Mál nr. 10/2019

Ósafl sf. (Jóhannes Karl Sveinsson lögmaður)
gegn
Vaðlaheiðargöngum hf. (Þórarinn V. Þórarinsson lögmaður)
og gagnsök
Lykilorð
 • Verksamningur
 • Virðisaukaskattur
 • Uppgjör
 • Frávísun frá héraðsdómi að hluta
Reifun

Ó sf. sem verktaki og V hf. sem verkkaupi gerðu verksamning um gerð Vaðlaheiðarganga ásamt tilheyrandi vegskálum og vegagerð. Að kröfu V hf. lækkaði Ó sf. reikninga sína um 1,2% á tilteknu tímabili vegna lækkunar á virðisaukaskattshlutfalli úr 25,5% í 24%. Deila aðila snérist um hvort og þá að hve miklu leyti lækkun virðisaukaskatts ætti að leiða til lækkunar á umsömdum einingarverðum verksamnings þeirra sem hefðu verið ákvörðuð að meðtöldum virðisaukaskatti og verðbætt með vísitölu byggingarkostnaðar. Vísaði Ó sf. til þess að samkvæmt útboðslýsingu hefðu einingarverð verið bindandi heildarverð og V hf. því ekki verið heimilt að breyta endurgjaldi fyrir verkið sér í hag. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ljóst væri að heildarverð samningsins gæti breyst ef tilteknar forsendur breyttust þrátt fyrir fyrrnefnt orðalag í útboðslýsingu verksins. Þá var vísað til þess að grein 31.12 í ÍST 30 kvæði skýrt á um að báðir samningsaðilar gætu krafist breytinga á samningsfjárhæð í kjölfar breytinga á lögum og/eða stjórnvaldsfyrirmælum. Var talið að fyrrnefnd grein tæki jafnt til hækkunar og lækkunar á kostnaði verktaka við verk. Vísað var til þess að lækkun virðisaukaskatts hafi getað haft áhrif á kostnað við verkið samkvæmt grein staðalsins þó þannig að einungis skyldi líta til þess hvaða áhrif lækkunin hefði á kostnað sem reglur um verðbreytingar í samningi endurspegluðu ekki eins og segði í lokaorðum greinarinnar. Var talið að heildaráhrif skattbreytinganna til hags fyrir Ó sf. hefði numið 13.989.939 krónum og var sú fjárhæð dregin frá dómkröfu Ó sf. Var því krafa Ó sf. tekin til greina að hluta. Þá var vaxtakröfu Ó sf. vísað frá héraðsdómi vegna vanreifunar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Greta Baldursdóttir, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 31. janúar 2019 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst þess að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 52.533.838 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 31. janúar 2015 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði, fyrir Landsrétti og Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði dómi Landsréttar fyrir sitt leyti 12. apríl 2019. Hann krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um annað en málskostnað og að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér málskostnað á öllum dómstigum.

I

Í ágúst 2011 óskaði Vegagerðin fyrir hönd gagnáfrýjanda eftir tilboðum í gerð Vaðlaheiðarganga, jarðganga milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals, ásamt tilheyrandi vegskálum og vegagerð.

Í grein 1.6.1 í útboðslýsingu um gerð tilboðs sagði: „Öll einingarverð í tilboði skulu vera heildarverð í íslenskum krónum með virðisaukaskatti og eru þau bindandi fyrir tilboðið. Bjóðandi skal í tilboði sínu skrá einingarverð sitt við hvern einasta greiðslulið í tilboðsskránni. Komi fram ósamræmi milli einingarverðs og samsvarandi heildarverðs í tilboðsskrá skal einingarverðið ráða og vera bindandi. Í einingarverðum í tilboðsskrá skal koma fram allur kostnaður við viðkomandi verklið, þ.m.t. allur rekstrarkostnaður vegna aðstöðu og mannahalds. Samanlagt verð úr tilboðsskrá flytjist á safnblöð og síðan á tilboðsblað og myndi heildarverð fyrir verkið.“

Þá sagði meðal annars í grein 3.2 í útboðslýsingunni er bar heitið verðlagsákvæði: „1. Byggingarvísitala, reiknuð af Hagstofu Íslands er 110,8 stig fyrir ágúst 2011 og skulu einingarverð í tilboði miðast við þá vísitölu. Reikningar verða verðbættir miðað við byggingarvísitölu sem gildir í upphafi þess tímabils sem innheimt er fyrir ... Miða skal við að vísitala haldist óbreytt milli gildistökudaga, sem er fyrsti dagur hvers mánaðar.“ Í greininni voru sérstök ákvæði um að verð á asfalti verðbættist miðað við „breytingar á verði asfalts frá birgðatönkum Vegagerðarinnar“ með nánar tilteknum fyrirmælum.

Í grein 1.5 útboðslýsingarinnar var svo tiltekið að auk útboðsgagna giltu um útboðið tilgreind rit sem yrðu hluti af verksamningi. Þar á meðal var ÍST 30:2003 Almennir útboðs- og samningsskilmálar um verkframkvæmdir 5. útgáfa 2003-07-15 en í grein 31.12 í staðlinum segir „Báðir aðilar geta krafist breytinga á samningsfjárhæð ef fram koma á samningstímabilinu breytingar á lögum og/eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum er hafa áhrif á kostnað sem reglur um verðbreytingar í samningi endurspegla ekki.“

Aðaláfrýjandi gerði tilboð í verkið og á grundvelli þess gerðu hann og gagnáfrýjandi verksamning 1. febrúar 2013 að heildarfjárhæð 8.853.134.474 krónur.

II

1

Með lögum nr. 124/2014 um breytingu á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, brottfall laga nr. 97/1987 um vörugjald, breytingu á lögum nr. 90/2003 um tekjuskatt og breytingu á fleiri lögum (kerfisbreyting á virðisaukaskatti, brottfall laga og hækkun barnabóta) var skatthlutfall virðisaukaskatts samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988 lækkað úr 25,5% í 24%. Með lögunum voru ýmsar aðrar breytingar gerðar og meðal annars afnumin vörugjöld á stærri raftækjum og nánar tilteknum byggingarvörum. Þá rann út heimild sem sett hafði verið til bráðabirgða í ákvæði XV. laga nr. 50/1988 og fól í sér þá tímabundnu breytingu á 2. mgr. 42. gr. þeirra laga að í stað þess að endurgreidd yrðu 60% af virðisaukaskatti af vinnu, sem leyst væri af hendi á byggingarstað við byggingu íbúðarhúsnæðis, endurbætur á því eða viðhaldi, skyldi skatturinn endurgreiddur að fullu. Tóku breytingarnar gildi 1. janúar 2015. Framangreind þrjú atriði höfðu áhrif á útreikning byggingarvísitölunnar, sem var eins og fyrr greinir tengd einingarverðum verksamnings aðila.

2

Með tölvubréfi 13. febrúar 2015 óskaði gagnáfrýjandi eftir því við aðaláfrýjanda að „útfærsla á VSK breytingunni um áramót verði með öðrum hætti en Vegagerðin hefur gefið út.“ Fór gagnáfrýjandi fram á „að reiknaður verði sérstaklega munurinn sem nemur VSK breytingunni og hann dreginn frá á hverjum reikningi...“. Í kjölfar frekari bréfaskipta málsaðila varð niðurstaðan sú að aðaláfrýjandi gaf á ný út reikning fyrir verkframvindu janúarmánaðar 2015 með leiðréttingu á einingarverðum miðað við lægri virðisaukaskattsprósentu. Var í reikningnum gerður fyrirvari um að heildarfjárhæð hans væri lægri en aðaláfrýjandi taldi sig eiga rétt til. Þá sagði: „Ólögmæt krafa verkkaupa vegna lækkunar virðisaukaskatts 1. janúar 2015 hefur leitt til samsvarandi lækkunar á einingarverðum þótt útboðsskilmálar og verksamningur tilgreini eingöngu heildarfjárhæð sem innihaldi virðisaukaskatt. Þá hefur verkkaupi ekki tekið tillit til breytinga á vísitölu sem leiðir af lækkun virðisaukaskatts. Áskilinn er réttur til viðbótargreiðslu ásamt dráttarvöxtum og kostnaði sem hlýst af kröfugerð.“ Munu aðrir útgefnir reikningar aðaláfrýjanda sem um ræðir í málinu einnig hafa verið bundnir sama fyrirvara.

Eftir frekari samskipti aðila til lausnar deilu þeirra höfðaði aðaláfrýjandi mál þetta 5. desember 2016 með dómkröfu sömu fjárhæðar og hér fyrir dómi, en sú fjárhæð svarar til 1,2% af samningsfjárhæð verksins frá 1. janúar 2015 til 5. desember 2016.

Eins og nánar er rakið í héraðsdómi byggir aðalafrýjandi helst á því að samið hafi verið um fast verð fyrir verkið er innifalið hafi virðisaukaskatt, sbr. grein 1.6.1 í útboðslýsingu gagnáfrýjanda. Samningsskilmálar hefðu ekki gert ráð fyrir lækkun á heildarverði samnings þótt virðisaukaskattshlutfall hafi lækkað á samningstímanum. Grein 31.12 í ÍST 30 gæti heldur ekki leitt til þeirrar lækkunar á samningsfjárhæð sem gagnáfrýjandi miðar við þar sem hún tæki eingöngu til breytinga á kostnaði við verkið, en lækkun virðisaukaskatts félli ekki undir það hugtak. Jafnvel þótt svo yrði talið mætti samkvæmt lokaorðum ákvæðisins eingöngu breyta fjárhæð verklauna að því marki sem „reglur um verðbreytingar í samningi endurspegla ekki.“ Vísar aðaláfrýjandi einnig til þess að umrædd lagabreyting hefði sannarlega haft áhrif til lækkunar á byggingarvísitölu og þar með endurgjaldi hans fyrir verkið. Gagnáfrýjandi reisir kröfu sína á hinn bóginn á því að grein 31.12 í ÍST 30 eigi samkvæmt orðum sínum við um einingarverð samningsins og beri því að taka tillit til framangreindra breytinga á skattalögum sem leiddu til lækkunar kostnaðar aðaláfrýjanda vegna verksins og að heildaráhrif skattbreytinganna hafi leitt til hækkunar á byggingarvísitölu.

