengi íþróttaviðburði við þessar tölur, kvaðst hann ekki þurfa þess þar sem tilgangur skjalsins í upphafi hafi verið sá að halda utan um þá sem eru „að gefa tips“. Ekki hafi þurft að vita við hvaða íþróttaviðburð ráðgjöfin ætti heldur að sjá hvaða „tipsterar“ væru að standa sig best. Ekki þykir ástæða til að rekja hér frekar skýringar ákærða á einstökum tölum í þessum skjölum og formúlum að baki þeim. Á nokkrum stöðum hafa á hinn bóginn verið færðar inn athugasemdir í sérstakan dálk til hliðar við einstakar tölur. Var ákærði sérstaklega beðinn um að skýra athugasemdirnar „var lélegt“ og „ósætt“. Kvað hann fyrri athugasemdina merkja það að stuðulinn hafi verið lágur, eða 1,5, og að athugasemdin væri til marks um lélega ábendingu en kvaðst ekki muna nákvæmlega af hverju það hafi verið. Orðið „ósætt“ í skjalinu sé til marks um ósætti milli hans og veðbankans.

Við skýrslutöku fyrir dómi voru borin undir ákærða önnur atriði sem tengdust rannsókn lögreglu á framangreindri fartölvu. Er þar fyrst að nefna að samkvæmt rannsókninni hafi tölvan innihaldið forritið „[...]“, sem notað sé til að dulkóða skjöl á internetinu og dulkóðunarforritið „[...]“. Aðspurður um ástæður þess að þessi dulkóðunarforrit hafi fundist í tölvunni kvaðst ákærði ekki vita betur en að „[...]“ sé eitt vinsælasta forrit í heiminum til að læsa gögnum, en hann hafi þó ekki notað það. Þá þekki hann ekki forritið „[...]“, en kvaðst gruna að það væri meðal annars unnt að nota það við að skoða vefsíðuna [...]. Jafnframt var honum kynnt að við rannsókn á tölvunni hafi einnig komið í ljós að skoðaður hafi verið svokallaður „[...]“, sem sé tæki til að trufla hlustun. Kvaðst hann ekki minnast þess að hafa skoðað þetta.

Aðspurður um myndir sem teknar voru á myndavél í eigu hans 9. júlí 2015, en um þetta vísast til kafla II.5 í dómnum, áréttaði hann framburð sinn hjá lögreglu þess efnis að hann hafi ekki tekið þessar myndir og að hann hafi lánað myndavélina margoft, þar á meðal meðákærða Baldri.   

Í skýrslu sinni fyrir dómi tók ákærði það sérstaklega fram að hann hafi veitt lögreglu heimild til að framkvæma húsleit á heimili sínu, hann hafi upplýst lögreglumenn um lykilorð að símum og tölvunni hans og sagt þeim í óspurðum fréttum frá geymslu sem hann væri með á leigu undir búslóðina sína. Þá hafi hann sagt þeim frá skrifstofunni sinni, afhent þeim alla lykla og verið mjög samstarfsfús. Honum hafi brugðið þegar lögreglu hafi borið að garði, en vitað að hann hafi ekki gert neitt rangt.

IV

                Í þessum kafla dómsins verður gerð grein fyrir framburði vitna fyrir dómi að því marki sem þörf er talin á.

Lögreglumenn sem komu að málinu með því að sinna skyggingu og framkvæma leit hjá ákærðu ásamt því að handtaka þá gáfu skýrslu fyrir dómi. Var vitnisburður þeirra um skyggingu í fullu samræmi við gögn sem liggja fyrir um hana. Samkvæmt vitnisburði lögreglumannanna P, Q og R handtóku þeir ákærða Baldur skammt frá Kálfatjarnarkirkju á Vatnsleysuströnd. Hann hafi þá verið að aka eftir afleggjara sem liggur að kirkjunni en verið á leið frá henni. Hefðu þeir komið þarna að á tveimur bifreiðum og stöðvað för ákærða með því að aka í veg fyrir hann. Að sögn P og Q hafi hann haldið á BlackBerry síma þegar hann var handtekinn. Þá var það vitnisburður P að sjónauki sem fannst í bifreið ákærða hafi verið í farþegasæti við hlið ökumanns eða á gólfinu framan við það.    

                Vitnið S lögreglumaður skýrði svo frá aðkomu sinni að málinu að hann hafi ekið til móts við hollensku bifreiðina og mætt henni við Vík í Mýrdal. Við Skógarfoss hafi verið stoppað í skamma stund og ökumaðurinn tekið mynd af fossinum en farþeginn setið inni í bifreiðinni á meðan og verið að tala í símann. Ekki löngu síðar hafi verið stoppað aftur og ökumaðurinn tekið myndir. Lögreglumenn á annarri bifreið hafi tekið við eftirförinni þegar vestar dró. Verður af vitnisburði S ráðið að hann hafi þá ekið fram úr hollensku bifreiðinni. Þegar hann kom að [...] í Svínahrauni og var að svipast þar um eftir bílastæði í því skyni að geta fylgst með hollensku bifreiðinni þegar hún kæmi á þær slóðir hafi hann tekið eftir Benz jeppabifreið sem þar hafði verið lagt og síðar kom í ljós að var bílaleigubíll sem ákærði Baldur ók. Hafi ákærði lagt bifreiðinni meðfram Suðurlandsveginum þannig að framendi hennar sneri að brekkunni fyrir ofan [...]. Hann hafi greinilega verið að fylgjast með umferðinni. Þegar hollensku bifreiðinni var ekið inn á bifreiðastæðið hafi ákærði Baldur þegar í stað ekið á brott. Kvaðst S ekki hafa haft um það vitneskju á þessum tíma hver væri á þessari Benz bifreið, en í ljósi atvika hafi hann hringt inn upplýsingar til stjórnstöðvar lögreglu og eftirgrennslan leitt það í ljós að um bílaleigubíl væri að ræða og að ákærði væri leigutaki. Hollensku bifreiðinni hafi síðan verið ekið í átt að höfuðborginni eftir stutt stopp við [...] og ökuferðinni lokið við [...] í Hafnarfirði. Að sögn S veitti hann hollensku bifreiðinni eftirför til Reykjanesbæjar daginn eftir. Í för með honum var T rannsóknarlögreglumaður sem ók bifreiðinni sem þeir voru á. Þegar þeir óku eftir Reykjanesbraut hefðu þeir ekið fram úr  hvítri Skoda bifreið. Ákærði Baldur hafi verið ökumaður hennar. Kvaðst S hafa tilkynnt þetta þegar í stað til stjórnstöðvar þannig að allir þeir sem komu að málinu væru meðvitaðir um þennan bíl og að fara þyrfti varlega í námunda við hann. Þegar framúraksturinn átti sér stað hafi hollenska bifreiðin verið fyrir framan þá í um það bil 600 metra fjarlægð. Við skyggingu í Reykjanesbæ kvaðst S hafa tekið ljósmyndir sem sýna ákærðu Baldur og Davíð og staðsetningu þeirra hverju sinni með tilliti til hollensku bifreiðarinnar, en þær eru á meðal málsgagna. Meðan á skyggingu í Reykjanesbæ stóð hefðu ákærðu að mestu haldið sig inni í bifreiðinni. Það hafi vakið sérstaka athygli lögreglumannanna að þegar hollensku bifreiðinni var ekið frá KFC og í átt að hóteli sem ökumaður og farþegi hennar gistu á um nóttina hafi Skodinn fikrað sig nær. Þegar þau voru búin að innrita sig á hótelið og ökumaðurinn var búinn að finna stæði fyrir bílinn hafi Skoda bifreiðinni verið ekið í burtu. Allir sem unnu að þessari rannsókn hafi verið sannfærðir um að ákærðu væru að fylgja hollensku bifreiðinni eftir. Daginn eftir hafi hollensku bifreiðinni verið ekið upp á flugvöll og lagt þar á skammtímastæði. Hann hafi næst komið að málinu þegar handtökur áttu sér stað að [...] og í kjölfarið unnið við leit í bifreiðinni. 

