Print

Mál nr. 622/2017

Pétur Björn Pétursson (Sigurður Sigurjónsson lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Ólafur Helgi Árnason lögmaður)
Lykilorð
  • Laun
  • Vanreifun
  • Frávísun frá héraðsdómi
Reifun

P krafði Í um greiðslu vangoldinna launa fyrir yfirvinnu sem hann kvaðst hafa leyst af hendi við menntaskóla. Fyrri liðurinn í kröfu P tók til greiðslu vegna 104 kennslustunda við undirbúning og skipulagningu nánar tilgreinds meistaranáms. Í dómi Hæstaréttar kom fram að um umfang þeirrar vinnu, sem sá kröfuliður sneri að, lægju ekki fyrir önnur gögn í málinu en yfirlit sem stafaði frá P sjálfum. Í héraðsdómsstefnu hefði vinnuframlagi P við þetta verkefni verið lýst á sama hátt og ráða mætti af niðurstöðum yfirlitsins en þar var einnig tekið fram að hafa mætti til viðmiðunar að samið hefði verið um í öðrum slíkum tilvikum að greiða fyrir átta kennslustundir fyrir hverja áfangalýsingu og hefði P samið fjórar áfangalýsingar í þessari undirbúningsvinnu. Af þeim ummælum að dæma hefði mátt ætla að krafa P tæki til greiðslu fyrir 32 kennslustundir. Yfirlitið bæri enga staðfestingu af hálfu menntaskólans og væri ekki að sjá að það hefði verið kynnt stjórnendum skólans á nokkru stigi áður en P höfðaði málið. Var því talið að krafa samkvæmt þessum lið væri svo vanreifuð að dómur yrði ekki felldur á hana. Síðari liðurinn í kröfu P tók til greiðslu fyrir yfirvinnu vegna 629,6 kennslustunda í meistaranáminu. Var talið að verulega skorti á að skýrt hefði verið í héraðsdómsstefnu með viðhlítandi hætti hvernig P kæmist að framangreindri niðurstöðu um fjölda kennslustunda og hefði ekki verið úr því bætt í öðrum málatilbúnaði hans. Fram hefði komið í bréfi frá menntaskólanum, sem lægi fyrir í málinu, að ógerlegt væri að meta námsgreinina til eininga og greiða fyrir kennslu í henni á þeim grunni með hefðbundnum hætti en þess í stað hefði P hverju sinni gert tillögur um uppgjör, sem samkomulag hefði tekist um, og launin verið ákveðin í samræmi við það. P hefði ekki leitast við að sýna fram á hvernig fjöldi eininga, sem hann byggði á, yrði fundinn út frá fyrirliggjandi stundaskrám eða vinnuskýrslum hans eða hvar því yrði fundin stoð að mat skólans á umfangi kennslu hans hefði tekið mið af þeirri forsendu. Var sá liður í kröfu P því talin svo vanreifaður að dómur yrði ekki felldur á hann. Var málinu því vísað í heild frá héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Greta Baldursdóttir og Hildur Briem héraðsdómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. september 2017. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér aðallega 4.124.486 krónur en til vara aðra lægri fjárhæð, í báðum tilvikum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. ágúst 2015 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Samkvæmt málatilbúnaði áfrýjanda vann hann í áratugi sem kennari, síðast við Menntaskólann í Kópavogi, þar sem hann hafi látið af störfum sumarið 2015 á sjötugasta aldursári. Hann kveður nafngreindan umsjónarmann meistaranáms við skólann hafa óskað eftir því í mars 2010 að hann skipulegði nýtt nám af þeim toga fyrir matvælagreinar, sem hann hafi tekið að sér, en ekki hafi verið samið um endurgjald fyrir það verk. Áfrýjandi hafi gert fjórar áfangalýsingar fyrir námið, en að því búnu hafi menntamálaráðuneytið samþykkt tillögu um tilraunakennslu Hótel- og matvælaskólans við Menntaskólann í Kópavogi á námi fyrir iðnmeistara, sem hafi verið reist á verki áfrýjanda. Kennsla hafi síðan byrjað við skólann á þessum grunni haustið 2010 og hafi áfrýjandi fengist við hana frá upphafi.

Í málatilbúnaði áfrýjanda er því lýst að áðurnefndur umsjónarmaður meistaranáms hafi ásamt aðstoðarskólameistara tekið ákvörðun hverju sinni um umfang kennslu í þessari námsgrein og hverjir hefðu hana á hendi. Staðið hafi verið þannig að verki að í samræmi við þær ákvarðanir hafi verið gerðar stundatöflur, sem kennurum hafi verið afhentar, og jafnframt vinnuskýrslur fyrir hvern þeirra, en útreikningur launa hafi verið reistur á þeim skýrslum. Í málinu liggja fyrir vinnuskýrslur fyrir áfrýjanda frá haustönn 2010, vorönn og haustönn á árunum 2011 og 2012 og vorönn 2013 ásamt stundatöflum vegna kennslu hans á þessum tímabilum. Í skýrslunum, sem allar voru undirritaðar án athugasemda af áfrýjanda og skólameistara, kom hverju sinni fram að kennsluskylda þess fyrrnefnda væri 19 kennslustundir í viku og jafnframt hver heildarfjöldi kennslustunda hans væri á viðkomandi önn, en í öllum tilvikum fór hún fram úr kennsluskyldu. Að öðru jöfnu var einnig tiltekið í skýrslunum hver væri fjöldi vikulegra kennslustunda umfram kennsluskyldu og til hvers þessar kennslustundir svöruðu í fjölda yfirvinnustunda, en um síðastnefnt atriði virðist hafa verið byggt á ákvæði í kjarasamningi Kennarasambands Íslands við stefnda, sem var í gildi á þessum tíma, um að í yfirvinnu teldist hver kennslustund, sem væri 40 mínútur að lengd, svara til 1,3 yfirvinnustunda. Af framlögðum launaseðlum áfrýjanda verður ekki annað séð en að hann hafi á umræddu tímabili fengið greiðslur fyrir yfirvinnu í samræmi við það, sem fram kom í skýrslunum.

Af gögnum málsins verður ráðið að vorið 2013 hafi áfrýjandi leitað til Félags framhaldsskólakennara vegna útreiknings á launum sínum með tilliti til þess hvernig kennsla í fyrrnefndu meistaranámi hafi verið metin til vinnustunda. Í tölvubréfi félagsins til Menntaskólans í Kópavogi 6. júní 2013 var vísað til þess að samkvæmt áðurnefndum kjarasamningi væru aðeins til „tvær uppgjörsaðferðir fyrir kennslu.“ Önnur þeirra væri „hefðbundið fyrirkomulag þar sem tvær kennslustundir eru á bak við hverja námseiningu“, en hin tæki til kennslu í öldungadeildum og meistaraskóla, þar sem miðað væri við að farið væri „allt að tvöfalt hraðar yfir námsefni en í venjulegu skólahaldi“, og skyldi kennsla þar „metin með 60% álagi.“ Teldi félagið að vinnuskýrslur áfrýjanda bæru með sér „að kennsla hans hefur ekki verið gerð upp skv. ákvæðum kjarasamnings.“ Að undangengnum frekari bréfaskiptum félagsins og skólans krafðist það þess í bréfi 30. september 2013 að laun áfrýjanda yrðu leiðrétt samkvæmt tilteknu ákvæði kjarasamningsins og bókunar með honum, sem tæki til „greiðslu fyrir kennslu í öldungadeildum, meistaraskóla og sambærilegu námi.“ Í svari skólans 31. október 2013 var meðal annars staðhæft að greitt hafi verið fyrir kennslu í námi þessu „út frá mati á umfangi áfanganna m.a. miðað við fjölda kennslustunda.“ Hafi ekki verið unnt að „miða við einingar“, þar sem áfangarnir hafi verið „tilraunanám, sem ekki er reiknað til eininga“ og því ekki tök á að „gera kennsluna upp með hefðbundnum hætti.“ Hafi af þessum sökum verið gengið frá „vinnuskýrslu/samkomulagi um vinnuframlag fyrir hverja önn“ við áfrýjanda, sem hafi ritað undir allar skýrslurnar. Hafi samkomulag þetta verið reist á tillögum áfrýjanda, sem skólinn hafi ekki gert athugasemdir við, og laun verið gerð upp við hann samkvæmt því. Bent var á að áfrýjandi hafi verið annar þeirra, sem hafi skipulagt þetta nám, hann hafi jafnframt „starfað að félags- og kjaramálum kennara“ og hafi því engum verið betur kunnar forsendur samkomulagsins en honum. Af þessum sökum væri því hafnað að brotið hafi verið gegn ákvæðum kjarasamnings við greiðslu launa áfrýjanda á árunum 2010 til 2013.

Áfrýjandi höfðaði upphaflega mál gegn stefnda 28. september 2015 og krafðist greiðslu vangoldinna launa annars vegar fyrir vinnu við áðurnefndan undirbúning og skipulagningu meistaranámsins á árinu 2010, 718.016 krónur, og hins vegar fyrir kennslu í því námi frá haustönn 2010 til vorannar 2013, 4.250.102 krónur, eða samtals 4.968.118 krónur. Því máli var vísað frá dómi með úrskurði 11. maí 2016, sem ekki var kærður til Hæstaréttar. Í framhaldi af því höfðaði áfrýjandi mál þetta 25. október 2016 og krafðist þess að stefnda yrði gert að greiða sér aðallega 5.723.667 krónur, til vara 5.460.080 krónur, en að því frágengnu „lægri fjárhæð að álitum að mati réttarins“, í öllum tilvikum með nánar tilgreindum vöxtum. Samkvæmt því, sem fram kom í héraðsdómsstefnu, taldi áfrýjandi sig eiga tilkall til vangoldinna launa fyrir yfirvinnu sem annars vegar svari 104 kennslustundum á árinu 2010 við undirbúning og skipulagningu námsins og hins vegar samtals 629,6 kennslustundum við kennslu á áðurnefndu tímabili á árunum 2010 til 2013. Í aðalkröfu hans var byggt á því að greiða ætti 6.904 krónur fyrir hverja kennslustund að viðbættu 13,01% vegna orlofs, en þetta hafi verið fjárhæð yfirvinnulauna við starfslok hans 1. júlí 2015. Í varakröfu væri á hinn bóginn „miðað við yfirvinnutaxta eins og í gildi voru er vinna var innt af hendi á tímabilinu 2010-2013“ að viðbættu orlofi. Við aðalmeðferð málsins í héraði 24. maí 2017 lækkaði áfrýjandi fjárhæð varakröfu sinnar í 4.570.487 krónur, en hana hefur hann svo enn lækkað í 4.124.486 krónur hér fyrir dómi. Sú krafa er nú aðalkrafa áfrýjanda, enda var upphaflegri aðalkröfu hans vísað frá héraðsdómi með hinum áfrýjaða dómi og er sú niðurstaða ekki til endurskoðunar hér.

II

Aðalkrafa áfrýjanda er mynduð af tveimur liðum, sem báðir varða sem fyrr segir ógreidd laun fyrir yfirvinnu sem hann kveðst hafa leyst af hendi við Menntaskólann í Kópavogi, annars vegar vegna 104 kennslustunda á árinu 2010 við undirbúning og skipulagningu meistaranámsins, sem um ræðir í málinu, og hins vegar vegna 629,6 kennslustunda við kennslu í því námi á árunum 2010 til 2013. Í fyrri kröfuliðnum telur áfrýjandi sig eiga að fá greidda 4.661 krónu fyrir hverja kennslustund eða 484.744 krónur, sem að viðbættu 13,01% vegna orlofs svari til 547.809 króna. Í síðari kröfuliðnum byggir áfrýjandi á framlögðu yfirliti, þar sem er að finna sundurliðun á fjölda kennslustunda sem hann telur sig ekki hafa fengið greitt fyrir í einstökum starfsmánuðum á tímabilinu frá ágúst 2010 til maí 2013. Þar er jafnframt greint frá vinnulaunum fyrir kennslustundirnar, sem áfrýjandi kveður ráðast af kjarasamningi hverju sinni, en samanlagt telur hann þessi laun nema 3.164.921 krónu. Að viðbættu 13,01% vegna orlofs, 411.756 krónum, er þessi kröfuliður að fjárhæð 3.576.677 krónur.