3

Undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi aflaði aðaláfrýjandi matsgerðar dómkvadds manns 10. júlí 2017 um hver áhrif laga nr. 124/2014 og niðurfellingar XV. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 50/1988 hefðu haft á vísitölu byggingarkostnaðar sundurliðað eftir mánuðum frá 1. janúar 2015 til júlí 2017.  Þá var óskað svars við því hvaða breyting hefði orðið á fjárhæð hvers og eins reiknings aðaláfrýjanda vegna verkframkvæmdanna sama tímabil ef framangreindar skattbreytingar hefðu ekki komið til og að lokum hvaða áhrif þessar skattbreytingar hefðu haft á kostnað aðaláfrýjanda við kaup á byggingaraðföngum.

Í niðurstöðu matsgerðar var tekið fram að ákveðin óvissa ríkti um matið en ætla mætti að vísitala byggingarkostnaðar á tímabilinu febrúar 2015 til júlí 2017 hefði verið 1,5% til 2,1% lægri ef ekki hefði komið til skattbreytinganna og hefðu reikningar aðaláfrýjanda lækkað um 24.368.483 krónur fyrir virðisaukaskatt. Varðandi áhrif skattbreytinga á kostnað við kaup á byggingaraðföngum var tekið fram að aðilar hefðu á matsfundi sammælst um að þau yrðu ekki metin í krónutölu þar sem það myndi kalla á sundurliðaðar upplýsingar vegna aðkeyptrar vöru og þjónustu aðaláfrýjanda. Var svarið því veitt með almennum hætti þannig að áhrif lækkunar á virðisaukaskatti hafi ekki haft áhrif á afkomu aðaláfrýjanda þegar tekið væri tillit til frádráttar virðisaukaskatts sem aðaláfrýjandi lagði á útgefna reikninga. Breytingar á vörugjöldum hefðu haft áhrif til lækkunar kostnaðar á aðföngum aðaláfrýjanda sem báru slík gjöld fyrir breytingarnar. Þau aðföng, sem hafi verið verðtryggð með vísitölu, hafi sætt sambærilegum áhrifum og greindi við spurningu um áhrif laganna á vísitöluna, en ekki liggi fyrir hvort og þá hve mikið af aðföngum vegna verksins hafi borið fyrrnefnd vörugjöld eða verið verðtryggð með þeim hætti. Þá hefði lækkun á endurgreiðslu vegna vinnu á byggingarstað íbúðarhúsnæðis engin áhrif haft á kostnað aðaláfrýjanda.

Með dómi héraðsdóms 18. desember 2017 var að meginstefnu fallist á kröfu aðaláfrýjanda að fjárhæð 51.421.493 krónur en talið var að 1.112.345 krónur hefðu verið raunveruleg kostnaðarlækkun aðaláfrýjanda vegna lagabreytinganna.

4

Gagnáfrýjandi áfrýjaði dóminum 16. mars 2018 til Landsréttar sem og aðaláfrýjandi fyrir sitt leyti. Að beiðni gagnáfrýjanda var dómkvaddur matsmaður til að finna út hvaða hlutfall af fjárhæð útgefinna reikninga fyrir verkframvindu hafi svarað til virðisaukaskatts af reikningsfjárhæð miðað við 25,5% skatthlutfall annars vegar og 24% hins vegar og hver hefði verið samtala virðisaukaskatts samkvæmt reikningum á tímabilinu 1. janúar 2015 til 31. október 2016 sem leiddi af lækkun skatthlutfalls úr 25,5% í 24%. Þá var óskað eftir mati á áhrifum lækkunar skatthlutfallsins á kostnað aðaláfrýjanda annars vegar og hins vegar hækkun kostnaðar gagnáfrýjanda á sama tímabili af sama tilefni „í krónum talið og hlutfallslega“. Loks var óskað álits á hvaða „breytingu þyrfti að gera á samningsverðum í téðum verksamningi til þess að gera aðila eins setta og ekki hefði komið til umræddrar lækkunar á skatthlutfalli virðisaukaskatts 1. janúar 2015.“

Í matsgerð 15. mars 2018 kom fram að virðisaukaskattur næmi 20,32% af reikningsfjárhæð við 25,5% virðisaukaskattshlutfall en 19,35% væri hlutfallið 24%. Heildarfjárhæð útgefinna reikninga aðaláfrýjanda á tímabilinu 1. janúar 2015 til 31. október 2016 hafi verið 4.345.085.790 krónur án frádráttar. Hver og einn reikningur hafi innihaldið frádráttarlið vegna lækkunar virðisaukaskattshlutfalls úr 25,5% í 24% og samtala þessa liðar allra reikninga yfir fyrrgreint tímabil hefði verið 52.561.522 krónur. Samtala virðisaukaskatts af heildarfjárhæð útgefinna reikninga á framangreindu tímabili hafi numið 851.157.544 krónum miðað við 24% skatthlutfall en 893.545.868 krónum miðað við 25,5% skatthlutfall. Um lækkun kostnaðar aðaláfrýjanda vegna lækkunar á skatthlutfalli virðisaukaskatts var tekið fram í matsgerðinni að í bókhaldi virðisaukaskattsskyldra aðila væri virðisaukaskattur ekki talinn til rekstrarliða, enda væri um skatt að ræða sem söluaðilum væri skylt að halda eftir af tekjum og skila innheimtumanni ríkissjóðs. Tekjur í bókhaldi væru þannig innheimtar tekjur að frádregnum virðisaukaskatti og unnt að krefjast endurgreiðslu úr ríkissjóði á þeim virðisaukaskatti sem greiddur væri af aðföngum og rekstrarkostnaði. Kostnaður í bókhaldi væri því án virðisaukaskatts. Sú forsenda ætti þó ekki við í máli þessu þar sem aðaláfrýjandi hefði litið svo á að samningsverð skyldi haldast óbreytt þrátt fyrir breytingar á virðisaukaskatti. Ætti það að leiða af sér að öðru jöfnu að tekjur hans myndu aukast. Erfitt væri að áætla áhrif á gjaldfærðan kostnað aðaláfrýjanda vegna lækkunar á virðisaukaskattshlutfallinu en upplýsingar skorti um eðli rekstarkostnaðar og samninga við undirverktaka og birgja. Þó væru sterkar líkur til þess að áhrif á gjaldfærðan rekstrarkostnað væru óveruleg líkt og kæmi fram í hinni fyrri matsgerð. Framangreind niðurstaða byggði þó á þeirri forsendu að kostnaður aðaláfrýjanda hefði almennt séð ekki sætt verðtryggingu með vísitölu byggingarkostnaðar, en telja yrði að vísitalan hafi lækkað ef litið væri eingöngu til breytingar á skatthlutfalli. Loks sagði að á matsfundi hefði komið fram að „með kostnaði í þessu samhengi var meðal annars átt við þann virðisaukaskatt sem matsþoli héldi eftir af útgefnum reikningum og skilaði inn til ríkissjóðs. Þessi virðisaukaskattur er jafnan nefndur útskattur. Er þessi forsenda byggð á túlkun á dómsorði Héraðsdóms í máli þessu þar sem litið er á að útskattur teljist til kostnaðar í þessu samhengi.“ Á grundvelli þessa taldi matsmaður rétt að líta á sem kostnaðarlækkun aðaláfrýjanda mismuninn á útskatti af samningsverði með 24% skatthlutfalli annars vegar og 25,5% hlutfalli hins vegar sem næmi 42.388.324 krónum. Sú fjárhæð kæmi á móti til hækkunar á kostnaði hjá gagnáfrýjanda.

Þá var til þess vísað að áhrif lækkunar skatthlutfalls virðisaukaskatts á kostnað gagnáfrýjanda væru tvíþætt. Kostnaður vegna aðfanga frá aðaláfrýjanda hefði hækkað því sú fjárhæð virðisaukaskatts sem hann hefði fengið endurgreiddan úr ríkissjóði og kæmi til lækkunar kostnaði hefði orðið lægri en ella. Á móti kæmi að sýnt væri að lækkun skatthlutfalls hefði haft bein áhrif til lækkunar á byggingarvísitölu á umræddu tímabili og leitt til lækkunar kostnaðar gagnáfrýjanda. Gagnáfrýjandi hefði fengið endurgreiddan virðisaukaskatt af reikningum aðaláfrýjanda á tímabilinu, að samtölu 851.157.544 krónur miðað við 24% skatthlutfall í stað 893.545.868 krónur miðað við 25,5% hlutfall. Endurgreiðslan hafi því lækkað um 42.388.324 krónur og kostnaður aukist sem því næmi. Þetta myndi kröfufjárhæð aðaláfrýjanda utan virðisaukaskatts enda hefði gagnáfrýjandi fengið virðisaukaskattinn endurgreiddan.

Þá var vísað til niðurstöðu hinnar fyrri matsgerðar um áhrif laga nr. 124/2014 til lækkunar virðisaukaskatts og niðurfellingar vörugjalda á ýmsum aðföngum og þess að XV. bráðabirgðaákvæði laga nr. 50/1988 rann sitt skeið á enda með þeirri niðurstöðu að skattbreytingar í heild hefðu leitt til hækkunar vísitölu byggingarkostnaðar. Ef litið væri hins vegar eingöngu til breytingar á byggingarvístölunni vegna lækkunar á virðisaukaskattshlutfallinu og áhrif þessa á verðbótaþátt verksamningsins hefði gagnáfrýjandi greitt 31.106.115 krónur minna en ella. Hefði því kostnaður gagnáfrýjanda samtals hækkað um 11.282.209 krónur sem væri „bein afleiðing af lækkun virðisaukaskattshlutfalls.“ Jafnframt hefðu tekjur aðaláfrýjanda aukist um sömu fjárhæð, en til að „gera aðila jafn setta hefði því þurft að lækka samningsverð um 0,32% eða 13.989.939 kr. á tímabilinu 1. janúar til 30. október 2016. Jafngildir það 11.282.209 kr. auk virðisaukaskatts.“

Í hinum áfrýjaða dómi Landsréttar 14. desember 2018 var gagnáfrýjandi sýknaður af kröfu aðaláfrýjanda.