                U lögreglumaður skýrði svo frá að fyrsta aðkoma hans að málinu hafi falist í því að hann ásamt nokkrum öðrum lögreglumönnum hefðu verið sendir af stað á þremur bílum til að taka á móti Volkswagen Touran bifreið sem komið hefði með Norrænu til Seyðisfjarðar. Þeir hefðu mætt bifreiðinni við Vík í Mýrdal og fylgt henni til Reykjavíkur og að hóteli á Völlunum í Hafnarfirði. Á þeirri leið hafi bifreiðinni verið lagt á bílastæði við [...]. Daginn eftir hafi bifreiðinni fyrst verið ekið til Reykjavíkur en þaðan til Keflavíkur. Þegar þangað var komið hafi borist tilkynning um að maður, sem staddur hafi verið í bifreið á bílastæðinu við [...] á sama tíma og Volkswagen bifreiðinni var ekið inn á það, væri kominn til Keflavíkur á annarri bifreið og að óþekktur maður væri í för með honum. Ekki hafi verið haft stöðugt eftirlit með þeirri bifreið heldur bara þegar hún hafi „dottið inn“ í tengslum við það eftirlit sem verið var að hafa með Volkswagen bifreiðinni. Áfram hafi verið fylgst með þeirri bifreið eftir að henni hafði verið lagt á stæði við flugstöðina. Þá kvaðst U hafa komið að nýju að skyggingu þegar ökumaður hennar kom aftur til landsins. Á sama tíma og hann var staddur við bifreiðina hafi að nýju sést til mannsins sem orðið hafi vart við í námunda við hana, hann hafi þá verið á sömu bifreið og síðast og staðsett sig á bílastæði við hótelið sem er skammt frá flugvallarstæðinu þannig að framendi hennar hafi snúið að því. Það hafi verið á að giska 50 til 100 metrar á milli ökutækjanna en ekki endilega sjónlína. Aðalatriðið hafi væntanlega verið að fylgjast með því þegar Volkswagen bifreiðinni væri ekið af stað í átt til Reykjavíkur. Þegar það gerðist hafi hinni bifreiðinni verið ekið í humátt á eftir henni. Borist hafi tilkynning um að fyrrnefndu bifreiðinni hafi verið ekið að [...] og að síðarnefnda bifreiðin, Skoda bifreið, væri í námunda við húsið. Kvaðst U hafa komið að [...] þegar handtökur voru afstaðnar þar. Þá kom fram hjá U að honum hafi verið falið að yfirfara gögn sem hefðu verið afrituð úr fartölvu ákærða Davíðs. Þar á meðal var fjöldi excel-skjala. Eitt slíkt skjal með mörgum undirskjölum hafi vakið sérstaka athygli hans og vakið grun um að með því væri verið að halda utan um fíkniefnaviðskipti. Vísaði U hvað þetta varðar til þess sem áður er fram komið um einstakar tölur og formúlur að baki þeim samkvæmt kafla II.4. Þá hafi dagsetningar og færslur í skjalinu komið heim og saman við rannsókn á öðru fíkniefnamáli, en um þetta atriði ritaði U skýrslu 22. febrúar 2016 sem er á meðal gagna málsins. Við nánari skoðun á skjalinu hafi líka verið hægt að para það saman við önnur gögn í málinu, svo sem gögn um innlagnir á ikort hér á landi og úttektir í útlöndum. Spurður um hvernig einingarverð sem tilgáta lögreglu um efni skjalsins er reist á kvaðst U að því leyti byggja á þeirri reynslu sem hann hafi af vinnu við þennan brotaflokk.

Samkvæmt vitnisburði T lögreglumanns tók hann þátt í skyggingu á hollensku bifreiðinni í Reykjanesbæ 24. september 2015 og að nýju í kjölfar þess að ökumaður hennar kom aftur til landsins 28. sama mánaðar. Það hafi verið mat lögreglu að fylgst væri með ferðum bifreiðarinnar og því hafi verið fjölgað í hópi lögreglumanna sem kom að málinu. Var vitnisburður T um skygginguna í fullu samræmi við skýrslur annarra lögreglumanna sem borið hafa um hana og fyrirliggjandi gögn þar að lútandi. Þá skýrði T svo frá að þegar hann ók Vatnsleysustrandarveg í átt að [...] skömmu áður en ákærðu Jeffrey og Peter voru handteknir þar hafi hann ekið fram hjá Skoda bifreiðinni sem ítrekað hafi sést í námunda við hollensku bifreiðina. Allir þeir sem komu að málinu hafi verið meðvitaðir um hana en hann kvaðst þó ekki vera viss um að hafa séð hana áður. Hafi verið búið að leggja bifreiðinni í stæði utan vegar í nágrenni við Kálfatjarnarkirkju „og aðeins lengra“, sem er þá vestar miðað við þá akstursleið sem T ók. Frá þessum stað hafi verið sjónlína yfir að íbúðarhúsinu á [...].  Liggur fyrir í málinu skýrsla sem T ritaði um þetta og vísað er til í I. kafla dómsins, en henni fylgja ljósmyndir sem hann tók ásamt yfirlitskorti sem eiga að sýna staðsetningu Skoda bifreiðarinnar í umrætt sinn. Spurður um frekari aðkomu sína að rannsókn málsins kvaðst T hafa tekið til skoðunar excel-skjöl sem fundist hafi í fartölvu í eigu ákærða Davíðs. Lögreglumenn sem rannsökuðu þau skjöl hafi strax grunað að eitt þeirra væri tengt viðskiptum með fíkniefni og því lagt þó nokkra vinnu í að greina það og finna tengingar við önnur gögn málsins, meðal annars bankagögn. Eftir þá vinnu hafi komist ákveðin mynd á skjalið og það verið mat lögreglu að það hefði í raun að geyma fullkomið bókhald fyrir fíkniefnaviðskipti, það er fjáröflun, kaup og ráðstöfun á fíkniefnum. Skjalið sé marglaga, mörg „sheet“, og inni í einu þeirra séu til að mynda bankaupplýsingar sem hafi passað við ikortafærslur, þetta tiltekna skjal, merkt „sheet banki“, sýni nánar tiltekið gjaldeyriskaup og þar komi innlagnir á ikortin fram. Þá væri það mat lögreglu að fjárhæðir í skjalinu væru sýndar í þúsundum króna þannig að talan 100 þýddi í raun 100.000 krónur. Í skýrslu sinni leitaðist T við að skýra framangreindan grun lögreglu út frá fyrirliggjandi excel-skjölum og svo sem að hluta til er rakið hér að framan í kafla II.4. Tiltók hann meðal annars að skjal sem auðkennt hefur verið „sheet G“ væri að mati lögreglu listi yfir afhendingu á fíkniefnum og móttöku á þeim. Efst í þessu tiltekna skjali sé fjöldi nafna og tölur fyrir neðan hvert þeirra sem sýni að mati lögreglu magn fíkniefna og peningagreiðslu sem innt hafi verið af hendi fyrir þau hverju sinni. Einn af þeim aðilum sem þarna séu tilgreindir hafi skömmu áður verið til rannsóknar hjá lögreglu vegna gruns um sölu á fíkniefnum. Hafi rannsóknin leitt það í ljós að hann hafi stundað sölu á amfetamíni og móttekið mikið magn af efninu á svipuðum tíma og skjalið segi til um. Skjalið í heild hafi verið borið undir ákærða og honum gefinn kostur á að skýra það, en hann hafi kosið að tjá sig ekki. Þá kom fram hjá T að umrætt skjal hafi stungið í stúf við önnur excel-skjöl sem fundust í fartölvunni. Hafi skjalið verið „merkt eins og verið væri að fela þetta sem einhvers konar próflausnir eða eitthvað, en þetta var náttúrulega langt frá því að vera einhverjar próflausnir.“ 

                V lögreglumaður lýsti í skýrslu sinni þeirri aðkomu sem hann átti að rannsókn málsins. Hann hafi meðal annars sinnt skyggingum og komið að húsleit á heimili ákærða Davíðs þar sem lagt hafi verið hald á ýmis gögn, þar á meðal miða með árituðum númerum sem talið var að tengdust ikortum. Þá hafi verið lagt hald á það sem kallað er tossamiðar í skýrslu vitnisins um leitina. Þá kvaðst vitnið hafa ritað skýrslu um ferðir ákærða til útlanda á árinu 2015 sem byggð hafi verið á greiðslukortaupplýsingum og upplýsingum frá flugfélögum. Við þá athugun hafi vakið sérstaka athygli tilvik þegar Holland var endanlegur áfangastaður en ekki var flogið beint þangað frá Íslandi. Þá hafi flug oft verið bókuð án þess að mætt hafi verið í þau. Ekkert liggi fyrir um ástæðu þess. Samhliða þessu hafi vitnið skoðað fjármál ákærða á árinu 2015 þar sem mikill bílaleigukostnaður hafi vakið sérstaka athygli. Vitnið hafi einnig unnið sambærilegar úttektir að því er varðar ákærða Baldur og ritað skýrslur um þær. Sú athugun hafi sýnt mikla veltu á fjögurra til fimm mánaða tímabili og hafi það þótt sérstakt í ljósi þess að samkvæmt skattframtölum hafi hann ekki verið í góðum málum. Þegar vitnið var spurt um það hvernig ákærði Davíð hafi brugðist við þegar lögreglumenn birtust á heimili hans var svar þess á þann veg að hann hafi verið stressaður og að í sjálfu sér væri ekkert óeðlilegt við það. Ákærði hafi verið samstarfsfús við lögreglu og orðið við öllum kröfum hennar og óskum.   

                Í skýrslu sinni gerði X lögreglufulltrúi grein fyrir rannsókn sinni á ikortum, sem meðal annars fundust við húsleit hjá ákærða Baldri. Var vitnisburður hans í fullu samræmi við tvær lögregluskýrslur sem hann ritaði um þessa rannsókn sína, en meginefni þeirra er rakið í kafla II.6 hér að framan. 

                Vitnið Y lögreglumaður annaðist skýrslutökur af ákærða Jeffrey. Spurður um framkvæmd hennar og þá einkum tildrög þess að ákærði gekkst við því að hafa vitað að fíkniefni væru falin í bifreiðinni kvaðst vitnið hafa skynjað það fljótt að um veikgeðja mann væri að ræða sem greinilega hafi verið notaður til að flytja hingað fíkniefni. Kom meðal annars fram hjá vitninu að ákærði hafi haft meðferðis kvikmyndir á DVD-diskum sem líklega hafi fallið vel í kramið hjá 12 til 13 ára börnum. Þá var borin undir vitnið skýrsla þess um samtal sitt við ákærða Peter, sem vísað hefur verið til þegar framburðarskýrsla ákærða var rakin, þar sem hann á að hafa skýrt svo frá að ef hann fengi meira en 10.000 evrur frá aðilanum sem hann myndi hitta á Íslandi ætti hann að láta meðákærða Jeffrey fá afganginn. Staðfesti vitnið að ákærði hafi sagt þetta. Verjandi hafi ekki verið viðstaddur og réttarfarsákvæða hafi ekki verið gætt enda um óformlegt samtal að ræða þar sem ákærði hafi kosið að tjá sig með þessum hætti.