Um umfang þeirrar vinnu, sem fyrri kröfuliður áfrýjanda snýr að, liggja ekki fyrir önnur gögn í málinu en yfirlit, sem virðist stafa frá honum sjálfum, en þar er í 13 liðum talinn upp fjöldi stunda, sem hann hafi varið til að leysa af hendi tiltekna þætti í vinnu við undirbúning og skipulagningu námsgreinarinnar á tímabilinu frá lokum mars til september 2010. Vinnutími þessi er þar af óskýrðum ástæðum ekki tilgreindur í klukkustundum, heldur kennslustundum, samtals 104, en einnig er í hverju tilviki greint frá því hver „rauntími“ hafi verið og hann sagður hafa numið alls 200 stundum. Í héraðsdómsstefnu var vinnuframlagi áfrýjanda við þetta verkefni lýst á sama hátt og ráða má af niðurstöðum yfirlitsins, en einnig tekið fram að til „viðmiðunar má benda á, að fyrir lá, að samið hafði verið við kennara að greiða skyldi 8 kennslustundir fyrir hverja áfangalýsingu“, svo og að áfrýjandi hafi samið „fjórar áfangalýsingar“ í þessari vinnu. Af þessum ummælum að dæma hefði mátt ætla að krafa áfrýjanda tæki til greiðslu fyrir 32 kennslustundir, en ekkert er heldur útskýrt hvers vegna hún nái ekki til 200 stunda. Yfirlitið, sem áður var getið, ber enga staðfestingu af hendi Menntaskólans í Kópavogi og er ekki sjá að það hafi verið kynnt stjórnendum skólans á nokkru stigi áður en áfrýjandi höfðaði mál um ætlaða kröfu á grundvelli þess, en ekki hefur verið skýrt af hvaða ástæðu hann hafi haldið að sér höndum um að hafa hana uppi svo lengi sem raun ber vitni. Krafa samkvæmt þessum lið í aðalkröfu áfrýjanda, sem var jafnframt fallin niður fyrir fyrningu þegar hann höfðaði fyrra mál sitt 28. september 2015, sbr. 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, er þannig svo vanreifuð að dómur verður ekki felldur á hana.

Síðari liðurinn í aðalkröfu áfrýjanda tekur sem fyrr segir til greiðslu fyrir yfirvinnu vegna 629,6 kennslustunda í meistaranáminu á árunum 2010 til 2013. Útreikningur á þessum fjölda kennslustunda er settur þannig fram í héraðsdómsstefnu að áfrýjandi hafi fengið greidd frá stefnda laun fyrir kennslu í meistaranáminu, sem miðuð hafi verið við að hann hafi kennt sem svari 9 kennslustundum á viku í 18 vikur á hverri önn á tímabilinu frá hausti 2010 til vors 2013, að undanskilinni haustönn 2012 þegar stundirnar hafi verið 12 á viku. Telur áfrýjandi sig þannig hafa fengið greitt fyrir samtals 1.012 kennslustundir á tímabilinu öllu, en reyndar yrðu þær eftir þessari reikniaðferð að réttu lagi 1.026 talsins. Þessar kennslustundir hefði á hinn bóginn átt að meta til launa með 60% álagi eftir ákvæðum kjarasamnings um kennslu í öldungadeildum og meistaranámi, þannig að þær hefðu svarað til 1.641,6 stunda. Sé þá mismunurinn áðurnefndar 629,6 kennslustundir. Verulega skortir á að skýrt hafi verið í héraðsdómsstefnu með viðhlítandi hætti hvernig áfrýjandi komist að framangreindum niðurstöðum um fjölda kennslustunda og hefur ekki verið úr því bætt í öðrum málatilbúnaði hans. Samkvæmt því, sem fram kom við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti og ráða má þó að nokkru af héraðsdómsstefnu, virðist sem áfrýjandi hafi í þessu sambandi lagt til grundvallar að mat á kennslu hans hafi átt að byggja á því að námið hafi svarað til 9 eininga á önn. Um þetta verður að gæta að því að í fyrrgreindu bréfi Menntaskólans í Kópavogi 31. október 2013 var gagnstætt þessu byggt á því að ógerlegt væri að meta námsgreinina til eininga og greiða fyrir kennslu í henni á þeim grunni „með hefðbundnum hætti“, en þess í stað hafi áfrýjandi hverju sinni gert tillögur um uppgjör, sem samkomulag hafi tekist um, og launin verið ákveðin í samræmi við það. Áfrýjandi hefur ekkert leitast við að sýna fram á hvernig fjöldi eininga, sem hann byggir á, yrði fundinn út frá fyrirliggjandi stundaskrám eða vinnuskýrslum hans eða hvar því verði fundin stoð að mat skólans á umfangi kennslu hans hafi tekið mið af þessari forsendu. Þegar af þessum ástæðum er þessi liður í aðalkröfu áfrýjanda svo stórlega vanreifaður að dómur verður ekki felldur á hann.

Samkvæmt framansögðu verður að vísa máli þessu í heild frá héraðsdómi.

Að teknu tilliti til þess að reifun málsins hefur ekki aðeins verið verulega ábótavant af hendi áfrýjanda, heldur einnig stefnda, er eftir atvikum rétt að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

                                                                           

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 2017.

        Mál þetta, sem dómtekið var 24. maí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu þingfestri 27. október 2016 af Pétri Birni Péturssyni, Smáraflöt 41, Garðabæ á hendur íslenska ríkinu.

I.

        Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 5.723.667 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1.mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1.8.2015 til greiðsludags.

        Til vara er gerð sú krafa að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 4.570.487 krónur, með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur af 1.757.288 krónum frá 1.10.2011 til 31. desember 2011, en frá þeim degi af 2.101.087 krónum til 31. maí 2012, en frá þeim degi af 2.604.973 krónum til 31. desember 2012, en frá þeim degi af 3.956.997 krónum til 31. maí 2013, en frá þeim degi af 4.540.810 krónum til 1. ágúst 2015, en frá þeim degi af 4.570.487 krónum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur til greiðsludags.

        Til þrautavara er gerð krafa um að stefndi verði dæmdur til að greiða lægri fjárhæð að álitum að mati réttarins auk dráttarvaxta frá 1.8.2015 eins og í aðalkröfu greinir.

        Í öllum tilvikum gerir stefnandi kröfu um greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnda að mati réttarins að teknu tilliti til 24% virðisaukaskatts, en stefnandi er eigi virðisaukaskattsskyldur og ber nauðsyn til að hann fái skattinn á tildæmdan málskostnað.

         Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að honum tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati réttarins.

        Til vara er þess krafist að stefnukröfur verði lækkaðar verulega og málskostnaður látinn niður falla.

         Í upphafi aðalmeðferðar 24. maí sl. lagði stefnandi fram breytta varakröfu, en í upphaflegri kröfugerð var varakrafa að upphæð 5.460.080 kr. auk vaxta.

II.

Málsatvik

Málsatvik eru í meginatriðum þau að haustið 2010 heimilaði menntamálaráðuneytið Menntaskólanum í Kópvogi að hefja tilraunakennslu samkvæmt nýrri námsskrá um meistaranám i matvæla- og veitingagreinum. Forsendur fyrir slíku komu fram í lögum um framhaldsskóla nr. 92/2008 og var þetta nám sett á dagskrá samkvæmt þeim lögum.

Fyrir lá námsbrautalýsing, áfangalýsingar skv. nýju einingakerfi og þar var þrepaskiptingu náms gerð skil auk grunnþátta og lykilhæfni. Baldur Sæmundsson áfangastjóri matvæla- og veitingagreina og stefnandi máls þessa ákváðu kennslufyrirkomulag og fjölda kennslustunda og tóku eldra meistaranám og settu í nýtt umhverfi. Það var mat þeirra að heppilegt væri að haga kennslufyrirkomulagi þannig að kenndur væri einn áfangi í einu og að nemendur kæmu í skólann heilan dag, 10 kennslustundir, í ákveðinn fjölda daga, 4 daga í hvern áfanga í fyrstu en þeim fjölgaði síðan í sex daga.

 Námið var miðað við ákveðinn fjölda eininga sem kallast f-einingar en það hugtak nær til þess að ein f-eining samsvarar 3ja daga vinnu nemandans 6-8 tíma á dag og tekur til allrar vinnu nemandas við áfangann, svo sem þáttöku í kennslustundum og verkefnavinnu bæði í skóla og heima. Um þetta er fjallað í 15. gr. laga nr. 92/2008 þar sem fjallað er um námseiningar nemenda í framhaldsskólum og aðalnámsskrá. Greitt var fyrir umrædda kennslu í meistaraskóla samkvæmt mati á umfangi áfanganna, m.a. miðað við fjölda kennslustunda. Ekki var unnt að miða við einingar eins og áður var gert þar sem námið var miðað við f-einingar eins og áður er rakið.

Gengið var frá vinnuskýrslum/samkomulagi um vinnuframlag fyrir hverja önn við stefnanda og voru allar vinnuskýrslur undirritaðar af fulltrúum stefnda og stefnanda án nokkurs fyrirvara eða athugasemda.

Stefnandi mun hafa rætt við Margréti Friðriksdóttur skólameistara Menntaskólans í Kópavogi og Helga Kristjánsson aðstoðarskólameistara án þess að niðurstaða hafi fengist. Stefnandi leitaði í kjölfarið til Félags framhaldsskólakennara sem ritaði skólameistara menntaskólans bréf, dags. 30. september 2013, þar sem farið var fram á að laun stefnanda yrðu leiðrétt. Í bréfinu sagði meðal annars svo:

 

„Kennsla meistaranáms samkvæmt nýrri námsskrá hófst í MK haustið 2010, og var námið samtals 30 fein [framhaldsskólaeiningar] fram til haust 2012 og þá aukið í 35 fein. Vinnuskýrslur Péturs Bjarnar frá og með haust 2010 og til og með vorannar 2013 sýna að kennsla hans hefur ekki verið gerð upp samkvæmt ákvæðum kjarasamnings. Sú útlistun sem skólinn lét félaginu í té 28. júní sl. sýnir þetta einnig.

Félagið bendir á að þótt MK skipuleggi meistaranámið í fein þá hefur það engin áhrif á ákvæði gildandi kjarasamnings KÍ/framhaldsskóla um uppgjörsaðferðir fyrir kennslu. Ákvæði kjarasamnings heimila aðeins tvær uppgjörsaðferðir fyrir kennslu. Annars vegar hefðbundið fyrirkomulag þar sem tvær kennslustundir eru á bak við hverja námseiningu og hins vegar kennsla í öldungadeildum, meistaraskóla og sambærilegu námi skv. gr. 2.6.3. kjarasamnings, þar sem miðað er við að farið sé allt að tvöfalt hraðar yfir námsefni en í venjulegu skólahaldi. Við þessar aðstæður skal kennsla metin með 60% álagi.

                                     Félagið telur að framkvæmd skólans á kjarasamningum gagnvart Pétri Birni vera brot á kjarasamningi. Félagið fer fram á að skólinn leiðrétti laun Péturs Bjarnar hið fyrsta samkvæmt grein 2.6.3. í kjarasamningi og bókun með sama kjarasamningi um greiðslu fyrir kennslu í öldungadeildum, meistaraskóla og sambærilegu námi.“

 

Lögmaður Menntaskólans í Kópavogi svaraði þessu bréfi með bréfi, dags. 31. október 2013, fyrir hönd skólans. Í bréfinu kemur fram að menntamálaráðuneytið hafi haustið 2010 heimilað skólanum að hefja tilraunakennslu samkvæmt nýrri námskrá um meistaranám í matvæla- og veitingagreinum. Fyrir hafi legið námsbrautarlýsing og áfangalýsingar samkvæmt nýju einingakerfi þar sem þrepaskiptingu námsins og grunnþáttum lykilhæfni voru gerð skil. Skólinn hafi síðan endurnýjað tilraunakennsluleyfið árlega og síðast með bréfi menntamálaráðuneytisins dagsettu 7. ágúst 2013 fyrir skolárið 2013-2014.