III

1

Eins og að framan greinir snýst deila málsaðila um hvort og þá að hve miklu leyti lækkun virðisaukaskatts úr 25,5% í 24%, sem kom til framkvæmda 1. janúar 2015, eigi að leiða til lækkunar á umsömdum einingarverðum verksamnings þeirra sem ákvörðuð voru að meðtöldum virðisaukaskatti og verðbætt með vísitölu byggingarkostnaðar. Í málinu er ekki tölulegur ágreiningur þótt aðilar séu ekki sammála um forsendur að baki útreikningum.

 Aðaláfrýjandi heldur því fram að samkvæmt grein 1.6.1 í útboðslýsingu hafi  einingarverð verið bindandi heildarverð með virðisaukaskatti þannig að gagnáfrýjanda hafi ekki verið heimilt að breyta endurgjaldi fyrir verkið sér í hag. Bæði  útboðsskilmálar og verksamningur kváðu á hinn bóginn á um að breytingar gætu orðið á einingarverði og þar með heildarverði verksins. Samkvæmt grein 3.2 í útboðslýsingu var tekið fram að reikningar yrðu verðbættir í upphafi þess tímabils sem innheimt væri fyrir miðað við breytingu á byggingarvísitölu 1. hvers mánaðar. Þar var einnig skýrt tekið fram að um útboðið gilti staðallinn ÍST 30 og að hann yrði hluti af samningi aðila. Á grundvelli greinar 31.12 í staðlinum var báðum samningsaðilum unnt að krefjast breytinga á samningsfjárhæð að uppfylltum skilyrðum sem þar koma fram. Jafnvel þó að í útboðslýsingu verksins hafi með skýrum hætti verið tiltekið að öll einingarverð í tilboði skyldu vera heildarverð í íslenskum krónum með virðisaukaskatti og bindandi fyrir tilboðið þá er ljóst að heildarverð samnings gat breyst ef tilteknar forsendur breyttust.  

Framangreind grein 31.12 í ÍST 30 hefur að geyma sérreglu um heimild verktaka eða verkkaupa til að krefjast breytinga á fjárhæð verklauna ef breytingar verða á verktímanum á lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum sem áhrif hafa á kostnað án þess að þeirra gæti í verðlagsmæli, sem kann að hafa verið samið um að láta verklaunin fylgja. Eftir efni ákvæðisins getur það eingöngu tekið til þeirra aðstæðna að breyting á lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum hafi áhrif á „kostnað“, sem hlýtur eðli máls samkvæmt að vera kostnaður verktaka af því að leysa verk af hendi,  sbr. dóma Hæstaréttar 7. júní 2012 í málum nr. 392/2011 og 417/2011.  Í þessum dómum var á hinn bóginn ekki talið að þessi grein ÍST 30 ætti við þar sem lagabreyting sú sem þar um ræddi hafði ekki áhrif á kostnað verktaka af framkvæmd verksins heldur eingöngu á vísitölu byggingarkostnaðar sem réði aftur fjárhæð verklauna í krónum talið.

Í dómi Hæstaréttar 25. september 2014 í máli nr. 778/2013 háttaði svo til að ágreiningur reis milli Vegagerðarinnar, sem verkkaupa, og Háfells ehf., sem verktaka, um þýðingu laga nr. 130/2009 um ráðstafanir í skattamálum (virðisaukaskattur o.fl.), er tóku gildi 1. janúar 2010 og hækkuðu virðisaukaskatt úr 24,5% í 25,5%. Einingarverð í verksamningi höfðu verið gefin upp með virðisaukaskatti og tóku þau ekki breytingum þrátt fyrir þessa hækkun. Verkkaupi hafði á hinn bóginn, umfram skyldu að hans mati, boðið verktaka 0,25% hækkun allra reikninga vegna verka sem verðbætt voru með byggingarvísitölu. Með fyrrnefndum dómi Hæstaréttar var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að hækkun sú sem varð á virðisaukaskatti úr 24,5% í 25,5% skyldi teljast til aukins kostnaðar verktaka í skilningi greinar 31.12 í ÍST 30. Jafnframt yrði að skýra þá grein á þann veg að aðeins skyldi bæta raunverulegan kostnaðarauka samningsaðila og ekki kæmi til álita að tjón aðila yrði talið jafngilda hlutfallshækkun skatts án nánari rökstuðnings. Sagði að umrædd hækkun virðisaukaskatts hefði einnig haft áhrif á verðbótaákvæði samnings aðila og var verktakinn ekki talinn hafa fært sönnur á að raunverulegur viðbótarkostnaður hans hefði numið meiru en þeim 0,25% sem verkkaupinn hafði fallist á að greiða.  

2

Grein 31.12 í ÍST 30 kveður skýrt á um að báðir samningsaðilar geti krafist breytinga á samningsfjárhæð í kjölfar breytinga á lögum og/eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum. Verður því ekki önnur ályktun dregin af ákvæðinu en að það taki jafnt til hækkunar og lækkunar á kostnaði verktaka við verk. Samkvæmt því gat lækkun virðisaukaskatts úr 25,5% í 24% haft áhrif á „kostnað“ við verkið samkvæmt grein staðalsins þó þannig að einungis skyldi líta til þess hvaða áhrif lækkunin hefði á kostnað „sem reglur um verðbreytingar í samningi endurspegla ekki“, eins og segir í lokaorðum greinarinnar. Ber gagnáfrýjanda að færa sönnur á kostnaðarbreytingar við verkið að gættum áhrifum skattbreytingarinnar á verðbótaákvæði samnings aðila.

Eins áður segir voru reikningar aðaláfrýjanda lækkaðir um 1,2% vegna beinna áhrifa lækkunar virðisaukaskatts úr 25,5% í 24% eða um 52.533.838 krónur. Að öllu framanrituðu virtu kemur það atriði eitt til skoðunar við mat á breytingum á kostnaði að gættum lokaorðum greinar 31.12 í ÍST 30, en ekki breytingar sem urðu á öðrum sköttum og gjöldum 1. janúar 2015.

Samkvæmt framangreindum matsgerðum leiddi lækkun skatthlutfalls virðisaukaskatts ein og sér til lækkunar á byggingarvísitölu sem var verðbótaþáttur verksamnings málsaðila. Taldist sú lækkun 1,2% á liðum vísitölunnar sem höfðu samtals 73% vægi í henni. Verður við það miðað að vegna breytinga á virðisaukaskattshlutfalli eingöngu hafi vísitalan lækkað um 0,876%, sem er 73% af 1,2%.

Að fengnum framangreindum forsendum námu heildaráhrif skattbreytinganna til hags fyrir aðaláfrýjanda 11.282.209 krónum, eða 13.989.939 krónum þegar bætt hefur verið við virðisaukaskatti. Þó ber að taka tillit til þess að áhrifa framangreindra atriða á vísitölu tók ekki að gæta í janúar 2015 eins aðaláfrýjandi miðar við. Ber því til viðbótar að lækka dómkröfu aðaláfrýjanda um 1.153.834 krónur. Verður dómkrafa aðaláfrýjanda því samtals lækkuð um 12.436.043 krónur, eða 15.420.693 krónur með virðisaukaskatti. Samkvæmt þessu verður gagnáfrýjanda gert að greiða aðaláfrýjanda 37.113.145 krónur.

 Vaxtakrafa aðaláfrýjanda tekur mið af hverjum reikningi fyrir sig, sem voru 42 talsins, þannig að fjárhæðir voru lagðar saman miðað við hver mánaðarmót. Að virtri framangreindri niðurstöðu um lækkun kröfunnar á hverjum gjalddaga er vaxtakrafa aðaláfrýjanda ekki þannig úr garði gerð að færa megi í dómsorð. Af þeim sökum og með vísan til  d. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður vísað frá héraðsdómi kröfu aðaláfrýjanda um vexti af dæmdri fjárhæð.

Eftir þessum úrslitum og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 er rétt að hvor aðila beri sinn hluta málskostnaðar vegna reksturs málsins á öllum dómstigum.

Dómsorð:

Gagnáfrýjandi, Vaðlaheiðargöng hf., greiði aðaláfrýjanda, Ósafli sf., 37.113.145 krónur.

Kröfu aðaláfrýjanda um vexti á framangreinda fjárhæð er vísað frá héraðsdómi.

Málskostnaður í héraði, fyrir Landsrétti og Hæstarétti fellur niður.

                                                                           

 

 

Dómur Landsréttar 14. desember 2018.

Mál þetta dæma landsréttardómararnir Arnfríður Einarsdóttir, Sigurður Tómas Magnússon og Þorgeir Ingi Njálsson.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

 1. Aðaláfrýjandi skaut málinu til Landsréttar 16. mars 2018. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2017 í málinu nr. E-3733/2016.

 2. Aðaláfrýjandi krefst aðallega sýknu af kröfum gagnáfrýjanda en til vara að krafa hans verði lækkuð. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti.

 3. Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 30. maí 2018. Hann krefst þess að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða honum 52.533.838 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 31. janúar 2015 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Landsrétti.

Málsatvik og sönnunarfærsla

 1. Aðaláfrýjandi var verkkaupi og gagnáfrýjandi verktaki við gerð Vaðlaheiðarganga og er málið sprottið af ágreiningi þeirra um áhrif breytinga, sem urðu 1. janúar 2015 á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, við gildistöku laga nr. 124/2014, á endurgjald fyrir þann hluta verksins sem gagnáfrýjandi reikningsfærði á tímabilinu janúar 2015 til október 2016.

 2. Af hálfu aðaláfrýjanda var óskað eftir því 13. febrúar 2015 að gagnáfrýjandi lækkaði reikninga sína frá og með 1. janúar 2015 um 1,2% vegna lækkunar virðisaukaskatts úr 25,5% í 24%. Gagnáfrýjandi mótmælti réttmæti lækkunarinnar en taldi sig nauðbeygðan til að gefa út reikninga vegna vinnu við jarðgöngin með sérstakri leiðréttingu í samræmi við kröfur aðaláfrýjanda. Hann gerði þó fyrirvara um réttmæti lækkunarkröfunnar. Gagnáfrýjandi telur vangoldin verklaun vegna hinnar óréttmætu lækkunarkröfu nema 52.533.838 krónum að meðtöldum virðisaukaskatti. Málsatvikum og ágreiningsefnum málsaðila er nánar lýst í hinum áfrýjaða dómi.