Vitnið K lögreglumaður kom í tvígang fyrir dóminn til skýrslugjafar við aðalmeðferð málsins. Í fyrri skýrslunni skýrði hann svo frá aðkomu sinni að málinu að hún hafi aðallega falist í frumskoðun á tölvu ákærða Davíðs, skoðun myndavélar og greiningu á sam­skiptum í gegnum dulkóðaða síma. Gerði hann grein fyrir þessum rannsóknum sínum og niðurstöðum þeirra. Spurður um menntun sína á þessu sviði kvaðst hann hafa sótt námskeið sem rannsóknarlögreglumaður en hann hafi enga sérstaka prófgráðu til að sinna greiningu á símagögnum, svo sem í aðferða- eða tölfræði. Vinna hans í þessu tiltekna máli hafi ekki verið talin það flókin að hann hafi ekki getað sinnt henni. Við rannsókn á BlackBerry síma í vörslum ákærða Baldurs hafi komið í ljós að hann hafi ekki verið notaður til hefðbundinna talsamskipta. Sá sími hafi átt í endurteknum samskiptum við hollenska IP-tölu. Við skoðun á IP-tölunni hafi sést að um hafi verið að ræða dulkóðuð fjarskipti við samskiptamiðlara í Hollandi. Samskiptamiðlarinn miðli skilaboðunum, en samskiptin fari ekki fram beint á milli BlackBerry símanna. Skoðuð hafi verið samskipti á Íslandi við þennan samskiptamiðlara. Aflað hafi verið lista yfir IP-tölur á Íslandi sem verið hafi í samskiptum við hollenska samskiptamiðlarann í september 2015 og í ljós komið að ellefu símtæki hér á landi tengdust honum. Helst hafi verið könnuð símtæki sem hafi verið í mikilli notkun meðan á málinu stóð og þá helst meðan Hollendingarnir ferðuðust frá Seyðisfirði til Reykjavíkur. Þegar búið hafi verið að útiloka þau símtæki sem átt hafi í samskiptum eftir að handtökur áttu sér stað hefðu fjögur símanúmer staðið eftir. Tveir af þessum fjórum símum hafi tengst ákærða Baldri með beinum hætti en hinir tveir séu óþekktir. Allt séu þetta BlackBerry símar af sömu eða svipaðri tegund. Símarnir fjórir hafi verið í miklum samskiptum við samskiptamiðlarann meðan á málinu stóð. Símarnir tveir sem ákærði Baldur hafði undir höndum hefðu orðið virkir sama daginn, 9. september 2015, og inneign hafi verið keypt í þá sama dag með mínútu millibili að því er K taldi. Óþekktu símarnir hefðu orðið virkir 14. september og tók K það sérstaklega fram í því sambandi að ákærði Davíð hafi komið til landsins frá útlöndum daginn áður. Allir símarnir hafi hætt í notkun skömmu eftir að handtökur í málinu áttu sér stað 28. september 2015. Tveir símanna hafi verið virkir í tvo daga í viðbót og þá líklega orðið rafmagnslausir. Rannsókn á símanum með númerið [...] sýni að kveikt hafi verið á honum í um það bil fimm klukkustundir 17. og 18. október. Að þessu sé ekki vikið í lögregluskýrslu sem er á meðal gagna málsins þar sem hún hafi verið byggð á gögnum frá Símanum sem hafi verið aflað strax um haustið. Þau gögn hafi ekki innihaldið þessar upplýsingar um virkni símanna í október. Sú skýrsla hafi svo verið notuð til að fá dómsúrskurð á þessa fjóra síma til að fá staðsetningar og útskrift á notkun þeirra á öllu tímabilinu. Umbeðin útskrift hafi fengist í desember og þá komið í ljós virkni þessa eina síma í fimm klukkutíma í október. Kveikt hafi verið á símanum einhvers staðar í miðbæ Reykjavíkur og svo aftur einhvers staðar í Austurbænum. Að auki hafi þessi sími sent frá sér merki klukkan 20:36 að kvöldi 28. september, rúmlega hálfri klukkustund eftir að ákærði Davíð var handtekinn, en ekki sé unnt að segja að hann hafi þá verið í notkun þar sem um sjálfvirka sendingu hafi verið að ræða. Notkun símtækjanna fjögurra í september hafi verið skoðuð út frá hverju símtæki fyrir sig til að áætla hver notandi hvers símtækis væri. Samskiptamátinn hafi verið textasamskipti, forritin virki rétt eins og venjulegur tölvupóstur, en það kanni á ákveðnum fresti hvort ný skilaboð hafi borist viðkomandi. Símtæki sendi gögn til miðlarans og spyrji hvort fyrir liggi ný skilaboð. Þessi fjögur símtæki hafi í flestum tilvikum að minnsta kosti sent og sótt gögn á um það bil klukkutíma fresti og því hafi verið unnt að staðsetja tækin með talsverðri nákvæmni, hún sé meiri en við eigi um venjulegt símtæki sem einungis sé unnt að staðsetja þegar hringt sé úr því. Símtækið virki því nánast eins og eftirfarabúnaður. Símtæki með númerinu [...], sem fundist hafi að dvalarstað ákærða Baldurs að [...], hafi yfirleitt alltaf verið á sömu sendum á nóttunni, á milli miðnættis og klukkan sjö að morgni. Meðan á leit að [...] stóð hafi tækið komið fram á sendi í [...], verslunarmiðstöð í Hafnarfirði, og líka á sendi á [...], sem sé gata sunnan megin við höfnina í Hafnarfirði. Báðir þessir staðir séu í beinni og óskertri loftlínu frá [...]. Sá sendir sem mest hafi verið notaður hafi reynst vera Garðaholt, innan við kílómetra frá [...]. BlackBerry síminn með númerinu [...], sem sé annar óþekktu símanna, hafi yfirleitt verið að tengjast sendi í Glósölum í Kópavogi, þar sem kirkjugarðurinn er, beint á móti Salalauginni, en einnig sendi á Hnoðraholti í Garðabæ, fyrir ofan hesthúsin í Kópavogi. Síminn hafi komið mest inn á þessa tvo senda. Hinn óþekkti síminn hafi nánast einvörðungu tengst í Kórnum í efri byggðum Kópavogs og hafi nánast ekkert færst þaðan. Vitnisburður K um rannsókn á fylgni á milli símtækis með númerinu [...], það er einkasíma ákærða Davíðs, og BlackBerry símans með númerinu [...] var í fullu samræmi við gögn um hana sem áður hefur verið gerð grein fyrir. Hið sama á við um rannsókn á notkunarmynstri einkasíma ákærða. Spurður um ástæðu þess að könnun á fylgni á milli tveggja framangreindra símanúmera hafi verið hætt klukkan 11:49 hinn 28. september 2015, og þá í ljósi þess að ákærði Davíð hafi ekki verið handtekinn fyrr en um klukkan 8 um kvöldið, sagði K að engin tilvik þar sem þessi tvö númer tengdust á sömu mínútu hafi átt sér stað eftir þetta tímamark. Sérstaklega spurður við fyrri skýrslugjöf sína um BlackBerry símann með númerinu [...], sem ákærði Baldur var með í fórum sínum við handtöku 28. september 2015, svaraði K því til að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi verið slökkt á honum frá 17. til 28. september og að öllum samskiptum í gegnum hann hafi lokið kl. 14:50 þann 28. september. Hann hafi verið virkur frá 9. til 17. september en svo sé eins og slökkt hafi verið á honum og hann ekki notaður aftur fyrr en 28. september. Í seinni skýrslugjöf sinni fyrri dómi og að fram komnum nýjum gögnum skýrði K svo frá að samkvæmt þeim væri framangreind ályktun hans um notkun símans 28. september ekki rétt. Kvað hann skýrslu um netsamskipti í umræddum BlackBerry síma ákærða Baldurs og sem við hafi verið stuðst við fyrri skýrslugjöf hafa verið skrifaða út frá gögnum sem hafi borist frá Símanum. Eftir að hafa farið yfir staðsetningargögn hafi honum þótt það undarlegt að öllum samskiptum hafi lokið klukkan 14:50 þann 28. september. Því hafi hann ákveðið að rýna betur í frumgögnin sem byggt hafi verið á. Þegar betur var að gáð virtist sem samskiptum hafi ekki lokið fyrr en klukkan 17:40 þennan tiltekna dag. Þessi yfirsjón skýrist með því að tímasetningar í skránni séu ekki í réttri tímaröð. Þetta þýði með öðrum orðum að gögn sýni fram á að samskipti hafi átt sér stað frá klukkan 14:50 til 17:40. Þegar þau samskipti voru skoðuð hafi gögn farið á milli síma til klukkan 16:30 eða þar um bil, en eftir það detti síminn í „sjálfvirka reglu“ þar sem sendur sé pakki á tveggja mínútna fresti til klukkan 17:40. Það þýði að klukkan 17:40 hafi síminn hætt að senda boð á farsímasendana. Það að síminn sendi gögn á tveggja mínútna fresti sýni fram á algjöra sjálfvirkni. Kvaðst hann því reikna með að hætt hafi verið að nota símann um klukkan 16:30, en samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var ákærði Baldur handtekinn klukkan 16:37 þann dag. Færslur yfir notkun símans sýni að hann hafi nær einvörðungu verið notaður í þeim tilgangi að eiga samskipti við tiltekna IP-tölu í Hollandi. Lítil önnur notkun sé á símanum nema til þess að eiga dulkóðuð samskipti. Séu aðrar tímasetningar en þær, sem bendi til sjálfvirkni samkvæmt framansöguðu, skoðaðar, til dæmis klukkan 15:42:38 og svo sé næsti pakki klukkan 15:43:49, þá stemmi það ekki við þessa sjálfvirkni. Þegar frávik af þessu tagi komi fram bendi þau til þess að önnur gögn séu að fara á milli, sem líklega séu skilaboð. Ekki sé þó hægt að fullyrða um það hvers konar gögn hafi farið í milli. Sjálfvirknin gerist hins vegar alltaf með ákveðnu millibili. Frávikin séu hins vegar tvenns konar, annars vegar undir tveimur mínútum og hins vegar yfir tveimur mínútum. Ekki sé unnt að fullyrða að eitthvað hafi farið handvirkt á milli ef bilið er meira en tvær mínútur þar sem verið geti að síminn hafi ekki náð sambandi á þeim tíma. Bil undir tveimur mínútum samræmist því á hinn bóginn ekki að um sjálfvirkni sé að ræða. Síminn taki ekki upp hjá sjálfum sér að sækja gögn, það gerist með reglubundnum hætti eftir stillingu. Spurður um hvort BlackBerry símarnir hafi verið notaðir til að eiga í einhverjum samskiptum við símtæki annarra sakborninga eða vitna í málinu kvaðst K ekki minnast þess.