      Í bréfinu kemur jafnframt fram að umfang námsins hafi verið með þeim hætti að kenndir hafi verið fjórir áfangar, tveir á haustönn og tveir á vorönn, en samtals hafi kennslan numið 30 framhaldsskólaeiningum. Á haustönn 2012 hafi síðan verið ákveðið að bæta við einum áfanga í samráði við menntamálaráðuneytið og hafi námið þá verið 35 framhaldsskólaeiningar á skólaárinu 2012-2013. Í bréfinu segir síðan svo:

 

„Baldur Sæmundsson áfangastjóri matvæla- og veitingagreina við skólann og umræddur Pétur Björn Pétursson, þáverandi fagstjóri viðskiptagreina við Menntaskólann í Kópavogi, ákváðu kennslufyrirkomulag og fjölda kennslustunda. Í anda laga um framhaldsskola nr. 98/2008 og þess að um fullorðna nemendur var að ræða var það mat þeirra að heppilegt kennslufyrirkomulag væri að kenna einn áfanga í einu og að nemendur kæmu í skólann heilan dag (10 kennslustundir) í ákveðinn fjölda daga, 4 daga í hvern áfanga í fyrstu. Þeim fjölgaði síðan í 6.

Greitt var fyrir umrædda kennslu í meistaraskóla út frá mati á umfangi áfanganna, m.a. miðað við fjölda kennslustunda. Ekki var hægt að miða við einingar þar sem áfangarnir voru ekki mældir í einingum heldur feiningum [framhaldsskólaeiningum]. Gengið var frá vinnuskýrslu/samkomulagi um vinnuframlag fyrir hverja önn við Pétur Björn Pétursson. Eru allar vinnuskýrslurnar undirritaðar af fulltrúa skólans og Pétri. Byggði samkomulag aðila á tillögum Péturs enda var hann fagstjóri viðskiptagreina þegar námið hófst. Skólinn gerði ekki athugasemdir við þær og gerði kennsluna upp með þeim hætti sem Pétur lagði til. Stjórnendur skólans treystu Pétri til að gera sanngjarnar tillögur, enda er Pétur með reyndustu kennurum skólans, var fagstjóri á þessum tíma, auk þess að vera annar þeirra sem skipulagði framangreinda kennslu. Þá hefur Pétur starfað að félags- og kjaramálum kennara og rekið sumarskóla svo nokkuð sé nefnt. Engum voru forsendur samkomulagsins því betur kunnar en Pétri sjálfum og hefði honum því átt að vera ljóst hvað þær fólu í sér. [...]

Menntaskólinn í Kópavogi hafnar því alfarið að skólinn hafi brotið gegn kjarasamningi við greiðslu launa til Péturs Bjarnar Péturssonar fyrir árin 2010 til 2013.

Skólinn byggir á því að þar sem um var að ræða tilraunanám, sem ekki er reiknað til eininga heldur feininga, hafi ekki verið hægt að gera kennsluna upp með hefðbundnum hætti. Skólinn hafi fengið tillögu Péturs um uppgjör og fallist á það. Samkomulag hafi því orðið með skólanum og Pétri, með vísan til greinar 2.1.2. í kjarasamningi, um að greiða fyrir kennsluna með þeim hætti sem gert var. Engum var betur ljóst en Pétri sjálfum hvað fólst í umræddu samkomulagi.

Telji Félag framhaldsskólakennara að gera eigi upp kennsluna á annan hátt en gert hefur verið er óskað eftir því að félagið geri nánar grein fyrir því hvernig reikna hafi átt út laun fyrir umrædda kennslu með vísan til ákvæða kjarasamnings aðila. Er í því sambandi minnt á að námið er ekki metið til eininga heldur eftir nýrri námskrá og lögum um framhaldsskóla frá 2008 í feiningum.“

 

Félag framhaldsskólakennara svaraði bréfi lögmanns Menntaskólans í Kópavogi með bréfi, dags. 19. nóvember 2013. Í bréfinu sagði meðal annars svo:

 

„Lög nr. 92/2008, um framhaldsskóla kveða á um nýjar skilgreiningar á námi og vinnu nemenda. Til að taka þær upp þarf að endurgera ákvæði 2. kafla miðlægs kjarasamnings KÍ/framhaldsskóla og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs 18. mars 2005 um vinnutíma kennara. Samkvæmt bráðabirgðaákvæðum laga 2008 áttu IV. og V. kafli að taka gildi haustið 2011, og að tíminn fram að því yrði notaður til að undirbúa breytingar. Bent er á að IV. kafli felur m.a. í sér 15. gr. um námseiningar. Efnahagshrunið 2008 gerði það að verkum að stéttarfélagið og fjármálaráðuneytið frestuðu samningsgerð um nýja mælikvarða með bókun 10. mars 2009 [...]. Sama ár veitti menntamálaráðherra tveimur framhaldsskólum heimild til að starfa sem þróunarskólar um lög 2008 [...]. Stéttarfélagið gerði sérstaka kjarasamninga við þessa skóla um vinnu kennara í nýju fyrirkomulagi, [...]. Í þeirri samningsgerð var í engu hróflað við kjarasamningsbundnum réttindum um vinnumat kennara þó að skólarnir tækju upp breytt skipulag samkvæmt lögum 2008 og skilgreindu námið í fein. Bókun samningsaðila 10. mars 2009 felur í sér að framhaldsskólar geta ekki tekið upp nýja mælikvarða á vinnu kennara fyrr en búið er að endurgera 2. kafla miðlægs kjarasamnings um vinnutíma. Burtséð frá þessu geta skólarnir að sjálfsögðu unnið að þróunar- og breytingastarfi á grundvelli annarra ákvæða laga 2008, eins og segir í bókuninni. Árið 2010 staðfesti Alþingi bókun samningsaðila og frestaði gildistöku IV. og V. kafla laga 2008 til ársins 2015.

Ákvæði kjarasamninga heimila aðeins tvær uppgjörsaðferðir fyrir kennslu. Annars vegar hefðbundið fyrirkomulag þar sem tvær kennslustundir eru á bak við hverja námseiningu og hins vegar kennsla í öldungadeildum, meistaraskóla og sambærilegu námi skv. gr. 2.6.3. í 2. kafla miðlægs kjarasamnings um vinnutíma, þar sem miðað er við að farið sé allt að tvöfalt hraðar yfir námsefni en í venjulegu skólahaldi. Við þessar aðstæður skal kennsla metin með 60% álagi, og bókun um greiðslu fyrir kennslu í öldungadeildum, meistaraskóla og sambærilegu námi í sama kjarasamningi en hún á sér bakgrunn í 2. kafla sama kjarasamnings.

Þó að MK hafi aflað sér leyfis til að tilraunakenna nýja námskrá meistaranáms í matvæla- og veitingagreinum og skilgreini námið í fein hefur skólinn enga heimild til að breyta mati á vinnu kennara og greiðslum til þeirra eins og þær eru skilgreindar í 2.6.3. kjarasamnings og bókun sama kjarasamnings. Breytingar á vinnumati í kennslustörfum og öðrum störfum félagsmanna KÍ í framhaldskólum sem fjallað er um í kjarasamningi verða ekki gerðar öðruvísi en með kjarasamningum.“

 

Bréfi Félags framhaldsskólakennara fylgdi útreikningur á þeim tímafjölda sem félagið taldi að leggja ætti til grundvallar útreikningi á launum stefnanda árin 2010 til 2013. Lögmaður stefnda svaraði bréfi félagsins með bréfi, dags. 4. desember 2013, þar sem athygli var vakin á því að í skjalinu væri kennsla stefnanda umreiknuð úr f-einingum yfir í einingar án þess að grein væri gerð fyrir því hvernig það væri gert en niðurstaða félagsins var að um væri að ræða 1640 kennslustundir. Í bréfi lögmannsins sagði enn fremur svo:

 

„Menntaskólinn í Kópavogi telur þessa aðferð ekki tæka, enda sé ekki hægt að umreikna kennsluna yfir í einingar á þann hátt sem félagið gerir. Launakerfi kennara, sem tengt er einingum, byggir á því hver raunveruleg viðvera kennara er í kennslustofunni (1 eining er 2 kenndar stundir). Þar sem umrædd kennsla er ekki reiknuð til eininga og viðvera kennarans við kennslu ekki í samræmi við það er eina rétta viðmiðið gagnvart launagreiðslum til kennarans viðvera hans við kennsluna.

Í málinu liggur fyrir að viðvera umrædds kennara vegna hinnar umdeildu kennslu var samtals 691 kennslustund, sbr. yfirlit sem fylgdi bréfi undirritaðs 31. október sl. og vinnuskýrslur umrædds kennara. Með samningi við kennarann greiddi Menntaskólinn honum fyrir 1170 kennslustundir. Ef stuðst væri við núgildandi kjarasamning og 691 kennslustund reiknuð í samræmi við ákvæði hans þ.e. margfölduð með 1,6 myndi það gera 1105 tíma. Greiðslur skólans til kennarans eru því nokkuð umfram það sem sá kjarasamningur mælir fyrir um. Ef frá eru dregnir 40 tímar (1170-40=1130), sem honum voru greiddir aukalega fyrir nýjan áfanga, hefur skólinn greitt 25 tíma (1130-1105 = 25) umfram það sem miðað er við í þeim kjarasamningi.

 

Í bréfinu kom jafnframt fram að fjármálaráðuneytið og Félag framhaldsskólakennara hefðu rætt um að Þórir Ólafsson kæmi að málinu sem óháður aðili og mæti vinnuframlag kennarans. Þórir skilaði skýrslu um málið 30. desember 2013 en þar kom fram að hann treysti sér ekki til að „kveða upp úr um rétt eða rangt í þessu deilumáli“ og að hann kæmi „ekki auga á tiltekna aðferð sem leiða [mætti] af málsatvikum þess og nota [mætti] sem grundvöll að málamiðlun“.

        Stefnandi höfðaði mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu sem þingfest var 29. september 2015 á hendur stefnda vegna sömu krafna en höfuðstóll aðalkröfu var þá 4.968.118 kr. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 11. maí 2016 var málinu vísað sjálfkrafa frá dómi með vísan til e- og f-liða 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Úrskurði þessum var ekki áfrýjað til Hæstaréttar.

III.

Málsástæður og lagarök stefnanda

        Stefnandi höfðaði mál E-3183/2015 gegn íslenska ríkinu af sama tilefni og mál þetta með stefnu þingfestri í Héraðsdómi Reykjavíkur 29. september 2015. Málinu var vísað frá dómi með úrskurði 11. maí 2016. Í niðurstöðum dómara hafi verið færð rök fyrir því að kröfugerð og sönnunarfærslu stefnanda hafi verið áfátt en stefnanda var synjað um framlagningu gagna í málinu. Með málshöfðun þessari freisti stefnandi þess að bæta úr málabúnaði með lýsingu atvika og framlagningu gagna í því skyni að fá viðurkenningu á dómkröfum sínum. Rétt þykiað styðjast við gögn úr fyrra máli, einkum er varða samskipti aðila og einnig skýrslu Aðalheiðar Steingrímsdóttur fv. formanns KÍ.      

         Aðeins einn kjarasamningur sé í gildi við ákvörðun launa kennara, þ.e. kjarasamningur frá árinu 2005, með áorðnum breytingum, sem reyndar hafi engin áhrif á mál þetta. Í kjarasamningi sé aðeins gert ráð fyrir tveimur leiðum við greiðslu launa:

 a) svokallaðri dagskólaleið: Við útreikning launa skv. dagskólaleið er hver eining jafngildi tveggja kennslustunda. 

 b) öldungadeilda-/meistaranámsleið: Við útreikning launa öldungadeilda/meistaraskóla er hver eining jafngildi einnar kennslustundar, að viðbættu svokölluðu hraðaálagi. Hraðaálagið er 60%, vegna allt að tvöföldum hraða við kennslu í slíku námi. 

        Stjórnendum/kennurum sé ekki heimilt að semja um lægri kjör en kjarasamningur tilgreinir, nema með aðkomu stéttarfélagsins, KÍ. 

        Aðstoðarskólameistari MK hafi sent stefnanda excel-skjal þann 25.6.2013, sbr.dskj. nr. 6., og ritað tölvubréf til stefnanda þann 26. júní 2013, sbr. dskj. 27, þar sem vísað sé í fjölda kenndra daga sem grundvöll fyrir greiðslu til stefnanda. Þessi grundvöllur sé augljóslega rangur enda ekki byggt á gildandi kjarasamningi heldur vísað til nýrrar námskrár kjarasamnings sem tók fyrst gildi á árinu 2015. 