 3. Eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms var Sturla Jónsson, löggiltur endurskoðandi, dómkvaddur í Héraðsdómi Reykjavíkur 16. febrúar 2018 að beiðni aðaláfrýjanda til þess að svara fimm matsspurningum. Matsgerð hans er dagsett 15. mars 2018 og var lögð fram í Landsrétti við þingfestingu aðalsakar 2. maí 2018. Matsmaðurinn gaf munnlega skýrslu fyrir Landsrétti, staðfesti að hafa unnið matsgerðina og skýrði niðurstöður hennar.

Niðurstaða

 1. Í útboðslýsingu aðaláfrýjanda frá ágúst 2011 vegna verks þess sem málið er sprottið af var kveðið á um það í grein 1.6.1 að öll einingarverð í tilboði skyldu vera heildarverð í íslenskum krónum með virðisaukaskatti og væru þau bindandi fyrir tilboðið.

 2. Í grein 1.5 í útboðslýsingunni segir: „Um útboðið gilda auk þess eftirtalin rit, sem verða hluti samnings: … ÍST30:2003, Almennir útboðs- og samningsskilmálar um verkframkvæmdir, 5. útgáfa 2003-07-15.“

 3. Í grein 31.12 í umræddri útgáfu staðalsins segir: „Báðir aðilar geta krafist breytinga á samningsfjárhæð ef fram koma á samningstímabilinu breytingar á lögum og/eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum er hafa áhrif á kostnað sem reglur um verðbreytingar í samningi endurspegla ekki.“

 4. Í fyrrnefndri útboðslýsingu er ákvæði um slíkar verðbreytingar að finna í grein 3.2 en þar segir meðal annars í 1. lið að byggingarvísitala, reiknuð af Hagstofu Íslands, sé 110,8 stig fyrir ágúst 2011 og skuli einingarverð í tilboði miðast við þá vísitölu. Reikningar verði verðbættir miðað við byggingarvísitölu sem gildi í upphafi þess tímabils sem innheimt er fyrir.

 5. Af hálfu aðaláfrýjanda er því haldið fram að hann hafi á grundvelli greinar 1.5 í útboðslýsingu og greinar 31.12 í ÍST30:2003 getað krafist breytinga á samningsfjárhæð vegna þeirra áhrifa sem lækkun á virðisaukaskatti úr 25,5% í 24% hafi haft á kostnað beggja samningsaðila.

 6. Af hálfu gagnáfrýjanda er því haldið fram að grein 1.6.1 sé skýr og afdráttarlaus um að öll einingarverð í tilboði skuli vera heildarverð með virðisaukaskatti og gangi því framar grein 31.12 í ÍST30:2003. Í útboðsgögnunum hafi verkkaupi ákveðið einhliða að breytingar á virðisaukaskatti skyldu ekki hafa áhrif á endurgjald fyrir verkið og geti hann ekki breytt endurgjaldinu sér í hag þegar virðisaukaskatturinn lækki.

 7. Fallist er á með aðaláfrýjanda að þrátt fyrir að í grein 1.6.1 í útboðslýsingu sé mælt fyrir um að öll einingarverð í tilboði skuli vera heildarverð að meðtöldum virðisaukaskatti og mynda þannig heildarverð fyrir verkið, hafi önnur ákvæði samningsins verið til þess fallin að hafa áhrif á heildarverð fyrir verkið. Meðal slíkra ákvæða var fyrrnefnt verðbótaákvæði í grein 3.2 í útboðslýsingu svo og grein 1.5 í útboðslýsingu sem kvað með skýrum hætti á um að ÍST30:2003 skyldi vera hluti verksamningsins. Á grundvelli greinar 31.12 í staðlinum er báðum samningsaðilum unnt að krefjast breytinga á samningsfjárhæð ef þær forsendur sem í greininni eru nefndar breytast jafnvel þótt samningsfjárhæð sé skilgreind með skýrum og afdráttarlausum hætti í samningi. Ekkert í aðdraganda samnings aðila gefur tilefni til að draga þá ályktun að samningsaðilar hafi sérstaklega viljað semja um að þeir gætu ekki á grundvelli greinar 31.12 í staðlinum krafist breytinga á samningsfjárhæð vegna áhrifa breytinga á lagaákvæðum um virðisaukaskatt á kostnað þeirra. Þar sem grein 31.12 í ÍST 30:2003 var sem fyrr segir hluti af verksamningi aðila gat aðaláfrýjandi, að uppfylltum skilyrðum greinarinnar, krafist breytinga á endurgjaldi fyrir þann hluta verksins sem unninn var eftir 1. janúar 2015 vegna áhrifa sem breytingar á lögum um virðisaukaskatt höfðu á kostnað.

 8. Óumdeilt er að lækkun virðisaukaskatts úr 25,5% í 24% frá 1. janúar 2015, sbr. lög nr. 124/2014, hafði í för með sér að hlutfall virðisaukaskatts af heildarendurgjaldi fyrir þá hluta verksins sem reikningsfærðir voru eftir þann dag lækkaði úr 20,32% í 19,35% miðað við óbreytt heildarendurgjald. Þetta var staðfest í matsgerð Sturlu Jónssonar. Aðaláfrýjandi telur leiða af þessu að innskattur, sem hann eigi rétt á að fá endurgreiddan úr ríkissjóði eða komi eftir atvikum á móti útskatti, lækki sem þessu nemi en kostnaður sem hann verði að bera vegna verksins hækki að sama skapi. Áhrif breytinga á hlutfalli virðisaukaskatts hafi gagnstæð áhrif á afkomu gagnáfrýjanda þar sem hann þurfi aðeins að greiða sem útskatt í ríkissjóð 19,35% af hverri reikningsfjárhæð miðað við 24% virðisaukaskatt í stað 20,32% ef virðisaukaskattur hefði haldist 25,5%. Hann fái eftir sem áður allan virðisaukaskatt sem hann greiði af keyptum aðföngum og þjónustu endurgreiddan úr ríkissjóði. Aðaláfrýjandi telur að í ljósi þess að samið var um að virðisaukaskattur teldist hluti af heildarendurgjaldi verði að líta á þann virðisaukaskatt sem gagnáfrýjandi þarf að greiða í ríkissjóð sem kostnað í skilningi greinar 31.12 í ÍST30:2003 þótt almennt sé ekki litið á virðisaukaskatt sem kostnað í bókhaldi og reikningsskilum.

 9. Af hálfu gagnáfrýjanda er því haldið fram að kostnaður í skilningi laga sé endurgjald fyrir aðkeypta vöru eða þjónustu. Virðisaukaskattur falli ekki undir þá skilgreiningu enda sé hann vörsluskattur sem seljanda sé falið að innheimta fyrir ríkið af seldri vöru eða þjónustu og beri að skila til ríkisins.

 10. Fallist er á þau sjónarmið aðaláfrýjanda að þar sem virðisaukaskattur var hluti af umsömdu samningsverði í verksamningi málsaðila og lækkun hans úr 25,5% í 24% hafði bein áhrif á kostnað gagnáfrýjanda vegna verksins og jafnframt afkomu aðaláfrýjanda, sé óhjákvæmilegt að líta á hann sem kostnað í skilningi greinar 31.12 í ÍST30:2003. Miðað við óbreytt heildarendurgjald hefði kostnaður gagnáfrýjanda í þessum skilningi, samkvæmt matsgerð Sturlu Jónssonar, lækkað um 42.388.324 krónur vegna framangreindra áhrifa af lækkun virðisaukaskatts úr 25,5% í 24%. Framkvæmdakostnaður aðaláfrýjanda vegna Vaðlaheiðarganga hefði, miðað við sömu forsendur, hækkað um sömu fjárhæð af völdum lækkunar virðisaukaskattsprósentunnar vegna lækkunar á fjárhæð innskatts sem aðaláfrýjandi gat notfært sér.

 11. Óumdeilt er að breytingar sem urðu 1. janúar 2015 á lögum nr. 50/1988 höfðu ekki aðeins framangreind bein áhrif á kostnað málsaðila í skilningi greinar 31.12 í ÍST30:2003, heldur voru þær einnig til þess fallnar að hafa áhrif á þróun byggingarvísitölu og þar með á endanlegt endurgjald fyrir framangreint verk þar sem reikningar vegna þess skyldu verðbættir í samræmi við breytingar á byggingarvísitölu.

 12. Þær breytingar á lögum nr. 50/1988 sem höfðu áhrif á byggingarvísitölu voru annars vegar fyrrnefnd lækkun á virðisaukaskatti úr 25,5% í 24% og hins vegar lækkun á endurgreiðslu virðisaukaskatts til byggjenda íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis úr 100% í 60%. Síðarnefnda breytingin leiddi af því að 1. janúar 2015 féll niður ákvæði XV til bráðabirgða í lögum nr. 50/1988 sem hafði verið í gildi frá 1. mars 2009, síðast á grundvelli laga nr. 139/2013.

 13. Samkvæmt matsgerð Friðriks Más Baldurssonar prófessors, sem dómkvaddur var að beiðni gagnáfrýjanda undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi, tekur vísitala byggingarkostnaðar mið af kostnaði við byggingu þriggja hæða fjölbýlishúss á höfuðborgarsvæðinu með 18 íbúðum og nánar skilgreindum eiginleikum. Byggingarvísitalan mælir breytingar á kostnaði verktaka við byggingu vísitöluhússins að viðbættum virðisaukaskatti. Af því leiðir að breytingar á ákvæðum laga um virðisaukaskatt hafa áhrif á þróun byggingarvísitölu.

 14. Fyrir liggur að áhrifa framangreindra tveggja breytinga á lögum nr. 50/1988 gætti fyrst í vísitölu byggingarkostnaðar sem tók gildi 1. febrúar 2015 þar sem vísitala sú sem gilti í janúar 2015 tók mið af verðlagi í desember 2014, áður en fyrrgreindar lagabreytingar tóku gildi. Vísitala byggingarkostnaðar hækkaði 1. febrúar 2015 úr 120,9 stigum í 123,3 stig eða um nærri 2%.