                Þess er áður getið að á meðal gagna málsins er greinargerð sem rituð var af L, en hann starfar sem sérfræðingur í greiningum hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, um tengsl og staðsetningar þeirra aðila, sem legið hafa undir grun í málinu, út frá notkun samskiptatækja. L gaf skýrslu um þessa greinargerð sína við aðalmeðferð málsins og var vitnisburður hans um þær ályktanir sem draga mætti af fyrirliggjandi símagögnum, sem vinna hans hafi grundvallast á, í fullu samræmi við það sem rakið er um efni greinargerðarinnar í kafla II.7 hér að framan. Fram kom hjá honum að hans vinna hafi falist í því að skoða gögn sem veittu upplýsingar um staðsetningu tiltekinna símtækja út frá tengingum við senda og kanna hvort tvö eða fleiri þeirra væru staðsett á sömu eða svipuðum slóðum á sama tíma. Þessi athugun skili ekki nákvæmum staðsetningum símtækjanna þar sem sendarnir séu viðmiðið, en í öllu falli megi slá því föstu að þau séu staðsett í nágrenni við þá. Líklega þurfi ekki alltaf að hreyfa símtæki mikið úr stað þannig að það skipti um sendi. Megintilgangurinn með þessari vinnu hafi verið sá að finna snertifleti annars vegar á milli notkunar á símtækjum ákærðu Baldurs og Davíðs, en fyrir hafi legið rannsókn sem bent hafi til þess að Davíð notaðist við sam skonar BlackBerry síma og Baldur, og hins vegar á milli íslensku númeranna og þeirra hollensku. Þegar tenging við sendi eigi sér stað sé einhver gagnaflutningur í gangi. Í tilviki BlackBerry símanna sem til rannsóknar voru geti tenging við sendi átt sér stað við það eitt að „staðsetningarfídus“ símans sé að leita eftir sambandi. Önnur símtæki hafi verið staðsett út frá beinum samskiptum, það er símtali eða smáskilaboðum. 

J, sérfræðingur á réttarvísindastofnun Hollands, sem áður er getið í tengslum við rannsókn sem hann hafði með höndum á BlackBerry síma í eigu ákærða Baldurs, gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Í henni kom fram að síminn hafi verið tekinn í sundur. Minniskubburinn hafi verið fjarlægður úr honum eftir að hafa verið afritaður. Afritið hafi síðan verið sett í greiningartæki sem skilað hafi ákveðnum niðurstöðum, þar á meðal aðgangsorði. Vísaði vitnið um niðurstöður rannsóknar á símanum aðallega til skýrslu sem rituð hefði verið um hana og send til lögreglu hér á landi. Fram kom hjá vitninu að rannsóknin hafi leitt það í ljós að síminn hafi innihaldið mjög lítið af gögnum sem skýrist af því að notkun á honum hafi verið bundin við eitt forrit, svokallað [...] forrit, en það sé selt þeim sem vilja eiga samskipti sem ekki sé unnt að hlera og skilji ekki eftir upplýsingar um notendur. Búið hafi verið að fjarlægja hljóðnemann úr símanum og því hafi ekki verið hægt að nota hann til að eiga í munnlegum samskiptum. Þó treysti vitnið sér ekki til að útiloka að unnt væri að nota „headset“ í þeim tilgangi. Það hefði ekki kynnt sér þann möguleika. Aðgangsorðið hafi verið það sama og í öðrum sambærilegum símum sem stofnunin hafi fengið til rannsóknar. Mál sem þær rannsóknir tóku til eigi það nær öll sammerkt að hafa snúist um skipulagða glæpastarfsemi eða önnur stór sakamál. Símar af þessari gerð séu ekki seldir í venjulegri símabúð heldur sé þar um að ræða það sem vitnið kallaði „[...]“, en það séu verslanir fyrir þá sem vilja vera einkaspæjarar.  

                Matsgerð um rannsókn á haldlögðum fíkniefnum, sem gerð hefur verið grein fyrir, er undirrituð af tveimur starfsmönnum á Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði. Annar þeirra, Z verkefnastjóri, gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Var hann beðinn um að skýra ástæðu þess að við komu á rannsóknastofuna hafi sýni, sem reyndist innihalda amfetamín, vegið 5,878 g en 2,504 g eftir þurrkun. Var svar vitnisins á þá leið að þennan mun megi rekja til uppgufunar á leysiefnum í sýninu, en mjög mikill raki hafi verið í því. Mæling á styrk amfetamínbasa hafi samkvæmt matsgerðinni skilað þeirri niðurstöðu að 62% af þyngd efnissýnis eftir þurrkun hafi verið amfetamínbasi. Samkvæmt útreikningum vitnisins leiði af þessu að styrkur amfetamínbasa í sýninu fyrir þurrkun hafi verið 26-27%. Allur gangur sé á því hvort leysiefni séu enn til staðar í efnissýnum sem rannsóknastofunni berast, en þau séu alltaf þurrkuð áður en mæling á styrkleika fer fram. Spurður um styrkleika efnissýna samkvæmt matsgerðinni í samanburði við meðaltalstölur síðustu ára svaraði vitnið því til að samkvæmt samantekt yfir amfetamínsýni sem rannsóknastofunni bárust á árunum 2010 til 2015, en þau væru 317 talsins, hafi meðalstyrkleiki þeirra verið 21%. Styrkleiki amfetamínbasa í efnissýni sem matsgerðin taki til sé þannig talsvert yfir þessu meðaltali. Sambærileg samantekt að því er kókaín varðar, sem taki til 172 sýna á árunum 2010 til 2014, sýni meðaltal upp á 56%. Styrkur kókaíns í þeim fjórum sýnum sem rannsökuð voru í málinu hafi þannig verið nálægt því, eða á bilinu 49 til 57%.  

                Vitnið Þ tók fyrir hönd eiganda íbúðarhússins að [...] á móti ákærðu Jeffrey og Peter þegar þeir komu þangað. Þeir hefðu komið akandi á sitt hvorum bílnum með nánast engan farangur. Hafi sá eldri sagt að sá yngri væri að fara á sjóinn en hann sjálfur hefði áður komið til Íslands og konunni hans litist svo vel á landið að hann væri kominn aftur til að kaupa hér hús. Þetta hafi honum eftir á að hyggja fundist undarlegt og hugsað með sér að það væri eitthvað skrýtið á bak við þetta. Þá gat hann þess að þeir hafi verið frekar æstir í allri framkomu. Hann hafi verið þarna með þeim í á að giska 10 mínútur. 

                Vitnið Æ héraðsdómslögmaður skýrði svo frá að ákærði Baldur hafi í ágúst eða september 2015 leitað eftir aðstoð hans. Annars vegar hafi ákærði haft í hyggju að óska eftir því að bú hans yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Hins vegar hafi hann leitað eftir ráðgjöf varðandi innflutning á tiltekinni tegund af BlackBerry farsímum. Ráðgjöfin hafi snúið að því hvort það væri ekki örugglega löglegt að flytja þessa síma til landsins og selja þá hér, hvort þetta væru álitleg viðskipti og hvort rétt væri að stofna sérstakt félag um reksturinn. Að því er gjaldþrotið varðar hafi ákærði tekið það fram í tölvupóstsamskiptum þeirra, nánar tiltekið að morgni 24. september 2015, að hann áætlaði að fara af landi brott næsta mánudag, það er 28. september. Liggur fyrir í málinu útprentun á tölvupósti sem staðfestir þetta. Það hafi ekki gengið eftir þar sem ákærði hafi þá átt eftir að veita vitninu skriflegt umboð til að mæta fyrir sína hönd við fyrirtöku á gjaldþrotaskiptabeiðni fyrir dómi, en vegna fjarvista vitnisins hafi ekki tekist að klára þann þátt málsins í tíma. 

                Í skýrslu N, framkvæmdastjóra hugbúnaðarfyrirtækisins [...] í Reykjanesbæ, kom fram að hann hafi unnið að gerð vefsíðu fyrir ákærða Davíð undir léninu [...]. Hafi vefsíðan gengið út á það að þar yrði hægt að taka á leigu bíla hjá mörgum bílaleigum og að ákærði fengi greidda þóknun fyrir milligöngu um leiguna. Ákærði hafi komið til fundar við hann í Reykjanesbæ í september 2015 án þess þó að gera boð á undan sér. Það væri þó alvanalegt með menn sem væru tengdir bílaleigum, einhverra hluta vegna birtist þeir oft óvænt. Í fylgd með ákærða hafi verið vinur hans sem hann kynnti ekki með nafni. Fundurinn, sem hafi verið í styttra lagi, hafi snúist um þessa vefsíðu og hvernig vinna við hana gengi. Ekki hafi verið þörf á því að ákærði gerði sér sérstaka ferð til Reykjanesbæjar af þessu tilefni þar sem hægt hefði verið að afgreiða erindi hans í gegnum síma eða með tölvupósti.