        Kennslustundir í öldungadeildum/meistaraskóla fylli upp í kennsluskyldu kennara á sama hátt og kennslustundir í dagskóla. Öldungadeildarkennsla/meistaraskólanám fari jafnt fram að degi til og að kveldi. Daglegur vinnutími kennara sé frá kl. 08.00–17.00. Í kjarasamningi sé talað um kvöldskólaálag en það sé greitt fyrir vinnu sem unnin er eftir kl. 17.00. Stefnandi geri ekki tilkall til þessa álags í kröfugerð sinni. Engin tengsl séu á milli kvöldskólaálagsins og hraðaálagsins, sjá kjarasamning  2.2.2. Í kjarasamningi, grein 2.3.1, sé yfirvinna við kennslu skilgreind svo: „Yfirvinna telst sú vinna sem fram fer utan tilskilins daglegs vinnutíma, svo og vinna sem innt er af hendi umfram vikulega vinnutímaskyldu þó á dagvinnutímabili sé.“ Þetta fyrirkomulag sé ólíkt venjulegri dagvinnu, þar sem yfirvinna hefst að lokinni dagvinnu hvers dags. Í þessu fyrirkomulagi geti kennari uppfyllt kennsluskyldu sína á t.d. tveimur dögum og þá fengið alla vinnu, sem hann vinnur aðra virka daga vikunnar, greidda í yfirvinnu. Þetta sjáist skýrlega á stundatöflu stefnanda frá haustönn 2012, sbr. dskj. 23, en þá kennir stefnandi skv. stundatöflu 20 kennslustundir á viku í meistaranáminu alla mánudaga og þriðjudaga í 18 vikur. Þar sem kennsluskylda stefnanda hafi verið 19 kest. í viku verði ein kennslustund frá þriðjudegi og allar aðrar kest. vikunnar greiddar í yfirvinnu. Stefnandi bendir á að skv. þessari stundatöflu, sem unnin sé skv. fyrirmælum aðstoðarskólameistara, sé hvergi um kvöldskólaálag að ræða né heldur í vinnuskýrslu. Vinnuskýrsla fyrir sömu önn, sbr. dskj. nr. 23, gerir svo hins vegar ráð fyrir 9 kest. í viku en ekki 20, eins og stundataflan sýnir. Vinnuskýrslan sé því augljóslega röng. 

        Yfirvinna skal reiknuð sem 1.0385% af mánaðarlaunum, sbr. kjarasamning 1.5.1 og yfirvinnuálag á kennslu er 30% fyrir hverjar 40 mín., sbr. ákvæði í kjarasamningi 1.5.5. Í kaflanum um laun og kröfur stefnanda sé tafla yfir yfirvinnulaun stefnanda á umræddu tímabili. Í grein 2.1.6.4 í kjarasamningi standi að fjöldi kennslustunda, sem kennari tekur að sér í upphafi annar/árs, sé bindandi til loka annar/árs. Samkvæmt kjarasamningi sé kennsluskylda kennara í 100% starfi frá 17-24 kennslustundir á viku og fjöldi kennslustunda fari eftir lífaldri kennara. Þannig var kennsluskylda stefnanda 19 kest. þessi þrjú ár, sem um ræðir, þ.e. frá hausti 2010 til vors 2013, sbr. bókun 7.1.2001, dskj. nr. 15. Hefðbundin kennsla sé oft nefnd staðbundin kennsla/nám þar sem nemendur sækja kennslustundir í skóla sínum og njóta kennslu kennara. Það sé hin almenna regla skólastarfs í landinu.

        Fyrir dómi 13. apríl 2016, sbr. dskj. nr. 30, hafi Aðalheiður Steingrímsdóttir gert grein fyrir aðkomu KÍ að samningum við tvo skóla, Kvennó og Framhaldsskólann í Mosfellsbæ vegna hinnar nýju námskrár. Engir aðrir skólar hafi haft heimild til að annast slíka tilraunakennslu. Þar hafi verið lögð áhersla á að aðlaga mætti kennsluna nemendum skv. nýrri námskrá en áfram yrði að nota einingar hvers áfanga gagnvart kjörum kennara. Þar komi fram að fimm f-einingar jafngildi þremur gömlum einingum.

        Stefnandi telur einsýnt að málsatvik hafi verið ranglega lögð fyrir Þóri Ólafsson sérfræðing. Þórir vísi í greinargerð sinni til þess að stefnandi hafi fengið greitt fyrir vinnuframlag sitt en segir jafnframt að Félag framhaldsskólakennara (FF) bendi réttilega á að „...skólinn hefði getað fundið sanngjarna samsvörun hins nýja skipulags við eldra einingakerfi og greitt samkvæmt því“. Hann sé þar að vísa til nýrra framhaldsskólalaga um framlag kennara til kennslu, en ákvæði þetta tók ekki gildi fyrr en árið 2015. Undarlegt sé að Þórir blandi saman gildandi kjarasamningi við þann sem tók gildi löngu síðar. Það séu sömu mistök og stjórnendur MK geri. Þórir taldi jafnframt að stefnandi hefði gert samning við MK og/eða mennta- og menningarmálaráðuneytið um kjör, sem væru allmiklu lægri en gildandi kjarasamningur, sem stefnandi starfar eftir. Í niðurstöðu Þóris gæti  rangra forsendna. Þar segi m.a. svo:

„Ekki er um það deilt, að PBP fékk vinnuframlag sitt greitt. Um það er hins vegar deilt, hvort það vinnuframlag hafi verið í samræmi við kjarasamning kennara, hvort MK og PBP hafi mátt semja um það með þeim hætti, sem gert var. Þar með snýst deilan um grundvallaratriði í túlkun á kjarasamningi kennara. Vilji menn fá úr því deiluefni skorið verður væntanlega að leggja málið fyrir Félagsdóm.“

        Stefnandi hafi alls ekki samið um uppgjör við MK eins og Þórir hefur talið. Þessi ranga niðurstaða virðist hafa valdið því að lögmaður hjá Landslögum komst að þeirri niðurstöðu hjá skólameistara MK að stefnandi ætti ekki rétt á að fá leiðréttingu á röngu launauppgjöri. Augljóst sé að MK hefur farið þá leið að reyna að svæfa málið og losna við að greiða stefnanda af fjárveitingum til skólans. Ágreiningur aðila varði launalegt uppgjör og sé fráleitt úrlausnarefni fyrir Félagsdóm. Ekki sé deilt um gildi kjarasamninga, heldur einfaldlega um launagreiðsluskyldu samkvæmt gildandi kjarasamningi framhaldsskólakennara við ríkissjóð.

Því sé haldið fram að stefnandi hafi gert samning um verkið, sem hafi verið með öðrum hætti en samkvæmt kjarasamningi stefnanda. Slíkur samningur var aldrei gerður, enda óheimilt skv. kjarasamningi. Stefnandi undirritaði vinnuskýrslur frá skólameistara en launauppgjör reyndist hins vegar ekki vera í samræmi við gildandi kjarasamning og vinnuskýrslur voru auk þess rangar. Stefnandi hafi mátt treysta því að réttilega væri að gerð vinnuskýrslna og launauppgjöri staðið. Helgi aðstoðarskólameistari hafi upplýst stefnanda síðar að um mistök hefði verið að ræða við uppgjörið, sbr. dskj. nr. 5, sem hann hefði afhenti stefnanda.

         Áfangastjóri verknáms og umsjónarmaður meistaranáms MK hafi verið Baldur Sæmundsson. Hann og aðstoðarskólameistari hafi tekið ákvörðum um kennslumagn í meistaranáminu og hver/hverjir skyldu kenna þar og hafi stefnanda verið falin kennslan. Veturinn 2010-2011 hafi stefnandi verið fagstjóri viðskiptasviðs skólans en sem slíkur komi hann hvergi nálægt kennslumagni úr öðrum deildum. Þegar kennslu hafi verið skipt milli kennara hefjist stundatöflugerð í umsjá aðstoðarskólameistara. Búin sé til stundaskrá fyrir alla kennara skólans og hún afhent þeim áður en kennsla hefst. Þegar kennsla er hafin sé unnin vinnuskýrsla fyrir hvern kennara og hann beðinn um að undirrita hana. Þetta hafi stefnandi gert án athugasemda umrædd þrjú ár þar sem hann hafi treyst aðstoðarskólameistara fullkomlega og talið að hann færi eftir gildandi kjarasamningi um námið. Dráttur hafi hins vegar orðið á undirritun haustið 2012 vegna ágreinings vegna stækkunar meistaranámsins um 5 f-einingar.

Vinnuskýrslur stefnanda hafi verið lagðar fram í málinu sem dskj. nr.21-23. Undir liðnum Kennsla á vinnuskýrslu vorið 2011 séu fimm dálkar, þ.e. Dagskóli – Almenn braut 1 – Fjarken/sérken. – Kvöld/Lotur – Önnur ke., en á sama hátt á vinnuskýrslu 2012 Dagskóli – Sérkennsla – Skrifstofubraut – Kvöldskóli – Cesar Ritz . Meistaranámið sé allar þær annir sem um ræðir (haustönn 2010 – vorannar 2013), sett undir liðinn Dagskóli. Undir þann lið falli eingöngu dagskólanám, þ.e. eftir kjarasamningi um dagskóla. Undir liðinn Kvöldskóli falli hins vegar öldungadeildanám með 60% hraðaálagi. Það fer því ekki á milli mála að á þessum tíma álitu skólastjórnendur að meistaranámið félli undir dagskólanám. Stundatafla stefnanda fyrir haustönn 2012, sbr. dskj. nr. 23, sé einnig athyglisverð en þar ætli Helgi Kristjánsson stefnanda að kenna eins og um venjulegan dagskóla væri að ræða.

        Stefnandi hafi upplýst að aðstoðarskólameistari, Helgi Kristjánsson, hafi lagt fram tillögu til lausnar sem fól í sér að sleppa fyrsta árinu þ.e. hausti 2010 og vori 2011, sbr. dskj. nr. 5. sem sé skjal frá honum komið. Helgi Kristjánsson hafi neitað að svo hafi verið. Engu að síður hafi hann gengist við því, að dskj. nr. 6 sé frá honum komið. Það skjal sé sama skjal og dskj. nr. 5 með viðauka og breytingum. Í því skjali sé með sama hætti sleppt útreikningi vegna haustannar 2010 og vorannar 2011. Ljóst sé að það var ekki gert að frumkvæði stefnanda heldur var það einhliða tillaga stjórnenda MK til samkomulags.

        Málsmeðferð MK hafi verið ámælisverð eins og stundatöflur og vinnuskýrslur stefnanda beri með sér. Verði að telja ljóst að um sé að tefla mistök í launalegu uppgjöri hjá aðstoðarskólameistara, sem „kerfið“ hafni að leiðrétta og viðurkenna. Það sé skýlaust brot gagnvart stefnanda. Stefnandi vill geta þess, að um miðjan júní 2013 hafi Helgi aðstoðarskólameistari boðið fram lausn, í líki excel-skjals, sbr. dskj.nr. 5, sem fólst í því að uppgjör færi fram eftir kjarasamningi Fjármálaráðuneytisins og KÍ. Einnig megi sjá í samskiptum Margrétar skólameistara við Aðalheiði, formann KÍ, dags 19. júní, að Helgi og stefnandi hafi náð samkomulagi um að greitt yrði eftir gildandi kjarasamningi. Þannig hafi Helgi boðið að greitt yrði fyrir vinnu stefnanda við meistaranámið með sama hætti og greitt er fyrir kvöldnám, sbr. bls. 54 í kjarasamningi frá 2008, þ.e. að ein eining sé ein kennslustund, en með 60% álagi, (1 x 1,6). Því hefði stefnanda borið að fá greiddar 9 x 1,6 = 14,4 kennslustundir í 18 vikur á hverri önn í stað 9 kennslustunda. Vísast til töflu á bls. 4 í stefnu. Helgi hafi lagt til að sleppt yrði leiðréttingu fyrsta árið, þ.e. veturinn 2010-2011 og stefnandi fallist á það, enda yrðu viðbótartímar á haustönn 2012 leiðréttir.