 15. Aðila greinir á um hvort og þá að hvaða leyti eigi við úrlausn málsins að taka tillit til framangreindra áhrifa breytinga á lögum nr. 50/1988 á þróun byggingarvísitölu og þar með á verðbætur samkvæmt samningi aðila. Við úrlausn þess ágreinings verður að líta til þess að í grein 31.12 í ÍST30:2003 er gerður sá fyrirvari að því aðeins sé unnt að krefjast breytinga á samningsfjárhæð vegna breytinga á lögum sem hafa áhrif á kostnað að þessi kostnaðaráhrif endurspeglist ekki í reglum um verðbreytingar í samningi. Augljós ástæða þessarar tengingar við verðbótaákvæði samnings er sú að tryggja að samningsaðili geti ekki fengið kostnaðaráhrif lagabreytinga tvíbætt.

 16. Við úrlausn ágreinings aðila verður jafnframt að líta til tveggja dóma Hæstaréttar 7. júní 2012 í málum nr. 392/2011 og 471/2011 en þar var komist að þeirri niðurstöðu að tilteknar breytingar á lögum nr. 50/1988 hefðu engin áhrif haft á kostnað verktaka af framkvæmd verks fyrir verkkaupa, heldur eingöngu á vísitölu byggingarkostnaðar, sem aftur réð fjárhæð verklauna. Þegar af þeim sökum var grein 31.12 í ÍST30:2003 ekki talin geta átt við. Sú breyting á lögum nr. 50/1988 sem um var fjallað í þessum málum hafði áhrif til lækkunar á byggingarvísitölu og þar með lækkuðu verðbætur til verktakans þótt raunkostnaður hans vegna verksins lækkaði ekki.

 17. Með vísan til framangreindra dóma Hæstaréttar verður ekki talið að þær breytingar sem gerðar voru á lögum nr. 50/1988 og áhrif þeirra á þróun byggingarvísitölu hafi skapað málsaðilum sjálfstæðan rétt til að krefjast breytinga á þeim hluta heildarendurgjalds fyrir verkið sem laut að verðbótum.

 18. Þau beinu áhrif breytinga á lögum nr. 50/1988 á kostnað málsaðila, sem áður er getið, eru hins vegar annars eðlis en þau áhrif vísitölubreytinga á endanlegt endurgjald sem umræddir tveir dómar fjölluðu um. Vegna þeirrar tengingar sem er að finna í grein 31.12 í ÍST30:2003 milli leiðréttinga á samningsverði, sökum beinna kostnaðarbreytinga sem leiða af breytingum á lögum, og áhrifa lagabreytinga á verðbætur verður ekki hjá því komist að meta saman hin beinu áhrif lagabreytinganna 1. janúar 2015 á kostnað málsaðila og hin óbeinu áhrif þeirra á verðbætur.

 19. Áhrif framangreindra tveggja breytinga á lögum nr. 50/1988 á byggingarvísitölu voru samkvæmt matsgerðum Friðriks Más Baldurssonar og Sturlu Jónssonar þær að lækkun virðisaukaskatts úr 25,5% í 24% hafði um 1,2% lækkunaráhrif á þætti sem höfðu 73% vægi í byggingarvísitölunni og því um 0,876% áhrif til lækkunar á byggingarvísitölu. Áhrif lækkunar á endurgreiðslu virðisaukaskatts til byggjenda íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis úr 100% í 60% leiddu hins vegar til 9,6% hækkunar á vinnuliðum byggingarvísitölu sem höfðu 27% vægi og því um 2,356% áhrif til hækkunar á byggingarvísitölu. Samkvæmt matsgerð Friðriks Más Baldurssonar voru samanlögð áhrif þessara tveggja breytinga á lögum nr. 50/1988 á byggingarvísitöluna í grófum dráttum þau að ef lagabreytingarnar hefðu ekki komið til hefði byggingarvísitalan verið 1,5% lægri en hún varð í febrúar 2015, þegar áhrifa breytinganna gætti fyrst. Þegar síðasti reikningur gagnáfrýjanda til aðaláfrýjanda, sem um er deilt, var gefinn út í október 2016 voru áhrifin hins vegar orðin þau að byggingarvísitalan hefði án þessara tveggja lagabreytinga verið 1,9% lægri en hún var í reynd.

 20. Óumdeilt er að hvorug þessara breytinga á lögum nr. 50/1988 var til þess fallin að hafa áhrif á raunverulegan kostnað gagnáfrýjanda vegna verksins þar sem hann gat eftir sem áður fengið allan virðisaukaskatt af aðkeyptum aðföngum og þjónustu endurgreiddan úr ríkissjóði eða fært hann sem innskatt á móti útskatti í virðisaukaskattsuppgjörum. Aftur á móti höfðu breytingar á lögum nr. 50/1988 áhrif á endanlegt endurgjald gagnáfrýjanda fyrir verkið þar sem reikningar vegna þess skyldu samkvæmt grein 3.2 í útboðslýsingu verðbættir miðað við breytingar á byggingarvísitölu.

 21. Samkvæmt matsgerð Sturlu Jónssonar hafði lækkun virðisaukaskatts úr 25,5% í 24% ein og sér þau áhrif á byggingarvísitölu, og þar með verðbætur samkvæmt samningi málsaðila, að endanlegt endurgjald gagnáfrýjanda úr hendi aðaláfrýjanda, fyrir virðisaukaskatt, varð 11.282.209 krónum lægra en það ella hefði orðið. Í framburði Sturlu fyrir dómi kom fram að hann hefði ranglega reiknað með því að áhrif umræddrar breytingar hefðu komið fram í reikningum gagnáfrýjanda í janúar 2015 en óumdeilt er að þau komu fyrst fram í reikningum hans í febrúar það ár. Sé tekið tillit til þessarar leiðréttingar á niðurstöðu matsmannsins höfðu áhrif umræddrar lagabreytingar einnar og sér á byggingarvísitölu það í för með sér að heildarfjárhæð reikninga gagnáfrýjanda með verðbótum en fyrir virðisaukaskatt, varð 12.212.719 krónum lægri en ef til lækkunar virðisaukaskatts hefði ekki komið. 

 22. Í matsgerð Friðriks Más Baldurssonar eru samanlögð áhrif lækkunar á virðisaukaskatti úr 25,5% í 24% og lækkunar á endurgreiðslu virðisaukaskatts til byggjenda íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis úr 100% í 60% á byggingarvísitölu metin þannig að heildarfjárhæð reikninga gagnáfrýjanda með verðbótum en fyrir virðisaukaskatt hafi verið 24.368.483 krónum hærri en hún hefði orðið ef lögin hefðu ekki tekið breytingum.

 23. Þegar metið er hvort bein áhrif lækkunar á virðisaukaskatti úr 25,5% í 24% á kostnað málsaðila hafi endurspeglast í verðbótum í skilningi greinar 31.12 í ÍST30:2003 þykir verða að líta til þeirra heildaráhrifa sem framangreindar breytingar á lögum nr. 50/1988 í ársbyrjun 2015 höfðu á verðbætur sem gagnáfrýjanda féllu í skaut. Samkvæmt framansögðu fékk gagnáfrýjandi greiddar frá aðaláfrýjanda mun hærri verðbætur ofan á samningsfjárhæðina en hann hefði fengið ef umræddar lagabreytingar hefðu ekki komið til án þess þó að kostnaður hans hækkaði.

 24. Ósk aðaláfrýjanda sem sett var fram 13. febrúar 2015 um að reikningar gagnáfrýjanda yrðu lækkaðir um 1,2% vegna beinna áhrifa lækkunar virðisaukaskatts úr 25,5% í 24% á kostnað var samkvæmt framansögðu réttmæt þar sem ekki verður talið að kostnaðarbreytingar sem af lækkuninni leiddu hafi endurspeglast í áhrifum breytinga á lögum nr. 50/1988 á verðbætur samkvæmt samningi aðila.

 25. Með vísan til þess sem að framan er rakið verður aðaláfrýjandi sýknaður af kröfum gagnfrýjanda.

 26. Þar sem veruleg vafaatriði eru uppi í máli þessu og með hliðsjón af 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er rétt að málskostnaður í héraði og fyrir Landsrétti í aðalsök og gagnsök falli niður.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, Vaðlaheiðargöng hf., er sýkn af kröfu gagnáfrýjanda, Ósafls sf. 

Málskostnaður í héraði og fyrir Landsrétti fellur niður.

 

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2017.

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 5. desember 2016 og dómtekið að lokinni aðalmeðferð 8. desember sl. Stefnandi er Ósafl sf., Höfðabakka 9, Reykjavík. Stefndi er Vaðlaheiðargöng hf., Strandgötu 29, Akureyri. Málið var endurupptekið með vísan til 2. og 3. mgr. 101. gr. og 104. gr. laga nr. 91/1991 og þess óskað að stefnandi setti fram nýjan útreikning vegna dráttarvaxta samkvæmt forsendum sem nánar greinir í forsendum dómsins. Málið var að nýju dómtekið 18. desember sl. eftir útreikningur stefnanda hafði verið lagður fram og lögmönnum gefinn kostur á athugasemdum til viðbótar fyrri málflutningi sínum.

Stefnandi krefst þess að stefndi greiði 52.533.838 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 1.882.277 krónum frá 31. janúar 2015 til 28. febrúar þess árs, af 3.194.703 krónum frá þeim degi til 31. mars þess árs, af 5.513.985 krónum frá þeim degi til 30. apríl þess árs, af 7.985.991 krónu frá þeim degi til 31. maí 2015, af 9.362.725 krónum frá þeim degi til 30. júní þess árs, af 11.456.126 krónum frá þeim degi til 31. júlí þess árs, af 13.872.161 krónu frá þeim degi til 31. ágúst þess árs, af 16.213.019 krónum frá þeim degi til 30. september þess árs, af 18.745.638 krónum frá þeim degi til 31. október þess árs, af 21.165.234 krónum frá þeim degi til 30. nóvember þess árs, af 23.584.588 krónum frá þeim degi til 31. desember þess árs, af 24.557.660 frá þeim degi til 31. janúar 2016, af 27.035.123 krónum frá þeim degi til 29. febrúar þess árs, af 30.640.811 krónu frá þeim degi til 31. mars þess árs, af 33.189.037 krónum frá þeim degi til 30. apríl þess árs, af 35.246.562 krónum frá þeim degi til 31. maí þess árs, af 37.975.143 krónum frá þeim degi til 30. júní þess árs, af 40.420.702 krónum frá þeim degi til 31. júlí þess árs, af 43.170.201 krónu frá þeim degi til 31. ágúst þess árs, af 46.045.401 krónu frá þeim degi til 30. september þess árs, af 48.952.497 krónum frá þeim degi til 31. október þess árs, en stefnufjárhæð frá þeim degi til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar.