Í fyrirliggjandi álitsgerð sinni, sem áður er getið um, rekur E geðlæknir þá frásögn ákærða Jeffrey að hann hafi hætt í skóla 16 eða 17 ára gamall og þá farið að vinna á lager í stórmarkaði. Þegar hann var kominn með bílpróf hafi hann skipt um starf og farið að vinna við það að keyra út lyf og síðan mat. Hann hafi heldur viljað vinna en læra en væri nú farið að langa aftur í skóla og væri viss um að hann myndi standa sig betur en hann gerði áður. Í kafla í álitsgerðinni sem ber yfirskriftina samantekt kemur fram að saga sé um heilabólgu á fyrsta ári. Þá er þar gerð grein fyrir því að samkvæmt sálfræðiprófi sem lagt hafi verið fyrir ákærða í janúar 2000, þegar hann var á 13. aldursári, hafi greind hans verið metin út frá svokölluðu Ravenprófi og hún reynst vera um 80, en það sé sama greindarvísitala og mælst hafi á greindarprófi tæpu ári áður. Rætt sé um að hann sé hálfu til einu ári á eftir. Í niðurstöðukafla álitsgerðarinnar kemur fram að ákærði hafi í viðtölum við E sýnt mikinn vilja til að geðjast honum og verið næstum óeðlilega hjálplegur. Virðist sem slík afstaða hans hafi ráðið gerðum hans þegar komið var að máli við hann og hann beðinn um að flytja pakka í bifreið frá Hollandi til Íslands. Hann komi barnalega fyrir og líti út fyrir að vera leiðitamur. Gagnrýnin hugsun sé ekki hans sterka hlið. Hann sýni engin merki um einhverfu. Er það niðurstaða E, svo sem áður hefur verið gerð grein fyrir, að ákærði sé sakhæfur og ekkert eigi í sjálfu sér að koma í veg fyrir að refsing kunni að bera árangur verði ákærði sekur fundinn. Hann sé heldur á eftir, barnalegur og auðtrúa og vilji gera öllum til geðs og sé mjög ógagnrýninn á fólk og aðstæður. Í vitnisburði sínum fyrir dómi staðfesti E þessa álitsgerð sína og var afdráttarlaus um þá niðurstöðu sem snertir mat hans á sakhæfi ákærða. Hann kvaðst á hinn bóginn hafa vissar efasemdir um þann hluta álitsgerðarinnar sem snýr að mati á því hvort refsing geti borið árangur. Hann hafi því orðað þetta svo að það væri ekkert „í sjálfu sér“ sem benti til þess að ákvæði 16. gr. almennra hegningarlaga ætti við um ákærða. Það væri erfiðleikum bundið að útskýra þessar efasemdir frekar. Ákærði hafi að vísu þolað ótrúlega vel dvöl í fangelsi meðan á gæsluvarðhaldi stóð en í hans tilviki hafi það þýðingu í því sambandi að hann hafi verið einangraður frá samfélaginu innan veggja fangelsisins. Ekki sé unnt að útiloka það að hefðbundin vistun í „hardcore“ fangelsi gæti orðið ákærða skaðleg með tilliti til persónuleika hans og þeirra afla sem oft ráði þar ríkjum. Í vitnisburði E kom fram að í samtali sem hann átti við ákærða hafi ákærði að fyrra bragði haft orð á því að hann hafi vitað að það væru einhver efni í bílnum en hann hafi enga vitneskju haft um magn þeirra. Er gerð grein fyrir þessu í tilvitnaðri álitsgerð og þar með þeim orðum að ákærði hafi sagt „að hann hafi verið að flytja fíkniefni í bifreið til landsins“ og átt að fá 7.000 evrur fyrir viðvikið. Um væri að ræða þrjá pakka sem hann vissi ekki hvað var í.

                Í skýrslu D sálfræðings kom fram að á almennu skimunarprófi sem lagt var fyrir ákærða Jeffrey hafi hann ekki náð greiningarviðmiðum í neinum þeirra þátta sem 15. og 16. gr. almennra hegningarlaga taka til. Hann skori lágt í ákveðnum þáttum sem metnir eru en sé innan eðlilegra marka heilt yfir í mörgum öðrum. Þannig sé aðlögunarhæfni hans góð, hann geti að mestu leyti hugsað um sig sjálfur og sé fær um að takast á við daglega hluti. Við mat á færni fólks sé horft á heildarmyndina en ekki einstaka þætti. 

                Í vitnisburði sínum skýrði dr. F svo frá að samkvæmt hefðbundinni skilgreiningu á greindarskerðingu sé ákærði Jeffrey ekki greindarskertur. Talað sé um greindarskerðingu þegar fólk mælist með undir 69 í greindarvísitölu, en samkvæmt mælingum sínum hafi greindarvísitala ákærða verið 84 sem falli undir það að vera lág meðalgreind. Út frá þessari niðurstöðu megi gera ráð fyrir að auðvelt sé að hafa áhrif á ákærða, hann sé trúgjarn og auðvelt sé að blekkja hann.  

V

                Eins og rakið hefur verið hafa tveir sérfræðingar, þau E geðlæknir og D sálfræðingur, afdráttarlaust komist að þeirri niðurstöðu að ákærði Jeffrey sé sakhæfur í skilningi 15. gr. almennra hegningarlaga. Með hliðsjón af þessu og vitnisburði E og D fyrir dómi, þar sem þau staðfestu þessa eindregnu niðurstöðu sína, eru að mati dómsins engin efni til að ætla á að ákærði sé haldinn geðveiki, andlegum vanþroska eða hrörnun, rænuskerðingu eða öðru samsvarandi ástandi sem orðið hafi til þess að hann sé ófær um að stjórna gerðum sínum og sé því sakhæfur. 

VI

1.

Í málinu er ákærðu gefið að sök að hafa á árinu 2015 staðið saman að innflutningi á um það bil 22 kg af fíkniefnum frá Hollandi til Íslands, svo sem nánar er lýst í ákæru. Þeir neita allir sök. Við sakarmat í málinu þarf sem endranær að gæta þeirrar meginreglu sem fram kemur í 1. mgr. 109. gr. laga um meðferð sakamála, en samkvæmt henni metur dómari hverju sinni hvort nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sé fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti, þar á meðal hvaða sönnunargildi skýrslur ákærða hafi, mats- og skoðunargerðir, skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn. Þá er í 2. mgr. sömu greinar mælt fyrir um að dómari meti hvert sönnunargildi þær staðhæfingar hafa sem varða ekki beinlínis það atriði sem sanna skal en ályktanir má leiða af um það.

Fíkniefnunum sem um ræðir hafði verið komið fyrir í sérútbúnum geymsluhólfum undir framsætum og í miðjustokk bifreiðar af gerðinni Volkswagen Touran með skráningarnúmerið [...], en henni ók ákærði Jeffrey frá Hollandi til Hirtshals í Danmörku og þar um borð í ferjuna Norrænu sem kom til Seyðisfjarðar þriðjudaginn 22. september 2015. Svo sem rakið hefur verið fylgdist lögregla með ferðum bifreiðarinnar hér á landi næstu daga á eftir en lét til skarar skríða síðdegis mánudaginn 28. september og handtók ákærðu vegna gruns um aðild þeirra að málinu. Voru ákærðu Jeffrey og Peter handteknir að [...], en þangað hafði ákærði Jeffrey komið skömmu áður á Volkswagen Touran bifreiðinni og ákærði Peter á bílaleigubíl. Er um nánari málsatvik þennan dag vísað til þess sem þegar er fram komið um þau.

2.

Þess er áður getið að við skýrslugjöf hjá lögreglu viðurkenndi ákærði Jeffrey að hafa haft um það vitneskju þegar hann lagði upp í ferðina til Íslands að fíkniefni væru falin í bifreiðinni en að hann hafi hvorki vitað um tegund þeirra né magn. Samkvæmt vitnisburði E geðlæknis hafði ákærði að fyrra bragði sömu sögu að segja í samtali sem þeir áttu þegar E vann að mati á sakhæfi hans. Samkvæmt gögnum málsins kom þessi játning ákærða fyrst fram við skýrslugjöf hans 7. október 2015, en hann hafði þá verið yfirheyrður einu sinni af lögreglu, og með afdráttarlausum hætti í skýrslu sem af honum var tekin 23. sama mánaðar og að nýju 4. nóvember sama ár, þegar hann meðal annars svaraði þeirri spurningu verjanda síns, hvort hann hafi verið beðinn um að flytja inn þrjá pakka eða þrjá pakka af fíkniefnum, á þann veg að hann hafi átt að setja bílinn á sitt nafn og að það myndu vera þrír pakkar af fíkniefnum í honum. Fyrir dómi hvarf ákærði frá játningu sinni. Hann gat þó enga sennilega skýringu gefið á tilgangi ferðalags síns til Íslands og þá einkum í ljósi þess hvernig ferðin kom til að hans sögn og að hann ætti að fá umtalsverða fjárhæð greidda fyrir að ferðast hingað. Þá hafði hann meðferðis skriflegar leiðbeiningar frá aðilum sem samkvæmt framburði hans fengu hann til að takast þessa ferð á hendur. Er efni þeirra áður rakið, en það fær með engu móti samrýmst frásögn hans fyrir dómi um erindi hans hingað til lands. 