        Stefnandi fullyrðir að Helga hafi verið orðið ljóst að um mistök í launaútreikningi hefði verið að ræða, sem hann vildi leiðrétta. Stefnandi hafi verið samþykkur þessu, enda vildi hann fyrir alla muni ná samningum við skólann. Af þessari niðurstöðu varð ekki eins og áður er rakið. Helgi hafi upplýsti stefnanda um að eftir samtal skólameistara MK við starfsmenn ráðuneyta væri það álit þeirra að ekki þyrfti að greiða stefnanda neitt, þar sem þeir töldu að uppgjör ætti að fara fram eftir ákvæðum nýs kjarasamnings, sem ekki hafði tekið gildi! Að sjálfsögðu hafi það ekki komið til álita, enda stefnandi ekki aðili að þeim samningi. Vísast til dskj. nr. 6 þar sem Helgi leggi fjölda kenndra kennslustunda (lotur) til grundvallar við uppgjör en ekki einingar eins og kveðið sé á um í kjarasamningi. Mikilvægt sé að gera grein fyrir samskiptum aðila á tímabilinu, sérstaklega samskiptum formanns KÍ, Aðalheiðar Steingrímsdóttur og skólameistara MK, Margrétar Friðriksdóttur annars vegar og hins vegar samskiptum stefnanda og Helga Kristjánssonar, sem fram koma á dskj. nr. 26. og 27.

        Af  samskiptum þeirra megi sjá að skólameistari hafi „uppgötvað mistökin“ og að Helgi og stefnandi hafi komist að samkomulagi um uppgjör. Skólameistari ítreki að greitt verði eftir gildandi kjarasamningi um öldungadeildir/meistaranám. Á samskiptum Helga og stefnanda megi sjá að þeir hittust og daginn eftir hafi stefnandi sent bréf til Helga, sem vitni í „tilboð“ hans. Síðar segi Helgi að svarbréf stefnanda „hafi sett allt í baklás“. Því næst vitni Helgi í kjarasamninga, þar sem greitt sé eftir kenndum tímum, og sendi sem fylgiskjal útreikninga, sem vísa í nýju námskrána, sbr. dskj. nr. 6. og kennda tíma. Þetta sé með ólíkindum en kjaraliður nýju námskrárinnar hafi fyrst tekið gildi árið 2015. Með þessu hafi aðstoðarskólameistari, Helgi Kristjánsson, slitið samningaviðræðum við stefnanda.

        Stefnandi vill mótmæla dskj. nr. 29 í málinu frá 13. apríl sl. Svo virðist sem höfundur skjalsins, hver svo sem hann er, sé að gefa í skyn að umræddar greiðslur hafi runnið til stefnanda fyrir vinnu hans við hönnun á námi til meistaranáms. Það sé rangt en ekkert hefur verið greitt inn á dómkröfur stefnanda. Vissulega sé efsti liðurinn vinna við námskrá, en það hafi verið áfanginn bókfærsla 103 í dagskóla og ekki komið meistaranáminu neitt við. Það staðfesti hins vegar að 8 kest. voru greiddar fyrir hverja námskrá. Enginn liður í upptalningu skjalsins sé viðkomandi meistaranáminu nema vegna aukaáfanga í meistaraskóla, en það var greiðsla fyrir 40 kest. vegna stækkunar námsins á haustönn 2012, þ.e. 40 kest. x yfirvinnuálag, 30%, sem gera 52 klst. Vísast til töflu á bls. 4 hér að framan, þar sem greiðslutilhögun er útskýrð.

Stefnandi hafi starfaði við framhaldsskólakennslu í 38 ár, þar af 16 ár við MK. Hann hafi tekið þátt í að móta nám við MK og verið brautryðjandi í kennsluháttum á sínu sviði. Það sé niðurlæging og brot á grundvallarmannréttindum gagnvart honum af hálfu skólayfirvalda og mennta- og fjármálaráðuneytis að hafa ekki fyrir margt löngu gengið frá uppgjöri á réttmætri launakröfu stefnanda eins og hér háttar til. Krafa stefnanda styðjist við gildandi kjarasamning, sbr. bókun á bls. 54 í samningnum, en bókunin sé óbreytt frá 28.11.1985 sbr. dskj. nr. 15 og 16. Þá sé ógreitt fyrir þá vinnu, sem stefnandi varði til að móta umrætt nám, sem eru 104 klst. og honum beri með fullum rétti að fá greiðslu fyrir, enda hafi honum verið falið að vinna að þessu verki af hálfu skólayfirvalda.

        Stefnandi gerir þá kröfu að uppgjör við hann vegna vangoldinna launa fari fram á grundvelli gildandi kjarasamnings. Jafnframt er gerð krafa til þess að greitt verði vegna undirbúnings- og skipulagsvinnu vegna meistaranámsins.

        Varðandi dómkröfur þá miðar stefnandi aðalkröfu við launauppgjör 1. júlí 2015 þegar hann lauk störfum við MK. Þá hafi taxti yfirvinnu verið 6.904 kr., sbr. töflu á bls. 4 í stefnu. Um sé að ræða 733.6 vinnustundir, sem unnar voru utan daglegrar vinnuskyldu að viðbættu lögbundnu orlofi 13,01% eða samtals 5.723.667 kr. Vaxtakrafa tekur mið af vaxtalögum en gerð er krafa um dráttarvexti frá næstu mánaðamótum eftir að skrifleg krafa var gerð á hendur stefndu.

        Í stefnu er í varakröfu miðað við yfirvinnutaxta eins og í gildi voru er vinna var innt af hendi á tímabilinu 2010-2013, sbr. dskj. nr. 29, auk lögbundins orlofs. Þá er gerð krafa um vexti skv. 8. gr. frá 1.10.2011 en fyrning hafi verið rofin með þingfestingu máls hinn 29.09.2015. Dráttarvaxta er krafist frá 1. ágúst 2015 eins og í aðalkröfu. Við upphaf aðalmeðferðar lagði stefnandi fram breytta kröfugerð.

         Þrautavarakrafa er gerð um lægri fjárhæð að mati réttarins verði eigi fallist á aðal- eða varakröfur.

         Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu að mati réttarins að teknu tilliti til virðisaukaskatts 24 % en stefnandi er eigi virðisaukaskattsskyldur.

        Stefnandi vísar til þess að eins og fram komi í framlögðum vinnuskýrslum hafi hann uppfyllt dagvinnuskyldu sína öll þau þrjú ár sem um ræðir, og stundum gott betur. Því verði öll viðbót við kennslu, það er það sem hann telur vangoldið, reiknað í yfirvinnu. 

        Meðfylgjandi er tafla, sem sýnir laun stefnanda frá 1.1.2011 í lok fyrstu annar Meistaraskóla MK fram til 1.7.2013 eftir síðustu lotu, sem hann kenndi við Meistaraskólann og loks 1.7.2015 þegar hann lét af störfum við MK.

        Yfirvinna stefnanda sé fundin með því að margfalda mánaðarlaun hans með stuðlinum 1.0385% og þá fáist yfirvinnulaun hans á klst. Sú fjárhæð er síðan margfölduð með stuðlinum 1.3 (30% álag vegna kennslu skv. kjarasamningi KÍ og menntamálaráðuneytisins, sbr. 2.3.1 í kjarasamningi).

Dagsetning

 

Mánaðarlaun PBP

Yfirvinnulaun pr. klst.

Yfirvinnulaun pr. kest.

* 1.0385% af mán.laun

* 1.3

1.1.2011

345.211

3585     

4661

1.1.2012

375.279

3897

5066

1.1.2013

388.414

4033

5243

1.7.2013

401.037

4165

5415

1.7.2015

511.381

5311

6904

 

 

Eins og málið liggur fyrir, sé útreikningum á kröfugerð stefnanda svo háttað:

A)  Kennsla: Sundurliðun á kröfugerð vegna vangreiðslu á kennslustundum við meistaranám í MK veturna 2010-2013.

Veturinn                               Greitt af MK til Péturs Björns:                                                       

2010 – 2011                        9   kennslustundir x 18 vikur = 162 x 2 annir = 324                                                  kennslustundir    

2011 – 2012                        9   kennslustundir x 18 vikur = 162 x 2 annir = 324                                                  kennslustundir                    

2012 (haust)        12 kennslustundir x 18 vikur = 202  x 1 önn =   202                                                 kennslustundir

2013 (vor)                            9   kennslustundir x 18 vikur = 162 x 1 önn =   162                                                   kennslustundir    

                                                                                                              Samtals:1.012 kennslustundir

Veturinn                               Greiðslur skv. kjarasamningi:

2010 – 2011                        9  kennslustundir x 1.6 x 18 vikur x 2 annir = 518,4 kennslustundir

2011 – 2012                        9   kennslustundir x 1.6 x 18 vikur x 2 annir = 518,4                                                kennslustundir

2012 (haust)        12 kennslustundir x 1.6 x 18 vikur x 1 önn   = 345,6                                                kennslustundir

2013 (vor)                            9   kennslustundir x 1.6 x 18 vikur x 1 önn   = 259,2                                                 kennslustundir

                                               Samtals: 1.641 kennslustundir

Vangreiddar kennslustundir vegna kennslu því (1.641,6 – 1.012) =  629,6 kennslustundir.

Vangreiðsla vegna kröfuliðar I.  629.6 kest x kr. 6.904.- =  samtals kr.                                                                                                                                                                              4.346.758.-

 

Meðfylgjandi eru dómskjöl 19. og 20. Tafla 1, dskj. nr. 19 sýnir mánaðarlaun stefnanda frá 1. ágúst 2010 til 31. maí 2013 og einnig vangoldnar kennslustundir fyrir hvern mánuð fyrir sama tímabil. Tafla 2, dskj. nr. 20 sýnir yfirvinnulaun stefnanda á kest. og vangoldin laun á mánuði fyrir tímabilið.

2.  B)  Hönnun meistaranámsins: 

Vinna við undirbúning og skipulagningu náms á meistarastigi, samtals 104 kennslustundir.

Samkvæmt tímaskrá sundurliðast vinna eftirfarandi:

1.    Söfnun og öflun gagna, lestur kennsluefnis frá fyrri námsskrá o.fl., leit að nýju kennsluefni til að byggja nýjan áfanga: 4 kest. fyrir hvern áfanga, unnið í apríl 2010:16 kest.

2.    Hönnun náms, úr 12 námsáföngum frá fyrri námskrá, í fjóra námsáfanga (sjá bls. 16 í skýrslu  Baldurs Sæmundssonar, Sagan – reynsla: 4 kest. fyrir hvern áfanga, unnið í lok apríl og byrjun maí 2010:16 kest.

3.    Vinna við skipulagningu námsins, röðun á einstaka þáttum og uppsetning áfanga, unnið í  maí  2010: 3 kest. fyrir fyrstu þrjá áfangana og 1 kest. fyrir kennslufræðina: 10 kest.

4.    Fundir og skipulagsvinna með áfangastjóra meistaranáms, BS.

Unnið í maí 2010: 14 kest

5.    Samþætting og frágangur tillagna, unnið í júní – júlí 2010 16 kest.

6.    Gerð áfangalýsinga (sjá viðauka í skýrslu BS): Lærdómsviðmið sameiginl. námsþátta í iðnmeistaranámi 8 kest. f. hvern 4 áfanga 32 kest.

Krafa vegna ógreiddrar skipulagsvinnu og undirbúnings v. náms á meistarastigi kröfuliðar II. 104 kest. x kr. 6.904.- = samtals kr. 484.744.-.

Kröfur stefnanda skv. kröfuliðum I-II nema því samtals 5.064.774 kr..

Um aðild og varnarþing.

Af 5. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður leitt að máli skuli að meginreglu beint að íslenska ríkinu þótt það varði atriði sem heyri undir sérstaka stofnun þess. Menntaskólinn í Kópavogi heyrir undir mennta- og menningamálaráðuneytið en fjármála- og efnahagsráðuneytið fer með ríkisfjármál. Varnarþing íslenska ríkisins er í Reykjavík.

        Varðandi lagarök er byggt á því að stefnanda beri launalegt uppgjör eftir gildandi kjarasamningi framhaldsskólakennara en vísað er til bókunar frá árinu 1985 á bls. 54. í kjarasamningi framhaldsskólakennara við fjármálaráðuneytið frá 2008. Þá vísar stefnandi til meginreglna samningaréttar og kröfuréttar. Vísað er til vaxtalaga nr. 38/2001 varðandi vaxtakröfur og til 17. gr. laga nr. 91/1991 varðandi aðild og 1. mgr. 130. gr. og 129. gr. s.l. varðandi málskostnaðarkröfu og loks til laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt m. áorðnum breytingum, en stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur og er honum nauðsynlegt að fá skatt þennan dæmdan. 

IV.