Stefndi krefst aðallega sýknu en til vara lækkunar á kröfu stefnanda. Hann krefst einnig málskostnaðar.

Helstu ágreiningsefni og yfirlit málsatvika

Í kjölfar útboðs í ágúst 2011 gerði stefndi, sem verkkaupi, samning við stefnanda, sem verktaka, um gerð svonefndra Vaðlaheiðarganga ásamt tilheyrandi vegskálum og vegagerð. Í grein 1.6.1 í útboðslýsingu, sem lá til grundvallar samningsgerð aðila, segir að öll einingarverð í tilboði skuli vera heildarverð í íslenskum krónum með virðisaukaskatti. Þá segir í lið 3.2 lýsingarinnar að einingarverð skuli miða við byggingarvísitölu ágústmánaðar 2011 (110,8 stig) sem reiknuð sé af Hagstofu Íslands. Í grein 1.5 í útboðslýsingu var kveðið á um að ÍST 30:2003 gilti um samning aðila, en í grein 31.12 segir að báðir aðilar geti krafist breytinga á samningsfjárhæð ef fram koma á samningstímabilinu breytingar á lögum, almennum stjórnvaldsfyrirmælum eða aðrar breytingar er hafa áhrif á kostnað verktaka eða verkkaupa, til hækkunar eða lækkunar sem reglur um verðbreytingar í samningi endurspegla ekki.

Með lögum nr. 124/2014, um breytingu á lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988 o.fl., var skatthlutfall virðisaukaskatts lækkað úr 25,5% í 24% og tóku lögin gildi 1. janúar 2015. Fór stefndi af þessum sökum fram á við stefnanda í ársbyrjun 2015 að hann léti þessa lækkun skattsins, þ.e. 1,2%, koma fram í reikningum fyrir vinnu samkvæmt verksamningi aðila, þannig að reikningar yrðu lægri sem þessum mun svaraði. Stefnandi varð við tilmælum stefnda og færði á reikninga sérgreindan lið til lækkunar en með fyrirvara um réttmæti kröfunnar. Snýst ágreiningur aðila um skyldu stefnda til greiðslu á þessum mismun auk dráttarvaxta. Í málinu er hins vegar hvorki ágreiningur um málsatvik né tölulegur ágreiningur.

Undir meðferð málsins var, að beiðni stefnanda, dómkvaddur sem matsmaður Friðrik Már Baldursson hagfræðingur, til að láta í té skriflegt og rökstutt álit um eftirfarandi spurningar: „1. Hver eru áhrif laga nr. 124/2014 og niðurfellingar XV. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 50/1988 á vísitölu byggingarkostnaðar Hagstofu Íslands? Óskað er eftir því að matsmaður áætli gildi vísitölunnar frá 1. janúar 2015 til ritunardags matsgerðarinnar ef ekki hefði komið til lagasetningarinnar og niðurfellingar bráðabirgðaákvæðisins, sundurliðað eftir mánuðum. 2. Hvaða breyting hefði orðið á fjárhæð reikninga tímabilið janúar 2014 – febrúar 2017 vegna verkframkvæmdanna við Vaðlaheiðargöng ef vísitala byggingarkostnaðar hefði þróast í samræmi við niðurstöður matsspurningar 1 (þ.e. ef ekki hefði komið til setningu laga nr. 124/2014 og niðurfellingar XV. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 50/1988)? Óskað er eftir því að matsmaður meti aukið endurgjald á verðlagi þegar reikningar voru gefnir út og sundurliði endurgjaldið á hvern reikning fyrir sig. 3. Hver eru áhrif laga nr. 124/2014 og niðurfellingar XV. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 50/1988 á kostnað matsbeiðanda við kaup á byggingaraðföngum? Óskað er eftir að matsmaður tilgreini hvort breyting hafi orðið á kostnaði matsbeiðanda við kaup á byggingaraðföngum.“

Í niðurstöðum matsmanns við fyrstu matsspurningu var vísað til meðfylgjandi útreiknings þar sem fram kom að frá og með febrúar 2015 hefði byggingarvísitala, ef ekki hefði komið til setningar laga nr. 124/2014, orðið 1,5% lægri en hún varð í reynd, frá ágúst þess árs 1,7% lægri, frá október þess árs 1,8% lægri og frá maí 2016 til október þess árs 1,9% lægri. Í matsgerð er þó áréttað að um þetta atriði ríki ákveðin óvissa og útreikningur byggi á einföldum forsendum. Í svari matsmanns við annarri matsspurningu er einnig vísað til útreikninga sem sýnir samsvarandi hækkun á fjárhæð reikninga stefnanda miðað við hver raunin hefði orðið ef byggingarvísitala hefði þróast til samræmis við niðurstöður matsmanns vegna fyrstu matsspurningar. Segir þar að fjárhæð reikninga fyrir virðisaukaskatt hefði alls lækkað um 24.368.483 krónur. Í niðurstöðu matsmanns um þriðju matsspurningu segir eftirfarandi: „Eins og fram kemur á fundargerð frá matsfundi sem haldinn var 8.5.2017 voru aðilar sammála um að mat á þessum lið takmarkist við hlutfallsleg áhrif VSK og vörugjalda (eins og kostur er á skv. fyrirliggjandi upplýsingum) á kostnað vegna byggingaraðfanga; m.ö.o. fjárhæðir verða ekki metnar, enda myndi það kalla á sundurliðaðar upplýsingar/fjárhæðir vegna aðkeyptrar vöru og þjónustu matsbeiðanda. Almennt má segja eftirfarandi um þessa spurningu: a) Áhrif lækkunar á virðisaukaskatti hafa komið fram í greiddum virðisaukaskatti matsbeiðanda; ath. þó að sú hækkun dregst frá þeim virðisaukaskatti sem matsbeiðandi lagði á útgefna reikninga og þessi breyting hefur því ekki áhrif á afkomu matsbeiðanda. b) Lækkun/afnám vörugjalda hefur haft áhrif til kostnaðarlækkunar á þau aðföng matsbeiðanda sem báru slík gjöld fyrir breytingarnar, en ekki eru tök á því hér að áætla þær fjárhæðir sem um ræðir. c) Þau aðföng matsbeiðanda sem hafa verið verðtryggð með vísitölu byggingarkostnaðar hafa sætt sambærilegum áhrifum og fram koma í töflu 1. Ekki eru fyrirliggjandi upplýsingar um það hvort og þá hve mikið af aðföngum hafa verið verðtryggð með slíkum hætti og því eru ekki tök á að meta þær fjárhæðir sem um ræðir. d) Breytingar á því hlutfalli virðisaukaskatts vegna vinnu á byggingarstað íbúðarhúsnæðis hafa ekki áhrif á kostnað matsbeiðanda.“

Við aðalmeðferð málsins kom fyrir dóminn sem vitni dómkvaddur matsmaður.

Helstu málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir kröfu sína á því að hann eigi ógreidd verklaun hjá stefnda vegna vinnu sinnar við Vaðlaheiðargöng tímabilið 1. janúar 2015 til stefnubirtingardags en síðasti reikningur fyrir birtingu stefnu þessarar hafi verið gefinn út 31. október 2016. Stefnandi vísar til þess að í útboðsskilmálum er ekki að finna heimildarákvæði til handa stefnda að breyta umsömdu samningsverði. Þá geri samningsskilmálar ekki ráð fyrir lækkun heildarverðs samnings þótt virðisaukaskattsprósentan lækki. Vísað er til greinar 1.6.1 í útboðslýsingu og ákvæða 3. kafla hennar um nánari ákvæði um greiðslur. Þar sé tekið fram að fyrirframgreiðsla að fjárhæð 400.000.000 króna sé „með virðisaukaskatti“ og að „verðmæti verkstöðu sé alltaf reiknað á grunnverðum samnings“, sem samkvæmt framansögðu feli ávallt í sér virðisaukaskatt. Í útboðslýsingu eða verksamningi komi hvorki fram að skýra eigi verðlagsákvæði á þá leið að reiknað sé með tiltekinni virðisaukaskattsprósentu né að átt sé við „gildandi“ prósentu á hverjum tíma, eins og verkkaupi rökstyður málatilbúnað sinn. Ef skilningur stefnda yrði lagður til grundvallar leiddi það til þeirrar niðurstöðu að mismunandi einingarverð giltu fyrir verkið eftir því hvenær verkþættir eru unnir. Sú skýring fari þvert gegn beinu ákvæði útboðslýsingar í gr. 3.3.

Í annan stað byggir stefnandi á því að skilmálar ÍST 30 geri ekki ráð fyrir lækkun heildarverðs samnings þótt virðisaukaskattsprósenta á samningstíma lækki. Stefnandi hafi ítrekað bent stefnda á að umrætt ákvæði eigi einungis við um „kostnað“eins og það hafi verið skýrt í dómaframkvæmd Hæstaréttar.

Breyting á virðisaukaskattsprósentu heyri ekki undir „kostnað“ í lagalegum skilningi enda sé virðisaukaskattur ekki kostnaður verktaka heldur vörsluskattur sem seljandi vöru/þjónustu skilar til ríkissjóðs. Grein ÍST 30 eigi því ekki við í þeim aðstæðum sem hér séu uppi. Líta verði til þess að þótt virðisaukaskattur lækki þá breytist ekki kostnaðaruppbygging verksins. Verktakinn fái endurgreiðslu vegna virðisaukaskatts á aðföng sín. Sú staða breytist ekki. Aftur á móti skili hann minna af samningsverð til ríkisins en í því felst þó ekki breyting á „kostnaði“ hans. Vegna þessa sé ekki unnt að styðjast við grein 31.12 ÍST 30 til að breyta samningsverði verksins sem um ræðir.