Verjandi ákærða hefur haldið því fram að ekkert mark sé takandi á játningu ákærða hjá lögreglu þar sem hún hafi verið knúin fram með þeim hætti að farið hafi verið á svig við ákvæði 3. mgr. 63. gr. laga um meðferð sakamála. Er í þessu sambandi alfarið vísað til skýrslutökunnar 7. október 2015 og upplýsinga um framgöngu lögreglumanns við hana. Hvað þetta snertir er þess að gæta að ákærði áréttaði framburð sinn um þessa vitneskju sína með mjög afdráttarlausum og skýrum hætti við næstu skýrslutökur af honum og gaf greinargóða lýsingu á atvikum sem tengdust henni. Er þessi málsvörn ákærða því haldlaus. Um mögulega þýðingu framburðarins við sakarmat í málinu ber að hafa í huga að samkvæmt 1. mgr. 111. gr. laga um meðferð sakamála skal dómur reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi. Ef ákærði ber á annan hátt fyrir dómi en hjá lögreglu er dómara heimilt, samkvæmt 1. mgr. og 2. mgr. 109. gr. þeirra laga, að taka tillit til þess sem fram kemur í lögregluskýrslu, ef hann telur breyttan framburð fyrir dómi ótrúverðugan, en sakfelling verður hins vegar ekki reist á skýrslugjöf hjá lögreglu, einni og sér, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 13. júní 2013 í máli nr. 657/2012. Svo sem mál þetta liggur fyrir er það mat dómsins að ákærði Jeffrey hafi ekki gefið trúverðuga skýringu á breyttum framburði sínum um aðild sína að innflutningi fíkniefna hingað til lands í september 2015. Þykir samkvæmt þessu mega taka tillit til framburðar hans hjá lögreglu við sakarmat í málinu.

Að því virtu sem að framan er rakið telst sannað að ákærði hafi haft um það vitneskju þegar hann kom hingað til lands 22. september 2015 að fíkniefni væru í bifreiðinni [...] og látið sér í léttu rúmi liggja hvaða efni þetta væru og í hvaða magni. Gildir þá einu þótt telja verði fram komið að ákærða hafi ekki verið ætlað að nálgast fíkniefnin í bifreiðinni og koma þeim í hendur viðtakenda þeirra hér á landi. Er ákærði samkvæmt þessu sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru, en þar er ferðum hans dagana 22. til og með 28. september 2015 réttilega lýst og fyrir liggur sönnun um að fyrirhugað hafi verið að fjarlægja fíkniefnin úr bifreiðinni að [...].

Aðalkröfu ákærða Jeffrey um sýknu er samkvæmt framansögðu hafnað, en hún var öðrum þræði byggð á sakhæfisskorti svo sem fram er komið. Um varakröfu hans, sem reist er á 16. gr. almennra hegningarlaga, er það að segja að gögn frá sérfræðingum sem fengnir hafa verið til að leggja mat á ástand ákærða með tilliti til ákvæðisins og vitnisburðar þeirra fyrir dómi renna ekki stoðum undir hana. Er það niðurstaða dómsins með sérstakri hliðsjón af þessu að tilvitnað lagaákvæði standi því ekki í vegi að ákærða verði gerð refsing í máli þessu.

3.

                Af framburði ákærða Peter fyrir dómi og gögnum málsins er ljóst að hann tók með ýmsu móti þátt í undirbúningi og skipulagningu ferðar meðákærða Jeffrey hingað til lands. Þá  kom hann til landsins gagngert í þeim erindagjörðum að nálgast þá pakka sem komið hafði verið fyrir í bifreiðinni,  en í því skyni tók hann á leigu íbúðarhús að [...] þar sem hann var handtekinn. Var honum einnig ætlað að koma pökkunum í hendur viðtakenda hér. Telst sannað að hann hafi skömmu áður en hann var handtekinn verið í sambandi við skipuleggjendur innflutningsins úti í Hollandi, en þau samskipti bera það einnig með sér að þeir hafi á sama tíma átt í samskiptum við aðila sem taka átti á móti sendingunni hér á landi. Ákærði hefur jafnan haldið því fram að hann hafi gengið út frá því að um peningasendingu væri að ræða og að hann hafi enga vitneskju haft um það að fíkniefni væru í bifreiðinni. Að mati dómsins er þessi framburður ákærða afar ótrúverðugur. Í honum felst fyrir það fyrsta að honum hafi, gagnstætt því sem við átti um meðákærða Jeffrey, verið haldið utan við raunverulegan tilgang þess að Volkswagen Touran bifreiðin var flutt hingað til lands en engu að síður verið ætlað það hlutverk að nálgast mjög mikið magn fíkniefna sem voru vandlega falin í bifreiðinni og annast afhendingu þeirra til aðila hér á landi. Þá er það fjarri lagi, þegar horft er til þess hversu þaulskipulagður innflutningurinn var og litið til aðkomu ákærða að honum og tafa sem urðu á afhendingu sendingarinnar sem honum var fullkunnugt um, að ákærði hafi enga vitneskju haft um það sem raunverulega var að gerast eða staðið á sama um það. Við þetta bætist síðan að allt umfang málsins og það hvernig skipuleggjendur innflutningsins báru sig að við hann er ótvírætt til merkis um að eitthvað annað og meira hafi verið í húfi en innflutningur á erlendum gjaldeyri og að ákærða hafi í öllu falli hlotið að vera það ljóst. Er það að framansögðu virtu mat dómsins að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem saksókn á hendur honum tekur til, þó þannig að engu verður slegið föstu um afhendingarstað fíkniefnanna umfram það sem ráðið verður af samskiptum ákærða við aðila í Hollandi skömmu áður en hann var handtekinn og áður er getið.

4.

Saksókn á hendur ákærðu Baldri og Davíð tekur samkvæmt ákæru til þess að þeir hafi lagt á ráðin um innflutning á þeim fíkniefnum sem fundust við leit í bifreiðinni [...] og fjármagnað að hluta til kaup á þeim og kostnað við innflutning þeirra eins og nánar er lýst í þeim kafla ákærunnar sem snýr að ákærða Jeffrey. Fram er komið í málinu að ákærðu eru vinir og viðskiptafélagar. Að auki liggja fyrir upplýsingar og gögn sem sýna fram á að fjármál þeirra voru um margt samofin á þeim tíma sem er til umfjöllunar í málinu. Er um þetta vísað til framburðar ákærðu og II. kafla dómsins þar sem gerð er grein fyrir rannsókn lögreglu á 25 svonefndum ikortum sem fundust við húsleit hjá ákærða Baldri. Liggur fyrir að á tímabilinu 22. júlí til 2. september 2015 voru lagðar samtals 7.940.000 krónur í reiðufé inn á þessi kort hér á landi, þar af 4.439.993 krónur af ákærða Davíð, og 6.996.334 krónur teknar út af þeim í hraðbönkum í öðrum Evrópulöndum á tímabilinu 23. júlí til 8. september sama ár. Voru þessi kort tengd tveimur símanúmerum og fannst símkort fyrir annað þeirra við leit í bifreið ákærða Davíðs sem mun hafi verið notað til að virkja 5 af þessum 25 kortum. Þá lagði ákærði Baldur 1.150.000 krónur inn á 5 ný ikort 10. september 2015 og voru 1.031.392 krónur teknar út af þeim í Hollandi á tímabilinu 12. til 17. sama mánaðar. Hafa ákærðu borið á þann veg fyrir dómi að það hafi verið í höndum ákærða Baldurs að taka út af kortunum, en að sögn hans hafi einhver á vegum hollenskrar verslunar sem hann átti í viðskiptum við annast síðastnefndu úttektirnar. Eru á meðal gagna málsins tvær ljósmyndir sem teknar voru þegar tekið var út af ikortum sem tengjast málinu í hraðbönkum í Hollandi og hylur annar aðilinn þar andlit sitt en ekki hafa verið borin kennsl á hinn. Við skýrslugjöf hjá lögreglu svöruðu ákærðu ekki spurningum um þessi greiðslukort og atriði þeim tengd. Fyrir dómi gáfu þeir á hinn bóginn skýringar á ráðstöfun þeirra fjármuna sem hér um ræðir sem að mati dómsins eru langt frá því að geta talist trúverðugar. Þá gengu skýringar sem þeir gáfu á því hvernig þeim áskotnuðust þessir fjármunir að mestu út á það að þeir hefðu haft tekjur af löglegri starfsemi sem ekki hefðu verið taldar fram til skatts.

Fyrir liggur að rannsókn á minniskorti úr myndavél í eigu ákærða leiddi í ljós að það innihélt myndir sem teknar voru 9. júlí 2015 og sýna Norrænu við höfn í Seyðisfirði og aðstæður þar sem bifreiðum er ekið í land og tollskoðun fer fram. Enda þótt engu verði slegið föstu um það hver hafi tekið þessar myndir er myndefnið af því tagi að tengsl þeirra við málið verða ekki útilokuð.