Málsástæður og lagarök stefnda

            Stefndi vísar til þess að fyrra máli vegna krafna stefnanda, sem þingfest var 29. september 2015 hafi lokið með frávísunarúrskurði sem stefnandi hafi fallist á og kærði ekki til Hæstaréttar. Sá úrskurður hafi því sönnunargildi um þau málsatvik sem þar er fjallað um, sbr. 4. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 uns hið gagnstæða er sannað. Því beri að hafa hliðsjón af þeim málsatvikum sem fram koma í niðurstöðu kafla þess úrskurðar.

        Stefndi kveður ástæðu til að leiðrétta sérstaklega ákveðin atriði í málavaxtalýsingu í stefnu. Á bls. 3 í stefnu sé fullyrt að stefnandi hafi hannað heildstætt eins árs nám fyrir meistaranemendur í matvælagreinum. Hins vegar segi í inngangi á bls. 3 í stefnu að á haustönn 2010 hafi hótel- og matvælaskólinn í MK heimild til að byrja tilraunakennslu á nýju meistaranámi. Skólinn hafi farið í samstarf við Iðuna og starfsgreinaráð matvæla- veitinga- og ferðaþjónustugreina um útfærslu á kennslu í áföngum meistaranámsins. Þannig sé þessi fullyrðing stefnanda röng. Þá segi á sömu síðu að kenna skyldi á tveimur önnum með dreifnámsfyrirkomulagi. Það byggi á því að kennt sé nokkra fasta daga í mánuði en einnig í fjarnámi, þar sem nemendur hafa greiðan aðgang að kennara. Þetta sé rangt. Ekki hafi verið um að ræða neina fjarnámskennslu heldur aðeins dreifnám. Það að nemandi geti haft samband við kennara utan kennslustundar, t.d. í tölvupósti, sé hluti af starfsskyldum kennara og felist í launum hans. Fjarnám sé síðan önnur kennsluaðferð. Sést það enn betur á upplýsingum um kennslulotur á dómskjali nr. 9. Það sé því einnig rangt sem fram komi á bls. 6 í stefnu og stefnanda sé fullkunnugt um það. Stefnandi geri ekki grein fyrir því að námið fór fram sem dreifnám kennt í stuttum lotum en ekki 18 vikum. Stefnandi vísi til stundatöflu fyrir vor 2011 og haust 2011 (dskj. nr. 22 og 23), þar séu einungis tvær stundir í töflu og miðað við röksemdafærslu stefnanda hafi hann fengið verulega ofgreitt fyrir kennslu á þessum önnum.

        Áfram á bls. 3 í stefnu sé fjallað um þegar kennsludögum var fjölgað. Það hafi allt verið greitt og aldrei ágreiningur milli aðila um það, sbr. það sem fram komi hjá Þóri Ólafssyni (dskj. nr. 10). Þá sé tilvitnun stefnanda til Helga Kristjánssonar aðstoðarskólameistara röng og eigi ekki við nein rök að styðjast þar sem meistaranámið fór ekki fram sem hefðbundin dagskólakennsla heldur var námið dreifnám eins og áður kom fram. Það hafi verið greitt samkvæmt sérstakri bókun í kjarasamningi KÍ og fjármálaráðherra (dskj. nr. 15). Ef námið hefði farið fram sem hefðbundin dagskólakennsla, sbr. stúdentsbrautir, hefði tilvitnun stefnanda átt við. Þá hefði kennsla verið alla virka daga auk prófa í 18 vikur á önn. Stefnandi hafi því ekki hannað meistaranám í matvælagreinum heldur tekið þátt í að skrifa áfangalýsingar í fjórum áföngum með Baldri Sæmundssyni, áfangastjóra verknáms.

       Á bls. 7 í stefnu reyni stefnandi að gera lítið úr áliti Þóris Ólafssonar (dskj. nr. 10). Hið rétta sé að lög um framhaldsskóla nr. 92/2008 voru samþykkt 12. júní 2008 og þar með var rofið samhengi eininga og kennslustunda. Samkvæmt lögunum miði einingar við vinnuframlag nemenda en ekki kennslutíma kennara. Meistaranám við MK hafi verið þróunarverkefni sem samþykkt var ítrekað ár fyrir ár með bréfi frá mennta- og menningarmálaráðuneyti þar sem umrætt kennslufyrirkomulag var ljóst. Stefnandi hafi vitað þetta enda samþykkti stefnandi bæði vinnuskýrslur og launagreiðslur um árabil.

        Síðar segir í stefnu á bls. 8 varðandi vinnuskýrslur og stundatöflur að stefnandi hafi undirritað vinnuskýrslur frá skólameistara en launauppgjör hafi ekki verið í samræmi við gildandi kjarasamning og vinnuskýrslur auk þess verið rangar. Þessu er alfarið mótmælt. Vinnuskýrslur séu í fullkomnu samræmi við vinnuframlag enda undirritaðar af stefnanda á hverri önn án nokkurra athugasemda eða fyrirvara. Aðrir sem hafa skoðað þetta, t.d. trúnaðarmenn skólans, sérfræðingar (dskj. nr. 10) og fleiri, hafa komist að því að greitt hafi verið í fullu samræmi við vinnuskýrslur og vinnuframlag stefnanda.

        Það sé rangt sem stefnandi heldur fram að undir liðinn dagskóli falli einungis nám í dagskóla. Undir liðinn dagskóli á vinnuskýrslu fellur öll kennsla sem fer fram á dagtíma eins og í þessu tilfelli meistaranáms. Launagreiðslur fari eftir kjarasamningi um meistaraskóla en ekki dagskóla.

        Loks varðandi málsmeðferð og samninga þá vill stefndi koma því á framfæri að auðvitað

hafi verið vilji til sátta við stefnanda enda hafi hann verið farsæll kennari við skólann og stjórnendum fundist slæmt ef stefnandi hætti ósáttur en stefnandi hafi hafnað öllum sáttatilraunum.  

        Af hálfu stefnda er öllum kröfum, málsástæðum og lagarökum stefnanda hafnað. Óljóst sé við lestur stefnu hvað séu málsatvik og hvað teljist málsástæður og lagarök. Stefnan sé því ekki í samræmi við ákvæði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 að þessu leyti. Það veldur vandkvæðum við vörnina enda sé málið ekki skýrt af hálfu stefnanda þó að hann reyni að setja það í annan búning en þegar því var vísað frá.

       Aðalkrafa stefnanda hefur ekki sést áður í samskiptum milli aðila, enda sé hún hærri en sem nam kröfubréfi stefnanda og mun hærri en sú krafa sem var aðalkrafa stefnanda í fyrra dómsmáli. Óneitanlega bendi það til þess að stefnandi hafi í raun ekki hugmynd um hver krafan ætti að vera og að öll hans kröfugerð sé í besta falli ágiskun.

         Þau gögn sem stefnandi styðjist við, hafi legið fyrir í fyrra máli svo og skýrsla fyrrverandi formanns KÍ. Rétt sé að taka fram að stefndi hafnaði framlagningu launaseðils fyrir árið 2015 í fyrra máli enda hefði sá launaseðill ekki neitt að gera með laun stefnanda fyrir árin 2010 til 2013 sem eru þó grundvöllur máls þessa sem og hins fyrra. Hið sama megi segja um útreikning stefnanda á þeim tímum sem hann telur sig eiga inni vangreidda, þ.e. að stefnandi fær út töluna 629,6 kest. sem mismun á greiddum tímum og því sem kröfugerð hans snýr að. Það hafi hins vegar í fyrra málinu verið 615,6 kest. að mati stefnanda sjálfs.

        Stefnandi leggur fram að nýju í þessu dómsmáli dskj. nr. 5 en í fyrra dómsmáli hafi því skjali verið hafnað sem röngu og eru þau mótmæli ítrekuð hér. Stefnandi slíti það skjal síðan úr samhengi við dskj. nr. 27. Til þess að leiðrétta þetta leggur stefndi fram tölvuskeyti, dskj. nr. 40 og útreikning á dskj. nr. 41 sem sé hið rétta dómskjal og það sem stefnanda var sent. Þar komi fram eins og segi í tölvupóstinum, dskj. nr. 40, að stefnandi hafi fengið ofgreitt eða 37 tíma umfram kjarasamninga. Í þeim tölvupósti komi fram að meðfylgjandi sé útreikningur, dskj. nr. 41, en stefnandi haldi því fram að hann að hafi fengið skjalið (dskj. nr. 5) afhent. Stefndi heldur því aftur á móti fram að hann hafi sent stefnanda skjalið (dskj. nr. 40) með tölvupóstinum (dskj. nr. 27). 

        Það kemur reyndar fram í frávísunarúrskurði málsins E-3183/2016, á bls. 13, að ekki séu efni til að fallast á þá fullyrðingu í stefnu að aðstoðarskólameistari Menntaskólans í Kópavogi hafi upplýst stefnanda um að mistök hafi átt sér stað við launauppgjör hans. Ný gögn hafa ekki verið lögð fram af hálfu stefnanda um það efni og er því ekki komin fram nein sönnun um þessa fullyrðingu stefnanda.

        Því er mótmælt, sem fram kemur í stefnu, að málsatvik hafi verið ranglega lögð fyrir Þóri Ólafsson. Málið hafi verið lagt fyrir hann með samkomulagi aðila. Félag framhaldsskólakennara, sem kom fram fyrir hönd stefnanda enda hafði stefnandi leitað til félagsins, var sammála þessari aðferð (dskj. 7,8 og 9).

 

Félag framhaldskólakennara átti því fulla aðild að því hvernig málið var lagt fyrir Þóri Ólafsson og hafa verður í huga að eftir niðurstöðu hans dró félagið sig út enda væntanlega sammála niðurstöðu hans. Félag framhaldsskólakennara hafi komið fram fyrir hönd stefnanda í bréfaskriftum og voru aðilar í góðri trú um umboð þess félags. Það sé ekki við stefndu að sakast þó að félagið hafi ekki tilkynnt stefnanda um það sem fram fór né sé það á ábyrgð stefndu, sbr. dskj. nr. 7,8 og 9.

        Félag framhaldsskólakennara kom fram fyrir hönd stefnanda í bréfaskriftum. Aðilar hafi því verið í góðri trú um umboð félagsins og það sé ekki við stefnda að sakast. Hlutlaus aðili er því búinn að skoða kröfugerð stefnanda og komast að þeirri niðurstöðu að hún sé röng og í besta falli geti verið ágreiningur um túlkun kjarasamninga en ekki vangreiðslu launa, eða eins og segir í dskj. nr. 10 í niðurstöðu: „Ekki er um það deilt að PBP fékk vinnuframlag sitt, sem fram kemur á vinnuskýrslum, greitt.“. Rétt er að hafa hugfast að stefnandi var reynslumikill kennari og gerði ekki á neinum tíma athugasemdir eða fyrirvara við vinnuskýrslurnar, sem honum bar auðvitað að gera ef hann hafði athugasemdir.

        Í máli þessu reynir á sönnun um málavexti, þ.e. hvort stefnandi hafi fengið greitt það sem honum bar. Um var að ræða tvenns konar vinnu. Annars vegar vinnu við uppsetningu meistaranáms, sem átti að lúta almennum ákvæðum kjarasamnings Kennarasambands Íslands og ríkisins um aðra vinnu en kennslu. Hins vegar var um að ræða kennslu.

        Stefnandi heldur því fram að launauppgjör hafi ekki verið í samræmi við kjarasamning. Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi alltaf fengið greitt fyrir þá vinnu sem hann innti af hendi vegna þessa tilraunanáms. Við útreikning launa vegna hönnunar námsins hafi stefnandi fengið greitt samkvæmt framlögðum tímaskýrslum. Við útreikning launa vegna þessa hafi verið miðað við bókun um greiðslu fyrir kennslu í öldungadeildum, meistaraskóla og sambærilegu námi, dags. 28. nóvember 1985, sbr. lið 2, þ.e. stundakennara á tímataxta (dskj. nr. 15). Reyndar megi halda því fram að stefnandi hefði átt að fá greitt skv. almennum ákvæðum kjarasamnings um aðra vinnu en kennslu og því fengið 60% álag ofgreitt fyrir þá vinnu. Stefnandi hafi aldrei gert athugasemdir við þessar greiðslur á sínum tíma, það sé miklu síðar sem hann kemur fram með nýjar og óútskýrðar kröfur um vangreidd laun.