Að síðustu, hvað þennan þátt málsins varðar, vísar stefnandi til þess að í svarbréfum stefnda sé alfarið litið fram hjá því að lækkun virðisaukaskatts hafi ekki áhrif fyrr en hjá endanlegum kaupanda, þ.e. stefnda sjálfum. Ástæðan sé sú að verktaki greiði ekki virðisaukaskatt heldur „flæði“ hann í gegnum verktakann til verkkaupans. Það þýði að verð á aðföngum sem verktaki kaupir lækkar ekki. Kostnaðurinn sé í reynd sá sami, rétt eins og ef virðisaukaskattur hefði verið felldur niður þá hefði það ekki haft bein áhrif á kostnað verktaka. 

Jafnvel þótt ákvæði ÍST 30 væri talið eiga við um „kostnaðinn“ þá þurfi í þriðja lagi að taka tillit til niðurlags áðurnefndrar greinar þess efnis að eingöngu eigi að breyta fjárhæð verklauna að því marki sem „reglur um verðbreytingar í samningi endurspegla [breytinguna] ekki“. Verksamningurinn sem um ræði taki mið af byggingarvísitölu. Samkvæmt II. bráðabirgðaákvæði laga nr. 42/1987 um vísitölu byggingarkostnaðar skuli við útreikning vísitölunnar taka tillit til endurgreiðslna virðisaukaskatts af byggingu íbúðarhúsnæðis vegna vinnu á byggingarstað þannig að endurgreiddur virðisaukakostnaður sé dreginn frá byggingarkostnaði reiknuðum með fullum virðisaukaskatti. Vísitalan grundvallast þannig á verðmælingum á byggingaraðföngum frá mánuði til mánaðar með virðisaukaskatti. Stefnandi vísar til þess að lagabreytingin sem um ræðir hafi sannarlega áhrif til lækkunar á vísitölunni og þar með endurgjaldi stefnanda fyrir vinnu sína, enda ráði vísitalan hvernig verklaunin halda verðgildi sínu við breytingar á umsömdum kostnaðargrunni. Áhrifin séu slík að hinn ætlaði ávinningur, sem stefndi telur að stefnandi fái, þurrkast út að nánast öllu leyti. Með hliðsjón af framangreindu stenst ekki sú aðferðafræði stefnda að taka ekki tillit til þeirrar staðreyndar að verðbótagrunnurinn raskast vegna lægri virðisaukaskatts á aðföng verka. Verklaun stefnanda lækka í reynd umtalsvert meira en sem nemur 1,2%. Að síðustu er bent á að í dómaframkvæmd Hæstaréttar er litið svo á að aðilar verksamnings verði að bera áhættuna af því að verðbótagrunnur gangi eftir öðrum hvorum aðilanum í óhag.

Helstu málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að samningsfjárhæð skuli miðast við virðisaukaskatt eins og hann er á hverjum tíma. Hafi stefnda því verið heimilt að fara fram á lækkun reikninga stefnanda eftir lækkun virðisaukaskatts úr 25,5% í 24% í ársbyrjun 2015. Stefndi vísar aðallega til greinar 31.12 ÍST 30:2003 sem gildi um samning aðila samkvæmt grein 1.5 í útboðslýsingu, en einnig er vísað til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, eins og lögunum hefur síðar verið breytt.

Stefndi telur augljóst að í reikningum stefnanda fyrir verkframvindu birtist greiðsla virðisaukaskatts sem ráðstöfun tekna og sé skatturinn því kostnaður í skilningi greinar 31.12 ÍST 30:2003. Sjáist þetta best af því, að lækkun skatthlutfallsins hafi leitt til þess að verktakinn fékk eftir hana haldið eftir hærra hlutfalli samningsfjárhæðar þegar virðisaukaskattur hafi verið greiddur af reikningsfærðri fjárhæð, eða sem svarar 80,65% í stað 79,68%. Ávinningur verktakans sé 1,22%. Sýni það glögglega að hlutdeild útskatts í reikningi lækkaði um 1,2% við lækkun skatthlutfallsins eða úr 20,32% af fjárhæð reiknings, sbr. reikningsuppgjör með reikningi 21 fyrir desembermánuð 2014 í 19,35% í janúar 2015. Telur stefndi þetta allt vera til staðfestingar því, að í reikningum stefnanda hafi lækkun virðisaukaskatts komið fram í lækkun á þeim útgjöldum sem honum bar að standa skil á í tengslum við verkframkvæmdina. Skil stefnanda á virðisaukaskatti af samningsfjárhæðinni birtist þannig sem kostnaður af verkframkvæmdinni.

Verði aftur á móti fallist á þá málsástæðu stefnanda, að greiðsla virðisaukaskatts af samningsfjárhæð teljist ekki kostnaður þar sem um vörsluskatt sé að tefla, breyti það allt að einu ekki þeirri meginniðurstöðu að stefnandi fái ekki haldið ávinningi af lækkun skattsins. Þá yrði að líta svo á að 20,32% af samningsfjárhæðinni hafi verið vörsluskattur. Lækkun skattsins ætti þá með sama hætti að vera hlutlaus gagnvart fjárhagslegum hagsmunum verktakans og koma fram með beinum hætti sem lækkun samtölu hins beina framkvæmdarkostnaðar og skattsins.

Stefndi vísar til þess að kostnaður af byggingu og rekstri Vaðlaheiðarganga verði greiddur af veggjöldum sem bera munu virðisaukaskatt. Af því leiði að verkkaupi fái endurgreiddan allan greiddan virðisaukaskatt af kostnaði við byggingu ganganna. Verði fallist á kröfu stefnanda leiði það beinlínis til hækkunar á framkvæmdarkostnaði verkkaupa sem stefnufjárhæðinni svarar og að auki þeim mismun sem til mun falla allt til loka verksins. Það sé þannig óumdeilanlegt að umrædd breyting hafði ótvíræð og tilsvarandi áhrif á framkvæmdarkostnað verkkaupa og sem svaraði til lækkunar skatthlutfallsins. Auðgun stefnanda umfram það sem verksamningur aðila miði við yrði tilsvarandi.

Stefndi telur að við blasi að hluti virðisaukaskatts af framvindureikningi verkkaupa sé hluti af framkvæmdarkostnaði verksins og það eins þótt hann sé endurgreiddur og innheimtur síðar af vegfarendum með veggjaldi. Ótvírætt sé að breyting á skatthlutfalli virðisaukaskatts hafði áhrif á kostnað beggja málsaðila; breytingin hafi lækkað kostnað stefnanda en hækkað kostnað stefnda af verkframkvæmdinni. Stefndi telur ágreiningslaust að skv. gr. 1.6.1 í útboðslýsingu, sbr. dskj. 21, hafi öll einingarverð í tilboði verið „heildarverð“ í íslenskum krónum „með virðisaukaskatti“.  Þá er vísað til þess að allur kostnaður við viðkomandi verklið, þ.m.t. allur rekstrarkostnaður vegna aðstöðu og starfsmannahalds, komi fram í einingarverðum í tilboðsskrá. Hafi virðisaukaskattur þannig verið felldur inn í einingarverð samningsins og þar með framkvæmdarkostnað.

Stefndi vísar til dóma Hæstaréttar um að það séu eingöngu þær breytingar á lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum sem áhrif hafa á „kostnað verktaka af því að leysa verk af hendi“ sem geti haft þýðingu. Ákvæði greinar 31.12 ÍST 30:2003 sé ætlað að koma í veg fyrir að annar hvor aðili verksamnings hagnist af slíkum breytingum. Þær breytingar sem gerðar voru á reglum um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu við íbúðarhúsnæði skv. lögum nr. 10/2009 hafi hins vegar engin áhrif haft á kostnað við umrædda verkframkvæmd. Dómar Hæstaréttar styðji við þá málsástæðu stefnda að téð lækkun virðisaukaskatts eigi að leiða til endurskoðunar samningsverða fyrir framkvæmdina.

Stefndi hafnar því að þýðingu hafi um kostnað verktaka að hann fái endurgreiddan virðisaukaskatt. Slík endurgreiðsla hafi enga þýðingu um ákvörðun kostnaðar verktaka í skilningi greinar 31.12 ÍST 30:2003. Stefndi mótmælir enn fremur órökstuddum og röngum staðhæfingum stefnanda um að lækkun virðisaukaskatts hafi ekki áhrif á kostnað hans af verkframkvæmdinni. Staðhæfing hans, um að virðisaukaskattur „flæði“ í gegnum verktaka til verkkaupa, sé í besta falli villandi þar sem virðisaukaskattur af aðföngum verktakans, innskattur, sé mun lægri en virðisaukaskattur á verkframvindu, útskattur.

Stefndi hafnar því að umrædd lagabreyting hafi haft þau áhrif á byggingarvísitölu að ávinningur stefnanda hafi þurrkast út. Hann vísar til matsgerðar dómkvadds matsmanns um að breytingin hafi í reynd haft þau áhrif að hækka byggingarvísitölu án þess þó að stefnandi hafi orðið fyrir auknum kostnaði vegna þeirra liða sem ullu hækkuninni. Hann vísar einnig til þess að reikningur vegna vinnu í janúar 2015 geti ekki helgast af þessum ástæðum enda hafi breyting á vísitölu vegna lagabreytingarinnar þá ekki verið komin fram. Hann vísar einnig sem fyrr til dóma Hæstaréttar um að breyting á byggingarvísitölu geti ekki haft þýðingu við mat á kostnaði verktaka í skilningi greinar 31.12 ÍST 30:2003.