Að því er varðar þátt ákærða Baldurs sérstaklega er þess fyrst að geta að með vitnisburði lögreglumanna um skyggingu og gögnum um hana sem lögð hafi verið fram í málinu telst í ljós leitt að ákærði var ítrekað staddur í námunda við hollensku bifreiðina eða á svipuðum slóðum og hún. Þannig var ákærði staddur á Seyðisfirði um svipað leyti og ákærði Jeffrey kom þangað með Norrænu að morgni þriðjudagsins 22. september 2015, hann var staddur við [...] við Suðurlandsveg á sama tíma og ákærði kom akandi þangað daginn eftir á leið sinni frá Höfn í Hornafirði til Reykjavíkur og hann ók bifreið í humátt á eftir bifreið ákærða Jeffrey suður Reykjanesbraut til Reykjanesbæjar fimmtudaginn 24. september og hélt sig í námunda við hana þegar þangað var komið, en ákærði Davíð var þá í för með honum. Loks liggur fyrir að ákærði var staddur við Flugstöð Leifs Eiríkssonar þegar ákærði Jeffrey kom að nýju til landsins mánudaginn 28. september og á Vatnsleysuströnd þegar ákærðu Jeffrey og Peter voru þangað komnir, en svo sem fram er komið liggja fyrir vitnisburður og gögn um að ákærði hafi komið sér þannig fyrir í nágrenni við [...] að auðvelt hafi verið fyrir hann að sjá yfir að bænum, þar sem fjarlægja átti fíkniefnin úr hollensku bifreiðinni, og fylgjast með akstursleiðum til og frá honum, en að auki liggur fyrir að hann hafði sjónauka meðferðis. Þá eru sterkar vísbendingar um að ákærði hafi haldið sig í námunda við bifreiðina þegar búið var að leggja henni í stæði við [...] í Hafnarfirði að kvöldi miðvikudagsins 23. september og aftur í miðborg Reykjavíkur áður en hann ók til Reykjanesbæjar daginn eftir. Telja verður fjarlæga þá skýringu ákærða, svo vægt sé til orða tekið, að hér sé um tilviljanir að ræða. Þá hafa lögreglumenn borið á þann veg að ekki hafi farið á milli mála að ákærði hafi verið að fylgjast með ferðum hollensku bifreiðarinnar. Þegar hann var handtekinn á Vatnsleysuströnd hafði hann svo sem fram er komið í fórum sínum 15.600 evrur í reiðufé. Hefur ákærði ekki gefið trúverðuga skýringu á ástæðu þess að hann hafði jafnvirði um það bil tveggja milljóna króna undir höndum á sama tíma og til stóð að afhending fíkniefnanna færi fram. Í samskiptum sem ákærði Peter átti við aðila í Hollandi skömmu áður en hann kom að [...] og þegar hann var kominn þangað kemur með skýrum hætti fram að viðtakandi þess sem falið var í hollensku bifreiðinni væri að fylgjast með honum. Er allt framangreint ótvírætt til þess fallið að renna stoðum undir aðild ákærða að innflutningi fíkniefnanna og að til hafi staðið að hann myndi móttaka þau í kjölfar þess að ákærði Peter væri komin með þau í sínar hendur.

Í málsvörn ákærða Baldurs hefur sérstaklega verið vísað til þess að hann hafi ætlað að halda af landi brott að morgni mánudagsins 28. september 2015, en tafir á vinnu lögmanns sem hann hafi leitað til í tengslum við beiðni um að bú hans yrði tekið til gjaldþrotaskipta hafi seinkað brottför hans. Hafi tilviljun þannig ráðið því að ákærði var enn staddur á Íslandi þegar hann var handtekinn. Hefur hann þessu til stuðnings vísað í tölvupóst sem hann sendi lögmanni sínum fimmtudaginn 24. september 2015 þar sem fram kemur að hann reikni með „að vera farinn aftur út á mánudaginn“. Um þetta er þess að geta að umræddur tölvupóstur ber það með sér að hafa verið sendur klukkan 07:44 að morgni 24. september 2015. Í ljósi þessa og atvika að öðru leyti verður með engu móti útilokað að ákærði hafi á þessum tíma gengið út frá því að afhending fíkniefnanna yrði afstaðin þannig að hann gæti haldið sig við þau áform að fljúga af landi brott þennan tiltekna dag. Er í öllu falli ótrúverðug sú skýring að vöntun á skriflegu umboði til handa lögmanni til að mæta fyrir dóm við fyrirtöku á beiðni um gjaldþrotaskipti hafi í reynd seinkað brottför ákærða. Er það í ljósi þessa afstaða dómsins að ekki séu efni til að ljá þessu atriði sérstakt vægi við sakarmat í málinu.

Við leit hjá ákærða Baldri var lagt hald á tvo BlackBerry síma. Hafa símar þessir verið rannsakaðir og sú rannsókn leitt það í ljós að unnt sé að nota þá til að eiga í dulkóðuðum samskiptum og að notagildi þeirra sé að öðru leyti takmarkað. Þannig er ekki fram komið að unnt sé að nota þá til hefðbundinna talsamskipta. Er um þetta vísað til þess sem almennt kemur fram um síma af þessari gerð í kafla II.7 hér að framan og vitnisburðar þeirra J og K lögreglumanns fyrir dómi. Fyrir liggur að ákærði Baldur var ávallt með síma af þessari gerð í fórum sínum á því tímabili sem rannsókn málsins tekur til. Þrátt fyrir þá sérstöðu þessara síma sem að framan er getið og framangreindir rannsóknaraðilar hafa einnig gert grein fyrir skýrði ákærði svo frá að hann hafi eingöngu notað þessa síma til að eiga dulkóðuð samskipti við unnustu sína. Er sá framburður hans afar ótrúverðugur.

                Í skýrslu sinni fyrir dómi tæpum 11 mánuðum eftir að þau atvik urðu sem eru til umfjöllunar í málinu gerði ákærði í smáatriðum grein fyrir ferðum sínum og gerðum dagana 21. til og með 28. september 2015. Við lögreglurannsókn kaus ákærði aftur á móti að svara litlu um þetta. Miðað við þá frásögn sem hann á endanum gaf hefði ekkert átt að vera því til fyrirstöðu að hann skýrði þegar í upphafi frá með þeim hætti. Þess í stað lét ákærði það hjá líða og gaf þá tortryggilegu skýringu á því að ekki hafi verið á hann hlustað.

Að öllu því virtu sem að framan er rakið er það niðurstaða dómsins að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði Baldur hafi átt þá aðild að innflutningi fíkniefna hingað til lands sem honum er gefin að sök í ákæru.

Að því er varðar þátt ákærða Davíðs sérstaklega er þess fyrst að geta að rannsókn og dómsmeðferð málsins hefur í nokkuð ríkum mæli snúist um excel-skjöl sem fundust við rannsókn á fartölvu í eigu hans og lögregla telur að hafi verið ætlað að halda utan um sölu á fíkniefnum af hans hálfu og að afrakstri hennar hafi verið varið til kaupa á þeim fíkniefnum sem ákæra tekur til. Framburður ákærða hjá lögreglu og fyrir dómi um efni þessara skjala er áður rakinn. Þannig gat ákærði enga skýringu gefið á þessum skjölum við skýrslutökur hjá lögreglu og í fyrri skýrslu sinni fyrir dómi við aðalmeðferð málsins hafði hann litlu við að bæta en hafnaði framangreindri ætlan lögreglu um innihald þeirra og kvað hana fáránlega. Við skýrslugjöf fyrir dómi tæpum hálfum mánuði síðar gaf hann aftur á móti þá skýringu á efni skjalanna að það tengdist veðmálum sem hann stundaði, en í millitíðinni hafði hann lagt fram gögn og leitt vitni sem eiga að staðfesta þessa staðhæfingu hans. Er þetta með miklum ólíkindum að mati dómsins og fær með engu móti staðist, enda er það fráleitt að ákærða hafi allan þennan tíma yfirsést hvað skjölin hefðu að geyma. Þar við bætist ótrúverðugur framburður hans um þetta efni skjalanna. Fá gögn um þennan síðbúna framburð ákærða og framburður þriggja vitna fyrir dómi, sem ætlað er að renna stoðum undir hann, í engu breytt þessari afstöðu dómsins. Þótt engin afstaða verði umfram þetta tekin til innihalds þessara skjala og þá í ljósi sakargifta samkvæmt ákæru er framangreindur framburður ákærða til þess eins fallinn að rýra trúverðugleika framburðar hans um önnur atriði sem þýðingu hafa við sakarmat.

                Svo sem fram er komið ferðuðust ákærðu Davíð og Baldur saman til Reykjanesbæjar fimmtudaginn 24. september 2015. Með vísan til gagna og vitnisburðar lögreglumanna um skyggingu á Reykjanesbraut og í Reykjanesbæ þennan dag, og enn fremur að teknu tilliti til þess sem þessi rannsóknaraðferð leiddi að öðru leyti í ljós, þykir ekki varhugavert að slá því föstu að þessi ferð hafi tengst hollensku bifreiðinni og ákærða Jeffrey. Enda þótt við það yrði miðað að ákærði Davíð hafi ekki umfram þetta verið í fylgd með ákærða Baldri meðan á skyggingu stóð fær það að mati dómsins vart staðist að hann hafi ekki verið með í ráðum. Þá er sú skýring sem ákærðu hafa gefið á tilgangi þessarar ferðar sinnar til Reykjanesbæjar tortryggileg í ljósi vitnisburðar N, sem áður er getið.

Rannsókn lögreglu fólst meðal annars í því að kanna hvort ákærði Davíð hafi haft undir höndum BlackBerry síma sömu gerðar og ákærði Baldur hafði í sínum vörslum og kveðst hafa selt hér á landi. Er gerð grein fyrir niðurstöðum hennar í kafla II.7 og vitnisburði K lögreglumanns og L, sérfræðings hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, um hana í kafla IV. Má skýrlega draga þá ályktun af rannsókninni og sönnunarfærslu um hana að BlackBerry sími Baldurs með númerinu [...] kom inn á sendi í miðborg Reykjavíkur laust fyrir klukkan 10 að morgni fimmtudagsins 24. september 2015, það er sama dag og ákærðu fóru saman til Reykjanesbæjar á bifreið sem ákærði Baldur ók, en á sama tíma kom BlackBerry sími með númerinu [...], sem ákæruvaldið byggir á að ákærði Davíð hafi haft til umráða, inn á senda í Kópavogi, fyrst í Digranesi en síðan í Glósölum og Gullsmára. Áður er fram komið að ákærði bjó á þessum tíma við [...] í Kópavogi. Báðir þessir símar koma síðan inn á sendi í Digranesi klukkan 10:56 og ferðast í beinu framhaldi til Reykjanesbæjar þar sem þeir komu fram á sömu sendum í nokkurn tíma. Að þessu sérstaklega virtu og að öðru leyti með vísan til niðurstöðu framangreindrar rannsóknar og vitnisburðar þeirra aðila sem höfðu hana með höndum er það mat dómsins að ekki sé varhugavert að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að ákærði Davíð hafi haft umræddan síma undir höndum í því skyni að geta átt í dulkóðuðum samskiptum.           