       Varðandi dskj. nr. 17 þá sé það útbúið einhliða af hálfu stefnanda og því sé mótmælt sem þýðingarlausu.

       Fram kemur í stefnu að þessi vinna hafi verið unnin á árinu 2010 sem þýði að þegar stefna var birt í fyrra dómsmálinu þann 28. september 2015 voru liðin rúmlega fimm ár frá því að vinnu við gerð áfangalýsinga lauk. Því sé krafa vegna þessa liðar fyrnd í samræmi við 3. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda, nr. 150/2007, þar sem fram kemur að almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda sé fjögur ár. Kröfuliður 2 B komi því ekki til frekari skoðunar vegna fyrningar. Ef ekki er fallist á að sá liður sé fyrndur sé hann fallinn niður vegna tómlætis stefnanda, sem fyrst birti stefnu 28. september 2015. að öðru leyti sé hann ósannaður og órökstuddur.

        Fyrir sjálfa kennsluna í meistaranáminu hafi stefnandi fengið greitt skv. kjarasamningi sbr. bókun (dskj. nr. 15). Reyndar hafi hann fengið greitt umfram kjarasamninga eins og kemur fram í tölvupósti, sbr. dómskjal 40 og meðfylgjandi útreikning á dómskjali 41. Samkvæmt yfirlitsblaði kemur fram fyrir hvað margar kennslustundir á önn stefnandi fékk greitt og hvaða daga kennsla fór fram. Einnig sé lagt fram dómskjal nr. 28 sem sýni fram á hvaða upplýsingar nemendur fengu varðandi mætingar í viðkomandi nám. Vinnuskýrslur sýna að stefnandi undirritaði þær athugasemdalaust og gerði ekki ágreining um útreikninga á þeim. Allt hafi verið unnið í samræmi við kröfur og óskir stefnanda og hann ráðið algerlega ferðinni um kennslu og þar með launagreiðslur. Stefnandi hafi einu sinni gert athugasemd við greiðslur, þá hafi verið bætt við 40 tímum aukalega að hans kröfu og á það hafi verið fallist.

         Stefndi vísar því á bug að hann hafi hegðað sér með ámælisverðum hætti eins og nefnt sé í stefnu. Fullyrðingu stefnanda um að mistök hafi orðið í launalegu uppgjöri hjá aðstoðarskólameistara sé röng. Launagreiðslur byggi á kennslustundafjölda, það sé fagstjóri, stefnandi í þessu tilfelli, sem ákveður kennslustundafjölda, sem eru forsendur launauppgjörs. Þetta komi fram í gögnum málsins, sbr. dskj. nr. 42, þar sem stefnandi sendir skiptingu kennslustunda til kennara og aðstoðarskólameistara og því augljóst að stefnandi hafði stjórn á því. Kennslustundir eru síðan skráðar af fjármálastjóra MK í launaforrit sem reiknar laun út miðað við fjölda kenndra stunda. Tilvísun stefnanda til dskj. nr. 5 og 6 sé töluvert sérstök enda sé þetta skeyti tekið úr samhengi við önnur tölvuskeyti sem lögð eru fram og þar kemur fram að stefnandi hafi fengið greitt umfram þá tíma sem hann kenndi, þ.e. hann fékk greitt fyrir 792 tíma með álagi en kenndi 755 tíma með álagi, sbr. dómskjal 40 og 41.

        Við þennan útreikning var miðað við þáverandi kröfugerð stefnanda, þ.e. stefnandi vildi blanda saman tveimur launakerfum, því gamla og því nýja með því að fá álag en ekki neina skerðingu. Niðurstaða þess útreiknings er ofangreind, það er stefnandi fékk ofgreitt. Stefndi telur að kröfugerð stefnanda byggi hvorki á neinum gögnum né að fyrir henni sé rökstuðningur. Töflur stefnanda á dómskjölum nr. 19 og 20 séu alfarið búnar til af stefnanda sjálfum eftir hans hentisemi og séu því þýðingarlausar sem sönnun fyrir launakröfum. Tímafjöldi liggi fyrir en sérstakur útreikningur á launum fyrir þá tíma sem stefnandi kenndi sé ekki til þar sem þessir tímar féllu inn í vinnuskyldu stefnanda, þeir séu hluti af 100% dagvinnulaunum hans og því ekki greiddir sérstaklega. Eins og kröfur stefnanda líti út virðist sem kröfugerðin byggi á svokölluðu öldungadeildarálagi, þ.e. lið 1 í bókun um greiðslu fyrir kennslu í öldungadeildum o.s.frv. Liður 1 í þeirri bókun miði m.a. við að kennt sé á kvöldin og því fái kennarar greitt sérstakt kvöldálag fyrir vinnu utan dagvinnutíma. Bæði hönnun námsins og kennsla hafi farið fram innan dagvinnutíma og innan daglegrar vinnuskyldu stefnanda Þessari kröfugerð sé því hafnað. Þrátt fyrir ofangreint leggur stefnandi á kvöldálag án þess þó að hafa kennt á kvöldin og miðar jafnvel við launataxta fyrir árið 2015. Eins og fram komi í yfirliti yfir laun stefnanda á umræddum tíma, sbr. dskj. nr. 43, var yfirvinnutaxti reiknaður út frá dagvinnulaunum margfaldað með 1,0385. Hvergi á þessu tímabili nái taxtinn þeirri fjárhæð sem stefnandi styðst við í aðalkröfu. 

       Raundagvinnutaxti tímabilsins sé á bilinu 1.786 kr. til 2.075 kr. en yfirvinna á bilinu 3.585 kr. til 4.168 kr. Allt þetta geri það að verkum að mjög erfitt sé að verjast kröfugerðinni enda sé hún óljós og órökstudd og jafnvel vanreifuð jafnvel svo að leitt geti til frávísunar máls þó að ekki sé á þessu stigi gerð krafa um frávísun. Stefnandi miði t.d. alla útreikninga við sama tímagjald burt séð frá því á hvaða ári þeir voru unnir, sem fæst ekki staðist enda kemur fram á dskj. nr. 43 að laun hans voru mismunandi yfir þann tíma sem kröfugerðin snýr að.

        Ýmsar fullyrðingar séu í stefnu eins og t.d. um hvað aðstoðarskólameistari eigi að hafa sagt og eða samþykkt en þeim fullyrðingum er alfarið hafnað.

        Í kafla V. í stefnu er fjallað um dómkröfur. Varðandi aðalkröfu þá segir að aðalkrafa stefnanda miðist við launauppgjör 1. júlí 2015, þegar hann lauk störfum við MK. Vísi hann til þess að þá hafi taxti yfirvinnu verið 6.904 kr. Ekki sé unnt að skilja kröfuna öðruvísi en svo að stefnandi telji sig eiga að fá greitt fyrir þá vinnu sem hann telur vangreidda á árunum 2010 til 2013 eftir þeim launataxta sem gilti 2015. Stefnandi gerir ekki einu sinni tilraun til að útskýra eða sýna fram á hvers vegna hann ætti að fá greitt samkvæmt launataxta ársins 2015 fyrir vinnu sem lýkur tveimur árum fyrr. Engin rök séu til þess að fallast á slíka kröfu enda ef stefnandi heldur því fram að um sé að ræða vangreidd laun hlýtur sú krafa að taka mið af þeim launum sem honum bar þegar vinnan var unnin. Það komi beinlínis fram í stefnu á bls. 2, í kafla sem heitir Upphaf málsins, að mál þetta sé sprottið vegna vanefnda og vangreiðslu á launauppgjöri gagnvart stefnanda vegna starfa hans við Menntaskólann í Kópavogi á skólaárunum 2010 til 2013. Ekki sé unnt annað en að sýkna af aðalkröfu stefnanda vegna þess að viðmiðunin sé röng, a.m.k. sé algerlega vanreifað í stefnu hvers vegna miða ætti við launataxta 2015. Jafnvel beri að vísa kröfu frá vegna vanreifunar. Þá hefur verið gerð grein fyrir röksemdum stefnda um fyrningu á þeim hluta kröfunnar sem snýr að undirbúningi námsins. Hið sama gildi um allar kröfur um laun fram að þeim tíma að stefnandi rauf fyrningu með birtingu stefnu þann 28. september 2015. Hér verði einnig að hafa í huga tómlætissjónarmið. Stefnandi vann þau verk sem hann geri nú launakröfur um á árunum 2010-2013. Stefnandi hafi undirritað allar vinnuskýrslur og tekið við launagreiðslum án athugasemda eða fyrirvara. Það leiði til þess að hafi hann átt einhverjar kröfur séu þær niður fallnar fyrir tómælti hans.

         Dráttarvaxtakröfu varðandi þennan lið er mótmælt enda hafi hún ekki legið fyrir í þessu formi fyrr en með þessari málshöfðun og því ekki hægt að fallast á dráttarvexti frá ágúst 2015. Hún sé ekki rökstudd með neinum hætti og upphafsdagur ekki rökstuddur.

        Í töflu á bls. 4 í stefnu fái stefnandi út vangreiddar 629,6 kest. og krefst þess að fá þær greiddar sem yfirvinnu með vísan til gr. 2.3.1 í kjarasamningi. Þeirri tilvísun er alfarið hafnað enda hafi stefnandi fengið að fullu greitt fyrir sína vinnu.

        Í varakröfu falli stefnandi frá því að miða við laun fyrir árið 2015. Hann miði nú við yfirvinnutaxta þegar vinna var innt af hendi auk lögbundins orlofs og bæti síðan við yfirvinnutaxtann 30% álagi sem engin heimild sé fyrir. Þannig verði ekki frekar hægt að fallast á kröfugerð í varakröfu þar sem sjá má hver yfirvinnutaxtinn er samkvæmt launaseðlum sem stefnandi hefur sjálfur lagt fram. Stefnandi fái því yfirvinnu greidda samkvæmt gildandi yfirvinnutaxta. Í stefnu sé ekki gerð tilraun til að útskýra hvers vegna stefnandi eigi að fá frekari yfirvinnu greidda, hvað þá með álagi eins og hann haldi fram. Þá sé vaxtakröfu hafnað þar sem stefnandi vísi til ákvæðis vaxtalaga nr. 38/200 sem fjalli um vexti af skaðabótakröfum. Hér sé ekki um skaðabótakröfu að ræða og/eða í stefnu eða öðrum gögnum málsins að á því sé byggt.

       Dráttarvaxtakröfu er mótmælt með sömu rökum og áður, að krafan hafi ekki legið fyrir fyrr en með þessari málshöfðun auk þess sem hún sé að hluta til fyrnd og stefnandi viðurkenni það í raun með því að reikna ekki vexti samkv. 8. gr. laga fyrr en frá 1. október 2011. Að öðru leyti vísar stefndi til þegar fram kominna málsástæðna sinna, ekki síst fyrningar og tómlætis varðandi þennan kröfulið.

        Varðandi þrautavarakröfu stefnanda þá hafnar stefndi þessum kröfulið enda um launakröfu að ræða og ef stefnandi á ekki rétt á kröfu í samræmi við aðal- og varkröfu geti dómurinn ekki fundið út fjárhæð að álitum sem stefnandi ætti ef til vill að fá. Þá séu framlögð gögn stefnanda þannig að ekki sé unnt að dæma um kröfugerð hans að álitum. Mótmælt er dráttarvaxtakröfu enda liggi dómkrafan sjálf ekki fyrir.

       Stefndi telur að allt framangreint leiði til þess að sýkna beri stefnda af öllum kröfum stefnanda.

         Ef ekki verður fallist á aðalkröfu stefnda um sýknu er þess krafist að kröfugerð stefnanda verði hafnað.

         Til stuðnings kröfu stefnda um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð einkamála. Einkum er vísað til 129. og 130. gr. þeirra laga.

V.

Niðurstaða

         Ágreiningur aðila um launagreiðslur hefur áður komið fyrir dómstóla. Stefnandi höfðaði mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu sem þingfest var 29. september 2015 á hendur stefnda vegna vangreiddra launa. Höfuðstóll aðalkröfu var þá 4.968.118 kr. en er í máli þessu 5.723.667 kr. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 11. maí 2016 var fyrra málinu, nr. E-3183/2015, vísað sjálfkrafa frá dómi með vísan til e- og f-liða 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Úrskurði þessum var ekki áfrýjað til Hæstaréttar og hefur hann því sönnunargildi um þau málsatvik sem greinir í niðurstöðum hans þar til hið gagnstæða er sannað, sbr. 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

        Skýrslutökur í fyrra máli fóru fram þann 13. apríl 2016 og endurrit skýrslutaka var lagt fram í máli þessu í þinghaldi þann 6. febrúar 2017 sem dómskjal nr. 45 og þá bókað að samkomulag væri milli aðila um að þessar skýrslutökur yrðu lagðar fram til hliðsjónar í þessu máli.