Verði komist að þeirri niðurstöðu að samningur aðila hafi ekki heimilað stefnda að gera breytingu á fjárhæð samningsins vísar stefndi til þess að bersýnilega sé ósanngjarnt, í ljósi síðar tilkominna atvika, að stefnandi beri fyrir sig ákvæði samningsins um samningsfjárhæð. Ljóst sé að stefnandi þurfi ekki að skila í ríkissjóð sömu fjárhæð og hann þurfti áður og hafi þannig verið létt af honum kostnaði sem þessari breytingu nemi. Ósanngjarnt sé að stefnandi haldi eftir þeim mismun, sem er umtalsverður. Þá hafi stefndi fært ítarleg rök fyrir því að ætla megi að áhrif breytinganna á verð aðfanga stefnanda hafi alltaf verið meiri en sem nemur þessari breytingu. Sé því augljóslega ósanngjarnt að stefnandi njóti lækkunar virðisaukaskatts bæði í formi lægra gjalds á aðföngum og lægra virðisaukaskattshlutfalls, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936.

Varakrafa stefnda um lækkun er á því byggð að stefnandi eigi aðeins rétt til greiðslu að því marki sem hann fái sannað hver nákvæmlega hafi verið neikvæð fjárhagsleg áhrif lækkunar virðisaukaskatts á verðbætur honum til handa. Tilvitnað ákvæði ÍST 30 verður að mati stefnda aldrei túlkað víðtækar en svo að takmörkun heimildar til endurskoðunar samningsverðs vegna áhrifa lagabreytinga miðist við þann hluta áhrifanna sem ekki teljist endurspeglast í greiðslu verðbóta af verkinu. Stefndi telur bæði óljóst og ósannað að þau áhrif hafi verið umfram það sem stefnandi naut í lækkuðum tilkostnaði við öflun aðfanga til verksins.

Niðurstaða

Samkvæmt grein 1.5 í útboðslýsingu, sem lá til grundvallar samningi aðila, gilti staðallinn ÍST 30:2003. Í grein 31.12 staðalsins segir að báðir aðilar geti krafist breytinga á samningsfjárhæð ef fram koma á samningstímabilinu breytingar á lögum, almennum stjórnvaldsfyrirmælum eða aðrar breytingar er hafa áhrif á kostnað verktaka eða verkkaupa, til hækkunar eða lækkunar, sem reglur um verðbreytingar í samningi endurspegla ekki. Í samræmi við dóma Hæstaréttar 7. júní 2012 í málum nr. 392/2011 og 417/2011 verður að skýra umrætt ákvæðið á þá leið að það geti eingöngu tekið til þeirra aðstæðna að breyting á lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum hafi áhrif á „kostnað“, sem hlýtur eðli máls samkvæmt að vera kostnaður verktaka af því að leysa verk af hendi.

Í málinu liggur fyrir að eftir gildistöku laga nr. 124/2014 1. janúar 2015 lagði stefnandi 24% virðisaukaskatt á reikninga sína, til samræmis við lögin, án þess að einingarverðum væri breytt til samræmis við lækkun skattsins. Er í sjálfu sér ekki um það deilt að ef tekið hefði verið tillit til lækkunar virðisaukaskatts samkvæmt lögunum úr 25,5% í 24% hefði það leitt til þess að reikningar stefnda hefðu lækkað um 1,2%. Svarar það hlutfall til þeirrar fjárhæðar, sem ekki er tölulegur ágreiningur um, sem stefndi hefur haldið eftir og telur sér óskylt að greiða stefnanda.

Þótt leggja beri til grundvallar að virðisaukaskattur, sem stefnda bar að leggja á reikninga sína, innheimta og standa skil á til ríkissjóðs, hafi verið kostnaður í skilningi greinar 31.12 ÍST 30:2003, gat heimild stefnda til lækkunar samningsverðs af þessum sökum þó einungis komið til greina að því marki sem breytingin leiddi til raunverulegrar kostnaðarlækkunar stefnda. Gat stefndi þannig ekki gengið út frá því að hlutfallslækkun skattsins svaraði til kostnaðarlækkunar stefnda án nánari rökstuðnings, sbr. dóm Hæstaréttar 25. september 2014 í máli nr. 778/2013. Leiðir jafnframt af þeirri niðurstöðu að það var stefnda, sem bar fyrir sig umrætt ákvæði, að sýna fram á þá raunverulegu lækkun á kostnaði stefnanda sem leiddi af breytingunni.

Með hliðsjón af fyrirkomulagi við innheimtu og uppgjör virðisaukaskatts hefur það líkurnar gegn sér að raunveruleg kostnaðarlækkun verktaka geti numið allri þeirri lækkun skatts sem verktaki leggur á reikninga sína og innheimtir frá verkkaupa, sbr. áðurtilvitnaðan dóm Hæstaréttar 25. september 2014 í máli nr. 778/2013. Stefnandi hefur lagt fram í málinu virðisaukaskattsskýrslur sínar fyrir það tímabil sem hér um ræðir. Við munnlegan flutning málsins lögðu lögmenn aðila einnig fram, á grundvelli þessara gagna, útreikning á virðisaukaskattsskilum stefnanda vegna verksins á þeim tíma sem hér um ræðir. Kemur þar fram að alls hafi stefnandi innheimt 883.124.778 krónur í virðisaukaskatt frá stefnda. Hins vegar hafi hann dregið frá þessari fjárhæð 790.429.339 krónur sem innskatt. Samkvæmt þessu verður að leggja til grundvallar að endanlegur greiddur virðisaukaskattur og þar með kostnaður stefnanda að þessu leyti á þeim tíma sem hér um ræðir hafi numið 92.695.439 krónum. Að teknu tilliti til 1,2% lækkunar svarar sú fjárhæð til 1.112.345 króna sem dómurinn telur að leggja verði til grundvallar sem raunverulega kostnaðarlækkun stefnanda vegna téðrar lagabreytingar.

Að virtum niðurstöðum dómkvadds matsmanns verður ekki á það fallist að umrædd lækkun kostnaðar stefnanda hafi í reynd ekki leitt til ávinnings hans vegna verðbreytingareglna samningsins og ætlaðra neikvæðra breytinga á byggingarvísitölu. Benda niðurstöður dómkvadds matsmanns þvert á móti til þess að áðurnefnd lagabreyting hafi fremur leitt til hækkunar á vísitölu byggingarverðs, án þess þó að fyrir liggi að þeir liðir sem orsökuðu hækkunina hafi haft áhrif á aðföng stefnanda. Í samræmi við dóma Hæstaréttar 7. júní 2012 í málum nr. 392/2011 og 417/2011 getur stefndi hins vegar ekki byggt kröfu um lækkun samkvæmt grein 31.12 ÍST 30:2003 sjálfstætt á því að lagabreytingin hafi leitt til meiri hækkunar byggingarvísitölu en ella hefði orðið raunin. Liggur og ekkert fyrir í málinu um kostnaðarauka stefnanda vegna hækkunar verðlags eða endanlegan ávinning hans af þessum sökum. Eru áhrif lagabreytingarinnar á útreikning byggingarvísitölu og þar með verðtryggingarákvæði verksamningsins því í reynd þýðingarlaus fyrir úrlausn málsins.

Samkvæmt framangreindu verður að telja nægilega komið fram að raunveruleg lækkun kostnaðar stefnda við téð verk vegna lækkunar á virðisaukaskatti með lögum nr. 124/2014 á því tímabili sem hér um ræðir hafi numið 1.112.345 krónum. Enda þótt fallist verði á varakröfu stefnda um lækkun sem þessu nemur er hér um að ræða óverulega fjárhæð þegar tekið er tillit til heildarfjárhæðar samnings aðila svo og fjárhæðar stefnukröfu. Þegar horft er til stöðu aðila og þess að ávallt ríkir ákveðin óvissa um afkomu þeirra sem gera samninga til lengri tíma, þ. á m. vegna ýmissa breytinga á skattalegu umhverfi, telur dómurinn umrædda fjárhæð svo smávægilega að engin haldbær rök standi til þess að víkja samningi aðila um einingarverð til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Þá er ekki á því byggt að víkja beri verðtryggingarákvæðum samningsins til hliðar á þessum grundvelli.

Samkvæmt þessari niðurstöðu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda langstærstan hluta kröfu sinnar eða 51.421.493 krónur. Stefnandi hefur, að ósk, dómara lagt fram nýjan útreikning dráttarvaxta miðað við þær forsendur að reikninga fyrir einstök tímabil hafi borið að lækka samkvæmt því sem áður greinir. Eins og málið liggur fyrir verður hann lagður til grundvallar dráttarvöxtum svo sem nánar greinir í dómsorði. Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 1.500.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Af hálfu stefnanda flutti málið Sveinbjörn Claessen hdl.

Af hálfu gagnstefnanda flutti málið Þórarinn V. Þórarinsson hrl.    

Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Stefndi, Vaðlaheiðargöng hf., greiði stefnanda, Ósafli hf., 51.421.493 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 1.454.004 krónum frá 31. janúar 2015 til 28. febrúar þess árs, af 2.766.430 krónum frá þeim degi til 31. mars þess árs, af     4.972.163 krónum frá þeim degi til 30. apríl þess árs, af     7.444.169 krónum frá þeim degi til 31. maí 2015, af 9.066.108 krónum frá þeim degi til 30. júní þess árs, af 11.159.509 krónum frá þeim degi til 31. júlí þess árs, af 13.430.705 krónum frá þeim degi til 31. ágúst þess árs, af 15.771.563 krónum frá þeim degi til 30. september þess árs, af 18.092.617 krónum frá þeim degi til 31. október þess árs, af 20.512.213 krónum frá þeim degi til 30. nóvember þess árs, af 22.965.167 krónum frá þeim degi til 31. desember þess árs, af 23.938.239 frá þeim degi til 31. janúar 2016, af 26.042.843 krónum frá þeim degi til 29. febrúar þess árs, af 29.648.531 krónu frá þeim degi til 31. mars þess árs, af 32.397.627  krónum frá þeim degi til 30. apríl þess árs, af 34.455.152 krónum frá þeim degi til 31. maí þess árs, af 36.983.017 krónum frá þeim degi til 30. júní þess árs, af   39.428.576 krónum frá þeim degi til 31. júlí þess árs, af 42.187.924 krónum frá þeim degi til 31. ágúst þess árs, af 45.063.124 krónum frá þeim degi til 30. september þess árs, af 47.840.152 krónum frá þeim degi til 31. október þess árs, en af 51.421.493 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 1.500.000 krónur í málskostnað.