Að framangreindu virtu og að teknu tilliti til þess sem rakið er í upphafi þessa kafla um þátt beggja ákærðu, en það snýr aðallega að ikortum og ráðstöfun fjármuna sem þeim tengjast, er það niðurstaða dómsins að nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sé fram komin um að ákærði Davíð hafi gerst sekur um þá háttsemi sem saksókn á hendur honum samkvæmt ákæru tekur til.

5.

Samkvæmt öllu framansögðu hafa ákærðu allir verið fundnir sekir um þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í ákæru. Í því felst að sakfelling nær til þeirrar lýsingar á háttsemi ákærðu í inngangskafla ákærunnar að þeir hafi flutt þau fíkniefni sem þar greinir frá Hollandi til Íslands sem hafi átt að selja hér á landi í ágóðaskyni. Er þess þá sérstaklega að gæta að enda þótt ákærði Jeffrey hafi kært sig kollóttan um tegund og magn efnanna hlaut honum að vera ljóst að hann væri að flytja fíkniefni til landsins í þessu skyni. Varða brot ákærðu við 2. mgr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga.

VII

                Ákærðu Jeffrey og Peter hafa ekki sætt refsingu svo kunnugt sé og ákærða Baldri hefur ekki verið gerð refsing sem þýðingu hefur við ákvörðun refsingar hans. Ákærði Davíð var með dómi 23. febrúar 2012 fundinn sekur um brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni með því að hafa haft í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni 2.990 g af hassi og 4.322 g af maríhúana. Var hann dæmdur í 18 mánaða fangelsi, en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið til þriggja ára. Hann stóðst skilorð dómsins sem samkvæmt 61. gr. almennra hegningarlaga hefur því ekki ítrekunaráhrif.

Samkvæmt 2. mgr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga varðar það þann fangelsi allt að 12 árum sem gegn ákvæðum laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni flytur inn eða tekur við slíkum efnum í því skyni að afhenda þau gegn verulegu gjaldi eða á annan sérstaklega saknæman hátt. Við ákvörðun refsingar ákærðu verður fyrst og fremst að líta til þess að um mjög mikið magn fíkniefna var að ræða. Þá verður einnig að taka tillit til þess sem fyrir liggur um styrkleika þeirra samkvæmt framlagðri matsgerð og vitnisburði sérfræðings sem samdi hana. Við ákvörðun refsingar ákærðu Jeffrey og Peter ber jafnframt að hafa hliðsjón af því að ekki liggur annað fyrir en að hlutverk þeirra hafi einvörðungu verið í því fólgið að koma efnunum hingað til lands og fá þau öðrum í hendur. Refsingu ákærðu Baldurs og Davíðs ber á hinn bóginn að ákvarða að teknu tilliti til þess að þeir hafa verið sakfelldir fyrir að hafa lagt á ráðin um innflutning fíkniefnanna og fjármagnað að hluta kaup á þeim og kostnað við innflutning þeirra. Að auki ber við ákvörðun refsingar ákærða Davíðs að taka mið af því að honum hefur áður verið gerð refsing fyrir fíkniefnalagabrot sem samkvæmt framansögðu var talsvert að umfangi.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af 1. og 6. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga skal ákærði Jeffrey sæta fangelsi í 5 ár, ákærði Peter í 5 ár, ákærði Baldur í 8 ár og ákærði Davíð í 8 ár og 6 mánuði.

Með vísan til 76. gr. almennra hegningarlaga skal draga frá refsivist allra ákærðu óslitið  gæsluvarðhald hvers um sig frá 29. september til 22. desember 2015.

Með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni er fallist á kröfu ákæruvalds um upptöku á haldlögðum fíkniefnum.

                Krafa ákæruvalds um upptöku á bifreiðinni [...] er reist á 1. tölulið 1. mgr. 69. gr. a. almennra hegningarlaga, sbr. 2. gr. laga nr. 149/2009. Samkvæmt ákvæðinu má gera upptæka með dómi hluti sem hafa verið notaðir, ætlaðir eru til notkunar eða hætta þykir á að notaðir verði við framningu brots. Í málinu liggur fyrir skráningarskírteini bifreiðarinnar sem upptökukrafan tekur til. Samkvæmt því sem þar kemur fram var bifreiðin skráð á nafn ákærða Jeffrey 12. september 2015. Þegar af þessari ástæðu og þrátt fyrir að ráða megi af framburði ákærða að hann sé í reynd ekki eigandi bifreiðarinnar stendur ekkert því í vegi að taka megi upptökukröfuna til greina. Er því fallist á hana.

                Krafa um upptöku á 15.600 evrum sem fundust við leit í bifreiðinni [...] 28. september 2015,  en ákærði Baldur var þá með hana á leigu, er byggð á 1. mgr. 69. gr. b. almennra hegningarlaga, sbr. lög nr. 149/2009. Samkvæmt ákvæðinu má gera upptæk verðmæti, að hluta eða í heild, sem tilheyra einstaklingi sem gerst hefur sekur um brot, þegar brotið er til þess fallið að hafa í för með sér verulegan ávinning og það getur varðað að minnsta kosti 6 ára fangelsi. Í athugasemdum við þetta ákvæði í frumvarpi því er varð að lögum nr. 149/2009 kemur fram að með því sé lagt til að lögfest verði rýmri heimild til upptöku verðmæta vegna alvarlegra brota sem séu til þess fallin að hafa í för með sér verulegan ávinning. Ekki sé gerð krafa um að sýnt sé fram á tengsl á milli ákveðins brots og þess sem gert sé upptækt. Gert sé ráð fyrir að sönnunarbyrði sé snúið við þannig að viðkomandi verði að sýna fram á að verðmæti megi ekki rekja til brotastarfsemi. Sé einstaklingur til dæmis sakfelldur fyrir stórfelldan innflutning fíkniefna en ekki fyrir sölu efnanna væri skilyrði ákvæðisins um verulegan ávinning uppfyllt ef sala þeirra hefði getað haft í för með sér verulegan ávinning. Samkvæmt þessu og með hliðsjón af athugasemdunum að öðru leyti og atvikum þessa máls er á það fallist með ákæruvaldinu að uppfyllt séu lagaskilyrði fyrir kröfu þess um upptöku samkvæmt framansögðu.      

                Með vísan til 1. málsliðar 1. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála verður ákærðu gert að greiða allan sakarkostnað málsins. Undir hann falla málsvarnarlaun og þóknun til verjenda ákærðu fyrir vinnu þeirra á rannsóknarstigi og fyrir dómi, aksturskostnaður þeirra og annar sakarkostnaður samkvæmt yfirliti sækjanda, en hann nemur samtals 1.187.883 krónum og er skipt jafnt á ákærðu að öðru leyti en því að kostnaður vegna sérfræðigagna sem snerta ákærða Jeffrey er eðli máls samkvæmt felldur alfarið á hann. Um ákvörðun málsvarnarlauna og þóknunar að teknu tilliti til virðisaukaskatts fer svo sem í dómsorði greinir.    

Mál þetta dæma héraðsdómararnir Þorgeir Ingi Njálsson, sem dómsformaður, Gunnar Aðalsteinsson og Jón Höskuldsson.

Dómsorð:

Ákærði Jeffrey Felice Angelo Uyleman sæti fangelsi í 5 ár.

Ákærði Peter Schmitz sæti fangelsi í 5 ár.

Ákærði Baldur Guðmundsson sæti fangelsi í 8 ár.

Ákærði Davíð Berndsen Bjarkason sæti fangelsi í 8 ár og 6 mánuði.

Til frádráttar refsingu ákærðu kemur gæsluvarðhald sem þeir sættu hver um sig frá 29. september til 22. desember 2015.

Upptæk eru gerð 19.448,96 g af amfetamíni og 2.597,44 g af kókaíni.

                Volkswagen Touran fólksbifreið, með skráningarnúmerið [...], er gerð upptæk.

                Ákærði Baldur sæti upptöku á 15.600 evrum í reiðufé sem hann hafði í fórum sínum 28. september 2015 og lögregla lagði hald á.

                Ákærði Jeffrey greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ómars Arnar Bjarnþórssonar héraðsdómslögmanns, 6.944.000 krónur, aksturskostnað hans, 176.000 krónur, og 735.721 krónu í annan sakarkostnað.

                Ákærði Peter greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Þorgils Þorgilssonar héraðsdómslögmanns, 6.138.000 krónur, aksturskostnað hans, 25.984 krónur, þóknun verjanda síns á rannsóknarstigi, Bjarna Haukssonar hæstaréttarlögmanns, 2.046.000 krónur, aksturskostnað hans, 97.440 krónur, og 150.721 krónu í annan sakarkostnað.

                Ákærði Baldur greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hólmgeirs Elíasar Flosasonar héraðsdómslögmanns, 7.440.000 krónur, aksturskostnað hans, 150.000 krónur, og 150.721 krónu í annan sakarkostnað.

                Ákærði Davíð greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 6.138.000 krónur, þóknun verjanda síns á rannsóknarstigi, Sigurðar Freys Sigurðssonar héraðsdómslögmanns, 2.455.200 krónur, aksturskostnað hans, 150.000 krónur, og 150.721 krónu í annan sakarkostnað.