        Í málinu er um það deilt hvort stefnandi hafi fengið það sem honum bar fyrir vinnu sína. Um var að ræða tvenns konar vinnu, annars vegar vinnu við uppsetningu meistaranáms sem átt hafi að lúta almennum ákvæðum kjarasamnings Kennarasambands Íslands og ríkisins. Tímaskýrslum stefnanda á dómskjali nr. 17 er mótmælt af stefnda þar sem það sé útbúið einhliða af stefnanda. Krafa stefnanda vegna þessa liðar, B-liðar hönnunar meistaranáms, er að fjárhæð 484.744 kr. vegna 104 ógreiddra kennslustunda á 6.904 kr. Varðandi þennan lið kröfugerðar stefnanda þá var umrædd vinna unnin á árinu 2010 og stefna í fyrra dómsmáli var birt þann 28. september 2015. Þá voru þannig liðin rúmlega fimm ár frá því að gerð áfangalýsingar lauk.

         Í aðalkröfu miðar stefnandi við launauppgjör 1. júlí 2015, þegar hann lauk störfum hjá Menntaskólanum í Kópavogi. Þá hafi taxti yfirvinnu verið 6.904 kr. og höfuðstóll A-liðar aðalkröfu 5.723.667 kr., hann hafi því ekki fengið greiddar 629,6 kennslustundir. Í fyrra máli var aftur á móti byggt á því að ógreiddar hafi verið 615,6 kennslustundir. Stefndi byggir á því að algjörlega sé vanreifað hvers vegna miða eigi launagreiðslur til stefnanda við launataxta við launauppgjör 1. júlí 2015 og stefnandi geri enga tilraun til að sýna fram á hvers vegna hann ætti að fá greitt samkvæmt þessu launataxta fyrir vinnu sem hafi lokið tveimur árum fyrr.

        Það er mat dómsins að stefnandi hafi ekki fært nein rök eða forsendur fyrir því að miðað verði við yfirvinnutaxta sem fram kemur á launaseðli árisins 2015 fyrir vinnu sem innt var af hendi á árunum 2010 til 2013. Grundvöllur aðalkröfu stefnanda er því að þessu leyti svo óljós og vanreifaður að dómur verður ekki á lagður, sbr. d- og g-liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Óhjákvæmilegt er því að vísa þessari kröfu sjálfkrafa frá dómi.

        Stefnandi hefur krafist þess til vara að stefnda verði gert að greiða lægri fjárhæð eða 4.570.487 kr. auk vaxta og dráttarvaxta, eins og greinir í endanlegum dómkröfum stefnanda, og til þrautavara að stefndi verði dæmdur til að greiða lægri fjárhæð að álitum að mati réttarins auk dráttarvaxta frá 1.8.2015. Í varakröfu miðar stefnandi við yfirvinnutaxta þegar vinna var innt af hendi auk lögbundins orlofs. Þá uppreiknar stefnandi yfirvinnutaxtann með 30% álagi, en fyrir því telur stefndi enga heimild.

        Málatilbúnaður stefnanda um þessar kröfur hvílir sem fyrr á því að hann hafi ekki fengið þær greiðslur sem honum beri samkvæmt ákvæðum kjarasamninga fyrir kennslu í meistaranámi veturinn 2010-2011, veturinn 2011 til 2012 og veturinn 2012 til 2013, svo og vegna undirbúnings og skipulagningar námsins á tímabilinu apríl til júlí 2010. Stefnandi hefur sönnunarbyrði fyrir því að svo sé.

        Stefndi byggir hins vegar á því að stefnandi hafi fengið að fullu greitt fyrir vinnu sína eins og fram kemur á viðhengi með tölvupósti Helga Kristjánssonar aðstoðarskólameistara með tölvuskeyti þann 25. júní 2013. Þar kemur fram að stefnandi hafi fengið greitt fyrir kennslu 37 tímum of mikið. Stefndi Helgi Kristjánsson staðfesti þetta í vitnaskýrslu sinni við aðalmeðferð og bar á sama veg í skýrslu sinni í fyrra máli, sem liggur fyrir í málinu og hann staðfesti jafnframt. Stefndi byggir á því að stefnandi hafi fengið greitt skv. kjarasamningi Kennarasambands Íslands og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, sbr. bókun um greiðslu fyrir kennslu í öldungadeildum, meistaraskóla og sambærilegu námi frá 28. nóvember 1985, sbr. lið 2. Fram kemur í gögnum málsins að greitt hafi verið fyrir umrædda kennslu út frá mati á umfangi áfanga og meðal annars miðað við fjölda kennslustunda og hafi námið verið miðað við svonefndar f-einingar.

        Þá var gengið frá vinnuskýrslum og samkomulagi um vinnuframlag  fyrir hverja önn við stefnanda og fyrir liggja vinnuskýrslur undirritaðar af fulltrúa stefnda og stefnanda án nokkurs fyrirvara og athugasemdalaust. Af hálfu stefnda er á því byggt að launauppgjör hafi verið byggt á tillögum stefnanda sem hafi verið fagstjóri viðskiptagreina og kennslan gerð upp samkvæmt þeim. Margrét Friðriksdóttir, skólameistari stefnda, og Helgi Kristjánsson aðstoðarskólameistari staðfestu vitnaskýrslur sínar frá 13. apríl 2016 í símaskýrslum við aðalmeðferð, en þau hafa bæði borið að stefnandi hafi ritað undir allar vinnuskýrslur án athugasemda eða fyrirvara. Margrét Friðriksdóttir neitaði því að stefnandi hefði átt samtal við hana á árinu 2012 og óskað eftir leiðréttingu á launum sínum. Margrét bar að það hafi verið áfangastjóri verknáms og fagstjóri, sem fyrsta árið hafi verið stefnandi, sem hafi ákveðið hvað þyrftu að vera margir tímar í þessum áföngum. Helgi Kristjánsson aðstoðarskólameistari bar á sama veg.

         Í máli þessu hefur stefnandi ekkert fært fram sem hrekur þá niðurstöðu í úrskurði í máli nr. E-3183/2015 frá 11. maí 2016 að ekki séu efni til að fallast á fullyrðingu stefnanda um að mistök hafi átt sér stað við launauppgjör hans og enn fremur að ekki séu forsendur til að draga þá ályktun að stefndi hafi á einhverjum tíma samþykkt þann fjölda vinnustunda sem kröfugerð stefnanda lýtur að.

        Stefnandi staðfesti við aðilaskýrslu við aðalmeðferð undirritun sínar á vinnuskýrslur á dómskjölum nr. 21-23, sem hann ritaði undir án fyrirvara og athugasemda. Ekkert liggur fyrir í málinu um að stefnandi hafi gert athugasemdir við útreikninga á þeim tíma sem vinnuskýrslurnar tóku til. Fyrir liggur í gögnum málsins að stefnandi hafi einu sinni gert athugasemd við greiðslur og þá hafi verið bætt við 40 tímum aukalega að hans kröfu. Fyrir liggur að launagreiðslur byggðu á kennslustundafjölda sem fagstjóri ákveður sem var stefnandi er námið hófst. Á dómskjali nr. 41, sem er tölvuskeyti stefnanda þann 17. maí 2011, kemur fram að stefnandi er að senda Helga aðstoðarskólameistara og kennurum kennsluskiptingu vegna námsins og hafði hann því stjórn á þessum málum. Stefnandi hafði sinnt kennslu í tugi ára og hafði mikla þekkingu á kjörum kennara. Hann hafði komið að skipulagningu námsins og ákvörðun um kennslustundafjölda og var einn af reyndustu kennurum skólans. Það tímabil sem stefnandi krefst vangoldinna launa vegna kennslu fyrir er frá haustinu 2010 til vorsins 2013.

        Stefndi byggir á því að þar sem um var að ræða tilraunanám sem ekki er reiknað til eininga heldur svokallaðra f-eininga, hafi ekki verið hægt að gera upp kennsluna með hefðbundnum hætti. Stefndi hafi fengið tillögu stefnanda um uppgjör og fallist á það  og hafi stefnandi fengið greitt skv. kjarasamningi, sbr. bókun um greiðslu fyrir kennslu í öldungadeildum, meistaraskóla og sambærilegu námi frá 28. nóvember 1985. Í málinu liggur fyrir, skv. yfirlitsblaði, dskj. nr. 41, fyrir hve margar kennslustundir á önn stefnandi fékk greitt og hvaða daga kennsla fór fram. Einnig liggja fyrir málaskjöl sem sýna hvaða upplýsingar nemendur fengu varðandi mætingar í viðkomandi námi. Meistaranám við stefnda var þróunarverkefni sem samþykkt var ítrekað ár fyrir ár með bréfi frá mennta- og menningarmálaráðuneyti þar sem umrætt kennslufyrirkomulag var ljóst. Um þetta var stefnanda fullkunnugt og samþykkti hann bæði vinnuskýrslur og launagreiðslur um árabil.

        Kröfugerð stefnanda hefur tekið breytingum frá því í upphafi samskipta milli aðila varðandi málið. Kröfugerð skv. kröfubréfi, dags. 23.6.2015 var 5.630.902 kr. vegna 815,6 kennslustunda, Í fyrra dómsmáli var hún 4.968.118 kr. vegna 615,6 kennslustunda, en í þessu máli er hún 5.723.667 kr. vegna 629,6 kennslustunda. Mat stefnanda sjálfs hefur þannig verið mjög á reiki varðandi það hvað hann telur vangreitt og þannig hefur rökstuðningi verið verulega áfátt. Stefnandi byggir á því að hann hafi átt rétt á sérstöku kvöldálagi fyrir vinnu utan dagvinnutíma, en honum hefur hvorki tekist að sýna fram á að hönnun námsins og kennsla hafi ekki farið fram innan dagvinnutíma eða innan dagslegrar vinnuskyldu sinnar. Þá verður ekki litið fram hjá því að gengið var frá vinnuskýrslum við stefnanda og samkomulagi um vinnuframlag við hverja önn og það samkvæmt gögnum málsins byggðum á tillögum stefnanda, sem stefndi gerði ekki athugasemdir við og féllst á, enda taldi hann þær sanngjarnar. Stefnandi ritaði síðan án athugasemda undir allar vinnuskýrslur og launaseðla. Telja verður að kröfugerð stefnanda byggi ekki á fullnægjandi gögnum og er töflum stefnanda á dómskjölum nr. 19 og 20 mótmælt af stefnda þar sem þær séu alfarið búnar til af stefnanda og því ekki sönnun fyrir launakröfum.

        Samkvæmt launaseðlum sem liggja fyrir í málinu verður ráðið að stefnandi fái yfirvinnu greidda samkvæmt gildandi yfirvinnutaxta. Stefnanda hefur hvorki tekist að sýna fram á að hann hafi átt að fá frekari yfirvinnu greidda né hefur hann fært fullnægjandi rök fyrir því að hann eigi rétt á álagi.

        Samkvæmt því sem rakið hefur verið ber að sýkna stefnda af varakröfu stefnanda.

        Varðandi þrautavarakröfu stefnanda um lægri fjárhæð að álitum verður að hafna því þar sem stefnandi hefur ekki sýnt fram á að hann eigi kröfu um frekari launagreiðslur í samræmi við aðal- og varakröfu. Þegar af þeirri ástæðu getur dómurinn ekki dæmt stefnanda fjárhæð að álitum. Með vísan til þess sem rakið hefur verið ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

         Að fenginni þessari niðurstöðu ber með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnaðar eins og nánar er kveðið á um í dómsorði.

         Vegna embættisanna dómara hefur uppkvaðning dóms dregist umfram frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Aðilar eru sammála dómara um að ekki sé þörf á endurflutningi málsins.

         Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kemur upp dóminn.

Dómsorð.

        Aðalkröfu stefnanda, Péturs Björns Péturssonar, er vísað frá dómi.

        Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af vara- og þrautavarakröfu stefnanda.

        Stefnandi greiði stefnda 400.000 kr. í málskostnað.